Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 135. máls.

Þskj. 148  —  135. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 32/2010, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 32/2010, frá 12. mars 2010, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/20/EB um tryggingu skipaeigenda gegn sjóréttarkröfum.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1.     Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 32/2010, frá 12. mars 2010, um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/20/EB um tryggingu skipaeigenda gegn sjóréttarkröfum.
    Tilskipun 2009/20/EB er hluti af Erika III, þriðja siglingaöryggispakka ESB. Markmiðið með umræddri tilskipun er að knýja skipaeigendur til að tryggja sig gegn tjóni sem þeir valda þriðja aðila með skipum sínum. Ljóst er að innleiðing tilskipunarinnar hér á landi kallar á breytingu á siglingalögum, nr. 34/1985, og var umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar því tekin með stjórnskipulegum fyrirvara.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2.     Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3.     Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/20/EB um tryggingu skipaeigenda gegn sjóréttarkröfum.
    Tilskipun 2009/20/EB er sem áður segir hluti af Erika III, þriðja siglingaöryggispakka ESB, en markmið hans eru að fyrirbyggja sjóslys og kveða á um tilteknar ráðstafanir þegar slys verða.
    Tilskipunin tekur til allra skipa sem eru 300 brúttótonn og stærri, með þeirri undantekningu að hún tekur ekki til herskipa, aðstoðarskipa sjóherja eða annarra skipa í eigu eða útgerð ríkis sem eru eingöngu starfrækt í þjónustu hins opinbera og ekki í atvinnuskyni. Markmið hennar er að knýja skipaeigendur til að tryggja sig gegn tjóni sem þeir valda þriðja aðila með skipum sínum. Með tilskipuninni er ætlað að stoppa í lagalegt gat í alþjóðlegu siglingalöggjöfinni, þar sem engin almenn skylda hvílir á skipaeigendum að þjóðarétti til að tryggja sig gegn tjóni sem þeir valda þriðja aðila. Tilskipunin á að vera innleidd í aðildarríkjum ESB fyrir 1. janúar 2012.
    Kveðið er á um það í tilskipuninni að öll skip sem sigla undir fána aðildarríkis í Evrópusambandinu, auk allra skipa sem koma í hafnir þeirra, þurfi að hafa ábyrgðartryggingu sem samsvarar efri mörkum þeirrar upphæðar sem mælt er fyrir um í bókun frá 1996 um breytingu á samningnum um takmörkun ábyrgðar á sjóréttarkröfum frá 19. nóvember 1976. Ísland er hvorki aðili að alþjóðasamningnum né bókuninni frá 1996, en hefur tekið upp ákvæði þeirrar síðarnefndu í IX. kafla siglingalaga, nr. 34/1985, sbr. lög nr. 159/2007 sem tóku gildi 1. janúar 2009. Í tilskipuninni er ekki kveðið á um bótagrundvöllinn og geta reglur er að því lúta verið mismunandi milli ríkja.
    Gerð er krafa um að um borð í hverju skipi sé skírteini, því til staðfestingar að tryggingaskyldunni sé fullnægt og er það á höndum hafnarríkiseftirlits að gera skoðun þess efnis hjá skipum sem koma til hafnar í viðkomandi ríki. Í tilskipuninni kemur fram hvaða upplýsingar skírteini þarf að innihalda svo það teljist vera gilt. Ef í ljós kemur að skip hefur ekki viðeigandi skírteini um borð er í tilskipuninni mælt fyrir um að ríki verði að hafa ákveðin úrræði að grípa til, en þau eru ekki nefnd sérstaklega. Það sem helst kemur til greina er kyrrsetning og brottvísun skips. Þá er einnig skylda á ríkjum að banna skipum að koma til hafnar ef ríki hefur fengið tilkynningu frá lögbæru yfirvaldi annars ríkis á svæðinu um að skírteini sé ekki um borð.
    Á það er bent að tilskipunin sé m.a. til hagsbóta fyrir skipaeigendur sem eru með fullnægjandi tryggingar, vegna þess að eftir að tilskipunin tekur gildi þurfa þeir ekki að vera í samkeppni við lítið eða ótryggð skip (substandard ships).

4.     Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Í 243. gr. siglingalaga, nr. 34/1985, er að finna heimild fyrir samgönguráðherra til þess að setja reglugerðir á sviði siglingalaga að því leyti sem er nauðsynlegt vegna evrópuréttarlegra skuldbindinga. Siglingalögin uppfylla hins vegar ekki kröfur tilskipunarinnar og þarf því að breyta þeim vegna innleiðingar á henni, m.a. vegna ákvæða hennar um tryggingaskírteini og efni þeirra, framkvæmd hafnarríkiseftirlits með skipum vegna tryggingaskírteina og viðurlög við brotum. Samgönguráðherra hyggst leggja fram frumvarp til breytingar á siglingalögum á yfirstandandi þingi, til innleiðingar á tilskipuninni. Gera má ráð fyrir að ákvæði frumvarpsins geti leitt til einhverra óverulegra hækkana á vátryggingariðgjöldum fiskiskipaflotans og annarra skipa sem eru 300 brúttótonn eða stærri.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 32/2010

frá 12. mars 2010

um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)         XIII. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 13/2010 frá 29. janúar 2010 ( 1 ).

2)         Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/20/EB frá 23. apríl 2009 um tryggingu skipaeigenda gegn sjóréttarkröfum ( 2 ).

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 56v (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/35/EB) í XIII. viðauka við samninginn:

„56w.          32009 L 0020: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/20/EB frá 23. apríl 2009 um tryggingu skipaeigenda gegn sjóréttarkröfum (Stjtíð. ESB L 131, 28.5.2009, bls. 128).“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2009/20/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi 13. mars 2010, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2009/20/EB
frá 23. apríl 2009
um tryggingu skipaeigenda gegn sjóréttarkröfum
(Texti sem varðar EES)

EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 2. mgr. 80. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ),
með hliðsjón af áliti svæðanefndarinnar ( 2 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Einn þáttur í stefnu Bandalagsins á sviði sjóflutninga er að auka gæði í kaupskipaútgerð með því að auka ábyrgð rekstraraðila.
2)          Letjandi ráðstafanir hafa nú þegar verið samþykktar samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/35/EB frá 7. september 2005 um mengun sem á upptök sín um borð í skipum og innleiðingu viðurlaga við brotum ( 4 ).
3)          Hinn 9. október 2008 samþykktu aðildarríkin yfirlýsingu þar sem þau viðurkenndu með samhljóða samþykki mikilvægi þess að öll aðildarríkin beiti bókuninni frá 1996 við samninginn um takmörkun ábyrgðar á sjóréttarkröfum frá 1976.
4)          Tryggingaskyldan skal gera kleift að tryggja fórnarlömbum meiri vernd. Hún skal einnig stuðla að því að útiloka undirmálsskip og gera kleift að endurvekja samkeppni milli rekstraraðila. Í ályktun sinni A.898(21) hvatti Alþjóðasiglingamálastofnunin aðildarríkin til þess að brýna fyrir skipaeigendum að hafa tilhlýðilegar tryggingar.
5)          Ef ekki er farið að ákvæðum þessarar tilskipunar skal bætt úr því. Í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/16/EB frá 23. apríl 2009 um hafnarríkiseftirlit (endurútgefin) ( 5 ) er þegar kveðið á um kyrrsetningu skipa ef skírteini, sem eiga að vera um borð, eru ekki fyrir hendi. Það er hins vegar við hæfi að kveða á um möguleikann á að vísa brott skipi sem er ekki með tryggingaskírteini. Við útfærslu brottvísunarinnar skal gert ráð fyrir því að hægt sé að ráða bót á ástandinu innan hæfilegs frests.
6)          Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiðum þessarar tilskipunar, þ.e. að innleiða og framkvæma viðeigandi ráðstafanir varðandi stefnumótun á sviði sjóflutninga, og þeim verður betur náð á vettvangi Bandalagsins vegna umfangs og áhrifa þessarar tilskipunar, er Bandalaginu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og fram kemur í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná þessum markmiðum.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.
Viðfangsefni

Í þessari tilskipun er kveðið á um reglur sem gilda um tiltekna þætti trygginga skipaeigenda gegn sjóréttarkröfum.

2. gr.
Gildissvið

1.     Tilskipun þessi gildir um skip sem eru 300 brúttótonn eða stærri.
2.     Tilskipun þessi gildir ekki um herskip, aðstoðarskip sjóherja eða önnur skip í eigu eða rekstri aðildarríkis og sem hið opinbera starfrækir ekki í ábataskyni.
3.     Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á fyrirkomulagið sem komið var á með þeim gerningum sem eru í gildi í hlutaðeigandi aðildarríki og skráð í viðaukann við þessa tilskipun.

3. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „skipaeigandi“: skráður eigandi hafskips eða sérhver annar einstaklingur, s.s. skipamiðlari þurrleiguskipa sem ber ábyrgð á rekstri skipsins,
b)    „trygging“: trygging með eða án sjálfsábyrgðar og samanstendur t.d. af vátryggingu af þeirri tegund sem meðlimir í International Group of P&I Clubs veita nú, og aðrar skilvirkar tegundir trygginga (þ.m.t. staðfest sjálfsáhættutrygging) ásamt fjárhagslegri tryggingu með svipuð skilyrði tryggingaverndar,
c)    „samningurinn frá 1996“: samsteyptur texti úr samningnum um takmörkun ábyrgðar á sjóréttarkröfum frá 1976 sem Alþjóðasiglingamálastofnunin (IMO) samþykkti eins og honum var breytt með bókuninni frá 1996.

4. gr.
Trygging gegn sjóréttarkröfum

1.     Sérhvert aðildarríki skal krefjast þess að eigendur skipa, sem sigla undir fána þess, séu með tryggingar sem taka til slíkra skipa.
2.     Sérhvert aðildarríki skal krefjast þess að eigendur skipa, sem sigla undir fána annars ríkis, séu tryggðir þegar slík skip koma í höfn sem fellur undir lögsögu aðildarríkisins. Þetta skal ekki koma í veg fyrir að aðildarríki geti, í samræmi við þjóðarétt, krafist þess að þessar skuldbindingar séu uppfylltar þegar slík skip eru starfrækt innan landhelgi þeirra.
3.     Tryggingin, sem um getur í 1. og 2. mgr., skal taka til sjóréttarkrafna sem eru háðar takmörkunum samkvæmt samningnum frá 1996. Tryggingafjárhæðin fyrir hvert og eitt skip í tengslum við hvert atvik skal vera jöfn viðeigandi hámarksfjárhæð fyrir takmörkun á ábyrgð, eins og mælt er fyrir um í samningnum frá 1996.

5. gr.
Skoðanir, uppfylling krafna, brottvísun úr höfnum og aðgangur meinaður að höfnum.

1.     Sérhvert aðildarríki skal sjá til þess að sérhver skoðun skips, sem er í höfn undir lögsögu þess í samræmi við tilskipun 2009/16/EB, feli í sér staðfestingu þess efnis að skírteinið, sem um getur í 6. gr., sé um borð.
2.     Ef skírteinið, sem um getur í 6. gr., er ekki um borð, getur lögbært yfirvald gefið út skipun um brottvísun skipsins sem skal tilkynnt framkvæmdastjórninni, hinum aðildarríkjunum og hlutaðeigandi fánaríki, sbr. þó tilskipun 2009/16/EB þar sem kveðið er á um kyrrsetningu skipa af öryggisástæðum. Þegar slík skipun um brottvísun er gefin út skulu öll aðildarríkin meina þessu skipi aðgangi að höfnum sínum þar til skipaeigandinn sýnir skírteinið sem um getur í 6. gr.

6. gr.
Tryggingaskírteini

1.     Tilvist tryggingarinnar, sem um getur í 4. gr., skal staðfest með einu eða fleiri skírteinum, sem tryggingafélagið gefur út, og eru geymd um borð í skipinu.
2.     Í skírteinunum, sem tryggingafélagið gefur út, skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram:
a)    nafn skipsins, IMO-númer þess og heimahöfn,
b)    nafn skipaeiganda og aðalstarfsstöð,
c)    tegund tryggingar og gildistími hennar,
d)    heiti tryggingafélagsins og aðalstarfsstöð þess, og, ef við á, sú starfsstöð sem gefur trygginguna út.
3.     Ef tungumálið, sem notað er, er hvorki enska, franska né spænska, þarf textinn einnig að vera þýddur á eitt þessara mála.

7. gr.
Viðurlög

Að því er varðar 1. mgr. 4. gr. skulu aðildarríki koma sér upp kerfi viðurlaga vegna brota á landsákvæðum, sem eru samþykkt samkvæmt þessari tilskipun, og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að slíkum viðurlögum sé beitt. Viðurlögin, sem mælt er fyrir um, skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og letjandi.

8. gr.
Skýrslur

Á þriggja ára fresti, og í fyrsta sinn fyrir 1. janúar 2015, skal framkvæmdastjórnin leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið um beitingu þessarar tilskipunar.

9. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari fyrir 1. janúar 2012. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi tekur til.

10. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi daginn eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

11. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassborg 23. apríl 2009.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
H.-G. Pöttering P. Necas
forseti. forseti.


VIÐAUKI

—    Alþjóðasamningur um einkaréttarlega ábyrgð vegna tjóns af völdum olíumengunar frá 1992.
—    Alþjóðasamningur um bótaskyldu og skaðabætur fyrir tjón í tengslum við flutning hættulegra og skaðvænlegra efna á sjó frá 1996, (HNS-samningurinn).
—    Alþjóðasamningur um einkaréttarlega ábyrgð vegna tjóns af völdum mengunar sem stafar frá eldsneytisolíu skipa (e. Bunker oil) frá 2001.
—    Naíróbísamþykktin um fjarlægingu skipsflaka (e. Wrecks Removal) frá 2007.
—    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 392/2009 frá 23. apríl 2009 um bótaábyrgð flutningsaðila vegna slysa við farþegaflutninga á sjó.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 101, 22.4.2010, bls. 23, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 19, 22.4.2010, bls. 25.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 131, 28.5.2009, bls. 128.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Engin stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. ESB C 318, 23.12.2006, bls. 195.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. ESB C 229, 22.9.2006, bls. 38.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 29. mars 2007 (Stjtíð. ESB C 27 E, 31. janúar 2008, bls. 166), sameiginleg afstaða ráðsins frá 9. desember 2008 (Stjtíð. ESB C 330 E, 30.12.2008, bls. 7) og afstaða Evrópuþingsins frá 11. mars 2009 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum).
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Stjtíð. ESB L 255, 30.9.2005, bls. 11.
Neðanmálsgrein: 8
(5)    Stjtíð. ESB L 131, 28.5.2009, bls. 57.