Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 462. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1255  —  462. mál.
Svarfjármálaráðherra við fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur um kostnað vegna bankahrunsins fyrir ríkissjóð.

     1.      Hver verður heildarkostnaður vegna tæknilegs gjaldþrots Seðlabanka Íslands fyrir:
              a.      ríkissjóð,
              b.      hvern íbúa,
              c.      hvern skattgreiðanda,
              d.      fjögurra manna fjölskyldu?

    Með samkomulagi sem gert var í byrjun árs 2009 og tók gildi í árslok 2008 framseldi Seðlabanki Íslands til ríkissjóðs samtals 345 milljarða kr. kröfur sem bankinn hafði tekið sem tryggingar fyrir veð- og daglánum og hann hafði veitt fjármálafyrirtækjum í samræmi við hlutverk sitt sem seðlabanki. Tilgangur samkomulagsins var að tryggja bankanum viðunandi eiginfjárstöðu. Ríkissjóður keypti tryggingabréfin og lét í staðinn 270 milljarða kr. verðtryggt ríkisskuldabréf. Gert var ráð fyrir að 95 milljarðar kr. mundu innheimtast af kröfum. Með samkomulagi sem tók gildi um sl. áramót framseldi ríkissjóður kröfurnar til baka til Seðlabanka gegn lækkun skuldabréfsins.
     a.      Heildarkostnaður ríkissjóðs nemur 175 milljörðum kr.
     b.      Kostnaður á hvern íbúa nemur 551.000 kr. 1
     c.      Kostnaður á hvern skattgreiðanda 654.200 kr. 2
     d.      Kostnaður á hverja fjögurra manna fjölskyldu er 2.204.000 kr.

     2.      Hver verður heildarkostnaður vegna eiginfjárframlags ríkisins og víkjandi lána til Arion banka, Íslandsbanka og NBI fyrir:
              a.      ríkissjóð,
              b.      hvern íbúa,
              c.      hvern skattgreiðanda,
              d.      fjögurra manna fjölskyldu?

    Uppgjöri eiginfjárframlags til nýju bankanna þriggja sem ríkissjóður yfirtók 2008 er nú lokið. Fyrstu áætlanir bentu til þess að framlag ríkissjóðs til bankanna gæti numið 385 milljörðum kr. Nú er hins vegar ljóst að beint eiginfjárframlag ríkissjóðs nemur rúmum 135 milljörðum kr. en að auki veitir ríkissjóður Íslandsbanka og Arion banka víkjandi lán til 10 ára í evrum að jafnvirði tæplega 61 milljarður kr. Á móti hlutafjáreign og víkjandi lánum ríkissjóðs í bönkunum þremur kemur samsvarandi eignafærsla.
    Hlutafjárframlag til Landsbankans nemur 122 milljörðum kr., til Íslandsbanka 3,3 milljörðum kr., en að auki veitir ríkissjóður bankanum víkjandi lán í evrum að jafnvirði 25 milljarðar kr., framlag til Arion banka er tæplega 10 milljarðar kr. og því til viðbótar víkjandi lán í evrum að jafnvirði 36 milljarðar kr.
     a.      Heildarfjárbinding ríkissjóðs nemur 196 milljörðum kr.
     b.      Fjárbinding á hvern íbúa nemur 617.100 kr.
     c.      Fjárbinding á hvern skattgreiðanda 732.700 kr.
     d.      Kostnaður á hverja fjögurra manna fjölskyldu 2.468.400 kr.

     3.      Hvert er fjárframlag ríkisins vegna peningamarkaðssjóða, innstæðutrygginga annarra en Icesave-reikninganna, sparisjóða, annarra fjármálafyrirtækja en í 2. tölul., tryggingafélaga, lífeyrissjóða og mögulega annarra lánastofnana og fyrirtækja? Óskað er eftir sundurliðun með nöfnum hvers fyrirtækis og fjárframlagi ríkisins.
    Engin fjárframlög hafa komið frá ríkinu til peningamarkaðssjóða, innstæðutrygginga annarra en Icesave-reikninga, annarra fjármálafyrirtækja en í 2. tölul., tryggingafélaga, lífeyrissjóða eða annarra lánastofnana og fyrirtækja. Hins vegar gera fjárlög 2010 ráð fyrir 20 milljarða kr. eiginfjárframlagi til sparisjóðakerfisins. Í því tilviki liggur þó ekki fyrir endanleg fjárhæð, enda er fjárhagsleg endurskipulagning sparisjóðanna nú á lokastigi.

     4.      Hver verður heildarkostnaður framlaga skv. 3. tölul. fyrir:
              a.      ríkissjóð,
              b.      hvern íbúa,
              c.      hvern skattgreiðanda,
              d.      fjögurra manna fjölskyldu?

    Sé gert ráð fyrir 20 milljarða kr. fjárframlagi til annarra en um getur í 2. tölul. verður kostnaðurinn á:
          hvern íbúa 63.000 kr.,
          hvern skattgreiðanda 74.800 kr.,
          hverja fjögurra manna fjölskyldu 252.000 kr.

     5.      Telur ráðherra ástæðu til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um þessar skuldbindingar og framlög ríkissjóðs? Hverjir eru kostir og gallar slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu að mati ráðherra? Telur ráðherra ásættanlegt að almenningur beri skuldaklafa óreiðumanna án þess að samþykkja slíkt fyrst í þjóðaratkvæðagreiðslu? Hver yrðu að mati ráðherra áhrif slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu á íslenskt efnahagslíf?
    Þjóðaratkvæðagreiðslur henta vel til að leyfa kjósendum að taka ákvarðanir er varða stór og afdrifarík mál þar sem sýnt er að í atkvæðagreiðslunni liggi fyrir skýrir valmöguleikar sem kjósendur geti tekið afstöðu til. Er þá lykilatriði í því sambandi að sú spurning eða þær spurningar sem afstaða er tekin til í atkvæðagreiðslunni sé þannig að kjósendur standi frammi fyrir skýrum kostum og að einhvers konar niðurstaða eða lausn fáist í viðkomandi máli með úrslitum kosninganna. Sem dæmi um slík mál væri hægt að nefna inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið, inngöngu Íslands í EFTA og EES, byggingu Kárahnjúkavirkjunar og upptöku kvótakerfisins á sínum tíma.
    Varðandi mögulega þjóðaratkvæðagreiðslu um þau fjölmörgu mál sem fyrirspurn þessi tekur til er vert að hafa eftirfarandi í huga. Margt af því tekur til skuldbindinga sem ríkisvaldið hefur orðið að taka á sig vegna gríðarlegra áfalla á íslenskum fjármálamarkaði. Hrun íslensku bankanna með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkissjóð er afleiðing af ákvörðunum í viðskiptum og stjórnmálum. Þjóðaratkvæðagreiðslu um afleiðingar af ákvörðunum í stjórnmálum eins og þeim er hlotist hafa af einkavæðingu ríkisbankanna er erfitt að láta eiga sér stað eftir á þó að vissulega hefði mátt kjósa um þá ráðstöfun að einkavæða bankana á sínum tíma.
    Varðandi þriðja lið spurningarinnar þá á almenningur að sjálfsögðu ekki að bera „skuldaklafa óreiðumanna“ enda kappkostar ríkisstjórnin að draga úr því tjóni sem varð við fall bankanna og lágmarka skaða almennings og íslensks þjóðarbús. Í því samhengi er rétt að benda á að erlendar skuldir þjóðarbúsins voru rúmlega 600% af vergri landsframleiðslu fyrir hrun bankanna en standa nú í um 300% af vergri landsframleiðslu og eiga eftir að lækka enn meira þegar frekari afskriftir skulda eiga sér stað.
    Um áhrif slíkrar atkvæðagreiðslu ef fram færi á íslenskt atvinnulíf er erfitt að fullyrða, sbr. það sem áður sagði að hinu liðna verður ekki breytt með kosningu þótt við fegin vildum.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Mannfjöldi á Íslandi var 317.630 1. janúar 2010.
Neðanmálsgrein: 2
    2     Á skattgrunnskrá miðað við stöðu í júlí 2009, 16 ára eða eldri á árinu 2009, voru 267.494 .