Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 34. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 34  —  34. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Halldór Blöndal, Jóhanna Sigurðardóttir,


Hjálmar Árnason, Steingrímur J. Sigfússon, Guðjón A. Kristjánsson.


1. gr.

    Við 2. gr. laganna bætast tveir nýir töluliðir, 8. og 9. tölul., svohljóðandi:
     8.      Veltuhraði: Velta skráðra bréfa í einum eða fleiri flokkum hlutabréfa á skráðum markaði. Veltuhraði er fundinn þannig að fyrir hvern mánuð á 12 mánaða tímabili er reiknað hlutfall veltu með bréf félags í viðkomandi mánuði og markaðsvirði þess í lok mánaðarins. Þetta hlutfall er síðan margfaldað með 12 til að finna veltuhraðann í viðkomandi mánuði á ársgrundvelli. Veltuhraði síðustu 12 mánaða er síðan fundinn með því að taka meðaltal þessa hlutfalls síðustu 12 mánuði.
     9.      Skyldir aðilar: Einstaklingur telst skyldur öðrum einstaklingi ef hann er maki hans eða barn. Lögaðili telst skyldur öðrum lögaðila ef annar á að minnsta kosti 30% hlutafjár í hinum eða ef eigendur að minnsta kosti 30% hlutafjár í báðum eru hinir sömu eða skyldir aðilar.

2. gr.

    Á eftir orðunum „enda hafi yfirtakan haft í för með sér að hann“ í 1. málsl. 1. mgr. 32. gr. laganna kemur: einn eða ásamt skyldum aðilum.

3. gr.

    Á eftir 33. gr. laganna bætist við ný grein, 33. gr. a, svohljóðandi:

Skilmálar tilboðs um yfirtöku á félagi með takmarkaðan veltuhraða.

    Nú myndast skylda til að gera yfirtökutilboð skv. 32. gr. í félagi þar sem veltuhraði skráðra hlutabréfa síðustu 12 mánuði áður en skyldan myndast er innan við 50% og skal verð sem setja skal fram í yfirtökutilboði skv. 32. gr. þá ákvarðað af þremur dómkvöddum matsmönnum.
    Við mat á verði hlutabréfa skv. 1. mgr. skulu matsmenn gæta hlutleysis og m.a. leita álits stjórnar hlutafélagsins sem boðin er yfirtaka í og taka mið af verði skráðra bréfa í félaginu á markaði og, ef mögulegt er, verði skráðra bréfa sambærilegra félaga þar sem veltuhraði er yfir 50% á sama 12 mánaða tímabili og miðað er við skv. 1. mgr.
    Tilboðsgjafi greiðir kostnað við vinnu dómkvaddra matsmanna.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2005.

Greinargerð.


    Mál þetta var flutt á 130. þingi, en varð ekki útrætt og er því flutt að nýju.
    Frumvarp þetta er lagt fram með það að markmiði að bæta löggjöfina sem mótar íslenskt viðskiptalíf með tilliti til hagsmuna smærri fjárfesta.
    Breytingar sem lagðar eru til á 2. gr. laga nr. 33/2003 tengjast beint öðrum breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu.
    Flutningsmenn leggja til að bætt verði inn skilgreiningu á því hverjir teljist skyldir aðilar og að skylt verði að taka tillit til tengsla aðila við ákvörðun á því hvort myndast hefur skylda til að gera yfirtökutilboð skv. VI. kafla laganna. Lagt er til að hugtakinu „skyldir aðilar“ verði bætt við 2. gr. laganna og það skilgreint þannig að maki og börn verði taldin skyld viðkomandi einstaklingi. Flutningsmönnum þykir ekki rétt að ganga lengra en það. Þá er lagt til að tveir lögaðilar verði taldir skyldir ef eigendur 30% hlutafjár hið minnsta eru hinir sömu eða ef annar á að minnsta kosti 30% hlutafjár í hinum. Á síðustu árum hefur komið í ljós að reglur laganna um yfirtökutilboð geta misst marks sökum þess að eignarhaldið dreifist á tvo eða fleiri einstaklinga og lögaðila sem tengdir eru innbyrðis. Hægt hefur verið að nýta sér orðalag núgildandi reglna og koma sér hjá yfirtökutilboðsskyldu með því að skipta eignarhaldi niður á fleiri aðila. Flutningsmenn telja að við þessu verði að bregðast. Með frumvarpinu er lagt til að eignarhald skyldra aðila verði lagt að jöfnu í skilningi yfirtökureglna. Með því móti er komið í veg fyrir að stærri hluthafar víki sér undan þeim skyldum sem yfirtökureglur laganna leggja þeim á herðar.
    Í félögum þar sem takmörkuð velta er á skráðum bréfum er sá möguleiki fyrir hendi að verð hlutabréfa í félaginu á ákveðnu tímabili fari undir verðmæti félagsins að teknu tilliti til ýmissa verðmæta sem liggja í félaginu, svo sem eigna, viðskiptavildar, þekkingar og réttinda. Þar sem velta bréfa á markaði hefur verið takmörkuð eru líkur á að raunverulegt verðmæti félags endurspeglist ekki í því verði sem greitt hefur verið fyrir skráð bréf á markaði. Flutningsmönnum þykir því rétt að tryggt verði betur en nú er gert að verð sem boðið er í yfirtökutilboði sé nær raunvirði þess félags sem um ræðir. Í frumvarpinu er lagt til að þegar veltuhraði bréfa í félagi er takmarkaður verði það falið dómkvöddum matsmönnum að ákvarða hvaða verð skuli boðið í yfirtökutilboði að teknu tilliti til m.a. ákveðinna grunnþátta sem mælt er fyrir um í lögunum, svo sem álits stjórnar félagsins sem boðin er yfirtaka í og skráðs verðs bréfa í sambærilegum félögum.
    Flutningsmenn leggja til að slíkt mat skuli fara fram þegar veltuhraði skráðra bréfa í félagi er innan við 50% síðustu 12 mánuðina áður en skylda til yfirtöku myndast. Með hugtakinu „veltuhraði“ og skilgreiningu þess í 1. gr. frumvarpsins er horft til þess sem á ensku er kallað „turnover velocity“.
    Rétt þykir að tilboðsgjafi greiði kostnað við vinnu matsmanna.
    Í frumvarpi þessu er miðað við að áfram verði öðrum en þeim sem er skylt að bjóða yfirtöku skv. 1. mgr. 32. gr. frjálst að bjóða yfirtöku á öðru verði en því sem ákvarðað er af matsnefnd eða dómkvöddum matsmönnum.