Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 71. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 75  —  71. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um olíu- og gasrannsóknir á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi.

Flm.: Kristján Þór Júlíusson, Ásbjörn Óttarsson, Einar K. Guðfinnsson,
Jón Gunnarsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson.


    Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að tryggja að nú þegar verði hafnar markvissar rannsóknir á því hvort olía eða gas finnst á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi. Leitað verði samstarfs við erlenda aðila um rannsóknir eftir því sem við á og við staðarval verði stuðst við fyrri rannsóknir.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á síðasta löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Með henni er lagt til að iðnaðarráðherra verði falið að tryggja að hafnar verði olíu- og gasrannsóknir á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi. Fyrri rannsóknir hafa gefið til kynna að olíu eða gas sé að finna í setlögum á svæðinu, til að mynda á Tjörnesbeltinu, og því er eingöngu horft til þess svæðis í tillögunni. Eðlilegt verður að telja að stuðst verði við fyrri rannsóknir við staðarval og byggt á þeim grunni sem nú þegar er til svo að ekki sé stofnað til ónauðsynlegra rannsókna eða tíma og fé sóað. Mikilvægt er að fá sem fyrst fullnægjandi niðurstöður um setlögin en til þessa hafa niðurstöður rannsókna verið ófullnægjandi.
    Á 121. löggjafarþingi lagði Guðmundur Hallvarðsson ásamt fimm öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokks fram tillögu til þingsályktunar þess efnis að hafnar yrðu rannsóknir á því hvort olíu eða gas væri að finna á landgrunni Íslands. Ályktunin tók nokkrum breytingum í meðförum iðnaðarnefndar og samþykkt tillaga var á þá leið að iðnaðarráðherra var falið að skipa starfshóp með þátttöku vísindamanna er skyldi meta hvort rétt væri að hefja markvissar rannsóknir á því hvort olía eða gas fyndist á landgrunninu.
    Tjörnesbrotabeltið undan Norðurlandi var á árunum 2000–2004 að nokkru kortlagt og rannsakað. Beltið nær u.þ.b. 150 km frá Skaga í vestri til Öxarfjarðar í austur og frá ströndum Norðurlands um 50 km leið allt að Kolbeinseyjarhrygg. Fundust á svæðinu merki um bæði lífrænt gas og efni. Árin 2003 og 2004 var sérstök áhersla lögð á Skjálfanda í rannsóknarvinnu enda hafði fjölgeislakort af svæðinu vakið áhuga vísindamanna og vakið vonir um að þar væri að finna olíu í setlögum. Gerðar voru á svæðinu margs konar rannsóknir sem þó veittu ekki fullnægjandi niðurstöðu, m.a. vegna þess að ekki tókst að ná eins löngum borkjörnum og æskilegt var. Bjarni Richter jarðfræðingur skrifaði í tímaritið Mannlíf 19. apríl 2007 (5. tbl. 24. árg.) að til að fá tæmandi upplýsingar um hvort olíu eða gas væri að finna í einhverjum mæli í Tjörnesbrotabeltinu þyrfti að standa fyrir frekari athugunum á svæðinu. Hann taldi þó að sýnt hefði verið fram á að gas- og jafnvel olíumyndandi ferli geti átt sér stað á svæðinu.
    Á undanförnum missirum hefur Drekasvæðið verið í brennidepli hvað olíuvinnslu varðar. Nú virðist þó sem Drekasvæðisævintýrið sé úti að sinni hér við land enda hafa báðir umsækjendur sem sóttu um vinnsluleyfi á svæðinu dregið umsóknir sínar til baka, m.a. vegna bágs efnahagsástand á útboðstímabilinu með tilheyrandi skorti á nýju fjármagni og mikilli áhættu sem fylgir því að hefja rannsóknir á nýju svæði eins og Drekasvæðið er.
    Ekki verður horft fram hjá því að Drekasvæðið er mjög erfitt svæði til olíuvinnslu. Aðstæður og veðrátta er erfið, dýpi er mikið og vinnsla öll því mjög kostnaðarsöm. Jafnframt hefur komið fram að vegna þess mikla dýpis sem er á svæðinu yrði erfitt eða jafnvel ógerlegt að koma þar upp hefðbundnum borpöllum og því þyrfti að leita annarra og nýrra leiða til að ná olíu upp sé hún til staðar.
    Óljóst er hvers vegna áhersla í olíuvinnslu hefur verið bundin við Drekasvæðið þegar enn er órannsakað svæði á landgrunni Íslands sem mun hægara og kostnaðarminna væri að vinna olíu úr. Er þessi tillaga því lögð fram enda líkur til að hagkvæmara og auðveldara yrði að vinna olíu á öðrum svæðum á landgrunni Íslands en á Drekasvæðinu.
    Rannsóknir á miklu gasuppstreymi í Flatey á Skjálfandaflóa hafa lengi staðið yfir og sérfræðingar Orkustofnunar hafa skrifað um þær rannsóknir. Niðurstöður hafa leitt í ljós að möguleiki sé á að olíu- og gaslindir séu að finna á svæðinu. Olía og gas eru meginundirstaða velmegunar og möguleikar á verðmætasköpun eru miklir en á árunum 2001–2008 hefur hún verið mjög lítil á Norðausturlandi.
    Frekari rannsóknir á svæðinu eru ódýrari heldur en rannsóknir á Drekasvæðinu, tekjumöguleikarnir eru gífurlegir og aukning starfa í þjónustu gæti orðið umtalsverð. Styttra er í land og öll þjónusta er nær sem auðveldar vinnu við rannsóknir til muna og gerir þær hagkvæmari og auðveldari. Þar sem áhugi fyrir því að gefa út rannsóknarleyfi fyrir olíuleit á Drekasvæðinu hefur minnkað eftir olíuslysið mikla á Mexíkóflóa liggur beint við að svæðið á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi verðið rannsakað nánar.
    Nauðsynlegt er að kanna til þrautar hvort olíuvæn setlög eða gas sé að finna á landgrunni Íslands. Miklir hagsmunir eru í húfi og sé nýtanlegar auðlindir að finna á landgrunninu getur það gjörbreytt efnahag þjóðarinnar og stuðlað að aukinni atvinnusköpun sem og betri lífsgæðum. Er þetta verkefni ekki síst mikilvægt í því efnahags- og atvinnuástandi sem nú ríkir.