Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 119. máls.

Þskj. 128  —  119. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 18/2009 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 18/2009, frá 5. febrúar 2009, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/21/EB um meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði og breytingu á tilskipun 2004/35/EB.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 18/2009, frá 5. febrúar 2009, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/21/EB um meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði og breytingu á tilskipun 2004/35/EB.
    Megintilgangurinn með tilskipun 2006/21/EB er að setja reglur um meðhöndlun úrgangs (frákasts) frá jarðefnavinnslu, við meðferð og geymslu á steinum og steinefnum og frá námuvinnslu (námuiðnaður). Innleiðing hennar kallar á lagabreytingar hér á landi og var umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar því tekin með stjórnskipulegum fyrirvara.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/21/EB um meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði og breytingu á tilskipun 2004/35/EB.
    Tilskipunin fjallar um meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði, gerð úrgangsáætlana, starfsleyfi, fjárhagslega ábyrgð og fleira. Einnig breytir gerðin tilskipun 2004/35/EB um umhverfisábyrgð þannig að námuiðnaði er bætt inn í viðauka III í þeirri tilskipun. Tilskipun 2006/21/EB tiltekur að óvirkur úrgangur og ómengaður jarðvegur frá vinnslu sé undanþeginn nokkrum ákvæðum, svo sem um fjárhagslega ábyrgð. Innleiða átti gerðina í ríkjum ESB fyrir 1. maí 2008.
    Tilskipunin setur reglur um meðhöndlun úrgangs (frákasts) frá jarðefnavinnslu, við meðferð og geymslu á steinum og steinefnum og frá námuvinnslu (námuiðnaður). Tilskipunin gildir ekki um annan úrgang en þann sem stafar beint af námuvinnslunni né heldur um úrgang frá námuvinnslu af landi (hafsbotni). Óvirkur og ómengaður úrgangur er undanþeginn nokkrum ákvæðum hennar, m.a. ákvæðum um leyfisskyldu, upplýsingar til almennings og fjárhagslega ábyrgð. Aðildarríki geta fellt niður eða dregið úr kröfum vegna geymslu á hættulausum úrgangi frá námuvinnslum ef almennum ákvæðum tilskipunarinnar er fylgt. Strangari reglur skulu gilda um þær námur þar sem spilliefni eru notuð eða falla til við námuvinnsluna og úrgangurinn er meðhöndlaður á staðnum. Almennt gildir að úrgang frá námuiðnaði skal meðhöndla á þann hátt að hann hafi ekki skaðleg áhrif á heilsu manna og umhverfi. Framkvæmdaraðili eða sá sem ber ábyrgð á meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði skal sjá til þess að áhrif úrgangs séu sem minnst á umhverfi og heilsu manna, einnig eftir lokun námunnar, og að meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði byggist á bestu fáanlegu tækni. Framkvæmdaraðilar eða aðrir sem bera ábyrgð á meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði skulu gera úrgangsáætlun sem miðar af því að lágmarka úrgang og ákveða meðhöndlun, endurnýtingu eða förgun á námuúrgangi. Hafa skal sjálfbærni í huga við áætlanagerð. Ef einhver hætta fylgir námuúrgangi skal greina hana og hanna námuna/úrgangsstöðina með tilliti til hættunnar svo hægt sé að fyrirbyggja umhverfisslys. Einnig er skylt að gera viðbragðsáætlanir vegna mengunarhættu og upplýsa almenning um þær. Gerð er sú krafa að námuúrgangsstaðir hafi starfsleyfi.
    Almenningur skal upplýstur um hvaða staðir hafa sótt um leyfi til urðunar/geymslu á námuúrgangi og hafa möguleika á að gera athugasemdir. Einnig eru sett ýmis önnur ákvæði varðandi námuúrgangsstaði, t.d. ákvæði um flokkun þeirra, hönnun, að stjórnun sé í höndum þjálfaðra aðila, ákvæði um eftirlit með starfseminni, lokun og vöktun eftir lokun.
    Koma skal í veg fyrir að úrgangsstöðvar fyrir námuúrgang hafi áhrif á vatnsból eða grunnvatn. Krefjast skal fjárhagslegrar tryggingar af framkvæmdaraðilum. Ákvæði um umhverfisábyrgð samkvæmt tilskipun 2004/35/EB skulu gilda um meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði. Stjórnvöld skulu hafa eftirlit með starfsleyfisskyldum úrgangsstöðvum fyrir námuúrgang og halda skal skrá yfir úrgangsstöðvar fyrir námuúrgang sem hefur verið lokað. Námuúrgangsstaðir sem þurfa starfsleyfi og eru starfandi 1. maí 2008 skulu uppfylla skilyrði tilskipunarinnar fyrir 1. maí 2012.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Vegna innleiðingu gerðarinnar þarf að breyta lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Námuúrgangsstaðir þurfa starfsleyfi og tilgreina þarf í lögunum að slíkt verði meðhöndlað í samræmi við hið hefðbundna kerfi um starfsleyfi fyrir mengandi starfsemi sem fer eftir lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Setja þarf inn ákvæði m.a. um að framkvæmdaraðilar skuli gera úrgangsáætlanir og skilgreina nánar hvenær námur þar sem úrgangur er meðhöndlaður eru flokkaðar sem urðunarstaðir. Einnig þarf að setja inn í lög ákvæði um að námuúrgangsstaðir þurfi að gera viðbragðsáætlanir vegna stórslysa og upplýsa almenning um þær. Í kjölfar lagabreytinga þarf að setja nýja reglugerð um úrgang frá námuiðnaði eða breyta reglugerð um meðhöndlun úrgangs. Til viðbótar við framangreint þarf að breyta fylgiskjali I í lögum nr. 7/1998 þannig að námuúrgangsstaðir séu þar tilgreindir.
    Hvað varðar kostnað vegna upptöku gerðarinnar þá verður hann metinn áður en frumvarp til innleiðingar á henni verður lagt fram á yfirstandandi þingi. Einhver kostnaður mun leggjast á Umhverfisstofnun vegna eftirlits með námuúrgangsstöðum og skýrslugjafar til Eftirlitsstofnunar EFTA um framkvæmd tilskipunarinnar.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 18/2009

frá 5. febrúar 2009

um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        XX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 122/2008 frá 7. nóvember 2008 ( 1 ).

2)        Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/21/EB frá 15. mars 2006 um meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði og breytingu á tilskipun 2004/35/EB ( 2 ).

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


XX. viðauki við samninginn breytist sem hér segir:

1.        Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 32fd (ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2006/329/EB):

        „32fe.         32006 L 0021: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/21/EB frá 15. mars 2006 um meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði og breytingu á tilskipun 2004/35/EB (Stjtíð. ESB L 102, 11.4.2006, bls. 15).“

2.         Eftirfarandi bætist við í lið 1i (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/35/EB):

        „eins og henni var breytt með:

        –         32006 L 0021: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/21/EB frá 15. mars 2006 (Stjtíð. ESB L 102, 11.4.2006, bls. 15).“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2006/21/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi 6. febrúar 2009 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.
Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2006/21/EB
frá 15. mars 2006
um meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði og breytingu á tilskipun 2004/35/EB


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 175. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ),
með hliðsjón af áliti svæðanefndarinnar ( 2 ),
í samræmi við málsmeðferðina, sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ), á grundvelli sameiginlegs texta sem sáttanefndin samþykkti 8. desember 2005,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Í orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar, sem ber yfirskriftina „Öruggur námurekstur: Eftirfylgni vegna nýlegra námuslysa“, er stjórn á meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði nefnd sem ein forgangsaðgerða. Þessi aðgerð er ætluð sem viðbót við framtaksverkefni samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/105/EB frá 16. desember 2003 um breytingu á tilskipun ráðsins 96/82/EB um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna ( 4 ) og gerð skjals um bestu, fáanlegu tækni að því er varðar meðhöndlun úrgangsgrjóts og úrkasts frá námurekstri innan ramma tilskipunar ráðsins 96/61/EB frá 24. september 1996 um samþættar mengunarvarnir og eftirlit með mengun ( 5 ).
2)          Í ályktun sinni ( 6 ) frá 5. júlí 2001 um þessa orðsendingu tók Evrópuþingið eindregið undir að þörf væri fyrir tilskipun um úrgang frá námuiðnaði.
3)          Í ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1600/2002/EB um sjöttu aðgerðaáætlun Bandalagsins á sviði umhverfismála ( 7 ) er það markmið sett varðandi úrgang, sem enn fellur til, að dregið verði úr hættunni sem er honum samfara og að hann hafi í för með sér eins litla áhættu og unnt er, að endurnýting hafi forgang og þá einkum endurvinnsla, að draga beri sem mest úr magni úrgangs sem fer til förgunar og að honum sé fargað á öruggan hátt og að úrgangur, sem ætlaður er til förgunar, skuli meðhöndlaður eins nálægt þeim stað þar sem hann fellur til og kostur er, svo fremi það leiði ekki til minni skilvirkni í meðhöndlun úrgangs. Í ákvörðun nr. 1600/2002/EB er einnig mælt fyrir um að það sé forgangsaðgerð, með tilliti til slysa og hamfara, að móta ráðstafanir sem stuðla að því að koma í veg fyrir hættu á stórslysum, einkum í tengslum við námugröft, og móta ráðstafanir að því er varðar námuúrgang. Í ákvörðun nr. 1600/2002/EB er einnig tilgreind sú forgangsaðgerð að stuðla að sjálfbærri stjórnun í námuiðnaði í því skyni að draga úr umhverfisáhrifum hans.
4)          Í samræmi við markmiðin í umhverfisstefnu Bandalagsins er nauðsynlegt að mæla fyrir um lágmarkskröfur í því skyni að koma í veg fyrir eða minnka eins og framast er unnt hvers kyns skaðleg áhrif á umhverfið eða heilbrigði manna af völdum meðhöndlunar úrgangs frá námuiðnaði, s.s. úrkasts (þ.e. fasts eða leðjukennds úrgangs sem verður eftir að lokinni meðhöndlun jarðefna með ýmiss konar tækni), úrgangsgrjóts og yfirborðsjarðvegs (þ.e. efnisins sem flutt er við námustarfsemi til að komast að málmgrýti eða öðru jarðefni, einnig á þróunarstiginu áður en framleiðsla hefst) og gróðurmoldar (þ.e. efsta lags jarðvegsins), að því tilskildu að um úrgang sé að ræða samkvæmt skilgreiningu í tilskipun ráðsins 75/442/EBE frá 15. júlí 1975 um úrgang ( 1 ).
5)          Í samræmi við 24. mgr. Jóhannesarborgar-áætlunarinnar um sjálfbæra þróun, sem samþykkt var innan rammasamnings Sameinuðu þjóðanna á leiðtogafundi um sjálfbæra þróun 2002, er nauðsynlegt að vernda þann grundvöll náttúruauðlinda sem hagþróun og félagsleg þróun byggist á og snúa við núverandi leitni til hnignunar náttúruauðlinda með því að stjórna þessum grundvelli náttúruauðlindanna á sjálfbæran og samþættan hátt.
6)          Til samræmis við það gildir þessi tilskipun um meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði á landi, þ.e. úrgangs, sem fellur til við leit, nám (m.a. á þróunarstigi áður en vinnsla hefst), meðhöndlun og geymslu verðmætra jarðefna og um grjótnám. Slík meðhöndlun skal þó endurspegla meginreglurnar og forgangsatriðin sem tilgreind eru í tilskipun 75/442/EB, en í samræmi við ii. lið b-liðar 1. mgr. 2. gr. gildir hún áfram um alla þætti meðhöndlunar úrgangs frá námuiðnaðinum sem þessi tilskipun tekur ekki til.
7)          Til að komast hjá tvíverknaði og óhóflegum stjórnsýslukröfum skal gildissvið þessarar tilskipunar takmarkast við þær sértæku aðgerðir sem taldar eru skipta mestu máli við að uppfylla markmið hennar.
8)          Til samræmis við það gilda ákvæði þessarar tilskipunar ekki um strauma úrgangs sem tengjast ekki námi eða meðhöndlun beint, t.d. matarúrgang, olíuúrgang, úr sér gengin ökutæki, notaðar rafhlöður eða rafgeyma, enda þótt þessi úrgangur verði til við nám eða meðhöndlun jarðefna. Meðhöndlun slíks úrgangs skal falla undir ákvæði tilskipunar 75/442/EBE eða tilskipunar ráðsins 1999/31/EB frá 26. apríl 1999 um urðun úrgangs ( 2 ) eða annarrar viðeigandi löggjafar Bandalagsins, eins og raunin er um úrgang sem fellur til á leitar-, námu- eða meðhöndlunarsvæði og fluttur er á stað sem er ekki úrgangsstöð samkvæmt þessari tilskipun.
9)          Þá gildir þessi tilskipun hvorki um úrgang af völdum leitar, náms eða meðhöndlunar verðmætra jarðefna á hafi úti né ídælingu vatns eða endurídælingu grunnvatns sem er dælt upp, en hins vegar gilda einungis takmarkaðar kröfur um óvirkan úrgang, hættulausan úrgang sem fellur til við leit, ómengaðan jarðveg og úrgang sem fellur til við nám, meðhöndlun og geymslu mós þar eð umhverfisáhætta samfara slíkum úrgangi og jarðvegi er minni. Aðildarríkin geta dregið úr tilteknum kröfum eða fellt þær niður að því er varðar hættulausan, óvirkan úrgang. Þessar undanþágur skulu þó ekki gilda um úrgangsstöðvar í A-flokki.
10)          Að auki skal þessi tilskipun, enda þótt hún taki til meðhöndlunar úrgangs frá námuiðnaði sem e.t.v. er geislavirkur, ekki taka til þátta sem sérstaklega eiga við um geislavirkni, enda fellur það mál undir sáttmála Kjarnorkubandalags Evrópu.
11)          Í því skyni að halda samræmi við meginreglurnar og forgangsatriðin sem tilgreind eru í tilskipun 75/442/EBE, einkum í 3. og 4. gr., skulu aðildarríkin sjá til þess að rekstraraðilar sem tengjast námuiðnaði geri allar nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir hvers kyns raunveruleg eða hugsanleg, neikvæð áhrif á umhverfið eða heilbrigði manna, sem rekja má til meðhöndlunar úrgangs frá námuiðnaði, eða draga úr þeim eins og framast er unnt.
12)          Þessar ráðstafanir skulu m.a. vera byggðar á bestu, fáanlegu tækni, eins og hún er skilgreind í tilskipun 96/61/EB, og þegar slíkri tækni er beitt er það aðildarríkisins að ákvarða hvernig taka skuli, eftir atvikum, tillit til tæknilegra eiginleika úrgangsstöðvarinnar, landfræðilegrar staðsetningar hennar og staðbundinna umhverfisskilyrða.
13)          Aðildarríkin skulu sjá til þess að rekstraraðilar í námuiðnaðinum geri viðeigandi áætlanir um meðhöndlun úrgangs til að koma í veg fyrir eða lágmarka úrgang frá námuiðnaði og til meðhöndlunar á honum, endurnýtingar og förgunar. Þessar áætlanir skulu gerðar þannig að viðeigandi kostir varðandi skipulag á meðhöndlun úrgangs séu tryggðir með það í huga að myndun úrgangs og skaðsemi hans verði sem minnst og að hvatt sé til endurnýtingar úrgangs. Auk þess skal lýsa eiginleikum úrgangs frá námuiðnaðinum m.t.t. samsetningar hans til að unnt verði að tryggja eins og framast er kostur að úrgangurinn hvarfist einungis á fyrirsjáanlegan hátt.
14)          Til að lágmarka slysaáhættu og tryggja umhverfinu og heilbrigði manna öfluga vernd skulu aðildarríkin sjá til þess að sérhver rekstraraðili úrgangsstöðvar í A-flokki samþykki og beiti áætlun um stórslysavarnir að því er varðar úrgang. Að því er varðar forvarnarráðstafanir skal þetta fela í sér gerð öryggisstjórnunarkerfis og neyðaráætlana, sem grípa skal til ef slys verður, og dreifingu upplýsinga um öryggismál til þeirra sem líklegt er að stórslys hafi áhrif á. Ef slys verða skal rekstraraðilum vera skylt að veita lögbærum yfirvöldum allar nauðsynlegar upplýsingar til að unnt sé að draga úr raunverulegum eða hugsanlegum umhverfisspjöllum. Þessar tilteknu kröfur gilda ekki um úrgangsstöðvar í tengslum við námuiðnað sem falla undir gildissvið tilskipunar 96/82/EB.
15)          Ekki skal setja úrgangsstöð í A-flokk eingöngu á grundvelli áhættu að því er varðar öryggi og heilsuvernd starfsmanna í námuiðnaði sem fellur undir aðra löggjöf Bandalagsins, einkum undir tilskipanir 92/91/EBE ( 1 ) og 92/104/EBE ( 2 ).
16)          Vegna sérstaks eðlis meðhöndlunar á úrgangi frá námuiðnaðinum er nauðsynlegt að innleiða sérstaka málsmeðferð fyrir umsóknir og leyfi að því er varðar úrgangsstöðvar sem taka á móti slíkum úrgangi. Aðildarríkin skulu auk þess gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að lögbær yfirvöld endurskoði skilyrði leyfisins reglulega og uppfæri þau ef nauðsyn krefur.
17)          Þess skal krafist af aðildarríkjunum að þau sjái til þess, í samræmi við alþjóðasamning efnahagsnefndar Sameinuðu þjónanna (UNECE) um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum frá 25. júní 1998 (Árósasamninginn), að almenningur sé upplýstur um umsóknir um leyfi fyrir meðhöndlun úrgangs og að haft sé samráð við almenning, sem málið varðar, áður en leyfi fyrir meðhöndlun úrgangs er veitt.
18)          Nauðsynlegt er að tilgreina nákvæmlega þær kröfur sem úrgangsstöðvar, sem þjóna námuiðnaðinum, skulu uppfylla að því er varðar staðsetningu, stjórnun, eftirlit, lokun, forvarnaraðgerðir og verndunaraðgerðir sem grípa þarf til gegn hvers kyns umhverfisógn sem steðjar að, hvort sem litið er til skamms eða langs tíma, og þó einkum gegn mengun grunnvatns sem verður vegna þess að sigvatn sígur út í jarðveginn.
19)          Nauðsynlegt er að skilgreina vel úrgangsstöðvar í A-flokki sem meðhöndla úrgang frá námuiðnaðinum og taka tillit til líklegra áhrifa hvers kyns mengunar vegna starfsemi slíkra stöðva eða slyss þar sem úrgangur sleppur úr slíkri stöð.
20)          Um úrgang, sem komið er aftur fyrir í námugryfjunum, annaðhvort til endurmótunar eða vegna framkvæmda í tengslum við vinnslu jarðefna, s.s. gerðar eða viðhalds í námugryfjum á aðgangsleiðum fyrir vélar, skábrautum fyrir flutninga, þiljum, öryggistálmum eða vegöxlum, þurfa einnig að gilda tilteknar kröfur til að vernda yfirborðsvatn og/eða grunnvatn, tryggja stöðugleika slíks úrgangs og sjá til þess að viðeigandi vöktun fari fram eftir að þessari starfsemi hefur verið hætt. Til samræmis við það gilda þær kröfur þessarar tilskipunar, sem fjalla einvörðungu um „úrgangsstöðvar“, ekki um slíkan úrgang, ef frá eru taldar kröfurnar sem nefndar eru í sértæku ákvæðunum um námugryfjur.
21)          Í því skyni að tryggja að bygging og viðhald úrgangsstöðva, sem taka við úrgangi frá námuiðnaði, fari fram á réttan hátt skulu aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að tæknilega hæfir aðilar sjái um hönnun, val á staðsetningu og rekstur slíkra stöðva. Nauðsynlegt er að tryggja að menntun og þekking rekstraraðila og starfsfólks veiti þeim þá færni sem þörf er á. Auk þess skulu lögbær yfirvöld fullvissa sig um að rekstraraðilar tryggi viðeigandi tilhögun að því er varðar byggingu og viðhald nýrra úrgangsstöðva eða stækkun eða breytingar á úrgangsstöðvum, sem fyrir eru, m.a. í kjölfar lokunar.
22)          Nauðsynlegt er að setja verklagsreglur um vöktun meðan starfsemi fer fram í úrgangsstöðvum og eftir að þeim hefur verið lokað. Mæla skal fyrir um tímabil eftir lokun til vöktunar og eftirlits með úrgangsstöðvum í A- flokki í réttu hlutfalli við áhættuna, sem stafar af einstökum úrgangsstöðvum, á svipaðan hátt og krafist er í tilskipun 1999/31/EB.
23)          Nauðsynlegt er að skilgreina hvenær og hvernig úrgangsstöð, sem þjónar námuiðnaðinum, skal lokað og kveða á um skyldur og ábyrgð rekstraraðilans á tímabilinu eftir lokun.
24)          Aðildarríkin skulu krefjast þess að rekstraraðilar í námuiðnaði beiti vöktun og stjórnsýslueftirliti til að koma í veg fyrir mengun vatns og jarðvegs og greina öll skaðleg áhrif sem úrgangsstöðvar þeirra kunna að hafa á umhverfið eða heilbrigði manna. Í því skyni að halda mengun vatns í lágmarki skal losun úrgangs í viðtökuvatnshlot vera í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB frá 23. október 2000 um aðgerðaramma Bandalagsins um stefnu í vatnsmálum ( 1 ). Þá skal, með því að nota bestu, fáanlegu tækni, draga úr styrk sýaníðs og sýaníðssambanda í vatnsgryfjum undir úrkast frá tilteknum greinum námuiðnaðar eins og framast er kostur vegna skaðlegra áhrifa þeirra og eiturhrifa. Til að koma í veg fyrir slík áhrif skal setja viðmiðunarmörk fyrir hámarksstyrk til samræmis við það og ætíð í samræmi við sérkröfur þessarar tilskipunar.
25)          Þess skal krafist af rekstraraðila úrgangsstöðvar sem þjónar námuiðnaðinum að hann leggi fram fjárhagslega tryggingu eða annað sambærilegt í samræmi við málsmeðferð, sem aðildarríkin samþykkja, þannig að tryggt sé að staðið verði við allar skuldbindingar í tengslum við leyfið, m.a. þær sem lúta að lokun úrgangsstöðvarinnar og tímabilinu eftir lokun hennar. Fjárhagslega tryggingin skal vera nægileg til að standa straum af kostnaði við endurmótun lands sem orðið hefur fyrir áhrifum af úrgangsstöðinni, m.a. í úrgangsstöðinni sjálfri, eins og lýst er í áætluninni um meðhöndlun úrgangs sem gerð hefur verið í samræmi við 5. gr. og sem krafist er í tengslum við leyfið skv. 7. gr., og skal óháður þriðji aðili með viðeigandi starfsréttindi annast endurmótunina. Einnig er nauðsynlegt að slík trygging sé veitt áður en afsetning úrgangs hefst í úrgangsstöðinni og að hún sé aðlöguð reglulega. Í samræmi við mengunarbótaregluna og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/35/EB frá 21. apríl 2004 um umhverfisábyrgð í tengslum við varnir gegn umhverfistjóni og úrbætur vegna þess ( 2 ) er auk þess mikilvægt að skýra að rekstraraðili úrgangsstöðvar sem þjónar námuiðnaðinum ber viðeigandi bótaábyrgð að því er varðar umhverfisspjöll af völdum starfseminnar eða yfirvofandi hættu á slíkum spjöllum.
26)          Ef um er að ræða starfsemi úrgangsstöðva, sem þjóna námuiðnaðinum og líklegt er að hafi umtalsverð, skaðleg umhverfisáhrif yfir landamæri og hvers kyns áhættu fyrir heilbrigði manna á yfirráðasvæði annars aðildarríkis í kjölfarið, skal vera til sameiginleg málsmeðferð til að auðvelda samráð milli nágrannalanda. Þetta skal gert í því skyni að sjá til þess að nægileg upplýsingaskipti verði milli yfirvalda og að almenningi sé tilkynnt með tilhlýðilegum hætti um allar úrgangsstöðvar sem gætu haft skaðleg áhrif á umhverfið í fyrrgreinda aðildarríkinu.
27)          Nauðsynlegt er að aðildarríkin sjái til þess að lögbær yfirvöld komi á skilvirku skoðunarkerfi eða geri hliðstæðar eftirlitsráðstafanir að því er varðar úrgangsstöðvar sem þjóna námuiðnaðinum. Án tillits til skuldbindinga rekstraraðilans samkvæmt leyfinu og áður en afsetning úrgangs hefst skal fara fram skoðun til að sannreyna að skilyrðin fyrir leyfinu hafi verið uppfyllt. Auk þess skulu aðildarríkin sjá til þess að rekstraraðilar og arftakar þeirra haldi uppfærða skrá í tengslum við slíkar úrgangsstöðvar og að rekstraraðilar veiti arftökum sínum upplýsingar um ástand úrgangsstöðvarinnar og starfsemi hennar.
28)          Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni reglulegar skýrslur um framkvæmd þessarar tilskipunar, m.a. upplýsingar um slys eða tilvik þar sem legið hefur við slysi. Framkvæmdastjórninni ber að leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið á grundvelli þessara skýrslna.
29)          Aðildarríkin skulu mæla fyrir um reglur um viðurlög við brotum á þessari tilskipun og tryggja að þeim sé framfylgt. Þessi viðurlög skulu vera árangursrík, í réttu hlutfalli við brot og letjandi.
30)          Nauðsynlegt er að aðildarríkin sjái til þess að gerð sé skrá yfir lokaðar úrgangsstöðvar á yfirráðasvæðum þeirra, þ.m.t. þær sem hafa verið lagðar niður, til að unnt sé að tilgreina þær sem valda alvarlegum, neikvæðum umhverfisáhrifum eða gætu orðið alvarleg ógnun við heilbrigði manna eða umhverfið til skamms eða meðallangs tíma. Þessar skrár skulu verða grundvöllur viðeigandi áætlunar um ráðstafanir.
31)          Framkvæmdastjórnin skal sjá til þess að viðeigandi skipti fari fram á vísindalegum og tæknilegum upplýsingum um það hvernig halda skuli skrá yfir lokaðar úrgangsstöðvar á vettvangi aðildarríkjanna og um þróun aðferða til að aðstoða aðildarríkin við að uppfylla ákvæði þessarar tilskipunar þegar lokaðar úrgangsstöðvar eru endurreistar. Auk þess skal tryggja skipti á upplýsingum um bestu, fáanlegu tækni innan aðildarríkjanna og milli þeirra.
32)          Til að samræma beitingu 6. gr. sáttmálans verða kröfur um umhverfisvernd að falla að framkvæmd stefnu og aðgerða Bandalagsins þannig að stuðlað sé að sjálfbærri þróun.
33)          Þessi tilskipun getur orðið gagnlegt tæki þegar sannprófa skal að verkefni, sem fengið hafa fjárframlög frá Bandalaginu í tengslum við þróunaraðstoð, feli í sér nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir hugsanleg, neikvæð áhrif á umhverfið eða draga úr þeim eins og framast er unnt. Slík nálgun er í samræmi við 6. gr. sáttmálans, einkum að því er varðar það að fella kröfur um umhverfisvernd inn í stefnu Bandalagsins á sviði þróunarsamvinnu.
34)          Aðildarríkin geta ekki hvert um sig náð markmiðum þessarar tilskipunar, þ.e. að bæta meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaðinum, á fullnægjandi hátt þar eð röng meðhöndlun slíks úrgangs getur valdið mengun sem berst yfir landamæri. Samkvæmt mengunarbótareglunni er m.a. nauðsynlegt að hafa í huga hvers kyns skaða á umhverfinu af völdum úrgangs frá námuiðnaðinum og mismunandi beiting landanna á þeirri meginreglu getur leitt til verulegs misræmis að því er varðar kostnað rekstraraðila. Mismunandi stefna landanna að því er varðar meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaðinum torveldar einnig að markmiðinu um að tryggja lágmarksstig öruggrar og ábyrgrar meðhöndlunar slíks úrgangs og auka endurheimt hans eins og kostur er í gervöllu Bandalaginu verði náð. Þar eð markmið þessarar tilskipunar nást betur á vettvangi Bandalagsins vegna umfangs hennar og áhrifa getur Bandalagið samþykkt ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, sem er sett fram í þeirri grein, ganga ákvæði þessarar tilskipunar ekki lengra en nauðsynlegt er til að þessu markmiði verði náð.
35)          Nauðsynlegar ráðstafanir til að koma þessari tilskipun í framkvæmd skulu samþykktar í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 1 ).
36)          Reglur skulu settar um rekstur úrgangsstöðva sem eru starfandi þegar þessi tilskipun er lögleidd svo að grípa megi til nauðsynlegra ráðstafana, innan tilgreinds tíma, í því skyni að laga stöðvarnar að kröfunum í þessari tilskipun.
37)          Í samræmi við 34. lið samstarfssamningsins milli stofnana um betri lagasetningu ( 2 ) eru aðildarríkin hvött til þess, bæði í eigin þágu og í þágu Bandalagsins, að semja og birta sínar eigin töflur sem, eftir því sem kostur er, sýna samsvörun milli þessarar tilskipunar og lögleiðingarráðstafananna.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.
Viðfangsefni

Í þessari tilskipun er kveðið á um ráðstafanir, tilhögun og leiðbeiningar í því skyni að koma í veg fyrir eða draga sem mest má verða úr skaðlegum áhrifum á umhverfið, einkum á vatn, andrúmsloft, jarðveg, plöntur, dýr og landslag, af völdum meðhöndlunar úrgangs frá námuiðnaðinum.

2. gr.
Gildissvið

1.     Með fyrirvara um 2. og 3. mgr. tekur þessi tilskipun til meðhöndlunar úrgangs af völdum leitar, náms, meðhöndlunar og geymslu verðmætra jarðefna og frá grjótnámi, hér á eftir nefndur „úrgangur frá námuiðnaði“.
2.     Eftirfarandi skal vera undanskilið gildissviði þessarar tilskipunar:
a)    úrgangur, sem fellur til við leit, nám og meðhöndlun verðmætra jarðefna og grjótnám en ekki beint af völdum slíkrar starfsemi,
b)    úrgangur, sem fellur til við leit, nám og meðhöndlun verðmætra jarðefna,
c)    ídæling vatns og endurídæling grunnvatns eins og skilgreint er í fyrsta og öðrum undirlið j-liðar 3. mgr. 11. gr. tilskipunar 2000/60/EB, að því marki sem sú grein heimilar.
3.     Óvirkur úrgangur og ómengaður jarðvegur eftir leit, nám, meðhöndlun og geymslu verðmætra jarðefna og grjótnám og úrgangur af völdum mótekju og meðhöndlunar og geymslu á mó falla ekki undir 7. gr., 8. gr., 11. gr. (1. og 3. mgr.), 12. gr., 13. gr. (6. mgr.), 14. gr. og 16. gr., nema úrgangurinn hafi verið afsettur í úrgangsstöð í A-flokki.
Lögbært yfirvald getur dregið úr eða fallið frá kröfunum um afsetningu hættulauss úrgangs af völdum leitar að verðmætum jarðefnum, nema olíu og gufunarseti (e. evaporites), öðru en gifsi og anhýdríti, og um afsetningu ómengaðs jarðvegs og úrgangs af völdum mótekju, og meðhöndlunar og geymslu á mó ef það telur að kröfurnar í 4. gr. hafi verið uppfylltar.
Aðildarríkin geta dregið úr eða fallið frá kröfunum í 11. gr. (3. mgr.), 12. gr. (5. og 6. mgr), 13. gr. (6. mgr.), 14. gr. og 16. gr. að því er varðar hættulausan, virkan úrgang, nema hann hafi verið afsettur í úrgangsstöð í A-flokki.
4.     Með fyrirvara um aðra löggjöf Bandalagsins tekur tilskipun 1999/31/EB ekki til úrgangs sem fellur undir gildissvið þessarar tilskipunar.

3. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1)    „úrgangur“: úrgangur eins og hann er skilgreindur í a-lið 1. gr. tilskipunar 75/442/EBE,
2)    „hættulegur úrgangur“: sá úrgangur sem er skilgreindur í 4. mgr. 1. gr. tilskipunar ráðsins 91/689/EBE frá 12. desember 1991 um hættulegan úrgang ( 1 ),
3)    „óvirkur úrgangur“: úrgangur sem tekur ekki neinum umtalsverðum eðlis-, efna- eða líffræðilegum breytingum. Óvirkur úrgangur leysist ekki upp, brennur ekki eða hvarfast á annan eðlis- eða efnafræðilegan hátt, brotnar ekki niður í náttúrunni eða hefur skaðleg áhrif á annað efni sem hann kemst í snertingu við þannig að líklegt sé að það hafi í för með sér mengun umhverfis eða geti skaðað heilbrigði manna. Heildarútskolunin og heildarinnihald mengandi efna í úrganginum og visteiturhrif af völdum sigvatnsins skulu vera óveruleg og umfram allt skal ekki vera hætta á að gæði yfirborðs- eða grunnvatns spillist,
4)    „ómengaður jarðvegur“: jarðvegur sem er tekinn úr efsta jarðvegslaginu við námuvinnslu og telst ekki mengaður samkvæmt lögum aðildarríkisins, sem staðurinn tilheyrir, eða samkvæmt lögum Bandalagsins,
5)    „verðmætt jarðefni“ eða „jarðefni“: náttúrulegt efni, af lífrænum eða ólífrænum toga, í jarðskorpunni, s.s. eldsneyti til orkuvinnslu, málmgrýti og jarðefni til iðnaðar og byggingarstarfsemi, þó ekki vatn,
6)    „námuiðnaður“: allar stöðvar og fyrirtæki sem stunda vinnslu verðmætra jarðefna, ofan- eða neðanjarðar, í atvinnuskyni, m.a. vinnsla með borholum, eða meðhöndlun á efninu sem unnið er,
7)    „á hafi úti“: sá hluti hafs og hafsbotns sem nær út frá fjörumörkum við venjuleg sjávarföll eða meðalsjávarföll,
8)    „meðhöndlun“: vélræn, eðlisræn, líffræðileg, varmatengd eða efnafræðileg ferli eða samsetning ferla sem beitt er á verðmæt jarðefni, þ.m.t. grjótnám, í því skyni að vinna jarðefnið, m.a. breyting á stærð, flokkun, skiljun og útskolun, og endurvinnsla úrgangs sem áður hefur verið fleygt, þó ekki bræðsla, framleiðsluferli þar sem hiti er notaður (annað en brennsla kalksteins) og málmvinnsluaðferðir,
9)    „úrkast“: fastur eða leðjukenndur úrgangur sem verður eftir að lokinni meðhöndlun jarðefna með skiljunaraðferðum (t.d. mulningi, mölun, stærðarflokkun, fleytingu og öðrum eðlisefnafræðilegum aðferðum) til að skilja verðmætu jarðefnin frá verðminna bergi,
10)    „haugur“: manngerð aðstaða þar sem fastur úrgangur er afsettur á yfirborði,
11)    „stífla“: mannvirki sem hannað er til að geyma eða halda vatni og/eða úrgangi í vatnsgryfju,
12)    „vatnsgryfja“: náttúruleg eða manngerð aðstaða, með mismiklu magni af óbundnu vatni, þar sem fínkornuðum úrgangi, venjulega úrkasti, frá meðhöndlun verðmætra jarðefna og frá hreinsun og endurnýtingu vinnsluvatns er komið fyrir,
13)    „sýaníð sem losnar með veikri sýru“: sýaníð og sýaníðsambönd sem losna með veikri sýru við tiltekið sýrustig,
14)    „sigvatn“: hvers konar vökvi, sem hripar gegnum afsetta úrganginn og losnar frá úrgangsstöð eða helst í henni, þ.m.t. mengað frárennslisvatn, og getur haft skaðleg áhrif á umhverfið ef hann er ekki meðhöndlaður á viðeigandi hátt,
15)    „úrgangsstöð“: hvers konar svæði sem er ætlað fyrir söfnun eða afsetningu úrgangs frá námuiðnaði, hvort sem hann er í föstu eða fljótandi formi, lausn eða sviflausn, á eftirtöldum tímabilum:
    —    engin tímamörk fyrir úrgangsstöðvar í A- flokki og stöðvar fyrir úrgang sem skilgreindur er hættulegur í áætluninni um meðhöndlun úrgangs,
    —    á tímabili sem er lengra en sex mánuðir fyrir stöðvar fyrir hættulegan úrgang sem óvænt verður til,
    —    á tímabili sem er lengra en eitt ár fyrir úrgang sem er hvorki hættulaus né óvirkur,
    —    á tímabili sem er lengra en þrjú ár fyrir stöðvar fyrir ómengaðan jarðveg, hættulausan úrgang sem fellur til við leit og úrgang sem fellur til við tekju, meðhöndlun og geymslu mós og fyrir óvirkan úrgang.
    Til slíkra stöðva teljast allar stíflur eða önnur mannvirki sem ætluð eru til að loka af slíka stöð, takmarka hana, afmarka hana eða styðja við hana á annan hátt og einnig skulu til þeirra teljast m.a. haugar og vatnsgryfjur, en undanskildar eru námugryfjur sem úrgangi er komið fyrir í eftir jarðefnanám til endurmótunar eða vegna mannvirkjagerðar,
16)    „stórslys“: atvik á staðnum, meðan á vinnslu stendur, í tengslum við meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði í öllum starfsstöðvum sem þessi tilskipun tekur til, sem hefur í för með sér alvarlega hættu fyrir heilbrigði manna og/eða umhverfið, hvort heldur sem er samstundis eða í tímans rás, á staðnum eða utan hans.
17)    „hættulegt efni“: efni, samsett efni eða efnablanda sem er hættuleg í skilningi tilskipunar 67/548/EBE ( 1 ) eða tilskipunar 1999/45/EB ( 2 ),
18)    „besta, fáanlega tækni“: sú tækni sem er skilgreind í 11. mgr. 2. gr. tilskipunar 96/61/EB,
19)    „viðtökuvatnshlot“: yfirborðsvatn, grunnvatn, árósavatn og strandsjór samkvæmt skilgreiningunum í 1., 2., 6. og 7. mgr. 2. gr. tilskipunar 2000/60/EB,
20)    „endurmótun“: meðhöndlun lands, sem hefur orðið fyrir áhrifum af úrgangsstöð, þannig að það sé lagfært þannig að viðunandi teljist, einkum m.t.t. jarðvegsgæða, villtra lífvera, náttúrulegra búsvæða, ferskvatnskerfa, landslags og viðeigandi nytja,
21)    „leit“: könnun, sem beinist að því að finna jarðefni, sem hafa efnahagslegt gildi, m.a. sýnataka, sýnataka í stórum stíl, borun og skurðgröftur, en ekki vinna sem þarf að fara fram í tengslum við þróun slíkra jarðefna, auk allrar starfsemi sem beinlínis er tengd námurekstri sem fyrir er,
22)    „almenningur“: einn eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar og, í samræmi við landslöggjöf eða venju, samtök þeirra, félög eða hópar,
23)    „almenningur sem málið varðar“: almenningur sem ákvarðanataka um umhverfismál skv. 6. og 7. gr. þessarar tilskipunar hefur, eða líklegt er að hafi, áhrif á eða almenningur sem hefur hagsmuna að gæta, en samkvæmt þessari skilgreiningu skulu frjáls félagasamtök, sem stuðla að umhverfisvernd og uppfylla öll skilyrði landslaga, teljast hafa slíkra hagsmuna að gæta,
24)    „rekstraraðili“: einstaklingur eða lögaðili, sem ber ábyrgð á meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði í samræmi við landslög aðildarríkisins þar sem meðhöndlun úrgangsins fer fram, m.a. að því er varðar geymslu á úrgangi frá námuiðnaði um stundarsakir, rekstrartímabilið og tímabilið í kjölfar lokunar.
25)    „úrgangshafi“: framleiðandi úrgangs frá námuiðnaði eða einstaklingurinn eða lögpersónan sem hefur hann í vörslu sinni,
26)    „lögbær aðili“: einstaklingur sem hefur tæknikunnáttu og reynslu, samkvæmt skilgreiningu í landslögum aðildarríkisins þar sem einstaklingurinn starfar, til að annast þær skyldur sem af þessari tilskipun leiðir,
27)    „lögbært yfirvald“: yfirvald eða yfirvöld sem aðildarríki tilnefnir og bera skal ábyrgð á að staðið sé við þær skuldbindingar sem af þessari tilskipun leiðir,
28)    „athafnasvæði“: allt landsvæði sem er á tilteknum stað undir stjórn rekstraraðila,
29)     „umtalsverð breyting“: breyting á skipulagi eða rekstri úrgangsstöðvar, sem getur haft umtalsverð, neikvæð áhrif á heilbrigði manna eða umhverfið, að áliti lögbærs yfirvalds.

4. gr.
Almennar kröfur

1.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að úrgangur frá námuiðnaði sé meðhöndlaður þannig að heilbrigði manna stafi ekki hætta af og að ferlin og aðferðirnar valdi ekki skaða á umhverfinu og séu m.a. áhættulaus að því er varðar vatn, andrúmsloft, jarðveg, plöntur og dýr, auk þess sem þau skulu hvorki valda óþægindum með hávaða eða lykt né hafa skaðleg áhrif á landslag eða markverða staði. Aðildarríkin skulu einnig gera nauðsynlegar ráðstafanir til að banna að úrgangur frá námuiðnaði sé skilinn eftir, honum hent eða að hann sé afsettur án eftirlits.
2.     Aðildarríkin skulu tryggja að rekstraraðilinn geri allar nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir eða draga úr, eins og framast er kostur, hvers kyns skaðlegum áhrifum á umhverfið og heilbrigði manna sem verða vegna meðhöndlunar úrgangs frá námuiðnaði. Í þessu felast m.a. stjórn úrgangsstöðvar, einnig eftir að henni hefur verið lokað, og stórslysavarnir í tengslum við stöðina ásamt því að draga úr afleiðingum stórslysa fyrir umhverfið og heilbrigði manna.
3.     Ráðstafanirnar í 2. mgr. skulu m.a. grundvallaðar á bestu, fáanlegu tækni, án þess þó að mælt sé fyrir um notkun tiltekinnar tækni eða aðferðar, og skal taka tillit til tæknilegra eiginleika úrgangsstöðvarinnar, landfræðilegrar staðsetningar hennar og umhverfisskilyrða á staðnum.

5. gr.
Áætlun um meðhöndlun úrgangs

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að rekstraraðilinn semji áætlun um meðhöndlun úrgangs í tengslum við lágmörkun, meðhöndlun, endurheimt og förgun úrgangs frá námuiðnaði m.t.t. meginreglunnar um sjálfbæra þróun.
2.     Áætlunin um meðhöndlun úrgangs skal fela í sér eftirtalin markmið:
a)    að koma í veg fyrir eða draga úr tilurð úrgangs og skaðsemi hans, einkum þannig að tekið sé tillit til:
    i.    meðhöndlunar úrgangs í hönnunarferlinu og við val á aðferð við nám og meðhöndlun jarðefna,
    ii.    breytinganna sem úrgangur frá námuiðnaði kann að taka í tengslum við stækkun á yfirborðsfleti og áhrifa sem hann verður fyrir vegna skilyrða yfir yfirborði landsins,
    iii.    þess að úrgangi frá námuiðnaði sé komið fyrir í námugryfjunni á ný eftir að jarðefnið hefur verið numið, eins og telst tæknilega og efnahagslega hagkvæmt og umhverfisvænt í samræmi við gildandi umhverfisstaðla á vettvangi Bandalagsins og, eftir atvikum, kröfurnar í þessari tilskipun,
    iv.    þess að gróðurmold sé sett aftur á sinn stað eftir að úrgangsstöðinni hefur verið lokað eða, sé það ekki raunhæft, að hún sé notuð aftur annars staðar,
    v.    notkunar á hættuminni efnum við meðhöndlun verðmætra jarðefna,
b)    að hvetja til endurheimtar úrgangs frá námuiðnaði með endurnýtingu, endurnotkun eða endurvinnslu slíks úrgangs þar sem slíkt er umhverfisvænt í samræmi við gildandi umhverfisstaðla á vettvangi Bandalagsins og, eftir atvikum, kröfurnar í þessari tilskipun,
c)    að tryggja örugga förgun úrgangs frá námuiðnaði til skamms og langs tíma, einkum með því að taka, á hönnunarstiginu, tillit til meðhöndlunar meðan á rekstri stöðvarinnar stendur og eftir að henni hefur verið lokað og með því að velja útfærslu:
    i.    þar sem vöktun, eftirlit og stjórnun eru í lágmarki og jafnvel engin að lokum að því er varðar lokuðu úrgangsstöðina,
    ii.    sem kemur í veg fyrir, eða lágmarkar a.m.k., öll neikvæð áhrif til langs tíma, t.d. þau sem rekja má til fars mengunarefna úr úrgangsstöðinni í loft eða vatn, og
    iii.    sem tryggir til langs tíma jarðtæknilegan stöðugleika allra stíflna eða hauga sem ná upp fyrir yfirborð landsins eins og það var áður.
3.     Í áætluninni um meðhöndlun úrgangs skulu a.m.k. koma fram eftirfarandi þættir:
a)    flokkunin sem lögð er til fyrir úrgangsstöðina, eftir atvikum, í samræmi við viðmiðanirnar sem mælt er fyrir um í III. viðauka:
    —    skjal, ef þess er krafist að úrgangsstöð sé í A- flokki, sem sýnir að áætlun um stórslysavarnir, öryggisstjórnunarkerfi til að framkvæma hana og neyðaráætlun til nota í úrgangsstöðinni verði hrundið í framkvæmd í samræmi við 3. mgr. 6. gr.,
    —    ef rekstraraðili telur að þess sé ekki krafist að úrgangsstöð sé í A-flokki: fullnægjandi upplýsingar sem rökstyðja það, m.a. greining á hugsanlegri slysahættu,
b)    lýsing á eiginleikum úrgangsins í samræmi við II. viðauka og yfirlýsing um áætlað heildarmagn úrgangs frá námuiðnaði sem til fellur á rekstrartímabilinu,
c)    lýsing á starfseminni sem úrgangurinn myndast við og allri hugsanlegri meðhöndlun hans í kjölfarið,
d)    lýsing á skaðlegum áhrifum vegna afsetningar slíks úrgangs á umhverfið og heilbrigði manna og forvarnaraðgerðir sem grípa skal til í því skyni að lágmarka umhverfisáhrif meðan á rekstri stendur og eftir lokun, þ.m.t. þættirnir sem um getur í a-, b-, d- og e-liðum 2. mgr. 11. gr.,
e)    verklagsreglur sem lagt er til að beitt verði við eftirlit og vöktun skv. 10. gr., eftir því sem við á, og c-lið 2. mgr. 11. gr.,
f)    tillögð áætlun um lokun, þ.m.t. endurmótun, ráðstafanir eftir lokun og vöktun, eins og kveðið er á um í 12. gr.,
g)    ráðstafanir til að koma í veg fyrir að ástand vatns versni, í samræmi við tilskipun 2000/60/EB, og til að koma í veg fyrir eða lágmarka mengun andrúmslofts og jarðvegs, skv. 13. gr.,
h)    könnun á ástandi landsins sem úrgangsstöðin mun hafa áhrif á.
Í áætluninni um meðhöndlun úrgangs skal vera að finna nægar upplýsingar til þess að lögbært yfirvald geti metið getu rekstraraðilans til að uppfylla markmið áætlunarinnar um meðhöndlun úrgangs, eins og mælt er fyrir um í 2. mgr., og skyldur hans samkvæmt þessari tilskipun. Í áætluninni skal m.a. greint frá því hvernig kosturinn og aðferðin, sem valin eru, eins og um getur í i. lið a-liðar 2. mgr., uppfylla markmið áætlunarinnar um meðhöndlun úrgangs sem mælt er fyrir um í a-lið 2. mgr.
4.     Á fimm ára fresti skal endurskoða áætlunina um meðhöndlun úrgangs og/eða breyta henni, eftir því sem við á, ef verulegar breytingar verða á starfsemi úrgangsstöðvarinnar eða á úrganginum sem þar er afsettur. Tilkynna skal lögbæru yfirvaldi um allar breytingar.
5.     Heimilt er að nota áætlanir sem eru gerðar samkvæmt löggjöf annarra aðildarríkja eða Bandalagsins og innihalda upplýsingarnar, sem tilgreindar eru í 3. mgr., ef þannig verður komist hjá óþarfri tvítekningu upplýsinga og tvíverknaði hjá rekstraraðilanum, enda sé öllum kröfum 1.–4. gr. fullnægt.
6.     Lögbært yfirvald skal samþykkja áætlunina um meðhöndlun úrgangs á grundvelli málsmeðferðar, sem aðildarríkin ákveða, og vakta framkvæmd hennar.

6. gr.
Forvarnir gegn stórslysum og upplýsingar

1.     Þessi grein gildir um úrgangsstöðvar í A-flokki, að frátöldum þeim úrgangsstöðvum sem falla undir gildissvið tilskipunar 96/82/EB.
2.     Með fyrirvara um aðra löggjöf Bandalagsins, einkum tilskipanir 92/91/EBE og 92/104/EBE, skulu aðildarríkin sjá til þess að stórslysahætta sé greind og að tekið sé tillit til nauðsynlegra þátta við hönnun, byggingu, rekstur og viðhald úrgangsstöðvarinnar, auk lokunar hennar og aðgerða eftir lokun, til að koma í veg fyrir slík slys og takmarka neikvæðar afleiðingar þeirra fyrir heilbrigði manna og/eða umhverfið, þ.m.t. öll áhrif yfir landamæri.
3.     Að því er varðar kröfurnar í 2. mgr. skal hver rekstraraðili semja áætlun, áður en rekstur hefst, um forvarnir gegn stórslysum í tengslum við meðhöndlun á úrgangi frá námuiðnaði og koma á öryggisstjórnunarkerfi til að framkvæma áætlunina í samræmi við þættina sem settir eru fram í 1. þætti I. viðauka og einnig skal hann koma á neyðaráætlun í stöðinni þar sem tilgreindar eru þær ráðstafanir sem grípa ber til á staðnum ef slys ber að höndum.
Það skal vera þáttur í þeirri áætlun að rekstraraðilinn tilnefni öryggisstjóra sem ber ábyrgð á framkvæmd áætlunarinnar um stórslysavarnir og reglubundnu eftirliti með henni.
Lögbært yfirvald skal semja neyðaráætlun til nota utan stöðvarinnar þar sem tilgreindar eru þær ráðstafanir sem grípa ber til utan staðarins ef slys ber að höndum. Það skal vera liður í umsókninni um leyfi að rekstraraðilinn veiti lögbæru yfirvaldi upplýsingar sem því eru nauðsynlegar til að semja áætlunina.
4.     Markmiðin með neyðaráætlununum, sem um getur í 3. mgr., eru eftirfarandi:
a)    að ná tökum á stórslysum og öðrum atvikum og afmarka þau til að lágmarka áhrif þeirra og þó einkum til að takmarka tjón á heilbrigði manna og umhverfinu,
b)     að hrinda í framkvæmd þeim ráðstöfunum sem nauðsynlegar eru til þess að vernda heilbrigði manna og umhverfi fyrir áhrifum stórslysa og annarra atvika,
c)    að koma nauðsynlegum upplýsingum til almennings og stofnana eða yfirvalda á svæðinu sem málið varðar,
d)    að umhverfið sé endurmótað, lagfært og hreinsað í kjölfar stórslyss.
Aðildarríkin skulu sjá til þess, ef stórslys ber að höndum, að rekstraraðilinn veiti lögbæru yfirvaldi tafarlaust allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að stuðla að því að draga úr afleiðingum þess fyrir heilbrigði manna eins og framast er kostur og meta umfang raunverulegra eða hugsanlegra umhverfisáhrifa og lágmarka þau.
5.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að almenningi, sem málið varðar, sé gefið raunhæft tækifæri snemma í ferlinu til að taka þátt í undirbúningi eða endurskoðun neyðaráætlunarinnar til nota utan stöðvarinnar, sem semja skal í samræmi við 3. mgr. Í því skyni skal almenningur sem málið varðar upplýstur um allar tillögur þar að lútandi og viðeigandi upplýsingar skulu gerðar aðgengilegar, m.a. upplýsingar um réttinn til að taka þátt í ákvarðanatökuferlinu og um lögbæra yfirvaldið sem leggja má athugasemdir og spurningar fyrir.
Aðildarríkin skulu sjá til þess að almenningi, sem málið varðar, sé heimilt að gera athugasemdir innan hæfilegra tímamarka og að tekið sé tilhlýðilegt tillit til athugasemdanna þegar ákvörðun er tekin um neyðaráætlunina til nota utan stöðvarinnar.
6.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að almenningur sem málið varðar fái upplýsingar, án endurgjalds og skilyrðislaust, um öryggisráðstafanir og aðgerðir sem grípa skal til ef slys ber að höndum og skulu þær innihalda a.m.k. þá þætti sem tilgreindir eru í 2. þætti I. viðauka.
Þessar upplýsingar skulu endurskoðaðar á þriggja ára fresti og uppfærðar ef nauðsyn krefur.

7. gr.
Umsókn og leyfi

1.     Rekstur úrgangsstöðvar er óheimill án leyfis frá lögbærum yfirvöldum. Leyfið skal taka til þeirra þátta sem tilgreindir eru í 2. mgr. þessarar greinar og tilgreina greinilega í hvaða flokki úrgangsstöðin er í samræmi við viðmiðanirnar sem um getur í 9. gr.
Með fyrirvara um að allar kröfur í þessari grein séu uppfylltar má sameina öll leyfi, sem gefin eru út samkvæmt annarri löggjöf einstakra aðildarríkja eða Bandalagsins, í eitt, sé með því móti unnt að komast hjá óþarfa tvítekningu upplýsinga og tvíverknaði rekstraraðila eða lögbærs yfirvalds. Upplýsingarnar, sem tilgreindar eru í 2. mgr., geta verið hvort heldur í einu leyfi eða nokkrum leyfum, ef allar kröfur í þessari grein eru uppfylltar.
2.     Í umsókninni um leyfi skulu að minnsta kosti koma fram eftirfarandi upplýsingar:
a)    heiti rekstraraðilans,
b)    tillögð staðsetning úrgangsstöðvarinnar, þ.m.t. allir aðrir, hugsanlegir kostir varðandi staðsetningu,
c)    áætlunin um meðhöndlun úrgangs, skv. 5. gr.
d)    fullnægjandi ráðstafanir með fjárhagslegri ábyrgð eða jafngildi hennar, eins og krafist er skv. 14. gr.,
e)    upplýsingarnar, sem rekstraraðilinn leggur fram í samræmi við 5. gr. tilskipunar 85/337/EBE ( 1 ), ef krafa er gerð um mat á umhverfisáhrifum samkvæmt þeirri tilskipun.
3.     Lögbært yfirvald skal einungis veita leyfi ef það er þess fullvisst að:
a)    rekstraraðilinn fullnægi viðeigandi kröfum í þessari tilskipun,
b)    meðhöndlun úrgangsins stríði hvorki beint gegn né hindri á annan hátt framkvæmd viðeigandi áætlunar eða áætlana um meðhöndlun úrgangs sem um getur í 7. gr. tilskipunar 75/442/EBE.
4.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að lögbær yfirvöld endurskoði skilyrði leyfisins reglulega og uppfæri þau ef nauðsyn krefur:
—    ef verulegar breytingar hafa orðið á starfsemi úrgangsstöðvarinnar eða á úrganginum sem er afsettur þar,
—    á grundvelli niðurstaðna úr vöktun, sem rekstraraðilinn gefur skýrslu um skv. 3. mgr. 11. gr., eða skoðana sem fram fara skv. 17. gr.,
—    í ljósi upplýsingaskipta um verulegar breytingar á bestu, fáanlegu tækni skv. 3. mgr. 21. gr.
5.     Upplýsingar í leyfi, sem hefur verið samþykkt samkvæmt þessari grein, skulu gerðar aðgengilegar lögbærum yfirvöldum á sviði hagskýrslna í aðildarríkinu eða Bandalaginu ef nota þarf upplýsingarnar vegna hagskýrslugerðar. Viðkvæmar viðskiptaupplýsingar, svo sem upplýsingar sem varða viðskiptatengsl, kostnaðarþætti og umfang hagrænna jarðefnaauðlinda, skulu ekki gerðar opinberar.

8. gr.
Þátttaka almennings

1.     Almenningur skal upplýstur, með opinberum tilkynningum eða öðrum viðeigandi hætti, svo sem rafrænum miðlum þar sem þeir eru tiltækir, um eftirfarandi atriði snemma í leyfisveitingarferlinu eða eigi síðar en um leið og sanngjarnt er að gera ráð fyrir að unnt sé að veita upplýsingarnar:
a)    umsókn um leyfi,
b)    að ákvörðun um umsókn um leyfi verði ekki tekin, eftir atvikum, fyrr en að höfðu samráði aðildarríkjanna í samræmi við 16. gr.,
c)    upplýsingar um lögbær yfirvöld, sem bera ábyrgð á ákvarðanatökunni, þau sem geta veitt viðeigandi upplýsingar og þau sem leggja má athugasemdir og spurningar fyrir, auk upplýsinga um tímarammann til að setja fram athugasemdir eða spurningar,
d)    eðli hugsanlegra ákvarðana,
e)    upplýsingar, eftir atvikum, í tengslum við tillögu um uppfærslu leyfis eða um skilyrði fyrir því,
f)    vísbendingar um tíma og staði þar sem unnt er að nálgast viðeigandi upplýsingar eða um leiðir til þess,
g)    upplýsingar um fyrirkomulag varðandi þátttöku almennings skv. 7. mgr.
2.     Aðildarríkin skulu sjá til þess, innan viðeigandi tímamarka, að almenningur hafi aðgang að eftirfarandi:
a)    aðalskýrslum og ráðleggingum, í samræmi við landslög, sem sendar voru lögbæru yfirvaldi þegar almenningur var upplýstur í samræmi við 1. mgr.,
b)    öllum upplýsingum, í samræmi við ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/4/EB um almennan aðgang að upplýsingum um umhverfismál ( 1 ), auk upplýsinganna sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar, sem skipta máli fyrir ákvörðunina í samræmi við 7. gr. þessarar tilskipunar og sem verða einungis aðgengilegar eftir að almenningur hefur verið upplýstur í samræmi við 1. mgr. þessarar greinar.
3.     Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að almenningur sé upplýstur, í samræmi við 1. mgr. þessarar greinar, um uppfærslu á skilyrðum fyrir leyfi í samræmi við 4. mgr. 7. gr.
4.     Almenningur sem málið varðar skal hafa rétt til að leggja athugasemdir og álit fyrir lögbæra yfirvaldið áður en ákvörðun er tekin.
5.     Taka skal tilhlýðilegt tillit til niðurstaðna úr samráðinu, sem fara skal fram samkvæmt þessari grein, við ákvarðanatökuna.
6.     Þegar ákvörðun hefur verið tekin skal lögbært yfirvald, í samræmi við tilhlýðilega málsmeðferð, upplýsa almenning sem málið varðar og gera eftirfarandi upplýsingar honum aðgengilegar:
a)    efni ákvörðunarinnar, þ.m.t. afrit af leyfinu,
b)    þær ástæður og forsendur sem ákvörðunin byggist á.
7.     Aðildarríkin skulu ákvarða nákvæmt fyrirkomulag um þátttöku almennings samkvæmt þessari grein til að almenningur sem málið varðar geti undirbúið sig og til að þátttaka hans verði virk.

9. gr.
Flokkunarkerfi fyrir úrgangsstöðvar

Að því er varðar þessa tilskipun skulu lögbær yfirvöld setja úrgangsstöð í A-flokk í samræmi við viðmiðanirnar sem settar eru fram í III. viðauka.

10. gr.
Námugryfjur

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að þegar úrgangur frá námuiðnaði er settur aftur í námugryfjurnar til endurmótunar og mannvirkjagerðar, hvort sem um er að ræða nám ofan- eða neðanjarðar, geri rekstraraðilinn viðeigandi ráðstafanir til að:
1)    tryggja stöðugleika úrgangsins frá námuiðnaðinum í samræmi við 2. mgr. 11. gr., að breyttu breytanda,
2)    koma í veg fyrir mengun jarðvegs, yfirborðsvatns og grunnvatns í samræmi við 1., 3. og 5. mgr. 13. gr., að breyttu breytanda,
3)    tryggja vöktun á úrganginum frá námuiðnaðinum og á námugryfjunni í samræmi við 4. og 5. mgr. 12. gr., að breyttu breytanda.
2.     Tilskipun 1999/31/EB gildir áfram um annan úrgang en úrgang frá námuiðnaði sem er notaður, eftir atvikum, sem fyllingarefni í námugryfjur.

11. gr.
Bygging og stjórn úrgangsstöðva

1.     Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að stjórn úrgangsstöðvar sé í höndum þar til bærs einstaklings og að tækniþróun sé tryggð og starfsfólki séð fyrir þjálfun.
2.     Lögbært yfirvald skal fullvissa sig um að þegar ný úrgangsstöð er reist eða þegar úrgangsstöð, sem fyrir er, er breytt sjái rekstraraðilinn til þess að:
a)    úrgangsstöðin sé á hentugum stað og að einkum sé tekið tillit til skuldbindinga Bandalagsins eða einstakra aðildarríkja að því er varðar vernduð svæði og til jarðfræðilegra, vatnafræðilegra og vatnajarðfræðilegra þátta, jarðskjálftafræðilegra og jarðtæknilegra þátta, en einnig skal hún hönnuð þannig að hún uppfylli nauðsynleg skilyrði, hvort sem litið er til skamms eða langs tíma, til að koma í veg fyrir mengun jarðvegs, andrúmslofts, grunnvatns eða yfirborðsvatns, einkum m.t.t. tilskipana 76/464/EBE ( 2 ), 80/68/EBE ( 3 ) og 2000/60/EB, að tryggð sé markviss söfnun á menguðu vatni og sigvatni, þegar og ef þess er krafist samkvæmt leyfinu, og að dregið sé úr jarðvegsrofi af völdum vatns eða vinds eins og er tæknilega mögulegt og fjárhagslega hagkvæmt,
b)    úrgangsstöðin sé byggð og rekin og henni haldið við þannig að eðlisrænn stöðugleiki hennar sé tryggður og að koma megi í veg fyrir mengun eða smitun jarðvegs, andrúmslofts, yfirborðsvatns eða grunnvatns, hvort sem litið er til skamms eða langs tíma, og til að draga úr skaða á landslagi eins og framast er kostur,
c)    viðeigandi áætlanir og fyrirkomulag séu til staðar fyrir reglubundna vöktun og skoðun þar til bærra aðila á úrgangsstöðinni og svo að unnt sé að grípa til aðgerða ef niðurstöður gefa til kynna óstöðugleika eða mengun vatns eða jarðvegs,
d)    viðeigandi ráðstafanir séu gerðar vegna endurmótunar landsins og lokunar úrgangsstöðvarinnar,
e)    viðeigandi ráðstafanir séu gerðar vegna tímabilsins í kjölfar lokunar úrgangsstöðvarinnar.
Haldnar skulu skrár yfir vöktunina og skoðunina, sem um getur í c-lið, ásamt leyfisgögnum, til að tryggja viðeigandi miðlun upplýsinga, einkum ef skipt er um rekstraraðila.
3.     Rekstraraðilinn skal, án ótilhlýðilegra tafa og í öllum tilvikum innan 48 klukkustunda, tilkynna lögbæru yfirvaldi um alla atburði sem líklegt er að hafi áhrif á stöðugleika úrgangsstöðvarinnar og öll umtalsverð, neikvæð umhverfisáhrif sem koma í ljós þegar eftirlits- og vöktunaraðferðum úrgangsstöðvarinnar er beitt. Rekstraraðilinn skal, eftir atvikum, hrinda í framkvæmd neyðaráætlun til nota í stöðinni og fylgja öllum öðrum leiðbeiningum frá lögbæru yfirvaldi um ráðstafanir til úrbóta.
Rekstraraðilinn skal bera kostnaðinn af ráðstöfununum.
Rekstraraðilinn skal, svo oft sem lögbært yfirvald ákveður og eigi sjaldnar en einu sinni á ári, gefa lögbærum yfirvöldum skýrslu á grundvelli fyrirliggjandi gagna um allar niðurstöður úr vöktuninni, svo að unnt sé að sýna fram á samræmi við skilyrði fyrir leyfinu og auka þekkingu á hegðun úrgangsins og úrgangsstöðvarinnar. Á grundvelli þessarar skýrslu getur lögbært yfirvald ákveðið að nauðsynlegt sé að fá staðfestingu óháðs sérfræðings.

12. gr.
Tilhögun í tengslum við lokun úrgangsstöðva og aðgerðir í kjölfar lokunar

1.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að farið sé að ákvæðum 2.–5. mgr.
2.     Lokunarferli úrgangsstöðvar skal einungis hefjast ef eitt eftirfarandi skilyrða er uppfyllt:
a)    þau skilyrði sem sett eru fram í leyfinu og máli skipta eru uppfyllt,
b)    fengist hefur leyfi lögbærs yfirvalds, að beiðni rekstraraðila,
c)    lögbært yfirvald gefur út rökstudda ákvörðun þess efnis.
3.     Ekki skal líta svo á að úrgangsstöð hafi endanlega verið lokað fyrr en lögbært yfirvald hefur án ótilhlýðilegra tafa látið fara fram lokaskoðun á staðnum, metið allar skýrslur sem rekstraraðilinn hefur lagt fram, vottað að landið, sem varð fyrir áhrifum af úrgangsstöðinni, hafi verið endurmótað og tilkynnt rekstraraðilanum að það hafi samþykkt lokunina.
Samþykkið skal ekki á neinn hátt draga úr skuldbindingum rekstraraðilans samkvæmt skilyrðunum, sem fram koma í leyfinu, eða ákvæðum laga.
4.     Rekstraraðilinn skal bera ábyrgð á viðhaldi, vöktun, eftirliti og ráðstöfunum til úrbóta á tímabilinu eftir lokun, svo lengi sem lögbært yfirvald krefst þess, með hliðsjón af eðli hættunnar og því hversu lengi má gera ráð fyrir að hún vari, nema í þeim tilvikum þegar lögbært yfirvald ákveður að taka yfir slík verkefni frá rekstraraðilanum eftir að úrgangsstöð hefur verið endanlega lokað og með fyrirvara um landslög eða löggjöf Bandalagsins um ábyrgð úrgangshafans.
5.     Þegar lögbært yfirvald telur nauðsynlegt, í því skyni að uppfylla viðeigandi umhverfiskröfur sem settar eru fram í löggjöf Bandalagsins, m.a. kröfurnar í tilskipunum 76/464/EBE, 80/68/EBE og 2000/ 60/EB, skal rekstraraðilinn, í kjölfar lokunar úrgangsstöðvar, m.a. hafa eftirlit með eðlisrænum og efnafræðilegum stöðugleika stöðvarinnar og halda öllum neikvæðum umhverfisáhrifum í lágmarki, einkum m.t.t. yfirborðs og grunnvatns, með því að sjá til þess að:
a)    öll mannvirki, sem tilheyra stöðinni, séu vöktuð og varðveitt og að stjórnbúnaður og mælitæki séu jafnan tilbúin til notkunar,
b)    yfirfallsrásum og -rennum sé haldið hreinum og opnum.
6.     Í kjölfar lokunar úrgangsstöðvar skal rekstraraðilinn án tafar tilkynna lögbæru yfirvaldi um alla atburði eða breytingar sem líklegt er að hafi áhrif á stöðugleika úrgangsstöðvarinnar og öll umtalsverð, neikvæð umhverfisáhrif sem koma í ljós þegar eftirlits- og vöktunaraðferðum er beitt. Rekstraraðilinn skal, eftir atvikum, hrinda í framkvæmd neyðaráætlun til nota í stöðinni og fylgja öllum öðrum leiðbeiningum frá lögbæru yfirvaldi um ráðstafanir til úrbóta.
Rekstraraðilinn skal bera kostnaðinn af ráðstöfununum.
Þegar og svo oft sem lögbært yfirvald ákveður skal rekstraraðilinn gefa lögbærum yfirvöldum skýrslu á grundvelli fyrirliggjandi gagna um allar niðurstöður úr vöktuninni, svo að unnt sé að sýna fram á samræmi við skilyrðin fyrir leyfinu og auka þekkingu á hegðun úrgangs og úrgangsstöðvar.

13. gr.
Forvarnir gegn spillingu vatns og mengun andrúmslofts og jarðvegs

1.     Lögbært yfirvald skal fullvissa sig um að rekstraraðilinn hafi gert nauðsynlegar ráðstafanir til að uppfylla umhverfisstaðla Bandalagsins, einkum í því skyni að koma í veg fyrir, í samræmi við tilskipun 2000/60/EB, að núverandi ástand vatns versni, m.a. með því að:
a)    meta hversu mikið sigvatn getur myndast í afsetta úrganginum, þ.m.t. innihald mengunarefna í sigvatninu, bæði meðan á starfsemi úrgangsstöðvarinnar stendur og á tímabilinu eftir að henni hefur verið lokað, og ákvarða vatnsjöfnuð úrgangsstöðvarinnar,
b)    koma í veg fyrir eða lágmarka myndun sigvatns og mengun yfirborðs- eða grunnvatns og jarðvegs af völdum úrgangsins,
c)    safna menguðu vatni og sigvatni frá úrgangsstöðinni og meðhöndla það þannig að það nái þeim gæðum sem krafist er að það hafi við losun þess.
2.     Lögbært yfirvald skal sjá til þess að rekstraraðilinn hafi gert fullnægjandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir losun á ryki og lofttegundum eða draga úr henni.
3.     Ef lögbært yfirvald hefur ákveðið, á grundvelli mats á umhverfisáhættu og með sérstöku tilliti til tilskipana 76/464/EBE, 80/68/EBE eða 2000/60/EB, eftir því sem við á, að ekki sé nauðsynlegt að safna sigvatni eða meðhöndla það eða ef staðfest hefur verið að úrgangsstöðin skapi enga hugsanlega hættu fyrir jarðveg, grunnvatn eða yfirborðsvatn er heimilt, í samræmi við það, að draga úr kröfunum sem settar eru fram í b- og c-lið 1. mgr. eða fella þær niður.
4.     Aðildarríki skulu sjá til þess að rekstraraðilinn þurfi að uppfylla viðeigandi kröfur í tilskipunum 76/464/EBE, 80/68/EBE og 2000/60/EB til að mega farga úrgangi frá námuiðnaði, hvort sem hann er í föstu, leðjukenndu eða í fljótandi ástandi, í viðtökuvatnshlot, annað en það sem sérstaklega er gert til förgunar á úrgangi frá námuiðnaði.
5.     Þegar úrganginum frá námuiðnaðinum er komið aftur fyrir í námgryfjunni, hvort sem hún varð til í tengslum við vinnslu á yfirborði eða neðanjarðar, skal rekstraraðilinn gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að ástand vatns spillist og jarðvegur mengist eða til að lágmarka slíkan skaða í samræmi, að breyttu breytanda, við 1. og 3. mgr. Rekstraraðilinn skal veita lögbæru yfirvaldi nauðsynlegar upplýsingar til að tryggja að staðið sé við skuldbindingar Bandalagsins, einkum þær sem koma fram í tilskipun 2000/60/EB.
6.     Ef um er að ræða vatnsgryfju, sem inniheldur sýaníð, skal rekstraraðilinn sjá til þess að styrkur sýaníðs, sem losnar með veikri sýru, í gryfjunni sé minnkaður eins og unnt er með því að nota bestu, fáanlegu tækni og ef um er að ræða úrgangsstöðvar, sem fengið höfðu leyfi eða voru þegar í rekstri 1. maí 2008, skal hann sjá til þess í öllum tilvikum að styrkur sýaníðs, sem losnar með veikri sýru á losunarstað úrkastsins frá vinnslustöðinni í vatnsgryfjuna, fari ekki yfir 50 milljónarhluta frá og með 1. maí 2008, 25 milljónarhluta frá og með 1. maí 2013, 10 milljónarhluta frá og með 1. maí 2018 og 10 milljónarhluta í úrgangsstöðvum sem fá leyfi eftir 1. maí 2008.
Ef lögbært yfirvald óskar þess skal rekstraraðilinn sýna fram á það með áhættumati, þar sem tekið er tillit til staðarsértækra aðstæðna, að ekki þurfi að lækka þessi styrkleikamörk frekar.

14. gr.
Fjárhagsleg trygging

1.     Áður en nokkur starfsemi hefst í úrgangsstöð sem felur í sér söfnun eða afsetningu úrgangs frá námuiðnaði skal lögbært yfirvald krefjast fjárhagslegrar tryggingar (t.d. í formi geymslufjár, þ.m.t. gagnkvæmir ábyrgðarsjóðir sem iðnaðurinn styrkir) eða samsvarandi tryggingar í samræmi við verklagsreglur, sem aðildarríkin setja, þannig að:
a)    staðið sé við allar skuldbindingar samkvæmt leyfinu sem gefið er út samkvæmt þessari tilskipun, þ.m.t. ákvæði um tímabilið í kjölfar lokunarinnar,
b)    sjóðir séu aðgengilegir á hverjum tíma vegna endurmótunar lands sem úrgangsstöðin hefur haft áhrif á, eins og lýst er í áætlun um meðhöndlun úrgangs sem samin er skv. 5. gr. og sem krafist er í tengslum við leyfið skv. 7. gr.
2.     Útreikningur á tryggingunni, sem um getur í 1. mgr., skal gerður á grundvelli:
a)    líklegra umhverfisáhrifa af úrgangsstöðinni, einkum m.t.t. flokks úrgangsstöðvarinnar, eiginleika úrgangsins og framtíðarnota endurmótaða landsins,
b)    þeirrar forsendu að óháðir þriðju aðilar með tilskilin starfsréttindi muni meta allar nauðsynlegar aðgerðir til endurmótunar og annast þær.
3.     Fjárhæð tryggingarinnar skal aðlöguð reglulega í samræmi við hvers kyns endurmótunaraðgerðir sem framkvæma þarf á landinu sem úrgangsstöðin hefur áhrif á, eins og lýst er í áætluninni um meðhöndlun úrgangs sem samin er skv. 5. gr. og sem krafist er í tengslum við leyfið skv. 7. gr.
4.     Ef lögbært yfirvald samþykkir lokun í samræmi við 3. mgr. 12. gr. skal það láta rekstraraðilanum í té skriflega yfirlýsingu um að hann sé laus undan ábyrgðarskuldbindingunni sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar, að frátöldum skuldbindingum í kjölfar lokunar eins og um getur í 4. mgr. 12. gr.

15. gr.
Umhverfisábyrgð

Eftirfarandi liður bætist við III. viðauka tilskipunar 2004/35/EB:
    „13.    Meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/21/EB frá 15. mars 2006 um meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði ( *).
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *)    Stjtíð ESB L 102, 11.4. 2006, bls. 15.“

16. gr.
Áhrif yfir landamæri

1.     Komist aðildarríki, þar sem úrgangsstöð er að finna, að raun um að rekstur úrgangsstöðvar í A- flokki geti haft umtalsverð, skaðleg áhrif á umhverfi annars aðildarríkis og af hljótist einhver áhætta fyrir heilbrigði manna þar, eða fari aðildarríki, sem líklegt má telja að verði fyrir slíkum áhrifum, fram á það skal aðildarríkið, þar sem umsókn um leyfi var lögð fram skv. 7. gr., senda upplýsingarnar, sem veittar voru samkvæmt þeirri grein, áfram til hins aðildarríkisins og veita ríkisborgurum sínum aðgang að þeim á sama tíma.
Leggja skal slíkar upplýsingar til grundvallar í nauðsynlegum viðræðum sem eru liður í tvíhliða samskiptum aðildarríkjanna tveggja á grundvelli meginreglunnar um gagnkvæmni og jafnræði.
2.     Aðildarríkin skulu sjá til þess, innan rammans um tvíhliða samskipti, að almenningur í aðildarríki, sem málið varðar og líklegt má telja að verði fyrir umtalsverðum áhrifum í þeim tilvikum sem um getur í 1. mgr., hafi einnig aðgang að umsóknunum þannig að hann öðlist rétt til að koma á framfæri athugasemdum um þær áður en lögbært yfirvald tekur ákvörðun.
3.     Ef slys verður þar sem í hlut á úrgangsstöð, sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar, skulu aðildarríkin sjá til þess að upplýsingar, sem rekstraraðilinn hefur lagt fyrir lögbært yfirvald skv. 4. mgr. 6. gr., séu þegar í stað sendar hinu aðildarríkinu í því skyni að stuðla að því að lágmarka áhrif slyssins á heilbrigði manna og meta og lágmarka umfang raunverulegra eða hugsanlegra umhverfisspjalla.

17. gr.
Skoðun lögbærs yfirvalds

1.     Áður en starfsemin í tengslum við afsetningu úrgangs hefst og með reglulegu millibili eftir það, sem viðkomandi aðildarríki ákveður, einnig á tímabilinu í kjölfar lokunar, skal lögbært yfirvald skoða allar úrgangsstöðvar, sem falla undir 7. gr., í því skyni að tryggja að þær uppfylli viðeigandi skilyrði í leyfinu. Jákvæð niðurstaða skerðir á engan hátt þá ábyrgð sem rekstraraðili ber samkvæmt skilyrðunum í leyfinu.
2.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að rekstraraðilinn haldi uppfærðar skrár yfir alla starfsemi í tengslum við meðhöndlun úrgangs og að lögbært yfirvald geti skoðað þær en einnig skulu þau tryggja tilhlýðilega miðlun uppfærðra upplýsinga, sem skipta máli, og skráa sem varða úrgangsstöðina ef skipt er um rekstraraðila meðan hún er í rekstri.

18. gr.
Tilkynningarskylda

1.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni skýrslu á þriggja ára fresti um framkvæmd þessarar tilskipunar. Skýrslan skal samin á grundvelli spurningalista eða eyðublaðs sem framkvæmdastjórnin samþykkir í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr 23. gr. Skýrslan skal send framkvæmdastjórninni innan níu mánaða frá lokum þriggja ára tímabilsins sem hún tekur til.
Framkvæmdastjórnin skal gefa út skýrslu um framkvæmd þessarar tilskipunar eigi síðar en níu mánuðum eftir að skýrslur aðildarríkjanna hafa borist henni.
2.     Árlega skulu aðildarríkin senda framkvæmdastjórninni upplýsingar um atburði sem rekstraraðilar hafa tilkynnt um í samræmi við 3. mgr. 11. gr. og 6. mgr. 12. gr. Framkvæmdastjórnin skal veita aðildarríkjunum aðgang að þessum upplýsingum ef þess er óskað. Með fyrirvara um lög Bandalagsins um almennan aðgang að upplýsingum um umhverfismál skulu aðildarríki síðan gera upplýsingarnar aðgengilegar fyrir almenning, sem málið varðar, ef þess er óskað.

19. gr.
Viðurlög

Aðildarríkin skulu setja reglur um viðurlög við brotum gegn ákvæðum í landslögum, sem eru samþykkt samkvæmt þessari tilskipun, og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þeim sé beitt. Viðurlögin, sem mælt er fyrir um, skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og letjandi.

20. gr.
Skrá yfir úrgangsstöðvar sem hefur verið lokað

Aðildarríki skulu sjá til þess að skrá yfir úrgangsstöðvar sem hefur verið lokað, þ.m.t. stöðvar sem hafa verið lagðar niður, eru á yfirráðasvæði þeirra og hafa alvarleg, neikvæð áhrif á umhverfið eða gætu, til meðallangs eða skamms tíma, stofnað heilbrigði manna eða umhverfinu í alvarlega hættu, sé tekin saman og uppfærð reglulega. Slík skrá skal gerð aðgengileg almenningi og tekin saman eigi síðar en 1. maí 2012, að teknu tilliti til aðferðanna sem um getur í 21. gr., ef þær liggja fyrir.

21. gr.
Upplýsingaskipti

1.     Framkvæmdastjórnin skal sjá til þess, með aðstoð nefndarinnar sem um getur í 23. gr., að fram fari viðeigandi skipti á tækni- og vísindalegum upplýsingum milli aðildarríkja í því skyni að þróa aðferðir í tengslum við:
a)    framkvæmdina á 20. gr.,
b)    endurmótun þeirra úrgangsstöðva, sem hefur verið lokað og sem eru tilgreindar skv. 20. gr., í því skyni að uppfylla kröfurnar í 4. gr. Með slíkum aðferðum skal verða unnt að koma á þeirri málsmeðferð fyrir áhættumat sem best á við ásamt aðgerðum til úrbóta, að teknu tilliti til landfræði-, vatnajarðfræði- og veðurfarslegra skilyrða í Evrópu.
2.     Aðildarríkin skulu tryggja að lögbært yfirvald fylgist með eða fái upplýsingar um þróun á bestu, fáanlegu tækni.
3.     Framkvæmdastjórnin skal skipuleggja upplýsingaskipti milli aðildarríkjanna og hlutaðeigandi stofnana eða fyrirtækja um bestu, fáanlegu tækni, vöktun sem tengist henni og þróun á því sviði. Framkvæmdastjórnin skal gefa út niðurstöður upplýsingaskiptanna.

22. gr.
Framkvæmdar- og breytingaráðstafanir

1.     Eigi síðar en 1. maí 2008 skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina, sem um getur í 2. mgr. 23. gr., samþykkja nauðsynleg ákvæði varðandi eftirfarandi og þannig að e-, f- og g-liðir hafi forgang:
a)    samhæfingu upplýsinganna, sem um getur í 5. mgr. 7. gr. og 6. mgr. 12. gr., og reglubundna framsendingu þeirra,
b)    framkvæmd 6. mgr. 13. gr., m.a. tæknilegar kröfur í tengslum við skilgreininguna á sýaníði sem losnar með veikri sýru og aðferðina til að mæla það,
c)    setningu tæknilegra viðmiðunarreglna um að koma á fjárhagslegri tryggingu í samræmi við kröfurnar í 2. mgr. 14. gr.,
d)    setningu tæknilegra viðmiðunarreglna um skoðanir í samræmi við 17. gr.,
e)    það að fullgera tæknilegu kröfurnar um lýsingu á eiginleikum úrgangs í II. viðauka,
f)    túlkun skilgreiningarinnar í 3. lið 3. gr.,
g)    skilgreiningu á viðmiðununum fyrir flokkun úrgangsstöðva í samræmi við III. viðauka,
h)    ákvörðun á samhæfðum kröfum í tengslum við sýnatöku og greiningaraðferðir sem þörf er á vegna tæknilegrar framkvæmdar þessarar tilskipunar.
2.     Allar síðari breytingar, sem eru nauðsynlegar til að laga viðaukana að framförum í vísindum og tækni, skulu samþykktar af framkvæmdastjórninni í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 23. gr.
Þær breytingar skulu gerðar með það í huga að ná víðtækri umhverfisvernd.

23. gr.
Nefnd

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar nefndar sem komið var á fót með 18. gr. tilskipunar 75/442/EBE, hér á eftir kölluð „nefndin“.
2.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 5. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.
Fresturinn, sem um getur í 6. mgr. 5. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, skal vera þrír mánuðir.
3.     Nefndin setur sér starfsreglur.

24. gr.
Bráðabirgðaákvæði

1.     Aðildarríki skulu sjá til þess að allar úrgangsstöðvar, sem hafa fengið leyfi eða hafa tekið til starfa 1. maí 2008, uppfylli ákvæði þessarar tilskipunar eigi síðar en 1. maí 2012, að frátöldum ákvæðunum sem sett eru fram í 1. mgr. 14. gr., en tryggja þarf að þau verði uppfyllt eigi síðar en 1. maí 2014, og ákvæðunum, sem sett eru fram í 6. mgr. 13. gr., en tryggja þarf að þau séu uppfyllt í samræmi við tímaáætlunina sem þar er mælt fyrir um.
2.     Ákvæði 1. mgr. gilda ekki um úrgangsstöðvar sem hefur verið lokað fyrir 1. maí 2008.
3.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að frá og með 1. maí 2006, og enda þótt úrgangsstöð kunni að verða lokað eftir það og fyrir 1. maí 2008, sé úrgangur meðhöndlaður þannig að það hafi ekki áhrif á að ákvæði 1. mgr. 4. gr. þessarar tilskipunar séu uppfyllt ásamt öðrum viðeigandi umhverfiskröfum, sem settar eru fram í löggjöf Bandalagsins, þ.m.t. tilskipun 2000/60/EB.
4.     Ákvæði 5. gr., 6. gr. (3. til 5. mgr.), 7. gr., 8. gr., 12. gr. (1. og 2. mgr.) og 14. gr. (1. til 3. mgr.) gilda ekki um úrgangsstöðvar sem:
—    voru hættar að taka við úrgangi 1. maí 2006,
—    eru að ljúka lokunarferlinu í samræmi við gildandi löggjöf Bandalagsins eða landslöggjöf eða áætlun sem lögbært yfirvald hefur samþykkt og
—    verður lokað í reynd eigi síðar en 31. desember 2010.
Aðildarríki skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um slík tilvik eigi síðar en 1. ágúst 2008 og sjá til þess að þessum stöðvum sé stjórnað þannig að það komi ekki í veg fyrir að markmiðum þessarar tilskipunar verði náð, einkum markmiðunum í 1. mgr. 4. gr., og þeim sem er að finna í annarri löggjöf Bandalagsins, þ.m.t. tilskipun 2000/60/EB.

25. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 1. maí 2008. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

26. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

27. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassborg 15. mars 2006.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
J. BORRELL FONTELLES H. WINKLER
forseti. forseti.

I. VIÐAUKI
Áætlun um stórslysavarnir og upplýsingar sem miðla skal til almennings sem málið varðar

1.      Áætlun um stórslysavarnir
Áætlun rekstraraðilans um stórslysavarnir og öryggisstjórnunarkerfi hans skulu vera í réttu hlutfalli við stórslysahættuna sem stafar af úrgangsstöðinni. Við framkvæmd áætlunarinnar og kerfisins skal taka tillit til eftirfarandi þátta:
1)     Áætlun um stórslysavarnir skal ná til meginmarkmiða og meginreglna rekstraraðila vegna aðgerða til að halda stórslysahættu í skefjum.
2)     Öryggisstjórnunarkerfið skal ná til þess hluta almenna stjórnkerfisins sem tekur til skipulags, ábyrgðar, starfshátta, málsmeðferðar, ferla og leiða til að móta og hrinda í framkvæmd áætlun um stórslysavarnir.
3)     Með öryggisstjórnunarkerfinu skal tekið á eftirtöldum atriðum:
    a)    skipulagi og starfsfólki — hlutverki og ábyrgð starfsfólks vegna stórslysavarna á öllum stigum skipulagsins, greiningu á þörf starfsfólksins fyrir þjálfun og að því sé séð fyrir slíkri þjálfun, þátttöku starfsmanna og, eftir því sem við á, undirverktaka,
    b)    greiningu og mati á helstu hættum — að teknar séu upp og notaðar aðferðir við kerfisbundna greiningu á helstu hættum sem skapast við eðlilegan jafnt sem óeðlilegan rekstur, svo og mat á hættulíkum og alvarleika hættnanna,
    c)    rekstrarstjórn — að teknar séu upp og notaðar aðferðir og leiðbeiningar fyrir öruggan rekstur, þ. á m. viðhald, í verksmiðjunni, vinnsluferlum, búnaði og við tímabundna rekstrarstöðvun,
    d)    stjórnun breytinga — að teknar séu upp og notaðar aðferðir við skipulag breytinga á úrgangsstöðvum eða við hönnun nýrra stöðva,
    e)    áætlanagerð vegna neyðarástands — að teknar séu upp og notaðar aðferðir við að sjá fyrir neyðartilvik með skipulagðri greiningu og við að undirbúa, prófa og endurskoða neyðaráætlanir til að bregðast við slíku neyðarástandi,
    f)    vöktun árangurs — að teknar séu upp og notaðar aðferðir við símat á því að unnið sé í samræmi við markmiðin í áætlun rekstraraðila um stórslysavarnir og í öryggisstjórnunarkerfinu og aðferðir við rannsókn og aðgerðir til úrbóta ef svo er ekki. Aðferðirnar skulu ná til kerfisins sem rekstraraðili hefur komið upp til að tilkynna stórslys eða tilvik, þar sem legið hefur við stórslysi, einkum þegar verndarráðstafanir hafa brugðist, ásamt rannsókn á slíkum atvikum og eftirfylgni á grundvelli fenginnar reynslu.
    g)    úttekt og endurskoðun — að teknar séu upp og notaðar aðferðir við reglubundið og kerfisbundið mat á áætlun um stórslysavarnir og skilvirkni og hagkvæmni öryggisstjórnunarkerfisins og að endurskoðun á árangri áætlunarinnar og öryggisstjórnunarkerfisins og uppfærsla þeirra af hálfu yfirstjórnar starfsstöðvarinnar sé skjalfest.
2.      Upplýsingar sem miðla skal til almennings sem málið varðar
    1)    Nafn rekstraraðila og heimilisfang úrgangsstöðvarinnar.
    2)    Staða þess sem leggur fram upplýsingarnar.
    3)    Staðfesting á því að úrgangsstöðin falli undir reglur og/eða stjórnsýslufyrirmæli um framkvæmd þessarar tilskipunar og, eftir atvikum, að upplýsingarnar í tengslum við þættina, sem um getur í 2. mgr. 6. gr., hafi verið lagðar fyrir lögbæra yfirvaldið.
    4)    Skýr og auðskiljanleg lýsing á þeirri starfsemi sem fram fer í úrgangsstöðinni.
    5)    Almennu eða venjulegu heitin eða almenn hættuflokkun efnanna og efnablandnanna sem eru notuð í úrgangsstöðinni, auk úrgangs, sem gætu leitt til stórslyss, ásamt upplýsingum um hættulegustu eiginleika þeirra.
    6)    Almennar upplýsingar um eðli stórslysahættunnar, þ. m.t. hugsanleg áhrif á íbúa í nágrenninu og umhverfið.
    7)    Fullnægjandi upplýsingar um hvernig íbúunum, sem málið varðar og búa í nágrenninu, verði gert viðvart og þeim sendar upplýsingar ef stórslys verður.
    8)    Fullnægjandi upplýsingar um æskileg viðbrögð af hálfu íbúanna, sem málið varðar, og hvernig þeim ber að haga sér ef stórslys verður.
    9)    Staðfesting á því að rekstraraðila sé skylt að gera viðeigandi ráðstafanir á staðnum, einkum að hafa samband við neyðarþjónustu, til þess að bregðast við stórslysum og draga sem mest úr afleiðingum þeirra.
    10)    Tilvísun til neyðaráætlunarinnar til nota utan starfsstöðvarinnar til að bregðast við áhrifum slyssins sem koma fram utan stöðvarinnar. Hér skulu fylgja með ráðleggingar um að hlíta fyrirmælum eða óskum neyðarþjónustu ef slys verður.
    11)    Geta skal þess hvar frekari upplýsingar er að fá, með fyrirvara um kröfur landslöggjafar um trúnaðarkvaðir.

II. VIÐAUKI
Lýsing á eiginleikum úrgangs

Lýsing á eiginleikum úrgangs, sem er afsettur í stöð, skal liggja fyrir þannig að eðlisrænn og efnafræðilegur stöðugleiki stöðvarinnar sé tryggður til lengdar og að unnt sé að koma í veg fyrir stórslys. Lýsingin á eiginleikunum skal taka til eftirfarandi þátta, eftir því sem við á og í samræmi við flokk úrgangsstöðvarinnar:
1)    lýsingar á þeim eðlisrænu og efnafræðilegu eiginleikum úrgangsins, sem búast má við til skamms eða langs tíma litið, með sérstakri skírskotun til stöðugleika hans við loftslags- eða veðurskilyrði við yfirborð jarðar, að teknu tilliti til þeirrar tegundar jarðefnis eða jarðefna, sem vinna skal, og eðlis hvers kyns jarðefna í yfirborðsjarðvegi og/eða hrati sem verða færð til meðan á vinnslunni stendur,
2)    flokkunar á úrganginum samkvæmt viðkomandi færslu í ákvörðun 2000/532/EB ( 1 ), einkum að því er varðar hættulega eiginleika hans,
3)    lýsingar á efnunum sem verða notuð við meðhöndlun á jarðefninu og stöðugleika þeirra,
4)    lýsingar á aðferðinni sem er notuð við afsetningu úrgangsins,
5)    kerfisins sem verður notað til að flytja úrganginn.

III. VIÐAUKI
Viðmiðanir fyrir flokkun úrgangsstöðva

Úrgangsstöð skal sett í A-flokk ef:
—    bilun eða röng virkni, t.d. ef haugur hrynur eða stífla brestur, er talin geta valdið stórslysi á grundvelli áhættumats þar sem tekið hefur verið tillit til þátta á borð við stærð stöðvarinnar nú og í framtíðinni, staðsetningu hennar og umhverfisáhrifa frá henni, eða
—    þar er að finna úrgang sem telst hættulegur, sé hann yfir tilteknum mörkum, samkvæmt tilskipun 91/689/EBE eða
—    þar er að finna efni eða efnablöndur sem teljast hættuleg, séu þau yfir tilteknum mörkum, samkvæmt tilskipun 67/548/EBE eða 1999/45/EB.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 339, 18.12.2008, bls. 114, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 79, 18.12.2008, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 102, 11.4.2006, bls. 15.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. ESB C 80, 30.3.2004, bls. 35.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. ESB C 109, 30.4.2004, bls. 33.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 31. mars 2004 (Stjtíð. ESB C 103 E, 29.4.2004, bls. 451), sameiginleg afstaða ráðsins frá 12. apríl 2005 (Stjtíð. ESB C 172 E, 12.7.2005, bls. 1) og afstaða Evrópuþingsins frá 6. september 2005 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB). Lagaleg ályktun Evrópuþingsins frá 18. janúar 2006 og ákvörðun ráðsins frá 30. janúar 2006.
Neðanmálsgrein: 7
(4)    tjtíð. ESB L 345, 31.12.2003, bls. 97.
Neðanmálsgrein: 8
(5)    Stjtíð. EB L 257, 10.10.1996, bls. 26. Tilskipuninni var síðast breytt með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 166/2006 (Stjtíð. ESB L 33, 4.2.2006, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 9
(6)    Stjtíð. EB C 65 E, 14.3.2002, bls. 382.
Neðanmálsgrein: 10
(7)    Stjtíð. EB L 242, 10.9.2002, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 11
(1)    Stjtíð. EB L 194, 25.7.1975, bls. 39. Tilskipuninni var síðast breytt með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1882/2003 (Stjtíð. ESB L 284, 31.10.2003, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 12
(2)    Stjtíð. EB L 182, 16.7.1999, bls. 1. Tilskipuninni var breytt með reglugerð (EB) nr. 1882/2003.
Neðanmálsgrein: 13
(1)    Tilskipun ráðsins 92/91/EBE frá 3. nóvember 1992 um lágmarkskröfur um umbætur er varða öryggi, hollustuhætti og heilsu starfsmanna í jarðefnanámi með borunum (ellefta sértilskipun í skilningi 1. mgr. 16. gr. tilskipunar 89/391/EBE). (Stjtíð. EB L 348, 28.11.1992, bls. 9).
Neðanmálsgrein: 14
(2)    Tilskipun ráðsins 92/104/EBE frá 3. desember 1992 um lágmarkskröfur um umbætur er varða öryggi, hollustuhætti og heilsu starfsmanna í jarðefnanámi á yfirborði jarðar eða neðanjarðar (tólfta sértilskipun í skilningi 1. mgr. 16. gr. tilskipunar 89/391/EBE). (Stjtíð. EB L 404, 31.12.1992, bls. 10).
Neðanmálsgrein: 15
(1)    Stjtíð. EB L 327, 22.12.2000, bls. 1. Tilskipuninni var breytt með ákvörðun nr. 2455/2001/EB (Stjtíð. EB L 331, 15.12.2001, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 16
(2)    Stjtíð. ESB L 143, 30.4.2004, bls. 56.
Neðanmálsgrein: 17
(1)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 18
(2)    Stjtíð. ESB C 321, 31.12.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 19
(1)    Stjtíð. EB L 377, 31.12.1991, bls. 20. Tilskipuninni var breytt með reglugerð (EB) nr. 166/2006.
Neðanmálsgrein: 20
(1)    Tilskipun ráðsins 67/548/EBE frá 27. júní 1967 um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum um flokkun, pökkun og merkingu hættulegra efna (Stjtíð. EB 196, 16.8.1967, bls. 1). Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2004/ 73/EB (Stjtíð. ESB L 152, 30.4.2004, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 21
(2)    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/45/EB frá 31. maí 1999 um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna um flokkun, pökkun og merkingu hættulegra efnablandna (Stjtíð. EB L 200, 30.7.1999, bls. 1). Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2006/8/EB (Stjtíð. ESB L 19, 24.1.2006, bls. 12).
Neðanmálsgrein: 22
(1)    Tilskipun ráðsins 85/337/EBE frá 27. júní 1985 um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið (Stjtíð. EB L 175, 5.7.1985, bls. 40). Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/35/EB (Stjtíð. ESB L 156, 25.6.2003, bls. 17).
Neðanmálsgrein: 23
(1)    Stjtíð. ESB L 41, 14.2.2003, bls. 26.
Neðanmálsgrein: 24
(2)    Tilskipun ráðsins 76/464/EBE frá 4. maí 1976 um mengun af völdum tiltekinna hættulegra efna sem losuð eru í vatn í Bandalaginu (Stjtíð. EB L 129, 18.5.1976, bls. 23). Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2000/ 60/EB.
Neðanmálsgrein: 25
(3)    Tilskipun ráðsins 80/68/EBE frá 17. desember 1979 um verndun grunnvatns gegn mengun af völdum tiltekinna hættulegra efna (Stjtíð. EB L 20, 26.1.1980, bls. 43). Tilskipuninni var breytt með tilskipun 91/692/EBE (Stjtíð. EB L 377, 31.12.1991, bls. 48).
Neðanmálsgrein: 26
(1)     Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2000/532/EB frá 3. maí 2000 sem kemur í stað ákvörðunar 94/3/EB um skrá yfir úrgang samkvæmt a-lið 1. gr. tilskipunar ráðsins 75/442/EBE um úrgang og ákvörðunar ráðs ins 94/904/EB um skrá yfir hættulegan úrgang samkvæmt 4. mgr. 1. gr. tilskipunar ráðsins 91/689/EBE um hættulegan úrgang (Stjtíð. EB L 226, 6.9.2000, bls. 3). Ákvörðuninni var síðast breytt með ákvörðun ráðs ins 2001/573/EB (Stjtíð. EB L 203, 28.7.2001, bls. 18).