Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 235. máls.

Þskj. 266  —  235. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 37/2010 um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 37/2010, frá 12. mars 2010, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/109/EB frá 16. september 2009 um breytingu á tilskipunum ráðsins 77/91/EBE, 78/855/EBE og 82/891/EBE og tilskipun 2005/56/EB að því er varðar kröfur um skýrslugjöf og upplýsingar við samruna og skiptingu.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1.     Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 37/2010, frá 12. mars 2010, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/109/EB frá 16. september 2009 um breytingu á tilskipunum ráðsins 77/91/EBE, 78/855/EBE og 82/891/EBE og tilskipun 2005/56/EB að því er varðar kröfur um skýrslugjöf og upplýsingar við samruna og skiptingu.
    Tilskipun 2009/109/EB er ætlað að draga úr stjórnsýslubyrðum, einkum varðandi birtingu og skjöl af hálfu hlutafélaga. Innleiðing hennar kallar á lagabreytingar hér á landi og var umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar því tekin með stjórnskipulegum fyrirvara.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2.     Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3.     Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/109/EB frá 16. september 2009 um breytingu á tilskipunum ráðsins 77/91/EBE, 78/855/EBE og 82/891/EBE og tilskipun 2005/56/EB að því er varðar kröfur um skýrslugjöf og upplýsingar við samruna og skiptingu.
    Markmiðið með tilskipuninni, sem innleiða þarf í íslenskan rétt fyrir júnílok 2011, er að draga úr stjórnsýslubyrðum í hlutafélögum en á þeim hvíla ýmsar upplýsingaskyldur. Dregið er úr þeim skyldum við vissar aðstæður hvað snertir gerð skýrslna og skjala og birtingu þeirra. Er aukin heimild til að nýta m.a. vef félaga.
    Tilskipunin á rætur að rekja til ákvörðunar Evrópusambandsins frá árinu 2007 um að draga úr stjórnsýslubyrðum hjá félögum með ýmsum hætti til ársins 2012 í því skyni að auka samkeppnishæfni félaga í sambandinu. Áherslur þessar á breytingar má jafnvel rekja til Lissabonáætlunarinnar frá 2000 um vöxt í sambandinu. Umbreytingarnar hafa áhrif á almennar reglur um félög en einnig ársreikninga og endurskoðun. Leitast er við að gæta þess að þær hafi ekki neikvæð áhrif með tilliti til verndarhlutverks þeirra.
    Í inngangi að tilskipuninni er m.a. greint frá því að draga megi úr upplýsingaskyldum í félögum varðandi skýrslur og skjöl ef allir hluthafar samþykkja í ákveðnum tilvikum. Þetta merkir að reglurnar eiga helst við í félögum með fáa hluthafa. Þá er greint frá því að möguleiki sé á að birta drög að samrunaáætlun og önnur skjöl á vef félaga og jafnvel öðrum vefjum í stað hefðbundinnar birtingar í hlutafélagaskrá. Gæta þarf að hagsmunum annarra aðila en hluthafa, t.d. lánardrottna og stjórnvalda. Vikið er að minni kröfum en nú eru gerðar varðandi ákveðnar skýrslur sérfræðinga, við samruna móðurfélaga og dótturfélaga og í markaðsfélögum þar sem hálfsársuppgjör er gert.

4.     Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Vegna innleiðingar ákvæða tilskipunarinnar í íslenskan rétt er stefnt að því að breyta ákvæðum í lögum um 2/1995, um hlutafélög, með síðari breytingum. Jafnframt er umfram skyldu, en í samræmi við núverandi löggjöf, gert ráð fyrir sams konar breytingum á lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög, með síðari breytingum. Fyrirhugað er að efnahags- og viðskiptaráðherra leggi fram lagafrumvarp þessa efnis á yfirstandandi þingi.
    Breytingarnar samkvæmt fyrirhuguðu frumvarpi snúa að ákvæðum beggja laga um innlendan samruna og skiptingu, svo og millilandasamruna og millilandaskiptingu, en eðlilegt hefur þótt að svipaðar reglur gildi um hlutafélög, sem tilskipunin tekur til, og einkahlutafélög. Kjarni reglnanna í löggjöfinni eru ákvæðin um samruna. Svipuð ákvæði eru um skiptingu eftir því sem við á. Ákvæðin um millilandasamruna og millilandaskiptingu byggjast síðan mjög á ákvæðunum um innlendan samruna og skiptingu.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 37/2010

frá 12. mars 2010

um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)         XXII. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 15/2010 frá 29. janúar 2010 ( 1 ).

2)         Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/109/EB frá 16. september 2009 um breytingu á tilskipunum ráðsins 77/91/EBE, 78/855/EBE og 82/891/ EBE og tilskipun 2005/56/EB að því er varðar kröfur um skýrslugjöf og upplýsingar við samruna og skiptingu ( 2 ).

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


Ákvæði XXII. viðauka við samninginn breytist sem hér segir:

1.         Eftirfarandi undirliður bætist við í 2. lið (önnur tilskipun ráðsins 77/91/EBE), 3. lið (þriðja tilskipun ráðsins 78/855/EBE) og 5. lið (sjötta tilskipun ráðsins 82/891/EBE):

        „–     32009 L 0109: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/109/EB frá 16. september 2009 (Stjtíð. ESB L 259, 2.10.2009, bls. 14).“

2.         Eftirfarandi bætist við í lið 10e (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/56/EB):

        „eins og henni var breytt með:

        –          32009 L 0109: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/109/EB frá 16. september 2009 (Stjtíð. ESB L 259, 2.10.2009, bls. 14).“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2009/109/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi 13. mars 2010, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.
Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2009/109/EB
frá 16. september 2009
um breytingu á tilskipunum ráðsins 77/91/EBE, 78/855/EBE og 82/891/EBE og tilskipun 2005/56/EB að því er varðar kröfur um skýrslugjöf og upplýsingar við samruna og skiptingu


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum g-lið 2. mgr. 44. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 2 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Leiðtogaráðið samþykkti á fundi sínum 8. og 9. mars 2007 að dregið skuli úr stjórnsýsluálagi á fyrirtæki um 25% fyrir 2012 til að auka samkeppnishæfni fyrirtækja í Bandalaginu.
2)          Félagaréttur hefur verið skilgreindur sem svið þar sem lagðar eru fjölmargar upplýsingaskyldur á félög en sumar þeirra virðast úreltar eða óhóflegar. Því er rétt að endurskoða þessar skyldur og, eftir því sem við á, draga úr stjórnsýsluálagi sem er lagt á félög í Bandalaginu að því lágmarki sem þörf er á til að vernda hagsmuni annarra hagsmunaaðila.
3)          Gildissvið annarrar tilskipun ráðsins 77/91/ EBE frá 13. desember 1976 um samræmingu verndarráðstafana, sem ætlað er að vera jafngildar í Bandalaginu, og aðildarríki krefjast þegar almenningshlutafélög eru stofnuð og um tilskilið hlutafé og heimilaðar breytingar á hlutafé þeirra í skilningi annarrar málsgreinar 58. gr. sáttmálans, til að vernda hagsmuni félagsmanna og annarra ( 3 ), og þriðju tilskipunar ráðsins 78/855/EBE frá 9. október 1978 um samruna almenningshlutafélaga, byggð á g- lið 3. mgr. 54. gr. sáttmálans ( 4 ), skulu leiðrétt í því skyni að taka mið af breytingum á finnskum félagarétti.
4)          Á vefsetrum félaga eða öðrum vefsetrum gefst í tilteknum tilvikum annar kostur á birtingu en með félagaskrám. Aðildarríki skulu geta tilnefnt önnur vefsetur sem félög geta notað sér að kostnaðarlausu til slíkrar birtingar, s.s. vefsetur viðskiptasamtaka eða verslunarráða eða miðlægan, rafrænan verkvang sem um getur í fyrstu tilskipun ráðsins 68/151/EBE frá 9. mars 1968 um samræmingu verndarráðstafana, sem ætlað er að vera jafngildar í Bandalaginu ( 5 ) og aðildarríki krefjast af félögum í skilningi annarrar málsgreinar 58. gr. sáttmálans, til að vernda hagsmuni félagsmanna og annarra. Þar sem unnt er að nota vefsetur fyrirtækja eða önnur vefsetur til birtingar samrunaáætlana [áður drög að samrunasamningi] og/eða skiptingaráætlana [áður drög að skiptingarsamningi] og annarra skjala, sem gera þarf aðgengileg hluthöfum og lánveitendum meðan á vinnslu stendur, skulu öryggiskröfur uppfylltar að því er varðar vernd vefsetursins og áreiðanleika skjala.
5)          Kröfur varðandi upplýsingar um samrunaáætlanir vegna samruna yfir landamæri samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/56/ESB frá 26. október 2005 um samruna félaga með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri ( 6 ) skulu samsvara þeim kröfum sem gilda um samruna og skiptingu innan hvers lands samkvæmt tilskipun 78/855/EBE og sjöttu tilskipun ráðsins 82/891/EBE frá 17. desember 1982, á grundvelli g-liðar 3. mgr. 54. gr. sáttmálans um skiptingu hlutafélaga ( 1 ).
6)          Aðildarríkin skulu geta ákvarðað að ekki þurfi að fara að ítarlegum skýrslu- eða upplýsingakröfum að því er varðar samruna eða skiptingu félaga, sem mælt er fyrir um í 9. grein og c-lið 1. mgr. 11.gr. tilskipunar 78/855/EBE og í 7. grein og c-lið 1. mgr. 9. gr. tilskipunar 82/891/ EBE, ef allir hluthafar félaganna, sem eru hluti af samruna eða skiptingu, eru sammála um að óþarft sé að fara að ákvæðunum.
7)          Allar breytingar á tilskipunum 78/855/EBE og 82/891/EBE, þar sem slíkt samkomulag hluthafa er heimilað, skulu ekki hafa áhrif á það fyrirkomulag sem er til varnar hagsmunum lánveitenda viðkomandi félaga og þær reglur sem miða að því að tryggja að starfsfólki viðkomandi félaga og opinberra yfirvalda, s.s. skattyfirvalda sem hafa eftirlit með samruna eða skiptingu í samræmi við gildandi lög Bandalagsins, séu veittar nauðsynlegar upplýsingar.
8)          Ekki er nauðsynlegt að krefjast reikningsskila þar eð útgefandi verðbréfa, sem eru skráð á skipulegum markaði, birtir hálfsársreikningsskil í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/109/EB frá 15. desember 2004 um samhæfingu krafna um gagnsæi í tengslum við upplýsingar um útgefendur verðbréfa sem eru skráð á skipulegan markað ( 2 ).
9)          Oft er ekki þörf á skýrslu óháðs sérfræðings, eins og kveðið er á um í tilskipun 77/91/EBE, þegar einnig þarf að taka saman skýrslu óháðs sérfræðings til verndar hagsmunum hluthafa eða lánveitenda í tengslum við samruna eða skiptingu. Í þeim tilvikum skulu aðildarríkin því eiga kost á að leysa fyrirtæki undan tilkynningarskyldu tilskipunar 77/91/EBE eða veita heimild til að sami sérfræðingur taki saman báðar skýrslurnar.
10)          Samruni móðurfélaga og dótturfélaga þeirra hefur takmörkuð efnahagsleg áhrif á hluthafa og lánveitendur þegar eignarhlutdeild móðurfélags í dótturfélagi er 90% eða meira af hlutabréfum og öðrum verðbréfum sem veita atkvæðisrétt í dótturfélaginu. Hið sama gildir um tilteknar skiptingar, einkum þegar félögum er skipt upp í ný félög sem eru í eigu hluthafa í hlutfalli við réttindi þeirra í félaginu sem er skipt upp. Í þeim tilvikum skal draga úr þeirri tilkynningarskyldu sem mælt er fyrir um í tilskipunum 78/855/EBE og 82/891/EBE.
11)          Þar sem aðildarríkin geta ekki náð markmiðum þessarar tilskipunar á fullnægjandi hátt, nánar tiltekið að draga úr stjórnsýsluálagi, einkum að því er varðar birtingar- og skráningarskuldbindingar hlutafélaga í Bandalaginu, á fullnægjandi hátt og því verður, vegna þess hve aðgerðirnar eru umfangsmiklar og hafa víðtæk áhrif, betur náð á vettvangi Bandalagsins, er Bandalaginu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna, eins og hún er sett fram í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná þessu markmiði.
12)          Því ber að breyta tilskipunum 77/91/EBE, 78/ 855/EBE, 82/891/EBE og 2005/56/EB til samræmis við það.
13)          Í samræmi við 34. lið samstarfssamningsins milli stofnana um betri lagasetningu ( 3 ) eru aðildarríkin hvött til að taka saman, bæði í eigin þágu og í þágu Bandalagsins, eigin töflur sem sýna, eftir því sem við verður komið, samsvörun milli þessarar tilskipunar og ráðstafana til að lögleiða hana.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.
Breytingar á tilskipun 77/91/EBE

Tilskipun 77/91/EBE er breytt sem hér segir:
1.    Í stað fjórtánda undirliðar 1. mgr. 1. gr. komi eftirfarandi:
    „—    í Finnlandi: julkinen osakeyhtiö/publikt aktiebolag,“.
2.    Í 10.gr. bætist eftirfarandi málsgrein við:
    „5. Aðildarríki geta ákveðið að beita ekki þessari grein við stofnun nýs félags með samruna eða skiptingu þegar skýrsla óháðs sérfræðings um samrunaáætlun eða skiptingaráætlun er tekin saman.
    Þegar aðildarríki ákveða að beita þessari grein, í þeim tilvikum sem um getur í fyrsta undirlið, geta þau kveðið á um að sami sérfræðingur eða sérfræðingar taki saman skýrsluna samkvæmt þessari grein og skýrslu óðháðs sérfræðings um áætlun um samruna eða skiptingu.“
3.    Í stað 3. mgr. 27. gr. komi eftirfarandi:
    „3. Aðildarríki mega ákveða að beita ekki 2. mgr. þegar um er að ræða hækkun á skráðu hlutafé í þeim tilgangi að löggilda samruna, skiptingar eða almennt útboð um kaup eða skipti á hlutabréfum og að greiða hluthöfum félagsins, sem verið er að yfirtaka eða skipta, eða sem hið almenna útboð snýst um fyrir kaupin eða skiptin á hlutabréfunum.
    Þegar um er að ræða samruna eða skiptingu, skulu aðildarríki samt sem áður einungis beita fyrsta undirlið þegar skýrsla óháðs sérfræðings um samrunaáætlun eða skiptingaráætlun er tekin saman.
    Þegar aðildarríki ákveða að beita 2. grein, þegar um samruna eða skiptingu er að ræða, geta þau kveðið á um að sami sérfræðingur eða sérfræðingar taki saman skýrsluna samkvæmt þessari grein og skýrslu óðháðs sérfræðings um áætlun um samruna eða skiptingu.“

2. gr.
Breytingar á tilskipun 78/855/EBE

Tilskipun 78/855/EBE er breytt sem hér segir:
1.    Í stað fjórtánda undirliðar 1. mgr. 1. gr. komi eftirfarandi:
    „—    í Finnlandi: julkinen osakeyhtiö/publikt aktiebolag“,
2.    Eftirfarandi málsgreinar bætast við 6. gr.:
    „Samrunafélag skal undanþegið þeim birtingarkröfum sem mælt er fyrir um í 3. grein tilskipunar 68/151/EBE ef það, á samfelldu tímabili, sem hefst a.m.k. einum mánuði fyrir daginn þegar halda skal hluthafafund, þar sem taka á ákvörðun um samrunaáætlun, og lýkur ekki fyrr en þeim fundi lýkur, gerir áætlunina um samrunann aðgengilega almenningi á vefsetri sínu endurgjaldslaust. Aðildarríkin skulu ekki nota þessa undanþágu á aðrar kröfur eða takmarkanir en þær sem eru nauðsynlegar til að tryggja öryggi vefsetursins og sannvottaðan uppruna skjala og geta einungis lagt slíkar kröfur eða takmarkanir hlutfallslega á til að ná fram þessum markmiðum.
    Þrátt fyrir aðra málsgrein geta aðildarríki krafist að útgáfa fari fram fyrir milligöngu miðlægs, rafræns verkvangs sem um getur í 4. mgr. 3. greinar í tilskipun 68/151/EBE. Aðildarríkin geta að öðrum kosti krafist þess að slík útgáfa fari fram á öðru vefsetri sem þau tilnefna í þessum tilgangi. Nýti aðildarríkin sér einn af þessum möguleikum skulu þau tryggja að ekki sé innheimt sérstakt gjald af félögum fyrir slíka birtingu.
    Ef notað er annað vefsetur en miðlæga, rafræna verkvanginn skal birta vísun sem veitir aðgang að því vefsetri á miðlæga, rafræna verkvangnum a.m.k. einum mánuði fyrir daginn sem hluthafafundur er haldinn. Í þeirri vísun skal tilgreina birtingardag samrunaáætlunar á vefsetrinu og skal hún vera aðgengileg almenningi án endurgjalds. Ekki skal innheimta sérstakt gjald af félögum fyrir slíka birtingu.
    Bannið, sem fyrirbyggir innheimtu sérstaks gjalds af félögum vegna birtingar, sem mælt er fyrir um í þriðju og fjórðu málsgrein, skal ekki hafa áhrif á getu aðildarríkja til að velta kostnaði vegna miðlægs, rafræns verkvangs yfir á félög.
    Aðildarríki geta krafist þess að félög varðveiti upplýsingarnar í ákveðinn tíma eftir hluthafafundinn á vefsetri sínu, eða eftir atvikum, á miðlægum, rafrænum verkvangi eða á öðru vefsetri sem hlutaðeigandi aðildarríki tilnefnir. Aðildarríkin geta ákvarðað afleiðingar tímabundinnar röskunar á aðgangi að vefsetri eða að miðlæga, rafræna verkvangnum sem m.a. má rekja til tæknilegra þátta.“
3.    Í 8. gr. bætist eftirfarandi málsgrein við:
    „Að því er varðar b-lið 1. mgr. gilda 2., 3. og 4. mgr. 11. gr.“;
4.    Í stað 9. gr. komi eftirfarandi:
    „9. gr.
    1.     Stjórn eða framkvæmdastjórn hvers samrunafélaganna skal semja nákvæma skriflega skýrslu til skýringar á samrunaáætlun og með lagalegum og fjárhagslegum ástæðum samrunans, einkum á skiptihlutfalli hlutabréfa.
    Hafi sérstök vandamál komið upp við verðmætamat skal einnig fjallað um þau í skýrslunni.
    2.     Stjórn eða framkvæmdastjórn hvers félags, sem á hlut að máli, skal upplýsa hluthafafund félags og stjórn eða framkvæmdastjórn hinna félaganna, sem hlut eiga að máli, til að hin síðarnefndu geti gefið hluthafafundi upplýsingar um breytingar, sem skipta máli, á eignum og skuldum frá því að samrunaáætlanir eru samdar og þar til þeir hluthafafundir eru haldnir sem ákvarða skulu um samrunaáætlanirnar.
    3.     Aðildarríkin geta ákveðið að skýrslunnar, sem um getur í 1. mgr., og/eða upplýsinganna, sem um getur í 2. mgr,. sé ekki krafist ef allir hluthafar og eigendur annarra verðbréfa, sem veita atkvæðisrétt í hverju og einu þeirra félaga sem tekur þátt í samrunanum, eru sammála um það.“,
5.     Ákvæðum 11. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    Ákvæðum 1. málsgreinar er breytt sem hér segir:
        i)    Eftirfarandi komi í stað c- og d-liðar:
            „c)    eftir atvikum, milliuppgjör, sem ekki miðast við fyrra tímamark en fyrsta dag þriðja mánaðar áður en samrunaáætlunin var gerð, ef síðasti ársreikningur er fyrir reikningsár sem lauk áður en sex mánuðir voru til þessa tímamarks;
             d)    eftir atvikum, skýrslu stjórna eða framkvæmdastjórna samrunafélaganna, sem kveðið er á um í 9. gr.,“;
        ii)    eftirfarandi undirlið er bætt við:
            „Að því er varðar c-lið fyrstu undirgreinar, skal ekki krefjast milliuppgjörs ef félag gefur út hálfsárs fjárhagsskýrslu í samræmi við 5. grein tilskipunar 2004/109/EB og gerir hana aðgengilega hluthöfum í samræmi við þessa málsgrein. Auk þess geta aðildarríki kveðið á um að ekki verði krafist milliuppgjörs ef allir hluthafar og eigendur annarra verðbréfa, sem veita atkvæðisrétt í hverju og einu þeirra félaga, sem tekur þátt í samrunanum, eru sammála um það.“
    b)    eftirfarandi undirgrein bætist við 3. mgr.:
        „Ef hluthafi hefur fallist á notkun félagsins á rafrænum aðferðum við miðlun upplýsinga, má senda slík skjöl með tölvupósti.“,
    c)    eftirfarandi málsgrein bætist við:
        „4.     Félag skal undanþegið frá kröfunni um að gera skjölin, sem um getur í 1. mgr., aðgengileg á skráðri skrifstofu sinni ef það, á samfelldu tímabili, sem hefst að lágmarki einum mánuði fyrir daginn sem hluthafafundur, sem á að ákvarða samrunaáætlun, er haldinn og lýkur ekki fyrr en þeim fundi lýkur, gerir skjölin aðgengileg á vefsetri sínu. Aðildarríkin skulu ekki nota þessa undanþágu á aðrar kröfur eða takmarkanir en þær sem eru nauðsynlegar til að tryggja öryggi vefsetra og sannvottaðan uppruna skjala og geta einungis lagt slíkar kröfur eða takmarkanir hlutfallslega á til að ná fram þessum markmiðum.
        Ákvæði 3. mgr. skulu ekki gilda ef vefsetur gefur hluthöfum kost á niðurhali og prentun skjala, sem um getur í 1. mgr., á tímabilinu sem um getur í fyrsta undirlið þessarar málsgreinar. Í því tilviki geta aðildarríkin þó kveðið á um að félag geri þessi skjöl aðgengileg hluthöfum til skoðunar á skráðri skrifstofu sinni.
        Aðildarríki geta krafist þess að félög varðveiti upplýsingarnar í tiltekinn tíma eftir aðalfundinn á vefsetri sínu. Aðildarríkin geta ákvarðað afleiðingar tímabundinnar röskunar á aðgangi að vefsetri, sem sem m.a. má rekja til tæknilegra þátta.“,
6.    Í stað 2. mgr. 13. gr. komi eftirfarandi:
    „2.     Í því skyni skal í lögum aðildarríkja að minnsta kosti kveðið á um að þessir lánardrottnar eigi rétt á fullnægjandi tryggingu þegar slík vernd er nauðsynleg vegna fjárhags samrunafélaganna enda hafi lánardrottnar ekki þá þegar nægar tryggingar.
    Aðildarríki skulu mæla fyrir um skilyrði verndar sem kveðið er á um í 1. mgr. og í fyrstu undirgrein þessarar málsgreinar. Aðildarríkin skulu í öllum tilvikum tryggja að lánveitendur hafi heimild til að fara þess á leit við viðeigandi stjórnsýslu- eða dómsmálayfirvald að það geri fullnægjandi verndarráðstafanir, að því tilskildu að þeir geti með trúverðugum hætti sýnt fram á að kröfur þeirra séu í hættu vegna samrunans og fullnægjandi verndarráðstafanir hafi ekki verið gerðar hjá félaginu.“,
7.    Í 23. gr. falli 4. mgr. brott,
8.     Ákvæðum 24. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    í stað annars málsliðar komi eftirfarandi:
        „Slík framkvæmd skal stjórnast af ákvæðum II. kafla.“,
    b)    eftirfarandi málsliður bætist við:
        „Aðildarríki skulu þó ekki setja þær kröfur sem fram koma í 5. gr. (b-, c- og d-lið 2. mgr.), 9. og 10. gr., 11. gr. (d- og e-lið 1. mgr.), 19. gr. (b-lið 1. mgr.) og 20. og 21. gr.“,
9.    Ákvæðum 25. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    eftirfarandi komi í stað inngangsorða:
        „Aðildarríki skulu ekki beita 7. gr. við framkvæmdina, sem um getur í 24. grein, hafi eftirfarandi skilyrðum verið fullnægt:“,
    b)    annar málsliður b-liðar falli niður,
    c)    eftirfarandi málsgrein bætist við:
        „Að því er varðar b-lið 1. mgr. gilda 2., 3. og 4. mgr. 11. gr.“;
10.    Ákvæðum 27. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    eftirfarandi komi í stað inngangsorðanna:
        „Í þeim tilvikum þegar samruni verður með yfirtöku félags sem á minnst 90% hlutabréfa en ekki öll hlutabréf og önnur verðbréf, sem veita atkvæðisrétt á hluthafafundum félagsins eða félaganna, sem eru yfirtekin, skulu aðildarríkin ekki krefjast þess að hluthafafundur yfirtökufélagsins samþykki samrunann ef eftirfarandi skilyrðum hefur verið fullnægt:“,
    b)    í stað b-liðar komi eftirfarandi:
        „b)    eigi síðar en einum mánuði fyrir þann dag sem tilgreindur er í a-lið skal öllum hluthöfum í yfirtökufélaginu veittur kostur á að kynna sér, í skráðri skrifstofu félagsins, þau skjöl sem um getur í a- og b-lið og eftir atvikum í c-, d- og e-lið 1. mgr. 11. gr.,“;
    c)    eftirfarandi málsgrein bætist við:
        „Að því er varðar b-lið 1. mgr. gilda 2., 3. og 4. mgr. 11. gr.“;
11. Ákvæðum 28. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    eftirfarandi komi í stað inngangsorðanna:
        „Aðildarríki skulu ekki setja þær kröfur um samruna á sem fram koma í 9., 10. og 11. gr. í skilningi 27. gr. hafi eftirfarandi skilyrðum verið fullnægt:“,
    b)    eftirfarandi orð bætast við í c-lið:
        „eða stjórnvald sem aðildarríkið tilnefnir í því skyni.“
    c)    eftirfarandi málsgrein bætist við:
        „Aðildarríki þarf ekki að beita fyrstu málsgreininni ef löggjöf þess aðildarríkis veitir yfirtökufélagi rétt, án undanfarandi, opinbers yfirtökutilboðs, til að gera þá kröfu á alla handhafa eftirstandandi verðbréfa félagsins eða félaganna, sem á að yfirtaka, að þeir selji þessi verðbréf yfirtökufélaginu fyrir samrunann á sanngjörnu verði.“.“

3. gr.
Breytingar á tilskipun 82/891/EBE

Tilskipun 82/891/EBE er breytt sem hér segir:
1.    eftirfarandi málsgreinar bætast við 4. gr.:
    „Sérhvert félag, sem tekur þátt í skiptingu skal undanþegið frá útgáfukröfum sem mælt er fyrir um í 3. grein tilskipunar 68/151/EBE, ef á samfelldu tímabili sem hefst að lágmarki einum mánuði fyrir dag sem er ákveðinn fyrir hluthafafund, sem á að ákveða skiptingaráætlun og lýkur ekki fyrr en þeim fundi lýkur, gerir skiptingaráætlun aðgengilega almenningi endurgjaldslaust á vefsetri sínu. Aðildarríkin skulu ekki nota þessa undanþágu á neinar aðrar kröfur eða takmarkanir en þær sem eru nauðsynlegar til að tryggja öryggi vefsetra og sannvottaðan uppruna skjala og geta einungis lagt slíkar kröfur eða takmarkanir hlutfallslega á til að ná fram þessum markmiðum.
    Þrátt fyrir aðra málsgrein geta aðildarríki krafist útgáfu fyrir milligöngu miðlægs, rafræns verkvangs sem um getur í 4. mgr. 3. greinar í tilskipun 68/151/EBE. Aðildarríkin geta að öðrum kosti krafist þess að slík útgáfa fari fram á öðru vefsetri sem er tilnefnt af aðildarríki í þessum tilgangi. Nýti aðildarríkin sér einn af þessum möguleikum, skulu þau tryggja að sérstakt gjald vegna slíkrar birtingar sé ekki innheimt frá félögum.
    Ef annað vefsetur en miðlægi rafræni verkvangurinn er notað, skal birta tilvísun sem veitir aðgang að því vefsetri á miðlæga rafræna verkvangnum a.m.k. einum mánuði fyrir daginn þegar hluthafafundur á sér stað. Sú tilvísun skal innihalda birtingardag skiptingaráætlunar á vefsetri og vera aðgengileg almenningi endurgjaldslaust. Ekki skal innheimta sérstakt gjald frá félögum fyrir slíka birtingu.
    Bannið sem hindrar innheimtu sérstaks gjalds frá félögum vegna birtingar, sem mælt er fyrir um í þriðja og fjórða lið, skal ekki hafa áhrif á getu aðildarríkja til að velta kostnaði vegna miðlægs rafræns verkvangs yfir á félög.
    Aðildarríki geta krafist þess að félög varðveiti upplýsingarnar í ákveðinn tíma eftir aðalfundinn á vefsetri sínu, eða eftir atvikum, á miðlæga rafræna verkvangnum eða á öðru vefsetri sem hlutaðeigandi aðildarríki tilnefnir. Aðildarríkin geta ákvarðað afleiðingar tímabundinnar truflunar á aðgangi að vefsetri eða að miðlægum rafrænum verkvangi, sem orsakast af tæknilegum eða öðrum þáttum.“,
2.    í 6. gr. bætist eftirfarandi málsgrein við:
    „Að því er varðar b-lið 1. mgr. gilda 2., 3. og 4. mgr. 9. gr.“;
3.    Í stað annarrar undirgreinar í 2. mgr. 7. gr. komi eftirfarandi:
    „Eftir atvikum skal þar einnig koma fram að samin hafi verið skýrsla um endurgjald í öðru en reiðufé sem um getur í 2. mgr. 27. gr. tilskipunar 77/91/EBE fyrir hvert viðtökufélag og til hvaða skrár sú skýrsla skuli lögð fram.“,
4.    Í 8. gr. falli 3. mgr. brott,
5.    Ákvæðum 9. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    ákvæðum 1. mgr. er breytt sem hér segir:
         i.    eftirfarandi komi í stað c- og d-liðar:
            „c)    eftir atvikum milliuppgjör sem ekki miðast við fyrri tímamörk en fyrsta dag þriðja mánaðar áður en skiptingaráætlunin var gerð, ef síðasti ársreikningur er fyrir reikningsár sem lauk áður en sex mánuðir voru til þeirra tímamarka,
            d)    eftir atvikum skýrslur stjórna eða framkvæmdastjórna þeirra félaga sem taka þátt í skiptingunni sem kveðið er á um í 1. mgr. 7. gr.:“;“
        ii.    eftirfarandi undirgrein er bætt við:
            „Að því er varðar c-lið fyrstu undirgreinar, skal ekki krefjast fjárhagsskýrslu ef félag gefur út hálfsársreikningsskil í samræmi við 5. grein tilskipunar 2004/109/ ESB og gerir hana aðgengilega hluthöfum í samræmi við þessa málsgrein.“,
    b)    eftirfarandi undirgrein bætist við 3. mgr.:
        „Ef hluthafi hefur fallist á notkun félagsins á rafrænum aðferðum við miðlun upplýsinga, má senda slík skjöl með tölvupósti.“,
    c)    eftirfarandi málsgrein bætist við:
        „4.     Félag skal undanþegið frá útgáfukröfum skjala sem mælt var fyrir um í 1. mgr., ef á samfelldu tímabili sem hefst að lágmarki einum mánuði fyrir dag sem er ákveðinn fyrir aðalfund, sem á að ákveða skiptingaráætlun og lýkur ekki fyrr en niðurstaða þess fundar, gerir skjölin aðgengileg á vefsetri sínu. Aðildarríkin skulu ekki nota þessa undanþágu á aðrar kröfur eða takmarkanir en þær sem eru nauðsynlegar til að tryggja öryggi vefseturs og sannvottaðan uppruna skjala og geta einungis lagt slíkar kröfur eða takmarkanir hlutfallslega á til að ná fram þessum markmiðum.
        Ákvæði 3. mgr. skulu ekki gilda ef vefsetur gefur hluthöfum kost á niðurhali og prentun skjala sem um getur í 1. mgr., á tímabilinu sem um getur í fyrsta undirlið þessarar málsgreinar. Í því tilviki geta aðildarríkin þó kveðið á um að félag geri þessi skjöl aðgengileg hluthöfum til skoðunar á skráðri skrifstofu sinni.
        Aðildarríki geta krafist þess að félög varðveiti upplýsingarnar í ákveðinn tíma eftir aðalfundinn á vefsetri sínu. Aðildarríkin geta ákvarðað afleiðingar tímabundinnar truflunar aðgangs að vefsetri, sem orsakast af tæknilegum þáttum eða öðrum þáttum.“,
6.    Í stað 2. mgr. 12. gr. komi eftirfarandi:
    „2. Í lögum aðildarríkja skal, í því skyni, að minnsta kosti kveðið á um að lánardrottnar þessir eigi rétt á fullnægjandi tryggingu þegar slíkt er nauðsynlegt vegna fjárhags félagsins sem skipt er og þess félags sem taka mun að sér skuldina samkvæmt skiptingaráætlun, enda hafi þeir ekki þegar nægar tryggingar.
    Aðildarríki skulu mæla fyrir um skilyrði verndar sem kveðið er á um í 1. mgr. og í fyrstu undirgrein þessarar málsgreinar. Aðildarríkin skulu í öllum tilvikum tryggja að lánveitendur hafi heimild til að fara þess á leit við viðeigandi stjórnsýslu- eða dómsmálayfirvald að það geri fullnægjandi verndarráðstafanir, að því tilskildu að þeir geti með trúverðugum hætti sýnt fram á að kröfur þeirra séu í hættu vegna skiptingarinnar og fullnægjandi verndarráðstafanir hafi ekki verið gerðar hjá félaginu.“
7.    Ákvæðum 20. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    eftirfarandi komi í stað inngangsorðanna:
        „Með fyrirvara um það sem í 6. gr. segir er ekki nauðsynlegt að lög aðildarríkis áskilji að hluthafafundur félags sem skipt er samþykki skiptingu, ef viðtökufélögin eiga sameiginlega bæði öll hlutabréf í því og öll önnur verðbréf sem veita atkvæðisrétt á hluthafafundum þess, enda sé eftirfarandi lágmarksskilyrðum fullnægt:“,
    b)    annar málsliður b-liðar falli brott,
    c)    c-liður falli brott,
    d)    eftirfarandi málsgrein bætist við:
        „Að því er varðar b-lið fyrstu mgr., gildir 2., 3. og 4. mgr. 9. gr. og 10. gr.“,
8.    Ákvæðum 22. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    ákvæði 4. mgr. falli brott,
    b)    í stað 5. mgr. komi eftirfarandi:
        „5.     Aðildarríki skulu ekki leggja þær kröfur á sem um getur í 7. og 8. gr. og í c-, d- og e-lið 1. mgr. 9. gr., þegar hlutabréfum í hverju hinna nýju félaga er úthlutað hluthöfum í félaginu sem skipt er, í réttu hlutfalli við hlutafjáreign þeirra í því félagi.“

4. gr.
Breytingar á tilskipun 2005/56/EB

Tilskipun 2005/56/EB er breytt sem hér segir:
1.    Eftirfarandi undirgreinar bætast við 1. mgr. 6. gr.:
    „Sérhvert samrunafélaga skal undanþegið frá útgáfukröfum sem mælt var fyrir um í 3. grein tilskipunar 68/151/EBE, ef á samfelldu tímabili sem hefst a.m.k. einum mánuði fyrir daginn þegar hluthafafundur á sér stað þar sem taka á ákvörðun um sameiginlega samrunaáætlun yfir landamæri og lýkur ekki fyrr en niðurstaða þess fundar gerir sameiginlega samrunaáætlun fyrir slíkan samruna aðgengilega almenningi endurgjaldslaust á vefsetri sínu. Aðildarríkin skulu ekki nota þessa undanþágu á neinar aðrar kröfur eða takmarkanir en þær sem eru nauðsynlegar til að tryggja öryggi vefseturs og sannvottaðan uppruna skjala og geta einungis lagt slíkar kröfur eða takmarkanir hlutfallslega á til að ná fram þessum markmiðum.
    Þrátt fyrir annan undirlið geta aðildarríki krafist útgáfu fyrir milligöngu miðlægs, rafræns verkvangs sem um getur í 4. mgr. 3. greinar í tilskipun 68/151/EBE. Aðildarríkin geta að öðrum kosti krafist þess að slík útgáfa fari fram á öðru vefsetri sem er tilnefnt af aðildarríki í þessum tilgangi. Nýti aðildarríkin sér einn af þessum möguleikum, skulu þau tryggja að ekki sé innheimt sérstakt gjald frá félögum fyrir slíka birtingu.
    Þegar annað vefsetur en miðlægi rafræni verkvangurinn er notað, skal birta tilvísun sem veitir aðgang að því vefsetri á miðlæga rafræna verkvangnum a.m.k. einum mánuði fyrir daginn þegar hluthafafundur á sér stað. Sú tilvísun skal innihalda birtingardag samrunaáætlunar yfir landamæri á vefsetrinu og vera aðgengileg almenningi án endurgjalds. Ekki skal innheimta sérstakt gjald frá félögum fyrir slíka birtingu.
    Bannið sem hindrar innheimtu sérstaks gjalds frá félögum vegna birtingar, sem mælt er fyrir um í þriðja og fjórða undirlið, skal ekki hafa áhrif á getu aðildarríkja að velta kostnaði vegna miðlægs rafræns verkvangs yfir á félög.
    Aðildarríki geta krafist þess að félög varðveiti upplýsingarnar í ákveðinn tíma eftir aðalfundinn á vefsetri sínu, eða eftir atvikum, á hinum miðlæga rafrænum verkvangi eða á öðru vefsetri sem hlutaðeigandi aðildarríki tilnefnir. Aðildarríkin geta ákvarðað afleiðingar tímabundinnar truflunar á aðgangi að vefsetri eða að miðlægum rafrænum verkvangi, sem orsakast af tæknilegum eða öðrum þáttum.“,
2.    Í stað 2. mgr. 15. gr. komi eftirfarandi:
    „2.     Í þeim tilvikum að samruni yfir landamæri verði fyrir tilverknað félags, sem á minnst 90 % hlutabréfa en ekki öll hlutabréfin og önnur verðbréf, sem veita atkvæðisrétt á hluthafafundum félagsins eða félaganna, sem tekin eru yfir, skal einungis gera kröfu um skýrslur frá óháðum sérfræðingi eða sérfræðingum og skjöl sem nauðsynleg eru til að athuga gaumgæfilega lögmæti samrunans, að því marki sem kveðið er á um slíkt í landslögum sem yfirtökufélagið eða félagið eða félögin, sem tekin eru yfir, heyra undir í samræmi við tilskipun 78/855/EBE.“

5. gr.
Endurskoðun

Fimm árum eftir dagsetninguna, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 6. gr., skal framkvæmdastjórnin yfirfara framkvæmd ákvæða tilskipana 77/91/EBE, 78/855/ EBE, 82/891/EBE og 2005/56/EB, með áorðnum breytingum eða viðbótum samkvæmt þessari tilskipun, einkum áhrif þeirra við að draga úr stjórnsýsluálagi á félög, í ljósi fenginnar reynslu við beitingu þeirra, og skal hún leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið ásamt tillögum að frekari breytingum þessara tilskipana, ef þörf er á.

6. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 30. júní 2011. Þau skulu þegar í stað senda framkvæmdastjórninni texta þessara ákvæða.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

7. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

8. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Strassborg 16. september 2009.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
J. BUZEK C. MALMSTRÖM
forseti. forseti.

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 101, 22.4.2010, bls. 25, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 19, 22.4.2010, bls. 27.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 259, 2.10.2009, bls. 14.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Álit frá 25. febrúar 2009 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB).
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Álit Evrópuþingsins frá 22. apríl 2009 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB) og ákvörðun ráðsins frá 27. júlí 2009.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Stjtíð. EB L 31.1.1977, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Stjtíð. EB L 295, 20.10.1978, bls. 36.
Neðanmálsgrein: 8
(5)    Stjtíð. EB L 65, 14.3.1968, bls. 8.
Neðanmálsgrein: 9
(6)    Stjtíð. ESB L 310, 25.11.2005, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 10
(1)    Stjtíð. EB L 378, 31.12.1982, bls. 47.
Neðanmálsgrein: 11
(2)    Stjtíð. ESB L 390, 31.12.2004, bls. 38.
Neðanmálsgrein: 12
(3)    Stjtíð. ESB C 321, 31.12.2003, bls. 1.