Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 15. desember 2003, kl. 12:27:52 (3492)

2003-12-15 12:27:52# 130. lþ. 51.5 fundur 428. mál: #A stjórn fiskveiða# (línuívilnun o.fl.) frv. 147/2003, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 130. lþ.

[12:27]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég frábið mér að hv. þm. gefi ræðum mínum einkunnir. Þannig eigum við ekki að starfa. En ef ég hef misboðið hv. þm. þá eigum við nokkuð sameiginlegt, að hafa misboðið einhverjum. Ég held að það sé alveg ljóst að hv. þm. sem starfandi formaður nefndarinnar misbauð augljóslega ýmsum gestum nefndarinnar.

Það er rétt hjá hv. þm., að ég hef tekið þátt í fundum þar sem margir hagsmunaaðilar hafa komið saman og mál verið rædd. En ég kannast ekki við að ef hagsmunaaðilar hafi gert athugasemdir við það þá hafi menn ekki orðið við slíkri beiðni.

Í nál. sjútvn. kemur fram, með leyfi forseta:

,,Starfandi formaður nefndarinnar hafnaði ósk minni hlutans um fundarhlé til að bera klæði á vopnin.``

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson neitaði minni hlutanum um fundarhlé til að hægt væri að bera klæði á vopnin. Hvað er það annað en að beita meirihluta- eða formannavaldi til að minni hlutinn komi ekki fram eðlilegum óskum um að geta átt eðlileg samskipti við þá aðila sem nefndin kallar til sín. Þetta eru ekki vinnubrögð sem vert er af hv. þm. að verja í þingsalnum. Það er augljóst að meiri hlutinn hafði engan áhuga á að ræða við hagsmunaaðila nema í skötulíki. Þetta sýnir og sannar að það var enginn vilji til að fara efnislega yfir málið eða yfir höfuð að taka nokkurt mark á því sem menn sögðu á fundi nefndarinnar.

Það er eðlilegt þegar hagsmunaaðilar upplifa slíkt að þeir gangi af fundum nefndarinnar. Það hlýtur auðvitað að vera umhugsunarefni fyrir hv. þm., sem var formaður nefndarinnar þegar fundað var um málið, að velta fyrir sér hvort eðlilegt sé að misbjóða svo gestum í nefndum að þeir gangi af fundi. Menn hljóta að velta því fyrir sér hvort það sé ekki hægt að gera bragarbót á slíkum heimsóknum þannig að slíkt gerist ekki. Ég vona að hv. þm. ætli ekki að stefna að því að fæla frá sér gesti með þessu háttalagi framvegis.