Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 134. máls.

Þskj. 147  —  134. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 114/2008, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 114/2008, frá 7. nóvember 2008, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/64/EB um greiðsluþjónustu á innri markaðnum, um breytingu á tilskipunum 97/7/EB, 2002/65/EB, 2005/60/EB og 2006/48/EB og niðurfellingu tilskipunar 97/5/EB.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1.     Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 114/2008 frá 7. nóvember 2008, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/64/EB um greiðsluþjónustu á innri markaðnum, um breytingu á tilskipunum 97/7/EB, 2002/65/EB, 2005/60/EB og 2006/48/EB og niðurfellingu tilskipunar 97/5/EB.
    Markmið tilskipunar 2007/64/EB eru að skapa heildstætt, samræmt og nútímalegt ESB- regluverk um rafræna greiðslumiðlun og að efla réttarstöðu neytenda með því að skýra leikreglur innan Evrópska efnahagssvæðisins að því er varðar greiðsluþjónustu. Ljóst er að innleiðing tilskipunarinnar hér á landi kallar á lagabreytingar og var umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar því tekin með stjórnskipulegum fyrirvara.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2.     Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3.     Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/64/EB um greiðsluþjónustu á innri markaðnum, um breytingu á tilskipunum 97/7/EB, 2002/65/EB, 2005/60/EB og 2006/48/EB og niðurfellingu tilskipunar 97/5/EB.
    Markmið tilskipunarinnar eru sem áður segir að skapa heildstætt, samræmt og nútímalegt ESB-regluverk um rafræna greiðslumiðlun og að efla réttarstöðu neytenda með því að skýra leikreglur innan svæðisins að því er varðar greiðsluþjónustu. Ákvæði hennar gilda um ólíkar tegundir greiðslumiðlana. Innan gildissviðs tilskipunarinnar falla t.d. lánafyrirtæki, greiðslukortafyrirtæki og rafeyrisfyrirtæki.
    Tilskipunin hefur að geyma ákvæði um gildissvið og skilgreiningar (1. þáttur). Hún gerir m.a. kröfur til greiðslumiðlana um starfsleyfi, eftirlit, opinbera skráningu, varðveislu upplýsinga o.fl. (2. þáttur). Enn fremur eru gerðar kröfur um gagnsæi varðandi skilyrði fyrir starfrækslu greiðslumiðlunar og kröfur til upplýsingagjafar (3. þáttur). Loks geymir tilskipunin ítarleg ákvæði um réttindi og skyldur í tengslum við skilyrði og notkun ólíkra greiðslukerfa/miðla, þar á meðal um ábyrgð greiðslumiðlunar og greiðanda, t.d. á óheimilum greiðslukortafærslum (4. þáttur).
    Það athugast að þrátt fyrir að um sé að ræða gerð sem kveður á um fulla samræmingu ( full harmonisation) hafa ríki ákveðinn sveigjanleika gagnvart tilteknum ákvæðum tilskipunarinnar. Ekki má þó víkja frá ákvæðum hennar ef það er neytendum í óhag, nema tilskipunin heimili það sérstaklega.

4.     Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á breytingar á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, en í þeim lögum er m.a. að finna efnisákvæði um rafeyri og rafeyrisfyrirtæki, lánafyrirtæki og meðferð og umsýslu greiðslukorta. Um greiðslukort gilda jafnframt ákvæði laga nr. 33/ 2005, um fjarsölu á fjármálaþjónustu, svo fátt eitt sé nefnt, en aldrei hafa verið sett sérstök lög um greiðslukortastarfsemi á Íslandi.
    Nefnd, sem efnahags- og viðskiptaráðherra skipaði síðastliðið vor, hefur haft tilskipunina til athugunar en nefndinni var ætlað að gera úttekt á lagaumhverfi að því er varðar rafræna greiðslumiðla og -kerfi og leggja til, eftir atvikum, lagabreytingar í því sambandi. Nefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að setja þurfi heildarlög um greiðsluþjónustu. Gera má ráð fyrir því að efnahags- og viðskiptaráðherra leggi fram frumvarp til slíkra laga á vorþingi sem m.a. verði ætlað að innleiða ákvæði tilskipunarinnar.
    Auk efnisákvæða um veitingu greiðsluþjónustu, þ.m.t. um réttindi og skyldur í tengslum við skilyrði og notkun ólíkra greiðslukerfa og -þjónustu, kveður tilskipun 2007/64/EB á um hverjum sé heimilt að veita greiðsluþjónustu. Helstu breytingar hér á landi felast annars vegar í tilkomu svokallaðra greiðslustofnana og hins vegar í því að einungis lánastofnunum með starfsleyfi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki til móttöku innlána og annarra endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi (bönkum og sparisjóðum), en ekki svokölluðum lánafyrirtækjum, verður heimilt að veita greiðsluþjónustu.
    Notkun greiðslukorta er sennilega nærtækasta dæmið í hugum almennings um greiðsluþjónustu í skilningi tilskipunarinnar. Engin sérlög gilda um greiðslukort hér á landi, en ýmis lög taka þó til slíkrar starfsemi. Rétt þykir að vekja athygli á að núverandi lagaumhverfi er lýtur að starfsleyfi greiðslukortafyrirtækja er strangara hér á landi en tíðkast hefur víða í Evrópu. Frumvarp til laga um greiðsluþjónustu mun fela í sér umtalsverðar breytingar á regluverki því sem um greiðslukort gildir hér á landi. Í því sambandi má helst nefna að samkvæmt núgildandi rétti gildir samningsfrelsi milli veitanda greiðsluþjónustu (færsluhirðis) og notanda greiðsluþjónustu (söluaðila) um hvenær færsluhirðir greiðir söluaðila uppgjör inn á bankareikning hans, en fyrirhugað lagafrumvarp mun hins vegar mæla fyrir um skýrar, óundanþægar reglur um innan hvaða tíma skuli framkvæma þetta uppgjör.
    Eitt af markmiðum tilskipunar 2007/64/EB er að efla réttarstöðu neytenda með því að skýra leikreglur innan Evrópska efnahagssvæðisins að því er varðar greiðsluþjónustu. Með innleiðingu tilskipunarinnar má ætla að samkeppni um greiðsluþjónustu aukist hér á landi með auknu aðgengi að greiðslukerfum og fjölgun þátttakenda. Greiðslustofnanir verða nýir þátttakendur í greiðslukerfum og samkeppnisaðilar banka er kemur að veitingu greiðsluþjónustu.
    Fyrirhugað er að Fjármálaeftirlitið, Neytendastofa, Samkeppniseftirlitið og Seðlabanki Íslands hafi með sér samstarf í tengslum við eftirlit með framkvæmd fyrirhugaðra laga um greiðsluþjónustu. Fjármálaeftirlitið mun veita starfsleyfi til handa greiðslustofnunum og halda skrá yfir þær greiðslustofnanir sem það hefur veitt starfsleyfi. Fjármálaeftirlitið mun auk þess hafa eftirlit með starfsemi greiðslustofnana, þar með töldum umboðsaðilum, útibúum og útvistunaraðilum, nema annað leiði af lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Samkeppniseftirlitið mun hafa eftirlit með þátttöku í greiðslukerfum. Neytendastofa mun hafa eftirlit með upplýsingagjöf og gagnsæi við veitingu greiðsluþjónustu. Auk þess er fyrirhugað að koma á sérstakri úrskurðarnefnd um greiðsluþjónustu. Ætla má að mestur kostnaður vegna þessa falli á Fjármálaeftirlitið. Til að standa undir þeim kostnaði er fyrirhugað að bæta við gjaldtökuheimild í 5. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.


Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 114/2008

frá 7. nóvember 2008

um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir „samningurinn“, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)         IX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 81/2008 frá 4. júlí 2008 ( 1 ).

2)         XIX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2008 frá 4. júlí 2008 ( 2 ).

3)         Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/64/EB frá 13. nóvember 2007 um greiðsluþjónustu á innri markaðnum, um breytingu á tilskipunum 97/7/EB, 2002/65/EB, 2005/60/EB og 2006/48/EB og niðurfellingu tilskipunar 97/5/EB ( 3 ).

4)         Samkvæmt ákvæðum tilskipunar 2007/64/EB falla úr gildi 1. nóvember 2009 ákvæði tilskipunar 97/5/EB ( 4 ), en sú gerð hefur verið felld inn í samninginn og ber því að fella hana úr samningnum þannig að breytingin öðlist gildi 1. nóvember 2009.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


IX. viðauki við samninginn breytist sem hér segir:

1.         Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 16d (ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2004/10/EB):

        „16e.     32007 L 0064: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/64/EB frá 13. nóvember 2007 um greiðsluþjónustu á innri markaðnum, um breytingu á tilskipunum 97/7/EB, 2002/65/EB, 2005/60/EB og 2006/48/EB og niðurfellingu tilskipunar 97/5/EB (Stjtíð. ESB L 319, 5.12.2007, bls. 1).“

2.         Eftirfarandi bætist við í lið 23b (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/60/EB):

        „eins og henni var breytt með:

        –          32007 L 0064: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/64/EB frá 13. nóvember 2007 (Stjtíð. ESB L 319, 5.12.2007, bls. 1).“

3.         Eftirfarandi undirliður bætist við í 14. lið (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/ EB) og lið 31e (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/65/EB):

        „–     32007 L 0064: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/64/EB frá 13. nóvember 2007 (Stjtíð. ESB L 319, 5.12.2007, bls. 1).“

4.         Texti liðar 16a (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/5/EB) falli brott þannig að breytingin öðlist gildi 1. nóvember 2009.

2. gr.


XIX. viðauki við samninginn breytist sem hér segir:

1.         Eftirfarandi undirliður bætist við í lið 3a (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB):

        „–     32007 L 0064: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/64/EB frá 13. nóvember 2007 (Stjtíð. ESB L 319, 5.12.2007, bls. 1).“

2.        Texti liðar 7c (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/5/EB) falli brott þannig að breytingin öðlist gildi 1. nóvember 2009.

3. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2007/64/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

4. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi 8. nóvember 2008 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

5. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.


SAMEIGINLEG YFIRLÝSING SAMNINGSAÐILA

vegna ákvörðunar nr. 114/2008 um að fella tilskipun
2007/64/EB inn í samninginn


„Samningsaðilar viðurkenna sérstöðu Liechtensteins, en hún er einkum fólgin í því að Liechtenstein og Sviss gerðu með sér samning árið 1980 um að Liechtenstein skyldi tilheyra gjaldmiðilssvæði Sviss. Greiðslur fara því um svissnesk greiðslukerfi. Nauðsynlegt er að taka fullt tillit til þessara almennu aðstæðna.“
Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2007/64/EB
frá 13. nóvember 2007
um greiðsluþjónustu á innri markaðnum, um breytingu á tilskipunum 97/7/EB, 2002/65/EB, 2005/60/EB og 2006/48/EB og niðurfellingu tilskipunar 97/5/EB
(Texti sem varðar EES)

EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum fyrsta og þriðja málslið 2. mgr. 47. gr. og 95. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
að höfðu samráði við efnahags- og félagsmálanefnd Evrópubandalaganna,
með hliðsjón af áliti Seðlabanka Evrópu ( 1 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 2 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Mikilvægt er til að koma innri markaðnum á að afnumin séu öll innri landamæri í Bandalaginu og auðvelda þannig frjálsa vöruflutninga, frjálsa för fólks, frjálsa þjónustustarfsemi og frjálsa fjármagnsflutninga. Því er mikilvægt að innri markaðurinn fyrir greiðsluþjónustu starfi rétt. Eins og sakir standa hindrar þó skortur á samhæfingu á þessu sviði starfsemi þessa markaðar.
2)          Greiðsluþjónustumarkaðir aðildarríkjanna eru nú skipulagðir hver með sínum hætti, eftir lögum hvers ríkis og lagaramminn fyrir greiðsluþjónustu er brotinn upp í 27 réttarkerfi í hverju aðildarríki fyrir sig.
3)          Nokkrar gerðir Bandalagsins hafa þegar verið samþykktar á þessu sviði, þ.e. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/5/EB frá 27. janúar 1997 um færslu fjármuna yfir landamæri ( 3 ) og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2560/2001 frá 19. desember 2001 um greiðslur yfir landamæri í evrum ( 4 ), en þær hafa ekki bætt nægilega úr þessari stöðu fremur en tilmæli framkvæmdastjórnarinnar 87/598/EBE frá 8. desember 1987 um evrópskar starfsreglur um rafrænar greiðslur (sambandið milli fjármálastofnana, miðlara og þjónustufyrirtækja og neytenda) ( 5 ), tilmæli framkvæmdastjórnarinnar 88/590/EBE frá 17. nóvember 1988 um greiðslukerfi, einkum sambandið milli korthafa og kortaútgefanda ( 6 ) eða tilmæli framkvæmdastjórnarinnar 97/489/EB frá 30. júlí 1997 um viðskipti með rafrænum greiðslumiðlum, einkum samband útgefanda og handhafa ( 7 ). Þessar ráðstafanir eru eftir sem áður ófullnægjandi. Með samhliða ákvæðum landslaga einstakra aðildarríkja og ófullkomnum ramma Bandalagsins skapast ruglingur og réttaróvissa.
4)          Það er því brýnt að setja nútímalegan og samræmdan lagaramma um greiðsluþjónustustarfsemi á vettvangi Bandalagsins, hvort sem starfsemin samrýmist eða samrýmist ekki því kerfi sem varð til að frumkvæði fjármálageirans þegar hann vildi koma á sameiginlegu evrugreiðslusvæði (SEPA) sem er hlutlaust og tryggir að sömu leikreglur gildi fyrir öll greiðslukerfi til að neytendur hafi áfram sama valfrelsi, sem væri umtalsvert skref fram á við með tilliti til kostnaðar neytenda, öryggis og skilvirkni samanborið við núverandi kerfi í hverju aðildarríki fyrir sig.
5)          Lagaramminn skal tryggja samræmingu á ákvæðum í lögum einstakra aðildarríkja um varfærniskröfur, aðgang nýrra greiðslumiðlana að markaðnum, upplýsingakröfur og réttindi og skyldur notenda og veitenda greiðsluþjónustu. Innan þess ramma skal halda ákvæðum reglugerðar (EB) nr. 2560/2001 en með henni var stofnaður innri markaður fyrir greiðslur í evrum að því er varðar verð. Ákvæði tilskipunar 97/5/EB og tilmælin í tilmælum 87/598/EBE, 88/590/EBE og 97/489/EB skulu samþætt í einni gerð sem hefur bindandi áhrif.
6)          Ekki er þó rétt að þessi lagarammi taki til allra þátta. Beiting hans skal takmarkast við þær greiðslumiðlanir sem hafa að aðalstarfsemi að veita notendum greiðsluþjónustu þess háttar þjónustu. Ekki er heldur rétt að hann gildi um þjónustu ef millifærsla á fjármunum frá greiðanda til viðtakanda greiðslu eða flutningur þeirra fer einvörðungu fram í peningaseðlum og mynt eða ef millifærsla byggist á pappírsávísunum, pappírsvíxlum, pappírsskuldabréfum eða öðrum gerningum, pappírsúttektarseðlum eða kortum sem eru gefin út á greiðslumiðlun eða annan aðila og miðast við að afhenda viðtakanda greiðslu fé til ráðstöfunar. Enn fremur skal greina á milli aðferða við þjónustu sem fjarskipta-, upplýsingatækni- eða netfyrirtæki bjóða til að auðvelda kaup á stafrænum vörum eða þjónustu, s.s. hringitónum, tónlist eða stafrænum dagblöðum, auk hefðbundinnar talþjónustu, og dreifingu þeirra í stafrænan búnað. Efni þessara vara eða þjónustu er ýmist framleitt hjá þriðja aðila eða fyrirtækinu sjálfu sem kann að bæta við innra virði sem felst í aðgangs-, miðlunar- eða leitarbúnaði. Í síðara tilvikinu, þegar eitt þessara fyrirtækja dreifir vörum eða þjónustu, eða þriðji aðili, af tæknilegum ástæðum, og ef aðeins er unnt að nýta sér vörurnar eða þjónustuna með stafrænum búnaði, s.s. farsímum eða tölvum, skal þessi lagarammi ekki gilda þar eð starfsemi fyrirtækisins tekur til fleiri þátta en greiðslunnar einnar. Rétt er þó að þessi lagarammi gildi um þau tilvik þegar fyrirtæki er einungis miðlari sem sér einvörðungu til þess að þriðja aðila, sem er birgir, berist greiðslur.
7)          Peningasending er einföld greiðsluþjónusta sem yfirleitt miðast við reiðufé sem greiðandi lætur greiðslumiðlun í té sem sendir samsvarandi fjárhæð áfram, t.d. um fjarskiptanet, til viðtakanda greiðslunnar eða annarrar greiðslumiðlunar fyrir hönd viðtakanda. Í nokkrum stórmörkuðum aðildarríkjanna sjá kaupmenn og aðrir smásalar almenningi fyrir samsvarandi þjónustu með því að gera þeim kleift að greiða reikninga frá almenningsveitum og aðra reglubundna reikninga heimilanna. Farið skal með þess háttar reikningsgreiðsluþjónustu sem peningasendingu, eins og skilgreint er í þessari tilskipun, nema lögbær yfirvöld telji starfsemina falla undir aðra greiðsluþjónustu sem tilgreind er í viðaukanum.
8)          Nauðsynlegt er að tilgreina flokka greiðslumiðlana sem mega á lögmætan hátt veita greiðsluþjónustu alls staðar í Bandalaginu, þ.e. lánastofnanir, sem taka við innlánum frá notendum, sem nota má til að fjármagna greiðslur, og skulu falla áfram undir varfærniskröfur samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB frá 14. júní 2006 um stofnun og rekstur lánastofnana ( 1 ), rafeyrisstofnanir sem gefa út rafeyri, sem unnt er að nota til að fjármagna greiðslur, og skulu falla áfram undir varfærniskröfur samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/46/EB frá 18. september 2000 um stofnun og rekstur rafeyrisstofnana og eftirlit með þeim ( 2 ), og póstgíróstofnanir sem hafa tilskilin leyfi samkvæmt landslögum.
9)          Í þessari tilskipun er mælt fyrir um reglur um framkvæmd greiðslna ef fjármunirnir eru rafeyrir eins og skilgreint er í b-lið 3. mgr. 1. gr. tilskipunar 2000/46/EB. Með þessari tilskipun eru þó hvorki settar reglur um útgáfu rafeyris né breytt varfærniseftirliti rafeyrisstofnana eins og kveðið er á um í tilskipun 2000/46/EB. Greiðslustofnunum skal því ekki heimilt að gefa út rafeyri.
10)          Í því skyni að afnema lagahindranir gegn aðgangi að markaðnum er þó nauðsynlegt að fastsetja eitt leyfi fyrir allar greiðslumiðlanir sem tengjast ekki viðtöku innlána eða útgáfu rafeyris. Af þeim sökum er rétt að stofna nýjan flokk greiðslumiðlana, „greiðslustofnanir“, með því að kveða á um starfsleyfi til handa lögaðilum utan þeirra flokka sem fyrir eru, að uppfylltum ströngum og ítarlegum skilyrðum, til að veita greiðsluþjónustu alls staðar í Bandalaginu. Þannig myndu sömu skilmálar gilda í öllu Bandalaginu um þess háttar þjónustu.
11)          Meðal skilyrða fyrir veitingu og viðhaldi starfsleyfis fyrir greiðslustofnanir skulu vera varfærniskröfur sem eru í réttu hlutfalli við rekstraráhættu og fjárhagslega áhættu sem fylgja starfsemi þess háttar stofnana. Í þessu sambandi er þörf fyrir traustar reglur um stofnfjárframlag og bindingu fjármagns vegna starfseminnar (e. ongoing capital) sem gæti með tímanum verið unnt að þróa áfram og endurbæta eftir þörfum markaðarins. Vegna mikillar fjölbreytni á sviði greiðsluþjónustu skulu með tilskipun þessari leyfðar ýmsar aðferðir og nokkurt val að því er varðar eftirlit til að tryggja að sama áhætta fái sömu meðferð með tilliti til allra greiðslumiðlana. Í kröfum til greiðslustofnana skal tekið tillit til þess að starfsemi greiðslustofnana er sérhæfðari og takmarkaðri og áhætta, sem þar myndast, er þess vegna þrengri og auðveldari í vöktun og eftirliti en sú áhætta sem skapast í umfangsmeiri starfsemi lánastofnana. Einkum skal greiðslustofnunum bannað að taka við innlögnum frá notendum og aðeins heimilt að nota fjármagn, sem þær fá frá notendum, til að veita greiðsluþjónustu. Setja skal ákvæði vegna fjármuna viðskiptavina sem haldið skal aðskildum frá fjármagni greiðslustofnana til annars rekstrar þeirra. Greiðslustofnanir skulu einnig falla undir skilvirkar kröfur um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverkastarfsemi.
12)          Greiðslustofnanir skulu taka saman ársreikninga og samstæðureikninga í samræmi við tilskipun ráðsins 78/660/EBE frá 25. júlí 1978 um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð ( 1 ) og, eftir atvikum, tilskipun ráðsins 83/349/EBE frá 13. júní 1983 um samstæðureikninga ( 2 ) og tilskipun ráðsins 86/635/EBE frá 8. desember 1986 um ársreikninga og samstæðureikninga banka og annarra fjármálastofnana ( 3 ). Ársreikningar og samstæðureikningar skulu vera endurskoðaðir, nema greiðslustofnunin sé undanþegin þeirri skyldu samkvæmt tilskipun 78/660/EBE og, eftir atvikum, tilskipunum 83/349/EBE og 86/635/EBE.
13)          Með þessari tilskipun eru einungis settar reglur um lánveitingar greiðslustofnana, þ.e. veiting lánsheimilda og útgáfa kreditkorta, ef þær eru í nánum tengslum við greiðsluþjónustu. Einungis ef veitt er lán í því skyni að auðvelda greiðsluþjónustu, þess háttar lán er til skamms tíma og tímabilið, sem það er veitt fyrir, er allt að tólf mánuðir, þ.m.t. með sjálfvirkri framlengingu, er rétt að heimila greiðslustofnunum að veita slíkt lán að því er varðar starfsemi þeirra yfir landamæri, með því skilyrði að það sé endurfjármagnað með því að nota aðallega eigið fjármagn greiðsluþjónustunnar, sem og annað fjármagn frá fjármagnsmörkuðum, en þó ekki fjármuni sem þær varðveita fyrir hönd viðskiptavina vegna greiðsluþjónustu. Framangreint skal vera með fyrirvara um tilskipun ráðsins 87/102/EBE frá 22. desember 1986 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán ( 4 ) eða aðra viðeigandi löggjöf Bandalagsins eða innlenda löggjöf að því er varðar skilyrði fyrir lánveitingum til neytenda sem ekki eru í samræmi við tilskipun þessa.
14)          Nauðsynlegt er að aðildarríkin tilgreini þau yfirvöld sem eru ábyrg fyrir veitingu starfsleyfa til greiðslustofnana, eftirliti með þeim og ákvörðun um afturköllun þeirra. Í því skyni að tryggja jafna meðferð skulu aðildarríkin ekki gera neinar aðrar kröfur til greiðslustofnana en kveðið er á um í þessari tilskipun. Öllum ákvörðunum, sem lögbær yfirvöld taka, skal þó vera unnt að skjóta til dómstóla. Auk þess skulu verkefni lögbærs yfirvalds ekki hafa áhrif á eftirlit með greiðslukerfunum sem er, í samræmi við fjórða undirlið 2. mgr. 105. gr. sáttmálans, verkefni sem seðlabankakerfi Evrópu hefur umsjón með.
15)          Með tilliti til þess að æskilegt væri að skrá alla þá sem annast peningasendingar og staðsetningu þeirra og veita þeim öllum einhvers konar staðfestingu, án tillits til þess hvort þeir standast öll skilyrði fyrir starfsleyfi sem greiðslustofnanir, þannig að enginn sé neyddur inn í neðanjarðarhagkerfið og allir aðilar, sem annast peningasendingar, færist undir tilteknar lágmarkskröfur laga og reglna, er rétt og í samræmi við grunnforsendu VI. sérstöku tilmæla fjármálaaðgerðahópsins um peningaþvætti að kveða á um fyrirkomulag sem leiðir til þess að litið verði á greiðslumiðlanir sem greiðslustofnanir, jafnvel þótt þær uppfylli ekki öll skilyrði sem slíkar. Í þessu skyni skulu aðildarríkin færa slíka aðila í skrá yfir greiðslustofnanir án þess að beita öllum eða hluta af skilyrðunum fyrir starfsleyfinu. Mikilvægt er þó að undanþága sé háð ströngum skilyrðum að því er varðar fjölda greiðslna. Greiðslustofnanir, sem hefur verið veitt undanþága, skulu hvorki hafa staðfesturétt né frelsi til að veita þjónustu og skulu ekki beita þessum réttindum óbeint þegar þær eru aðilar að greiðslukerfi.
16)          Mikilvægt er fyrir greiðslumiðlanir að hafa aðgang að þjónustu tæknilegra grunnvirkja greiðslukerfa. Slíkur aðgangur skal þó vera háður viðeigandi kröfum til að tryggja heildstæði og stöðugleika þessara kerfa. Greiðslumiðlanir, sem sækja um aðild að greiðslukerfi, skulu færa sönnur á það fyrir aðilunum í greiðslukerfinu að innra fyrirkomulag þeirra sé nægilega vel varið gegn hvers kyns áhættu. Algengt er að í þessum greiðslukerfum séu t.d. kortakerfi fjögurra aðila og stór kerfi sem afgreiða millifærslu fjármuna og beingreiðslur. Nauðsynlegt er til að tryggja jafna meðferð alls staðar í Bandalaginu, s.s. á mismunandi flokkum greiðslumiðlana sem hafa starfsleyfi í samræmi við skilmála leyfis þeirra að skýra reglurnar um aðgang að greiðsluþjónustu og aðgang að greiðslukerfum. Kveðið skal á um meðferð án mismununar á greiðslu- og lánastofnunum, sem hafa starfsleyfi, svo að greiðslumiðlun, sem keppir á innri markaðnum, geti notað þjónustu tæknilegs grunnvirkis þessara greiðslukerfa með sömu skilmálum. Rétt er að kveða á um mismunandi meðferð greiðslumiðlana með starfsleyfi og þeirra sem njóta undanþágu samkvæmt þessari tilskipun og skv. 8. gr. tilskipunar 2000/46/EB vegna mismunar á varfærniramma þeirra. Í öllum tilvikum skal aðeins leyfa mismun á verðlagningu þegar hann ákvarðast af mismunandi kostnaði sem greiðslumiðlanir stofna til. Þetta skal vera með fyrirvara um rétt aðildarríkja til að takmarka aðgang að mikilvægum kerfum innan kerfisins í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/26/EB frá 19. maí 1998 um endanlegt uppgjör í greiðsluuppgjörskerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf ( 1 ) og með fyrirvara um valdheimildir Evrópska seðlabankans og evrópska seðlabankakerfisins (ESCB) eins og mælt er fyrir um í 2. mgr. 105. gr. sáttmálans og 1. mgr. 3. gr. og 22. gr. stofnsamþykkta evrópska seðlabankakerfisins að því er varðar aðgang að greiðslukerfum.
17)          Ákvæði um aðgang að greiðslukerfum skulu ekki gilda um kerfi sem ein greiðslumiðlun setur upp og rekur. Þau greiðslukerfi geta starfað hvort sem er í beinni samkeppni við greiðslukerfi eða, sem er algengara, í markaðskima sem greiðslukerfi taka ekki fyllilega til. Algengt er að þau taki til kerfa þriggja aðila, t.d. til kortakerfis þriggja aðila, greiðsluþjónustu, sem fjarskiptaveitur eða fyrirtæki sem annast peningasendingar veita, þar sem rekstraraðili kerfisins er greiðslumiðlun, bæði að því er varðar greiðanda og viðtakanda greiðslu, sem og innri kerfi í bankasamstæðum. Til að örva samkeppnina, sem þess háttar greiðslukerfi veita rótgrónum, hefðbundnum greiðslukerfum, skal hafa þá meginreglu að ekki sé við hæfi að veita þriðju aðilum aðgang að þessum greiðslukerfum. Eigi að síður skulu slík kerfi ávallt vera háð ákvæðum samkeppnislaga í Bandalaginu og einstökum aðildarríkjum, sem kunna að gera kröfu um að aðgangur sé veittur að kerfinu í því skyni að viðhalda skilvirkri samkeppni á greiðsluþjónustumarkaðnum.
18)          Setja skal reglur til að tryggja gagnsæi skilmála og kröfur um upplýsingar um greiðsluþjónustu.
19)          Þessi tilskipun skal hvorki gilda um greiðslur í reiðufé, þar eð innri greiðslumarkaður fyrir reiðufé er þegar fyrir hendi, né um greiðslur sem grundvallast á pappírsávísunum þar sem afgreiðsla þeirra, eðli máls samkvæmt, er ekki jafn skilvirk og annarra greiðsluaðferða. Góðar starfsvenjur á þessu sviði skulu þó grundvallast á meginreglunum sem settar eru fram í þessari tilskipun.
20)          Þar eð neytendur og fyrirtæki eru ekki í sömu aðstöðu þurfa þau ekki sams konar vernd. Þótt mikilvægt sé að tryggja rétt neytenda með ákvæðum, sem ekki er unnt að víkja frá með samningi, er sanngjarnt að gefa fyrirtækjum og stofnunum tækifæri á að semja um annað. Aðildarríkin skulu þó geta kveðið á um að örfyrirtæki, eins og þau eru skilgreind í tilmælum framkvæmdastjórnarinnar 2003/361/EB frá 6. maí 2003 um skilgreiningu á örfyrirtækjum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum ( 1 ), fái sömu meðferð og neytendur. Í öllum tilvikum gilda tiltekin meginákvæði þessarar tilskipunar án tillits til stöðu notanda.
21)          Í þessari tilskipun skal tilgreina skyldur greiðslumiðlana að því er varðar veitingu upplýsinga til notenda greiðsluþjónustu sem skulu alls staðar fá jafn góðar og skýrar upplýsingar um greiðsluþjónustu til að geta tekið vel upplýstar ákvarðanir og borið saman það sem er í boði innan Evrópusambandsins. Í þessari tilskipun skal, til að gæta gagnsæis, mælt fyrir um þær samræmdu kröfur sem þarf til að tryggja að nauðsynlegar og fullnægjandi upplýsingar skuli veittar notendum greiðsluþjónustu að því er varðar greiðsluþjónustusamninga og greiðslur. Til að greiða fyrir því að greiðsluþjónusta á innri markaðnum gangi snurðulaust fyrir sig skal aðildarríkjunum vera kleift að samþykkja aðeins þau ákvæði um upplýsingar sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun.
22)          Veita skal neytendum vernd gegn óréttmætum og villandi viðskiptaháttum í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/29/EB frá 11. maí 2005 um óréttmæta viðskiptahætti gagnvart neytendum á innri markaðnum ( 2 ) sem og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/31/EB frá 8. júní 2000 um tiltekna lagalega þætti þjónustu, einkum í rafrænum viðskiptum, í tengslum við upplýsingasamfélagið á innri markaðnum („tilskipun um rafræn viðskipti“) ( 3 ) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/65/EB frá 23. september 2002 varðandi fjarsölu á fjármálaþjónustu fyrir neytendur ( 4 ). Viðbótarákvæðin í þessum tilskipunum gilda áfram. Skýra skal þó sérstaklega tengslin sem eru á kröfum um upplýsingar milli þessarar tilskipunar og tilskipunar 2002/65/EB.
23)          Upplýsingarnar, sem krafist er, skulu vera í réttu hlutfalli við þarfir notenda og veittar með viðurkenndum hætti. Kröfur um upplýsingar fyrir staka greiðslu skulu þó vera frábrugðnar kröfum vegna rammasamnings þar sem kveðið er á um röð greiðslna.
24)          Í framkvæmd eru greiðslur og rammasamningar um þær mun algengari og skipta meira máli í efnahagslegu tilliti en stakar greiðslur. Ef um er að ræða greiðslureikning eða sérstakan greiðslumiðil er gerð krafa um rammasamning. Af þeim sökum skulu kröfur um fyrirframupplýsingar um rammasamninga vera allítarlegar og upplýsingarnar skulu ávallt lagðar fram á pappír eða öðrum varanlegum miðli, t.d. á útprentuðu reikningsyfirliti, disklingum, geisladiskum (CD-ROM, DVD) og hörðum diskum einkatölva, þar sem unnt er að varðveita rafrænan póst, og á vefsetrum á Netinu, svo framarlega sem vefsetrin séu aðgengileg til notkunar síðar og svo lengi sem það þjónar tilgangi upplýsinganna og unnt er að afrita upplýsingarnar, sem þar eru geymdar, óbreyttar. Þó skulu greiðslumiðlun og notandi greiðsluþjónustu geta samið um það í rammasamningnum hvernig upplýsingar um framkvæmdar greiðslur séu veittar síðar meir, t.d. að í Netbanka sé öllum upplýsingum um greiðslureikninginn komið á framfæri á Netinu.
25)          Í stökum greiðslum skal aðeins gefa nauðsynlegar upplýsingar og einungis að frumkvæði greiðslumiðlunarinnar. Þar eð greiðandi er yfirleitt viðstaddur þegar hann gefur greiðslufyrirmælin er ekki nauðsynlegt að krefjast þess að upplýsingarnar skuli í öllum tilvikum veittar á pappír eða á öðrum varanlegum miðli. Greiðslumiðlun getur veitt upplýsingar munnlega við afgreiðsluborðið eða gert þær aðgengilegar með öðrum hætti, t.d. með því að hafa skilmálana á upplýsingatöflu í starfsstöð. Einnig skal veita upplýsingar um það hvar sé að finna ítarlegri upplýsingar (t.d. veffang vefsetursins). Óski neytandi eftir því skal þó veita nauðsynlegar upplýsingar á pappír eða á öðrum varanlegum miðli.
26)          Í þessari tilskipun er kveðið á um rétt neytanda til að fá viðeigandi upplýsingar ókeypis áður en hann er bundinn af greiðsluþjónustusamningi. Neytandi skal einnig geta beðið um fyrirframupplýsingar og rammasamninginn á pappír, án endurgjalds, hvenær sem er meðan samningssambandið varir til að hann geti borið saman þjónustu greiðslumiðlana og skilmála þeirra og í ágreiningsmálum gengið úr skugga um réttindi sín og skyldur samkvæmt samningnum, Þessi ákvæði skulu samrýmast ákvæðum tilskipunar 2002/65/EB. Skýr ákvæði um ókeypis upplýsingar í þessari tilskipun skulu ekki hafa þau áhrif að taka megi gjöld fyrir veitingu upplýsinga til neytenda samkvæmt öðrum tilskipunum sem í gildi eru.
27)          Í þeirri aðferð sem greiðslumiðlun beitir við veitingu tilskilinna upplýsinga til notanda greiðsluþjónustunnar skal höfð hliðsjón af þörfum hins síðarnefnda svo og af hagnýtum tækniþáttum og kostnaðarhagkvæmni sem fer eftir því sem er ákveðið í viðkomandi samningi um greiðsluþjónustuna. Í þessari tilskipun skal þannig greint á milli tveggja aðferða sem greiðslumiðlun notar þegar hún veitir upplýsingar: annaðhvort eru upplýsingarnar veittar, þ.e. greiðslumiðlun lætur þær beinlínis í té á réttum tíma, eins og gerð er krafa um í þessari tilskipun, án þess að notandi greiðsluþjónustunnar fari frekar fram á það, eða upplýsingunum er komið á framfæri við notanda greiðsluþjónustu með tilliti til þeirra óska sem hann kann að hafa um frekari upplýsingar. Í síðara tilvikinu skal notandi greiðsluþjónustu afla sér upplýsinga með virkum hætti, s.s. með því að biðja greiðslumiðlunina um þær beint, tengjast Netbanka eða setja bankakort í kortalesara til að fá reikningsyfirlit. Greiðslumiðlun skal af þessum sökum sjá til þess að aðgangur að upplýsingum sé opinn og að upplýsingunum sé komið á framfæri við notanda greiðsluþjónustunnar.
28)          Auk þess skal neytandi fá grunnupplýsingar um framkvæmdar greiðslur án aukagjalds. Þegar um er að ræða staka greiðslu skal greiðslumiðlun ekki taka sérstakt gjald fyrir þessar upplýsingar. Eins skulu mánaðarlegar upplýsingar um greiðslur samkvæmt rammasamningi þaðan í frá veittar án endurgjalds. Aðilar skulu þó, að teknu tilliti til mismunandi þarfa viðskiptavina og þess hve gagnsæi er mikilvægt í verðlagningu, koma sér saman um gjöld fyrir tíðari upplýsingar eða viðbótarupplýsingar. Svo að tekið sé tillit til mismunandi venja í einstökum aðildarríkjum skal þeim heimilt að setja reglur um að mánaðarlegt yfirlit yfir greiðslureikninga á pappír sé ávallt án endurgjalds.
29)          Til að auðvelda hreyfanleika viðskiptavina skulu neytendur geta sagt upp rammasamningnum eftir eitt ár án þess að verða krafðir um gjald. Fyrir neytendur skal umsamið uppsagnartímabil ekki vera lengra en einn mánuður og fyrir greiðslumiðlanir eigi skemmra en tveir mánuðir. Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á skyldu greiðslumiðlunar til að slíta greiðsluþjónustusamningi í undantekningatilvikum samkvæmt annarri viðeigandi löggjöf Bandalagsins eða innlendri löggjöf sem við á, s.s. löggjöf um peningaþvætti og um fjármögnun hryðjuverkastarfsemi, allar aðgerðir til að frysta fjármuni og hver önnur sérráðstöfun í tengslum við forvarnir gegn eða rannsóknir á glæpum.
30)          Greiðslumiðlar með lágum fjárhæðum skulu vera ódýr og auðnýtanlegur kostur þegar um er að ræða lágverðsvörur og -þjónustu og skal ekki íþyngja þeim með óhóflegum kröfum. Kröfur um viðeigandi upplýsingar og reglur um framkvæmd þeirra skulu því takmarkast við nauðsynlegar upplýsingar og jafnframt skal tekið tillit til tæknilegra möguleika sem réttlætanlegt er að vænta af gerningum sem eingöngu eru notaðir við greiðslu á lágum fjárhæðum. Þrátt fyrir einfaldara regluverk skulu notendur greiðsluþjónustu njóta fullnægjandi verndar, að teknu tilliti til takmarkaðrar áhættu vegna þessara greiðslumiðla, einkum að því er varðar fyrirframgreidda greiðslumiðla.
31)          Til að draga úr áhættu og afleiðingum af óheimiluðum eða ranglega framkvæmdum greiðslum skal notandi greiðsluþjónustu veita greiðslumiðlun upplýsingar eins fljótt og kostur er um vefengingu að því er varðar meinta óheimila eða ranglega framkvæmda greiðslu, að því tilskildu að greiðslumiðlunin hafi uppfyllt upplýsingaskyldur sínar samkvæmt þessari tilskipun. Ef tilkynning berst frá notanda greiðsluþjónustu innan tilskilins frests getur hann fylgt þessum kröfum eftir innan tilskilins fyrningarfrests samkvæmt landslögum einstakra ríkja. Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á aðrar innbyrðis kröfur notenda greiðsluþjónustu og greiðslumiðlana.
32)          Til að hvetja notanda greiðsluþjónustu til að tilkynna greiðslumiðlun án ástæðulausrar tafar um þjófnað eða tap á greiðslumiðli og draga þannig úr hættu á óheimilaðri greiðslu skal notandi aðeins vera ábyrgur fyrir takmarkaðri fjárhæð nema notandi greiðsluþjónustu hafi gerst sekur um sviksamlegt athæfi eða sýnt af sér stórfellt gáleysi. Enn fremur skal þess ekki krafist að notandi, eftir að hann hefur tilkynnt greiðslumiðlun að greiðslumiðill hans kunni að hafa komist í rangar hendur, beri kostnað af frekara tjóni sem stafar af óheimilaðri notkun þess miðils. Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á ábyrgð greiðslumiðlana á tæknilegu öryggi eigin afurða.
33)          Við mat á hugsanlegri vanrækslu notanda greiðsluþjónustu skal taka tillit til allra aðstæðna. Meta skal vitnisburð um meinta vanrækslu og hversu mikil hún er samkvæmt landslögum í hverju aðildarríki fyrir sig. Samningskjör og skilmálar í tengslum við afhendingu og notkun greiðslumiðils, sem leiðir til þess að sönnunarbyrði neytanda eykst eða til þess að draga úr sönnunarbyrði útgefanda, skulu teljast marklaus og ógild.
34)          Aðildarríkin skulu þó geta sett reglur sem eru ekki eins strangar og ofangreindar reglur til að viðhalda þeirri vernd sem neytendur þegar hafa og til að auka tiltrú á öruggri notkun rafrænna greiðslumiðla. Taka skal tilhlýðilegt tillit til þess að áhætta, sem felst í greiðslumiðlum, er breytileg eftir miðlum og stuðla þannig að útgáfu öruggari miðla. Aðildarríkjunum skal heimilt að lækka eða fella með öllu niður bótaábyrgð greiðanda nema greiðandi hafi sýnt af sér sviksamlegt athæfi.
35)          Kveðið skal á um hvernig tapi skuli jafnað niður þegar um er að ræða óheimilaðar greiðslur. Mismunandi ákvæði geta gilt um notendur greiðsluþjónustu sem eru ekki neytendur þar eð þess háttar notendur eru yfirleitt í betri stöðu til að meta hættu á svikum og grípa til mótvægisaðgerða.
36)          Í þessari tilskipun skal mælt fyrir um reglur um endurgreiðslu til að vernda neytendur þegar framkvæmd greiðsla fer fram úr þeirri fjárhæð sem með sanngjörnum hætti mátti vænta. Greiðslumiðlanir skulu geta veitt viðskiptavinum sínum enn hagstæðari kjör og t.d. endurgreitt þær greiðslur sem ágreiningur er um. Ef notandi gerir kröfu um endurgreiðslu á greiðslu skal réttur til endurgreiðslu hvorki hafa áhrif á bótaábyrgð greiðanda gagnvart viðtakanda greiðslu að því er varðar þau tengsl sem liggja til grundvallar, t.d. vegna vara eða þjónustu, sem voru pöntuð, sem var neytt eða voru reikningsfærð með lögmætum hætti, né rétt notenda að því er varðar afturköllun greiðslufyrirmæla.
37)          Ef neytendur og fyrirtæki eiga að geta gert fjárhagsáætlanir og uppfyllt greiðsluskyldu á réttum tíma þurfa þau að vita hve langan tíma tekur að framkvæma greiðslufyrirmæli. Af þeim sökum skal með þessari tilskipun innleiða að tiltekinn sé sá tími þegar réttindi og skyldur taka gildi, þ.e. þegar greiðslumiðlun tekur við greiðslufyrirmælum, þ.m.t. sá tími þegar hún hefur haft tækifæri til að taka við þeim með þeirri samskiptaaðferð sem kveðið er á um í samningnum um greiðsluþjónustuna, þrátt fyrir afskipti fyrr í ferlinu sem leiddu til stofnunar og sendingar greiðslufyrirmælanna, t.d. vegna öryggiseftirlits og athugunar á því hvort fé væri fyrir hendi, vegna upplýsinga um notkun kennitölu eða vegna útgáfu á greiðsluloforði. Enn fremur skal viðtaka greiðslufyrirmæla eiga sér stað þegar greiðslumiðlun greiðanda tekur við greiðslufyrirmælum sem skulu skuldfærð af reikningi greiðanda. Dagurinn eða tíminn þegar viðtakandi greiðslu sendi greiðslumiðlun greiðslufyrirmæli, t.d. vegna innheimtu kortagreiðslna eða beingreiðslna, eða þegar greiðslumiðlun fjármagnar greiðslu viðtakanda til bráðabirgða vegna viðkomandi fjárhæða (með skilyrtu láni inn á reikning hans) skiptir ekki neinu máli í þessu tilliti. Notendur skulu geta treyst á rétta framkvæmd fullnægjandi og gildra greiðslufyrirmæla ef greiðslumiðlunin hefur engar samningslegar eða lögboðnar ástæður fyrir höfnun. Ef greiðslumiðlun neitar að veita greiðslufyrirmælum viðtöku skal tilkynna notanda greiðsluþjónustunnar um neitunina og ástæður hennar við fyrsta tækifæri samkvæmt kröfum laga Bandalagsins og landslaga hvers aðildarríkis.
38)          Þar eð alsjálfvirk greiðslukerfi nútímans vinna mjög hratt úr greiðslum og ekki er unnt að afturkalla greiðslufyrirmæli eftir tiltekinn tíma án mikils kostnaðar við handvirkt inngrip er nauðsynlegt að tilgreina skýrt frestinn til að afturkalla greiðslu. Tíminn kann þó að vera breytilegur eftir samningum milli aðila og eftir því um hvers konar greiðsluþjónustu og greiðslufyrirmæli er að ræða. Afturköllun í þessu sambandi gildir aðeins um tengslin milli notanda greiðsluþjónustu og greiðslumiðlunar og hefur því ekki áhrif á það hvort greiðslur í greiðslukerfum eru óafturkallanlegar og endanlegar.
39)          Þess háttar óafturkallanleiki skal ekki hafa áhrif á rétt greiðslumiðlunar eða skyldu hennar samkvæmt lögum nokkurra aðildarríkja, sem byggist á rammasamningi greiðanda eða landslögum, stjórnsýslufyrirmælum eða viðmiðunarreglum ríkjanna, til að endurgreiða greiðanda fjárhæð framkvæmdrar greiðslu þegar greiðandi og viðtakandi deila um greiðslu. Slík endurgreiðsla telst vera ný greiðslufyrirmæli. Að þessum tilvikum undanskildum skal lagalegur ágreiningur, sem rís vegna sambands, sem greiðslufyrirmælin grundvallast á, einungis jafnaður milli greiðanda og viðtakanda greiðslu.
40)          Miklu máli skiptir í alsamþættri og samfelldri vinnslu (STP) greiðslna og fyrir réttarvissu, að því er varðar þær skuldbindingar sem liggja til grundvallar í viðskiptum notenda greiðsluþjónustu, að öll fjárhæðin, sem greiðandi sendir, sé lögð inn á reikning viðtakanda greiðslunnar. Til samræmis við það skal enginn milliliður, sem er aðili að framkvæmd greiðslu, geta dregið frá fjárhæðinni sem er millifærð. Viðtakanda greiðslu skal þó vera unnt að semja við greiðslumiðlun sína um það að greiðslumiðlunin megi draga frá eigin gjöld. Í því skyni að gera viðtakanda greiðslu eigi að síður kleift að sannreyna að fjárhæð til greiðslu sé rétt greidd skal ekki aðeins heildarfjárhæðin, sem var send, koma fram í síðari upplýsingum um greiðsluna heldur einnig fjárhæð gjalda, ef einhver eru.
41)          Að því er varðar gjöldin hefur reynslan sýnt að skipting gjalda milli greiðanda og viðtakanda greiðslu er skilvirkasta kerfið þar eð það auðveldar meðferð í samfelldri vinnslu greiðslna. Þess vegna skal kveða á um að viðkomandi greiðslumiðlun greiðanda og greiðslumiðlun viðtakanda leggi, undir venjulegum kringumstæðum, gjöld sín beint á greiðanda og viðtakanda greiðslu, eftir því sem við á. Þetta á samt sem áður einungis við þegar greiðslan krefst ekki gjaldeyrismiðlunar. Fjárhæð álagðra gjalda getur einnig verið núll þar eð ákvæði þessarar tilskipunar hafa ekki áhrif á þá starfshætti greiðslumiðlunar að taka ekki gjald af neytendum fyrir að eignfæra á reikninga þeirra. Eins kann greiðslumiðlun, eftir samningsskilmálum, einungis að taka gjald af viðtakanda greiðslu (söluaðila) fyrir notkun á greiðsluþjónustunni sem leiðir til þess að ekkert gjald er lagt á greiðanda. Gjald fyrir notkun greiðslukerfa kann að vera í formi áskriftargjalds. Ákvæði um fjárhæðina, sem millifærð er, eða gjöld, sem lögð eru á, hafa ekki bein áhrif á verðlagningu milli greiðslumiðlana eða milliliða, ef um þá er að ræða.
42)          Í því skyni að efla gagnsæi og samkeppni skal greiðslumiðlun ekki hindra að viðtakandi greiðslu krefji greiðanda um gjald fyrir notkun sérstaks greiðslumiðils. Þó að viðtakanda greiðslu skuli vera frjálst að taka gjald fyrir notkun tiltekinna greiðslumiðla geta aðildarríkin ákveðið að banna eða takmarka þess háttar starfshætti ef, að þeirra áliti, það er réttmætt þegar um er að ræða ósanngjarna verðlagningu eða verðlagningu sem getur haft neikvæð áhrif á notkun tiltekinna greiðslumiðla, að teknu tilliti til nauðsynjar þess að hvetja til samkeppni og notkunar skilvirkra greiðslumiðla.
43)          Til að auka skilvirkni í greiðslum innan Bandalagsins skal um öll greiðslufyrirmæli, sem greiðandi á frumkvæði að og eru tilgreind í evrum eða í gjaldmiðli aðildarríkis utan evrusvæðisins, þ.m.t. millifærslur fjármuna og peningasendingar, gilda hámarksframkvæmdartími sem er einn dagur. Um allar aðrar greiðslur, s.s. greiðslur, sem viðtakandi greiðslu á frumkvæði að eða hefur milligöngu um, þ.m.t. beingreiðslur og kortagreiðslur, gildir sami framkvæmdartími, sem er einn dagur, ef ekki liggur fyrir skýrt samkomulag milli greiðslumiðlunar og greiðanda þar sem kveðið er á um lengri framkvæmdartíma. Framangreindan frest má lengja um einn virkan dag til viðbótar ef greiðslufyrirmæli eru gefin á pappír. Þetta gerir greiðslumiðlunum kleift að halda áfram þjónustu við þá neytendur sem hafa eingöngu vanist pappírsskjölum. Þegar notað er beingreiðslukerfi skal greiðslumiðlun viðtakanda greiðslu senda innheimtufyrirmæli innan þeirra tímamarka sem samkomulag er um milli viðtakanda greiðslu og greiðslumiðlunar hans sem gerir kleift að gera upp á umsömdum gjalddaga. Með hliðsjón af því að innlend greiðslukerfi eru oft afar skilvirk og til að koma í veg fyrir að núverandi þjónusta skerðist skal aðildarríkjunum vera heimilt að halda núgildandi reglum eða setja nýjar og tilgreina styttri framkvæmdartíma en einn virkan dag, ef við á.
44)          Ákvæði um framkvæmd greiðslu allrar fjárhæðarinnar og um framkvæmdartíma skulu teljast góðar starfsvenjur ef ein þessara greiðslumiðlana er ekki í Bandalaginu.
45)          Nauðsynlegt er fyrir notendur greiðsluþjónustu að hafa upplýsingar um raunverulegan kostnað og gjöld fyrir greiðsluþjónustu við val sitt. Í samræmi við það skal ekki leyfa ógagnsæjar verðlagningaraðferðir þar eð almennt er viðurkennt að þær aðferðir geri notendum afar erfitt fyrir um að meta hvert sé raunverulegt verð greiðsluþjónustunnar. Einkum skal notkun virðisdagsetningar, sem er óhagstæð notanda, ekki leyfð.
46)          Snurðulaus og skilvirkur rekstur greiðslukerfisins er kominn undir því að notandi geti treyst greiðslumiðluninni til að framkvæma greiðslu rétt og innan umsamins tíma. Yfirleitt er greiðslumiðlunin í aðstöðu til að meta áhættuna sem felst í greiðslunni. Greiðslumiðlunin leggur til greiðslukerfið, gerir samninga um innköllun fjár sem hefur misfarist og ákveður í flestum tilvikum hvaða milliliðir skuli vera aðilar að framkvæmd greiðslu. Í ljósi allra þessara atriða er fyllilega viðeigandi, nema um sé að ræða óeðlilegar og ófyrirsjáanlegar aðstæður, að leggja bótaábyrgð vegna framkvæmdar greiðslu, sem notandi hefur samþykkt, á greiðslumiðlunina, nema að því er varðar aðgerðir og aðgerðarleysi greiðslumiðlunar viðtakanda greiðslu sem hann er með vali sínu einn ábyrgur fyrir. Svo að greiðandi sé ekki með öllu óvarinn í óvenjulegum aðstæðum, þegar ekki liggur ljóst fyrir (e. non liquet) hvort greiðslumiðlun viðtakanda greiðslu fékk greiðsluna með skilum eða ekki, skal þó samsvarandi sönnunarbyrði hvíla á greiðslumiðlun greiðanda. Almennt er þess að vænta að milliliðurinn, yfirleitt „hlutlaus“ aðili, s.s. seðlabanki eða greiðslujöfnunarstöð, sem millifærði fjárhæð greiðslunnar frá greiðslumiðlun, sem sá um sendingu greiðslunnar, til greiðslumiðlunar, sem veitti henni viðtöku, geymi reikningsgögnin og geti lagt þau fram þegar þörf krefur. Þegar fjárhæð greiðslunnar hefur verið lögð inn á reikning greiðslumiðlunarinnar, sem veitti greiðslunni viðtöku, skal viðtakandi greiðslu þegar í stað geta gert kröfu á greiðslumiðlun sína um innlögn á eigin reikning.
47)          Greiðslumiðlun greiðanda skal taka á sig bótaábyrgð á réttri framkvæmd greiðslu, einkum á fullri fjárhæð greiðslunnar og framkvæmdartíma, og fulla ábyrgð á greiðslufalli annarra aðila í greiðsluferlinu allt að reikningi viðtakanda greiðslu. Ef greiðslumiðlun greiðanda leggur ekki alla fjárhæð greiðslunnar inn hjá greiðslumiðlun viðtakanda greiðslunnar skal greiðslumiðlun greiðanda, vegna þessarar bótaábyrgðar, leiðrétta greiðsluna eða endurgreiða greiðanda án ástæðulausrar tafar samsvarandi greiðslufjárhæð, sbr. þó aðrar kröfur sem kunna að verða gerðar í samræmi við landslög einstakra ríkja. Þessi tilskipun skal aðeins varða samningsbundnar skuldbindingar og ábyrgð milli notanda greiðsluþjónustu og greiðslumiðlunar hans. Ef millifærsla fjármuna og önnur greiðsluþjónusta á að starfa rétt skulu greiðslumiðlanir og milliliðir þeirra, s.s. gagnavinnsluaðilar, hafa gert samninga þar sem kveðið er á um gagnkvæm réttindi þeirra og skyldur. Mikilvægur hluti þessara samræmdu samninga eru atriði í tengslum við ábyrgð. Til að tryggja áreiðanleika í viðskiptum greiðslumiðlana og milliliða, sem eru aðilar að greiðslu, er nauðsynlegt að réttarvissa sé fyrir hendi þannig að greiðslumiðlun, sem ber ekki ábyrgð, sé bætt orðið tap eða greiddar fjárhæðir samkvæmt ákvæðum þessarar tilskipunar um bótaábyrgð. Í samningsákvæðum skal gera grein fyrir frekari réttindum og kveða nánar á um endurkröfurétt og hvernig fara skuli með kröfur á hendur greiðslumiðlunar eða milliliðar sem er talinn ábyrgur fyrir gallaðri greiðslu.
48)          Greiðslumiðlun skal vera unnt að tilgreina ótvírætt hvaða upplýsinga er þörf til að framkvæma greiðslufyrirmæli rétt. Á hinn bóginn, til að komast hjá uppskiptingu og því að stefna uppsetningu samþættra greiðslukerfa í Bandalaginu í tvísýnu, skal aðildarríkjum þó ekki vera heimilt að krefjast þess að sérstakt kennimerki skuli notað á greiðslur. Þetta skal þó ekki koma í veg fyrir aðildarríkin geti gert kröfu um að greiðslumiðlun greiðanda sýni tilhlýðilega kostgæfni og sannreyni, ef það er tæknilega unnt og án handvirks inngrips, samfellu sérstaks kennimerkis og hafna greiðslufyrirmælunum ef ekki er um samfellu sérstaks kennimerkis að ræða og tilkynna greiðanda um það. Bótaábyrgð greiðslumiðlunar skal takmarkast við rétta framkvæmd greiðslu í samræmi við greiðslufyrirmæli notanda greiðsluþjónustunnar.
49)          Í því skyni að stuðla að skilvirkum vörnum gegn svikum og berjast gegn greiðslusvikum í Bandalaginu öllu skal kveðið á um skilvirka gagnamiðlun milli greiðslumiðlana sem skal vera heimilt að safna, vinna úr og skiptast á persónuupplýsingum um þá einstaklinga sem aðild eiga að greiðslusvikum. Allar þessar aðgerðir skulu fara fram í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga ( 1 ).
50)          Nauðsynlegt er að tryggja skilvirka framkvæmd ákvæða landslaga einstakra aðildarríkja sem samþykkt eru samkvæmt þessari tilskipun. Af þeim sökum skal koma á viðeigandi málsmeðferð sem verður unnt að nota til að fylgja eftir kærum á hendur greiðslumiðlunum sem fara ekki að þessum ákvæðum og sjá til þess, ef við á, að beitt verði viðurlögum sem eru skilvirk, í réttu hlutfalli við brot og letjandi.
51)          Með fyrirvara um rétt viðskiptavina til að höfða mál fyrir dómi skulu aðildarríkin sjá til þess að aðgengileg og hagkvæm leið sé til úrlausnar ágreiningsmála utan réttar milli greiðslumiðlana og neytenda sem stafa af réttindum og skyldum sem sett eru fram í þessari tilskipun. Með ákvæðum 2. mgr. 5. gr. Rómarsáttmálans um lög sem gilda um samningsskyldur ( 2 ) er séð til þess að ekki megi með samningsskilmálum um gildandi lög grafa undan þeirri vernd sem neytendum er tryggð með ófrávíkjanlegum reglum í lögum þess lands þar sem þeir hafa fasta búsetu.
52)          Aðildarríkin skulu ákvarða hvort lögbær stjórnvöld, sem veita eiga greiðslustofnunum starfsleyfi, geti einnig verið lögbær stjórnvöld með tilliti til kæru- og úrlausnarmeðferðar utan réttar.
53)          Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á ákvæði í landslögum einstakra aðildarríkja um afleiðingar að því er varðar bótaábyrgð vegna ónákvæms orðalags eða villu í sendingu yfirlits.
54)          Þar eð nauðsynlegt er að hafa eftirlit með því hvort framkvæmd þessarar tilskipunar er skilvirk og fylgjast með því hvernig hefur miðað að koma á innri greiðslumarkaði skal gerð sú krafa til framkvæmdastjórnarinnar að hún leggi fram skýrslu þremur árum eftir að lögleiðingartímabili þessarar tilskipunar lýkur. Með hliðsjón af hnattrænni samþættingu fjármálaþjónustu og samræmdri neytendavernd skal í þessari endurskoðun jafnframt lögð áhersla, sem er umfram skilvirka framkvæmd þessarar tilskipunar, á hugsanlega þörf á að víkka út gildissvið beitingar með tilliti til gjaldmiðla ríkja utan ESB og greiðslna ef aðeins ein af viðkomandi greiðslumiðlunum er í Bandalaginu.
55)          Þar eð ákvæði þessarar tilskipunar koma í stað ákvæða tilskipunar 97/5/EB skal sú tilskipun felld úr gildi.
56)          Nauðsynlegt er að mæla fyrir um ítarlegri reglur um sviksamlega notkun greiðslukorta en það svið fellur nú undir tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB frá 20. maí 1997 um neytendavernd að því er varðar fjarsölusamninga ( 3 ) og tilskipun 2002/65/EB. Því ber að breyta þessum tilskipunum til samræmis við það.
57)          Þar eð fjármálastofnanir falla samkvæmt tilskipun 2006/48/EB ekki undir þær reglur sem gilda um lánastofnanir skulu þær lúta sömu kröfum og greiðslustofnanir svo að þær geti veitt greiðsluþjónustu í öllu Bandalaginu. Því ber að breyta tilskipun 2006/48/EB til samræmis við það.
58)          Þar eð peningasending er í þessari tilskipun skilgreind sem greiðsluþjónusta, sem krefst starfsleyfis fyrir greiðslustofnun eða skráningar fyrir einstaklinga eða lögaðila, er njóta undanþágu við tilteknar aðstæður, sem tilgreindar eru í ákvæðum þessarar tilskipunar, skal tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/60/EB frá 26. október 2005 um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis og til fjármögnunar hryðjuverkastarfsemi ( 1 ) breytt í samræmi við það.
59)          Í þágu réttarvissu er við hæfi að gera bráðabirgðaráðstafanir sem veita einstaklingum, sem hafa hafið starfsemi greiðslustofnana í samræmi við gildandi landslög áður en þessi tilskipun tók gildi, rétt til að halda áfram þeirri starfsemi innan viðkomandi aðildarríkis í tilgreindan tíma.
60)          Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiði þessarar tilskipunar, þ.e. að koma á innri markaði í greiðsluþjónustu, vegna þess að það krefst samræmingar fjölmargra ólíkra reglna, sem nú eru í gildi innan lagakerfa hinna ýmsu aðildarríkja, og því verður betur náð á vettvangi Bandalagsins, er Bandalaginu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna, eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett er fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná þessu markmiði.
61)          Nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar þessari tilskipun skulu samþykktar í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 2 ).
62)          Framkvæmdastjórnin skal einkum hafa vald til að samþykkja framkvæmdarákvæði sem taka mið af tækniþróun og markaðsþróun. Þar eð þessar ráðstafanir eru almenns eðlis og þeim er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar verður að samþykkja þær í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferð með athugun sem kveðið er á um í 5. gr. a í ákvörðun 1999/468/EB.
63)          Í samræmi við 34. lið samstarfssamningsins milli stofnana um betri lagasetningu ( 3 ), eru aðildarríkin hvött til að taka saman, fyrir sig og í þágu Bandalagsins, eigin töflur sem sýna, eftir því sem við verður komið, samsvörun milli þessarar tilskipunar og ráðstafananna til að lögleiða hana og til að birta þær.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

I. HLUTI
VIÐFANGSEFNI, GILDISSVIÐ OG SKILGREININGAR
1. gr.
Viðfangsefni

1.     Í þessari tilskipun er mælt fyrir um reglur um hvernig aðildarríkin skulu greina á milli eftirfarandi sex flokka greiðslumiðlana:
a)    lánastofnana í skilningi a-liðar 1. mgr. 4. gr. í tilskipun 2006/48/EB,
b)    rafeyrisstofnana í skilningi a-liðar 3. mgr. 1. gr. í tilskipun 2000/46/EB,
c)    póstgíróstofnana, sem hafa rétt samkvæmt landslögum til að veita greiðsluþjónustu,
d)    greiðslustofnana í skilningi þessarar tilskipunar,
e)    Seðlabanka Evrópu og seðlabanka einstakra aðildarríkja, þegar þeir koma ekki fram sem yfirvald í peningamálum eða sem önnur opinber yfirvöld,
f)    aðildarríkja eða svæðisbundinna eða staðbundinna yfirvalda þeirra, þegar þau koma ekki fram sem opinber yfirvöld.
2.     Í þessari tilskipun er enn fremur mælt fyrir um reglur um gagnsæi skilmála og kröfur um upplýsingar fyrir greiðsluþjónustu og réttindi og skyldur notenda greiðsluþjónustu annars vegar og greiðslumiðlana hins vegar að því er varðar veitingu greiðsluþjónustu sem reglubundna atvinnu eða starfsemi.

2. gr.
Gildissvið

1.     Tilskipun þessi gildir um greiðsluþjónustu sem veitt er innan Bandalagsins. Að undanskilinni 73. gr. skulu þó ákvæði III. og IV. hluta aðeins gilda ef bæði greiðslumiðlun greiðanda og greiðslumiðlun viðtakanda greiðslu – eða eina greiðslumiðlunin í greiðslunni – eru staðsettar í Bandalaginu.
2.     Ákvæði III. og IV. hluta gilda um greiðsluþjónustu sem fer fram í evrum eða í gjaldmiðli aðildarríkis sem er utan evrusvæðisins.
3.     Aðildarríkin geta undanþegið stofnanirnar, sem um getur í 2. gr. tilskipunar 2006/48/EB, frá öllum eða hluta ákvæða þessarar tilskipunar, að undanskildum þeim sem um getur í fyrsta og öðrum undirlið þeirrar greinar.

3. gr.
Undantekningar frá gildissviði

Tilskipun þessi gildir ekki um eftirfarandi:
a)    greiðslur sem fara einvörðungu fram í reiðufé beint frá greiðanda til viðtakanda greiðslu án milligöngu milliliða,
b)    greiðslur frá greiðanda til viðtakanda greiðslu fyrir milligöngu umboðssala sem hefur leyfi til að semja um eða ganga frá sölu eða kaupum á vörum eða þjónustu fyrir hönd greiðanda eða viðtakanda greiðslu,
c)    flutning í atvinnuskyni á seðlum og mynt, þ.m.t. söfnun þeirra, meðhöndlun og afhending,
d)    greiðslur sem felast í söfnun á reiðufé og afhendingu, sem er ekki í atvinnuskyni, innan ramma starfsemi sem er ekki í hagnaðarskyni eða er í þágu mannúðarmála,
e)    þjónustu, þar sem viðtakandi greiðslu lætur greiðanda í té reiðufé sem hluta af greiðslu í kjölfar skýrrar beiðni notanda greiðsluþjónustu rétt áður en framkvæmd greiðslunnar fer fram með greiðslu, til kaupa á vörum og þjónustu,
f)    peningaskiptastarfsemi, þ.e.a.s. rekstur sem byggist á staðgreiðslu ef fé er ekki fyrir hendi á greiðslureikningi,
g)    greiðslur sem byggjast á einhverju af eftirfarandi skjölum sem gefin eru út á greiðslumiðlun með það fyrir augum að viðtakandi greiðslu fái fjármuni til ráðstöfunar:
    i.    pappírsávísanir í samræmi við Genfarsáttmálann frá 19. mars 1931 um samræmd lög um ávísanir,
    ii.    pappírsávísanir sem svipar til þeirra sem um getur í i. lið og falla undir lög aðildarríkja sem eru ekki aðilar að Genfarsáttmálanum frá 19. mars 1931 um samræmd lög um ávísanir,
    iii.    pappírsávísanir í samræmi við Genfarsáttmálann frá 7. júní 1930 um samræmd lög um víxla og skuldabréf,
    iv.    pappírsávísanir sem svipar til þeirra sem um getur í iii. lið og falla undir lög aðildarríkja sem eru ekki aðilar að Genfarsáttmálanum frá 7. júní 1930 um samræmd lög um víxla og skuldabréf,
    v.    pappírsúttektarseðla,
    vi.    pappírsferðaávísanir eða
    vii.    pappírspóstávísanir samkvæmt skilgreiningu Alþjóðapóstsambandsins,
h)    greiðslur sem fara fram í greiðslu- eða verðbréfauppgjörskerfi milli uppgjörsaðila, milligönguaðila, greiðslujöfnunarstöðva og/eða seðlabanka og annarra aðila að kerfinu og greiðslumiðlana, sbr. þó 28. gr.,
i)    greiðslur sem tengjast umsýslu verðbréfaeigna, þ.m.t. arðgreiðslur, tekjur eða aðrar útgreiðslur, innlausn eða sala, sem aðilar, sem um getur í h- lið, annast, eða fjárfestingarfyrirtæki, lánastofnanir, fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu eða eignastýringarfyrirtæki, sem veita fjárfestingarþjónustu, og hverjar þær einingar aðrar sem hafa leyfi til vörslu fjármálagerninga,
j)    þjónustu sem þau tækniþjónustufyrirtæki veita sem annast stoðþjónustu við greiðsluþjónustu, án þess að þau hafi nokkurn tíma eignarhald á þeim fjármunum sem millifæra skal, þ.m.t. úrvinnsla og geymsla gagna, þjónusta við verndun trúnaðarupplýsinga og friðhelgi einkalífs, sannvottun gagna og eininga, þjónustuveita upplýsingatækni- og samskiptanets, útvegun og viðhald skjástöðva og búnaðar fyrir greiðsluþjónustu,
k)    þjónustu sem byggist á búnaði sem aðeins er unnt að nota til að afla vara og þjónustu á athafnasvæði útgefanda eða samkvæmt viðskiptasamningi við útgefanda, annaðhvort innan afmarkaðs þjónustukerfis þjónustuveitenda eða fyrir takmarkað svið vara og þjónustu,
l)    greiðslur sem framkvæmdar eru með tilstyrk hvers kyns fjarskiptabúnaðar, stafræns búnaðar eða upplýsingatæknibúnaðar þegar keyptar vörur eða þjónusta er afhent og skal notuð með hjálp fjarskiptabúnaðar, stafræns búnaðar eða upplýsingatæknibúnaðar, að því tilskildu að rekstraraðili fjarskiptabúnaðar, stafræns búnaðar eða upplýsingatæknibúnaðar starfi ekki einvörðungu sem milliliður milli notanda greiðsluþjónustu og afhendingaraðila vara og þjónustu,
m)    greiðslur sem fara milli greiðslumiðlana, umboðsaðila þeirra eða útibúa fyrir þeirra eigin reikning,
n)    greiðslur milli móðurfyrirtækis og dótturfyrirtækis þess eða milli dótturfyrirtækja sama móðurfyrirtækis án milligöngu annarrar greiðslumiðlunar en fyrirtækis sem tilheyrir sömu samstæðu eða
o)    þjónustu sem söluaðilar veita í tengslum við úttekt reiðufjár í hraðbanka fyrir hönd eins eða fleiri kortafyrirtækja, sem eru ekki aðilar að þeim rammasamningi við viðskiptavini, sem taka peninga út af greiðslureikningi, að því tilskildu að þessir söluaðilar reki ekki neina þá greiðsluþjónustu aðra sem tilgreind er í viðaukanum.

4. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1.    „heimaaðildarríki“: er annaðhvort:
    i.    aðildarríkið þar sem skráð skrifstofa greiðslumiðlunarinnar er eða
    ii.    ef greiðslumiðlunin hefur enga skráða skrifstofu samkvæmt landslögum, aðildarríkið þar sem hún er með aðalskrifstofu,
2.    „gistiaðildarríki“: annað aðildarríki en heimaaðildarríkið þar sem greiðslumiðlun hefur umboðsaðila eða útibú eða veitir greiðsluþjónustu,
3.    „greiðsluþjónusta“: hvers kyns starfsemi sem er tilgreind í viðaukanum,
4.    „greiðslustofnun“: lögaðili sem hefur fengið starfsleyfi í samræmi við 10. gr. til að veita og framkvæma greiðsluþjónustu í öllu Bandalaginu,
5.    „greiðsla“: aðgerð sem greiðandi eða viðtakandi greiðslu á frumkvæði að með því að leggja inn, millifæra eða taka út fjármuni, án tillits til þess hvort einhverjar skuldbindingar milli greiðanda og viðtakanda greiðslu liggja til grundvallar,
6.    „greiðslukerfi“: kerfi til að yfirfæra fjármuni með formlegu og stöðluðu fyrirkomulagi og sameiginlegum reglum um meðferð, greiðslujöfnun og/eða uppgjör greiðslna,
7.    „greiðandi“: einstaklingur eða lögaðili sem á greiðslureikning og heimilar greiðslufyrirmæli af þeim greiðslureikningi eða, ef ekki er um greiðslureikning að ræða, einstaklingur eða lögaðili sem gefur greiðslufyrirmæli,
8.    „viðtakandi greiðslu“: einstaklingur eða lögaðili sem er fyrirhugaður viðtakandi fjármuna sem hafa verið viðfang greiðslu,
9.    „greiðslumiðlun“: aðilar, sem um getur í 1. mgr. 1. gr., og lögaðilar og einstaklingar sem hafa fengið undanþágu skv. 26. gr.,
10.    „notandi greiðsluþjónustu“: einstaklingur eða lögaðili sem nýtir sér greiðsluþjónustu annaðhvort sem greiðandi eða viðtakandi greiðslu, eða hvort tveggja,
11.    „neytandi“: einstaklingur sem í samningum um greiðsluþjónustu, sem þessi tilskipun tekur til, kemur fram í öðrum tilgangi en vegna atvinnugreinar sinnar, viðskipta eða starfs,
12.    „rammasamningur“: samningur um greiðsluþjónustu þar sem kveðið er á um framkvæmd einstakra greiðslna og röð greiðslna í framtíðinni og kann að fela í sér skyldu og skilyrði um stofnun greiðslureiknings,
13.    „peningasending“: greiðsluþjónusta þar sem tekið er við fjármunum frá greiðanda, án þess að stofnaðir hafi verið greiðslureikningar í nafni greiðanda eða viðtakanda greiðslu, í þeim eina tilgangi að senda samsvarandi fjárhæð til viðtakanda greiðslu eða til annarrar greiðslumiðlunar fyrir hönd viðtakanda greiðslu, og/eða þegar tekið er við þess háttar fjármunum fyrir hönd viðtakanda greiðslu og þeir afhentir honum til ráðstöfunar,
14.    „greiðslureikningur“: reikningur á nafni eins eða fleiri notenda greiðsluþjónustu sem er notaður við framkvæmd greiðslu,
15.    „fjármunir“: peningaseðlar og mynt, inneign á reikningum og rafeyrir samkvæmt skilgreiningu í b-lið 3. mgr. 1. gr. í tilskipun 2000/46/EB,
16.    „greiðslufyrirmæli“: hvers kyns fyrirmæli greiðanda eða viðtakanda greiðslu til greiðslumiðlunar um framkvæmd greiðslu,
17.    „gildisdagur“: viðmiðunartími sem greiðslumiðlanir nota til að reikna vexti af fjármunum sem eru skuldfærðir af eða eignfærðir á greiðslureikning,
18.    „viðmiðunargengi“: gengið sem er notað til grundvallar útreikningi við gjaldeyrisviðskipti og liggur frammi hjá greiðslumiðlun eða er komið á framfæri í gögnum sem eru aðgengileg öllum,
19.    „sannvottun“: aðferð sem gerir greiðslumiðlun kleift að sannreyna notkun tiltekins greiðslumiðils, þ.m.t. persónubundnar öryggisráðstafanir í tengslum við hann,
20.    „viðmiðunarvextir“: vextir sem notaðir eru til grundvallar útreikningi á vöxtum sem skal nota og fengnir eru úr gögnum sem eru aðgengileg öllum og báðir aðilar að greiðsluþjónustusamningi geta sannreynt,
21.    „sérstakt kennimerki“: samsetning bókstafa, tölustafa eða tákna sem greiðslumiðlunin upplýsir viðkomandi notanda greiðslumiðlunar um og sem notandi greiðsluþjónustu skal tilgreina til að unnt sé að staðfesta ótvírætt deili á hinum notanda greiðslumiðlunar og/eða númer greiðslureiknings hans vegna greiðslu,
22.    „umboðsaðili“: einstaklingur eða lögaðili sem kemur fram fyrir hönd greiðslustofnunar við veitingu greiðsluþjónustu,
23.    „greiðslumiðill“: hvers kyns persónubundinn búnaður og/eða aðferðir sem notandi greiðsluþjónustu og greiðslumiðlun koma sér saman um og notandi greiðsluþjónustu notar til að gefa greiðslufyrirmæli,
24.    „fjarsamskiptamiðill“: miðill sem nota má til að gera greiðsluþjónustusamning milli greiðslumiðlunar og notanda greiðsluþjónustu án þess að aðilar séu viðstaddir samtímis í eigin persónu,
25.    „varanlegur miðill“: sérhver miðill sem gerir notanda greiðslumiðlunar kleift að geyma upplýsingar, sem beint er til hans persónulega, á þann hátt að þær séu aðgengilegar til notkunar síðar og eins lengi og nægir miðað við tilgang upplýsinganna, og gerir kleift að afrita upplýsingarnar, sem þar eru geymdar, óbreyttar,
26.    „örfyrirtæki“: fyrirtæki sem við gerð greiðsluþjónustusamnings er fyrirtæki eins og það sem skilgreint er í 1. gr. og 1. og 3. mgr. 2. gr. viðauka við tilmæli 2003/361/EB,
27.    „virkur dagur“: dagur þegar viðkomandi greiðslumiðlun greiðanda eða greiðslumiðlun viðtakanda greiðslu, sem er aðili að framkvæmd greiðslu, er opin og starfar eftir því sem þörf fyrir framkvæmd greiðslu krefur,
28.    „beingreiðsla“: greiðsluþjónusta við skuldfærslu af greiðslureikningi greiðanda ef viðtakandi greiðslu á frumkvæði að greiðslu á grundvelli samþykkis greiðanda, sem hann veitir viðtakanda greiðslu, til greiðslumiðlunar viðtakanda greiðslu eða til eigin greiðslumiðlunar greiðanda,
29.    „útibú“: starfsstöð önnur en aðalskrifstofa sem er hluti af greiðslustofnun án réttarstöðu lögaðila og framkvæmir beint nokkrar eða allar greiðslur sem fylgja rekstri greiðslustofnunar; allar starfsstöðvar, sem greiðslustofnun kemur á fót í sama aðildarríkinu, skulu teljast eitt útibú, ef hún er með aðalskrifstofu sína í öðru aðildarríki,
30.    „samstæða“: fyrirtækjasamstæða sem í eru móðurfyrirtæki, dótturfyrirtæki þess og einingar, sem móðurfyrirtækið eða dótturfyrirtækin eiga hlutdeild í, og einnig fyrirtæki sem tengjast hvert öðru á þann hátt sem um getur í 1. mgr. 12. gr. tilskipunar 83/349/EBE.

II. HLUTI
GREIÐSLUMIÐLANIR
1. KAFLI
Greiðslustofnanir
1. þáttur
Almennar reglur

5. gr.
Umsókn um starfsleyfi

Til að fá starfsleyfi sem greiðslustofnun skal leggja inn umsókn hjá lögbærum yfirvöldum í heimaaðildarríkinu ásamt eftirfarandi:
a)    starfsáætlun þar sem m.a. kemur fram hvers konar greiðsluþjónusta er fyrirhuguð,
b)    viðskiptaáætlun með fjárhagsáætlun sem reiknuð er fyrir fyrstu þrjú fjárhagsárin og sýnir að umsækjandi geti notað viðeigandi kerfi, sem eru í réttu hlutfalli við starfsemina, verðmæti og verkferla til að standa undir traustum rekstri,
c)    gögnum um að greiðslustofnunin hafi yfir að ráða því stofnfé sem kveðið er á um í 6. gr.,
d)    fyrir greiðslustofnanirnar, sem um getur í 1. mgr. 9. gr., lýsingu á þeim ráðstöfunum sem gerðar eru til að vernda fjármuni notenda greiðsluþjónustu í samræmi við 9. gr.,
e)    lýsingu á stjórnarformi umsækjanda og innri eftirlitskerfum, þ.m.t. aðferðir við stjórnun, áhættustýringu og reikningsskil, sem sýnir að stjórnarhættir, eftirlitskerfi og verkferlar séu í réttu hlutfalli við starfsemina, viðeigandi, traust og fullnægjandi,
f)    lýsingu á innri eftirlitskerfum sem umsækjandi hefur komið á fót til að uppfylla skyldur í tengslum við peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverkastarfsemi samkvæmt tilskipun 2005/60/EB og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1781/2006 frá 15. nóvember 2006 um upplýsingar um greiðanda sem fylgja skulu við millifærslu fjármuna ( 1 ),
g)    lýsingu á skipulagsuppbyggingu umsækjanda, þ.m.t., ef við á, lýsing á ætlaðri notkun umboðsmanna og útibúa ásamt lýsingu á útvistunarfyrirkomulagi, og aðild umsækjanda að landsbundnum eða alþjóðlegum greiðslukerfum,
h)    upplýsingum um deili á einstaklingum sem eiga hlutdeild í umsækjanda, beint eða óbeint, virka eignarhlutdeild í umsækjanda í skilningi 11. mgr. 4. gr. tilskipunar 2006/48/EB, stærð eignarhlutdeildar og gögn um hæfni þeirra með hliðsjón af nauðsyn þess að tryggja trausta og varfærna stjórn greiðslustofnunar,
i)    upplýsingum um deili á stjórnendum og einstaklingum sem bera ábyrgð á stjórn greiðslustofnunarinnar og, ef við á, einstaklingum sem eru ábyrgir fyrir stjórn á greiðsluþjónustustarfsemi greiðslustofnunarinnar ásamt vitnisburði um að þeir hafi óflekkað mannorð og hafi til að bera viðeigandi þekkingu og reynslu til að annast greiðsluþjónustu samkvæmt því sem heimaaðildarríki greiðslustofnunarinnar ákvarðar,
j)    eftir því sem við á, upplýsingum um deili á lögboðnum endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum eins og skilgreint er í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB frá 17. maí 2006 um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikninga ( 2 ),
k)    réttarstöðu umsækjanda og samþykktum,
l)    heimilisfangi aðalskrifstofu umsækjanda.
Að því er tekur til d-, e- og g-liðar skal umsækjandi leggja fram lýsingu á endurskoðunarfyrirkomulagi sínu og því skipulagsfyrirkomulagi sem hann hefur komið á með það að markmiði að gera allar þær ráðstafanir sem raunhæfar teljast til að vernda hagsmuni notenda sinna og tryggja samfelldni og áreiðanleika í framkvæmd greiðsluþjónustunnar.

6. gr.
Stofnfé

Aðildarríki skulu krefjast þess að við viðtöku starfsleyfis eigi greiðslustofnanir stofnfé sem í eru þeir liðir sem skilgreindir eru í a- og b-lið 57. gr. tilskipunar 2006/48/EB:
a)    ef greiðslustofnun veitir aðeins þá greiðsluþjónustu sem tilgreind er í 6. lið viðaukans skal hlutafé hennar aldrei vera lægra en 20 000 evrur,
b)    ef greiðslustofnun veitir þá greiðsluþjónustu sem tilgreind er í 7. lið viðaukans skal hlutafé hennar aldrei vera lægra en 50 000 evrur,
c)    ef greiðslustofnun veitir einhverja þá greiðsluþjónustu sem tilgreind er í 1.–5. lið viðaukans skal hlutafé hennar aldrei vera lægra en 125 000 evrur.

7. gr.
Eigið fé

1.     Eigið fé greiðslustofnunar, eins og það er skilgreint í 57.–61. gr. og 63., 64. og 66. gr. tilskipunar 2006/48/EB, má ekki fara niður fyrir þá fjárhæð sem krafist er skv. 6. eða 8. gr. þessarar tilskipunar, þá sem er hærri.
2.     Aðildarríki skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir endurtekna notkun þátta, sem geta talist til eigin fjár, þegar greiðslustofnunin er í eigu sömu samstæðu og önnur greiðslustofnun eða lánastofnun, annað fjárfestingarfyrirtæki, eignastýringarfyrirtæki eða vátryggingafyrirtæki. Þessi málsgrein gildir einnig ef greiðslustofnun rekur samhliða aðra starfsemi en greiðsluþjónustu sem tilgreind er í viðaukanum.
3.     Ef skilyrðin, sem mælt er fyrir um í 69. gr. tilskipunar 2006/48/EB, eru uppfyllt geta aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra valið að beita ekki 8. gr. þessarar tilskipunar gagnvart greiðslustofnunum sem falla undir samstæðueftirlit móðurlánastofnunar samkvæmt tilskipun 2006/48/EB.

8. gr.
Útreikningur eigin fjár

1.     Þrátt fyrir kröfur um stofnfé, sem settar eru fram í 6. gr., skulu aðildarríkin krefjast þess að eigið fé greiðslustofnana sé ávallt reiknað í samræmi við eina af eftirfarandi þremur aðferðum, eftir því sem lögbær yfirvöld ákvarða í samræmi við landslög:
Aðferð A
Eigið fé greiðslustofnunar skal vera a.m.k. 10% af föstum, óbeinum kostnaði fyrra árs. Lögbærum yfirvöldum er heimilt að breyta þessari kröfu ef umtalsverðar breytingar hafa orðið á rekstri greiðslustofnunar frá fyrra ári. Hafi greiðslustofnun starfað skemur en eitt rekstrarár, þegar útreikningur fer fram, skal gerð krafa um að eigið fé hennar sé a.m.k. 10% af samsvarandi föstum, óbeinum kostnaði, sem gert er ráð fyrir í rekstraráætlun, nema lögbær yfirvöld krefjist þess að þeirri áætlun sé breytt.
Aðferð B
Eigið fé greiðslustofnunar skal nema a.m.k. samtölu eftirfarandi liða margfaldaðri með kvarðastuðlinum k, sem skilgreindur er í 2. mgr., ef greiðslumagnið (GM) er einn tólfti af heildarfjárhæð greiðslna sem greiðslustofnunin framkvæmdi á fyrra ári.
a)    4,0% af þeim hluta sem um ræðir af GM allt að 5 milljónum evra,
    plús
b)    2,5% af þeim hluta sem um ræðir af GM yfir 5 milljónum evra allt að 10 milljónum evra,
    plús
c)    1% af þeim hluta sem um ræðir af GM yfir 10 milljónum evra allt að 100 milljónum evra,
    plús
d)    0,5% af þeim hluta sem um ræðir af GM yfir 100 milljónum evra allt að 250 milljónum evra,
    plús
e)    0,25% af þeim hluta sem um ræðir af GM yfir 250 milljónum evra,
Aðferð C
Fjárhæð eigin fjár greiðslustofnunar skal vera a.m.k. viðeigandi vísir sem skilgreindur er í a-lið, margfölduðum með margfeldisstuðlinum sem skilgreindur er í b-lið og með kvarðastuðlinum k sem skilgreindur er í 2. mgr.
a)    Viðeigandi vísir er samtala eftirfarandi liða:
    –    vaxtatekna,
    –    vaxtakostnaðar,
    –    fenginna umboðslauna og þóknana og
    –    annarra rekstrartekna.
Hver liður skal tekinn með í samtöluna með plús- eða mínusmerki. Ekki má nota óreglulega tekjuliði í útreikningi á viðkomandi vísi. Útgjöld vegna útvistunar á þjónustu hjá þriðja aðila geta lækkað viðkomandi vísi ef félagið, sem stofnar til útgjaldanna, er háð eftirliti samkvæmt þessari tilskipun. Viðkomandi vísir er reiknaður á grundvelli tólf mánaða mælingar við lok fyrra fjárhagsárs. Viðkomandi vísir skal reiknaður fyrir fyrra fjárhagsár. Eigi að síður skal eigið fé, sem reiknað er í samræmi við aðferð C, ekki vera undir 80% af meðaltali þriggja undanfarinna fjárhagsára fyrir viðkomandi vísi. Ef endurskoðaðar tölur liggja ekki fyrir má nota mat greiðslustofnunarinnar.
b)    Margföldunarstuðullinn skal vera:
    i.    10% af þeim hluta, sem um ræðir, af viðkomandi vísi allt að 2,5 milljónum evra,
    ii.    8% af þeim hluta sem um ræðir af viðkomandi vísi frá 2,5 milljónum evra allt að 5 milljónum evra,
    iii.    6% af þeim hluta sem um ræðir af viðkomandi vísi frá 5 milljónum evra allt að 25 milljónum evra,
    iv.    3% af þeim hluta sem um ræðir af viðkomandi vísi frá 25 milljónum evra allt að 50 milljónum evra,
    v.    1,5% yfir 50 milljónum evra.
2.     Kvarðastuðullinn k, sem á að nota í aðferð B og C, skal vera:
a)    0,5 ef greiðslustofnunin veitir aðeins þá greiðsluþjónustu sem tilgreind er í 6. lið í viðaukanum,
b)    0,8 ef greiðslustofnunin veitir þá greiðsluþjónustu sem tilgreind er í 7. lið í viðaukanum,
c)    1 ef greiðslustofnunin veitir einhverja þá greiðsluþjónustu sem tilgreind er í 1.–5. lið í viðaukanum,
3.     Lögbær yfirvöld geta á grundvelli mats á áhættustýringarferlum, áhættutapsferlum, áhættugagnagrunns og innri eftirlitskerfum greiðslustofnunarinnar gert kröfu um að eigið fé greiðslustofnunar sé allt að 20% hærra en fjárhæðin sem gæti leitt af beitingu aðferðarinnar sem er valin í samræmi við 1. mgr., eða heimilað greiðslustofnun að fjárhæð eigin fjár sé allt að 20% lægri en fjárhæðin sem leiddi af beitingu þeirra aðferðar sem valin er í samræmi við 1. mgr..

9. gr.
Kröfur um vernd

1.     Aðildarríkin eða lögbær yfirvöld skulu gera kröfu um að greiðslustofnun, sem veitir einhverja þá greiðsluþjónustu, sem tilgreind er í viðaukanum og er jafnframt aðili að annarri starfsemi, sem um getur í c-lið 1. mgr. 16. gr., verndi þá fjármuni sem hún hefur tekið við frá notendum greiðsluþjónustu eða frá annarri greiðslumiðlun vegna framkvæmdar greiðslu, á eftirfarandi hátt:
annaðhvort:
a)    skal aldrei blanda þeim saman við fjármuni annarra einstaklinga eða lögaðila en notenda greiðsluþjónustu, sem fjármunirnir koma frá, og skulu þeir, ef greiðslustofnunin hefur þá enn í vörslum sínum og viðtakandi greiðslu hefur ekki enn fengið þá greidda eða þeir verið yfirfærðir til annarrar greiðslumiðlunar við lok næstkomandi virks dags eftir viðtöku fjármunanna, lagðir inn á sérstakan reikning í lánastofnun eða festir í tryggu lausafé með lítilli áhættu, eins og lögbær yfirvöld heimaaðildarríkisins skilgreina það, og
b)    þeir skulu, í samræmi við lög viðkomandi lands og í þágu notenda greiðsluþjónustu, varðir gegn kröfum annarra lánardrottna greiðslustofnunarinnar, einkum þegar um er að ræða ógjaldfærni,
    eða
c)    þeir skulu tryggðir samkvæmt vátryggingarsamningi, eða einhverri sambærilegri ábyrgð vátryggingafélags eða lánastofnunar, sem tilheyra ekki sömu samstæðu og greiðslustofnunin, að fjárhæð, sem er jafnvirði þeirrar sem væri haldið aðgreindri ef ekki væri um að ræða vátryggingarsamning eða sambærilega ábyrgð, sem greiðist ef greiðslustofnunin er ófær um að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar.
2.     Ef gerð er krafa um að greiðslustofnun verndi fjármuni skv. 1. mgr. og hluta þeirra fjármuna skuli nota í framtíðargreiðslur og eftirstandandi fjárhæð skuli nota í þjónustu sem er ekki greiðsluþjónusta skal sá hluti fjármunanna sem nota skal til greiðslna í framtíðinni einnig falla undir kröfurnar skv. 1. mgr. Ef sá hluti er breytilegur eða ekki er vitað hver hann er fyrir fram geta aðildarríkin leyft greiðslustofnunum að beita þessari málsgrein á grundvelli dæmigerðs hlutar, sem talið er að verði notaður til greiðsluþjónustu, að því tilskildu að lögbær yfirvöld telji víst að unnt sé að meta þess háttar dæmigerðan hlut með góðu móti út frá eldri gögnum.
3.     Aðildarríkin eða lögbær yfirvöld geta krafist þess að greiðslustofnanir, sem reka ekki aðra starfsemi, s.s. um getur í c-lið 1. mgr. 16 gr., skuli einnig fara að kröfum um vernd skv. 1. mgr. þessarar greinar.
4.     Aðildarríkin eða lögbær yfirvöld geta einnig takmarkað slíkar kröfur við vernd á fjármunum þeirra notenda greiðsluþjónustu ef fjármunir hvers um sig fara yfir viðmiðunarfjárhæð sem er 600 evrur.

10. gr.
Veiting starfsleyfis

1.     Aðildarríki skulu gera kröfu um að fyrirtæki, sem ekki eru tilgreind í a- til c-lið og e- og f-lið 1. mgr. 1. gr. og aðrir en lögaðilar eða einstaklingar, sem njóta undanþágu skv. 26. gr. og hyggjast veita greiðsluþjónustu, afli sér starfsleyfis sem greiðslustofnun áður en greiðsluþjónusta hefst. Starfsleyfi skal aðeins veitt lögaðila með staðfestu í aðildarríki.
2.     Starfsleyfi skal veitt ef upplýsingar og gögn, sem fylgja umsókn, standast allar kröfur skv. 5. gr. og ef heildarmat lögbærra yfirvalda, sem hafa grandskoðað umsóknina, er jákvætt. Áður en starfsleyfi er veitt geta lögbær yfirvöld, ef við á, leita ráðgjafar seðlabanka í viðkomandi aðildarríki eða annarrar viðeigandi opinberra yfirvalda.
3.     Greiðslustofnun, sem samkvæmt landslögum heimaaðildarríkis síns er skylt að hafa skráða skrifstofu, skal hafa aðalskrifstofu sína í sama aðildarríki og skráð skrifstofa hennar er.
4.     Lögbær yfirvöld skulu aðeins veita starfsleyfi ef, að teknu tilliti til þarfarinnar á að tryggja trausta og varfærna stjórnun greiðslustofnunar, fyrirkomulag stjórnunarhátta í rekstri greiðsluþjónustu greiðslustofnunarinnar er traust, þ.m.t. skýrt stjórnskipulag með vel skilgreindri, gagnsærri og samræmdri skiptingu ábyrgðar, skilvirkar verklagsreglur til að greina, stjórna, hafa eftirlit með og tilkynna um áhættu, sem greiðslustofnunin er eða kann að vera óvarin fyrir, og fullnægjandi innri eftirlitskerfi, þ.m.t. traustar stjórnunar- og reikningsskilaaðferðir, og skal fyrirkomulag, verklagsreglur og vinnslukerfi vera tæmandi og í hlutfalli við eðli, umfang og flókna framkvæmd greiðsluþjónustunnar sem greiðslustofnunin annast.
5.     Ef greiðslustofnun veitir einhverja þá greiðsluþjónustu sem tilgreind er í viðaukanum og annast jafnframt aðra starfsemi geta lögbær yfirvöld gert kröfu um stofnun sérstakrar einingar fyrir rekstur greiðsluþjónustunnar ef sú starfsemi greiðslustofnunarinnar sem er ekki greiðsluþjónusta rýrir, eða líkur eru á að hún rýri trausta fjárhagsstöðu greiðslustofnunarinnar, eða getu lögbærra yfirvalda til að hafa eftirlit með því hvort greiðslustofnunin uppfylli allar þær skyldur sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun.
6.     Lögbær yfirvöld skulu synja um veitingu starfsleyfis ef þau telja hluthafa eða aðila með virka eignarhlutdeild ekki hæfa með hliðsjón af því að nauðsynlegt er að tryggja trausta og varfærna stjórnun greiðslustofnunar.
7.     Ef náin tengsl, eins og þau eru skilgreind í 46. mgr. 4. gr. tilskipunar 2006/48/EB, eru fyrir hendi milli greiðslustofnunar og annarra einstaklinga eða lögaðila skulu lögbær yfirvöld einungis veita starfsleyfi ef sýnt er að þessi tengsl koma ekki í veg fyrir að þau sinni eftirlitshlutverki sínu sem skyldi.
8.     Lögbær yfirvöld skulu aðeins veita starfsleyfi ef lög og stjórnsýslufyrirmæli þriðja lands, sem gilda um einn eða fleiri einstaklinga eða lögaðila, sem greiðslustofnunin hefur náin tengsl við, eða vandkvæði tengd framkvæmd þeirra koma ekki í veg fyrir að þau geti annast eftirlitshlutverk sitt sem skyldi.
9.     Starfsleyfi skal gilda í öllum aðildarríkjunum og skal gera viðkomandi greiðslustofnun kleift að veita greiðsluþjónustu í öllu Bandalaginu, annaðhvort samkvæmt frelsi til að veita þjónustu eða samkvæmt staðfesturétti, að því tilskildu að þess háttar þjónusta falli undir starfsleyfið.

11. gr.
Tilkynning um ákvörðun

Lögbær yfirvöld skulu tilkynna umsækjanda hvort starfsleyfi hafi verið veitt eða umsókn um það synjað innan þriggja mánaða frá viðtöku umsóknar eða, ef umsókninni er ábótavant, frá því allar upplýsingar, sem krafist er vegna ákvörðunarinnar, hafa borist. Ef synjað er um leyfi skal tilgreina ástæður.

12. gr.
Afturköllun starfsleyfis

1.     Lögbærum yfirvöldum er heimilt að afturkalla starfsleyfi, sem greiðslustofnun hefur verið veitt, ef stofnunin:
a)    nýtir ekki starfsleyfið innan tólf mánaða, afsalar sér skýlaust leyfinu eða hættir starfsemi í meira en sex mánuði, hafi hlutaðeigandi aðildarríki ekki gert ráð fyrir að leyfi falli úr gildi í slíkum tilvikum,
b)    hefur fengið starfsleyfi á grundvelli falsaðra yfirlýsinga eða á annan óeðlilegan hátt,
c)    uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis,
d)    myndi ógna stöðuleika greiðslukerfisins með áframhaldandi rekstri greiðsluþjónustunnar eða
e)    fellur undir annað ákvæði í landslögum sem kveður á um afturköllun starfsleyfis.
2.     Tilgreina skal ástæður fyrir afturköllun starfsleyfis og hlutaðeigandi aðilum skal gerð grein fyrir þeim,
3.     Afturköllun starfsleyfis skal birt opinberlega.

13. gr.
Skráning

Aðildarríki skulu koma á fót opinberri skrá yfir þær greiðslustofnanir sem hafa starfsleyfi, umboðsaðila þeirra og útibú, sem og einstaklinga og lögaðila, umboðsaðila þeirra og útibú, sem njóta undanþágu skv. 26. gr., og stofnanir, sem um getur í 3. mgr. 2. gr., sem hafa rétt samkvæmt landslögum til að veita greiðsluþjónustu. Þær skulu færðar í skrá sem er í heimaaðildarríki þeirra.
Í þeirri skrá skal koma fram hvers konar greiðsluþjónustu greiðslustofnunin hefur starfsleyfi fyrir eða einstaklingurinn eða lögaðilinn hefur verið skráður fyrir. Í skránni skulu færslur um greiðslustofnanir með starfsleyfi aðgreindar frá einstaklingum og lögaðilum sem hafa verið skráðir í samræmi við 26. gr. Almenningur skal hafa aðgang að skránni, hún skal vera aðgengileg á Netinu og uppfærð reglulega.

14. gr.
Viðhald starfsleyfis

Ef breytingar hafa áhrif á nákvæmni upplýsinga og gagna, sem lögð eru fram í samræmi við 5. gr., skal greiðslustofnun án ástæðulausrar tafar tilkynna lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkis síns um það.

15. gr.
Reikningsskil og lögboðin endurskoðun

1.     Tilskipun 78/660/EBE og, eftir því sem við á, tilskipun 83/349/EBE, 86/635/EBE og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) 1606/2002 frá 19. júlí 2002 um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla ( 1 ) gilda um greiðslustofnanir, að breyttu breytanda.
2.     Löggiltir endurskoðendur eða endurskoðunarfyrirtæki, í skilningi tilskipunar 2006/43/EB, skulu endurskoða ársreikninga og samstæðureikningsskil greiðslustofnana nema þær séu undanþegnar því samkvæmt tilskipun 78/660/EBE og, eftir því sem við á, tilskipunum 83/349/EBE og 86/635/EBE.
3.     Aðildarríkin skulu vegna eftirlits gera kröfu um að greiðslustofnanir leggi fram aðskilin reikningsskil fyrir greiðsluþjónustuna, sem tilgreind er í viðaukanum, og þá starfsemi sem um getur í 1. mgr. 16. gr. og skal krafist áritunar endurskoðanda á þau. Áritunina annast löggiltir endurskoðendur eða endurskoðunarfyrirtæki, eftir því sem við á.
4.     Skuldbindingarnar í 53. gr. tilskipunar 2006/48/ EB, skulu, að breyttu breytanda, gilda um löggilta endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki greiðslustofnana að því er varðar greiðsluþjónustustarfsemi.

16. gr.
Starfsemi

1.     Að frátöldu ákvæðinu um þá greiðsluþjónustu sem tilgreind er í viðaukanum er greiðslustofnunum heimilt að annast eftirfarandi starfsemi:
a)    rekstur og nátengda stoðþjónustu, s.s. að tryggja framkvæmd greiðslna, gjaldeyrisskipti, fjárvörslu og varðveislu og úrvinnslu gagna,
b)    rekstur greiðslukerfa, sbr. þó 28. gr.,
c)    aðra starfsemi en veitingu greiðsluþjónustu, með hliðsjón af gildandi lögum Bandalagsins og landslögum einstakra aðildarríkja.
2.     Þegar greiðslustofnanir annast eina gerð greiðsluþjónustu eða fleiri, af þeim sem tilgreindar eru í viðaukanum, mega þær hafa greiðslureikninga sem notaðir eru einvörðungu vegna greiðslna. Allir fjármunir, sem greiðslustofnanir taka við frá notendum greiðsluþjónustu með það í huga að veita greiðsluþjónustu, skulu hvorki teljast innlán né aðrir endurgreiðanlegir fjármunir í skilningi 5. gr. tilskipunar 2006/48/EB eða rafeyrir í skilningi 3. mgr. 1. gr. tilskipunar 2000/46/EB.
3.     Greiðslustofnanir mega aðeins veita lán í tengslum þá greiðsluþjónustu sem um getur í 4., 5. eða 7. lið í viðaukanum ef eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
a)    lánið skal vera hliðarstarfsemi og einungis veitt í tengslum við framkvæmd greiðslu,
b)    þrátt fyrir reglur í hverju aðildarríki fyrir sig um lánveitingar með kreditkortum skal lánið, sem veitt er í tengslum við greiðsluna og gengið er frá í samræmi við 9. mgr. 10. gr. og 25. gr., endurgreiðast innan skamms tíma sem skal ekki undir neinum kringumstæðum vera lengri en tólf mánuðir,
c)    þess háttar lán skal ekki veitt af þeim fjármunum sem tekið er við eða sem eru geymdir í þeim tilgangi að framkvæma greiðslur og
d)    eigið fé greiðslustofnunar skal ávallt og að mati eftirlitsyfirvalda vera viðeigandi með tilliti til heildarfjárhæðar lána sem veitt eru.
4.     Greiðslustofnanir skulu ekki annast innlánsstarfsemi eða taka við öðru fé til endurgreiðslu í skilningi 5. gr. tilskipunar 2006/48/EB.
5.     Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á ráðstafanir í hverju aðildarríki fyrir sig við framkvæmd tilskipunar 87/102/EBE. Þessi tilskipun hefur heldur ekki áhrif á aðra viðeigandi löggjöf Bandalagsins eða landslög einstakra aðildarríkja, að því er varðar skilyrði fyrir lánveitingu til neytenda, sem eru ekki samræmd með þessari tilskipum en samrýmast lögum Bandalagsins.

2. þáttur
Aðrar kröfur
17. gr.
Notkun umboðsaðila, útibúa eða eininga sem starfsemi hefur verið útvistuð hjá

1.     Þegar greiðslustofnun hyggst veita greiðsluþjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila skal hún senda lögbærum yfirvöldum í heimaaðildarríki sínu eftirfarandi upplýsingar:
a)    nafn og heimilisfang umboðsaðilans,
b)    lýsingu á innri eftirlitskerfum sem umboðsaðilar nota til að uppfylla skyldur í tengslum við peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverkastarfsemi samkvæmt tilskipun 2005/60/EB og
c)    deili á stjórnendum og þeim aðilum sem bera ábyrgð á stjórn umboðsaðilans, sem nota á við greiðsluþjónustu, og gögn um að þeir séu til þess hæfir.
2.     Þegar lögbær yfirvöld fá upplýsingar í samræmi við 1. mgr. geta þau skráð umboðsaðilann í skrána sem kveðið er á um í 13. gr.
3.     Áður en umboðsaðilinn er færður inn í skrána geta lögbær yfirvöld, ef þau telja að upplýsingarnar, sem þeim voru veittar, séu ekki réttar, gripið til frekari aðgerða til að sannreyna þær.
4.     Ef lögbær yfirvöld eru, eftir að hafa gripið til aðgerða til að sannreyna upplýsingarnar, ekki fullviss um að upplýsingarnar, sem þeim voru veittar skv. 1. mgr., séu réttar, skulu þau synja um færslu umboðsaðilans í skrána sem kveðið er á um í 13. gr.
5.     Ef greiðslustofnun óskar eftir að veita greiðsluþjónustu í öðru aðildarríki með því að ráða umboðsaðila skal hún fylgja málsmeðferðinni sem sett er fram í 25. gr. Í því tilviki skulu lögbær yfirvöld heimaaðildarríkisins, áður en skrá má umboðsaðilann samkvæmt þessari grein, tilkynna lögbærum yfirvöldum gistiaðildarríkisins um fyrirætlun sína að skrá umboðsaðilann og taka tillit til álits þeirra.
6.     Ef lögbær yfirvöld gistiaðildarríkisins hafa gilda ástæðu til að gruna, í tengslum við fyrirhugaða ráðningu umboðsaðila eða stofnun útibús, að peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverkastarfsemi í skilningi tilskipunar 2005/60/EB eigi sér stað, hafi átt sér stað eða sé í undirbúningi eða að ráðning umboðsaðilans eða stofnun útibúsins gæti aukið hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverkastarfsemi, skulu þau tilkynna það lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkisins sem geta synjað um að færa umboðsaðilann eða útibúið inn í skrána eða afturkallað skráningu umboðsaðila eða útibús hafi hún þegar farið fram.
7.     Ef greiðslustofnun hyggst útvista rekstrarþætti greiðsluþjónustu skal hún tilkynna lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkis síns til samræmis við það.
Útvistun mikilvægra rekstrarþátta má ekki fara þannig fram að hún rýri umtalsvert gæði innra eftirlits greiðslustofnunar og getu lögbærra yfirvalda til að hafa eftirlit með því að greiðslustofnunin uppfylli allar þær skyldur sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun.
Í skilningi annarrar undirgreinar skal rekstrarþáttur teljast mikilvægur ef ágalli eða misbrestur í framkvæmd hans rýrir umtalsvert getu greiðslustofnunar til að uppfylla áfram þær kröfur sem liggja til grundvallar starfsleyfinu, sem hún óskaði eftir samkvæmt þessum hluta, eða aðrar skyldur hennar samkvæmt þessari tilskipun, fjárhagslegan árangur hennar eða styrkleika eða samfelldni greiðsluþjónustu hennar. Aðildarríkin skulu sjá til þess, þegar greiðslustofnanir útvista mikilvæga rekstrarþætti, að þær fari að eftirfarandi skilyrðum:
a)    útvistunin skal ekki leiða til þess að ábyrgð æðri stjórnar verði falin öðrum,
b)    sambandi og skyldum greiðslustofnunar gagnvart notendum greiðsluþjónustu samkvæmt þessari tilskipun skal ekki breytt,
c)    ekki skal grafið undan skilyrðunum, sem greiðslustofnun skal fara að til að fá starfsleyfi og halda því í samræmi við þennan hluta, og
d)    ekki skal fella brott eða breyta neinu af öðrum skilyrðum sem liggja til grundvallar starfsleyfi greiðslustofnunar.
8.     Greiðslustofnanir skulu sjá til þess að umboðsaðilar eða útibú, sem starfa á þeirra vegum, tilkynni notendum greiðsluþjónustu um þetta.

18. gr.
Bótaábyrgð

1.     Aðildarríki skulu sjá til þess að þær greiðslustofnanir sem fela þriðju aðilum að annast rekstrarþætti geri viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að farið sé að kröfum þessar tilskipunar.
2.     Aðildarríki skulu gera kröfu um að greiðslustofnanir beri fulla bótaábyrgð á aðgerðum starfsmanna sinna, umboðsaðila, útibúa eða eininga sem annast útvistaða starfsemi.

19. gr.
Varðveisla skráa

Aðildarríkin skulu gera kröfu um að greiðslustofnanir varðveiti allar viðeigandi skrár að því er varðar þennan hluta tilskipunarinnar í a.m.k. fimm ár, sbr. þó tilskipun 2005/60/EB eða aðra viðeigandi löggjöf Bandalagsins eða einstakra aðildarríkja.

3. þáttur
Lögbær yfirvöld og eftirlit
20. gr.
Tilnefning lögbærra yfirvalda

1.     Aðildarríkin skulu tilnefna sem lögbær yfirvöld, sem bera ábyrgð á veitingu starfsleyfa til og varfærniseftirliti með greiðslustofnunum, sem framkvæma skulu þau verkefni sem kveðið er á um í þessum hluta, annaðhvort stjórnvöld eða aðila sem eru viðurkenndir í landslögum eða af þeim stjórnvöldum sem hafa til þess skýra heimild samkvæmt landslögum, þ.m.t. seðlabankar einstakra aðildarríkja.
Lögbær yfirvöld skulu ábyrgjast að þau séu óháð aðilum í efnahagslífinu og skulu forðast hagsmunaárekstra. Með fyrirvara um fyrsta undirlið skulu greiðslustofnanir, lánastofnanir, rafeyrisstofnanir eða póstgíróstofnanir ekki tilnefndar sem lögbær yfirvöld.
Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni til samræmis við það.
2.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að lögbær yfirvöld, sem tilnefnd eru skv. 1. mgr., hafi allar þær heimildir sem nauðsynlegar eru til að sinna skyldum sínum.
3.     Ef um er að ræða fleiri en eitt lögbært yfirvald á yfirráðasvæði aðildarríkja að því er varðar mál, sem fjallað er um í þessum hluta, skulu aðildarríkin sjá til þess að þau yfirvöld starfi náið saman svo að þau geti leyst skyldur sínar af hendi með skilvirkum hætti. Hið sama á við um þau tilvik þegar yfirvöld, sem eru lögbær um mál, sem fjallað er um í þessum hluta, eru ekki þau lögbæru yfirvöld sem bera ábyrgð á eftirliti með lánastofnunum.
4.     Lögbær yfirvöld í heimaaðildarríkinu bera ábyrgð á þeim verkefnum sem lögbær yfirvöld, sem tilnefnd eru skv. 1. mgr., annast.
5.     Í 1. mgr. felst ekki að gerð sé krafa um að lögbær yfirvöld hafi eftirlit með annarri starfsemi greiðslustofnunar en þeirri greiðsluþjónustu sem tilgreind er í viðaukanum og starfsemi sem tilgreind er í a-lið 1. mgr. 16. gr.

21. gr.
Eftirlit

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að í eftirliti lögbærra yfirvalda með því að ætíð sé farið að þeim ákvæðum, sem fjallað er um í þessum hluta, sé ætíð gætt meðalhófs, það sé fullnægjandi og taki mið af þeirri áhættu sem greiðslustofnanir eru óvarðar fyrir. Til að kanna hvort farið er að ákvæðunum í þessum hluta skulu lögbær yfirvöld eiga rétt á að gera eftirfarandi ráðstafanir:
a)    að krefjast þess að greiðslustofnunin leggi fram þær upplýsingar sem þarf til að unnt sé að hafa eftirlit með því að reglum sé fylgt,
b)    að framkvæma skoðun á staðnum þar sem greiðslustofnunin, umboðsaðili eða útibú er til húsa og veitt er greiðsluþjónusta, sem greiðslustofnunin ber ábyrgð á, eða þar sem eining, sem starfsemin er útvistuð hjá, er til húsa,
c)    að gefa út tilmæli, leiðbeiningar og, ef við á, bindandi stjórnsýslufyrirmæli og
d)    að svipta greiðslustofnun tímabundið starfsleyfi eða afturkalla það í þeim tilvikum sem um getur í 12. gr.
2.     Með fyrirvara um málsmeðferð við afturköllun starfsleyfa og ákvæði hegningarlaga skulu aðildarríkin kveða á um að viðkomandi lögbær yfirvöld þeirra geti, þegar um er að ræða að greiðslustofnanir eða þeir sem í reynd hafa eftirlit með rekstri greiðslustofnana hafi gerst brotlegir við lög eða stjórnsýslufyrirmæli um eftirlit eða rekstur greiðsluþjónustufyrirtækis síns, samþykkt eða lagt á, að því er þá varðar, refsingar eða gert aðrar ráðstafanir sem hafa það skýra markmið að binda enda á brot, sem verður vart við, eða uppræta orsakir þess háttar brota.
3.     Þrátt fyrir kröfur 6. gr., 1. og 2. mgr. 7. gr. og 8. gr. skulu aðildarríkin sjá til þess að lögbær yfirvöld eigi rétt á að grípa til þeirra ráðstafana sem lýst er í 1. mgr. þessarar greinar til að tryggja nægilegt eigið fé til greiðsluþjónustu, einkum ef sú starfsemi greiðslustofnunar sem er ekki greiðsluþjónusta rýrir eða er líkleg til að rýra trausta fjárhagsstöðu greiðslustofnunarinnar.

22. gr.
Þagnarskylda

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að allir einstaklingar, sem starfa eða hafa starfað fyrir lögbær yfirvöld, sem og sérfræðingar sem starfa fyrir hönd lögbærra yfirvalda, séu bundnir þagnarskyldu, sbr. þó tilvik sem falla undir ákvæði hegningarlaga.
2.     Í upplýsingaskiptum skal þagnarskyldu stranglega beitt í samræmi við 24. gr. til að tryggja vernd einstaklinga og viðskiptaréttinda.
3.     Aðildarríki geta beitt þessari grein að teknu tilliti til, að breyttu breytanda, 44.–52. gr. tilskipunar 2006/48/EB.

23. gr.
Réttur til að áfrýja til dómstóla

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að unnt sé að vefengja fyrir dómstólum ákvarðanir sem lögbær yfirvöld taka að því er varðar greiðslustofnun samkvæmt lögum og stjórnsýslufyrirmælum sem samþykkt eru í samræmi við þessa tilskipun.
2.     Ákvæði 1. mgr. gilda einnig þegar um er að ræða athafnaleysi.

24. gr.
Upplýsingaskipti

1.     Lögbær yfirvöld aðildarríkjanna skulu starfa saman ásamt, eftir því sem við á, Evrópska seðlabankanum og seðlabönkum aðildarríkjanna og öðrum hlutaðeigandi, lögbærum yfirvöldum sem tilnefnd eru samkvæmt lögum Bandalagsins eða landslögum einstakra aðildarríkja sem gilda um greiðslumiðlanir.
2.     Aðildarríki skulu auk þess heimila upplýsingaskipti milli lögbærra yfirvalda sinna og eftirfarandi aðila:
a)    lögbærra yfirvalda annarra aðildarríkja sem ábyrgð bera á veitingu starfsleyfa og eftirliti með greiðslustofnunum,
b)    Seðlabanka Evrópu og seðlabanka aðildarríkjanna, samkvæmt opinberu umboði sem peningamála- og eftirlitsyfirvöld, og, ef við á, annarra opinberra yfirvalda sem eru ábyrg fyrir eftirliti með greiðslu- og uppgjörskerfum,
c)    annarra viðkomandi yfirvalda, sem tilnefnd eru samkvæmt þessari tilskipun, tilskipun 95/46/EB, tilskipun 2005/60/EB og annarri löggjöf Bandalagsins sem gildir um greiðslumiðlanir, s.s. löggjöf um vernd einstaklinga að því er varðar vinnslu persónuupplýsinga ásamt peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverkastarfsemi.

25. gr.
Neyting staðfesturéttar og nýting frelsis til að veita þjónustu

1.     Greiðslustofnun með starfsleyfi, sem óskar eftir að veita greiðsluþjónustu í öðru aðildarríki en heimaaðildarríki sínu í fyrsta sinn og neytir staðfesturéttar síns eða nýtir sér frelsi til að veita þjónustu, skal tilkynna lögbærum yfirvöldum í heimaaðildarríki sínu um það.
Innan mánaðar frá viðtöku þessara upplýsinga skulu lögbær yfirvöld heimaaðildarríkisins veita lögbærum yfirvöldum gistiaðildarríkisins upplýsingar um heiti og heimilisfang greiðslustofnunarinnar, nöfn þeirra sem eru ábyrgir fyrir stjórn útibúsins, stjórnskipulag þess og hvers konar greiðsluþjónustu greiðslustofnunin hyggst veita á yfirráðasvæði gistiaðildarríkisins.
2.     Til að lögbær yfirvöld heimaaðildarríkisins geti annast framkvæmd eftirlits og gert þær nauðsynlegu ráðstafanir sem kveðið er á um í 21. gr. að því er varðar umboðsaðila, útibú eða einingu, sem greiðslustofnun, sem staðsett er á yfirráðasvæði annars aðildarríkis, útvistar starfsemi sína hjá, skulu þau hafa samstarf við lögbær yfirvöld gistiaðildarríkisins.
3.     Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkisins skulu, innan ramma samstarfsins í samræmi við 1. og 2. mgr., tilkynna lögbærum yfirvöldum gistiaðildarríkisins þegar þau hyggjast framkvæma skoðun á staðnum á yfirráðasvæði hins síðarnefnda.
Óski lögbær yfirvöld heimaaðildarríkisins á hinn bóginn eftir því mega þau fela lögbærum yfirvöldum gistiaðildarríkisins framkvæmd skoðunar á staðnum hjá viðkomandi stofnun.
4.     Lögbær yfirvöld skulu veita hver öðrum allar brýnustu og/eða viðeigandi upplýsingar, einkum þegar um er að ræða brot eða grun um brot umboðsmanns, útibús eða einingar sem starfsemi er útvistuð hjá. Að því er þetta varðar skulu lögbæru yfirvöldin senda allar upplýsingar sem málið varðar ef óskað er eftir því og allar mikilvægar upplýsingar að eigin frumkvæði.
5.     Ákvæði 1. til 4. mgr. skulu vera með fyrirvara um þá skyldu lögbærra yfirvalda samkvæmt tilskipun 2005/60/EB og reglugerð (EB) nr. 1781/2006, einkum 1. mgr. 37. gr. tilskipunar 2005/60/EB og 3. mgr. 15. gr. reglugerðar (EB) nr. 1781/2006, að hafa eftirlit með eða vakta að farið sé að kröfunum sem mælt er fyrir um í fyrrnefndri tilskipun og reglugerð.

4. þáttur
Undanþágur
26. gr.
Skilyrði

1.     Þrátt fyrir 13. gr. geta aðildarríki veitt undanþágu eða heimilað lögbærum yfirvöldum sínum að veita undanþágur frá málsmeðferð og skilyrðum, sem sett eru fram í 1. til 3. þætti, að öllu leyti eða að hluta til, að undanskilinni 20., 22., 23. og 24. gr., og heimilað að einstaklingar eða lögaðilar séu færðir inn í skrána, sem kveðið er á um í 13. gr., ef:
a)    meðaltal heildarfjárhæðar greiðslna næstliðinna tólf mánaða á undan sem viðkomandi aðili hefur framkvæmt, þ.m.t. umboðsaðilar, sem hann tekur fulla ábyrgð á, er ekki hærra en þrjár milljónir evra á mánuði. Þessi krafa skal metin á grundvelli áætlaðrar heildarfjárhæðar greiðslna í viðskiptaáætlun hans nema lögbært yfirvald krefjist leiðréttingar á þeirri áætlun og
b)    enginn þeirra einstaklinga, sem ábyrgir eru fyrir stjórn eða rekstri fyrirtækisins, hefur verið dæmdur fyrir brot sem tengjast peningaþvætti, fjármögnun hryðjuverkastarfsemi eða öðrum fjármálaglæpum.
2.     Gera skal kröfu um að einstaklingur eða lögaðili, sem skráður er í samræmi við 1. mgr., hafi aðalskrifstofu eða aðsetur í aðildarríkinu þar sem reksturinn fer í reynd fram.
3.     Farið skal með aðila, sem um getur í 1. mgr., sem greiðslustofnanir, en 9. mgr. 10. gr. og 25. gr. gildir þó ekki um þá.
4.     Aðildarríki geta einnig kveðið á um að einstaklingur eða lögaðili, sem skráður er í samræmi við 1. mgr., geti aðeins tekið þátt í hluta þeirrar starfsemi sem tilgreind er í 16. gr.
5. Aðilar, sem um getur í 1. mgr., skulu tilkynna lögbærum yfirvöldum um allar breytingar á stöðu sinni sem skipta máli að því er varðar þau skilyrði sem tilgreind eru í þeirri málsgrein. Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að viðkomandi aðilar sæki um starfsleyfi innan 30 almanaksdaga í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 10. gr. ef skilyrðin, sem sett eru fram í 1., 2. og 4. mgr., eru ekki lengur uppfyllt.
6.     Ekki skal beita þessari grein í tengslum við ákvæði tilskipunar 2005/60/EB eða ákvæði í hverju aðildarríki fyrir sig gegn peningaþvætti.

27. gr.
Tilkynningar og upplýsingar

Ef aðildarríki nýtir sér undanþáguna, sem kveðið er á um í 26. gr., skal það tilkynna framkvæmdastjórninni um það eigi síðar en 1. nóvember 2009 og skal það tilkynna framkvæmdastjórninni tafarlaust um allar breytingar sem síðar verða. Auk þess skal aðildarríkið tilkynna framkvæmdastjórninni um fjölda viðkomandi einstaklinga eða lögaðila og, á ársgrundvelli, um heildarfjárhæð greiðslna sem framkvæmdar hafa verið til og með 31. desember á hverju almannaksári eins og um getur í a-lið 1. mgr. 26. gr.

2. KAFLI
Sameiginleg ákvæði
28. gr.
Aðgangur að greiðslukerfi

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að reglur um aðgang greiðslumiðlana, sem eru með starfsleyfi eða skráðar og eru lögaðilar, að greiðslukerfum séu hlutlægar, án mismununar og gætt sé meðalhófs og að reglurnar hamli ekki aðgangi meira en nauðsynlegt er til verndar gegn tiltekinni áhættu, s.s. uppgjörsáhættu, rekstraráhættu eða viðskiptaáhættu, og verja fjárhagslegan og rekstrarlegan stöðugleika greiðslukerfisins.
Í greiðslukerfum skulu ekki gerðar kröfur til greiðslumiðlana, notenda greiðsluþjónustu eða annarra greiðslukerfa um neitt af eftirfarandi:
a)    takmarkandi reglu um virka aðild að öðrum greiðslukerfum,
b)    reglu sem mismunar greiðslumiðlunum, sem eru með starfsleyfi, eða skráðum greiðslumiðlunum, að því er varðar réttindi aðila, skyldur þeirra eða heimildir eða
c)    takmarkanir á grundvelli félagsréttarlegrar stöðu.
2.     Ákvæði 1. mgr. gilda ekki um:
a)    greiðslukerfi sem eru tiltekin í tilskipun 98/26/ EB,
b)    greiðslukerfi sem í eru einungis greiðslumiðlanir sem tilheyra samstæðu sem mynduð er af einingum með innbyrðis eiginfjártengsl ef ein tengdu eininganna hefur virk yfirráð yfir hinum tengdu einingunum eða
c)    greiðslukerfi þar sem eina greiðslumiðlunin (annaðhvort sem stök eining eða sem samstæða):
    –    starfar eða getur starfað sem greiðslumiðlun bæði fyrir greiðanda og viðtakanda greiðslu og er einvörðungu ábyrg fyrir stjórn kerfisins og
    –    veitir öðrum greiðslumiðlunum leyfi til að taka þátt í kerfinu og þær síðarnefndu hafa ekki rétt til að semja um þóknun sín í milli í tengslum við greiðslukerfið þó að þær geti ráðið eigin verðlagningu gagnvart greiðendum og viðtakendum greiðslu.

29. gr.
Bann við því að aðrir aðilar en greiðslumiðlanir veiti greiðsluþjónustu

Aðildarríkin skulu banna einstaklingum eða lögaðilum, sem eru hvorki greiðslumiðlanir né ótvírætt utan gildissviðs þessarar tilskipunar, að veita einhverja þá greiðsluþjónustu sem er tilgreind í viðaukanum.

III. HLUTI
GAGNSÆI SKILMÁLA OG KRÖFUR UM UPPLÝSINGAR SEM GERÐAR ERU TIL GREIÐSLUÞJÓNUSTU
1. KAFLI
Almennar reglur
30. gr.
Gildissvið

1.     Þessi hluti tilskipunarinnar gildir um stakar greiðslur, rammasamninga og greiðslur sem falla undir þá. Aðilar geta samið um að hann skulu ekki gilda í heild eða að hluta til þegar notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi.
2.     Aðildarríkin geta kveðið á um að ákvæðin í þessum hluta gildi um örfyrirtæki á sama hátt og um neytendur.
3.     Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á ráðstafanir í hverju aðildarríki fyrir sig við framkvæmd tilskipunar 87/102/EBE. Þessi tilskipun hefur heldur ekki áhrif á aðra viðeigandi löggjöf Bandalagsins eða landslög einstakra aðildarríkja að því er varðar skilyrði fyrir lánveitingu til neytenda sem er ekki samræmd þessari tilskipum en samrýmist lögum Bandalagsins.

31. gr.
Önnur ákvæði í löggjöf Bandalagsins

Ákvæði þessa hluta hafa ekki áhrif á þá löggjöf Bandalagsins þar sem er að finna viðbótarkröfur við áður veittar upplýsingar.
Þegar tilskipun 2002/65/EB á einnig við skulu þó 36., 37., 41. og 42. gr. þessarar tilskipunar koma í staðinn fyrir kröfur þeirra um upplýsingar sem eru settar fram í 1. mgr. 3. gr. þeirrar tilskipunar, að undanskildum c- til g-lið 2. liðar, a-, d- og e-lið 3. liðar og b-lið 4. liðar þeirrar málsgreinar.

32. gr.
Gjöld fyrir upplýsingar

1.     Greiðslumiðlunin skal ekki krefja notanda greiðsluþjónustu um gjald fyrir að veita upplýsingar samkvæmt þessum hluta.
2.     Greiðslumiðlunin og notandi greiðsluþjónustu geta komið sér saman um gjöld fyrir viðbótarupplýsingar, tíðari upplýsingagjöf eða sendingu upplýsinga eftir öðrum boðleiðum en tilgreindar eru í rammasamningi, sem veittar eru að beiðni notanda greiðsluþjónustunnar.
3.     Leggi greiðslumiðlun á gjöld fyrir upplýsingar í samræmi við 2. mgr. skulu þau vera hófleg og í samræmi við raunverulegan kostnað greiðslumiðlunarinnar.

33. gr.
Sönnunarbyrði að því er varðar kröfur um upplýsingar

Aðildarríkin geta mælt fyrir um að greiðslumiðlun beri sönnunarbyrðina að því er varðar sönnun þess að hún hafi uppfyllt kröfur um upplýsingar sem fram koma í þessum hluta.

34. gr.
Undanþágur frá kröfum um upplýsingar vegna greiðslumiðla og rafeyris með lágum  fjárhæðum

1.     Þegar greiðslumiðlar sem, samkvæmt rammasamningi, snerta einungis stakar greiðslur sem ekki fara yfir 30 evrur eða hafa annaðhvort útgjaldaþak sem nemur 150 evrum eða mega aldrei geyma hærri fjárhæðir en 150 evrur:
a)    skal greiðslumiðlun, þrátt fyrir ákvæði 41., 42. og 46. gr., aðeins veita greiðanda upplýsingar um helstu einkenni greiðsluþjónustunnar, þ.m.t. um notkun greiðslumiðla, bótaábyrgð, gjöld, sem krafist er, og um aðrar viðeigandi upplýsingar, sem þörf er á til að taka upplýsta ákvörðun, ásamt vísbendingu um það hvar öðrum upplýsingum og skilmálum, sem tilgreind eru í 42. gr., er komið á framfæri á auðveldan og aðgengilegan hátt,
b)    er unnt að semja um það, þrátt fyrir ákvæði 44. gr., að greiðslumiðlun beri ekki skylda til að leggja til breytingar á skilmálum rammasamningsins eins og kveðið er á um í 1. mgr. 41. gr.,
c)    má semja um það, þrátt fyrir ákvæði 47. og 48. gr., eftir að greiðslan hefur farið fram:
    i.    að greiðslumiðlunin skuli aðeins veita eða koma á framfæri tilvísunum sem gera notanda greiðsluþjónustu kleift að bera kennsl á greiðsluna, fjárhæð hennar, gjöld, ef einhver eru, og/eða, þegar um er að ræða nokkrar sams konar greiðslur til sama viðtakanda, upplýsingar um heildarfjárhæð og gjöld vegna þessara greiðslna,
    ii.    að ekki skuli gera kröfu um að greiðslumiðlunin veiti eða komi á framfæri þeim upplýsingum sem um getur í i. lið ef notkun greiðslumiðils er með nafnleynd eða ef greiðslumiðlunin er að öðru leyti ekki tæknilega í stakk búin til að veita þær. Á hinn bóginn skal greiðslumiðlunin gefa greiðanda kost á að sannreyna þá fjárhæð sem geymd er.
2.     Að því er varðar innlendar greiðslur einstakra ríkja geta aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra lækkað eða tvöfaldað fjárhæðirnar sem um getur í 1. mgr. Aðildarríkin mega hækka fjárhæðir vegna fyrirframgreiddra greiðslumiðla í allt að 500 evrur.

2. KAFLI
Stakar greiðslur
35. gr.
Gildissvið

1.     Þessi kafli gildir um stakar greiðslur sem falla ekki undir rammasamning.
2.     Þegar greiðslufyrirmæli vegna stakrar greiðslu eru send með greiðslumiðli, sem fellur undir rammasamning, er greiðslumiðlun ekki skuldbundin til að veita eða koma á framfæri upplýsingum sem notandi greiðsluþjónustu hefur þegar fengið á grundvelli rammasamnings við aðra greiðslumiðlun eða sem honum verða veittar í samræmi við þann rammasamning.

36. gr.
Almennar upplýsingar veittar fyrir fram

1.     Aðildarríkin skulu gera kröfu um að greiðslumiðlun skuli, áður en samningur eða tilboð vegna stakra greiðslna verður bindandi fyrir notanda greiðsluþjónustu, koma, á auðveldan og aðgengilegan hátt, þeim upplýsingum og skilmálum, sem tilgreind eru í 37. gr., á framfæri við notanda greiðsluþjónustunnar. Að beiðni notanda greiðsluþjónustu skal greiðslumiðlunin leggja fram upplýsingar og skilmála á pappír eða öðrum varanlegum miðli. Upplýsingarnar og skilmálarnir skulu sett fram í auðskiljanlegum orðum og á skýru og skiljanlegu formi, á opinberu tungumáli aðildarríkisins, þar sem greiðsluþjónustan er veitt, eða á hverju því tungumáli öðru sem aðilar koma sér saman um.
2.     Ef þjónustusamningur um stakar greiðslur hefur verið gerður að beiðni notanda greiðsluþjónustu með tilstyrk fjarskipta og það gerir greiðslumiðluninni ókleift að fara að 1. mgr. skal greiðslumiðlunin uppfylla skyldur sínar samkvæmt þeirri málsgrein þegar í stað eftir að greiðsla hefur verið framkvæmd.
3.     Skyldur skv. 1. mgr. má einnig uppfylla með því að leggja fram afrit af drögum að þjónustusamningi um stakar greiðslur eða drög að greiðslufyrirmælum ásamt upplýsingum og skilmálum sem tilgreind eru í 37. gr.

37. gr.
Upplýsingar og skilmálar

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að eftirfarandi upplýsingar og skilmálar séu lögð fram eða komið á framfæri við notanda greiðsluþjónustu:
a)    lýsing á upplýsingunum eða því sérstaka kennimerki sem notandi greiðsluþjónustu leggur fram til að greiðslufyrirmælin verði framkvæmd á réttan hátt,
b)    hámarkstími, sem framkvæmd greiðsluþjónustunnar má taka,
c)    öll gjöld, sem notandi greiðsluþjónustunnar á að greiða greiðslumiðluninni, og, eftir atvikum, sundurliðun fjárhæða þess háttar gjalda,
d)    eftir atvikum, raunverulegt gengi eða viðmiðunargengi sem gildir fyrir greiðsluna.
2.     Eftir atvikum skal öðrum viðeigandi upplýsingum og skilmálum, sem tilgreind eru í 42. gr., komið á framfæri við notanda greiðsluþjónustunnar á auðveldan og aðgengilegan hátt.

38. gr.
Upplýsingar fyrir greiðanda eftir viðtöku greiðslufyrirmæla

Greiðslumiðlun greiðanda skal þegar í stað eftir viðtöku greiðslufyrirmæla leggja fram eða koma á framfæri við greiðanda upplýsingum um eftirfarandi á þann hátt sem kveðið er á um í 1. mgr. 36. gr.:
a)    tilvísun, sem gerir greiðanda kleift að bera kennsl á greiðsluna og, eftir atvikum, upplýsingar sem varða viðtakanda greiðslu,
b)    fjárhæð greiðslunnar í þeim gjaldmiðli sem notaður er í greiðslufyrirmælunum,
c)    fjárhæð gjalda vegna greiðslunnar, sem greiðandi á að greiða, og, eftir atvikum, sundurliðun fjárhæða þess háttar gjalda,
d)    eftir atvikum, gengið sem greiðslumiðlun greiðanda notar í greiðslunni eða tilvísun í það, þegar um er að ræða annað gengi en það sem kveðið er á um í samræmi við d-lið 1. mgr. 37. gr., og fjárhæð greiðslunnar eftir umreikning þess gjaldmiðils og
e)    dagsetningu viðtöku greiðslufyrirmælanna.

39. gr.
Upplýsingar fyrir viðtakanda greiðslu eftir að greiðsla hefur farið fram

Greiðslumiðlun viðtakanda greiðslu skal þegar í stað eftir að greiðsla hefur farið fram leggja fram eða koma á framfæri við viðtakanda greiðslu upplýsingum um eftirfarandi á þann hátt sem kveðið er á um í 1. mgr. 36. gr.:
a)    tilvísun, sem gerir viðtakanda greiðslu kleift að bera kennsl á greiðsluna, og, eftir því sem við á, greiðanda og þær upplýsingar sem sendar eru með greiðslunni,
b)    fjárhæð greiðslunnar í þeim gjaldmiðli sem fjármunirnir, sem viðtakandi greiðslu fær til ráðstöfunar, eru í,
c)    fjárhæð gjalda vegna greiðslunnar, sem viðtakandi greiðslu á að greiða, og, eftir atvikum, sundurliðun fjárhæðar þess háttar gjalda,
d)    eftir atvikum, gengið sem greiðslumiðlun viðtakanda greiðslu notar í greiðslunni og fjárhæð greiðslunnar áður en umreikningur viðkomandi gjaldmiðils fer fram og
e)    gildisdagur eignfærslu.

3. KAFLI
Rammasamningar
40. gr.

Gildissvið

Þessi kafli gildir um greiðslur sem falla undir rammasamning.

41. gr.
Almennar upplýsingar veittar fyrir fram

1.     Aðildarríkin skulu gera kröfu um að greiðslumiðlun skuli með góðum fyrirvara, áður en rammasamningur eða tilboð verður bindandi fyrir notanda greiðsluþjónustu, leggja fyrir hann á pappír eða öðrum varanlegum miðli upplýsingar og skilmála sem tilgreind eru í 42. gr. Upplýsingarnar og skilmálarnir skulu sett fram í auðskiljanlegum orðum og á skýru og skiljanlegu formi, á opinberu tungumáli aðildarríkisins, þar sem greiðsluþjónustan er veitt, eða á hverju því tungumáli öðru sem aðilar koma sér saman um.
2.     Ef rammasamningurinn hefur verið gerður að beiðni notanda greiðsluþjónustu með tilstyrk fjarskipta og það gerir greiðslumiðluninni ókleift að fara að 1. mgr. skal greiðslumiðlunin uppfylla skyldur sínar samkvæmt þeirri málsgrein þegar í stað eftir að rammasamningurinn hefur verið gerður.
3.     Skyldur skv. 1. mgr. má einnig uppfylla með því að leggja fram afrit af drögum að rammasamningi ásamt upplýsingunum og skilmálunum sem tilgreind eru í 42. gr.

42. gr.
Upplýsingar og skilmálar

Aðildarríkin skulu sjá til þess að notandi greiðsluþjónustu fái í hendur eftirfarandi upplýsingar og skilmála:
1.     um greiðslumiðlunina:
    a)    heiti greiðslumiðlunarinnar, heimilisfang aðalskrifstofu hennar og, eftir atvikum, heimilisfang umboðsaðila hennar eða útibús, sem hefur aðsetur í aðildarríkinu, þar sem greiðsluþjónustan er veitt, og önnur heimilisföng, þ.m.t. tölvupóstfang, sem viðeigandi er í boðskiptum við greiðslumiðlunina, og
    b)    upplýsingar um viðkomandi eftirlitsyfirvöld og um skrána sem kveðið er á um í 13. gr. eða um einhverja aðra viðeigandi opinbera skrá um starfsleyfi greiðslumiðlunarinnar og skráningarnúmer eða jafngilda aðferð til auðkenningar í þeirri skrá,
2.     um notkun greiðsluþjónustunnar:
    a)    lýsingu á helstu einkennum viðkomandi greiðsluþjónustu,
    b)    lýsingu á upplýsingunum eða því sérstaka kennimerki sem notandi greiðsluþjónustu skal leggja fram til að greiðslufyrirmælin verði framkvæmd á réttan hátt,
    c)    framsetningu og málsmeðferð við veitingu samþykkis á framkvæmd greiðslu og afturköllun slíks samþykkis í samræmi við 54. og 66. gr.,
    d)    tilvísun til þess tíma þegar tekið var við greiðslufyrirmælunum, eins og skilgreint er í 64. gr., og lokunartíma sem greiðslumiðlunin fastsetur, ef um hann er að ræða,
    e)    hámarkstíma, sem veiting greiðsluþjónustunnar má taka og
    f)    hvort möguleiki er á samþykkt útgjaldaþaks fyrir notkun greiðslumiðils í samræmi við 1. mgr. 55. gr.,
3.     um gjöld, vexti og gengi,
    a)    öll gjöld sem notandi greiðsluþjónustunnar á að greiða greiðslumiðluninni og, eftir atvikum, sundurliðun fjárhæða allra gjalda,
    b)    eftir atvikum, vexti og gengi, sem nota skal, eða, ef nota á viðmiðunarvexti og viðmiðunargengi, aðferðina sem nota skal við útreikning á vöxtum, og viðeigandi dagsetningu og vísitölu eða grunn til að ákvarða þess háttar viðmiðunarvexti eða viðmiðunargengi og
    c)    ef um semst, tafarlausa beitingu breytinga á viðmiðunarvöxtum eða viðmiðunargengi og upplýsingakröfur í tengslum við breytingarnar í samræmi við 2. mgr. 44. gr.,
4.     um samskipti:
    a)    eftir atvikum, samskiptaaðferðir, þ.m.t. tæknilegar kröfur sem gerðar eru til búnaðar notanda greiðsluþjónustu sem aðilar semja um vegna sendingar upplýsinga eða tilkynninga samkvæmt þessari tilskipun,
    b)    hvernig og hve títt veita skal upplýsingar eða koma þeim á framfæri samkvæmt þessari tilskipun,
    c)    tungumál, eitt eða fleiri, sem verður á rammasamningi og boðskiptum meðan á samningsbundnu sambandi stendur, og
    d)    rétt notanda greiðsluþjónustu til að fá samningsskilmála rammasamnings og upplýsingar og skilmála í samræmi við 43. gr.,
5.     um ráðstafanir til verndar og úrbóta,
    a)    eftir atvikum, lýsingu á ráðstöfunum sem notandi greiðsluþjónustu skal gera í því skyni að uppfylla öryggiskröfur um greiðslumiðil ásamt því hvernig tilkynningu til greiðslumiðlunar skuli háttað með tilliti til b-liðar 1. mgr. 56. gr.,
    b)    ef um það er samið, skilyrði þess að greiðslumiðlun áskilji sér rétt til stöðva greiðslumiðil í samræmi við 55. gr.,
    c)    bótaábyrgð greiðanda í samræmi við 61. gr., þ.m.t. upplýsingar um viðkomandi fjárhæð,
    d)    hvernig notandi greiðsluþjónustu skal tilkynna greiðslumiðlun um óheimilaða eða rangt framkvæmda greiðslu og frest sem hann hefur til þess í samræmi við 58. gr. sem og bótaábyrgð greiðslumiðlunar á óheimiluðum greiðslum í samræmi við 60. gr.,
    e)    bótaábyrgð greiðslumiðlunar vegna framkvæmdar greiðslu í samræmi við 75. gr. og
    f)    skilyrði fyrir endurgreiðslu í samræmi við 62. og 63. gr.,
6.     um breytingar og uppsögn rammasamnings:
    a)    ef um það er samið, upplýsingar um að notandi greiðsluþjónustu teljist hafa samþykkt breytingar á skilmálum í samræmi við 44. gr. nema hann tilkynni greiðslumiðluninni að hann samþykki þær ekki áður en fyrirhugaður gildistími þeirra hefst,
    b)    gildistíma samningsins og
    c)    rétt notanda greiðsluþjónustu til að segja upp rammasamningi og hugsanlegum samningum sem tengjast uppsögn skv. 1. mgr. 44. gr. og 45. gr.,
7.     um úrlausn mála:
    a)    samningsákvæði um hvaða lög gilda um rammasamninginn og/eða þar til bæra dómstóla og
    b)    kæru- og úrlausnarmeðferð utan réttar sem notandi greiðsluþjónustu á kost á í samræmi við 80.–83. gr.

43. gr.
Aðgengi að upplýsingum og skilmálum í rammasamningi

Meðan samningssambandið varir á notandi greiðsluþjónustu hvenær sem er rétt á að fá afhenta, að fram kominni beiðni þar um, samningsskilmála rammasamningsins ásamt þeim upplýsingum og þeim skilmálum sem tilgreind eru í 42. gr. á pappír eða öðrum varanlegum miðli.

44. gr.
Breytingar á skilmálum rammasamnings

1.     Greiðslumiðlun skal gera tillögu að öllum hugsanlegum breytingum á rammasamningnum, sem og á upplýsingum og skilmálum, sem tilgreind eru í 42. gr., á þann hátt sem kveðið er á um í 1. mgr. 41. gr., eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir fyrirhugaðan gildistökudag.
Í samræmi við a-lið 6. mgr. 42. gr. skal greiðslumiðlun, eftir atvikum, tilkynna notanda greiðsluþjónustu að hann teljist hafa samþykkt þessar breytingar tilkynni hann ekki greiðslumiðluninni að hann samþykki þær ekki fyrir fyrirhugaðan gildistökudag þeirra. Í því tilviki skal greiðslumiðlunin einnig tilgreina að notandi greiðsluþjónustu eigi rétt á að segja upp rammasamningnum þegar í stað og án gjalds fyrir fyrirhugaðan gildistökudag breytinganna.
2.     Breytingar á vöxtum eða gengi geta tekið gildi þegar í stað og án fyrirvara að því tilskildu að samið hafi verið um þann rétt í rammasamningnum og að breytingarnar byggist á viðmiðunarvöxtum eða viðmiðunargengi sem samið er um í samræmi við b- og c-lið 3. mgr. 42. gr. Notanda greiðsluþjónustu skal tilkynnt um allar breytingar á vöxtum eins fljótt og kostur er á þann hátt sem kveðið er á um í 1. mgr. 41. gr., nema aðilar hafi komið sér saman um hvernig og hve títt á veita upplýsingarnar eða koma þeim á framfæri. Breytingar á vöxtum eða gengi, sem eru hagstæðari notanda greiðsluþjónustunnar, má þó gera án fyrirvara.
3.     Breytingar á þeim vöxtum eða því gengi sem notað er í greiðslum skulu fara fram og reiknast á hlutlausan hátt sem mismunar ekki notendum greiðsluþjónustu.

45. gr.
Uppsögn

1.     Notandi greiðsluþjónustu getur sagt rammasamningnum upp hvenær sem er nema aðilar hafi samið um uppsagnarfrest. Fresturinn skal ekki vera lengri en einn mánuður.
2.     Uppsögn rammasamnings með föstum samningstíma umfram tólf mánuði eða með ótilteknum samningstíma skal vera gjaldfrjáls fyrir notanda greiðsluþjónustu að liðnum tólf mánuðum. Í öllum öðrum tilvikum skal uppsagnargjald vera eftir því sem við á og í samræmi við kostnað.
3.     Ef um það er samið í rammasamningnum getur greiðslumiðlun sagt upp rammasamningi með ótilgreindum samningstíma með a.m.k. tveggja mánaða uppsagnarfresti á þann hátt sem kveðið er á um í 1. mgr. 41. gr.
4.     Gjöld fyrir greiðsluþjónustu, sem krafist er reglubundið, ber notanda greiðsluþjónustu aðeins að greiða hlutfallslega fram að uppsögn samningsins. Ef slík gjöld eru greidd fyrir fram skulu þau endurgreidd hlutfallslega.
5.     Ákvæði þessarar greinar eru með fyrirvara um lög og reglur aðildarríkjanna um réttindi samningsaðila til að lýsa rammasamning óframfylgjanlegan eða ógildan.
6.     Aðildarríkin geta sett ákvæði sem eru hagstæðari fyrir notendur greiðsluþjónustu.

46. gr.
Upplýsingar áður en kemur að framkvæmd stakra greiðslna

Þegar um er að ræða staka greiðslu samkvæmt rammasamningi að frumkvæði greiðanda skal greiðslumiðlunin, að beiðni greiðanda vegna þessarar stöku greiðslu, veita skýrar upplýsingar um hámarksframkvæmdartíma og gjöld, sem greiðandi skal greiða, og, eftir atvikum, sundurliða fjárhæðir allra gjalda.

47. gr.
Upplýsingar fyrir greiðanda um stakar greiðslur

1.     Eftir að fjárhæð stakrar greiðslu er skuldfærð af reikningi greiðanda eða, ef greiðandi notar ekki greiðslureikning, eftir viðtöku greiðslufyrirmæla skal greiðslumiðlun greiðanda koma á framfæri við hann án ástæðulausrar tafar upplýsingum um eftirfarandi, eins mælt er fyrir um í 1. mgr. 41. gr.:
a)    tilvísun sem gerir greiðanda kleift að bera kennsl hverja greiðslu og, eftir því sem við á, upplýsingar um viðtakanda greiðslu,
b)    fjárhæð greiðslunnar í þeim gjaldmiðli sem skuldfærður er af greiðslureikningi greiðanda eða í þeim gjaldmiðli sem er notaður í greiðslufyrirmælunum,
c)    fjárhæð gjalda vegna greiðslunnar og, eftir atvikum, sundurliðun fjárhæða eða vextina sem greiðandi skal greiða,
d)    eftir atvikum, gengið sem notað er í greiðslunni frá greiðslumiðlun greiðanda og fjárhæð greiðslunnar eftir að umreikningur viðkomandi gjaldmiðils fer fram og
e)    gildisdag skuldfærslu eða dagsetningu viðtöku greiðslufyrirmælanna.
2.     Í rammasamningi getur falist skilyrði um að upplýsingarnar, sem um getur í 1. mgr., skuli veittar reglubundið eða komið á framfæri a.m.k. einu sinni í mánuði á umsaminn hátt sem gerir greiðanda kleift að geyma eða endurgera upplýsingarnar óbreyttar.
3.     Aðildarríki geta þó gert kröfu um að greiðslumiðlanir veiti upplýsingar á pappír einu sinni í mánuði gjaldfrjálst.

48. gr.
Upplýsingar fyrir viðtakanda greiðslu um stakar greiðslur

1.     Eftir framkvæmd stakrar greiðslu skal greiðslumiðlun viðtakanda greiðslu veita honum án ástæðulausrar tafar eftirfarandi upplýsingar, eins og mælt er fyrir um í 1. gr. 41. gr.
a)    tilvísun sem gerir viðtakanda greiðslu kleift að bera kennsl á greiðsluna og, eftir því sem við á, greiðanda og þær upplýsingar sem sendar eru með greiðslunni,
b)    fjárhæð greiðslunnar í þeim gjaldmiðli sem notaður er í eignfærslu á greiðslureikning viðtakanda greiðslu,
c)    fjárhæð gjalda vegna greiðslunnar og, eftir atvikum, sundurliðun fjárhæða eða vextina sem viðtakandi greiðslu skal greiða,
d)    eftir atvikum, gengið sem greiðslumiðlun viðtakanda greiðslu notar í greiðslunni og fjárhæð greiðslunnar áður en umreikningur viðkomandi gjaldmiðils fer fram og
e)    gildisdag eignfærslu.
2.     Í rammasamningi getur falist skilyrði um að upplýsingarnar, sem um getur í 1. mgr., skuli veittar reglubundið eða komið á framfæri a.m.k. einu sinni í mánuði á umsaminn hátt sem gerir viðtakanda greiðslu kleift að geyma eða endurgera upplýsingarnar óbreyttar.
3.     Aðildarríki geta þó gert kröfu um að greiðslumiðlanir veiti upplýsingar á pappír einu sinni í mánuði gjaldfrjálst.

4. KAFLI
Sameiginleg ákvæði
49. gr.
Gjaldmiðill og umreikningur gjaldmiðils

1.     Greiðslur skulu vera í þeim gjaldmiðli sem aðilar hafa komið sér saman um.
2.     Ef boðinn er gjaldmiðilsumreikningur áður en greiðslan á sér stað og ef sú þjónusta við gjaldmiðilsumreikning er boðin á sölustað eða hjá viðtakanda greiðslu skal sá aðili sem býður þjónustu við gjaldmiðilsumreikning fyrir greiðanda veita greiðanda allar upplýsingar um gjöld og það gengi sem nota á við umreikning greiðslunnar.
Greiðandi skal samþykkja þjónustu við umreikning gjaldmiðils á þeim grundvelli.

50. gr.
Upplýsingar um viðbótargjöld eða afslátt

1.     Ef viðtakandi greiðslu krefst gjalds eða býður afslátt vegna notkunar tiltekins greiðslumiðils skal viðtakandi greiðslu tilkynna greiðanda um það áður en greiðslan er framkvæmd.
2.     Ef greiðslumiðlun eða þriðji aðili krefst gjalds vegna notkunar tiltekins greiðslumiðils skal hann tilkynna notanda greiðsluþjónustu um það áður en greiðslan er framkvæmd.

IV. HLUTI
RÉTTINDI OG SKYLDUR Í TENGSLUM VIÐ VEITINGU OG NOTKUN GREIÐSLUÞJÓNUSTU
1. KAFLI
Sameiginleg ákvæði
51. gr.
Gildissvið

1.     Ef notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi geta aðilar komið sér saman um að 1. mgr. 52. gr., annar undirliður 2. mgr. 54. gr. og 59., 61., 62., 63., 66. og 75. gr. skuli ekki gilda í heild eða að hluta til. Aðilar geta einnig komið sér saman um annað tímabil en það sem mælt er fyrir um í 58. gr.
2.     Aðildarríkin geta kveðið á um að 83. gr. gildi ekki ef notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi.
3.     Aðildarríkin geta kveðið á um að ákvæði í þessum hluta gildi um örfyrirtæki á sama hátt og um neytendur.
4.     Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á ráðstafanir í hverju aðildarríki fyrir sig við framkvæmd tilskipunar 87/102/EBE. Þessi tilskipun hefur heldur ekki áhrif á aðra viðeigandi löggjöf Bandalagsins eða landslög einstakra aðildarríkja að því er varðar skilyrði fyrir lánveitingu til neytenda sem er ekki samræmd með þessari tilskipum en samrýmist lögum Bandalagsins.

52. gr.
Viðeigandi gjöld

1.     Greiðslumiðlun má ekki krefjast gjalds af notanda greiðsluþjónustu þegar hún uppfyllir upplýsingaskyldur sínar eða gerir leiðréttingarráðstafanir eða fyrirbyggjandi ráðstafanir samkvæmt þessum hluta nema annað komi fram í 1. mgr. 65. gr., 5. mgr. 66. gr. og 2. mgr. 74. gr. Notandi greiðsluþjónustu og greiðslumiðlun skulu semja sín í milli um þessi gjöld og skulu þau vera viðeigandi og í samræmi við raunverulegan kostnað greiðslumiðlunarinnar.
2.     Ef í greiðslu felst engin umreikningur gjaldmiðils skulu aðildarríkin gera kröfu um að viðtakandi greiðslu greiði gjöldin sem greiðslumiðlun hans leggur á og greiðandi greiði gjöldin sem greiðslumiðlun hans leggur á.
3.     Greiðslumiðlun skal ekki hindra viðtakanda greiðslu í að krefjast gjalds af greiðanda eða bjóða honum afslátt vegna notkunar tiltekins greiðslumiðils. Aðildarríkin mega þó banna eða takmarka rétt til að krefjast gjalda að teknu tilliti til nauðsynjar á að efla samkeppni og notkun skilvirkra greiðslumiðla.

53. gr.
Undanþágur vegna greiðslumiðla og rafeyris með lágum fjárhæðum

1.     Þegar um er að ræða greiðslumiðla, sem samkvæmt rammasamningnum snerta einungis stakar greiðslur, sem fara ekki yfir 30 evrur eða hafa annaðhvort útgjaldaþak, sem nemur 150 evrum, eða hafa að geyma fjármuni, sem fara ekki yfir 150 evrur, geta greiðslumiðlanir samið við notendur greiðsluþjónustu sinnar að:
a)    ákvæði b-liðar 1. mgr. 56. gr. og c- og d-liðar 1. mgr. 57. gr. sem og 4. og 5. mgr. 61. gr. gildi ekki ef ekki er unnt að stöðva notkun greiðslumiðilsins eða að koma í veg fyrir frekari notkun hans,
b)    ákvæði 59. og 60. gr., og 1. og 2. mgr. 61. gr. gilda ekki ef greiðslumiðill er notaður undir nafnleynd eða greiðslumiðlunin er ekki í stakk búin, af öðrum ástæðum sem eru órjúfanlegur hluti greiðslumiðilsins, til að sýna fram á að greiðslan hafi verið heimiluð,
c)    að greiðslumiðlunin sé, þrátt fyrir 1. mgr. 65. gr., ekki skuldbundin til að tilkynna notanda greiðsluþjónustu um synjun á greiðslufyrirmælum ef af málavöxtum er greinilegt að þau hafi ekki verið framkvæmd,
d)    að greiðandi megi ekki, þrátt fyrir ákvæði 66. gr., afturkalla greiðslufyrirmælin eftir hafa sent greiðslufyrirmæli eða veitt samþykki sitt fyrir framkvæmd greiðslunnar til viðtakanda greiðslu,
e)    þrátt fyrir 69. og 70. gr. gilda önnur framkvæmdartímabil.
2.     Að því er varðar innlendar greiðslur geta aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra lækkað eða tvöfaldað fjárhæðirnar sem um getur í 1. mgr. Þau mega hækka þær vegna fyrirframgreiddra greiðslumiðla í allt að 500 evrur.
3.     Ákvæði 60. og 61. gr. gilda einnig um rafeyri í skilningi b-liðar 3. mgr. 1. gr. tilskipunar 2000/46/ EB nema greiðslumiðlun greiðanda hafi ekki getu til að frysta greiðslureikninginn eða loka greiðslumiðlinum. Aðildarríki geta takmarkað þá undanþágu við greiðslureikninga eða greiðslumiðla með nánar tilgreindu verðgildi.

2. KAFLI
Greiðsluleyfi
54. gr.
Samþykki og afturköllun samþykkis

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að greiðsla teljist því aðeins samþykkt að greiðandi hafi veitt samþykki fyrir framkvæmd hennar. Greiðandi getur veitt leyfi fyrir greiðslu fyrir eða, ef greiðandi og greiðslumiðlun hans hafa samið um það, eftir framkvæmd greiðslunnar.
2.     Samþykki fyrir framkvæmd greiðslu eða röð greiðslna skal veitt með þeirri framsetningu sem greiðandi og greiðslumiðlun hans koma sér saman um.
Ef slíkt samþykki er ekki fyrir hendi telst greiðsla ekki vera heimiluð.
3.     Greiðandi getur afturkallað samþykki hvenær sem er en þó ekki eftir að það telst óafturkallanlegt skv. 66. gr. Samþykki fyrir framkvæmd á röð greiðslna má einnig afturkalla og hefur þá þau áhrif að síðari greiðslur teljast óheimilaðar.
4.     Málsmeðferð við veitingu samþykkis skal vera samkomulagsatriði milli greiðanda og greiðslumiðlunar.

55. gr.
Takmarkanir á notkun greiðslumiðils

1.     Í tilvikum þegar tilgreindur greiðslumiðill er notaður í þeim tilgangi að veita samþykki geta greiðandi og greiðslumiðlun hans komið sér saman um útgjaldaþak vegna greiðslna sem framkvæmdar eru með þeim greiðslumiðli.
2.     Ef um það er samið í rammasamningi getur greiðslumiðlunin áskilið sér rétt til að loka greiðslumiðlinum af ástæðum, sem eru rökstuddar á hlutlægan hátt með hliðsjón af öryggi greiðslumiðilsins, gruns um óheimilaða eða sviksamlega notkun greiðslumiðilsins eða, þegar um er að ræða greiðslumiðil með lánsheimildum, verulega aukna hættu á því að greiðandi kunni að vera ófær um að uppfylla greiðsluskyldu sína.
3.     Í því tilviki skal greiðslumiðlunin tilkynna greiðanda um lokun greiðslumiðilsins og ástæður fyrir henni á umsaminn hátt, áður en greiðslumiðlinum er lokað, ef unnt er, og í síðasta lagi tafarlaust að því loknu, nema þess háttar upplýsingar tefli í tvísýnu raunhæft metnum öryggisástæðum eða eru bannaðar samkvæmt annarri viðeigandi löggjöf Bandalagsins eða í hverju aðildarríki fyrir sig.
4.     Greiðslumiðlunin skal opna greiðslumiðil eða setja nýjan greiðslumiðil í hans stað þegar ástæður fyrir lokuninni eru ekki lengur fyrir hendi.

56. gr.
Skyldur notanda greiðsluþjónustu í tengslum við greiðslumiðil

1.     Skyldur notanda greiðsluþjónustu, sem á rétt á að nota greiðslumiðil, eru eftirfarandi:
a)    að nota greiðslumiðilinn í samræmi við skilmála um útgáfu og notkun greiðslumiðilsins og
b)    að tilkynna greiðslumiðluninni, eða þeirri einingu sem hún tilgreinir, án ástæðulausrar tafar þegar hann verður var við tap, þjófnað eða misnotkun á greiðslumiðli eða óheimilaða notkun hans.
2.     Að því er varðar a-lið 1. mgr. skal notandi greiðsluþjónustu, um leið og hann tekur við greiðslumiðli, gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja persónubundna öryggisþætti hans.

57. gr.
Skyldur greiðslumiðlunar í tengslum við greiðslumiðil

1.     Skyldur greiðslumiðlunar, sem gefur út greiðslumiðil, eru eftirfarandi:
a)    að ganga úr skugga um að persónubundnir öryggisþættir greiðslumiðils séu ekki aðgengilegir öðrum aðilum en þeim notanda greiðsluþjónustunnar sem á rétt á að nota greiðslumiðilinn, án þess að það hafi áhrif á þær skyldur notanda greiðsluþjónustu sem fram koma í 56. gr.,
b)    að senda ekki greiðslumiðil óumbeðið nema nýr greiðslumiðill eigi að koma í stað annars sem notandi greiðsluþjónustu hefur þegar fengið,
c)    að tryggja að fullnægjandi fjármagn sé ávallt fyrir hendi svo að notandi greiðsluþjónustu geti gefið út tilkynningu skv. b-lið 1. mgr. 56. gr. eða farið fram á opnun skv. 4. mgr. 55. gr.; greiðslumiðlunin skal, að fram kominni beiðni, sjá notanda greiðsluþjónustu fyrir úrræðum til að sanna, í 18 mánuði frá tilkynningu, að hann hafi gefið úr þess háttar tilkynningu og
d)    að hindra alla notkun greiðslumiðils þegar tilkynning skv. b-lið 1. mgr. 56. gr. hefur verið gefin út.
2.     Greiðslumiðlun skal bera áhættu af því að senda greiðslumiðil til greiðanda eða senda hvers konar persónubundna öryggisþætti hans.

58. gr.
Tilkynning um óheimilaða eða ranglega framkvæmda greiðslu

Notandi greiðsluþjónustu skal því aðeins fá leiðréttingu hjá greiðslumiðluninni að hann tilkynni greiðslumiðlun sinni án ástæðulausrar tafar að hann hafi orðið var við óheimilaða eða ranglega framkvæmda greiðslu sem gefur tilefni til kröfu, þ.m.t. skv. 75. gr., eigi síðar en 13 mánuðum eftir dagsetningu skuldfærslu, nema, eftir atvikum, greiðslumiðlunin hafi ekki veitt eða komið á framfæri upplýsingum um þá greiðslu í samræmi við III. hluta.

59. gr.
Sönnunargögn um sannvottun og framkvæmd greiðslu

1.     Neiti notandi greiðsluþjónustu að hann hafi samþykkt framkvæmda greiðslu eða heldur því fram að greiðsla hafi ekki verið framkvæmd á réttan hátt skulu aðildarríkin krefjast þess að greiðslumiðlun hans sanni að greiðslan hafi verið staðfest, nákvæmlega skráð, færð í reikningshald og tæknileg bilun hafi ekki haft áhrif á hana eða á henni sé einhver annar ágalli.
2.     Ef notandi greiðsluþjónustu neitar að hafa heimilað framkvæmda greiðslu nægir notkun greiðslumiðils, sem greiðslumiðlunin skráir, ein og sér ekki endilega til að sanna að greiðandi hafi annaðhvort heimilað greiðsluna eða hann hafi með sviksamlegum hætti, að yfirlögðu ráði eða af stórfelldu gáleysi látið ógert að uppfylla eina eða fleiri af skyldum sínum skv. 56. gr.

60. gr.
Bótaábyrgð greiðslumiðlunar vegna óheimilaðrar greiðslu

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að greiðslumiðlunin, með fyrirvara um 58. gr., þegar um óheimilaða greiðslu er að ræða, endurgreiði greiðanda þegar í stað fjárhæð óheimiluðu greiðslunnar og, eftir atvikum, færi skuldfærðan greiðslureikning til sömu stöðu og hann hefði verið í ef óheimilaða greiðslan hefði ekki átt sér stað.
2.     Ákvarða má frekari fébætur í samræmi við gildandi lög um samninginn milli greiðanda og greiðslumiðlunar hans.

61. gr.
Bótaábyrgð greiðanda vegna óheimilaðrar greiðslu

1.     Þrátt fyrir 60. gr. skal greiðandi bera tap vegna óheimilaðra greiðslna sem nemur allt að 150 evrum, sem rekja má til notkunar á týndum eða stolnum greiðslumiðli, eða, ef greiðandi hefur ekki gætt þess að vernda persónubundna öryggisþætti, óréttmætri nýtingu greiðslumiðils.
2.     Greiðandi skal bera allt tap sem rekja má til óheimilaðra greiðslna ef hann stofnar til þeirra með sviksamlegum hætti eða með því að láta ógert að uppfylla eina eða fleiri af skyldum sínum skv. 56. gr. að yfirlögðu ráði eða af stórfelldu gáleysi. Í þeim tilvikum gildir ekki hámarksfjárhæðin sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar.
3.     Í tilvikum þar sem háttsemi greiðanda hefur hvorki verið með sviksamlegum hætti né hann að yfirlögðu ráði hefur ekki uppfyllt skyldur sínar skv. 56. gr. geta aðildarríkin lækkað bótaskylduna, sem um getur í 1. og 2. mgr. þessarar greinar, einkum að teknu tilliti til eðlis persónubundinna öryggisþátta greiðslumiðilsins og aðstæðna þegar hann týndist, honum var stolið eða hann nýttur með óréttmætum hætti.
4.     Notkun á greiðslumiðli, sem týnist, er stolið eða nýttur með óréttmætum hætti eftir tilkynningu í samræmi við b-lið 1. mgr. 56. gr., skal ekki hafa neinar fjárhagslegar afleiðingar fyrir greiðanda nema um sviksamlega háttsemi hans hafi verið að ræða.
5.     Ef greiðslumiðlun gerir ekki viðeigandi ráðstafanir sem gera kleift að tilkynna hvenær sem er um greiðslumiðil, sem hefur týnst, verið stolið eða notaður með óréttmætum hætti, eins og krafist er skv. c-lið 1. mgr. 57. gr., skal greiðandi ekki vera bótaskyldur vegna fjárhagslegra afleiðinga af notkun þess greiðslumiðils nema um sviksamlega háttsemi hans hafi verið að ræða.

62. gr.
Endurgreiðslur á greiðslum sem viðtakandi greiðslu á frumkvæði að eða hefur milligöngu um

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að greiðandi eigi rétt á endurgreiðslu frá greiðslumiðlun sinni vegna heimilaðrar greiðslu, sem viðtakandi greiðslu á frumkvæði að eða hefur milligöngu um og greiðslan hefur þegar verið framkvæmd, ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
a)    fjárhæð greiðslunnar var ekki nákvæmlega tilgreind í heimildinni þegar hún var veitt og
b)    fjárhæð greiðslunnar var hærri en svo að greiðandi gæti með sanngjörnum hætti gert ráð fyrir þeirri fjárhæð miðað við útgjaldamynstur hans til þessa, skilmála í rammasamningi og aðrar kringumstæður sem skipta máli.
Að beiðni greiðslumiðlunarinnar skal greiðandi leggja fram staðreyndir málsins um þess háttar skilmála.
Endurgreiðsla tekur til allrar fjárhæðar greiðslunnar sem var framkvæmd.
Að því er varðar beingreiðslur geta greiðandi og greiðslumiðlun hans komið sér saman um það í rammasamningnum að greiðandi eigi rétt á endurgreiðslu frá greiðslumiðlun sinni jafnvel þótt skilyrði fyrir endurgreiðslu í fyrsta undirlið séu ekki uppfyllt.
2.     Að því er varðar b-lið fyrsta undirliðar 1. mgr. getur greiðandi þó ekki treyst á gengisástæður ef beitt var viðmiðunargengi sem hann samdi um við greiðslumiðlun sína í samræmi við d-lið 1. mgr. 37. gr. og b-lið 3. mgr. 42. gr.
3.     Greiðandi og greiðslumiðlun geta samið um það í rammasamningi að greiðandi eigi ekki rétt á endurgreiðslu ef hann hefur veitt samþykki sitt fyrir framkvæmd greiðslu beint til greiðslumiðlunar sinnar og, eftir atvikum, greiðslumiðlunin eða viðtakandi greiðslu veitti upplýsingar um greiðslur í framtíðinni eða kom þeim á framfæri við greiðanda á umsaminn hátt a.m.k. fjórum vikum fyrir gjalddaga.

63. gr.
Beiðnir um endurgreiðslu vegna greiðslna sem viðtakandi greiðslu á frumkvæði að eða hefur milligöngu um

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að greiðandi geti óskað eftir endurgreiðslu, sem um getur í 62. gr., á heimilaðri greiðslu að frumkvæði eða fyrir milligöngu viðtakanda greiðslu á átta vikna tímabili frá þeim degi þegar féð var skuldfært.
2.     Innan tíu virkra daga frá því að tekið er við beiðni um endurgreiðslu skal greiðslumiðlunin annaðhvort endurgreiða að fullu fjárhæð greiðslunnar eða rökstyðja synjun við beiðni um endurgreiðslu og tilgreina þá aðila sem greiðandi getur vísað málinu til í samræmi við 80.–83. gr. ef hann sættir sig ekki við rökstuðning fyrir synjuninni.
Réttur greiðslumiðlunarinnar samkvæmt fyrsta undirlið til að synja um endurgreiðslu gildir ekki í því tilviki sem sett er fram í fjórða undirlið 1. mgr. 62. gr.

3. KAFLI
Framkvæmd greiðslna
1. þáttur
Greiðslufyrirmæli og millifærðar fjárhæðir
64. gr.
Viðtaka greiðslufyrirmæla

1.     Aðildarríki tryggja að viðtökutími sé sá tími þegar greiðslumiðlun greiðanda tekur við greiðslufyrirmælum, sem greiðandi sendir beint eða sem viðtakandi greiðslu sendir óbeint eða hefur milligöngu um. Ef viðtökutíminn er ekki á virkum degi að því er varðar greiðslumiðlun greiðanda skal litið svo á að tekið hafi verið við greiðslufyrirmælunum næsta virka dag á eftir. Greiðslumiðlunin getur fastsett lokunartíma nálægt lokum virks dags og skulu greiðslufyrirmæli, sem hún tekur við eftir það, teljast vera móttekin næsta virka dag á eftir.
2.     Ef notandi greiðsluþjónustu gefur greiðslufyrirmæli og greiðslumiðlun hans samþykkir að framkvæmd greiðslufyrirmælanna skuli hefjast á tilgreindum degi, við lok tiltekins tímabils eða þann dag þegar greiðandi hefur lagt inn fé til ráðstöfunar greiðslumiðlunar sinnar telst viðtökutíminn, í skilningi 69. gr., vera dagurinn sem samið var um. Ef dagurinn, sem samið var um, er ekki virkur dagur, að því er varðar greiðslumiðlunina, skal litið svo á að tekið hafi verið við greiðslufyrirmælunum næsta virka dag á eftir.

65. gr.
Greiðslufyrirmælum hafnað

1.     Ef greiðslumiðlun neitar að framkvæma greiðslufyrirmæli skal tilkynna notanda greiðsluþjónustunnar um neitunina og, ef unnt er, ástæður fyrir henni og málsmeðferð við leiðréttingu á þeim mistökum sem í reynd leiddu til neitunarinnar, nema það sé bannað samkvæmt annarri löggjöf Bandalagsins eða einstakra aðildarríkja þar að lútandi.
Greiðslumiðlunin skal veita eða koma á framfæri tilkynningu á umsaminn hátt við fyrsta tækifæri og hvað sem öðru líður innan þeirra freststímabila sem tilgreind eru í 69. gr.
Í rammasamningnum getur verið skilyrði um að greiðslumiðlunin megi taka gjald fyrir þess háttar tilkynningu ef neitunin er rökstudd á hlutlægan hátt.
2.     Í tilvikum, þegar öll skilyrðin, sem fram koma í rammasamningi greiðanda, eru uppfyllt, skal greiðslumiðlun greiðanda ekki neita að framkvæma heimiluð greiðslufyrirmæli án tillits til þess hvort greiðandi gefur greiðslufyrirmælin eða viðtakandi greiðslu gefur þau eða hefur um þau milligöngu, nema það sé bannað samkvæmt annarri löggjöf Bandalagsins eða einstakra ríkja þar að lútandi.
3.     Í skilningi 69. og 75. gr. skal líta á greiðslufyrirmæli, sem synjað hefur verið um framkvæmd á, eins og ekki hafi verið tekið við þeim.

66. gr.
Óafturkallanleiki greiðslufyrirmæla

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að notandi greiðsluþjónustu geti ekki afturkallað greiðslufyrirmæli þegar greiðslumiðlun greiðanda hefur tekið við henni nema kveðið sé á um annað í þessari grein.
2.     Ef viðtakandi greiðslu á frumkvæði að greiðslu eða hefur milligöngu um greiðslu getur greiðandi ekki afturkallað greiðslufyrirmæli eftir að hann hefur sent þau eða veitt samþykki sitt fyrir því að greiðslan til viðtakanda greiðslu skuli framkvæmd.
3.     Þegar um beingreiðslu er að ræða getur greiðandi þó, án þess að það hafi áhrif á endurgreiðsluréttindi, afturkallað greiðslufyrirmæli í síðasta lagi í lok síðasta virka dags fyrir umsaminn skuldfærsludag fjárins.
4.     Í því tilviki sem um getur í 2. mgr. 64. gr. getur notandi greiðsluþjónustu afturkallað greiðslufyrirmæli í síðasta lagi við lok síðasta virka dags fyrir umsaminn dag.
5.     Eftir tímamörkin, sem tilgreind eru í 1.–4. mgr., er aðeins unnt að afturkalla greiðslufyrirmæli ef notandi greiðsluþjónustu og greiðslumiðlun hafa samið um það. Í því tilviki sem um getur í 2. og 3. mgr. er gerð krafa um samþykki viðtakanda greiðslu. Ef um það er samið í rammasamningi getur greiðslumiðlun krafist gjalds fyrir afturköllun.

67. gr.
Millifærðar fjárhæðir og fjárhæðir sem tekið er við

1.     Aðildarríkin skulu gera kröfu um að greiðslumiðlun greiðanda, greiðslumiðlun viðtakanda greiðslu og milliliðir greiðslumiðlana millifæri alla fjárhæð greiðslunnar og láti vera að draga gjöld frá millifærðri fjárhæð.
2.     Viðtakandi greiðslu og greiðslumiðlun hans geta á hinn bóginn samið um að greiðslumiðlunin dragi gjöld sín frá millifærðri fjárhæð áður en hún er eignfærð á viðtakanda greiðslu. Í því tilviki skal öll fjárhæð greiðslunnar vera aðskilin frá gjöldunum í þeim upplýsingum sem viðtakanda greiðslu eru veittar.
3.     Ef einhver önnur gjöld en þau sem um getur í 2. mgr. eru dregin frá millifærðri fjárhæð skal greiðslumiðlun greiðanda sjá til þess að viðtakandi greiðslu fái alla fjárhæð greiðslunnar sem greiðandi á frumkvæði að. Í tilvikum þar sem viðtakandi greiðslu á frumkvæði að eða hefur milligöngu um greiðslu skal greiðslumiðlun hans tryggja að viðtakandi greiðslu fái alla fjárhæð greiðslunnar.

2. þáttur
Framkvæmdartími og gildisdagur
68. gr.
Gildissvið

1.     Þessi þáttur gildir um:
a)    greiðslur í evrum,
b)    greiðslur innan einstakra ríkja í gjaldmiðli viðkomandi aðildarríkis, sem er utan evrusvæðisins, og
c)    greiðslur sem fela aðeins í sér einn gjaldmiðilsumreikning milli evru og gjaldmiðils aðildarríkis utan evrusvæðisins, að því tilskildu að gjaldmiðilsumreikningurinn, sem gerð er krafa um, fari fram í viðkomandi aðildarríki sem er utan evrusvæðisins og, þegar um er að ræða greiðslur yfir landamæri, að millifærslur yfir landamæri séu í evrum.
2.     Þessi þáttur gildir um aðrar greiðslur, nema notandi greiðsluþjónustu og greiðslumiðlun hans semji um annað, að undanskilinni 73. gr. sem aðilar geta ekki vikið frá. Þegar notandi greiðsluþjónustu og greiðslumiðlun hans koma sér saman um lengri frest en mælt er fyrir um í 69. gr. vegna greiðslna innan Bandalagsins skal þó slíkur frestur ekki vera lengri en 4 virkir dagar frá viðtökutíma í samræmi við 64. gr.

69. gr.
Greiðslur á greiðslureikning

1.     Aðildarríkin skulu gera kröfu um að greiðslumiðlun greiðanda tryggi, frá viðtökutíma í samræmi við 64. gr., að fjárhæð greiðslu sé eignfærð á reikning greiðslumiðlunar viðtakanda greiðslu í síðasta lagi í lok næsta virka dags. Fram til 1. janúar 2012 geta greiðandi og greiðslumiðlun hans samið um frest sem ekki má vera lengri en þrír virkir dagar. Þennan frest má þó framlengja um einn virkan dag fyrir greiðslur sem eru á pappírsgrundvelli.
2.     Aðildarríkin skulu gera kröfu um að greiðslumiðlun viðtakanda greiðslu setji gildisdag á greiðsluna og leggi fjárhæð greiðslunnar til ráðstöfunar inn á greiðslureikning viðtakanda greiðslu eftir að greiðslumiðlunin hefur tekið við fénu í samræmi við 73. gr.
3.     Aðildarríkin skulu gera kröfu um að greiðslumiðlun viðtakanda greiðslu sendi greiðslufyrirmæli, að frumkvæði eða fyrir milligöngu viðtakanda greiðslu, til greiðslumiðlunar greiðanda innan þess frests sem viðtakandi greiðslu og greiðslumiðlun hans hafa komið sér saman um, til að gera upp, að svo miklu leyti sem beingreiðslur varðar, á umsömdum gjalddaga.

70. gr.
Viðtakandi greiðslu er ekki með greiðslureikning hjá greiðslumiðluninni

Ef viðtakandi greiðslu er ekki með greiðslureikning hjá greiðslumiðluninni skal greiðslumiðlunin færa fjármunina til ráðstöfunar viðtakanda greiðslu, en hún tekur við fjármununum fyrir viðtakanda greiðslu innan þess frests sem tilgreindur er í 69. gr.

71. gr.
Reiðufé lagt inn á greiðslureikning

Ef neytandi setur reiðufé á greiðslureikning hjá greiðslumiðlun í gjaldmiðli þess greiðslureiknings skal greiðslumiðlunin tryggja að fjárhæðin sé til ráðstöfunar og gildisdagsett tafarlaust eftir skráða viðtöku fjárins. Ef notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi skal fjárhæðin sett til ráðstöfunar og gildisdagsett í síðasta lagi næsta virka dag eftir viðtöku fjárins.

72. gr.
Innlendar greiðslur

Að því er varðar innlendar greiðslur geta aðildarríkin kveðið á um styttri hámarksframkvæmdartíma en kveðið er á um í þessum þætti.

73. gr.
Gildisdagur og aðgengi að fjármagni

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að gildisdagur eignfærslu á greiðslureikning viðtakanda greiðslu sé eigi síðar en þann virka dag þegar fjárhæð greiðslunnar er eignfærð á reikning greiðslumiðlunar viðtakanda greiðslu.
Greiðslumiðlun viðtakanda greiðslu skal sjá til þess að fjárhæð greiðslunnar sé viðtakanda greiðslu til ráðstöfunar þegar í stað eftir að fjárhæðin er eignfærð á reikning greiðslumiðlunar viðtakanda greiðslu.
2.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að gildisdagur skuldfærslu af greiðslureikningi greiðanda sé ekki fyrr í tíma en þegar fjárhæð greiðslunnar er skuldfærð af þeim greiðslureikningi.

3. þáttur
Bótaábyrgð
74. gr.
Sérstakt kennimerki er rangt

1.     Ef greiðslufyrirmæli eru framkvæmd í samræmi við sérstakt kennimerki skulu greiðslufyrirmælin teljast hafa verið rétt framkvæmd að því er varðar þann viðtakanda greiðslu sem er tilgreindur með því sérstaka kennimerki.
2.     Ef sérstakt kennimerki, sem notandi greiðsluþjónustu leggur fram, er rangt er greiðslumiðlunin ekki bótaskyld skv. 75. gr. með tilliti til þess að framkvæmd greiðslunnar hafi ekki átt sér stað eða ágalli hafi verið á henni.
Greiðslumiðlun greiðanda skal þó gera hæfilegar ráðstafanir til að endurheimta féð í greiðslunni.
Ef um það er samið í rammasamningi getur greiðslumiðlun krafið notanda greiðsluþjónustu um gjald fyrir endurheimt.
3.     Ef notandi greiðsluþjónustu veitir upplýsingar til viðbótar þeim sem tilgreindar eru í a-lið 1. mgr. 37. gr. eða b-lið 2. mgr. 42. gr. skal greiðslumiðlunin aðeins vera bótaskyld vegna framkvæmdar greiðslu í samræmi við sérstaka kennimerkið sem notandi greiðsluþjónustunnar leggur fram.

75. gr.
Framkvæmd greiðslu á sér ekki stað eða ágalli er á henni

1.     Ef greiðandi á frumkvæði að greiðslufyrirmælum skal greiðslumiðlun hans, með fyrirvara um 58. gr., 2. og 3. mgr. 74. gr. og 78. gr., bera ábyrgð gagnvart greiðanda á réttri framkvæmd greiðslunnar nema hún geti sannað fyrir greiðanda, og, ef við á, greiðslumiðlun viðtakanda greiðslu, að greiðslumiðlun viðtakanda greiðslu hafi fengið fjárhæð greiðslunnar í samræmi við 1. mgr. 69. gr., en í því tilviki verður greiðslumiðlun viðtakanda greiðslu ábyrg fyrir réttri framkvæmd greiðslunnar.
Ef greiðslumiðlun greiðanda er ábyrg samkvæmt fyrsta undirlið skal hún án ástæðulausrar tafar endurgreiða greiðanda fjárhæð óframkvæmdrar eða gallaðrar greiðslu og, eftir atvikum, færa skuldfærðan greiðslureikning í þá stöðu sem hann hefði verið ef gallaða greiðslan hefði ekki átt sér stað.
Ef greiðslumiðlun viðtakanda greiðslu er ábyrg samkvæmt fyrsta undirlið skal hún þegar í stað setja fjárhæð greiðslunnar til ráðstöfunar viðtakanda greiðslu og, eftir atvikum, eignfæra samsvarandi fjárhæð á greiðslureikning viðtakanda greiðslu.
Ef um er að ræða óframkvæmda greiðslu eða ágalli er á framkvæmd greiðslu, þegar greiðandi á frumkvæði að greiðslufyrirmælunum, skal greiðslumiðlun hans, án tillits til þess hver ber bótaábyrgð samkvæmt þessari málsgrein, að fram kominni beiðni þar um, gera ráðstafanir þegar í stað til að rekja greiðsluna og tilkynna greiðanda um niðurstöðuna.
2.     Ef viðtakandi greiðslu á frumkvæði að greiðslufyrirmælunum eða hefur milligöngu um þau skal greiðslumiðlun hans, með fyrirvara um 58. gr., 2. og 3. mgr. 74. gr. og 78. gr., vera ábyrg gagnvart viðtakanda greiðslu um rétta sendingu greiðslufyrirmælanna til greiðslumiðlunar greiðanda í samræmi við 3. mgr. 69. gr. Ef greiðslumiðlun viðtakanda greiðslu er ábyrg samkvæmt þessum undirlið skal hún þegar í stað endursenda greiðslufyrirmælin, sem um ræðir, til greiðslumiðlunar greiðanda.
Auk þess skal greiðslumiðlun viðtakanda greiðslu, með fyrirvara um 58. gr., 2. og 3. mgr. 74. gr. og 78. gr., vera ábyrg gagnvart viðtakanda greiðslu um meðferð greiðslunnar í samræmi við skyldur hennar skv. 73. gr. Ef greiðslumiðlun viðtakanda greiðslu er ábyrg samkvæmt þessum undirlið skal hún tryggja að fjárhæð greiðslunnar sé viðtakanda greiðslu til ráðstöfunar þegar í stað eftir að fjárhæðin er eignfærð á reikning greiðslumiðlunar viðtakanda greiðslu.
Ef um er að ræða óframkvæmda greiðslu eða ágalli er á framkvæmd greiðslu, sem greiðslumiðlun viðtakanda greiðslu er ekki ábyrg fyrir samkvæmt fyrsta og öðrum undirlið, skal greiðslumiðlun greiðanda vera ábyrg gagnvart greiðanda. Ef greiðslumiðlun greiðanda er ábyrg með þessum hætti skal hún, eins og við á og án ástæðulausrar tafar, endurgreiða greiðanda fjárhæð óframkvæmdrar eða gallaðrar greiðslu og færa skuldfærðan greiðslureikning í þá stöðu sem hann hefði verið ef gallaða greiðslan hefði ekki átt sér stað.
Ef um er að ræða óframkvæmda greiðslu eða ágalli er á framkvæmd greiðslu, þegar viðtakandi greiðslu á frumkvæði að greiðslufyrirmælunum eða hefur milligöngu um það, skal greiðslumiðlun hans, án tillits til þess hver ber bótaábyrgð samkvæmt þessari málsgrein, að fram kominni beiðni þar um, þegar í stað gera ráðstafanir til að rekja greiðsluna og tilkynna viðtakanda greiðslu um niðurstöðuna.
3.     Auk þess skulu greiðslumiðlanir vera ábyrgar gagnvart notendum greiðsluþjónustu sinnar fyrir öllum gjöldum sem stafa frá þeim og vegna vaxta sem falla á notanda greiðsluþjónustu sem afleiðing af óframkvæmdri eða gallaðri greiðslu.

76. gr.
Viðbótarfébætur

Allar fébætur til viðbótar við það sem kveðið er á um í þessum þætti má ákvarða í samræmi við gildandi lög um samning milli notanda greiðsluþjónustu og greiðslumiðlunar hans.

77. gr.
Málskotsréttur

1.     Ef bótaábyrgð greiðslumiðlunar skv. 75. gr. má rekja til annarrar greiðslumiðlunar eða milliliðar skal sú greiðslumiðlun eða milliliður bæta fyrri greiðslumiðluninni allt tap, sem hún hefur orðið fyrir, eða fjárhæðir sem greiddar eru skv. 75. gr.
2.     Ákvarða má frekari fébætur í samræmi við samninga milli greiðslumiðlana og/eða milliliða og gildandi lög um samninginn milli þeirra.

78. gr.
Engin bótaábyrgð

Bótaábyrgð skv. 2. og 3. kafla gildir ekki í þeim tilvikum þegar um er að ræða óeðlilegar eða ófyrirsjáanlegar aðstæður sem sá aðili, sem ber fyrir sig þessum aðstæðum, hefur engin áhrif á og hefði ekki getað afstýrt þrátt fyrir tilraunir til þess eða þegar greiðslumiðlun er bundin öðrum lagaskyldum sem falla undir löggjöf einstakra aðildarríkja eða löggjöf Bandalagsins.

4. KAFLI
Gagnavernd
79. gr.
Gagnavernd

Aðildarríkin skulu heimila vinnslu persónuupplýsinga í greiðslukerfum og greiðslumiðlunum þegar það er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir, rannsaka og greina greiðslusvik. Úrvinnsla þess háttar persónuupplýsinga skal fara fram í samræmi við tilskipun 95/46/EB.

5. KAFLI
Kæru- og úrlausnarmeðferð til að leysa úr ágreiningi utan réttar
1. þáttur
Meðferð kærumála
80. gr.
Kærur

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að tekin verði upp málsmeðferð sem gerir notendum greiðsluþjónustu og öðrum hagsmunaaðilum, þ.m.t. neytendasamtök, kleift að leggja fram kærur hjá lögbærum yfirvöldum vegna meintra brota greiðslumiðlana á ákvæðum landslaga einstakra aðildarríkja um framkvæmd þessarar tilskipunar.
2.     Eftir því sem við á og með fyrirvara um réttinn til að hefja málsókn fyrir rétti í samræmi við landslög sem gilda um málsmeðferð í einstökum aðildarríkjum skal í svari lögbærra yfirvalda upplýsa kæranda um kæru- og úrlausnarmeðferð utan réttar í samræmi við 83. gr.

81. gr.
Viðurlög

1.     Aðildarríkin skulu setja reglur um viðurlög við brotum gegn innlendum ákvæðum sem eru samþykkt samkvæmt þessari tilskipun og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þeim sé beitt. Slík viðurlög skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brot og letjandi.
2.     Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um reglurnar, sem um getur í 1. mgr., og þau lögbæru yfirvöld sem um getur í 82. gr. eigi síðar en 1. nóvember 2009 og skulu tilkynna án tafar um síðari breytingar sem hafa áhrif á þær.

82. gr.
Lögbær yfirvöld

1.     Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að meðferð kærumála og viðurlög, sem kveðið er á um í 1. mgr. 80. gr. og 1. mgr. 81. gr., séu undir stjórn yfirvalda sem hafa valdheimildir til að tryggja að farið sé að þeim ákvæðum landslaga sem samþykkt eru samkvæmt þeim kröfum sem mælt er fyrir um í þessum þætti.
2.     Þegar um er að ræða brot eða grun um brot gegn ákvæðum landslaga einstakra aðildarríkja, sem samþykkt eru samkvæmt III. og IV. hluta, skulu lögbæru yfirvöldin, sem um getur í 1. mgr., vera lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis greiðslumiðlunarinnar nema að því er varðar umboðsaðila og útibú, sem annast starfsemi samkvæmt staðfesturétti, þar sem lögbæru yfirvöldin skulu vera lögbær yfirvöld gistiaðildarríkisins.

2. þáttur
Úrlausnarmeðferð utan réttar
83. gr.
Úrlausn utan réttar

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að komið verði á fullnægjandi og skilvirkri kæru- og úrlausnarmeðferð utan réttar til að leysa úr ágreiningi milli notenda greiðsluþjónustu og greiðslumiðlana þeirra vegna ágreinings um réttindi og skyldur sem stafa af þessari tilskipun og nota til þess stofnanir sem til eru fyrir, eftir því sem við á.
2.     Þegar um er að ræða deilur milli landa skulu aðildarríkin sjá til þess að þessar stofnanir séu í virku samstarfi við að leysa þær.

V. HLUTI
FRAMKVÆMDARRÁÐSTAFANIR OG GREIÐSLUNEFND
84. gr.
Framkvæmdarráðstafanir

Til að taka tillit til tækni- og markaðsþróunar í greiðsluþjónustu og tryggja samræmda beitingu þessarar tilskipunar getur framkvæmdastjórnin, í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferð með athugun sem um getur í 2. mgr. 85. gr., samþykkt framkvæmdarráðstafanir sem miða að því að breyta veigalitlum þáttum í þessari tilskipun er varða eftirfarandi:
a)    aðlögun skrár yfir starfsemi í viðauka í samræmi við 2.–4. gr. og 16. gr.
b)    breytingu á skilgreiningu á örfyrirtækjum í skilningi 26. mgr. 4. gr. í samræmi við breytingu á tilmælum 2003/361/EB,
c)    uppfærslu á fjárhæðum, sem tilgreindar eru í 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 61. gr., til að taka tillit til verðbólgu og umtalsverðrar þróunar á markaði.

85. gr.
Nefnd

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar greiðslunefndar.
2.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 1.–4. mgr. 5. gr. a og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.

VI. HLUTI
LOKAÁKVÆÐI
86. gr.
Full samhæfing

1.     Með fyrirvara um 30. gr. (2. mgr.), 33. gr., 34. gr. (2. mgr.), 45. gr. (6. mgr.), 47. gr. (3. mgr.), 48. gr. (3. mgr.), 51. gr. (2. mgr.), 52. gr. (3. mgr.), 53. gr. (2. mgr.), 61. gr. (3. mgr.) og 72. og 88. gr., að því marki sem þessi tilskipun felur í sér samhæfð ákvæði, skulu aðildarríkin ekki halda í gildi eða taka upp önnur ákvæði en þau sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun.
2.     Ef aðildarríki nýtir sér einhvern þann kost sem um getur í 1. mgr. skal það tilkynna framkvæmdastjórninni um það sem og um síðari breytingar. Framkvæmdastjórnin skal birta upplýsingarnar á vefsetri eða annars staðar þar sem þær eru auðaðgengilegar.
3.     Aðildarríki skulu sjá til þess að greiðslumiðlanir víki ekki, þannig að það skaði notendur greiðsluþjónustu, frá ákvæðum landslaga að því er varðar framkvæmd og samræmi við ákvæði þessarar tilskipunar nema sérstaklega sé kveðið á um það í henni.
Greiðslumiðlanir geta þó boðið notendum greiðsluþjónustu hagstæðari skilmála.

87. gr.
Endurskoðun

Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 1. nóvember 2012, leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið, efnahags- og félagsmálanefnd Evrópubandalaganna og Evrópska seðlabankann um framkvæmd þessarar tilskipunar og áhrif hennar, einkum að því er varðar:
–    hugsanlega þörf á að víkka gildissvið tilskipunarinnar þannig að hún taki til greiðslna í öllum gjaldmiðlum og greiðslna þegar einungis ein af greiðslumiðlununum er staðsett í Bandalaginu,
–    beitingu 6., 8. og 9. gr. að því er varðar varfærniskröfur vegna greiðslustofnana, einkum að því er varðar kröfur um eigið fé og verndarkröfur (e. ring-fencing),
–    möguleg áhrif af lánveitingu greiðslustofnana í tengslum við greiðsluþjónustu eins og fram kemur í 3. mgr. 16. gr.,
–    möguleg áhrif af starfsleyfiskröfum vegna greiðslustofnana á samkeppni milli greiðslustofnana og annarra greiðslumiðlana sem og á hindranir gegn aðgangi nýrra greiðslumiðlana að markaðnum,
–    beitingu 34. og 53. gr. og hugsanlega þörf á að endurskoða gildissvið þessarar tilskipunar með tilliti til greiðslumiðla og rafeyris með lágum fjárhæðum og
–    beitingu og framkvæmd 69. og 75. gr. að því er varðar hvers konar greiðslumiðla,
ásamt, eftir því sem við á, tillögu um endurskoðun tilskipunarinnar.

88. gr.
Bráðabirgðaákvæði

1.     Með fyrirvara um tilskipun 2005/60/EB eða aðra viðeigandi löggjöf Bandalagsins skulu aðildarríkin heimila að lögaðilar, sem hófu starfsemi sem greiðslustofnun í skilningi þessarar tilskipunar fyrir 25. desember 2007, geti í samræmi við gildandi landslög haldið áfram þeirri starfsemi í viðkomandi aðildarríki til 30. apríl 2011, án starfsleyfis skv. 10. gr. Þeim lögaðilum, sem ekki hafa fengið starfsleyfi innan þess tíma, skal bannað að veita greiðsluþjónustu í samræmi við 29. gr.
2.     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal veitt undanþága frá kröfunni í 10. gr. um starfsleyfi til fjármálastofnana sem hafa hafið starfsemi, sem tilgreind er í 4. lið í I. viðauka við tilskipun 2006/48/EB og uppfylla skilyrði e-liðar í fyrsta undirlið 1. mgr. 24. gr. þeirrar reglugerðar, í samræmi við landslög, fyrir 25. desember 2007. Þær skulu þó tilkynna lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkisins um þessa starfsemi fyrir 25. desember 2007. Enn fremur skulu í þeirri tilkynningu vera upplýsingar sem sýna fram á að þær hafi farið að a-, d-, g- til i-lið, k- og l-lið 5. gr. þessarar tilskipunar. Ef lögbær yfirvöld telja að farið hafi verið að þessum kröfum skulu viðkomandi fjármálastofnanir skráðar í samræmi við 13. gr. þessarar tilskipunar. Aðildarríki geta heimilað lögbærum yfirvöldum sínum að veita þessum fjármálastofnunum undanþágu frá kröfum skv. 5. gr.
3.     Aðildarríkin geta kveðið á um að þeim lögaðilum, sem um getur í 1. mgr., sé sjálfkrafa veitt starfsleyfi og þeir færðir inn í skrána, sem kveðið er á um í 13. gr., ef lögbær yfirvöld hafa þegar gögn um að farið sé þeim kröfum sem mælt er fyrir um í 5. og 10. gr. Áður en starfsleyfi er veitt skulu lögbær yfirvöld tilkynna það viðkomandi einingum.
4.     Með fyrirvara um tilskipun 2005/60/EB eða aðra viðeigandi löggjöf Bandalagsins geta aðildarríkin heimilað einstaklingum eða lögaðilum, sem hafa hafið starfsemi sem greiðslustofnun í skilningi þessarar tilskipunar í samræmi við landslög, sem voru í gildi fyrir 25. desember 2007, og uppfylla skilyrði fyrir undanþágu skv. 26. gr., að halda áfram þeirri starfsemi í viðkomandi aðildarríki á aðlögunartímabili sem ekki skal vera lengra en þrjú ár án undanþágu í samræmi við 26. gr. og án þess að hafa verið færðir inn í skrána sem kveðið er á um í 13. gr. Þeim lögaðilum, sem ekki hafa fengið undanþágu innan þess tíma, skal bannað að veita greiðsluþjónustu í samræmi við 29. gr.

89. gr.
Breyting á tilskipun 97/7/EB

Ákvæði 8. gr. tilskipunar 97/7/EB falli brott.

90. gr.
Breytingar á tilskipun 2002/65/EB

Tilskipun 2002/65/EB er hér með breytt sem hér segir:
1.     Eftirfarandi málsgrein bætist við í 4. gr.:
    „5.     Þegar tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/64/EB frá 13. nóvember 2007 um greiðsluþjónustu á innri markaðnum ( *) á einnig við koma 36., 37., 41. og 42. gr. þeirrar tilskipunar í stað ákvæða um upplýsingar skv. 1. mgr. 3. gr. þessarar tilskipunar, að undanskildum c- til g-lið 2. mgr., a-, d- og e-lið 3. mgr. og b-lið 4. mgr.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *)    Stjtíð. ESB L 319, 5.12.2007, bls. 1“,
2.     Ákvæði 8. gr. falli brott.

91. gr.
Breytingar á tilskipun 2005/60/EB

Tilskipun 2005/60/EB er hér með breytt sem hér segir:
1.     Í stað a-liðar 2. mgr. 3. gr. komi eftirfarandi:
    „a)    fyrirtæki sem ekki er lánastofnun og rekur starfsemi af einni eða fleiri gerðum, sem tilgreindar eru í 2. til 12. lið og 14. lið í I. viðauka við tilskipun 2006/48/EB, þ.m.t. starfsemi gjaldeyrismiðlana“,
2.     Í stað 1. og 2. mgr. 15. gr. komi eftirfarandi:
    „1.     Þegar aðildarríki veitir lána- eða fjármálastofnunum, sem vísað er til í 1. eða 2. lið 1. mgr. 2. gr. og sem staðsettar eru á yfirráðasvæði þess, leyfi til þess að hægt sé að reiða sig á þær sem þriðja aðila innanlands, skal það aðildarríki í öllum tilvikum leyfa stofnunum og einstaklingum, sem vísað er til í 1. mgr. 2. gr. og sem staðsettar eru á yfirráðasvæði þess, að viðurkenna og samþykkja, í samræmi við 14. gr., niðurstöðu úr könnun á áreiðanleika viðskiptamanna, sem mælt er fyrir um í a- til c-lið 1. mgr. 8. gr. og sem framkvæmd er í samræmi við þessa tilskipun af stofnun, sem um getur í 1. eða 2. lið 1. mgr. 2. gr. í öðru aðildarríki, að undanskildum gjaldeyrismiðlunum og greiðslustofnunum eins og þær eru skilgreindar í 4. mgr. 4. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/64/EB frá 13. nóvember 2007 um greiðsluþjónustu á innri markaðnum ( *), sem einkum veita þá greiðsluþjónustu sem tilgreind er í 6. lið viðaukans við þá tilskipun, þ.m.t. einstaklingar og lögaðilar sem njóta undanþágu skv. 26. gr. þeirrar tilskipunar, og uppfylla kröfur þær sem mælt er fyrir um í 16. og 18. gr. þessarar tilskipunar, þótt skjölin eða gögnin sem þessar kröfur eru grundvallaðar á séu annars konar en þau sem krafist er í því aðildarríki sem viðskiptavininum er vísað til.
    2.     Þegar aðildarríki veitir gjaldeyrismiðlunum, sem um getur í a-lið 2. mgr. 3. gr., og greiðslustofnunum, eins og þær eru skilgreindar í 4. mgr. 4. gr. tilskipunar 2007/64/EB, sem einkum veita þá greiðsluþjónustu sem tilgreind er í 6. lið viðaukans við þá tilskipun, og staðsettar eru á yfirráðasvæði þess, leyfi til þess að hægt sé að reiða sig á þær sem þriðja aðila innanlands skal það aðildarríki í öllum tilvikum leyfa þeim að viðurkenna og samþykkja, í samræmi við 14. gr. þessarar tilskipunar, niðurstöðu úr rannsókn sem framkvæmd er eftir kröfum um könnun á áreiðanleika viðskiptamanna sem settar eru fram í a- til c-lið 1. mgr. 8. gr. og framkvæmd hefur verið í samræmi við þessa tilskipun af sams konar stofnun í öðru aðildarríki og uppfyllir kröfurnar sem settar eru fram í 16. og 18. gr. þessarar tilskipunar, þótt skjölin eða gögnin, sem þessar kröfur eru grundvallaðar á, séu önnur en þau sem krafist er í því aðildarríki sem viðskiptamanninum er vísað til.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *)    Stjtíð. ESB L 319, 5.12.2007, bls. 1“,
3.     Annar málsliður 1. mgr. 36. gr. falli brott.

92. gr.
Breytingar á tilskipun 2006/48/EB

Ákvæðum I. viðauka við tilskipun 2006/48/EB er hér með breytt sem hér segir:
1.     Í stað 4. liðar komi eftirfarandi:
    „4)    Greiðsluþjónusta eins og hún er skilgreind í 3. mgr. 4. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2007/64/EB frá 13. nóvember 2007 um greiðsluþjónustu á innri markaðnum ( *).
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *)    Stjtíð. ESB L 319, 5.12.2007, bls. 1“,
2.     í stað 5. liðar komi eftirfarandi:
    „5)    Útgáfa og umsýsla vegna annarra greiðsluaðferða (t.d. ferðatékka og bankatékka) að því marki sem þessi starfsemi fellur ekki undir 4. lið“.

93. gr.
Niðurfelling

Tilskipun 97/5/EB er felld úr gildi frá og með 1. nóvember 2009.

94. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari fyrir 1. nóvember 2009. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær verða birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

95. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

96. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassborg 13. nóvember 2007.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
H.-G. PÖTTERING M. LOBO ANTUNES
forseti. forseti.


VIÐAUKI
GREIÐSLUÞJÓNUSTA (3. SKILGREINING Í 4. GR.)

1.    Þjónusta sem gerir kleift að setja reiðufé á greiðslureikning ásamt öllum aðgerðum sem nauðsynlegar eru til rekstrar greiðslureiknings.
2.    Þjónusta sem gerir kleift að taka reiðufé út af greiðslureikningi ásamt öllum aðgerðum sem nauðsynlegar eru til rekstrar greiðslureiknings.
3.    Framkvæmd greiðslna, þ.m.t. millifærsla fjár á greiðslureikning hjá greiðslumiðlun notanda eða hjá annarri greiðslumiðlun:
    –    framkvæmd beingreiðslna, þ.m.t. einstakar beingreiðslur,
    –    framkvæmd greiðslna með greiðslukorti eða sambærilegu tæki,
    –    framkvæmd á millifærslu fjármuna, þ.m.t. föst fyrirmæli.
4.    Framkvæmd greiðslna ef fjármunir eru tryggðir með lánalínu fyrir notanda greiðsluþjónustu:
    –    framkvæmd beingreiðslna, þ.m.t. einstakar beingreiðslur,
    –    framkvæmd greiðslna með greiðslukorti eða sambærilegu tæki,
    –    framkvæmd eignfærslna, þ.m.t. föst fyrirmæli.
5.    Útgáfa og/eða öflun greiðslumiðla.
6.    Peningasending.
7.    Framkvæmd greiðslna þegar samþykki greiðanda fyrir framkvæmd greiðslu er veitt fyrir tilstilli hvers konar fjarskipta, stafræns búnaðar eða upplýsingatæknibúnaðar og greiðslan fer til rekstraraðila fjarskiptakerfisins, upplýsingatæknikerfisins eða netkerfisins, sem er aðeins í hlutverki milliliðar milli notanda greiðsluþjónustu og afhendingaraðila á vörum og þjónustu.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 280, 23.10.2008, bls. 12, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 64, 23.10.2008, bls. 5.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 280, 23.10.2008, bls. 25, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 64, 23.10.2008, bls. 18.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. ESB L 319, 5.12.2007, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 4
(4)    Stjtíð. EB L 43, 14.2.1997, bls. 25.
Neðanmálsgrein: 5
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 6
(1)    Stjtíð. ESB C 109, 9.5.2006, bls. 10.
Neðanmálsgrein: 7
(2)    Álit Evrópuþingsins frá 24. apríl 2007 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB) og ákvörðun ráðsins frá 15. október 2007.
Neðanmálsgrein: 8
(3)    Stjtíð. EB L 43, 14.2.1997, bls. 25.
Neðanmálsgrein: 9
(4)    Stjtíð. EB L 344, 28.12.2001, bls. 13.
Neðanmálsgrein: 10
(5)    Stjtíð. EB L 365, 24.12.1987, bls. 72.
Neðanmálsgrein: 11
(6)    Stjtíð. EB L 317, 24.11.1988, bls. 55.
Neðanmálsgrein: 12
(7)    Stjtíð. EB L 208, 2.8.1997, bls. 52.
Neðanmálsgrein: 13
(1)    Stjtíð. ESB L 177, 30.6.2006, bls. 1. Tilskipuninni var breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2007/44/EB (Stjtíð. ESB L 247, 21.9.2007, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 14
(2)    Stjtíð. EB L 275, 27.10.2000, bls. 39.
Neðanmálsgrein: 15
(1)    Stjtíð. EB L 222, 14.8.1978, bls. 11. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/46/EB (Stjtíð. ESB L 224, 16.8.2006, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 16
(2)    Stjtíð. EB L 193, 18.7.1983, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2006/99/EB (Stjtíð. ESB L 363, 20.12.2006, bls. 137).
Neðanmálsgrein: 17
(3)    Stjtíð. EB L 372, 31.12.1986, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2006/46/EB.
Neðanmálsgrein: 18
(4)    Stjtíð. EB L 42, 12.2.1987, bls. 48. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/7/EB (Stjtíð. EB L 101, 1.4.1998, bls. 17).
Neðanmálsgrein: 19
(1)    Stjtíð. EB L 166, 11.6.1998, bls. 45.
Neðanmálsgrein: 20
(1)    Stjtíð. ESB L 124, 20.5.2003, bls. 36.
Neðanmálsgrein: 21
(2)    Stjtíð. ESB L 149, 11.6.2005, bls. 22.
Neðanmálsgrein: 22
(3)    Stjtíð. EB L 178, 17.7.2000, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 23
(4)    Stjtíð. EB L 271, 9.10.2002, bls. 16. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 2005/29/EB.
Neðanmálsgrein: 24
(1)    Stjtíð. EB L 281, 23.11.1995, bls. 31. Tilskipuninni var breytt með reglugerð (EB) nr. 1882/2003 (Stjtíð. ESB L 284, 31.10.2003, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 25
(2)    Stjtíð. EB C 27, 26.1.1998, bls. 34.
Neðanmálsgrein: 26
(3)    Stjtíð. EB L 144, 4.6.1997, bls. 19. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2005/29/EB.
Neðanmálsgrein: 27
(1)    Stjtíð. ESB L 309, 25.11.2005, bls. 15.
Neðanmálsgrein: 28
(2)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23. Ákvörðuninni var breytt með ákvörðun 2006/512/EB (Stjtíð. ESB L 200, 22.7.2006, bls. 11).
Neðanmálsgrein: 29
(3)    Stjtíð. ESB C 321, 31.12.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 30
(1)    Stjtíð. ESB L 345, 8.12.2006, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 31
(2)    Stjtíð. ESB L 157, 9.6.2006, bls. 87.
Neðanmálsgrein: 32
(1)    Stjtíð. EB L 243, 11.9.2002, bls. 1.