Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 132. máls.

Þskj. 145  —  132. mál.Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 16/2009, um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)
    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 16/2009, frá 5. febrúar 2009, um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB um lánasamninga fyrir neytendur og um niðurfellingu tilskipunar ráðsins 87/102/EBE.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1.     Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 16/2009, frá 5. febrúar 2009, um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB um lánasamninga fyrir neytendur og um niðurfellingu tilskipunar ráðsins 87/102/EBE.
    Meginmarkmið tilskipunarinnar er frekari sameining markaða og aukin neytendavernd á sviði neytendalána. Innleiðing tilskipunarinnar hér á landi kallar á breytingu á lögum nr. 121/1994, um neytendalán, með síðari breytingum, og var umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar því tekin með stjórnskipulegum fyrirvara.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2.     Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3.     Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB um lánasamninga fyrir neytendur og um niðurfellingu tilskipunar ráðsins 87/102/EBE.
    Meginmarkmið tilskipunar 2008/48/EB er sem áður segir frekari sameining markaða og aukin neytendavernd. Meginreglur tilskipunarinnar eiga að gilda í öllum aðildarríkjunum og eiga að auðvelda neytendum að nýta sér þjónustu erlendra banka. Lánveitendur munu geta markaðssett vörur sínar á öllu Evrópska efnahagssvæðinu án þess að þurfa að aðlaga þær mismunandi landslögum og mun samkeppni þannig aukast. Með staðlaðri framsetningu á samanburðarhæfum upplýsingum verður markaðurinn jafnframt gagnsærri fyrir neytendur og fyrirtæki.
    Tilskipunin eykur skyldur lánveitanda til muna hvað varðar upplýsingar og ráðgjöf, bæði við og fyrir samningsgerð. Sú skylda er lögð á herðar lánveitanda að meta gjaldþol lántaka fyrir samningsgerð á grundvelli upplýsinga frá honum og, ef við á, upplýsinga úr tiltækum gagnagrunnum. Gert er ráð fyrir að lánveitendur sýni ábyrgð við lánveitingar og að þeir uppfylli ekki aðeins upplýsingaskyldu sína fyrir samningsgerð heldur veiti neytendum einnig nánari útskýringar til að gera þeim kleift að taka upplýsta ákvörðun um lántöku.
    Það athugast að þrátt fyrir að um sé að ræða gerð sem kveður á um fulla samræmingu ( full harmonisation) hafa ríki ákveðinn sveigjanleika gagnvart tilteknum ákvæðum tilskipunarinnar.

4.     Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing tilskipunar 2008/48/EB kallar á endurskoðun á núgildandi regluverki um neytendalán. Gera má ráð fyrir að efnahags- og viðskiptaráðherra leggi fram frumvarp til nýrra laga um neytendalán á vorþingi.
    Til að mæta þeim skilyrðum sem fram koma í tilskipun 2008/48/EB munu í frumvarpi til nýrra laga um neytendalán koma fram auknar kröfur til vandaðra vinnubragða lánastofnana, þar á meðal aukin krafa um upplýsingagjöf auk skyldu til að meta gjaldþol lántaka fyrir samningsgerð. Í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar verður sett þak á uppgreiðslukostnað lána og neytendur munu hafa 14 daga frest til að falla frá samningi. Réttarstaða neytenda við gerð lánasamnings mun með þessum fyrirhuguðu breytingum batna til muna frá því sem nú er. Ekki er fyrirséð að stjórnsýslulegar afleiðingar verði miklar. Sem fyrr er gert ráð fyrir að Neytendastofa muni hafa eftirlit með því að lögum um neytendalán sé fylgt og ekki er gert ráð fyrir miklum breytingum á þeim úrræðum sem hún hefur til að sinna því verkefni.
    Hvað varðar efnahagslegar afleiðingar þá er eitt af höfuðmarkmiðum tilskipunarinnar frekari sameining markaða. Í því felast meðal annars auknir möguleikar lánveitanda að bjóða þjónustu sína yfir landamæri aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins og að sama skapi möguleikar neytenda til að sækja slíka þjónustu yfir landamæri. Hinar nýju reglur munu stuðla að aukinni samkeppni um veitingu lána hér á landi sem ætti að skila sér í lægri vöxtum til neytenda.Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 16/2009

frá 5. febrúar 2009

um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)         XIX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 114/2008 frá 7. nóvember 2008 ( 1 ).

2)         Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB frá 23. apríl 2008 um lánasamninga fyrir neytendur og um niðurfellingu tilskipunar ráðsins 87/102/ EBE ( 2 ).

3)         Samkvæmt ákvæðum tilskipunar 2008/48/EB fellur úr gildi 12. maí 2010 tilskipun ráðsins 87/102/EBE ( 3 ), en sú gerð hefur verið felld inn í samninginn og ber því að fella hana úr samningnum þannig að sú breyting komi til framkvæmda 12. maí 2010.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


XIX. viðauki við samninginn breytist sem hér segir:

1.         Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 7g (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/29/ EB):

        „7h.     32008 L 0048: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB frá 23. apríl 2008 um lánasamninga fyrir neytendur og um niðurfellingu tilskipunar ráðsins 87/102/EBE (Stjtíð. ESB L 133, 22.5.2008, bls. 66).“

2.         Texti 4. liðar (tilskipun ráðsins 87/102/EBE) falli brott og kemur sú breyting til framkvæmda 12. maí 2010.

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2008/48/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi 6. febrúar 2009 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.
Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2008/48/EB
frá 23. apríl 2008
um lánasamninga fyrir neytendur og um niðurfellingu tilskipunar ráðsins 87/102/EBE

EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 95. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 2 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Í tilskipun ráðsins 87/102/EBE frá 22. desember 1986 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán ( 3 ) er mælt fyrir um reglur á vettvangi Bandalagsins er varða lánssamninga fyrir neytendur.
2)          Árið 1995 lagði framkvæmdastjórnin fram skýrslu um framkvæmd tilskipunar 87/102/ EBE og hafði víðtækt samráð við hagsmunaaðila. Árið 1997 lagði framkvæmdastjórnin fram yfirlitsskýrslu um viðbrögð við skýrslunni frá 1995. Önnur skýrsla var gerð árið 1996 um framkvæmd tilskipunar 87/102/EBE.
3)          Skýrslur þessar og samráð leiddu í ljós verulegan mun á lögum hinna ýmsu aðildarríkja að því er varðar lán til einstaklinga almennt og þó einkum neytendalán. Athugun á innlendum lögum, sem beitt er við lögleiðingu tilskipunar 87/102/EBE, leiðir í ljós að aðildarríkin beita, auk tilskipunar 87/102/EBE, margs konar aðferðum við neytendavernd, vegna mismunandi lagalegrar eða efnahagslegrar stöðu á milli landa.
4)          Aðstæður, að lögum og í reynd, sem stafa af þessum mun á milli landa, leiða í sumum tilvikum til samkeppnisröskunar meðal lánveitenda í Bandalaginu og skapa hindranir á innri markaðnum þar sem aðildarríkin hafa samþykkt önnur skyldubundin ákvæði sem eru strangari en þau sem kveðið er á um í tilskipun 87/102/EBE. Það takmarkar þá möguleika neytenda að nýta sér beint síaukið framboð á lánum yfir landamæri. Þessi röskun og takmarkanir geta svo aftur haft áhrif á eftirspurn eftir vörum og þjónustu.
5)          Á undanförnum árum hefur orðið veruleg þróun að því er varðar þær tegundir lána sem neytendum standa til boða og sem þeir nýta sér. Nýir lánagerningar hafa komið fram og notkun þeirra er í stöðugri þróun. Því er nauðsynlegt að breyta gildandi ákvæðum og víkka út gildissvið þeirra þegar við á.
6)          Í samræmi við sáttmálann myndar innri markaðurinn svæði án innri landamæra þar sem frjálsir vöruflutningar, frjáls þjónustustarfsemi og staðfesturéttur eru tryggð. Þróun gagnsærri og skilvirkari lánamarkaðar á svæði án innri landamæra er mjög mikilvæg til að unnt sé að auka og efla starfsemi yfir landamæri.
7)          Nauðsynlegt er, til að auðvelda tilkomu vel starfandi innri markaðar fyrir neytendalán, að setja ákvæði um samræmdan Bandalagsramma á ýmsum mikilvægum sviðum. Í ljósi stöðugrar þróunar markaðar fyrir neytendalán og aukins hreyfanleika evrópskra ríkisborgara, getur framsýn Bandalagslöggjöf, sem unnt er að laga að framtíðarskipulagi lána og sem gerir aðildarríkjum kleift að hafa hæfilegan sveigjanleika í framkvæmd sinni, stuðlað að því að tekið verði upp nútímalegt kerfi laga um neytendalán.
8)          Mikilvægt er að markaðurinn bjóði neytendavernd í nægilega miklum mæli til að tryggja tiltrú neytenda. Því ætti að vera mögulegt að halda úti frjálsum lánatilboðum við bestu skilyrði, bæði fyrir þá sem bjóða lán og þá sem óska eftir þeim, að teknu tilliti til sérstakra aðstæðna í hverju aðildarríki um sig.
9)          Nauðsynlegt er að halda fullu samræmi til að tryggja að allir neytendur í Bandalaginu njóti mikillar og sambærilegrar verndar hagsmuna sinna og til að koma á fót heilum og óskiptum innri markaði. Aðildarríkin skulu því ekki hafa heimild til að viðhalda eða innleiða innlend ákvæði, önnur en þau sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun. Slíkar takmarkanir skulu þó aðeins gilda þegar ákvæði þessarar tilskipunar eru samræmd. Séu engin slík samræmd ákvæði til skal aðildarríkjunum vera frjálst að viðhalda innlendri löggjöf eða innleiða nýja. Þannig geta aðildarríki t.d. viðhaldið eða innleitt innlend ákvæði um að seljandi eða þjónustuveitandi og lánveitandi beri óskipta bótaábyrgð. Annað dæmi um slíka möguleika aðildarríkja gæti verið viðhald eða innleiðing innlendra ákvæða um uppsögn samnings um sölu á vöru eða þjónustu ef neytandinn nýtir rétt sinn til að falla frá lánssamningnum. Í þessu sambandi skulu aðildarríki hafa heimild til þess, þegar um er að ræða opna lánssamninga, að ákveða lágmarkstímabil sem stendur yfir frá þeim tíma þegar lánveitandi óskar eftir endurgreiðslu og til þess dags þegar endurgreiða á lánið.
10)          Samræmingarsvið er ákvarðað með skilgreiningunum í þessari tilskipun. Sú skylda aðildarríkja að innleiða ákvæði þessarar tilskipunar skal því takmarkast við gildissvið hennar eins og ákvarðað er með þeim skilgreiningum. Þessi tilskipun skal þó ekki hafa áhrif á beitingu aðildarríkja, í samræmi við lög Bandalagsins, á ákvæðum þessarar tilskipunar á sviðum sem falla ekki undir gildissvið hennar. Aðildarríki getur því viðhaldið eða innleitt innlend lög sem samsvara ákvæðum þessarar tilskipunar eða hluta af ákvæðum hennar um lánssamninga utan gildissviðs þessarar tilskipunar, t.d. um lánssamninga sem varða lægri fjárhæðir en 200 evrur eða hærri en 75 000 evrur. Aðildarríkin geta enn fremur beitt ákvæðum þessarar tilskipunar gagnvart tengdum lánum sem falla ekki undir skilgreiningu þessarar tilskipunar á tengdum lánssamningum. Beita má ákvæðum um tengda lánssamninga gagnvart lánssamningum sem er aðeins að hluta til ætlað að fjármagna samning um vöru- eða þjónustuveitingu.
11)          Þegar um er að ræða sérstaka lánssamninga, sem aðeins sum af ákvæðum þessarar tilskipunar gilda um, skulu aðildarríkin ekki hafa heimild til að setja innlend lög til framkvæmdar öðrum ákvæðum þessarar tilskipunar. Aðildarríkjunum skal þó vera frjálst að setja reglur í landslögum sínum um slíkar tegundir lánssamninga að því er varðar aðra þætti sem ekki samrýmast þessari tilskipun.
12)          Samningar um veitingu stöðugrar þjónustu eða afhendingu á sams konar vörum, þar sem neytandinn greiðir afborganir af vörunni eða þjónustunni svo lengi sem hún berst, geta verið verulega frábrugðnir lánssamningum sem falla undir þessa tilskipun að því er varðar hagsmuni samningsaðilanna og að því er varðar tilhögun og framkvæmd viðskiptanna. Þess vegna skal tekið fram að í þessari tilskipun teljast slíkir samningar ekki vera lánssamningar. Slíkir samningar geta t.d. verið vátryggingasamningar þar sem tryggingin er greidd með mánaðarlegum afborgunum.
13)          Þessi tilskipun gildir ekki um tilteknar tegundir lánssamninga, s.s. debetkort með greiðslufresti, með þeim skilmálum að endurgreiða þurfi lánið innan þriggja mánaða og kostnaður, sem greiða þarf, sé óverulegur.
14)          Lánssamningar, sem ná til lána sem eru tryggð með fasteignum, skulu undanþegnir gildissviði þessarar tilskipunar. Sú tegund láns er alveg sérstaks eðlis. Lánssamningar, sem eru gerðir í þeim tilgangi að fjármagna kaup eða viðhalda eignarrétti á landi eða byggingu sem hefur verið reist eða áformað er að reisa, skulu einnig vera undanþegnir gildissviði þessarar tilskipunar. Ekki skal þó útiloka lánssamninga frá gildissviði þessarar tilskipunar einungis af þeirri ástæðu að tilgangurinn með þeim sé að endurnýja eða auka verðmæti byggingar sem hefur verið reist.
15)          Ákvæði þessarar tilskipunar gilda, óháð því hvort lánveitandi er lögaðili eða einstaklingur. Þessi tilskipun hefur þó ekki áhrif á rétt aðildarríkja til að takmarka, í samræmi við lög Bandalagsins, veitingu neytendalána við lögaðila eingöngu eða við tiltekna lögaðila.
16)          Tiltekin ákvæði þessarar tilskipunar skulu gilda um einstaklinga og lögaðila (lánamiðlara) sem, í viðskiptum sínum, atvinnustarfsemi eða sérgrein, og gegn gjaldi, kynna eða bjóða neytendum lánssamninga, aðstoða neytendur með því að taka að sér undirbúningsvinnu fyrir lánssamninga eða gera lánssamninga við neytendur fyrir hönd lánveitanda. Stofnanir, sem heimila að auðkenni þeirra sé notað við markaðssetningu útlánamiðla, (credit product) t.d. greiðslukorta, og sem mæla e.t.v. einnig með þeim útlánamiðlum við aðila að stofnuninni, skulu ekki teljast lánamiðlarar að því er þessa tilskipun varðar.
17)          Í þessari tilskipun eru aðeins settar reglur um skuldbindingar lánamiðlara gagnvart neytendum. Aðildarríkjunum skal því vera frjálst að viðhalda eða taka upp viðbótarskuldbindingar fyrir lánamiðlara, þ.m.t. skilyrði fyrir því að lánamiðlari geti tekið við gjaldi frá neytanda sem hefur óskað eftir þjónustu hans.
18)          Neytendur skulu verndaðir gagnvart óréttmætum eða villandi starfsháttum, einkum að því er varðar upplýsingar frá lánveitanda, í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/ 29/EB frá 11. maí 2005 um óréttmæta viðskiptahætti gagnvart neytendum á innri markaðnum (tilskipun um óréttmæta viðskiptahætti) ( 1 ). Í þessari tilskipun skulu þó vera sérstök ákvæði um auglýsingar sem varða lánssamninga svo og tilteknar, staðlaðar upplýsingar sem veita skal neytendum, einkum til að gera þeim kleift að bera saman mismunandi tilboð. Slíkar upplýsingar skal veita á skýran, hnitmiðaðan og áberandi hátt með lýsandi dæmum. Sé ekki mögulegt að tilgreina heildarfjárhæð láns sem heildarsamtölu þeirra fjárhæða sem kostur er gefinn á skal setja þak, einkum þegar sá möguleiki felst í lánssamningi að neytandinn geti nýtt lánið að vild, með takmörkunum að því er varðar fjárhæð. Þakið skal gefa til kynna efri mörk þess láns sem neytandi getur fengið. Þegar um er að ræða auglýsingar, þar sem ekki koma fram upplýsingar um lánskostnaðinn, skal aðildarríkjunum auk þess vera frjálst að setja reglur í landslögum sínum varðandi kröfur um slíkar upplýsingar.
19)          Til að neytendur geti tekið ákvarðanir á grundvelli þekkingar á staðreyndum skulu þeir, áður en þeir gera lánssamning, fá fullnægjandi upplýsingar, sem þeir geta tekið með sér og athugað, um skilyrði fyrir láninu og lánskostnað og um skuldbindingar sínar. Til að tryggja mesta mögulega gagnsæi og samræmi tilboða skulu slíkar upplýsingar einkum fela í sér árlega hlutfallstölu kostnaðar af láninu, sem er ákvörðuð á sama hátt alls staðar í Bandalaginu. Þar eð einungis er hægt að tilgreina árlega hlutfallstölu kostnaðar með dæmi á þessu stigi skal slíkt dæmi vera lýsandi. Þess vegna er t.d. rétt að það samsvari meðalgildistíma og heildarfjárhæð láns sem er veitt vegna þeirrar tegundar lánssamnings sem gert er ráð fyrir og þeirrar vöru sem keypt er, ef við á. Þegar lýsandi dæmi er ákvarðað skal einnig taka tillit til tíðni ákveðinna tegunda lánssamninga á tilteknum markaði. Að því er varðar útlánsvexti, tíðni afborgana og færslu vaxta til eignar á efnahagsreikningi, skulu lánveitendur nota hefðbundna reikningsaðferð sína varðandi viðkomandi neytendalán.
20)          Heildarlántökukostnaður neytanda skal fela í sér allan kostnað, þ.m.t. vexti, umboðslaun, skatta, þóknanir til lánamiðlara og öll önnur gjöld sem neytandinn þarf að greiða í tengslum við lánssamning, að frátöldum lögbókunarkostnaði. Meta skal raunverulega vitneskju lánveitenda um kostnað á hlutlægan hátt að teknu tilliti til krafna um faglega kostgæfni.
21)          Lánssamningar þar sem útlánsvextir eru endurskoðaðir með ákveðnu millibili í samræmi við breytingar á viðmiðunarvöxtum, sem um getur í lánssamningnum, skulu ekki teljast lánssamningar með föstum útlánsvöxtum.
22)          Aðildarríkjunum skal vera frjálst að viðhalda eða innleiða innlend ákvæði sem banna lánveitanda að krefjast þess að neytandinn opni bankareikning í tengslum við lánssamning eða geri samning vegna annarrar viðbótarþjónustu, eða greiði kostnað eða þóknun fyrir slíka bankareikninga eða aðra viðbótarþjónustu. Í þeim aðildarríkjum þar sem slík tengd tilboð eru leyfð skulu neytendur fá upplýsingar, áður en lánssamningurinn er gerður, um alla viðbótarþjónustu sem er gerð að skyldu til að lánið fáist yfirleitt, eða með þeim skilmálum og skilyrðum sem fylgja. Kostnaðurinn við þessa viðbótarþjónustu skal vera innifalinn í heildarlántökukostnaði; að öðrum kosti skulu neytendur, ef ekki er hægt að ákvarða fjárhæð kostnaðar fyrir fram, fá fullnægjandi upplýsingar um það, áður en samningur er gerður, að gera verði ráð fyrir slíkum kostnaði. Gera skal ráð fyrir því að lánveitandi hafi vitneskju um kostnaðinn við þá viðbótarþjónustu sem hann býður neytandanum sjálfur, eða fyrir hönd þriðja aðila, nema verðið sé háð sérstökum aðstæðum eða stöðu neytandans.
23)          Þegar um er að ræða sérstakar tegundir lánssamninga er þó rétt að takmarka kröfur í þessari tilskipun um upplýsingar sem skal veita áður en samningur er gerður, til að tryggja fullnægjandi neytendavernd, án þess að leggja of þunga byrði á lánveitendur eða, þegar um slíkt er að ræða, lánamiðlara, að teknu tilliti til eiginleika slíkra samningstegunda.
24)          Veita þarf neytanda ítarlegar upplýsingar áður en hann gerir lánssamninginn, án tillits til þess hvort lánamiðlari hefur átt hlut að því að markaðssetja lánið eða ekki. Krafan um upplýsingar áður en samningur er gerður skal því að jafnaði einnig gilda um lánamiðlara. Ef veitendur vöru og þjónustu stunda lánamiðlun sem aukastarfsemi er þó ekki rétt að íþyngja þeim með lagalegri skuldbindingu um að veita upplýsingar áður en gengið er til samninga í samræmi við þessa tilskipun. Veitendur vöru og þjónustu geta t.d. talist stunda lánamiðlun sem aukastarfsemi ef starfsemi þeirra sem lánamiðlara er ekki meginástæðan fyrir viðskiptum þeirra, atvinnustarfsemi eða sérgrein. Í þeim tilvikum geta neytendur þó fengið næga vernd þar eð lánveitandi ber ábyrgð á því að tryggja að neytandinn fái allar upplýsingar áður en gengið er til samninga, annaðhvort frá lánamiðlaranum, ef lánveitandi og lánamiðlari koma sér saman um það, eða á annan viðeigandi hátt.
25)          Aðildarríkin geta sett reglur um það að hve miklu leyti upplýsingarnar, sem veita skal neytanda áður en lánssamningur er gerður, séu bindandi og í hve langan tíma lánveitandi sé bundinn af þeim.
26)          Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að stuðla að ábyrgum starfsháttum á öllum stigum lánatengsla að teknu tilliti til sérstakra þátta sem einkenna lánamarkað þeirra. Þessar ráðstafanir geta t.d. falið í sér upplýsingagjöf og fræðslu til neytenda, þ.m.t. viðvaranir um þá áhættu sem fylgir vanskilum og skuldasöfnun. Einkum er það mikilvægt á stækkandi lánamarkaði að lánveitendur stundi ekki óábyrga lánastarfsemi eða veiti lán án þess að hafa áður fengið mat á lánshæfi og aðildarríkin skulu hafa nauðsynlegt eftirlit til að komast hjá slíkri hegðun og skulu ákvarða nauðsynleg úrræði til að beita þá lánveitendur viðurlögum sem það gera. Með fyrirvara um ákvæði um lánsáhættu í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB frá 14. júní 2006 um stofnun og rekstur lánastofnana ( 1 ) skulu lánveitendur bera ábyrgð á því að lánshæfi neytandans sé athugað í hverju tilviki fyrir sig. Í því skyni skal þeim ekki aðeins vera heimilt að nota upplýsingar sem neytandinn veitir meðan á undirbúningi viðkomandi lánssamnings stendur, heldur einnig á meðan langvarandi viðskiptasamband varir. Yfirvöld í aðildarríkjunum geta einnig gefið lánveitendum viðeigandi fyrirmæli og leiðbeiningar. Neytendur skulu einnig sýna varkárni og standa við samningsskyldur sínar.
27)          Þrátt fyrir upplýsingarnar, sem veita skal áður en samningur er gerður, getur neytandinn þó þarfnast frekari aðstoðar til að ákveða hver þeirra útlánamiðla sem standa til boða hentar best þörfum hans og fjárhagsaðstæðum. Aðildarríkin skulu því sjá til þess að lánveitendur veiti slíka aðstoð í tengslum við þá útlánamiðla sem þeir bjóða neytandanum. Þegar við á skulu upplýsingarnar, sem veita skal áður en gengið er til samninga, útskýrðar fyrir neytandanum með tilliti til persónulegra aðstæðna hans og einnig helstu eiginleikar þeirra útlánamiðla sem í boði eru svo að neytandinn geti áttað sig á því hvaða áhrif samningurinn kann að hafa á efnahagsstöðu hans. Þegar við á skal sú skylda að aðstoða neytandann einnig gilda um lánamiðlara. Aðildarríki geta ákveðið hvenær og í hve miklum mæli neytandi fær slíkar skýringar, að teknu tilliti til sérstakra aðstæðna þegar lánið er boðið fram, þarfa neytandans fyrir aðstoð og þess hvers eðlis einstakir útlánamiðlar eru.
28)          Til að meta lánsstöðu neytanda skal lánveitandi einnig leita upplýsinga í viðeigandi gagnasöfnum; lagalegar aðstæður og raunverulegar aðstæður geta valdið því að krafan um slíka upplýsingaöflun verður mismikil. Til að koma í veg fyrir röskun á samkeppni meðal lánveitenda skal tryggja að lánveitendur hafi aðgang að gagnasöfnum einkaaðila eða opinberra aðila varðandi neytendur í aðildarríki þar sem þeir hafa ekki staðfestu, með skilyrðum án mismununar borið saman við lánveitendur í því aðildarríki.
29)          Ef ákvörðun um að hafna lánsumsókn er byggð á upplýsingum úr gagnasafni skal lánveitandi láta neytandann vita af því og veita nánari upplýsingar um viðkomandi gagnasafn. Lánveitandanum ber þó ekki skylda til að veita slíkar upplýsingar ef það er bannað samkvæmt öðrum lögum Bandalagsins, t.d. lögum um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka. Slíkar upplýsingar skulu heldur ekki veittar ef það fer í bága við markmið allsherjarreglu eða almannaöryggis, eins og það að koma í veg fyrir, rannsaka, koma upp um eða ákæra fyrir lögbrot.
30)          Í þessari tilskipun eru ekki settar reglur um þau atriði samningslaga er varða gildi lánssamninga. Aðildarríkin geta því, á þessu sviði, viðhaldið eða innleitt innlend ákvæði sem eru í samræmi við lög Bandalagsins. Aðildarríki geta sett lagaramma um tilboð um gerð lánssamnings, einkum það hvenær samningur verður gerður og tímabilið sem á að vera bindandi fyrir lánveitanda. Ef slíkt tilboð er gert um leið og gefnar eru upplýsingar sem, samkvæmt þessari tilskipun, skal veita áður en gengið er til samninga, skulu þær, eins og allar viðbótarupplýsingar sem lánveitandi kann að vilja gefa neytanda, veittar í sérstöku skjali sem getur verið viðauki við staðlaðar upplýsingar um lán til evrópskra neytenda.
31)          Til að neytandi geti þekkt réttindi sín og skyldur samkvæmt lánssamningnum skulu allar nauðsynlegar upplýsingar koma þar fram á skýran og hnitmiðaðan hátt.
32)          Til að tryggja fullt gagnsæi skal veita neytandanum upplýsingar um útlánsvexti, bæði áður en gengið er til samninga og þegar lánssamningurinn er gerður. Á þeim tíma sem samningsbundin tengsl standa yfir skal enn fremur upplýsa neytandann um breytingar sem verða á breytilegum útlánsvöxtum og breytingar á greiðslum af þeim sökum. Þetta er með fyrirvara um ákvæði í landslögum, sem tengjast ekki neytendaupplýsingum, þar sem mælt er fyrir um skilyrði fyrir eða afleiðingar af breytingum, öðrum en þeim sem varða greiðslur, á útlánsvöxtum og öðrum fjárhaglegum skilyrðum sem varða lánið, t.d. reglum þar sem kveðið er á um að lánveitandi hafi því aðeins heimild til að breyta útlánsvöxtum að gild ástæða sé fyrir slíkri breytingu eða að neytandinn geti sagt upp samningnum ef breyting verður á útlánsvöxtum eða öðrum efnahagslegum aðstæðum varðandi lánið.
33)          Samningsaðilarnir skulu eiga rétt á því að segja upp opnum lánssamningi á venjulegan hátt. Auk þess á lánveitandi rétt á því, ef samþykki er fyrir því í lánssamningnum, að afnema, af ástæðum sem eru rökstuddar á hlutlægan hátt, rétt neytandans til að nýta lánsmöguleika opins lánssamnings. Slíkar ástæður geta t.d. verið grunur um óheimila eða sviksamlega notkun á láninu eða verulega aukna hættu á því að neytandinn verði ófær um að standa við þá skuldbindingu sína að endurgreiða lánið. Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á landslög á sviði samningalaga þar sem settar eru reglur um rétt samningsaðila til að segja upp lánssamningi vegna samningsbrots.
34)          Til að samræma aðferðir við nýtingu réttar til að falla frá samningi á svipuðum sviðum er nauðsynlegt að setja ákvæði um réttinn til að falla frá samningi án þess að það leiði til refsingar og án allra skuldbindinga um rökstuðning, við aðstæður svipaðar þeim sem kveðið er á um í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/65/EB frá 23. september 2002 varðandi fjarsölu á fjármálaþjónustu fyrir neytendur ( 1 ).
35)          Þegar neytandi fellur frá lánssamningi sem tengist vörum sem hann hefur fengið, einkum þegar um er að ræða kaup með afborgunum eða leigu- eða kaupleigusamning þar sem kveðið er á um kaupskyldu, skal þessi tilskipun vera með fyrirvara um reglusetningu aðildarríkja um atriði sem varða skil á vörunni eða tengjast þeim.
36)          Í sumum tilvikum er nú þegar kveðið á um það í landslögum að neytandinn geti ekki fengið aðgang að fénu fyrr en eftir ákveðinn tíma. Í þeim tilvikum kann neytandinn að vilja tryggja að hann fái vöru eða þjónustu, sem hann kaupir, afhenta snemma. Sé um að ræða tengda lánssamninga geta aðildarríkin því, í undantekningartilvikum, kveðið á um að ef neytandinn óskar eindregið eftir því að fá snemmbúna afhendingu, megi stytta frest til að nýta réttinn til að falla frá samningi þannig að hann verði sá sami og fresturinn til að fá aðgang að fénu.
37)          Þegar um er að ræða tengda lánssamninga eru kaupin á vörum eða þjónustu og lánssamningur, sem er gerður vegna þessara kaupa, gagnkvæmt háð hvort öðru. Þess vegna skal neytandi, sem nýtir rétt sinn til að falla frá kaupsamningi, sem byggður er á lögum Bandalagsins, ekki lengur vera bundinn af tengda lánssamningnum. Þetta hefur ekki áhrif á landslög um tengda lánssamninga í tilvikum þar sem kaupsamningur hefur verið ógiltur eða neytandinn hefur nýtt rétt sinn til að falla frá honum á grundvelli landslaga. Þetta skal heldur ekki hafa áhrif á rétt neytenda, sem veittur er samkvæmt innlendum ákvæðum, þar sem kveðið er á um að ekki megi stofna til neinna skuldbindinga milli neytandans og veitanda vöru eða þjónustu, og ekki heldur eiga sér stað greiðslur á milli þessara aðila, á meðan neytandinn hefur ekki undirritað lánssamninginn til að fjármagna kaup á vöru eða þjónustu.
38)          Við sérstakar aðstæður skal neytandanum vera heimilt að beita úrræðum gagnvart lánveitandanum þegar upp koma vandamál sem tengjast kaupsamningi. Aðildarríkin skulu þó ákveða í hve miklum mæli og við hvaða aðstæður þess er krafist að neytandinn beiti fyrst úrræðum sínum gagnvart birgi, einkum með því að höfða mál gegn honum, áður en hann beitir þeim gagnvart lánveitanda. Þessi tilskipun skal ekki svipta neytendur þeim rétti sem þeir hafa samkvæmt innlendum ákvæðum um óskipta bótaábyrgð seljanda eða þjónustuveitanda og lánveitanda.
39)          Neytandinn skal eiga rétt á því að aflétta skuldbindingum sínum fyrir þau tímamörk sem eru ákveðin í lánssamningnum. Lánveitandi skal, hvort sem um er að ræða endurgreiðslu fyrir gjalddaga, að hluta til eða að fullu, eiga rétt á bótum vegna kostnaðar sem tengist beint endurgreiðslu fyrir gjalddaga og einnig skal taka tillit til hvers konar sparnaðar fyrir lánveitandann vegna þess. Til að ákvarða aðferðina við útreikning á bótunum er samt mikilvægt að virða nokkrar meginreglur. Útreikningurinn á bótum til lánveitandans skal vera gagnsær og auðskiljanlegur neytendum strax fyrir gerð lánssamnings og undir öllum kringumstæðum við framkvæmd hans. Auk þess skal vera auðvelt fyrir lánveitendur að beita reikningsaðferðinni og greiða skal fyrir eftirliti þar til bærra yfirvalda með bótunum. Þess vegna og í ljósi þess að neytendalán eru, vegna gildistíma og umfangs, ekki fjármögnuð með fjármögnunaraðferðum til langs tíma skal fastsetja þak fyrir bætur í formi fastrar fjárhæðar. Þessi aðferð endurspeglar hina sérstöku eiginleika neytendalána og skal ekki hafa áhrif á aðrar aðferðir sem kunna að vera notaðar fyrir aðra útlánamiðla sem eru fjármagnaðir með fjármögnunaraðferðum til langs tíma, s.s. veðlán með föstum vöxtum.
40)          Aðildarríkin skulu hafa rétt til að ákveða að lánveitandi geti aðeins krafist bóta vegna greiðslu fyrir gjalddaga með því skilyrði að fjárhæðin, sem skal greiða á 12 mánaða tímabili, sé yfir mörkum sem aðildarríkin hafa skilgreint. Þegar þessi mörk, sem eiga ekki að fara yfir 10 000 evrur, eru ákvörðuð skulu aðildarríkin t.d. taka tillit til meðaltalsfjárhæðar neytendalána á markaði þeirra.
41)          Framsal á rétti lánveitanda samkvæmt lánssamningi skal ekki hafa þau áhrif að staða neytandans verði lakari. Neytandinn skal einnig vera nægilega vel upplýstur þegar lánssamningurinn er framseldur til þriðja aðila. Ef upphaflegi lánveitandinn stendur áfram fyrir láninu gagnvart neytandanum, með samþykki framsalshafa, hefur neytandinn þó engan verulegan hag af því að vera upplýstur um framsalið. Þess vegna er ónauðsynlegt að setja fram kröfu á vettvangi Evrópusambandsins um að neytandinn fái upplýsingar í slíkum tilvikum.
42)          Aðildarríkjunum skal vera frjálst að viðhalda eða innleiða innlendar reglur þar sem kveðið er á um sameiginlegar boðskiptaleiðir þegar það er nauðsynlegt til að flókin viðskipti getið gengið greiðlega, s.s. verðbréfun eða skiptameðferð eigna sem fer fram í tengslum við skilyrta og stýrða slitameðferð banka.
43)          Nauðsynlegt er, til að stuðla að stofnun og starfsemi innri markaðarins og til að tryggja neytendum í öllu Bandalaginu mikla vernd, að tryggja samanburðarhæfi upplýsinga varðandi árlega hlutfallstölu kostnaðar alls staðar í Bandalaginu. Þrátt fyrir samræmda stærðfræðiformúlu fyrir útreikning er árleg hlutfallstala kostnaðar, sem kveðið er á um í tilskipun 87/102/EBE, ekki enn fyllilega sambærileg í öllu Bandalaginu. Tekið er tillit til mismunandi kostnaðarþátta við útreikning í hverju aðildarríki um sig. Í þessari tilskipun skal því vera skýr og ítarleg skilgreining á heildarlántökukostnaði neytanda.
44)          Til að tryggja gagnsæi og stöðugleika markaðarins, og þar til frekari samræming verður gerð, skulu aðildarríkin tryggja að viðeigandi ráðstafanir varðandi reglusetningu um eða eftirlit með lánveitendum séu gerðar.
45)          Í þessari tilskipun er tekið tillit til grundvallarréttinda og þeim meginreglum fylgt sem eru viðurkenndar í sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi. Í þessari tilskipun er einkum leitast við að tryggja að tekið sé fullt tillit til reglna um vernd persónuupplýsinga, eignaréttar, banns við mismunun, verndar fjölskyldulífs og atvinnulífs, og neytendaverndar samkvæmt sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi.
46)          Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiði þessarar tilskipunar, þ.e. að setja sameiginlegar reglur um ákveðna þætti laga og stjórnsýslufyrirmæla aðildarríkjanna varðandi neytendalán, og því verður betur náð á vettvangi Bandalagsins, er Bandalaginu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra í þessari tilskipun en nauðsyn krefur til að ná þessu markmiði.
47)          Aðildarríkin skulu mæla fyrir um reglur um viðurlög við brotum gegn innlendum ákvæðum sem eru samþykkt samkvæmt þessari tilskipun og tryggja framkvæmd þeirra. Þar eð aðildarríkin ákveða hvaða viðurlögum verður beitt skulu þau viðurlög, sem kveðið er á um, vera árangursrík, í samræmi við brotið og letjandi.
48)          Samþykkja skal nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar þessari tilskipun í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 1 ).
49)          Framkvæmdastjórnin skal hafa heimild til að samþykkja viðbótarforsendur fyrir útreikningi á árlegri hlutfallstölu kostnaðar. Þar eð þessar ráðstafanir eru almennar og ætlaðar til að breyta atriðum sem ekki teljast grundvallaratriði í þessari tilskipun, skulu þær samþykktar í samræmi við málsmeðferð í stjórnsýslunni með athugun sem kveðið er á um í 5. gr. a í ákvörðun 1999/468/EB.
50)          Í samræmi við 34. gr. samstarfssamningsins milli stofnana um betri lagasetningu ( 2 ) eru aðildarríkin hvött til að taka saman, bæði í eigin þágu og í þágu Bandalagsins, eigin töflur sem sýna, eftir því sem við verður komið, samsvörun milli þessarar tilskipunar og ráðstafana til að lögleiða hana og að birta þær.
51)          Í samræmi við það, að teknu tilliti til fjölda þeirra breytinga sem gera þarf á tilskipun 87/ 102/EBE vegna þróunar á sviði neytendalána og í þágu skýrleika löggjafar Bandalagsins, skal fella þá tilskipun úr gildi og þessi tilskipun koma í hennar stað.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

I. KAFLI
VIÐFANGSEFNI, GILDISSVIÐ OG SKILGREININGAR
1. gr.
Viðfangsefni

Markmiðið með þessari tilskipun er að samræma tiltekna þætti laga og stjórnsýslufyrirmæla aðildarríkjanna, sem varða neytendalán.

2. gr.
Gildissvið

1.     Tilskipun þessi gildir um lánssamninga.
2.     Tilskipun þessi gildir ekki um:
a)    lánssamninga sem eru tryggðir, annaðhvort með veðláni eða annarri sambærilegri tryggingu sem er venjulega notuð í aðildarríki í tengslum við fasteignir, eða tryggðir með réttindum sem tengjast fasteignum,
b)    lánssamninga sem eru gerðir í þeim tilgangi að eignast eða viðhalda eignarrétti á landi eða á byggingu sem reist hefur verið eða áformað er að reisa,
c)    lánssamninga sem varða lægri heildarfjárhæð láns en 200 evrur eða hærri en 75 000 evrur,
d)    leigu- eða kaupleigusamninga þar sem ekki er gert að skyldu að kaupa þann hlut sem samið er um, hvorki í samningnum sjálfum né í sérstökum samningi; slík skylda skal teljast vera í gildi ef lánveitandi ákveður það einhliða,
e)    lánssamninga í formi yfirdráttarheimildar þar sem endurgreiða þarf lánið innan eins mánaðar,
f)    lánssamninga þar sem lánið er veitt án þess að greiddir séu vextir né nokkur annar kostnaður og lánssamninga sem eru með þeim skilmálum að endurgreiða eigi lánið innan þriggja mánaða og einungis þurfi að greiða óverulegan kostnað,
g)    lánssamninga þar sem vinnuveitandi veitir starfsmönnum sínum lánið sem lið í aukastarfsemi, vaxtalaust eða með árlegri hlutfallstölu kostnaðar sem er lægri en markaðsvextir og sem er ekki að jafnaði í boði fyrir almenning,
h)    lánssamninga sem eru gerðir við fjárfestingarfyrirtæki eins og skilgreint er í 1. mgr. 4. gr. í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2004 um markaði fyrir fjármálagerninga ( 1 ) eða við lánastofnanir eins og skilgreint er í 4. gr. tilskipunar 2006/48/EB með það fyrir augum að fjárfestir eigi möguleika á því að eiga viðskipti varðandi einn eða fleiri fjármálagerninga, sem eru skráðir í C-þætti I. viðauka við tilskipun 2004/39/EB, þegar fjárfestingarfyrirtækið, eða lánastofnunin sem veitir lánið, á hlut að þeim viðskiptum,
i)    lánssamninga sem eru gerðir samkvæmt dómsniðurstöðu eða niðurstöðu annars lögboðins yfirvalds,
j)    lánssamninga sem tengjast frestun greiðslu á fyrirliggjandi skuld, án kostnaðar,
k)    lánssamninga þar sem neytandinn er beðinn, við gerð samnings, að afhenda lánveitandanum til vörslu eign sem tryggingu og þar sem ábyrgð neytandans takmarkast algerlega við þá veðsetningu,
l)    lánssamninga sem tengjast lánum sem eru veitt takmörkuðum fjölda aðila samkvæmt lagaákvæðum með almenna hagsmuni í huga og með lægri vöxtum en markaðsvöxtum eða án vaxta eða með öðrum skilmálum sem eru hagstæðari fyrir neytandann en gildandi markaðsskilmálar og með vöxtum sem eru ekki hærri en markaðsvextir.
3.     Þegar um er að ræða lánssamninga í formi yfirdráttarheimildar og greiða þarf lánið samkvæmt kröfu eða innan þriggja mánaða, gilda aðeins 1.–3. gr., 4. gr. (1. mgr.), 4. gr. (a–c-liður 2. mgr.), 4. gr. (4. mgr.), 6.–9. gr., 10. gr.(1. mgr.), 10. gr. (4. mgr.), 10. gr. (5. mgr,), 12., 15. og 17. gr. og 19.–32. gr.
4.     Þegar um er að ræða lánssamninga í formi yfirdráttarlána gilda aðeins 1.–3. gr., 18., 20. og 22.–32. gr.
5.     Aðildarríkin geta ákveðið að aðeins 1.–4. gr., 6., 7. og 9. gr., 10 gr. (1. mgr.), 10. gr. (a–h-liður og 1. liður 2. mgr.), 10. gr. (4. mgr.) og 11., 13. og 16.–32. gr. skuli gilda um lánssamninga sem eru gerðir af stofnun sem:
a)    komið er á fót til gagnkvæms ávinnings fyrir aðila að henni,
b)    skapar ekki hagnað fyrir aðra en sína eigin aðila,
c)    hefur félagslegan tilgang samkvæmt landslögum,
d)    tekur einungis við og hefur umsjón með sparnaði eigin aðila og veitir einungis lán til þeirra og
e)    veitir lán á grundvelli árlegrar hlutfallstölu kostnaðar sem er lægri en gildandi hlutfallstala kostnaðar á markaðnum eða á grundvelli efri marka sem mælt er fyrir um í landslögum,
og aðild takmarkast við einstaklinga sem eru búsettir eða gegna starfi á tilteknum stað eða starfsmenn tiltekins vinnuveitanda, sem eru í starfi eða hættir störfum, eða við einstaklinga sem hafa aðra menntun og hæfi, sem mælt er fyrir um í landslögum, sem grundvöll fyrir sameiginleg tengsl milli aðilanna.
Aðildarríkin geta undanskilið frá beitingu þessarar tilskipunar lánssamninga sem eru gerðir af slíkri stofnun ef heildarverðgildi allra gildandi lánssamninga, sem stofnunin gerir, er óverulegt borið saman við heildarverðgildi allra gildandi lánssamninga í aðildarríkinu þar sem stofnunin er staðsett og heildarverðgildi allra gildandi lánssamninga, sem allar slíkar stofnanir í aðildarríkinu gera, er minna en 1% af heildarverðgildi allra gildandi lánssamninga sem hafa verið gerðir í því aðildarríki.
Aðildarríki skulu ár hvert kanna hvort skilyrðin fyrir beitingu slíkra undantekninga séu áfram í gildi og skulu gera ráðstafanir til að draga til baka undantekningarnar ef þau telja að skilyrðin séu ekki lengur uppfyllt.
6.     Aðildarríkin geta ákveðið að aðeins 1.–4. gr., 6., 7. og 9. gr., 10. gr. (1. mgr.), 10. gr. (a–i-liður, l. liður og r-liður 2. mgr.), 10. gr. (4. mgr.), 11., 13. og 16. gr. og 18–32. gr. skuli gilda um lánssamninga þar sem kveðið er á um fyrirkomulag, sem lánveitandinn og neytandinn samþykkja, varðandi greiðslur sem er frestað eða endurgreiðslur, þegar neytandinn er þegar kominn í vanskil að því er varðar upphaflega lánssamninginn og þegar:
a)    slíkt fyrirkomulag er líklegt til að afstýra málarekstri vegna slíkra vanskila og
b)    neytandinn þarf ekki að hlíta óhagstæðari skilmálum en þeim sem mælt er fyrir um í upphaflega lánssamningnum.
Ef lánssamningurinn fellur undir gildissvið 3. mgr. gilda einungis ákvæði þeirrar málsgreinar.

3. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „neytandi“: einstaklingur sem, í viðskiptum sem þessi tilskipun tekur til, starfar að markmiðum sem eru utan viðskipta hans, atvinnustarfsemi eða sérgreinar,
b)    „lánveitandi“: einstaklingur eða lögaðili sem veitir eða heitir því að veita lán innan ramma viðskipta sinna, atvinnustarfsemi eða sérgreinar,
c)    „lánssamningur“: samningur þar sem lánveitandi veitir, eða heitir því að veita neytanda lán í formi greiðslufrests, láns eða annarrar svipaðrar, fjárhagslegrar fyrirgreiðslu, að undanskildum samningi um veitingu stöðugrar þjónustu eða afhendingu sams konar vöru þar sem neytandinn greiðir afborganir af slíkri þjónustu eða vöru svo lengi sem hún er látin í té,
d)    „yfirdráttarheimild“: ótvíræður lánssamningur þar sem lánveitandi veitir neytanda aðgang að sjóðum umfram gildandi stöðu á tékkareikningi neytandans,
e)    „yfirdráttur“: yfirdráttur með þegjandi samþykki þar sem lánveitandi veitir neytanda aðgang að sjóðum umfram gildandi stöðu á tékkareikningi neytandans eða samþykkta yfirdráttarheimild,
f)    „lánamiðlari“: einstaklingur eða lögaðili sem starfar ekki sem lánveitandi og sem, innan ramma starfsemi sinnar, viðskipta eða sérgreinar, gegn gjaldi sem getur verið í formi peninga eða annars umsamins fjárhagslegs ávinnings:
    i.    kynnir eða býður neytendum lánssamninga,
    ii.    aðstoðar neytendur með því að taka að sér undirbúningsvinnu fyrir lánssamninga, aðra en um getur í i-lið eða
    iii.    gerir lánssamninga við neytendur fyrir hönd lánveitanda,
g)    „heildarlántökukostnaður neytanda“: allur kostnaður, þ.m.t. vextir, þóknun, skattar og öll önnur gjöld sem neytandinn þarf að greiða í tengslum við lánssamninginn og sem lánveitandinn veit um, að frátöldum lögbókunarkostnaði; kostnaður vegna viðbótarþjónustu í tengslum við lánssamninginn, einkum tryggingariðgjöld, er einnig innifalinn ef auk þess er gert að skyldu að gera þjónustusamning til að lánið fáist eða til að fá það með skilmálum og skilyrðum markaðarins,
h)    „heildarfjárhæð sem neytandi greiðir“: samanlögð heildararfjárhæð lánsins og heildarlántökukostnaður neytanda,
i)    „árleg hlutfallstala kostnaðar“: heildarlántökukostnaður neytanda, tilgreindur sem árleg hlutfallstala heildarfjárhæðar láns, þ.m.t., þar sem við á, kostnaður sem um getur í 2. mgr. 19. gr.,
j)    „útlánsvextir“: vextir, tilgreindir sem fast eða breytilegt hlutfall, sem lagðir eru, á ársgrundvelli, á lánsfjárhæð sem hefur verið nýtt,
k)    „fastir útlánsvextir“: þegar lánveitandi og neytandi samþykkja, í lánssamningnum, sömu útlánsvexti á öllu lánstímabilinu eða mismunandi útlánsvexti á mismunandi tímabilum samningsins þar sem eingöngu er notað fast, tiltekið hlutfall. Ef ekki eru allir útlánsvextir ákvarðaðir í lánssamningnum skulu þeir aðeins teljast fastir útlánsvextir á þeim tímabilum þegar útlánsvextir eru eingöngu ákvarðaðir með föstu, tilteknu hlutfalli sem er samþykkt við gerð lánssamningsins,
l)    „heildarfjárhæð láns“: efri mörk eða heildarfjárhæð sem veittur er aðgangur að með lánssamningi,
m)    „varanlegur miðill“: sérhvert tæki sem gerir neytanda kleift að geyma upplýsingar, sem beint er til hans persónulega, á þann hátt að hægt sé að nálgast þær til að fletta upp í þeim síðar, í hæfilegan tíma eftir því hvaða tilgangi upplýsingarnar þjóna og sem gerir kleift að endurgera óbreyttar þær upplýsingarnar sem geymdar eru,
n)    „tengdur lánssamningur“: lánssamningur þar sem
    i.    viðkomandi lán þjónar eingöngu þeim tilgangi að fjármagna samning um veitingu sérstakrar vöru eða sérstakrar þjónustu og
    ii.    þessir tveir samningar mynda, út frá hlutlægu sjónarmiði, viðskiptaeiningu; viðskiptaeining skal teljast vera fyrir hendi ef birgir eða þjónustuveitandi fjármagnar sjálfur lánið fyrir neytandann eða, þar sem þriðji aðili fjármagnar lánið, ef lánveitandi notar þjónustu birgis eða þjónustuveitanda í tengslum við gerð eða undirbúning lánssamnings eða þegar sérstök vara eða veiting sérstakrar þjónustu er sérstaklega tilgreind í lánssamningnum.

II. KAFLI
UPPLÝSINGAR OG STARFSVENJUR ÁÐUR EN LÁNSSAMNINGUR ER GERÐUR
4. gr.
Almennar upplýsingar sem eiga að koma fram í auglýsingum

1.     Í öllum auglýsingum, sem varða lánssamninga þar sem gefnar eru upplýsingar um vexti eða tölur varðandi kostnað neytandans af láninu, skulu koma fram almennar upplýsingar í samræmi við þessa grein.
Þessi skylda gildir ekki þegar þess er krafist í landslögum að gefin sé upp árleg hlutfallstala kostnaðar í auglýsingum er varða lánssamninga þar sem vextir eru ekki tilgreindir eða neinar tölur er varða kostnað neytandans af láni, í skilningi fyrstu undirgreinar.
2.     Veita skal almennar upplýsingar á skýran, hnitmiðaðan og áberandi hátt með lýsandi dæmum um:
a)    útlánsvexti, fasta eða breytilega eða hvort tveggja, ásamt nákvæmri lýsingu á öllum kostnaði sem er innifalinn í heildarlántökukostnaði neytanda,
b)    heildarfjárhæð láns,
c)    árlega hlutfallstölu kostnaðar þegar um er að ræða lánssamning af þeirri gerð sem um getur í 3. mgr. 2. gr.; aðildarríkin geta ákveðið að ekki þurfi að gefa upp árlega hlutfallstölu kostnaðar,
d)    gildistíma lánssamningsins, ef við á,
e)    þegar um er að ræða lán í því formi að greiðslu fyrir sérstaka vöru eða þjónustu er frestað, staðgreiðsluverð vörunnar eða þjónustunnar og fjárhæð hugsanlegrar fyrirframgreiðslu og
f)    ef við á, heildarfjárhæð sem neytandinn þarf að greiða og fjárhæð afborgana.
3.     Ef skylt er að gera samning um viðbótarþjónustu í tengslum við lánssamning, einkum tryggingu, til að fá lánið eða fá það með skilmálum og skilyrðum markaðarins, og ekki er hægt að ákvarða kostnaðinn við þá þjónustu fyrir fram, skal einnig tilgreina, á skýran, hnitmiðaðan og áberandi hátt, þá skyldu að gera þann samning ásamt árlegri hlutfallstölu kostnaðar.
4.     Þessi grein er með fyrirvara um tilskipun 2005/ 29/EB.

5. gr.
Upplýsingar áður en samningur er gerður

1.     Lánveitandi og, ef við á, lánamiðlari skal, nægilega löngu áður en neytandinn er bundinn af lánssamningi eða tilboði, á grundvelli lánsskilmála og skilyrða lánveitandans og, ef við á, sérstakra óska og upplýsinga frá neytandanum, veita neytandanum nauðsynlegar upplýsingarnar til að geta borið saman ólík tilboð og tekið upplýsta ákvörðum um það hvort gera skuli lánssamning. Slíkar upplýsingar skal veita, á pappír eða öðrum varanlegum miðli, í formi staðlaðra upplýsinga um lán til evrópskra neytenda eins og kemur fram í II. viðauka. Lánveitandinn skal teljast hafa uppfyllt kröfur um upplýsingar í þessari málsgrein og í 1. og 2. mgr. 3. gr. tilskipunar 2002/65/EB ef hann hefur veitt staðlaðar upplýsingar um lán til evrópskra neytenda.
Í viðkomandi upplýsingum skal eftirfarandi koma fram:
a)    tegund láns,
b)    auðkenni og heimilisfang lánveitandans svo og, ef við á, auðkenni og heimilisfang lánamiðlarans sem í hlut á,
c)    heildarfjárhæð lánsins og skilyrði fyrir nýtingu,
d)    gildistími lánssamningsins,
e)    þegar um er að ræða lán í því formi að greiðslu er frestað fyrir sérstaka vöru eða þjónustu og tengda lánssamninga, sú vara eða þjónusta og staðgreiðsluverð hennar,
f)    útlánsvextir, skilyrðin sem gilda um beitingu útlánsvaxta og, ef við á, vísitala eða viðmiðunarvextir sem gilda um upphaflegu útlánsvextina, svo og tímabil, skilyrði og málsmeðferð við breytingu á útlánsvöxtunum; ef mismunandi útlánsvextir gilda við mismunandi aðstæður, áðurnefndar upplýsingar um alla gildandi vexti,
g)    árleg hlutfallstala kostnaðar og heildarfjárhæð sem neytandinn greiðir, útskýrð með lýsandi dæmi þar sem fram koma allar forsendur sem notaðar eru við útreikning á hlutfallstölunni; ef neytandinn hefur upplýst lánveitandann um einn eða fleiri þætti þess láns sem hann helst kýs, s.s. gildistíma lánssamningsins og heildarfjárhæð lánsins, skal lánveitandi taka tillit til þeirra þátta; ef lánssamningur býður upp á mismunandi nýtingarleiðir með mismunandi kostnaði eða útlánsvöxtum og lánveitandi notar forsenduna sem um getur í b-lið II. hluta í I. viðauka, skal hann greina frá því að aðrir nýtingarmöguleikar fyrir þessa gerð lánssamnings geti leitt til hærri árlegrar hlutfallstölu kostnaðar,
h)    fjárhæð, fjöldi og tíðni greiðslna sem neytandinn þarf að standa skil á og, ef við á, með hvaða hætti greiðslum verður skipt á hinar ýmsu útistandandi skuldir með mismunandi útlánsvöxtum þegar um endurgreiðslu er að ræða,
i)    ef við á, kostnaður við að hafa einn eða fleiri reikninga þar sem bæði greiðslufærslur og nýting lána eru skráð, nema valfrjálst sé að opna reikning, ásamt kostnaði við notkun greiðsluleiða, bæði fyrir greiðslufærslur og nýtingu lána, annar kostnaður vegna lánssamningsins og forsendur fyrir því að hægt sé að breyta þessum kostnaði,
j)    ef við á, kostnaður sem neytandinn kann að þurfa að greiða vegna lögbókunar við gerð lánssamningsins,
k)    skuldbinding, ef einhver er, um að gera samning um viðbótarþjónustu í tengslum við lánssamninginn, einkum tryggingar, ef gert er að skyldu að gera slíkan samning til að geta fengið lán eða fá það með skilmálum og skilyrðum markaðarins,
l)    gildandi vextir þegar um er að ræða greiðslu eftir gjalddaga og fyrirkomulag á breytingu á þeim og, ef við á, kostnaður sem greiða þarf vegna vanskila,
m)    viðvörun varðandi afleiðingar af vangoldnum greiðslum,
n)    ef við á, tilskildar ábyrgðir,
o)    hvort réttur til að falla frá samningi er fyrir hendi eða ekki,
p)    rétturinn til greiðslu fyrir gjalddaga og, ef við á, upplýsingar varðandi rétt lánveitanda til bóta og á hvaða hátt þær bætur verða ákvarðaðar í samræmi við 16. gr.,
q)    réttur neytandans til að fá þegar í stað upplýsingar honum að kostnaðarlausu samkvæmt 2. mgr. 9. gr. um niðurstöður leitar í gagnasafni sem gerð er með það fyrir augum að meta lánshæfi hans,
r)    réttur neytanda til að fá, samkvæmt beiðni og honum að kostnaðarlausu, afrit af drögum að lánssamningi. Þetta ákvæði gildir ekki ef lánveitandinn er, þegar beiðnin er lögð fram, ófús að gera lánssamning við neytandann og
s)    ef við á, tímabilið sem lánveitandinn er bundinn af því að veita upplýsingar áður en samningur er gerður.
Allar viðbótarupplýsingar sem lánveitandinn veitir neytandanum skulu veittar í sérstöku skjali sem getur verið viðauki við staðlaðar upplýsingar um lán til evrópskra neytenda.
2.     Þegar um er að ræða talsímasamskipti, sem um getur í 3. mgr. 3. gr. tilskipunar 2002/65/EB, skal þó lýsingin á helstu einkennum fjármálaþjónustu, sem skal veita samkvæmt öðrum undirlið b-liðar 3. mgr. 3. gr. þeirrar tilskipunar, fela í sér a.m.k. þau atriði sem um getur í c-, d-, e-, f- og h-lið 1. mgr. þessarar greinar, ásamt árlegri hlutfallstölu kostnaðar, skýrt með lýsandi dæmi og heildarfjárhæð sem neytandanum ber að greiða.
3.     Ef samningurinn hefur verið gerður að beiðni neytandans með tilstyrk fjarskipta, sem gerir það ókleift að veita upplýsingarnar í samræmi við 1. mgr., einkum í tilvikum sem um getur í 2. mgr., skal lánveitandinn, þegar í stað eftir gerð samnings, veita neytandanum allar upplýsingar sem veita skal áður en samningur er gerður, í formi staðlaðra upplýsinga um lán til evrópskra neytenda.
4.     Auk stöðluðu upplýsinganna um lán til evrópskra neytenda skal neytandinn fá, samkvæmt beiðni og honum að kostnaðarlausu, afrit af drögum að lánssamningnum. Þetta ákvæði gildir ekki ef lánveitandinn er, þegar beiðnin er lögð fram, ófús að gera lánssamning við neytandann.
5.     Ef um er að ræða lánssamning þar sem greiðslur neytanda leiða ekki þegar í stað til samsvarandi niðurgreiðslu á heildarfjárhæð lánsins, en eru í stað þess notaðar til að byggja upp höfuðstól á tímabilum og við aðstæður sem mælt er fyrir um í lánssamningnum eða í viðbótarsamningi, skulu upplýsingar, sem veita skal áður en samningur er gerður og sem gerð er krafa um í 1. mgr., fela í sér skýra og hnitmiðaða yfirlýsingu um að slíkir lánssamningar tryggi ekki endurgreiðslu á heildarfjárhæð láns, sem er nýtt samkvæmt lánssamningnum, nema slík ábyrgð sé veitt.
6.     Aðildarríki skulu tryggja að lánveitendur og, ef við á, lánamiðlarar veiti neytandanum fullnægjandi skýringar til að hann geti tekið afstöðu til þess hvort lánssamningur, sem er í boði, sé lagaður að þörfum hans og fjárhagsstöðu, ef við á með því að útskýra upplýsingarnar sem veita skal áður en samningur er gerður í samræmi við 1. mgr., helstu einkenni þeirra útlánamiðla sem eru í boði og þær sérstöku afleiðingar sem það getur haft fyrir neytandann, þ.m.t. afleiðingarnar af vanskilum neytandans á greiðslum. Aðildarríkin geta lagað það að sérstökum aðstæðum þegar lánssamningur er boðinn fram með hvaða hætti og í hve miklum mæli slík aðstoð er veitt, svo og hver veitir hana, hvaða einstaklingi er boðinn lánssamningur og hvaða tegund láns stendur til boða.

6. gr.
Kröfur um fyrirframupplýsingar við gerð tiltekinna lánssamninga í formi yfirdráttarheimildar og við gerð tiltekinna sérstakra lánssamninga

1.     Lánveitandi og, ef við á, lánamiðlari skal, nægilega löngu áður en neytandinn verður bundinn af lánssamningi eða tilboði varðandi lánssamning eins og um getur í 3., 5. eða 6. mgr. 2. gr., á grundvelli lánsskilmála og skilyrða lánveitandans og, ef við á, sérstakra óska og upplýsinga frá neytandanum, veita neytandanum nauðsynlegar upplýsingar til að geta borið saman ólík tilboð og tekið upplýsta ákvörðum um það hvort gera skuli lánssamning.
Í viðkomandi upplýsingum skal eftirfarandi koma fram:
a)    tegund láns,
b)    auðkenni og heimilisfang lánveitandans svo og auðkenni og heimilisfang lánamiðlarans sem í hlut á, ef við á,
c)    heildarfjárhæð láns,
d)    gildistími lánssamningsins,
e)    útlánsvextir, skilyrðin sem gilda um beitingu þeirra vaxta, vísitölu eða viðmiðunarvaxta sem gilda um upphaflegu útlánsvextina, kostnaður sem hefur orðið frá þeim tíma þegar lánssamningurinn er gerður og, ef við á, skilyrðin fyrir því að hægt sé að breyta þessum kostnaði,
f)    árleg hlutfallstala kostnaðar, skýrð með lýsandi dæmum þar sem fram koma allar forsendur sem notaðar eru við útreikning á hlutfallstölunni,
g)    skilyrði og málsmeðferð ef lánssamningnum er sagt upp,
h)    þegar um er að ræða lánssamninga eins og um getur í 3. mgr. 2. gr., ef við á, upplýsingar um að hvenær sem er megi krefja neytandann um endurgreiðslu allrar lánsfjárhæðarinnar,
i)    gildandi vextir þegar um er að ræða greiðslu eftir gjalddaga og fyrirkomulag við breytingu á þeim og, ef við á, annar kostnaður sem greiða þarf vegna vanskila,
j)    réttur neytandans til að fá þegar í stað upplýsingar, honum að kostnaðarlausu, samkvæmt 2. mgr. 9. gr. um niðurstöður leitar í gagnasafni sem er gerð í því skyni að meta lánshæfi hans,
k)    þegar um er að ræða lánssamninga eins og um getur í 3. mgr. 2. gr., upplýsingar um þann kostnað sem hefur orðið frá þeim tíma þegar slíkir samningar eru gerðir og, ef við á, forsendur fyrir því að hægt sé að breyta þessum kostnaði,
l)    ef við á, tímabilið sem lánveitandinn er bundinn af því að veita upplýsingar áður en samningur er gerður.
Veita skal slíkar upplýsingar á pappír eða með öðrum varanlegum miðli og allar upplýsingar skulu vera jafnáberandi. Veita má þær með því að nota eyðublaðið fyrir upplýsingar um lán til evrópskra neytenda sem kemur fram í III. viðauka.
Lánveitandinn skal teljast hafa uppfyllt kröfur um upplýsingar í þessari málsgrein og í 1. og 2. mgr. 3. gr. tilskipunar 2002/65/EB ef hann hefur veitt upplýsingarnar um lán til evrópskra neytenda.
2.     Þegar um er að ræða lánssamning af þeirri gerð sem um getur í 3. mgr. 2. gr., geta aðildarríkin ákveðið að ekki þurfi að gefa upp árlega hlutfallstölu kostnaðar.
3.     Þegar um er að ræða lánssamninga eins og um getur í 5. og 6. mgr. 2. gr. skulu upplýsingarnar, sem eru veittar neytanda í samræmi við 1. mgr. þessarar greinar, einnig fela í sér:
a)    fjárhæð, fjölda og tíðni greiðslna sem neytandinn þarf að standa skil á og, ef við á, með hvaða hætti greiðslum verður skipt á hinar ýmsu útistandandi skuldir með mismunandi útlánsvöxtum þegar um endurgreiðslu er að ræða og
b)    réttinn til greiðslu fyrir gjalddaga og, ef við á, upplýsingar um rétt lánveitanda til bóta og á hvaða hátt þær bætur verða ákvarðaðar.
Ef lánssamningurinn fellur undir gildissvið 3. mgr. 2. gr. skulu einungis ákvæði 1. mgr. í þessari grein gilda.
4.     Þegar um er að ræða talsímaviðskipti og þegar neytandinn óskar eftir því að fá yfirdráttarheimild þegar í stað skal lýsing á helstu einkennum fjármálaþjónustunnar a.m.k. fela í sér þau atriði sem um getur í c-, e-, f- og h-lið 1. mgr. Auk þess skal lýsingin á helstu einkennum, í lánssamningum af þeirri gerð sem um getur í 3. mgr., fela í sér upplýsingar um gildistíma lánssamningsins.
5.     Þrátt fyrir undanþáguna, sem kveðið er á um í e- lið 2. mgr. 2. gr., skulu aðildarríkin a.m.k. beita kröfunum í fyrsta málslið 4. mgr. í þessari grein gagnvart lánssamningum í formi yfirdráttarheimildar og þegar greiða þarf lánið innan eins mánaðar.
6.     Auk upplýsinganna, sem um getur í 1.–4. mgr., skal neytandinn fá, samkvæmt beiðni og honum að kostnaðarlausu, afrit af drögum af lánssamningnum sem hafa að geyma þær upplýsingar um samninginn sem kveðið er á um í 10. gr. ef sú grein er í gildi. Þetta ákvæði gildir ekki ef lánveitandinn er, þegar beiðnin er lögð fram, ófús að gera lánssamning við neytandann.
7.     Ef samningurinn hefur verið gerður að beiðni neytandans með tilstyrk fjarskipta, sem gerir ókleift að veita upplýsingarnar í samræmi við 1. og 3. mgr., þ.m.t. í tilvikum sem um getur í 4. mgr., skal lánveitandinn þegar í stað eftir gerð samningsins uppfylla skyldur sínar skv. 1. og 3. mgr. með því að veita upplýsingar um samninginn skv. 10. gr. ef sú grein er í gildi.

7. gr.
Undantekningar frá kröfum um upplýsingagjöf áður en samningur er gerður

Ákvæði 5. og 6. gr. skulu ekki gilda um þá vöru- eða þjónustuveitendur sem hafa lánamiðlun sem aukastarf. Þetta hefur ekki áhrif á þá skyldu lánveitandans að tryggja að neytandinn fái þær upplýsingar sem veita skal áður en samningur er gerður og um getur í þessum greinum.

8. gr.
Skyldan að meta lánshæfi neytandans

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að áður en samningurinn er gerður meti lánveitandi lánshæfi neytandans á grundvelli fullnægjandi upplýsinga sem eru, þegar við á, fengnar frá neytandanum og á grundvelli leitar í viðeigandi gagnasafni ef nauðsyn krefur. Aðildarríki þar sem þess er krafist skv. lögum að lánveitendur meti lánshæfi neytenda á grundvelli leitar, sem gerð er í viðeigandi gagnasafni, geta haldið þeirri kröfu.
2.     Aðildarríkin skulu tryggja að ef aðilarnir koma sér saman um að breyta heildarfjárhæð láns eftir að lánssamningur er gerður, uppfæri lánveitandinn fjármálaupplýsingar um neytandann sem hann hefur handbærar og meti lánshæfi neytandans áður en veruleg aukning verður á heildarfjárhæð lánsins.

III. KAFLI
AÐGANGUR AÐ GAGNASAFNI
9. gr.
Aðgangur að gagnasafni

1.     Hvert aðildarríki skal, sé um að ræða lán yfir landamæri, tryggja að lánveitendur frá öðrum aðildarríkjum hafi aðgang að gagnasafni sem notað er í því aðildarríki til að meta lánshæfi neytenda. Skilyrðin fyrir aðgangi skulu vera án mismununar.
2.     Ef lánsumsókn er hafnað á grundvelli leitar í gagnasafni skal lánveitandinn upplýsa neytandann, þegar í stað og honum að kostnaðarlausu, um niðurstöður slíkrar leitar og veita nánari upplýsingar um gagnasafnið sem leitað var í.
3.     Upplýsingarnar skulu veittar nema bannað sé að veita slíkar upplýsingar samkvæmt annarri löggjöf Bandalagsins eða það fari í bága við markmið allsherjarreglu eða almannaöryggis.
4.     Þessi grein er með fyrirvara um beitingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga ( 1 ).

IV. KAFLI
UPPLÝSINGAR OG RÉTTINDI VARÐANDI LÁNSSAMNINGA
10. gr.
Upplýsingar sem eiga að koma fram í lánssamningum

1.     Lánssamningar skulu skráðir á pappír eða vera á öðrum varanlegum miðli. Allir samningsaðilar skulu fá afrit af lánssamningnum. Þessi grein er með fyrirvara um hvers konar innlendar reglur varðandi lögmæti þess að gera lánssamninga sem eru í samræmi við lög Bandalagsins.
2.     Í lánssamningnum skal koma fram á skýran og hnitmiðaðan hátt:
a)    tegund láns,
b)    auðkenni og heimilisfang samningsaðilanna svo og auðkenni og heimilisfang lánamiðlarans sem í hlut á, ef við á,
c)    gildistími lánssamningsins,
d)    heildarfjárhæð lánsins og skilyrði fyrir nýtingu,
e)    þegar um er að ræða lán í því formi að greiðslu sérstakrar vöru eða þjónustu er frestað, eða tengda lánssamninga, sú vara eða þjónusta og staðgreiðsluverð hennar,
f)    útlánsvextir, skilyrði sem gilda um beitingu þeirra og, ef við á, vísitala eða viðmiðunarvextir sem gilda um upphaflegu útlánsvextina, svo og tímabil, skilyrði og málsmeðferð við breytingu á útlánsvöxtunum og, ef mismunandi útlánsvextir gilda við mismunandi aðstæður, áðurnefndar upplýsingar um alla gildandi vexti,
g)    árleg hlutfallstala kostnaðar og heildarfjárhæð sem neytandinn greiðir, reiknað um leið og lánssamningurinn er gerður; tilgreina skal allar forsendur sem notaðar eru við útreikning á hlutfallstölunni,
h)    fjárhæð, fjöldi og tíðni greiðslna sem neytandinn þarf að standa skil á og, ef við á, með hvaða hætti greiðslum verður skipt á hinar ýmsu útistandandi skuldir með mismunandi útlánsvöxtum þegar um endurgreiðslu er að ræða,
i)    sé um að ræða niðurgreiðslu höfuðstóls lánssamnings með föstum gildistíma, réttur neytandans til að fá afhent, samkvæmt beiðni og honum að kostnaðarlausu, hvenær sem er á gildistíma lánssamningsins, reikningsyfirlit í formi töflu sem sýnir niðurgreiðslu lánsins.
    Niðurgreiðslutaflan skal sýna greiðslur sem þarf að inna af hendi og tímabil og skilyrði varðandi greiðslur slíkra fjárhæða; í töflunni skal koma fram sundurliðun allra greiðslna sem sýnir niðurgreiðslu höfuðstóls, vexti sem eru reiknaðir á grundvelli útlánsvaxta og, ef við á, allan viðbótarkostnað; sé ekki um fasta vexti að ræða eða viðbótarkostnaði kann að verða breytt samkvæmt lánssamningnum skal koma fram í niðurgreiðslutöflunni, á skýran og hnitmiðaðan hátt, að gögnin í töflunni haldist aðeins í gildi þar til útlánsvöxtunum eða viðbótarkostnaðinum er breytt í samræmi við lánssamninginn,
j)    ef greiða skal kostnað og vexti án þess að höfuðstóll sé niðurgreiddur, yfirlit sem sýnir tímabilin og skilyrði fyrir greiðslu á vöxtum og tengdum kostnaði, föstum eða tilfallandi,
k)    ef við á, kostnaður við að hafa einn eða fleiri reikninga þar sem bæði greiðslufærslur og nýting lána eru skráð, nema valfrjálst sé að opna reikning, ásamt kostnaði við notkun greiðsluaðferða bæði fyrir greiðslufærslur og nýtingu lána, og annar kostnaður vegna lánssamningsins og forsendur fyrir því að hægt sé að breyta þessum kostnaði,
l)    gildandi vextir þegar um er að ræða greiðslu eftir gjalddaga sem gilda á þeim tíma þegar lánssamningurinn er gerður og fyrirkomulag við breytingu á þeim og, ef við á, kostnaður sem greiða þarf vegna vanskila,
m)    viðvörun varðandi afleiðingar af vangoldnum greiðslum,
n)    ef við á, yfirlýsing um að greiða þurfi lögbókunargjöld,
o)    ábyrgðir og tryggingar sem krafist er, ef einhverjar eru,
p)    hvort réttur til að falla frá samningi sé fyrir hendi eða ekki, tímabilið þegar nýta má þennan rétt og önnur skilyrði um nýtinguna, þ.m.t. upplýsingar varðandi þá skuldbindingu neytandans að greiða það fjármagn sem hefur verið nýtt og vextina í samræmi við b-lið 3. mgr. 14. gr. og vaxtafjárhæðina sem fellur til greiðslu hvern dag,
q)    upplýsingar varðandi réttinn sem leiðir af 15. gr. svo og skilyrðin fyrir nýtingu þessa réttar,
r)    réttur til greiðslu fyrir gjalddaga, málsmeðferð við greiðslu fyrir gjalddaga og, ef við á, upplýsingar um rétt lánveitanda til bóta og á hvaða hátt þær bætur verða ákvarðaðar,
s)    málsmeðferð sem fylgja skal við nýtingu réttar til að segja upp lánssamningi,
t)    hvort fyrir hendi er kerfi fyrir kvartanir og úrlausn mála utan réttar fyrir neytendur og, ef svo er, hvernig aðgangur fæst að því,
u)    ef við á, aðrir samningsskilmálar og -skilyrði,
v)    ef við á, nafn og heimilisfang þar til bærra eftirlitsyfirvalda.
3.     Þegar i-liður 2. mgr. gildir, skal lánveitandinn láta neytandann hafa reikningsyfirlit, honum að kostnaðarlausu og, hvenær sem er á gildistíma lánssamningsins, í formi niðurgreiðslutöflu.
4.     Þegar um er að ræða lánssamning þar sem greiðslur neytanda leiða ekki þegar í stað til samsvarandi niðurgreiðslu á heildarfjárhæð lánsins heldur eru notaðar til að byggja upp höfuðstól á tímabilum og við aðstæður sem mælt er fyrir um í lánssamningnum eða í viðbótarsamningi, skulu upplýsingarnar, sem gerð er krafa um í 2. mgr., fela í sér skýrar og hnitmiðaðar yfirlýsingar um að slíkir lánssamningar veiti ekki tryggingu fyrir endurgreiðslu á heildarfjárhæð láns sem er nýtt samkvæmt lánssamningnum, nema slík ábyrgð sé veitt.
5.     Þegar um er að ræða lánssamninga í formi yfirdráttarheimildar eins og um getur í 3. mgr. 2. gr. skal tilgreina eftirfarandi á skýran og hnitmiðaðan hátt:
a)    tegund láns,
b)    auðkenni og heimilisfang samningsaðilanna svo og auðkenni og heimilisfang lánamiðlarans sem í hlut á, ef við á,
c)    gildistíma lánssamningsins,
d)    heildarfjárhæð lánsins og skilyrði fyrir nýtingu,
e)    útlánsvexti, skilyrði sem gilda um beitingu útlánsvaxta og, ef við á, vísitölu eða viðmiðunarvexti sem gilda um upphaflegu útlánsvextina, svo og tímabil, skilyrði og málsmeðferð við breytingu á útlánsvöxtunum; ef mismunandi útlánsvextir gilda við mismunandi aðstæður, áðurnefndar upplýsingar um alla gildandi vexti,
f)    árlega hlutfallstölu kostnaðar og heildarlántökukostnað neytanda, reiknað á þeim tíma þegar lánssamningurinn er gerður; allar forsendur sem eru notaðar til að reikna þá vexti eins og um getur í 2. mgr. 19. gr. í tengslum við g- og i-lið 3. gr. skulu nefndar; aðildarríkin geta ákveðið að ekki þurfi að gefa upp árlega hlutfallstölu kostnaðar,
g)    upplýsingar um að hvenær sem er megi krefja neytandann um endurgreiðslu allrar lánsfjárhæðarinnar,
h)    skilyrði fyrir því að nýta réttinn til að falla frá lánssamningnum og
i)    upplýsingar um þann kostnað sem verður frá þeim tíma er slíkir samningar eru gerðir og, ef við á, skilyrðin fyrir breytingu á þessum kostnaði.

11. gr.
Upplýsingar um útlánsvexti

1.     Ef við á skal upplýsa neytandann um allar breytingar á útlánsvöxtum, á pappír eða með öðrum varanlegum miðli, áður en breytingin tekur gildi. Í upplýsingunum skulu koma fram þær fjárhæðir sem greiða skal eftir gildistöku nýrra útlánsvaxta og, ef fjöldi eða tíðni greiðslna breytist, upplýsingar um það.
2.     Samningsaðilarnir geta þó orðið ásáttir um það, í lánssamningnum, að veita skuli neytandanum upplýsingarnar, sem um getur í 1. mgr., með ákveðnu millibili þegar breytingar á útlánsvöxtum eru af völdum breytinga á viðmiðunarvöxtum og upplýst er um nýju viðmiðunarvextina á viðeigandi hátt og þær upplýsingar eru einnig aðgengilegar hjá lánveitandanum.

12. gr.
Skuldbindingar í tengslum við lánssamning í formi yfirdráttarheimildar

1.     Ef lánssamningur felur í sér lán í formi yfirdráttarheimildar, skal upplýsa neytandann reglulega um það með reikningsyfirliti, á pappír eða með öðrum varanlegum miðli, sem hefur að geyma upplýsingar um eftirfarandi:
a)    nákvæmlega tilgreint tímabil sem reikningsyfirlitið tekur til,
b)    fjárhæðir og dagsetningar nýtingar,
c)    stöðuna á fyrra reikningsyfirliti ásamt dagsetningu,
d)    nýja stöðu,
e)    dagsetningar og fjárhæðir greiðslna neytandans,
f)    gildandi útlánsvexti,
g)    kostnað sem orðið hefur,
h)    ef við á, lágmarksfjárhæð greiðslu.
2.     Auk þess skal veita neytandanum upplýsingar, á pappír eða með öðrum varanlegum miðli, um hækkun útlánsvaxta eða annars kostnaðar, áður en breytingin tekur gildi.
Samningsaðilarnir geta þó komið sér saman um það, í lánssamningnum, að upplýsingarnar varðandi breytingar á útlánsvöxtum séu veittar á þann hátt sem kveðið er á um í 1. mgr. þegar breytingar á útlánsvöxtum eru af völdum breytinga á viðmiðunarvöxtum og upplýst er um nýju viðmiðunarvextina á viðeigandi hátt og þær upplýsingar eru einnig aðgengilegar hjá lánveitandanum.

13. gr.
Opnir lánssamningar

1.     Neytandinn getur hvenær sem er sagt upp opnum lánssamningi á venjulegan hátt sér að kostnaðarlausu nema aðilarnir hafi komið sér saman um uppsagnartímabil. Slíkt tímabil skal ekki vera lengra en einn mánuður.
Lánveitandi getur, ef samþykki er fyrir því í lánssamningnum, sagt upp opnum lánssamningi á venjulegan hátt með því að veita neytandanum a.m.k. tveggja mánaða uppsagnarfrest á pappír eða með öðrum varanlegum miðli.
2.     Lánveitandi getur, ef samþykki er fyrir því í lánssamningnum, af ástæðum sem eru rökstuddar á hlutlægan hátt, svipt neytandann rétti til nýtingar á opnum lánssamningi. Lánveitandinn skal upplýsa neytandann um þá sviptingu og ástæður fyrir henni á pappír eða með öðrum varanlegum miðli, áður en svipting á sér stað, ef unnt er, eða strax þar á eftir í síðasta lagi, nema bannað sé, í annarri löggjöf Bandalagsins, að veita slíkar upplýsingar eða það fari í bága við markmið allsherjarreglu eða almannaöryggis.

14. gr.
Réttur til að falla frá samningi

1.     Neytandinn skal hafa a.m.k. 14 almanaksdaga frest til að falla frá lánssamningi án þess að tilgreina ástæðu.
Frestur til að falla frá samningi skal hefjast
a)    annaðhvort þann dag sem lánssamningurinn er gerður eða
b)    þann dag er neytanda berast samningsskilmálar og -skilyrði og upplýsingar í samræmi við 10. gr. ef sá dagur er síðar en dagurinn sem um getur í a-lið þessa undirliðar.
2.     Þegar um er að ræða tengda lánssamninga, eins og skilgreint er í n-lið 3. mgr., og kveðið hefur verið á um það í landslögum þegar þessi tilskipun öðlast gildi að ekki sé hægt að afhenda neytandanum hafa féð fyrr en að loknum tilteknum fresti, geta aðildarríkin, í undantekningartilvikum, kveðið á um að stytta megi frestinn sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar svo að hann jafngildi þessum tiltekna fresti, ef neytandinn óskar eindregið eftir því.
3.     Ef neytandinn nýtir rétt sinn til að falla frá samningi skal hann:
a)    ef hann vill falla frá samningi fyrir þau tímamörk sem um getur í 1. mgr., tilkynna lánveitandanum það í samræmi við upplýsingarnar frá honum samkvæmt p-lið 2. mgr. 10. gr. með aðferðum sem unnt er að sanna og samrýmast landslögum. Fresturinn telst hafa verið virtur ef tilkynningin, ef hún er á pappír eða öðrum varanlegum miðli sem lánveitandinn hefur yfir að ráða, er send áður en fresturinn rennur út og
b)    greiða lánveitanda höfuðstól og áfallna vexti frá því er lánið var nýtt og til þess dags þegar höfuðstóll er endurgreiddur, án óþarfrar tafar og eigi síðar en 30 almanaksdögum eftir að hann sendir lánveitandanum tilkynningu um að hann hyggist falla frá samningi. Reikna skal vexti á grundvelli samþykktra útlánsvaxta. Lánveitandinn skal ekki eiga rétt á neinum öðrum bótum frá neytanda sem fellur frá samningi en bótum vegna óafturkræfra gjalda sem lánveitandinn hefur greitt til stjórnsýslustofnunar.
4.     Ef lánveitandi eða þriðji aðili veitir viðbótarþjónustu í tengslum við lánssamninginn á grundvelli samnings þriðja aðila og lánveitandans skal neytandinn ekki lengur vera bundinn af samningi um viðbótarþjónustu ef hann nýtir rétt sinn til að falla frá lánssamningi í samræmi við þessa grein.
5.     Ef neytandinn á rétt á því að falla frá samningi skv. 1., 3. og 4. mgr. skulu 6. og 7. gr. tilskipunar 2002/65/EB og 5. gr. tilskipunar ráðsins 85/577/EBE frá 20. desember 1985, um að vernda neytendur þegar samningar eru gerðir utan fastra starfsstöðva ( 1 ), ekki gilda.
6.     Aðildarríkin geta kveðið á um að 1.–4. mgr. þessarar greinar skuli ekki gilda um lánssamninga þar sem þess er krafist, lögum samkvæmt, að þeir séu gerðir með aðstoð lögbókanda, að því tilskildu að lögbókandinn staðfesti að neytandanum sé tryggður sá réttur sem kveðið er á um í 5. og 10. gr.
7.     Þessi grein er með fyrirvara um reglur í landslögum sem þar sem ákveðið er að ekki megi framfylgja samningnum fyrr en eftir ákveðinn tíma.

15. gr.
Tengdir lánssamningar

1.     Þegar neytandi hefur nýtt rétt sinn til að falla frá samningi, á grundvelli laga Bandalagsins, varðandi samning um afhendingu vöru eða þjónustu, skal hann ekki lengur vera bundinn tengdum lánssamningum.
2.     Ef ekki er afhent vara eða þjónusta sem fellur undir tengdan lánssamning, eða aðeins afhent að hluta til, eða er ekki í samræmi við samninginn um slíka afhendingu, skal neytandinn eiga rétt á því að beita úrræðum gegn lánveitandanum ef hann hefur beitt úrræðum gegn þeim sem afhendir vöru eða þjónustu en ekki fengið þá úrlausn sem hann á rétt á samkvæmt lögum eða samningnum um afhendingu vöru eða þjónustu. Aðildarríkin skulu ákvarða að hvaða marki og við hvaða aðstæður megi beita þessum úrræðum.
3.     Þessi grein hefur ekki áhrif á innlendar reglur um að lánveitandi skuli hafa óskipta ábyrgð að því er varðar allar kröfur sem neytandinn kann að hafa gegn veitanda þegar kaup á vöru eða þjónustu hafa verið fjármögnuð með lánssamningi.

16. gr.
Endurgreiðsla fyrir gjalddaga

1.     Neytandinn skal eiga rétt á því, hvenær sem er, að gera upp, að öllu leyti eða að hluta til, skuldbindingar sínar samkvæmt lánssamningi. Í slíkum tilvikum skal hann eiga rétt á því að heildarlántökukostnaður sé lækkaður ef slík lækkun er vegna vaxta og kostnaðar það sem eftir er af samningstímabilinu.
2.     Þegar um er að ræða greiðslu fyrir gjalddaga af láni skal lánveitandi eiga rétt á því fá sanngjarnar bætur sem eru rökstuddar á hlutlægan hátt vegna kostnaðar sem kann að hafa verið greiddur og tengist beint greiðslu af láni fyrir gjalddaga, að því tilskildu að greiðslan fyrir gjalddaga falli innan tímabils með föstum útlánsvöxtum.
Slíkar bætur mega ekki fara yfir 1% af fjárhæð lánsins þar sem greiðsla fyrir gjalddaga er notuð, ef lengri tími en eitt ár líður á milli greiðslu fyrir gjalddaga og samþykktrar uppsagnar lánssamningsins. Ef ekki líður lengri tími en eitt ár mega bæturnar ekki fara yfir 0,5% af fjárhæð lánsins þar sem greiðsla fyrir gjalddaga er notuð.
3.     Ekki skal krefjast bóta vegna greiðslu fyrir gjalddaga:
a)    ef greiðslan hefur átt sér stað samkvæmt tryggingarsamningi sem er ætlað að tryggja greiðslu lánsins,
b)    þegar um er að ræða yfirdráttarheimild eða
c)    ef greiðslan fer fram á tímabili þar sem útlánsvextir eru ekki fastir.
4.     Aðildarríkin geta kveðið á um að:
a)    lánveitandi geti aðeins krafist slíkra bóta með því skilyrði að fjárhæð greiðslu fyrir gjalddaga fari yfir mörkin sem eru skilgreind í landslögum. Þau mörk skulu ekki fara yfir 10 000 evrur á 12 mánaða tímabili,
b)    lánveitandi getur í undantekningartilvikum krafist hærri bóta ef hann getur fært sönnur á að það tap sem hann varð fyrir vegna greiðslu fyrir gjalddaga sé meira en sem nemur fjárhæðinni sem er ákveðin í 2. mgr.
    Ef bæturnar sem lánveitandi krefst eru umfram það tap sem hann hefur orðið fyrir í reynd getur neytandinn krafist samsvarandi lækkunar bótanna.
    Í því tilviki skal tapið teljast vera munurinn á upphaflega samþykktum vöxtum og þeim vöxtum sem lánveitandinn getur fengið við útlán fjárhæðar sem er greidd fyrir gjalddaga á markaðnum á þeim tíma þegar greiðslan fyrir gjalddaga á sér stað og taka skal tillit til áhrifa greiðslu fyrir gjalddaga á umsýslukostnað.
5.     Bætur skulu ekki fara yfir þá vaxtafjárhæð sem neytandinn myndi hafa greitt á tímabilinu frá greiðslu fyrir gjalddaga og til samþykktrar dagsetningar fyrir uppsögn lánssamningsins.

17. gr.
Framsal réttar

1.     Ef lánveitandi framselur kröfurétt sinn til þriðja aðila samkvæmt lánssamningi, eða samninginn sjálfan, skal neytandinn eiga rétt á því að halda uppi sömu mótbárum gegn þeim sem afsalað er til, sem hann gat nýtt sér gagnvart upphaflegum lánveitanda, þ.m.t. réttur til jöfnunar þegar það er heimilað í viðkomandi aðildarríki.
2.     Neytandinn skal upplýstur um framsalið sem um getur í 1. mgr. nema þegar upphaflegur lánveitandi heldur áfram lánsþjónustu sinni við neytandann með samkomulagi við framsalshafa.

18. gr.
Yfirdráttur

1.     Þegar um er að ræða samning um að opna tékkareikning þar sem möguleiki er á því að neytanda sé veitt heimild til yfirdráttar skulu auk þess vera í samningnum upplýsingarnar sem um getur í e-lið 1. mgr. 6. gr. Lánveitandinn skal í öllum tilvikum veita þær upplýsingar reglulega á pappír eða með öðrum varanlegum miðli.
2.     Sé um verulegan yfirdrátt að ræða í meira en einn mánuð skal lánveitandinn þegar í stað veita neytandanum upplýsingar, á pappír eða með öðrum varanlegum miðli, um
a)    yfirdráttinn,
b)    fjárhæðina sem um er að ræða,
c)    útlánsvexti,
d)    hvers konar viðurlög, dráttarvexti eða önnur gjöld vegna ógreiddra skulda.
3.     Þessi grein hefur ekki áhrif á landslög þar sem þess er krafist að lánveitandinn bjóði fram annars konar útlánamiðla þegar yfirdráttur hefur átt sér stað í alllangan tíma.

V. KAFLI
ÁRLEG HLUTFALLSTALA KOSTNAÐAR
19. gr.
Útreikningur á árlegri hlutfallstölu kostnaðar

1.     Árleg hlutfallstala kostnaðar, sem á ársgrundvelli jafngildir núvirði allra núverandi og síðari skuldbindinga (nýting lána, endurgreiðslur og kostnaður), sem lánveitandi og neytandi samþykkja, skal reiknuð samkvæmt reiknilíkaninu sem er sett fram í I. hluta I. viðauka.
2.     Við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar skal ákvarða heildarlántökukostnað neytanda að frátöldum þeim kostnaði sem neytandanum ber að greiða vegna skuldbindinga, sem hann hefur ekki staðið við en mælt er fyrir um í lánssamningnum, og kostnaði, öðrum en því kaupverði sem honum ber skylda til að greiða vegna kaupa á vöru eða þjónustu, hvort sem kaupin eru gerð með staðgreiðslu eða láni.
Kostnaðurinn við að viðhalda reikningi þar sem bæði greiðslufærslur og nýting lána eru skráð, kostnaður við notkun greiðsluleiða fyrir bæði greiðslufærslur og nýtingu lána og annar kostnaður í tengslum við greiðslufærslur skal vera innifalinn í heildarkostnaði af láni til neytandans nema valfrjálst sé að opna reikning og kostnaður við reikninginn sé sérstaklega og greinilega tekinn fram í lánssamningnum eða öðrum samningi sem gerður er við neytandann.
3.     Við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar skal ganga út frá þeirri forsendu að lánssamningurinn haldist í gildi þann tíma sem samið er um og að lánveitandinn og neytandinn muni rækja skyldur sínar samkvæmt þeim skilmálum og dagsetningum sem eru tilgreind í lánssamningnum.
4.     Þegar um er að ræða lánssamninga sem hafa að geyma ákvæði sem heimila frávik frá útlánsvöxtum og, ef við á, þeim kostnaði sem er innifalinn í árlegri hlutfallstölu kostnaðar en ekki er hægt að meta þegar útreikningur fer fram, skal ganga út frá þeirri forsendu við útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar að útlánsvextir og annar kostnaður séu fastur kostnaður miðað við upphafsstöðu og gildi þar til lánssamningurinn fellur úr gildi.
5.     Ef nauðsyn krefur má nota viðbótarforsendurnar, sem settar eru fram í I. viðauka, við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar.
Ef forsendurnar, sem settar eru fram í þessari grein og í II. hluta I. viðauka, nægja ekki til að reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar á samræmdan hátt eða eru ekki lengur lagaðar að stöðu viðskipta á markaðnum getur framkvæmdastjórnin ákveðið nauðsynlegar viðbótarforsendur fyrir útreikning á árlegri hlutfallsfölu kostnaðar eða breytt þeim forsendum sem fyrir eru. Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta þeim þáttum þessarar tilskipunar sem ekki teljast grundvallaratriði, skulu samþykktar í samræmi við málsmeðferð í stjórnsýslunni með athugun sem um getur í 2. mgr. 25. gr.

VI. KAFLI
LÁNVEITENDUR OG LÁNAMIÐLARAR
20. gr.
Reglur lánveitenda

Aðildarríkin skulu sjá til þess að lánveitendur séu undir eftirliti aðila eða yfirvalds óháð fjármálastofnunum eða reglur settar um starfsemi þeirra. Þetta er með fyrirvara um tilskipun 2006/48/EB.

21. gr.
Sérstakar skuldbindingar lánamiðlara gagnvart neytendum

Aðildarríkin skulu sjá til þess að:
a)    lánamiðlari taki fram í auglýsingum og skjölum, sem eru ætluð neytendum, hvert umboð hans sé, einkum hvort hann starfar eingöngu fyrir einn eða fleiri lánveitendur eða sem óháður miðlari,
b)    neytandinn sé látinn vita af þóknun, ef einhver er, sem hann þarf að greiða lánamiðlaranum fyrir þjónustu hans og að fyrir liggi samkomulag um hana milli neytanda og lánamiðlara á pappír eða öðrum varanlegum miðli áður en lánssamningurinn er gerður,
c)    lánamiðlari tilkynni lánveitanda, vegna útreiknings á árlegri hlutfallstölu kostnaðar, um þóknunina, ef einhver er, sem neytandinn þarf að greiða lánamiðlaranum fyrir þjónustu hans.

VII. KAFLI
FRAMKVÆMDARRÁÐSTAFANIR
22. gr.
Samhæfing og ófrávíkjanlegar kröfur þessarar tilskipunar

1.     Að því leyti sem ákvæði þessarar tilskipunar eru samhæfð geta aðildarríkin ekki viðhaldið eða leitt í landslög ákvæði sem víkja frá þeim ákvæðum sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun.
2.     Aðildarríki skulu tryggja að neytendur hafi ekki heimild til að afsala sér þeim rétti sem þeir hafa samkvæmt ákvæðum í landslögum sem eru til framkvæmdar þessari tilskipun eða sem samsvara henni.
3.     Aðildarríkin skulu enn fremur tryggja að ekki sé hægt að sniðganga ákvæðin sem þau samþykkja til framkvæmdar þessari tilskipun vegna framsetningar samninganna, t.d. með því að taka nýtingu lána eða lánssamninga, sem falla undir gildissvið þessarar tilskipunar, upp í lánssamningum sem hafa þá eiginleika eða þann tilgang sem gæti gert það kleift að sniðganga beitingu tilskipunarinnar.
4.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að neytendur séu ekki sviptir þeirri vernd, sem þessi tilskipun veitir þeim, með því að velja lög þriðja lands sem gildandi lög fyrir lánssamninginn ef lánssamningurinn tengist náið yfirráðasvæði eins eða fleiri aðildarríkja.

23. gr.
Viðurlög

Aðildarríkin skulu setja reglur um viðurlög við brotum gegn innlendum ákvæðum sem eru samþykkt samkvæmt þessari tilskipun og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þeim sé beitt. Viðurlög sem kveðið er á um skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brot og letjandi.

24. gr.
Lausn deilumála utan dómstóla

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að tekin verði upp fullnægjandi og skilvirk málsmeðferð við lausn deilumála neytenda varðandi lánssamninga og nota til þess stofnanir sem eru til fyrir, eftir því sem við á.
2.     Aðildarríki skulu hvetja þessar stofnanir til að starfa einnig saman að því að leysa deilumál yfir landamæri varðandi lánssamninga.

25. gr.
Nefndarmeðferð

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar nefndar.
2.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 1.–4. mgr. 5. gr. a og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.

26. gr.
Upplýsingar sem ber að veita framkvæmdastjórninni

Ef aðildarríki nýtir sér einhverja þá reglusetningarvalkosti sem um getur í 2. gr. (5. og 6. mgr.), 4. gr. (1. mgr.), 4. gr. (c-liður 2. mgr.), 6. gr. (2. mgr.), 10. gr. (1. mgr.), 10. gr. (g-liður 2. mgr.), 14. gr. (2. mgr.) og 16. gr. (4. mgr.), skal það upplýsa framkvæmdastjórnina um það, svo og um allar síðari breytingar. Framkvæmdastjórnin skal birta upplýsingarnar á vefsetri eða annars staðar þar sem auðvelt er að nálgast þær. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að dreifa þeim upplýsingum meðal innlendra lánveitenda og neytenda.

27. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu, eigi síðar en 11. júní 2010, samþykkja og birta þau ákvæði sem eru nauðsynleg til að fara að þessari tilskipun.
Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað. Þau skulu beita þessum ákvæðum frá 11. júní 2010.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessi ákvæði skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þau eru birt opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Framkvæmdastjórnin skal, á fimm ára fresti og í fyrsta skipti 11. júní 2013, endurskoða viðmiðunarmörkin sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun og viðaukunum við hana og þau hlutföll sem eru notuð við útreikning þeirra bóta sem greiða skal þegar um greiðslu fyrir gjalddaga er að ræða, meta þau í ljósi efnahagsþróunar í Bandalaginu og ástands á viðkomandi markaði. Framkvæmdastjórnin skal einnig fylgjast með því hvaða áhrif reglusetningarvalkostirnir, sem um getur í 2. gr. (5. og 6. mgr.), 4. gr. (1. mgr.), 4. gr. (c-liður 2. mgr.), 6. gr. (2. mgr.), 10. gr. (1. mgr.), 10. gr. (g-liður 2. mgr.), 14. gr. (2. mgr.) og 16. gr. (4. mgr.), hafa haft á innri markaðinn og neytendur. Niðurstöðurnar skulu lagðar fyrir Evrópuþingið og ráðið ásamt tillögum, ef við á, um að breyta viðmiðunarmörkum og hlutfalli, svo og fyrrgreindum reglusetningarvalkostum til samræmis við það.

28. gr.
Umreikningur á fjárhæðum í evrum yfir í innlendan gjaldmiðil

1.     Að því er varðar þessa tilskipun skulu aðildarríki, sem umreikna fjárhæðir í evrum yfir í sinn eigin gjaldmiðil, í fyrstu nota við umreikninginn þann gjaldmiðil, sem gildir á þeim degi þegar tilskipun þessi er samþykkt.
2.     Aðildarríki geta námundað þær fjárhæðir sem verða til við umreikning að því tilskildu að slík námundun fari ekki yfir 10 evrur.

VIII. KAFLI
BRÁÐABIRGÐA- OG LOKAÁKVÆÐI
29. gr.
Niðurfelling

Tilskipun 87/102/EBE falli úr gildi frá og með 11. júní 2010.

30. gr.
Bráðabirgðaráðstafanir

1.     Þessi tilskipun gildir ekki um lánssamninga sem hafa þegar verið gerðir þann dag sem innlendar framkvæmdarráðstafanir öðlast gildi.
2.     Aðildarríki skulu þó tryggja að 11., 12., 13. og 17. gr., og 18. gr. (annar málsliður 1. mgr. og 2. mgr.) gildi einnig um opna lánssamninga sem hafa þegar verið gerðir þann dag sem innlendar framkvæmdarráðstafanir öðlast gildi.

31. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

32. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassborg 23. apríl 2008.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
H.-G. PÖTTERING J. LENARCIC
forseti. forseti.

I. VIÐAUKI

I.    Grunnjafna sem sýnir jafngildi lánanýtingar annars vegar og endurgreiðslna og kostnaðar hins vegar.
    Grunnjafnan, sem ákvarðar árlega hlutfallstölu kostnaðar, jafnar árlega heildarnúvirði nýtingar annars vegar og heildarnúvirði endurgreiðslna og greidds kostnaðar hins vegar, þ.e.:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    þar sem:
    —     X    er árleg hlutfallstala kostnaðar,
    —     m    er númer síðustu lánanýtingar,
    —     k    er númer lánanýtingar, þannig að 1 . k . m,
    —     C k    er magn lánanýtingar k,
    —     t k    er tímabilið, í árum og hlutum úr ári, milli dagsetningar fyrstu lánanýtingar og dagsetningar hverrar lánanýtingar þar á eftir, þannig að t 1 = 0,
    — m'    er númer síðustu endurgreiðslu eða kostnaðargreiðslu,
    —     l    er númer endurgreiðslu eða kostnaðargreiðslu,
    —     D l    er fjárhæð endurgreiðslu eða kostnaðargreiðslu,
    —     s l    er tímabilið, í árum og hlutum úr ári, milli dagsetningar fyrstu nýtingar láns og dagsetningar hverrar endurgreiðslu eða kostnaðargreiðslu.
    Athugasemdir:
    a)    Fjárhæðir sem báðir aðilar greiða á mismunandi tíma þurfa ekki nauðsynlega að vera jafnháar og endurgreiðast ekki nauðsynlega með jöfnu millibili.
    b)    Upphafsdagsetning er dagsetning fyrstu lánsnýtingar.
    c)    Tímabilin milli dagsetninga, sem eru notaðar við útreikningana, skulu tilgreind í árum eða hlutum úr ári. Ár telst vera 365 dagar (eða 366 dagar á hlaupári), 52 vikur eða 12 jafnir mánuðir. Jafn mánuður telst vera 30,41666 dagar (þ.e. 365/12), án tillits til þess hvort um hlaupár er að ræða eða ekki.
    d)    Niðurstöður útreikninganna skulu gefnar upp með nákvæmni upp á minnst einn aukastaf. Ef næsti aukastafur er 5 eða hærri skal hækka þann tiltekna aukastaf um einn.
    e)    Unnt er að umskrifa jöfnuna með því að nota eina summu og hugtakið um flæði (Ak), sem verður jákvætt eða neikvætt, með öðrum orðum annaðhvort greitt út eða móttekið á tímabilum l til k, og gefið upp í árum, þ.e.:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    S er þá núverandi staða flæðisins. Ef markmiðið er að viðhalda jafngildi flæðis er virðið núll.
II.    Viðbótarforsendur fyrir útreikningi á árlegri hlutfallstölu kostnaðar
    a)    ef lánssamningur gerir neytanda kleift að nýta lánið að vild skal litið svo á að heildarfjárhæð láns sé nýtt þegar í stað og að fullu,
    b)    ef lánssamningur gefur kost á mismunandi nýtingarmöguleikum með mismunandi kostnaði eða útlánsvöxtum skal litið svo á að heildarfjárhæð láns sé nýtt með mesta kostnaði og útlánsvöxtum sem er beitt við algengasta nýtingarmöguleikann fyrir þessa tegund lánssamnings,
    c)    ef lánssamningur gerir neytanda almennt kleift að nýta lán að vild en setur, meðal mismunandi nýtingarmöguleika, takmarkanir að því er varðar fjárhæðina og tímabilið, skal litið svo á að lánsfjárhæðin sé nýtt á fyrsta degi sem kveðið er á um í samningnum og í samræmi við þessar takmarkanir á nýtingu,
    d)    ef ekki er til staðar föst tímaáætlun fyrir endurgreiðslu skal gert ráð fyrir því:
        i.    að lánið sé veitt til eins árs og
        ii.    að lánið verði endurgreitt með 12 jöfnum, mánaðarlegum afborgunum,
    e)    ef föst tímaáætlun fyrir endurgreiðslu er til staðar en fjárhæð endurgreiðslnanna er sveigjanleg skal litið svo á að fjárhæð hverrar endurgreiðslu sé sú lægsta sem er tiltekin í samningnum,
    f)    ef fleiri en einn endurgreiðsludagur er tiltekinn í lánssamningnum skal afhenda lánið og inna af hendi endurgreiðslurnar á fyrsta degi sem tiltekinn er í samningnum, nema annað sé tekið fram,
    g)    ef ekki hefur ennþá verið samið um þak á lánið er gert ráð fyrir að það sé 1.500 evrur,
    h)    þegar um er að ræða yfirdráttarheimild skal litið svo á að heildarfjárhæð láns sé nýtt til fulls og á öllum gildistíma lánssamningsins. Ef gildistími lánssamningsins er ekki þekktur skal, við útreikning á árlegri hlutfallstölu kostnaðar, gera ráð fyrir að gildistími lánsins sé þrír mánuðir,
    i)    ef mismunandi vextir og kostnaður eru í boði í takmarkaðan tíma eða vegna takmarkaðrar fjárhæðar skal litið svo á að vextirnir og kostnaðurinn eigi að vera hæsta hlutfallstalan allan gildistíma lánssamningsins,
    j)    útreikningur á árlegri hlutfallstölu að því er varðar samninga um neytendalán, sem fastir útlánsvextir fyrir upphaflega tímabilið hafa verið samþykktir fyrir, en við lok þess eru nýir útlánsvextir ákvarðaðir og aðlagaðir eftir það með reglulegu millibili samkvæmt umsömdum vísi, skal grundvallast á þeirri forsendu að við lok tímabils fastra útlánsvaxta séu útlánsvextir hinir sömu og þegar árleg hlutfallstala var reiknuð út á grundvelli gildis umsamins vísis á þeim tíma.

II. VIÐAUKI
STAÐLAÐAR UPPLÝSINGAR UM EVRÓPSK NEYTENDALÁN

1.     Auðkenni og samskiptaupplýsingar lánveitanda/lánamiðlara
Lánveitandi [Auðkenni]
Heimilisfang
Símanúmer (*)
Tölvupóstfang (*)
Bréfsímanúmer (*)
Veffang (*)
[Heimilisfang sem neytandanum ber að nota]
Ef við á
Lánamiðlari [Auðkenni]
Heimilisfang
Símanúmer (*)
Tölvupóstfang (*)
Bréfsímanúmer (*)
Veffang (*)
[Heimilisfang sem neytandanum ber að nota]
(*)     Þessar upplýsingar eru valkvæðar fyrir lánveitanda.
    Þegar „ef við á“ er tilgreint skal lánveitandi fylla út reitinn ef upplýsingarnar varða útlánamiðilinn eða eyða viðkomandi upplýsingum eða allri línunni ef upplýsingarnar varða ekki þá tegund láns sem haft er í huga.
    Textinn innan hornklofanna er til skýringar fyrir lánveitandann og í hans stað skal setja samsvarandi upplýsingar.
2.     Lýsing á helstu sérkennum útlánamiðilsins
Tegund láns
Heildarfjárhæð láns
Hér er átt við þak eða heildarfjárhæð sem er fáanleg samkvæmt lánssamningnum.
Skilyrðin sem ráða nýtingu
Hér er átt við hvernig og hvenær þú færð féð.
Gildistími lánssamningsins
Afborganir og, ef við á, í hvaða röð þeim er skipt niður Þú þarft að greiða eftirfarandi:
[Fjárhæð, fjöldi og tíðni greiðslna sem neytandinn þarf að inna af hendi]
Vexti og/eða kostnað skal greiða á eftirfarandi hátt:
Heildarfjárhæðin sem þú þarft að greiða
Hér er átt við lánsfjárhæðina auk vaxta og hugsanlegs kostnaðar sem tengist láni þínu.
[Samtala heildarfjárhæðar láns og heildarlántökukostnaðar]
Ef við á
Lánið er veitt í því formi að greiðslu vöru eða þjónustu er frestað eða það er tengt afhendingu sérstakrar vöru eða veitingu þjónustu
Heiti vöru/þjónustu
Verð í reiðufé
Ef við á
Sjálfskuldarábyrgðar er krafist [Tegund sjálfskuldarábyrgðar]
Þetta er lýsing á tryggingunni sem þú þarft að leggja fram í tengslum við lánssamninginn.
Ef við á
Endurgreiðslur leiða ekki til tafarlausrar niðurgreiðslu höfuðstólsins.

3.      Lánskostnaður
Útlánsvextir eða, ef við á, mismunandi útlánsvextir sem gilda um lánssamninginn [ %
—    fastir eða
—    breytilegir (með vísitölu eða viðmiðunarvextir sem gilda um upphaflega útlánsvexti),
—    tímabil],
Árleg hlutfallstala kostnaðar (APR)
Þetta er heildarkostnaðurinn gefinn upp sem árleg hlutfallstala af heildarfjárhæð lánsins.
Árleg hlutfallstala kostnaðar auðveldar þér að bera saman mismunandi tilboð.
[ % Hér skal setja fram lýsandi dæmi þar sem fram koma allar forsendur sem eru notaðar við útreikning á hlutfallstölunni]
Er það skylda, til að geta fengið lánið eða fá það með auglýstum skilmálum og skilyrðum,
—    að kaupa tryggingu sem tengist láninu eða Já/nei [ef svarið er játandi skal tilgreina tegund tryggingar]
—    að gera annan samning um viðbótarþjónustu? Já/nei [ef svarið er játandi skal tilgreina tegund viðbótarþjónustu]
Ef lánveitandi þekkir ekki kostnaðinn við þessa þjónustu er hann ekki talinn með í árlegri hlutfallstölu kostnaðar.
Tengdur kostnaður
Ef við á
Þess er krafist að einn eða fleiri reikningar séu haldnir til að skrá bæði greiðslufærslur og nýtingu lánsins
Ef við á
Fjárhæð kostnaðar við að nota sérstaka greiðsluaðferð (t.d. greiðslukort)
Ef við á
Allur annar kostnaður sem leiðir af lánssamningnum
Ef við á
Skilyrði fyrir því að gera breytingar á fyrrnefndum kostnaði sem tengist lánssamningnum
Ef við á
Skylda til að greiða lögbókunargjald
Kostnaður vegna greiðslu eftir gjalddaga
Vangoldnar greiðslur gætu haft alvarlegar afleiðingar fyrir þig (t.d. nauðungarsölu) og gert erfiðara um vik að fá lán. Þú verður krafinn um að greiða [……(gildandi vextir og fyrirkomulag við aðlögun á þeim og, þegar við á, vanskilagjöld)] vegna vangoldinna greiðslna.

4.      Aðrir mikilvægir lagalegir þættir
Réttur til að falla frá samningi
Þú hefur rétt til að falla frá lánssamningnum innan fjórtán almanaksdaga.
Já/nei
Greiðsla fyrir gjalddaga
Þú átt rétt á því að flýta endurgreiðslu lánsins hvenær sem er, að fullu eða að hluta.
Ef við á
Lánveitandi á rétt á bótum ef greitt er fyrir gjalddaga [Ákvörðun bóta (reikningsaðferð) í samræmi við ákvæðin til framkvæmdar 16. gr. tilskipunar 2008/48/EB]
Leit í gagnasafni
Lánveitandi verður að upplýsa þig þegar í stað, þér að kostnaðarlausu, um niðurstöðu leitar í gagnasafni ef lánsumsókn er hafnað á grundvelli slíkrar leitar. Þetta gildir ekki ef bannað er að veita slíkar upplýsingar samkvæmt löggjöf Evrópubandalagsins eða ef það fer í bága við markmið allsherjarreglu eða almannaöryggis.
Réttur til að fá drög að lánssamningi
Þú átt rétt á, óskir þú eftir því, að fá afrit af drögum að lánssamningi þér að kostnaðarlausu. Þetta ákvæði gildir ekki ef lánveitandi er, þegar beiðnin er lögð fram, ófús að gera lánssamning við  þig.
Ef við á
Tímabilið sem lánveitandi er bundinn af því að veita upplýsingar áður en samningur er gerður. Þessar upplýsingar gilda frá … til …

    Ef við á
5.      Viðbótarupplýsingar ef um er að ræða fjarsölu á fjármálaþjónustu
a)     varðandi lánveitandann
Ef við á
Fulltrúi lánveitandans í aðildarríkinu þar sem þú býrð [Auðkenni]
Heimilisfang [Heimilisfang sem neytandanum ber að nota]
Símanúmer (*)
Tölvupóstfang (*)
Bréfsímanúmer (*)
Veffang (*)
Ef við á
Skráning [Viðskiptaskráin sem lánveitandinn er skráður í og skráningarnúmer hans eða samsvarandi auðkenni hans í þeirri skrá]
Ef við á
Eftirlitsyfirvald
b)     varðandi lánssamninginn
Ef við á
Réttur til að falla frá samningi nýttur [Hagnýtar leiðbeiningar um hvernig nýta megi réttinn til að falla frá samningi, þar sem m.a. kemur fram tímabilið til að nýta þann rétt, heimilisfangið sem senda skal tilkynningu um það á og afleiðingar þess að nýta ekki þann rétt]
Ef við á
Lög þau sem lánveitandi leggur til grundvallar tengslum sínum við þig áður en lánssamningur er gerður
Ef við á
Ákvæði sem segir fyrir um lög þau, sem gilda um lánssamninginn, og/eða þar til bæran dómstól [Viðkomandi ákvæði skal sett fram hér]
Ef við á
Val á tungumáli Upplýsingar og samningsskilmálar verða afhent á [hið tiltekna tungumál]. Með samþykki þínu höfum við í hyggju að eiga samskipti [tiltekið tungumál, eitt eða fleiri] á gildistíma lánssamningsins.
c)     varðandi úrlausn ágreiningsmála
Tilvist kerfis fyrir kvartanir og úrlausn mála utan réttar og aðgangur að því [Hvort fyrir hendi er kerfi fyrir kvartanir og úrlausn mála utan réttar fyrir neytendur sem eru aðilar að fjarsölusamningi og, ef svo er, hvernig aðgangur fæst að því]
(*)     Þessar upplýsingar eru valkvæðar fyrir lánveitanda.

III. VIÐAUKI
UPPLÝSINGAR UM EVRÓPSK NEYTENDALÁN AÐ ÞVÍ ER VARÐAR
1)   yfirdrátt
2)   neytendalán sem tilteknar lánastofnanir bjóða (5. mgr. 2. gr. í tilskipun 2008/48/EB)
3)   skuldbreytingu

1.     Auðkenni og samskiptaupplýsingar lánveitanda/lánamiðlara
Lánveitandi [Auðkenni]
Heimilisfang
Símanúmer (*)
Tölvupóstfang (*)
Bréfsímanúmer (*)
Veffang (*)
[Heimilisfang sem neytandanum ber að nota]
Ef við á
Lánamiðlari [Auðkenni]
Heimilisfang
Símanúmer (*)
Tölvupóstfang (*)
Bréfsímanúmer (*)
Veffang (*)
[Heimilisfang sem neytandanum ber að nota]
(*)     Þessar upplýsingar eru valkvæðar fyrir lánveitanda.

    Þegar „ef við á“ er tilgreint skal lánveitandi fylla út reitinn ef upplýsingarnar varða útlánamiðilinn eða eyða viðkomandi upplýsingum eða allri línunni ef upplýsingarnar varða ekki þá tegund láns sem haft er í huga.
    Textinn innan hornklofanna er útskýringar fyrir lánveitanda og í hans stað skal setja samsvarandi upplýsingar.
2.     Lýsing á helstu sérkennum útlánamiðilsins
Tegund láns
Heildarfjárhæð láns
Hér er átt við þak eða heildarfjárhæð sem er fáanleg samkvæmt lánssamningi.
Gildistími lánssamningsins
Ef við á
Þú getur hvenær sem er verið krafinn um endurgreiðslu allrar lánsfjárhæðarinnar.

3.      Lántökukostnaður
Útlánsvextir eða, ef við á, mismunandi útlánsvextir sem gilda um lánssamninginn [ %
—    fastir eða
—    breytilegir (með vísitölu eða viðmiðunarvöxtum sem gilda um upphaflega útlánsvexti)],
Ef við á
Árleg hlutfallstala kostnaðar (APR) (*)
Þetta er heildarlántökukostnaður gefinn upp sem árleg hlutfallstala heildarfjárhæðar lánsins. Árleg hlutfallstala kostnaðar auðveldar þér að bera saman mismunandi tilboð.
[ % Hér skal vera lýsandi dæmi þar sem fram koma allar forsendur sem eru notaðar við útreikning á hlutfallstölunni]
Ef við á
Kostnaður.
Ef við á
Skilyrðin fyrir því að hægt sé að breyta þessum kostnaði
[Kostnaður sem gildir frá þeim tíma þegar lánssamningur er gerður]
Kostnaður vegna greiðslu eftir gjalddaga Þú verður krafinn um að greiða [……(gildandi vextir og fyrirkomulag við breytingu á þeim og, þegar við á, vanskilagjöld)] vegna vangoldinna greiðslna.
(*)    Gildir ekki um upplýsingar um lán til evrópskra neytenda vegna yfirdráttar í þeim aðildarríkjum sem ákveða á grundvelli 2. mgr. 6. gr. tilskipunar 2008/48/EB að ekki þurfi að gefa upp árlega hlutfallstölu kostnaðar vegna yfirdráttar.

4.      Aðrir mikilvægir lagalegir þættir
Uppsögn lánssamnings [skilyrði og málsmeðferð ef lánssamningnum er sagt upp]
Leitað í gagnasafni
Lánveitandi verður að upplýsa þig þegar í stað, þér að kostnaðarlausu, um niðurstöðu leitar í gagnasafni ef lánsumsókn er hafnað á grundvelli slíkrar leitar. Þetta gildir ekki ef bannað er að veita slíkar upplýsingar samkvæmt löggjöf Evrópubandalagsins eða ef það fer í bága við markmið allsherjarreglu eða almannaöryggis.
Ef við á
Tímabilið sem lánveitandi er bundinn af því að veita upplýsingar áður en samningur er gerður. Þessar upplýsingar gilda frá ... til ...

    Ef við á
5.     Viðbótarupplýsingar sem gefa skal ef tilteknar lánastofnanir veita upplýsingar áður en samningur er gerður (5. mgr. 2. gr. tilskipunar 2008/48/EB) eða tengjast neytendaláni til skuldbreytingar
Afborganir og, ef við á, í hvaða röð þeim er skipt niður Þú þarft að greiða eftirfarandi:
[Lýsandi dæmi um töflu yfir afborganir, þ.m.t. fjárhæð, fjöldi og tíðni greiðslna sem neytanda ber að inna af hendi]
heildarfjárhæðin sem þú þarft að greiða
Greiðsla fyrir gjalddaga
Þú átt rétt á því að flýta endurgreiðslu lánsins hvenær sem er, að fullu eða að hluta.
Ef við á
Lánveitandi á rétt á bótum ef greitt er fyrir gjalddaga [Ákvörðun bóta (reikningsaðferð) í samræmi við ákvæðin til framkvæmdar 16. gr. tilskipunar 2008/48/EB]

    Ef við á
6.     Viðbótarupplýsingar sem gefa skal ef um er að ræða fjarsölu á fjármálaþjónustu
a)     varðandi lánveitandann
Ef við á
Fulltrúi lánveitanda í aðildarríkinu þar sem þú býrð [Auðkenni]
Heimilisfang
Símanúmer (*)
Tölvupóstfang (*)
Bréfsímanúmer (*)
Veffang (*)
[Heimilisfang sem neytandanum ber að nota]
Ef við á
Skráning [Viðskiptaskráin sem lánveitandinn er skráður í og skráningarnúmer hans eða samsvarandi auðkenni hans í þeirri skrá]
Ef við á
Eftirlitsyfirvald
b)     varðandi lánssamninginn
Réttur til að falla frá samningi Já/nei
Þú átt rétt á því að falla frá lánssamningnum innan fjórtán almanaksdaga.
Ef við á
Réttur til að falla frá samningi nýttur
[Hagnýtar leiðbeiningar um hvernig nýta megi réttinn til að falla frá samningi, þar sem m.a. kemur fram, heimilisfangið sem senda skal tilkynningu um það á og afleiðingar þess að nýta ekki þann rétt]
Ef við á
Lög þau sem lánveitandi leggur til grundvallar tengslum sínum við þig áður en lánssamningurinn er gerður
Ef við á
Ákvæði þar sem mælt er fyrir um þau lög sem gilda um lánssamninginn og/eða þar til bæran dómstól [Viðkomandi ákvæði skal sett fram hér]
Ef við á
Val á tungumáli Upplýsingar og samningsskilmálar verða afhent á [hið tiltekna tungumál]. Með samþykki þínu höfum við í hyggju að eiga samskipti [tiltekið tungumál, eitt eða fleiri] á gildistíma lánssamningsins.
c)     um úrlausn ágreiningsmála
Tilvist kerfis fyrir kvartanir og úrlausn mála utan réttar og aðgangur að því [Hvort fyrir hendi er kerfi fyrir kvartanir og úrlausn mála utan réttar fyrir neytendur sem eru aðilar að fjarsölusamningi og, ef svo er, hvernig aðgangur fæst að því]
(*)     Þessar upplýsingar eru valkvæðar fyrir lánveitanda.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 339, 18.12.2008, bls. 103, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 79, 18.12.2008, bls. 11.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 133, 22.5.2008, bls. 66.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. EB L 42, 12.2.1987, bls. 48.
Neðanmálsgrein: 4
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 5
(1)    Stjtíð. ESB C 234, 30.9.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 6
(2)    Álit Evrópuþingsins frá 20. apríl 2004 (Stjtíð. ESB C 104 E, 30.4.2004, bls. 233), sameiginleg afstaða ráðsins frá 20. september 2007 (Stjtíð. ESB C 270 E, 13.11.2007, bls. 1) og afstaða Evrópuþingsins frá 16. janúar 2008 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB). Ákvörðun ráðsins frá 7. apríl 2008.
Neðanmálsgrein: 7
(3)    (Stjtíð. EB L 42, 12.2.1987, bls. 48. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/7/EB (Stjtíð. EB L 101, 1.4.1998, bls. 17).
Neðanmálsgrein: 8
(1)    Stjtíð. ESB L 149, 11.6.2005, bls. 22.
Neðanmálsgrein: 9
(1)    Stjtíð. ESB L 177, 30.6.2006, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2008/24/EB (Stjtíð. ESB L 81, 20.3.2008, bls. 38).
Neðanmálsgrein: 10
(1)    Stjtíð. EB L 271, 9.10.2002, bls. 16. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2007/64/EB (Stjtíð. ESB L 319, 5.12.2007, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 11
(1)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23. Ákvörðuninni var breytt með ákvörðun 2006/ 512/EB (Stjtíð. ESB L 200, 22.7.2006, bls. 11).
Neðanmálsgrein: 12
(2)    Stjtíð. ESB C 321, 31.12.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 13
(1)    Stjtíð. ESB L 145, 30.4.2004, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2008/10/EB (Stjtíð. ESB L 76, 19.3.2008, bls. 33).
Neðanmálsgrein: 14
(1)    Stjtíð. EB L 281, 23.11.1995, bls. 31. Tilskipuninni var breytt með reglugerð (EB) nr. 1882/2003 (Stjtíð. ESB L 284, 31.10.2003, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 15
(1)    Stjtíð. EB L 372, 31.12.1985, bls. 31.