Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 2. máls.


Þskj. 2  —  2. mál.











Þjóðhagsáætlun

fyrir árið 2007.

(Lögð fram af forsætisráðherra 2. október 2006.)




























Forsætisráðuneytið.

Inngangur.
    Megináherslur ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum eru að tryggja jafnvægi og stöðugleika og skapa þannig skilyrði til aukinnar samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs, enn frekari hagvaxtar og aukins kaupmáttar almennings. Traust staða ríkisfjármála gegnir hér lykilhlutverki og skapar í senn svigrúm til lækkunar skulda ríkisins og lækkunar skatta heimila og fyrirtækja.
    Víðtækar skipulagsbreytingar sem stjórnvöld hafa gripið til á undanförnum 10–15 árum hafa leitt þessa þróun. Þar má nefna mikla lækkun skatta á heimili og fyrirtæki, innleiðingu frelsis í fjármálaviðskiptum milli Íslands og annarra landa og einkavæðingu ríkisfyrirtækja, ekki síst fjármálastofnana og Símans. Þessar breytingar samfara vaxandi alþjóðavæðingu leystu úr læðingi mikla athafnasemi og sköpunarkraft hjá þjóðinni sem leitt hefur til almennrar hagsældar og skilað allt að 60% kaupmáttaraukningu til heimilanna. Þessar staðreyndir endurspeglast í miklum hagvexti, nægri atvinnu og auknum atvinnutækifærum og uppbyggingu víða um land.

Helstu niðurstöður þjóðhagsspár.
    Eins og fram kemur í forsendum fjárlagafrumvarps fyrir árið 2007 er áfram gert ráð fyrir talsverðum hagvexti á árinu 2006, eða 4,2%. Þetta er þó minni hagvöxtur en næstu tvö ár á undan sem var á bilinu 7–8% hvort ár. Skýringin er bæði fólgin í minni aukningu fjárfestingar vegna stóriðjuframkvæmda og sömuleiðis hefur hægt verulega á aukningu einkaneyslu heimilanna. Gert er ráð fyrir framhaldi á þessari þróun árið 2007 en þá er spáð samdrætti í bæði fjárfestingu og einkaneyslu. Áfram er þó reiknað með nokkrum hagvexti þótt hann verði mun minni en að undanförnu, eða 1%, en það stafar bæði af því að útflutningur áls eykst umtalsvert og innflutningur dregst verulega saman.
    Mikill hagvöxtur undanfarin ár hefur óhjákvæmilega haft í för með sér vaxandi viðskiptahalla. Gert er ráð fyrir að hallinn nái hámarki á þessu ári og verði þá rúmlega 200 milljarðar kr., eða sem nemur tæplega 19% af landsframleiðslu. Skýringin er að stærstum hluta stórfelldur innflutningur vegna stóriðjuframkvæmdanna. Auk þess hefur innflutningur neysluvöru aukist verulega sem að hluta má rekja til áhrifa þessara framkvæmda en einnig til mikilla umsvifa á íbúðamarkaði. Á næsta ári er hins vegar spáð nær helmings lækkun viðskiptahalla þegar stóriðjuframkvæmdunum lýkur vegna samdráttar í fjárfestingu og einkaneyslu og aukins álútflutnings.
    Gert er ráð fyrir að hagvöxtur taki við sér á ný á árinu 2008 og verði þá um 2 1/ 2%. Framreiknuð spá gerir ráð fyrir allt að 3% árlegum hagvexti á tímabilinu 2009–2012. Jafnframt er því spáð að viðskiptahallinn minnki hratt og verði nálægt langtímajafnvægi á árunum 2008–2012, um 2 1/ 2% af landsframleiðslu.

Hagvöxtur og viðskiptajöfnuður.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Uppsveiflan í efnahagslífinu og þær miklu breytingar sem hafa orðið á íbúðalánamarkaði hafa leitt til mikillar hækkunar fasteignaverðs. Hækkun fasteignaverðs og snörp hækkun olíuverðs hafa lengst af verið meginskýringar aukinnar verðbólgu frá síðari hluta árs 2004. Á móti vó hins vegar að nokkru styrking krónunnar og lækkandi innflutningsverð allt fram á þetta ár. Þessar aðstæður gjörbreyttust á fyrstu mánuðum ársins þegar gengi krónunnar lækkaði mjög ört, eða um 20%, í kjölfar neikvæðrar umfjöllunar erlendra greiningardeilda um íslenskt efnahagslíf og almennrar ókyrrðar á alþjóðafjármálamörkuðum. Við þetta tók verðbólgan mikinn kipp og fór hæst upp í 8 1/ 2% síðla sumars. Á næstu mánuðum er búist við að verðbólgan hjaðni á nýjan leik og gætir þar m.a. áhrifa kólnandi fasteignamarkaðar, lækkunar olíuverðs og styrkingar gengis að undanförnu. Í forsendum fjárlagafrumvarps er reiknað með að 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans náist á seinni hluta árs 2007 og að verðhækkunin frá upphafi til loka árs verði rétt rúmlega 2%. Langtímaspáin gerir síðan ráð fyrir að verðbólgan verði innan 2,5% verðbólgumarkmiðs Seðlabankans allt tímabilið 2008–2012.

Vísitala neysluverðs og gengisvísitala.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Samhliða auknum umsvifum í efnahagslífinu hefur dregið hratt úr atvinnuleysi en það er nú með því lægsta sem mælst hefur, eða 1,3%. Þetta gerist þrátt fyrir mikla fjölgun erlendra starfsmanna á undanförnum árum, úr 3.400 árið 1998 í 9.000 árið 2005, eða sem svarar til 5,5% af fjölda starfandi. Reiknað er með að heldur dragi úr eftirspurn á vinnumarkaði á næsta ári og að atvinnuleysi verði þá liðlega 2% og haldist nálægt því út spátímabilið til 2012.

Kaupmáttur ráðstöfunartekna.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna hefur aukist verulega undanfarin ár. Hér gætir einkum áhrifa þriggja þátta, þ.e. almennrar hækkunar launa, skattalækkunar og hækkunar barnabóta. Kaupmátturinn jókst um tæplega 5% árið 2005 og spáð er tæplega 6% aukningu í ár og tæplega 4% næsta ár. Frá og með árinu 1995 og til loka þessa árs er talið að kaupmáttaraukningin hafi numið tæplega 60%. Slík þróun er einsdæmi meðal vestrænna þjóða.
    Eitt helsta einkenni hagstjórnar hér á landi að undanförnu er traust staða ríkisfjármála. Þetta kemur hvað skýrast fram á árinu 2005 en þá nam tekjuafgangur ríkissjóðs, að frátöldum tekjum af sölu Símans, 54 milljörðum kr. eða 5,4% af landsframleiðslu, og hefur aldrei verið meiri. Þessi þróun heldur áfram á yfirstandandi ári og er nú reiknað með ívið minni afgangi eða sem nemi 49 milljörðum kr. Þetta er mun betri afkoma en fjárlög gerðu ráð fyrir sem endurspeglar mikil efnahagsleg umsvif og góða fjárhagslega afkomu heimila og fyrirtækja, sem skilar ríkissjóði miklum tekjum, og áframhaldandi mikið aðhald í ríkisfjármálum. Aðhaldsstig ríkisfjármála sést enn betur þegar leiðrétt hefur verið fyrir hagsveiflunni eins og fram kemur á meðfylgjandi línuriti.

Afkoma ríkissjóðs, % af VLF.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Góð afkoma ríkissjóðs og mikill afgangur ár eftir ár hefur gefið færi á því að greiða skuldir ríkissjóðs mjög hratt niður eins og fram kemur á meðfylgjandi línuriti. Þar sést að hrein skuldastaða ríkisins hefur batnað jafnt og þétt síðasta áratug og er nú áætluð nema aðeins 4 1/ 2% af landsframleiðslu í lok þessa árs. Ef tekið er tillit til mikillar inneignar ríkissjóðs á reikningum sínum í Seðlabanka er staðan jafnvel enn betri. Sama staða er upp á teningnum hvað varðar skuldastöðu hins opinbera, þ.e. ríkis og sveitarfélaga. Þar er hrein skuldastaða áætluð rétt um 9% af landsframleiðslu í lok þessa árs. Til samanburðar má nefna að hreinar skuldir OECD-landanna og evrusvæðisins eru að meðaltali á bilinu 45–55% af landsframleiðslu. Þessi staða endurspeglar þá styrku og aðhaldssömu stjórn ríkisfjármála sem hér hefur verið fylgt á undanförnum árum.

Hrein skuldastaða hins opinbera, % af VLF.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.