Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 569. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1202  —  569. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um breyt. á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um ársreikninga (minnihlutavernd o.fl.).

Frá viðskiptanefnd.



     1.      Við 2. gr.
                  a.      Í stað orðanna ,,Hluthafi getur krafist dóms“ í 1. efnismgr. komi: Hluthafi getur, sbr. þó     3. mgr., krafist dóms.
                  b.      Á eftir orðunum „fyrir hönd félags“ í 1. tölul. 1. efnismgr. komi: svo og hluthafar.
                  c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Ákvæði þetta á ekki við um fjármálafyrirtæki, vátryggingafélög og félög sem hafa verðbréf sín tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi fjármálagerninga (MTF).
     2.      Við 3. gr. B-liður orðist svo: Í stað orðanna „stjórn félags og endurskoðendum“ í 3. mgr. kemur: öllum aðalmönnum stjórnar félags og eftir atvikum einstökum varamönnum í þeirra stað, svo og endurskoðanda.
     3.      Við 7. gr. Greinin orðist svo:
             Eftirfarandi breytingar verða á 79. gr. a laganna:
                  a.      Við 3. tölul. 1. mgr. bætist: (tekur ekki til stjórnarmanna, sbr. 5. tölul. 2. mgr.).
                  b.      Við bætist ný málsgrein, 2. mgr., svohljóðandi:
                     Við gerð starfskjarastefnu skal miða við eftirfarandi grundvallaratriði:
                      1.      Takmörk skulu vera á breytilegum starfskjaraþáttum sem tengjast skulu fyrir fram ákveðnum og mælanlegum árangursviðmiðunum þar sem langtímahagsmunir félags eru hafðir í huga.
                      2.      Fresta skal greiðslu vegna breytilegra starfskjaraþátta í hæfilegan tíma og gera ráð fyrir endurgreiðslu ef greiðslur hafa verið inntar af hendi á grundvelli bersýnilega ónákvæmra gagna.
                      3.      Starfslokagreiðslur skulu ekki fara fram úr ákveðinni fjárhæð og ekki miðast við meira en tveggja ára laun. Starfslokagreiðslurnar skulu ekki fara fram ef starfslok verða vegna ófullnægjandi árangurs.
                      4.      Hlutir skulu ekki afhentir fyrr en a.m.k. þremur árum eftir að viðkomandi öðlast rétt til þeirra. Þá má eigi neyta kaupréttar á hlutum fyrr en að loknum þriggja ára biðtíma. Ákveðið hlutfall af hlutum skal geyma til starfsloka.
                      5.      Stjórnarmenn skulu ekki njóta hlutabréfa, kaup- og söluréttar, forkaupsréttar og annars konar greiðslna sem tengdar eru hlutabréfum í félaginu eða þróun verðs á hlutabréfum í félaginu.
     4.      Við 10. gr.
                  a.      A-liður orðist svo: Í stað orðanna „viku fyrir fund“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: viku fyrir fund (tveimur vikum fyrir aðalfund).
                  b.      C-liður orðist svo: Í stað orðanna „Viku fyrir hluthafafund hið skemmsta“ í 4. mgr. kemur: Viku fyrir hluthafafund hið skemmsta (tveimur vikum fyrir aðalfund nema boðunarfrestur sé skemmri).
     5.      Við 13. gr.
                  a.      Í stað orðanna „1/20 hlutafjárins á þeim tíma sem framsal eða afhending fer fram“ í 1. efnismgr. komi: minnst 1/10 hlutafjárins á undirritunartíma samningsins.
                  b.      Orðin „stjórnarmanna og“ í 2. tölul. 1. efnismgr. falli brott.
                  c.      Við 1. efnismgr. bætist tveir nýir töluliðir sem orðist svo:
                5.    Samninga undir almennu lágmarki hlutafjár í hlutafélögum.
                6.    Samninga fjármálafyrirtækja, vátryggingafélaga og félaga sem hafa verðbréf sín tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi fjármálagerninga (MTF).
     6.      Á eftir 14. gr. komi ný grein sem orðist svo:
            136. gr. laganna fellur brott.
     7.      Við 16. gr. Á eftir orðunum ,,fyrir hönd félags“ í 1. tölul. 1. efnismgr. komi: svo og hluthafar.
     8.      Við 17. gr. B-liður orðist svo: Í stað orðanna „stjórn félags og endurskoðendum“ í 3. mgr. kemur: öllum aðalmönnum stjórnar félags og eftir atvikum einstökum varamönnum í þeirra stað, svo og endurskoðanda.
     9.      Við 20. gr. Greinin orðist svo:
             Eftirfarandi breytingar verða á 54. gr. a laganna:
                  a.      Við c-lið 1. mgr. bætist: (tekur ekki til stjórnarmanna, sbr. 5. tölul. 2. mgr.).
                  b.      Við bætist ný málsgrein, 2. mgr., svohljóðandi:
                     Við gerð starfskjarastefnu skal miða við eftirfarandi grundvallaratriði:
                      1.      Takmörk skulu vera á breytilegum starfskjaraþáttum sem tengjast skulu fyrir fram ákveðnum og mælanlegum árangursviðmiðunum þar sem langtímahagsmunir félags eru hafðir í huga.
                      2.      Fresta skal greiðslu vegna breytilegra starfskjaraþátta í hæfilegan tíma og gera ráð fyrir endurgreiðslu ef greiðslur hafa verið inntar af hendi á grundvelli bersýnilega ónákvæmra gagna.
                      3.      Starfslokagreiðslur skulu ekki fara fram úr ákveðinni fjárhæð og ekki miðast við meira en tveggja ára laun. Starfslokagreiðslurnar skulu ekki fara fram ef starfslok verða vegna ófullnægjandi árangurs.
                      4.      Hlutir skulu ekki afhentir fyrr en a.m.k. þremur árum eftir að unnið er til þeirra. Þá má eigi neyta kaupréttar á hlutum fyrr en að loknum þriggja ára biðtíma. Ákveðið hlutfall af hlutum skal geyma til starfsloka.
                      5.      Stjórnarmenn skulu ekki njóta hluta, kaup- og söluréttar, forkaupsréttar og annars konar greiðslna sem eru tengdar hlutum í félaginu eða þróun verðs á hlutum í félaginu.
     10.      Við 23. gr. Greinin falli brott.
     11.      Við 26. gr.
                  a.      Í stað orðanna „1/10 hlutafjárins á þeim tíma sem framsal eða afhending fer fram“ í 1. efnismgr. komi: 1/10 hlutafjár á undirritunartíma samningsins.
                  b.      Í 2. tölul. 1. efnismgr. falli niður orðin „stjórnarmanna og“.
                  c.      Við 1. mgr. bætist nýr töluliður svohljóðandi: Samninga undir almennu lágmarki hlutafjár í einkahlutafélögum.
     12.      Á eftir 27. gr. komi ný grein sem orðist svo:
            110. gr. laganna fellur brott.
     13.      Við 30. gr.
                  a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður sem orðist svo: Ákvæði um lengingu lágmarksfrests til boðunar aðalfunda í hlutafélögum öðlast þó gildi 1. janúar 2011.
                  b.      Við bætist ný málsgrein, 2. mgr., sem orðist svo:
                     Ákvæði um brottfall (136. gr. laga um hlutafélög og 110. gr. laga um einkahlutafélög) taka til atvika og háttsemi sem átti sér stað fyrir gildistöku laga þessara jafnvel þótt málsóknarfrestur hafi verið liðinn er þau tóku gildi.