Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 479. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1148  —  479. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tómas H. Heiðar frá utanríkisráðuneyti, Kolbein Árnason frá sjávarútvegsráðuneyti og Friðrik J. Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna. Þá hélt nefndin fund með sjávarútvegsnefnd Alþingis þar sem farið var ítarlega yfir alla efnisþætti málsins.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta eftirtalda samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2003: 1. samning milli Íslands og Færeyja um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2003 sem gengið var frá með bréfaskiptum í Reykjavík og Þórshöfn 22. maí og 4. júní 2003, og 2. samkomulag milli Íslands og Noregs um stjórnun veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2003 sem gert var í Ósló 26. júní 2003.
    Samningarnir fela í sér að leyfilegur heildarafli úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2003 sé 710 þús. lestir í stað 850 þús. lesta árið áður auk 1.500 lesta sem koma í hlut annarra ríkja samkvæmt nánari ákvörðun Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) og er aflahlutdeild Íslands óbreytt frá árinu 2002 eða 15,54% af heildarafla. Hins vegar er gert ráð fyrir í þetta skipti að Ísland láti 1% af leyfilegum heildarafla, þ.e. 7.100 lestir, í skiptum fyrir aukinn aðgang að efnahagslögsögu Noregs norðan 62°N. Meiri hlutinn leggur áherslu á að það fyrirkomulag sem beitt var við samningagerðina 2003 sé bráðabirgðalausn sem beita hafi þurft í þetta eina skipti til að ná samningum, enda verði að telja óheppilegt að veiðar íslenskra skipa í norskri lögsögu geti orðið til að styrkja stöðu Norðmanna í samningum Íslands og Noregs um veiðar úr sameiginlegum fiskstofnum í framtíðinni.
    Samningarnir voru frágengnir í júní 2003 og telur meiri hlutinn að rétt hefði verið að leggja þá fyrir Alþingi í upphafi haustþings.
    Steingrímur J. Sigfússon ritar undir nefndarálitið með fyrirvara.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 16. mars 2004.



Sólveig Pétursdóttir,


form., frsm.


Jónína Bjartmarz.


Drífa Hjartardóttir.



    Steingrímur J. Sigfússon,

með fyrirvara.


Einar K. Guðfinnsson.


Magnús Stefánsson.