Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 257. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 490  —  257. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um umhverfis- og auðlindaskatta.

Frá 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar.



    Með frumvarpinu er lagt til að innheimtir verði tvenns konar nýir skattar: kolefnisgjald, sem skattur á fljótandi jarðefnaeldsneyti, og auðlindagjald, sem skattur á söluverð raforku og heits vatns. Kolefnisgjaldinu er ætlað að sporna við koldíoxíðmengun (CO 2-mengun) sem veldur hlýnun jarðar samkvæmt gróðurhúsakenningunni en auðlindaskattinum er ætlað að gefa ríkissjóði tekjur af orkuauðlindum landsins.
    Í I. kafla frumvarpsins er kveðið á um að svokallað kolefnisgjald skuli vera föst krónutala á hvern lítra en mismunandi eftir tegund eldsneytis, þ.e. eftir því hvort um er að ræða bensín, dísilolíu, flugvéla- og þotueldsneyti eða brennsluolíu. Ekki er fjallað um grunnmarkmið frumvarpsins, sem er að skattleggja og takmarka þannig brennslu kolefnisatómsins sem myndar CO 2, t.d. með því að bera saman hversu mikilli koldíoxíðmengun hver lítri mismunandi eldsneytis veldur. Þá er ekki lagður skattur á kol, viðarkol, gas eða önnur brennanleg kolefnissambönd.
    Rétt er að fram komi að ekki er knýjandi nauðsyn á þessum skatti nú þegar efnahagsástandið á Íslandi er jafn slæmt og raun ber vitni. Skatturinn eykur útgjöld heimila og fyrirtækja og dregur þannig úr eftirspurn í hagkerfinu og seinkar efnahagsbatanum. Þá verður að hafa í huga að orkunotkun hér á landi byggist á endurnýjanlegum orkugjöfum að mestu leyti, um 80%, en í öðrum löndum er þessu öfugt farið. Ábyrgð Íslands á meintu vandamáli er því langt því frá jafnmikil hlutfallslega og annarra ríkja.
    Í II. kafla frumvarpsins er lagt til að lagður verði skattur á sölu á raforku og heitu vatni. Skal hann nema 0,12 kr. á hverja kílóvattstund af seldri raforku og 2,0% af smásöluverði á heitu vatni. Með frumvarpi þessu er í fyrsta skipti lagt til að teknir verði upp skattar á auðlindir landsins ef frá er talið veiðileyfagjaldið. Þó tekur frumvarpið þessar auðlindir nokkuð mismunandi tökum þar sem skattlagning á heitt vatn er í öfugu hlutfalli við verðmæti auðlindarinnar. Þær hitaveitur sem eru hvað arðbærastar selja heita vatnið á mjög lágu verði og borga því minnst en þær hitaveitur eru skattlagðar hátt sem eru með dýrt aðgengi að auðlindinni eða ef hún er ekki mjög gjöful, t.d. vegna lágs hitastigs. Miklu nær hefði verið að skattleggja heita vatnið við borholu eða lind og því meira sem það er heitara. Sama á við um skatt á raforku. Þar ætti í raun að skattleggja virkjanir (jafnvel eftir reiknaðri arðsemi) en ekki söluverð til notenda ef ætlunin er að skattleggja á annað borð. Í báðum tilfellum ættu framleiðendur orkunnar að mega koma hækkuninni áfram til endanlegra kaupenda. Slík aðferð mundi fækka skattgreiðendum til muna, gera kerfið skilvirkara og ná betur markmiði frumvarpsins. Samanlagt eiga kolefnisgjaldið og skattur á sölu á raforku og heitu vatni að skila árlega 4,7 milljarða kr. tekjum í ríkissjóð. Umsagnaraðilar bentu á að mjög margar lágar færslur myndast í kerfinu sem gerir allt eftirlit og umsýslu mjög viðamikla. Þessi umfangsmikla skattlagning eykur hvorki gagnsæi kerfisins né skerpir skilning skattgreiðanda á því hvaða skatta hann er að greiða eða hvort þeir eru réttir.
    Miklar athugasemdir komu fram í umsögnum hagsmunaaðila um frumvarpið. 1. minni hluti tekur undir margar af þeim athugasemdum. Má þar helst nefna Samtök atvinnulífsins sem telja að skattformið sé óæskilegt og komi niður á atvinnulífinu, sér í lagi orkufrekum iðnaði, sjávarútvegi, flutningastarfsemi, flugrekstri og ferðaþjónustu. Enn fremur telja samtökin að verði frumvarpið óbreytt að lögum hafi það í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir fjárfestingaráform atvinnulífsins sem lengi hafa verið í undirbúningi. Ljóst er að mati 1. minni hluta að verði frumvarpið óbreytt að lögum mun það skaða samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja erlendis. Má þar m.a. nefna sjávarútveg og ferðamannaþjónustu. Þessir atvinnuvegir afla, ásamt stóriðju, stærsta hlutans af gjaldeyristekjum landsins og upptaka kolefnisgjalds mun hafa mikil neikvæð áhrif á rekstur þessara greina. Í veikingu krónunnar felast miklir möguleikar í ferðaþjónustu hér á landi. Hún kemur með erlendan gjaldeyri inn í landið og auk þess skapast ýmis störf. Talsmenn flugfélaganna hafa þannig bent á að hækkun þotueldsneytis leiði beint til hækkunar farmiða og að 1% hækkun farmiða leiði til 1% fækkunar erlendra ferðamanna. Þetta er afar slæmt í ljósi þess að ferðamenn skapa mikinn gjaldeyri og umsvif í hagkerfinu. Skatturinn leiðir þannig beint til minni gjaldeyristekna og er að því leyti vanhugsaður.
    1. minni hluti bendir á að ekki hefur farið fram umræða um auðlindagjaldið sem slíkt – réttmæti þess, kosti þess og galla. Hér er um algjöra stefnubreytingu að ræða og er óásættanlegt að skella skattinum á svo til fyrirvaralaust og nánast án umræðu. Efnahagslegar afleiðingar skattsins hafa ekki verið ígrundaðar, svo sem afleiðingar fyrir samkeppnishæfni landsins, erlenda fjárfestingu og skilvirkni. Skatturinn hamlar fjárfestingu í gjaldeyrisskapandi atvinnugreinum sem Íslendingar þurfa svo mjög á að halda. Þá er rétt að benda á að auðlindaskatturinn svokallaði hefur ekkert með auðlindaskatta að gera eins og hann er útfærður. Eiginlegur auðlindaskattur er lagður á í þeim tilgangi að innheimta hluta auðlindarentunnar af notanda auðlindar. Þessi skattur er hins vegar skattur beint á neytanda. Þetta er sambærilegt við að skattleggja fiskflök í fiskbúðinni og segja að með því sé verið að skattleggja auðlindarentu í fiskveiðum.
    1. minni hluti áréttar einnig að heimili landsins muni ekki fara varhluta af innheimtu kolefnisgjalds og bendir á, líkt og fram kemur í umsögn Félags íslenskra bifreiðaeigenda, að með þeim hækkunum sem hafa orðið á olíu- og bensíngjaldi á árinu og þeim hækkunum sem fyrirhugaðar eru, bæði með frumvarpi til laga um ráðstafanir í skattamálum (þskj. 273, 239. mál) og því sem hér um ræðir, hækkar dísilolía um 11 kr. (11,1%) og bensín um 26,1 kr. (15,5%) vegna nýrra skatta á einu ári. Miðað við meðalnotkun á dísilknúnum bíl nemur það um 38.000 kr. á ári og um 52.000 kr. á bensínknúnum bíl. Hér er um miklar hækkanir að ræða sem koma til með að bitna jafnt á tekjulágum einstaklingum og þeim sem hærri tekjur hafa. Þá eru áhrif á neysluverðsvísitölu með þeim hætti að skuldir heimila og fyrirtækja hækka beint við skattinn.
    Skatturinn hefur einnig alvarleg áhrif á stöðu landsbyggðarinnar þar sem hann hækkar orkukostnað og sérstaklega flutningskostnað. Fyrirtæki á landsbyggðinni og heimilin munu þurfa að taka þennan kostnað á sig.
    Enn fremur áréttar 1. minni hluti það sem áður sagði að ekki verður séð að sérstök umhverfissjónarmið liggi að baki upptöku kolefnisgjalds þar sem fjárhæð gjaldsins er ekki í tengslum við magn af losun kolefnis. Ef umhverfissjónamið eru ástæða skattsins væri eðlilegra að skattleggja kolefnisatómið sjálft og væri þá öll losun þess skattlögð sama hvar það er notað.
    1. minni hluti leggur áherslu á að ekki sé rétt við þær aðstæður sem nú eru í íslensku efnahagslífi að fara í aðgerðir og auknar álögur sem dregið geta úr fjárfestingum í atvinnulífinu. Forsenda þess að hægt sé að vinna sig upp úr því ástandi sem hér ríkir er að fjárfestingar séu efldar og þannig stutt við uppbyggingu atvinnulífsins. Bæði framkvæmd skattlagningarinnar og tímasetning hennar eru illa ígrundaðar og geta dregið úr fjárfestingu hjá stórnotendum raforku. Erlendir fjárfestar líta til alls umhverfis fyrirtækja og skyndileg hækkun á gjöldum þvert á samninga kann að fæla þá frá að velja Ísland til fjárfestinga. Ein meginforsenda þess að erlendir fjárfestar horfi til Íslands er traust á stöðugu fjárfestingarumhverfi. Stjórnvöld draga með þessu frumvarpi úr þeim stöðugleika sem hér þarf að ríkja.
    1. minni hluti áréttar einnig að skattlagning á sölu á raforku og heitu vatni til endanlegra notenda mun hækka framfærslukostnað heimilanna í landinu.
    1. minni hluti leggur til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og minnir á að tekjurnar sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu geta fengist með skattlagningu séreignarsparnaðar, sbr. þskj. 255, 230. mál.

Alþingi, 17. des. 2009.



Tryggvi Þór Herbertsson,


frsm.


Pétur H. Blöndal.