Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 199. máls.

Þskj. 216  —  199. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 10/2010 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 10/2010, frá 29. janúar 2010, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2008/961/EB um notkun útgefenda verðbréfa í þriðju löndum á tilteknum innlendum reikningsskilastöðlum þriðju landa og alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureikningsskila sinna.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1.     Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 10/2010, frá 29. janúar 2010, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2008/961/EB um notkun útgefenda verðbréfa í þriðju löndum á tilteknum innlendum reikningsskilastöðlum þriðju landa og alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureikningsskila sinna.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2.     Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3.     Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2008/961/EB um notkun útgefenda verðbréfa í þriðju löndum á tilteknum innlendum reikningsskilastöðlum þriðju landa og alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureikningsskila sinna.
    Samkvæmt ákvörðuninni skulu reikningsskilareglur Japans og Bandaríkjanna frá 1. janúar 2009 vera metnar að jöfnu við alþjóðlega reikningsskilastaðla í samræmi við IAS-staðal 1, framsetning reikningsskila. Tilmælin heimila félögum frá þriðju ríkjum einnig að semja ársreikning og árshlutareikning í samræmi við reikningsskilareglur Kína, Kanada, Suður-Kóreu eða Indlands, og gildir sú heimild til reikningsársins sem hefst 1. janúar 2012.
    Tilgangurinn með ákvörðuninni er að gera tiltekna reikningsskilastaðla þriðju ríkja jafngilda alþjóðlegum reikningsskilastöðum (IFRS) þar til innleiðing alþjóðlegu reikningsskilastaðlanna hefur farið fram í viðkomandi þriðju ríkjum.

4.     Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga, og ýmsum öðrum lögum varðandi endurskoðendur og skoðunarmenn, var upphaflega lagt fram á 136. löggjafarþingi 2008–2009 og á ný lítillega breytt á 138. löggjafarþingi. Hins vegar náðist á hvorugu af fyrrgreindum löggjafarþingum að afgreiða frumvarpið úr efnahags- og skattanefnd. Fyrirhugað er að leggja frumvarpið enn á ný fram á yfirstandandi löggjafarþingi. Í frumvarpinu er fyrirhugað að leggja til að ársreikningaskrá, sem hefur eftirlit með beitingu alþjóðlegu reikningsskilastaðlanna, skuli hafa eftirlit með því hvort reikningsskilareglur heimaríkis þriðju ríkja séu hliðstæðar alþjóðlegu reikningsskilastöðlunum. Með því móti verður sköpuð nauðsynleg lagastoð fyrir innleiðingu ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar 2008/961/EB.
    Ekki verður séð að um verði að ræða neinar efnahagslegar afleiðingar þess að gerðin verði innleidd í íslenskan rétt.
    Um stjórnsýslulegar afleiðingar gerðarinnar verður ekki séð að umfang þess eftirlits og vinnu sem gert er ráð fyrir af hálfu ársreikningaskrár verði slíkt að það kalli á sérstakar ráðstafanir hvað varðar skipulag eða starf stofnunarinnar. Þá vísast til 3. mgr. 61. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, þar sem segir að ársreikningaskrá fari með mat á því hvort kröfur samkvæmt ákvæðum ríkis utan Evrópska efnahagssvæðisins séu hliðstæðar ákvæðum laga um ársreikninga sem byggjast á tilskipun 2004/109/EB.

Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 10/2010

frá 29. janúar 2010

um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        IX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 141/2009 frá 4. desember 2009 ( 1 ).

2)        Fella ber inn í samninginn ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2008/961/EB frá 12. desember 2008 um notkun útgefenda verðbréfa í þriðju löndum á tilteknum innlendum reikningsskilastöðlum þriðju landa og alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureikningsskila sinna ( 2 ).

3)        Samkvæmt ákvæðum ákvörðunar 2008/961/EB fellur úr gildi ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2006/891/EB ( 3 ), en sú gerð hefur verið felld inn í samninginn og ber því að fella hana úr samningnum.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


Liður 23c (ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2006/891/EB) í IX. viðauka við samninginn hljóði svo:

32008 D 0961: Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2008/961/EB frá 12. desember 2008 um notkun útgefenda verðbréfa í þriðju löndum á tilteknum innlendum reikningsskilastöðlum þriðju landa og alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureikningsskila sinna (Stjtíð. ESB L 340, 19.12.2008, bls. 112).“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti ákvörðunar 2008/961/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi 30. janúar 2010, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.


Sameiginleg yfirlýsing samningsaðila

vegna ákvörðunar nr. 10/2010 um að fella ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2008/961/EB inn í samninginn


„Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2008/961/EB frá 12. desember 2008 um notkun útgefenda verðbréfa í þriðju löndum á tilteknum innlendum reikningsskilastöðlum þriðju landa og alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureikningsskila sinna hefur að geyma ákvæði þess efnis að góðar reikningsskilavenjur, sem tíðkast í tilteknum löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins, skuli teljast jafngildar EES-reglum og að útgefendum, sem starfa utan efnahagssvæðisins, skuli heimilt að haga árlegum og hálfsárslegum samstæðureikningsskilum í samræmi við góðar reikningsskilavenjur sem tíðkast í Alþýðulýðveldinu Kína, Kanada, Lýðveldinu Kóreu eða Lýðveldinu Indlandi. Ákvörðun þessi er felld inn í EES-samninginn með fyrirvara um gildissvið samningsins að því er varðar samskipti við ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins.“
Fylgiskjal II.


ÁKVÖRÐUN FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR
frá 12. desember 2008
um notkun útgefenda verðbréfa í þriðju löndum á tilteknum innlendum reikningsskilastöðlum      þriðju landa og alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureikningsskila sinna
(tilkynnt með númeri C(2008) 8218)
(Texti sem varðar EES)
(2008/961/EB)

FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUBANDALAGANNA HEFUR,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins,
með hliðsjón af tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/EB frá 15. desember 2004 um samhæfingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað og um breytingu á tilskipun 2001/34/EB ( 1 ), einkum 4. mgr. 23. gr.,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1606/2002 frá 19. júlí 2002 um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla ( 2 ) er þess krafist af félögum sem lúta lögum aðildarríkis, ef verðbréf þeirra eru skráð á skipulegan markað í öllum aðildarríkjum, að þau semji samstæðureikninga sína í samræmi við alþjóðlegu reikningsskilastaðlana, nú almennt nefndir alþjóðlegir reikningsskilastaðlar (IFRS-staðlar), sem voru innleiddir samkvæmt reglugerð (EB) nr. 1606/2002 (hér á eftir nefndir „innleiddir IFRS-staðlar“) fyrir hvert fjárhagsár sem hefst 1. janúar 2005 eða síðar.
2)          Í 4. og 5. gr. tilskipunar 2004/109/EB er kveðið á um að sé þess krafist að útgefandi geri samstæðureikningsskil, skulu árleg reikningsskil og hálfsársreikningsskil taka til þess háttar samstæðureikningsskila sem gerð eru í samræmi við innleidda IFRS-staðla. Jafnvel þótt þessar kröfur eigi bæði við um útgefendur í Bandalaginu og í þriðja landi er heimilt að veita útgefendum í þriðja landi undanþágu frá kröfunum, að því tilskildu að í lögum viðkomandi þriðja lands séu settar fram sambærilegar kröfur.
3)          Í ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2006/ 891/EB ( 3 ) er kveðið á um að útgefanda frá þriðja landi sé einnig heimilt að gera samstæðureikningsskil sín, að því er varðar fjárhagsár sem hefst fyrir 1. janúar 2009 í samræmi við alþjóðlegan reikningsskilastaðal sem Alþjóðareikningsskilaráðið (IASB) gefur út samkvæmt góðri reikningsskilavenju (GAAP) í Kanada, Japan eða Bandaríkjunum eða samkvæmt góðri reikningsskilavenju þriðja lands með fyrirvara um samleitni við alþjóðlegan reikningsskilastaðal.
4)          Reikningsskil, sem eru gerð í samræmi við IFRS-staðla, sem Alþjóðareikningsskilaráðið (IASB) gefur út, veita notendum þessara reikningsskila fullnægjandi upplýsingar til að þeir geti lagt upplýst mat á eignir og skuldir útgefanda, fjárhagsstöðu hans, hagnað og tap og framtíðarhorfur. Því er rétt að heimila útgefendum í þriðja landi að nota IFRS-staðla, sem Alþjóðareikningsskilaráðið gefur út, innan Bandalagsins.
5)          Í því skyni að meta hvort góðar reikningsskilavenjur í þriðja landi séu jafngildar innleiddum IFRS-stöðlum er, í reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1569/2007 frá 21. desember 2007 um að koma á fót aðferð til að ákvarða jafngildi reikningsskilastaðla, sem útgefendur verðbréfa í þriðja landi beita samkvæmt tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/EB og 2004/109/EB ( 4 ), kveðið á um skilgreiningu á jafngildi og aðferð til að ákvarða jafngildi góðra reikningsskilavenja í þriðja landi. Í reglugerð (EB) nr. 1569/2007 er einnig gerð krafa um að ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar heimili útgefendum í Bandalaginu að nota IFRS-staðla sem voru innleiddir samkvæmt reglugerð (EB) nr. 1606/ 2002 í hlutaðeigandi þriðja landi.
6)          Í desember 2007 hafði framkvæmdastjórnin samráð við samstarfsnefnd evrópskra verðbréfaeftirlitsaðila (CESR) um tæknilegt mat á jafngildi góðra reikningsskilavenja í Bandaríkjunum, Kína og Japan. Í mars 2008 jók framkvæmdastjórnin þetta samráð þannig að það tæki til góðra reikningsskilavenja í Suður- Kóreu, Kanada og Indlandi.
7)          Samstarfsnefnd evrópskra verðbréfaeftirlitsaðila mælti með því, í ráðleggingum sínum í mars, maí og október 2008, að góðar reikningsskilavenjur í Bandaríkjunum og Japan yrðu viðurkenndar sem jafngildar IFRS- stöðlum til nota innan Bandalagsins. Enn fremur mælti nefndin með því að reikningsskil, sem gerð eru í samræmi við góðar reikningsskilavenjur í Kína, Kanada, Suður-Kóreu og á Indlandi, yrðu samþykkt innan Bandalagsins tímabundið, þó eigi lengur en til 31. desember 2011.
8)          Reikningsskilaráð Bandaríkjanna og Alþjóðareikningsskilaráðið undirrituðu á árinu 2006 viljayfirlýsingu þar sem þau áréttuðu það markmið sitt að tryggja samleitni góðra reikningsskilavenja í Bandaríkjunum og IFRS- staðla og lögðu drög að vinnuáætlun í því skyni. Með vinnuáætlun þessari var unnt að eyða margvíslegum og miklum mun sem var á góðum reikningsskilavenjum í Bandaríkjunum og IFRS-stöðlum. Í kjölfar viðræðna framkvæmdastjórnarinnar og verðbréfa- og kaupþingsnefndar Bandaríkjanna er að auki ekki lengur gerð krafa um afstemmingar af hálfu útgefenda í Bandalaginu sem gera reikningsskil sín í samræmi við IFRS-staðla sem Alþjóðareikningsskilaráðið gefur út. Því er rétt að líta svo á að góðar reikningsskilavenjur í Bandaríkjunum teljist jafngildar innleiddum IFRS-stöðlum frá 1. janúar 2009.
9)          Reikningsskilaráð Japans og Alþjóðareikningsskilaráðið tilkynntu í ágúst 2007 um samkomulag sín á milli um að hraða samleitnivinnunni með því að eyða helsta mun sem er á góðum reikningsskilavenjum í Japan og IFRS-stöðlum eigi síðar en 2008 og öðrum mun fyrir árslok 2011. Japönsk yfirvöld gera ekki kröfu um afstemmingu af hálfu útgefenda í Bandalaginu sem gera reikningsskil sín samkvæmt IFRS-stöðlum. Því er rétt að líta svo á að góðar reikningsskilavenjur í Japan teljist jafngildar innleiddum IFRS-stöðlum frá 1. janúar 2009.
10)          Skv. 4. gr. reglugerðar (EB) nr. 1569/2007 má heimila útgefendum í þriðja landi, á aðlögunartímabili, sem lýkur eigi síðar en 31. desember 2011, að nota góðar reikningsskilavenjur annars þriðja lands, sem vinnur að samleitni við IFRS-staðla eða hefur skuldbundið sig til að innleiða þá eða sem hefur komist að samkomulagi við Bandalagið um gagnkvæma viðurkenningu, fyrir 31. desember 2008.
11)          Reikningsskilastaðlar fyrir fyrirtæki í Kína hafa að verulegu leyti verið samræmdir IFRS- stöðlum og taka til nær allra efnisatriða núgildandi IFRS-staðla. Þar eð reikningsskilastöðlunum fyrir fyrirtæki hefur hins vegar aðeins verið beitt frá 2007 þarf að færa frekari sönnur fyrir því að þeim sé rétt beitt.
12)          Reikningsskilaráð Kanada skuldbatt sig opinberlega í janúar 2006 til að innleiða IFRS- staðla eigi síðar en 31. desember 2011 og hefur gripið til skilvirkra ráðstafana til að tryggja tímanleg og algjör umskipti yfir í IFRS-staðla eigi síðar en þann dag.
13)          Fjármálaeftirlitsnefnd Suður-Kóreu og Reikningsskilastofnun Suður-Kóreu skuldbundu sig opinberlega í mars 2007 til að innleiða IFRS- staðla eigi síðar en 31. desember 2011 og hafa gripið til skilvirkra ráðstafana til að tryggja tímanleg og algjör umskipti yfir í IFRS-staðla fyrir þann dag.
14)          Indversk stjórnvöld og samtök löggiltra endurskoðenda á Indlandi skuldbundu sig opinberlega í júlí 2007 til að innleiða IFRS-staðla eigi síðar en 31. desember 2011 og hafa gripið til skilvirkra ráðstafana til að tryggja tímanleg og algjör umskipti yfir í IFRS-staðla eigi síðar en þann dag.
15)          Þótt ekki skuli taka endanlega ákvörðun um jafngildi reikningsskilastaðla, sem verið er að samræma IFRS-stöðlum, fyrr en lagt hefur verið mat á það hvernig félög og endurskoðendur beita þessum reikningsskilastöðlum er mikilvægt að styðja viðleitni þeirra landa sem hafa skuldbundið sig til að samræma reikningsskilastaðla sína IFRS-stöðlum, svo og þeirra landa er hafa skuldbundið sig til að innleiða IFRS-staðla. Til samræmis við það er rétt að heimila útgefendum í þriðja landi að gera árleg reikningsskil sín og hálfsársreikningsskil innan Bandalagsins í samræmi við góðar reikningsskilavenjur í Kína, Kanada, Suður-Kóreu eða Indlandi á aðlögunartímabili sem er ekki lengra en þrjú ár.
16)          Framkvæmdastjórnin skal, með tækniaðstoð samstarfsnefndar evrópskra verðbréfaeftirlitsaðila, halda áfram að fylgjast með þróun þessara góðu reikningsskilavenja þriðja lands með tilliti til innleiddra IFRS-staðla.
17)          Hvetja skal lönd til að innleiða IFRS-staðla. Evrópusambandið getur ákvarðað að ekki sé lengur heimilt að nota innlenda staðla, sem hafa verið skilgreindir sem jafngildir, við samantekt á upplýsingum sem krafist er samkvæmt tilskipun 2004/109/EB eða reglugerð (EB) nr. 809/2004 ( 1 ) um framkvæmd tilskipunar 2003/71/EB, ef hlutaðeigandi lönd hafa innleitt IFRS-staðla sem einu reikningsskilastaðla sína.
18)          Vegna lagalegs skýrleika og gagnsæis ber því að skipta út ákvörðun 2006/891/EB.
19)          Ráðstafanirnar, sem kveðið er á um í þessari ákvörðun, eru í samræmi við álit samstarfsnefndar evrópskra eftirlitsaðila á verðbréfamarkaði.
SAMÞYKKT ÁKVÖRÐUN ÞESSA:

1. gr.

Frá 1. janúar 2009 skal, til viðbótar við þá IFRS- staðla sem innleiddir eru samkvæmt reglugerð (EB) nr. 1606/2002, að því er varðar árleg samstæðureikningsskil og hálfsárssamstæðureikningsskil, telja eftirfarandi staðla jafngilda IFRS-stöðlum sem innleiddir eru samkvæmt reglugerð (EB) nr. 1606/2002:
a)    alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS-staðla), að því tilskildu að í skýringum með endurskoðuðum reikningsskilum sé ótvíræð og afdráttarlaus yfirlýsing um að í þeim reikningsskilum sé farið að IFRS-stöðlum í samræmi við IAS-staðal 1, framsetning reikningsskila,
b)    góðar reikningsskilavenjur í Japan,
c)    góðar reikningsskilavenjur í Bandaríkjum Norður-Ameríku.
Fram að fjárhagsárum sem hefjast 1. janúar 2012 skal útgefanda frá þriðja landi heimilað að gera árleg samstæðureikningsskil og hálfsárssamstæðureikningsskil í samræmi við góðar reikningsskilavenjur Alþýðulýðveldisins Kína eða Kanada, Lýðveldisins Suður-Kóreu eða Lýðveldisins Indlands.

1. gr. a

Framkvæmdastjórnin skal, með tækniaðstoð samstarfsnefndar evrópskra verðbréfaeftirlitsaðila, halda áfram að fylgjast með viðleitni þriðju landa til að skipta yfir í IFRS-staðla og eiga virk skoðanaskipti við yfirvöld meðan á samleitniferlinu stendur. Framkvæmdastjórnin skal, á árinu 2009, leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og evrópsku verðbréfanefndina (ESC) um framvindu þessa. Framkvæmdastjórnin skal jafnframt leggja, án tafar, skýrslu fyrir ráðið og Evrópuþingið ef þær aðstæður koma upp í framtíðinni að útgefendum í Evrópusambandinu verður gert að samræma reikningsskil sín innlendum, góðum reikningsskilavenjum í viðkomandi erlendri lögsögu.

1. gr. b

Dagsetningar þær sem þriðju lönd hafa opinberlega tilkynnt um í tengslum við skipti yfir í IFRS-staðla, skulu vera viðmiðunardagsetningar fyrir afnám jafngildisviðurkenningar að því er varðar þessi þriðju lönd.

2. gr.

Ákvörðun nr. 2006/891/EB falli úr gildi frá og með 1. janúar 2009.

3. gr.

Ákvörðun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Brussel 12. desember 2008.
    Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,
    
Charlie McCREEVY
     framkvæmdastjóri.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 62, 11.3.2010, bls. 35, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 12, 11.3.2010, bls. 34.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 340, 19.12.2008, bls. 112.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. ESB L 343, 8.12.2006, bls. 96.
Neðanmálsgrein: 4
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 5
(1)    Stjtíð. ESB L 390, 31.12.2004, bls. 38.
Neðanmálsgrein: 6
(2)    Stjtíð. EB L 243, 11.9.2002, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 7
(3)    Stjtíð. ESB L 343, 8.12.2006, bls. 96.
Neðanmálsgrein: 8
(4)    Stjtíð. ESB L 340, 22.12.2007, bls. 66.
Neðanmálsgrein: 9
(1)    Stjtíð. ESB L 149, 30.4.2004, p. 1. Leiðrétt með Stjtíð. ESB L 215, 16.6.2004, bls. 3.