Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 675, 131. löggjafarþing 211. mál: fjármálafyrirtæki og vátryggingastarfsemi (EES-reglur).
Lög nr. 130 22. desember 2004.

Lög um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi.


Breytingar á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

1. gr.

     Við 2. gr. laganna bætast fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Fjármálaeftirlitið skal hafa samráð við lögbær yfirvöld í öðrum aðildarríkjum við mat á umsókn um starfsleyfi fjármálafyrirtækis sem er:
  1. dótturfélag fjármálafyrirtækis eða vátryggingafélags með starfsleyfi í öðru aðildarríki,
  2. dótturfélag móðurfélags fjármálafyrirtækis eða vátryggingafélags með starfsleyfi í öðru aðildarríki, eða
  3. undir yfirráðum aðila, einstaklings eða lögaðila, sem hefur ráðandi stöðu í fjármálafyrirtæki eða vátryggingafélagi í öðru aðildarríki.

     Samráð skv. 2. mgr. skal m.a. taka til upplýsinga um hæfi hluthafa og stjórnenda, sbr. 42. og 52. gr.
     Samráð skv. 2. mgr. gildir jafnframt um viðvarandi eftirlit með því að starfsskilyrði séu uppfyllt.
     Með aðildarríki í lögum þessum er átt við ríki sem er aðili að Evrópska efnahagssvæðinu eða aðili að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu.

2. gr.

     Lokamálsliður 17. gr. laganna orðast svo: Fjármálaeftirlitið getur sett reglur um eftirlitskerfi vegna áhættuþátta í starfsemi fjármálafyrirtækja og fjármálasamsteypa.

3. gr.

     4. mgr. 30. gr. laganna orðast svo:
     Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um stórar áhættur fjármálafyrirtækja og fjármálasamsteypa.

4. gr.

     Við 42. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Sé umsækjandi fjármálafyrirtæki eða vátryggingafélag með starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, móðurfyrirtæki slíks aðila, einstaklingur eða lögaðili sem hefur yfirráð yfir aðilanum og ef slíkt eignarhald leiðir til þess að félagið sem fjárfest er í telst vera dótturfélag eða undir yfirráðum viðkomandi aðila skal Fjármálaeftirlitið við mat á hæfi umsækjanda um virkan eignarhlut hafa samráð við lögbær yfirvöld þess ríkis í samræmi við ákvæði um mat á umsókn um starfsleyfi, sbr. 2. og 3. mgr. 2. gr. Samráð samkvæmt framangreindu gildir jafnframt um viðvarandi eftirlit með því að hæfisskilyrði séu uppfyllt.

5. gr.

     Í stað tilvísunarinnar „100. gr.“ í 4. mgr. 63. gr. laganna kemur: 103. gr. Enn fremur verða eftirfarandi breytingar á tilvísunum í lögunum: Í stað „101. gr.“ í 71. gr. kemur: 106. gr.; í stað „98. gr.“ í 1.–3. mgr. 99. gr. kemur: 101. gr.; og í stað „99. gr.“ í 1. og 2. mgr. 100. gr. kemur: 102. gr.

6. gr.

     Við 3. mgr. 84. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fjármálaeftirlitið setur reglur um útreikning á eiginfjárhlutfalli fyrir fjármálasamsteypur sem byggjast á tilskipun ráðsins 2002/87/EB, um viðbótareftirlit með lánastofnunum, vátryggingafélögum og fjárfestingarfélögum í fjármálasamsteypu.

7. gr.

     2.–4. mgr. 85. gr. laganna orðast svo:
     Þegar fjárfesting í hlutum í öðru fjármálafyrirtæki, fyrirtæki tengdu fjármálasviði, vátryggingafélagi eða eignarhaldsfélagi á vátryggingasviði er bráðabirgðaráðstöfun og ætluð sem fjárhagsaðstoð við endurskipulagningu eða til bjargar hlutaðeigandi fyrirtæki er Fjármálaeftirlitinu heimilt að veita undanþágu frá ákvæði 1. málsl. 1. mgr.
     Eignarhlutir og víkjandi kröfur í öðrum fjármálafyrirtækjum eða fyrirtækjum tengdum fjármálasviði, sbr. 1. mgr., eða í vátryggingafélögum eða eignarhaldsfélögum á vátryggingasviði, sbr. 4. mgr., sem reiknast með í samstæðureikningi hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis eða við beitingu ákvæða um eftirlit með fjármálasamsteypum, dragast ekki frá eigin fé hlutaðeigandi fyrirtækis.
     Eignarhlutir og víkjandi kröfur í vátryggingafélögum og eignarhaldsfélögum á vátryggingasviði, svo og liðir sem taldir eru upp í 4. og 5. tölul. 1. mgr. 29. gr. laga nr. 60/1994 og fjármálafyrirtækið á í krafti hlutdeildar í fyrrgreindum félögum, dragast frá eigin fé við útreikning á eiginfjárhlutfalli skv. 4. mgr. 84. gr. Frádrátturinn sem tengist eignarhlutum í vátryggingafélögum takmarkast þó við þá fjárhæð sem samsvarar hlutdeild í lágmarksgjaldþoli viðkomandi vátryggingafélags. Þegar um er að ræða fjármálasamsteypur gilda þó ákvæði 3. mgr. 84. gr. um útreikning á eiginfjárhlutfalli.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 97. gr. laganna:
  1. 4. og 5. mgr. orðast svo:
  2.      Með eignarhaldsfélagi á fjármálasviði er átt við fyrirtæki tengt fjármálasviði, sem ekki er blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi, þar sem dótturfyrirtækin eru annaðhvort eingöngu eða aðallega fjármálafyrirtæki eða fyrirtæki tengd fjármálasviði og að minnsta kosti eitt dótturfyrirtæki er fjármálafyrirtæki.
         Með blönduðu eignarhaldsfélagi er átt við móðurfyrirtæki, sem ekki er eignarhaldsfélag á fjármálasviði, fjármálafyrirtæki eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi, þar sem að minnsta kosti eitt dótturfyrirtæki er fjármálafyrirtæki.
  3. Við bætist ný málsgrein er verður 6. mgr., svohljóðandi:
  4.      Með blönduðu eignarhaldsfélagi í fjármálastarfsemi er átt við móðurfélag sem ekki er eftirlitsskylt en það ásamt dótturfélögum sínum, en a.m.k. eitt þeirra er eftirlitsskylt og er með höfuðstöðvar í aðildarríki, og öðrum aðilum myndar fjármálasamsteypu.


9. gr.

     Við XII. kafla laganna bætist nýr liður, A. Endurskipulagning fjárhags lánastofnana, með þremur nýjum greinum, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi, og breytist greinatala annarra greina samkvæmt því:
     
     a. (98. gr.)
Endurskipulagning fjárhags.
     Með endurskipulagningu fjárhags lánastofnana er átt við ráðstafanir sem ætlað er að viðhalda fjárhagslegri stöðu lánastofnunar eða koma henni í eðlilegt horf og gætu haft áhrif á áður fengin réttindi þriðja aðila, þ.m.t. ráðstafanir sem fela í sér hugsanlega greiðslustöðvun, frestun fullnusturáðstafana eða lækkun á kröfum. Sé lánastofnun með höfuðstöðvar á Íslandi er með endurskipulagningu fjárhags átt við heimild til greiðslustöðvunar og heimild til að leita nauðasamnings samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti o. fl., nr. 21/1991.
     Lög um gjaldþrotaskipti o. fl., nr. 21/1991, gilda um heimild lánastofnunar til að leita greiðslustöðvunar og nauðasamnings og framkvæmd slíkra ráðstafana enda sé ekki á annan veg mælt í lögum þessum.
     
     b. (99. gr.)
Fjárhagsleg endurskipulagning lánastofnunar með höfuðstöðvar á Íslandi og útibú í öðru EES-ríki.
     Nú veitir dómstóll hér á landi lánastofnun heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamninga og skal þá sú heimild ná sjálfkrafa til allra útibúa sem lánastofnunin starfrækir í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.
     Um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunarinnar skal fara að íslenskum lögum, með eftirtöldum frávikum:
  1. Vinnusamningur skal fara eftir lögum þess ríkis sem um vinnusamninginn og vinnusambandið gilda.
  2. Samningur um notkun eða kaup fasteignar skal fara eftir lögum þess ríkis þar sem fasteignin er staðsett.
  3. Réttur lánastofnunar vegna fasteignar, skips eða flugvélar skal fara eftir lögum þess ríkis þar sem opinber skráning hefur farið fram.
  4. Heimild til endurskipulagningar fjárhags hefur ekki áhrif á rétt veðhafa vegna eignarréttinda sem staðsett eru í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins.
  5. Hafi lánastofnun keypt eign með eignarréttarfyrirvara hefur heimild lánastofnunar til endurskipulagningar fjárhags ekki áhrif á réttindi seljanda sem byggist á fyrirvaranum, enda sé eignin í öðru aðildarríki.
  6. Hafi lánastofnun selt eign skal heimild til endurskipulagningar fjárhags ekki hafa áhrif á réttindi kaupanda, enda sé eignin í öðru aðildarríki og afhending hafi farið fram þegar heimild er veitt.
  7. Um lögmæti ráðstöfunar lánastofnunar á fasteign, skipi eða flugvél sem háð er opinberri skráningu, svo og framseljanlegum verðbréfum eða öðrum verðbréfum sem skráð eru í verðbréfamiðstöð, fer eftir lögum þess ríkis þar sem eign er eða þar sem hin opinbera skráning hefur farið fram.
  8. Um réttaráhrif úrskurðar um endurskipulagningu fjárhags á málshöfðun vegna eignar eða annarra réttinda sem lánastofnun hefur látið af hendi fer eftir lögum þess aðildarríkis þar sem málið var höfðað.
  9. Um fullnustu eignarréttinda, þ.m.t. veðréttinda yfir fjármálagerningum, sem eru rafrænt skráð fer eftir lögum þess ríkis þar sem skráningin fer fram.
  10. Samningur um skuldajöfnuð fer eftir lögum þess ríkis sem um samninginn gilda.
  11. Endurkaupasamningur fer eftir lögum þess ríkis sem um samninginn gilda, sbr. þó ákvæði i-liðar.
  12. Viðskipti á skipulegum verðbréfamarkaði skulu fara eftir lögum þess ríkis sem gilda um samninginn um þau viðskipti, sbr. þó ákvæði i-liðar.
  13. Um greiðslu- og uppgjörsfyrirmæli í greiðslu- og uppgjörskerfum fer eftir lögum þess ríkis sem gilda um viðkomandi kerfi.
  14. Þrátt fyrir ákvæði d- og e-liðar er heimilt að beita ákvæðum III. kafla laga um samningsgerð, umboð og ógilda gerninga, nr. 7/1936, um ógilda löggerninga, nema lög gistiríkis heimili ekki slíkt.

     Dómstóll skal sjá til þess að Fjármálaeftirlitinu verði tilkynnt þegar í stað um framkomna beiðni lánastofnunar um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings. Fjármálaeftirlitið skal koma upplýsingum um beiðnina og ákvörðun um hana til lögbærra yfirvalda og kröfuhafa lánastofnunarinnar í viðkomandi ríkjum í samræmi við reglur sem ráðherra setur.
     Lögboðnar tilkynningar til þekktra erlendra kröfuhafa lánastofnunar í tengslum við greiðslustöðvun eða nauðasamninga skulu vera í samræmi við reglur sem ráðherra setur.
     
     c. (100. gr.)
Fjárhagsleg endurskipulagning lánastofnunar með höfuðstöðvar erlendis en útibú á Íslandi.
     Útibúi, sem starfrækt er hérlendis af lánastofnun með höfuðstöðvar í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins, verður ekki veitt sjálfstæð heimild til endurskipulagningar fjárhags hér á landi. Nú tekur lögbært yfirvald í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins ákvörðun um endurskipulagningu fjárhags lánastofnunar sem hefur staðfestu og starfsleyfi í því ríki, og tekur ákvörðunin þá sjálfkrafa til útibúa sem lánastofnunin starfrækir hér á landi.
     Nú er talin þörf á endurskipulagningu fjárhags íslensks útibús lánastofnunar með staðfestu í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu og skal þá tilkynna slíkt til Fjármálaeftirlitsins. Fjármálaeftirlitið skal koma tilkynningu á framfæri við eftirlitsstjórnvöld heimaríkis.
     Um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunarinnar skal fara að lögum heimaríkisins með þeim takmörkunum er greinir í 2. mgr. 99. gr.
     Nú er sett fram beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða um heimild til að leita nauðasamninga á grundvelli 2. mgr. 6. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. vegna útibús sem lánastofnun, með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, starfrækir hér á landi. Skal héraðsdómari þá gera Fjármálaeftirlitinu viðvart um beiðnina. Ef viðkomandi lánastofnun starfrækir útibú í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu skal Fjármálaeftirlitið tilkynna eftirlitsstjórnvöldum í þeim ríkjum um beiðnina. Dómstólar skulu leitast við að samræma aðgerðir með yfirvöldum annarra gistiríkja.

10. gr.

     Á eftir orðunum „Ákvörðun skv. 3. tölul. 2. mgr. er því aðeins gild að“ í 4. mgr. 98. gr. laganna kemur: Fjármálaeftirlitið samþykki hana og.

11. gr.

     Á eftir 100. gr. laganna koma tvær nýjar greinar, sem verða 104. og 105. gr., ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi, og breytist greinatala annarra greina samkvæmt því:
     
     a. (104. gr.)
Slit á lánastofnun með höfuðstöðvar á Íslandi og útibú í öðru EES-ríki.
     Nú tekur dómstóll á Íslandi ákvörðun um slit lánastofnunar, sem hefur staðfestu og starfsleyfi hér á landi, og skal þá sú heimild ná sjálfkrafa til allra útibúa sem lánastofnunin starfrækir í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunarinnar skal fara að íslenskum lögum með þeim takmörkunum er greinir í 2. mgr. 99. gr.
     Dómstóll skal sjá til þess að Fjármálaeftirlitinu verði tilkynnt þegar í stað um ákvörðun um slit.
     Ef lánastofnun starfrækir útibú í öðrum löndum Evrópska efnahagssvæðisins skal Fjármálaeftirlitið koma upplýsingum um beiðnina og ákvörðun um hana til lögbærra yfirvalda í viðkomandi ríkjum í samræmi við reglur sem ráðherra setur.
     Nú er þekktur kröfuhafi lánastofnunar búsettur í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, og skal þá skiptastjóri án tafar tilkynna honum um upphaf skiptanna. Í tilkynningunni skal greina frá kröfulýsingarfresti, hvert beina skuli kröfulýsingu og afleiðingum vanlýsingar í samræmi við reglur sem ráðherra setur.
     
     b. (105. gr.)
Slit á lánastofnun með höfuðstöðvar erlendis en útibú á Íslandi.
     Útibúi, sem starfrækt er hérlendis af lánastofnun með höfuðstöðvar í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins, verður ekki veitt sjálfstæð heimild til slita hér á landi. Nú tekur lögbært yfirvald í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins ákvörðun um slit lánastofnunar sem hefur staðfestu og starfsleyfi í því ríki, og tekur ákvörðunin þá sjálfkrafa til útibúa sem lánastofnunin starfrækir hér á landi. Með slitum á lánastofnunum samkvæmt þessari grein er átt við sameiginlega málsmeðferð sem stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins hefja og hafa eftirlit með og hefur að markmiði að selja eignir undir eftirliti þessara yfirvalda.
     Um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunarinnar skal fara að lögum heimaríkisins með þeim takmörkunum er greinir í 2. mgr. 99. gr.
     Nú er sett fram krafa um gjaldþrotaskipti á grundvelli 2. mgr. 6. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. vegna útibús sem lánastofnun með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins starfrækir hér á landi og skal héraðsdómari þá gera Fjármálaeftirlitinu viðvart um kröfuna. Ef viðkomandi lánastofnun starfrækir útibú í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu skal Fjármálaeftirlitið tilkynna eftirlitsstjórnvöldum í þeim ríkjum um kröfuna.

12. gr.

     Fyrirsögn XII. kafla laganna verður: Endurskipulagning fjárhags, slit og samruni fjármálafyrirtækja.

13. gr.

     Við 102. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar er verða 5. og 6. mgr., svohljóðandi:
     Fjármálaeftirlitið fylgist með viðskiptum fjármálafyrirtækis við dóttur- og hlutdeildarfélög þess, félög sem hafa yfirráð yfir eða eiga hlutdeild í fjármálafyrirtækinu og við önnur dóttur- og hlutdeildarfélög þeirra félaga. Jafnframt skal Fjármálaeftirlitið fylgjast með viðskiptum fjármálafyrirtækis við einstaklinga sem eiga 20% hlut eða stærri í framangreindum félögum. Fjármálafyrirtæki skulu skila Fjármálaeftirlitinu skýrslu um slík viðskipti eftir nánari ákvörðun þess. Séu viðskiptin við fyrirtæki eða einstaklinga í öðrum ríkjum fer um samstarf eftirlitsstjórnvalda eftir alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að og samstarfssamningum sem Fjármálaeftirlitið gerir á grundvelli þeirra.
     Fjármálaeftirlitið getur að ósk eftirlitsstjórnvalda í öðru ríki staðreynt upplýsingar frá aðilum hér á landi sem falla undir viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum. Viðkomandi eftirlitsstjórnvöldum er heimilt að taka þátt í vinnu við að staðreyna slíkar upplýsingar.

14. gr.

     Við 103. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Fjármálaeftirlitið skal tilkynna viðeigandi erlendum yfirvöldum um greiðslustöðvun, nauðasamninga og gjaldþrot innlendra lánastofnana sem reka útibú í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins.

15. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 104. gr. laganna:
  1. 3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Ákvæði 52. gr. um hæfisskilyrði stjórnar og framkvæmdastjóra og 84. og 85. gr. um eigið fé gilda einnig um eignarhaldsfélag á fjármálasviði.
  2. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ákvæði 30. gr. og 84.–86. gr. skulu einnig gilda um fjármálasamsteypur skv. 3. mgr.
  3. Við greinina bætist ný málsgrein er verður 3. mgr., svohljóðandi:
  4.      Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með að fjármálasamsteypur fari að ákvæðum laga þessara. Með fjármálasamsteypu er átt við samstæðu félaga, eða félög sem hafa með sér náin tengsl, sbr. 18. gr., þar sem eftirlitsskyldur aðili fer fyrir samstæðunni og a.m.k. einn aðili innan samstæðunnar starfar á fjármálasviði og annar aðili starfar á vátryggingasviði og þar sem umsvif á samstæðugrundvelli og/eða samanlögð umsvif á fjármálasviði annars vegar og hins vegar samsvarandi umsvif á vátryggingasviði eru hvor um sig talin mikilvæg samkvæmt reglum sem Fjármálaeftirlitið setur. Fari enginn eftirlitsskyldur aðili fyrir samstæðunni, en starfsemi samstæðunnar fer aðallega fram á fjármála- eða vátryggingasviði samkvæmt skilgreiningu í reglum sem Fjármálaeftirlitið setur, telst samstæðan vera fjármálasamsteypa. Sérhverja undirsamstæðu sem uppfyllir skilyrði 2. málsl. skal líta á sem fjármálasamsteypu. Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um skilgreiningu á fjármálasamsteypum og eftirlit með þeim.
  5. Í stað tilvísunarinnar „8. og 9. mgr. 97. gr.“ í 3.–5. mgr. kemur: 9. og 10. mgr. 97. gr.


Breytingar á lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi.

16. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
  1. Á eftir skilgreiningu á dótturfélagi koma þrjár nýjar orðskýringar, svohljóðandi:

    1.     –    eignarhaldsfélag á vátryggingasviði, fyrirtæki, sem ekki er blandað eignarhaldsfélag á vátryggingasviði, þar sem meginstarfsemin er að eiga hluti í dótturfyrirtækjum sem eru annaðhvort eingöngu eða aðallega vátryggingafélög,

          –    blandað eignarhaldsfélag á vátryggingasviði, fyrirtæki, sem ekki er vátryggingafélag, eignarhaldsfélag á vátryggingasviði eða blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi, þar sem að minnsta kosti eitt dótturfélag er vátryggingafélag,

          –    blandað eignarhaldsfélag í fjármálastarfsemi, móðurfélag sem ekki er eftirlitsskylt en það ásamt dótturfélögum sínum, en a.m.k. eitt þeirra er eftirlitsskylt og er með höfuðstöðvar í aðildarríki, og öðrum aðilum myndar fjármálasamsteypu.
  2. Á eftir skilgreiningu á félagasamstæðu kemur ný orðskýring, svohljóðandi: fjármálasamsteypa, samstæða félaga, eða félög sem hafa með sér náin tengsl, þar sem eftirlitsskyldur aðili fer fyrir samstæðunni og a.m.k. einn aðili innan samstæðunnar starfar á vátryggingasviði og annar aðili starfar á fjármálasviði og þar sem umsvif á samstæðugrundvelli og/eða samanlögð umsvif á vátryggingasviði annars vegar og hins vegar samsvarandi umsvif á fjármálasviði eru hvor um sig talin mikilvæg samkvæmt reglum sem Fjármálaeftirlitið setur; fari enginn eftirlitsskyldur aðili fyrir samstæðunni, en starfsemi samstæðunnar fer aðallega fram á fjármála- eða vátryggingasviði samkvæmt skilgreiningu í reglum sem Fjármálaeftirlitið setur, telst samstæðan vera fjármálasamsteypa; sérhverja undirsamstæðu sem uppfyllir skilyrði upphafsliðar orðskýringarinnar skal líta á sem fjármálasamsteypu.
  3. Við skilgreiningu á nánum tengslum bætist nýr stafliður, svohljóðandi: einstaklinga eða félög sem eru varanlega tengd sömu persónunni með yfirráðatengslum.


17. gr.

     Við 25. gr. laganna bætast þrjár nýjar málsgreinar er verða 4.–6. mgr., svohljóðandi:
     Fjármálaeftirlitið skal hafa samráð við eftirlitsstjórnvöld í öðrum aðildarríkjum við mat á umsókn um starfsleyfi félags sem er:
  1. dótturfélag vátryggingafélags eða fjármálafyrirtækis með starfsleyfi í öðru aðildarríki,
  2. dótturfélag móðurfélags vátryggingafélags eða fjármálafyrirtækis með starfsleyfi í öðru aðildarríki, eða
  3. undir yfirráðum aðila, einstaklings eða lögaðila, sem hefur ráðandi stöðu í vátryggingafélagi eða fjármálafyrirtæki í öðru aðildarríki.

     Samráð skv. 4. mgr. skal m.a. taka til upplýsinga um hæfi hluthafa og stjórnenda, sbr. 3. mgr.
     Samráð skv. 4. mgr. gildir jafnframt um viðvarandi eftirlit með því að starfsskilyrði séu uppfyllt.

18. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. laganna:
  1. Við 1. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi:

    1.     13. a.    Hlutdeild í hlutdeildarfélagi sem vátryggingafélag á í vátryggingafélögum, eignarhaldsfélögum á vátryggingasviði, fjármálafyrirtækjum eða fyrirtækjum á fjármálasviði.
    2. Liðir sem taldir eru upp í 4. og 5. tölul. þessarar málsgreinar og vátryggingafélag á í krafti hlutdeildar í félögum sem getið er í a-lið hér á undan.
  2. Í stað tilvísunarinnar „11.–12. tölul.“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: 11.–13. tölul.
  3. Í stað tilvísunarinnar „1.–12. tölul.“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: 1.–13. tölul.
  4. Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þegar fjárfesting í hlutum í öðru fjármálafyrirtæki, fyrirtæki tengdu fjármálasviði, vátryggingafélagi eða eignarhaldsfélagi á vátryggingasviði er bráðabirgðaráðstöfun og ætluð sem fjárhagsaðstoð við endurskipulagningu eða til bjargar hlutaðeigandi fyrirtæki er Fjármálaeftirlitinu heimilt að veita undanþágu frá ákvæði þessarar málsgreinar um frádrátt liða samkvæmt tölulið 13. a og b.
  5. 2. málsl. 3. mgr. orðast svo: Tekið skal tillit til allra dóttur- og hlutdeildarfélaga vátryggingafélagsins, eignarhaldsfélaga á vátryggingasviði, blandaðra eignarhaldsfélaga á vátryggingasviði, félaga sem eiga hlutdeild í vátryggingafélaginu og annarra dóttur- og hlutdeildarfélaga þeirra félaga.
  6. Í stað 4. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  7.      Sé vátryggingafélag dótturfélag annars vátryggingafélags eða eignarhaldsfélags á vátryggingasviði skal reikna aðlagað gjaldþol móðurfélagsins samkvæmt ákvæðum þessarar greinar auk útreiknings á gjaldþoli vátryggingafélagsins. Við útreikninginn skal taka tillit til allra hlutdeildarfélaga móðurfélagsins.
         Ákvæði þessarar greinar gilda einnig um fjármálasamsteypur. Um útreikning á gjaldþoli fyrir fjármálasamsteypur skulu gilda reglur sem Fjármálaeftirlitið setur.


19. gr.

     Við 54. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með að fjármálasamsteypur fari að ákvæðum laga þessara. Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um tilgreiningu á fjármálasamsteypum og eftirlit með þeim. Fjármálaeftirlitið getur og sett almennar reglur um tilhögun innra eftirlits í fjármálasamsteypum. Fjármálaeftirlitið getur að ósk eftirlitsstjórnvalda í öðru ríki staðreynt upplýsingar frá aðilum hér á landi sem falla undir eftirlit með fjármálasamsteypum. Viðkomandi eftirlitsstjórnvöldum er heimilt að taka þátt í vinnu við að staðreyna slíkar upplýsingar.

20. gr.

     Lög þessi eru sett til þess að taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipana ráðsins nr. 2002/87/EB, um viðbótareftirlit með lánastofnunum, vátryggingafélögum og fjárfestingarfélögum í fjármálasamsteypu, og nr. 2001/24/EB, um endurskipulagningu og slit lánastofnana.

21. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2005.
     Ráðstafanir sem ákveðnar hafa verið eða málsmeðferð hafin vegna beiðni um slíka ráðstöfun fyrir gildistöku laganna skulu fara eftir lögunum eins og þau voru þegar ráðstöfun var samþykkt eða málsmeðferð hófst.

Samþykkt á Alþingi 10. desember 2004.