Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 777, 132. löggjafarþing 222. mál: höfundalög (EES-reglur).
Lög nr. 9 28. febrúar 2006.

Lög um breytingu á höfundalögum, nr. 73/1972, með síðari breytingum.


1. gr.

     Á undan 11. gr. laganna kemur ný grein, 10. gr. a, svohljóðandi:
     Einkaréttur höfundar skv. 3. gr., sbr. 2. gr., gildir ekki um gerð eintaka sem
  1. eru til skamms tíma eða tilfallandi,
  2. eru órjúfanlegur og mikilvægur liður í tækniferli,
  3. hafa þann tilgang einan að gera mögulega sendingu af hálfu milliliðar milli þriðju aðila um net eða löglega notkun á verki eða öðru efni og
  4. hafa enga sjálfstæða fjárhagslega þýðingu.

     Ákvæði 1. mgr. gilda ekki um tölvuforrit og gagnagrunna.

2. gr.

     1. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
     Heimilt er einstaklingum að gera eintök af birtu verki til einkanota eingöngu, enda sé það ekki gert í fjárhagslegum tilgangi. Ekki má nota slík eintök í neinu öðru skyni.

3. gr.

     12. gr. laganna orðast svo:
     Setja skal í reglugerð reglur um heimild skjalasafna, bókasafna, safna og menntastofnana til að gera eintök af verkum til notkunar í starfsemi sinni samkvæmt nánari skilgreiningu í reglugerðinni, enda sé það ekki gert í fjárhagslegum tilgangi. Ekki má án samþykkis höfundar lána slík eintök eða birta þau með öðrum hætti nema innan stofnunarinnar.

4. gr.

     Við 2. mgr. 14. gr. laganna bætist: enda sé ekki um fjárhagslegan tilgang að ræða.

5. gr.

     Við 1. málsl. 1. mgr. 17. gr. laganna bætist: enda sé ekki um fjárhagslegan tilgang að ræða.

6. gr.

     19. gr. laganna orðast svo:
     Heimil er eftirgerð og dreifing eintaka af verkum sem út hafa verið gefin þegar slík eintök eru sérstaklega ætluð til nota fyrir blinda, sjónskerta, heyrnarlausa, lestrarhamlaða eða aðra þá sem vegna fötlunar eru ófærir um að lesa prentað mál. Ákvæði þetta gildir ekki ef eftirgerðin eða dreifingin fer fram í fjárhagslegum tilgangi.
     Heimildin í 1. mgr. gildir ekki um eftirgerð hljóðupptöku og heimilar ekki dreifingu eintaka með útláni eða leigu til almennings.
     Sá sem eignast hefur eintak sem aðrir hafa gert samkvæmt heimildinni í 1. mgr. má gera sams konar eintök eftir því eintaki sem hann fékk, ef það er nauðsynlegt til þess að hann geti notað eintakið eftir tilgangi sínum, þar á meðal öryggisafrit. Slík eintök má ekki nota í öðrum tilgangi. Rétturinn til þess að nota þau fellur niður ef eintak sem fengið var samkvæmt heimild 1. mgr. er birt. Síðastgreint ákvæði gildir þó ekki ef opinberar stofnanir eða aðrar félagslegar stofnanir sem starfa í almannaþágu lána eða leigja slík eintök.
     Heimilt er með hljóðupptöku að gera eintök af bókmenntaverkum til þess að lána þau blindum, sjónskertum, lestrarhömluðum og öðrum sem ófærir eru um að lesa venjulegar bækur, enda séu eintökin ekki gerð í fjárhagslegum tilgangi. Höfundar eiga rétt á sanngjörnum bótum vegna slíkrar eintakagerðar.

7. gr.

     24. gr. laganna orðast svo:
     Nú hefur eintak af verki með samþykki höfundar verið selt eða með öðrum hætti framselt til annarra innan Evrópska efnahagssvæðisins, og er þá frekari dreifing þess heimil. Ef um er að ræða dreifingu í formi láns eða leigu verður ákvæði 1. málsl. einnig beitt um sölu eða annars konar framsal til annarra utan Evrópska efnahagssvæðisins.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er óheimilt að dreifa eintökum af verkum til almennings með því að leigja þau án þess að samþykki höfundar liggi fyrir. Þetta gildir þó ekki um byggingar og nytjalist.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er óheimilt án samþykkis höfundar að dreifa til almennings eintökum af kvikmyndaverkum og tölvuforritum í stafrænu formi með því að lána þau út. Þetta gildir þó ekki þegar eintak af tölvuforriti í stafrænu formi er hluti af bókmenntaverki og er lánað með því.
     Ákvæði 1. mgr. hefur ekki í för með sér skerðingu á rétti til úthlutunar samkvæmt lögum um Bókasafnssjóð höfunda.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 45. gr. laganna:
  1. Síðari málsliður 3. mgr. fellur brott.
  2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Sama rétt og listflytjandi samkvæmt þessari grein hefur flytjandi þjóðmenningarlegs efnis.


9. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 46. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „1. og 2. mgr. 24. gr.“ í fyrri málslið 2. mgr. kemur: 24. gr.
  2. Síðari málsliður 2. mgr. fellur brott.


10. gr.

     Við 1. mgr. 47. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Heimild til notkunar útgefins hljóðrits til flutnings í útvarpi eða annarrar opinberrar dreifingar listflutnings gildir ekki um þá miðlun hljóðrita sem í því felst að hljóðrit er gert aðgengilegt með þeim hætti að hver og einn geti fengið aðgang að því á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs.

11. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 48. gr. laganna:
  1. 4. tölul. 1. mgr. orðast svo: Eftirgerð á áður framkvæmdri upptöku útvarps hennar, sem og það að birta slíka upptöku.
  2. Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Réttur útvarpsstöðva skv. 1. mgr. gildir uns liðin eru 50 ár frá næstu áramótum eftir fyrstu útsendingu.


12. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 49. gr. laganna:
  1. Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Enn fremur er óheimilt að birta slíkar ljósmyndir án samþykkis rétthafa.
  2. Í stað orðanna „25 ár“ í lokamálslið 1. mgr. kemur: 50 ár.


13. gr.

     Á eftir V. kafla laganna kemur nýr kafli, V. kafli A, Tæknilegar ráðstafanir o.fl., með fjórum nýjum greinum, svohljóðandi:
     
     a. (50. gr. a.)
     Óheimilt er að eiga viðskipti með eða hafa undir höndum í fjárhagslegum tilgangi tæki eða gögn sem hafa þann tilgang einan að auðvelda með ólöglegum hætti að fjarlægja eða komast fram hjá tæknilegum búnaði ætluðum til þess að koma í veg fyrir ólögmæta eftirgerð tölvuforrits.
     
     b. (50. gr. b.)
     Óheimilt er án samþykkis rétthafa að sniðganga tæknilegar ráðstafanir, sbr. 4. mgr.
     Óheimilt er að framleiða, flytja inn, dreifa, selja, leigja, auglýsa til sölu eða leigu eða eiga í viðskiptalegum tilgangi búnað, vörur eða íhluti sem
  1. eru kynnt eða auglýst sem leið til að komast fram hjá tæknilegum ráðstöfunum,
  2. hafa aðeins takmarkað fjárhagslegt gildi eða notkunarmöguleika nema sem leið til að komast fram hjá tæknilegum ráðstöfunum eða
  3. eru fyrst og fremst hönnuð, framleidd, aðlöguð eða veitt í því skyni að gera kleift eða auðvelda að komast fram hjá tæknilegum ráðstöfunum.

     Ákvæði 2. mgr. gildir einnig um þjónustu.
     Með tæknilegum ráðstöfunum í 1. og 2. mgr. er átt við hvers konar skilvirkar tæknilegar ráðstafanir sem samkvæmt eðlilegri notkun eru ætlaðar til þess að vernda verk og annað efni verndað með lögum þessum.
     Ákvæði 1.–4. mgr. gilda ekki um vernd tölvuforrita.
     Ákvæði 1.–4. mgr. eru því ekki til fyrirstöðu að gerðar séu rannsóknir á dulritun.
     
     c. (50. gr. c.)
     Úrskurðarnefnd skv. 57. gr. getur samkvæmt kröfu notanda gert rétthafa, sem gripið hefur til skilvirkra tæknilegra ráðstafana skv. 1. mgr. 50. gr. b, að veita notanda aðgang að þeim úrræðum sem nauðsynleg eru til þess að hann geti nýtt sér ákvæðin í 12. gr., 2. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 17. gr., að því er kennslu varðar, 1. tölul. 1. mgr. 21. gr., 1. og 2. mgr. 22. gr., 22. gr. a og 5. mgr. 23. gr. Hafi rétthafi ekki farið að fyrirmælunum innan fjögurra vikna frá ákvörðun nefndarinnar er notanda rétt, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 50. gr. b, að sniðganga hinar tæknilegu ráðstafanir. Ákvæðum þessarar málsgreinar verður aðeins beitt um þá notendur sem eiga löglegan aðgang að viðkomandi verki eða efni.
     Ákvæði 1. mgr. verður því aðeins beitt að rétthafi hafi ekki sjálfviljugur gert ráðstafanir, til að mynda samninga við aðra hlutaðeigandi aðila, sem tryggja að notandinn geti nýtt sér hin tilvitnuðu ákvæði í 1. mgr. hvað sem líður beitingu skilvirkra tæknilegra ráðstafana.
     Ákvæði 1. mgr. verður ekki beitt um verk og annað efni sem á grundvelli samnings er gert almenningi aðgengilegt á þann hátt að hver og einn geti haft aðgang að því á þeim stað og á þeirri stundu sem hann sjálfur kýs.
     
     d. (50. gr. d.)
     Óheimilt er án samþykkis rétthafa að
  1. fjarlægja eða breyta rafrænum upplýsingum um réttindaumsýslu eða
  2. dreifa eintökum, flytja inn í því skyni að dreifa eintökum eða miðla til almennings verkum og öðru efni þar sem rafrænar upplýsingar um réttindaumsýslu hafa verið fjarlægðar eða þeim breytt án samþykkis rétthafa.

     Ákvæði 1. mgr. verður því aðeins beitt að sá sem að gerningi stóð hafi vitað eða mátt vita að með gerningnum komi hann til leiðar, geri kleift, auðveldi eða leyni broti gegn rétti til verks eða annars efnis sem verndar nýtur samkvæmt lögum þessum.

14. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 54. gr. laganna:
  1. Á eftir orðunum „1. mgr. 50. gr.“ í 5. tölul. 2. mgr. kemur: 50. gr. a, 50. gr. b, 50. gr. d.
  2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr., sbr. 4. og 5. tölul. 2. mgr. 11. gr. og 1. mgr. 50. gr. b, varðar eftirtalin eintakagerð einstaklinga til einkanota ekki refsingu:
    1. eintakagerð eftir einstöku eintaki verndaðs tölvuforrits eða eintaki véllæsilegs gagnagrunns sem hefur verið gefinn út, seldur eða varanlega látinn af hendi með samþykki höfundar eða framleiðanda,
    2. eintakagerð sem fram fer andstætt 1. mgr. 50. gr. b.



15. gr.

     Í stað orðsins „fimm“ í 1. málsl. 58. gr. laganna kemur: sjö.

16. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 60. gr. laganna:
  1. 1. tölul. 1. mgr. orðast svo: Verka manna sem eru ríkisborgarar eða búsettir í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins.
  2. 2. tölul. 1. mgr. fellur brott.
  3. 1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Ákvæði 25. gr. b taka til verka manna sem eru ríkisborgarar eða búsettir í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins.


17. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 61. gr. laganna:
  1. 1. tölul. 1. mgr. orðast svo: Listflutnings manna sem eru ríkisborgarar eða búsettir í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins.
  2. 1. málsl. 2. tölul. 1. mgr. orðast svo: Listflutnings annarra erlendra ríkisborgara og ríkisfangslausra manna sem hér segir.
  3. 2. mgr. orðast svo:
  4.      Ákvæði 46. gr. taka til myndrita og hljóðrita hvar og af hverjum sem þau hafa verið framleidd, en réttur til endurgjalds skv. 3. og 4. mgr. 11. gr. fylgir aðeins upptökum sem gerðar hafa verið í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins eða í öðrum ríkjum sem veita íslenskum upptökum sams konar rétt.
  5. 3. mgr. orðast svo:
  6.      Ákvæði 47. gr. taka til:
    1. Hjóðritaðs listflutnings manna sem eru ríkisborgarar eða búsettir í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins.
    2. Hljóðrita, svo og listflutnings þess er þau hafa að geyma, ef framleiðandi hljóðrits er ríkisborgari eða aðili búsettur í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins.

  7. Í stað orðanna „hér á landi“ í 1. og 2. tölul. 4. mgr. kemur: í landi innan Evrópska efnahagssvæðisins.


18. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Með lögum þessum eru leidd í lög ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Frumvarp til endurskoðunar á ákvæðum b- og c-liðar 13. gr. laga þessara (50. gr. b og 50. gr. c laganna) skal lagt fyrir Alþingi eigi síðar en á löggjafarþinginu 2006–2007.

Samþykkt á Alþingi 15. febrúar 2006.