Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 360. máls.

Þskj. 611  —  360. mál.Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 71/2008, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)
    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 71/2008, frá 6. júní 2008, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1315/2007 um öryggiseftirlit með rekstrarstjórnun flugumferðar og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2096/2005.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 71/2008, frá 6. júní 2008, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1315/2007 um öryggiseftirlit með rekstrarstjórnun flugumferðar og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2096/2005.
    Reglugerð EB nr. 1315/2007, frá 8. nóvember 2007, um eftirlit með flugleiðsöguþjónustu fjallar um eftirlitsskyldur þess aðila sem tilnefndur hefur verið samkvæmt reglugerð EB nr. 2096/2005 til eftirlits með starfsleyfishöfum á sviði flugleiðsöguþjónustu. Reglugerð EB nr. 2096/2005 er innleidd í íslenskan rétt með reglugerð um starfsleyfi flugleiðsöguþjónustu, nr. 631/2008. Tilnefndur aðili sem annast eftirlit af Íslands hálfu er Flugmálastjórn Íslands.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur slíkur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að leita ber eftir samþykki Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt með viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Vegna þess hve langt er um liðið síðan ákvörðunin var tekin og að nægjanleg lagastoð fyrir innleiðingu gerðarinnar er aðeins að takmörkuðu leyti fyrir hendi þykir rétt að leggja málið fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu til staðfestingar ákvörðuninni.

3. Efni gerðarinnar.
    Skilgreint er í reglugerðinni umfang eftirlits gagnvart flugleiðsögu, auk flæðisstýringar flugumferðar ATFM (Air Traffic Flow Management) og loftrýmisstjórnunar ASM (Air Space Management). Í núgildandi lögum um loftferðir, nr. 60/1998, er umfang eftirlits takmarkað við flugleiðsögu eingöngu (sjá 57. gr. a). Í reglugerðinni er nánar fjallað um eftirlit með starfsleyfishöfum flugleiðsöguþjónustu, fyrirkomulag og mögulegt framsal úttekta (ekki heimilt samkvæmt núgildandi lögum hér), verklag varðandi frávik í úttektum og leiðréttingu þeirra og eftirfylgni auk eftirlits með breytingu á starfsemi leyfisskyldra aðila og endurskoðun/samþykki á verklagi vegna breytinga á þjónustu starfsleyfishafa o.fl. Því er ljóst að nægjanleg lagastoð fyrir innleiðingu gerðarinnar er aðeins að takmörkuðu leyti fyrir hendi. Nauðsynlegt þótti því að gera fyrirvara skv. 103. gr. EES-samningsins fyrir innleiðingu gerðarinnar.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftferðir, sjá þskj. 243 – 196. mál. Í 6. gr. frumvarpsins, sem tiltekur breytingar á 57. gr. a í núgildandi lögum, er umfang eftirlits útvíkkað til rekstrarstjórnunar flugumferðar sem tekur til flæðisstýringar, loftrýmisstjórnunar og flugumferðarþjónustu auk flugleiðsöguþjónustu.
    Sérstaklega er í 11. gr. reglugerðarinnar fjallað um getu eftirlitsaðila (Flugmálastjórnar Íslands) til að sinna þeim verkefnum sem þeim eru falin í samræmi við núgildandi reglugerð um starfsleyfi flugleiðsöguþjónustu og þessa reglugerð. Er m.a. gert ráð fyrir skýrslugerð annað hvert ár um mannaflaþörf, fjármagn og hæfni starfsfólks. Reglugerðin gerir enn fremur ráð fyrir að eftirlitsaðili gefi út sérstaka tilskipun um öryggi („safety directive“) þegar hann hefur ákvarðað að fyrir hendi sé eitthvað sem stofni öryggi í hættu og krefjist aðgerða án tafar. Nánar er mælt fyrir um tilkynningu slíkrar ákvörðunar út á við, gildistöku og efni slíkrar „safety directive“. Í reglugerðinni eru lagðar frekari skyldur varðandi skýrslugerð vegna eftirlitsins, varðveislu úttektarskjala og verklagsreglna auk annarra skjala er varða eftirlit þess.
    Reglugerðin snertir fyrst og fremst starfsemi Flugstoða ohf. sem er tilnefndur aðili samkvæmt reglugerð nr. 631/2008, um starfsleyfi flugleiðsöguþjónustu, til veitingar þjónustu á sviði rekstarstjórnunar flugumferðar og starfsemi Flugmálastjórnar Íslands sem eftirlitsaðila. Áhrif breytinganna eru fyrst og fremst þau að eftirlitshlutverk stofnunarinnar er aukið til muna og kemur til með að taka til þessara nýju þátta, þ.e. flæðisstýringar og loftrýmisstjórnunar. Eiginleg flæðisstýring er lítil á því flugupplýsinga- og flugstjórnarsvæði sem Flugstoðir ohf. annast flugleiðsöguþjónustu á. Loftrýmisstjórnun er veitt af Flugstoðum ohf. Eftirlit með flugleiðsöguþjónustu er enn fremur ný af nálinni, þar eð það hófst aðeins hér á landi stuttu fyrir uppskiptingu Flugmálastjórnar Íslands og stofnun hins nýja opinbera hlutafélags Flugstoða ohf. þann 1. janúar 2007.


Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 71/2008

frá 6. júní 2008

um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir „samningurinn“, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        XIII. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 52/2008 frá 25. apríl 2008 ( 1 ).

2)        Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 549/2004 frá 10. mars 2004 um setningu rammaákvæða um að koma á sameiginlegu, evrópsku flugumferðarsvæði ( 2 ), reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 550/2004 frá 10. mars 2004 um að veita þjónustu á sviði flugleiðsögu á sameiginlega, evrópska flugumferðarsvæðinu ( 3 ), reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 551/2004 frá 10. mars 2004 um skipulag og notkun loftrýmis á sameiginlega, evrópska flugumferðarsvæðinu ( 4 ) og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 552/2004 frá 10. mars 2004 um rekstrarsamhæfi evrópska flugumferðarstjórnarkerfisins ( 5 ) voru felldar inn í samninginn samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 67/2006 frá 2. júní 2006 ( 6 ) ásamt sértækum aðlögunarákvæðum fyrir tiltekin lönd.

3)        Fella ber inn í samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1315/2007 frá 8. nóvember 2007 um öryggiseftirlit með rekstrarstjórnun flugumferðar og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2096/2005 ( 7 ).

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


XIII. viðauki við samninginn breytist sem hér segir:

1.        Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 66y (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2150/2005):

        „66ya.         32007 R 1315: Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1315/2007 frá 8. nóvember 2007 um öryggiseftirlit með rekstrarstjórnun flugumferðar og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2096/2005 (Stjtíð. ESB L 291, 9.11.2007, bls. 16).“

2.         Eftirfarandi bætist við í lið 66x (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2096/2005):

        „eins og henni var breytt með:

        –         32007 R 1315: Reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1315/2007 frá 8. nóvember 2007 (Stjtíð. ESB L 291, 9.11.2007, bls. 16).“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti reglugerðar (EB) nr. 1315/2007, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi 7. júní 2008 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.


Fylgiskjal II.


REGLUGERÐ FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR (EB) nr. 1315/2007
frá 8. nóvember 2007
um öryggiseftirlit með rekstrarstjórnun flugumferðar og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2096/2005
(Texti sem varðar EES)


FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUBANDALAGANNA HEFUR,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins,
með hliðsjón af reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 550/2004 frá 10. mars 2004 um að veita þjónustu á sviði flugleiðsögu í samevrópska loftrýminu (þjónustureglugerðin) ( 1 ) einkum 4. gr.,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Samkvæmt reglugerð (EB) nr. 550/2004 ber framkvæmdastjórninni að tilgreina og samþykkja viðeigandi ákvæði reglufestra öryggiskrafna Evrópustofnunar um öryggi flugleiðsögu (ESARR), með tilliti til gildandi löggjafar Bandalagsins. Í reglufestum öryggiskröfum Evrópustofnunar um öryggi flugleiðsögu nr. 1 (ESARR 1) er að finna safn reglufestra öryggiskrafna að því er varðar framkvæmd öryggiseftirlits með rekstrarstjórnun flugumferðar (ATM).
2)          Hlutverk og starfsemi innlendra eftirlitsyfirvalda hafa verið ákvörðuð með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 549/2004 frá 10. mars 2004 um setningu rammaákvæða um að koma á samevrópsku loftrými (rammareglugerðin) ( 2 ), reglugerð (EB) nr. 550/2004, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 552/2004 frá 10. mars 2004 um rekstrarsamhæfi evrópska netsins fyrir rekstrarstjórnun flugumferðar (rekstrarsamhæfisreglugerðin) ( 3 ) og reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2096/2005 frá 20. desember 2005 um sameiginlegar kröfur vegna veitingar þjónustu á sviði flugleiðsögu ( 4 ). Þessar reglugerðir fela í sér kröfur um öryggi í flugleiðsöguþjónustu. Þó svo að þjónustuveitendur beri ábyrgð á því að þjónustan sé veitt á öruggan hátt skulu aðildarríkin tryggja skilvirkt eftirlit fyrir milligöngu innlendra eftirlitsyfirvalda.
3)          Þessi reglugerð skal ekki taka til hernaðaraðgerða og herþjálfunarflugs, eins og um getur í 2. mgr. 1. gr. reglugerðar (EB) nr. 549/2004.
4)          Innlend eftirlitsyfirvöld skulu annast reglufestar öryggisúttektir og mat í samræmi við þessa reglugerð sem hluta af tilskildum skoðunum og könnunum, sem krafist er samkvæmt reglugerð (EB) nr. 550/2004.
5)          Innlend eftirlitsyfirvöld skulu íhuga að nota aðferðina við öryggiseftirlit, sem kveðið er á um í þessari reglugerð, á öðrum sviðum eftirlits til að þróa skilvirkt og heildstætt eftirlit.
6)          Í samræmi við lið 2.26 í 11. viðauka við samninginn um alþjóðlegt almenningsflug er þess krafist samkvæmt öryggiskröfum Evrópustofnunar um öryggi flugleiðsögu nr. 1 (ESARR 1) að viðhaft sé eftirlit og mat á því öryggisstigi sem náðst hefur í samanburði við ásættanleg öryggisstig, sem ákvörðuð eru fyrir tiltekin loftrýmisumdæmi. Þessi ásættanlegu öryggisstig hafa þó ekki enn verið ákvörðuð endanlega á vettvangi Bandalagsins og því skulu þau tekin til umfjöllunar síðar í þessari reglugerð.
7)          Starfræn kerfi til að stjórna flugumferð eru notuð við alla flugleiðsöguþjónustu, sem og flæðisstýringu flugumferðar og stjórnun loftrýma. Því skulu hvers kyns breytingar á starfrænu kerfunum háðar öryggiseftirliti.
8)          Ef kerfi eða kerfishluti uppfyllir ekki viðeigandi kröfur skulu innlend eftirlitsyfirvöld grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana í samræmi við 7. gr. reglugerðar (EB) 552/2004. Í þessu samhengi og einkum þegar nauðsynlegt er að gefa út tilskipun um öryggi skal innlenda eftirlitsyfirvaldið íhuga að gefa tilkynntu aðilunum, sem tengjast útgáfu EB-samræmisyfirlýsingar, fyrirmæli um að framkvæma sérstaka rannsókn á tæknilega kerfinu sem um ræðir.
9)          Innlendum eftirlitsyfirvöldum skal veittur nægur tími til að búa sig undir öryggiseftirlit með breytingum, einkum að því er varðar ákvörðun markmiða og staðla. Ákvörðunin skal byggjast á viðeigandi Bandalagsforskriftum og öðru leiðbeinandi efni.
10)          Árleg skýrsla innlendra eftirlitsyfirvalda um öryggiseftirlit ætti að stuðla að gagnsæi og áreiðanleika öryggiseftirlitsins. Skýrslurnar skulu sendar til þess aðildarríkis sem tilnefnir umrætt yfirvald eða kemur því á fót. Þær skulu enn fremur notaðar í tengslum við svæðisbundna samvinnu og alþjóðlega vöktun með öryggiseftirlitinu. Í skýrslu um aðgerðirnar skulu vera viðeigandi upplýsingar um vöktun öryggisframmistöðu, hvort farið sé að gildandi, reglufestum öryggiskröfum í þeim stofnunum eða fyrirtækjum sem eru undir eftirliti, áætlun fyrir reglufestar öryggisúttektir, mat á öryggisrökum, breytingar á starfrænum kerfum sem stofnanir eða fyrirtæki hafa tekið í notkun í samræmi við aðferðir sem yfirvaldið hefur samþykkt og þær tilskipanir um öryggi sem innlend eftirlitsyfirvöld hafa gefið út.
11)          Í samræmi við 4. mgr. 2. gr. reglugerðar (EB) nr. 550/2004 skulu innlend eftirlitsyfirvöld gera viðeigandi ráðstafanir til að koma á nánu samstarfi sín á milli til að tryggja fullnægjandi eftirlit með veitendum flugleiðsöguþjónustu í tengslum við loftrými sem er á ábyrgð annars aðildarríkis en þess sem gaf út starfsleyfið. Yfirvöld skulu einkum skiptast á viðeigandi upplýsingum sem tengjast öryggiseftirliti með stofnunum eða fyrirtækjum.
12)          Breyta skal reglugerð (EB) nr. 2096/2005 til samræmis við þetta til að tryggja samræmi við framkvæmd samevrópska loftrýmisins.
13)          Ráðstafanirnar, sem kveðið er á um í þessari reglugerð, eru í samræmi við álit nefndarinnar um samevrópskt loftrými.
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:

1. gr.
Efni og gildissvið

1.     Með þessari reglugerð er komið á öryggiseftirliti að því er varðar flugleiðsöguþjónustu, flæðisstýringu flugumferðar (ATFM) og stjórnun loftrýma (ASM) fyrir almenna flugumferð með því að skilgreina og samþykkja viðeigandi lögboðin ákvæði reglufestra öryggiskrafna Evrópustofnunar um öryggi flugleiðsögu um öryggiseftirlit með rekstrarstjórnun flugumferðar nr. 1 (ESARR 1) sem gefið var út 5. nóvember 2004.
2.     Þessi reglugerð gildir um starfsemi innlendra eftirlitsyfirvalda og viðurkenndra stofnana eða fyrirtækja, sem koma fram fyrir þeirra hönd, í tengslum við öryggiseftirlit með flugleiðsöguþjónustu, flæðisstýringu flugumferðar og stjórnun loftrýma.

2. gr.
Skilgreiningar

Í þessari reglugerð gilda skilgreiningarnar sem ákvarðaðar voru með reglugerð (EB) nr. 549/2004.
Eftirfarandi skilgreiningar skulu jafnframt gilda:
     1.      „aðgerð til úrbóta“: aðgerð til að uppræta orsök ósamræmis sem greinist,
     2.      „starfrænt kerfi“: sambland af kerfum, verklagi og mannauði sem er skipulagt til að annast verkefni í tengslum við rekstrarstjórnun flugumferðar,
     3.      „stofnun eða fyrirtæki“: annaðhvort veitandi flugleiðsöguþjónustu eða rekstrareining sem annast flæðisstýringu flugumferðar eða stjórnun loftrýma,
     4.      „ferli“: aðgerðir, sem eru innbyrðis tengdar eða samverkandi og breyta ílagi í frálag,
     5.      „öryggisrök“: sönnun fyrir því að unnt sé að framkvæma fyrirhugaða breytingu á starfrænu kerfi í samræmi við markmið eða staðla, sem fastsettir eru með gildandi regluramma í samræmi við reglufestar öryggiskröfur,
     6.      „tilskipun um öryggi“: skjal, sem innlend eftirlitsyfirvöld gefa út eða samþykkja, þar sem kveðið er á um aðgerðir, sem framkvæma þarf á starfrænu kerfi, til að endurheimta öryggi þegar sönnunargögn sýna að flugöryggi gæti annars verið stofnað í hættu,
     7.      „öryggismarkmið“: eigindleg eða megindleg yfirlýsing þar sem skilgreind er hámarkstíðni eða -líkur á því að hætta geti átt sér stað,
     8.      „reglufest öryggisúttekt“: kerfisbundin og sjálfstæð rannsókn, sem framkvæmd er af innlendu eftirlitsyfirvaldi, eða fyrir hönd þess, til að skera úr um hvort öryggistengdar ráðstafanir, eða þættir þeirra, sem tengjast ferlum og útkomu þeirra ásamt vörum eða þjónustu séu í samræmi við öryggistengdar ráðstafanir og hvort þær séu framkvæmdar með skilvirkum hætti og henti til að ná tilætluðum árangri,
     9.      „reglufestar öryggiskröfur“: þær kröfur sem ákvarðaðar eru samkvæmt reglum Bandalagsins eða innlendum reglum fyrir veitingu þjónustu á sviði flugleiðsögu eða starfsemi á sviði flæðisstýringar flugumferðar og stjórnunar loftrýma að því er varðar tæknilega og rekstrarlega hæfni og getu til að veita þessa þjónustu og starfsemi, öryggisstjórnun þeirra, sem og kerfi, kerfishlutar þeirra og tilheyrandi verklagsreglur,
     10.      „öryggiskrafa“: leið til að draga úr áhættu, skilgreind út frá aðferðum til að draga úr áhættu sem uppfylla tiltekið öryggismarkmið, þ.m.t. kröfur varðandi skipulag, rekstur, verklag, virkni, árangur og rekstrarsamhæfi eða umhverfiseiginleika,
     11.      „sannprófun“: staðfesting sem felst í því að leggja fram hlutlæg sönnunargögn þess eðlis að tilteknar kröfur hafi verið uppfylltar.

3. gr.
Öryggiseftirlit

1.     Innlend eftirlitsyfirvöld skulu nota öryggiseftirlit sem hluta af eftirliti með þeim kröfum sem gilda um flugleiðsöguþjónustu sem og flæðisstýringu flugumferðar og stjórnun loftrýma til að fylgjast með því að þjónustan sé veitt á öruggan hátt og til að sannreyna að farið sé að gildandi, reglufestum öryggiskröfum og tilhögun framkvæmdar þeirra.
2.     Þegar gerður er samningur um eftirlit með stofnunum eða fyrirtækjum, sem eru virk í starfrænum loftrýmisumdæmum og ná yfir tiltekið loftrými, sem er á ábyrgð fleiri en eins aðildarríkis, skulu hlutaðeigandi aðildarríki ákvarða og úthluta ábyrgð á öryggiseftirliti á þann hátt að það tryggi:
a)     að skýrt komi fram hver ber ábyrgð á framkvæmd sérhvers ákvæðis þessarar reglugerðar,
b)    að aðildarríkin hafi yfirsýn yfir fyrirkomulag öryggiseftirlitsins og niðurstöður þar að lútandi.
Aðildarríkin skulu reglulega yfirfara samninginn og verklega framkvæmd hans, einkum í ljósi öryggisframmistöðu sem náðst hefur.

4. gr.
Eftirlit með öryggisframmistöðu

1.     Innlend eftirlitsyfirvöld skulu reglulega hafa eftirlit með og meta öryggisstigið, sem náðst hefur, til þess að ákvarða hvort það sé í samræmi við þær reglufestu öryggiskröfur sem gilda um loftrýmisumdæmin sem eru á þeirra ábyrgð.
2.     Innlend eftirlitsyfirvöld skulu einkum nota niðurstöðurnar úr eftirliti með öryggisframmistöðu til að ákvarða á hvaða sviðum þurfi fyrst og fremst að fá staðfestingu á því að reglufestar öryggiskröfur séu uppfylltar.

5. gr.
Sannprófun á því að farið sé að reglufestum öryggiskröfum

1.     Innlend eftirlitsyfirvöld skulu ákvarða ferli til að sannprófa:
a)     að farið sé að gildandi reglufestum öryggiskröfum áður en starfsleyfi, sem er nauðsynlegt til að veita flugleiðsöguþjónustu, er gefið út eða endurnýjað, þ.m.t. öryggistengd skilyrði sem fylgja því,
b)    að farið sé að hvers konar öryggistengdum skilyrðum í gerð um tilnefningu sem er gefin út í samræmi við 8. gr. reglugerðar (EB) nr. 550/2004,
c)    að stofnanirnar eða fyrirtækin haldi áfram að fara að gildandi reglufestum öryggiskröfum,
d)    að framkvæmd séu öryggismarkmið, öryggiskröfur og önnur öryggistengd skilyrði sem greint er frá:
    i.    í EB-yfirlýsingu um sannprófun á kerfum, þ.m.t. sérhver viðeigandi EB-yfirlýsing um samræmi eða nothæfi kerfishluta,
    ii.    í áhættumati og ráðstöfunum til að draga úr áhættu sem krafist er samkvæmt þeim reglufestum öryggiskröfum sem gilda um flugleiðsöguþjónustu, flæðisstýringu flugumferðar og stjórnun loftrýmis,
e)    að tilskipanir um öryggi séu framkvæmdar.
2.     Ferlið, sem um getur í 1. mgr., skal:
a)    byggjast á skjalfestum verklagsreglum,
b)    stutt gögnum sem eiga sérstaklega að leiðbeina starfsfólki, sem starfar við öryggiseftirlit, varðandi það hvernig það eigi að sinna störfum sínum,
c)    veita stofnuninni eða fyrirtækinu upplýsingar um niðurstöður úr öryggiseftirlitinu,
d)    byggjast á reglufestum öryggisúttektum og mati, sem fer fram í samræmi við 6., 8. og 9. gr.,
e)    veita innlendum eftirlitsyfirvöldum þær upplýsingar sem þarf til að styðja frekari aðgerðir, þ.m.t. fyrirhugaðar ráðstafanir skv. 9. gr. reglugerðar (EB) nr. 549/2004 og 7. mgr. 7. gr. reglugerðar (EB) nr. 550/2004 við aðstæður þar sem ekki er farið að reglufestum öryggiskröfum.

6. gr.
Reglufestar öryggisúttektir

1.     Innlend eftirlitsyfirvöld, eða viðurkenndar stofnanir eða fyrirtæki fyrir þeirra hönd, skulu framkvæma reglufestar öryggisúttektir.
2.     Reglufestar öryggisúttektir, sem um getur í 1. mgr., skulu:
a)    veita innlendum eftirlitsyfirvöldum sönnun þess efnis að farið sé að gildandi, reglufestum öryggiskröfum og tilhögun framkvæmdar með því að meta þörfina á endurbótum eða aðgerðum til úrbóta,
b)    vera óháð innri úttekt sem hlutaðeigandi stofnun eða fyrirtæki framkvæmir sem hluta af öryggis- eða gæðastjórnunarkerfi sínu,
c)    framkvæmdar af úttektarmönnum sem hafa réttindi og hæfi í samræmi við kröfur í 11. gr.,
d)    gilda um tilhögun framkvæmdar, eða þætti hennar, og um ferli, vörur eða þjónustu,
e)    ákvarða hvort:
    i.    tilhögun framkvæmdar sé í samræmi við reglufestar öryggiskröfur,
    ii.    aðgerðir, sem gripið er til, séu í samræmi við tilhögun framkvæmdar,
    iii.    niðurstöður aðgerða, sem gripið er til, séu í samræmi við niðurstöðurnar, sem vænta má af tilhögun framkvæmdar,
f)    leiða til leiðréttingar á hvers kyns ósamræmi, sem í ljós kemur, í samræmi við 7. gr.
3.     Innlend eftirlitsyfirvöld skulu koma á áætlun um reglufestar öryggisúttektir og uppfæra hana a.m.k. árlega, innan ramma skoðunaráætlunarinnar, sem um getur í 7. gr. reglugerðar (EB) nr. 2096/2005, til þess:
a)    að ná til allra sviða þar sem öryggisvandi er mögulega til staðar, með áherslu á þau svið þar sem vandamál hafa komið í ljós,
b)    að ná til allra stofnana eða fyrirtækja eða þjónustu sem starfrækt er undir umsjón innlendra eftirlitsyfirvalda,
c)    að tryggja að úttektir séu framkvæmdar þannig að þær séu í réttu hlutfalli við áhættustigið sem starfsemi stofnananna eða fyrirtækjanna felur í sér,
d)    að sjá til þess að tilskilinn fjöldi úttekta sé framkvæmdur á tveggja ára tímabili til að kanna hvort allar þessar stofnanir eða fyrirtæki fari að gildandi, reglufestum öryggiskröfum á öllum viðeigandi sviðum starfræna kerfisins,
e)    að sjá til þess að framkvæmd aðgerða til úrbóta sé fylgt eftir.
4.     Innlend eftirlitsyfirvöld geta ákveðið að breyta gildissviði fyrirframáætlaðra úttekta og að bæta við úttektum, þegar þörf er á.
5.     Innlend eftirlitsyfirvöld skulu ákveða þá tilhögun, þætti, þjónustu, vörur, staði og aðgerðir sem gera skal úttekt á innan tiltekins tímaramma.
6.     Skrá skal athugasemdir um úttektir og ósamræmi sem greinist. Hið síðarnefnda skal stutt með gögnum og tilgreina skal við hvaða gildandi, reglufestar öryggiskröfur og tilhögun framkvæmdar stuðst var við er úttektin var framkvæmd.
Gera skal úttektarskýrslu sem felur í sér frekari upplýsingar um ósamræmið.

7. gr.
Aðgerðir til úrbóta

1.     Innlendu eftirlitsyfirvöldin skulu senda þeirri stofnun eða því fyrirtæki, þar sem úttektin var gerð, niðurstöður hennar og fara á sama tíma fram á það að gerðar verði aðgerðir til úrbóta til að leiðrétta ósamræmið sem kom í ljós án þess að það hafi áhrif á hvers kyns aðrar aðgerðir sem krafist er í gildandi, reglufestum öryggiskröfum.
2.     Stofnunin eða fyrirtækið, þar sem úttektin var gerð, skal ákvarða hvaða aðgerðir til úrbóta teljast nauðsynlegar til þess að leiðrétta ósamræmið auk tímarammans fyrir framkvæmd þeirra.
3.     Ef niðurstaða matsins er sú að aðgerðir til úrbóta nægi til að lagfæra ósamræmi skal innlenda eftirlitsyfirvaldið meta aðgerðir til úrbóta og framkvæmd þeirra, sem ákveðin er af þeirri stofnun eða því fyrirtæki, þar sem úttektin var gerð, og samþykkja þær.
4.     Stofnunin eða fyrirtækið, þar sem úttektin var gerð, skal hrinda í framkvæmd þeim aðgerðum til úrbóta sem innlendu eftirlitsyfirvöldin hafa samþykkt. Þessum aðgerðum til úrbóta og ferli við síðari eftirfylgni skal lokið innan þess tímabils sem innlendu eftirlitsyfirvöldin hafa samþykkt.

8. gr.
Öryggiseftirlit með breytingum á starfrænum kerfum

1.     Þegar stofnanir eða fyrirtæki ákveða hvort þau eigi að gera öryggistengda breytingu á starfrænum kerfum sínum skulu þau aðeins nota verklagsreglur sem innlend eftirlitsyfirvöld hafa samþykkt. Að því er varðar veitendur flugleiðsöguþjónustu, fjarskiptaþjónustu, leiðsöguþjónustu og kögunarþjónustu skulu innlend eftirlitsyfirvöld samþykkja þessar verklagsreglur innan ramma reglugerðar (EB) nr. 2096/2005.
2.     Stofnanir eða fyrirtæki skulu tilkynna innlendu eftirlitsyfirvaldi sínu um allar fyrirhugaðar öryggistengdar breytingar. Innlend eftirlitsyfirvöld skulu því ákvarða viðeigandi stjórnsýslumeðferð í samræmi við landslög.
3.     Stofnunum eða fyrirtækjum er heimilt að framkvæma tilkynntu breytinguna eftir þeim verklagsreglum, sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar, nema 9. gr. eigi við.

9. gr.
Verklag við mat á fyrirhuguðum breytingum

1.     Innlend eftirlitsyfirvöld skulu meta öryggisrökin, sem tengjast nýju starfrænu kerfunum eða breytingum á núverandi starfrænum kerfum, sem stofnun eða fyrirtæki leggur til, þegar:
a)    alvarleikamat, sem fer fram í samræmi við lið 3.2.4 í II. viðauka í reglugerð (EB) nr. 2096/ 2005, leiðir í ljós að möguleg áhrif hættunnar, sem greindist, sé í alvarleikaflokki 1 eða 2 eða
b)    framkvæmd breytinganna krefst þess að nýir flugmálastaðlar verði teknir upp.
Þegar innlenda eftirlitsyfirvaldið hefur ákvarðað þörfina á mati við aðrar aðstæður en þær, sem um getur í a- og b-lið, skal það tilkynna stofnuninni eða fyrirtækinu að það muni framkvæma öryggismat á tilkynntu breytingunni.
2.     Framkvæma skal matið á þann hátt að það sé í réttu hlutfalli við þá áhættu sem nýja starfræna kerfið eða breytingin á starfrænum kerfum þeim sem fyrir eru felur í sér.
Í því samhengi skal:
a)    notast við skjalfestar verklagsreglur,
b)    styðjast við gögn sem eiga sérstaklega að leiðbeina starfsfólki, sem starfar við öryggiseftirlit, varðandi það hvernig það eigi að sinna störfum sínum,
c)    huga að öryggismarkmiðum, öryggiskröfum og öðrum öryggistengdum skilyrðum sem tengjast viðkomandi breytingu, sem er að finna:
    i.    í EB-yfirlýsingum um sannprófun kerfa,
    ii.    í EB-samræmisyfirlýsingum eða yfirlýsingum um nothæfi kerfishluta eða
    iii.    í gögnum um áhættumat og ráðstafanir til að draga úr áhættu, sem unnin eru í samræmi við gildandi, reglufestar öryggiskröfur,
d)    tilgreina, ef þörf er á, frekari öryggistengd skilyrði sem tengjast framkvæmd breytingarinnar,
e)    meta að hvaða marki öryggisrökin, sem lögð eru fram, eru tæk, að teknu tilliti til:
    i.    hættugreiningar,
    ii.    samkvæmni skiptingar í alvarleikaflokka,
    iii.    gildis öryggismarkmiðanna,
    iv.    gildis, skilvirkni og hagkvæmni öryggiskrafnanna og annarra öryggistengdra skilyrða, sem tilgreind eru,
    v.    sönnunar á því að öryggismarkmiðin, öryggiskröfurnar og önnur öryggistengd skilyrði séu uppfyllt að staðaldri,
    vi.    sönnunar á því að ferlið, sem notað er til að setja fram öryggisrökin, uppfylli gildandi, reglufestar öryggiskröfur,
f)    sannreyna ferlin sem stofnanirnar eða fyrirtækin nota til að setja fram öryggisrökin í tengslum við nýja starfræna kerfið eða fyrirhugaðar breytingar á núverandi starfrænum kerfum,
g)    tilgreina hvort þörf sé á sannprófun þess efnis að enn sé farið að kröfunum,
h)    bæta við hvers kyns nauðsynlegu samræmingarstarfi yfirvalda, sem bera ábyrgð á öryggiseftirliti með lofthæfi og flugrekstri,
i)    senda út tilkynningu um samþykki á fyrirhugaðri breytingu ásamt skilyrðum, þar sem við á, eða að breytingin sé ekki samþykkt ásamt rökstuddum ástæðum þar að lútandi.
3.     Aðeins má framkvæma fyrirhugaða breytingu, sem verið er að meta, með samþykki innlendra eftirlitsyfirvalda.

10. gr.
Viðurkenndar stofnanir eða fyrirtæki

1.     Ákveði innlent eftirlitsyfirvald að fela viðurkenndri stofnun eða fyrirtæki framkvæmd reglufestra öryggisúttekta eða mats í samræmi við 2. mgr. 9. gr. skal það tryggja að viðmiðanirnar, sem notaðar eru til að velja stofnun eða fyrirtæki meðal þeirra sem eru viðurkennd í samræmi við 3. gr. reglugerðar (EB) nr. 550/2004, feli í sér eftirfarandi:
a)     að viðurkennda stofnunin eða fyrirtækið hafi reynslu af því að meta öryggi flugrekstrareininga,
b)     að viðurkennda stofnunin eða fyrirtækið taki ekki á sama tíma þátt í innri starfsemi öryggis- eða gæðastjórnunarkerfa hlutaðeigandi stofnunar eða fyrirtækis,
c)    að starfsfólk, sem kemur að framkvæmd reglufestra öryggisúttekta eða mats, hafi tilskilda þjálfun og réttindi og hæfi og uppfylli kröfurnar um réttindi og hæfi, sem kveðið er á um í 3. mgr. 11. gr. í þessari reglugerð.
2.     Viðurkennda stofnunin eða fyrirtækið skal fallast á að innlenda eftirlitsyfirvaldið eða aðili, sem starfar fyrir hönd þess, geti gert úttekt á því.
3.     Innlend eftirlitsyfirvöld skulu halda skrá yfir viðurkenndar stofnanir eða fyrirtæki, sem hafa fengið það verkefni að framkvæma reglufestar öryggisúttektir eða mat fyrir þeirrahönd. Í skránni skal það koma fram að farið sé að kröfunum í 1. mgr.

11. gr.
Geta til öryggiseftirlits

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að innlend eftirlitsyfirvöld hafi nauðsynlega getu til að tryggja öryggiseftirlit með öllum stofnunum og fyrirtækjum sem starfa undir þeirra eftirliti, þ.m.t. nægileg tilföng til að framkvæma þær aðgerðir sem tilgreindar eru í þessari reglugerð.
2.     Annað hvert ár skulu innlend eftirlitsyfirvöld leggja fram og uppfæra mat á þeim mannauði sem þarf til að framkvæma öryggiseftirlit þeirra á grundvelli greiningar á þeim ferlum sem krafist er í þessari reglugerð og notkun þeirra.
3.     Innlend eftirlitsyfirvöld skulu sjá til þess að allir, sem koma að starfsemi á sviði öryggiseftirlits, séu hæfir til að annasttilskilið verkefni. Í því samhengi skulu þau:
a)     skilgreina og skrá hvaða menntun, þjálfun, tæknilega og rekstrarlega kunnáttu, reynslu og réttindi og hæfi þurfi til að sinna þeim verkefnum sem hvert starf á sviði öryggiseftirlits innan stofnunarinnar eða fyrirtækisins felur í sér,
b)    sjá til þess að þeir aðilar sem tengjast starfsemi á sviði öryggiseftirlits innan stofnunarinnar eða fyrirtækisins hljóti sérstaka þjálfun,
c)     sjá til þess að starfsfólk, sem er tilnefnt til að framkvæma reglufestar öryggisúttektir, þ.m.t. úttektarmenn frá viðurkenndum stofnunum eða fyrirtækjum, uppfylli sérstakar kröfur um réttindi og hæfi sem innlenda eftirlitsyfirvaldið skilgreinir. Kröfurnar skulu taka til:
    i.    þekkingar og skilnings á þeim kröfum sem tengjast flugleiðsöguþjónustu, flæðisstýringu flugumferðar og stjórnun loftrýma, sem stuðst er við þegar reglufestar öryggisúttektir eru framkvæmdar,
    ii.    notkunar matsaðferða,
    iii.    þeirrar færni sem þarf til að stjórna úttekt,
    iv.    sönnunar á því að úttektarmenn séu hæfir, með mati eða öðrum viðurkenndum aðferðum.

12. gr.
Tilskipanir um öryggi

1.     Innlent eftirlitsyfirvald skal gefa út tilskipun um öryggi þegar það hefur komist að raun um ótryggt ástand í starfrænu kerfi sem krefst tafarlausra aðgerða.
2.     Tilskipun um öryggi skal send áfram til hlutaðeigandi stofnana eða fyrirtækja og skal hún innihalda a.m.k. eftirfarandi upplýsingar:
a)    lýsingu á ótrygga ástandinu,
b)    upplýsingar um hvaða starfræna kerfi er að ræða,
c)    aðgerðir sem krafist er og rökstuðningur þeirra,
d)    hver fresturinn er til að fara að aðgerðunum sem fram koma í tilskipuninni um öryggi,
e)    gildistökudaginn.
3.     Innlenda eftirlitsyfirvaldið skal senda öðrum hlutaðeigandi innlendum eftirlitsyfirvöldum afrit af tilskipuninni um öryggi, einkum þeim sem tengjast öryggiseftirliti með starfræna kerfinu og framkvæmdastjórninni, Flugöryggisstofnun Evrópu (EASA) og Evrópustofnun um öryggi flugleiðsögu (Eurocontrol), eftir því sem við á.
4.     Innlenda eftirlitsyfirvaldið skal sannprófa að farið sé að gildandi tilskipunum um öryggi.

13. gr.
Skrár um öryggiseftirlit

Innlend eftirlitsyfirvöld skulu halda viðeigandi skrár sem tengjast ferlunum við öryggiseftirlit þeirra og viðhalda aðgengi að þeim, þ.m.t. skýrslur um allar reglufestar öryggisúttektir og aðrar öryggistengdar skýrslur sem tengjast starfsleyfum, tilnefningum, öryggiseftirliti með breytingum, tilskipunum um öryggi og notkun á viðurkenndum stofnunum eða fyrirtækjum.

14. gr.
Skýrslugjöf um öryggiseftirlit

1. Innlenda eftirlitsyfirvaldið skal semja árlega skýrslu um öryggiseftirlit með þeim aðgerðum sem gripið er til samkvæmt þessari reglugerð. Skýrslan skal einnig innihalda upplýsingar um eftirfarandi:
a)    stjórnskipulag og verklagsreglur innlenda eftirlitsyfirvaldsins,
b)    loftrýmið sem er á ábyrgð aðildarríkjanna, sem tilnefndu innlenda eftirlitsyfirvaldið eða komu því á fót, eða stofnanir eða fyrirtæki, sem innlenda eftirlitsyfirvaldið hefur eftirlit með,
c)    viðurkenndar stofnanir eða fyrirtæki, sem hafa fengið það verkefni að framkvæma reglufestar öryggisúttektir,
d)    þau úrræði sem eru fyrir hendi og yfirvaldið hefur,
e)    hvers kyns öryggisvandamál sem greinast við öryggiseftirlitsferli innlenda eftirlitsyfirvaldsins.
2.     Þegar aðildarríkin semja ársskýrslur fyrir framkvæmdastjórnina, sem krafist er skv. 12. gr. reglugerðar (EB) nr. 549/2004, skulu þau nota þær skýrslur sem innlendu eftirlitsyfirvöldin hafa samið.
3.     Hlutaðeigandi aðildarríki skulu hafa aðgang að árlegri skýrslu um öryggiseftirlit að því er varðar starfræn loftrýmisumdæmi og jafnframt skal hún vera aðgengileg í þágu áætlana eða starfsemi, sem fer fram samkvæmt viðurkenndu, alþjóðlegu fyrirkomulagi um eftirlit með eða úttekt á framkvæmd öryggiseftirlits hjá flugleiðsöguþjónustu, flæðisstýringu flugumferðar og stjórnun loftrýma.

15. gr.
Upplýsingaskipti milli innlendra eftirlitsyfirvalda

Innlend eftirlitsyfirvöld skulu gera ráðstafanir til að koma á nánu samstarfi sín á milli í samræmi við 4. mgr. 2. gr. reglugerðar (EB) nr. 550/2004 og skiptast á öllum viðeigandi upplýsingum til að tryggja öryggiseftirlit með öllum stofnunum eða fyrirtækjum sem veita þjónustu eða sinna störfum yfir landamæri.

16. gr.
Breyting á reglugerð (EB) nr. 2096/2005

Ákvæði 3. mgr. 5. gr. reglugerðar (EB) nr. 2096/ 2005 falli brott.

17. gr.
Bráðabirgðaákvæði

Aðildarríkjunum er heimilt að fresta framkvæmd 3. mgr. 9. gr. til 1. nóvember 2008. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.

18. gr.
Gildistaka

Reglugerð þessi öðlast gildi daginn eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Brussel 8. nóvember 2007.

Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,
Jacques BARROT
varaforseti.


Neðanmálsgrein: 1
(1)    tjtíð. ESB L 223, 21.8.2008, bls. 50, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 52, 21.8.2008, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    jtíð. ESB L 96, 31.3.2004, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. ESB L 96, 31.3.2004, bls. 10.
Neðanmálsgrein: 4
(4)    Stjtíð. ESB L 96, 31.3.2004, bls. 20.
Neðanmálsgrein: 5
(5)    Stjtíð. ESB L 96, 31.3.2004, bls. 26.
Neðanmálsgrein: 6
(6)    Stjtíð. ESB L 245, 7.9.2006, bls. 18, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 44, 7.9.2006, bls. 15.
Neðanmálsgrein: 7
(7)    Stjtíð. ESB L 291, 9.11.2007, bls. 16.
Neðanmálsgrein: 8
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 9
(1)    Stjtíð. ESB L 96, 31.3.2004, bls. 10.
Neðanmálsgrein: 10
(2)    Stjtíð. ESB L 96, 31.3.2004, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 11
(3)    Stjtíð. ESB L 96, 31.3.2004, bls. 26.
Neðanmálsgrein: 12
(4)    Stjtíð. ESB L 335, 21.12.2005, bls. 13.