Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 617. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 921  —  617. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar og samninga EFTA-ríkjanna um framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins.


(Lögð fyrir Alþingi á 131. löggjafarþingi 2004–2005.)


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd eftirtaldar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar og samninga EFTA-ríkjanna er varða framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins:
     1.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 130/2004 frá 24. september 2004, um breytingu á XIV. viðauka (Samkeppni), bókun 21 (um framkvæmd samkeppnisreglna sem gilda um fyrirtæki) og bókun 23 (um samvinnu milli eftirlitsstofnana) við EES- samninginn frá 2. maí 1992.
     2.      Samning EFTA-ríkjanna frá 24. september 2004 um breytingu á bókun 4 við samninginn milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.
     3.      Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 178/2004 frá 3. desember 2004, um breytingu á bókun 21 (um framkvæmd samkeppnisreglna sem gilda um fyrirtæki) og bókun 23 (um samvinnu milli eftirlitsstofnana) við EES-samninginn frá 2. maí 1992.
     4.      Samning EFTA-ríkjanna frá 3. desember 2004 um breytingu á bókun 4 við samninginn milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað eftir heimild Alþingis til að staðfesta framangreindar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins og samninga EFTA-ríkjanna um viðeigandi breytingar á samningi þeirra um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls af því tilefni.
    Innleiðing þessara ákvarðana og samninga kallar á lagabreytingar hér á landi. Ákvarðanirnar voru því teknar með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu meðan leitað er samþykkis Alþingis til að staðfesta þær. Staðfesting samninganna bíður einnig samþykkis Alþingis af sömu ástæðu. Í athugasemdunum hér á eftir er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins, og efni gerðanna.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    EES-samningurinn er reglulega uppfærður með breytingum á viðaukum og bókunum við samninginn. Ákvarðanir um þessar breytingar eru teknar í sameiginlegu EES-nefndinni og með þær hefur ávallt verið farið sem hverja aðra þjóðréttarsamninga. Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda þær aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Að því er Ísland varðar hefur slíkur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að leita ber eftir samþykki Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt með viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun. Í seinni tíð hefur það verið viðtekinn háttur við staðfestingu þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem krefst lagabreytinga að innleiða, enda kemur hvortveggja til, að frestur til að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara er tiltölulega skammur, auk þess sem ekki er alltaf tímabært að innleiða ákvörðun um leið og hún er tekin.

3. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 130/2004.
    Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 130/2004 er tilvísun til reglugerðar ráðsins (EB) nr. 1/2003 felld inn í XIV. viðauka (Samkeppni), bókun 21 (um framkvæmd samkeppnisreglna sem gilda um fyrirtæki) og bókun 23 (um samvinnu milli eftirlitsstofnana) við EES-samninginn.

Meginefni reglugerðar ráðsins (EB) nr. 1/2003.
    Í reglugerð ráðsins (EB) nr. 1/2003 frá 16. desember 2002, um framkvæmd samkeppnisreglna sem mælt er fyrir um í 81. og 82. gr. sáttmálans, er að finna málsmeðferðarreglur um beitingu þeirra ákvæða stofnsáttmála Evrópubandalagsins sem leggja bann við ólögmætu samráði fyrirtækja og misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Ákvæði 81. og 82. gr. stofnsáttmála EB eru sambærileg ákvæðum 53. og 54. gr. EES-samningsins.
    Meginmarkmið reglugerðar nr. 1/2003 er að draga úr miðstýringu og auka skilvirkni við framkvæmd framangreindra ákvæða stofnsáttmála EB með því að auka hlutdeild samkeppnisyfirvalda og dómstóla aðildarríkjanna í að beita þeim, þ.m.t. undanþáguákvæði 3. mgr. 81. gr. Þannig mælir reglugerðin fyrir um að auk framkvæmdastjórnarinnar skuli samkeppnisyfirvöld og dómstólar í aðildarríkjum Evrópusambandsins einnig beita ákvæðum 81. og 82. gr. stofnsáttmála EB þegar þau beita innlendri samkeppnislöggjöf. Jafnframt er innlendum samkeppnisyfirvöldum falið að skera úr um hvort undanþáguákvæði 3. mgr. 81. gr. eigi við. Samkvæmt því ákvæði skulu samningar og ákvarðanir samtaka fyrirtækja eða samstilltar aðgerðir, sem stuðla að bættri framleiðslu og vörudreifingu eða að því að efla tæknilegar og efnahagslegar framfarir, undanþegnar banni við ólögmætu samráði að tilteknum skilyrðum uppfylltum.
    Í því felst að bæði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og samkeppnisyfirvöldum í aðildarríkjum þess er heimilt að beita samkeppnisreglum sambandsins. Enn fremur geta mál sem varða framkvæmd þessara reglna jafnt komið til kasta dómstóla Evrópusambandsins sem dómstóla í einstökum aðildarríkjum. Af þeim sökum er í reglugerð nr. 1/2003 að finna ákvæði sem miða að því að tryggja samræmi í beitingu samkeppnisreglna Evrópusambandsins í einstökum málum. Segja má að þessi ákvæði séu af tvennum toga. Annars vegar er gert ráð fyrir að samkeppnisyfirvöld í einstökum aðildarríkjum eða framkvæmdastjórnin geti frestað eða hætt umfjöllun um einstök mál á meðan sama mál er til umfjöllunar hjá samkeppnisyfirvöldum í öðru aðildarríki. Hins vegar mælir reglugerðin fyrir um að samkeppnisyfirvöldum og dómstólum í aðildarríkjunum sé ekki heimilt að kveða upp úrskurð sem stangast á við ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar í sama máli. Jafnframt skulu dómstólar forðast að taka ákvarðanir sem gætu stangast á við fyrirhugaða ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar í máli sem hún hefur þegar til tekið til meðferðar. Til að tryggja samræmi í framkvæmd þessara ákvæða mælir reglugerðin jafnframt fyrir um upplýsingaskipti milli framkvæmdastjórnarinnar annars vegar og samkeppnisyfirvalda og dómstóla aðildarríkjanna hins vegar.

Breytingar á XIV. viðauka (Samkeppni).
    Í XIV. viðauka við EES-samninginn er að finna efnisreglur EES-löggjafar á sviði samkeppnismála, þar á meðal um samkeppniseftirlit. Reglur um meðferð slíkra mála eru hins vegar flestar í samningi EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls (ESE). Þar sem reglugerð nr. 1/2003 hefur einkum að geyma reglur um meðferð samkeppnismála eru ákvæði hennar aðallega tekin upp í ESE-samninginn, en í XIV. viðauka við EES-samninginn sjálfan eru eingöngu tekin efnisákvæði reglugerðarinnar. Þau varða fyrst og fremst brottfall eldri gerða og breytingar á ákvæðum annarra gerða sem vísað er til í XIV. viðauka. Reglugerð nr. 1/2003 er því ekki í heild sinni felld undir XIV. viðauka við EES-samninginn.

Breytingar á bókun 21 (um framkvæmd samkeppnisreglna sem gilda um fyrirtæki).
    Í bókun 21 er að finna ákvæði um framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins sem gilda um fyrirtæki. Samkvæmt bókun 21 skulu EFTA-ríkin gera með sér samning um að fela Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sambærilegt valdsvið og svipuð störf og framkvæmdastjórn EB þannig að ESA sé kleift að framfylgja samkeppnisákvæðum EES-samningsins. Þá er mælt fyrir um í 2. gr. bókunar 21 að ef Evrópusambandið samþykkir nýjar gerðir sem varða framkvæmd samkeppnisákvæða EES-samningsins skuli gera samsvarandi breytingar á stofnsamningi Eftirlitsstofnunar EFTA til þess að tryggja að stofnuninni verði samtímis falið sambærilegt valdsvið og svipuð störf og framkvæmdastjórn EB hefur. Þá eru í 3. gr. bókunar 21 taldar upp þær gerðir sem ásamt gerðum sem vísað er til í XIV. viðauka lýsa valdsviði og störfum framkvæmdastjórnar EB við beitingu samkeppnisreglna stofnsáttmála EB.
    Samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 130/2004 skal bæta tilvísun til reglugerðar nr. 1/2003 við bókun 21. Með þessari breytingu verður reglugerð nr. 1/2003 þannig meðal þeirra gerða sem lýsa valdsviði og störfum framkvæmdastjórnarinnar við beitingu samkeppnisreglna stofnsáttmála EB. Skulu EFTA-ríkin því gera samsvarandi breytingar á samningi sínum um stofnun dómstóls og eftirlitsstofnunar til að tryggt verði að ESA hafi sama valdsvið og störf við beitingu samkeppnisreglna EES-samningsins og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins er falið með reglugerð nr. 1/2003.
    Þess skal enn fremur getið að með ákvörðun nr. 130/2004 er bætt við endurskoðunarákvæði í bókun 21. Samkvæmt ákvæðinu geta einstakir samningsaðilar óskað eftir því við árslok 2005 að gerðar verði breytingar á núgildandi fyrirkomulagi við framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins með það fyrir augum að endurspegla að fullu það fyrirkomulag á framkvæmd samkeppnisákvæða Evrópusambandsins sem komið er fót með reglugerð nr. 1/2003.

Breytingar á bókun 23 (um samvinnu milli eftirlitsstofnana).
    Bókun 23 við EES-samninginn mælir fyrir um þær meginreglur sem gilda um samstarf eftirlitsstofnana (framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Eftirlitsstofnunar EFTA). Ákvörðun nr. 130/2004 felur í sér heildarendurskoðun á ákvæðum bókunar 23. Helsta breytingin sem mælt er fyrir um í endurskoðaðri bókun 23 er að framvegis skulu eftirlitsstofnanirnar ekki aðeins upplýsa hvor aðra um þau mál sem þær hafa til meðferðar heldur jafnframt um þau mál sem samkeppnisyfirvöld í aðildarríkjunum hafa til meðferðar og varða beitingu samkeppnisreglna EES-samningsins.

4. Samningur EFTA-ríkjanna frá 24. september 2004 um breytingu á bókun 4 við samninginn milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.
    Eins og áður er getið leiðir ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 130/2004 til þess að EFTA-ríkin skuldbinda sig til þess að veita Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sambærilegt valdsvið og fela henni sams konar störf og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur gagnvart aðildarríkjum sínum samkvæmt reglugerð nr. 1/2003. Þetta hafa EFTA-ríkin gert með samningi sín á milli um breytingu á bókun 4 við samninginn milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls (ESE-samningurinn) en samningur þessi var undirritaður sama dag og sameiginlega EES-nefndin tók framangreinda ákvörðun.
    Bókun 4 við ESE-samninginn mælir fyrir um störf og valdsvið Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði samkeppnismála. Með framangreindum samningi EFTA-ríkjanna er II. kafli I. hluta bókunar 4 við ESE-samninginn endurskoðaður í heild sinni en sá kafli mælir fyrir um málsmeðferð við framkvæmd 53. og 54. gr. EES-samningsins. Ákvæði kaflans eru færð til samræmis við ákvæði reglugerðar nr. 1/2003.
    Helstu nýmælin við endurskoðun bókunar 4 við ESE-samninginn eru þessi:

    Tengsl samkeppnisákvæða EES-samningsins og samkeppnislaga aðildarríkjanna (3. gr.).
    Í 3. gr. hins endurskoðaða kafla í bókun 4 við ESE-samninginn er mælt fyrir um tengsl 53. og 54. gr. EES-samningsins við samkeppnislög aðildarríkjanna. Þar er gert ráð fyrir að samkeppnisyfirvöld og dómstólar í EFTA-ríkjunum skuli beita 53. og 54. gr. EES-samningsins samhliða eigin samkeppnislöggjöf.
    Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. er gert ráð fyrir að samkeppnisyfirvöld og dómstólar í EFTA- ríkjunum beiti einnig 53. og 54. gr. EES-samningsins í málum sem varða beitingu innlendra samkeppnislaga, ef þessi ákvæði EES-samningsins eiga á annað borð við um úrlausn þeirra mála sem þau hafa til meðferðar. Skv. 2. mgr. 3. gr. má beiting þessara ákvæða af hálfu samkeppnisyfirvalda aðildarríkjanna þó ekki leiða til þess að bannaðir verði samningar, ákvarðanir samtaka fyrirtækja eða samstilltar aðgerðir sem falla undir undanþáguákvæði 3. mgr. 53. gr. EES-samningsins. Þetta ákvæði kemur þó ekki í veg fyrir að EFTA-ríkin geti sett strangari ákvæði í samkeppnislöggjöf sína en leiðir af 53. gr. EES-samningsins. Þá segir í 3. mgr. 3. gr. að framangreint gildi ekki um eftirlit með samruna eða beitingu samkeppnislöggjafar sem byggist á öðrum markmiðum en búa að baki 53. og 54. gr. EES-samningsins.

    Valdsvið samkeppnisyfirvalda og dómstóla í aðildarríkjunum (5.–6. gr.).
    Í 5. og 6. gr. hins endurskoðaða kafla í bókun 4 við ESE-samninginn er mælt fyrir um að samkeppnisyfirvöld og dómstólar í EFTA-ríkjunum skuli hafa vald til að beita 53. og 54. gr. EES-samningsins. Sambærilegt ákvæði er ekki að finna í núgildandi ákvæðum bókunar 4.

    Samstarf ESA við samkeppnisyfirvöld og dómstóla í EFTA-ríkjunum (11.–15. gr.).
    Með hliðsjón af auknum heimildum samkeppnisyfirvalda og dómstóla í EFTA-ríkjunum til að beita 53. og 54. gr. EES-samningsins gerir endurskoðun bókunar 4 við ESE-samninginn ráð fyrir auknu samstarfi þeirra við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), sbr. 11.–15. gr. Þar er m.a. mælt fyrir um upplýsingaskipti og samráð milli ESA og samkeppnisyfirvalda í málum sem varða beitingu 53. og 54. gr. EES-samningsins. Þar er einnig mælt fyrir um að dómstólum aðildarríkjanna skuli vera heimilt að óska eftir upplýsingum sem ESA hefur undir höndum í málum sem varða beitingu 53. og 54. gr., jafnframt því sem EFTA-ríkin skulu senda ESA þær dómsniðurstöður sem varða beitingu 53. og 54. gr. EES-samningsins.

    Samræmd beiting samkeppnisákvæða EES-samningsins (16. gr.).
    Þar sem endurskoðun bókunar 4 við ESE-samninginn gerir ráð fyrir því að beiting 53. og 54. gr. EES-samningsins geti bæði verið á hendi samkeppnisyfirvalda og dómstóla í EFTA- ríkjunum annars vegar og ESA hins vegar er í 16. gr. ákvæði um samræmda beitingu samkeppnisákvæða EES-samningsins sambærilegt því sem er í 16. gr. reglugerðar nr. 1/2003 um samhliða beitingu sams konar reglna af hálfu aðildarríkja Evrópusambandsins annars vegar og framkvæmdastjórnarinnar hins vegar. Samkvæmt þessu ákvæði má úrlausn dómstóls í EES/EFTA-ríki um samninga, ákvarðanir eða aðgerðir skv. 53. og 54. gr. EES-samningsins ekki brjóta í bága við ákvörðun sem ESA hefur tekið um sömu málsatvik. Enn fremur skulu dómstólar forðast að leysa úr máli á annan veg en þann sem ESA kann að gera í máli sem stofnunin hefur þegar tekið til meðferðar.
    Þar eð þessi takmörkun á valdheimildum dómstóla snertir í raun sams konar álitaefni og fjallað var um í tengslum við lögfestingu EES-samningsins með lögum nr. 2/1993 fór utanríkisráðherra þess á leit við Davíð Þór Björgvinsson, þáv. prófessor, sl. haust að hann léti í té álitsgerð um valdheimildir löggjafans með tilliti til innleiðingar þessa ákvæðis í íslenskan rétt. Álitsgerð hans og niðurstöður hennar er birt sem fylgiskjal með þingsályktunartillögu þessari.

5. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 178/2004 frá 3. desember 2004.
    Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 178/2004 var tilvísun til reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 773/2004 felld inn í bókun 21 við EES-samninginn. Reglugerð þessi kemur í stað reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2842/98 jafnframt því sem reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2843/98, um form, innihald og önnur atriði sem kveðið er á um í reglugerðum ráðsins nr. 1017/68, 4056/86 og 3975/87, varðandi samkeppni í flutningsgeiranum, eru felldar úr gildi. Jafnframt er sérstakt ákvæði um aðgang aðila að gögnum máls tekið upp í bókun 23 við samninginn.
    Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 773/2004 er sett til fyllingar reglugerð nr. 1/2003 og fjallar um málsmeðferð framkvæmdastjórnarinnar þegar hún beitir samkeppnisreglunum í 81. og 82. gr. stofnsáttmála EB, svo sem um upphaf máls, meðferð kvartana, skýrslutöku og andmælarétt aðila og aðgang hans að málsgögnum. Til að ákvarðanir framkvæmdastjórnarinnar á þessu sviði geti haft það fordæmisgildi gagnvart samkeppnisyfirvöldum og dómstólum í aðildarríkjunum, sem 16. gr. reglugerðar nr. 1/2003 gerir ráð fyrir, eru í þessari reglugerð ákvæði um birtingu slíkra ákvarðana.

6. Samningur EFTA-ríkjanna frá 3. desember 2004 um breytingu á bókun 4 við samninginn milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.
    Upptaka reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 773/2004 kallar einnig á endurskoðun á III. kafla I. hluta bókunar 4 við samning EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Með samningi þessum eru ákvæði III. kafla I. hluta bókunar 4 við ESE-samninginn um málsmeðferð ESA í málum sem varða beitingu 53. og 54. gr. EES-samningsins færð til samræmis við reglur um málsmeðferð framkvæmdastjórnarinnar samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 773/2004.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 130/2004

frá 24. september 2004

um breytingu á XIV. viðauka (Samkeppni), bókun 21 (um framkvæmd samkeppnisreglna sem gilda um fyrirtæki) og bókun 23 (um samvinnu milli eftirlitsstofnana) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir „samningurinn“, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        XIV. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2004 frá 8. júní 2004 ( 1 ).

2)         Bókun 21 við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2004 frá 8. júní 2004 ( 2 ).

3)         Bókun 23 við samninginn hefur ekki verið breytt áður.

4)         Reglugerð ráðsins (EB) nr. 1/2003 frá 16. desember 2002 um framkvæmd samkeppnisreglna sem mælt er fyrir um í 81. og 82. gr. sáttmálans ( 3 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.


XIV. viðauki breytist sem segir í I. viðauka við ákvörðun þessa.

2. gr.


Bókun 21 breytist sem segir í II. viðauka við ákvörðun þessa.

3. gr.


Bókun 23 breytist sem segir í III. viðauka við ákvörðun þessa.

4. gr.


Íslenskur og norskur texti reglugerðar (EB) nr. 1/2003, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

5. gr.


Ákvörðun þessi öðlast daginn eftir að síðasta tilkynning samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins berst sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

6. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 24. september 2004.

    Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    Kjartan Jóhannsson


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    Ø. Hovdkinn     M. Brinkmann



I. VIÐAUKI
við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 130/2004


XIV. viðauki við samninginn breytist sem hér segir:

1.         Texti 4. liðar (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 123/85) falli brott.

2.         Texti liðar 4a (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1475/95) falli brott.

3.         Í stað texta 10. liðar (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1017/68) komi eftirfarandi.

         „368 R 1017: Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1017/68 frá 19. júlí 1968 um að beita samkeppnisreglum gagnvart flutningum á járnbrautum, vegum og skipgengum vatnaleiðum (Stjtíð. EB L 175, 23.7.1968, bls. 1), eins og henni var breytt með:

         -         32003 R 0001: Reglugerð ráðsins (EB) nr. 1/2003 frá 16. desember 2002 (Stjtíð. EB L 1, 4.1.2003, bls. 1).

        Ákvæði reglugerðarinnar skulu, að því er samning þennan varðar, aðlöguð sem hér segir:

        Ákvæði 2. mgr. 3. gr. gilda ekki.“

4.         Ákvæði 11. liðar (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 4056/86) breytist sem hér segir:

        4.1         Eftirfarandi bætist við:

                    „ , eins og henni var breytt með:

                     -        32003 R 0001: Reglugerð ráðsins (EB) nr. 1/2003 frá 16. desember 2002 (Stjtíð. EB L 1, 4.1.2003, bls. 1).“

        4.2         Í stað textans í aðlögunarlið c) komi eftirfarandi:

                    „Í stað orðanna „reglugerð ráðsins (EB) nr. 1/2003 frá 16. desember 2002 um framkvæmd samkeppnisreglna sem mælt er fyrir um í 81. og 82. gr. sáttmálans“ í fyrsta málslið 1. mgr. 7. gr. komi orðin „reglugerð ráðsins (EB) nr. 1/2003 frá 16. desember 2002 um framkvæmd samkeppnisreglna sem mælt er fyrir um í 81. og 82. gr. sáttmálans eða samsvarandi ákvæðum bókunar 21 við samninginn“;“

        4.3         Í stað textans í aðlögunarlið d) komi eftirfarandi:

                    „Í stað orðanna „reglugerð (EB) nr. 1/2003“ í a-lið 2. mgr. 7. gr. komi orðin „reglugerð (EB) nr. 1/2003 eða samsvarandi ákvæðum bókunar 21 við samninginn“;“

        4.4         Eftirfarandi nýr aðlögunarliður bætist við á eftir aðlögunarlið d):

                    „e)    Í stað orðanna „9. gr. reglugerðar (EB) nr. 1/2003“ í öðrum málslið annarrar undirgreinar i-liðar í c-lið 2. mgr. 7. gr. komi orðin „9. gr. reglugerðar (EB) nr. 1/2003 eða samsvarandi ákvæði bókunar 21 við samninginn“;“

        4.5         Í stað textans í aðlögunarlið f) komi eftirfarandi:

                    „Í stað orðanna „að beiðni aðildarríkis“ í 8. gr. komi orðin „að beiðni ríkis sem heyrir undir lögsögu hennar“. Ennfremur komi í stað orðanna „reglugerð (EB) nr. 1/2003“ orðin „reglugerð (EB) nr. 1/2003 eða samsvarandi ákvæðum bókunar 21 við samninginn“;“

        4.6         Núverandi aðlögunarliðir e), f), g) og h) verði aðlögunarliðir f), g), h) og i).

5.         Texti liðar 11a (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 3652/93) falli brott.

6.         Í stað orðanna „13. gr. reglugerðar (EBE) nr. 3975/87“ í aðlögunarlið c) í lið 11b (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 1617/93) komi orðin „24. gr. reglugerðar (EB) nr. 1/2003“.

7.         Texti liðar 15a (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EBE) nr. 3932/92) falli brott.

8.         Í stað orðanna „6. og 8. gr. reglugerðar (EBE) nr. 17/62“ í aðlögunarlið b) í 2. lið, aðlögunarlið b) í lið 4b, aðlögunarlið h) í 5. lið, aðlögunarlið b) í 6. lið, aðlögunarlið b) í 7. lið og aðlögunarlið b) í lið 15b komi orðin „10. gr. reglugerðar (EB) nr. 1/2003“. Í sömu aðlögunarliðum falli brott orðin „ , án þess að viðkomandi fyrirtækjum sé gert að tilkynna það“.


II. VIÐAUKI
við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 130/2004


1.         Ákvæði 3. gr. bókunar 21 við samninginn breytist sem hér segir:

        1.1         Í stað texta 3. liðar 1. mgr. (reglugerð ráðsins nr. 17/62) komi eftirfarandi:

                     „32003 R 0001: Reglugerð ráðsins (EB) nr. 1/2003 frá 16. desember 2002 um framkvæmd samkeppnisreglna sem mælt er fyrir um í 81. og 82. gr. sáttmálans (Stjtíð. EB L 1, 4.1.2003, bls. 1).“

        1.2         Eftirfarandi bætist við í 10. lið 1. mgr. (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2988/74):

                    „ , eins og henni var breytt með

                     -        32003 R 0001: Reglugerð ráðsins (EB) nr. 1/2003 frá 16. desember 2002 (Stjtíð. EB L 1, 4.1.2003, bls. 1).“

        1.3         Í 1. mgr. falli brott texti 6. liðar (reglugerð ráðsins nr. 141/62), 7. liðar (ákvæði 6. gr. og 10.–31. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1017/68) og 11. liðar (II. þáttur reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 4056/86).

        1.4         Eftirfarandi undirliður bætist við í 13. lið 1. mgr. (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3975/87):

                     „-    32003 R 0001: Reglugerð ráðsins (EB) nr. 1/2003 frá 16. desember 2002 (Stjtíð. EB L 1, 4.1.2003, bls. 1).“

2.         Texti 4., 5., 6., 7. og 9. gr. bókunar 21 við samninginn falli brott.

3.         Í fyrstu og annarri málsgrein 8. gr. bókunar 21 við samninginn falli brott orðin „og tilkynningar“.

4.         Eftirfarandi bætist við á eftir 13. gr. bókunar 21 við samninginn:

         „Endurskoðunarákvæði

        Samningsaðilar skulu endurskoða ákvæði um fullnustu 53. og 54. gr. samningsins, auk ákvæða um samvinnu í bókun 23 við samninginn, fyrir lok ársins 2005 og hvenær sem samningsaðili leggur fram beiðni þess efnis, í því skyni að tryggja að þeim sé beitt á einsleitan og árangursríkan hátt. Einkum skal taka til endurskoðunar ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 130/2004 frá 24. september 2004 með hliðsjón af reynslu samningsaðila af nýjum aðferðum við framkvæmd samkeppnisreglna og rannsaka um leið hvort unnt sé að taka upp á Evrópska efnahagssvæðinu sams konar kerfi og komið var á í Evrópusambandinu með reglugerð ráðsins (EB) nr. 1/2003 að því er varðar beitingu 81. og 82. gr. EB-sáttmálans af hálfu samkeppnisyfirvalda í hverju landi, samvinnu slíkra yfirvalda sín í milli og ákvæði sem tryggja að yfirvöld í hverju landi beiti samkeppnisreglunum á sama hátt.“


III. VIÐAUKI
við ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 130/2004


Í stað bókunar 23 við samninginn komi eftirfarandi:

„BÓKUN 23

UM SAMVINNU MILLI EFTIRLITSSTOFNANA (58. GR.)

ALMENNAR MEGINREGLUR


1. gr.


1.         Eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórn EB skulu skiptast á upplýsingum og ráðfæra sig hvor við aðra um almenn stefnumál fari önnur hvor þessara eftirlitsstofnana fram á það.

2.         Eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórn EB skulu, í samræmi við eigin reglur og með hliðsjón af 56. gr. samningsins og bókun 22 og sjálfsákvörðunarrétti beggja aðila, hafa samvinnu í einstökum málum sem falla undir b- og c-lið 1. mgr., annan málslið 2. mgr. og 3. mgr. í 56. gr. samningsins, sbr. ákvæðin hér á eftir.

3.         Í þessari bókun merkir hugtakið „yfirráðasvæði eftirlitsstofnunar“, að því er varðar framkvæmdastjórn EB, yfirráðasvæði aðildarríkja EB, sem stofnsáttmáli Evrópubandalagsins tekur til, með þeim skilmálum sem settir eru í þessum sáttmálum, en að því er varðar eftirlitsstofnun EFTA merkir það svæði EFTA-ríkjanna sem samningurinn tekur til.

UPPHAF MÁLAREKSTURS

2. gr.

1.         Í málum, sem falla undir b- og c-lið 1. mgr., annan málslið 2. mgr. og 3. mgr. í 56. gr. samningsins, skulu eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórn EB senda hvor annarri, án ónauðsynlegra tafa, tilkynningar og kvartanir ef ekki þykir ljóst að þær hafi borist báðum eftirlitsstofnununum. Þeim ber einnig að tilkynna hvor annarri þegar þær hefja málsmeðferð í krafti embættis síns.

2.         Eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórn EB skulu senda hvor annarri, án ónauðsynlegra tafa, upplýsingar sem þær hafa fengið frá innlendum samkeppnisyfirvöldum á yfirráðasvæðum sínum um að gerðar hafi verið fyrstu ráðstafanir til formlegrar rannsóknar í málum sem falla undir b- og c-lið 1. mgr., annan málslið 2. mgr. og 3. mgr. í 56. gr. samningsins.

3.         Eftirlitsstofnunin, sem hefur fengið upplýsingar, eins og kveðið er á um í fyrstu málsgrein, getur komið athugasemdum sínum um málið á framfæri innan 40 virkra daga frá móttöku upplýsinganna.

3. gr.


1.         Þar til bær eftirlitsstofnun skal, í tilvikum sem falla undir b- og c-lið 1. mgr., annan málslið 2. mgr. og 3. mgr. í 56. gr. samningsins, hafa samráð við við hina eftirlitsstofnunina þegar hún:

         –         ber fram andmæli sín við hlutaðeigandi fyrirtæki eða samtök fyrirtækja,

        –         birtir þá fyrirætlun sína að samþykkja ákvörðun þess efnis að 53. eða 54. gr. samningsins eigi ekki við, eða

        –         birtir þá fyrirætlun sína að samþykkja ákvörðun þess efnis að þær skuldbindingar, sem fyrirtæki hafa boðið, verði bindandi fyrir þau.

2.         Hin eftirlitsstofnunin getur komið athugasemdum sínum á framfæri innan þeirra tímamarka sem fram koma í framangreindum ákvörðunum eða andmælum.

3.         Senda skal hinni eftirlitsstofnuninni athugasemdir sem koma frá hlutaðeigandi fyrirtækjum eða þriðju aðilum.

4. gr.


Í málum, sem falla undir b- og c-lið 1. mgr., annan málslið 2. mgr. og 3. mgr. í 56. gr. samningsins, skal þar til bær eftirlitsstofnun senda hinni eftirlitsstofnuninni þau stjórnsýsluskjöl þar sem fram kemur að máli er lokað eða beiðni hafnað.

5. gr.


Í málum, sem falla undir b- og c-lið 1. mgr., annan málslið 2. mgr. og 3. mgr. í 56. gr. samningsins, skal þar til bær eftirlitsstofnun bjóða hinni eftirlitsstofnuninni að eiga fulltrúa við skýrslugjöf hlutaðeigandi fyrirtækja. Boðið skal einnig ná til ríkja sem falla undir valdsvið hinnar eftirlitsstofnunarinnar.

RÁÐGJAFARNEFND

6. gr.


1.         Í málum, sem falla undir b- og c-lið 1. mgr., annan málslið 2. mgr. og 3. mgr. í 56. gr. samningsins, skal þar til bær eftirlitsstofnun, þegar þar að kemur, tilkynna hinni eftirlitsstofnuninni um fundardag ráðgjafarnefndarinnar og senda viðeigandi skjöl.

2.         Öll skjöl, send í þessum tilgangi frá hinni eftirlitsstofnuninni, skulu lögð fyrir ráðgjafarnefnd þeirrar eftirlitsstofnunar, sem er til þess bær að skera úr um mál í samræmi við 56. gr., ásamt gögnum sem sú eftirlitsstofnun leggur fram.

3.         Hvor eftirlitsstofnunin um sig og ríki, sem falla undir valdsvið hennar, eiga rétt á að eiga fulltrúa í ráðgjafarnefndum hinnar eftirlitsstofnunarinnar sem geta látið í ljós álit sitt en hafa þó ekki atkvæðisrétt.

4.         Samráð getur einnig farið fram skriflega. Ef eftirlitsstofnunin, sem er ekki til þess bær að taka ákvörðun í máli í samræmi við 56. gr., fer fram á það skal þar til bær eftirlitsstofnun þó boða til fundar.


BEIÐNI UM SKJÖL OG RÉTTUR TIL ÞESS AÐ GERA ATHUGASEMDIR

7. gr.


Í málum, sem falla undir b- og c-lið 1. mgr., annan málslið 2. mgr. og 3. mgr. í 56. gr. samningsins, getur eftirlitsstofnun, sem ekki er til þess bær að taka ákvörðun í máli í samræmi við 56. gr. samningsins, beðið um afrit af mikilvægustu skjölunum á öllum stigum málareksturs hjá hinni eftirlitsstofnuninni og enn fremur getur hún, áður en lokaákvörðun er tekin, gert þær athugasemdir sem hún telur vera við hæfi.

AÐSTOÐ STJÓRNVALDA

8. gr.


1.         Þegar þar til bær eftirlitsstofnun, eins og hún er skilgreind í 56. gr. samningsins, fer, með einfaldri beiðni eða með ákvörðun, fram á að fá upplýsingar frá fyrirtæki eða samtökum fyrirtækja á yfirráðasvæði hinnar eftirlitsstofnunarinnar skal hún um leið senda afrit af beiðninni eða ákvörðuninni til hinnar eftirlitsstofnunarinnar.

2.         Að beiðni þar til bærrar eftirlitsstofnunar, eins og hún er skilgreind í 56. gr. samningsins, skal hin eftirlitsstofnunin, í samræmi við eigin reglur, annast athuganir á yfirráðasvæði sínu í málum sem þar til bæra eftirlitsstofnunin, sem þess óskar, telur nauðsynlegt.

3.         Þar til bæra eftirlitsstofnunin á rétt á því að hafa fulltrúa og taka virkan þátt í athugunum sem hin eftirlitsstofnunin lætur fara fram, sbr. 2. mgr.

4.         Allar upplýsingar, sem fást úr þessum athugunum samkvæmt beiðni, skulu sendar um leið og athugun lýkur til eftirlitsstofnunarinnar sem fór fram á athugunina.

5.         Þegar þar til bær eftirlitsstofnun, í málum sem falla undir b- og c-lið 1. mgr., annan málslið 2. mgr. og 3. mgr. í 56. gr. samningsins, lætur fara fram athugun á yfirráðasvæði sínu skal hún tilkynna hinni eftirlitsstofnuninni að slík athugun hafi farið fram og, að fenginni beiðni, senda henni þær niðurstöður sem máli skipta úr þessum athugunum.

6.         Þegar þar til bær eftirlitsstofnun, eins og hún er skilgreind í 56. gr. samningsins, tekur viðtal við einstakling eða lögaðila, sem veitt hefur til þess samþykki sitt, á yfirráðasvæði hinnar eftirlitsstofuninarinnar skal upplýsa síðarnefndu stofnunina um það. Fulltrúum þeirrar eftirlitsstofnunar, sem er ekki til þess bær, er heimilt að vera viðstaddir viðtalið, svo og embættismönnum frá samkeppnisyfirvöldum á því yfirráðasvæði þar sem viðtalið fer fram.

SKIPTI Á OG NOTKUN UPPLÝSINGA

9. gr.


1.         Eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórn EB skulu, til beitingar 53. og 54. gr. EES- samningsins, hafa vald til að veita hvor annarri og nota til sönnunar hvers konar upplýsingar um staðreyndir og lagaatriði, þ.m.t. trúnaðarupplýsingar.

2.         Upplýsingar, sem safnað er eða skipst er á samkvæmt þessari bókun, skulu einungis notaðar til sönnunar við málsmeðferð skv. 53. eða 54. gr. EES-samningsins og í tengslum við það viðfangsefni sem var tilefni þess að þær voru teknar saman.

3.         Ef þær upplýsingar, sem um getur í 1. og 2. mgr. 2. gr., varða mál sem er hafið á grundvelli umsóknar um niðurfellingu eða lækkun sekta er þeirri eftirlitsstofnun, sem tekur við upplýsingunum, ekki heimilt að nota þær til að hefja athugun á eigin vegum. Þetta er með fyrirvara um heimildir eftirlitsstofnunarinnar til að hefja athugun á grundvelli upplýsinga frá öðrum.

4.         Upplýsingar, sem umsækjandi um niðurfellingu eða lækkun sekta veitir sjálfviljugur, skulu einungis sendar hinni eftirlitsstofnuninni með samþykki umsækjanda, sbr. þó 5. mgr. Á sama hátt skulu aðrar upplýsingar, sem hafa fengist við eða eftir athugun eða aðra gagnaöflun sem í engu tilviki hefði getað farið fram nema á grundvelli umsóknar um niðurfellingu eða lækkun sekta, því aðeins sendar hinni eftirlitsstofnuninni að umsækjandi hafi samþykkt sendingu upplýsinga, sem hann hefur sjálfviljugur veitt í umsókn sinni um niðurfellingu eða lækkun sekta, til þeirrar stofnunar. Eftir að umsækjandi um niðurfellingu eða lækkun sekta hefur gefið samþykki sitt fyrir sendingu upplýsinga til hinnar eftirlitsstofnunarinnar getur hann ekki dregið það til baka. Þessi málsgrein er þó með fyrirvara um þá ábyrgð sem hvílir á sérhverjum umsækjanda að senda umsókn sína um niðurfellingu eða lækkun sekta hverri þeirri stofnun sem hann telur viðeigandi.

5.         Þrátt fyrir 4. mgr. er samþykkis umsækjanda fyrir sendingu upplýsinga til hinnar eftirlitsstofnunarinnar ekki krafist við eftirfarandi aðstæður:

        a)    Samþykkis er ekki krafist ef eftirlitsstofnunin, sem fær upplýsingarnar, hefur fengið sams konar umsókn um niðurfellingu eða lækkun sekta fyrir sama brot frá sama umsækjanda og lögð var inn hjá eftirlitsstofnuninni, sem sendir upplýsingarnar, að því tilskildu að umsækjandinn geti ekki dregið til baka upplýsingarnar, sem hann hefur gefið eftirlitsstofnuninni, sem fær upplýsingarnar, á þeim tíma sem þær eru sendar.

        b)    Samþykkis er ekki krafist ef eftirlitsstofnun, sem fær upplýsingarnar, hefur gefið út skriflega skuldbindingu um að upplýsingar, sem hún hefur fengið sendar og aðrar upplýsingar sem hún kann að fá eftir sendingartíma, sem er skráður hjá eftirlitsstofnuninni sem sendir upplýsingarnar, verði hvorki notaðar af henni sjálfri né annarri stofnun sem fær þær sendar síðar til að beita viðurlögum gagnvart þeim sem sækir um niðurfellingu eða lækkun sekta eða gagnvart öðrum lögaðila eða einstaklingi sem nýtur hagstæðari meðferðar af hálfu eftirlitsstofnunarinnar, sem sendir upplýsingarnar, á grundvelli umsóknar sem hann leggur fram innan ramma áætlunar stofnunarinnar um niðurfellingu eða lækkun sekta eða gagnvart starfsmanni eða fyrrverandi starfsmanni þess sem sækir um niðurfellingu eða lækkun sekta eða einhverra þeirra sem að framan getur. Afhenda skal umsækjanda eintak af skriflegri skuldbindingu viðtökuyfirvaldsins.

        c)    Ekki þarf samþykki fyrir sendingu upplýsinga til eftirlitsstofnunar, sem fékk umsókn um niðurfellingu eða lækkun sekta, eða notkun hennar á þeim upplýsingum hafi samkeppnisyfirvöld í EFTA-ríki tekið þær saman skv. 2. mgr. 8. gr. að beiðni þeirrar eftirlitsstofnunar.

ÞAGNARSKYLDA

10. gr.


1.         Framkvæmdastjórn EB og Eftirlitsstofnun EFTA skulu við þau störf sem þeim eru falin samkvæmt þessari bókun senda ríkjum á yfirráðasvæðum sínum allar upplýsingar sem þeim berast eða skipst er á samkvæmt þessari bókun.

2.         Framkvæmdastjórn EB, Eftirlitsstofnun EFTA, samkeppnisyfirvöld í aðildarríkjunum og EFTA-ríkjunum, embættismenn þeirra, opinberir starfsmenn þeirra og aðrir þeir sem vinna undir stjórn þessara stofnana, svo og embættismenn og opinberir starfsmenn annarra stofnana í ríkjunum, skulu ekki veita þær upplýsingar, sem fengnar eru eða skipst er á á grundvelli beitingar þessarar bókunar né heldur þær upplýsingar sem falla undir þagnarskyldu.

3.         Reglur um þagnarskyldu og takmarkaða notkun upplýsinga, sem kveðið er á um í samningnum eða löggjöf samningsaðila, koma ekki í veg fyrir að skipst verði á upplýsingum eins og sett er fram í þessari bókun.

KVARTANIR OG FLUTNINGUR MÁLA

11. gr.


1.         Kvartanir má senda til annarrar hvorrar eftirlitsstofnunarinnar. Kvartanir, sem er beint til eftirlitsstofnunar, sem er ekki til þess bær að fjalla um tiltekið mál skv. 56. gr., skal þegar í stað senda þar til bæru eftirlitsstofnuninni.

2.         Ef í ljós kemur við undirbúning eða upphaf málsmeðferðar í krafti embættis að hin eftirlitsstofnunin er bær til þess að taka ákvörðun um mál í samræmi við 56. gr. samningsins skal málið sent þar til bæru eftirlitsstofnuninni.

3.         Þegar mál hefur verið sent hinni eftirlitsstofnuninni, eins og kveðið er á um í 2. og 3. mgr., má ekki senda það til baka. Ekki má senda mál eftir að

        –         skjalfest andmæli hafa verið send hlutaðeigandi fyrirtækjum eða samtökum fyrirtækja,

         –         bréf hefur verið sent til þess að gera þeim sem bar fram kvörtunina ljóst að ástæður fyrir málarekstri séu ófullnægjandi,

         –         birt hefur verið fyrirætlun um að samþykkja ákvörðun þess efnis að 53. eða 54. gr. eigi ekki við eða birt hefur verið fyrirætlun um að samþykkja ákvörðun um að þær skuldbindingar, sem fyrirtæki hafi boðið, skuli vera bindandi fyrir þau.

TUNGUMÁL

12. gr.


Í kvörtunarmálum eiga einstaklingar og lögaðilar rétt á að nota það opinbera tungumál EFTA- ríkis eða Evrópubandalagsins sem þeir kjósa og að Eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórn EB noti það einnig. Hið sama á einnig við á öllum stigum málareksturs, hvort sem hann hefst með kvörtun eða í krafti embættis þar til bærrar eftirlitsstofnunar.“


Fylgiskjal II.


REGLUGERÐ RÁÐSINS (EB) nr. 1/2003
frá 16. desember 2002
um framkvæmd samkeppnisreglna sem mælt er fyrir um í 81. og 82. gr. sáttmálans
(Texti sem varðar EES)

RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 83. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),
með hliðsjón af áliti Evrópuþingsins ( 2 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 3 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
     1)      Beita skal 81. og 82. gr. sáttmálans á skilvirkan og samræmdan hátt í Bandalaginu til að unnt sé að koma á kerfi sem tryggir að samkeppni á sameiginlega markaðnum raskist ekki. Í reglugerð ráðsins nr. 17 frá 6. febrúar 1962, fyrstu reglugerðinni um framkvæmd 81. og 82. gr. ( * ) sáttmálans ( 4 ), var stefna Bandalagsins í samkeppnismálum mótuð og hefur hún stuðlað að því að samkeppni hefur breiðst út innan Bandalagsins. Í ljósi reynslunnar er þó rétt að í stað þeirrar reglugerðar komi löggjöf sem er ætlað að taka á þeim verkefnum sem fylgja samþættum markaði og stækkun Bandalagsins í framtíðinni.
     2)      Einkum er nauðsynlegt að endurskoða fyrirkomulag á beitingu undanþágunnar frá banni við samkeppnishamlandi samningum sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 81. gr. sáttmálans. Samkvæmt b-lið 2. mgr. 83. gr. sáttmálans verður í þessu tilliti að hafa annars vegar hliðsjón af þörfinni á að tryggja skilvirkt eftirlit og hins vegar að einfalda stjórnsýsluna eins og kostur er.
     3)      Miðlæga kerfið, sem var komið á fót með reglugerð nr. 17, getur ekki lengur tryggt að þessi tvö markmið haldist í jafnvægi. Það hamlar því að dómstólar og yfirvöld samkeppnismála í aðildarríkjunum geti beitt samkeppnisreglum Bandalagsins og einnig kemur tilkynningakerfi þess í veg fyrir að framkvæmdastjórnin geti nýtt fjármagn og mannafla til að koma í veg fyrir alvarlegustu brotin. Enn fremur hefur það í för með sér verulegan kostnað fyrir fyrirtækin.
     4)      Af þessum sökum er rétt að í stað núverandi kerfis komi undanþágukerfi, sem gildir án frekari lögfestingar, þar sem samkeppnisyfirvöld og dómstólar í aðildarríkjunum hafa vald til að beita, auk 1. mgr. 81. gr. og 82. gr. sáttmálans sem gilda án frekari lögfestingar á grundvelli dómaframkvæmdar Dómstóls Evrópubandalaganna, 3. mgr. 81. gr. sáttmálans.
     5)      Til að tryggja skilvirka framkvæmd samkeppnisreglna Bandalagsins og virða á sama tíma grundvallarréttinn til málsvarnar eru í þessari reglugerð settar reglur um sönnunarbyrði skv. 81. og 82. gr. sáttmálans. Það er aðilans eða yfirvaldsins, sem telur að ákvæði 1. mgr. 81. gr. og 82. gr. sáttmálans hafi verið brotin, að færa sönnur á það samkvæmt gildandi lagareglum. Það er fyrirtækisins eða samtaka fyrirtækjanna, sem taka til málsvarnar vegna fullyrðingar um brot, að sýna fram á það samkvæmt gildandi lagareglum að skilyrðum fyrir slíkri málsvörn hafi verið fullnægt. Þessi reglugerð hefur hvorki áhrif á innlendar reglur um vægi sannana né þá skyldu samkeppnisyfirvalda og dómstóla í aðildarríkjunum að upplýsa málsatvik, að því tilskildu að þessar reglur og skyldur samrýmist almennum meginreglum réttarreglna Bandalagsins.
     6)      Til að tryggja skilvirka beitingu á samkeppnisreglum Bandalagsins er rétt að samkeppnisyfirvöld í aðildarríkjunum komi enn frekar inn í beitingu þeirra. Í þessu skyni er rétt að þau fái vald til þess að beita lögum Bandalagsins.
     7)      Innlendir dómstólar hafa veigamiklu hlutverki að gegna við beitingu samkeppnisreglna Bandalagsins. Þeir vernda borgaraleg réttindi samkvæmt lögum Bandalagsins í deilumálum milli einstaklinga, t.d. dæma bætur til handa þeim sem brotið er á. Innlendir dómstólar koma hér til viðbótar við störf samkeppnisyfirvalda í aðildarríkjunum. Því ætti þeim að vera heimilt að beita 81. og 82. gr. sáttmálans að fullu.
     8)      Til að tryggja skilvirka framkvæmd samkeppnislaga Bandalagsins og eðlilega framkvæmd á því samstarfsfyrirkomulagi, sem lýst er í þessari reglugerð, er nauðsynlegt að skylda samkeppnisyfirvöld og dómstóla í aðildarríkjunum til að beita einnig 81. og 82. gr. sáttmálans þegar þau beita innlendum samkeppnislögum gagnvart samningum og venjum sem geta haft áhrif á viðskipti milli aðildarríkjanna. Til að skapa samningum, ákvörðunum samtaka fyrirtækja og samstilltum aðgerðum sambærileg skilyrði á innri markaðnum er enn fremur nauðsynlegt að ákvarða, skv. e-lið 2. mgr. 83. gr. sáttmálans, hvernig tengslum milli landslaga og samkeppnislaga Bandalagsins skuli háttað. Nauðsynlegt er, í þessu skyni, að kveða á um að beiting innlendra samkeppnislaga gagnvart samningum, ákvörðunum eða samstilltum aðgerðum, í skilningi 1. mgr. 81. gr. sáttmálans, megi ekki leiða til þess að bann sé lagt við samningum, ákvörðunum og samstilltum aðgerðum ef slíkt hið sama er ekki bannað samkvæmt samkeppnislögum Bandalagsins. Hugtökin samningar, ákvarðanir og samstilltar aðgerðir eru sjálfstæð hugtök í samkeppnislögum Bandalagsins sem fjalla um samræmingu á atferli fyrirtækja á markaðnum samkvæmt túlkun dómstóla Bandalagsins. Þessi reglugerð kemur ekki í veg fyrir aðildarríkin geti samþykkt og beitt á eigin yfirráðasvæði strangari landslögum sem banna eða leggja viðurlög við einhliða framferði fyrirtækja. Í strangari landslögum af þessu tagi geta verið ákvæði sem leggja bann eða viðurlög við misnotkun á fyrirtækjum sem eru efnahagslega háð öðrum. Þessi reglugerð á heldur ekki við um landslög þar sem einstaklingar eru látnir sæta refsiviðurlögum, nema að því marki sem framkvæmd samkeppnisreglna gagnvart fyrirtækjum byggist á slíkum viðurlögum.
     9)      Markmiðið með 81. og 82. gr. sáttmálans er að vernda samkeppni á markaðnum. Þessi reglugerð, sem var samþykkt til framkvæmdar á þessum ákvæðum sáttmálans, kemur ekki í veg fyrir að aðildarríkin beiti á eigin yfirráðasvæði innlendri löggjöf sem verndar aðra lögmæta hagsmuni, að því tilskildu að löggjöfin samrýmist almennum meginreglum og öðrum réttarreglum Bandalagsins. Samkeppnisyfirvöldum og dómstólum í aðildarríkjunum er heimilt að beita slíkri löggjöf á eigin yfirráðasvæði, að því tilskildu að innlend löggjöf af þessu tagi hafi í meginatriðum annað markmið en það að vernda samkeppni á markaðnum. Þar af leiðandi er aðildarríkjunum heimilt, samkvæmt þessari reglugerð, að láta innlenda löggjöf, sem bannar eða setur viðurlög við óheiðarlegum viðskiptaháttum, hvort heldur er einhliða eða með samningum, koma til framkvæmda á yfirráðasvæði sínu. Slík löggjöf hefur tiltekið markmið, óháð því hver raunveruleg eða ætluð áhrif óheiðarlegra viðskiptahátta verða á samkeppni á markaðnum. Þetta á einkum við þegar um er að ræða löggjöf sem bannar fyrirtækjum að setja viðskiptaaðilum sínum skilyrði eða fá þá, eða gera tilraun til að fá þá, til að samþykkja skilyrði sem teljast óréttmæt, ekki í samræmi við aðstæður eða án mótframlags.
     10)      Með reglugerðum á borð við 19/65/EBE ( 5 ), (EBE) nr. 2821/71 ( 6 ), (EBE) nr. 3976/87 ( 7 ), (EBE) nr. 1534/91 ( 8 ) eða (EBE) nr. 479/92 ( 9 ) er framkvæmdastjórninni fengið vald til að beita, með reglugerð, 3. mgr. 81. gr. sáttmálans að því er varðar tiltekna flokka samninga, ákvarðana samtaka fyrirtækja og samstilltra aðgerða. Á þeim sviðum, sem eru skilgreind í þessum reglugerðum, hefur framkvæmdastjórnin samþykkt og er heimilt að samþykkja áfram svokallaðar hópundanþágureglugerðir þar sem hún lýsir því yfir að 1. mgr. 81. gr. sáttmálans eigi ekki við um flokka samninga, ákvarðana og samstilltra aðgerða. Ef samningar, ákvarðanir og samstilltar aðgerðir, sem þessar reglugerðir eiga við um, hafa engu að síður áhrif sem eru ósamrýmanleg 3. mgr. 81. gr. sáttmálans skulu framkvæmdastjórnin og samkeppnisyfirvöld í aðildarríkjunum hafa vald til að fella ávinning af hópundanþágureglugerðinni niður í einstökum tilvikum.
     11)      Til að tryggja að ákvæðum sáttmálans sé beitt getur framkvæmdastjórnin fjallað um ákvarðanir fyrirtækja eða samtaka fyrirtækja í því skyni að stöðva brot á 81. og 82. gr. sáttmálans. Ef framkvæmdastjórnin hefur af því lögmæta hagsmuni er henni enn fremur heimilt að samþykkja ákvarðanir þar sem úrskurðað er að brot hafi áður átt sér stað jafnvel þótt það hafi engar sektir í för með sér. Í þessari reglugerð skal að auki skýrt kveðið á um vald það sem dómstóllinn hefur fengið framkvæmdastjórninni til að samþykkja ákvarðanir um tímabundnar ráðstafanir.
     12)      Í þessari reglugerð skal kveðið skýrt á um vald framkvæmdastjórnarinnar til að beita, í hlutfalli við framið brot, úrræðum til breytingar á atferli eða skipulagi sem nauðsynleg teljast til að stöðva brotið. Ekki skal beita úrræðum til breytingar á skipulagi nema fyrir hendi sé annað jafnárangursríkt úrræði til breytingar á atferli eða ef það úrræði til breytingar á atferli væri meira íþyngjandi fyrir hlutaðeigandi fyrirtæki en úrræði til breytingar á skipulagi. Breytingar á skipulagi fyrirtækis, eins og það var áður en brotið var framið, teljast því aðeins vera í réttu hlutfalli við brotið að veruleg hætta sé á að skipulag fyrirtækisins leiði af sér langvarandi eða endurtekin brot.
     13)      Ef fyrirtæki taka á sig skuldbindingar, á meðan málsmeðferð stendur yfir sem leitt getur til þess að samningar eða aðgerðir verði bannaðar, í þeim tilgangi að bregðast við efasemdum framkvæmdastjórnarinnar skal framkvæmdastjórnin hafa vald til að samþykkja ákvarðanir þess efnis að þær skuldbindingar séu bindandi fyrir fyrirtækin. Í ákvörðun um skuldbindingu skal koma fram að ekki sé lengur talinn grundvöllur til aðgerða af hálfu framkvæmdastjórnarinnar nema fyrir liggi niðurstaða um að brot hafi verið framið eða það standi enn yfir. Ákvarðanir um skuldbindingar eru með fyrirvara um vald samkeppnisyfirvalda og dómstóla í aðildarríkjunum til að komast að niðurstöðu og úrskurða í málinu. Ákvarðanir um skuldbindingar eiga ekki við þegar framkvæmdastjórnin hyggst beita sektum.
     14)      Enn fremur gæti, í undantekningartilvikum, verið heppilegt að framkvæmdastjórnin samþykki ef almannahagsmunir í Bandalaginu krefjast þess, yfirlýsingu með skýringum, þar sem fram kemur að bannið í 81. eða 82. gr. sáttmálans eigi ekki við, í því skyni að skýra lagagrundvöllinn og tryggja samræmda beitingu réttarreglnanna alls staðar í Bandalaginu, einkum með tilliti til nýrra samninga eða aðgerða sem ekki hefur verið tekin afstaða til með dómaframkvæmd og stjórnsýsluvenju.
     15)      Framkvæmdastjórnin og samkeppnisyfirvöld í aðildarríkjunum skulu saman mynda net opinberra yfirvalda sem hafa náið samstarf um að beita samkeppnisreglum Bandalagsins. Í því skyni er nauðsynlegt að ákveða tilhögun á miðlun upplýsinga og samráði. Framkvæmdastjórnin mun mæla fyrir um og endurskoða aðrar aðferðir í samstarfi innan netsins í náinni samvinnu við aðildarríkin.
     16)      Þrátt fyrir að fyrir liggi innlend ákvæði um hið gagnstæða er aðilum að netinu heimilt að skiptast á upplýsingum, jafnvel trúnaðarupplýsingum, og nota þær sem sönnunargögn. Heimilt er að nota þessar upplýsingar við beitingu 81. og 82. gr. sáttmálans, svo og við samhliða beitingu innlendra samkeppnislaga, að því tilskildu að síðarnefnda beitingin varði sama mál og leiði ekki til annarrar niðurstöðu. Ef yfirvaldið, sem fær upplýsingar, notar upplýsingar sem skipst er á til að beita fyrirtæki viðurlögum skulu ekki vera aðrar takmarkanir á notkun þeirra upplýsinga en að þær skuli einungis notaðar í sama tilgangi og lá að baki söfnun þeirra þar eð viðurlög á fyrirtæki eru sömu tegundar í öllum kerfum. Líta má svo á að réttur fyrirtækja til málsvarnar í hinum ýmsu kerfum sé nægilega líkur. Á hinn bóginn má vera að viðurlög á einstaklinga séu mjög mismunandi í hinum ýmsu kerfum. Sé þetta raunin er nauðsynlegt að tryggja að einungis sé heimilt að nota upplýsingarnar ef þeim hefur verið safnað á þann hátt að varnarréttur einstaklinga sé varinn að sama marki og gert er ráð fyrir í innlendum lögum landsins sem fær upplýsingar.
     17)      Ef unnt á að vera að beita samkeppnisreglum með samræmdum hætti og gæta þess jafnframt að framkvæmd innan netsins sé eins góð og kostur er er nauðsynlegt að setja þá reglu að samkeppnisyfirvöld í aðildarríkjunum missi sjálfkrafa umboð sitt ef framkvæmdastjórnin hefur eigin málsmeðferð. Ef samkeppnisyfirvöld í aðildarríki vinna þegar að máli en framkvæmdastjórnin vill hefja málsmeðferð skal hún gera það eins fljótt og auðið er. Framkvæmdastjórnin skal hafa samráð við hlutaðeigandi innlent yfirvald áður en hún hefur málsmeðferð.
     18)      Til að tryggja að það yfirvald innan netsins, sem málið stendur næst, fjalli um það skal setja almennt ákvæði þar sem samkeppnisyfirvöldum er heimilað að fresta eða loka máli á þeirri forsendu að annað yfirvald fjalli eða hafi þegar fjallað um það, en markmiðið er að aðeins eitt yfirvald fjalli um hvert mál. Þetta ákvæði kemur ekki í veg fyrir að framkvæmdastjórnin geti vísað frá kæru á grundvelli þess að hún eigi þar ekki hagsmuna að gæta, líkt og viðurkennt hefur verið í dómaframkvæmd dómstólsins að henni sé heimilt að gera jafnvel þótt annað samkeppnisyfirvald hyggist ekki fjalla um málið.
     19)      Ráðgjafarnefndin um samkeppnishömlur og yfirburðastöðu, sem komið var á fót með reglugerð nr. 17, hefur sinnt hlutverki sínu afar vel. Hún mun falla vel inn í hið nýja kerfi dreifstýrðrar beitingar. Af þessum sökum er nauðsynlegt að byggja á þeim reglum sem mælt er fyrir um í reglugerð nr. 17 en bæta jafnframt skipulagið. Með þetta að markmiði mætti heimila að álit sé lagt fram með skriflegum hætti. Ráðgjafarnefndin skal enn fremur vera vettvangur umræðna um mál, sem samkeppnisyfirvöld í aðildarríkjunum hafa til umfjöllunar, og stuðla þannig enn frekar að samræmdri beitingu samkeppnisreglna Bandalagsins.
     20)      Ráðgjafarnefndin skal skipuð fulltrúum samkeppnisyfirvalda í aðildarríkjunum. Aðildarríkjunum skal heimilt að tilnefna einn viðbótarfulltrúa þegar fjallað er um almenn málefni á fundum. Þetta hefur ekki áhrif á að nefndarmenn geti notið aðstoðar annarra sérfræðinga frá aðildarríkjunum.
     21)      Til þess að unnt sé að beita samkeppnisreglunum með samræmdum hætti er nauðsynlegt að koma á samstarfi milli dómstóla í aðildarríkjunum og framkvæmdastjórnarinnar. Þetta tekur til allra dómstóla í aðildarríkjunum sem beita 81. og 82. gr. sáttmálans, hvort sem þeir beita þessum reglum í málaferlum milli einkaaðila, við störf sín sem opinberir fullnustuaðilar eða endurskoðunardómstólar. Einkum skulu innlendir dómstólar hafa tækifæri til að inna framkvæmdastjórnina eftir upplýsingum eða áliti á atriðum sem varða beitingu á samkeppnislögum Bandalagsins. Framkvæmdastjórnin og samkeppnisyfirvöld í aðildarríkjunum skulu enn fremur hafa tækifæri til að leggja fram skriflegar eða munnlegar athugasemdir fyrir þá dómstóla sem farið er fram á að beiti 81. eða 82. gr. sáttmálans. Þær athugasemdir skulu lagðar fram innan ramma innlendra málsmeðferðarreglna og -venja, þ.m.t. þær sem eru til verndar réttindum aðila. Af þessum sökum skal gera ráðstafanir til að tryggja að framkvæmdastjórnin og samkeppnisyfirvöld í aðildarríkjunum hafi nægar upplýsingar um málsmeðferð fyrir innlendum dómstólum.
     22)      Til þess að tryggja að farið sé að meginreglunum um réttaröryggi og samræmda beitingu á samkeppnisreglum Bandalagsins í kerfi samhliða lögsögu (system of parallel powers) er nauðsynlegt að forðast að samþykkja þversagnarkenndar ákvarðanir. Af þessum sökum er nauðsynlegt að skýra, í samræmi við dómaframkvæmd dómstólsins, hvaða áhrif ákvarðanir og málsmeðferð framkvæmdastjórnarinnar hafa á dómstóla og samkeppnisyfirvöld í aðildarríkjunum. Ákvarðanir um skuldbindingar, sem framkvæmdastjórnin hefur samþykkt, hafa ekki áhrif á vald dómstólanna og samkeppnisyfirvalda í aðildarríkjunum til að beita 81. og 82. gr. sáttmálans.
     23)      Framkvæmdastjórnin skal hvarvetna í Bandalaginu hafa vald til að fara fram á upplýsingar sem nauðsynlegar teljast til að grafast fyrir um samninga, ákvarðanir eða samstilltar aðgerðir, sem eru bannaðar skv. 81. gr. sáttmálans, eða misnotkun á yfirburðastöðu sem er bönnuð skv. 82. gr. sáttmálans. Þegar fyrirtæki hlíta ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar er ekki hægt að skylda þau til að viðurkenna að brot hafi verið framið en þó er þeim skylt að svara spurningum um staðreyndir og leggja fram skjöl jafnvel þótt þær upplýsingar megi nota til sönnunar á broti þeirra sjálfra eða annarra fyrirtækja.
     24)      Framkvæmdastjórnin skal hafa vald til að láta gera athuganir sem nauðsynlegar teljast til að grafast fyrir um samninga, ákvarðanir eða samstilltar aðgerðir sem eru bannaðar skv. 81. gr. sáttmálans eða misnotkun á yfirburðastöðu sem er bönnuð skv. 82. gr. sáttmálans. Samkeppnisyfirvöld í aðildarríkjunum skulu hafa náið samstarf við framkvæmdastjórnina um beitingu þessa valds.
     25)      Sífellt erfiðara verður að greina brot á samkeppnisreglum og er nauðsynlegt að veita framkvæmdastjórninni aukið vald til rannsókna í því skyni að veita samkeppni raunverulega vernd. Einkum er mikilvægt að framkvæmdastjórnin hafi vald til að ræða við hvern þann sem gæti búið yfir gagnlegum upplýsingum og skrá framburð hans. Við athugun skulu embættismenn með umboð framkvæmdastjórnarinnar hafa vald til innsiglunar svo lengi sem þurfa þykir vegna athugunarinnar. Alla jafna skal ekki innsiglað lengur en í 72 klukkustundir. Enn fremur skulu embættismenn með umboð framkvæmdastjórnarinnar hafa vald til að óska eftir upplýsingum um efni og tilgang athugunarinnar.
     26)      Reynslan sýnir að í sumum tilvikum eru viðskiptagögn geymd á heimilum stjórnenda eða annarra starfsmanna fyrirtækis. Af þessum sökum og til þess að athuganir skili árangri skulu embættismenn og aðrir með umboð framkvæmdastjórnarinnar hafa vald til að fara inn á hvert það athafnasvæði þar sem viðskiptagögn gætu fundist, þ.m.t. inn á einkaheimili. Þó er beiting síðastnefnda valdsins háð því að fyrir liggi heimild dómsmálayfirvalda.
     27)      Með fyrirvara um dómaframkvæmd dómstólsins er rétt að tiltaka hversu langt eftirlit innlendra dómsmálayfirvalda megi ganga þegar þau heimila, eins og mælt er fyrir um í landslögum, einnig sem varúðarráðstöfun, aðstoð löggæsluyfirvalda við að brjóta á bak aftur hugsanlega andstöðu fyrirtækis eða við að framfylgja ákvörðun um athugun sem fram fer í húsnæði, öðru en atvinnuhúsnæði. Samkvæmt dómaframkvæmd er innlendum dómsmálayfirvöldum heimilt að biðja framkvæmdastjórnina um nánari upplýsingar sem eru nauðsynlegar til að þau geti sinnt eftirliti sínu en án þeirra gætu þau synjað um heimildina. Í dómaframkvæmd er enn fremur staðfest vald innlendra dómstóla til að stjórna beitingu innlendra reglna um framkvæmd þvingunarráðstafana.
     28)      Gera skal samkeppnisyfirvöldum í aðildarríkjunum kleift að leita aðstoðar annarra samkeppnisyfirvalda við framkvæmd athugana og aðra gagnöflun í því skyni að auka möguleika þeirra á að beita 81. og 82. gr. sáttmálans með skilvirkum hætti.
     29)      Fara skal að 81. og 82. gr. sáttmálans og uppfylla skuldbindingar, sem fyrirtækjum og samtökum fyrirtækja ber að efna samkvæmt þessari reglugerð, að viðlögðum sektum og févítum. Enn fremur skal mæla fyrir um hæfilegar sektir við broti á málsmeðferðarreglunum.
     30)      Til að tryggja fullnaðargreiðslu sekta, sem eru lagðar á samtök fyrirtækja fyrir brot þeirra, er nauðsynlegt að mæla fyrir um með hvaða skilyrðum framkvæmdastjórninni er heimilt að krefjast greiðslu frá aðilum samtakanna ef þau eru ekki gjaldhæf. Framkvæmdastjórnin skal, ef til þessa kemur, taka tillit til hlutfallslegrar stærðar þeirra fyrirtækja sem eru í samtökunum og þá einkum til aðstæðna lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Sektargreiðsla eins eða fleiri aðila að samtökum hefur engin áhrif á reglur í landslögum sem kveða á um endurheimt fjárhæðarinnar frá öðrum aðilum að samtökunum.
     31)      Mælt er fyrir um reglur um fyrningarfresti að því er varðar sektir og févíti í reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2988/74 ( 1 ) sem fjallar einnig um viðurlög á sviði flutningastarfsemi. Í kerfi samhliða lögsögu skulu í réttarreglum, sem leitt geta til rofs á fyrningarfresti, vera ráðstafanir tengdar málsmeðferð sem samkeppnisyfirvöld í aðildarríki gera sjálfstætt. Til að skýra lagarammann er því rétt að reglugerð (EBE) nr. 2988/74 verði breytt þannig að ekki verði unnt að beita henni í málum sem falla undir þessa reglugerð og í þessari reglugerð skulu vera ákvæði um fyrningarfresti.
     32)      Hlutaðeigandi fyrirtæki skulu því öðlast rétt til að flytja mál sitt fyrir framkvæmdastjórninni. Þriðju aðilar, sem hafa hagsmuna að gæta sem ákvörðunin gæti haft áhrif á, skulu fá tækifæri til að leggja fram athugasemdir sínar fyrir fram og skulu ákvarðanirnar birtar sem víðast. Jafnframt því að tryggja rétt hlutaðeigandi fyrirtækja til málsvarnar, og þá einkum rétt til aðgangs að málsskjölum, er grundvallaratriði að virða viðskiptaleynd. Með sama hætti skal gæta trúnaðar varðandi þær upplýsingar sem skipst er á um netið.
     33)      Þar sem dómstólnum er heimilt, í samræmi við sáttmálann, að endurskoða allar ákvarðanir framkvæmdastjórnarinnar samkvæmt þessari reglugerð er rétt að hann fái, í samræmi við 229. gr., ótakmarkaða lögsögu að því er varðar ákvarðanir framkvæmdastjórnarinnar um álagningu sekta eða févíta.
     34)      Í meginreglunum, sem mælt er fyrir um í 81. og 82. gr. sáttmálans, eins og þeim er beitt samkvæmt reglugerð nr. 17, er stofnunum framkvæmdastjórnarinnar fengið forystuhlutverk. Rétt er að það haldist óbreytt en aðildarríkjunum þó á sama tíma fengið veigameira hlutverk við beitingu á samkeppnisreglum Bandalagsins. Í samræmi við dreifræðis- og meðalhófsregluna, eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari reglugerð til að ná þessu markmiði sem er skilvirkari beiting samkeppnisreglna Bandalagsins.
     35)      Til þess að samkeppnislög Bandalagsins komi til framkvæmda með fullnægjandi hætti skulu aðildarríkin tilnefna yfirvöld og fá þeim vald til að beita 81. og 82. gr. sáttmálans sem opinberir fullnustuaðilar. Þeim skal gert kleift að tilnefna jafnt stjórnsýsluyfirvöld sem dómsmálayfirvöld til þess að gegna margvíslegum störfum sem samkeppnisyfirvöldum er ætlað að hafa með höndum með þessari reglugerð. Í þessari reglugerð er tekið tillit til þess hve mismunandi opinber fullnustukerfi aðildarríkjanna eru. Ákvæði 6. mgr. 11. gr. þessarar reglugerðar skulu ná til allra samkeppnisyfirvalda. Undantekningin frá þessari almennu reglu er að 6. mgr. 11. gr. gildir um saksóknara sem sækir mál fyrir sérstöku og aðskildu dómsmálayfirvaldi með fyrirvara um skilyrði 4. mgr. 35. gr. þessarar reglugerðar. Ef þessum skilyrðum er ekki fullnægt gildir almenna reglan. Ákvæði 6. mgr. 11. gr. gilda aldrei um dómstóla sem starfa sem endurskoðunardómstólar.
     36)      Af dómaframkvæmd er ljóst að samkeppnisreglur gilda um flutninga og því fellur sá geiri undir málsmeðferðarákvæði þessarar reglugerðar. Af þessum sökum er rétt að fella úr gildi reglugerð ráðsins nr. 141 frá 26. nóvember 1962 um að undanþiggja flutninga frá beitingu reglugerðar ráðsins nr. 17 ( 2 ) og breyta reglugerðum (EBE) nr. 1017/68 ( 1 ), (EBE) nr. 4056/86 ( 2 ) og (EBE) nr. 3975/87 ( 3 ) í því skyni að fella niður sérstök málsmeðferðarákvæði sem í þeim eru.
     37)      Í þessari reglugerð er tekið tillit til grundvallarréttinda og þeim meginreglum fylgt sem eru m.a. viðurkenndar í sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi. Þar af leiðandi er rétt að túlka og beita þessari reglugerð með hliðsjón af þeim réttindum og meginreglum.
     38)      Réttaröryggi fyrirtækja, sem starfa samkvæmt samkeppnisreglum Bandalagsins, stuðlar að nýjungum og fjárfestingum. Komi upp verulega óvissa vegna þess að beiting þessara reglna vekur nýjar spurningar sem engin svör fást við er einstökum fyrirtækjum heimilt að óska eftir óformlegri leiðsögn framkvæmdastjórnarinnar. Reglugerð þessi er með fyrirvara um getu framkvæmdastjórnarinnar til að gefa út óformlegar leiðbeiningar af þessu tagi.
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:

I. KAFLI
MEGINREGLUR
1. gr.
Beiting 81. og 82. gr. sáttmálans

1.     Lagt er bann við samningum, ákvörðunum og samstilltum aðgerðum, sem falla undir 1. mgr. 81. gr. sáttmálans og uppfylla ekki skilyrði 3. mgr. þeirrar greinar, án sérstakrar ákvörðunar um það.
2.     Ekki er lagt bann við samningum, ákvörðunum og samstilltum aðgerðum, sem falla undir 1. mgr. 81. gr. sáttmálans og uppfylla skilyrði 3. mgr. þeirrar greinar, án sérstakrar ákvörðunar um það.
3.     Lagt er bann við misnotkun á yfirburðastöðu, sem um getur í 82. gr. sáttmálans, án sérstakrar ákvörðunar um það.

2. gr.
Sönnunarbyrði

Við málsmeðferð á innlendum vettvangi eða á vettvangi Bandalagsins til beitingar 81. og 82. gr. sáttmálans skal sönnunarbyrði vegna brots á 1. mgr. 81. gr. eða 82. gr. sáttmálans hvíla á þeim aðila eða því yfirvaldi sem telur að brot hafi átt sér stað. Sönnunarbyrði um að skilyrðum 3. mgr. 81. gr. sáttmálans hafi verið fullnægt hvílir á því fyrirtæki eða þeim samtökum fyrirtækja sem hafa ávinning af þeirri málsgrein.

3. gr.
Tengsl milli 81. og 82. gr. sáttmálans og innlendra samkeppnislaga

1.     Ef samkeppnisyfirvöld í aðildarríkjunum eða innlendir dómstólar beita innlendum samkeppnislögum vegna samninga, ákvarðana samtaka fyrirtækja eða samstilltra aðgerða í skilningi 1. mgr. 81. gr. sáttmálans, sem gætu haft áhrif á viðskipti milli aðildarríkjanna í skilningi þess ákvæðis, skulu þau einnig beita 81. gr. sáttmálans að því er varðar slíka samninga, ákvarðanir eða samstilltar aðgerðir. Ef samkeppnisyfirvöld í aðildarríkjunum eða innlendir dómstólar beita innlendum samkeppnislögum vegna misnotkunar, sem er bönnuð skv. 82. gr. sáttmálans, skulu þau einnig beita 82. gr. sáttmálans.
2.     Beiting innlendra samkeppnislaga má ekki leiða til þess að bannaðir verði samningar, ákvarðanir samtaka fyrirtækja og samstilltar aðgerðir sem gætu haft áhrif á viðskipti milli aðildarríkjanna, en hamla ekki samkeppni í skilningi 1. mgr. 81. gr. sáttmálans, eða uppfylla skilyrði 3. mgr. 81. gr. sáttmálans eða falla undir reglugerð um beitingu 3. mgr. 81. gr. sáttmálans. Þessi reglugerð kemur ekki í veg fyrir aðildarríkin geti samþykkt og beitt á yfirráðasvæði sínu strangari landslögum sem banna eða beita viðurlögum við einhliða athæfi fyrirtækja.
3.     Með fyrirvara um almennar meginreglur og önnur ákvæði laga Bandalagsins gilda 1. og 2. mgr. hvorki þegar samkeppnisyfirvöld og dómstólar í aðildarríkjunum beita innlendum lögum um samrunaeftirlit né heldur koma þær í veg fyrir beitingu ákvæða landslaga þar sem í meginatriðum eru ríkjandi önnur markmið en þau sem er að finna í 81. og 82. gr. sáttmálans.

II. KAFLI
VALDSVIÐ
4. gr.
Valdsvið framkvæmdastjórnarinnar

Að því er varðar beitingu 81. og 82. gr. sáttmálans skal valdsvið framkvæmdastjórnarinnar vera eins og kveðið er á um í þessari reglugerð.

5. gr.
Valdsvið samkeppnisyfirvalda í aðildarríkjunum

Samkeppnisyfirvöld í aðildarríkjunum hafa vald til að beita 81. og 82. gr. sáttmálans í einstökum tilvikum. Þau geta tekið eftirfarandi ákvarðanir í þessu skyni, annaðhvort að eigin frumkvæði eða á grundvelli kvörtunar:
—    krafist þess að látið verði af broti,
—    gefið fyrirmæli um tímabundnar ráðstafanir,
—    samþykkt skuldbindingar,
—    lagt á sektir og févíti eða beitt hverjum þeim viðurlögum öðrum sem kveðið er á um í landslögum þeirra.
Þeim er enn fremur heimilt að ákveða að ekki sé ástæða til aðgerða af þeirra hálfu ef skilyrðum fyrir banni er ekki fullnægt á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga.

6. gr.
Valdsvið innlendra dómstóla

Innlendir dómstólar hafa vald til að beita 81. og 82. gr. sáttmálans.

III. KAFLI
ÁKVARÐANIR FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR
7. gr.
Að uppgötva og stöðva brot

1.     Ef framkvæmdastjórnin kemst að þeirri niðurstöðu, á grundvelli kvörtunar eða að eigin frumkvæði, að brotið hafi verið gegn 81. eða 82. gr. sáttmálans er henni heimilt að taka ákvörðun um að krefjast þess að hlutaðeigandi fyrirtæki eða samtök fyrirtækja láti af brotinu. Í þessu skyni er henni heimilt að beita úrræðum til breytingar á atferli eða skipulagi, í hlutfalli við það brot sem framið hefur verið og nauðsynlegt telst til að stöðva það í reynd. Heimilt er að beita úrræðum til breytingar á skipulagi ef sýnt þykir að ekki sé fyrir hendi árangursríkt úrræði til breytingar á atferli eða þar sem jafnárangursríkt úrræði til breytingar á atferli væri meira íþyngjandi fyrir hlutaðeigandi fyrirtæki en úrræði til breytingar á skipulagi. Ef framkvæmdastjórnin hefur af því lögmæta hagsmuni er henni enn fremur heimilt að sýna fram á að brot hafi átt sér stað áður.
2.     Einstaklingum eða lögaðilum, sem geta sýnt fram á lögmæta hagsmuni, og aðildarríkjunum er heimilt að leggja fram kvörtun varðandi 1. mgr.

8. gr.
Tímabundnar ráðstafanir

1.     Þegar skjótra aðgerða er þörf vegna hættu á að samkeppni verði fyrir umtalsverðum og óbætanlegum skaða er framkvæmdastjórninni heimilt að taka ákvörðun, að eigin frumkvæði og á grundvelli þess sem virðist við fyrstu sýn vera uppgötvun brots, um að grípa til tímabundinna ráðstafana.
2.     Ákvörðun skv. 1. mgr. gildir um tiltekinn tíma og hana má endurnýja ef slíkt er talið nauðsynlegt og viðeigandi.

9. gr.
Skuldbindingar

1.     Ef framkvæmdastjórnin hyggst samþykkja ákvörðun um að brot skuli stöðvað og að hlutaðeigandi fyrirtæki taki á sig skuldbindingar til þess að draga úr þeim áhyggjum sem hún hefur látið í ljós í bráðabirgðamati sínu er henni heimilt að taka ákvörðun um að skylda fyrirtækin til að standa við þær skuldbindingar. Heimilt er að samþykkja slíka ákvörðun til tiltekins tíma og í henni skal koma fram að ekki sé lengur ástæða til aðgerða af hálfu framkvæmdastjórnarinnar.
2.     Framkvæmdastjórninni er heimilt, að fenginni beiðni eða að eigin frumkvæði, að hefja málsmeðferð að nýju:
a)    ef verulegar breytingar hafa orðið á þeim málsatvikum sem liggja til grundvallar ákvörðuninni,
b)    ef hlutaðeigandi fyrirtæki efna ekki skuldbindingar sínar, eða
c)    ef ákvörðunin er byggð á ófullnægjandi, röngum eða villandi upplýsingum sem aðilarnir hafa látið í té.

10. gr.
Beiting á ekki við

Ef þess er krafist vegna almannahagsmuna í Bandalaginu, að því er varðar beitingu 81. og 82. gr. sáttmálans, er framkvæmdastjórninni heimilt að komast að þeirri niðurstöðu, með ákvörðun að eigin frumkvæði, að 81. gr. sáttmálans gildi ekki um samning, ákvörðun samtaka fyrirtækja eða samstilltar aðgerðir annaðhvort vegna þess að skilyrði 1. mgr. 81. gr. sáttmálans hafa ekki verið uppfyllt eða vegna þess að skilyrði 3. mgr. 81. gr. sáttmálans hafa verið uppfyllt.
Framkvæmdastjórnin getur á sama hátt komist að þessari niðurstöðu með vísun til 82. gr. sáttmálans.

IV. KAFLI
SAMSTARF
11. gr.
Samstarf framkvæmdarstjórnarinnar og samkeppnisyfirvalda í aðildarríkjunum

1.     Framkvæmdastjórnin og samkeppnisyfirvöld í aðildarríkjunum skulu hafa með sér náið samstarf um beitingu samkeppnisreglna Bandalagsins.
2.     Framkvæmdastjórnin skal senda samkeppnisyfirvöldum í aðildarríkjunum afrit af mikilvægustu skjölunum sem hún hefur safnað saman vegna beitingar 7., 8., 9., 10. og 29. gr. (1. mgr.). Framkvæmdastjórnin skal, að fenginni beiðni frá samkeppnisyfirvöldum í aðildarríki, leggja fram afrit af fyrirliggjandi skjölum sem nauðsynleg teljast til að unnt sé að leggja mat á málið.
3.     Samkeppnisyfirvöld í aðildarríkjunum skulu, á grundvelli 81. eða 82. gr. sáttmálans, senda framkvæmdastjórninni skriflega tilkynningu fyrir fram eða strax og gerðar eru ráðstafanir til að hefja formlega rannsókn. Einnig má veita samkeppnisyfirvöldum í hinum aðildarríkjunum þessar upplýsingar.
4.     Samkeppnisyfirvöld í aðildarríkjunum skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um samþykkt ákvörðunar um að brot skuli stöðvað, skuldbindingar samþykktar eða fallið frá reglugerð um hópundanþágu með minnst 30 daga fyrirvara. Í þessu skyni skulu þau láta framkvæmdastjórninni í té samantekt yfir málið, fyrirhugaða ákvörðun eða, liggi hún ekki fyrir, sérhvert annað skjal sem felur í sér tillögur um aðgerðir. Einnig má veita samkeppnisyfirvöldum í hinum aðildarríkjunum þessar upplýsingar. Hlutaðeigandi samkeppnisyfirvöld skulu, að beiðni framkvæmdastjórnarinnar, láta henni í té önnur skjöl sem þau hafa undir höndum og telja má nauðsynleg til að meta málið. Heimilt er að veita samkeppnisyfirvöldum í hinum aðildarríkjunum þær upplýsingar sem framkvæmdastjórninni eru látnar í té. Innlendum samkeppnisyfirvöldum er einnig heimilt að skiptast á upplýsingum sem telja má nauðsynlegar til að meta mál sem þau fjalla um skv. 81. eða 82. gr. sáttmálans.
5.     Samkeppnisyfirvöldum í aðildarríkjunum er heimilt að hafa samráð við framkvæmdastjórnina vegna sérhvers máls sem felur í sér beitingu laga Bandalagsins.
6.     Ef framkvæmdastjórnin hefur málsmeðferð til samþykktar á ákvörðun skv. III. þætti hafa samkeppnisyfirvöld í aðildarríkjunum ekki lengur vald til að beita 81. og 82. gr. sáttmálans. Ef samkeppnisyfirvöld í aðildarríki vinna þegar að máli skal framkvæmdastjórnin því aðeins hefja málsmeðferð að haft sé samráð við innlend samkeppnisyfirvöld.

12. gr.
Upplýsingaskipti

1.     Framkvæmdastjórnin og samkeppnisyfirvöld í aðildarríkjunum skulu hafa það vald, til beitingar 81. og 82. gr. sáttmálans, að veita hvert öðru og nota til sönnunar hvers konar upplýsingar um staðreyndir og lagaatriði, þ.m.t. trúnaðarupplýsingar.
2.     Upplýsingar, sem skipst er á, skulu einungis notaðar til sönnunar við beitingu 81. eða 82. gr. sáttmálans og í tengslum við það viðfangsefni sem var tilefni þess að þær voru teknar saman hjá yfirvaldinu sem sendir upplýsingarnar. Ef innlendum samkeppnislögum er hins vegar beitt í sama máli og samhliða samkeppnislögum Bandalagsins og það leiðir ekki til annarrar niðurstöðu er einnig heimilt að nota upplýsingar, sem skipst er á samkvæmt þessari grein, við beitingu innlendra samkeppnislaga.
3.     Einungis er heimilt að nota upplýsingar, sem skipst er á skv. 1. mgr., til sönnunar þegar beita á einstaklinga viðurlögum ef:
—    mælt er fyrir um svipuð viðurlög í lögum yfirvaldsins, sem sendir upplýsingarnar, í tengslum við brot á 81. eða 82. gr. sáttmálans eða, ef slíkt er ekki fyrir hendi,
—    upplýsingunum hefur verið safnað á þann hátt að gert sé ráð fyrir að varnarréttur einstaklinga sé varinn að sama marki og kveðið er á um í lögum landsins sem tekur við upplýsingunum. Í þessu tilviki er yfirvaldinu, sem tekur við upplýsingunum, þó ekki heimilt að nota þær upplýsingar, sem skipst er á, til að beita viðurlögum til frjálsræðissviptingar.

13. gr.
Málsmeðferð frestað eða hætt

1.     Ef samkeppnisyfirvöld í tveimur aðildarríkjum eða fleiri taka við kvörtun eða fara fram að eigin frumkvæði skv. 81. eða 82. gr. sáttmálans gegn sama samningi, ákvörðun samtaka eða aðgerð skal sú staðreynd að eitt yfirvald fjalli um málið nægja öðrum til þess að fresta málsmeðferð eða vísa kvörtun frá. Framkvæmdastjórnin getur með sama hætti vísað kvörtun frá á þeirri forsendu að samkeppnisyfirvöld í aðildarríki fjalli um málið.
2.     Ef samkeppnisyfirvald í aðildarríki eða framkvæmdastjórnin fær senda kvörtun gegn samningi, ákvörðun samtaka eða aðgerð, sem annað samkeppnisyfirvald hefur þegar fjallað um, er því heimilt að vísa henni frá.

14. gr.
Ráðgjafarnefnd

1.     Framkvæmdastjórnin skal hafa samráð við ráðgjafarnefnd um samkeppnishömlur og yfirburðastöðu áður en hún tekur ákvörðun skv. 7., 8., 9., 10. og 23. gr., 24. gr. (2. mgr.) og 29. gr. (1. mgr.).
2.     Ráðgjafarnefndin skal skipuð fulltrúum samkeppnisyfirvalda í aðildarríkjunum við umfjöllun einstakra mála. Heimilt er að tilnefna viðbótarfulltrúa aðildarríkis, sem er til þess bært að fjalla um samkeppnismál, þegar fjallað er um annað á fundum en einstök mál. Í stað fulltrúa, sem geta ekki sótt fundi, geta komið aðrir fulltrúar.
3.     Samráð getur farið fram á boðuðum fundi undir formennsku framkvæmdastjórnarinnar og skal hann haldinn í fyrsta lagi 14 dögum eftir að fundarboð er sent ásamt samantekt um málið, upplýsingum um mikilvægustu skjölin og drögum að ákvörðun. Að því er tekur til ákvarðana skv. 8. gr. er heimilt að halda fundinn sjö dögum eftir að framkvæmdarhluti draga að ákvörðun hefur verið sendur. Ef framkvæmdastjórnin sendir fundarboð, sem tilgreinir skemmri fyrirvara en að framan greinir, má halda fundinn á þeim degi sem lagður er til ef ekkert aðildarríki hreyfir mótmælum við því. Ráðgjafarnefndin skal leggja fram skriflegt álit á drögum framkvæmdastjórnarinnar að ákvörðun. Henni er heimilt að skila áliti jafnvel þótt einhverjir nefndarmanna séu fjarstaddir og enginn hafi komið í þeirra stað. Rökstyðja skal þá afstöðu sem fram kemur í álitinu fari einn eða fleiri nefndarmanna fram á það.
4.     Samráð getur einnig farið fram skriflega. Framkvæmdastjórnin skal þó boða til fundar ef aðildarríki óskar eftir því. Við skriflega málsmeðferð skal framkvæmdastjórnin ákvarða eigi skemmri frest en 14 daga til handa aðildarríkjunum til að leggja fram athugasemdir til dreifingar til hinna aðildarríkjanna. Ef um er að ræða ákvarðanir sem taka skal skv. 8. gr. styttist fresturinn úr 14 dögum í sjö daga. Ef framkvæmdastjórnin ákvarðar skemmri frest vegna skriflegrar málsmeðferðar en að framan greinir skal sá frestur, sem lagður er til, gilda ef ekkert aðildarríkjanna hreyfir andmælum.
5.     Framkvæmdastjórnin skal taka ítrasta tillit til álits ráðgjafarnefndarinnar. Henni ber að greina nefndinni frá því með hvaða hætti álit hennar var haft til hliðsjónar.
6.     Ef ráðgjafarnefndin skilar skriflegu áliti skal það látið fylgja drögum að ákvörðun. Ef ráðgjafarnefndin mælir með því að álitið verði birt skal framkvæmdastjórnin annast birtinguna og taka tillit til lögmætra hagsmuna fyrirtækja sem vilja varðveita viðskiptaleyndarmál sín.
7.     Framkvæmdastjórnin skal, að beiðni samkeppnisyfirvalda í aðildarríki, setja á dagskrá ráðgjafarnefndarinnar mál sem samkeppnisyfirvöld í aðildarríki hafa til umfjöllunar skv. 81. eða 82. gr. sáttmálans. Framkvæmdastjórninni er einnig heimilt að gera slíkt að eigin frumkvæði. Í báðum tilvikum skal framkvæmdastjórnin tilkynna hlutaðeigandi samkeppnisyfirvöldum um það.
Einkum geta samkeppnisyfirvöld í aðildarríki lagt fram beiðni varðandi mál sem framkvæmdastjórnin telur gefa tilefni til málsmeðferðar á grundvelli 6. mgr. 11. gr.
Ráðgjafarnefndin skal ekki segja álit sitt á málum sem eru til umfjöllunar hjá samkeppnisyfirvöldum í aðildarríkjunum. Ráðgjafarnefndinni er einnig heimilt að fjalla um almenn atriði samkeppnislaga Bandalagsins.

15. gr.
Samstarf við innlenda dómstóla

1.     Í málsmeðferð til beitingar á 81. eða 82. gr. sáttmálans er dómstólum í aðildarríkjunum heimilt að óska eftir því að framkvæmdastjórnin sendi þeim þær upplýsingar, sem hún hefur undir höndum, eða álit sitt á þeim álitaefnum sem varða beitingu samkeppnisreglna Bandalagsins.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni afrit af sérhverjum skriflegum úrskurði innlendra dómstóla um beitingu 81. eða 82. gr. sáttmálans. Senda skal slíkt afrit án tafar eftir að aðilar hafa fengið tilkynningu um skriflegan úrskurð í heild sinni.
3.     Samkeppnisyfirvöldum í aðildarríkjunum er heimilt leggja fram skriflegar athugasemdir, að eigin frumkvæði, fyrir innlenda dómstóla í eigin ríki um málefni sem varða beitingu 81. eða 82. gr. sáttmálans. Þeim er enn fremur heimilt, með leyfi hlutaðeigandi dómstóls, að gera athugasemdir munnlega fyrir innlendum dómstólum í eigin aðildarríki. Framkvæmdastjórninni er heimilt að leggja, að eigin frumkvæði, skriflegar athugasemdir fyrir dómstóla í aðildarríkjunum, ef nauðsyn krefur, varðandi samræmda beitingu 81. eða 82. gr. sáttmálans. Henni er enn fremur heimilt að gera athugasemdir munnlega með leyfi hlutaðeigandi dómstóls.
Samkeppnisyfirvöldum í aðildarríkjunum og framkvæmdastjórninni er heimilt, þó aðeins til undirbúnings athugasemda sinna, að fara fram á það við viðeigandi dómstól í aðildarríki að hann sendi þeim eða tryggi sendingu þeirra skjala sem teljast nauðsynleg til að meta málið.
4.     Þessi grein hefur ekki áhrif á víðtækari valdheimildir til handa samkeppnisyfirvöldum í aðildarríkjunum samkvæmt lögum viðkomandi aðildarríkis til að skila athugasemdum til dómstóla.

16. gr.
Samræmd beiting samkeppnislaga Bandalagsins

1.     Þegar innlendir dómstólar fella úrskurð um samninga, ákvarðanir eða aðgerðir skv. 81. eða 82. gr. sáttmálans, sem þegar hefur verið fjallað um í ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar, er þeim ekki heimilt að taka ákvörðun sem gengur gegn þeirri ákvörðun sem framkvæmdastjórnin hefur samþykkt. Þeir skulu enn fremur forðast að taka ákvarðanir sem stangast á við ákvörðun sem framkvæmdastjórnin hyggst taka við málsmeðferð sem hafin er. Innlendum dómstóli er, í þessu skyni, heimilt að meta hvort ástæða sé til að fresta málsmeðferð dómstólsins. Þessi skylda hefur ekki áhrif á réttindi og skyldur skv. 234. gr. sáttmálans.
2.     Þegar samkeppnisyfirvöld í aðildarríkjunum fella úrskurð um samninga, ákvarðanir eða aðgerðir skv. 81. eða 82. gr. sáttmálans, sem þegar hefur verið fjallað um í ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar, er þeim ekki heimilt að taka ákvörðun sem gengur gegn þeirri ákvörðun sem framkvæmdastjórnin hefur samþykkt.

V. KAFLI
VALD TIL RANNSÓKNA
17. gr.
Rannsóknir á einstökum atvinnugreinum og á tegundum samninga

1.     Gefi þróun viðskipta milli aðildarríkja, ósveigjanleiki í verðmyndun eða aðrar aðstæður ástæðu til að ætla að samkeppni á sameiginlega markaðnum, hafi verið takmörkuð eða henni raskað getur framkvæmdastjórnin ákveðið að gera athugun á tiltekinni atvinnugrein eða tilteknum tegundum samninga í ýmsum atvinnugreinum. Meðan á þeirri athugun stendur er framkvæmdastjórn heimilt að fara fram á að hlutaðeigandi fyrirtæki eða samtök fyrirtækja veiti henni nauðsynlegar upplýsingar til að unnt sé að framfylgja 81. og 82. gr. sáttmálans og getur hún látið gera nauðsynlegar athuganir í því skyni.
Framkvæmdastjórninni er m.a. heimilt að fara fram á að hlutaðeigandi fyrirtæki eða samtök fyrirtækja veiti henni upplýsingar um alla samninga, ákvarðanir og samstilltar aðgerðir.
Framkvæmdastjórninni er heimilt að birta skýrslu um niðurstöður athugana sinna á tilteknum atvinnugreinum og bjóða þeim sem hagsmuna eiga að gæta að skila inn athugasemdum.
2.     Ákvæði 14., 18., 19., 20., 22., 23. og 24. gr. gilda að breyttu breytanda.

18. gr.
Beiðnir um upplýsingar

1.     Til þess að framkvæmdastjórnin geti gegnt þeim störfum sem henni eru falin samkvæmt þessari reglugerð er henni heimilt, með einfaldri beiðni eða ákvörðun, að fara fram á það við fyrirtæki og samtök fyrirtækja að þau veiti allar nauðsynlegar upplýsingar.
2.     Þegar framkvæmdastjórnin sendir einfalda beiðni um upplýsingar til fyrirtækis eða samtaka fyrirtækja skal hún skýra frá þeim lagagrundvelli og tilgangi sem liggur að baki beiðninni, tilgreina hvaða upplýsinga er óskað og skilafresti þeirra og skýra frá viðurlögum, sem kveðið er á um í 23. gr., við því að gefa rangar eða villandi upplýsingar.
3.     Ef framkvæmdastjórnin fer fram á það, með ákvörðun, að fyrirtæki og samtök fyrirtækja láti í té upplýsingar skal hún skýra frá þeim lagagrundvelli og tilgangi sem að liggur baki beiðninni, tilgreina hvaða upplýsinga er óskað og skilafrest þeirra. Hún skal einnig skýra frá þeim viðurlögum sem kveðið er á um í 23. gr. og benda á eða beita þeim viðurlögum sem kveðið er á um í 24. gr. Hún skal enn fremur skýra frá réttinum til að áfrýja ákvörðuninni til dómstólsins.
4.     Eigendum fyrirtækjanna eða fulltrúum þeirra og, þegar um lögaðila er að ræða, félögum eða fyrirtækjum eða, þegar um er að ræða samtök sem hafa ekki réttarstöðu lögaðila, einstaklingum, sem hafa umboð til að koma fram fyrir þeirra hönd samkvæmt lögum eða reglum þeirra, er skylt að veita umbeðnar upplýsingar fyrir hönd hlutaðeigandi fyrirtækis eða samtaka fyrirtækja. Lögfræðingum, sem til þess hafa tilhlýðilegt umboð, er heimilt að veita upplýsingar fyrir hönd viðskiptavina sinna. Hinir síðarnefndu bera áfram fulla ábyrgð á að upplýsingarnar séu hvorki ófullnægjandi, rangar né villandi.
5.     Framkvæmdastjórnin skal senda afrit af hinni einföldu beiðni eða ákvörðun til samkeppnisyfirvalda í aðildarríkinu, þar sem fyrirtækið eða samtök fyrirtækja hafa aðsetur, og til samkeppnisyfirvalda í því aðildarríki sem þetta hefur áhrif á.
6.     Ríkisstjórnir og samkeppnisyfirvöld í aðildarríkjunum skulu, að beiðni framkvæmdastjórnarinnar, veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að henni sé unnt að gegna þeim störfum sem henni eru falin samkvæmt þessari reglugerð.

19. gr.
Vald til skýrslutöku

1.     Til þess að framkvæmdastjórninni sé unnt að gegna þeim störfum sem henni eru falin samkvæmt þessari reglugerð er henni heimilt að taka viðtöl við einstaklinga eða lögaðila sem samþykkja slík viðtöl vegna söfnunar upplýsinga er varða viðfangsefni rannsóknar.
2.     Fari viðtal skv. 1. mgr. fram á athafnasvæði fyrirtækis skal framkvæmdastjórnin upplýsa samkeppnisyfirvöld í aðildarríkinu, þar sem viðtalið fer fram, um það. Fari samkeppnisyfirvöld í því aðildarríki fram á það geta embættismenn yfirvaldsins verið embættismönnum og fylgdarmönnum þeirra, sem hafa umboð framkvæmdastjórnarinnar til að sjá um slíkt viðtal, til aðstoðar.

20. gr.
Vald framkvæmdastjórnarinnar til að gera athuganir

1.     Til þess að framkvæmdastjórnin geti gegnt þeim störfum sem henni eru falin samkvæmt þessari reglugerð er henni heimilt að gera allar nauðsynlegar athuganir á fyrirtækjum og samtökum fyrirtækja.
2.     Embættismenn og fylgdarmenn þeirra, sem framkvæmdastjórnin hefur veitt umboð til að gera athuganir, hafa vald til:
a)    að fara inn á öll athafnasvæði, allt land eða inn í öll farartæki fyrirtækja og samtaka fyrirtækja,
b)    að rannsaka bókhald og önnur viðskiptaskjöl, hver sem geymslumiðill þeirra er,
c)    að taka eða fá hvers konar afrit eða útdrætti úr slíku bókhaldi eða viðskiptaskjölum,
d)    að innsigla atvinnuhúsnæði og bókhald eða viðskiptaskjöl í þann tíma og að því marki sem nauðsynlegt er vegna athugunarinnar,
e)    að biðja einhvern fulltrúa starfsmanna eða starfsmenn fyrirtækis eða samtaka fyrirtækja um skýringar á málsatvikum eða skjölum sem varða viðfangsefni athugunarinnar og tilgang hennar og skrá svörin.
3.     Embættismenn og fylgdarmenn þeirra, sem framkvæmdastjórnin hefur veitt umboð til að gera athuganir, skulu framvísa skriflegu umboði þegar þeir beita valdi sínu þar sem viðfangsefni og tilgangur athugunarinnar kemur fram og þau viðurlög sem kveðið er á um í 23. gr. og beitt er ef þau bókhaldsgögn eða önnur viðskiptaskjöl, sem varða starfsemina, eru ófullnægjandi eða svör við spurningum, sem eru lagðar fyrir skv. 2. mgr. þessarar greinar, eru röng eða villandi. Framkvæmdastjórnin skal tilkynna samkeppnisyfirvöldum í aðildarríkinu, þar sem athugunin á að fara fram, um hana með góðum fyrirvara.
4.     Fyrirtæki og samtök fyrirtækja skulu fallast á athuganir sem fyrirskipaðar eru samkvæmt ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar. Í ákvörðuninni skal tilgreina viðfangsefnið, tilganginn með athuguninni og hvenær hún á að hefjast og auk þess skal greina frá þeim viðurlögum, sem kveðið er á um í 23. og 24. gr., og réttinum til að áfrýja ákvörðuninni til dómstólsins. Framkvæmdastjórnin skal taka slíka ákvörðun að höfðu samráði við samkeppnisyfirvöld í aðildarríkinu þar sem athugunin verður gerð.
5.     Embættismenn og aðrir með umboð frá eða tilnefndir af samkeppnisyfirvöldum í aðildarríkinu, þar sem athugunin verður gerð, skulu, að beiðni þess yfirvalds eða framkvæmdastjórnarinnar, aðstoða embættismenn og fyldarmenn þeirra, sem hafa umboð framkvæmdastjórnarinnar, með virkum hætti. Í þessu skyni skulu þeir hafa það valdsvið sem tilgreindar eru í 2. mgr.
6.     Ef embættismenn og fylgdarmenn þeirra, sem framkvæmdastjórnin hefur veitt umboð, komast að raun um að fyrirtæki leggst gegn athugun sem farið er fram á samkvæmt þessari grein skal hlutaðeigandi aðildarríki veita þeim nauðsynlega aðstoð og kalla, ef við á, eftir aðstoð lögreglu eða stjórnvalds með sambærilegt framkvæmdarvald til þess að gera þeim kleift að gera athugun sína.
7.     Ef aðstoð, sem kveðið er á um í 6. mgr., krefst heimildar dómsmálayfirvalda samkvæmt landslögum skal sækja um slíka heimild. Einnig er hægt að sækja um slíka heimild sem varúðarráðstöfun.
8.     Ef sótt er um þá heimild sem um getur í 7. mgr. skulu innlend dómsmálayfirvöld hafa eftirlit með því að ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar sé ósvikin og að þær þvingunarráðstafanir, sem stefnt er að, séu hvorki handahófskenndar né óþarflega umfangsmiklar með hliðsjón af viðfangsefni athugunarinnar. Innlendum dómsmálayfirvöldum er heimilt, þegar þau sinna eftirlitsskyldum sínum og kanna hvort þvingunarráðstafanir séu í réttu hlutfalli við brotið, að biðja framkvæmdastjórnina, beint eða fyrir milligöngu samkeppnisyfirvalda í aðildarríkinu, um nákvæmar skýringar, t.d á því á hverju framkvæmdastjórnin byggi grunsemdir sínar um brot á 81. og 82. gr. sáttmálans, svo og hversu alvarlegt meint brot er og á hvern hátt hlutaðeigandi fyrirtæki tengist málinu. Innlendum dómsmálayfirvöldum er þó ekki heimilt að vefengja nauðsyn þess að gera athugun eða krefjast þess að fá upplýsingar úr málsskjali framkvæmdastjórnarinnar. Einungis dómstólinn er til þess bær að fjalla um lögmæti ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar.

21. gr.
Athugun á öðrum athafnasvæðum

1.     Ef fyrir liggur rökstuddur grunur um að bókhald eða önnur viðskiptaskjöl, er varða starfsemina og viðfangsefni athugunarinnar, sem skipta máli til að sanna alvarlegt brot á 81. eða 82. gr. sáttmálans, séu geymd á öðru athafnasvæði, landsvæði eða í öðru flutningatæki, þ.m.t. á heimilum stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna hlutaðeigandi fyrirtækis og samtaka fyrirtækja, getur framkvæmdastjórnin tekið ákvörðun um að fyrirskipa athugun á því athafnasvæði, landsvæði eða flutningatæki.
2.     Í ákvörðuninni skal tilgreina viðfangsefnið og tilganginn með athuguninni og hvenær hún á að hefjast og réttinn til að áfrýja ákvörðuninni til dómstólsins. Í henni skal það einkum tilgreint sem staðfesti grunsemdir framkvæmdastjórnarinnar í skilningi 1. mgr. Framkvæmdastjórnin skal taka slíka ákvörðun að höfðu samráði við samkeppnisyfirvöld í aðildarríkinu þar sem athugunin verður gerð.
3.     Ákvörðun, sem er samþykkt skv. 1. mgr., verður ekki komið til framkvæmda nema fyrir liggi heimild innlendra dómsmálayfirvalda í hlutaðeigandi aðildarríki. Innlend dómsmálayfirvöld skulu hafa eftirlit með því að ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar sé ósvikin og að þær þvingunarráðstafanir, sem stefnt er að, séu hvorki handahófskenndar né óþarflega umfangsmiklar, einkum með hliðsjón af því hversu alvarlegt meint brot er, mikilvægi þeirra sannanna sem leitað er, þátttöku hlutaðeigandi fyrirtækis og því hversu líklegt má telja að bókhald og viðskiptaskjöl, er varða viðfangsefni athugunarinnar, séu geymd á því athafnasvæði sem heimildin varðar. Innlendum dómsmálayfirvöldum er heimilt að biðja framkvæmdastjórnina, beint eða fyrir milligöngu samkeppnisyfirvalda í aðildarríkinu, um nákvæmar skýringar á þeim atriðum sem nauðsynleg teljast vegna eftirlits þeirra með því að þær þvingunarráðstafanir, sem stefnt er að, séu í réttu hlutfalli við brot.
Innlendum dómsmálayfirvöldum er þó ekki heimilt að vefengja nauðsyn þess að gera athugun eða krefjast þess að fá upplýsingar úr málsskjali framkvæmdastjórnarinnar. Einungis dómstólinn er til þess bær að fjalla um lögmæti ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar.
4.     Embættismenn og fylgdarmenn þeirra, sem hafa umboð framkvæmdastjórnarinnar til að gera athugun, sem er fyrirskipuð í samræmi við 1. mgr. þessarar greinar, skulu hafa það valdsvið sem mælt er fyrir um í a-, b- og c-lið 2. mgr. 20. gr.
Ákvæði 5. og 6. mgr. 20. gr. gilda að breyttu breytanda.

22. gr.
Rannsóknir samkeppnisyfirvalda í aðildarríkjunum

1.     Samkeppnisyfirvöldum í aðildarríki er heimilt að láta fara fram hvers konar athugun eða gagnaöflun á yfirráðasvæði sínu samkvæmt landslögum fyrir hönd og á kostnað samkeppnisyfirvalda í öðru aðildarríki í því skyni að sannreyna að brot á 81. eða 82. gr. sáttmálans hafi átt sér stað. Skipti á og notkun upplýsinga, sem safnað er, skulu fara fram í samræmi við 12. gr.
2.     Samkeppnisyfirvöld í aðildarríkjunum geta, að beiðni framkvæmdastjórnarinnar, tekið að sér að gera þær athuganir sem hún telur nauðsynlegar skv. 1. mgr. 20. gr. eða á grundvelli ákvörðunar skv. 4. mgr. 20. gr. Embættismenn samkeppnisyfirvalda í aðildarríkjunum, sem bera ábyrgð á þessum athugunum, og aðrir, sem þau hafa veitt umboð eða tilnefnt, skulu hafa það valdsvið sem þeim er veitt í samræmi við landslög.
Embættismönnum og fylgdarmönnum þeirra, sem hafa umboð framkvæmdastjórnarinnar, er heimilt að veita embættismönnum samkeppnisyfirvalda í því aðildarríki, þar sem athugunin fer fram, aðstoð ef framkvæmdastjórnin eða hlutaðeigandi yfirvald fer fram á það.

VI. KAFLI
VIÐURLÖG
23. gr.
Sektir

1.     Framkvæmdastjórnin er heimilt að taka ákvörðun um að sekta fyrirtæki og samtök fyrirtækja um fjárhæð sem fer ekki yfir 1% af heildarveltu næstliðins rekstrarárs ef þau, vísvitandi eða af gáleysi:
a)    veita rangar eða villandi upplýsingar sem svar við beiðni skv. 17. gr. eða 2. mgr. 18. gr.,
b)    veita rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar sem svar við beiðni samkvæmt ákvörðun skv. 17. gr. eða 3. mgr. 18. gr. eða veita ekki upplýsingar innan tilskilins frests,
c)    framvísa ófullnægjandi bókhaldi eða öðrum viðskiptaskjölum þegar athuganir fara fram skv. 20. gr. eða neita að fallast á athugun sem fyrirskipuð hefur verið með ákvörðun skv. 4. mgr. 20. gr.,
d)    að því er varðar spurningu sem er lögð fyrir í samræmi við e-lið 2. mgr. 20. gr.,
    —    gefa rangt eða villandi svar,
    —    leiðrétta ekki, innan tilskilins frests sem framkvæmdastjórnin setur, rangt, ófullnægjandi eða villandi svar sem starfsmaður hefur gefið, eða
    —    svara ekki eða neita að veita fullnægjandi svar um málsatvik sem varða viðfangsefni og tilgang athugunar sem er fyrirskipuð með ákvörðun skv. 4. mgr. 20. gr.,
e)    hafa rofið innsigli sem embættismenn eða fylgdarmenn þeirra, sem hafa umboð framkvæmdastjórnarinnar, hafa komið fyrir í samræmi við d-lið 2. mgr. 20. gr.
2.     Framkvæmdastjórninni er heimilt að taka ákvörðun um að sekta fyrirtæki og samtök fyrirtækja þegar þau, vísvitandi eða af gáleysi:
a)    brjóta gegn 81. eða 82. gr. sáttmálans, eða
b)    brjóta í bága við ákvörðun um tímabundnar ráðstafanir skv. 8. gr., eða
c)    standa ekki við skuldbindingar sem eru bindandi á grundvelli ákvörðunar skv. 9. gr.
Fjárhæð sektar skal ekki vera hærri en 10% af heildarveltu næstliðins rekstrarárs fyrir hvert fyrirtæki og hver samtök fyrirtækja sem eiga þátt í brotinu.
Ef brot samtaka tengjast starfsemi aðila þeirra skal fjárhæð sektar ekki vera hærri en 10% af heildarveltu hvers aðila sem er virkur á þeim markaði sem brot samtakanna hefur áhrif á.
3.     Við ákvörðun um fjárhæð sektarinnar skal bæði taka tillit til þess hversu alvarlegt brotið er og hversu lengi það hefur viðgengist.
4.     Ef samtök fyrirtækja eru sektuð með hliðsjón af veltu aðila að samtökunum og þau eru ekki gjaldhæf eru samtökin skuldbundin til að leita eftir framlagi frá aðilum að samtökunum til greiðslu sektarinnar.
Ef slík framlög berast samtökunum ekki innan þess frests sem framkvæmdastjórnin setur er henni heimilt að krefjast greiðslu sektarinnar beint frá einhverju þeirra fyrirtækja sem áttu fulltrúa í þeim stjórnum samtakanna sem hlut eiga að máli.
Þegar framkvæmdastjórnin hefur krafist greiðslu samkvæmt annarri undirgrein er henni heimilt, til að tryggja fullnaðargreiðslu sektarinnar, að krefja einhvern þann aðila að samtökunum, sem er virkur á þeim markaði þar sem brotið á sér stað, um greiðslu á mismuninum.
Framkvæmdastjórninni er hins vegar óheimilt að krefja þau fyrirtæki um greiðslu samkvæmt annarri eða þriðju undirgrein sem sýna fram á að þau hafi ekki unnið eftir ákvörðun samtakanna, þar sem hvatt er til brotsins, eða var ókunnugt um þá ákvörðun eða lagst gegn henni áður en framkvæmdastjórnin hóf rannsókn málsins.
Fjárskuldbinding hvers fyrirtækis vegna greiðslu sektarinnar skal ekki vera hærri en 10% af heildarveltu þess á næstliðnu rekstrarári.
5.     Ákvarðanir, sem teknar eru skv. 1. og 2. mgr., varða ekki hegningarlög.

24. gr.
Févíti

1.     Framkvæmdastjórninni er heimilt að taka ákvörðun um févíti á fyrirtæki eða samtök fyrirtækja sem nemur fjárhæð sem fer ekki yfir 5% af meðaldagsveltu næstliðins rekstrarárs, reiknað frá þeim degi sem tilgreindur er í ákvörðuninni, í því skyni að þvinga þau til:
a)    að láta af broti á 81. eða 82. gr. sáttmálans í samræmi við ákvörðun skv. 7. gr.,
b)    að fara að ákvörðun um tímabundnar ráðstafanir skv. 8. gr.,
c)    að standa við skuldbindingar sem eru bindandi á grundvelli ákvörðunar skv. 9. gr.,
d)    að veita tæmandi og réttar upplýsingar sem hún hefur farið fram á með ákvörðun skv. 17. gr. eða 3. mgr. 18. gr.,
e)    að fallast á athugun sem hún hefur fyrirskipað með ákvörðun skv. 4. mgr. 20. gr.
2.     Þegar fyrirtæki eða samtök fyrirtækja hafa fullnægt þeirri skuldbindingu sem févítinu var ætlað að knýja fram er framkvæmdastjórninni heimilt að ákvarða lægri heildarfjárhæð févítis en orðið hefði samkvæmt upphaflegu ákvörðuninni. Ákvæði 4. mgr. 23. gr. gilda á hliðstæðan hátt.

VII. KAFLI
FYRNINGARFRESTUR
25. gr.
Fyrningarfrestur að því er varðar viðurlög

1.     Valdsvið, sem framkvæmdastjórninni er falið skv. 23. og 24. gr., er með fyrirvara um eftirfarandi fyrningarfresti:
a)    þrjú ár þegar um er að ræða brot á ákvæðum um upplýsingar sem krafist er eða framgang athugana,
b)    fimm ár fyrir öll önnur brot.
2.     Fresturinn hefst daginn sem brotið er framið. Sé hins vegar um áframhaldandi eða endurtekin brot að ræða skal fresturinn talinn frá þeim degi er brotinu lýkur.
3.     Hefjist framkvæmdastjórnin eða samkeppnisyfirvöld í aðildarríki handa við rannsókn eða málsmeðferð er varðar brot skal gera hlé á fyrningarfresti vegna sekta eða févítis. Hlé er gert á fyrningarfresti frá og með þeim degi sem a.m.k. einu fyrirtæki eða samtökum fyrirtækja, sem aðild eiga að brotinu, er tilkynnt um aðgerðina. Aðgerðir, sem valda því að gert er hlé á fyrningarfresti, eru einkum:
a)    skriflegar beiðnir um upplýsingar frá framkvæmdastjórninni eða samkeppnisyfirvöldum í aðildarríki,
b)    skriflegt umboð til athugana sem framkvæmdastjórnin eða samkeppnisyfirvöld í aðildarríki veita embættismönnum sínum,
c)    upphaf málsmeðferðar af hálfu framkvæmdastjórnarinnar eða samkeppnisyfirvalda í aðildarríki,
d)    tilkynning um andmæli af hálfu framkvæmdastjórnarinnar eða samkeppnisyfirvalda í aðildarríki.
4.     Hlé á fyrningarfresti gildir gagnvart öllum fyrirtækjum eða samtökum fyrirtækja sem eiga aðild að brotinu.
5.     Í hvert sinn sem fyrningarfrestur er rofinn hefst jafnlangur frestur að nýju. Fyrningarfrestur rennur þó út eigi síðar en að tvöföldum fyrningarfresti liðnum án þess að framkvæmdastjórnin hafi ákvarðað sekt eða févíti. Framlengja skal frestinn sem þeim tíma nemur er hlé var gert á fyrningu skv. 6. mgr.
6.     Gera skal hlé á fyrningarfresti vegna sekta eða févíta á meðan ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar er til meðferðar hjá dómstólnum.

26. gr.
Fyrningarfrestur til fullnustu viðurlaga

1.     Vald framkvæmdastjórnarinnar til fullnustu ákvarðana skv. 23. og 24. gr. er með fyrirvara um fyrningarfrest til fimm ára.
2.     Fresturinn hefst á þeim degi sem lokaákvörðun er tekin í málinu.
3.     Gera skal hlé á fyrningarfresti til fullnustu viðurlaga þegar:
a)    tilkynnt er um ákvörðun um breytingu á upphaflegri fjárhæð sektar eða févítis eða þegar umsókn um breytingu er hafnað,
b)    framkvæmdastjórnin eða aðildarríki að beiðni framkvæmdastjórnarinnar hefst handa í þeim tilgangi að krefjast greiðslu á sekt eða févíti.
4.     Í hvert sinn sem fyrningarfrestur er rofinn hefst jafnlangur frestur að nýju.
5.     Fyrningarfrestur til fullnustu viðurlaga skal felldur niður tímabundið þegar:
a)    greiðslufrestur er veittur,
b)    fullnustu greiðslu er skotið á frest samkvæmt ákvörðun dómstólsins.

VIII. KAFLI
SKÝRSLUGJÖF OG ÞAGNARSKYLDA
27. gr.
Skýrslugjöf málsaðila, kvartenda og annarra

1.     Áður en framkvæmdastjórnin tekur ákvörðun, eins og kveðið er á um í 7., 8. og 23. gr. og 24. gr. (2. mgr.), skal hún veita hlutaðeigandi einstaklingum, fyrirtækjum eða samtökum fyrirtækja, sem málsmeðferð hennar varðar, tækifæri til að skýra frá sjónarmiðum sínum í málum sem hún hefur andmælt. Framkvæmdastjórnin skal einungis byggja ákvarðanir sínar á andmælum sem málsaðilum hefur verið gefinn kostur á að tjá sig um. Kvartendur skulu hafa náin tengsl við málsmeðferðina.
2.     Réttur hlutaðeigandi til varnar skal virtur að fullu í málinu. Þeir skulu hafa rétt til aðgangs að málsskjölum framkvæmdastjórnarinnar en taka skal tillit til lögmætra hagsmuna fyrirtækja sem vilja varðveita viðskiptaleyndarmál sín. Réttur til aðgangs að málsskjölum nær ekki til trúnaðarupplýsinga og innanhússskjala framkvæmdastjórnarinnar eða samkeppnisyfirvalda í aðildarríkjunum. Réttur til aðgangs nær t.a.m. ekki til bréfaskipta framkvæmdastjórnarinnar og samkeppnisyfirvalda í aðildarríkjunum eða innbyrðis milli samkeppnisyfirvalda, þ.m.t. skjöl samin skv. 11. og 14. gr. Ekkert í þessari málsgrein kemur í veg fyrir að framkvæmdastjórnin veiti og noti nauðsynlegar upplýsingar til að sanna brot.
3.     Framkvæmdastjórninni er einnig heimilt að hlýða á málflutning annarra einstaklinga eða lögaðila telji hún ástæðu til þess. Verða skal við umsóknum þessara einstaklinga og lögaðila um skýrslugjöf geti þeir sýnt fram á að þeir hafi nægilegra hagsmuna að gæta. Samkeppnisyfirvöld í aðildarríkjunum geta einnig farið fram á það við framkvæmdastjórnina að aðrir einstaklingar eða lögaðilar fái að gefa skýrslu.
4.     Ef framkvæmdastjórnin hyggst samþykkja ákvörðun skv. 9. eða 10. gr. skal hún birta gagnorða samantekt um málið og megininntak skuldbindinga eða fyrirhugaðra aðgerða. Þriðju aðilum, sem eiga hagsmuna að gæta, er heimilt að leggja fram athugasemdir sínar innan frests sem framkvæmdastjórnin setur og skal hann við birtingu vera minnst einn mánuður. Við birtingu skal taka tillit til lögmætra hagsmuna fyrirtækja sem vilja varðveita viðskiptaleyndarmál sín.

28. gr.
Þagnarskylda

1.     Með fyrirvara um 12. og 15. gr. skulu upplýsingar, sem aflað er skv. 17. til 22. gr., einungis notaðar í þeim tilgangi sem lá að baki öflun þeirra.
2.     Með fyrirvara um upplýsingaskipti og notkun upplýsinga, sem gert er ráð fyrir í 11., 12., 14., 15. og 27. gr., skulu framkvæmdastjórnin og samkeppnisyfirvöld í aðildarríkjunum, embættismenn þeirra og aðrir þeir sem vinna undir stjórn þessara yfirvalda, svo og embættismenn og opinberir starfsmenn annarra yfirvalda í aðildarríkjunum, ekki veita þær upplýsingar, sem farið er fram á, eða skiptast á þeim upplýsingum skv. þessari reglugerð né heldur þær upplýsingar sem falla undir þagnarskyldu. Þessi skylda tekur einnig til allra fulltrúa og sérfræðinga aðildarríkjanna sem sitja fundi ráðgjafarnefndarinnar skv. 14. gr.

IX. KAFLI
UNDANÞÁGUREGLUGERÐIR
29. gr.
Afturköllun í einstökum tilvikum

1.     Ef framkvæmdastjórnin fær það vald með reglugerð ráðsins, t.d. reglugerð 19/65/EBE, reglugerð (EBE) nr. 2821/71, reglugerð (EBE) nr. 3976/87, reglugerð (EBE) nr. 1534/91 eða reglugerð (EBE) nr. 479/92, að beita 3. mgr. 81. gr. sáttmálans að því er varðar tiltekna flokka samninga, ákvarðana og samstilltra aðgerða er henni heimilt, að eigin frumkvæði eða á grundvelli kvörtunar, að afturkalla ávinning af slíkri undanþágureglugerð ef hún kemst að því að samningur, ákvörðun eða samstillt aðgerð, sem undanþágureglugerðin á við um, hafi í einhverju tilviki leitt til tiltekinna áhrifa sem samrýmast ekki 3. mgr. 81. gr. sáttmálans.
2.     Ef samningar, ákvarðanir samtaka fyrirtækja eða samstilltar aðgerðir, sem reglugerð framkvæmdastjórnarinnar, sem um getur í 1. mgr, á við um, hafa þau áhrif í einhverju tilviki að samrýmist ekki 3. mgr. 81. gr. sáttmálans á yfirráðasvæði aðildarríkis eða hluta þess, sem ber öll einkenni sérstaks landfræðilegs markaðar, er samkeppnisyfirvöldum í því aðildarríki heimilt að afturkalla ávinning af viðkomandi reglu að því er þetta yfirráðasvæði varðar.

X. KAFLI
ALMENN ÁKVÆÐI
30. gr.
Birting ákvarðana

1.     Framkvæmdastjórnin skal birta þær ákvarðanir sem hún tekur skv. 7. til 10. gr. og 23. og 24. gr.
2.     Við birtingu skulu koma fram nöfn málsaðila og megininntak ákvörðunarinnar, þ.m.t. hvaða viðurlögum er beitt. Við birtingu skal taka tillit til lögmætra hagsmuna fyrirtækja sem vilja varðveita viðskiptaleyndarmál sín.

31. gr.
Endurskoðun dómstólsins

Dómstóllinn hefur ótakmarkaða lögsögu til að fjalla um lögmæti ákvarðana framkvæmdastjórnarinnar um sektir eða févíti. Honum er heimilt að fella niður sekt eða févíti og hækka eða lækka fjárhæðir þeirra.

32. gr.
Undantekningar

Þessi reglugerð gildir ekki um:
a)    alþjóðlega þjónustu með leiguskip eins og skilgreint er í a-lið 3. mgr. 1. gr. reglugerðar (EBE) nr. 4056/86,
b)    sjóflutningaþjónustu milli hafna í einu og sama aðildarríkinu eingöngu eins og mælt er fyrir um í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar (EBE) nr. 4056/86,
c)    flutninga í lofti milli flugvalla í Bandalaginu og þriðju landa.

33. gr.
Framkvæmdarákvæði

1.     Framkvæmdastjórninni er heimilt að gera viðeigandi ráðstafanir til að beita þessari reglugerð. Þær ráðstafanir geta m.a. tekið til:
a)    framsetningar, efnis og annarra atriða kvartana sem eru lagðar fram skv. 7. gr. og þeirrar málsmeðferðar sem lýtur að frávísun kvartana,
b)    hagnýtrar tilhögunar á upplýsingaskiptum og samráði sem kveðið er á um í 11. gr.,
c)    hagnýtrar tilhögunar við skýrslugjöf sem kveðið er á um í 27. gr.
2.     Áður en framkvæmdastjórnin samþykkir ráðstafanir skv. 1. mgr. skal hún birta drög að þeim og bjóða öllum hagsmunaaðilum að skila inn athugasemdum sínum innan þess frests sem settur er og skal hann ekki vera skemmri en einn mánuður. Áður en framkvæmdastjórnin birtir drög að ráðstöfunum og samþykkir þær skal hún hafa samráð við ráðgjafarnefndina um samkeppnishömlur og yfirburðastöðu.

XI. KAFLI
BRÁÐABIRGÐA-, BREYTINGAR- OG LOKAÁKVÆÐI
34. gr.
Bráðabirgðaákvæði

1.     Umsóknir til framkvæmdastjórnarinnar skv. 2. gr. reglugerðar nr. 17, tilkynningar skv. 4. og 5. gr. þeirrar reglugerðar og samsvarandi umsóknir og tilkynningar skv. reglugerð (EBE) nr. 1017/68, reglugerð (EBE) nr. 4056/86 og reglugerð (EBE) nr. 3975/87 falla úr gildi frá þeim degi sem beiting þessarar reglugerðar hefst.
2.     Ráðstafanir tengdar málsmeðferð, sem eru gerðar samkvæmt reglugerð nr. 17 og reglugerð (EBE) nr. 1017/68, reglugerð (EBE) nr. 4056/86 og reglugerð (EBE) nr. 3975/87, gilda áfram að því er varðar beitingu þessarar reglugerðar.

35. gr.
Tilnefning samkeppnisyfirvalda í aðildarríkjum

1.     Aðildarríkin skulu tilnefna samkeppnisyfirvöld eða önnur yfirvöld sem annast skulu beitingu 81. og 82. gr. sáttmálans með þeim hætti að farið sé með skilvirkum hætti að ákvæðum þessarar reglugerðar. Gera skal nauðsynlegar ráðstafanir til að veita þessum yfirvöldum vald til að beita þessum greinum fyrir 1. maí 2004. Tilnefnd yfirvöld geta einnig verið dómstólar.
2.     Ef innlend stjórnvöld og dómsmálayfirvöld hafa umboð til að annast framkvæmd samkeppnislaga Bandalagsins er aðildarríkjunum heimilt að fá mismunandi landsyfirvöldum, hvort sem um er að ræða stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld, ólíkt valdsvið og hlutverk.
3.     Áhrif 6. mgr. 11. gr. ná til yfirvalda sem aðildarríkin tilnefna, þ.m.t. dómstólar sem hafa hlutverki að gegna við undirbúning og samþykkt þeirra tegunda ákvarðana sem mælt er fyrir um í 5. gr. Áhrif 6. mgr. 11. gr. ná ekki til dómstóla sem starfa sem endurskoðunardómstólar að því er varðar þær tegundir ákvarðana sem mælt er fyrir um í 5. gr.
4.     Ef yfirvald fer með mál, vegna samþykktar á tilteknum tegundum ákvarðana sem greint er frá í 5. gr., fyrir dómsmálayfirvöld í aðildarríki, önnur en til saksóknara, og að því tilskildu að farið sé að skilmálum þessarar málsgreinar, skulu áhrif 6. mgr. 11. gr., þrátt fyrir 3. mgr., einungis ná til þess yfirvalds sem sækir málið og skal það yfirvald draga kröfu sína fyrir dómsmálayfirvaldinu til baka ef framkvæmdastjórnin hefur málsmeðferð og afturköllun málsins verður til þess að unnt er að ljúka innlendri málsmeðferð með árangursríkum hætti.

36. gr.
Breyting á reglugerð (EBE) nr. 1017/68

Reglugerð (EBE) nr. 1017/68 er breytt sem hér segir:
1.    Ákvæði 2. gr. séu felld úr gildi.
2.    Í stað orðanna „Það bann sem mælt er fyrir um í 2. gr.“ í 1. mgr. 3. gr. komi „Bannið í 1. mgr. 81. gr. sáttmálans“.
3.    Eftirfarandi breytingar eru gerðar á 4. gr.:
    a)    í stað orðanna „Samningar þeir, ákvarðanir og samstilltar aðgerðir sem um getur í 2. gr.“ í 1. mgr. komi „Samningar, ákvarðanir og samstilltar aðgerðir skv. 1. mgr. 81. gr. sáttmálans“,
    b)    í stað 2. mgr. komi eftirfarandi:
        „2. Ef framkvæmd samnings, ákvörðunar eða samstilltrar aðgerðar, sem fellur undir 1. mgr., hefur í tilteknu tilviki áhrif sem samrýmast ekki kröfum 3. mgr. 81. gr. sáttmálans er heimilt að krefjast þess að fyrirtæki eða samtök fyrirtækja sjái til þess að þau áhrif verði að engu.“
4.    Ákvæði 5. til 29. gr. séu felld úr gildi með þeirri undantekningu að 3. mgr. 13. gr. gildir áfram að því er varðar ákvarðanir sem eru samþykktar skv. 5. gr. reglugerðar (EBE) nr. 1017/68 fyrir þann dag sem þessari reglugerð er beitt og þar til þessar ákvarðanir falla úr gildi.
5.     Ákvæði 2., 3. og 4. mgr. 30. gr. falli brott.

37. gr.
Breyting á reglugerð (EBE) nr. 2988/74

Eftirfarandi grein bætist við í reglugerð (EBE) nr. 2988/74:
    „7. gr. a
     Undantekning
    Þessi reglugerð tekur ekki til ráðstafana sem eru gerðar samkvæmt reglugerð ráðsins (EB) nr. 1/2003 frá 16. desember 2002 um framkvæmd samkeppnisreglna sem mælt er fyrir um í 81. og 82. gr. sáttmálans (*).
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(*)     Stjtíð. EB L 1, 4.1.2003, bls. 1.“

38. gr.
Breyting á reglugerð (EBE) nr. 4056/86

Reglugerð (EBE) nr. 4056/86 er breytt sem hér segir:
1.     Eftirfarandi breytingar eru gerðar á 7. gr.:
    a)    Í stað 1. mgr. komi eftirfarandi:
        „1.      Brot á skuldbindingu
            Þegar hlutaðeigandi aðilar uppfylla ekki skuldbindingu sem, skv. 5. gr., er skilyrði fyrir undanþágu sem kveðið er á um í 3. gr. getur framkvæmdastjórnin, í því skyni að binda enda á brotið og með þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í reglugerð ráðsins (EB) nr. 1/2003 frá 16. desember 2002 um framkvæmd samkeppnisreglna sem mælt er fyrir um í 81. og 82. gr. sáttmálans (*), samþykkt ákvörðun, þar sem þeim eru annaðhvort bannaðar tilteknar athafnir eða þeir skyldaðir til þeirra, eða afturkallað hópundanþágu sem þeir nutu.
        

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(*)     Stjtíð. EB L 1, 4.1.2003, bls. 1.“
    b)    Eftirfarandi breytingar eru gerðar á 2. mgr.:
        i)    Í stað orðanna „í samræmi við skilmálanna sem mælt er fyrir um í II. þætti“ í a-lið komi „í samræmi við skilyrðin sem mælt er fyrir um í reglugerð (EB) nr. 1/2003“.
        ii)    Í stað annars málsliðar annarrar undirgreinar í i-lið c-liðar komi eftirfarandi:
            „Jafnframt skal hún úrskurða, í samræmi við 9. gr. reglugerðar (EB) nr. 1/2003, hvort samþykkja eigi skuldbindingar sem hlutaðeigandi fyrirtæki bjóða með hliðsjón m.a. af því að hleypa að markaðnum skipafélögum sem standa utan samsiglingakerfisins.“
2.     Eftirfarandi breytingar eru gerðar á 8. gr.:
    a)    1. mgr. falli brott.
    b)    Í stað orðanna „samkvæmt 10. gr.“ í 2. mgr. komi „samkvæmt reglugerð (EB) nr. 1/2003“.
    c)    3. mgr. falli brott.
3.     Eftirfarandi breytingar eru gerðar á 9. gr.:
    a)    Í stað orðanna „ráðgjafarnefndinni sem um getur í 15. gr.“ í 1. mgr. komi „ráðgjafarnefndinni sem um getur í 14. gr. reglugerðar (EB) nr. 1/2003“.
    b)    Í stað orðanna „ráðgjafarnefndina sem um getur í 15. gr.“ í 2. mgr. komi „ráðgjafarnefndina sem um getur í 14. gr. reglugerðar (EB) nr. 1/2003“.
4.    Ákvæði 10. til 25. gr. séu felld úr gildi með þeirri undantekningu að 3. mgr. 13. gr. gildir áfram að því er varðar ákvarðanir sem eru samþykktar skv. 3. mgr. 81. gr. sáttmálans fyrir þann dag sem þessari reglugerð er beitt og þar til þessar ákvarðanir falla úr gildi.
5.    Orðin „framsetningu, efni og önnur atriði er varða kærur samkvæmt 10. gr., umsóknir samkvæmt 12. gr. og skýrslugjöf samkvæmt 1. og 2. mgr. 23. gr.“ í 26. gr. falli brott.

39. gr.
Breyting á reglugerð (EBE) nr. 3975/87

Ákvæði 3. til 19. gr. reglugerðar (EBE) nr. 3975/87 eru felld úr gildi með þeirri undantekningu að 3. mgr. 6. gr. gildir áfram að því er varðar ákvarðanir sem eru samþykktar skv. 3. mgr. 81. gr. sáttmálans fyrir þann dag sem þessari reglugerð er beitt og þar til þessar ákvarðanir falla úr gildi.

40. gr.
Breyting á reglugerðum nr. 19/65/EBE, EBE nr. 2821/71 og EBE nr. 1534/91

Ákvæði 7. gr. reglugerðar nr. 19/65/EBE, 7. gr. reglugerðar (EBE) nr. 2821/71 og 7. gr. reglugerðar (EBE) nr. 1534/91 eru felld úr gildi.

41. gr.
Breyting á reglugerð (EBE) nr. 3976/87

Reglugerð (EBE) nr. 3976/87 er breytt sem hér segir:
1.     Eftirfarandi komi í stað 6. gr.:
    „6. gr.
    Framkvæmdastjórnin skal hafa samráð við ráðgjafarnefndina sem um getur í 14. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 1/2003 frá 16. desember 2002 um framkvæmd samkeppnisreglna sem mælt er fyrir um í 81. og 82. gr. sáttmálans (*) áður en hún birtir drög að reglugerð og áður en hún samþykkir reglugerð.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(*)     Stjtíð. EB L 1, 4.1.2003, bls. 1.“
2.     Ákvæði 7. gr. séu felld úr gildi.

42. gr.
Breyting á reglugerð (EBE) nr. 479/92

Reglugerð (EBE) nr. 479/92 er breytt sem hér segir:
1.     Eftirfarandi komi í stað 5. gr.:
    „5. gr.
    Framkvæmdastjórnin skal hafa samráð við ráðgjafarnefndina sem um getur í 14. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 1/2003 frá 16. desember 2002 um framkvæmd samkeppnisreglna sem mælt er fyrir um í 81. og 82. gr. sáttmálans (*) áður en hún birtir drög að reglugerð og áður en hún samþykkir reglugerð.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(*)     Stjtíð. EB L 1, 4.1.2003, bls. 1.“
2.     Ákvæði 6. gr. séu felld úr gildi.

43. gr.
Niðurfelling reglugerða nr. 17 og nr. 141

1.     Reglugerð nr. 17 er felld úr gildi með þeirri undantekningu að 3. mgr. 8. gr. gildir áfram að því er varðar ákvarðanir sem eru samþykktar skv. 3. mgr. 81. gr. sáttmálans fyrir þann dag sem þessari reglugerð er beitt og þar til þessar ákvarðanir falla úr gildi.
2.     Reglugerð nr. 141 er felld úr gildi.
3.     Litið skal á tilvísanir í niðurfelldar reglugerðir sem tilvísanir í þessa reglugerð.

44. gr.
Skýrsla um beitingu þessarar reglugerðar

Eigi síðar en fimm árum eftir þann dag sem beiting þessarar reglugerðar hefst skal framkvæmdastjórnin gefa Evrópuþinginu og ráðinu skýrslu um framkvæmd þessarar reglugerðar, einkum um beitingu 6. mgr. 11. gr. og 17. gr.
Framkvæmdastjórnin skal meta, á grundvelli þessarar skýrslu, hvort rétt sé að leggja það til við ráðið að þessi reglugerð verði endurskoðuð.

45. gr.
Gildistaka

Reglugerð þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.
Hún öðlast gildi frá 1. maí 2004.
    Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
    Gjört í Brussel 16. dese mber 2002.
    Fyrir hönd ráðsins,
    M. FISCHER BOEL
    forseti.


Fylgiskjal III.


SAMNINGUR UM BREYTINGU Á BÓKUN 4 VIÐ SAMNINGINN MILLI EFTA- RÍKJANNA UM STOFNUN EFTIRLITSSTOFNUNAR OG DÓMSTÓLS


LÝÐVELDIÐ ÍSLAND
FURSTADÆMIÐ LIECHTENSTEIN
KONUNGSRÍKIÐ NOREGUR,

með hliðsjón af samningnum milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingar á samningnum milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, sem nefnist hér á eftir samningurinn um eftirlitsstofnun og dómstól, einkum 49. gr.,

í samráði við Eftirlitsstofnun EFTA,

með hliðsjón af reglugerð ráðsins (EB) nr. 1/2003 frá 16. desember 2002 um framkvæmd samkeppnisreglna sem mælt er fyrir um í 81. og 82. gr. sáttmálans 1 ,

með hliðsjón af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 130/2004 frá 24. september 2004 um breytingu á XIV. viðauka, bókun 21 og bókun 23 við EES-samninginn,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

Í ljósi þessa ber að breyta bókun 4 við samninginn um eftirlitsstofnun og dómstól.

HAFA ORÐIÐ ÁSÁTT UM EFTIRFARANDI:

1. gr.


Eftirfarandi komi í stað II. kafla í I. hluta bókunar 4 við saminginn um eftirlitsstofnun og dómstól:

II. KAFLI

ALMENNAR REGLUR UM MÁLSMEÐFERÐ VEGNA FRAMKVÆMDAR Á 53. OG 54. GR. EES-SAMNINGSINS


I. ÞÁTTUR

MEGINREGLUR

1. gr.

Beiting 53. og 54. gr. EES-samningsins


1.     Lagt er bann við samningum, ákvörðunum og samstilltum aðgerðum, sem falla undir 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins og uppfylla ekki skilyrði 3. mgr. þeirrar greinar, án sérstakrar ákvörðunar um það.

2.     Ekki er lagt bann við samningum, ákvörðunum og samstilltum aðgerðum, sem falla undir 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins og uppfylla skilyrði 3. mgr. þeirrar greinar, án sérstakrar ákvörðunar um það.

3.     Lagt er bann við misnotkun á yfirburðastöðu, sem um getur í 54. gr. EES-samningsins, án sérstakrar ákvörðunar um það.

2. gr.

Sönnunarbyrði


Við málsmeðferð á innlendum vettvangi eða á vettvangi Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) til beitingar 53. og 54. gr. EES-samningsins skal sönnunarbyrði vegna brots á 1. mgr. 53. gr. eða 54. gr. EES-samningsins hvíla á þeim aðila eða því yfirvaldi sem telur að brot hafi átt sér stað. Sönnunarbyrði um að skilyrðum 3. mgr. 53. gr. EES-samningsins hafi verið fullnægt hvílir á því fyrirtæki eða þeim samtökum fyrirtækja sem hafa ávinning af þeirri málsgrein.

3. gr.

Tengsl milli 53. og 54. gr. EES-samningsins og innlendra samkeppnislaga


1.     Ef samkeppnisyfirvöld í EFTA-ríkjunum eða innlendir dómstólar beita innlendum samkeppnislögum vegna samninga, ákvarðana samtaka fyrirtækja eða samstilltra aðgerða í skilningi 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, sem gætu haft áhrif á viðskipti milli aðila að EES- samningnum í skilningi þess ákvæðis, skulu þau einnig beita 53. gr. EES-samningsins að því er varðar slíka samninga, ákvarðanir eða samstilltar aðgerðir. Ef samkeppnisyfirvöld í EFTA- ríkjunum eða innlendir dómstólar beita innlendum samkeppnislögum vegna misnotkunar, sem er bönnuð skv. 54. gr. EES-samningsins, skulu þau einnig beita 54. gr. EES-samningsins.

2.     Beiting innlendra samkeppnislaga má ekki leiða til þess að bannaðir verði samningar, ákvarðanir samtaka fyrirtækja og samstilltar aðgerðir sem gætu haft áhrif á viðskipti milli aðila að EES-samningnum, en hamla ekki samkeppni í skilningi 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins, eða uppfylla skilyrði 3. mgr. 53. gr. EES-samningsins eða falla undir réttarreglu um beitingu 3. mgr. 53. gr. EES-samningsins. Þessi réttarregla kemur ekki í veg fyrir EFTA-ríkin geti samþykkt og beitt á yfirráðasvæði sínu strangari landslögum sem banna eða beita viðurlögum við einhliða athæfi fyrirtækja.

3.     Með fyrirvara um almennar meginreglur og önnur ákvæði EES-laga gilda 1. og 2. mgr. hvorki þegar samkeppnisyfirvöld og dómstólar í EFTA-ríkjunum beita innlendum lögum um samrunaeftirlit né heldur koma þær í veg fyrir beitingu ákvæða landslaga þar sem í meginatriðum eru ríkjandi önnur markmið en þau sem er að finna í 53. og 54. gr. EES-samningsins.

II. ÞÁTTUR

VALDSVIÐ

4. gr.

Valdsvið Eftirlitsstofnunar EFTA


Að því er varðar beitingu 53. og 54. gr. EES-samningsins skal valdsvið Eftirlitsstofnunar EFTA vera eins og kveðið er á um í þessum kafla.

5. gr.

Valdsvið samkeppnisyfirvalda í EFTA-ríkjunum


Samkeppnisyfirvöld í EFTA-ríkjunum hafa vald til að beita 53. og 54. gr. EES-samningsins í einstökum tilvikum. Þau geta tekið eftirfarandi ákvarðanir í þessu skyni, annaðhvort að eigin frumkvæði eða á grundvelli kvörtunar:

—    krafist þess að látið verði af broti,

—    gefið fyrirmæli um tímabundnar ráðstafanir,

—    samþykkt skuldbindingar,

—    lagt á sektir og févíti eða beitt hverjum þeim viðurlögum öðrum sem kveðið er á um í landslögum þeirra.

Þeim er enn fremur heimilt að ákveða að ekki sé ástæða til aðgerða af þeirra hálfu ef skilyrðum fyrir banni er ekki fullnægt á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga.

6. gr.

Valdsvið innlendra dómstóla


Innlendir dómstólar hafa vald til að beita 53. og 54. gr. EES-samningsins.

III. ÞÁTTUR

ÁKVARÐANIR EFTIRLITSSTOFNUNAR EFTA

7. gr.

Að uppgötva og stöðva brot


1.     Ef Eftirlitsstofnun EFTA kemst að þeirri niðurstöðu, á grundvelli kvörtunar eða að eigin frumkvæði, að brotið hafi verið gegn 53. eða 54. gr. EES-samningsins er henni heimilt að taka ákvörðun um að krefjast þess að hlutaðeigandi fyrirtæki eða samtök fyrirtækja láti af brotinu. Í þessu skyni er henni heimilt að beita úrræðum til breytingar á atferli eða skipulagi, í hlutfalli við það brot sem framið hefur verið og nauðsynlegt telst til að stöðva það í reynd. Heimilt er að beita úrræðum til breytingar á skipulagi ef sýnt þykir að ekki sé fyrir hendi árangursríkt úrræði til breytingar á atferli eða þar sem jafnárangursríkt úrræði til breytingar á atferli væri meira íþyngjandi fyrir hlutaðeigandi fyrirtæki en úrræði til breytingar á skipulagi. Ef Eftirlitsstofnun EFTA hefur af því lögmæta hagsmuni er henni enn fremur heimilt að sýna fram á að brot hafi átt sér stað áður.

2.     Einstaklingum eða lögaðilum, sem geta sýnt fram á lögmæta hagsmuni, og EFTA-ríkjunum er heimilt að leggja fram kæru varðandi 1. mgr.

8. gr.

Tímabundnar ráðstafanir


1.     Þegar skjótra aðgerða er þörf vegna hættu á að samkeppni verði fyrir umtalsverðum og óbætanlegum skaða er Eftirlitsstofnun EFTA heimilt að taka ákvörðun, að eigin frumkvæði og á grundvelli þess sem virðist við fyrstu sýn vera uppgötvun brots, um að grípa til tímabundinna ráðstafana.

2.     Ákvörðun skv. 1. mgr. gildir um tiltekinn tíma og hana má endurnýja ef slíkt er talið nauðsynlegt og viðeigandi.

9. gr.

Skuldbindingar


1.     Ef Eftirlitsstofnun EFTA hyggst samþykkja ákvörðun um að brot skuli stöðvað og að hlutaðeigandi fyrirtæki taki á sig skuldbindingar til þess að draga úr þeim áhyggjum sem hún hefur látið í ljós í bráðabirgðamati sínu er henni heimilt að taka ákvörðun um að skylda fyrirtækin til að standa við þær skuldbindingar. Heimilt er að samþykkja slíka ákvörðun til tiltekins tíma og í henni skal koma fram að ekki sé lengur ástæða til aðgerða af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA.

2.     Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt, að fenginni beiðni eða að eigin frumkvæði, að hefja málsmeðferð að nýju:

a)    ef verulegar breytingar hafa orðið á þeim málsatvikum sem liggja til grundvallar ákvörðuninni,

b)    ef hlutaðeigandi fyrirtæki efna ekki skuldbindingar sínar, eða

c)    ef ákvörðunin er byggð á ófullnægjandi, röngum eða villandi upplýsingum sem aðilarnir hafa látið í té.

10. gr.

Beiting á ekki við


Ef þess er krafist vegna almannahagsmuna samkvæmt EES-samningnum, að því er varðar beitingu 53. og 54. gr. EES-samningsins, er Eftirlitsstofnun EFTA heimilt að komast að þeirri niðurstöðu, með ákvörðun að eigin frumkvæði, að 53. gr. EES-samningsins gildi ekki um samning, ákvörðun samtaka fyrirtækja eða samstilltar aðgerðir annaðhvort vegna þess að skilyrði 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins hafa ekki verið uppfyllt eða vegna þess að skilyrði 3. mgr. 53. gr. EES-samningsins hafa verið uppfyllt.

Eftirlitsstofnun EFTA getur á sama hátt komist að þessari niðurstöðu með vísun til 54. gr. EES-samningsins.

IV. ÞÁTTUR

SAMSTARF

11. gr.

Samstarf Eftirlitsstofnunar EFTA og samkeppnisyfirvalda í EFTA-ríkjunum


1.     Eftirlitsstofnun EFTA og samkeppnisyfirvöld í EFTA-ríkjunum skulu hafa með sér náið samstarf um beitingu samkeppnisreglna EES.

2.     Eftirlitsstofnun EFTA skal senda samkeppnisyfirvöldum í EFTA-ríkjunum afrit af mikilvægustu skjölunum sem hún hefur safnað saman vegna beitingar 7., 8., 9., 10. og 29. gr. (1. mgr.). Eftirlitsstofnun EFTA skal, að fenginni beiðni frá samkeppnisyfirvöldum í EFTA-ríki, leggja fram afrit af fyrirliggjandi skjölum sem nauðsynleg teljast til að unnt sé að leggja mat á málið.

3.     Samkeppnisyfirvöld í EFTA-ríkjunum skulu, á grundvelli 53. eða 54. gr. EES-samningsins, senda Eftirlitsstofnun EFTA skriflega tilkynningu fyrir fram eða strax og gerðar eru ráðstafanir til að hefja formlega rannsókn. Einnig má veita samkeppnisyfirvöldum í hinum EFTA-ríkjunum þessar upplýsingar.

4.     Samkeppnisyfirvöld í EFTA-ríkjunum skulu tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um samþykkt ákvörðunar um að brot skuli stöðvað, skuldbindingar samþykktar eða fallið frá veitingu hópundanþágu með minnst 30 daga fyrirvara. Í þessu skyni skulu þau láta Eftirlitsstofnun EFTA í té samantekt yfir málið, fyrirhugaða ákvörðun eða, liggi hún ekki fyrir, sérhvert annað skjal sem felur í sér tillögur um aðgerðir. Einnig má veita samkeppnisyfirvöldum í hinum EFTA- ríkjunum þessar upplýsingar. Hlutaðeigandi samkeppnisyfirvöld skulu, að beiðni Eftirlitsstofnunar EFTA, láta henni í té önnur skjöl sem þau hafa undir höndum og telja má nauðsynleg til að meta málið. Heimilt er að veita samkeppnisyfirvöldum í hinum EFTA-ríkjunum þær upplýsingar sem Eftirlitsstofnun EFTA eru látnar í té. Innlendum samkeppnisyfirvöldum er einnig heimilt að skiptast á upplýsingum sem telja má nauðsynlegar til að meta mál sem þau fjalla um skv. 53. eða 54. gr. EES-samningsins.

5.     Samkeppnisyfirvöldum í EFTA-ríkjunum er heimilt að hafa samráð við Eftirlitsstofnun EFTA vegna sérhvers máls sem felur í sér beitingu EES-laga.

6.     Ef Eftirlitsstofnun EFTA hefur málsmeðferð til samþykktar á ákvörðun skv. III. þætti hafa samkeppnisyfirvöld í EFTA-ríkjunum ekki lengur vald til að beita 53. og 54. gr. EES-samningsins. Ef samkeppnisyfirvöld í EFTA-ríki vinna þegar að máli skal Eftirlitsstofnun EFTA því aðeins hefja málsmeðferð að haft sé samráð við innlend samkeppnisyfirvöld.

7.     Eftirlitsstofnun EFTA skal þegar í stað senda samkeppnisyfirvöldum í EFTA-ríkjunum upplýsingar sem hún fær frá framkvæmdastjórn EB skv. 2. gr., 3. gr. (fyrsta undirlið 1. mgr.), 4. gr., 7. gr., 8. gr. (1. mgr.) og 11. gr. bókunar 23 við EES-samninginn. Eftirlitsstofnun EFTA er einnig heimilt að veita upplýsingar samkvæmt bókun 23 við EES-samninginn.

11. gr. a

Upplýsingar, sem leitt geta til niðurfellingar eða lækkunar sekta, fengnar samkvæmt bókun 23 við EES-samninginn


1.     Samkeppnisyfirvöldum í EFTA-ríkjunum er óheimilt að nota upplýsingar, sem um getur í 7. mgr. 11. gr., sem ástæðu til að hefja eigin rannsókn í málum þar sem Eftirlitsstofnun EFTA fékk þessar upplýsingar frá framkvæmdastjórn EB í samræmi við 1. eða 2. mgr. 2. gr. í bókun 23 við EES-samninginn og þær varða mál sem var tekið til meðferðar í kjölfar umsóknar um niðurfellingu eða lækkun sekta. Þetta er með fyrirvara um heimildir samkeppnisyfirvalda í EFTA-ríkjunum til að hefja rannsókn á grundvelli upplýsinga frá öðrum.

2.     Þær takmarkanir og þau skilyrði, sem greint er frá í 4. og 5. mgr. 9. gr. í bókun 23 við EES-samninginn, skulu gilda að breyttu breytanda milli Eftirlitsstofnunar EFTA og samkeppnisyfirvalda í EFTA-ríkjunum um framsendingu upplýsinga í samræmi við 7. mgr. 11. gr.

11. gr. b

Upplýsingar frá Eftirlitsstofnun EFTA eða samkeppnisyfirvöldum í EFTA-ríkjunum sem leitt geta til niðurfellingar eða lækkunar sekta


1.     Ef Eftirlitsstofnun EFTA eða samkeppnisyfirvöld í EFTA-ríki fjalla um mál, sem er tekið til meðferðar í kjölfar umsóknar um niðurfellingu eða lækkun sekta, skulu upplýsingar, sem eru veittar hinum yfirvöldunum skv. 1.–6. mgr. 11. gr. í slíkum málum, ekki notaðar af þeim yfirvöldum sem ástæða til að hefja eigin rannsókn, hvort heldur er samkvæmt samkeppnisreglum EES-samningins eða, ef um er að ræða samkeppnisyfirvöld í EFTA-ríkjunum, samkvæmt innlendum samkeppnislögum eða öðrum lögum. Þetta er með fyrirvara um heimildir yfirvaldsins til að hefja rannsókn á grundvelli upplýsinga frá öðrum eða, með fyrirvara um 2. og 3. mgr. hér á eftir, að óska eftir, taka við og nota upplýsingar skv. 12. gr. frá einhverju hinna yfirvaldanna, að meðtöldu yfirvaldinu sem tók við umsókninni um niðurfellingu eða lækkun sekta.

2.     Upplýsingar, sem umsækjandi um niðurfellingu eða lækkun sekta veitir sjálfviljugur, skulu einungis sendar öðru yfirvaldi skv. 12. gr. með samþykki umsækjanda, sbr. þó 3. mgr. Á sama hátt skulu aðrar upplýsingar, sem hafa fengist við eða eftir athugun eða aðra gagnaöflun sem í engu tilviki hefði getað farið fram nema á grundvelli umsóknar um niðurfellingu eða lækkun sekta, því aðeins sendar öðru yfirvaldi skv. 12. gr. að umsækjandi hafi samþykkt sendingu upplýsinga, sem hann hefur sjálfviljugur veitt í umsókn sinni um niðurfellingu eða lækkun sekta, til þess yfirvalds. Eftir að umsækjandi um niðurfellingu eða lækkun sekta hefur gefið samþykki sitt fyrir sendingu upplýsinga til annars yfirvalds getur hann ekki dregið það til baka. Þessi málsgrein er þó með fyrirvara um þá ábyrgð sem hvílir á sérhverjum umsækjanda að senda umsókn sína um niðurfellingu eða lækkun sekta hverri þeirri stofnun sem hann telur viðeigandi.

3.     Þrátt fyrir það sem að framan greinir er við eftirfarandi aðstæður ekki krafist samþykkis umsækjanda fyrir sendingu upplýsinga til annars yfirvalds skv. 12. gr.:

    a)    Samþykkis er ekki krafist ef yfirvaldið, sem veitir upplýsingunum viðtöku, fær einnig umsókn um niðurfellingu eða lækkun sektar fyrir sama brot frá sama umsækjanda og send var yfirvaldinu, sem sendir upplýsingarnar, að því tilskildu að umsækjandi hafi ekki möguleika á að draga upplýsingar, sem hann hefur veitt viðtökuyfirvaldinu, til baka þegar þær eru sendar.

    b)    Samþykkis er ekki krafist ef viðtökuyfirvaldið hefur gefið út skriflega skuldbindingu um að upplýsingar, sem það hefur fengið sendar og aðrar upplýsingar sem það kann að fá eftir sendingartímann, sem skráður er hjá sendingaryfirvaldinu, verði hvorki notaðar af því sjálfu né öðru yfirvaldi sem fær þær sendar síðar til að beita viðurlögum:

        i)        gagnvart þeim sem sækir um niðurfellingu eða lækkun sekta,

        ii)        gagnvart öðrum lögaðila eða einstaklingi sem nýtur hagstæðari meðferðar af hálfu sendingaryfirvaldsins á grundvelli umsóknar sinnar sem hann leggur fram innan ramma áætlunar yfirvaldsins um niðurfellingu eða lækkun sekta, eða

        iii)    gagnvart starfsmanni eða fyrrverandi starfsmanni einhverra þeirra sem getið er í i- eða ii-lið.

        Afhenda skal umsækjanda eintak af skriflegri skuldbindingu viðtökuyfirvaldsins.

    c)    Ekki þarf samþykki fyrir sendingu upplýsinga til yfirvalds, sem fékk umsókn um niðurfellingu eða lækkun sekta, eða notkun þess á þeim upplýsingum, hafi samkeppnisyfirvöld í EFTA-ríki tekið þær saman skv. 1. mgr. 22. gr. fyrir hönd og á kostnað þess yfirvalds.

12. gr.

Upplýsingaskipti


1.     Eftirlitsstofnun EFTA og samkeppnisyfirvöld í EFTA-ríkjunum skulu hafa það vald, til beitingar 53. og 54. gr. EES-samningsins, að veita hvert öðru og nota til sönnunar hvers konar upplýsingar um staðreyndir og lagaatriði, þ.m.t. trúnaðarupplýsingar.

2.     Upplýsingar, sem skipst er á, skulu einungis notaðar til sönnunar við beitingu 53. eða 54. gr. EES-samningsins og í tengslum við það viðfangsefni sem var tilefni þess að þær voru teknar saman hjá yfirvaldinu sem sendir upplýsingarnar. Ef innlendum samkeppnislögum er hins vegar beitt í sama máli og samhliða samkeppnislögum EES og það leiðir ekki til annarrar niðurstöðu er einnig heimilt að nota upplýsingar, sem skipst er á samkvæmt þessari grein, við beitingu innlendra samkeppnislaga.

3.     Einungis er heimilt að nota upplýsingar, sem skipst er á skv. 1. mgr., til sönnunar þegar beita á einstaklinga viðurlögum ef:

—    mælt er fyrir um svipuð viðurlög í lögum yfirvaldsins, sem sendir upplýsingarnar, í tengslum við brot á 53. eða 54. gr. EES-samningsins eða, ef slíkt er ekki fyrir hendi,

—    upplýsingunum hefur verið safnað á þann hátt að gert sé ráð fyrir að varnarréttur einstaklinga sé varinn að sama marki og kveðið er á um í lögum landsins sem tekur við upplýsingunum. Í þessu tilviki er yfirvaldinu, sem tekur við upplýsingunum, þó ekki heimilt að nota þær upplýsingar, sem skipst er á, til að beita viðurlögum til frjálsræðissviptingar.

13. gr.

Málsmeðferð frestað eða hætt


1.     Ef samkeppnisyfirvöld í tveimur EFTA-ríkjum eða fleiri taka við kvörtun eða fara fram að eigin frumkvæði skv. 53. eða 54. gr. EES-samningsins gegn sama samningi, ákvörðun samtaka eða aðgerð skal sú staðreynd að eitt yfirvald fjalli um málið nægja öðrum til þess að fresta málsmeðferð eða vísa kvörtun frá. Eftirlitsstofnun EFTA getur með sama hætti vísað kvörtun frá á þeirri forsendu að samkeppnisyfirvöld í EFTA-ríki fjalli um málið.

2.     Ef samkeppnisyfirvald í EFTA-ríki eða Eftirlitsstofnun EFTA fær senda kvörtun gegn samningi, ákvörðun samtaka eða aðgerð, sem annað samkeppnisyfirvald hefur þegar fjallað um, er því heimilt að vísa henni frá.

14. gr.

Ráðgjafarnefnd


1.     Eftirlitsstofnun EFTA skal hafa samráð við ráðgjafarnefnd um samkeppnishömlur og yfirburðastöðu áður en hún tekur ákvörðun skv. 7., 8., 9., 10. og 23. gr., 24. gr. (2. mgr.) og 29. gr. (1. mgr.).

2.     Ráðgjafarnefndin skal skipuð fulltrúum samkeppnisyfirvalda í EFTA-ríkjunum við umfjöllun einstakra mála. Heimilt er að tilnefna viðbótarfulltrúa EFTA-ríkis, sem er til þess bært að fjalla um samkeppnismál, þegar fjallað er um annað á fundum en einstök mál. Í stað fulltrúa, sem geta ekki sótt fundi, geta komið aðrir fulltrúar.

Framkvæmdastjórn EB og aðildarríki EB hafa rétt til að eiga fulltrúa á fundum ráðgjafarnefndarinnar og láta álit sitt í ljós. Fulltrúar þeirra hafa þó ekki atkvæðisrétt.

3.     Samráð getur farið fram á boðuðum fundi undir formennsku Eftirlitsstofnunar EFTA og skal hann haldinn í fyrsta lagi 14 dögum eftir að fundarboð er sent ásamt samantekt um málið, upplýsingum um mikilvægustu skjölin og drögum að ákvörðun. Að því er tekur til ákvarðana skv. 8. gr. er heimilt að halda fundinn sjö dögum eftir að framkvæmdarhluti draga að ákvörðun hefur verið sendur. Ef Eftirlitsstofnun EFTA sendir fundarboð, sem tilgreinir skemmri fyrirvara en að framan greinir, má halda fundinn á þeim degi sem lagður er til ef ekkert EFTA-ríki hreyfir mótmælum við því. Ráðgjafarnefndin skal leggja fram skriflegt álit á drögum Eftirlitsstofnunar EFTA að ákvörðun. Henni er heimilt að skila áliti jafnvel þótt einhverjir nefndarmanna séu fjarstaddir og enginn hafi komið í þeirra stað. Rökstyðja skal þá afstöðu sem fram kemur í álitinu fari einn eða fleiri nefndarmanna fram á það.

4.     Samráð getur einnig farið fram skriflega. Eftirlitsstofnun EFTA skal þó boða til fundar ef EFTA-ríki eða framkvæmdastjórn EB óskar eftir því. Við skriflega málsmeðferð skal Eftirlitsstofnun EFTA ákvarða eigi skemmri frest en 14 daga til handa EFTA-ríkjunum til að leggja fram athugasemdir til dreifingar til hinna EFTA-ríkjanna. Ef um er að ræða ákvarðanir sem taka skal skv. 8. gr. styttist fresturinn úr 14 dögum í sjö daga. Ef Eftirlitsstofnun EFTA ákvarðar skemmri frest vegna skriflegrar málsmeðferðar en að framan greinir skal sá frestur, sem lagður er til, gilda ef ekkert EFTA-ríkjanna hreyfir andmælum.

5.     Eftirlitsstofnun EFTA skal taka ítrasta tillit til álits ráðgjafarnefndarinnar. Henni ber að greina nefndinni frá því með hvaða hætti álit hennar var haft til hliðsjónar.

6.     Ef ráðgjafarnefndin skilar skriflegu áliti skal það látið fylgja drögum að ákvörðun. Ef ráðgjafarnefndin mælir með því að álitið verði birt skal Eftirlitsstofnun EFTA annast birtinguna og taka tillit til lögmætra hagsmuna fyrirtækja sem vilja varðveita viðskiptaleyndarmál sín.

7.     Eftirlitsstofnun EFTA skal, að beiðni samkeppnisyfirvalda í EFTA-ríki, setja á dagskrá ráðgjafarnefndarinnar mál sem samkeppnisyfirvöld í EFTA-ríki hafa til umfjöllunar skv. 53. eða 54. gr. EES-samningsins. Eftirlitsstofnun EFTA er einnig heimilt að gera slíkt að eigin frumkvæði. Í báðum tilvikum skal Eftirlitsstofnun EFTA tilkynna hlutaðeigandi samkeppnisyfirvöldum um það.

Einkum geta samkeppnisyfirvöld í EFTA-ríki lagt fram beiðni varðandi mál sem Eftirlitsstofnun EFTA telur gefa tilefni til málsmeðferðar á grundvelli 6. mgr. 11. gr.

Ráðgjafarnefndin skal ekki segja álit sitt á málum sem eru til umfjöllunar hjá samkeppnisyfirvöldum í EFTA-ríkjunum. Ráðgjafarnefndinni er einnig heimilt að fjalla um almenn atriði samkeppnislaga EES.

8.     Framkvæmdastjórn EB skal, með hliðsjón af þeirri þátttöku sem kveðið er á um í annarri undirgrein 2. mgr., fá boð um að taka þátt í samráði í samræmi við 3. og 4. mgr. og fá viðeigandi upplýsingar eins og kveðið er á um í 6. gr. bókunar 23 við EES-samninginn.

15. gr.

Samstarf við innlenda dómstóla


1.     Í málsmeðferð til beitingar á 53. eða 54. gr. EES-samningsins er dómstólum í EFTA-ríkjunum heimilt að óska eftir því að Eftirlitsstofnun EFTA sendi þeim þær upplýsingar, sem hún hefur undir höndum, eða álit sitt á þeim álitaefnum sem varða beitingu samkeppnisreglna EES.

2.     EFTA-ríkin skulu senda Eftirlitsstofnun EFTA afrit af sérhverjum skriflegum úrskurði innlendra dómstóla um beitingu 53. eða 54. gr. EES-samningsins. Senda skal slíkt afrit án tafar eftir að aðilar hafa fengið tilkynningu um skriflegan úrskurð í heild sinni.

3.     Samkeppnisyfirvöldum í EFTA-ríkjunum er heimilt leggja fram skriflegar athugasemdir, að eigin frumkvæði, fyrir innlenda dómstóla í eigin ríki um málefni sem varða beitingu 53. eða 54. gr. EES-samningsins. Þeim er enn fremur heimilt, með leyfi hlutaðeigandi dómstóls, að gera athugasemdir munnlega fyrir innlendum dómstólum í eigin ríki. Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt að leggja, að eigin frumkvæði, skriflegar athugasemdir fyrir dómstóla í EFTA-ríkjunum, ef nauðsyn krefur, varðandi samræmda beitingu 53. eða 54. gr. EES-samningsins. Henni er enn fremur heimilt að gera athugasemdir munnlega með leyfi hlutaðeigandi dómstóls.

Samkeppnisyfirvöldum í EFTA-ríkjunum og Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt, þó aðeins til undirbúnings athugasemda sinna, að fara fram á það við viðeigandi dómstól í EFTA-ríki að hann sendi þeim eða tryggi sendingu þeirra skjala sem teljast nauðsynleg til að meta málið.

4.     Þessi grein hefur ekki áhrif á víðtækari valdheimildir til handa samkeppnisyfirvöldum í EFTA-ríkjunum samkvæmt lögum viðkomandi EFTA-ríkis til að skila athugasemdum til dómstóla.

16. gr.

Samræmd beiting samkeppnislaga EES


1.     Þegar innlendir dómstólar fella úrskurð um samninga, ákvarðanir eða aðgerðir skv. 53. eða 54. gr. EES-samningsins, sem þegar hefur verið fjallað um í ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA, er þeim ekki heimilt að taka ákvörðun sem gengur gegn þeirri ákvörðun sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur samþykkt. Þeir skulu enn fremur forðast að taka ákvarðanir sem stangast á við ákvörðun sem Eftirlitsstofnun EFTA hyggst taka við málsmeðferð sem hafin er. Innlendum dómstóli er, í þessu skyni, heimilt að meta hvort ástæða sé til að fresta málsmeðferð dómstólsins. Þessi skylda hefur ekki áhrif á réttindi og skyldur skv. 34. gr. samningsins um eftirlitsstofnun og dómstól.

2.     Þegar samkeppnisyfirvöld í EFTA-ríkjunum fella úrskurð um samninga, ákvarðanir eða aðgerðir skv. 53. eða 54. gr. EES-samningsins, sem þegar hefur verið fjallað um í ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA, er þeim ekki heimilt að taka ákvörðun sem stangast á við ákvörðun sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur samþykkt.

V. ÞÁTTUR

VALD TIL RANNSÓKNA

17. gr.

Rannsóknir á einstökum atvinnugreinum og á tegundum samninga


1.     Gefi þróun viðskipta milli aðila að EES-samningnum, ósveigjanleiki í verðmyndun eða aðrar aðstæður ástæðu til að ætla að samkeppni á því svæði, sem EES-samningurinn tekur til, hafi verið takmörkuð eða henni raskað getur Eftirlitsstofnun EFTA ákveðið að gera athugun á tiltekinni atvinnugrein eða tilteknum tegundum samninga í ýmsum atvinnugreinum. Meðan á þeirri athugun stendur er Eftirlitsstofnun EFTA heimilt að fara fram á að hlutaðeigandi fyrirtæki eða samtök fyrirtækja veiti henni nauðsynlegar upplýsingar til að unnt sé að framfylgja 53. og 54. gr. EES-samningsins og getur hún látið gera nauðsynlegar athuganir í því skyni.

Eftirlitsstofnun EFTA er m.a. heimilt að fara fram á að hlutaðeigandi fyrirtæki eða samtök fyrirtækja veiti henni upplýsingar um alla samninga, ákvarðanir og samstilltar aðgerðir.

Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt að birta skýrslu um niðurstöður athugana sinna á tilteknum atvinnugreinum og bjóða þeim sem hagsmuna eiga að gæta að skila inn athugasemdum.

2.     Ákvæði 14., 18., 19., 20., 22., 23. og 24. gr. gilda að breyttu breytanda.

18. gr.

Beiðni um upplýsingar


1.     Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt, með einfaldri beiðni eða ákvörðun, að leita allra nauðsynlegra upplýsinga hjá fyrirtækjum og samtökum fyrirtækja til að henni sé unnt að gegna þeim störfum sem henni eru falin skv. 55. og 58. gr. EES-samningsins, með ákvæðum bókunar 23 og XIV. viðauka við EES-samninginn eða ákvæðum þessa kafla.

2.     Þegar Eftirlitsstofnun EFTA sendir einfalda beiðni um upplýsingar til fyrirtækis eða samtaka fyrirtækja skal hún skýra frá þeim lagagrundvelli og tilgangi sem liggur að baki beiðninni, tilgreina hvaða upplýsinga er óskað og skilafresti þeirra og skýra frá viðurlögum, sem kveðið er á um í 23. gr., við því að gefa rangar eða villandi upplýsingar.

3.     Ef Eftirlitsstofnun EFTA fer fram á það, með ákvörðun, að fyrirtæki og samtök fyrirtækja láti í té upplýsingar skal hún skýra frá þeim lagagrundvelli og tilgangi sem að liggur baki beiðninni, tilgreina hvaða upplýsinga er óskað og skilafrest þeirra. Hún skal einnig tilgreina þau viðurlög sem kveðið er á um í 23. gr. og gefa til kynna eða beita þeim viðurlögum sem kveðið er á um í 24. gr. Hún skal enn fremur skýra frá réttinum til að áfrýja ákvörðuninni til EFTA-dómstólsins.

4.     Eigendum fyrirtækjanna eða fulltrúum þeirra og, þegar um lögaðila er að ræða, félögum eða fyrirtækjum eða, þegar um er að ræða samtök sem hafa ekki réttarstöðu lögaðila, einstaklingum, sem hafa umboð til að koma fram fyrir þeirra hönd samkvæmt lögum eða reglum þeirra, er skylt að veita umbeðnar upplýsingar fyrir hönd hlutaðeigandi fyrirtækis eða samtaka fyrirtækja. Lögfræðingum, sem til þess hafa tilhlýðilegt umboð, er heimilt að veita upplýsingar fyrir hönd viðskiptavina sinna. Hinir síðarnefndu bera áfram fulla ábyrgð á að upplýsingarnar sé hvorki ófullnægjandi, rangar né villandi.

5.     Eftirlitsstofnun EFTA skal senda afrit af hinni einföldu beiðni eða ákvörðun til samkeppnisyfirvalda í EFTA-ríkinu, þar sem fyrirtækið eða samtök fyrirtækja hafa aðsetur, og til samkeppnisyfirvalda í því EFTA-ríki sem þetta hefur áhrif á.

6.     Ríkisstjórnir og samkeppnisyfirvöld í EFTA-ríkjunum skulu, að beiðni Eftirlitsstofnunar EFTA, veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að henni sé unnt að gegna þeim störfum sem henni eru falin samkvæmt þessum kafla.

19. gr.

Heimild til skýrslutöku


1.     Til þess að Eftirlitsstofnun EFTA sé unnt að gegna þeim störfum sem henni eru falin samkvæmt þessum kafla er henni heimilt að taka viðtöl við einstaklinga eða lögaðila sem samþykkja slík viðtöl vegna söfnunar upplýsinga er varða viðfangsefni rannsóknar.

2.     Fari viðtal skv. 1. mgr. fram á athafnasvæði fyrirtækis skal Eftirlitsstofnun EFTA upplýsa samkeppnisyfirvöld í EFTA-ríkinu, þar sem viðtalið fer fram, um það. Fari samkeppnisyfirvöld í því EFTA-ríki fram á það geta embættismenn yfirvaldsins verið embættismönnum og fylgdarmönnum þeirra, sem hafa umboð Eftirlitsstofnunar EFTA til að sjá um slíkt viðtal, til aðstoðar.

20. gr.

Vald Eftirlitsstofnunar EFTA til að gera athuganir


1.     Til þess að Eftirlitsstofnun EFTA geti gegnt þeim störfum sem henni eru falin samkvæmt þessum kafla er henni heimilt að gera allar nauðsynlegar athuganir á fyrirtækjum og samtökum fyrirtækja.

2.     Embættismenn og fylgdarmenn þeirra, sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur veitt umboð til að gera athuganir, hafa vald til:

a)    að fara inn á öll athafnasvæði, allt land eða inn í öll farartæki fyrirtækja og samtaka fyrirtækja,

b)    að rannsaka bókhald og önnur viðskiptaskjöl, hver sem geymslumiðill þeirra er,

c)    að taka eða fá hvers konar afrit eða útdrætti úr slíku bókhaldi eða viðskiptaskjölum,

d)    að innsigla atvinnuhúsnæði og bókhald eða viðskiptaskjöl í þann tíma og að því marki sem nauðsynlegt er vegna athugunarinnar,

e)    að biðja einhvern fulltrúa starfsmanna eða starfsmenn fyrirtækis eða samtaka fyrirtækja um skýringar á málsatvikum eða skjölum sem varða viðfangsefni athugunarinnar og tilgang hennar og skrá svörin.

3.     Embættismenn og fylgdarmenn þeirra, sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur veitt umboð til að gera athuganir, skulu framvísa skriflegu umboði þegar þeir beita valdi sínu þar sem viðfangsefni og tilgangur athugunarinnar kemur fram og þau viðurlög sem kveðið er á um í 23. gr. og beitt er ef þau bókhaldsgögn eða önnur viðskiptaskjöl, sem varða starfsemina, eru ófullnægjandi eða svör við spurningum, sem eru lagðar fyrir skv. 2. mgr. þessarar greinar, eru röng eða villandi. Eftirlitsstofnun EFTA skal tilkynna samkeppnisyfirvöldum í EFTA-ríkinu, þar sem athugunin á að fara fram, um hana með góðum fyrirvara.

Eftirlitsstofnun EFTA skal útvega þeim fulltrúum framkvæmdastjórnar EB, sem munu taka þátt í rannsókninni í samræmi við 3. mgr. 8. gr. bókunar 23 við EES-samninginn, heimild eins og um getur í fyrstu undirgrein.

4.     Fyrirtæki og samtök fyrirtækja skulu fallast á athuganir sem fyrirskipaðar eru samkvæmt ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA. Í ákvörðuninni skal tilgreina viðfangsefnið, tilganginn með athuguninni og hvenær hún á að hefjast og auk þess skal greina frá þeim viðurlögum, sem kveðið er á um í 23. og 24. gr., og réttinum til að áfrýja ákvörðuninni til EFTA-dómstólsins. Eftirlitsstofnun EFTA skal taka slíka ákvörðun að höfðu samráði við samkeppnisyfirvöld í EFTA-ríkinu þar sem athugunin verður gerð.

5.     Embættismenn og aðrir með umboð frá eða tilnefndir af samkeppnisyfirvöldum í EFTA- ríkinu, þar sem athugunin verður gerð, skulu, að beiðni þess yfirvalds eða Eftirlitsstofnunar EFTA, aðstoða embættismenn og fyldarmenn þeirra, sem hafa umboð Eftirlitsstofnunar EFTA, með virkum hætti. Í þessu skyni skulu þeir hafa það vald sem tilgreint er í 2. mgr.

6.     Ef embættismenn og fylgdarmenn þeirra, sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur veitt umboð, komast að raun um að fyrirtæki leggst gegn athugun sem farið er fram á samkvæmt þessari grein skal hlutaðeigandi EFTA-ríki veita þeim nauðsynlega aðstoð og kalla, ef við á, eftir aðstoð lögreglu eða stjórnvalds með sambærilegt framkvæmdarvald til þess að gera þeim kleift að gera athugun sína.

7.     Ef aðstoð, sem kveðið er á um í 6. mgr., krefst heimildar dómsmálayfirvalda samkvæmt landslögum skal sækja um slíka heimild. Einnig er hægt að sækja um slíka heimild sem varúðarráðstöfun.

8.     Ef sótt er um þá heimild sem um getur í 7. mgr. skulu innlend dómsmálayfirvöld hafa eftirlit með því að ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA sé ósvikin og að þær þvingunarráðstafanir, sem stefnt er að, séu hvorki handahófskenndar né óþarflega umfangsmiklar með hliðsjón af viðfangsefni athugunarinnar. Innlendum dómsmálayfirvöldum er heimilt, þegar þau sinna eftirlitsskyldum sínum og kanna hvort þvingunarráðstafanir séu í réttu hlutfalli við brotið, að biðja Eftirlitsstofnun EFTA, beint eða fyrir milligöngu samkeppnisyfirvalda í EFTA-ríkinu, um nákvæmar skýringar, t.d á því á hverju Eftirlitsstofnun EFTA byggi grunsemdir sínar um brot á 53. og 54. gr. EES-samningsins, svo og hversu alvarlegt meint brot er og á hvern hátt hlutaðeigandi fyrirtæki tengist málinu. Innlendum dómsmálayfirvöldum er þó ekki heimilt að vefengja nauðsyn þess að gera athugun eða krefjast þess að fá upplýsingar úr málsskjali Eftirlitsstofnunar EFTA. Einungis EFTA-dómstólinn er til þess bær að fjalla um lögmæti ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA.

21. gr.

Athugun á öðrum athafnasvæðum


1.     Ef fyrir liggur rökstuddur grunur um að bókhald eða önnur viðskiptaskjöl, er varða starfsemina og viðfangsefni athugunarinnar, sem skipta máli til að sanna alvarlegt brot á 53. eða 54. gr. EES-samningsins, séu geymd á öðru athafnasvæði, landsvæði eða í öðru flutningatæki, þ.m.t. á heimilum stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna hlutaðeigandi fyrirtækis og samtaka fyrirtækja, getur Eftirlitsstofnun EFTA tekið ákvörðun um að fyrirskipa athugun á því athafnasvæði, landsvæði eða flutningatæki.

2.     Í ákvörðuninni skal tilgreina viðfangsefnið og tilganginn með athuguninni og hvenær hún á að hefjast og réttinn til að áfrýja ákvörðuninni til EFTA-dómstólsins. Í henni skal það einkum tilgreint sem staðfesti grunsemdir Eftirlitsstofnunar EFTA í skilningi 1. mgr. Eftirlitsstofnun EFTA skal taka slíka ákvörðun að höfðu samráði við samkeppnisyfirvöld í EFTA-ríkinu þar sem athugunin verður gerð.

3.     Ákvörðun, sem er samþykkt skv. 1. mgr., verður ekki komið til framkvæmda nema fyrir liggi heimild innlendra dómsmálayfirvalda í hlutaðeigandi EFTA-ríki. Innlend dómsmálayfirvöld skulu hafa eftirlit með því að ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA sé ósvikin og að þær þvingunarráðstafanir, sem stefnt er að, séu hvorki handahófskenndar né óþarflega umfangsmiklar, einkum með hliðsjón af því hversu alvarlegt meint brot er, mikilvægi þeirra sannanna sem leitað er, þátttöku hlutaðeigandi fyrirtækis og því hversu líklegt má telja að bókhald og viðskiptaskjöl, er varða viðfangsefni athugunarinnar, séu geymd á því athafnasvæði sem heimildin varðar. Innlendum dómsmálayfirvöldum er heimilt að biðja Eftirlitsstofnun EFTA, beint eða fyrir milligöngu samkeppnisyfirvalda í EFTA-ríkinu, um nákvæmar skýringar á þeim atriðum sem nauðsynleg teljast vegna eftirlits þeirra með því að þær þvingunarráðstafanir, sem stefnt er að, séu í réttu hlutfalli við brot.

Innlendum dómsmálayfirvöldum er þó ekki heimilt að vefengja nauðsyn þess að gera athugun eða krefjast þess að fá upplýsingar úr málsskjali Eftirlitsstofnunar EFTA. Einungis EFTA- dómstólinn er til þess bær að fjalla um lögmæti ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA.

4.     Embættismenn og fylgdarmenn þeirra, sem hafa umboð Eftirlitsstofnunar EFTA til að gera athugun, sem er fyrirskipuð í samræmi við 1. mgr. þessarar greinar, skulu hafa það valdsvið sem mælt er fyrir um í a-, b- og c-lið 2. mgr. 20. gr. Ákvæði 5. og 6. mgr. 20. gr. gilda að breyttu breytanda.

22. gr.

Rannsóknir samkeppnisyfirvalda í EFTA-ríkjunum


1.     Samkeppnisyfirvöldum í EFTA-ríki er heimilt að láta fara fram hvers konar athugun eða gagnaöflun á yfirráðasvæði sínu samkvæmt landslögum fyrir hönd og á kostnað samkeppnisyfirvalda í öðru EFTA-ríki í því skyni að sannreyna að brot á 53. eða 54. gr. EES-samningsins hafi átt sér stað. Skipti á og notkun upplýsinga, sem safnað er, skulu fara fram í samræmi við 12. gr.

2.     Samkeppnisyfirvöld í EFTA-ríkjunum geta, að beiðni Eftirlitsstofnunar EFTA, tekið að sér að gera þær athuganir sem hún telur nauðsynlegar skv. 1. mgr. 20. gr. eða á grundvelli ákvörðunar skv. 4. mgr. 20. gr. Embættismenn samkeppnisyfirvalda í EFTA-ríkjunum, sem bera ábyrgð á þessum athugunum, og aðrir, sem þau hafa veitt umboð eða tilnefnt, skulu hafa það valdsvið sem þeim er veitt í samræmi við landslög.

Embættismönnum og fylgdarmönnum þeirra, sem hafa umboð Eftirlitsstofnunar EFTA, er heimilt að veita embættismönnum samkeppnisyfirvalda í því EFTA-ríki, þar sem athugunin fer fram, aðstoð ef Eftirlitsstofnun EFTA eða hlutaðeigandi yfirvald fer fram á það.

VI. ÞÁTTUR

VIÐURLÖG

23. gr.

Sektir


1.     Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt að taka ákvörðun um að sekta fyrirtæki og samtök fyrirtækja um fjárhæð sem fer ekki yfir 1% af heildarveltu næstliðins rekstrarárs ef þau, vísvitandi eða af gáleysi:

a)    veita rangar eða villandi upplýsingar sem svar við beiðni skv. 17. gr. eða 2. mgr. 18. gr.,

b)    veita rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar sem svar við beiðni samkvæmt ákvörðun skv. 17. gr. eða 3. mgr. 18. gr. eða veita ekki upplýsingar innan tilskilins frests,

c)    framvísa ófullnægjandi bókhaldi eða öðrum viðskiptaskjölum þegar athuganir fara fram skv. 20. gr. eða neita að fallast á athugun sem fyrirskipuð hefur verið með ákvörðun skv. 4. mgr. 20. gr.,

d)    að því er varðar spurningu sem er lögð fyrir í samræmi við e-lið 2. mgr. 20. gr.,

    —    gefa rangt eða villandi svar,

    —    leiðrétta ekki, innan tilskilins frests sem Eftirlitsstofnun EFTA setur, rangt, ófullnægjandi eða villandi svar sem starfsmaður hefur gefið, eða

    —    svara ekki eða neita að veita fullnægjandi svar um málsatvik sem varða viðfangsefni og tilgang athugunar sem er fyrirskipuð með ákvörðun skv. 4. mgr. 20. gr.,

e)    hafa rofið innsigli sem embættismenn eða fylgdarmenn þeirra, sem hafa umboð Eftirlitsstofnunar EFTA, hafa komið fyrir í samræmi við d-lið 2. mgr. 20. gr.

2.     Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt að taka ákvörðun um að sekta fyrirtæki og samtök fyrirtækja þegar þau, vísvitandi eða af gáleysi:

a)    brjóta gegn 53. eða 54. gr. EES-samningsins, eða

b)    brjóta í bága við ákvörðun um tímabundnar ráðstafanir skv. 8. gr., eða

c)    standa ekki við skuldbindingar sem eru bindandi á grundvelli ákvörðunar skv. 9. gr.

Fjárhæð sektar skal ekki vera hærri en 10% af heildarveltu næstliðins rekstrarárs fyrir hvert fyrirtæki og hver samtök fyrirtækja sem eiga þátt í brotinu.

Ef brot samtaka tengjast starfsemi aðila þeirra skal fjárhæð sektar ekki vera hærri en 10% af heildarveltu hvers aðila sem er virkur á þeim markaði sem brot samtakanna hefur áhrif á.

3.     Við ákvörðun um fjárhæð sektarinnar skal bæði taka tillit til þess hversu alvarlegt brotið er og hversu lengi það hefur viðgengist.

4.     Ef samtök fyrirtækja eru sektuð með hliðsjón af veltu aðila að samtökunum og þau eru ekki gjaldhæf eru samtökin skuldbundin til að leita eftir framlagi frá aðilum að samtökunum til greiðslu sektarinnar.

Ef slík framlög berast samtökunum ekki innan þess frests sem Eftirlitsstofnun EFTA setur er henni heimilt að krefjast greiðslu sektarinnar beint frá einhverju þeirra fyrirtækja sem áttu fulltrúa í þeim stjórnum samtakanna sem hlut eiga að máli.

Þegar Eftirlitsstofnun EFTA hefur krafist greiðslu samkvæmt annarri undirgrein er henni heimilt, til að tryggja fullnaðargreiðslu sektarinnar, að krefja einhvern þann aðila að samtökunum, sem er virkur á þeim markaði þar sem brotið á sér stað, um greiðslu á mismuninum.

Eftirlitsstofnun EFTA er hins vegar óheimilt að krefja þau fyrirtæki um greiðslu samkvæmt annarri eða þriðju undirgrein sem sýna fram á að þau hafi ekki unnið eftir ákvörðun samtakanna, þar sem hvatt er til brotsins, eða var ókunnugt um þá ákvörðun eða lagst gegn henni áður en Eftirlitsstofnun EFTA hóf rannsókn málsins.

Fjárskuldbinding hvers fyrirtækis vegna greiðslu sektarinnar skal ekki vera hærri en 10% af heildarveltu þess á næstliðnu rekstrarári.

5.     Ákvarðanir, sem teknar eru skv. 1. og 2. mgr., varða ekki hegningarlög.

24. gr.

Févíti


1.     Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt að taka ákvörðun um févíti á fyrirtæki eða samtök fyrirtækja sem nemur fjárhæð sem fer ekki yfir 5% af meðaldagsveltu næstliðins rekstrarárs, reiknað frá þeim degi sem tilgreindur er í ákvörðuninni, í því skyni að þvinga þau til:

a)    að láta af broti á 53. eða 54. gr. EES-samningsins í samræmi við ákvörðun skv. 7. gr.,

b)    að fara að ákvörðun um tímabundnar ráðstafanir skv. 8. gr.,

c)    að standa við skuldbindingar sem eru bindandi á grundvelli ákvörðunar skv. 9. gr.,

d)    að veita tæmandi og réttar upplýsingar sem hún hefur farið fram á með ákvörðun skv. 17. gr. eða 3. mgr. 18. gr.,

e)    að fallast á athugun sem hún hefur fyrirskipað með ákvörðun skv. 4. mgr. 20. gr.

2.     Þegar fyrirtæki eða samtök fyrirtækja hafa fullnægt þeirri skuldbindingu sem févítinu var ætlað að knýja fram er Eftirlitsstofnun EFTA heimilt að ákvarða lægri heildarfjárhæð févítis en orðið hefði samkvæmt upphaflegu ákvörðuninni. Ákvæði 4. mgr. 23. gr. gilda á hliðstæðan hátt.

VII. ÞÁTTUR

FYRNINGARFRESTUR

25. gr.

Fyrningarfrestur að því er varðar viðurlög


1.     Valdsvið, sem Eftirlitsstofnun EFTA er falið skv. 23. og 24. gr., er með fyrirvara um eftirfarandi fyrningarfresti:

a)    þrjú ár þegar um er að ræða brot á ákvæðum um upplýsingar sem krafist er eða framgang athugana,

b)    fimm ár fyrir öll önnur brot.

2.     Fresturinn hefst daginn sem brotið er framið. Sé hins vegar um áframhaldandi eða endurtekin brot að ræða skal fresturinn talinn frá þeim degi er brotinu lýkur.

3.     Hefjist Eftirlitsstofnun EFTA eða samkeppnisyfirvöld í EFTA-ríki handa við rannsókn eða málsmeðferð er varðar brot skal gera hlé á fyrningarfresti vegna sekta eða févítis. Hlé er gert á fyrningarfresti frá og með þeim degi sem a.m.k. einu fyrirtæki eða samtökum fyrirtækja, sem aðild eiga að brotinu, er tilkynnt um aðgerðina. Aðgerðir, sem valda því að gert er hlé á fyrningarfresti, eru einkum:

a)    skriflegar beiðnir um upplýsingar frá Eftirlitsstofnun EFTA eða samkeppnisyfirvöldum í EFTA-ríki,

b)    skriflegt umboð til athugana sem Eftirlitsstofnun EFTA eða samkeppnisyfirvöld í EFTA- ríki veita embættismönnum sínum,

c)    upphaf málsmeðferðar af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA eða samkeppnisyfirvalda í EFTA- ríki,

d)    tilkynning um andmæli af hálfu Eftirlitsstofnunar EFTA eða samkeppnisyfirvalda í EFTA- ríki.

4.     Hlé á fyrningarfresti gildir gagnvart öllum fyrirtækjum eða samtökum fyrirtækja sem eiga aðild að brotinu.

5.     Í hvert sinn sem fyrningarfrestur er rofinn hefst jafnlangur frestur að nýju. Fyrningarfrestur rennur þó út eigi síðar en að tvöföldum fyrningarfresti liðnum án þess að Eftirlitsstofnun EFTA hafi ákvarðað sekt eða févíti. Framlengja skal frestinn sem þeim tíma nemur er hlé var gert á fyrningu skv. 6. mgr.

6.     Gera skal hlé á fyrningarfresti vegna sekta eða févíta á meðan ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA er til meðferðar hjá EFTA-dómstólnum.

26. gr.

Fyrningarfrestur til fullnustu viðurlaga


1.     Vald Eftirlitsstofnunar EFTA til fullnustu ákvarðana skv. 23. og 24. gr. er með fyrirvara um fyrningarfrest til fimm ára.

2.     Fresturinn hefst á þeim degi sem lokaákvörðun er tekin í málinu.

3.     Gera skal hlé á fyrningarfresti til fullnustu viðurlaga þegar:

a)    tilkynnt er um ákvörðun um breytingu á upphaflegri fjárhæð sektar eða févítis eða þegar umsókn um breytingu er hafnað,

b)    Eftirlitsstofnun EFTA eða EFTA-ríki að beiðni Eftirlitsstofnunar EFTA hefst handa í þeim tilgangi að krefjast greiðslu á sekt eða févíti.

4.     Í hvert sinn sem fyrningarfrestur er rofinn hefst jafnlangur frestur að nýju.

5.     Fyrningarfrestur til fullnustu viðurlaga skal felldur niður tímabundið þegar:

a)    greiðslufrestur er veittur,

b)    fullnustu greiðslu er skotið á frest samkvæmt ákvörðun EFTA-dómstólsins.

VIII. ÞÁTTUR

SKÝRSLUGJÖF OG ÞAGNARSKYLDA

27. gr.

Skýrslugjöf málsaðila, kvartenda og annarra


1.     Áður en Eftirlitsstofnun EFTA tekur ákvörðun, eins og kveðið er á um í 7., 8. og 23. gr. og 24. gr. (2. mgr.), skal hún veita hlutaðeigandi einstaklingum, fyrirtækjum eða samtökum fyrirtækja, sem málsmeðferð hennar varðar, tækifæri til að skýra frá sjónarmiðum sínum í málum sem hún hefur andmælt. Eftirlitsstofnun EFTA skal einungis byggja ákvarðanir sínar á andmælum sem málsaðilum hefur verið gefinn kostur á að tjá sig um. Kvartendur skulu hafa náin tengsl við málsmeðferðina.

2.     Réttur hlutaðeigandi til varnar skal virtur að fullu í málinu. Þeir skulu hafa rétt til aðgangs að málsskjölum Eftirlitsstofnunar EFTA en taka skal tillit til lögmætra hagsmuna fyrirtækja sem vilja varðveita viðskiptaleyndarmál sín. Réttur til aðgangs að málsskjölum nær ekki til trúnaðarupplýsinga og innanhússskjala Eftirlitsstofnunar EFTA eða samkeppnisyfirvalda í EFTA-ríkjunum. Réttur til aðgangs nær t.a.m. ekki til bréfaskipta Eftirlitsstofnunar EFTA og samkeppnisyfirvalda í EFTA-ríkjunum eða innbyrðis milli samkeppnisyfirvalda, þ.m.t. talin skjöl samin skv. 11. og 14. gr.

3.     Eftirlitsstofnun EFTA er einnig heimilt að hlýða á málflutning annarra einstaklinga eða lögaðila telji hún ástæðu til þess. Verða skal við umsóknum þessara einstaklinga og lögaðila um skýrslugjöf geti þeir sýnt fram á að þeir hafi nægilegra hagsmuna að gæta. Samkeppnisyfirvöld í EFTA-ríkjunum geta einnig farið fram á það við Eftirlitsstofnun EFTA að aðrir einstaklingar eða lögaðilar fái að gefa skýrslu.

4.     Ef Eftirlitsstofnun EFTA hyggst samþykkja ákvörðun skv. 9. eða 10. gr. skal hún birta gagnorða samantekt um málið og megininntak skuldbindinga eða fyrirhugaðra aðgerða. Þriðju aðilum, sem eiga hagsmuna að gæta, er heimilt að leggja fram athugasemdir sínar innan frests sem Eftirlitsstofnun EFTA setur og skal hann við birtingu vera minnst einn mánuður. Við birtingu skal taka tillit til lögmætra hagsmuna fyrirtækja sem vilja varðveita viðskiptaleyndarmál sín.

28. gr.

Þagnarskylda


1.     Með fyrirvara um 9. gr. í bókun 23 við EES-samninginn og 12. og 15. gr. þessa kafla skulu upplýsingar, sem aflað er skv. 17. til 22. gr. eða 58. gr. EES-samningsins og bókun 23 við hann, einungis notaðar í þeim tilgangi sem lá að baki öflun þeirra.

2.     Með fyrirvara um upplýsingaskipti og notkun upplýsinga, sem gert er ráð fyrir í 11., 12., 14., 15. og 27. gr., skulu Eftirlitsstofnun EFTA og samkeppnisyfirvöld í EFTA-ríkjunum, embættismenn þeirra og aðrir þeir sem vinna undir stjórn þessara yfirvalda, svo og embættismenn og opinberir starfsmenn annarra yfirvalda í EFTA-ríkjunum, ekki veita þær upplýsingar, sem farið er fram á, eða skiptast á þeim upplýsingum skv. þessum kafla eða 58. gr. EES- samningsins og bókun 23 við hann né heldur þær upplýsingar sem falla undir þagnarskyldu. Þessi skylda tekur einnig til allra fulltrúa og sérfræðinga EFTA-ríkjanna sem sitja fundi ráðgjafarnefndarinnar skv. 14. gr.

Þessi skylda tekur einnig til fulltrúa framkvæmdastjórnar EB og aðildarríkja EB sem taka þátt í störfum ráðgjafarnefndarinnar skv. 8. mgr. 14. gr. og í skýrslugjöf skv. 2. mgr. 8. gr. í IV. kafla.

IX. ÞÁTTUR

GERÐIR UM UNDANÞÁGU

29. gr.

Afturköllun í einstökum tilvikum


1.     Ef það leiðir af gerðum í XIV. viðauka við EES-samninginn að ekki er unnt að beita 1. mgr. 53. gr. EES-samningsins að því er varðar ákveðnar tegundir samninga, ákvarðana og samstilltra aðgerða er Eftirlitsstofnun EFTA heimilt, að eigin frumkvæði eða á grundvelli kvörtunar, að fella niður ávinning af slíkri undanþágugerð ef hún kemst að því að samningur, ákvörðun eða samstillt aðgerð, sem undanþágugerðin á við um, hafi í einhverju tilviki leitt til tiltekinna áhrifa sem samrýmast ekki 3. mgr. 53. gr. EES-samningsins.

2.     Ef samningar, ákvarðanir samtaka fyrirtækja eða samstilltar aðgerðir, sem réttarregla, sem um getur í 1. mgr, á við um, hafa þau áhrif í einhverju tilviki að samrýmist ekki 3. mgr. 53. gr. EES-samningsins á yfirráðasvæði EFTA-ríkis eða hluta þess, sem ber öll einkenni sérstaks landfræðilegs markaðar, er samkeppnisyfirvöldum í því EFTA-ríki heimilt að afturkalla ávinning af viðkomandi reglu að því er þetta yfirráðasvæði varðar.

X. ÞÁTTUR

ALMENN ÁKVÆÐI

30. gr.

Birting ákvarðana


1.     Eftirlitsstofnun EFTA skal birta þær ákvarðanir sem hún tekur skv. 7. til 10. gr. og 23. og 24. gr.

2.     Við birtingu skulu koma fram nöfn málsaðila og megininntak ákvörðunarinnar, þ.m.t. hvaða viðurlögum er beitt. Við birtingu skal taka tillit til lögmætra hagsmuna fyrirtækja sem vilja varðveita viðskiptaleyndarmál sín.

31. gr.

Áfrýjun til EFTA-dómstólsins


EFTA-dómstóllinn hefur ótakmarkaða lögsögu til að fjalla um lögmæti ákvarðana Eftirlitsstofnunar EFTA um sektir eða févíti. Honum er heimilt að fella niður sekt eða févíti og hækka eða lækka fjárhæðir þeirra.

32. gr.

Undantekningar


Þessi kafli gildir ekki um:

a)    alþjóðlega þjónustu með leiguskip eins og skilgreint er í a-lið 3. mgr. 1. gr. þeirrar gerðar sem um getur í 11. lið í 3. gr. bókunar 21 við EES-samninginn (reglugerð (EBE) nr. 4056/86),

b)    sjóflutningaþjónustu milli hafna í einu og sama EFTA-ríkinu eingöngu eins og mælt er fyrir um í 2. mgr. 1. gr. gerðarinnar sem um getur í 11. lið 3. gr. bókunar 21 við EES- samninginn (reglugerð (EBE) nr. 4056/86),

c)    flutninga í lofti milli flugvalla á yfirráðasvæði, sem fellur undir EES-samninginn, og þriðju landa.

33. gr.

Framkvæmdarákvæði


1.     Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt að gera viðeigandi ráðstafanir til að beita þessum kafla. Þær ráðstafanir geta m.a. tekið til:

a)    framsetningar, efnis og annarra atriða kvartana sem eru lagðar fram skv. 7. gr. og þeirrar málsmeðferðar sem lýtur að frávísun kvartana,

b)    hagnýtrar tilhögunar á upplýsingaskiptum og samráði sem kveðið er á um í 11. gr.,

c)    hagnýtrar tilhögunar við skýrslugjöf sem kveðið er á um í 27. gr.

2.     Áður en Eftirlitsstofnun EFTA samþykkir ráðstafanir skv. 1. mgr. skal hún birta drög að þeim og bjóða öllum hagsmunaaðilum að skila inn athugasemdum sínum innan þess frests sem settur er og skal hann ekki vera skemmri en einn mánuður. Áður en Eftirlitsstofnun EFTA birtir drög að ráðstöfunum og samþykkir þær skal hún hafa samráð við ráðgjafarnefndina um samkeppnishömlur og yfirburðastöðu.

XI. ÞÁTTUR

BRÁÐABIRGÐAÁKVÆÐI OG SÉRÁKVÆÐI

34. gr.

Tilvísanir í eldri greinar og kafla


Í þessum þætti er litið svo á að tilvísanir í eldri greinar og kafla jafngildi tilvísunum í þær greinar og kafla eins og þeim var beitt fyrir gildistöku samningsins um breytingu á bókun 4 við samning EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls sem undirritaður var 24. september 2004.

35. gr.

Bráðabirgðaákvæði


1.     Umsóknir til Eftirlitsstofnunar EFTA skv. fyrrverandi 2. gr. í II. kafla I. hluta, tilkynningar skv. fyrrverandi 4. og 5. gr. þess kafla og samsvarandi umsóknir og tilkynningar samkvæmt fyrrverandi VI., IX. og XI. kafla II. hluta falla úr gildi.

2.     Ráðstafanir tengdar málsmeðferð, sem eru gerðar samkvæmt fyrrverandi II. kafla I. hluta og VI., IX. og XI. kafla II. hluta, gilda áfram að því er varðar beitingu þessa kafla.

36. gr.

Gildistími og afturköllun ákvarðana um að beita 5. gr. þeirrar gerðar sem um getur í 10. lið XIV. viðauka við EES-samninginn (reglugerð (EBE) nr. 1017/68)


Eftirfarandi ákvæði gildir áfram um ákvarðanir sem eru samþykktar skv. 5. gr. gerðarinnar sem um getur í 10. lið XIV. viðauka (reglugerð (EBE) nr. 1017/68) þar til ákvarðanirnar falla úr gildi:

    Eftirlitsstofnun EFTA getur afturkallað eða breytt ákvörðun sinni eða bannað tilteknar athafnir aðila:

    a)    hafi einhverjar grundvallarforsendur fyrir ákvörðuninni breyst,

    b)    bregðist aðilar einhverjum skyldum sem fylgja ákvörðuninni,

    c)    byggist ákvörðunin á röngum upplýsingum eða hafi hún verið tekin með blekkingum,

    d)    misnoti aðilar undanþágu þá frá ákvæðum 2. gr. fyrrnefndrar gerðar sem þeim var veitt með ákvörðuninni.

    Í tilvikum, sem falla undir b-, c- eða d-lið, má afturkalla ákvörðunina afturvirkt.

37. gr.

Gildistími og afturköllun ákvarðana um að beita 3. mgr. 53. gr. EES-samningsins (reglugerð (EBE) nr. 4056/86) að því er varðar sjóflutninga


Eftirfarandi ákvæði gildir áfram um ákvarðanir um að beita 3. mgr. 53. gr. EES-samningsins, að því er varðar sjóflutninga, í samræmi við fyrrverandi IX. kafla II. hluta þar til ákvarðanirnar falla úr gildi:

    Eftirlitsstofnun EFTA getur afturkallað eða breytt ákvörðun sinni eða bannað tilteknar athafnir aðila:

    a)    hafi einhverjar grundvallarforsendur fyrir ákvörðuninni breyst,

    b)    bregðist aðilar einhverjum skyldum sem fylgja ákvörðuninni,

    c)    byggist ákvörðunin á röngum upplýsingum eða hafi hún verið tekin með blekkingum, eða

    d)    misnoti aðilar undanþágu þá frá ákvæðum 1. mgr. 53. gr. sem þeim var veitt með ákvörðuninni.

    Í tilvikum, sem falla undir b-, c- eða d-lið, má afturkalla ákvörðunina afturvirkt.

38. gr.

Gildistími og afturköllun ákvarðana um að beita 3. mgr. 53. gr. EES-samningsins
(reglugerð (EBE) nr. 3975/87) að því er varðar flutninga í lofti


Eftirfarandi ákvæði gildir áfram um ákvarðanir um að beita 3. mgr. 53. gr. EES-samningsins að því er varðar flutninga í lofti í samræmi við fyrrverandi IX. kafla II. hluta þar til ákvarðanirnar falla úr gildi:

    Eftirlitsstofnun EFTA getur afturkallað eða breytt ákvörðun sinni eða bannað tilteknar athafnir aðila:

    a)    hafi einhverjar grundvallarforsendur fyrir ákvörðuninni breyst,

    b)    bregðist aðilar einhverjum skyldum sem fylgja ákvörðuninni,

    c)    byggist ákvörðunin á röngum upplýsingum eða hafi hún verið tekin með blekkingum, eða

    d)    misnoti aðilar undanþágu þá frá ákvæðum 1. mgr. 53. gr. sem þeim var veitt með ákvörðuninni.

    Í tilvikum, sem falla undir b-, c- eða d-lið, má afturkalla ákvörðunina afturvirkt.

39. gr.

Gildistími og afturköllun ákvarðana um að beita 3. mgr. 53. gr. EES-samningsins
(reglugerð 17/62)


Eftirfarandi ákvæði gildir áfram um ákvarðanir um að beita 3. mgr. 53. gr. EES-samningsins í samræmi við fyrrverandi II. kafla I. hluta þar til ákvarðanirnar falla úr gildi:

    Eftirlitsstofnun EFTA getur afturkallað eða breytt ákvörðun sinni eða bannað tilteknar athafnir aðila:

    a)    hafi einhverjar grundvallarforsendur fyrir ákvörðuninni breyst,

    b)    bregðist aðilar einhverjum skyldum sem fylgja ákvörðuninni,

    c)    byggist ákvörðunin á röngum upplýsingum eða hafi hún verið tekin með blekkingum, eða

    d)    misnoti aðilar undanþágu þá frá ákvæðum 1. mgr. 53. gr. sem þeim var veitt með ákvörðuninni.

    Í tilvikum, sem falla undir b-, c- eða d-lið, má afturkalla ákvörðunina afturvirkt.“

40. gr.

Tilnefning samkeppnisyfirvalda í EFTA-ríkjum


1.     EFTA-ríkin skulu tilnefna samkeppnisyfirvöld eða önnur yfirvöld sem annast skulu beitingu 53. og 54. gr. EES-samningsins með þeim hætti að farið sé með skilvirkum hætti að ákvæðum II. kafla þessarar bókunar. Tilnefnd yfirvöld geta einnig verið dómstólar.

2.     Ef innlend stjórnvöld og dómsmálayfirvöld hafa umboð til að annast framkvæmd samkeppnislaga EES er EFTA-ríkjunum heimilt að fá mismunandi landsyfirvöldum, hvort sem um er að ræða stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld, ólíkt valdsvið og hlutverk.

3.     Áhrif 6. mgr. 11. gr. ná til yfirvalda sem EFTA-ríkin tilnefna, þ.m.t. dómstólar sem hafa hlutverki að gegna við undirbúning og samþykkt þeirra tegunda ákvarðana sem mælt er fyrir um í 5. gr. Áhrif 6. mgr. 11. gr. ná ekki til dómstóla sem starfa sem endurskoðunardómstólar að því er varðar þær tegundir ákvarðana sem mælt er fyrir um í 5. gr.

4.     Ef yfirvald fer með mál, vegna samþykktar á tilteknum tegundum ákvarðana sem greint er frá í 5. gr., fyrir dómsmálayfirvöld í EFTA-ríki, önnur en til saksóknara, og að því tilskildu að farið sé að skilmálum þessarar málsgreinar, skulu áhrif 6. mgr. 11. gr., þrátt fyrir 3. mgr., einungis ná til þess yfirvalds sem sækir málið og skal það yfirvald draga kröfu sína fyrir dómsmálayfirvaldinu til baka ef Eftirlitsstofnun EFTA hefur málsmeðferð og afturköllun málsins verður til þess að unnt er að ljúka innlendri málsmeðferð með árangursríkum hætti.

41. gr.

Fyrirvari að því er varðar Liechtenstein


Furstadæminu Liechtenstein ber engin skylda til að tilnefna samkeppnisyfirvöld eða önnur yfirvöld sem annast beitingu 53. og 54. gr. EES-samningsins. Þegar Furstadæmið Liechtenstein veitir samkeppnisyfirvöldum eða öðrum yfirvöldum vald til að beita 53. og 54. gr. EES- samningsins skal það upplýsa hin EFTA-ríkin og Eftirlitsstofnun EFTA um það.

42. gr.

Sérákvæði


Eftirlitsstofnun EFTA getur lagt fyrir EFTA-ríkin, til samráðs í fastanefndinni í samræmi við 2. gr. samningsins um fastanefnd EFTA-ríkjanna, tillögur um beitingu 3. mgr. 53. gr. EES- samningsins að því er varðar ákveðnar tegundir af samningum, ákvörðunum og samstilltum aðgerðum.“

2. gr.


Eftirfarandi breytingar eru gerðar á efnisyfirliti við bókun 4 við samninginn um eftirlitsstofnun og dómstól:

1.     Í stað texta II. kafla í I. hluta komi „Almennar reglur um málsmeðferð vegna framkvæmdar á 53. og 54. gr. EES-samningsins (sbr. reglugerð (EB) nr. 1/2003)“

2.     Ákvæði VI. og IX. kafla í II. hluta falli niður.

3. gr.


Texti VI. kafla í bókun 4 við samninginn um eftirlitsstofnun og dómstól falli niður.

4. gr.


Texti IX. kafla í bókun 4 við samninginn um eftirlitsstofnun og dómstól falli niður.

5. gr.


Ákvæði 3. til 19. gr. í XI. kafla í bókun 4 við samninginn um eftirlitsstofnun og dómstól falli niður.

6. gr.


1.     EFTA-ríkin skulu samþykkja samning þennan, sem er gerður í einu fullgiltu eintaki á ensku, í samræmi við stjórnskipuleg skilyrði hvers þeirra um sig.

Samningur þessi skal gerður og fullgiltur á þýsku, íslensku og norsku áður en sex mánuðir eru liðnir frá gildistöku hans.

2.     Samningur þessi skal afhentur til vörslu hjá ríkisstjórn Noregs sem skal tilkynna öllum hinum EFTA-ríkjunum um það.

Skjal um staðfestingu skal afhent til vörslu hjá ríkisstjórn Noregs sem skal tilkynna öllum hinum EFTA-ríkjunum um það.

3.     Samningur þessi öðlast gildi sama dag og ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 130/2004 frá 24. september 2004 eða þegar öll skjöl um staðfestingu hafa verið afhent til vörslu hjá EFTA-ríkjunum, hvort sem síðar verður.

ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirritaðir, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

Gjört í Brussel 24. september 2004.

         
     FYRIR HÖND LÝÐVELDISINS
     ÍSLANDS

         
     FYRIR HÖND FURSTADÆMISINS
     LIECHTENSTEINS

         
     FYRIR HÖND KONUNGSRÍKISINS
     NOREGS


Fylgiskjal IV.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 178/2004

frá 3. desember 2004

um breytingu á bókun 21 (um framkvæmd samkeppnisreglna sem gilda um fyrirtæki) og bókun 23 (um samvinnu milli eftirlitsstofnana) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir „samningurinn“, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        Bókun 21 við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 130/2004 frá 24. september 2004 ( 1 ).

2)         Bókun 23 við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 130/2004 frá 24. september 2004 ( 2 ).

3)         Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 773/2004 frá 7. apríl 2004 um málsmeðferð framkvæmdastjórnarinnar skv. 81. og 82. gr. EB-sáttmálans ( 3 ) skal felld inn í samninginn.

4)         Með reglugerð (EB) nr. 773/2004 eru felldar úr gildi reglugerðir framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 3385/94 ( 4 ), (EB) nr. 2842/98 ( 5 ) og (EB) nr. 2843/98 ( 6 ), en þær gerðir hafa verið felldar inn í samninginn og ber því að fella þær brott.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.


Ákvæði 3. gr. bókunar 21 við samninginn breytist sem hér segir:

1.        Í stað texta 4. liðar 1. mgr. (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 3385/94) komi eftirfarandi:

         „32004 R 0773: Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 773/2004 frá 7. apríl 2004 um málsmeðferð framkvæmdastjórnarinnar skv. 81. og 82. gr. EB-sáttmálans (Stjtíð. ESB L 123, 27.4.2004, bls. 18).“

2.         Texti 5. liðar 1. mgr. (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2842/98), 15. liðar 1. mgr. (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2842/98) og 16. liðar 1. mgr. (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2843/98) falli brott.

2. gr.


Eftirfarandi bætist við á eftir 10. gr. bókunar 23 við samninginn:

„AÐGANGUR AÐ MÁLSSKJÖLUM

10. gr. A


Þegar eftirlitsstofnun veitir aðilum, sem andmælum er beint til, aðgang að málsskjölum skal aðgangurinn ekki taka til innanhússskjala hinnar eftirlitsstofnunarinnar eða samkeppnisyfirvalda í aðildarríkjum EB og EFTA-ríkjunum. Réttur til aðgangs að málsskjölum nær t.a.m. ekki til bréfaskipta á milli eftirlitsstofnananna, milli eftirlitsstofnunar og samkeppnisyfirvalda í aðildarríkjum EB eða EFTA-ríkjunum eða milli samkeppnisyfirvalda í aðildarríkjum EB eða í EFTA-ríkjunum þegar slík bréfaskipti eru hluti af málsskjölum þar til bærrar eftirlitsstofnunar.“

3. gr.


Íslenskur og norskur texti reglugerðar (EB) nr. 773/2004, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

4. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 4. desember 2004 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ) eða sama dag og ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 130/2004 frá 24. september 2004, hvort sem síðar verður.

5. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 3. desember 2004.

    Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    Kjartan Jóhannsson


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    Ø. Hovdkinn     M. Brinkmann


Fylgiskjal V.


REGLUGERÐ FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR (EB) nr. 773/2004
frá 7. apríl 2004
um málsmeðferð framkvæmdastjórnarinnar skv. 81. og 82. gr. EB-sáttmálans
(Texti sem varðar EES)


FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUBANDALAGANNA HEFUR,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins,
með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið,
með hliðsjón af reglugerð ráðsins (EB) nr. 1/2003 frá 16. desember 2002 um framkvæmd samkeppnisreglna sem mælt er fyrir um í 81. og 82. gr. sáttmálans ( 1 ), einkum 33. gr.,
að höfðu samráði við ráðgjafarnefndina um samkeppnishömlur og yfirburðastöðu,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
     1)      Í reglugerð (EB) nr. 1/2003 er framkvæmdastjórninni fengið vald til að setja reglur um tiltekna þætti málsmeðferðar vegna beitingar 81. og 82. gr. sáttmálans. Nauðsynlegt er að mæla fyrir um reglur um að hefja málsmeðferð sem framkvæmdastjórnin beitir og einnig um meðferð kvartana og skýrslna sem teknar eru af viðkomandi málsaðilum.
     2)      Samkvæmt reglugerð (EB) nr. 1/2003 ber innlendum dómstólum skylda til að forðast að taka ákvarðanir sem gætu farið í bága við fyrirhugaðar ákvarðanir framkvæmdastjórnarinnar í sama máli. Samkvæmt 6. mgr. 11. gr. þeirrar reglugerðar er valdi samkeppnisyfirvalda í aðildarríkjunum aflétt þegar framkvæmdastjórnin hefur hafið málsmeðferð til samþykktar ákvörðun skv. III. kafla reglugerðar (EB) nr. 1/2003. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að dómstólar og samkeppnisyfirvöld aðildarríkjanna fái vitneskju um það þegar framkvæmdastjórnin hefur málsmeðferð. Þess vegna skal framkvæmdastjórnin geta birt opinberlega ákvarðanir sínar um að hefja málsmeðferð.
     3)      Áður en munnlegur málflutningur er fenginn frá einstaklingum eða lögaðilum, sem samþykkja að veita viðtal, skal framkvæmdastjórnin skýra þessum aðilum frá því hvaða lagagrundvöllur liggur að baki viðtalinu og að þeim sé í sjálfsvald sett hvort þeir veita það. Einnig skal upplýsa þá sem viðtal er tekið við um tilganginn með viðtalinu og hvort það sé skráð á einhvern hátt. Til að tryggja að málflutningurinn sé eins nákvæmur og hægt er má einnig gefa þeim sem viðtal er tekið við kost á að leiðrétta skráðan málflutning. Ef skipst er á upplýsingum, sem eru fengnar með munnlegum málflutningi, skv. 12. gr. reglugerðar (EB) nr. 1/2003 skal einungis nota þær upplýsingar sem sönnunargögn þegar beita skal einstaklinga viðurlögum og skilyrðum þeirrar greinar er fullnægt.
     4)      Samkvæmt d-lið 1. mgr. 23. gr. í reglugerð (EB) nr. 1/2003 er heimilt að sekta fyrirtæki og samtök fyrirtækja fyrir að leiðrétta ekki, áður en frestur sem framkvæmdastjórnin setur rennur út, rangt, ófullnægjandi eða villandi svar sem starfsmaður þeirra hefur gefið við spurningum meðan á athuguninni stóð. Því er nauðsynlegt að viðkomandi fyrirtæki fái skýrslu um allar skýringar sem eru gefnar og að hafin sé málsmeðferð sem gerir fyrirtækinu kleift að bæta hvers konar leiðréttingum, breytingum eða viðbótum við skýringar starfsmannsins, sem honum er ekki eða var ekki heimilt að veita upplýsingar um fyrir hönd fyrirtækisins. Skýringar starfsmanns skulu áfram vera til í málsskjölum framkvæmdastjórnarinnar eins og þær voru skráðar meðan á athuguninni stóð.
     5)      Kvartanir eru mikilvæg uppspretta upplýsinga þegar komast þarf að því hvort samkeppnisreglur hafi verið brotnar. Mikilvægt er að skilgreina skýra og skilvirka málsmeðferð fyrir meðferð kvartana sem berast framkvæmdastjórninni.
     6)      Til þess að kvörtun sé tekin til meðferðar, skv. 7. gr. reglugerðar (EB) nr. 1/2003, verða að vera í henni upplýsingar um sérstaklega tilgreind atriði.
     7)      Til að aðstoða þá sem leggja fram kvörtun við að koma nauðsynlegum staðreyndum til framkvæmdastjórnarinnar skal útbúa sérstakt eyðublað. Skilyrði fyrir því að farið sé með kvörtun sem slíka, eins og um getur í 7. gr. reglugerðar (EB) nr. 1/2003, er að upplýsingarnar, sem eru tilgreindar á því eyðublaði, hafi verið lagðar fram.
     8)      Gefa skal einstaklingum eða lögaðilum, sem hafa ákveðið að bera fram kvörtun, kost á því að vera í nánum tengslum við málsmeðferð framkvæmdastjórnarinnar með það fyrir augum að sannreyna hvort um brot á reglum sé að ræða. Þeir skulu þó ekki hafa aðgang að viðskiptaleyndarmálum eða öðrum trúnaðarupplýsingum sem tilheyra öðrum aðilum sem eiga hlut að málsmeðferðinni.
     9)      Gefa verður þeim sem bera fram kvörtun færi á að skýra frá sjónarmiðum sínum ef framkvæmdastjórnin telur að ekki sé nægileg ástæða til að taka kvörtunina til meðferðar. Ef framkvæmdastjórnin vísar kvörtun frá á þeim forsendum að samkeppnisyfirvald aðildarríkis sé með eða hafi þegar haft málið til meðferðar skal hún tilkynna þeim sem leggur fram kvörtun hvaða yfirvald um sé að ræða.
     10)      Til að virða rétt fyrirtækja til málsvarnar skal framkvæmdastjórnin veita hlutaðeigandi málsaðilum rétt til að flytja mál sitt áður en hún tekur ákvörðun.
     11)      Einnig skal setja ákvæði um skýrslugjöf annarra aðila en þeirra sem leggja fram kvörtun, eins og um getur í 7. gr. reglugerðar (EB) nr. 1/2003, og sem eru ekki málsaðilar sem andmælum hefur verið beint til, en sem geta engu að síður sýnt fram á að þeir eigi nægilegra hagsmuna að gæta. Að jafnaði skal líta svo á að neytendasamtök, sem óska eftir því að flytja mál sitt, hafi nægilegra hagsmuna að gæta ef málsmeðferðin varðar vörur eða þjónustu fyrir neytendur eða vörur eða þjónustu sem er beinlínis hluti af slíkri vöru eða þjónustu. Ef framkvæmdastjórnin telur að það komi að gagni í málsmeðferðinni getur hún einnig boðið öðrum aðilum að skýra skriflega frá sjónarmiðum sínum og að vera viðstaddir munnlega skýrslugjöf málsaðilanna sem andmælum hefur verið beint gegn. Hún getur einnig boðið slíkum aðilum að skýra frá sjónarmiðum sínum við þessa munnlegu skýrslugjöf ef við á.
     12)      Til að auka árangur munnlegrar skýrslugjafar skal skýrslugjafarfulltrúi hafa heimild til að leyfa viðkomandi málsaðilum, þeim sem leggja fram kvörtun, öðrum aðilum sem eru boðaðir til skýrslugjafar, þjónustudeild framkvæmdastjórnarinnar og yfirvöldum aðildarríkjanna að spyrja spurninga meðan á skýrslugjöfinni stendur.
     13)      Þegar framkvæmdastjórnin veitir aðgang að málsskjölum skal hún tryggja vernd viðskiptaleyndarmála og annarra trúnaðarupplýsinga. Undir „aðrar trúnaðarupplýsingar“ flokkast aðrar upplýsingar en viðskiptaleyndarmál sem geta talist trúnaðarmál að svo miklu leyti sem það myndi skaða fyrirtæki eða einstakling verulega ef þær væru gefnar upp. Framkvæmdastjórnin skal geta farið fram á það við fyrirtæki eða samtök fyrirtækja, sem leggja eða hafa lagt fram skjöl eða greinargerðir, að þau tilgreini hvað af upplýsingunum séu trúnaðarupplýsingar.
     14)      Þegar viðskiptaleyndarmál eða aðrar trúnaðarupplýsingar eru nauðsynlegar til að færa sönnur á að brot hafi verið framið skal framkvæmdastjórnin meta, fyrir hvert og eitt skjal, hvort þörfin á að gefa upp trúnaðarupplýsingar sé meiri en skaðinn sem það gæti valdið.
     15)      Vegna réttaröryggis skal mæla fyrir um lágmarksfrest fyrir framlagningu hvers konar gagna sem kveðið er á um í þessari reglugerð.
     16)      Þessi reglugerð kemur í stað reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2842/98 frá 22. desember 1998 um skýrslugjöf málsaðila við tiltekna málsmeðferð skv. 85. og 86. gr. EB-sáttmálans ( 1 ), sem skal því felld úr gildi.
     17)      Með þessari reglugerð eru málsmeðferðarreglur í flutningageiranum aðlagaðar almennu reglunum um málsmeðferð í öllum geirum. Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2843/98 frá 22. desember 1998 um framsetningu, efni og önnur atriði er varða umsóknir og tilkynningar sem kveðið er á um í reglugerðum ráðsins (EBE) nr. 1017/68, (EBE) nr. 4056/86 og (EBE) nr. 3975/87 um beitingu samkeppnisreglna á sviði flutninga ( 1 ) skal því felld úr gildi.
     18)      Með reglugerð (EB) nr. 1/2003 er tilkynninga- og heimildakerfið afnumið. Reglugerð ráðsins (EB) nr. 3385/94 frá 21. desember 1994 um framsetningu, efni og önnur atriði er varða umsóknir og tilkynningar sem kveðið er á um í reglugerð ráðsins nr. 17 ( 2 ) skal því felld úr gildi.
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:

I. KAFLI
GILDISSVIÐ.
1. gr.
Efni og gildissvið

Reglugerð þessi gildir um málsmeðferð framkvæmdastjórnarinnar að því er varðar beitingu 81. og 82. gr. sáttmálans.

II. KAFLI
MÁLSMEÐFERÐ HAFIN
2. gr.
Málsmeðferð hafin

1.     Framkvæmdastjórnin getur hvenær sem er ákveðið að hefja málsmeðferð með það fyrir augum að samþykkja ákvörðun samkvæmt III. kafla reglugerðar (EB) nr. 1/2003 en þó eigi síðar en þann dag sem hún gefur út bráðabirgðamat skv. 1. mgr. 9. gr. þeirrar reglugerðar, eða yfirlýsingu um andmæli, eða þann dag sem tilkynning skv. 4. mgr. 27. gr. þeirrar reglugerðar er birt, eftir því hvað af þessu gerist fyrst.
2.     Framkvæmdastjórnin getur tilkynnt opinberlega um upphaf málsmeðferðar á hvern þann hátt sem hentar. Áður en hún gerir það skal hún láta viðkomandi málsaðila vita af því.
3.     Framkvæmdastjórnin getur beitt valdi sínu til rannsókna skv. V. kafla reglugerðar (EB) nr. 1/2003 áður en hún hefur málsmeðferð.
4.     Framkvæmdastjórnin getur vísað kvörtun frá skv. 7. gr. reglugerðar (EB) nr. 1/2003 án þess að hefja málsmeðferð.

III. KAFLI
RANNSÓKNIR FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR
3. gr.
Vald til skýrslutöku

1.     Þegar framkvæmdastjórnin tekur viðtal við aðila með samþykki hans, í samræmi við 19. gr. reglugerðar (EB) nr. 1/2003, skal hún, í upphafi viðtals, skýra frá því hvaða lagagrundvöllur liggur að baki og frá tilganginum með viðtalinu og minna á að honum sé í sjálfsvald sett hvort hann veitir það. Hún skal einnig upplýsa aðilann, sem viðtal er tekið við, um það ef hún hyggst skrá viðtalið.
2.     Taka má viðtalið á hvaða hátt sem er, þ.m.t. gegnum síma eða með rafrænum aðferðum.
3.     Framkvæmdastjórninni er heimilt að skrá málflutning einstaklinga, sem viðtal er tekið við, á hvaða hátt sem er. Aðili, sem hefur samþykkt að tekið sé viðtal við hann, skal fá aðgang að afriti af hvers konar skráningu viðtalsins. Ef nauðsyn krefur skal framkvæmdastjórnin gefa þeim sem viðtal er tekið við frest til að koma á framfæri leiðréttingum á málflutningi sínum.

4. gr.
Munnlegar spurningar við athugun máls

1.     Þegar embættismenn, eða aðrir fylgdarmenn þeirra með umboð framkvæmdastjórnarinnar, biðja fulltrúa eða starfsmenn fyrirtækis eða samtaka fyrirtækja um skýringar skv. e-lið 2. mgr. 20. gr. reglugerðar (EB) nr. 1/2003 er heimilt að skrá skýringarnar, sem eru gefnar, með hvaða hætti sem er.
2.     Að lokinni athuguninni skal veita viðkomandi fyrirtæki eða samtökum fyrirtækja aðgang að afriti af hvers konar skráningu, sem er gerð skv. 1. mgr.
3.     Í tilvikum þegar starfsmaður fyrirtækis eða samtaka fyrirtækja, sem hefur ekki eða hafði ekki heimild fyrirtækisins eða samtakanna til að gefa skýringar fyrir þeirra hönd, hefur verið beðinn um skýringar skal framkvæmdastjórnin gefa fyrirtækinu eða samtökum fyrirtækja frest til að koma til framkvæmdastjórnarinnar hvers konar leiðréttingum, breytingum eða viðbótum við skýringar sem slíkur starfsmaður lætur í té. Bæta skal leiðréttingunum, breytingunum eða viðbótunum við skýringarnar eins og þær eru skráðar skv. 1. mgr.

IV. KAFLI
MEÐFERÐ KVARTANA
5. gr.
Skilyrði fyrir því að kvartanir séu tækar

1.     Einstaklingar og lögaðilar skulu sýna fram á að þeir hafi lögmætra hagsmuna að gæta til að eiga rétt á að leggja fram kvörtun að því er varðar 7. gr. reglugerðar (EB) nr. 1/2003.
Í slíkum kvörtunum skulu koma fram þær upplýsingar sem krafist er á eyðublaði C eins og fram kemur í viðaukanum. Framkvæmdastjórnin getur veitt undanþágu frá þessari skyldu að því er varðar hluta upplýsinganna, þ.m.t. skjöl sem krafist er á eyðublaði C.
2.     Senda skal framkvæmdastjórninni kvörtunina í þríriti á pappír auk afrits á rafrænu formi ef unnt er. Sé einhver hluti kvörtunarinnar háður trúnaðarkvöðum skal sá sem leggur fram kvörtun einnig leggja fram sérútgáfu af kvörtuninni, sem inniheldur engin trúnaðarmál.
3.     Kvartanir skulu lagðar fram á opinberu tungumáli Bandalagsins.

6. gr.
Þátttaka kvartenda í málsmeðferð

1.     Ef framkvæmdastjórnin gefur út yfirlýsingu um andmæli varðandi mál sem hún hefur fengið kvörtun um skal hún afhenda þeim sem leggur fram kvörtunina afrit af þeirri útgáfu andmælanna sem ekki inniheldur trúnaðarupplýsingar og gefa þeim sem leggur fram kvörtun frest til að skýra skriflega frá sjónarmiðum sínum.
2.     Framkvæmdastjórnin getur, eftir því sem við á, veitt þeim sem leggja fram kvörtun tækifæri til að skýra frá sjónarmiðum sínum í munnlegri skýrslugjöf málsaðilanna sem yfirlýsing um andmæli hefur verið borin fram gegn ef þeir óska eftir því í skriflegum athugasemdum sínum.

7. gr.
Kvörtunum vísað frá

1.     Ef framkvæmdastjórnin lítur svo á, á grundvelli þeirra upplýsinga sem hún hefur, að ekki séu nægilegar ástæður fyrir því að bregðast við kvörtun skal hún upplýsa þann sem leggur fram kvörtun um ástæður þess og gefa honum frest til að skýra skriflega frá sjónarmiðum sínum. Framkvæmdastjórninni er ekki skylt að taka tillit til skriflegra athugasemda sem berast eftir að fresturinn er útrunninn.
2.     Ef sá sem leggur fram kvörtun skýrir frá sjónarmiðum sínum áður en fresturinn, sem framkvæmdastjórnin gefur, rennur út og skriflegar athugasemdir hans leiða ekki til þess að kvörtunin sé metin á annan hátt skal framkvæmdastjórnin vísa kvörtuninni frá með ákvörðun.
3.     Ef sá sem leggur fram kvörtun skýrir ekki frá sjónarmiðum sínum áður en fresturinn, sem framkvæmdastjórnin veitir, rennur út telst kvörtunin hafa verið dregin til baka.

8. gr.
Aðgangur að upplýsingum

1.     Ef framkvæmdastjórnin hefur upplýst þann sem leggur fram kvörtun um að hún hyggist vísa henni frá skv. 1. mgr. 7. gr. getur sá sem leggur fram kvörtunina farið fram á að fá aðgang að skjölunum sem liggja til grundvallar bráðabirgðamati framkvæmdastjórnarinnar. Sá sem leggur fram kvörtunina skal þó ekki fá aðgang að viðskiptaleyndarmálum eða öðrum trúnaðarupplýsingum sem tilheyra öðrum málsaðilum sem eiga hlut að málsmeðferðinni.
2.     Sá sem leggur fram kvörtun má einungis nota þau skjöl, sem hann hefur haft aðgang að í tengslum við málsmeðferð framkvæmdastjórnarinnar skv. 81. og 82. gr. sáttmálans, þegar um er að ræða dóms- eða stjórnsýslumál vegna beitingar þessara ákvæða sáttmálans.

9. gr.
Frávísun kvartana skv. 13. gr. reglugerðar (EB) nr. 1/2003

Vísi framkvæmdastjórnin kvörtun frá skv. 13. gr. reglugerðar (EB) nr. 1/2003 skal hún þegar í stað upplýsa þann sem leggur fram kvörtunina um það hvaða innlenda samkeppnisyfirvald fjalli um málið eða hafi þegar fjallað um það.

V. KAFLI
RÉTTUR TIL AÐ FLYTJA MÁL SITT
10. gr.
Yfirlýsing um andmæli og svar

1.     Framkvæmdastjórnin skal tilkynna viðkomandi málsaðilum skriflega um andmæli sem borin eru fram gegn þeim. Tilkynna skal hverjum og einum málsaðila um slíka yfirlýsingu um andmæli.
2.     Þegar framkvæmdastjórnin tilkynnir málsaðilum um andmæli sín skal hún gefa þeim frest til að koma sjónarmiðum sínum skriflega á framfæri við framkvæmdastjórnina. Framkvæmdastjórninni er ekki skylt að taka tillit til skriflegra athugasemda sem berast eftir að fresturinn er útrunninn.
3.     Málsaðilar geta, í skriflegum athugasemdum sínum, sett fram allar staðreyndir, sem þeir vita um, sem skipta máli fyrir vörn þeirra gagnvart andmælum framkvæmdastjórnarinnar. Þeir skulu láta fylgja öll skjöl sem málið varðar til sönnunar staðreyndum sem þar eru settar fram. Þeir skulu leggja fram frumrit á pappír auk afrits á rafrænu formi eða, ef ekki er lagt fram rafrænt eintak, 28 pappírsafrit af gögnunum sem þeir leggja fram og skjölum sem fylgja þeim. Þeim er heimilt að leggja það til að framkvæmdastjórnin taki skýrslur af einstaklingum sem geta staðfest þær staðreyndir sem koma fram í gögnunum sem þeir leggja fram.

11. gr.
Réttur til að flytja mál sitt

1.     Framkvæmdastjórnin skal veita málsaðilum, sem hún hefur beint andmælum til, möguleika á að flytja mál sitt áður en hún hefur samráð við ráðgjafarnefndina sem um getur í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar (EB) nr. 1/2003.
2.     Í ákvörðunum sínum skal framkvæmdastjórnin einungis fjalla um andmæli sem málsaðilar, sem um getur í 1. mgr., hafa fengið að tjá sig um.

12. gr.
Réttur til munnlegrar skýrslugjafar

Framkvæmdastjórnin skal gefa málsaðilum, sem hún hefur beint andmælum til, færi á að rökstyðja mál sitt í munnlegri skýrslugjöf ef þeir óska eftir því í skriflegum gögnum sem þeir leggja fram.

13. gr.
Skýrslugjöf annarra aðila

1.     Ef einstaklingar eða lögaðilar, aðrir en þeir sem um getur í 5. og 11 gr., óska eftir því að flytja mál sitt, og geta sýnt fram á að þeir eigi nægilegra hagsmuna að gæta, skal framkvæmdastjórnin tilkynna þeim skriflega um eðli og inntak málsmeðferðarinnar og veita þeim frest til að skýra skriflega frá sjónarmiðum sínum.
2.     Framkvæmdastjórninni er heimilt, eftir því sem við á, að bjóða aðilum, sem um getur í 1. mgr., að rökstyðja mál sitt frekar við munnlega skýrslugjöf málsaðilans sem andmælum var beint til, ef aðilarnir, sem um getur í 1. mgr., óska eftir því í skriflegum athugasemdum sínum.
3.     Framkvæmdastjórninni er heimilt að bjóða hvaða öðrum aðila sem er að skýra skriflega frá sjónarmiðum sínum og vera viðstaddur munnlega skýrslugjöf málsaðilanna sem andmælum hefur verið beint til. Framkvæmdastjórnin getur einnig boðið slíkum aðila að skýra frá sjónarmiðum sínum við þessa munnlegu skýrslugjöf.

14. gr.
Framkvæmd munnlegrar skýrslugjafar

1.     Skýrslugjafarfulltrúi skal stjórna skýrslugjöf og skal hann vera fullkomlega hlutlaus.
2.     Framkvæmdastjórnin skal boða þá einstaklinga, sem eiga að gefa skýrslu, til munnlegrar skýrslugjafar á þeim degi sem hún ákveður.
3.     Framkvæmdastjórnin skal boða samkeppnisyfirvöld aðildarríkjanna til þátttöku í munnlegu skýrslutökunni. Hún getur einnig boðað embættismenn og opinbera starfsmenn annarra yfirvalda í aðildarríkjunum.
4.     Aðilar, sem eru boðaðir, skulu annaðhvort gefa skýrslu sjálfir eða kjósa sér löglega fulltrúa til að koma fram fyrir sína hönd eða fulltrúa sem reglur þeirra heimila, eftir því sem við á. Fyrirtækjum og samtökum fyrirtækja er einnig heimilt að veita föstum starfsmanni sínum umboð til að koma fram fyrir sína hönd.
5.     Þeim sem gefa framkvæmdastjórninni skýrslu er heimilt að leita aðstoðar lögfræðinga eða annarra hæfra aðila sem skýrslugjafarfulltrúi samþykkir.
6.     Munnleg skýrslugjöf skal ekki vera opinber. Einstaklingar skulu gefa skýrslu hver fyrir sig eða í viðurvist annarra sem hafa verið boðaðir, og tekið skal tillit til lögmætra hagsmuna fyrirtækja sem vilja varðveita viðskiptaleyndarmál sín og aðrar trúnaðarupplýsingar.
7.     Skýrslugjafarfulltrúi getur leyft málsaðilum, sem andmælum hefur verið beint til, þeim sem leggja fram kvörtun, öðrum aðilum, sem eru boðaðir til skýrslugjafarinnar, þjónustudeild framkvæmdastjórnarinnar og yfirvöldum aðildarríkjanna að spyrja spurninga meðan á skýrslugjöfinni stendur.
8.     Skrá skal málflutning allra sem gefa skýrslu. Þeir sem gefa skýrslu skulu fá aðgang að skráðum málflutningi ef þeir óska eftir því. Taka skal tillit til lögmætra hagsmuna málsaðila sem vilja varðveita viðskiptaleyndarmál sín og aðrar trúnaðarupplýsingar.

VI. KAFLI
AÐGANGUR AÐ MÁLSSKJÖLUM OG MEÐFERÐ TRÚNAÐARUPPLÝSINGA
15. gr.
Aðgangur að málsskjölum og notkun skjala

1.     Framkvæmdastjórnin skal veita þeim málsaðilum, sem hún hefur beint andmælum til, aðgang að málsskjölum, ef um það er beðið. Veita skal aðgang eftir að tilkynnt hefur verið um andmæli.
2.     Réttur til aðgangs að málsskjölum nær ekki til viðskiptaleyndarmála, annarra trúnaðarupplýsinga og innanhússkjala framkvæmdastjórnarinnar eða til samkeppnisyfirvalda í aðildarríkjunum. Réttur til aðgangs að málsskjölum nær heldur ekki til bréfaskipta á milli framkvæmdastjórnarinnar og samkeppnisyfirvalda í aðildarríkjunum eða milli samkeppnisyfirvalda innbyrðis ef slík bréfaskipti er að finna í málsskjölum framkvæmdastjórnarinnar.
3.     Ekkert í þessari reglugerð kemur í veg fyrir að framkvæmdastjórnin afhendi og noti nauðsynlegar upplýsingar til að sanna brot á ákvæðum 81. og 82. gr. sáttmálans.
4.     Skjöl, sem hafa fengist með aðgangi að málsskjölum samkvæmt þessari grein, skal einungis nota í dóms- eða stjórnsýslumálum vegna beitingar 81. og 82. gr. sáttmálans.

16. gr.
Greining og varðveisla trúnaðarupplýsinga

1.     Framkvæmdastjórnin skal ekki afhenda eða veita aðgang að upplýsingum, þ.m.t. skjöl, þar sem fram koma viðskiptaleyndarmál eða aðrar upplýsingar um aðila.
2.     Aðili, sem skýrir frá sjónarmiðum sínum skv. 6. gr. (1. mgr.), 7. gr. (1. mgr. ), 10. gr. (2. mgr.) og 13. gr. (1. og 3. mgr.), eða afhendir framkvæmdastjórninni frekari upplýsingar á meðan á þessari sömu málsmeðferð stendur, skal tilgreina á skýran hátt og rökstyðja hvaða gögn hann telur vera trúnaðarmál og afhenda sérútgáfu af gögnum þar sem trúnaðarmálum er sleppt innan frests sem framkvæmdastjórnin veitir honum til að skýra frá sjónarmiðum sínum.
3.     Með fyrirvara um 2. mgr. þessarar greinar getur framkvæmdastjórnin krafist þess að fyrirtæki og samtök fyrirtækja, sem leggja fram skjöl eða greinargerðir samkvæmt reglugerð (EB) nr. 1/2003, tilgreini hvaða skjöl eða hlutar skjala þau telja að innihaldi viðskiptaleyndarmál eða aðrar trúnaðarupplýsingar sem tilheyra þeim og gagnvart hvaða fyrirtækjum slík skjöl skuli vera trúnaðarmál. Framkvæmdastjórnin getur einnig krafist þess að fyrirtæki eða samtök fyrirtækja tilgreini hvern þann hluta andmæla, samantektar um mál, sem er gerð skv. 4. mgr. 27. gr. reglugerðar (EB) nr. 1/2003 eða ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar, sem inniheldur viðskiptaleyndarmál að þeirra dómi.
Framkvæmdastjórnin getur gefið fyrirtækjum og samtökum fyrirtækja frest til að:
a)    rökstyðja kröfu sína um upplýsingaleynd að því er varðar hvert einstakt skjal eða hluta af skjali, skýrslu eða hluta úr skýrslu,
b)    láta framkvæmdastjórninni í té sérútgáfu af skjölum eða skýrslum þar sem trúnaðarmálum er sleppt,
c)    leggja fram nákvæma lýsingu á hverju einstöku atriði í upplýsingum sem er sleppt.
4.     Ef fyrirtæki eða samtök fyrirtækja láta undir höfuð leggjast að fara að ákvæðum 2. og 3. mgr. getur framkvæmdastjórnin gengið út frá því að engar trúnaðarupplýsingar séu í viðkomandi skjölum eða skýrslum.

VII. KAFLI
ALMENN ÁKVÆÐI OG LOKAÁKVÆÐI
17. gr.
Frestur

1.     Þegar framkvæmdastjórnin veitir frest, eins og kveðið er á um í 3. gr. (3. mgr.), 4. gr. (3. mgr.), 6. gr. (1. mgr.), 7. gr. (1. mgr.), 10. gr. (2. mgr.) og 16. gr. (3. mgr.), skal hún bæði taka tillit til nauðsynlegs undirbúningstíma fyrir framlagningu gagna og til þess hversu brýnt málið er.
2.     Frestur, sem um getur í 6. gr. (1. mgr.), 7. gr. (1. mgr.) og 10. gr. (2. mgr.), skal vera a.m.k. fjórar vikur. Sé um að ræða málsmeðferð, sem er hafin í því skyni að samþykkja bráðabirgðaráðstafanir skv. 8. gr. reglugerðar (EB) nr. 1/2003, má þó stytta frestinn í eina viku.
3.     Frestur, sem um getur í 3. gr. (3. mgr.), 4. gr. (3. mgr.) og 16. gr. (3. mgr.), skal vera a.m.k. tvær vikur.
4.     Lengja má frest eftir því sem við á og þegar rökstudd beiðni berst um það áður en upphaflegi fresturinn rennur út.

18. gr.
Niðurfelling

Reglugerðir (EB) nr. 2842/98, (EB) nr. 2843/98 og (EB) nr. 3385/94 eru felldar úr gildi.
Litið skal á tilvísanir í niðurfelldar reglugerðir sem tilvísanir í þessa reglugerð.

19. gr.
Bráðabirgðaákvæði     

Ráðstafanir tengdar málsmeðferð, sem eru gerðar samkvæmt reglugerð (EB) nr. 2842/98 og (EB) nr. 2843/98, gilda áfram að því er varðar beitingu þessarar reglugerðar.

20. gr.
Gildistaka

Reglugerð þessi öðlast gildi 1. maí 2004.
    Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
    Gjört í Brussel 7. apríl 2004.
    Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,
    Mario MONTI
    framkvæmdastjóri.


VIÐAUKI


EYÐUBLAÐ C
KVÖRTUN SKV. 7. GR. REGLUGERÐAR (EB) NR. 1/2003

I. Upplýsingar um þann sem ber fram kvörtun og fyrirtæki eða samtök fyrirtækja sem kvörtunin varðar

1.    Veita skal allar upplýsingar um þann einstakling eða lögaðila sem ber fram kvörtunina. Ef fyrirtæki leggur fram kvörtun skal tilgreina fyrirtækjasamstæðuna sem það tilheyrir og gefa nákvæmt yfirlit yfir eðli og umfang starfseminnar. Gefið upp tengilið (ásamt símanúmeri, póstfangi og netfangi) þar sem hægt er að fá viðbótarupplýsingar.
2.    Tilgreinið fyrirtæki eða samtök fyrirtækja þar sem kvartað er yfir starfseminni, þ.m.t. ef við á, allar tiltækar upplýsingar um fyrirtækjasamstæðuna sem fyrirtækið eða fyrirtækin, sem kvörtunin beinist að, tilheyrir og eðli og umfang starfsemi þeirra. Tilgreinið stöðu kvartanda gagnvart fyrirtækinu/fyrirtækjunum eða samtökum fyrirtækja sem kvartað er yfir (t.d. viðskiptavinur eða samkeppnisaðili).

II. Ítarlegar upplýsingar um meint brot og sönnunargögn

3.    Greinið nákvæmlega frá staðreyndum sem talið er að bendi til þess að um brot sé að ræða á ákvæðum 81. eða 82. gr. sáttmálans og/eða 53. eða 54. gr. EES-samningsins. Tilgreinið einkum hvers eðlis varan er (vara eða þjónusta) sem hið meinta brot hefur áhrif á og útskýrið, ef þörf krefur, viðskiptatengsl varðandi þessar vörur. Gefið upp í einstökum atriðum allar fyrirliggjandi upplýsingar um samninga eða starfsvenjur fyrirtækis eða samtaka fyrirtækja sem þessi kvörtun varðar. Tilgreina skal, að svo miklu leyti sem unnt er, hlutfallslega markaðsstöðu fyrirtækjanna sem kvörtunin varðar.
4.    Leggið fram öll skjöl í yðar vörslu sem varða eða tengjast beint þeim staðreyndum sem settar eru fram í kvörtuninni (t.d. texta samninga, fundargerðir samningaviðræðna eða funda, viðskiptaskilmála, viðskiptaskjöl, umburðarbréf, bréfaskipti, minnisatriði frá símtölum...). Tilgreinið nöfn og heimilisföng aðila sem geta vottað þær staðreyndir sem eru settar fram í kvörtuninni, einkum þeirra sem hið meinta brot hefur áhrif á. Leggið fram tölulegar upplýsingar eða önnur gögn í yðar vörslu sem tengjast staðreyndunum sem eru settar fram, einkum þar sem þau sýna þróun á markaði (t.d. upplýsingar varðandi verð og verðþróun, aðgangshindranir á markaði fyrir nýja birgja o.s.frv.).
5.    Setjið fram sjónarmið yðar varðandi landfræðilegt umfang meints brots og útskýrið, þar sem það er ekki augljóst, að hve miklu leyti sú háttsemi, sem kvartað er yfir, kann að hafa áhrif á viðskipti á milli aðildarríkja eða á milli Bandalagsins og eins eða fleiri EFTA-ríkja sem eru aðilar að EES-samningum.

III. Niðurstöður fengnar frá framkvæmdastjórninni og lögmætir hagsmunir

6.    Útskýrið hvaða niðurstöðu eða aðgerðum óskað er eftir að málsmeðferð framkvæmdastjórnarinnar skili.
7.    Rökstyðjið lögmæta hagsmuni yðar sem kvartanda, skv. 7. gr. reglugerðar (EB) nr. 1/2003. Gerið einkum grein fyrir því hvernig háttsemin, sem kvartað er yfir, hefur áhrif á yður og útskýrið hvernig íhlutun framkvæmdastjórnarinnar gæti, að yðar mati, bætt úr meintum kvörtunarmálum.

IV. Málsmeðferð fyrir innlendum samkeppnisyfirvöldum eða innlendum dómstólum

8.    Veitið allar upplýsingar um það hvort þér hafið leitað til einhvers annars samkeppnisyfirvalds varðandi sama eða nátengt málefni og/eða hvort mál hafi verið höfðað fyrir innlendum dómstóli. Ef sú er raunin skal veita allar upplýsingar um stjórnsýslu- eða dómsmálayfirvaldið sem leitað var til og um það hvaða gögn hafi verið lögð fyrir slíkt yfirvald.
Yfirlýsing þess efnis að upplýsingarnar, sem koma fram á þessu eyðublaði og í viðaukum við það, séu veittar í góðri trú.
Dagsetning og undirskrift Fylgiskjal VI.


SAMNINGUR UM BREYTINGU Á BÓKUN 4 VIÐ SAMNINGINN MILLI EFTA- RÍKJANNA UM STOFNUN EFTIRLITSSTOFNUNAR OG DÓMSTÓLS


LÝÐVELDIÐ ÍSLAND
FURSTADÆMIÐ LIECHTENSTEIN
KONUNGSRÍKIÐ NOREGUR,

með hliðsjón af samningnum milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingar á samningnum milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, sem nefnist hér á eftir samningurinn um eftirlitsstofnun og dómstól, einkum 49. gr.,

í samráði við Eftirlitsstofnun EFTA,

með hliðsjón af reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 773/2004 frá 7 apríl 2004 um málsmeðferð framkvæmdastjórnarinnar skv. 81. og 82. gr. EB-sáttmálans 1 ,

með hliðsjón af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 178/2004 frá 3. desember 2004 um breytingu á bókun 21 og bókun 23 við EES-samninginn,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

Í ljósi þessa ber að breyta bókun 4 við samninginn um eftirlitsstofnun og dómstól.

HAFA ORÐIÐ ÁSÁTT UM EFTIRFARANDI:

1. gr.


Eftirfarandi komi í stað III. kafla í I. hluta bókunar 4 við saminginn um eftirlitsstofnun og dómstól:

„III. KAFLI

REGLUR UM MÁLSMEÐFERÐ EFTIRLITSSTOFNUNAR EFTA SAKV. 53. OG 54. GR. EES-SAMNINGSINS

I. ÞÁTTUR

GILDISSVIÐ

1. gr.

Efni og gildissvið


Þessi kafli gildir um málsmeðferð Eftirlitsstofnunar EFTA að því er varðar beitingu 53. og 54. gr. EES-samningsins.

II. ÞÁTTUR

MÁLSMEÐFERÐ HAFIN

2. gr.

Upphaf málsmeðferðar


1.     Eftirlitsstofnun EFTA getur ákveðið að hefja málsmeðferð með það fyrir augum að samþykkja ákvörðun skv. II. kafla III. þáttar hvenær sem er fyrir þann dag sem hún gefur út bráðabirgðamat skv. 1. mgr. 9. gr. þess kafla, eða ber fram andmæli, eða fyrir þann dag sem tilkynning skv. 4. mgr. 27. gr. þess kafla er birt, eftir því hvað af þessu gerist fyrst.

2.     Eftirlitsstofnun EFTA getur birt upplýsingar um að málsmeðferð sé hafin á hvern þann hátt sem hentar. Áður en hún gerir það skal hún láta viðkomandi aðila vita af því.

3.     Eftirlitsstofnun EFTA getur beitt valdi sínu til rannsókna skv. V. kafla II. kafla áður en hún hefur málsmeðferð.

4.     Eftirlitsstofnun EFTA getur vísað kvörtun frá skv. 7. gr. II. kafla án þess að hefja málsmeðferð.

III. ÞÁTTUR

RANNSÓKNIR EFTIRLITSSTOFNUNAR EFTA

3. gr.

Vald til skýrslutöku


1.     Þegar Eftirlitsstofnun EFTA tekur viðtal við aðila með samþykki hans í samræmi við 19. gr. II. kafla skal hún, í upphafi viðtals, skýra frá lagagrundvelli og tilganginum með viðtalinu og minna á að þeir veiti viðtalið af fúsum og frjálsum vilja. Hún skal einnig upplýsa aðilann, sem viðtal er tekið við, um það ef hún hyggst skrá viðtalið.

2.     Taka má viðtalið á hvaða hátt sem er, þ.m.t. gegnum síma eða með rafrænum aðferðum.

3.     Eftirlitsstofnun EFTA getur skráð málflutning einstaklinga, sem viðtal er tekið við, á hvaða hátt sem er. Aðili, sem hefur samþykkt að tekið sé viðtal við hann, skal fá aðgang að afriti af hvers konar skráningu viðtalsins. Ef nauðsyn krefur skal Eftirlitsstofnun EFTA gefa þeim sem viðtal er tekið við frest til að koma á framfæri leiðréttingum á málflutningi sínum.

4. gr.

Munnlegar spurningar við athugun máls


1.     Þegar embættismenn eða aðrir aðilar, sem eru í fylgd með þeim og hafa umboð Eftirlitsstofnunar EFTA, biðja fulltrúa eða starfsmenn fyrirtækis eða samtaka fyrirtækja um skýringar skv. e-lið 2. mgr. 20. gr. II. kafla er heimilt að skrá skýringarnar, sem eru gefnar, með hvaða hætti sem er.

2.     Að lokinni athuguninni skal veita viðkomandi fyrirtæki eða samtökum fyrirtækja aðgang að afriti af hvers konar skráningu, sem er gerð skv. 1. mgr.

3.     Í tilvikum þegar starfsmaður fyrirtækis eða samtaka fyrirtækja, sem hefur ekki eða hafði ekki heimild fyrirtækisins eða samtakanna til að gefa skýringar fyrir þeirra hönd, hefur verið beðinn um skýringar skal Eftirlitsstofnun EFTA gefa fyrirtækinu eða samtökum fyrirtækja frest til að koma til Eftirlitsstofnun EFTA hvers konar leiðréttingum, breytingum eða viðbótum við skýringar sem slíkur starfsmaður lætur í té. Bæta skal leiðréttingunum, breytingunum eða viðbótunum við skýringarnar eins og þær eru skráðar skv. 1. mgr.

IV. ÞÁTTUR

MEÐFERÐ KVARTANA

5. gr.

Skilyrði fyrir því að kvartanir séu tækar


1.     Einstaklingar og lögaðilar skulu sýna fram á að þeir hafi lögmætra hagsmuna að gæta til að eiga rétt á að leggja fram kvörtun að því er varðar 7. gr. II. kafla.

Í slíkum kvörtunum skulu koma fram upplýsingar sem er krafist á eyðublaði C sem ríkisstjórnir EFTA-ríkjanna, með samhljóða samkomulagi, eða framkvæmdastjórnin gefa út eins og fram kemur í 1. viðbæti Eftirlitsstofnun EFTA getur fallið frá því að gera þetta að skyldu að því er varðar hluta upplýsinganna, þ.m.t. skjöl sem krafist er á eyðublaði C.

2.     Senda skal Eftirlitsstofnun EFTA kvörtunina í þríriti á pappír auk afrits á rafrænu formi ef unnt er. Sé einhver hluti kvörtunarinnar háður trúnaðarkvöðum skal sá sem leggur fram kvörtun einnig leggja fram sérútgáfu af kvörtuninni, sem inniheldur engin trúnaðarmál.

3.     Kvartanir skulu lagðar fram á opinberum tungumálum EFTA-ríkis eða Bandalagsins.

6. gr.

Þátttaka kvartenda í málsmeðferð


1.     Beri Eftirlitsstofnun EFTA fram andmæli varðandi mál sem hún hefur fengið kvörtun um skal hún afhenda þeim sem leggur fram kvörtunina afrit af sérútgáfu á andmælunum þar sem trúnaðarmálum er sleppt og gefa þeim sem leggur fram kvörtun frest til að skýra skriflega frá sjónarmiðum sínum.

2.     Eftirlitsstofnun EFTA getur, eftir því sem við á, veitt þeim sem leggja fram kvörtun tækifæri til að skýra frá sjónarmiðum sínum í munnlegri skýrslugjöf málsaðilanna sem yfirlýsing um andmæli hefur verið borin fram gegn ef þeir óska eftir því í skriflegum athugasemdum sínum.

7. gr.

Kvörtunum vísað frá


1.     Ef Eftirlitsstofnun EFTA lítur svo á, á grundvelli þeirra upplýsinga sem hún hefur, að ekki séu nægilegar ástæður fyrir því að bregðast við kvörtun skal hún upplýsa þann sem leggur fram kvörtun um ástæður þess og gefa honum frest til að skýra skriflega frá sjónarmiðum sínum. Eftirlitsstofnun EFTA er ekki skylt að taka tillit til skriflegra athugasemda sem berast eftir að fresturinn er útrunninn.

2.     Ef sá sem leggur fram kvörtun skýrir frá sjónarmiðum sínum áður en fresturinn, sem Eftirlitsstofnun EFTA gefur, rennur út og skriflegar athugasemdir hans leiða ekki til þess að kvörtunin sé metin á annan hátt skal Eftirlitsstofnun EFTA vísa kvörtuninni frá með ákvörðun.

3.     Ef sá sem leggur fram kvörtun skýrir ekki frá sjónarmiðum sínum áður en fresturinn, sem Eftirlitsstofnun EFTA setur, rennur út telst kvörtunin hafa verið dregin til baka.

8. gr.

Aðgangur að upplýsingum


1.     Ef Eftirlitsstofnun EFTA hefur upplýst þann sem leggur fram kvörtun um að hún hyggist vísa henni frá skv. 1. mgr. 7. gr. getur sá sem leggur fram kvörtunina farið fram á að fá aðgang að skjölunum sem liggja til grundvallar bráðabirgðamati Eftirlitsstofnunar EFTA. Sá sem leggur fram kvörtunina skal þó ekki fá aðgang að viðskiptaleyndarmálum eða öðrum trúnaðarupplýsingum sem tilheyra öðrum málsaðilum sem eiga hlut að málsmeðferðinni.

2.     Sá sem leggur fram kvörtun má einungis nota þau skjöl, sem hann hefur haft aðgang að í tengslum við málsmeðferð Eftirlitsstofnunar EFTA skv. 53. og 54. gr. EES-samningsins, þegar um er að ræða dóms- eða stjórnsýslumál vegna beitingar þessara ákvæða EES-samningsins.

9. gr.

Frávísun kvartana skv. 13. gr. II. kafla


Vísi Eftirlitsstofnun EFTA kvörtun frá skv. 13. gr. II. kafla skal hún þegar í stað upplýsa þann sem leggur fram kvörtunina um það hvaða innlenda samkeppnisyfirvald fjalli um málið eða hafi þegar fjallað um það.

V. ÞÁTTUR

RÉTTUR TIL AÐ FLYTJA MÁL SITT

10. gr.

Yfirlýsing um andmæli og svar


1.     Eftirlitsstofnun EFTA skal tilkynna viðkomandi málsaðilum skriflega um andmæli sem borin eru fram gegn þeim. Tilkynna skal hverjum og einum málsaðila um slíka yfirlýsingu um andmæli.

2.     Þegar Eftirlitsstofnun EFTA tilkynnir málsaðilum um andmæli sín skal hún gefa þeim frest til að koma sjónarmiðum sínum skriflega á framfæri við sig. Eftirlitsstofnun EFTA er ekki skylt að taka tillit til skriflegra athugasemda sem berast eftir að fresturinn er útrunninn.

3.     Málsaðilar geta í skriflegri yfirlýsingu sinni sett fram allar staðreyndir, sem þeir vita um, sem skipta máli fyrir vörn þeirra gagnvart andmælum Eftirlitsstofnunar EFTA. Þeir skulu láta fylgja öll viðeigandi skjöl til sönnunar staðreyndum sem eru settar fram. Þeir skulu leggja fram frumrit á pappír auk afrits á rafrænu formi eða, ef ekki er lagt fram rafrænt eintak, sex pappírsafrit af gögnunum sem þeir leggja fram og skjölum sem fylgja þeim. Þeim er heimilt að leggja það til að Eftirlitsstofnun EFTA taki skýrslur af einstaklingum sem geta staðfest þær staðreyndir sem koma fram í gögnunum sem þeir leggja fram.

11. gr.

Réttur til að flytja mál sitt


1.     Eftirlitsstofnun EFTA skal veita málsaðilum, sem þeir hafa beint andmælum til, möguleika á að flytja mál sitt áður en þeir hafa samráð við ráðgjafarnefndina sem um getur í 1. mgr. 14. gr. II. kafla.

2.     Í ákvörðunum sínum skal Eftirlitsstofnun EFTA einungis fjalla um andmæli sem málsaðilar, sem um getur í 1. mgr., hafa fengið að tjá sig um.

12. gr.

Réttur til munnlegrar skýrslugjafar


Eftirlitsstofnun EFTA skal gefa málsaðilum, sem hún hefur beint andmælum til, færi á að rökstyðja mál sitt í munnlegri skýrslugjöf ef þeir óska eftir því í skriflegum gögnum sem þeir leggja fram.

13. gr.

Skýrslugjöf annarra aðila


1.     Ef einstaklingar eða lögaðilar, aðrir en þeir sem um getur í 5. og 11 gr., óska eftir því að flytja mál sitt, og geta sýnt fram á að þeir eigi nægilegra hagsmuna að gæta, skal Eftirlitsstofnun EFTA tilkynna þeim skriflega um eðli og inntak málsmeðferðarinnar og veita þeim frest til að skýra skriflega frá sjónarmiðum sínum.

2.     Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt, eftir því sem við á, að bjóða aðilum, sem um getur í 1. mgr., að rökstyðja mál sitt frekar við munnlega skýrslugjöf málsaðilans sem andmælum var beint til, ef aðilarnir, sem um getur í 1. mgr., óska eftir því í skriflegum athugasemdum sínum.

3.     Eftirlitsstofnun EFTA er heimilt að bjóða hvaða öðrum aðila sem er að skýra skriflega frá sjónarmiðum sínum og vera viðstaddur munnlega skýrslugjöf málsaðilanna sem andmælum hefur verið beint til. Eftirlitsstofnun EFTA getur einnig boðið slíkum aðilum að skýra frá sjónarmiðum sínum í munnlegri skýrslugjöf.

14. gr.

Framkvæmd munnlegrar skýrslugjafar


1.     Skýrslugjafarfulltrúi skal stjórna skýrslugjöf og skal hann vera fullkomlega hlutlaus.

2.     Eftirlitsstofnun EFTA skal boða þá einstaklinga, sem eiga að gefa skýrslu, til munnlegrar skýrslugjafar á þeim degi sem hún ákveður.

3.     Eftirlitsstofnun EFTA skal boða samkeppnisyfirvöld EFTA-ríkjanna til þátttöku í munnlegu skýrslutökunni. Hún getur einnig boðað embættismenn og opinbera starfsmenn annarra yfirvalda í EFTA-ríkjunum, svo og framkvæmdastjórn EB og aðildarríki EB.

4.     Aðilar, sem eru boðaðir, skulu annaðhvort gefa skýrslu sjálfir eða kjósa sér löglega fulltrúa til að koma fram fyrir sína hönd eða fulltrúa sem reglur þeirra heimila, eftir því sem við á. Fyrirtækjum og samtökum fyrirtækja er einnig heimilt að veita föstum starfsmanni sínum umboð til að koma fram fyrir sína hönd.

5.     Þeim sem gefa Eftirlitsstofnun EFTA skýrslu er heimilt að njóta aðstoðar lögfræðinga eða annarra hæfra aðila sem skýrslugjafarfulltrúi samþykkir.

6.     Munnleg skýrslugjöf skal ekki vera opinber. Einstaklingar skulu gefa skýrslu hver fyrir sig eða í viðurvist annarra sem hafa verið boðaðir, og tekið skal tillit til lögmætra hagsmuna fyrirtækja sem vilja varðveita viðskiptaleyndarmál sín og aðrar trúnaðarupplýsingar.

7.     Skýrslugjafarfulltrúi getur leyft málsaðilum, sem andmælum hefur verið beint til, þeim sem leggja fram kvörtun, öðrum aðilum, sem eru boðaðir til skýrslugjafar, þjónustudeild Eftirlitsstofnunar EFTA og yfirvöldum EFTA-ríkjanna að spyrja spurninga meðan á skýrslugjöfinni stendur.

8.     Skrá skal málflutning allra sem gefa skýrslu. Þeir sem gefa skýrslu skulu fá aðgang að skráðum málflutningi ef þeir óska eftir því. Taka skal tillit til lögmætra hagsmuna málsaðila sem vilja varðveita viðskiptaleyndarmál sín og aðrar trúnaðarupplýsingar.

VI. ÞÁTTUR

AÐGANGUR AÐ MÁLSSKJÖLUM OG MEÐFERÐ TRÚNAÐARUPPLÝSINGA

15. gr.

Aðgangur að málsskjölum og notkun skjala


1.     Eftirlitsstofnun EFTA skal veita þeim málsaðilum, sem hún hefur beint andmælum til, aðgang að málsskjölum, ef um það er beðið. Veita skal aðgang eftir að tilkynnt hefur verið um andmæli.

2.     Réttur til aðgangs að málsskjölum nær ekki til viðskiptaleyndarmála og innanhússkjala Eftirlitsstofnunar EFTA og framkvæmdastjórnar EB eða samkeppnisyfirvalda í EFTA-ríkjunum eða aðildarríkjum EB. Réttur til aðgangs að málsskjölum nær t.a.m. ekki til bréfaskipta á milli samkeppnisyfirvaldanna, milli samkeppnisyfirvalda og aðildarríkja EB og EFTA-ríkjanna eða milli samkeppnisyfirvalda í aðildarríkjum EB eða í EFTA-ríkjunum þegar slík bréfaskipti eru hluti af málsskjölum Eftirlitsstofnunar EFTA.

3.     Ekkert í þessum kafla kemur í veg fyrir að Eftirlitsstofnun EFTA afhendi og noti nauðsynlegar upplýsingar til að sanna brot á ákvæðum 53. og 54. gr. EES-samningsins.

4.     Skjöl, sem hafa fengist með aðgangi að málsskjölum samkvæmt þessari grein, skal einungis nota í dóms- eða stjórnsýslumeðferð vegna beitingar 53. og 54. gr. EES-samningsins.

16. gr.

Greining og varðveisla trúnaðarupplýsinga


1.     Eftirlitsstofnun EFTA skal ekki afhenda upplýsingar, þ.m.t. skjöl, eða gera þau aðgengileg ef þau innihalda viðskiptaleyndarmál eða aðrar upplýsingar um aðila.

2.     Einstaklingur sem skýrir frá sjónarmiðum sínum skv. 6. gr. (1. mgr.), 7. gr. (1. mgr. ), 10. gr. (2. mgr.) og 13. gr. (1. og 3. mgr.) þessa kafla eða leggur síðar fram frekari upplýsingar hjá Eftirlitsstofnun EFTA á meðan sama málsmeðferð stendur yfir skal tilgreina á skýran hátt ásamt rökstuðningi hvaða gögn hann telur vera trúnaðarmál og afhenda sérútgáfu af gögnum þar sem trúnaðarmálum er sleppt á þeim degi sem Eftirlitsstofnun EFTA ákveður að hann geti skýrt frá sjónarmiðum sínum.

3.     Með fyrirvara um 2. mgr. þessarar greinar getur Eftirlitsstofnun EFTA krafist þess að fyrirtæki og samtök fyrirtækja, sem leggja fram skjöl eða greinargerðir skv. II. kafla, tilgreini hvaða skjöl eða hlutar skjala þau telja að innihaldi viðskiptaleyndarmál eða aðrar trúnaðarupplýsingar sem tilheyra þeim og gagnvart hvaða fyrirtækjum slík skjöl skuli vera trúnaðarmál. Eftirlitsstofnun EFTA getur einnig krafist þess að fyrirtæki eða samtök fyrirtækja tilgreini hvern þann hluta andmæla, samantekar um mál sem er gerð grein fyrir skv. 4. mgr. 27. gr. II. kafla eða ákvörðunar sem framkvæmdastjórnin hefur samþykkt, sem hún telur vera viðskiptaleyndarmál.

Eftirlitsstofnun EFTA getur gefið fyrirtækjum og samtökum fyrirtækja frest til að:

a)    rökstyðja kröfu sína um upplýsingaleynd að því er varðar hvert einstakt skjal eða hluta af skjali, skýrslu eða hluta úr skýrslu,

b)    láta Eftirlitsstofnun EFTA í té sérútgáfu af skjölum eða skýrslum þar sem trúnaðarmálum er sleppt,

c)    leggja fram nákvæma lýsingu á hverju einstöku atriði í upplýsingum sem er sleppt.

4.     Ef fyrirtæki eða samtök fyrirtækja fara ekki að ákvæðum 2. og 3. mgr. getur Eftirlitsstofnun EFTA gengið út frá því að engar trúnaðarupplýsingar séu í viðkomandi skjölum eða skýrslum.

VII. ÞÁTTUR

ALMENN ÁKVÆÐI OG LOKAÁKVÆÐI

17. gr.

Frestur


1.     Þegar Eftirlitsstofnun EFTA veitir frest, eins og kveðið er á um í 3. gr. (3. mgr.), 4. gr. (3. mgr.), 6. gr. (1. mgr.), 7. gr. (1. mgr.), 10. gr. (2. mgr.) og 16. gr. (3. mgr.) þessa kafla, skal hún bæði taka tillit til nauðsynlegs undirbúningstíma fyrir framlagningu gagna og til þess hversu brýnt málið er.

2.     Frestur, sem um getur í 6. gr. (1. mgr.), 7. gr. (1. mgr.) og 10. gr. (2. mgr.) þessa kafla skal vera a.m.k. fjórar vikur. Sé um að ræða málsmeðferð, sem er hafin í því skyni að samþykkja bráðabirgðaráðstafanir skv. 8. gr. II. kafla, má þó stytta frestinn í eina viku.

3.     Frestur, sem um getur í 3. gr. (3. mgr.), 4. gr. (3. mgr.) og 16. gr. (3. mgr.) þessa kafla skal vera a.m.k. tvær vikur.

4.     Lengja má frest eftir því sem við á og þegar rökstudd beiðni berst um það áður en upphaflegi fresturinn rennur út.

18. gr.


(Enginn texti)

19. gr.

Bráðabirgðaákvæði


Reglur um málsmeðferð, sem eru gerðar samkvæmt fyrrverandi II. kafla I. hluta og XII. kafla II. hluta, eins og þeim var beitt fyrir gildistöku samningsins um breytingu á bókun 4 við samning EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls sem undirritaður var 3. desember 2004, gildir áfram að því er varðar beitingu þessa kafla.

20. gr.

Sérákvæði


Eftirlitsstofnun EFTA getur, í samræmi við ákvæði 49. gr. þessa samnings, lagt fyrir ríkisstjórnir EFTA-ríkjanna tillögur að eyðublöðum ásamt athugasemdum.

2. gr.


Eftirfarandi breytingar eru gerðar á efnisyfirliti við bókun 4 við samninginn um eftirlitsstofnun og dómstól:

1.    Í stað texta II. kafla í I. hluta komi „Reglur um málsmeðferð Eftirlitsstofnunar EFTA skv. 53. og 54. gr. EES-samningsins“.

2.    Texti IV. og XII. kafla falli niður.

3.    Í V. hluta komi „Eyðublöð sem um getur í 1. mgr. 5. gr. III. kafla“ í stað texta 1. viðbætis.

3. gr.


Í II. kafla I. hluta komi „Þessi skylda tekur einnig til fulltrúa framkvæmdastjórnar EB og aðildarríkja EB sem taka þátt í störfum ráðgjafarnefndarinnar skv. 3. mgr. 14. gr. og í skýrslugjöf skv. 3. mgr. 14. gr. III. kafla.“

4. gr.


Texti IV. kafla I. hluta í bókun 4 við samninginn um eftirlitsstofnun og dómstól falli niður.

5. gr.


Texti XII. kafla II. hluta í bókun 4 við samninginn um eftirlitsstofnun og dómstól falli niður.

6. gr.


Í stað texta 1. viðbætis í bókun 4 við samninginn um eftirlitsstofnun og dómstól komi það sem tilgreint er í viðauka við þennan samning.

7. gr.


Textar 3. og 5. viðbætis í bókun 4 við samninginn um eftirlitsstofnun og dómstól falli niður.

8. gr.


1.     EFTA-ríkin skulu samþykkja samning þennan, sem er gerður í einu fullgiltu eintaki á ensku, í samræmi við stjórnskipuleg skilyrði hvers þeirra um sig.

Samningur þessi skal gerður og fullgiltur á þýsku, íslensku og norsku áður en sex mánuðir eru liðnir frá gildistöku hans.

2.     Samningur þessi skal afhentur til vörslu hjá ríkisstjórn Noregs sem skal tilkynna öllum hinum EFTA-ríkjunum um það.

Skjal um staðfestingu skal afhent til vörslu hjá ríkisstjórn Noregs sem skal tilkynna öllum hinum EFTA-ríkjunum um það.

3.     Samningur þessi öðlast gildi sama dag og ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 178/2004 frá 3. desember 2004 eða þegar öll skjöl um staðfestingu hafa verið afhent til vörslu hjá EFTA-ríkjunum, hvort sem síðar verður.

ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirritaðir, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

Gjört í Brussel 3. desember 2004.

         
     FYRIR HÖND LÝÐVELDISINS
     ÍSLANDS

         
     FYRIR HÖND FURSTADÆMISINS
     LIECHTENSTEINS

         
     FYRIR HÖND KONUNGSRÍKISINS
     NOREGS


VIÐAUKI
við samninginn um breytingu á bókun 4 við samninginn milli efta-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls


Í stað 1. viðbætis við bókun 4 komi eftirfarandi:


EYÐUBLAÐ C
KVÖRTUN SKV. 7. GR. II. VIÐAUKA

I. Upplýsingar um þann sem ber fram kvörtun og fyrirtæki eða samtök fyrirtækja sem kvörtunin varðar

1.     Veita skal allar upplýsingar um þann einstakling eða lögaðila sem ber fram kvörtunina. Ef fyrirtæki leggur fram kvörtun skal tilgreina fyrirtækjasamstæðuna sem það tilheyrir og gefa nákvæmt yfirlit yfir eðli og umfang starfseminnar. Gefið upp tengilið (ásamt símanúmeri, póstfangi og netfangi) þar sem hægt er að fá viðbótarupplýsingar.
2.     Tilgreinið fyrirtæki eða samtök fyrirtækja þar sem kvartað er yfir starfseminni, þ.m.t. ef við á, allar tiltækar upplýsingar um fyrirtækjasamstæðuna sem fyrirtækið eða fyrirtækin, sem kvörtunin beinist að, tilheyrir og eðli og umfang starfsemi þeirra. Tilgreinið stöðu kvartanda gagnvart fyrirtækinu/fyrirtækjunum eða samtökum fyrirtækja sem kvartað er yfir (t.d. viðskiptavinur eða samkeppnisaðili).

II. Ítarlegar upplýsingar um meint brot og sönnunargögn

3.     Lýsa skal nákvæmlega staðreyndum sem álitið er að bendi til þess að um brot sé að ræða á ákvæðum 53. eða 54. gr. EES-samningsins. Tilgreinið einkum hvers eðlis varan er (vara eða þjónusta) sem hið meinta brot hefur áhrif á og útskýrið, ef þörf krefur, viðskiptatengsl varðandi þessar vörur. Gefið upp í einstökum atriðum allar fyrirliggjandi upplýsingar um samninga eða starfsvenjur fyrirtækis eða samtaka fyrirtækja sem þessi kvörtun varðar. Tilgreina skal, að svo miklu leyti sem unnt er, hlutfallslega markaðsstöðu fyrirtækjanna sem kvörtunin varðar.
4.     Leggið fram öll skjöl í yðar vörslu sem varða eða tengjast beint þeim staðreyndum sem settar eru fram í kvörtuninni (t.d. texta samninga, fundargerðir samningaviðræðna eða funda, viðskiptaskilmála, viðskiptaskjöl, umburðarbréf, bréfaskipti, minnisatriði frá símtölum...). Tilgreinið nöfn og heimilisföng aðila sem geta vottað þær staðreyndir sem eru settar fram í kvörtuninni, einkum þeirra sem hið meinta brot hefur áhrif á. Leggið fram tölulegar upplýsingar eða önnur gögn í yðar vörslu sem tengjast staðreyndunum sem eru settar fram, einkum þar sem þau sýna þróun á markaði (t.d. upplýsingar varðandi verð og verðþróun, aðgangshindranir á markaði fyrir nýja birgja o.s.frv.).
5.     Setjið fram sjónarmið yðar varðandi landfræðilegt umfang meints brots og útskýrið, þar sem það er ekki augljóst, að hve miklu leyti sú háttsemi, sem kvartað er yfir, kann að hafa áhrif á viðskipti á milli aðildarríkja EB eða á milli Bandalagsins og eins eða fleiri EFTA-ríkja eða milli EFTA-ríkjanna.

III. Niðurstöður fengnar frá Eftirlitsstofnun EFTA og lögmætir hagsmunir

6.     Útskýrið hvaða niðurstöðu eða aðgerðum óskað er eftir að málsmeðferð Eftirlitsstofnunar EFTA skili.
7.     Setja skal fram ástæður sem liggja að baki kröfunni um lögmæta hagsmuni skv. 7. gr. II. kafla. Einkum skal gera grein fyrir því á hvern hátt háttsemin, sem kvörtun er lögð fram gegn, hefur áhrif á þann sem kvartar og, álit á því hvernig afskipti Eftirlitsstofnunar EFTA væru líkleg til að bæta meint kvörtunarmál.

IV. Málsmeðferð fyrir innlendum samkeppnisyfirvöldum eða innlendum dómstólum

8.     Veita skal allar upplýsingar um það hvort leitað hafi verið til einhverra annarra samkeppnisyfirvalda varðandi sama málefni og/eða hvort málinu hafi verið vísað til innlends dómstóls. Ef sú er raunin skal veita allar upplýsingar um stjórnsýslu- eða dómsmálayfirvaldið sem leitað var til og um það hvaða gögn hafi verið lögð fyrir slíkt yfirvald.
Yfirlýsing þess efnis að upplýsingarnar, sem koma fram á þessu eyðublaði og í viðaukum við það, séu veittar í góðri trú.
Dagsetning og undirskrift
Fylgiskjal VII.


Davíð Þór Björgvinsson,
prófessor:


Álitsgerð um framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana í tilefni af innleiðingu reglugerðar ráðsins (EB) nr. 1/2003.
(Reykjavík, 30. október 2004.)


1. Inngangur.
    Utanríkisráðherra hefur óskað eftir lögfræðilegri álitsgerð um stjórnskipuleg álitamál varðandi innleiðingu reglugerðar ráðins (EB) nr. 1/2003 frá 16. desember 2002 um framkvæmd samkeppnisreglna sem mælt er fyrir um í 81. og 82. gr. stofnsáttmála Evrópubandalagsins. Reglugerð þessi var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 24. september 2004. Upptaka reglugerðarinnar í EES-samninginn hefur í för með sér að nauðsynlegt er að gera breytingar á samkeppnislögum nr. 8/1993. Er gert ráð fyrir þessum breytingum í frumvarpi til nýrra samkeppnislaga sem lagt hefur verið fram á Alþingi. Það er eingöngu 27. gr. frumvarpsins sem kemur til skoðunar í þessari álitsgerð. 1
    Ákvæði 27. gr. frumvarpsins hljóðar svo:
             Þegar dómstóll fjallar um samninga, ákvarðanir eða aðgerðir skv. 53. og 54. gr. EES-samningsins í máli sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur þegar tekið ákvörðun í má úrlausn hans ekki brjóta í bága við þá ákvörðun. Enn fremur skal hann forðast að leysa úr máli á annan veg en þann sem Eftirlitsstofnun EFTA kann að gera í máli sem hún hefur til meðferðar. Dómstóllinn getur í þessu skyni frestað meðferð málsins.
             Ákvæði 1. mgr. hefur ekki áhrif á heimild dómstóls til að leita eftir ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins skv. 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.
    Í athugasemdum við 27. gr. frumvarpsins segir þetta:
             Ákvæði þessarar greinar eru í samræmi við 1. mgr. 16. gr. bókunar 4 með samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, svo og 1. mgr. 16. gr. reglugerðar ráðsins (EB) nr. 1/2003 um framkvæmd samkeppnisreglna sem mælt er fyrir um í 81. og 82. gr. Rómarsáttmálans, sbr. 53. og 54. gr. EES-samningsins, og eru sett til að tryggja samræmi í beitingu þeirra alls staðar á Evrópska efnahagssvæðinu.
             Þegar dómstóll fellir úrskurð eða kveður upp dóm um samninga, ákvarðanir eða aðgerðir skv. 53. og 54. gr. EES-samningsins sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur þegar tekið ákvörðun í má úrskurður hans eða dómur ekki brjóta í bága við þá ákvörðun sem Eftirlitsstofnunin hefur tekið. Hann skal enn fremur forðast að fella úrskurð eða kveða upp dóma sem stangast á við ákvörðun sem Eftirlitsstofnunin kann að taka í máli sem hún hefur tekið til meðferðar. Dómstóll getur í þessu skyni ákveðið að fresta meðferð málsins fyrir dóminum. Ákvæði greinarinnar taka ekki til almennra lögskýringa Eftirlitsstofnunarinnar heldur einungis ákvörðunarorða hennar í viðkomandi máli. Dómstóll getur þó, meðan á málsmeðferð stendur, beðið um ráðgefandi álit hjá EFTA-dómstólnum á grundvelli 34. gr. samningsins milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.
    Af tilvitnuðu ákvæði verður ráðið að verði það að lögum verða ákvarðanir Eftirlitsstofnunar EFTA á grundvelli 53. og 54. gr. EES-samningsins bindandi fyrir íslenska dómstóla. Athugasemdir í greinargerð um að „almennar lögskýringar“ Eftirlitsstofnunarinnar séu ekki bindandi breytir því ekki. Þá er íslenskum dómstól jafnframt óheimilt að kveða upp úrskurð eða dóm sem er andstæður ákvörðun sem Eftirlitsstofnun EFTA kann að taka. Í reynd merkir þetta líklega að dómstóll getur ekki lokið málinu fyrr en ákvörðun stofnunarinnar liggur fyrir.
    Þá er vert að hafa í huga að skv. 56. gr. EES-samningsins er einnig gert ráð fyrir því að framkvæmdastjórn EB geti átt lögsögu í málum þar sem reynir á beitingu 53. og 54. gr. EES- samningsins. Þótt ekki sé það tekið fram í 27. gr. frumvarpsins er gengið út frá því hér að íslenskir dómstólar verði með hliðstæðum hætti bundnir af ákvörðunum framkvæmdastjórnar ESB þegar mál á undir hana, sbr. og nánar 56. gr. EES-samningsins. 2 Einnig er bent á b-lið 2. mgr. 108. gr. EES-samningsins, en þar er gert ráð fyrir að unnt sé að skjóta ákvörðunum ESA á sviði samkeppni til EFTA-dómstólsins. Samsvarandi gildir um heimild til að skjóta ákvörðunum framkvæmdastjórnarinnar til dómstóls EB. Þótt ekkert sé tekið fram um þetta í 27. gr. frumvarpsins er eðlilegt að skilja ákvæðið svo að hafi máli verið skotið til þessara dómstóla og niðurstaða liggur fyrir verði ákvörðun þeirra með sama hætti bindandi fyrir íslenska dómstóla. Þá gildi enn fremur fyrirvarinn um ákvarðanir sem þessar stofnanir kunna að taka með sama hætti og þegar Eftirlitsstofnun EFTA á í hlut. Þetta verður einnig ráðið af ákvæðum VII. kafla frumvarpsins í heild, sem hefur m.a. að geyma ákvæði um framkvæmd samkeppnisreglna samkvæmt EES-samningnum, sbr. einkum ákvæði 24. gr. frumvarpsins þar sem skýrlega er gert ráð fyrir þessu. Þessi skilningur er raunar staðfestur í greinargerð í athugasemdum við 27. gr. frumvarpsins og er á honum byggt í þessari álitsgerð.
    Aftur á móti er óljósara hvaða ályktanir ber að draga af 2. mgr. 27. gr. frumvarpsins um ráðgefandi álit þar sem fram kemur að ákvæðið breyti engu um heimild skv. 34. gr. samningsins um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls til að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði 34. gr. er aldrei skylt að leita ráðgefandi álits og er orðalag frumvarpsgreinarinnar í samræmi við það. Þá eru slík ráðgefandi álit aldrei bindandi þótt eftir því hafi verið óskað. Til samanburðar er dómstólum aðildarríkja sambandsins stundum skylt að leita forúrskurðar skv. 234. gr. EB og forúrskurður er ávallt bindandi ef eftir honum hefur verið óskað, hvort sem það var skylt eða ekki. Varðandi skýringu 27. gr. frumvarpsins vaknar einkum sú spurning hvernig með skuli fara ef ósamræmi verður milli ákvörðunar ESA sem 27. gr. vísar til og ráðgefandi álits sem leitað er eftir vegna sama máls, sem 27. gr. gerir ráð fyrir að unnt sé að leita eftir. Einkum vaknar sú spurning hvort líta beri svo á að ráðgefandi álit verði bindandi við þessar aðstæður. Í því sambandi skiptir máli að niðurlag ákvæðisins byggist orðrétt á samningnum um breytingar á bókun 4 við ESE-samninginn og á sér fyrirmynd í orðalagi 16. gr. reglugerðar nr. 1/2003. Forsaga þessa ákvæðis er að í niðurstöðum EB-dómstólsins í Delimitis-málinu og Masterfoods-málinu 3 segir að innlendur dómstóll geti leitað eftir forúrskurði EB-dómstólsins, telji hann vafa leika á réttmæti niðurstöðu framkvæmdastjórnarinnar í samkeppnismáli. Niðurlag 27. gr. frumvarpsins virðist því eiga að skilja svo að unnt sé að leita ráðgefandi álits m.a. ef dómstóll telur vafa leika á réttmæti ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA í samkeppnismáli. Þetta sýnist eiga að leiða til þeirrar niðurstöðu að sé ósamræmi milli ákvörðunar Eftirlitsstofnunarinnar og ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins geti ákvörðunin ekki verið bindandi og dómstól sem óskar eftir áliti beri þá að fylgja álitinu, þótt svo eigi að heita að það sé aðeins ráðgefandi. Af ákvæðinu sjálfu verður þó ekki með vissu ráðið hvernig ber að skilja þetta. Í greinargerð segir í athugasemdum við 27. gr. að álitið verði ekki bindandi við þessar aðstæður, en á hinn bóginn væri dómstól alltaf rétt að leggja niðurstöðu EFTA-dómstólsins til grundvallar ef ósamræmi er milli hennar og ákvörðunar Eftirlitsstofnunar EFTA. Í þessu sambandi er þó vert að benda á að í öllu falli er heimilt að skjóta ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA til EFTA-dómstólsins og sú niðurstaða verður bindandi fyrir íslenska dómstóla. Af þessum sökum er ekki talið að þessi álitamál sem tengjast ráðgefandi álitum við þessar aðstæður hafi í reynd sérstaka þýðingu fyrir niðurstöður álitsgerðarinnar, að öðru leyti en því að undirstrika þá sérstöðu sem 27. gr. frumvarpsins hefur.
    Álitaefnið sem fjallað er um þessari álitsgerð er nánar það hvort það rúmist innan valdheimilda löggjafans að mæla svo fyrir að íslenskir dómstólar skuli bundnir af ákvörðunum Eftirlitsstofnunar EFTA, framkvæmdastjórnar EB, EFTA-dómstólsins og dómstóls EB þegar þeir beita 53. og 54. gr. EES-samningsins.
    Þótt álitaefnið sé þannig nokkuð afmarkað er engu að síður eðlilegt að setja það í samhengi við almenna umræðu um framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana og þau lagaviðhorf sem talin verða eiga við í þeim efnum á Íslandi. Í því sambandi er þess að geta að allt frá því frumvarp til laga um EES-samninginn, sbr. nú lög nr. 2/1993, var lagt fram á Alþingi hafa umræður um það hvort samningurinn eða einstök ákvæði hans séu samrýmanleg íslensku stjórnarskránni verið nokkuð líflegar. Mikilvægur grundvöllur að þeirri umræðu var álit sem þáverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, lét semja um þetta efni. 4 Þá urðu nokkrar umræður um þetta efni vegna ráðagerða um þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu. Einnig af því tilefni lét þáverandi utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, semja tvær álitsgerðir um þetta efni. 5 Álitsgerðir þessar og niðurstöður þeirra hafa þýðingu fyrir það álitaefni sem hér er til skoðunar.
    Álitaefni það sem hér er til umfjöllunar tengist því allvíðtækri lögfræðilegri og pólitískri umræðu um heimildir til framsals ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana. Hafa fræðimenn m.a. lagt nokkuð til þeirrar umræðu. 6 Því hefur verið tekinn sá kostur að fjalla í þessari álitsgerð einnig um almennari viðhorf í þessum efnum enda verða þau sjónarmið sem fram hafa komið talin hafa talsverða þýðingu fyrir það sérgreinda álitaefni sem hér er til umfjöllunar, m.a. í því skyni að greina réttarstöðuna á Íslandi í þessu efni og einnig til þess að meta hvaða svigrúm löggjafinn kanna að hafa til framsals ríkisvalds að óbreyttum stjórnlögum.
    Álitsgerð þessi er að öðru leyti þannig upp byggð að fyrst verður gerð grein fyrir meginefni þeirra breytinga sem felast í reglugerð nr. 1/2003. Þá verður gerð grein fyrir þeirri sérstöðu sem 27. gr. frumvarpsins hefur í samanburði við þau ákvæði EES-samningsins sem talin hafa verið fela í sér framsal ríkisvalds. Þá verður fjallað nokkuð með almennum hætti um fullveldishugtakið, enda er það jafnan fyrirferðarmikið í umræðu um mögulegar heimildir löggjafans til að framselja ríkisvald til alþjóðastofnana. Tilgangurinn með því er m.a. sá að færa rök fyrir því að þótt ætla verði að í ákvæðum stjórnarskrárinnar felist sú forsenda að Ísland sé fullvalda ríki leysir það ekki sjálfkrafa úr þeim stjórnskipulegu álitamálum sem hér eru til skoðunar. Í framhaldi af því verður fjallað nokkuð um hin almennu lögfræðilegu og réttarpólitísku rök sem telja verður mikilvæg við úrlausn þessa álitaefnis. Þá verður gerð grein fyrir fræðikenningum og lagaframkvæmd á Íslandi um þetta efni. Í framhaldi af því verður rökstudd sú skoðun að í gildi sé regla að íslenskum rétti sem heimilar hinum almenna löggjafa takmarkað framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Í niðurstöðum álitsgerðarinnar er síðan lagt mat á það hvort það framsal ríkisvalds sem telja verður að felist í 27. gr. frumvarpsins rúmist inna þeirra heimilda sem löggjafinn er talinn hafa samkvæmt framangreindri reglu.

2. Nánar um 27. gr. frumvarpsins.
    Í almennum athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að breytingar þær sem hér er fjallað um komi til vegna innleiðingar reglugerðar ráðsins (EB) nr. 1/2003 frá 16. desember 2002 um framkvæmd þeirra samkeppnisreglna sem mælt er fyrir um í 81. og 82. gr. sáttmálans um EB. Hið almenna markmið breytinga þeirra sem felast í reglugerð nr. 1/2003 er að draga úr miðstýringu stofnana sambandsins á sviði samkeppnismála og færa valdheimildir á því sviði til samkeppnisyfirvalda og dómstóla aðildarríkjanna. Reglugerð þessi hefur verið tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 130/2004 frá 24. september 2004, eins og fyrr segir. Af upptöku reglugerðarinnar leiðir að gera þarf breytingar á ákvæðum samkeppnislaga þar sem innleiðing hennar hefur í för með sér efnislegar breytingar á bókun 4 við EES-samninginn um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls sem nauðsynlegt er talið að lögfesta. Segir síðan í athugasemdunum að valdheimildir aðila séu taldar nægilega skýrar og afmarkaðar til að þær standist kröfur íslensks réttar. Ætla verður að í þessari athugasemd felist sú afstaða höfunda frumvarpsins að lögfesting þess samrýmist íslenskum stjórnarskipunarlögum.
    Í athugasemdum með frumvarpinu kemur einnig fram að meginbreytingin sem felst í upptöku reglugerðarinnar í EES-samninginn sé sú að samkeppnisyfirvöld og dómstólar í EFTA- ríkjunum fái heimild til að beita samkeppnisákvæðunum fullum fetum, en hingað til hefur túlkun þeirra og beiting verið á forræði Eftirlitsstofnunar EFTA og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Segir enn fremur að á grundvelli þessara breytinga verði íslenskum samkeppnisyfirvöldum heimilt og skylt að afgreiða ákveðin mál á grundvelli 53. og 54. gr. EES- samningsins hér á landi.
    Af athugasemdum við 27. gr. frumvarpsins sérstaklega er ljóst að í frumvarpinu birtist sú ráðagerð að hendur íslenskra dómstóla verði við ákveðnar aðstæður bundnar vegna ákvarðana alþjóðlegrar stofnunar (Eftirlitsstofnunar EFTA). Þá er einnig vakin athygli á að ákvæði 27. gr. tekur einnig til EFTA-dómstólsins, framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og dómstóls EB, sbr. nánar það sem fram kemur í inngangskafla.
    Ekkert fyllilega sambærilegt ákvæði er að finna í íslenskum lögum, eins og rökstutt verður frekar í næsta kafla. Þó er skylt að geta þess að samkvæmt EES-samningnum, sbr. 110. gr., hafa Eftirlitsstofnun EFTA, EFTA-dómstóllinn, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og dómstóll EB heimild til að taka ákvarðanir á grundvelli 53. og 54. gr. EES-samningsins, sem geta verið bindandi fyrir íslenska aðila og enn fremur eru ákvarðanir þessara aðila fullnustuhæfar hér á landi án nokkurs atbeina íslenskra dómstóla, enda hafa þeir ekki hingað til haft lögsögu til að leysa úr málum á grundvelli nefndra ákvæða EES-samningsins. 7
    Það var nokkuð álitaefni í tilefni af lögfestingu EES-samningsins hvort þetta samræmdist stjórnarskránni. Í áliti nefndar utanríkisráðherra frá 1992 var þetta þó talið samræmast henni. Var sá skilningur lagður til grundvallar við afgreiðslu frumvarps til laga nr. 2/1993 á Alþingi.

3. Sérstaða 27. gr. frumvarpsins.
    Hafa verður í huga að í þeim breytingum sem ráðgerðar eru felst í reynd að vald, sem nú er alfarið á hendi Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins, er að vissu marki fært til innlendra samkeppnisyfirvalda og dómstóla. Þótt hendur íslenskra dómstóla séu að nokkru bundnar við úrlausn mála er í vissum skilningi gengið skemmra í framsali valds en samkvæmt þeim reglum sem nú gilda þar sem ákvarðanir þessara stofnana eru bindandi fyrir innlenda aðila og fullnustuhæfar án nokkurs annars atbeina innlendra aðila. Sú ályktun kann því að virðast nærtæk að ákvæði 27. gr. frumvarpsins rúmist innan þess framsals sem þegar hefur verið talið heimilt á grundvelli EES-samningsins. Vegna sérstöðu sem ákvæði 27. gr. frumvarpsins hefur að öðru leyti verður þó ekki talið að þetta atriði eitt og sér leysi úr því álitaefni sem hér liggur fyrir.
    Hér að framan er bent á að samkvæmt EES-samningnum eru ákvarðanir Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins á sviði samkeppnismála fullnustuhæfar í aðildarríkjum samningsins. Um leið hafa íslenskir dómstólar ekki haft lögsögu til að leysa úr málum á grundvelli 53. og 54. gr. samningsins. Með þeim breytingum sem nú eru fyrirhugaðar fá íslenskir dómstólar slíkar heimildir. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir að dómstólar verði bundnir við ákvarðanir sem Eftirlitsstofnun EFTA (og framkvæmdastjórnin, EFTA-dómstóllinn og dómstóll EB) hefur tekið í sama máli, sbr. nánar ákvæði greinarinnar. Þar með hefur 27. gr. frumvarpsins talsverða sérstöðu þar sem hendur íslenskra dómstóla verða bundnar við úrlausnir stofnunarinnar í málum þar sem þeir annars hafa lögsögu.
    Þótt hér sé í ákveðnum skilningi verið að færa innlendum aðilum valdheimildir sem þeir höfðu ekki áður verður þetta engu að síður talið jafngilda því að dómsvald í íslenskum málum verði að vissu marki framselt til alþjóðastofnunar eða það a.m.k. takmarkað vegna ákvarðana stofnunarinnar. Vegna skilyrða sem byggt er á í EES-samningnum um að samráð fyrirtækja eða misnotkun markaðsráðandi stöðu hafi áhrif á hinum sameiginlega markaði og vegna krafna um ákveðna veltu fyrirtækjanna, sbr. nánar 56. gr. EES-samningsins, eru í reynd ekki líkur á að oft geti á þetta reynt þegar íslensk fyrirtæki eiga í hlut. Það hefur þó ekki beina þýðingu fyrir það sértæka lögfræðilega álitamál sem hér er til skoðunar, þótt það geti skipt máli við pólitískt mat á því hver verði þýðing þessara breytinga í reynd.
    Í íslenskum lögum er ekki að finna ákvæði sem með sama hætti takmarkar dómsvald íslenskra dómstóla og bindur hendur þeirra með formlegum hætti við úrlausn máls sem þeir hafa annars lögsögu til að dæma í. Viðurkenning á fullnustuhæfi erlendra stjórnvaldsúrskurða eða dóma er annars eðlis þar sem þær fela í sér viðurkenningu á fullnustuhæfi stjórnvaldsákvarðana sem alfarið eru teknar af erlendum stjórnvöldum samkvæmt þeim reglum sem gilda í viðkomandi ríki eða dómum sem kveðnir er upp af dómstólum í öðru ríki, án nokkurs atbeina íslenskra aðila. Í íslenskri löggjöf eru mörg dæmi þess að löggjafinn hafi veitt erlendum úrlausnum fullnustuhæfi og eru skilyrðin fyrir slíkri viðurkenningu eða rökin fyrir henni mismunandi í hverju tilviki. Ákvæði af þessu tagi hafa þó aldrei verið túlkuð þannig að þau takmörkuðu sjálfstæði innlendra dómstóla í málum sem þeir annars eiga lögsögu í. Það hefur m.ö.o. ekki verið litið svo á að þau skertu sjálfstæði dómsvaldsins á Íslandi þannig að sérstök stjórnskipuleg vandkvæði sköpuðust. Þetta felur einfaldlega í sér að lögmætum ákvörðunum stjórnvalda eða dómstóla í öðrum löndum verður framfylgt á Íslandi að tilteknum skilyrðum uppfylltum, rétt eins og innlendum stjórnvaldsákvörðunum og dómum. Ef ágreiningur risi aftur á móti um það hvort tilteknar ákvarðanir frá erlendum aðilum eða dómar væru í reynd fullnustuhæfar hér á landi er unnt að bera slíkan ágreining undir íslenska dómstóla. Ákvæði 27. gr. frumvarpsins snertir aftur á móti með beinum hætti sjálfstæði dómsvaldsins þar sem dómari verður bundinn af ákvörðun annars aðila (Eftirlitsstofnunar EFTA) þegar hann kveður upp sinn dóm. Sú tegund framsals sem í ákvæðinu felst er því nýmæli í íslenskum lögum, án þess að með því sé í sjálfu sér tekin afstaða til þess hvort ákvæðið gengur lengra eða skemmra í framsali ríkisvalds til alþjóðastofnana en áður hefur verið talið rúmast innan stjórnarskrárinnar. Það þarfnast því sérstakrar skoðunar hvort það framsal til alþjóðastofnunar á dómsvaldi sem í þessu verður talið felast samrýmist ákvæðum stjórnarskrárinnar.
    Til að varpa frekara ljósi á þau nýmæli sem í 27. gr. frumvarpsins felast er þarft að rifja upp ýmis sjónarmið um meðferð dómsvalds og framsal þess sem fram komu í samningaviðræðunum um EES-samninginn og í umræðum um samræmi hans við íslensku stjórnarskrána. Þá komu þessi sjónarmið að nokkru einnig fram í álitsgerðum um Schengen-samstarfið. Þau sýna að mikil áhersla var lögð á þá grundvallarþýðingu sem sjálfstæði innlends dómsvalds var talið hafa.
    Í samningaviðræðunum um EES-samninginn kom mjög skýrt fram það sjónarmið af hálfu Íslands, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands að fundin yrði leið til að tryggja þessum ríkjum aðgang að sameiginlegum markaði á sviði fjórfrelsisins án þess að þeim yrði gert að framselja ríkisvald umfram stjórnskipulegar heimildir. Niðurstöður samningaviðræðnanna og ákvæði samningsins sem lúta að meðferð dómsvalds bera þessa glöggt merki. Þrjú atriði er vert að nefna í þessu sambandi, þ.e. ráðgefandi álit skv. 34. gr. samningsins um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls (ESE), 6. gr. EES-samningsins og 3. gr. ESE, og 107. gr. EES-samningsins, sbr. bókun 34. Umfjöllun um þessi atriði sýnir glöggt að mikil tregða var til þess að fallast á að hendur dómsvaldsins í EFTA-ríkjunum yrðu bundnar umfram það sem talið var samræmast stjórnarskrám þeirra.

    Ráðgefandi álit.
    Fyrst má nefna ákvæði samningsins um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls um ráðgefandi álit, sbr. einkum 34. gr. ESE. Fyrirmynd 34. gr. ESE er að finna í 234. gr. EB (áður 177. gr.). Í því ákvæði er dómstól EB fengið vald til að kveða upp forúrskurði varðandi túlkun samningsins og ákvæða EB-réttar sem af honum leiðir. Í 2. mgr. 234. gr. segir að komi álitaefni af þessu tagi upp fyrir dómstóli í aðildarríki EB geti sá dómstóll, ef hann telur að úrskurður um álitaefnið sé nauðsynlegur áður en dómur er kveðinn upp, óskað úrskurðar dómstóls EB um túlkun ákvæðisins. Í 3. mgr. segir síðan að komi slíkt álitaefni upp fyrir dómstól í aðildarríki og úrlausn þess sætir ekki málskoti samkvæmt landslögum skuli vísa málinu til dómstóls EB.
    Tilgangurinn að baki 234. gr. EB er að tryggja samræmda skýringu og beitingu EB-réttarins í aðildarríkjum bandalagsins. Mismunandi skýring og beiting reglnanna í einstökum aðildarríkjum var talin til þess fallin að vinna gegn þeirri samræmingu löggjafar á ákveðnum sviðum sem að er stefnt með samstarfinu á sviði fjórfrelsisins. Frá þessu sjónarmiði má segja að framkvæmd ákvæðisins feli í sér eins konar samvinnu milli dómstóls EB og dómstóla aðildarríkja bandalagsins, samvinnu sem miði að því að markmið þess efnahagslega og viðskiptalega samstarfs, sem stofnsáttmálar mæla fyrir um, náist. Forúrskurðir eru mjög mikilvægur þáttur í starfsemi dómstóls EB og hefur dómstóllinn sett fram margar af grundvallarreglum EB-réttarins í slíkum úrskurðum. 8 Til eru umfangsmikil fræðiskrif um forúrskurði dómstóls EB og er ekki ástæða til að fjalla ítarlega um það úrræði hér. Fyrir efni þessarar álitsgerðar nægir að nefna eftirtalin meginatriði: (i) Dómstólum aðildarríkja bandalagsins er stundum skylt að leita forúrskurðar dómstóls EB. Skv. 3. mgr. 234. gr. EB er skylt að leita forúrskurðar þegar álitaefni um skýringu EB-réttar koma upp í máli sem rekið er fyrir dómstól á síðasta dómstigi, þ.e. dómstól sem kveður upp dóma sem verður ekki áfrýjað. (ii) Í öðrum tilvikum er dómstólum aðildarríkjanna heimilt að leita forúrskurðar og er það meginreglan, sbr. 2. mgr. 234. gr. EB. (iii) Forúrskurðir eru alltaf bindandi þegar eftir þeim hefur verið leitað, hvort sem það var skylt eða ekki. Dómstól, sem leitað hefur forúrskurðar, ber því að leggja skýringu dómstóls EB á EB-reglum til grundvallar dómi.
    Ákvæði 34. gr. ESE stefnir að sama markmiði og forúrskurðir dómstóls EB. Úrræðinu sem ákvæðið mælir fyrir um er ætlað að stuðla að því að eitt af höfuðmarkmiðum EES-samningsins um samræmda beitingu og skýringu EES-reglna í EFTA-ríkjunum, og raunar öllu Evrópska efnahagssvæðinu, náist. Hér er því um að ræða skýra hliðstæðu við 234. gr. EB. Ráðgefandi álit eru þó frábrugðin forúrskurðum skv. 234. gr. EB í nokkrum mikilvægum atriðum, en aðeins tvö af þeim skipta máli fyrir þessa álitsgerð.
    Í fyrsta lagi felur 34. gr. ESE aðeins í sér heimild fyrir dómstól EFTA-ríkis til að leita eftir ráðgefandi áliti hjá EFTA-dómstólnum. Dómstólum EFTA-ríkja er m.ö.o. aldrei skylt að leita eftir slíku áliti. Aftur á móti gerir 3. mgr. 234. gr. EB ráð fyrir að dómstól aðildarríkis sé skylt að leita forúrskurðar EB-dómstólsins ef um er að ræða dómstól sem kveður upp dóma sem ekki er hægt að skjóta til æðra dóms. Í öðrum tilfellum er um að ræða heimild, sbr. 2. mgr. 234. gr. Í öðru lagi eru álit EFTA-dómstólsins skv. 34. gr. ESE aðeins ráðgefandi fyrir dómstól EFTA-ríkis, á meðan forúrskurðir EB-dómstólsins eru bindandi, hvort sem um hann er beðið á grundvelli 2. eða 3. mgr. 234. gr. EB.
    Fyrir efni þessarar álitsgerðar skiptir það mestu máli að í undirbúningsviðræðunum fyrir EES-samninginn var rædd þörfin á því að kveða á um úrræði í EES-samningnum sem væri sambærilegt við forúrskurði. Var þá einkum haft í huga að slík álitsumleitan yrði bindandi fyrir dómstóla EFTA-ríkjanna. Frá þeim ráðagerðum var hins vegar horfið þar sem talið var að slíkt fyrirkomulag kynni að vera andstætt stjórnarskrá einstakra EFTA-ríkja. Í álitsgerð nefndar utanríkisráðherra frá 1992 þar sem fjallað er um ráðgefandi álit er lögð sérstök áhersla á að hvorki sé skylt að leita ráðgefandi álita né væru þau bindandi, þótt eftir þeim sé óskað. Af þeim sökum var í álitsgerðinni ekki talið að ákvæðið um ráðgefandi álit hefði sérstök stjórnskipuleg vandkvæði í för með sér. 9 Í 27. gr. frumvarpsins er aftur á móti gert ráð fyrir að íslenskir dómstólar verði bundnir af ákvörðunum tiltekinna stofnana við ákveðnar aðstæður. Þótt ekki sé þar um ráðgefandi álit að ræða er þessi ráðagerð sem fram kemur í 27. gr. frumvarpsins ósamrýmanleg þeirri hugmynd og forsendum sem ákvæðin um ráðgefandi álit eru byggð á og þeim röksemdum sem m.a. voru færðar fram fyrir því að þau samrýmdust stjórnarskránni.

    Ákvæði 6. gr. EES og 3. gr. ESE.
    Einnig er hér ástæða til að geta um 6. gr. EES-samningsins og 1. og 2. mgr. 3. gr. ESE. Í 6. gr. EES-samningsins segir:
             Með fyrirvara um þróun dómsúrlausna í framtíðinni ber við framkvæmd og beitingu ákvæða samnings þessa að túlka þau í samræmi við úrskurði dómstóls Evrópubandalaganna sem máli skipta og kveðnir hafa verið upp fyrir undirritunardag samnings þessa, þó að því tilskildu að þau séu efnislega samhljóða samsvarandi reglum stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu og stofnsáttmála Kola- og stálbandalagsins og gerðum sem samþykktar hafa verið vegna beitingar þessara tveggja sáttmála.
    Í 1. og 2. mgr. 3. gr. ESE segir:
             1. Með fyrirvara um þróun dómsúrlausna í framtíðinni ber við framkvæmd og beitingu ákvæða bókana 1 til 4 og ákvæða í gerðum samsvarandi þeim sem skráðar eru í I. og II. viðauka við samning þennan, að túlka þau í samræmi við úrskurði dómstóls Evrópubandalaganna sem máli skipta og kveðnir hafa verið upp fyrir undirritunardag EES-samningsins, þó að því tilskildu að ákvæðin séu efnislega samhljóða samsvarandi reglum stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu og stofnsáttmála Kola- og stálbandalags Evrópu og gerðum sem samþykktar hafa verið vegna beitingar þessara tveggja sáttmála. 10
             2. Við túlkun og beitingu EES-samningsins og samnings þessa skulu eftirlitsstofnun EFTA og EFTA- dómstóllinn taka tilhlýðilegt tillit til þeirra meginreglna sem mælt er fyrir um í viðkomandi úrskurðum dómstóls Evrópubandalaganna sem kveðnir eru upp eftir undirritunardag EES-samningsins og varða túlkun þess samnings eða reglna í stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu og stofnsáttmála Kola- og stálbandalags Evrópu, að því tilskildu að þær séu efnislega samhljóða ákvæðum EES-samningsins eða ákvæðum bókana 1–4, svo og ákvæðum gerða samsvarandi þeim sem skráðar eru í I. og II. viðauka við samning þennan.
    Ákvæði 6. gr. EES og 1. og 2. mgr. 3. gr. ESE hafa að markmiði, ásamt ýmsum öðrum ákvæðum EES-samningsins, að tryggja samræmi í framkvæmd, beitingu og skýringu sameiginlegra reglna á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. 11 Í umræðum um stjórnarskrána og EES var nokkuð fjallað um þýðingu 6. gr. EES og 3. gr. ESE. Niðurstaðan af því var sú að ákvæðin hefðu ekki sérstök stjórnskipuleg vandkvæði í för með sér vegna þess að dómar EB- dómstólsins væru ekki bindandi, heldur væru þeir lögskýringargögn sem hafa ætti hliðsjón af við skýringu og beitingu EES-samningsins. Hér er eingöngu lýst þeim skilningi sem lagður var til grundvallar þeirri niðurstöðu að ákvæði 6. gr. EES ylli ekki sérstökum stjórnskipulegum vandkvæðum. Á hinn bóginn mætti hafa langt mál um það hvort og að hvaða marki fordæmi eru samt sem áður bindandi í reynd, þ.m.t. fordæmi dómstóls EB, en íslenskir fræðimenn hafa fjallað nokkuð um það málefni. 12 Hér skiptir mestu máli sú forsenda þegar stjórnskipulegt gildi 6. gr. var metið, að fordæmin væru ekki bindandi. Þótt 27. gr. frumvarpsins sé vissulega annars eðlis er það ákvæði einnig ósamrýmanlegt þeirri hugmynd og forsendum sem ákvæði 6. gr., sbr. og einnig 3. gr. ESE, er reist á og þeim röksemdum sem m.a. voru færðar fram fyrir því að það samrýmdist stjórnarskránni.

    Ákvæði 107. gr. EES-samningsins og bókunar 34.
    Í 107. gr. EES er að finna ákvæði sem vísar til bókunar 34 við EES-samninginn þar sem EFTA-ríkjunum er gefinn kostur á að heimila dómstólum sínum að biðja dómstól EB að taka ákvörðun um túlkun EES-reglu. Í bókun 34 segir nánar að þegar vafi leikur á túlkun ákvæða í samningnum, sem að efni til eru eins og ákvæði í stofnsáttmálum Evrópubandalagsins, með áorðnum breytingum eða viðbótum, eða gerðum sem samþykktar hafa verið samkvæmt honum, í máli sem er fyrir dómstóli eða rétti í EFTA-ríki, geti dómstóllinn eða rétturinn, telji hann það nauðsynlegt, beðið dómstól Evrópubandalaganna að taka ákvörðun í slíku máli. Þá kemur einnig fram í bókuninni að hyggist EFTA-ríki nýta sér þessa bókun skuli tilkynna vörsluaðila og dómstóli Evrópubandalaganna að hve miklu leyti og með hvaða hætti bókunin muni gilda um dómstóla og rétti þess.
    Með ákvæðum 107. gr. EES og bókunarinnar er þeirri leið haldið opinni að dómstólar EFTA-ríkjanna geti leitað bindandi forúrskurðar frá dómstól EB. Það er aftur á móti undir sérstakri ákvörðun einstakra EFTA-ríkja komið hvort þau kjósa að nýta sé þá heimild. Í álitsgerð nefndar utanríkisráðherra frá 1992 er bent á að hér sé ekki um að ræða að skylda dómstóla til að leita forúrskurðar, heldur aðeins heimild. Af þeim sökum var þetta atriði ekki talið skipta máli fyrir niðurstöður þeirrar álitsgerðar. Þá var á það bent að kysi Ísland að nýta sér þetta úrræði þyrfti að setja um það sérstök lög og enn fremur að ekki væri ástæða til að taka sérstaka afstöðu til þess hvort stjórnarskrárbreyting væri nauðsynleg vegna þess atriðis. Við þetta má bæta að það er tæpast álitamál að ástæðan fyrir því að ákveðið var að ákvæði 107. gr. EES skyldi vera valkvætt var einmitt sú að talið var að það gæti ekki samrýmst stjórnlögum sumra EFTA-ríkjanna að dómstólar þeirra yrðu bundnir af forúrskurðum dómstóls EB. Þetta viðhorf skiptir talsverðu máli fyrir mat á stjórnskipulegu gildi 27. gr. frumvarpsins. Í þessu kemur vissulega fram að nokkur eðlismunur var talinn á því að viðurkenna tilteknar ákvarðanir sem fullnustuhæfar og þess að fallast á að þær geti bundið hendur dómstóla í málum þar sem þeir annars hafa lögsögu.
    Þá má geta þess að lokum að í álitsgerðum sem fyrr eru nefndar er endurtekið hnykkt á því að með samningunum fengu stofnanir ekki heimild til að taka ákvarðanir sem með beinum hætti binda hendur íslenskra dómstóla eða annarra aðila sem að landslögum hafa heimildir til að skera úr réttarágreiningi með bindandi hætti. Þá hafa þessar röksemdir iðulega verið notaðar til að komast að sömu niðurstöðu. Var það talin þýðingarmikil röksemd þegar komist var að þeirri niðurstöðu að ákvæði EES-samningsins og tengdra samninga um meðferð dómsvalds samræmdust íslensku stjórnarskránni. Þar sem í 27. gr. frumvarpsins felst ráðagerð um að ákvarðanir Eftirlitsstofnunar EFTA verði bindandi fyrir íslenska dómstóla á sú röksemd ekki við í því tilviki sem hér um ræðir.

    Að lokum má hér nefna 15. lið inngangsorða EES-samningsins, sem einnig dregur fram þá áherslu sem lögð var á sjálfstæði dómstóla EFTA-ríkjanna, en þar segir: „Samningsaðilar stefna að því, með fullri virðingu fyrir sjálfstæði dómstólanna, að ná fram og halda sig við samræmda túlkun og beitingu samnings þessa og þeirra ákvæða í löggjöf bandalagsins sem tekin eru efnislega upp í samning þennan, svo og að koma sér saman um jafnræði gagnvart einstaklingum og aðilum í atvinnurekstri að því er varðar fjórþætta frelsið og samkeppnisskilyrði.“ Í þessum orðum er lögð áhersla á að þau ákvæði samningsins og úrræði sem miða að því að markmiðinu um einsleitni skuli náð eigi ekki að hafa áhrif á sjálfstæði dómstóla aðildarríkjanna.

    Þau atriði sem hér hafa verið rakin leiða í ljós að ákvæði 27. gr. frumvarpsins hefur talsverða sérstöðu og rúmast að mínu áliti ekki sjálfkrafa innan þess framsals sem þegar hefur verið talið heimilt á grundvelli EES-samningsins. Af þeim sökum er nauðsynlegt að taka afstöðu til þess sérstaklega hvort sú tegund framsals sem í ákvæðinu felst rúmist innan þeirra heimilda sem löggjafinn verður talinn hafa í þessu efni.

4. Fullveldishugtakið.
    Eins og rakið er í inngangi er eðlilegt, í tilefni af því álitaefni sem hér er rætt, að fjalla nokkuð um fullveldishugtakið og lögfræðilega þýðingu þess fyrir álitaefnið. Í umræðum um stjórnarskrána og EES, og einnig af öðrum tilefnum þar sem reynt hefur á svipuð álitamál, kemur hugtakið „fullveldi“ (e. sovereignty) iðulega fyrir. Er því stundum haldið fram að hvers konar framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana án sérstakrar heimildar í sjálfri stjórnarskránni sé ólögmætt vegna þess að það skerði „fullveldi“ íslenska ríkisins sem verndað sé í stjórnarskránni.
    Ekki er ágreiningur um að íslenska stjórnarskráin sé reist á þeirri forsendu að Ísland sé fullvalda ríki. Skilgreining hugtaksins „fullveldi“ er engu að síður mismunandi eftir fræðasviðum, auk þess sem deilt er um rétta skilgreiningu þess innan einstakra fræðasviða. 13 Varasamt getur því verið að nota hugtakið „fullveldi“ í lögfræðilegri umræðu um heimildir ríkisins (löggjafans) til að framselja valdheimildir ríkisins til alþjóðlegra stofnana án þess að afmarka það fyrst lögfræðilega. Ástæðan er m.a. sú, eins og fyrr segir, að skilgreining þess eftir fræðasviðum er mismunandi, en önnur ástæða er að hugtakið getur verið mjög gildishlaðið og er oft notað sem eins konar „slagorð“ til að höfða til þjóðernistilfinninga í því skyni að reisa varnarmúra gegn því að lúta valdheimildum alþjóðlegra stofnana til íhlutunar í málefni ríkis eða borgara þess. Tilhneiging er til að líta svo á að slíkar valdheimildir takmarki eða skerði „fullveldi“ ríkis og séu því ólögmætar (eða í það minnsta óæskilegar). Það getur því verið erfitt að nota það í lögfræðilegri umræðu.
    Frá lögfræðilegu sjónarhorni hefur hugtakið „fullveldi“ í grófum dráttum tvær hliðar. Annars vegar má skilgreina það frá sjónarhóli almenns þjóðaréttar og hins vegar frá sjónarmiði stjórnskipunarréttar einstakra ríkja (í þessu tilviki íslensks stjórnskipunarréttar). 14 Bent er á að orðið fullveldi kemur ekki fyrir með skýrum hætti í íslenskum lögum og ræðst lögfræðileg merking þess í íslenskum rétti þar af leiðandi af fræðikenningum. 15 Þó hefur 1. gr. stjórnarskrárinnar verið túlkuð svo að í henni felist að Ísland sé fullvalda ríki. 16 Enn fremur er bent á í 1. gr. sambandslaganna frá 1918 var tekið fram að Ísland væri frjálst og fullvalda ríki.
    Það er meginregla þjóðaréttar að hann taki til fullvalda ríkja. Hefðbundið er að líta svo á að tiltekin fjögur grundvallaratriði séu forsenda fyrir tilvist ríkis, en þau eru: fólk, land, lögbundið skipulag og stjórnskipulegt sjálfstæði. Þegar sagt er í þjóðarétti að ríki sé fullvalda er einkum vísað til síðastnefnda atriðisins. Í því felst að ríki fari sjálft með æðstu stjórn eigin málefna óháð yfirvöldum annarra ríkja eða, eftir atvikum, alþjóðlegum stofnunum. Ekki er ágreiningur um það að Ísland er fullvalda ríki að þjóðarétti samkvæmt þessari skilgreiningu, bæði að lögum og í reynd. Aðild Íslands að EES-samningnum breytir því ekki og er raunar fremur staðfesting þess að það sé einnig skilningur annarra ríkja.
    Þegar skoðuð er merking fullveldishugtaksins frá sjónarmiði stjórnskipunarréttar fellur það að efnisinntaki að mestu saman við þjóðréttarlega skilgreiningu, en sjónarhornið er annað. Áherslan er eftir sem áður lögð á að æðsta stjórn innri málefna, þ.m.t. mótun utanríkisstefnu, er í grunninum í höndum innlendra stofnana og aðila sem ekki sækja vald sitt til valdhafa annarra ríkja eða alþjóðastofnana. Ekki leikur vafi á að ákvæði 2. gr. íslensku stjórnarskrárinnar ber t.d. að skýra þannig að það vísi til íslenskra „stjórnarvalda“ og „dómenda“. Í þessu felst að frá sjónarhóli þegnanna sjálfra eru æðstu yfirvöld í ríkinu, óháð stjórnarformi, fullvalda. Þau deila m.ö.o. völdum sínum á landsvæði ríkisins ekki með öðrum, nema þau sjálf ákveði það með lögmætum hætti.

5. Almenn réttarpólitísk og lögfræðileg sjónarmið um framsal ríkisvalds.
    Í umræðunni um EES og stjórnarskrána á sínum tíma kom ekki sérstaklega fram hvaða hagsmuni þeim reglum, sem taldar voru standa framsali fullveldis (ríkisvalds) í vegi, er ætlað að vernda. Þó er jafnan gagnlegt að huga að slíku við skýringu laga, þ.m.t. ákvæða stjórnarskrárinnar sem taldar verða byggjast á því að Ísland sé fullvalda ríki. Í stuttu máli má spyrja hvaða hagsmuni fullveldi ríkis eða áskilnaði um að ríki sé fullvalda er ætlað að standa vörð um. 17 Mismunandi leiðir koma til greina þegar leitað er svara við þessari spurningu.
    Í fyrsta lagi má líta svo á að verið sé að vernda hagsmuni íslenska ríkisins sem slíks (ríkisheildarinnar), þar sem landið, þjóðin og ríkisvaldið og handhafar þess eru ein eining og hafa sömu órofa hagsmuna að gæta. Í öðru lagi má líta svo á að verið sé að vernda hagsmuni íslenskra handhafa ríkisvalds, þ.m.t. dómstóla, sem eigi rétt á því samkvæmt stjórnarskránni og hafa fengið til þess viðurkenningu annarra ríkja að sitja einir að völdum yfir þegnum sínum og þurfa ekki að deila þeim með erlendu valdi. Í þriðja lagi hagsmuni íslenskra borgara sem eiga rétt á að þeirri réttarvernd sem stjórnkerfið í þeirra eigin landi hefur upp á að bjóða. Áhersla á fullveldið þjónar þá þeim tilgangi fyrst og fremst að gæta réttinda þegna ríkisins. Verður nú fjallað frekar um einstök atriði.
    Í fyrsta atriðinu er lögð áhersla á þá hagsmuni sem tengjast menningarlegri arfleifð þjóðar og vitund hennar um sérstöðu sína og sameiginlega ættjörð. Frá þessu sjónarmiði séð er gengið út frá ríkinu sem einni heild þar sem þjóðin og ríkisvaldið og handhafar þess eru samstíga eining sem hefur sömu hagsmuna að gæta. Um þá sameiginlegu hagsmuni, þjóðareininguna og þjóðareinkennin, standi fullveldið vörð. Þessi hugmynd er í ætt við hefðbundnar hugmyndir um þjóðerni og þjóðareininguna sem mótuðu umræður í Evrópu á 19. öld, þ.m.t. á Íslandi, og höfðu áhrif á baráttu þjóðríkja fyrir sjálfstæði. 18
    Áhersla á þessa hlið fullveldishugtaksins í samskiptum ríkja á grundvelli þjóðaréttar hefur þó fólgna í sér vissa vankanta, enda eru forsendur fyrir samskiptum fullvalda og sjálfstæðra ríkja á grundvelli þjóðaréttar aðrar en við áttu um baráttu þjóðríkja fyrir sjálfstæði. Hætta er á að hugtakið „fullveldi“ verði við þessar aðstæður fyrst og fremst pólitískt „slagorð“ án afmarkaðs innihalds og það notað til að hafa áhrif á tilfinningar og höfða til þjóðerniskenndar manna. Um leið er það notað til að reisa varnarvegg gagnvart samskiptum við aðrar þjóðir á grundvelli þjóðaréttar og gagnvart hugsanlegum afskiptum annarra ríkja og alþjóðlegra stofnana af innanlandsmálum í nafni þjóðernis og ríkiseiningar, án tillits til raunverulegra og áþreifanlegra hagsmuna borgaranna sjálfra. Hætta er á að gildi fullveldishugtaksins í lögfræðilegri umræðu um framsal ríkisvalds og mögulegar heimildir til þess að skerða það verði takmarkað. Með þessu er ekki sagt að það séu ekki mikilsverðir hagsmunir sem fullveldið í þessum skilningi stendur vörð um. Aðrar hliðar fullveldishugtaksins eru ekki síður mikilvægar eins og sýnt verður.
    Ef miðað er við að fullveldi ríkis snúist fyrst og fremst um það hverjir eigi að fara með völd á tilteknu landsvæði þjónar hugmyndin um fullveldi fyrst og fremst hagsmunum þeirra sem fara með völd í tilteknu ríki.
    Í ritum um hugmyndasögu er upphaf hugmyndarinnar um fullveldi ríkis tíðum rakið til Frakkans Jean Bodin (1530–1596) og rits hans Six Livres de la République (Sex bækur um ríkið) sem kom út árið 1576. 19 Vanmáttur Frakkakonungs við að koma á lögum og reglu undir lok 16. aldar, m.a. vegna trúarbragðastyrjalda, var frá fræðilegu sjónarmiði settur í samhengi við fullveldi (souveraneté) konungs. Hugmyndin um pólitískt fullveldi Frakkakonungs var sett fram til að styðja völd hans og óskoraðan rétt til að koma á lögum og reglu á tilteknu landsvæði og gagnvart því fólki sem þar bjó, án tillits til tungumáls, menningar, trúarbragða eða annarra þjóðareinkenna einstakra hópa. Til þess að þetta væri unnt var talið nauðsynlegt að uppspretta valds væri aðeins hjá einum aðila, hann væri með öðrum orðum fullvalda. Gildi þessarar hugmyndar verður að skoða í ljósi þeirra sögulegu aðstæðna sem ríktu þegar þær voru settar fram. Kenningin var mótuð með skýr markmið í huga, þ.e. þau að hafna því að tiltekinn hópur manna, hver sem samkenni hans, þjóðernisleg eða önnur, kynnu að vera, gætu eða ættu rétt til að taka höndum saman, óháð eða gegn „fullvaldinum“ (konungi eða öðrum). Megininntak kenningar Bodin var að hafna því að þátttaka fjöldans eða samsetning hans að öðru leyti gæti orðið grundvöllur að stjórn ríkisins. 20 Kenning þessi var sett fram til að skjóta rótum undir tilkall eins aðila til óskoraðra valda á tilteknu svæði, án tillits til þess hver samkenni þegna hans kynnu annars að vera. Fullveldið var ekki talið deilanlegt og það var óframseljanlegt.
    Hugmyndir af þessu tagi tengjast vissulega að nokkru fullveldishugmynd þeirri sem ætla má að íslenska stjórnarskráin sé reist á, að því leyti að markmiðið var m.a. að tryggja Íslendingum sjálfum stjórn íslenskra málefna án afskipta erlends valds. Í þessum kenningum Bodin felst þó ekki að einstaklingar eigi rétt á því að aðeins tiltekinn valdhafi (konungur, ríkisstjórn o.s.frv.) ráði málum þeirra, enda var konungurinn sjálfur hafinn yfir lögin. Upphaflega á hugmyndin því ekkert skylt við hagsmuni ríkis (lands, þjóðar og yfirvalda) sem slíks, sem sérstakrar einingar, né heldur er það tengt við réttindi þegna á ákveðnu landsvæði til að láta tiltekna aðila ráða málefnum sínum. Hún er í upphafi eingöngu sett fram til að skjóta hugmyndafræðilegum rótum undir tilkall til valda. Af því má vera ljóst að sé þessi hugmynd um fullveldi ein lögð til grundvallar er hætta á að skýring stjórnarskrárinnar um heimildir til framsals ríkisvalds taki fyrst og fremst mið af rétti þeirra sem fara með völd og rétti þeirra eða skyldu til að hafna því að deila völdum með öðrum, en síður af raunverulegum hagsmunum og réttindum borgaranna til að eiga úrlausn mála sinna undir öðrum. Fullveldi undir formerkjum sem hér voru rakin hefur ekki beina, augljósa og áþreifanlega þýðingu til hagsbóta fyrir hagsmuni eða réttindi borgara hins fullvalda ríkis. Það fer eftir aðstæðum hverju sinni hvort svo er.
    Þá er komið að þriðja atriðinu en það má að nokkru leyti skilja sem andsvar við framangreindar hliðar fullveldishugtaksins. Ókosturinn við þær tvær hliðar fullveldishugtaksins sem hér hafa verið raktar er í meginatriðum sá að ekki er sjálfgefið að fullveldið hafi beina þýðingu til hagsbóta fyrir borgara hins fullvalda ríkis, enda getur ríki verið fullvalda óháð stjórnarformi og án tillits til þess hvort þegnar ríkis búa við mannréttindi og frelsi, m.a. á sviði viðskipta. Mörg dæmi eru þess í alþjóðastjórnmálum að ríki skjóti sér á bak við þjóðréttarlegt fullveldi sitt til að bægja frá afskiptum annarra þjóða eða alþjóðlegra stofnana sem miða að því að bæta stjórnarform og auka mannréttindi og frelsi innan landamæra þeirra. Fullveldið getur þannig við ákveðnar kringumstæður orðið skjól fyrir valdhafa til að kúga þegnana og brjóta mannréttindi eða annars konar frelsisréttindi á þeim. Af þessum sökum gætir vaxandi áherslu á það sjónarmið í umræðum um fullveldi að markmiðið með fullveldi eigi fyrst og fremst að vera að skapa umgjörð til þess að tryggja mannréttindi, frelsi og almenna velferð þegnunum til handa um leið og tekið er tillit til þeirra þátta sem tengja saman þjóðir. Fullveldi ríkis eigi þar með að þjóna því markmiði fyrst og fremst að standa vörð um þessi gæði. Þetta sjónarmið birtist m.a. í alþjóðastjórnmálum samtímans þar sem hernaðarlega öflug ríki telja það rétt sinn, í skjóli siðferðilegra yfirburða, að ráðast að öðrum ríkjum til að létta af þegnum þeirra byrðum harðstjóra sem skeyta ekki um réttindi þegna sinna. Virðing fyrir fullveldi ríkis víkur þar með vegna þess að það tryggir þegnum sínum ekki þessi réttindi eða mannsæmandi lífsskilyrði. Á sama hátt má líta svo á að réttur ríkis til að standa vörð um fullveldi sitt miði að því að tryggja þegnum sínum þessi réttindi.
    Til áréttingar þessum sjónarmiðum er vert að benda á að stjórnmálaþróun í heiminum síðustu 20 árin eða svo einkennist af tveimur meginþáttum sem virðast í fljótu bragði vera andstæðir. Annars vegar hefur hrun Sovétríkjanna og kommúnistastjórna í A-Evrópu ýtt undir myndun nýrra þjóðríkja. Hugmyndin um þjóðríkið er því síður en svo á undanhaldi. Á hinn bóginn eru ríki heims í öðrum skilningi að renna meira saman. Þessi þróun hefur áhrif á merkingu fullveldishugtaksins og gildi þess fyrir álitaefnið sem hér er til úrlausnar. Guðmundur Hálfdánarson gerir meginþáttum þessarar þróunar skil í riti sínu um íslenska þjóðríkið, uppruna þess og endimörk. 21 Þótt þar sé að nokkru um að ræða atriði sem ýmsir aðrir hafa bent á áður er ástæða til að vekja athygli á umfjöllun hans.
    Fyrst bendir hann á byltingu í samgöngum og upplýsingatækni sem gert hafi samskipti milli fjarlægra staða auðveldari og hraðari. Hann telur að áhrif þessa séu og eigi eftir að verða gríðarleg fyrir hugmyndir manna um þjóðríkið. Sífellt verði erfiðara að viðhalda þeirri ímynd að menning hverrar þjóðar sé á einhvern hátt lík innbyrðis um leið og hún greinir sig frá menningu annarra þjóða, en sameiginleg menning er samkvæmt hefðbundnum viðhorfum mikilvægur þáttur í þjóðernisvitund og þar með í hugmyndum manna um fullveldi. Menningin er í auknum mæli að verða alþjóðleg, eða a.m.k. fjölþjóðleg.
    Í öðru lagi bendir hann á aukið alþjóðlegt eðli viðskipta í heiminum sem fari saman við aukna trú á möguleikum markaðarins til að auka hagsæld og þörfina fyrir að draga úr hindrunum í alþjóðaviðskiptum. Hnattvæðing í viðskiptum og minnkandi afskipti ríkisvaldsins dregur úr samkennd og samstöðu um þá þætti sem venjulega eru taldir tengja saman þjóðir. Við þessi sjónarmið Guðmundar má bæta að aukin alþjóðaviðskipti, sem þurfa að lúta eigin sérstökum reglum, eru til þess fallin að grafa undan valdi þjóðríkja (ríkisheilda), m.a. með því að valdsvið þeirra þrengist þegar vissir þættir eru fengnir sameiginlegum stofnum í hendur, en einnig vegna þess að viðskiptin eiga sér í reynd stað utan landamæra ríkja. Um leið dregur úr möguleikum einstakra ríkja til að veita þeim aðilum sem stunda þessi viðskipti þá lagavernd sem þeim er nauðsynleg. Af því sprettur þörfin fyrir að styrkja frekar alþjóðlegar stofnanir sem fá það hlutverk að standa vörð um hin lögvörðu réttindi sem einstaklingar og lögaðilar kunna að eiga vegna þátttöku í alþjóðlegum viðskiptum.
    Þriðja atriðið sem nefna má er að ýmis vandamál sem mannkynið á við að etja eru þess eðlis að þau krefjast sameiginlegs átaks margra ríkja. Dæmi um þetta eru umhverfismál í víðum skilningi og nýting náttúruauðlinda, svo sem fiskistofna, en einnig vegna þátttöku þegna þeirra í viðskiptum milli landa. Ef ná á fram virkri réttarvernd við slíkar aðstæður er það ekki tækt viðhorf lengur að í fullveldi ríkis felist heimild til að haga ákvörðunum sínum í þeim efnum án þess að réttmætt tillit sé tekið til hagsmuna annarra ríkja eða hagsmuna viðskiptaaðila frá öðrum ríkjum. Benda má á í dæmaskyni að tregða hefur verið til þess að fallast á það í alþjóðasamfélaginu að hvalveiðar í íslenskri lögsögu séu einkamál Íslendinga. Skilyrði til að hefja hvalveiðar og gera viðskipti með hvalafurðir að nýju að arðbærri atvinnugrein hafa reynst erfið af þessum sökum og af ótta við að Íslendingar yrðu beittir viðskiptaþvingunum eða annars konar refsiaðgerðum.
    Fyrir mat á þýðingu fullveldishugtaksins fyrir það álitaefni sem hér er til umfjöllunar ber af þessum sökum að hafa í huga vaxandi samvinnu milli ríkja og aukin tengsl einstaklinga í mismunandi ríkjum, jafnt á sviði viðskipta sem öðrum sviðum. Jafnframt skiptir máli að þessum samskiptum er að stórum hluta komið á án nokkurrar milligöngu yfirvalda einstakra ríkja. Þessar aðstæður leiða til þess að tengsl einstaklinganna við sitt eigið ríki verða veikari. Afleiðingar þessa eru tvenns konar. Í fyrsta lagi verður æ erfiðara að réttlæta það sjónarmið að þeim beri vernd eins ríkis sem hafi eitt rétt til ráðstöfunar á réttindum þeirra og í öðru lagi verður ríkisheildin verr í stakk búin til að gæta hagsmuna þeirra og réttinda á fullnægjandi hátt, enda mótaðilar gjarnan staðsettir í öðru ríki. Við þessar aðstæður er eðlilegt að einstaklingar og aðilar í atvinnurekstri eigi tilkall til þess að úrlausn ágreinings þeirra í millum, og eftir atvikum eftirlit með starfsemi þeirra, eigi undir sameiginlegar alþjóðlegar stofnanir, fremur en stofnanir í ríki eins þeirra. Með því að fela alþjóðlegum stofnunum tiltekin völd á þessum forsendum er því ekki verið að draga úr réttaröryggi einstaklinga eða aðila í atvinnurekstri, heldur þvert á móti stefnt að því að auka það. Þessi sjónarmið eiga að sjálfsögðu betur við eftir því sem ríkin, sem samningar eru gerðir við, búa við ríkari lýðræðishefð. Í því sambandi má hafa í huga að hin upprunalegu aðildarríki EES búa við ríka lýðræðishefð og í mörgum þeirra á hún sér lengri sögu en á Íslandi. Stofnanir sem þessi ríki setja sameiginlega á fót hvíla einnig á slíkum hefðum. Engin augljós rök eru til að ætla að íslenskir borgarar yrðu almennt verr settir með því að eiga mál sín undir slíkum stofnunum þótt það kynni að draga úr svigrúmi íslenskra yfirvalda, þ.m.t. dómstóla, til að þjóna hagsmunum þeirra sérstaklega. Séu þessar lýðræðishefðir til staðar og ríkin fullnægja öllum almennum skilyrðum þess að vera réttarríki er ekki ástæða til að gera ráð fyrir öðru en að öll grundvallarréttindi þegnanna séu virt, en vernd fullveldis á fyrst og fremst að miða að því. Enda er það svo að á síðustu árum hafa íslenskir þegnar oft leitað til alþjóðlegra stofnana vegna þess að þeir hafa ekki náð fram rétti sínum fyrir innlendum stofnunum. Í sumum tilvikum hefur það skilað þeim verulegum árangri. Þannig er ljóst að framsal valdheimilda til alþjóðlegra stofnana getur við vissar aðstæður styrkt til muna réttarstöðu einstaklinga og lögaðila. Af þessu leiðir jafnframt að einstrengingsleg áhersla á fullveldisréttindi ríkis, þar sem verndarhagsmunir eru aðrir en réttindi þegnanna, getur komið í veg fyrir að þegnar þess njóti eðlilegrar réttarverndar í heimi alþjóðlegra viðskipta.
    Niðurstaðan af þessum hugleiðingum er að þegar metnar eru heimildir til framsals ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana hljóta að vega þungt hagsmunir og réttindi borgaranna. Ávallt verði að hafa í huga hvað telja megi eðlilegt og forsvaranlegt gagnvart borgurunum þegar tillit hefur verið tekið til allra aðstæðna, þ.e. hvað varðar EES sérstaklega, þátttöku í viðskiptum við þegna annarra landa á sameiginlegum markaði ríkja sem öll teljast til réttarríkja. Taka verður mið af þessum hagsmunum við skýringu stjórnarskrárinnar eða annarra grundvallarreglna um mögulegar heimildir löggjafans til að framselja ríkisvald þannig að fastmótaðar hugmyndir um fullveldi ríkis verði ekki til þess að skerða réttarvernd einstaklinga og takmarka úrræði þeirra til að leita réttar síns á þeim vettvangi sem eðlilegastan má telja þegar haft er í huga alþjóðlegt eðli viðskiptanna. Ætla verður að löggjafinn hafi svigrúm til að meta það svo að hagsmunir íslenskra þegna geti einmitt verið best tryggðir með því að eftirlit með þeim og úrlausn ágreiningsmála á sviði alþjóðlegra viðskipta eigi undir sameiginlegar stofnanir margra ríkja sem vinna að sama markmiði á grundvelli þjóðaréttar. Í því er talin felast besta trygging fyrir því að allir fái á grundvelli jafnræðis notið þeirra réttinda sem alþjóðlegar viðskiptareglur, þ.m.t. samkeppnisreglur EES-samningsins, mæla fyrir um. Sameiginlegar stofnanir draga úr möguleikum stærri og öflugri ríkja til beygja skýringu og framkvæmd reglnanna undir hagsmuni sína eða þegna sinna, og eru þar með til þess fallnar að styrkja stöðu smærri ríkja í samfélagi alþjóðlegra viðskipta.
    Auknar kröfur um skilvirka framkvæmd alþjóðlegra viðskiptareglna og sjónarmið um aukna réttarvernd borgaranna hafa þannig óhjákvæmilega áhrif á fullveldi ríkja og hugmyndir manna um það, og löghelgar að mínu áliti ákveðið framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana þótt það sé vissulega álitamál hvar draga eigi mörkin. Það skiptir miklu máli fyrir efni þessarar álitsgerðar að 27. gr. frumvarpsins stefnir einmitt sérstaklega að því að skapa einstaklingum og aðilum í atvinnurekstri tækifæri til að leita réttar síns fyrir sjálfstæðum alþjóðlegum stofnunum ef reglur eru brotnar gagnvart þeim og binda um leið hendur innlendra stofnana.

6. Réttarstaðan á Íslandi.
6.1 Almenn sjónarmið við skýringu stjórnarskrárinnar.
    Almenn sjónarmið um skýringu ákvæða stjórnarskrár skipta máli fyrir mat á hugsanlegum heimildum til framsals ríkisvalds, m.a. í því tilviki sem fjallað er um í álitsgerð þessari. Vel er kunnur sá greinarmunur sem venja er að gera á kenningum um óbreytilega skýringu stjórnarskrárinnar annars vegar og kenningum um breytilega skýringu hins vegar. 22 Í fyrra tilfellinu er átt við að við skýringu stjórnarskrárinnar eigi að leggja til grundvallar þau viðhorf sem voru ráðandi á þeim tíma er hún var upphaflega sett. Í síðari kenningunni felst að þeir sem túlka stjórnarskrána á hverjum tíma eigi að hafa svigrúm til að haga skýringum hennar í samræmi við breyttar aðstæður og nýja þjóðfélagshætti og aðstæður í alþjóðasamskiptum.
    Fjalla mætti um rök með og á móti þessum kenningum í löngu máli. Þá má einnig draga í efa að þessar kenningar lýsi á fullnægjandi hátt þeim fjölbreytilegu sjónarmiðum sem til greina kemur að beita við skýringu ákvæða stjórnarskrár. Verður það ekki frekar rakið hér. Haganlegast er að freista þess að leita jafnvægis milli þeirra beggja. Við túlkun stjórnarskrárinnar ber vitaskuld að hafa í heiðri þær grundvallarhugmyndir sem hún var í upphafi reist á. Á sama tíma verður þó að taka mið af þeim meginstraumum sem einkenna ráðandi hugmyndir á hverjum tíma, ekki aðeins í stjórnmálum í þröngum skilningi, heldur einnig þeirra sem ráða afstöðu þegnanna til samfélagshátta almennt, stöðu einstaklinga, mannréttinda og frelsis á hverjum tíma, m.a. með það að markmiði að réttindi þeirra séu sem best tryggð á hverjum tíma. Hið síðarnefnda er forsenda þess að stjórnarskráin geti verið sú kjölfesta í stjórnskipuninni sem henni er ætlað að vera.
    Ekki verður gefið einhlítt svar við þeirri spurningu hvort Hæstiréttur Íslands hefur í túlkun sinni á íslensku stjórnarskránni aðhyllst breytilegar eða óbreytilegar skýringar. Margir dómar Hæstaréttar bera þó augljóslega fremur vitni um breytilega skýringu. 23 Þá er næsta augljóst að umræða um mannréttindamál og alþjóðlegar mannréttindareglur hefur haft margháttuð áhrif á skýringu mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar hin síðustu ár. 24 Var þeirra áhrifa farið að gæta í ríkum mæli áður en breyting var gerð á stjórnarskránni með stjórnskipunarlögum nr. 97/1995 og raunar fyrir lögfestingu mannréttindasáttmála Evrópu með lögum nr. 62/1994. Aukin viðskiptatengsl milli ríkja og þörf þeirra sem stunda slík viðskipti fyrir skjóta og hlutlæga úrlausn ágreiningsmála til að greiða fyrir þeim hljóta að hafa sömu áhrif.
    Í þessu sambandi verður einnig að geta þess meginsjónarmiðs að Alþingi, sem handhafi löggjafarvalds, hafi nokkurt svigrúm til að meta hvort löggjöf eða þjóðréttarsamningur brjóti í bága við stjórnarskrána. Þetta á ekki síst við um þá þætti stjórnarskrár og löggjafar sem lúta að skipulagi ríkisvaldsins sjálfs og handhöfn þess, þ.m.t. dómstóla. 25 Stjórnarskrárákvæði þau sem koma til skoðunar í tengslum við heimildir til framsals ríkisvalds eru matskennd, dómaframkvæmd á grundvelli þeirra er takmörkuð og fræðikenningar og skýrar stjórnskipunarhefðir skortir. Af þeim sökum ríkir oft vafi um skýringu þeirra. Jafnframt ber að hafa í huga að stjórnarskráin sjálf felur ekki neinum tilteknum aðila að skera úr um stjórnskipuleg álitamál af þessu tagi eins og gert er í ýmsum ríkjum. Fyrir því er hins vegar stjórnskipuleg dómvenja hér á landi að dómstólar hafi þetta vald. Álitamál um samræmi almennra laga eða þjóðréttarsamninga annars vegar og stjórnarskrár hins vegar verða þó aðeins borin undir hina almennu dómstóla í tengslum við tiltekið sakarefni. Ef af slíkri málsókn verður eiga dómstólar þess ekki kost að dæma um álitaefnið fyrr en eftir að tiltekin löggjöf er komin til framkvæmda og í sumum tilvikum löngu síðar. Við þessar aðstæður er eðlilegt að dómstólar játi löggjafanum sjálfum, lýðræðislega kjörnum meiri hluta Alþingis, visst svigrúm til að skýra stjórnarskrána, enda sæta handhafar löggjafarvalds pólitískri ábyrgð. Af þessu sjónarmiði leiðir einnig að gera verður ráð fyrir nokkru svigrúmi löggjafans sjálfs til mats á stjórnskipulegu gildi löggjafar, einkum þegar þau álitamál hafa sérstaklega verið til umræðu við þinglega meðferð lagafrumvarps. Þetta síðastnefnda atriði skiptir máli við mat á stjórnskipulegu gildi EES-samningsins. 26
    Við skýringu ákvæða stjórnarskrárinnar sem varða handhöfn og meðferð ríkisvalds verður að hafa þessi sjónarmið í huga. Vitaskuld leiða þau til þess að hafa verði í heiðri þá grunnhugmynd að baki sérstakri stjórnarskrá fyrir Ísland, að afmarka og skilgreina íslenska ríkið sem frjálst og fullvalda í samfélagi þjóðanna og þar með að ríkisvaldið skuli vera innlent. Hluti af skýringu á inntaki ákvæða stjórnarskrárinnar um meðferð ríkisvalds á hverjum tíma hlýtur aftur á móti alltaf að vera það að Ísland geti verið virkur þátttakandi í samfélagi þjóðanna sem fullvalda ríki. Í samræmi við þetta er eðlilegt að taka mið af vaxandi samskiptum þjóða á öllum sviðum, ekki síst viðskipta, og gæta að því að þröng skýring ákvæða stjórnarskrárinnar verki ekki sem hemill á virka þátttöku íslenska ríkisins í þessari þróun og vinni gegn hagsmunum íslenskra þegna.
    Af framansögðu leiðir að við skýringu ákvæða stjórnarskrárinnar sem varða framsal á ríkisvaldi til alþjóðastofnana er eðlilegt að hafa í huga síaukna alþjóðlega samvinnu. Þau ákvæði stjórnarskrárinnar sem einkum koma til skoðunar um framsal ríkisvalds eru gömul að stofni til og stjórnarskráin í heild, af sögulegum ástæðum, samofin hugmyndinni um sjálfstæði íslenska ríkisins og fullveldi um eigin málefni, einkum gagnvart danska konungsríkinu. Alþjóðlegt samstarf hefur fært þjóðir heims saman og Ísland er þar þátttakandi sem fullvalda ríki og staða þess í alþjóðlegu samstarfi að því leyti þjóðréttarlega ótvíræð. Þessi þróun leiðir til þess að forsendur fyrir skýringu á ákvæðum stjórnarskrárinnar varðandi heimildir til framsals ríkisvalds í takmörkuðum mæli og í nánar afmörkuðum tilgangi eru aðrar en áður. Gildi þessara sjónarmiða við skýringu ákvæða stjórnarskrár er ekki minna þótt stjórnarskrárgjafinn hafi í hendi sér að breyta stjórnarskránni til að aðlaga hana að breyttum aðstæðum. Sjónarmið þau um skýringu ákvæða stjórnarskrárinnar sem hér voru rakin hafa sjálfstætt gildi óháð því hvort stjórnarskránni er breytt eða ekki, enda vandséð að unnt sé útfæra almennt ákvæði í stjórnarskrá um heimild til framsals ríkisvalds þannig að lögskýringar verði leystar af hólmi. Þau sjónarmið við túlkun stjórnarskrárinnar ættu því við með sambærilegum hætti þótt slíku almennu ákvæði væri fyrir að fara í íslensku stjórnarskránni.

6.2 Einstök ákvæði stjórnarskrárinnar sem varða heimildir til framsals ríkisvalds.
    6.2.1 Inngangur.
    Í íslensku stjórnarskránni er ekki að finna sérstök ákvæði sem mæla fyrir um framsal valdheimilda ríkisins til alþjóðlegra stofnana. Ákvæði 21. gr. stjskr. veitir forseta, með atbeina og á ábyrgð ráðherra, heimild til að stofna til þjóðréttarskuldbindinga. Ákvæði þetta mælir fyrir um gerð hefðbundinna þjóðréttarsamninga, en verður ekki talið fela í sér sérstaka heimild til að framselja ríkisvald til alþjóðlegra stofnana og þá síður heimild til að gera þjóðréttarsamninga sem fara gegn stjórnarskrá. Skilja verður niðurlag þess þannig að sumir milliríkjasamningar séu þess efnis að þeim verði ekki fullnægt nema lagabreytingar komi til og í þeim tilvikum sé gerð krafa um samþykki Alþingis.

    6.2.2 Ákvæði 1. gr. stjskr.
    Í 1. gr. stjskr. segir að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stjórn. Þótt ekki sé tekið fram í þessu ákvæði að Ísland sé fullvalda ríki verður að telja það eina af forsendum þeim sem ákvæðið er reist á og raunar stjórnarskráin í heild. Í áliti nefndar utanríkisráðherra frá 1992 sem fyrr er vitnað til er þetta þó ekki talið hafa sjálfstæða þýðingu við úrlausn þess álitaefnis sem álitið fjallar annars um. 27 Sama á við um það álitaefni sem hér er til umræðu. Hugtakið fullveldi skiptir þó að vissu leyti máli í þessu sambandi, enda má hugsa sér að ríki hafi framselt svo stóran hluta af valdheimildum sínum til alþjóðlegra stofnana eða stjórnvalda í öðru ríki að það teljist ekki lengur fullvalda í reynd. Þó sýnir sagan að ríki getur talist fullvalda þótt talsvert skorti á að það hafi allar valdheimildir í eigin hendi. Þannig sagði í 1. gr. dönsk- íslensku sambandslaganna frá 1918 að Ísland væri frjálst og fullvalda ríki þótt það væri í konungssambandi við Danmörku og utanríkismál þess væru í höndum danska stjórnarráðsins í umboði Íslands, auk þess sem kveðið var nánar á um ýmis réttindi danskra ríkisborgara á Íslandi og öfugt. Enn fremur var mælt svo fyrir að Hæstiréttur Danmerkur skyldi fara með æðsta dómsvald þangað til Ísland kynni að ákveða að stofna æðsta dómstól í landinu sjálfu. 28 Það var því ekki skilyrði fullveldis í skilningi sambandslaganna að æðsta dómsvaldið væri orðið innlent. Þá er Ísland vitaskuld fullvalda ríki þrátt fyrir aðild að EES-samningnum. Skiptir þá ekki máli hvort lögð er til grundvallar stjórnmálafræðileg eða hefðbundin þjóðréttarleg skilgreining hugtaksins. Ísland er að sjálfsögðu einnig fullvalda ríki þótt íslenskir dómstólar kæmust að þeirri niðurstöðu síðar að EES-samningurinn fæli í sér óheimilt framsal ríkisvalds. Í skjóli óumdeildra fullveldisréttinda sinna gætu Íslendingar breytt stjórnarskrá sinni til að tryggja samræmi hennar við samninginn, þeir gætu leitað breytinga á samningnum í sama skyni eða horfið frá honum ef ekki reynast aðrar leiðir færar. Þá er gengið út frá því að aðildarríki Evrópusambandsins séu fullvalda þrátt fyrir aðildina og fyrir það, að margra mati, víðtæka framsal ríkisvalds til yfirþjóðlegra stofnana sem henni fylgir. Samkvæmt þessu er í raun hægt að ræða lögfræðilega um mögulegar heimildir til framsals ríkisvalds án þess að nota hugtakið fullveldi. Af þessu má einnig draga þá ályktun að í þeirri forsendu stjórnarskrárinnar, að Ísland sé fullvalda ríki, felst ekki sjálfkrafa frá lögfræðilegu sjónarmiði að ekki megi án sérstakrar heimildar í stjórnarskránni sjálfri framselja í vissum mæli einstakar valdheimildir ríkisins til alþjóðastofnana. Að því leyti kemur 1. gr. stjskr. ekki frekar við sögu hér.

    6.2.3 Ákvæði 2. gr. stjskr.
    Í þessari álitsgerð er einkum miðað við að heimild til að framselja ríkisvald ráðist fyrst og fremst af skýringu 2. gr. stjórnarskrárinnar. Þar segir:
             Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.
    Í þessu ákvæði má segja að felist þrjár reglur sem hér skipta máli. Í fyrsta lagi að ríkisvaldið skuli skiptast í þrjá þætti, í öðru lagi að völdin skuli vera í höndum þeirra aðila sem þar eru nefndir og í þriðja lagi að yfirvöld séu innlend, þ.m.t. dómstólar. Hið síðastnefnda er ekki sérstaklega nefnt en ekki er ástæða til að draga í efa að það felist í ákvæðinu.
    Óumdeilt er að í réttarframkvæmd hafa verið gerðar margar undantekningar frá þessum reglum í 2. gr., einkum í lagasetningu af hálfu Alþingis, án þess að stjórnarskráin hafi að geyma sérstaka heimild til þess eða að það hafi verið talið fara gegn ákvæðum stjórnarskrár. 29 Frá fyrstu tveimur reglunum eru svo margar undantekningar og vel þekktar að óþarfi er að rekja það nákvæmlega hér. Sumar þeirra varða grundvallaratriði í sjálfri stjórnskipuninni. Nægir þar að nefna handhöfn forseta á löggjafar- og framkvæmdarvaldi, sem 2. gr. mælir sjálf fyrir um, en einnig setu ráðherra á Alþingi. Aðrar undantekningar helgast af venjuhelgaðri lagasetningar- og stjórnarframkvæmd án þess að þær eigi sér stoð í orðalagi stjórnarskrárinnar. Má þar nefna heimildir ráðherra til að setja almenn stjórnsýslufyrirmæli á grundvelli almennra laga, en í því felst framsal löggjafarvalds til framkvæmdarvaldshafa. Hafa dómstólar og fræðimenn lagt nokkuð af mörkum til að afmarka og skilgreina heimilt framsal löggjafarvalds. 30 Enn fremur er óumdeilt að íslenskir dómstólar geta beitt erlendum lögum og í sumum tilfellum gera lög beinlínis ráð fyrir því að það sé gert. 31 Í vissum skilningi má líta á þetta sem frávik frá 2. gr. þar sem íslenskir þegnar geta með þessu móti verið bundnir af öðrum lagareglum en þeim sem stafa frá innlendum stjórnarstofnunum enda séu þeir þátttakendur í viðskiptum eða annars konar samskiptum þar sem erlendar réttarreglur gilda. Þá er stjórnvöldum í mörgum tilvikum fengið vald til að skera úr réttarágreiningi. Í þessu felst visst framsal dómsvalds til framkvæmdarvalds á grundvelli almennra laga. Hefur það komið í hlut dómstóla og fræðimanna að afmarka þessar heimildir nánar. 32 Þá eru dæmi um að Alþingi hafi með höndum stjórnarframkvæmd sem samkvæmt orðalagi 2. gr. á undir framkvæmdarvaldið. Enn má geta þess að í lögum eru dæmi þess að heimilt sé að fela einkaaðilum meðferð opinbers valds. 33
    Að því er varðar löggjafarvaldið sérstaklega er vert að hafa í huga að á sumum sviðum gera lög beinlínis ráð fyrir því að þjóðréttarreglum, sem ekki hafa verið sérstaklega lögfestar, skuli beitt. Hér er átt við þau tilvik þar sem vísað er til þjóðréttarsamninga í lögum og sagt að þeim skuli beita með hliðsjón af þeim, í samræmi við þá eða eftir atvikum með þeim takmörkunum sem af þeim leiðir. Verða nú nefnd nokkur dæmi um þetta.
    Í 2. gr. laga nr. 44/1948, um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins, segir: „Reglum þeim, sem settar verða samkvæmt 1. gr. laga þessara, skal framfylgt þannig, að þær séu ávallt í samræmi við milliríkjasamninga um þessi mál, sem Ísland er aðili að á hverjum tíma.“ Hér er miðað við að almennum stjórnsýslufyrirmælum sem sett kunna að vera á grundvelli laganna skuli framfylgt þannig að samræmist þjóðréttarsamningum. Samkvæmt orðum ákvæðisins er ekki aðeins um að ræða þjóðréttarsamninga sem voru fyrir hendi þegar lögin tóku gildi, heldur einnig þá sem síðar kunna að koma til. Með þessum hætti hefur löggjafinn bundið hendur stjórnvalda við setningu almennra stjórnsýslufyrirmæla og við beitingu þeirra og framkvæmd, við þjóðréttarsamninga sem kunna að verða gerðir í framtíðinni. Lætur nærri að þjóðréttarsamningum á þessu sviði séu þannig veitt ríkari áhrif að landsrétti en strangt til tekið verða leidd af hinni hefðbundnu tvíeðliskenningu um skil þjóðaréttar og landsréttar.
    Í 1. gr. siglingalaga, nr. 34/1985, segir: „Lög þessi gilda um öll skip sem skráð eða skráningarskyld eru á Íslandi. Þegar athafnir íslensks framkvæmdarvalds eða dómsvalds taka til erlendra skipa skal einnig beita ákvæðum laga þessara, eftir því sem við á, enda brjóti það ekki í bága við reglur þjóðaréttarins.“ Í þessu ákvæði setja þjóðréttarreglur gildissviði íslenskra laga skorður.
    Í 1. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, segir að aðili dómsvalds geti verið hver sá einstaklingur, félag eða stofnun, sem getur átt réttindi eða borið skyldur að landslögum. Dómstólar hafa vald til að dæma mál allra þeirra sem geta verið aðilar nema undantekningar séu gerðar í lögum eða samkvæmt þjóðarétti. Þá segir einnig í 24. gr. sömu laga að dómstólar hafi vald til að dæma um hvert það sakarefni sem lög og landsréttur ná til nema það sé skilið undan lögsögu þeirra samkvæmt lögum, samningi, venju eða eðli sínu. Hér er m.a. vísað til þess að þjóðréttarsamningar kunni að mæla fyrir um lögsögu annarra stofnana en íslenskra dómstóla. Tilvísanir til þjóðaréttar hér merkja að þjóðréttarreglur takmarka gildissvið íslensku reglnanna og ganga framar þeim að svo miklu leyti sem þær kunna að vera ósamrýmanlegar.
    Í 11. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, segir að ákvæðum 4.–6. gr. laganna skuli beita með þeim takmörkunum, sem leiðir af reglum þjóðaréttarins. Um er að ræða almennan fyrirvara eða áminningu um það að taka tillit til þjóðréttarreglna í samskiptum ríkja um refsilögsögumál. Hér er m.a. átt við alþjóðareglur um frjálsa för skipa og flugvéla, sbr. t.d. reglur um óslitna eftirför. 34 Á þessar reglur hefur reynt í dómum Hæstaréttar Íslands, sbr. t.d. H.1964,10, H.1964,44 og H.1964,859, sem allir varða sama álitaefnið. 35 Í dómunum var vísað til afstöðu ríkja á alþjóðaráðstefnu í Genf árið 1958 til réttarreglna á úthafinu, sem þar voru samþykktar um eftirför eftir erlendum skipum úr landhelgi út á úthafið, og aðdraganda þeirra. Það sem fram kom á ráðstefnunni þótti gefa til kynna að flest ríki teldu eftir ráðstefnuna þá meginreglu gilda að taka erlends skips á úthafi fyrir brot á fiskveiðilöggjöf ríkis sé m.a. háð því skilyrði að skipinu hafi verið gefið stöðvunarmerki, meðan það var innan fiskveiðimarka, og það síðan tekið eftir óslitna eftirför, er þannig hefst. Talið var í dóminum að miða yrði við að þetta væri alþjóðaregla sem Ísland yrði að hlíta.
    Í 2. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996, segir að lögregla skuli í störfum sínum hafa í heiðri þær þjóðréttarlegu skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist. Í skýringum við 2. gr. sem fram koma í greinargerð sem fylgdi frumvarpinu segir að einkum séu höfð í huga lög um mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 62/1994. Einnig komi til álita mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna frá 1948 (þótt ekki sé þar um að ræða skuldbindandi þjóðréttarsamning) og alþjóðasamningur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966. Þá eru nefndir Vínarsamningur um stjórnmála- og ræðissamband frá 24. apríl 1963 og Evrópusamningur um gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá 20. apríl 1959, ásamt síðari viðauka. Loks má hér geta Evrópusamnings um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu frá 26. nóvember 1987, sbr. lög nr. 15/1990. Ákvæði 2. gr. þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að minna á tilvist þessara laga og sáttmála og undirstrika mikilvægi þeirra. 36
    Hér er enn fremur ástæða til að benda á 1. gr. laga nr. 83/1993, sbr. og lög nr. 72/2003, um viðurkenningu á menntun og prófskírteinum, en lög þess voru raunar sett til að fullnægja skuldbindingum sem leiðir af EES-samningnum. Þar segir í 1. mgr. 1. gr. „Lög þessi gilda um störf sem löggildingu, leyfi eða aðra jafngilda viðurkenningu þarf til og falla undir tilskipanir 89/48/EBE, með áorðnum breytingum, sbr. tilskipun 2001/19/EB, 92/51/EBE, með áorðnum breytingum, sbr. tilskipun 2001/19/EB, eða 1999/42/EB, sem og viðauka við þær svo sem þeir eru á hverjum tíma, sem samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningur Fríverslunarsamtaka Evrópu ná til og kveða á um almennar reglur um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum vegna starfsmenntunar.“
    Samkvæmt ákvæðinu afmarkast gildissvið laganna við störf þau sem talin eru í nefndum tilskipunum. Að svo miklu leyti sem um er að ræða tilvísun til þeirra gerða sem kunnar voru og teknar höfðu verið upp í EES-samninginn þegar lögin voru sett, fellur sú aðferð sem hér er notuð að því sem algengt er við innleiðingu EES-gerða. Það er aftur á móti tilvísun til viðauka við þessar gerðir eins og þeir eru á hverjum tíma sem vekur athygli. Af þessum orðum leiðir að gildissvið laganna getur breyst vegna breytinga á viðaukum við nefndar gerðir, án þess að lögum sé breytt með stjórnskipulega réttum hætti. Þannig breytist gildissvið laganna sjálfkrafa þegar sameiginlega EES-nefndin hefur tekið slíkar breytingar á viðaukunum upp í EES-samninginn með lögformlegum hætti og ákvörðun nefndarinnar er orðin skuldbindandi fyrir samningsríkin.
    Það getur verið matsatriði hverju sinni hvaða lagalega þýðingu slíkar tilvísanir til þjóðréttarsamninga hafa hverju sinni. Í norrænni lögfræði hefur verið sagt um slíkar tilvísanir að um sé að ræða „sector-monism“ á því sviði sem um ræðir. Það merkir að litið er svo á að af ákvæðum þessum leiði, a.m.k. í sumum tilvikum, að á viðkomandi sviðum gildi meginreglan um eineðli þjóðaréttar og landsréttar. Reglur þjóðréttarsamninga sem lög vísi til verði einfaldlega hluti landsréttarins með þessari aðferð, án þess að samningarnir eða einstök ákvæði þeirra séu beinlínis lögfest eða felld í landsréttinn með öðrum hætti en slíkri tilvísun. 37 Áþekkra viðhorfa gætir einnig í íslenskri lögfræði. Þannig segir Ármann Snævarr um nefndar tilvísanir í ákvæðum siglingalaga, almennra hegningarlaga og einkamálalaganna: „Mun þá rétt að telja, að reglur þjóðaréttarins séu á þeim sviðum er lögin varða, orðnar íslenskar réttarheimildir, sem taka verði tillit til, þegar íslenskum rétti er beitt.“ 38
    Í tengslum við þetta má einnig geta þess að dómstólar hafa stundum beitt ólögfestum þjóðréttarreglum eins og um væri að ræða innlendar réttarheimildir. Skýrasta dæmið um þetta í íslenskri réttarframkvæmd er líklega H.1992,174.
             Í dóminum var leyst úr sakamáli á hendur manni sem ekki var mæltur á íslenska tungu. Hann hafði þar af leiðandi notið aðstoðar dómtúlks við meðferð málsins. Samkvæmt reglum þágildandi laga um meðferð opinberra mála, nr. 74/1974, taldist kostnaður af störfum dómtúlks til sakarkostnaðar í máli og var hann því, með öðrum kostnaði, lagður á ákærða ef sakfelling átti sér stað. Í dómi Hæstaréttar var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu staðfest, en tekið fram að skýra yrði ákvæði laga nr. 74/1974 til samræmis við e-lið 3. mgr. 6. gr. samningsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis og leggja þannig kostnað af störfum dómtúlks í málinu á ríkissjóð, en sakarkostnaður var að öðru leyti lagður á sakborning. 39
    Samkvæmt orðalaginu felur þessi dómur í sér að ákvæði laga nr. 74/1974 um sakarkostnað eru skýrð til samræmis við e-lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
    Í 139. gr. laga nr. 74/1974. (sbr. 3. tölul. 1. mgr.), er í gildi voru þegar dómurinn var kveðinn upp, sagði að til sakarkostnaðar teldist þóknun fyrir aðstoð vegna málsins, svo sem skjalaþýðingar, dómtúlkun, afnot muna annarra manna o.s.frv. Í e-lið 3. mgr. 6. gr. sáttmálans segir aftur á móti að sakborningur skuli njóta ókeypis aðstoðar dómtúlks ef hann skilur hvorki né talar það mál sem notað er fyrir dómi. Íslenska reglan fól í sér að kostnaður vegna dómstúlks féll undir sakarkostnað og hann bar að leggja á sakborning ef hann var fundinn sekur. Aftur á móti er reglan í e-lið 3. mgr. 6. gr. sáttmálans fortakslaus. Óheimilt er því að láta þann sem á annað borð á rétt á að njóta aðstoðar dómtúlks bera þann kostnað jafnvel þótt hann sé fundinn sekur. 40
    Af orðalagi þessara tveggja ákvæða má vera ljóst að erfitt er, ef ekki útilokað, að samræma þau með skýringu þótt Hæstiréttur orði það svo að um sé ræða skýringu réttarfarslaga með hliðsjón af sáttmálanum. Hefur þetta orðið tilefni til þess að álykta að í dóminum hafi e-lið 3. mgr. 6. gr. sáttmálans verið beitt í málinu. 41 Undir þetta má taka, enda væntanlega átt við að ákvæði sáttmálans hafi verið beitt sem réttarheimild og ákvæðið um leið notað til að rýma út þeirri reglu íslensks réttar að kostnaður vegna dómtúlks teldist til sakarkostnaðar. Ákvæði sáttmálans er því ekki aðeins beitt sem réttarheimild, heldur gengur það framar ákvæði settra laga sem fara gegn því. Ljóst er að Hæstiréttur teygir sig mjög langt í dómi þessum í að veita ólögfestum þjóðréttarreglum bein réttaráhrif.
    Annað nokkuð skýrt dæmi er H.1993,147.
             Málavextir voru þeir að ákærði D hafði orðið uppvís að fíkniefnabroti í nóvember 1988. Málið var sent ríkissaksóknara til ákvörðunar 20. janúar 1989. Ríkissaksóknari gaf ekki út ákæru fyrr en tveimur árum og þremur mánuðum síðar, eða þann 2. maí 1991. Í dómi Hæstaréttar segir: „Sá dráttur, sem varð á rekstri málsins samkvæmt framansögðu hjá embætti ríkissaksóknara og hefur ekki verið skýrður, er vítaverður. Hann brýtur í bága við 1. mgr. 138. gr. þágildandi laga nr. 74/1974 um meðferð opinberra mála, sbr. 1. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991 um sama efni, og er í andstöðu við ákvæði 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. auglýsingu nr. 11/1954.“
    Í þessum dómi segir berlega að tilteknir gallar á meðferð málsins hjá ríkissaksóknara séu í andstöðu við 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, enda þótt hann hefði þá ekki verið lögfestur. Ákvæði sáttmálans virðast vera notuð sem mælikvarði á lögmæti athafna opinberra aðila, í þessu tilviki ríkissaksóknara. Er erfitt að komast hjá því að líta svo á að sáttmálanum hafi verið beitt sem réttarheimild í málinu. Það breytir tæpast þessari skýringu þótt Hæstiréttur vísi jafnframt til annarra ákvæða laga sem málsmeðferð ríkissaksóknara var einnig talin brjóta gegn.
    Einnig má nefna H.1998,4497.
             Héraðsdómari Norðurlands-Vestra synjaði beiðni lögreglustjóra um ákvörðun sektar og vararefsingar skv. 3. mgr. 115. gr. a laga nr. 19/1991, sbr. 1. gr. laga nr. 31/1998, þar sem varnaraðili hafði ekki sinnt ítrekuðu sektarboði. Rök héraðsdómara voru þessi: „Málsmeðferð þessi er andstæð 70. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 svo og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 25/1998, einkum e-lið, enn fremur 14. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, einkum d- og e-lið, sbr. lög (auglýsing) nr. 10/1979, þar sem kærða hefur ekki verið gefinn kostur á að vera eða láta mæta við meðferð málsins fyrir dómi. Það skal tekið fram, að engin formleg skýrsla hefur verið tekin af kærða og bréf sýslumanns, er hér liggja fyrir, eru óundirrituð.“ Í dómi Hæstaréttar segir: „Verður á engan hátt talið, að málsmeðferð sé andstæð 70. gr. stjórnarskrárinnar eða þeim ákvæðum samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, eða alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem vísað er til.“
    Hvorki í ákvörðun héraðsdóms né í dómi Hæstaréttar er gerður skýr greinarmunur á mannréttindasáttmála Evrópu annars vegar og samningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi hins vegar að því er varðar gildi þeirra sem réttarheimilda. Báðum sáttmálum er beitt með sama hætti til að prófa lögmæti málsmeðferðar skv. 3. mgr. 115. gr. a laga nr. 19/1991, sbr. 1. gr. laga nr. 31/1998.
    Þá má að lokum nefna dóm Hæstaréttar í máli nr. 67/2001, K og M gegn Íslenska ríkinu 31. maí 2001.
             M og K voru hinn 18. september 1989 svipt forsjá sona sinna, C sem var 15 mánaða og D sem var 6 ára, og var þeim komið í fóstur hjá X og Y í apríl 1990. Síðar gaf dóms- og kirkjumálaráðuneytið út leyfi til X og Y til að ættleiða C. M og K kröfðust ógildingar ættleiðingarleyfisins og heimildarinnar til að kenna C við X þar sem þessar ákvarðanir væru andstæðar lögum. Hæstiréttur féllst ekki á það með M og K að veiting ættleiðingarleyfisins hefði verið í andstöðu við lög og hafnaði kröfum þeirra með þeirri athugasemd að allir sem að málinu hefðu komið væru á einu máli um það að ættleiðing fósturforeldra á drengnum væri honum til gagns og þjónaði best hagsmunum hans, meðal annars vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem skapast höfðu vegna heilsufars hans. Í dómi Hæstaréttar segir m.a.: „Verður að telja að könnun á afstöðu drengsins hafi verið fullnægjandi og í samræmi við 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. auglýsingu nr. 18/1992.“
    Í tilvitnuðum orðum í dómi Hæstaréttar er vísað til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. auglýsingu nr. 18/1992. Þótt sáttmálinn hafi ekki verið lögfestur liggur beinast við að skýra þessa tilvísun svo að sáttmálanum sé beitt sem mælikvarða á lögmæti athafna stjórnvalda, eins og um lög væri að ræða, í þessu tilviki til að kveða á um lögmæti málsmeðferðar fyrir barnaverndaryfirvöldum. Erfitt er að skýra orðalag Hæstaréttar með öðrum hætti en svo að Samningi sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sé beitt sem réttarheimild. 42
    Í nokkrum tilvikum hafa dómstólar komist að þeirri niðurstöðu að meðferð ríkisvalds samræmdist ekki 2. gr. stjórnarskrárinnar þar sem ekki hafi verið gætt reglna um handhöfn þess. 43 Það hefur þó ekki verið talið breyta því að hvorutveggja, framsal löggjafarvalds og dómsvalds, er heimilt innan tiltekinna marka þrátt fyrir 2. gr. stjórnarskrárinnar.
    Þá hefur erlendum dóms- og stjórnvaldsúrlausnum verið veitt aðfararhæfi hér á landi, þótt innlendir dómstólar eða stjórnvöld hafi hvergi komið að ákvörðun. Dæmi um löggjöf á þessu sviði eru lög nr. 68/1995, um Lúganósamninginn um dómsvald og fullnustu dóma í einkamálum. Sérstaklega er vakin athygli á að reglur um viðurkenningu dóma samkvæmt Lúganósamningnum, sbr. lög nr. 68/1995, eru nokkuð víðtækar, sbr. 26. gr. Þar kemur fram að dómur sem kveðinn er upp í samningsríki skuli viðurkenndur í öðrum samningsríkjum án þess að nokkurrar sérstakrar málsmeðferðar sé þörf. Reglur um viðurkenningu dóma verður þó að setja í samhengi við varnarþingsreglur samningsins í I. kafla hans. Almenna varnarþingsreglan kemur fram í 2. gr. Þar segir að með þeim takmörkum sem í samningnum greinir skuli lögsækja menn sem eiga heimili í samningsríki fyrir dómstólum í því ríki. Í 5. gr. er að finna sérstakar varnarþingsreglur þar sem gert er ráð fyrir að mann, sem á heimili í samningsríki, megi lögsækja fyrir dómstóli annars ríkis við ákveðnar aðstæður. Til þess að þetta sé unnt þurfa að vera sérstök rök því til réttlætingar og ákveðin tengsl við viðkomandi ríki, sbr. nánar reglur þær sem fram koma í 5. gr. Mikilvægt er að hafa í huga að þessi tengsl eru ekki alltaf augljóslega nærtækari eða nánari en þau sem lögsögureglur Eftirlitsstofnunar EFTA byggjast á. Í lögum nr. 160/1995, um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl., er að finna ákvæði sem gera ráð fyrir viðurkenningu og aðfararhæfi dóma og úrskurða stjórnvalda á því sviði sem lögin taka til. Þá er hér skylt að nefna EES-samninginn sjálfan þar sem viðurkennt hefur verið aðfararhæfi úrlausna Eftirlitsstofnunar EFTA og EFTA-dómstólsins og á sviði samkeppnismála, og enn fremur framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og dómstóls EB. Í þessu felst að þrátt fyrir ákvæði 2. gr. stjórnarskrárinnar er það venjuhelguð framkvæmd að heimilt er að veita erlendum úrskurðum og dómum, þ.m.t. alþjóðastofnana, á grundvelli innlendra laga aðfararhæfi á Íslandi. Gildir það þótt íslenskir aðilar komi ekki að þessum ákvörðunum eða dómum. 44
    Þessar röksemdir sem hér koma fram eru ekki að öllu leyti nýjar. Þær er margar að finna í áliti nefndar utanríkisráðherra frá 1992 og á þeim er einnig að nokkru leyti byggt í álitsgerðum sem samdar voru í tilefni af þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu. M.a. af þeirri ástæðu er ekki þörf á að rekja þessi dæmi ítarlega hér, en látið nægja að vísa til þessara álita varðandi frekari upptalningu frávika frá 2. gr. Á hitt ber að líta að dæmum um framsal valds í þeim skilningi sem þessi dæmi vitna um hefur heldur fjölgað en hitt síðan álitið frá 1992 var skrifað. Með því hafa þessar röksemdir vissulega fengið aukið vægi og staðfesta þá afstöðu til skýringa ákvæða stjórnarskrárinnar sem hér hefur verið rökstudd.

    6.2.4 Ákvæði stjórnarskrárinnar um dómsvaldið.
    Rétt er að nefna tvö ákvæði stjórnarskrárinnar til viðbótar sem talin verða skipta máli fyrir þessa álitsgerð. Í fyrsta lagi 1. málsl. 60. gr. stjórnarskrárinnar. Þar kemur fram að dómendur skeri úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda. Í öðru lagi 1. málsl. 61. gr. þar sem segir að dómendur skuli í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum. Ekki verður séð að síðarnefnda ákvæðið skapi sérstök vandkvæði að því leyti að ráðgert er að binda í lög að dómstólar skuli ekki ganga gegn ákvörðunum ESA í sama máli.
    Fyrrnefnda ákvæðið vekur aftur á móti spurningar. Afstaða fræðimanna og dómstóla til þess ákvæðis hefur tekið ákveðnum breytingum að því leyti að eldri viðhorf gera ráð fyrir að dómstólar kynnu að vissu marki að vera bundnir af því sem nefnt hefur verið frjálst mat stjórnvalda, en dómstólar gætu aftur á móti dæmt um lögmæti ákvarðana stjórnvalda að öðru leyti. Slíkar kenningar hafa aftur á móti verið á undanhaldi og þeim viðhorfum vaxið ásmegin að skilja bæri 1. málsl. 60. gr. þannig að dómstólar geti dæmt um allar ákvarðanir stjórnvalda, hverju nafni sem þær nefnast, og hvort sem um er að ræða form þeirra eða efni, nema þær séu undan lögsögu þeirra teknar með lögum eða samkvæmt eðli máls. Samkvæmt því er það meginregla íslensks réttar að þau mál sæti úrlausn dómstóla sem ekki eru skýrlega undan dómsögu þeirra tekin. Er þetta sérstaklega byggt á tilvísun til 2. gr. og 1. málsl. 60. gr. stjórnarskrárinnar. Þrátt fyrir þetta, og eins og áður er rakið, er víða í lögum gert ráð fyrir að stjórnvöldum sé falið úrskurðarvald í ágreiningsmálum. Í framhaldi af því vaknar einmitt sú spurning hvort löggjafinn geti gengið svo langt að takmarka hið stjórnarskrárbundna úrskurðarvald dómstóla með því að fela stjórnvöldum fullnaðarúrskurðarvald á tilteknum sviðum og dómstólar geti eftir atvikum verið bundnir af því.
    Í álitsgerð nefndar utanríkisráðherra frá 1992 er ekki vikið að þeim skorðum sem ákvæði 1. málsl. 60. gr. stjskr. kynni að setja í þessu efni. Þess var heldur ekki þörf þar sem ekkert ákvæði EES-samningsins á þeim tíma gerði ráð fyrir að binda hendur íslenskra dómstóla með þeim hætti sem hér er ráðgert. Ég tel næsta ljóst að 27. gr. frumvarpsins felur í sér visst frávik frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 1. málsl. 60. gr. stjskr.
    Dómaframkvæmd og fræðikenningar um svigrúm löggjafans að þessu leyti eru mjög á reiki, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Má sem dæmi nefna að þótt lög mæli svo fyrir að stjórnvöld eigi fullnaðarúrskurðarvald um tiltekið atriði hafa dómstólar engu að síður talið sig geta dæmt um lögmæti og réttmæti slíkra ákvarðana. Hin hefðbundnu sjónarmið gera þó ráð fyrir að löggjafanum eigi, þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 60. gr. stjskr., að vera heimilt að taka tiltekin mál undan lögsögu hinna almennu dómstóla og fela þau öðrum. Þó þarf að tryggja að mál sæti engu að síður úrlausn að undangenginni málsmeðferð sem jafna má til meðferðar máls fyrir dómstólum. Ég tel líklegt að Eftirlitsstofnun EFTA fullnægi því skilyrði, auk þess sem það hefur sérstaka þýðingu í þessu sambandi að unnt er að skjóta ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA til EFTA-dómstólsins.

6.3 Lagaframkvæmd á Íslandi og fræðikenningar um framsal ríkisvalds.
    6.3.1 Eldri fræðikenningar.
    Hér að framan í 4. kafla er fjallað um hugtakið fullveldi. Þótt ekki sé ágreiningur um það að Ísland sé fullvalda ríki verður ljóst, af því sem segir hér að framan um inntak þess hugtaks, að það eitt og sér veitir takmarkaða leiðsögn í lögfræðilegri rökræðu um leyfilegt framsal valdheimilda ríkisins til alþjóðlegra stofnana. Þótt fallist væri á að það leiði af stjórnarskránni að óheimilt sé að afsala fullveldi íslenska ríkisins í hendur alþjóðlegra stofnana (og þá enn síður fullveldisréttinum sem slíkum), eru ekki rök til að líta svo á að sérhvert framsal einstakra valdheimilda ríkisins á afmörkuðu sviði og í lögmætum tilgangi sé alltaf andstætt stjórnarskránni, þótt ekki sé í henni gert ráð fyrir því berum orðum.
    Í ræðu sem Ólafur Jóhannesson, þáverandi prófessor í stjórnskipunarrétti við lagadeild Háskóla Íslands og síðar forsætisráðherra, flutti 14. október 1962 fjallaði hann um þá spurningu hvaða skorður stjórnarskráin kynni að setja íslenska ríkinu varðandi þátttöku í alþjóðastofnunum. 45 Eftir að hafa rakið ýmis dæmi um þátttöku Íslands í slíku samstarfi og hvernig staðið hafi verið að verki í einstökum tilvikum segir hann:
             Með hliðsjón af þeim hætti, sem hefur verið hafður að undanförnu, er Ísland hefur gerst þátttakandi í þjóðabandalögum og alþjóðastofnunum, verður niðurstaðan sú, að Ísland geti að fengnu samþykki Alþingis án nokkurrar undangenginnar stjórnarskrárbreytingar gerst aðili alþjóðastofnunar, enda þótt henni sé fengið ákvörðunarvald um tiltekin málefni, ef í ákvörðunum hennar felast aðeins hreinar þjóðréttarlegar skuldbindingar, þ.e. þær eru aðeins bindandi fyrir íslenska ríkið sem þjóðréttaraðila, en öðlast eigi beinlínis gildi og verður ekki beitt hér innanlands nema fyrir tilstilli og meðalgöngu réttra stjórnarvalda hér á landi. 46
    Þessi orð Ólafs Jóhannessonar eiga við um samninga sem hafa aðeins að geyma hefðbundnar þjóðréttarlegar skuldbindingar fyrir ríkið sjálft, en hafa ekki sjálfkrafa áhrif á réttarstöðu einstaklinga og lögaðila innan ríkisins. Um alþjóðastofnanir sem hafa heimildir til að taka slíkar ákvarðanir segir Ólafur:
         Þegar alþjóðastofnun er hins vegar veitt vald til ákvarðana eða úrskurðar, sem fyrirfram er gefið gildi hér á landi, án þess að atbeini eða staðfesting íslenskra stjórnarvalda þurfi að koma til hverju sinni, hlýtur niðurstaðan, að mínum dómi, að verða nokkuð á aðra lund. Ef ákvarðanir frá hendi alþjóðastofnunar eiga samkvæmt stofnskrá hennar að vera bindandi fyrir íslenska þegna og lægra sett stjórnvöld, og er almennt fyrirfram gefið gildi hér á landi, án nokkurrar meðalgöngu handhafa ríkisvaldsins, er um að ræða skerðingu á sjálfsforræði íslenska ríkisins – verulega eða lítilvæga eftir atvikum. Þar er í raun réttri ákvörðunarvaldi um innanlandsmál – löggjafarvaldi, framkvæmdarvaldi eða dómsvaldi – að einhverju leyti afsalað í hendur alþjóðastofnunar. Ákvarðanir þeirrar alþjóðastofnunar eru þá ekki lengur einungis þjóðréttarlegs eðlis, heldur fyrirmæli eða úrskurðir, sem eiga án nokkurrar staðfestingar íslenskra valdhafa að gilda hér á landi. Þar hefur því hluta af ríkisvaldi verið afsalað í hendur alþjóðastofnunar, þ.e.a.s. valdi, sem stjórnarskráin sjálf, beint eða óbeint, felur tilteknum stjórnvöldum að annast að viðlagðri ábyrgð að lögum. Meðferð eða yfirstjórn þeirra málefna er þá ekki lengur í höndum aðila, er að lokum bera ábyrgð gagnvart Alþingi Íslendinga og íslenskum kjósendum, heldur hjá alþjóðlegri stofnun, sem stendur utan og ofan við íslenska ríkið – stofnun, sem í raun og veru er ekki venjuleg alþjóðastofnun, heldur alþjóðleg „yfirríkjastofnun“, ef svo má að orði kveða. Stjórnendur ríkisins fara þá ekki lengur með æðstu völd í landinu, eru ekki lengur fullgildir húsbændur á sínu heimili. Þvílíkt valdaafsal fær varla staðist, nema samkvæmt sérstakri stjórnlagaheimild eða að undangenginni stjórnarskrárbreytingu, einkanlega ef aðildarsamningurinn á að gilda um aldur og ævi eða er ekki uppsegjanlegur, nema með óvenju löngum fyrirvara. Sjálfsagt skiptir það þó máli, hvernig aðstöðu landsins að öðru leyti ætti að vera háttað hjá hlutaðeigandi alþjóðastofnun, þ.e.a.s. í hinni sameiginlegu stjórn stofnunarinnar, og þá fyrst og fremst það, hvort aðildarríki á þar fast sæti, hvort ákvarðanir eru háðar einróma samþykki þátttökuríkjanna, eða hvort samþykkt meiri hluta er fullnægjandi, hvernig svo sem sá meiri hluti er. Sé einróma samþykkis krafist og öll aðildarríkin eiga fast sæti í stjórnarstofnun þeirri, sem ákvörðun tekur, hefur landið raunverulega neitunarvald. Þá yrði síður talin þörf á sérstakri stjórnlagaheimild. Einnig er eðlilegt, að á það sé litið, hvort skuldbindingar aðildarríkjanna gangvart hinni alþjóðlegu stofnun eru raunverulega gagnkvæmar eða ekki. Séu skuldbindingarnar alls ekki gagnkvæmar, eða ekki nema í orði kveðnu, er enn ríkari ástæða en ella til þess að krefjast sérstakrar stjórnlagaheimildar. 47
    Í tilvitnuðum orðum gerir Ólafur greinarmun á því hvort samningur felur aðeins í sér þjóðréttarlegar skuldbindingar eða hvort hann getur haft áhrif á réttarstöðu íslenskra þegna á Íslandi. Í fyrra tilvikinu telur hann ekki þörf á sérstakri stjórnlagaheimild. Aftur á móti telur hann það líklegt ef um er að ræða samning af síðarnefnda taginu. Á því hefur hann þó ýmsa fyrirvara. Af þeim fyrirvörum sem hann gerir verður að skilja hann svo að slíkt framsal geti mögulega rúmast innan stjórnarskrárinnar ef nánar tilteknum skilyrðum er fullnægt. Fyrir vikið verður niðurstaða hans um þetta atriði ekki að öllu leyti skýr. 48 Þróun alþjóðlegra samskipta eftir að Ólafur flutti ræðu sína og þátttaka Íslands í því eykur gildi þeirra fyrirvara sem hann gerir.
    Það var fyrst þegar frumvarp til fullgildingar og lögfestingar EES-samningsins var til meðferðar á Alþingi að verulega reyndi á gildi þessara viðhorfa, sbr. nánar það sem rakið verður í næsta kafla.

    6.3.2 EES-samningurinn.
    Gagnlegt er fyrir þessa álitsgerð að gera nokkra grein fyrir áliti nefndar utanríkisráðherra frá 1992 í tilefni af fullgildingu og lögfestingu EES-samningsins. Í álitinu er fjallað um löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Þá er ástæða til að gera nokkur skil sjónarmiðum sem fram komu í álitsgerðum þeim sem samdar voru í tilefni af þátttöku Íslands í Schengen- samstarfinu.

    a) Löggjafarvaldið.
    Álitamál um framsal löggjafarvalds á grundvelli EES-samningsins snerust aðallega um 7. gr. samningsins, sem mælir fyrir um skyldu ríkisins til að leiða EES-reglur í landsrétt eftir því sem nánar er mælt fyrir um í ákvæðinu.
    Í álitinu var það talið skipta mestu máli að löggjafinn á Íslandi (Alþingi eða ráðherra) hefur síðasta orðið um lögfestingu EES-reglna á Íslandi. Ræðst það af efni reglnanna hvort það kemur í hlut Alþingis með almennum lögum eða ráðherra með almennum stjórnsýslufyrirmælum að leiða þær í landsrétt. Gengið var út frá því að EES-samningurinn og reglur sem af honum leiðir hefðu að geyma þjóðréttarskuldbindingar sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að tryggja þá stöðu að landsrétti, að einstaklingar og aðilar í atvinnurekstri geti byggt á þeim réttindi sér til handa. Vegna þess að þetta væru þjóðréttarskuldbindingar og vegna meginreglunnar um tvíeðli landsréttar og þjóðaréttar yrðu einstaklingum og aðilum í atvinnurekstri ekki tryggð þessi réttindi nema reglurnar væru lögfestar sérstaklega. Þetta fyrirkomulag var talið í fullu samræmi við 2. gr. íslensku stjórnarskrárinnar.
    Þótt sammæli væru um að fyrirkomulag lagasetningar væri samrýmanlegt stjórnarskránni var þetta engu að síður gagnrýnt með ýmsum hætti. Töldu margir að möguleikar Íslands til að hafa raunveruleg áhrif á efni þessara reglna væru hverfandi og tæpast samboðið fullvalda ríki að leiða í rétt sinn slíkt magn nýrra reglna sem íslenskir stjórnmálamenn hafa ekki haft nein efnislega áhrif á sem máli skipta. Var í því efni m.a. gerður greinarmunur á formlegu og efnislegu löggjafarvaldi og talið að vald íslenska löggjafans væri aðeins formlegt í þeim skilningi að Alþingi eða framkvæmdarvaldshafar á Íslandi hefði í reynd enga möguleika til að hafa raunveruleg áhrif á efni þessara reglna. 49 Hefur þetta verið orðað svo að efnislegt löggjafarvald á þeim sviðum sem samningurinn tekur til hafi verið framselt til alþjóðlegra stofnana. Sú skoðun varð þó ekki ofan á að þetta leiddi til þess að ákvæði 7. gr. væri andstætt stjórnarskránni.
    Nokkur umræða varð einnig um stjórnskipulegt gildi bókunar 35 við EES-samninginn. Í því sambandi er þess að geta að í EB-rétti gildir svokölluð forgangsregla sem gerir ráð fyrir því að EB-reglur gangi framar öðrum reglum landsréttar ef þær rekast á. Við gerð EES-samningsins var af hálfu samningamanna Evrópusambandsins lögð áhersla á að sambærileg regla gilti fyrir EFTA-ríkin. Þetta var talið nauðsynlegt til að tryggja EES-reglum sömu stöðu og þær hafa í rétti aðildarríkja sambandsins og stuðla þar með að samræmdri framkvæmd og beitingu sameiginlegra reglna á öllu efnahagssvæðinu. 50 Niðurstaðan var sú að kveða á um forgangsáhrif EES-réttar í sérstakri bókun við EES samninginn, þ.e. bókun 35, sem hljóðar svo:
         Þar eð með samningi þessum er stefnt að einsleitu Evrópsku efnahagssvæði sem byggist á sameiginlegum reglum, án þess að samningsaðila sé gert að framselja löggjafarvald til stofnana Evrópska efnahagssvæðisins; og þar eð þessum markmiðum verður því að ná með þeirri málsmeðferð sem gildir í hverju landi um sig;
        
         Stök grein
         Vegna tilvika þar sem getur komið til árekstra á milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga, skuldbinda EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum. 51
    Ríkin sem voru upphaflega aðilar að EES-samningnum fóru ólíkar leiðir til að fullnægja bókun 35. Í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi var þetta gert með því að setja í lög reglu sem mælir beinlínis fyrir um rétthæð réttarheimilda og veitir EES-reglum forgang. Var stjórnarskrá þessara ríkja ekki talin standa í vegi fyrir því og ekki var af því tilefni vísað sérstaklega til ákvæða í stjórnarskrám sem heimila framsal ríkisvalds. Í íslenskum rétti er hún hins vegar sett fram sem lögskýringarregla, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993 sem mælir svo fyrir að skýra skuli reglur landsréttar til samræmis við EES-reglur, og það sérstaklega áréttað í athugasemdum að um lögskýringarreglu sé að ræða. 52 Var af þessum sökum ekki talið að bókun 35 og 3. gr. eesl. hefðu í för með sér sérstök stjórnskipuleg álitamál. Á Íslandi var sú leið ekki talin fær að setja í lög hreina forgangsreglu þar sem hendur löggjafans yrði bundnar við lagasetningu í framtíðinni, en slíkt fengi tæpast samrýmst stjórnarskránni. Þótt þessi álitaefni snerti ekki efni þessarar álitsgerðar með beinum hætti sýnir þetta að einstök ríki virða þessi stjórnskipulegu álitamál með mjög ólíkum hætti.

    b) Framkvæmdarvaldið.
    Fyrir efni þessarar álitsgerðar skiptir mestu máli sá kafli álits nefndar utanríkisráðherra sem fjallar um hlutverk Eftirlitsstofnunar EFTA og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á sviði samkeppnismála.
    Um hlutverk og störf Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) er mælt fyrir í 1. mgr. 108., 109. og 110. gr. EES. Jafnframt er kveðið á um starfsemi hennar í samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls frá 2. maí 1992, sbr. og bókanir 1–4 við þann samning, en reglugerð ráðsins (EB) nr. 1/2003 hefur einmitt í för með sér tilteknar breytingar á bókun 4 við samninginn.
    Í samræmi við ákvæði 1. mgr. 108. gr. EES hafa EFTA-ríkin komið á fót sérstakri eftirlitsstofnun, Eftirlitsstofnun EFTA. Stofnunin hefur í aðalatriðum það hlutverk að tryggja efndir á skuldbindingum samkvæmt EES-samningnum, sbr. 1. mgr. 108. gr. og 1. mgr. 109. gr. EES. Þá hefur framkvæmdastjórn EB einnig það hlutverk, sbr. sömu málsgrein 109. gr. EES. Í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að Eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórn EB skuli hafa samstarf sín í milli, skiptast á upplýsingum og ráðgast hvor við aðra um stefnu í eftirlitsmálum og einstök mál, í þeim tilgangi að tryggja samræmt eftirlit á öllu Evrópska efnahagssvæðinu. Framkvæmdastjórn EB og Eftirlitsstofnun EFTA skulu taka við umkvörtunum varðandi beitingu EES-samningsins og skiptast á upplýsingum um kvartanir sem borist hafa, sbr. 3. mgr. 109. gr. EES. Hvor stofnananna um sig skal rannsaka allar kvartanir sem falla undir valdsvið hennar og koma kvörtunum sem falla undir valdsvið hinnar stofnunarinnar til hennar, sbr. 4. mgr. sömu greinar.
    Samkvæmt 1. mgr. 110. gr. EES skulu ákvarðanir Eftirlitsstofnunar EFTA og framkvæmdastjórnar EB, samkvæmt EES-samningnum, sem leggja fjárskuldbindingar á aðra aðila en ríki vera fullnustuhæfar. 53 Skv. 2. mgr. sömu greinar er gert ráð fyrir að fullnustan fari fram í samræmi við gildandi réttarfarsreglur í einkamálum í ríkinu þar sem fullnustan fer fram. Um fullnustu ákvarðana er nánar mælt fyrir um í 3. og 4. mgr. 110. gr. EES.
    Eins og fyrr segir er nánar kveðið á um stofnun, hlutverk og starfsemi ESA í sérstökum samningi milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls (ESE-samningnum), sbr. og bókanir 1–4 við þann samning.
    Í 5. gr. ESE-samningsins er kveðið á um hlutverk og starfsemi Eftirlitsstofnunar EFTA. Skv. 1. mgr. er almennt hlutverk ESA að tryggja góða framkvæmd EES-samningsins. Í þessu felst: a) að tryggja að EFTA-ríkin standi við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum og ESE-samningnum, b) að tryggja beitingu reglna EES-samningsins um samkeppni og c) hafa eftirlit með beitingu annarra samningsaðila á EES-samningnum. Í þeim tilgangi að tryggja góða framkvæmd EES-samningsins skal ESA skv. 2. mgr. 5. gr., a–d-liðum: a) taka ákvarðanir og gera aðrar ráðstafanir í málum sem kveðið er á um í ESE-samningnum og EES- samningnum, b) setja fram tilmæli, skila áliti og gefa út auglýsingar eða leiðbeiningar um mál sem EES-samningurinn fjallar um ef sá samningur eða ESE-samningurinn kveða skýrt á um slíkt eða ESA álítur slíkt nauðsynlegt, c) hafa samvinnu, skiptast á upplýsingum og hafa samráð við framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna eins og kveðið er á um í ESE-samningnum og EES-samningnum, d) sinna þeim störfum sem leiðir, vegna beitingar bókunar 1 við EES- samninginn, af þeim gerðum sem vísað er til í viðaukum við þann samning, eins og tilgreint er í bókun 1 við ESE-samninginn. Ríkisstjórnir, yfirvöld í EFTA-ríkjum, fyrirtæki og samtök fyrirtækja skulu láta ESA í té nauðsynlegar upplýsingar við framkvæmd skyldustarfa sinna, sbr. 6. gr. ESE-samningsins. 54
    Af d-lið 2. mgr. 5. gr. ESE-samningsins leiðir að ESA hefur vald til að taka ýmsar íþyngjandi ákvarðanir sem beinast gegn einstökum EFTA-ríkjum eða einstaklingum og lögaðilum sem starfa innan þeirra. Nánar er mælt fyrir um þetta í bókun 1 við EES-samninginn og bókun 1 við ESE-samninginn.
    Hlutverk Eftirlitsstofnunar EFTA er hliðstætt hlutverki framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að því er varðar hið stjórnsýslulega eftirlit með framkvæmd EES-samningsins. Lengra nær sá samanburður ekki. Skiptir þar mestu máli frumkvæðishlutverk framkvæmdastjórnarinnar að því er varðar nýja löggjöf. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fer þannig með mikilvægt hlutverk við pólitíska stefnumótun. Skipan framkvæmdastjóra endurspeglar þetta þar sem þeir eru iðulega valdir úr röðum stjórnmálamanna. ESA hefur ekkert slíkt hlutverk og hingað til hefur æðsta stjórn stofnunarinnar verið skipuð háttsettum embættismönnum þar sem lögð er áhersla á faglega þekkingu þeirra og reynslu.
    Að meginstefnu til hefur ESA ekki yfirþjóðlegt vald, a.m.k. ekki í þeim mæli að það geti talist sambærilegt við stofnanir sambandsins. Á vissum sviðum hefur stofnunin þó að nokkru leyti víðtækara valdsvið en leitt verður af hefðbundnum þjóðréttarlegum viðhorfum. Þetta á t.d. við um svið samkeppni, ríkisaðstoðar og opinberra innkaupa. Á þessum afmörkuðu sviðum hefur ESA, á svipaðan hátt og framkvæmdastjórnin, yfirþjóðlegt vald sem einkum birtist í því að stofnunin getur kveðið upp úrskurði sem eru bindandi fyrir einstaklinga og aðila í atvinnurekstri í samningsríkjum samningsins. Eftirlitsstofnunin getur fylgt ákvörðunum sínum eftir með því að ákveða sektir eða févíti ef fyrirtæki gerist brotlegt gegn samkeppnisreglum. Þá eru þessar ákvarðanir fullnustuhæfar í samningsríkjunum eins og fyrr segir.
    Einkum var litið til þessara valdheimilda ESA og EFTA-dómstólsins í umræðu það hvort EES-samningurinn væri samrýmanlegur íslensku stjórnarskránni. Um þetta er að finna ákvæði í 108.–110. gr. EES, reglum II. hluta og III. hluta ESE-samningsins og bókunar 4 við þann samning. Í fyrsta lagi hefur Eftirlitsstofnunin ákveðnar rannsóknarheimildir gagnvart innlendum aðilum innan íslenskrar lögsögu, sbr. 11. og 14. gr. bókunar 4 við ESE. Í öðru lagi hefur ESA heimild til að taka ákvarðanir sem eru bindandi fyrir íslenska einstaklinga og lögaðila, sbr. 3., 1. mgr. 15. og 16. gr. bókunar 4 og í þriðja lagi eru þessar ákvarðanir fullnustuhæfar, sbr. 110. gr. EES-samningsins. Talið var að það framsal sem fólst í þessu samrýmdist stjórnarskránni. Vara það m.a. byggt á því að reglurnar um vald stofnana EFTA væru afmarkaðar og að þær fælu ekki í sér verulegt framsal sem talið yrði íþyngjandi í ríkum mæli. Var talið að stjórnarskráin heimilaði framsal stjórnvalds sem væri takmarkað með þeim hætti sem reglur þessar gerðu ráð fyrir. Þá var það ekki talið skipta máli þótt eftirlits- og ákvörðunarvaldið væri í afmörkuðum tilvikum í höndum stofnana EB (nú ESB). Var það talið helgast af nauðsyn í viðskiptum milli ríkja, það væri afmarkað og skýrar heimildir lægju því að baki. Þá var talið að skilyrði um gagnkvæmni væri fullnægt.

    c) Dómsvaldið.
    Það er eingöngu dómsvald EFTA-dómstólsins og dómstóls EB í samkeppnismálum sem kemur til skoðunar í þessu sambandi. Um dómsvald EFTA-dómstólsins í samkeppnismálum er mælt fyrir í 35. gr. ESE þar sem segir að dómstóllinn hafi ótakmarkað dómsvald að því er varðar viðurlög sem Eftirlitsstofnunin hefur sett. Þá hefur dómstóll EB sambærilegar heimildir þegar mál eiga undir lögsögu stofnana sambandsins. Með sömu rökum og talin voru eiga við um eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórnina var talið að þessar heimildir EFTA- dómstólsins og dómstóls EB samræmdust stjórnarskránni.
    Ýmis fleiri atriði voru rædd í áliti nefndar utanríkisráðherra frá 1992, en þau skipta ekki máli fyrir efni þessarar álitsgerðar.

    6.3.3 Gagnrýni vegna fullgildingar og lögfestingar EES-samningsins.
    Í umræðu um EES og stjórnarskrána var gjarnan vísað til þeirra aðferða sem viðhafðar voru við fullgildingu samningsins í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Í Noregi og Svíþjóð var samningurinn fullgiltur á grundvelli sérstakra ákvæða í stjórnarskrám þessara ríkja sem áskilja aukinn meiri hluta þegar samningar eru taldir fela í sér framsal ríkisvalds. Þá voru í Finnlandi sett sérstök lög skv. 33. gr. finnsku stjórnarskrárinnar sem heimila að vikið sé frá ákvæðum stjórnarskrár með lögum settum eftir reglum sem gilda um breytingar á stjórnarskrá. 55 Á Íslandi byggðist heimild til framsals ríkisvalds á almennum lögum frá Alþingi og gengið út frá að á Íslandi hefði hinn almenni löggjafi heimild til að framselja ríkisvald til alþjóðastofnana í takmörkuðum mæli og í nánar afmörkuðum tilgangi.
    Því hefur verið haldið fram sem sérstökum rökum fyrir því að EES-samningurinn hafi farið gegn íslensku stjórnarskránni, að nágrannaríkin beittu sérstökum heimildum í sínum stjórnarskrám sem gera ráð fyrir að unnt sé í vissum mæli að framselja ríkisvald til alþjóðlegra stofnana. Það voru eingöngu ákvæðin um hlutverk ESA og framkvæmdarstjórnar ESB í samkeppnismálum sem réðu úrslitum um að talið var nauðsynlegt að nota þessa heimild í 93. gr. norsku stjórnarskrárinnar. 56 Reglan var sett í norsku stjórnarskrána árið 1962 til að veita stjórnvöldum nauðsynlegt pólitískt svigrúm við gerð þjóðréttarsamninga. 57
    Þótt Noregur, Svíþjóð og Finnland hafi fullgilt samninginn með þeim sérstöku aðferðum sem stjórnarskrár þessara ríkja gera ráð fyrir verður ekki af því dregin sú ályktun að EES- samningurinn hafi verið ósamrýmanlegur íslensku stjórnskránni. Í íslenskum rétti er einfaldlega ekki að finna neina reglu sem gerir ráð fyrir þessari aðferð við fullgildingu þjóðréttarsamninga sem kunna að fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana. Samkvæmt íslenskum rétti eru þjóðréttarsamningar fullgiltir á grundvelli 21. gr. stjskr. Það ákvæði veitir þó að sjálfsögðu ekki heimild til að fullgilda samninga sem eru andstæðir stjórnarskránni. Sé það álitamál verður Alþingi að taka afstöðu til þess. Um þetta atriði fóru fram ítarlegar umræður í þinginu og niðurstaðan varð sú að EES eða einstök ákvæði hans væru ekki andstæð stjórnarskránni. Það var því niðurstaða Alþingis að heimilt væri að fullgilda samninginn og lögfesta hann um leið.
    Sú aðferð sem notuð var á Íslandi er á því byggð að ganga eigi út frá því að handhafar löggjafarvalds og framkvæmdarvalds hafi að ákveðnu marki og að vissum skilyrðum uppfylltum heimild til að túlka ákvæði stjórnarskrárinnar þannig að ekki þrengi að pólitísku svigrúmi þeirra til að gera þjóðréttarsamninga til að tryggja hagsmuni íslenska ríkisins og íslenskra þegna sem best í samstarfi og samningum við aðrar þjóðir. Þannig er í grundvallaratriðum ekkert rangt við þá aðferð við framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem farin var þegar EES-samningurinn var lögfestur og hún löghelguð í áframhaldandi stjórnarframkvæmd. Aðferðin tók mið af stöðu íslenskra stjórnmála og hún var skynsamleg og haganleg. Þessi leið er að sjálfsögðu fær og hún samræmist viðurkenndum aðferðum í réttarríki, óháð því hvaða aðferðir eru notaðar í öðrum ríkjum.
    Samanburður leiðir einnig í ljós að við inngöngu í Evrópusambandið og síðar við fullgildingu Maastricht-samningsins hafa aðildarríkin farið ólíkar leiðir. 58 Frakkland gekk þannig í Evrópubandalögin (Kola- og stálbandalagið og Kjarnorkubandalagið) upphaflega á grundvelli almennra laga, án þess að sérstök stjórnskipuleg vandkvæði hafi verið til umræðu. Ekki var sérstaklega vísað til ákvæðis í frönsku stjórnarskránni frá 1946 sem gerði ráð fyrir heimildum til að skerða fullveldi með það að markmiði að stuðla að friði milli ríkja. Sama gerðist á Ítalíu þar sem aðild var ákveðin án þess að vísa sérstaklega til heimildar í 11. gr. ítölsku stjórnarskrárinnar frá 1947 sem fjallar um aðild landsins að alþjóðastofnunum í þágu friðar og öryggis. Í Belgíu og Portúgal var aðild einnig ákveðin án nokkurrar sérstakrar heimildar eða tilvísunar til stjórnarskrárinnar og án þess að stjórnskipuleg vandkvæði væru að marki til umfjöllunar. Í öðrum tilvikum var aðild ákveðin á grundvelli sérstakra heimilda í stjórnarskrám sem ýmist voru þar fyrir eða voru settar sérstaklega í tilefni af inngöngu í Evrópubandalögin. Þetta á við um Vestur-Þýskaland, Lúxemborg, Grikkland, Spán, Danmörku og Holland. Mótaðist það að nokkru af sögulegum ástæðum og stjórnskipunar- og stjórnmálahefðum og jafnvel stjórnmálaástandi í einstökum ríkjum þegar aðild var ákveðin, hvaða leið var farin. Aðild að Maastricht-sáttmálanum hefur í sumum þessara ríkja kallað á sérstakar stjórnskipulegar ráðstafanir. Má sem dæmi nefna að sérstakar breytingar voru gerðar á frönsku stjórnarskránni í tilefni af Maastricht. Ekki er þó ástæða til rekja þetta nákvæmlega hér þar sem aðild að Evrópubandalögunum fól þegar í sér mun víðtækara framsal ríkisvalds, einkum löggjafarvalds, heldur en EES-samningurinn og frumvarpið sem hér er til skoðunar gerir ráð fyrir.
    Því má vissulega halda fram að skynsamlegt sé að setja ákvæði hliðstæð þeim sem er að finna í stjórnarskrám margra Evrópuríkja og heimila að vissu marki framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana. 59 Að baki þeirri skoðun búa þau lögfræðilegu rök að með því að hafa slíka reglu gefist tækifæri til að kveða skýrar á um slíkt framsal, skilyrði þess og umfang. Það væri því heppilegra að hafa við slíka skráða stjórnskipunarreglu að styðjast, fremur en að byggja á óskráðri reglu þar um. Þetta eru þó ekki sjálfstæð rök fyrir því að nauðsynlegt hafi verið að breyta stjórnarskránni í tilefni af fullgildingu og lögfestingu EES-samningsins, né heldur að slíkar breytingar séu nauðsynlegar til þess að heimilt sé að festa 27. gr. frumvarpsins í lög.

    6.3.4 Schengen-samningurinn.
    a) Almennt um Schengen-samninginn. 60
    Þátttaka Íslands í Schengen-samstarfinu er byggð á samningi frá 18. maí 1999 milli Evrópusambandsins annars vegar og Íslands og Noregs hins vegar, um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna. Meginatriði samningsins eru: (i) Að Ísland og Noregur skuli koma til framkvæmda Schengen-gerðunum sem taldar eru upp í sérstökum viðauka við samninginn. Hið sama á við um síðar til komnar gerðir. Um þetta eru fyrirmæli í 2. gr. samningsins. (ii) Í 3. gr. samningsins er kveðið á um þátttöku Noregs og Íslands í ákvörðunarferli um nýjar gerðir á vettvangi nefndar sem kölluð hefur verið „samsetta nefndin“, sbr. einnig 4. gr. Veitir hún Noregi og Íslandi rétt til að skýra sjónarmið sín, en ekki aðgang að formlegri ákvörðun. (iii) Ekki er gert ráð fyrir að stofnanir EES hafi með eftirlit að gera að því er varðar Schengen-reglurnar, né heldur að því er varðar dómsvald í ágreiningsmálum. 61

    b) Stjórnskipuleg álitamál tengd Schengen-samningnum. 62
    Þegar fyrir lágu drög að samningi við Evrópusambandið um þátttöku Íslands og Noregs í þróun og framkvæmd Schengen-gerðanna fól þáverandi utanríkisráðherra, Halldór Ásgrímsson, þremur lagaprófessorum að semja álitsgerð um það hvort drögin væru samrýmanleg ákvæðum stjórnarskrárinnar. Þá var sömu mönnum falið að semja aðra álitsgerð þegar samningurinn lá endanlega fyrir og áður en lögð var fyrir Alþingi tillaga til þingsályktunar um að heimila ríkisstjórninni að fullgilda samninginn. Það sem segir um stjórnskipuleg álitamál tengd Schengen er í meginatriðum byggt á þessum álitsgerðum. Þeir þættir sem þóttu helst vekja upp stjórnskipuleg álitamál voru eftirfarandi: (i) Þátttaka Íslands (og Noregs) í ákvörðunarferlinu um nýjar Schengen-reglur. Í álitsgerðunum var m.a. svarað þeirri spurningu hvort í þessum reglum fælist framsal löggjafarvalds. (ii) Eftirlit með framkvæmd reglnanna á Íslandi og hvort í því fyrirkomulagi kynni að felast framsal framkvæmdarvalds. (iii) Dómsvald um framkvæmd og beitingu Schengen-reglnanna á Íslandi og hvort í fyrirkomulagi kynni að felast framsal dómsvalds. (iv) Þá var vikið að ákvæðum 9. gr. og. 10. gr. samningsins um þýðingu dómafordæma dómstóls EB við skýringu og framkvæmd reglnanna og að síðustu (v) hvort uppsagnarákvæði samningsins kynnu að vera svo þungbær að stangaðist á við stjórnarskrána.
    Í forsendum fyrri álitsgerðarinnar var rakið það mat höfunda að 2. gr. stjórnarskrárinnar hefði að geyma meginreglu um skiptingu ríkisvaldsins milli hinna þriggja þátta ríkisvalds. Var það talið leiða af eðli máls að ákvæðið tæki í aðalatriðum til íslensks yfirráðasvæðis, íslenskra hagsmuna og íslenskra aðila. Á það var bent að 21. gr. stjórnarskrárinnar heimilaði að íslenska ríkið yrði skuldbundið að þjóðarétti með þjóðréttarsamningum. Í greininni fælist þó ekki heimild til að gera þjóðréttarsamninga sem færu gegn stjórnarskránni.
    Þá er vikið að því að þegar metið væri hvort vald alþjóðastofnana til að taka ákvarðanir sem gildi hafi gagnvart íslenskum aðilum skipti eftirtaldir þættir máli:
    (1) Hvar lögskiptin gerðust. Vettvangur lögskipta skiptir yfirleitt máli þegar skorið er úr um það hvers lands lög skuli gilda um tiltekið réttaratriði, t.d. hvaða alþjóðlegt varnarþing skuli gilda og þar með hvaða dómstólar tiltekinna ríkja skuli hafa dómsvald. Sama gildir um valdbærni opinberra stofnana. Talið er í álitsgerðinni að sambærileg sjónarmið gætu átt við þegar stofnanir að þjóðarétti eigi í hlut.
    (2) Hvaða hagsmuni lögskiptin varða. Bent er á að máli skipti að ákvarða hvaða hagsmuni sakarefni snertir. Áþekk sjónarmið eigi við þegar stofnanir að þjóðrétti eigi í hlut.
    (3) Hvers konar lögskipti var um að tefla. Bent er á að það hafi þýðingu að skilgreina þau lögskipti nánar sem til athugunar séu. Sérstaklega skipti máli hvort ákvörðun sú sem um sé að tefla telst verulega íþyngjandi fyrir viðkomandi aðila eða ekki. Sem dæmi um þetta má nefna að ýmsar frelsisskerðingar og aðrar skerðingar grundvallarmannréttinda gagnvart íslenskum borgurum mega ekki fara fram innan íslenska ríkisins nema ákvæðum íslenskrar stjórnarskrá sé fullnægt. Þegar um það sé að ræða að veita alþjóðastofnunum vald til þess að taka íþyngjandi ákvarðanir, t.d. sektarákvarðanir gagnvart íslenskum aðilum, komi fyrrgreind sjónarmið til álita sérstaklega. Íslenska stjórnarskráin áskilji borgurum sínum rétt til þess að bera ágreining um embættistakmörk yfirvalda undir dómstóla, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar. Varla leiki vafi á því að íslensk stjórnskipun áskilur borgurum sínum ríka og sambærilega vernd gagnvart þeim ákvörðunum erlendra aðila sem hafa sterk íslensk einkenni. Slíka ályktun má m.a. byggja á lögmætisreglunni sem gangi út á það að heimildir til framsals stjórnskipulegs valds til alþjóðastofnana þurfi að vera mjög skýrar og ótvíræðar. Tæpast sé heldur vafi á því að í 60. gr. stjórnarskrárinnar sé átt við íslenska dómstóla og íslensk yfirvöld. Hafi því alþjóðastofnunum verið heimilað með íslenskum lögum að taka íþyngjandi ákvarðanir gagnvart íslenskum einstaklingum eða lögaðilum geti orðið álitamál hvort fram hafi farið ólögmætt framsal á íslensku ríkisvaldi.
    (4) Afmörkun framsalsheimilda, gagnkvæmni o.fl. Fleiri atriði en nú hafa verið nefnd skipta einnig máli þegar metið er hvort stjórnarskráin leyfir framsal tiltekinna valdheimilda. Hér skal nefnt sérstaklega að máli skiptir hvort valdframsal er vel afmarkað eða ekki, hvort tiltekið framsal er gagnkvæmt í samskiptum ríkja og hvort tiltekið ríki geti haft áhrif á þær ákvarðanir sem teknar eru af erlendum aðilum á grundvelli framsalsins. Enn fremur skiptir máli hvort íslenskir framkvæmdarvaldshafar hafi áður farið með umrætt eða sambærilegt vald. Loks verði að telja að það skipti máli hvers konar aðilar eða stofnanir það eru sem vald er framselt til, m.a. hvort þar séu virtar þær grundvallarreglur um málsmeðferð sem séu samrýmanlegar þeim grunnhugmyndum sem byggt er á hér á landi.
    Ekkert eitt af framangreindum atriðum ráði þó úrslitum um það að hvaða marki íslensk stjórnarskrá heimilar framsal einstakra þátta ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana. Segja megi öllu fremur að hafa beri þau öll í huga og að það séu heildaráhrif þeirra sem máli skipti. Eðlilegt sé að gera ráð fyrir að ákvæði íslenskrar stjórnarskrár séu túlkuð með hliðsjón af gildandi þjóðarétti á hverjum tíma, a.m.k. að því marki sem unnt er að samrýma slíka túlkun fullveldisrétti ríkisins og réttaröryggi borgaranna. Þetta gildi líka um gildissvið hennar. Því séu líkur til þess, að öðrum skilyrðum uppfylltum, að almenni löggjafinn geti, innan ramma íslenskrar stjórnarskrár, kveðið nánar á um gildissvið tiltekins réttaratriðis sem hefur á sér alþjóðlegan blæ. Líklegt sé að þetta svigrúm sé því meira þeim mun alþjóðlegri sem lögskiptin séu í eðli sínu. Ákvarðanir þær sem fjallað sé um í álitsgerðinni varði að mestu leyti reglur um það þegar farið er yfir innri og ytri landamæri Schengen-svæðisins, svo og ákvarðanir um sameiginlegar vegabréfsáritanir. Ekki fari því á milli mála að umrædd réttarsvið hafa á sér greinilegan alþjóðlegan blæ og samkvæmt samkomulaginu við Ísland og Noreg sé gert ráð fyrir gagnkvæmni að því er varðar réttindi og skyldur. Ekki virðist hins vegar gert ráð fyrir jafnræði milli aðila samkomulagsins varðandi ákvörðun um framtíðargerðir sem samþykktar kunna að verða innan Schengen-samkomulagsins (eða innan ESB).
    Frekari sjónarmið um túlkun stjórnarskrárinnar út frá heimildum til framsals ríkisvalds til alþjóðastofnana eru einnig rakin í síðari álitsgerðinni. Þar er lögð áhersla á að miða verði við að Alþingi, sem handhafi löggjafarvalds, hafi nokkurt svigrúm til að meta hvort tiltekinn þjóðréttarsamningur brjóti í bága við stjórnarskrána eða ekki. Stjórnarskrárákvæði þau sem koma til skoðunar í tengslum við Schengen-samninginn, sbr. einkum 2. gr., séu matskennd, dómaframkvæmd á grundvelli þeirra sé takmörkuð og fræðikenningar og skýrar stjórnskipunarhefðir skorti. Ætla verði löggjafanum sjálfum, lýðræðislega kjörnum meiri hluta Alþingis, visst svigrúm til að túlka stjórnarskrána og meta ytri mörk heimils framsals ríkisvalds. Þá er enn fremur rakið að við túlkun ákvæða stjórnarskrárinnar sem varða fullveldi íslenska ríkisins verði að hafa í huga síaukna alþjóðlega samvinnu á öllum sviðum, sbr. rök sem rakin hafa verið hér að framan. Það eru einkum sjónarmið sem fram koma um meðferð og framsal dómsvalds sem skipta máli fyrir þessa álitsgerð. Verður látið við það sitja að lýsa þeim.
    Í álitsgerðinni er byggt á því að það væri meginregla að íslenskir dómstólar ættu dómsvald um réttarágreining einstaklinga, lögaðila og stjórnvalda skv. 2. mgr. 60. gr. stjórnarskrárinnar og þeir skæru úr öllum réttarágreiningi um embættistakmörk yfirvalda. Ljóst væri að íslenskir ríkisborgarar og lögaðilar ættu rétt á vernd innlendra dómstóla þegar frelsi þeirra og öryggi væri í húfi en Schengen-reglur tækju einmitt til slíkra atriða. Framsal dómsvalds gæti einkum falist í þrennu: (i) að gert væri ráð fyrir að unnt væri að skjóta innlendum dómsúrlausnum eða ákvörðunum stjórnvalda til alþjóðlegra dómstóla til endurskoðunar þannig að bindandi væri, (ii) að íslenskum úrlausnaraðilum væri gert skylt að bera ákveðin lagaatriði undir alþjóðlega dómstóla og vera bundnir við niðurstöður þeirra um þau atriði, (iii) að erlendum dómum væri veitt aðfararhæfi á Íslandi.
    Þá er rakið að þótt við það væri miðað að íslenskir einstaklingar og lögaðilar ættu rétt á að innlendir dómstólar (eða aðrir úrlausnaraðilar) fjölluðu um mál þeirra og að íslenska ríkið lyti fyrst og fremst úrlausnarvaldi þeirra, hafi verið talið heimilt að víkja frá þessu að vissu marki án þess að það væri talið fara í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar. Enn fremur segir að því mætti slá föstu að það væri ekki andstætt ákvæðum íslenskrar stjórnarskrár þótt Ísland viðurkenni í þjóðréttarsamningi að alþjóðlegur dómstóll kveði upp dóma sem túlkar nánar þær þjóðréttarlegu skyldur sem leiðir af viðkomandi þjóðréttarsamningi. Þetta gildir jafnt þótt slíkar niðurstöður geti haft mikla þýðingu fyrir túlkun íslensks réttar af hálfu íslenskra dómstóla og stjórnvalda. Dæmi um þetta væri mannréttindasáttmáli Evrópu, en dómar Mannréttindadómstóls Evrópu hafi haft mikil áhrif á þróun íslensks réttar. Sambærilegt dæmi mætti einnig finna í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Þá eru rakin ákvæði samningsins um skipan dómsvalds varðandi Schengen-reglur, einkum í tengslum við vegabréfsáritanir, hæli og önnur stefnumið varðandi frjálsa för fólks og í VI. þætti samningsins um Evrópusambandið sem fjallar um ákvæði um lögreglusamvinnu og lagalega samvinnu í refsimálum. Schengen-samningurinn gerði ekki ráð fyrir neinum dómstóli sem skæri úr deilumálum sem rísa kynnu milli samningsaðila við túlkun eða framkvæmd Schengen-reglnanna. Í aðalatriðum kæmi það í hlut dómstóls EB (og framkvæmdastjórnarinnar) að túlka og beita Schengen-reglunum eins og hverjum öðrum bandalags- eða sambandsrétti, en íslenskir dómstólar (og stjórnvöld) væru á sama hátt valdbærir til að leysa úr ágreiningi um Schengen-reglur hér á Íslandi eftir því sem efni þeirra gæfi tilefni til og segja til um stöðu þeirra að landsrétti. Þótt gera mætti ráð fyrir að túlkunaráhrif dómstóls EB um Schengen-reglur gætu orðið talsverð og ekki færi á milli mála að 9. og 10. gr. Schengen-samningsins gerði óbeint ráð fyrir slíkum áhrifum, fælist þó ekkert valdframsal í þessu sem væri andstætt stjórnarskránni enda væru íslenskir dómstólar ekki formlega bundnir við niðurstöður dómstóls EB (eða framkvæmdastjórnarinnar) samkvæmt Schengen-samningnum við Ísland og Noreg. Talið var ótvírætt að í samningnum fælist ekki framsal dómsvalds sem færi í bága við íslensku stjórnarskrána.

6.4. Síðari fræðikenningar.
    Að því er varðar síðari umfjöllun fræðimanna er vert er að benda á hugleiðingar prófessors Stefáns Más Stefánssonar um EES-samninginn og stjórnarskrána. Hann bendir á að Hæstiréttur Íslands hafi með dómi sínum í máli nr. 169/1998: Fagtún hf. gegn byggingarnefnd Borgarholtsskóla o.fl., sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 18. nóvember 1999 , ákveðið að leita ráðgefandi álits frá EFTA-dómstólnum. Af þessu dregur Stefán Már eftirfarandi ályktun: 63
             Þar með hefur Hæstiréttur að því er best verður séð einnig lagt til grundvallar að EES-samningurinn og fylgisamningar fái samrýmst ákvæðum stjórnarskrárinnar þó að ljóst sé að rétturinn fjallaði ekki beinlínis um þetta atriði. Má nú væntanlega líta svo á að öll æðstu stjórnvöld landsins, forseti Íslands, Alþingi og Hæstiréttur, hafi komist að þeirri niðurstöðu að EES-samningurinn og fylgisamningar fari ekki í bága við stjórnarskrána.
    Fleiri hafa orðið til þess að ræða þessi álitamál á fræðilegum vettvangi, m.a. höfundur þessarar álitsgerðar. Þau viðhorf koma að mestu fram í þessari álitsgerð og er því ekki ástæða til að rekja þau hér. Er þar á því byggt að hinn almenni löggjafi hafi heimild til að framselja ríkisvald í takmörkuðum mæli til alþjóðastofnana að tilteknum skilyrðum uppfylltum og framsal það sem í EES-samningnum hafi falist hafi verið innan þeirra marka sem heimil séu. Skylt er þó að geta þess að aðrir fræðimenn hafa lýst sig ósammála þeim niðurstöðum sem fram koma í áliti nefndar utanríkisráðherra frá 1992 og einnig að nokkru þeim sjónarmiðum sem byggt er á í álitsgerðum sem samdar voru í tilefni af þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu. Um niðurstöður álits nefndar utanríkisráðherra frá 1992 er því í reynd enn deilt.

6.5. Réttarstaðan á Íslandi – samantekt og niðurstaða.
    Umræður um stjórnskipulegt gildi EES-samningsins og niðurstöður þeirra, sem og að nokkru umræður um Schengen-samninginn, bera með sér að litið hefur verið svo á í íslenskri réttarframkvæmd að löggjafinn geti framselt ríkisvald til alþjóðastofnana, án þess að í stjórnarskránni sé að finna ákvæði sem heimilar það sérstaklega. Þótt þannig sé heimilt að framselja einstakar valdheimildir sem eru hluti af fullveldinu með alþjóðlegum stofnunum er ekki litið svo á að fullveldinu sé þar með afsalað og þaðan af síður réttinum til fullveldis. Af þessari ástæðu m.a. er skilvirkara í lögfræðilegri umræðu að ræða þetta álitamál út frá mögulegum heimildum til að fela alþjóðlegum stofnunum meðferð einstakra valdheimilda sem annars væru á hendi ríkisins, fremur en að gera fullveldishugtakið að megininntaki slíkrar umræðu.
    Ef lýsa á réttarstöðunni á Íslandi í stuttu máli má segja að í lagaframkvæmd og fræðilegum viðhorfum hafi verið mótuð óskráð regla sem heimilar hinum almenna löggjafa framsal ríkisvalds í takmörkuðum mæli. Erfitt er að afmarka með skýrum hætti inntak og umfang þessarar reglu, en sé tekið mið af lagaframkvæmd og fræðikenningum gæti hún hljóðað svo:
             Framsal valdheimilda ríkisins til alþjóðlegra stofnana er að vissu marki heimilt að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum: (i) að framsalið sé byggt á lögum, (ii) það sé afmarkað og vel skilgreint, (iii) það sé ekki verulega íþyngjandi, hvorki fyrir íslenska ríkið né þegnana, (iv) það sé byggt á samningi sem kveði á um gagnkvæm réttindi og skyldur og mæli fyrir um samsvarandi framsal ríkisvalds annarra samningsríkja, (v) að hinar alþjóðlegu stofnanir sem vald er framselt til byggist á lýðræðislegum grundvelli og að þær viðurkenni almennar meginreglur um réttláta málsmeðferð og réttláta stjórnsýslu, (vi) að framsalið leiði af þjóðréttarsamningi sem stefnir að lögmætum markmiðum í þágu friðar og menningarlegra, félagslegra eða efnahagslegra framfara, (vii) að framsalið megi ekki leiða til þess að skert séu réttindi þegnanna sem vernduð eru í stjórnarskrá, (viii) að framsalið sé afturkallanlegt.
    Þessi regla er ekki takmörkuð við það að samningur feli aðeins í sér hefðbundnar þjóðréttarlegar skuldbindingar eins og það er orðað, þ.e. þegar þær skuldabinda aðeins ríki, og hefur einnig verið talin eiga við þegar alþjóðastofnun fær vald til að taka ákvarðanir sem geta haft bein áhrif á réttarstöðu einstaklinga og lögaðila innan íslenskrar lögsögu. Þá hefur í framkvæmd ekki verið talið ráða úrslitum hvort Ísland er aðili að viðkomandi stofnun eða ekki.

7. Rúmast framsal það sem felst í 27. gr. frumvarpsins innan heimilda löggjafans til að framselja ríkisvald?
    Hér verður leitast við að meta hvort það framsal sem vissulega verður talið felast í 27. gr. frumvarpsins rúmist innan þeirra heimilda sem löggjafinn verður talinn hafa til framsals ríkisvalds samkvæmt þeirri reglu sem sett er fram í kaflanum hér á undan. Verða hér skoðuð einstök skilyrði.
    1. Fyrsta skilyrðið sem felst í framangreindri reglu er að framsalið sé byggt á lögum frá Alþingi. Verði frumvarp það sem hér er til skoðunar að lögum er þessu skilyrði augljóslega fullnægt í því tilviki sem hér um ræðir.
    2. Annað og þriðja skilyrðið lúta að því að framsalið sé afmarkað og vel skilgreint og enn fremur að það sé ekki verulega íþyngjandi, hvorki fyrir íslenska ríkið né þegnana.
    Í þessu sambandi ber fyrst að nefna að ákvæði 27. gr. frumvarpsins á eingöngu við þegar dómstólar beita 53. gr. og 54. gr. EES-samningsins, en aldrei í öðrum tilvikum. Þannig á ákvæðið aðeins við um mjög afmarkaðar aðstæður þegar tilteknum lagaákvæðum, sem geta aðeins átt við þegar aðgerðir fyrirtækja hafa áhrif á sameiginlegum markaði EES. Erfitt er að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að því skilyrði sé fullnægt að framsalið sé afmarkað og vel skilgreint.
    Að því er varðar skilyrðið um að framsalið sé ekki verulega íþyngjandi, hvorki fyrir íslenska ríkið né þegnana, er fyrst bent á að um leið og fallist er á að framsalið sé afmarkað eru jafnframt líkur til þess að það teljist ekki verulega íþyngjandi enda á það aðeins við um nánar tilgreindar ástæður. Í annan stað verður að meta hvort það geti leitt til þess að hagsmunir eða réttarvernd ríkisins eða íslenskra þegna sé skert á þann hátt að telja megi verulega íþyngjandi. Að því er þetta atriði varðar ber að gera greinarmun á því annars vegar hvort þessar heimildir teljast íþyngjandi gagnvart ríkinu sjálfu og hins vegar hvort þær teljast íþyngjandi gagnvart einstaklingum og lögaðilum. Að því er fyrra atriðið varðar er bent á að í ákvæðum um valdheimildir ESA felst ekki heimild til að taka ákvarðanir sem beinast að ríkinu sjálfu, nema að því marki að þær geta skv. 27. frumvarpsins bundið hendur dómstóla við úrlausn sama ágreiningsefnis, en þessar ákvarðanir geta aðeins átt við um lögskipti einstaklinga og lögaðila. Þessar heimildir geta því ekki talist verulega íþyngjandi fyrir íslenska ríkið, enda beinist ákvörðunarvald Eftirlitsstofnunar EFTA skv. 53. og 54. gr. EES aðeins að einstaklingum og lögaðilum. Sama á við um valdheimildir EFTA-dómstólsins, framkvæmdastjórnar ESB og dómstóls EB.
    Ef metið er hvort ákvæði 27. gr. frumvarpsins sé verulega íþyngjandi fyrir einstaklinga og lögaðila verður að skoða heildaráhrif þessara reglna fyrir einstaklinga og aðila í atvinnurekstri, annars vegar út frá þeim réttindum sem í EES-samningnum felast þeim til handa og hins vegar þeim viðurlögum sem hægt er að beita ef ekki er farið að settum reglum. Mikilvægt er enn fremur í því sambandi að hafa í huga hvar lögskiptin gerast sem ákvörðunarvald þessara stofnana tekur til, og hvaða hagsmuni og hvers konar lögskipti um er að tefla. Ákvörðunarvald þessara stofnana tekur aðeins til þeirra sem starfa á hinum sameiginlega markaði aðildarríkja samningsins og tekur aðeins til hegðunar fyrirtækja sem hefur áhrif á þessum markaði. Heimildir til að leggja á sektir og févíti ákvarðast af þeim hagsmunum sem um er að ræða í hvert skipti, sbr. nánar 1. mgr. 15. gr. bókunar 4. Þá geta einstaklingar og lögaðilar skotið ákvörðunum ESA, sem þá varða, til EFTA-dómstólsins til endurskoðunar, sbr. b-lið 2. mgr. 108. gr. EES. Þannig fela reglur EES-samningsins í heild í sér eðlilegt hlutfall milli réttinda og þess ávinnings sem er að vænta af reglunum annars vegar og þess eftirlitshlutverks, rannsóknar- og úrlausnarheimilda hins vegar sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur. Það verður því að telja líklegt að löggjafinn geti metið það svo að því skilyrði sé fullnægt að heimildir ESA skv. 27. gr. frumvarpsins séu ekki íþyngjandi umfram það sem eðlilegt getur talist þegar tillit er tekið til allra aðstæðna og sé þess vegna ekki verulega íþyngjandi í skilningi þessa skilyrðis.
    Hér er enn fremur rétt að benda á að í kjölfar álits nefndar utanríkisráðherra frá 1992 kom strax fram sú gagnrýni að þau dæmi sem í álitinu eru talin væru í grundvallaratriðum ólík valdheimildum ESA á sviði samkeppnismála. Þessi dæmi gætu því ekki skipt neinu máli. Var það m.a. tilfært að í engu þeirra væri gert ráð fyrir því beinlínis að ákvörðunarvald sem annars heyrði undir innlenda aðila væri flutt út úr landinu eins og gert væri í EES-samningnum. Ýmis önnur rök eru rakin sem eiga að sýna sérstöðu þeirra heimilda sem ESA voru fengnar. 64 Þessar röksemdir geta vissulega einnig átt við um 27. gr. frumvarpsins, enda verður það framsal sem í því ákvæði felst ekki talið eiga sér skýra hliðstæðu í íslenskum rétti.
    Í þessu sambandi er þó rétt að benda á að jafnvel þótt fallist yrði á að framsal valds til Eftirlitsstofnunar EFTA á grundvelli 27. gr. frumvarpsins sé annars eðlis en dæmi eru um áður hefur það eitt og sér takmarkaða sjálfstæða þýðingu við mat á því hvort það fer í bága við stjórnarskrána. Dæmin um löghelguð frávik frá 2. gr. sem nefnd hafa verið eru í eðli sínu ólík og hvíla á sérstökum forsendum og röksemdum sem eiga við í hverju tilviki fyrir sig, en eru samt hvert um sig almennt talin samræmast stjórnarskránni. Ekki er hægt að gefa sér fyrir fram að sú tiltekna tegund framsals sem felst í 27. gr. frumvarpsins sé óheimil vegna þess að engin skýr fordæmi eru um nákvæmlega þess konar framsal. Reglurnar sem leiðir af EES- samningnum, þ.m.t. þær sem fram koma í 27. gr. frumvarpsins, eru byggðar á sérstökum rökum sem eiga við um EES-samninginn eingöngu og þau markmið sem að er stefnt með honum. Verður að meta stjórnskipulegt gildi þeirra í því ljósi.
    3. Fjórða skilyrðið er að framsalið sé byggt á samningi sem kveði á um gagnkvæm réttindi og skyldur og mæli fyrir um samsvarandi framsal ríkisvalds annarra samningsríkja. Framsal það sem um ræðir er byggt á EES-samningnum og löggjöf sem hefur verið tekin upp í samninginn, en sá samningur kveður vissulega á um gagnkvæm réttindi og skyldur samningsaðila þar sem öllum samningsaðilum er gert að framselja ríkisvald með sama hætti og með sömu skilyrðum. Þessu skilyrði virðist því augljóslega vera fullnægt.
    4. Fimmta skilyrðið er að hinar alþjóðlegu stofnanir sem vald er framselt til byggist á lýðræðislegum grundvelli og að þær viðurkenni almennar meginreglur um réttláta málsmeðferð og réttláta stjórnsýslu. Ekki er vafi á því að ákvarðanir Eftirlitsstofnunar EFTA, sem túlka má sem íþyngjandi, eru teknar af stofnun sem fullnægir þessum skilyrðum. Sama á við um aðrar stofnanir sem 27. gr. frumvarpsins getur átt við um. Ekkert bendir til annars en að einstaklingar og aðilar í atvinnurekstri muni njóta réttarstöðu sem er sambærileg þeirri sem þeir njóta í samskiptum við innlend yfirvöld.
    5. Sjötta skilyrðið er að framsalið leiði af þjóðréttarsamningi sem stefnir að lögmætum markmiðum í þágu friðar og menningarlegra, félagslegra eða efnahagslegra framfara. Ekki er ástæða til að ágreiningur verði um að þessu skilyrði sé fullnægt í því tilviki sem hér um ræðir.
    6. Í sjöunda lagi er sett það skilyrði að framsal ríkisvalds megi aldrei leiða til þess að skert séu réttindi þegnanna sem vernduð eru í stjórnarskrá. Í þessu skilyrði felst að telji íslenskir dómstólar að ákvarðanir Eftirlitsstofnunar EFTA, eða annarra stofnana sem ætla verður að 27. gr. frumvarpsins vísi til, feli í sér að brotin sé réttur á íslenskum þegnum sem annars er tryggður í stjórnarskrá eru ákvarðanir hennar einfaldlega ekki bindandi fyrir þá. Ákvæði 27. gr. frumvarpsins verður því aldrei túlkað þannig að í því felist að dómstólar verði bundnir af ákvörðunum Eftirlitsstofnunar EFTA eða annarra stofnana sem ákvæðið kann að vísa til sem eru efnislega taldar vera andstæðar stjórnarskrá Íslands.
    7. Í áttunda lagi er rétta að setja það skilyrði að framsalið sé afturkallanlegt. Í þessu skilyrði felst sá skilningur að framsal löggjafans á valdheimildum ríkisins sé aldrei varanlegt og sé ávallt byggt á þeirri forsendu að þessar valdheimildir séu afturkallanlegar. Þetta er í sjálfu sér óháð hugleiðingum um hvort og við hvaða aðstæður unnt er að segja upp þjóðréttarsamningum af því tagi sem EES-samningurinn er. Aðstaðan er einfaldlega sú að í skjóli íslensku reglunnar um takmarkað framsal valdheimilda ríkisins er ekki unnt að framselja valdheimildirnar varanlega með óafturkallanlegum hætti og við það verða viðsemjendur Íslands að una. Íslendingar geta að sjálfsögðu sett sér slíka reglu einhliða og byggt á henni í skjóli fullveldisréttinda sinna.

8. Helstu niðurstöður.
    Helstu niðurstöður álitsgerðarinnar eru þessar:
     1)      Færð eru rök fyrir því að ákvæði 27. gr. frumvarps til samkeppnislaga hafi talsverða sérstöðu sem geri það að verkum að framsal dómsvalds sem í því verður talið felast rúmast ekki sjálfkrafa innan þess framsals ríkisvalds til alþjóðastofnana sem þegar hefur verið talið heimilt á grundvelli EES-samningsins, sem löggjafinn samþykkti með lögum nr. 2/1993, og álit nefndar utanríkisráðherra frá 1992 fjallar um. Sérstaða 27. gr. frumvarpsins felst m.a. í því að ekki eru dæmi þess að íslenskir dómstólar hafi áður verið bundnir af ákvörðunum alþjóðlegra stofnana við úrlausn mála sem þeir annars eiga lögsögu í. Þessu verður ekki jafnað til þess þegar erlendum úrlausnum, þ.m.t. úrlausnum alþjóðlegra stofnana, er veitt aðfararhæfi hér á landi, né heldur verða þær taldar felast í þeim, enda hafa slíkar fullnustuheimildir aldrei verið skýrðar svo að þær takmarki eða skerði sjálfstæði innlendra dómstóla. Ákvæði 27. gr. frumvarpsins gerir það aftur á móti óneitanlega, þótt í takmörkuðum mæli sé, og skerðir með beinum hætti sjálfstæði dómsvaldsins þar sem dómari verður, þegar tiltekin skilyrði eru fyrir hendi, bundinn af ákvörðun annars aðila (Eftirlitsstofnunar EFTA, EFTA-dómstólsins, framkvæmdastjórnar EB eða dómstóls EB) þegar hann kveður upp sinn dóm. Í áliti nefndar utanríkisráðherra frá 1992 er lögð sérstök áhersla á að ákvæði EES-samningsins eða fylgisamninga hans hefðu ekki þessi eða sambærileg áhrif á sjálfstæði íslenskra dómstóla og voru það talin mikilvæg rök þegar komist var að þeirri niðurstöðu að lögfesta mætti EES-samninginn að óbreyttum stjórnlögum. Sú tegund framsals sem í ákvæðinu felst er því nýmæli í íslenskum lögum. Með því er þó í sjálfu sér ekki tekin afstaða til þess hvort ákvæðið gengur lengra eða skemmra í framsali ríkisvalds til alþjóðastofnana en áður hefur verið talið rúmast innan stjórnarskrárinnar. Því er aftur á móti haldið fram að ekki verði hjá því komist að meta sérstaklega hvort það framsal sem í ákvæðinu felst rúmist innan þeirra heimilda sem hinn almenni löggjafi verður talinn hafa í þessu efni.
     2)      Í álitsgerð þessari er byggt á þeirri forsendu að í íslenskum rétti gildi venjuhelguð regla um að hinum almenna löggjafa sé að uppfylltum ákveðnum skilyrðum heimilt að framselja ríkisvald í takmörkuðum mæli til alþjóðastofnana. Í álitsgerðinni er rökstutt í alllöngu máli að slík óskráð regla gildi að íslenskum rétti án þess að hún sé orðuð í stjórnarskránni. Þótt þessi regla verði álitin í gildi er óhjákvæmilegt að halda því til haga að ekki hefur með beinum hætti reynt á gildi hennar fyrir íslenskum dómstólum. Auk þess er nánara inntak hennar óljóst og ytri mörk heimils framsals ekki skýr. Af þeim sökum felst ákveðin áhætta í því að byggja framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana á þessari reglu. Sé tekið mið af sjónarmiðum um breytilega skýringu stjórnarskrárinnar, sem fela í sér allmikið svigrúm fyrir hinn almenna löggjafa til að skýra og beita stjórnarskránni í samræmi við ríkjandi viðhorf í stjórnmálum í víðum skilningi, almenna þjóðfélagsþróun og þróun alþjóðasamskipta, má þó færa veigamikil rök fyrir því að löggjafanum sé játuð heimild til framsals ríkisvalds innan þeirra marka sem þessi regla setur. Slíkt fyrirkomulag er haganlegt og skynsamlegt, ef tekið er mið af þróun mála í alþjóðasamskiptum og alþjóðaviðskiptum. Í því sambandi er mikilvægt að löggjafinn hafi möguleika á að tryggja réttarstöðu íslenskra þátttakenda í slíkum viðskiptum og tryggja þeim nauðsynlega réttarvernd á þeim vettvangi sem eðlilegastan má telja þegar eðli alþjóðlegra viðskipta er haft í huga. Á hinn bóginn hefur í dómum Hæstaréttar undanfarinn áratug eða svo gætt vissrar tilhneigingar til að þrengja að valdheimildum löggjafans umfram það sem ætla mætti að fælist í hinum hefðbundnu sjónarmiðum, m.a. þegar löggjöf varðar efnahagsleg og félagsleg réttindi sem getið er í stjórnarskrá. Hafa niðurstöður þeirra í sumum tilvikum komið bæði stjórnmálamönnum og fræðimönnum í lögfræði nokkuð á óvart sé tekið mið af hefðbundnum sjónarmiðum um skýringu stjórnarskrárinnar. Endurteknir árekstrar löggjafarvalds og dómsvalds af þessu tagi leiða til þess að ekki er mögulegt að spá fyrir um það með neinni vissu hver afstaða íslenskra dómstóla kann að verða til þess álitaefnis sem hér er tekist á við.
     3)      Framangreind óskráð regla er á því reist að í lagaframkvæmd og fræðikenningum hafi verið við það miðað að heimilt sé í takmörkuðum mæli að framselja ríkisvald til alþjóðastofnana. Skýrasta dæmið um þetta er EES-samningurinn sjálfur. Mikilvæg réttarpólitísk og lögfræðileg rök hníga til þess að löggjafanum sé játað svigrúm til þess að mæla fyrir um takmarkað framsal einstakra valdheimilda ríkisins til slíkra stofnana til að greiða fyrir alþjóðasamskiptum og þá ekki síður til að tryggja réttarvernd og réttarstöðu Íslendinga og íslenskra fyrirtækja sem taka þátt í alþjóðlegum viðskiptum. Alþingi er valdamesta stofnun íslenska ríkisins og þingmenn sæta pólitískri ábyrgð. Við mat á svigrúmi sínu til að framselja ríkisvald til alþjóðastofnunar getur Alþingi því gert að sínum þau réttarpólitísku og lögfræðilegu rök sem rakin eru í álitsgerð þessari. Þessi réttarpólitísku og lögfræðilegu rök eru jafngild og hafa sambærilegt vægi þótt heimilt sé að breyta stjórnarskrá og mæla fyrir um heimild til framsals ríkisvalds í henni, enda vandséð að slík heimild yrði nokkurn tímann orðuð þannig að hún leysi í eitt skipti fyrir öll úr þeim vafamálum sem upp geta komið við framsal ríkisvalds. Að því leyti skipta þessi rök einnig máli við þær aðstæður og löggjafinn gæti staðið með svipuðum hætti frammi fyrir því að taka afstöðu til þeirra við beitingu slíks ákvæðis.
     4)      Í álitsgerðinni er því haldið fram að sú forsenda sem stjórnarskráin verður talin byggjast á, að Ísland sé fullvalda ríki, komi ekki í veg fyrir að löggjafanum sé í takmörkuðum mæli heimilt að framselja ríkisvald til alþjóðastofnana. Við mat á þýðingu fullveldishugtaksins í þessu sambandi, og þeim skorðum sem það kann að setja mögulegum heimildum löggjafans, ber að leggja áherslu á þann lagalega skilning á hugtakinu að réttur ríkis til fullveldis miði að því treysta rétt þess til að standa vörð um hagsæld, mannréttindi og frelsi þegna sinna á eigin forsendum, um leið og það er frá pólitísku sjónarmiði umgjörð um þjóðernisleg og menningarleg samkenni þjóðar. Af þessu sjónarmiði leiðir m.a. að framsal ríkisvalds til alþjóðastofnunar má ekki leiða til þess að takmörkuð verði réttindi þegnanna þannig að í bága fari við stjórnarskrárbundin grundvallarréttindi þeirra. Þá felst einnig í fullveldisrétti ríkisins að valdheimildir, sem framseldar hafa verið, eru ávallt afturkallanlegar.
     5)      Þau ákvæði stjórnarskrárinnar sem helst koma til skoðunar varðandi framsal eða takmörkun á sjálfstæði dómsvaldsins eru í 1., 2. og 60. gr. hennar. Að því er varðar 2. gr. stjórnarskrárinnar er bent á að viðurkennd hafi verið mörg frávik frá þeim reglum sem í ákvæðinu verða taldar felast, m.a. að því er varðar meðferð dómsvalds. Mörg þessara frávika eru löngu venjuhelguð og styðjast við málefnaleg rök, þótt ekkert þeirra sé fyllilega sambærilegt við það sem lagt er til í 27. gr. frumvarps til nýrra samkeppnislaga. Þótt möguleg frávik frá ákvæðum 2. gr. stjórnarskrárinnar sæti vissulega takmörkunum hefur í dómaframkvæmd verið viðurkennt að löggjafinn hafi ákveðið svigrúm í þessu efni. Lagaframkvæmd á Íslandi vitnar enn fremur um það viðhorf að löggjafinn hafi talsvert svigrúm til að mæla fyrir um frávik frá 2. gr. þótt skráðum heimildum til þess sé ekki fyrir að fara í stjórnarskránni. Rök standa til þess að líta svo á að sambærilegt svigrúm sé fyrir hendi þegar kemur að heimildum til að fela alþjóðlegum stofnunum valdheimildir á afmörkuðum sviðum, og við nánar tilgreindar aðstæður, sem annars væru á hendi ríkisins.
     6)      Með vísan til þeirra réttarpólitísku og lögfræðilegu röksemda, sem raktar hafa verið, og lagaframkvæmdar og fræðikenninga, sbr. og 2. tölul. hér að framan, er því haldið fram hér að samkvæmt íslenskum rétti gildi nú þegar regla sem heimilar hinum almenna löggjafa framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana í takmörkuðum mæli. Regluna má orða svo:
              Framsal valdheimilda ríkisins til alþjóðlegra stofnana er að vissu marki heimilt að uppfylltum eftirtöldum skilyrðum: (i) að framsalið sé byggt á lögum, (ii) það sé afmarkað og vel skilgreint, (iii) það sé ekki verulega íþyngjandi, hvorki fyrir íslenska ríkið né þegnana, (iv) það sé byggt á samningi sem kveði á um gagnkvæm réttindi og skyldur og mæli fyrir um samsvarandi framsal ríkisvalds annarra samningsríkja, (v) að hinar alþjóðlegu stofnanir sem vald er framselt til byggist á lýðræðislegum grundvelli og að þær viðurkenni almennar meginreglur um réttláta málsmeðferð og réttláta stjórnsýslu, (vi) að framsalið leiði af þjóðréttarsamningi sem stefnir að lögmætum markmiðum í þágu friðar og menningarlegra, félagslegra eða efnahagslegra framfara, (vii) að framsalið megi ekki leiða til þess að skert séu réttindi þegnanna sem vernduð eru í stjórnarskrá, (viii) að framsalið sé afturkallanlegt.
     7)      Í álitsgerðinni eru færð fyrir því rök að það framsal eða takmörkun á sjálfstæði dómsvaldsins, sem í 27. gr. frumvarpsins verður talið felast, geti rúmast innan þeirra heimilda sem löggjafinn hefur samkvæmt þeirri reglu sem talin er gilda hér á landi og gerð er grein fyrir hér að framan. Það er þó undir því komið að fallist sé á að löggjafinn hafi að óbreyttum stjórnlögum heimild til að framselja ríkisvald í takmörkuðum mæli og að inntak þeirrar heimildar sé með þeim hætti sem lýst hefur verið. Um þetta hvorutveggja hefur verið og er ágreiningur meðal stjórnmálamanna og fræðimanna í lögum.
     8)      Við hið lögfræðilega mat skiptir máli að skerðing á sjálfstæði dómsvaldsins og framsal dómsvalds til alþjóðastofnunar er skv. 27. gr. frumvarpsins mjög takmarkað við ákveðnar ástæður og á eingöngu við þegar íslenskir dómstólar beita tilteknum ákvæðum EES- samningsins. Þótt það sé ekki lögfræðilegt sjónarmið að öllu leyti er einnig ástæða til að benda á að líklegt er að þýðing 27. gr. eigi í reynd eftir að verða afar lítil.
     9)      Að lokum er nauðsynlegt að árétta enn og aftur að forsendan fyrir því að 27. gr. frumvarpsins standist gagnvart stjórnarskrá er að fallist sé á að í íslenskum rétti gildi venjuhelguð regla um að hinn almenni löggjafi hafi heimild til að framselja ríkisvald í takmörkuðum mæli til alþjóðastofnana, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, án sérstakrar heimildar til þess í stjórnarskránni. Enn fremur verður að leggja áherslu á að ekki hefur með beinum hætti reynt á gildi þessarar reglur fyrir dómstólum. Alþingi, sem æðsti handhafi löggjafarvalds og valdamesta stofnun ríkisins, hefur byggt á slíkri reglu í framkvæmd. Það er einnig á ábyrgð Alþingis að áskilja sér svigrúm til að móta inntak þessarar reglu nánar í framkvæmd og beita henni í því tilviki sem hér um ræðir, m.a. með það að markmiði að stuðla því að íslenska ríkið geti verið virkur þátttakandi í alþjóðlegu samstarfi.

Efnisyfirlit.

1.    Inngangur.
2.    Nánar um 27. gr. frumvarpsins.
3.    Sérstaða 27. gr. frumvarpsins.
4.    Fullveldishugtakið.
5.    Almenn réttarpólitísk og lögfræðileg sjónarmið um framsal ríkisvalds.
6.    Réttarstaðan á Íslandi.
    6.1    Almenn sjónarmið við skýringu stjórnarskrárinnar.
    6.2    Einstök ákvæði stjórnarskrárinnar sem varða heimildir til framsals ríkisvalds.
        6.2.1    Inngangur.
        6.2.2    Ákvæði 1. gr. stjskr.
        6.2.3    Ákvæði 2. gr. stjskr.
        6.2.4    Ákvæði stjórnarskrárinnar um dómsvaldið.
    6.3    Lagaframkvæmd á Íslandi og fræðikenningar um framsal ríkisvalds.
        6.3.1    Eldri fræðikenningar.
        6.3.2    EES-samningurinn.
            a)    Löggjafarvaldið.
            b)    Framkvæmdarvaldið.
            c)    Dómsvaldið.
        6.3.3    Gagnrýni vegna fullgildingar og lögfestingar EES-samningsins.
        6.3.4    Schengen-samningurinn.
            a)    Almennt um Schengen-samninginn.
            b)    Stjórnskipuleg álitamál tengd Schengen-samningnum.
    6.4.    Síðari fræðikenningar.
    6.5.    Réttarstaðan á Íslandi – samantekt og niðurstaða.
7.    Rúmast framsal það sem felst í 27. gr. frumvarpsins innan heimilda löggjafans til að framselja ríkisvald?
8.    Helstu niðurstöður.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 219, 19.6.2004, bls. 24 og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 32, 19.6.2004, bls. 10.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 219, 19.6.2004, bls. 24 og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 32, 19.6.2004, bls. 10.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. EB L 1, 4.1.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 4
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 5
(1)    Stjtíð. EB C 365 E, 19.12.2000, bls. 284.
Neðanmálsgrein: 6
(2)    Stjtíð. EB C 72 E, 21.3.2002, bls. 305.
Neðanmálsgrein: 7
(3)    Stjtíð. EB C 155, 29.5.2001, bls. 73.
Neðanmálsgrein: 8
(*)    Fyrirsögn reglugerðar nr. 17 hefur verið breytt með tilliti til endurtölusetningar greina stofnsáttmála EB í samræmi við 12. gr. Amsterdam-sáttmálans; upprunalega tilvísunin var í 85. og 86. gr. sáttmálans.
Neðanmálsgrein: 9
(4)    Stjtíð. EB 13, 21.2.1962, bls. 204/62. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 1216/1999 (Stjtíð. EB L 148, 15.6.1999, bls. 5).
Neðanmálsgrein: 10
(5)    Reglugerð ráðsins nr. 19/65/EBE frá 2. mars 1965 um beitingu 3. mgr. 81. gr. sáttmálans gagnvart tilteknum flokkum samninga og samstilltra aðgerða (Fyrirsögnum reglugerðanna hefur verið breytt með tilliti til endurtölusetningar greina stofnsáttmála EB í samræmi við 12. gr. Amsterdam-sáttmálans; upprunalega tilvísunin var í 3. mgr. 85. gr. sáttmálans.) (Stjtíð. EB 36, 6.3.1965, bls. 533).Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 1215/1999 (Stjtíð. EB L 148, 15.6.1999, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 11
(6)    Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2821/71 frá 20. desember 1971 um beitingu 3. mgr. 81. gr. sáttmálans gagnvart tilteknum flokkum samninga, ákvarðana og samstilltra aðgerða (Fyrirsögnum reglugerðanna hefur verið breytt með tilliti til endurtölusetningar greina stofnsáttmála EB í samræmi við 12. gr. Amsterdam-sáttmálans; upprunalega tilvísunin var í 3. mgr. 85. gr. sáttmálans.) (Stjtíð. EB L 285, 29.12.1971, bls. 46). Reglugerðinni var síðast breytt með aðildarlögunum frá 1994.
Neðanmálsgrein: 12
(7)    Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3976/87 frá 14. desember 1987 um beitingu 3. mgr. 81. gr. sáttmálans gagnvart tilteknum flokkum samninga og samstilltra aðgerða á sviði flutninga í lofti (Fyrirsögnum reglugerðanna hefur verið breytt með tilliti til endurtölusetningar greina stofnsáttmála EB í samræmi við 12. gr. Amsterdam-sáttmálans; upprunalega tilvísunin var í 3. mgr. 85. sáttmálans) (Stjtíð. EB L 374, 31.12.1987, bls. 9). Reglugerðinni var síðast breytt með aðildarlögunum frá 1994.
Neðanmálsgrein: 13
(8)    Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1534/91 frá 31. maí 1991 um beitingu 3. mgr. 81. gr. sáttmálans. gagnvart tilteknum flokkum samninga, ákvarðana og samstilltra aðgerða á sviði vátrygginga (Fyrirsögnum reglugerðanna hefur verið breytt með tilliti til endurtölusetningar greina stofnsáttmála EB í samræmi við 12. gr. Amsterdam-sáttmálans; upprunalega tilvísunin var í 3. mgr. 85. sáttmálans) (Stjtíð. EB L 143, 7.6.1991, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 14
(9)    Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 479/92 frá 25. febrúar 1992 um beitingu 3. mgr. 81. gr. sáttmálans gagnvart tilteknum flokkum samninga, ákvarðana og samstilltra aðgerða milli áætlunarskipafélaga (skipafélagasamtaka) (Fyrirsögnum reglugerðanna hefur verið breytt með tilliti til endurtölusetningar greina stofnsáttmála EB í samræmi við 12. gr. Amsterdam-sáttmálans; upprunalega tilvísunin var í 3. mgr. 85. gr. sáttmálans) (Stjtíð. EB L 55, 29.2.1992, bls. 3). Reglugerðinni var breytt með aðildarlögunum frá 1994.
Neðanmálsgrein: 15
(1)    Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2988/74 frá 26. nóvember 1974 um fyrningarfrest við meðferð mála og hvernig beita skuli refsiaðgerðum samkvæmt reglum Efnahagsbandalags Evrópu um flutninga og samkeppni (Stjtíð. EB L 319, 29.11.1974, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 16
(2)    Stjtíð. EB 124, 28.11.1962, bls. 2751/62. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð nr. 1002/67/EBE (Stjtíð. EB 306, 16.12.1967, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 17
(1)    Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1017/68 frá 19. júlí 1968 um að beita samkeppnisreglum gagnvart flutningum á járnbrautum, vegum og skipgengum vatnaleiðum (Stjtíð. EB L 175, 23.7.1968, bls. 1). Reglugerðinni var síðast breytt með aðildarlögunum frá 1994.
Neðanmálsgrein: 18
(2)    Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 4056/86 frá 22. desember 1986 um beitingu 81. og 82. gr. sáttmálans gagnvart flutningum á sjó (Fyrirsögnum reglugerðanna hefur verið breytt með tilliti til endurtölusetningar greina stofnsáttmála EB í samræmi við 12. gr. Amsterdam-sáttmálans; upprunalega tilvísunin var í 85. og 86. gr. sáttmálans.) (Stjtíð. EB L 378, 31.12.1986, bls. 4). Reglugerðinni var síðast breytt með aðildarlögunum frá 1994.
Neðanmálsgrein: 19
(3)    Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3975/87 frá 14. desember 1987 sem setur reglur um beitingu samkeppnisreglna gagnvart fyrirtækjum á sviði flutninga í lofti (Stjtíð. EB L 374, 31.12.1987, bls. 1). Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð (EBE) nr. 2410/92 (Stjtíð. EB L 240, 24.8.1992, bls. 18).
Neðanmálsgrein: 20
(1)     Stjtíð. EB L 1, 4.1.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 21
(1)    Stjtíð. ESB L [óbirt] og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. [óbirt]
Neðanmálsgrein: 22
(2)    Stjtíð. ESB L [óbirt] og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. [óbirt]
Neðanmálsgrein: 23
(3)    Stjtíð. ESB L 123, 27.4.2004, bls. 18.
Neðanmálsgrein: 24
(4)    Stjtíð. EB L 377, 31.12.1994, bls. 28.
Neðanmálsgrein: 25
(5)    Stjtíð. EB L 354, 30.12.1998, bls. 18.
Neðanmálsgrein: 26
(6)    Stjtíð. EB L 354, 30.12.1998, bls. 22.
Neðanmálsgrein: 27
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 28
(1)    Stjtíð. EB L 1, 4.1.2003, bls. 1. Reglugerðinni var breytt með reglugerð (EB) nr. 411/2004 (Stjtíð. EB L 68, 6.3.2004, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 29
(1)    Stjtíð. EB L 354, 30.12.1998, bls. 18.
Neðanmálsgrein: 30
(1)    Stjtíð. EB L 354, 30.12.1998, bls. 22.
Neðanmálsgrein: 31
(2)    Stjtíð. EB L 377, 31.12.1994, bls. 28.
Neðanmálsgrein: 32
    1 Stjtíð. ESB 123, 27.4.2004, bls. 18.
Neðanmálsgrein: 33
    1 Álitsgerð þessi tók upphaflega mið af drögum að frumvarpi til nýrra samkeppnislaga, dags. 30. september 2004. Ýmsar tæknilegar breytingar hafa síðan þá verið gerðar á texta 27. gr. frumvarpsins og athugasemdum í greinargerð. Álitsgerðin í þeirri mynd sem hún birtist hér tekur mið af þeim breytingum. Þær breyta þó engu um meginniðurstöður álitsgerðarinnar.
Neðanmálsgrein: 34
    2 Ákvæðið hljóðar svo:
    „1. Eftirlitsstofnanirnar skulu taka ákvarðanir í einstökum málum, sem falla undir 53. gr., í samræmi við eftirfarandi ákvæði:
     a.     eftirlitsstofnun EFTA skal taka ákvarðanir í þeim málum sem einungis hafa áhrif á viðskipti milli EFTA-ríkjanna;
     b.     með fyrirvara um c-lið skal eftirlitsstofnun EFTA taka ákvarðanir, eins og kveðið er á um í ákvæðum 58. gr., bókun 21 og reglum um framkvæmd hennar, bókun 23 og XIV. viðauka, í málum þar sem velta viðkomandi fyrirtækja á yfirráðasvæði EFTA-ríkjanna er 33% eða meiri en velta þeirra á svæðinu sem samningur þessi tekur til;
     c.     framkvæmdastjórn EB skal taka ákvarðanir í öðrum málum, svo og í þeim málum sem falla undir b-lið og hafa áhrif á viðskipti milli aðildarríkja EB, og skal hún þá taka tillit til ákvæðanna í 58. gr., bókun 21, bókun 23 og XIV. viðauka.
    2. Eftirlitsstofnun á því svæði þar sem yfirburðastaða er talin vera fyrir hendi skal taka ákvarðanir í einstökum málum sem falla undir 54. gr. Reglurnar sem settar eru í b- og c-lið 1. mgr. gilda því aðeins að um yfirburðastöðu á svæðum beggja eftirlitsstofnananna sé að ræða.
    3. Eftirlitsstofnun EFTA skal taka ákvarðanir í einstökum málum sem falla undir c-lið 1. mgr. og hafa ekki umtalsverð áhrif á viðskipti milli aðildarríkja EB eða samkeppni í bandalaginu.
    4. Hugtökin „fyrirtæki“ og „velta“ eru, að því er þessa grein varðar, skilgreind í bókun 22.“
Neðanmálsgrein: 35
    3 Mál C-234/89 Delmitis [1991] ECR I-935 og mál C-344/98 Masterfoods [1991] ECR I-11369.
Neðanmálsgrein: 36
    4 Álitið var samið af nefnd sem í sátu Þór Vilhjálmsson, þáv. hæstaréttardómari, Gunnar G. Schram, þáv. lagaprófessor, Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor og Ólafur Walter Stefánsson, þáv. skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Álitið er prentað í Alþingistíðindum A, 1992 (þingskjal nr. 30, fylgiskjal I), bls. 682–713.
Neðanmálsgrein: 37
    5 Höfundar álitsgerðanna voru Stefán Már Stefánsson, Viðar Már Matthíasson og Davíð Þór Björgvinsson. Álitsgerðirnar eru prentaðar sem fylgiskjöl með tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings sem ráð Evrópusambandsins og lýðveldið Ísland og konungsríkið Noregur gera með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna. Alþingistíðindi A 1999 (þskj. 240) (Álitsgerðirnar er að finna á bls. 1952–1983 og 1983–1994). Þá komu álitamál þessu tengd upp í tengslum við frumvarp til laga um framkvæmd Rómarsamþykktar um Alþjóðlega sakamáladómstólinn, sbr. nú lög nr. 43/2001, einkum í tengslum við 1. mgr. 27. gr. samþykktarinnar, þótt það sé nokkuð annars eðlis og skipti ekki máli fyrir þessa álitsgerð.
Neðanmálsgrein: 38
    6 Af skrifum fræðimann í lögfræði má nefna: Ólafur Jóhannesson: Stjórnarskráin og þátttaka Íslands í alþjóðastofnunum. Tímarit lögfræðinga 1. hefti 1962, bls. 1–27; Gunnar G. Schram: Framsal ríkisvalds til Evrópubandalagsins. Ármannsbók. Afmælisrit helgað Ármanni Snævarr. Reykjavík, 1989, bls. 219–247; Guðmundur Alfreðsson: Um EES og stjórnarskrána (16. ágúst 1992). Alþt. A 1992–1993 (þskj. 30 fylgiskjal III), bls. 737–758; Björn Þ. Guðmundsson: Stjórnarskráin og EES (22. júlí 1992). Alþt. A 1992–1993 (þskj. 30, fylgiskjal), bls. 714–736; Davíð Þór Björgvinsson: (i) Morgunblaðinu 5. júlí 1992 undir fyrirsögninni: Stjórnarskráin og EES. Morgunblaðið 5. júlí 1992; (ii) EES og framsal ríkisvalds. Afmælisrit. Þór Vilhjálmsson sjötugur 9. júlí 2000, Reykjavík 2000, bls. 77–109; (iii) Stjórnarskrárákvæði um framsal valdheimilda ríkisins til alþjóðastofnana. Rannsóknir í félagsvísindum IV (Lagadeild). Erindi flutt á ráðstefnu í febrúar 2003. Ritstjóri Viðar Már Matthíasson. Reykjavík 2003, bls. 213–228; (iv) Stjórnarskráin og framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana. Morgunblaðið 9. mars 2003; Sigurjón Ingvason: EES-samningurinn og stjórnarskráin. Úlfljótur 3. tbl. 1992, bls. 247–262; Kristrún Heimisdóttir: Stjórnarskrárbundið fullveldi Íslands. Tímarit lögfræðinga 1. hefti 2003, bls. 19–60. Stefán Már Stefánsson: EES-samningurinn og stjórnarskráin. Morgunblaðið 13. október 1998.
Neðanmálsgrein: 39
    7 Hér er þess þó að geta að íslenskir dómstólar hafa beitt ákvæðum IV. hluta (53.–65. gr.) kafla EES- samningsins, þótt EES-samningurinn geri ekki ráð fyrir að þeir hafi til þess lögsögu, sbr. H.1998, 4406. Í málinu var því m.a. haldið fram af hálfu stefnanda að álagning og ráðstöfun iðnlánasjóðsgjalds samkvæmt lögum nr. 76/1987 fæli í sér ríkisstyrk sem andstæður væri 61. gr. EES-samningsins. Í héraðsdómi var fjallað rækilega um þessa málsástæðu stefnanda og komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri um óheimila ríkisaðstoð að ræða í skilningi 61. gr. samningsins. Í dómi Hæstaréttar er niðurstaða héraðsdóms um þetta atriði staðfest með vísan til forsendna héraðsdóms. Hér má vísa til dóms EFTA-dómstólsins í máli E-1/00 Lánasýsla ríkisins gegn Íslandsbanka-FBA hf. REC 2000–2001, 8. Þar var m.a. spurt um það hvort ríkisstyrkur fælist í lögunum um ríkisábyrgð. Segir að vissulega geti verið um ríkisstyrk að ræða, en aftur á móti bresti dómstóla í aðildarríkjunum hæfi til að lýsa ríkisaðstoð, sem EFTA-ríki veita, andstæða EES- samningnum. Af þessu má vera ljóst að annaðhvort ber að skilja dóm Hæstaréttar þannig að íslenskir dómstólar áskilji sér lögsögu í slíkum málum þrátt fyrir að EES-samningurinn geri ekki ráð fyrir því, eða eftir atvikum að dómurinn sé byggður á misskilningi.
Neðanmálsgrein: 40
    8 Um forúrskurði sjá t.d. Stefán Má Stefánsson: Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið (2000), einkum bls. 1011–1035; Brown og Jacobs: The Court of Justice of the European Communities (2000), bls. 204–245; Weatherhill og Beaumont: EU Law (1999), bls. 314–356; Johansson og Westman-Clément: EFTA-domstolens rådgivande yttranden (1994), bls. 23–38; Magnussen: Norske domstolers foreleggelse av tolkningsspørsmål for EFTA-domstolen (1999), bls. 196–215; Bungum: Norske domstolers rett til å stille prjudisielle spørsmål ved fortolkning av EØS- eller EU-rett (1995), bls. 329–343. Einnig Davíð Þór Björgvinsson. Ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins. Tímarit lögfræðinga 1995.
Neðanmálsgrein: 41
    9 Þess að geta að Hæstiréttur Íslands hefur einu sinni leitað ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins, sbr. Mál E-5/1998 Fagtún ehf. gegn Byggingarnefnd Borgarholtsskóla, íslenska ríkinu, Reykjavíkurborg og Mosfellsbæ. REC, 1999, 51. Þá hefur rétturinn jafnframt í einu tilfelli staðfest úrskurð héraðsdómara um að leita slíks álits, en breytt spurningunum sem óskað var álits á, sbr. Mál E-1/00 Lánasýsla ríkisins gegn Íslandsbanka-FBA hf. REC 2000–2001, 8. Þá hefur Hæstiréttur oftar en einu sinni haft hliðsjón af slíkum álitum við úrlausn ágreiningsmála þar sem reynt hefur á skýringu og beitingu EES-reglna. Verður því að ætla að í lagaframkvæmd hafi dómstólar hér á landi fallist á niðurstöður álitsins að þessu leyti. Það breytir ekki þeirri niðurstöðu þótt komið hafi fyrir að Hæstiréttur hafi hafnað því að leita ráðgefandi álits, enda aðrar ástæður tilgreindar fyrir því sem varða ekki efni þessarar álitsgerðar.
Neðanmálsgrein: 42
    10 Í tilvitnuðum bókunum er að finna ákvæði sem varða störf og valdsvið Eftirlitsstofnunar EFTA vegna bókunar 1 við EES-samninginn. Enn fremur ákvæði um störf hennar og valdsvið á sviði opinberra innkaupa, ríkisaðstoðar og samkeppni. Í viðaukum I og II er að finna tilvísanir til tiltekinna gerða EB sem varða eftirlit með reglum um ríkisaðstoð og samkeppni.
Neðanmálsgrein: 43
    11 Um hugtakið „einsleitni“ sjá t.d. Stefán Má Stefánsson Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið (2000), einkum bls. 122–129; Dóra Guðmundsdóttir: Getur dómstólum borið skylda til …? (2000), bls. 111 og Norberg o.fl. EEA Law (1993), bls. 192 og áfr.
Neðanmálsgrein: 44
    12 Skúli Magnússson. Hin lagalega aðferð og réttarheimildirnar. Reykjavík 2003 og Jón Steinar Gunnlaugsson. Fordæmi og valdmörk dómstóla. Reykjavík 2003.
Neðanmálsgrein: 45
    13 Af íslenskum ritum sjá t.d. Guðmund Hálfdánarson. Íslenska þjóðríkið, uppruni og endimörk. Reykjavík 2001, einkum bls. 235–239; Davíð Þór Björgvinsson: EES og framsal ríkisvalds. Afmælisrit. Þór Vilhjálmsson sjötugur. 9. júní 2000. Reykjavík 2000 einkum bls. 78–79 og 85–88; Atli Harðarson: Er fullveldi einhvers virði? Vafamál. Reykjavík 1998, bls. 67–83. Af erlendum ritum þar sem fjallað er um fullveldishugtakið má t.d. nefna: National Constitutions in the Era of Integration. The Hague 1999 (ritstj. Antero Jyränki).
Neðanmálsgrein: 46
    14 Ýmis vafamál tengjast skilgreiningu og notkun þessa hugtaks. Þannig er því oft haldið á lofti í ritum um þjóðarétt að allir þjóðréttarsamningar feli í sér skerðingu á fullveldi vegna þess að með samningi takmarki ríki í reynd, eðli málsins samkvæmt, svigrúm sitt til athafna. Þá er stundum sagt sem svo að frá pólitísku sjónarmiði séu ríki aldrei fullkomlega fullvalda, nema þau öflugustu (í efnahagslegum, pólitískum og hernaðarlegum skilningi). Á móti er því haldið fram að mörg markmið, sem telja má sammannleg og samþjóðleg, náist mun betur í samstarfi við aðra og á grundvelli samninga og þannig geti takmörkun fullveldis, ef svo ber undir, aukið pólitískan, efnahagslegan og hernaðarlegan styrk, sem aftur er brjóstvörn fullveldis. Dæmi um þetta er aðild Íslands að NATO. Ekki verða þessi viðhorf eða önnur álíka rædd frekar í þessari álitsgerð, en vissulega er hér um verðugt rannsóknarefni að ræða.
Neðanmálsgrein: 47
    15 Sjá þó inngang Vínarsamningsins um ræðissamband, sbr. lög um aðild Íslands að alþjóðasamningi um ræðissamband, nr. 4/1978. Þar segir að ríki þau sem eru aðilar að samningnum minni á að ræðissamband hafi frá fornu fari tíðkast milli þjóða, hafi í huga markmið og grundvallarreglur sáttmála Sameinuðu þjóðanna varðandi jafnræði fullvalda ríkja, o.s.frv.
Neðanmálsgrein: 48
    16 Þetta er m.a. gert í áliti nefndar utanríkisráðherra frá 1992. Sjá enn fremur Kristrúnu Heimisdóttur. Stjórnarskrárbundið fullveldi Íslands. Tímarit lögfræðinga 1. hefti 2003 (einkum bls. 37–44).
Neðanmálsgrein: 49
    17 Um hinar ýmsu hliðar fullveldishugtaksins sjá t.d. Antero Jyränki: Transferring Powers of a Nation- State to International Organisations: The Doctrine of Sovereignty Revisited. National Constitutions in the Era of Integration. London 1999, bls. 61–85 (61–63).
Neðanmálsgrein: 50
    18 Sjá t.d. Guðmund Hálfdánarson. Má raunar vísa til ritsins í heild.
Neðanmálsgrein: 51
    19 Sjá t.d. John Morrow: History of Political Thought. A Thematic Introduction. London 1998, bls. 30–31. Enn fremur J. M. Kelly: A short History of Western Legal Theory. Oxford 1992, bls. 175.
Neðanmálsgrein: 52
    20 John Dunn: Conclusion. Í ritinu Democracy. The Unfinished Journey 508 BC to AD 1993. 1992, bls. 247–248).
Neðanmálsgrein: 53
    21 Guðmundur Hálfdánarson: Íslenska þjóðríkið, uppruni og endimörk. Reykjavík 2001, bls. 228.
Neðanmálsgrein: 54
    22 Sjá um þetta t.d. Gauk Jörundsson: Um eignarnám. Reykjavík 1968, bls. 41–46; Ólaf Jóhannesson: Stjórnskipun Íslands. Reykjavík 1978, bls. 415–416; Gunnar G. Schram: Stjórnskipunarréttur. Reykjavík 1999, bls. 46–49 og Davíð Þór Björgvinsson: Lögskýringar. Reykjavík 1996, bls. 133–134.
Neðanmálsgrein: 55
    23 Sjá nánar um dómareifanir sem þetta varða, Davíð Þór Björgvinsson. Lögskýringar. Reykjavík 1996, bls. 139–142.
Neðanmálsgrein: 56
    24 Davíð Þór Björgvinsson: Beiting Hæstaréttar Íslands á lögunum um mannréttindasáttmála Evrópu. Tímarit lögfræðinga 1. hefti 2004, bls. 345–371.
Neðanmálsgrein: 57
    25 Sjá m.a. í þessu sambandi Ólaf Jóhannesson. Stjórnskipun Íslands 1978, bls. 415. Þar er rakin sú skoðun að vald dómstóla til að kveða á um stjórnskipulegt gildi laga kunni að vera takmarkaðra þegar um er að ræða löggjöf sem lýtur að innra skipulagi og starfsháttum handhafa ríkisvaldsins.
Neðanmálsgrein: 58
    26 Nefna mætti fjölmarga dóma Hæstaréttar sem reistir eru á svipuðum sjónarmiðum og hér voru rakin. Ágætt dæmi er dómur Hæstaréttar frá 6. apríl 2000 í máli ákæruvaldsins gegn Birni Kristjánssyni o.fl. þar sem m.a. var deilt um stjórnskipulegt gildi 7. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Í forsendum dómsins rekur Hæstiréttur aðdraganda laganna og þau sjónamið sem reglurnar um úthlutun aflaheimilda byggjast á. Þar kemur m.a. fram að þar sem grunnur fiskveiðistjórnunar sé ennþá sá sami hljóti að felast í því að löggjafinn meti þessa skipan svo að upphaflegu rökin að baki henni eigi enn við. Ýmis atriði önnur eru rakin. Síðan segir: „Að öllu þessu virtu er mat löggjafans reist á málefnalegum forsendum. Eru ekki efni til þess, að því mati verði haggað af dómstólum. …“ Þessi dómur er í anda hefðbundinna viðhorfa við túlkun ákvæða stjórnarskrárinnar þar sem byggt er á svigrúmi löggjafans til slíkrar túlkunar, enda sé það reist á málefnalegu mati. Erfitt er þó að afmarka hvenær mat löggjafans telst málefnalegt. Í því sambandi er bent á dóm Hæstaréttar frá 3. desember 1998 í máli Valdimars Jóhannssonar gegn íslenska ríkinu. Þar var 5. gr. sömu laga um úthlutun veiðileyfa ekki talin samræmast ákvæðum stjórnarskrárinnar um atvinnufrelsi og jafnræði þótt rökin að baki þeirri reglu hafi upphaflega að stórum hluta verið reist á sömu grunnsjónarmiðum og reglurnar um úthlutun aflaheimilda.
Neðanmálsgrein: 59
    27 Álit nefndar utanríkisráðherra, bls. 682–683.
Neðanmálsgrein: 60
    28 Sjá nánar 6., 7., 8. og 10. gr. dönsk-íslensku sambandslaganna frá 1918 og Ólaf Jóhannesson. Stjórnskipun Íslands 1978, bls. 42–43.
Neðanmálsgrein: 61
    29 Sjá hér Þór Vilhjálmsson og Ragnhildi Helgadóttur: Hæstiréttur og stjórnarskráin. Fyrri hluti. Úlfljótur 1. tbl. 1998, bls. 83–125, einkum bls. 85–88.
Neðanmálsgrein: 62
    30 Sjá hér t.d. H.1986,462 (þungaskattur), H.1986,1361 (búnaðarmálasjóðsgjald), H.1987,1018 (gengismunur), H.1996,2956 (Samherji) og H.1996,3002 (fullvirðisréttur). Í þessum dómum var ýmist talið að stjórnvöld hefðu farið út fyrir heimildir sínar eða eftir atvikum að lagaheimildir sem framsal var byggt á væru ekki nægilega skýrar og afmarkaðar.
Neðanmálsgrein: 63
    31 Sjá t.d. almennar athugasemdir í greinargerð með frumvarpi til laga um lagaskilareglur á sviði samningaréttar, lagt fram á 125. löggjafarþingi 1999–2000, þskj. 70, sbr. nú lög nr. 43/2000. Í þessum heimildum kemur enn fremur fram að á ýmsum sviðum eru lögfestar sérstakar lagaskilareglur. Jafnframt gera lög nr. 43/2000 ráð fyrir beitingu erlendra réttarreglna á sviði samningaréttar.
Neðanmálsgrein: 64
    32 Sjá nánar álit nefndar utanríkisráðherra, einkum bls. 685. Enn fremur Eiríkur Tómasson: Takmarkanir á úrskurðarvaldi dómenda skv. 60. gr. stjórnarskrárinnar. Úlfljótur 4. tbl. 1984, bls.183 o. áfr. og eftir sama höfund: „Embættistakmörk yfirvalda“ – Úrlausnir íslenskra dómstóla um valdmörk stjórnvalda. Afmælisrit. Gaukur Jörundsson sextugur. 24. september 1994, bls. 205 o. áfr. Enn fremur Davíð Þór Björgvinsson: Lagaákvæði á sviði sifjaréttar sem fela stjórnvaldi úrskurðarvald. Afmælisrit Gizurar Bergsteinssonar, Reykjavík 1992, bls. 179 o. áfr. Enn fremur Þór Vilhjálmsson og Ragnhildur Helgadóttir Hæstiréttur og stjórnarskráin. Fyrri hluti. Úlfljótur 1. tbl. 1998, bls. 83–125. Í þessum ritgerðum er vísað til fjölda dóma sem varða þetta álitaefni.
Neðanmálsgrein: 65
    33 Í 2. mgr. 30. laga nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, er m.a. byggt á þessu. Þar segir: „Einkaaðila verður þó ekki með samningi skv. 1. mgr. falið opinbert vald til að taka ákvarðanir um réttindi og skyldur manna nema sérstök heimild sé til þess í lögum. Séu slíkir samningar gerðir skulu ákvæði stjórnsýslulaga og upplýsingalaga, sem og almennar meginreglur stjórnsýsluréttar, gilda um þá stjórnsýslu sem verktaki tekur að sér að annast.“
Neðanmálsgrein: 66
    34 Jónatan Þórmundsson: Afbrot og refsiábyrgð I (1999), bls. 193–195 og Sigurður Líndal: Þjóðréttarreglur I (2003), bls. 17.
Neðanmálsgrein: 67
    35 Sjá einnig í þessu sambandi H.1939,231 (einkum bls. 235) þar sem ekki þótti fært að ganga út frá þeirri alþjóðareglu um óslitna eftirför að stöðvunarmerki yrði að gefa áður en eftirför hæfist.
Neðanmálsgrein: 68
    36 Alþt. A 1995—96 (þskj. 783), bls. 3777–3778.
Neðanmálsgrein: 69
    37 Sjá t.d. Jensen: The European Convention on Human Rights in Scandinavian Law (1992), bls. 74. Sbr. og einnig Helgesen: Teorier om folkerettens stilling i norsk rett (1982), bls. 53–54.
Neðanmálsgrein: 70
    38 Ármann Snævarr: Almenn lögfræði (1989), bls. 266.
Neðanmálsgrein: 71
    39 Þeir dómar sem hér var vitnað til voru kveðnir upp áður en mannréttindasáttmálinn var lögfestur hér á landi. Í greinargerð með frumvarpi til laga um hann eru raktar ítarlega tilvísanir til mannréttindasáttmálans í íslenskum hæstaréttardómum, sbr. Alþt. A 1992–1993 (þskj. 1160), bls. 5882 og áfram.
Neðanmálsgrein: 72
    40 Eiríkur Tómasson. Réttlát málsmeðferð fyrir dómi (1999), bls. 245.
Neðanmálsgrein: 73
    41 Sjá t.d. Sigurð Líndal: Þjóðréttarreglur I (2003), bls. 15–16.
Neðanmálsgrein: 74
    42 Fleiri dóma mætti nefna sem túlka má þannig að ólögfestum þjóðréttarreglum hafi verið beitt eins og um innlend lög væri að ræða: H.1931,59 (frá sama ári einnig bls. 82, 120, 199 og 202), H.1963,292; H.1995,486; H.1999,1709; H. 1998,516; H.1963,461 og H.2000,1534.
Neðanmálsgrein: 75
    43 Dæmi um þetta er H.1995,1444 (fulltrúadómurinn).
Neðanmálsgrein: 76
    44 Sjá enn fremur álit nefndar utanríkisráðherra þar sem fleiri dæmi eru rakin, sbr. einkum bls. 704–706.
Neðanmálsgrein: 77
    45 Ólafur Jóhannesson: Stjórnarskráin og þátttaka Íslands í alþjóðastofnunum. Tímarit lögfræðinga 1. hefti 1962, bls. 1–27.
Neðanmálsgrein: 78
    46 Sami, bls. 13.
Neðanmálsgrein: 79
    47 Sami, bls. 14–15.
Neðanmálsgrein: 80
    48 Í fyrirlestrinum fjallar Ólafur einnig um Efnahagsbandalag Evrópu og Rómarsamninginn. Telur hann augljóst að stjórnarskrárbreyting eða sérstök stjórnlagaheimild sé óhjákvæmileg ef Ísland ætlaði að gerast fullgildur aðili að Efnahagsbandalaginu. Sjá nánar bls. 16–20.
Neðanmálsgrein: 81
    49 Þetta sjónarmið kemur t.d. fram í nefndaráliti 3. minni hluta utanríkismálanefndar Alþingis í tengslum við frumvarp sem síðar varð að lögum nr. 2/1993, sbr. þskj. 470, lagt fram á 116. löggjafarþingi, sbr. Alþt. A 1992, bls. 3059–3082, sbr. t.d. bls. 3070.
Neðanmálsgrein: 82
    50 Sven Norberg o.fl. EEA Law (1993), bls. 204 og 206–207. Enn fremur Dóra Sif Tynes: Ys og þys út af engu (2002), einkum bls. 476–477.
Neðanmálsgrein: 83
    51 Til samanburðar hljóðar enskur texti hinnar stöku greinar bókunarinnar svo: „For cases of possible conflicts between implemented EEA rules and other statutory provisions, the EFTA States undertake to introduce, if necessary, a statutory provison to the effect that EEA rules prevail in these cases.“
Neðanmálsgrein: 84
    52 Alþt. A 1991–1992, bls. 5896.
Neðanmálsgrein: 85
    53 Hið sama gildir raunar um slíka dóma dómstóls Evrópubandalaganna, dómstóls Evrópubandalaganna á fyrsta dómstigi og EFTA-dómstólsins, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 110. gr. EES.
Neðanmálsgrein: 86
    54 Sjá nánar um hlutverk ESA: Norberg o.fl.: EEA-law (1993), bls. 700–708.
Neðanmálsgrein: 87
    55 Sjá nánar um þetta: Sigurjón Ingvason 1992, bls. 257–260. Sjá enn fremur Johs. Andenæs: Statsforfatningen i Norge. 8. útgáfa. Oslo 1998, bls. 261–262 og Antero Jyränki 1999, einkum bls. 73–76.
Neðanmálsgrein: 88
    56 St. prp. nr. 100. 1991 - 92, bls. 100 og 344.
Neðanmálsgrein: 89
    57 Johs. Andenæs 1998, bls. 258.
Neðanmálsgrein: 90
    58 Sjá nánar um þetta: Antero Jyränki 1999, bls. 63 o. áfr.
Neðanmálsgrein: 91
    59 Þessari ábendingu er m.a komið á framfæri í álitsgerð um Schengen-samstarfið, sbr. Stefán Má Stefánsson, Viðar Má Matthíasson og Davíð Þór Björgvinsson, bls. 148.
Neðanmálsgrein: 92
    60 Hér verður eingöngu getið meginatriða varðandi Schengen-samsstarfið. Um nánari fróðleik vísast til: Stefáns Más Stefánssonar: Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið (2000), bls. 293–316; Tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings sem ráð Evrópusambandsins og lýðveldið Ísland og konungsríkið Noregur gera með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna. Lögð fyrir Alþingi á 125. löggjafarþingi 1999–2000. Alþingistíðindi A 1999–2000 (þskj. 240); Högna Snjólfs Kristjánssonar: „Hvert fara landamæraverðirnir?“ Úlfljótur 2 1999, bls. 177–215.
Neðanmálsgrein: 93
    61 Sjá nánar um meginatriði samningsins Stefán Má Stefánsson: Evrópusambandið og evrópska efnahagssvæðið (2000), bls. 312–316.
Neðanmálsgrein: 94
    62 Þessi kafli er byggður á álitsgerðum þeim sem prentaðar voru sem fylgiskjöl með tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samnings sem ráð Evrópusambandsins og lýðveldið Ísland og konungsríkið Noregur gera með sér um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna. Alþingistíðindi A 1999–2000 (þskj. 240). (Álitsgerðirnar er að finna á bls. 1952–1983 og 1983–1994. Höfundar þeirra eru, eins og fyrr segir, Stefán Már Stefánsson, Viðar Már Matthíasson og Davíð Þór Björgvinsson.)
Neðanmálsgrein: 95
    63 Stefán Már Stefánsson: Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið, bls. 65.
Neðanmálsgrein: 96
    64 Sjá um þetta dr. Guðmund Alfreðsson, bls. 747–748. Enn fremur Sigurjón Ingvason 1992, bls. 252–253. Sá síðarnefndi segir að dæmi um framsal valds sem rakin eru í áliti fjórmenninganna varði atvik sem ekki falla undir íslenska lögsögu. „Íslensk stjórnvöld eru hins vegar samningsbundin til þess að fullnægja þessum ákvörðunum, gagnvart íslenskum þegnum sem með athöfnum sínum eða eftir öðrum atvikum hafa komist undir erlenda lögsögu. Eftirlitsstofnun EFTA getur hins vegar tekið ákvarðanir sem varða atvik sem gerast innan íslenskrar lögsögu, en hafa að vísu áhrif út fyrir hana. Eftirlitsstofnunin hefur vald og þvingunarúrræði til þess að framkvæma rannsókn innan íslenskrar lögsögu, en ekkert slíkt rannsóknarvald er framselt í Norðurlandasamningunum. Nefnd dæmi duga því ekki til þess að álykta að ákvæðin um eftirlitsstofnunina standist gagnvart stjórnarskrá.“