Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 444, 135. löggjafarþing 92. mál: skipan ferðamála (viðurlög o.fl.).
Lög nr. 142 19. desember 2007.

Lög um breytingu á lögum nr. 73/2005, um skipan ferðamála.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
  1. A-liður 1. tölul. orðast svo: Skipulagningu ferða hópa og einstaklinga, innan lands og erlendis.
  2. D-liður 1. tölul. orðast svo: Dagsferðir sem fela í sér ýmiss konar afþreyingu og frístundaiðju, svo sem hestaferðir, vélsleðaferðir, fljótasiglingar og ævintýraferðir með sérútbúnum ökutækjum.


2. gr.

     2. mgr. 8. gr. laganna orðast svo:
     Ferðamálastofa skal eiga myndrænt auðkenni sem leyfishafi skal nota í hvers kyns auglýsingum um starfsemi sína og á heimasíðu sinni. Í sérstökum tilvikum er Ferðamálastofu heimilt að veita undanþágu frá ákvæði þessu og skal leyfishafi sækja um slíka undanþágu til Ferðamálastofu.

3. gr.

     Í stað orðanna „30. apríl“ í 3. mgr. 18. gr. laganna kemur: 1. október.

4. gr.

     Í stað orðsins „verður“ í 1. mgr. 21. gr. laganna kemur: er úrskurðaður.

5. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 26. gr. laganna:
  1. 1. mgr. orðast svo:
  2.      Hver sá sem rekur leyfisskylda eða skráningarskylda starfsemi án tilskilins leyfis eða skráningar skal sæta sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Gildir þetta jafnt um þá sem reka starfsemi án leyfis og þegar starfsemi samræmist ekki útgefnu leyfi eða skráningu. Heimilt er jafnframt í tilefni brota að beita úrræði 3. mgr. um lokun starfsstöðvar þar sem brot er framið.
  3. 3. mgr. orðast svo:
  4.      Ef leyfis- og skráningarskyld starfsemi samkvæmt lögum þessum er rekin án tilskilins leyfis eða skráningar ber lögreglustjóra, að beiðni Ferðamálastofu og án fyrirvara eða aðvörunar, að stöðva starfsemina, þar á meðal með lokun starfsstöðvar og lokun heimasíðu. Á það við um eftirfarandi tilvik:
    1. Þegar ekki hefur verið gefið út leyfi vegna leyfisskyldrar starfsemi eða skráningarskyld starfsemi ekki skráð, leyfi hefur verið lagt inn, það afturkallað eða leyfishafi sviptur því.
    2. Þegar leyfis- og skráningarskyld starfsemi fer út fyrir mörk útgefins leyfis eða skráningar.6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 10. desember 2007.