Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 72. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 1352  —  72. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum.

Frá minni hluta allsherjarnefndar.



    Frumvarp þetta var einnig lagt fram á síðasta þingi og þá sent út til umsagnar en fékk ekki afgreiðslu frá nefndinni.
    Umboðsmaður barna lýsti yfir stuðningi við frumvarpið í umsögn sinni og Barnaverndarstofa styður það eindregið. Þá fagnaði barnaverndarnefnd Reykjavíkur frumvarpinu og telur nauðsynlegt að afnema fyrningarfrest vegna kynferðisafbrota gegn börnum. Stjórn Barnaheilla fagnaði sömuleiðis frumvarpinu í sinni umsögn. Samtök um kvennaathvarf hvöttu til þess að það yrði samþykkt og Femínistafélag Íslands er sömu skoðunar. Mannréttindaskrifstofa Íslands segist í umsögn sinni telja að sterkar röksemdir séu fyrir samþykkt þessa frumvarps.

Víðtækur stuðningur fagaðila og almennings.
    Átakshópurinn Blátt áfram vinnur í samvinnu við Ungmennafélag Íslands að verkefni sem felst í að efla forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum á Íslandi. Á heimasíðu hópsins, www.blattafram.is, var almenningur hvattur til að senda áskorun til þingmanna þess efnis að þeir samþykktu frumvarpið. Skemmst er frá því að segja að um 15.000 manns skrifuðu undir slíka áskorun og voru undirskriftirnar afhentar nefndinni. Ungliðahreyfingar allra stjórnmálaflokka ályktuðu einnig til stuðnings frumvarpinu. Þing unga fólksins ályktaði sömuleiðis um að fara bæri þessa leið. Það er því ljóst að umrætt frumvarp nýtur víðtæks stuðnings, jafnt á meðal fagaðila og stjórnmálahreyfinga sem almennings.
    Minni hlutinn tekur undir þau grundvallarsjónarmið sem liggja að baki frumvarpinu, þ.e. að taka beri tillit til sérstöðu kynferðisafbrota gegn börnum. Eðli málsins samkvæmt koma þessi brot oft mjög seint fram í dagsljósið. Tölfræði frá Stígamótum sýnir að allt að helmingur þeirra þolenda sem þangað leita vegna kynferðisafbrota er eldri en 30 ára. Lagabreyting sem var gerð árið 1998 þar sem fyrningarfrestur var látinn byrja að líða við 14 ára aldur þolandans mætir því ekki þessum hópi. Öll kynferðisafbrot gegn börnum eru fyrnd við 29 ára aldur samkvæmt núgildandi lögum. Dómar sýna einnig að einstaklingar sem hafa verið fundnir sekir um kynferðisafbrot gegn börnum, jafnvel eftir játningu, sleppa ítrekað við refsingu vegna fyrningar.

Tillit til barna víða í löggjöfinni.
    Víða í löggjöfinni er tekið tillit til sérstöðu barna og telur minni hlutinn að svo beri einnig að gera í þessu tilviki. Alls staðar á Norðurlöndum, nema í Finnlandi, hafa verið teknar upp sérreglur er varða fyrningu kynferðisafbrota gegn börnum. Því yrði jafnvægi eða meginreglum almennra hegningarlaga ekki raskað með nokkru móti með samþykkt þessa frumvarps. Minni hlutinn telur hins vegar að taka verði aukið tillit til barna sem þolenda kynferðisbrota svo að unnt sé að tryggja börnum tilhlýðilega refsivernd að þessu leyti.

Nú þegar til ófyrnanleg brot.
    Minni hlutinn bendir einnig á að nú þegar má finna ófyrnanleg brot í íslenskri löggjöf. Má þar nefna landráð, sbr. 86. og 87. gr. almennra hegningarlaga, brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess, sbr. 98. og 100. gr., hryðjuverk, sbr. 100. gr. a, manndráp, sbr. 211. gr., mannrán, sbr. 226. gr., og ítrekuð rán, sbr. 255. gr. Því er ekki verið að brjóta meginreglu eða lagalega grundvallarreglu um að öll afbrot skuli fyrnast. Löggjafinn hefur nú þegar talið að tiltekin afbrot skuli ófyrnanleg. Hér er því um að ræða refsipólitískt hagsmunamat. Minni hlutinn telur að kynferðisafbrot gegn börnum séu þess eðlis að flokka eigi þau með öðrum ófyrnanlegum afbrotum. Hagsmunir barna liggja þar ekki síst til grundvallar, en núverandi fyrningarreglur eru þolendum mjög í óhag. Gerandi í slíkum málum á ekki að hagnast á þeim aðstöðumun sem er á honum og þolanda en það gerir hann óneitanlega nú. Minni hlutinn telur að með hliðsjón af þeim hagsmunum sem hér vegast á eigi hagsmunir barna ótvírætt að vega þyngra að þessu leyti en almennar röksemdir fyrir fyrningu.
    
Taki til kynferðisafbrota þar sem barn er snert í kynferðislegum tilgangi.
    Minni hlutinn telur rétt að afnema fyrningu í öllum kynferðisbrotum gegn börnum, sakir þess að hér er um sérlegan viðkvæman hóp brotaþola að ræða. Ekki er talið rétt að gera greinarmun á kynferðisafbrotum gegn börnum eftir verknaðaraðferð þegar kemur að fyrningarreglum. Kynferðisbrot gegn börnum eru í öllum tilvikum alvarleg og fela í sér gróft brot á þeim verndarhagsmunum sem um ræðir.
    Sömuleiðis hefur dómaframkvæmd leitt í ljós að gróf kynferðisafbrot gegn barni geta átt við þau ákvæði almennra hegningarlaga sem lögð er vægari refsing við og má þar nefna 2. mgr. 200. gr. og 2. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga um kynferðislega áreitni.
    Nýleg ákvæði um breytingu á 200.–202. gr. laganna frá árinu 1991 fjalla um kynferðislega áreitni sem ekki telst slík misnotkun á líkama að hún komi í stað hefðbundins samræðis eða hafi gildi sem slíkt, þ.e. „önnur kynferðismök“. Hugtakið önnur kynferðismök ber að skýra fremur þannig að átt sé við kynferðislega misnotkun á líkama annarrar manneskju, er kemur í stað hefðbundins samræðis eða hefur gildi sem slíkt. Þar er átt við athafnir sem veita eða eru almennt til þess fallnar að veita hinum brotlega kynferðislega fullnægingu. Með kynferðislegri áreitni er hins vegar átt við ýmiss konar káf, þukl og annars konar líkamlega snertingu og ljósmyndun af kynferðislegum toga. Í greinargerð með frumvarpinu frá árinu 1991 segir að rétt þyki að veita slíkri háttsemi meiri athygli en áður með þessu sérákvæði og taka harðar á brotum. Vilji löggjafans stóð því til þess að minnka þann greinarmun sem var gerður á samræði og annars konar kynferðislegri áreitni gegn barni.
    Ef kynferðisathafnir falla ekki undir neina af framangreindum verknaðarlýsingum, þ.e. samræði, önnur kynferðismök eða aðra kynferðislega áreitni, kann 209. gr. að eiga við um þær (brot gegn blygðunarsemi). Frumvarpið tekur ekki til 209. gr. almennra hegningarlaga. Af greinargerð má gera ráð fyrir að undir ákvæði 209. gr. falli háttsemi önnur en káf og þukl á líkama, t.d. gægjur á glugga, berháttun og önnur strípihneigð, og klúrt orðbragð í síma. Við samþykkt frumvarpsins mundu slík brot því eftir sem áður fyrnast. Minni hlutinn telur rétt að kynferðisbrot þar sem gerandi snertir barn með kynferðislegum hætti eða ljósmyndar það í kynferðislegum tilgangi, sbr. 200.–202. gr., skuli eftir sem áður aðgreinast frá þeirri háttsemi sem fellur undir ákvæði 209. gr. hegningarlaga með tilliti til fyrningar.

Sömu verndarhagsmunir að baki kynferðislegri áreitni og kynferðismökum.
    Af dómum má ráða að mörkin milli annarra kynferðismaka og kynferðislegrar áreitni eru oft óljós og verður engan veginn ætlað að á þessum brotum sé slíkur grundvallarmunur að réttlætanlegt sé að gera þar greinarmun með tilliti til fyrningar. Þannig hafa mismunandi dómar fallið í málum þar sem gerandi hefur gerst sekur um að sleikja kynfæri stúlkubarna. Sú háttsemi að sleikja kynfæri stúlkubarns utanverð hefur verið talin til kynferðislegrar áreitni en sú háttsemi að sleikja innanverð kynfæri stúlku hins vegar talin til annarra kynferðismaka. Telja verður þennan greinarmun óeðlilegan og afar óeðlilegt að aðskilja þessi brot með tilliti til fyrningar.
    Ljóst er því að afar erfitt er að setja skýr mörk milli svokallaðra vægra kynferðisbrota annars vegar og grófra hins vegar. Reyndin er sú að kynferðisbrot gegn börnum brjóta gegn sömu verndarhagsmunum og eru líkleg til að hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir þolanda, hvort sem um samræði, önnur kynferðismök eða kynferðislega áreitni er að ræða. Í öllum tilvikum snertir hinn brotlegi barn á kynferðislegan hátt.

Breytingartillögur meiri hlutans.
    Minni hlutinn telur breytingartillögur meiri hlutans ekki fullnægjandi og harmar að meiri hlutinn sé ekki reiðubúinn að viðurkenna sérstöðu kynferðisafbrota gegn börnum með því að gera þau ófyrnanleg.
    Ársskýrsla Stígamóta sýnir að þolendur kynferðisbrota leita sér hjálpar mjög seint á lífsleiðinni. Um 40% þeirra sem leituðu til Stígamóta á síðasta ári voru eldri en 30 ára og um fimmtungur eldri en 40 ára.
    Breytingartillögur meiri hlutans lúta að því að láta fyrningarfrestinn hefjast við 18 ára aldur í stað 14 ára aldurs. Það lengir fyrningarfrest kynferðisbrota því aðeins um 4 ár. Verði breytingartillögur meiri hlutans samþykktar munu því öll kynferðisafbrot gegn börnum vera fyrnd við 33 ára aldur og mörg þeirra mun fyrr. Þannig munu mörg alvarleg kynferðisbrot gegn börnum verða fyrnd þegar þolandinn hefur náð 23 ára aldri, en af upplýsingum úr ársskýrslu Stígamóta má ráða að fjölmargir þolendur leita sér hjálpar eftir þann aldur.
    Það er ljóst að breytingartillögur meiri hlutans munu ekki mæta þörfum stórs hóps þolenda. Enn munu margir þolendur ekki geta fengið dóm gegn gerendum sakir þess að brotin verða fyrnd þegar þeir leita réttar síns. Eftir sem áður munu dómstólar því sýkna gerendur í kynferðisbrotamálum gegn börnum, jafnvel þótt sekt þeirra sé talin sönnuð. Af þessum sökum telur minni hlutinn að ekki sé unnt að styðja breytingartillögur meiri hlutans, enda næst markmið frumvarpsins ekki með tillögum hans. Breytingartillögur meiri hlutans vinna ekki gegn þeim aðstöðumun sem er á þolanda og geranda kynferðisbrota. Tillögurnar ná ekki fram markmiði frumvarpsins, sem er að auka refsivernd barna sem verða fyrir kynferðisbrotum.
    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Kolbrún Halldórsdóttir, áheyrnarfulltrúi, er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 6. maí 2005.



Ágúst Ólafur Ágústsson,


frsm.


Bryndís Hlöðversdóttir.


Guðrún Ögmundsdóttir.