Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 28. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 28  —  28. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um millilandaflug um Ísafjarðarflugvöll.

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Ásbjörn Óttarsson, Gunnar Bragi Sveinsson,


Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ólína Þorvarðardóttir,


Guðmundur Steingrímsson, Ásmundur Einar Daðason.



    Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að tryggja að á Ísafjarðarflugvelli sé nægjanlegur búnaður og aðstaða til að hægt sé að sinna þaðan millilandaflugi með flugvélum sem núna hafa heimild til þess að fljúga um völlinn.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga þessi var flutt á 138. löggjafarþingi en fékkst ekki rædd og er því flutt að nýju.
    Ísafjarðarflugvöllur gegnir ómetanlegu hlutverki og er ein helsta samgönguæð Vestfirðinga. Unnið hefur verið að margvíslegum endurbótum á flugvellinum og hafa þær verið til mikilla bóta fyrir flugsamgöngur til Vestfjarða. Það heftir hins vegar vaxtarmöguleika vallarins að ekki er almenn heimild til þess að stunda um hann millilandaflug. Slík starfsemi var þó stunduð á árum áður og skipti miklu máli. Landfræðilegar aðstæður til almenns millilandaflugs eru að sönnu erfiðar. Á hinn bóginn er völlurinn einn hinn fjölfarnasti í almennu innanlandsflugi og með undanþágum er stundað þaðan takmarkað millilandaflug. Þann þátt starfseminnar þarf að efla með sérstakri áherslu á þá möguleika sem eru til aukins samstarfs Vestfjarða og Grænlands.
    Um árabil voru allmiklar flugsamgöngur á milli Ísafjarðar og Grænlands. Þessi starfsemi skapaði umsvif og tekjur og opnaði nýja möguleika til samskipta á milli Vestfjarða og Grænlands. Slík samskipti eru mikilvæg enda er landfræðilega stutt þarna á milli. Mikill áhugi hefur verið á slíku samstarfi.
    Í skýrslunni Vaxtarsamningur Vestfjarða, sem unnin var af verkefnisstjórn um byggðaáætlun Vestfjarða og iðnaðarráðuneytið gaf út árið 2005, var m.a. vikið að þessu. Þar segir: „Flugfélag Íslands hefur um árabil notað Ísafjörð sem höfn í tengslum við flutninga á fólki og vörum til austurstrandar Grænlands, en þangað er innan við einnar klukkustundar flug. Þessu svæði mætti þjóna mun meira frá Ísafirði en gert er og jafnvel bjóða ferðafólki á Vestfjörðum í stuttar útsýnisferðir til Grænlands.“
    Þess má og geta að vegalengdin milli Vestfjarða og Grænlands er 275 km þar sem styst er. Landfræðilegar aðstæður eru því til frekara samstarfs.

Möguleikar á samstarfi Grænlands og Vestfjarða.
    Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi utanríkisráðherra, tók málið upp í heimsókn til Grænlands dagana 20.–21. júní árið 2008, þar sem Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, var með í för. Í greinargerð sem hann skrifaði að heimsókninni lokinni var m.a. vakin athygli á ýmsum möguleikum á frekari samstarfi Vestfjarða og Grænlands. Eftirfarandi er meðal þess sem nefnt er í greinargerð bæjarstjóra:
          Nálægðin við Austur-Grænland.
          Núverandi tengsl við Grænland í gegnum vinabæjarsamskipti við Nanortalik.
          Twin Otter skíðavélarnar sem fljúga frá Ísafirði og veita mikilvæga þjónustu.
          Möguleiki á samstarfi í ferðaþjónustu með frekara flugi og siglingum, nefndi bæjarstjóri sérstaklega stærstu skútu á Íslandi, Aurora.
          Hafnir Ísafjarðarbæjar sem þjónustuhafnir fyrir Austur-Grænland vegna fiskilandana, ferðaþjónustu, námavinnslu og olíuvinnslu.
          Siglingar með vistir til byggða við Austur-Grænland ef áhugi væri fyrir því.
          Þjónusta sjúkrahúss.
          Menntaskóli.
          Flest almenn þjónusta fyrir fólk og fyrirtæki.
          Formlegur vilji bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar til að gerast þjónustuhöfn og þjónustumiðstöð fyrir A-Grænland.
    Í greinargerðinni segir enn fremur:
    „Öryggis- og umhverfismál koma þar einnig til skoðunar ekki hvað síst vegna aukinna siglinga, oft á tíðum vanbúinna stórra skemmtiferðaskipa. Þessu gæti fylgt staðsetning þyrlu og varðskips/herpskipa á Ísafirði. Björn Bjarnason dómsmálaráðherra hefur hreyft við því máli við yfirmann herstjórnarinnar á Grænlandi með sérstakri áherslu á Ísafjarðarbæ eftir fund dómsmálaráðherra með fulltrúum Ísafjarðarbæjar í vetur.
    Með tilboði Háskólaseturs Vestfjarða um að greiða námskostnað Grænlendings við Haf- og strandsvæðistjórnunarnám Háskólasetursins (Coastal and Marine Management) eru bundnar vonir við að tengsl Ísafjarðarbæjar/Vestfjarða við Grænland aukist og þar með möguleikar á samstarfi. Íslensk fyrirtæki, s.s. verktakar og verkfræðifyrirtæki á okkar svæði og reyndar víða ættu jafnframt að eiga möguleika á verkefnum sem tengjast uppbyggingu og framkvæmdum sem fyrirsjáanlega verða á Grænlandi á næstu árum. Það hafa jafnvel heyrst raddir um að Grænlendingar hefðu möguleika á raforkukaupum frá Íslandi.“

Forsendan er að hægt sé að stunda millilandaflug frá Ísafirði.
    Forsenda alls þessa er m.a. að hægt sé að stunda bærilegar flugsamgöngur á milli landanna. Núna eru margs konar vankantar á slíku flugi. Ekki er almenn heimild til millilandaflugs frá Ísafjarðarflugvelli. Hins vegar er möguleiki fyrir flugrekendur að fá undanþágur, sé eftir því leitað. Slíkt er þó tafsamt og getur reynst þvælið þegar það hentar flugrekanda að nýta Ísafjarðarflugvöll sem lendingarstað vegna flugs á milli landa. Dæmi er um flugvél sem millilenti á leið til Grænlands en þurfti að bíða á Ísafirði í að minnsta kosti sólarhring á meðan farið var í gegnum undanþágubeiðni um heimild til þess að nota völlinn til millilandaflugs. Fyrirtæki á borð við Flugfélag Íslands, sem hefur notað Ísafjarðarflugvöll til flugs til Grænlands, hafa fengið slík leyfi til lengri tíma í senn. Þau úrræði eru ekki til staðar fyrir þá aðila sem vilja nota völlinn í einstök skipti.
    Ísafjarðarflugvöllur er gríðarlega þýðingarmikill þáttur í samgöngukerfi Vestfjarða. Um flugvöllinn fóru á árinu 2008 tæplega 52 þúsund manns og var það um það bil 15% fjölgun frá árinu 2006. Verulegar fjárfestingar hafa verið gerðar á flugvellinum, jafnt til að auka öryggi og að bæta aðstöðu farþega. Sú aðstaða mundi að sjálfsögðu nýtast fyrir alþjóðaflug, þótt ljóst sé að ráðast þarf í kostnað til þess að bæta stöðu flugvallarins svo mæta megi kröfum sem það útheimtir.

Grænlandssetur í Bolungarvík.
    20. mars sl. var ákveðið að stofna sérstakt Grænlandssetur í Bolungarvík. Markmiðið með stofnun þess er að efla samskipti við Grænland, næsta nágranna í vestri. Formaður félagsins er Jónas Guðmundsson sýslumaður. Á stofnfundinum var m.a. vakin athygli á mögulegri aðkomu Vestnorræna ráðsins að því styrkja þessi tengsl, m.a. á grundvelli hins nýja Grænlandsseturs.
    Hinn 17. mars árið 2007 var að frumkvæði Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur samþykkt á Alþingi þingsályktun sem undirstrikar áhuga á að sinna betur þessum samskiptum við Grænland. Þingsályktunin er svohljóðandi: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera úttekt á möguleikum þess að efla norðanverða Vestfirði sem miðstöð þjónustu við vaxandi fiskveiðar við Austur-Grænland og skoða sérstaklega þann kost að þjónustumiðstöð og umskipunarhöfn fyrir siglingar í Norðurhöfum verði á Vestfjörðum. Haft verði náið samráð við heimamenn við gerð úttektarinnar.“
    Þá hefur Úlfar Ágústsson á Ísafirði verið ötull í því að vekja athygli á þeim möguleikum sem eru á frekara samstarfi Íslands og Grænlands þar sem samgöngur við norðanverða Vestfirði gætu verið lykillinn.

Helstu atriði.
    Landfræðilegar aðstæður setja millilandaflugi um Ísafjarðarflugvöll skorður. En í ljósi þess að um völlinn fara meira en 50 þúsund farþegar árlega í innanlandsflugi og heimild er til takmarkaðs millilandaflugs er eðlilegt að unnið verði að því að opna fyrir frekara millilandaflug svo sem landfræðilegar aðstæður leyfa. Slíkt gæti eflt íslenska ferðaþjónustu, styrkt einkanlega samstarf Íslands og Grænlands á ýmsan hátt, rennt fleiri stoðum undir vaxandi ferðaþjónustu á Vestfjörðum og nýtt þá fjárfestingu sem þegar hefur verið gerð í innviðum á margvíslegum sviðum ennþá betur.