Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 61. máls.

Þskj. 62  —  61. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)
1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi:
     9.      samning milli Evrópusambandsins, Íslands, Liecthensteins og Noregs um EES- fjármagnskerfið 2009–2014.

2. gr.

    Við 2. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    1. gr. samningsins, sem vísað er til í 9. tölul. 1. gr., skal hafa lagagildi hér á landi.
    Þau ákvæði samningsins, sem vísað er til í 9. mgr., eru prentuð sem fylgiskjal VIII með lögum þessum.

3. gr.

    1. gr. samningsins um EES-fjármagnskerfið 2009–2014, sem vísað er til í 2. gr. laga þessara, er prentuð sem fylgiskjal með lögum þessum.
    Lög þessi öðlast þegar gildi.Fylgiskjal.


Fylgiskjal VIII með lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, með síðari breytingum.
1. gr. samnings um EES-fjármagnskerfið 2009–2014.


1. gr.

    Í stað 117. gr. EES-samningsins komi eftirfarandi:
    Í bókun 38, bókun 38a, og viðauka við hana, og í bókun 38b er að finna ákvæði um fjármagnskerfið.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Allt frá gildistöku EES-samningsins hafa EES-ríkin innan EFTA, Noregur, Ísland og Liechtenstein, skuldbundið sig til að inna af hendi tilteknar greiðslur til að draga úr efnahagslegu og félagslegu misræmi milli svæða innan EES með það fyrir augum að stuðla að jafnri og stöðugri eflingu viðskipta- og efnahagstengsla samningsaðila eins og kveðið er á um í 1. gr., sbr. 115. gr. EES-samningsins. Hefur þetta falist í fjárhagslegum framlögum EES-ríkjanna innan EFTA til tiltekinna ríkja innan ESB, sbr. 116. gr. EES-samningsins. Þessi þáttur EES-samningsins hefur ávallt verið tímabundinn og gilt í fimm ár í senn. Var hann fyrst framlengdur árið 1999. Er það viðhorf ESB að þessi stuðningur sé ein af forsendum EES- samningsins. Það er ástæða þess að sambandið tekur málið ítrekað upp að liðnum gildistíma sjóðanna.
    Við stækkun EES árið 2002 vegna fjölgunar aðildarríkja ESB gerði ESB ríkari kröfur en áður til EES-ríkjanna innan EFTA um fjárhagsleg framlög á grundvelli framangreindra ákvæða EES-samningsins. Niðurstaða samningaviðræðna varð sú að stofnað var nýtt fjármagnskerfi EES (hér eftir kallað Þróunarsjóður EFTA) fyrir nýju samningsaðilana, auk Grikklands, Spánar og Portúgals. Kom Þróunarsjóður EFTA í stað sjóðsins sem verið hafði við lýði frá upphafi samningsins og endurnýjaður var árið 1999. Fjárframlög til þessa sjóðs hækkuðu verulega frá því sem verið hafði. Búlgaría og Rúmenía bættust í hóp þeirra ríkja sem nutu framlaga úr Þróunarsjóðnum árið 2007 og hækkaði þá framlag EES-ríkjanna innan EFTA nokkuð. Frumvörp vegna þessara breytinga voru samþykkt á Alþingi árin 2004 og 2007.
    Samhliða ofangreindum breytingum á fyrirkomulagi sjóðsins náðust samningar um niðurfellingu tolla á ákveðnu magni tiltekinna sjávarafurða. Samningar þar um höfðu sama gildistíma og samningar um sjóðinn. Eru í þessum samningum fólgnir sérstakir hagsmunir fyrir íslenskan sjávarútveg en þeir tryggja árlegan tollfrjálsan útflutning á fimm ára tímabili fyrir 950 tonn af heilfrystri síld, 520 tonn af frosnum leturhumri og 750 tonn af ferskum eða kældum karfaflökum.
    Að kröfu ESB var á ný gengið til samninga um Þróunarsjóðinn árið 2008 þegar leið að lokum gildistíma hans. Tóku samningaviðræður langan tíma og reyndust erfiðar, ekki síst vegna þess að framkvæmdastjórn ESB gerði á ný kröfur um aukin fjárframlög sem EES-ríkin innan EFTA töldu óraunhæfar með öllu. Samningaviðræðum lauk á vormánuðum árið 2010 og var samningur um endurnýjaðan sjóð undirritaður í ágúst sama ár.
    Samningurinn er að efni til í samræmi við hina fyrri. Nokkur hækkun verður á heildarfjárhæð fjárframlaga í sjóðinn, úr um 150 milljónum evra árlega í 198 milljónir. Tekið skal fram að árlegt framlag Íslands er óbreytt frá því sem verið hefur undanfarin fimm ár og munu því Noregur og Liechtenstein bera þungann af þessari hækkun. Með þessum hætti var tekið tillit til alvarlegrar efnahagslegrar stöðu Íslands í kjölfar hruns fjármálakerfisins. Ekki er sérstaklega fjallað um þetta í samningnum sem hér liggur fyrir en EES-ríkin innan EFTA hafa tekið sérstaka ákvörðun um skiptingu þessa kostnaðar þar sem þetta er staðfest. Árlegt framlag Íslands mun aldrei fara fram úr 6,8 milljónum evra. Árlegt framlag Liechtenstein mun verða 2,2 milljónir og Noregs 189 milljónir evra. Til viðbótar leggur Noregur fram ár hvert 160 milljónir evra í sérstök tvíhliða framlög.
    Samningurinn felur í sér tæknilega breytingu á 117. gr. EES-samningsins en meginmál samningsins er lögfest hér á landi, sbr. lög nr. 2/1993. Bæta þarf við 117. gr. samningsins tilvísun til nýrrar bókunar 38b um endurnýjaðan sjóð sem taka mun til tímabilsins 2009–2014.
    Samhliða þessum nýja samningi var endurnýjaður samningur Noregs og ESB um sérstök tvíhliða framlög Noregs til ríkjanna sem gengu í ESB og EES árin 2004 og 2007. Þar var einnig um nokkra hækkun fjárframlaga að ræða, úr 635 milljónum í 800 milljónir evra.
    Jafnframt var gerður samningur um viðskipti með sjávarafurðir á sömu nótum og sá samningur sem gilt hefur undanfarin fimm ár. Mun sá samningur taka gildi samhliða nýjum samningi um sjóðinn.
    Samráð var haft við fulltrúa hagsmunaaðila í sjávarútvegi á meðan samningaferlinu stóð um samninginn um viðskipti með sjávarafurðir. Að því er varðar samninginn um Þróunarsjóð EFTA tóku fulltrúar utanríkisráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins þátt í viðræðunum en ekki var séð að málið snerti hagsmunaaðila með þeim hætti að þörf væri á sérstöku samráði við þá á þessu stigi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með ákvæðinu er lagt til að heimilað verði að fullgilda fyrir Íslands hönd nýjan samning um EES-fjármagnskerfið fyrir tímabilið 2009–2014. Með því er fullnægt hinni þjóðréttarlegu skuldbindingu sem Ísland hefur undirgengist. Er sami háttur hafður hér á og í þau skipti sem breytingar hafa verið gerðar á orðalagi EES-samningsins, sbr. stækkun EES árin 2004 og 2007.

Um 2. gr.

    Með 2. gr. er lagt til að 1. gr. samningsins hafi lagagildi hér á landi þar sem í ákvæðinu felst breyting á sjálfu meginmáli EES-samningsins. Þar sem meginmálið hefur lagagildi hér á landi samkvæmt lögum nr. 2/1993 er nauðsynlegt að lögfesta einnig breytingar á meginmáli samningsins.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Athugasemdir um einstök ákvæði bókunar 38b (sjá fylgiskjal I).

    Eins og að framan er getið er hér um að ræða endurnýjun á fyrri sjóði en þó með þeirri breytingu að um nokkra hækkun fjárframlaga í sjóðinn er að ræða. Þunginn af þeirri hækkun verður borinn af öðrum EES-ríkjum innan EFTA en Íslandi samkvæmt samkomulagi þeirra á milli.

Um 1. gr. bókunar 38b.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um að EES-ríkin innan EFTA skuli leggja sitt af mörkum fjárhagslega til að draga úr efnahagslegu og félagslegu misræmi á EES. Slík framlög renna til þeirra forgangsgeira sem fjallað er um í 3. gr.

Um 2. gr. bókunar 38b.

    Í ákvæðinu er fjallað um fjárframlagið sjálft, fjárhæð þess, hvernig það verði greitt og yfir hvaða tímabil.

Um 3. gr. bókunar 38b.

    Í 3. gr. er mælt fyrir um að veita skuli styrki úr sjóðnum til verkefna í nánar tilgreindum forgangsgeirum. Sterk áhersla er á umhverfis- og loftslagsmál auk þess sem gert er ráð fyrir að styðja það sem nefnt er borgaralegt samfélag, þróun lífskjara og félagslegra þátta auk verndar menningararfleifðar. Innan ramma þessara forgangsgeira er gert ráð fyrir að ýmis verkefnasvið geti notið stuðnings. Hér má nefna verkefni sem lúta að endurnýjanlegri orku, aðlögun að loftslagsmarkmiðum, rannsóknum og þróun á sviði loftslagsmála, almannaheilsu, menningarmála o.s.frv.
    Ætla má að sú áhersla sem lögð er á loftslagsmálin geti skapað íslenskum fyrirtækjum tækifæri til að leita eftir samstarfsverkefnum í þeim ríkjum sem um ræðir og styðja þannig við þessi ríki með þekkingu sinni og reynslu. Í því skyni gætu samstarfsaðilar í viðkomandi ríkjum sóst eftir stuðningi úr sjóðnum. Þá er þess sérstaklega getið í 2. mgr. að heimilt sé að veita fjárstyrki til fræðilegra rannsókna sem beinast að einum eða fleiri forgangsgeirum og því munu t.d. jarðhitarannsóknir falla hér undir.

Um 4. gr. bókunar 38b.

    Í 4. gr. er kveðið á um þær reglur sem gilda um styrki til einstakra verkefna. Er þar kveðið á um hámarkshlutföll fjármögnunar.
    Samkvæmt 2. mgr. skal virða reglur um ríkisaðstoð við úthlutun úr sjóðnum.
    Þá skal framkvæmdastjórn ESB skoða tillögur um verkefni og ganga úr skugga um að þær samræmist markmiðum sambandsins. Endanlegt ákvörðunarvald um stuðning við verkefni er hins vegar í höndum nefndar EFTA-ríkjanna sem starfar skv. 8. gr.
    Þá verða EFTA-ríkin ekki ábyrg gagnvart þriðja aðila að því er varðar framkvæmd einstakra verkefna skv. 4. mgr.

Um 5. gr. bókunar 38b.

    Í 5. gr. er kveðið á um hvaða ríki það eru sem njóta skulu stuðnings og hvernig fjármagnið skiptist á milli þeirra. Sérstök athygli er vakin á því að gert er ráð fyrir að framlagið til Spánar sé tímabundið til loka ársins 2013. Er þetta í samræmi við stöðu Spánar innan sambærilegra sjóða ESB.

Um 6. gr. bókunar 38b.

    Í 6. gr. er mælt fyrir um hvernig standa skuli að endurúthlutun árlegra fjárframlaga EFTA- ríkjanna sem af einhverjum ástæðum hefur ekki verið úthlutað. Samsvarandi ákvæði er að finna í fyrri bókun um sjóðinn.

Um 7. gr. bókunar 38b.

    Fjárframlög úr Þróunarsjóði EFTA skulu vandlega samræmd tvíhliða framlagi Noregs sem kveðið er á um í sérstökum samningi milli ESB og Noregs. EFTA-ríkin skulu sjá til þess að sömu reglur gildi um málsmeðferð við umsóknir beggja fjármagnskerfanna. Samsvarandi ákvæði var einnig að finna í reglum um fyrri sjóð.

Um 8. gr. bókunar 38b.

    Ákvæðið mælir fyrir um ákveðnar grunnreglur um framkvæmd styrkveitinga. Skipulag styrkveitinga er ákveðið í nánu samstarfi þeirra ríkja sem veita aðstoð og þeirra sem hana þiggja. Gert er ráð fyrir að gerð verði viljayfirlýsing við viðkomandi ríki sem þiggja aðstoð þar sem rammi verður settur fyrir áætlanir um ráðstöfun stuðningsins auk skipulags og stjórnunar. Markmiðið er að tryggja greiða framkvæmd stuðningsins og að tekið verði tillit til sérstakra aðstæðna (forgangsröð) í einstökum ríkjum. Síðan er gert ráð fyrir að ríkin leggi fram sérstakar áætlanir sem EES-ríkin innan EFTA munu yfirfara og samþykkja. Um hverja áætlun verður gerður sérstakur samningur, en ábyrgðin á framkvæmdinni er ríkjanna sem njóta stuðnings. Miðað er við að allur undirbúningur áætlana ríkjanna fari fram í breiðu samráði innanlands í viðkomandi ríki. Áætlanir geta verið framkvæmdar í samstarfi við aðila í EES-ríkjunum innan EFTA. Eftirlit mun verða á höndum EES-ríkjanna innan EFTA og ríkar kröfur verða gerðar í því efni til þiggjenda fjármuna. Heimilt verður að stöðva greiðslur ef svo ber undir, t.d. ef í ljós kemur rökstuddur grunur um spillingu í tengslum við ráðstöfun fjármuna.
    Tekið er fram að kostnaður af rekstri sjóðsins er greiddur af heildarframlagi EES-ríkjanna innan EFTA.

Um 9. gr. bókunar 38b.

    Samkvæmt ákvæðinu munu samningsaðilar við lok fimm ára tímabilsins leggja mat á hvort enn sé þörf á að veita fjármuni til að draga úr efnahagslegu og félagslegu misræmi á Evrópska efnahagssvæðinu. Eru EES-ríkin innan EFTA því ekki skuldbundin til að greiða til sjóðsins lengur en til fimm ára, en að loknu því tímabili skal taka ákvörðun um hvort halda skuli áfram slíkum greiðslum.


Fylgiskjal I.


BÓKUN 38B
UM FJÁRMAGNSKERFI EES (2009–2014)


1. gr.

    Ísland, Liechtenstein og Noregur („EFTA-ríkin“) skulu leggja sitt af mörkum til að draga úr efnahagslegu og félagslegu misræmi á Evrópska efnahagssvæðinu með því að veita fjárstyrki til þeirra forgangsgeira sem skráðir eru í 3. gr. og efla tengsl sín við þau ríki sem njóta styrkja.

2. gr.

    Framlagið, sem kveðið er á um í 1. gr., skal nema 988,5 milljónum evra alls og skulu vera til ráðstöfunar á hverju ári 197,7 milljónir evra á tímabilinu 1. maí 2009 til 30. apríl 2014, að báðum dögum meðtöldum.

3. gr.

    1.     Fjárframlögin skulu vera til ráðstöfunar í eftirtöldum forgangsgeirum:
              a)     umhverfisvernd og umhverfisstjórnun,|
              b)     loftslagsbreytingar og endurnýjanleg orka,
              c)     borgaralegt samfélag,
              d)     þróun lífskjara og félagslegra þátta,
              e)     verndun menningararfleifðar.
    2.     Heimilt er að veita fjárstyrki til fræðilegra rannsókna sem beinast að einum eða fleiri forgangsgeirum.
    3.     Viðmiðunarúthlutun til hvers ríkis, sem nýtur styrks, er a.m.k. 30% samanlagt til forgangsgeira a og b og 10% til forgangsgeira c. Í samræmi við verklagsreglurnar, sem um getur í 2. mgr. 8. gr., skal gæta sveigjanleika við val, sameiningu og aðlögun forgangsgeira og miða við ólíkar þarfir í hverju því ríki sem nýtur styrks og skal hliðsjón höfð af stærð þess og fjárframlagi.

4. gr.

    1.     Framlag EFTA skal ekki fara yfir 85% af kostnaði við áætlun. Í sérstökum tilvikum getur það numið 100% af kostnaði við áætlun.
    2.     Virða skal gildandi reglur um ríkisaðstoð.
    3.     Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skal skoða allar áætlanir og breytingar á þeim og ganga úr skugga um að þær samrýmist markmiðum Evrópusambandsins.
    4.     Ábyrgð EFTA-ríkjanna á verkefnunum takmarkast við fjárveitingar samkvæmt samþykktri áætlun. Þau bera ekki ábyrgð gagnvart þriðja aðila.

5. gr.

    Fjárveitingar skulu renna til eftirfarandi ríkja sem njóta styrks: Búlgaríu, Tékklands, Eistlands, Grikklands, Spánar, Kýpur, Lettlands, Litháen, Ungverjalands, Möltu, Póllands, Portúgals, Rúmeníu, Slóveníu og Slóvakíu.
    Spánn fær úthlutað 45,85 milljónum evra vegna tímabundins stuðnings á tímabilinu 1. maí 2009 til 31. desember 2013. Því fjármagni sem eftir stendur er, að teknu tilliti til aðlagana til bráðabirgða, skipt niður með eftirfarandi hætti:

Fjármagn (milljónir evra)
Búlgaría 78,60
Tékkland 61,40
Eistland 23,00
Grikkland 63,40
Kýpur 3,85
Lettland 34,55
Litháen 38,40
Ungverjaland 70,10
Malta 2,90
Pólland 266,90
Portúgal 57,95
Rúmenía 190,75
Slóvenía 12,50
Slóvakía 38,35

6. gr.

    Í því skyni að endurúthluta þeim fjármunum, sem hefur ekki verið úthlutað og eru til ráðstöfunar til forgangsverkefna, í einhverju þeirra ríkja sem njóta styrks, skal fara fram endurskoðun á styrkúthlutun í nóvember 2011 og aftur í nóvember 2013.

7. gr.

    1.     Fjárframlögin, sem kveðið er á um í bókun þessari, skulu vandlega samræmd tvíhliða framlagi Noregs sem kveðið er á um í samningi um norska fjármagnskerfið.
    2.     Einkum skulu EFTA-ríkin sjá til þess að sömu reglur gildi um málsmeðferð við umsóknir til beggja fjármagnskerfanna sem um getur í málsgreininni hér að framan.
    3.     Tillit skal tekið til viðeigandi breytinga sem verða á samheldnistefnumiðum Evrópusambandsins eftir því sem við á.

8. gr.

    Framkvæmd fjármagnskerfis EES skal vera sem hér segir:
    1.     Gæta verður fullkomins gagnsæis, ábyrgðar og kostnaðarhagkvæmni á öllum stigum framkvæmdar og skal fylgja meginreglum um góða stjórnunarhætti, sjálfbæra þróun og jafnrétti kynjanna. Vinna skal að markmiðum fjármagnskerfis EES í nánu samstarfi milli þeirra ríkja sem njóta styrks og EFTA-ríkjanna.
    2.     EFTA-ríkin skulu, til að tryggja markvissa og skilvirka framkvæmd, og að teknu tilliti til forgangsatriða í hverju ríki, undirrita viljayfirlýsingu með hverju ríki sem nýtur styrks þar sem fram er settur rammi fyrir áætlanir til margra ára og skipulag stjórnunar og eftirlits.
    3.     Eftir undirritun viljayfirlýsingarinnar skal ríki sem nýtur styrks leggja fram tillögur að áætlun. EFTA-ríkin munu leggja mat á og samþykkja tillögurnar og gera samninga um styrki fyrir hverja áætlun við þau ríki sem njóta styrks. Fjárhæð framlags skal koma fram í sundurliðun áætlunarinnar. Í undantekningartilvikum má tilgreina verkefni innan áætlana, þ.m.t. skilyrði fyrir vali, samþykki og eftirliti, í samræmi við þau ákvæði um framkvæmd sem um getur í 8. mgr.
    Framkvæmd samþykktra áætlana er á ábyrgð þeirra ríkja sem njóta styrks. Ríki sem njóta styrks skulu koma á viðeigandi stjórnunar- og eftirlitskerfi til að tryggja trausta framkvæmd og stjórnun.
    4.     Þar sem við á skal hafa samstarf um undirbúning, framkvæmd, eftirlit og mat á fjárframlagi til að tryggja víðtæka þátttöku. Samstarfsaðilar geta m.a. verið af staðbundnum, svæðisbundnum og landsbundnum vettvangi, úr einkageiranum, borgaralegu samfélagi, svo og aðilar vinnumarkaðarins í ríkjum sem njóta styrkja og í EFTA-ríkjunum.
    5.     Eftirlitskerfið, sem komið er á fót vegna stjórnunar á fjármagnskerfi EES, skal tryggja að meginreglan um trausta fjármálastjórnun sé virt. EFTA-ríkin skulu hafa eftirlit í samræmi við þau skilyrði sem þau setja hvert fyrir sig. Ríki, sem njóta styrks, skulu leggja fram nauðsynlega aðstoð, upplýsingar og skjöl í þessu skyni. EFTA-ríkjunum er heimilt að stöðva fjármögnun og krefjast endurheimtar fjármuna ef í ljós kemur að reglur hafa verið sniðgengnar.
    6.     Heimilt er að koma verkefni, sem fellur undir ramma áætlana til margra ára í ríkjum sem njóta styrks, til framkvæmda í samstarfi við aðila sem hafa aðsetur í þeim ríkjum sem njóta styrks og EFTA-ríkjunum, í samræmi við gildandi reglur um opinber innkaup.
    7.     Stjórnunarkostnaður EFTA-ríkjanna skal greiddur af heildarfjárhæðinni sem um getur í 2. gr. og verður tilgreindur í ákvæðum um framkvæmd sem um getur í 8. mgr.
    8.     EFTA-ríkin skulu skipa nefnd sem stýrir fjármagnskerfi EES. EFTA-ríkin munu setja frekari ákvæði um framkvæmd fjármagnskerfis EES að höfðu samráði við þau ríki sem njóta styrks. EFTA-ríkin skulu leitast við að setja þessi ákvæði fyrir undirritun viljayfirlýsingarinnar.

9. gr.

    Í lok fimm ára tímabilsins og með fyrirvara um réttindi og skyldur samkvæmt samningnum munu samningsaðilarnir endurskoða þörfina á að draga úr efnahagslegu og félagslegu misræmi á Evrópska efnahagssvæðinu í ljósi 115. gr. samningsins.Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, með síðari breytingum.

    Tilgangurinn með frumvarpi þessu er að fullgilda samning um svonefnt EES- fjármagnskerfi fyrir árin 2009–2014 en skrifað var undir nýtt samkomulag við Evrópusambandið um framlög í þennan Þróunarsjóð EFTA í desember 2009. Samhliða því var endurnýjaður samningur um viðskipti með sjávarafurðir sem gilt hefur undanfarinn fimm ár. Er þetta sambærilegt fyrri samningum á þessu sviði á milli ESB og þeirra ríkja EFTA sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Samningurinn kveður á um fjárhagslegan stuðning EES/EFTA-ríkjanna við þau aðildarríki ESB sem standa illa í efnahagslegu tilliti. Markmiðið er að jafna samkeppnisstöðu þeirra aðildarríkja sem standa að innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins með því að draga úr efnahagslegri og félagslegri misskiptingu innan svæðisins. Samningarnir hafa alltaf gilt fimm ár í senn og voru þeir fyrst framlengdir árið 1999 og aftur árið 2004. Ísland hefur þó ávallt lagt á það ríka áherslu að engin lagaleg skuldbinding standi til greiðslna af þessum toga.
    Samkvæmt samkomulaginu hafa EES/EFTA-ríkin skuldbundið sig til að greiða tæpar 1.000 milljónir evra í sjóðinn fyrir árin 2009–2014 eða 198 milljónir evra á ári sem ríkin þrjú greiða sameiginlega en því til viðbótar mun Noregur árlega leggja sjóðnum til 160 milljónir evra eða samtals 800 milljónir evra. Ákvörðun um skiptingu greiðslna EES/ EFTA-ríkjanna í sjóðinn var tekin í fastanefnd EFTA 1. júlí síðastliðinn. Framlag Íslands verður að hámarki 6,8 milljónir evra á ári en það er sú fjárhæð sem Ísland greiddi árlega samkvæmt fyrri samningi. Með þessu eru hin EES/EFTA-ríkin að koma til móts við Ísland vegna þeirra efnahagsþrenginga sem landið glímir við um þessar mundir. Framlög einstakra ríkja til sjóðsins miðast við hlutfall viðkomandi ríkis af samanlagðri vergri landsframleiðslu allra EES EFTA ríkjanna og er viðmiðunarárið tveimur árum á undan útgreiðsluárinu. Töluverður tími getur hins vegar liðið frá því að vilyrði fyrir styrkjum eru veitt þar til að styrkir eru greiddir út.
    Verði frumvarpið lögfest er áætlað að það hafi í för með sér ný útgjöld fyrir ríkissjóð sem að hámarki geta orðið 34 milljónir evra yfir tímabilið eða sem svarar til um 5,3 milljarða íslenskra króna miðað við núverandi gengi gagnvart evru. Fjárhæðin gæti þó hugsanlega orðið lægri ef efnahagsþróun á Íslandi verður óhagstæðari en hinna EES/EFTA-ríkjanna og gengi íslensku krónunnar helst veikt gagnvart gjaldmiðlum viðkomandi ríkja. Þannig má áætla að hlutdeild Íslands í sameiginlegum greiðslum gæti verið um 3% eða árlega um 6 milljónir evra miðað við núverandi gengi gjaldmiðla og spár um landsframleiðslu ríkjanna í ár. Héldust þessi hlutföll óbreytt út greiðslutímann má gera ráð fyrir að heildargreiðslur Íslands vegna samningsins verði um 30 milljónir evra eða um 4,5 milljarðar króna. Gera má ráð fyrir að útgjöldin dreifist á næstu 6–8 ár og að ekki verði farið að greiða út styrki vegna samningsins fyrr en að 2–3 árum liðnum. Gert er ráð fyrir greiðslum í Þróunarsjóð EFTA í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2011 sem nema 1.420 m.kr. vegna EES-fjármagnkerfis áranna 2004–2009.