Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 334. máls.

Þskj. 401  —  334. mál.Tillaga til þingsályktunar

um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

(Lögð fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)
    Alþingi ályktar skv. 11. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, að samþykkja eftirfarandi áætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum fyrir árin 2011–2014:

A.     Stjórnsýslan.
1.     Ráðherranefnd um jafnrétti kynja.
    Ráðherranefnd um jafnrétti kynja starfi í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 15. september 2009 í því skyni að samþætta kynja- og jafnréttismál inn í stefnumörkun og aðgerðir ríkisstjórnarinnar, samhæfa starf hennar og fylgja eftir framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum.
    Tímaáætlun: Viðvarandi.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda ráðuneytanna.
    Ábyrgð: Forsætisráðherra, velferðarráðherra, fjármálaráðherra og innanríkisráðherra.

2.     Framkvæmdasjóður jafnréttismála.
    Varið verði 30 millj. kr. samtals af fjárlögum tímabundið til þriggja ára, 2012–2014, 10 millj. kr. árlega, til jafnréttisverkefna á vegum ráðuneyta til að nýta niðurstöður, reynslu og þekkingu eða innleiða tillögur sem telja má til afraksturs af verkefnum í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar. Ráðherranefnd um jafnrétti kynja úthlutar þessu fé. Viðmið við úthlutun verði kynnt ráðuneytum fyrir árslok 2011.
    Tímaáætlun: 2012–2014.
    Kostnaðaráætlun: 30 millj. kr.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti, velferðarráðuneyti, fjármálaráðuneyti og innanríkisráðuneyti.

3.     Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða.
    Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna móti heildstæða áætlun til fjögurra ára um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða inn í stefnumótun og ákvarðanatöku ráðuneyta og opinberra stofnana. Í henni felist m.a.:
     1.      Stofnun stýrihóps með þátttöku æðstu stjórnenda í ráðuneytum.
     2.      Sérstakir fundir ráðherra, æðstu embættismanna og sérfræðinga á sviði jafnréttismála um stefnu, áherslur og aðferðir á sviði jafnréttismála.
     3.      Fræðsla fyrir starfsfólk ráðuneyta og stofnana um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða.
     4.      Árlegar tillögur um a.m.k. tvö verkefni á málefnasviði hvers ráðuneytis sem tilraunaverkefni og skal þeim lokið í lok hvers árs.
     5.      Mælitölur eða lykiltölur á öllum helstu sviðum í starfsemi ráðuneyta og stofnana verði greindar til að jafnan séu fyrir hendi upplýsingar greindar eftir kynjum til stuðnings stefnumörkun og ákvörðunum. Greint verði á hvaða sviðum reglulegri upplýsingaöflun er ábótavant og úrbætur gerðar.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: 2,5 millj. kr.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti og velferðarráðuneyti.

4.     Jafnréttisfulltrúar ráðuneyta.
    Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna vinni að kynjasamþættingu á málefnasviði hlutaðeigandi ráðuneytis. Enn fremur fjalli jafnréttisfulltrúar um jafnréttisstarf og hafi eftirlit með jafnréttisstarfi á málefnasviði viðkomandi ráðuneytis og stofnana þess. Þar á meðal komi þeir að gerð og endurskoðun jafnréttisáætlana ráðuneyta og gæti þess að allar skýrslur og rannsóknir sem gerðar eru á vegum hlutaðeigandi ráðuneytis eða stofnana þess séu kyngreindar.
    Jafnréttisfulltrúar afli sér þekkingar á sviði jafnréttismála og starfi eftir samþykktri starfs- og fræðsluáætlun. Við framkvæmd fræðsluáætlunar verði höfð samvinna við námsbraut í kynjafræðum við Háskóla Íslands. Sérfræðingur Stjórnarráðsins í jafnrétti kynja og Jafnréttisstofa gegni ráðgjafarhlutverki fyrir jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: 700.000 kr. vegna fræðslu fyrir jafnréttisfulltrúa.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti í samvinnu við önnur ráðuneyti.

5.     Kynjuð fjárlagagerð.
    Kynjuð fjárlagagerð verði innleidd í áföngum á árunum 2011–2014. Í því skyni verði efnt til tilraunaverkefna í ráðuneytum og stofnunum sem hafi að markmiði að þróa verkferla og aðferðir við undirbúning kynjaðra fjárlaga. Útgáfu handbókar um kynjaða fjárlagagerð verði fylgt eftir með markvissri fræðslu. Verkefnisstjórn um kynjaða fjárlagagerð mun stýra verkefninu.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: 5,2 millj. kr.
    Ábyrgð: Fjármálaráðuneyti.

6.     Siðareglur.
    Siðareglum fyrir ráðherra og ríkisstarfsmenn, þar sem m. a. er gert ráð fyrir ákvæðum um bann við kaupum á kynlífsþjónustu, verði fylgt eftir með kynningu og fræðslu fyrir starfsfólk ráðuneyta og stofnana.
    Tímaáætlun: Viðvarandi.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda forsætisráðuneytis og fjármálaráðuneytis.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti og fjármálaráðuneyti í samvinnu við önnur ráðuneyti.

7.     Hlutur kynjanna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum stjórnvalda.
    Ráðuneytin stefni að því að ná 40:60 markmiðinu við skipun í nefndir, ráð og stjórnir og viðhalda því, sbr. 15. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Jafnréttisstofa hafi a.m.k. einu sinni á ári eftirlit með fjölda kvenna og karla í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ráðuneytanna og birti upplýsingar um hlut kynjanna a.m.k. árlega á vef Jafnréttisstofu, sundurgreindar eftir ráðuneytum.
    Tímaáætlun: Viðvarandi.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda ráðuneytanna.
    Ábyrgð: Öll ráðuneyti.

8.     Jafnréttisáætlanir Stjórnarráðsins, ráðuneyta og stofnana.
    Ný jafnréttisáætlun fyrir Stjórnarráðið verði samþykkt og jafnréttisáætlanir einstakra ráðuneyta endurskoðaðar með hliðsjón af henni. Átak verði gert í því að tryggja að allar stofnanir ríkisins starfi eftir jafnréttisáætlunum með sundurliðuðum markmiðum og aðgerðum í samræmi við 2. mgr. 18. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
    Tímaáætlun: Árslok 2011.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda ráðuneyta.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti í samvinnu við önnur ráðuneyti.

9.     Jafnréttissjóður.
    Rannsóknir og verkefni sem unnin hafa verið með styrk úr Jafnréttissjóði verði gerð aðgengileg á vefsvæði Stjórnarráðsins í þeim tilgangi að þau nýtist sem best til aðgerða í þágu jafnréttis kynjanna. Úthlutanir úr Jafnréttissjóði hefjist að nýju á árinu 2012.
    Tímaáætlun: 2012–2014.
    Kostnaðaráætlun: 10 millj. kr. á ári.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti.

B.     Vinnumarkaður – kynbundinn launamunur.
10.     Framkvæmdaáætlun gegn kynbundnum launamun.
    Gerð verði heildstæð framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um aðgerðir gegn kynbundnum launamun sem m.a. feli í sér eftirfarandi:
     1.      Skipuð verði framkvæmdanefnd um launajafnrétti kynjanna sem hafi með höndum yfirumsjón og samhæfingu aðgerða í því skyni að draga úr kynbundnum launamun.
     2.      Lokið verði við gerð jafnréttisstaðals á tímabilinu og honum fylgt eftir með markvissri fræðslu um innleiðingu hans.
     3.      Launaumsjónarkerfi ríkisins verði endurbætt tæknilega þannig að unnt verði að gera marktækar og reglulegar úttektir á launum karla og kvenna í ráðuneytum og stofnunum ríkisins.
     4.      Fram fari athugun á árangri starfsmats sveitarfélaga við að draga úr launamun kynja og við endurmat hefðbundinna kvennastarfa og metinn ávinningur ríkisins af því að innleiða starfsmat.
     5.      Efnt verði til samstarfs við samtök aðila vinnumarkaðarins um innleiðingu Vegvísis um launajafnrétti.
     6.      Gefinn verði út bæklingur til leiðbeiningar um túlkun ákvæðis laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf, m.a. með hliðsjón af Evrópurétti.
     7.      Gefinn verði út gátlisti fyrir forstöðumenn stofnana um viðmið varðandi endurskoðun á launum þannig að markmiðum um launajafnrétti verði náð.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: 6,4 millj. kr. (þar af 3,4 millj. kr. vegna jafnlaunastaðals).
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti og fjármálaráðuneyti.

11.     Kynbundinn launamunur á landsbyggðinni.
    Byggðastofnun, sem heyrir undir iðnaðarráðuneyti, greini orsakir launamunar kynjanna eftir landsvæðum með það að markmiði að móta tillögu að aðgerðaáætlun til að útrýma launamun kynjanna. Verkefnið er m.a. afrakstur vinnu að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við endurskoðun byggðaáætlunar fyrir árin 2010–2013. Í tillögu að nýrri byggðaáætlun, sem lögð hefur verið fram á Alþingi, er kveðið á um að jafnrétti og þátttaka beggja kynja í atvinnulífi og samfélagsmótun sé sérstakt viðfangsefni sem líta þurfi til. Árangursmat á verkefninu verði gert á miðju tímabili áætlunarinnar. Verkefnið er unnið af Byggðastofnun í samstarfi við Jafnréttisstofu, Hagstofu Íslands, háskóla og rannsóknastofnanir.
    Tímaáætlun: 2011–2013.
    Kostnaðaráætlun: 2 millj. kr.
    Ábyrgð: Iðnaðarráðuneyti.

12.     Úttekt á launamun kynja í sjávarútvegi og landbúnaði og aðstöðu til náms í greinunum.
    Gerð verði úttekt á annars vegar launum karla og kvenna í landbúnaði og sjávarútvegi og hins vegar stöðu karla og kvenna til náms í greinunum sem og námsframboði á framhaldsskóla- og háskólastigi.
    Tímaáætlun: Lokið 2014.
    Kostnaðaráætlun: 5 millj. kr.
    Ábyrgð: Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.

13.     Fæðingarorlof feðra.
    Gerð verði könnun á töku feðra á fæðingarorlofi og áhrifum þess á verkaskiptingu ungra foreldra á heimilum og atvinnuþátttöku kvenna og karla. Sérstaklega verði könnuð áhrif niðurskurðar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði á töku feðra á fæðingarorlofi. Verkefnið verði unnið í samvinnu við Jafnréttisstofu.
    Tímaáætlun: 2010–2012.
    Kostnaðaráætlun: 4 millj. kr.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.

14.     Nefnd um samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs.
    Nefnd skipuð í samræmi við áherslur jafnréttisráðs árið 2010 kanni leiðir sem ætlað er að auðvelda virkum þátttakendum á vinnumarkaði að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Nefndin afli upplýsinga um það hvernig virkum þátttakendum á innlendum vinnumarkaði finnst þeim takast að samhæfa fjölskyldu- og atvinnulíf og leggi til við velferðarráðherra hvernig unnt sé að auðvelda fólki að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.
    Tímaáætlun: Skýrsluskil í janúar 2012.
    Kostnaður: Rúmast innan fjárheimilda velferðarráðuneytis og jafnréttisráðs.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.

15.     Aðgengi kvenna að fjármagni til stofnunar fyrirtækja.
    Sjóðir sem heyra undir stofnanir iðnaðarráðuneytis, þ.e. Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Byggðastofnun, Orkusjóður og Tækniþróunarsjóður, haldi kerfisbundið til haga upplýsingum um kynjaskiptingu styrkþega fyrir árið 2011 þannig að unnt verði á árinu 2012 að leggja mat á hvernig starfsemi sjóðanna nýtist hvoru kyni fyrir sig og endurskoði úthlutunarreglur komi í ljós að halli á annað kynið meðal styrkþega.
    Tímaáætlun: 2011–2012.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda sjóðanna.
    Ábyrgð: Iðnaðarráðuneyti.

16.     Lánatryggingasjóður kvenna.
    Starfsemi Lánatryggingasjóðs kvenna sem starfaði á árunum 1998–2003 á vegum félagsmálaráðuneytis, iðnaðarráðuneytis og Reykjavíkurborgar verði endurvakin. Markmið sjóðsins verði að styðja við nýsköpun í atvinnurekstri kvenna með því að veita ábyrgðir á lánum. Verkefnið verði unnið í samstarfi við fjármálastofnanir og aðila sem veita ráðgjöf og handleiðslu við framkvæmd verkefna, en fé til starfseminnar sé fyrir hendi í sjóði.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: 60 millj. kr.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti og iðnaðarráðuneyti.

17.     Úttekt á túlkun jafnréttislaga í álitum kærunefndar jafnréttismála.
    Lögfræðileg úttekt á málum sem kærð hafa verið til kærunefndar jafnréttismála verði gerð og þróun á túlkun jafnréttislaga hjá kærunefnd jafnréttismála verði skoðuð.
    Tímaáætlun: 2011.
    Kostnaðaráætlun: 500.000 kr.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.

C.     Kyn og völd.
18.     Starfsumhverfi og starfskjör í sveitarstjórnum.
    Starfshópur verði skipaður til að kanna starfsumhverfi og starfskjör kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum með tilliti til kynjasjónarmiða og áhrifa þeirra á þátttöku kvenna í sveitarstjórnarstarfi. Í starfi hópsins verði m.a. unnið í samræmi við tillögur starfshóps um aðgerðir til að jafna betur stöðu kynja í sveitarstjórnum, sbr. greinargerð frá október 2009. Verkefnið verði unnið í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga.
    Tímaáætlun 2011–2012.
    Kostnaðaráætlun: 300.000 kr.
    Ábyrgð: Innanríkisráðuneyti.

19.     Gagnagrunnur um jafnrétti kynjanna í sveitarstjórnum.
    Gagnagrunnur Jafnréttisstofu sem hún vann innan vébanda Evrópuverkefnisins Jafnréttisvogin (e. Tea for two) verði uppfærður og honum viðhaldið þannig að hann gefi á hverjum tíma upplýsingar um skilgreinda þætti er varða jafnrétti kynjanna innan sveitarstjórna, svo sem kynjahlutfall innan sveitarstjórna, í nefndum og ráðum, skiptingu íbúa, þjónustuþætti o.fl.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaður: 700.000 kr.
    Ábyrgð: Innanríkisráðuneyti.

20.     Hlutur kvenna í stjórnum fyrirtækja og stofnana.
    Efnt verði til fræðslu um ábyrgð og skyldur stjórnenda og stjórnarmanna í fyrirtækjum. Markmiðið verði að auka hæfni þessara aðila til að gegna stöðum sínum með áherslu á að ná til kvenna. Komið verði upp gagnagrunni með upplýsingum um þá sem hlotið hafa slíka fræðslu til að gera stjórnendum og stjórnarmönnum kleift að mynda með sér tengsl og auðvelda fyrirtækjum að finna hæfa stjórnendur og stjórnarmenn.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda efnahags- og viðskiptaráðuneytis.
    Ábyrgð: Efnahags- og viðskiptaráðuneyti.

D.     Kynbundið ofbeldi.
21.     Ný aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi.
    Unnið verði að gerð nýrrar aðgerðaáætlunar stjórnvalda gegn kynbundnu ofbeldi fyrir tímabilið 2011–2015. Í nýrri aðgerðaáætlun verði tekið mið af rannsóknum úr gildandi aðgerðaáætlun frá 2006 auk rannsóknar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Þá verði sérstök áhersla lögð á að skoða samhengi kynbundinna ofbeldisbrota, saksóknar vegna þeirra og meðferðar í dómskerfinu. Auk þessa verði mótuð afstaða til meðferðar nýs sáttmála Evrópuráðsins í málaflokknum og verkefni endurskilgreind með hliðsjón af honum. Skipuð verði nefnd til að vinna að framangreindri áætlun um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi.
    Tímaáætlun: 2011.
    Kostnaðaráætlun: 600.000 kr. við gerð áætlunar.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti og innanríkisráðuneyti.

22.     Úrræði vegna heimilisofbeldis.
    Frumvarp til laga um breytingu á lögum um nálgunarbann verði lagt fram á Alþingi til þess að leiða í lög heimild fyrir þar til bæra aðila innan réttarvörslukerfisins til að fyrirskipa að einstaklingur, sem beitir heimilismenn sína ofbeldi, yfirgefi heimilið. Svonefnd „austurrísk leið“ liggi til grundvallar þeirri vinnu.
    Tímaáætlun: 2011.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda.
    Ábyrgð: Innanríkisráðuneyti.

23.     Karlar til ábyrgðar.
    Meðferðarúrræðið Karlar til ábyrgðar verði eflt og boðið upp á þjónustu víðar um land. Brugðist verði við væntanlegri heimild til að fjarlægja ofbeldismann af heimili með því að bjóða upp á meðferð til að losna úr vítahring ofbeldis. Kannað verði hvort rétt sé að heimila að menn verði dæmdir til meðferðar.
    Tímaáætlun: 2010–2014.
    Kostnaðaráætlun: 12,7 millj. kr.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.

24.     Forvarnir gegn vændi.
    Fræðsluherferð sem beinist að mögulegum kaupendum vændis verði hleypt af stokkunum, meðal annars með áherslu á unga karlmenn til að koma í veg fyrir að þeir gerist kaupendur á kynlífsmarkaði.
    Tímaáætlun: 2011.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda.
    Ábyrgð: Innanríkisráðuneyti.

E.     Menntir og jafnrétti.
25.     Kynungabók.
    Handbók fyrir ungt fólk með upplýsingum um kynferði og jafnrétti sem gefin var út á árinu 2010 verði fylgt markvisst eftir með kynningum, m.a. í tengslum við innleiðingu nýrra námskráa og námsefnisgerð. Upplýsingar verði endurnýjaðar og gefnar út aftur á tímabilinu.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: 500.000 kr.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

26.     Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum.
    Verkefninu Jafnrétti í skólum verði framhaldið til þess að hugmyndir og verkefni sem unnin voru nýtist fleiri skólum og sveitarfélögum en verkefnið felur í sér jafnréttisfræðslu í leik- og grunnskólum. Verkefnið var unnið í grunnskóla og leikskóla í fimm sveitarfélögum, samtals í tíu skólum, og eru upplýsingar um það á vefnum jafnrettiiskolum.is.
    Tímaáætlun: 2011–2013.
    Kostnaðaráætlun: 1,1 millj. kr.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

27.     Jafnrétti í framhaldsskólum.
    Áföngum í kynja- og jafnréttisfræðum verði komið inn í framhaldsskóla. Reynslu verði miðlað milli skóla með kynningum, fundum og samstarfi. Árin 2013 og 2014 verði veitt jafnréttisverðlaun til þeirra þátttakenda sem sýnt hafa mestan árangur.
    Tímaáætlun: 2011–2013.
    Kostnaðaráætlun: 500.000 kr.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

28.     Félagslíf í framhaldsskólum.
    Hvatt verði til þess að piltar og stúlkur taki að jöfnu þátt í félagslífi og öðru starfi í framhaldsskólum. Athugað verði hvort kynjakvóti sé leið að því marki að stúlkur taki jafnan þátt í starfinu og piltar. Birtingarmyndir framhaldsskólans í ríkisfjölmiðlum (RÚV) verði skoðaðar sérstaklega.
    Tímaáætlun: 2011–2013.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda mennta- og menningarmálaráðuneytis.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

29.     Starfsgreinar.
    Með samstilltu átaki starfsgreinaráða, skóla og atvinnufyrirtækja verði opnaður aðgangur „hins kynsins“ að starfsgreinum sem teljast annaðhvort kvennagreinar eða karlagreinar samkvæmt hefð. Þannig verði leitast við að mæta kröfum um að nemendur hafi jöfn tækifæri til að velja sér nám og störf óháð kyni.
    Tímaáætlun: 2011–2013.
    Kostnaðaráætlun: 200.000 kr.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

30.     Kennaramenntun.
    Inntak kennaramenntunar verði endurskoðað og háskólar hvattir til að innleiða námskeið í kynjafræði fyrir alla nemendur. Starfshópur sem vinnur að endurskoðun kennaramenntunar og reglugerð taki mið af þessum markmiðum.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárveitingar til endurskoðunar kennaramenntunar.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

31.     Konur og kvikmyndagerð.
    Konur verði hvattar til að sækja um styrki úr kvikmyndasjóði til handritagerðar og framleiðslu kvikmynda, heimildarmynda og sjónvarpsþátta. Viðfangsefni með kvenlægum gildum hljóti ekki síður styrki en þau sem hafa karllæg viðmið. Í skólum verði stúlkur frá unga aldri hvattar til að skapa og miðla sínu sjónarhorni með kvikmyndasköpun. Stuttmyndagerð stúlkna verði átaksverkefni.
    Tímaáætlun: 2010–2013.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda mennta- og menningarmálaráðuneytis.
    Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

F.     Karlar og jafnrétti.
32.     Karlar um borð.
    Skipaður verði starfshópur sem geri tillögur um hvernig auka megi þátttöku karla í umræðum um jafnrétti kynja og auka aðild karla að jafnréttisstarfi. Greining á stöðu karla í samfélaginu og möguleikum þeirra til virkrar þátttöku á nýjum og breyttum forsendum verði gerð. Starfshópurinn leiti samstarfs um verkefni sem stuðla að því að slík greining fari fram. Markmiðið sé að fá fram tillögur um m.a. hvernig megi auka náms- og starfsval karla sem og annað hlutverkaval þeirra, vinna gegn staðalímyndum kynjanna og auka þátttöku í verkefnum fjölskyldunnar. Hugað verði að neikvæðum þáttum, svo sem áhættuhegðun, ofbeldi og sjálfsvígum. Starfshópurinn hafi sér til fulltingis stærri ráðgjafahóp karla sem endurspegli breiðan bakgrunn með tilliti til aldurs og reynslu.
    Tímaáætlun: 2011–2012.
    Kostnaðaráætlun: 1 millj. kr.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.
G.     Alþjóðastarf.
33.    Eftirfylgni við aðgerðaáætlun um framkvæmd ályktunar öryggisráðsins nr. 1325 og tengdar ályktanir um konur, frið og öryggi á alþjóðavettvangi.
    Áherslur og eftirfylgni Íslands hjá alþjóðastofnunum á grundvelli áætlunar Íslands um framkvæmd öryggisráðsályktunar 1325 um konur, frið og öryggi og annarra ályktana sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt með skírskotun til ályktunar 1325 (nr. 1820, 1888 og 1889) verði efldar til að undirstrika mikilvægi kvenna í friðarumleitunum og uppbyggingu. Áætlunin verði jafnframt endurskoðuð.
    Tímaáætlun:     2011–2014.
    Kostnaðaráætlun: 2,5 millj. kr.
    Ábyrgð: Utanríkisráðuneyti.

34.     Verkefni um Jafnréttisskóla.
    Starf Jafnréttisskóla á vegum Háskóla Íslands verði stutt sem liður í uppbyggingu þekkingarsamfélags á Íslandi á sviði jafnréttismála. Markmið verkefnisins sé að stuðla að jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna með styttri námskeiðum fyrir sérfræðinga frá þróunarríkjum, átakasvæðum og samfélögum þar sem nýlega hefur komist á friður að átökum loknum. Unnið verði markvisst að því að Jafnréttisskólinn verði hluti af tengslaneti Sameinuðu þjóðanna. Markhópurinn sé starfsmenn stjórnsýslu og félagasamtaka sem starfa að jafnréttismálum í framangreindum ríkjum og svæðum. Utanríkisráðuneytið kosti verkefnið samkvæmt árlegri fjárhagsáætlun og samþykktum fjárlögum.
    Tímaáætlun:     2010–2014.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda.
    Ábyrgð: Háskóli Íslands og utanríkisráðuneyti.

35.     Kyn og loftslag.
    Umhverfisráðuneyti og utanríkisráðuneyti haldi áfram kynjasjónarmiðum á lofti í samningaviðræðum um loftslagsmál. Ráðuneytin eigi samstarf um að kynna mikilvægi kynjasjónarmiða hvað varðar loftslagsmálin innan lands, svo sem með málþingum. Rannsóknir á kynjaþætti loftslagsmála verði efldar og áhersla lögð á kynjasjónarmið og loftslagsmál, ekki síst í fræðslu hvað málaflokkinn varðar í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands.
    Tímaáætlun: 2010–2012.
    Kostnaðaráætlun: 1,4 millj. kr.
    Ábyrgð: Umhverfisráðuneyti og utanríkisráðuneyti.

36.     Könnun á áhrifum mismunandi hegðunar kynjanna á loftslag á Íslandi.
    Gerð verði könnun á þeim þáttum í hegðun kynjanna hér á landi sem ýmist auka eða minnka losun gróðurhúsalofttegunda, svo sem með akstri einkabíla, notkun á almenningssamgöngum, orkunotkun, flokkun sorps, kaupum á umhverfisvænum vörum, kjötneyslu og öðru. Metið verði hversu mikil áhrif hvort kyn um sig hefur og til hvaða aðgerða þurfi að grípa. Markmiðið sé að vekja fólk til vitundar um áhrif einstaklinganna á umhverfi sitt.
    Tímaáætlun: 2011–2014.
    Kostnaður: 1 millj. kr.
    Ábyrgð: Umhverfisráðuneyti.

H.     Eftirfylgni og endurskoðun.
37.     Eftirfylgni.
    Jafnréttisfulltrúar ráðuneyta annist eftirfylgni með framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum á vettvangi sinna ráðuneyta í samstarfi við Jafnréttisstofu og sérfræðing Stjórnarráðsins í jafnrétti kynja. Framvinduskýrsla fylgi árlegri greinargerð jafnréttisfulltrúa til Jafnréttisstofu. Skýrsla um stöðu verkefna samkvæmt framkvæmdaáætluninni verði lögð fyrir ráðherranefnd um jafnrétti kynja og jafnréttisþing.
    Tímaáætlun: 2010–2014.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda.
    Ábyrgð: Forsætisráðuneyti, öll ráðuneyti.

38.     Árangursmat.
    Áætlunin verði árangursmetin og eftir atvikum endurskoðuð að tveimur árum liðnum frá samþykkt hennar.
    Tímaáætlun: 2012.
    Kostnaðaráætlun: Rúmast innan fjárheimilda.
    Ábyrgð: Velferðarráðuneyti.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Félags- og tryggingamálaráðherra hefur lagt fram fimmtu framkvæmdaáætlun íslenskra ríkisstjórna til að ná fram jafnri stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla á Íslandi. Fyrsta áætlunin var lögð fram í samræmi við ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla á árinu 1985. Lögin voru samþykkt við lok kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna 1976–1985 og byggðust m.a. á samþykktum kvennaráðstefna Sameinuðu þjóðanna. Framkvæmdaáætlunum er ætlað það hlutverk að skilgreina stefnu stjórnvalda á hverjum tíma og lýsa verkefnum sem ýmist varpa ljósi á stöðu kynjanna eða fela í sér beinar aðgerðir í þágu kynjajafnréttis.
    Þessi áætlun er með öðru sniði en verið hefur. Í stað þess að telja upp verkefni eftir hverju ráðuneyti er áætluninni skipt í kafla eftir áherslusviðum ríkisstjórnarinnar á sviði jafnréttismála. Eru kaflarnir átta og bera eftirfarandi heiti: A. Stjórnsýslan, B. Vinnumarkaður – kynbundinn launamunur, C. Kyn og völd, D. Kynbundið ofbeldi, E. Menntir og jafnrétti, F. Karlar og jafnrétti, G. Alþjóðastarf og H. Eftirfylgni og endurskoðun. Gerð er grein fyrir verkefnunum sem eru samtals 38. Með þessu fyrirkomulagi er stefnt að því að áherslur og forgangsröðun stjórnvalda á sviði jafnréttismála birtist með skýrari hætti í framkvæmdaáætluninni. Einnig er lagður grunnur að því að efla eftirfylgni með áætluninni og aðgang að sérfræðiráðgjöf við framkvæmd einstakra verkefna.
    Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 10. maí 2009 var mörkuð sú stefna að styrkja skyldi stöðu jafnréttismála í stjórnkerfinu með því m.a. að setja á fót ráðherranefnd um jafnrétti kynja og marka henni hlutverk við að leiða og samhæfa jafnréttisstarf stjórnvalda. Í ráðherranefndinni eiga forsætisráðherra, félags- og tryggingamálaráðherra og fjármálaráðherra sæti, auk þess sem dómsmála- og mannréttindaráðherra á sæti í nefndinni hvað varðar málaflokkana mansal og kynbundið ofbeldi. Ráðherranefndin mun gegna virku hlutverki við að fylgja framkvæmdaáætluninni eftir.
    Á undanförnum árum hafa verið stigin stór skref í átt til jafnrar stöðu kynjanna á Íslandi. Þar má nefna verulega fjölgun kvenna á Alþingi og í sveitarstjórnum landsins. Einnig er forsætisráðherra kona. Lagabreytingar hafa verið samþykktar sem ætlað er að tryggja áhrif kvenna í stjórnum fyrirtækja og í atvinnulífi og styrkja baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi, vændi og mansali.
    Alþjóðaefnahagsráðið ( World Economic Forum) birtir árlega niðurstöður mælinga á muninum á stöðu karla og kvenna í flestum ríkjum heims, enda telur ráðið stöðu jafnréttismála gefa sterka vísbendingu um samkeppnishæfni þjóða. Norðurlöndin hafa jafnan raðað sér í flest efstu sætin. Í nýjustu skýrslu ráðsins fyrir árið 2010 var Ísland í efsta sæti annað árið í röð, en hafði áður verið í því fjórða. Bættan árangur má nær alfarið rekja til landvinninga kvenna í stjórnmálalífi. Athygli vekur að í mælingum ráðsins á kynjamun á vinnumarkaði sýnir Ísland hvað slakasta stöðu kvenna miðað við önnur svið samfélagsins.
    Margt er óunnið á sviði jafnréttismála og er þessari framkvæmdaáætlun ætlað að ná utan um brýnustu verkefni ríkisstjórnarinnar á sviði kynjajafnréttis enda þótt ekki sé um að ræða tæmandi talningu á verkefnum sem eru brýn á þessu sviði. Þar er fyrst að nefna átak í að samþætta kynjasjónarmið inn í alla ákvarðanatöku og stefnumótun stjórnkerfisins í samræmi við markmið laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þar á meðal er lögð áhersla á kynjaða hagstjórn sem felst í því að kynjasamþættingu er beitt í öllu fjárlagaferlinu. Mikilvægt er að gera samþættingu að viðteknum vinnubrögðum í stjórnsýslunni í því skyni að unnt verði að ná markmiðinu um jafnrétti kynjanna. Gert er ráð fyrir að sérhvert ráðuneyti leggi til árlega tvö verkefni í sameiginlega áætlun og skal þeim lokið á því ári. Er því gert ráð fyrir að ráðuneytin haldi árvekni sinni á gildistíma áætlunarinnar enda krafist nánari útfærslu verkefna á þeim tíma. Jafnréttisfulltrúarnir gegna þýðingarmiklu hlutverki við framkvæmd slíkra verkefna en samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er þeim ætlað að vinna að kynjasamþættingu á málefnasviði ráðuneytanna. Jafnframt er gert ráð fyrir að mælitölur eða lykiltölur á öllum helstu sviðum í starfsemi ráðuneytanna verði greindar eftir kyni til stuðnings stefnumörkun og ákvörðunum.
    Enn hallar nokkuð á konur á íslenskum vinnumarkaði eins og fram kemur meðal annars í skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins yfir stöðu jafnréttismála á Íslandi árið 2010. Á þetta einkum við um launamun kynjanna sem og hlut kvenna í stjórnunar- og áhrifastöðum í atvinnulífinu.
Kynbundinn launamunur mælist enn verulegur á innlendum vinnumarkaði. Í úrtakskönnun Félagsvísindastofnunar frá árinu 2008 mældist kynbundinn launamunur á heildarlaunum 16,3%. Í þeirri könnun kom jafnframt fram að kynbundinn launamunur á landsbyggðinni mældist 27,5% og í einkageiranum 18,3%. Í sömu könnun kom ekki fram marktækur kynbundinn launamunur í opinbera geiranum hjá fólki með grunnskólapróf og fólki með háskólamenntun, en hins vegar mældist launamunur 22,1% hjá fólki með framhaldsskólamenntun. Framangreindar tölur vísa til þess hversu laun kvenna eru lægri en karla að teknu tilliti til vinnutíma, starfs, menntunar, aldurs, starfsgreina, ábyrgðar í starfi og þess hvort fólk er sjálfstætt starfandi eða launafólk. Niðurstöður kannana á launamun kynja eru mjög misvísandi. Stafar það annars vegar af því að gagnasöfn innihalda mismunandi fjölda og tegundir breyta og hins vegar af því að ekki er samstaða um það meðal rannsakenda hvaða breytur teljast málefnalegar og hverjar ekki. Hagstofa Íslands birti til dæmis á árinu 2010 niðurstöður könnunar á launamun kynjanna á tímabilinu 2000–2007, sem unnin var í samvinnu við Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins. Niðurstöðurnar byggjast á tæplega 185 þúsund athugunum á launum einstaklinga sem störfuðu á almennum vinnumarkaði, einkum þó á höfuðborgarsvæðinu. Þær sýndu 7,3% óútskýrðan launamun fyrir sömu ár en þá hafði verið tekið tillit til mun fleiri þátta til skýringa á launamun kynjanna, svo sem örorku, hjúskaparstöðu o.fl.
    Ríkisstjórn Íslands leggur áherslu á að komið verði í veg fyrir kynbundinn launamun á íslenskum vinnumarkaði. Mikilvægt er því að finna leiðir til að aðstoða þá sem taka ákvarðanir um laun starfsmanna innan fyrirtækja við að nota sömu viðmið við að ákvarða laun kvenna og karla svo koma megi í veg fyrir launamun kynjanna. Í því sambandi er meðal annars unnið að gerð jafnlaunastaðals fyrir vinnumarkaðinn í heild í samvinnu við samtök aðila vinnumarkaðarins í samræmi við ákvæði til bráðabirgða í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla frá árinu 2008 og bókun við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði frá febrúar 2008. Enn fremur er þýðingarmikið að efnt verði til aðgerða til að endurmeta umönnunarstörf sem einkum er sinnt af konum. Er það ekki síður liður í að tryggja samfellu í þjónustunni og auka gæði hennar.
    Ein alvarlegasta afleiðing yfirstandandi efnahagsþrenginga er atvinnuleysið sem í október 2010 var 7,5% á landinu öllu. Atvinnuleysi meðal kvenna mældist þá 7,2% en meðal karla 7,8%. Atvinnuleysi jókst hraðar meðal karla en kvenna á síðustu mánuðum 2008 en á árinu 2010 hefur dregið saman með atvinnuleysi kynjanna. Brýnt er að skipulag virkra vinnumarkaðsaðgerða taki mið af þörfum og áhugasviði karla og kvenna. Jafnframt þarf að nýta tækifærin sem leynast við þessar aðstæður til að brjóta upp hefðir í því skyni að sporna við kynbundnu starfsvali. Enn fremur þurfa áætlanir sem miða að fjölgun starfa og nýsköpunar í atvinnulífinu að taka mið af menntun og þörfum beggja kynja. Þarf sérstaklega að huga að þessum þáttum við gerð áætlunarinnar um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða.
    Eitt af markmiðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu. Vinnudagur karla og kvenna í fullu starfi er enn nokkuð langur samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Eins og kemur fram í skýrslu félags- og tryggingamálaráðherra á árinu 2009 um stöðu og þróun í jafnréttismálum dró lítils háttar úr fjölda vinnustunda bæði karla og kvenna árin 2006 og 2007. Karlar störfuðu að meðaltali 46,9 klukkustundir á viku árið 2007 en meðalvinnutími kvenna í fullu starfi var 42,1 stund. Þessi þróun hefur haldið áfram og árið 2009 var meðalvinnutími karla í fullu starfi 46,5 stundir á viku en kvenna 41,6 stundir. Fylgjast þarf náið með tækifærum karla og kvenna til að samræma atvinnu- og fjölskyldulíf, ekki einungis þeirra sem eru með ung börn heldur einnig þeirra sem þurfa að annast sjúka og aldraða nákomna ættingja.
    Ríkisstjórnin leggur jafnframt áherslu á að komið verði í veg fyrir kynbundið ofbeldi. Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er Jafnréttisstofu falið að vinna að forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi og er það mikilvægur liður í að efla jafnrétti meðal kvenna og karla. Í gildi er aðgerðaáætlun vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis frá árinu 2006. Á grundvelli þeirrar áætlunar fól félags- og tryggingamálaráðuneytið meðal annars Rannsóknasetri í barna- og fjölskylduvernd við Háskóla Íslands að annast gerð rannsóknar á ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum. Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka umfang og eðli kynbundins ofbeldis hér á landi í þeim tilgangi að kanna hversu útbreitt það er og til hvaða aðgerða sé rétt að grípa. Niðurstöður rannsóknarinnar hafa sýnt að tíðni ofbeldis mælist mjög svipuð hér á landi og í öðrum löndum. Um það bil fjórða hver kona verður á ævi sinni fyrir kynbundnu ofbeldi af hálfu kærasta, sambýlismanns/maka eða fyrrverandi sambýlismanns/maka. Kynbundið ofbeldi vegur að grundvallarmannréttindum og mannhelgi og meðan það er við lýði verður jafnrétti kynjanna ekki náð.
    Mikilvægt er því að stjórnvöld setji sér nýja áætlun með aðgerðum gegn kynbundnu ofbeldi svo að unnt sé að vinna markvisst gegn kynbundnu ofbeldi enda hefur sýnt sig að slíkar áætlanir gera aðgerðir stjórnvalda markvissari. Á gildistíma gildandi aðgerðaáætlunar hafa meðal annars verið gefin út fræðslurit um ofbeldi í nánum samböndum sem einkum eru ætluð ljósmæðrum, lögreglumönnum, starfsfólki innan félagsþjónustunnar og í heilbrigðisþjónustu.
    Sérstök áhersla er á menntir og kynin í þessari framkvæmdaáætlun. Lengi býr að fyrstu gerð og er því mikilvægt að hefja markvissa jafnréttisfræðslu þegar við upphaf skólagöngu. Upplýsingar frá Hagstofu Íslands benda til að íslenskur vinnumarkaður sé enn mjög kynskiptur, bæði hvað varðar hlutfall kynjanna innan ólíkra starfsgreina og að því er varðar hlutfall kynjanna í stjórnunarstöðum. Staðalmyndir um hefðbundin störf karla og kvenna hafa áhrif á starfsval ungs fólks. Þess vegna er mikilvægt að halda áfram því starfi sem þegar hefur verið ráðist í við að gefa ungu fólki aukin tækifæri til að taka eigin ákvarðanir varðandi framtíð sína, þar á meðal val á námi og starfi í samræmi við áhugasvið sitt. Rannsóknir á brottfalli úr íslenskum framhaldsskólum (2003, 2010) benda til að ungir karlar hafi minni menntun en jafnöldrur þeirra sem getur takmarkað atvinnumöguleika þeirra til lengri tíma litið. Þarf að finna orsök þessarar þróunar og finna leiðir til að hvetja unga menn til að mennta sig.
    Enn fremur ber að nefna alþjóðlegar skyldur Íslendinga. Stjórnvöldum ber að styðja jafnréttisbaráttu fátækra þjóða, ekki síst þeirra sem eru á ófriðarsvæðum. Jafnréttisskólinn, sem starfræktur er í Háskóla Íslands, er dæmi um verkefni sem nýtist nemendum sem koma frá fjarlægum löndum og veitir þeim sem koma að námi og kennslu tækifæri til að auka skilning sinn og þekkingu. Íslendingar styðja jafnréttisbaráttu fátækra þjóða þó aðallega með því að vera framsækin þjóð og til fyrirmyndar í hvívetna, standa vörð um mannréttindi og stuðla að friði og framþróun í heiminum.

Athugasemdir við einstaka kafla þingsályktunartillögunnar.


Um A. Stjórnsýslan.


    Samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla ber stjórnvöldum að setja upp kynjagleraugun og samþætta kynjasjónarmið inn í alla stefnumörkun, áætlanagerð og ákvarðanatöku. Samþætting felur í sér að spyrja hvernig ákvarðanir og áætlanir snerti hvort kyn um sig, hverjir njóti gæða samfélagsins, hvernig og hvers vegna. Við það endurmat og uppbyggingu sem framundan er á íslensku stjórnkerfi er afar brýnt að bæði kynin komi að málum og að tækifærið verði notað til að jafna hlut kynjanna.
    Við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða, sbr. 15. gr. laganna. Eftir að ákvæði þetta var samþykkt árið 2008 hefur hlutur kvenna í stjórnum og ráðum sem skipuð eru af stjórnvöldum aukist verulega. Þrjú ráðuneytanna höfðu náð 40:60 markmiðinu við skipun í nefndir, ráð og stjórnir árið 2007 en hlutur kvenna í nefndum, ráðum og stjórnum innan Stjórnarráðsins var 36% sama ár. Á árinu 2009 höfðu sjö ráðuneyti af tólf náð þessu markmiði en hlutur kvenna í nefndum, ráðum og stjórnum innan Stjórnarráðsins í heild var 39,6%. Ljóst er að gera þarf enn betur innan Stjórnarráðsins svo að fleiri ráðuneyti nái 40:60 markmiðinu við skipun í nefndir, ráð og stjórnir.
    Enn fremur er brýnt að öll ráðuneyti endurskoði gildandi jafnréttisáætlanir sínar í því skyni að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum karla og kvenna á málefnasviðum þeirra. Fellur það í hlut ráðherranefndar um jafnrétti kynjanna að fylgja eftir að úrbætur nái fram að ganga innan stjórnkerfisins. Markmiðið er jafnframt að styrkja stöðu jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna í samræmi við 13. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
    Mikilvægt er að ráðuneytin tileinki sér samþættingu í stjórnsýslunni svo að unnt verði að ná markmiðinu um jafnrétti kynjanna. Í þessu sambandi er minnt á að samþætting er ekki markmið í sjálfri sér heldur er samþætting aðferðin sem getur gert stjórnvöldum kleift að ná markmiðinu um jafnrétti. Sem dæmi um verkefni þar sem kynjasamþættingu er beitt er að unnið verði gegn kynbundnu starfsvali karla og kvenna við vinnumiðlun og skipulag virkra vinnumarkaðsúrræða og tryggt að öll störf standi jafnt konum sem körlum til boða. Enn fremur að gætt verði jafnræðis kynjanna við sértækar aðgerðir stjórnvalda sem ætlað er að stuðla að fjölgun starfa og nýsköpun. Á sviði menntamála verði gert átak í jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum.
    Enn fremur er lögð áhersla á kynjaða hagstjórn sem felur í sér að kynjasamþættingu er beitt í öllu fjárlagaferlinu. Mat fer fram á áhrifum fjárlaga á kynin en markmiðið er að endurskipuleggja bæði tekju- og gjaldahlið fjárlaga á grundvelli jafnréttissjónarmiða. Aðferðin byggist á þeirri forsendu að ákvarðanir í fjármálum hins opinbera eru ekki hlutlausar gagnvart kynjunum og þarf því að fara fram greining á hvaða áhrif einstakir tekju- og útgjaldaliðir hafa á kynin. Tilgangurinn er að auka jafnrétti og tryggja að borgararnir njóti gæða samfélagsins óháð kyni. Fjármálaráðuneytið hefur gefið út handbók um kynjaða fjárlagagerð sem sérfræðingar innan Stjórnarráðsins geta nýtt sér við framkvæmd verkefnisins um kynjaða fjárlagagerð í þessari aðgerðaáætlun.

Um B. Vinnumarkaður – kynbundinn launamunur.


    Grípa þarf til raunhæfra aðgerða til að draga úr kynbundnum launamun og er þess vegna lagt til að gerð verði heildstæð framkvæmdaáætlun um aðgerðir gegn kynbundnum launamun. Þýðingarmikið er að þróaðar verði nokkrar aðferðir til að aðstoða þá sem taka ákvarðanir um laun á íslenskum vinnumarkaði við að nota sömu viðmið við að ákvarða laun kvenna og karla. Enn fremur er mikilvægt að eftirfylgni sé viðhöfð með gerð kannana svo að unnt sé að kanna hvort viðunandi árangur náist.
    Eitt af markmiðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er að gera konum og körlum kleift að samhæfa fjölskyldu- og atvinnulíf. Þykir þetta sérstaklega mikilvægt til að konur geti tekið þátt á vinnumarkaði til jafns við karla og að karlar geti notið samvista við börn sín jafnt og konur. Er því lögð áhersla á samræmingu atvinnu- og fjölskyldulífs í þessari framkvæmdaáætlun enda verður það að teljast eitt af lykilatriðum þess að jafna aðstöðumun kynjanna í samfélaginu. Í því sambandi þarf jafnframt að standa vörð um ávinninga varðandi aukin áhrif kvenna í íslensku atvinnulífi.

Um C. Kyn og völd.


    Hlutur kvenna á Alþingi hefur aukist á síðustu árum. Eftir alþingiskosningarnar 2009 var hlutur kvenna 43% en til samanburðar var hlutur kvenna eftir alþingiskosningarnar 2007 31,7%. Enn fremur hefur hlutur kvenna í sveitarstjórnum á Íslandi aukist smám saman síðastliðna hálfa öld. Í sveitarstjórnarkosningum 29. maí 2010 hlutu 512 einstaklingar kosningu, 308 karlar og 204 konur. Konur eru í dag 40% allra fulltrúa í íslenskum sveitarstjórnum og eru þær í meiri hluta í 16 sveitarstjórnum. Eftir kosningarnar árið 2006 voru konur 36% kjörinna fulltrúa og í meiri hluta í 11 sveitarstjórnum. Sveitarstjórnarstigið verður æ mikilvægara enda annast það flest það sem tengist daglegu lífi fólks. Það er mikilvægt að halda í þekkingu, reynslu og samfellu í starfi sveitarstjórnanna þótt endurnýjun verði að sjálfsögðu að eiga sér stað. Þykir því mikilvægt að gera úttekt á aðstöðu sveitarstjórnarmanna og starfskjörum þeirra.
    Fáar konur eiga sæti í stjórnum íslenskra fyrirtækja. Í úttekt CreditInfo frá árinu 2010 kemur fram að fyrirtækjum á almennum vinnumarkaði með bæði konur og karla í stjórn fækkaði um 16 frá maí 2009 til maí 2010. Hlutfall fyrirtækja með bæði kynin í stjórn lækkaði því úr 15% í 14% milli ára. Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar voru konur 23% stjórnarmanna og stjórnarformanna í fyrirtækjum árið 2009 og 19% framkvæmdastjóra og hafði hlutfallið ekkert breyst frá því árið áður. Hlutfall stjórnarformanna jókst um 1% milli ára, úr 22% í 23%. Ljóst er að litlar framfarir hafa orðið á síðustu árum á þessu sviði sem varð til þess að Alþingi samþykkti breytingar á lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög, með síðari breytingum, og lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, í því skyni að jafna hlut kvenna og karla í áhrifastöðum í hlutafélögum og einkahlutafélögum með auknu gagnsæi og greiðari aðgangi að upplýsingum. Í lögunum segir að í stjórnum einkahlutafélaga og hlutafélaga skuli sitja sem næst jafnmargar konur og karlar. Í tilkynningum um stjórnir til hlutafélagaskrár skal sundurliða upplýsingar um hlutfall kynja í stjórn og jafnframt að í félögum þar sem starfa að jafnaði fleiri en 25 starfsmenn á ársgrundvelli skuli einnig sundurliða upplýsingar um hlutföll kynjanna meðal starfsmanna og stjórnenda félaganna. Er að því stefnt að hlutur kvenna í stjórnum fyrirtækja verði ekki minni en 40% í lok árs 2013. Ef árangur á að nást verður að auka fræðslu og stuðning við fyrirtækin og efla gagnagrunn um konur sem gefa kost á sér til stjórnunarstarfa.

Um D. Kynbundið ofbeldi.


    Gildandi aðgerðaáætlun stjórnvalda vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis rennur út í lok árs 2011. Brýnt er að móta nýja aðgerðaáætlun enda hefur reynslan og aukin þekking beint sjónum að því hvar aðgerða er þörf. Munu niðurstöður rannsóknar félags- og tryggingamálaráðuneytis á ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum verða meðal annars nýttar við gerð nýrrar aðgerðaáætlunar um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi en þegar er hafinn undirbúningur að þeirri áætlun í nefnd sem starfar á vegum félags- og tryggingamálaráðherra. Enn fremur er gert ráð fyrir að í nýrri áætlun verði sjónum ekki síst beint að réttarkerfinu og ofbeldismönnum og aðstoð við þá. Kannað verði hvort rétt sé að tengja saman aðgerðir gegn ofbeldi í nánum samböndum, kynferðisofbeldi, þar á meðal gegn börnum, og aðgerðir gegn mansali og vændi. Þá er brýnt að efla meðferðarúrræði bæði fyrir unga gerendur og karla almennt sem beita konur og börn ofbeldi.

Um E. Menntir og jafnrétti.


    Hugmyndir um jafnrétti kynja mótast á unga aldri og eru áhrifavaldar margir. Skólinn er stofnun sem getur veitt börnum og unglingum aðstoð við greiningu á valdakerfum og viðteknum hugmyndum samfélagsins. Með áherslu á samfélag jafnaðar, jafnréttis og réttlætis í menntamálum er stefnt að því að inntak kennslu, kennsluhættir og námsumhverfi stuðli að markmiðum jafnréttismenntunar. Jafnréttisráðgjafi í mennta- og menningarmálaráðuneyti veitir upplýsingar, aðstoð og eftirfylgni. Áhersla verður lögð á verkefni sem veita öllum jöfn tækifæri til að þroskast á eigin forsendum og rækta hæfileika sína í námi, listsköpun, íþróttum og öðrum áhugamálum. Jafnframt er stefnt að því að skapa rannsóknaumhverfi sem fellur jafnt að kvenlægu og karllægu gildismati. Íslendingar sækja íþrótta- og menningarviðburði vel og nota gjarnan frítíma sinn til listrænnar sköpunar og vinnu við menningarstarfsemi. Munur er hins vegar á menningarneyslu kynja og verður leitast við að stuðla að jöfnum tækifærum fyrir konur og karla.
    Lagt er til að framhald verði á verkefninu Jafnrétti í skólum þar sem meginmarkmiðið var að efla jafnréttisfræðslu þegar á fyrstu skólastigunum og samþætta kynjasjónarmið í kennslu. Verkefnið var unnið í grunnskóla og leikskóla í fimm sveitarfélögum en markmiðið er að hugmyndir og verkefni sem unnin voru nýtist fleiri skólum og sveitarfélögum. Við framkvæmd þessa verkefnis kom í ljós að efla þarf kynjafræðilegan þekkingargrunn kennara og auka þekkingu þeirra á jafnréttismálum. Er því lagt til að inntak kennaramenntunar verði endurskoðað og háskólar hvattir til að innleiða námskeið í kynjafræðum fyrir alla nemendur. Er það einkum gert í ljósi þess að forsenda markvissrar jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum er vel menntaðir kennarar á því sviði.

Um F. Karlar og jafnrétti.


    Á kynskiptum vinnumarkaði njóta karlar hags af kyngerð samfélagsins þegar kemur að launum og áhrifum. Rannsóknir sýna hins vegar að atvinnuþátttaka beggja kynja er grundvöllur jafnréttis og hagsældar samfélaga. Til að auka jafnrétti þarf því að tryggja möguleika fyrir bæði karla og konur til þátttöku á vinnumarkaði, í uppeldi og fjölskyldulífi. Jafnrétti snýst bæði um karla og konur. Rótgrónar staðalmyndir um starfsval, fyrirvinnur, tómstundir, hlutverk innan fjölskyldu og vinnumenningu skerða lífsgæði margra karla. Er því ekki síður mikilvægt að þeir taki þátt í jafnréttisumræðunni til jafns við konur. Þess vegna er mikilvægt að auka hlut karla í umræðu um jafnréttismál, skoða þátt karla við að breyta staðalímyndum og skoða og skilja áhrif kyngerðar á hlutverk karla, bæði á heimili og í atvinnu.
    Árið 1991 skipaði Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi félagsmálaráðherra, nefnd um stöðu karla í breyttu samfélagi með jafnari fjölskylduábyrgð og verkaskiptingu. Seinna skipaði jafnréttisráð „karlanefnd Jafnréttisráðs“ og vakti vinna nefndarinnar jákvæða athygli á jafnréttismálum. Því er lagt til að skipaður verði karlahópur til að leggja á ráðin um hvernig megi auka hlut karla í umræðu um jafnréttismál og stuðla að samstarfi um rannsóknir á sviði karla og jafnréttis.

Um G. Alþjóðastarf.


    Barátta fyrir jafnrétti kynjanna skipar veigamikinn sess í mannréttindastarfi Íslands á alþjóðavettvangi. Þrátt fyrir að ákveðinn árangur hafi náðst á undanförnum árum hvað varðar alþjóðasamþykktir um framgang kvenna og jafnrétti kynjanna eru réttindi kvenna brotin víðs vegar um heim. Aukið jafnrétti er forsenda fyrir betri, öruggari og réttlátari heimi. Þannig er jafnrétti kynjanna ekki einungis eitt af þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna heldur einnig forsenda þess að önnur markmið nái fram að ganga.
    Íslensk stjórnvöld eru á alþjóðavettvangi málsvarar bættrar stöðu kvenna og aukins jafnréttis kynjanna. Hafa íslensk stjórnvöld einkum horft til valdeflingar kvenna, t.d. með því að stuðla að aukinni þátttöku kvenna í allri ákvarðanatöku. Einkum hefur verið litið til aðkomu kvenna að friðarviðræðum, uppbyggingarstarfi að átökum loknum og öðrum friðarferlum, sem og að konur séu virkir þátttakendur í ákvarðanatöku á sviði loftslagsmála og viðbrögðum við loftslagsbreytingum.
    Breytingar á loftslagi jarðar vegna losunar gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum eru ein stærsta vá sem mannkynið stendur frammi fyrir. Umfangsmiklar alþjóðlegar samningaviðræður fara nú fram í því skyni að herða skuldbindingar um losun og efla aðgerðir til aðlögunar að loftslagsbreytingum. Íslensk stjórnvöld hafa í málflutningi sínum lagt áherslu á jafnréttissjónarmið og virka þátttöku kvenna við ákvarðanatöku og aðgerðir í loftslagsmálum.

Um H. Eftirfylgni og endurskoðun.


    Það er mat stjórnvalda að eftirfylgni og sérfræðiaðstoð við framkvæmd verkefna sé mikilvæg forsenda fyrir góðum árangri. Það styrkir mikilvægi þessa lögbundna stjórntækis sem framkvæmdaáætluninni er ætlað að vera og leiðir til þess að hún nýtur meiri virðingar og verður markvissari í alla staði. Samhliða því að starf jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna verður eflt er þeim markað verulegt hlutverk við að sinna eftirfylgni með framkvæmdaáætluninni á vettvangi ráðuneyta sinna auk þess sem samstarfi og samráði þeirra á milli er ætlað að vera þeim stuðningur í því hlutverki. Í því sambandi mun sérfræðingur Stjórnarráðsins í jafnrétti kynja, sem staðsettur er innan forsætisráðuneytis, gegna miðlægu hlutverki við að veita faglega ráðgjöf og stuðning, auk Jafnréttisstofu. Jafnframt er gert ráð fyrir að ráðherranefnd um jafnrétti kynja beiti virku aðhaldi við framkvæmd verkefna með því að kalla reglulega eftir upplýsingum um framgang þeirra. Þá eru bundnar vonir við að Jafnréttisþing, sem lögum samkvæmt ber að halda á tveggja ára fresti, veiti stjórnvöldum öflugt aðhald við framkvæmd áætlunarinnar.Fylgiskjal.Skýrsla félags- og tryggingamálaráðherra
um stöðu og þróun jafnréttismála.Formáli.
    Félags- og tryggingamálaráðherra skal samkvæmt lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla, nr. 10/2008, sem samþykkt voru á Alþingi 26. febrúar 2008, boða til jafnréttisþings á tveggja ára fresti. Við undirbúning þess nýtur ráðherra aðstoðar Jafnréttisráðs. Hlutverk þess samkvæmt lögunum er þríþætt. Í fyrsta lagi skal ráðherra leggja fyrir þingið skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála á helstu sviðum samfélagsins ásamt mati á árangri verkefna í gildandi þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Þetta er sú skýrsla sem hér liggur fyrir í þessu riti. Í öðru lagi skal kynna á þinginu drög að nýrri framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum og leita eftir ábendingum og tillögum áður en hún er lögð fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu. Í þriðja lagi skal þingið vera vettvangur samræðu milli almennings, fulltrúa stofnana og fyrirtækja, aðila vinnumarkaðar, frjálsra félagasamtaka sem láta sig jafnréttismál varða og alþingismanna um helstu málefni jafnréttisbaráttunnar í því skyni að marka stefnuna til framtíðareða nánustu framtíðar og greina brýn úrlausnarefni hennar. Í lögunum er Jafnréttisráði jafnframt falið að taka saman umræður þingsins fyrir ráðherra.
    Stefnt er að því að rit eins og hér liggur fyrir verði gefið út í tengslum við jafnréttisþing hverju sinni. Auk skýrslu ráðherra um stöðuna í jafnréttismálum inniheldur það mikið talnaefni sem Jafnréttisstofa hefur tekið saman í þeim tilgangi að fyrir hendi séu á einum stað tölulegar upplýsingar um þróun jafnréttis karla og kvenna á helstu sviðum samfélagsins. Með reglulegri útgáfu á slíku talnaefni gefst öllum sem áhuga hafa kostur á að fylgjast auðveldlega með stöðu kvenna og karla og þróuninni í jafnréttismálum í samfélaginu.

I. Inngangur


    Síðla vetrar 2008 öðlaðist gildi hér á landi ný heildarlöggjöf á sviði jafnréttismála sem byggðist í meginatriðum á tillögum þverpólitískrar nefndar undir forystu Guðrúnar Erlendsdóttur, fyrrverandi hæstaréttardómara, en fulltrúar alla þingflokka sem áttu sæti á Alþingi á kjörtímabilinu 2003–2007 áttu sæti í nefndinni. Skýrsla þessi um stöðu og þróun jafnréttismála er lögð fyrir fyrsta jafnréttisþingið sem haldið er á grundvelli hinnar nýju löggjafar, sbr. lög nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, en þingið verður haldið 16. janúar 2009. Eldri lög gerðu ráð fyrir að félagsmálaráðherra legði slíka skýrslu fyrir Alþingi og var það síðast gert 1. mars 2007. Skýrslunni er ætlað að gefa yfirlit yfir stöðu verkefna í gildandi þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum en jafnframt er gert ráð fyrir að í skýrslunni komi fram upplýsingar um stöðu kynjanna á helstu sviðum samfélagsins, svo sem á vinnumarkaði, þar á meðal um þróun kynbundins launamunar, atvinnuþátttöku kvenna og karla, þátttöku kvenna og karla í stjórnmálum og kynjahlutfallið í opinberum nefndum, ráðum og stjórnum. Auk þessa er gert ráð fyrir umfjöllun um þá þróun sem orðið hefur á einstökum sviðum frá fyrri skýrslu.

Þróun jafnréttismála.
    Annar hluti skýrslu þessarar fjallar um stöðu og þróun jafnréttismála hér á landi frá þeim tíma er síðasta skýrsla tók til eða frá árinu 2006 fram til ársloka 2008. Tilgangur þessa er að gefa yfirlit yfir stöðu mála að því er varðar jafnrétti kynjanna á helstu sviðum samfélagsins svo unnt sé að staldra við og líta yfir farinn veg í því skyni að meta hvar skórinn kreppir helst og hvort taka þurfi upp nýjar aðferðir sem tryggja frekari árangur. Við gerð skýrslunnar var stuðst við nýjustu tölulegu upplýsingarnar sem aðgengilegar voru en eðli málsins samkvæmt lágu ekki alltaf fyrir tölur vegna ársins 2008 þegar við lok þess. Skýrslunni er ekki ætlað að gefa tæmandi upplýsingar um stöðu jafnréttismála hér á landi en engu síður gefa ágæta yfirsýn og endurspegla helstu þætti jafnréttisbaráttunnar undanfarna áratugi. Þar hafa fjölmargir aðilar gegnt lykilhlutverki og aðilar vinnumarkaðarins, hagsmunaaðilar og frjáls félagasamtök innan lands og erlendis lagt mikið af mörkum og haft áhrif á þau skref sem stjórnvöld hafa stigið.

Framkvæmd á fyrri áætlun.
    Þriðji hluti skýrslunnar fjallar um verkefni sem er að finna í þingsályktun um áætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2004–2008. Í ljósi þess að félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, lagði fram á Alþingi frumvarp til nýrra heildarlaga um jafnrétti kynjanna í október 2007 þar sem boðaðar voru nýjar leiðir við undirbúning þingsályktunartillögu að framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum þótti eðlilegt að bíða meðferðar þingsins á frumvarpinu áður en hafist yrði handa við smíði nýrrar tillögu. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir því nýmæli að við smíði framkvæmdaáætlunar í jafnréttismálum yrði höfð hliðsjón af umræðum jafnréttisþings sem aftur er ætlað að vera mikilvægur samræðuvettvangur þeirra sem láta sig jafnréttismál varða en ekki eingöngu fulltrúa stjórnvalda. Lögin voru samþykkt með þessum tillögum ráðherra í lok febrúar 2008. Jafnréttisþing var ákveðið í nóvember sama ár en vegna þrenginga á fjármálamarkaði á þeim tíma þótti óhjákvæmilegt að þinginu yrði frestað fram í janúar 2009. Ástæðan var einkum sú að þingið var ekki talið geta náð markmiðum sínum í því óvissuástandi sem ríkti í efnahagsmálum þjóðarinnar á þessum tíma í kjölfar hruns bankanna þar sem fjölmargir þeirra sem ráðuneytið vildi virkja til þátttöku á þinginu voru bundnir við að ráða fram úr aðkallandi úrlausnarefnum sem tengdust þeim sérstöku aðstæðum sem þá ríktu á fjármálamarkaði. Enn fremur þótti mikilvægt að umræðan á jafnréttisþingi gæti endurspeglað þær aðstæður sem fyrir hendi eru í samfélaginu á hverjum tíma og þótti því lengri tími til undirbúnings þingsins nauðsynlegur enda höfðu aðstæður gjörbreyst á mjög skömmum tíma. Því er eðlilega nokkur tími liðinn frá því að vinnu við mörg verkefnanna í eldri þingsályktun fyrir árin 2004–2008 lauk en engu síður var ákveðið að halda lýsingu á framkvæmd þeirra inni í skýrslu þessari til að gefa heildstæða sýn yfir framkvæmdina á þeirri þingsályktun.

Breytt vinnubrögð.

    Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur lengi verið talsmaður þess að leitað verði nýrra leiða við framsetningu verkefna sem og val á aðgerðum í framkvæmdaáætlun stjórnvalda svo hún verði raunverulegt tæki sem leiði til árangurs í jafnréttismálum og færi okkur fram á veginn í átt að jafnrétti kynjanna. Félags- og tryggingamálaráðuneyti og Jafnréttisstofa hafa þegar hafið undirbúning að nýrri framkvæmdaáætlun þar sem lagðar verða til aðgerðir sem eru til þess fallnar að ná fram markmiðum nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Frumdrög verða lögð fram á jafnréttisþingi sem grundvöllur umræðna um hugmyndir að aðgerðum sem vænlegar eru til árangurs á þessu sviði. Þá verður jafnframt lögð áhersla á að sett verði fram mælanleg markmið fyrir hverja aðgerð svo unnt verði að meta árangur þeirra, eftir atvikum, við lok aðgerða eða lok gildistíma áætlunar. Slíkt mat hefur ekki farið fram á eldri jafnréttisáætlunum enda oft óljóst hvaða árangri verkefnin áttu raunverulega að skila.

Mikilvæg skref í jafnréttismálum.
    Fyrir liggur að margt hefur áunnist á undanförnum árum og áratugum á sviði jafnréttismála í íslensku samfélagi og má þar nefna umtalsverða hlutfallslega aukningu kvenna sem afla sér framhaldsmenntunar. Mikil þátttaka kvenna á vinnumarkaði hér á landi hefur vakið athygli í alþjóðlegum samanburði og samkvæmt upplýsingum sem fram koma í skýrslu þessari er hlutfallsleg atvinnuþátttaka ungra kvenna og karla nokkuð jöfn. Enn fremur er vert að geta þess að hlutur háskólamenntaðra kvenna á vinnumarkaði hefur haldið áfram að aukast samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands; árið 2002 voru þær 47,1% af starfandi háskólamenntuðu vinnuafli en 50,1% árið 2007 eftir að hafa farið í 52,1% árið 2006. Þá hafa lagaákvæði um þriggja mánaða fæðingarorlof feðra vakið athygli annarra þjóða. Eins og fram kemur í skýrslunni óskaði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins eftir því að félags- og tryggingamálaráðuneytið skipulegði fund sérfræðinga frá fjórtán aðildarríkjum Evrópusambandsins þar sem þeir kynntu sér fyrirkomulag og framkvæmd fæðingarorlofs hér á landi. Fundurinn var liður í undirbúningi framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins við gerð nýrrar stefnumótunar í fjölskyldumálum. Sérstakur jafnréttissjóður á vegum stjórnvalda, sem eingöngu veitir fjármunum til rannsókna á sviði jafnréttismála, hefur verið settur á fót og er það í fyrsta sinn sem fjármunum er veitt í rannsóknir á sviði jafnréttismála með markvissum hætti ár hvert. Mikilvægt er að stjórnvöld geti á hverjum tíma metið áhrif mismunandi aðgerða og tækja sem notuð eru í jafnréttisbaráttunni og hafa rannsóknir sem jafnréttissjóðurinn hefur styrkt aukið þekkingu á þessu sviði. Stjórnmálaþátttaka kvenna þokast nær 40:60 markmiðinu. Eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2006 var hlutur kvenna í sveitarstjórnum tæp 36% en framangreindu markmiði var náð á höfuðborgarsvæðinu þar sem hlutur kvenna er 40% fulltrúa. Við árslok 2008 sátu konur í 37% þingsæta en eingöngu 20 konur náðu kjöri við síðustu alþingiskosningar 2007 sem nam 31,7% þingmanna. Virðist tilhneiging til að konum fjölgi á Alþingi þegar líður á kjörtímabilin er varamenn taka sæti aðalmanna. Þrjú ráðuneytanna höfðu náð 40:60 markmiðinu við skipun í nefndir, ráð og stjórnir árið 2007 en það voru félagsmálaráðuneytið, heilbrigðisog tryggingamálaráðuneytið og menntamálaráðuneytið. Hlutur kvenna í nefndum, ráðum og stjórnum innan Stjórnarráðsins jókst um 4% milli áranna 2005 og 2007 eða úr 32% í 36% sem verður að teljast skref í rétta átt. Þá var kynjahlutfallið meðal fréttastjóra dagblaða jafnt árið 2006 samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands eða þrjár konur og þrír karlar. Er það einkum ánægjuleg þróun í ljósi þess að árið 2003 var engin kona starfandi sem fréttastjóri dagblaðs en ein kona bættist í hóp þeirra árið 2004.

Ný löggjöf.
     Væntingar standa til þess að þær breytingar sem gerðar voru frá eldri lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og tóku gildi 18. mars 2008 séu til þess fallnar að styrkja stöðu jafnréttismála og muni með markvissari hætti stuðla að auknu jafnrétti kvenna og karla. Meðal þeirra breytinga sem gerðar voru með nýjum lögunum var að eftirlitshlutverk Jafnréttisstofu var gert skýrara þar sem stofnuninni voru fengnar frekari heimildir til öflunar gagna hjá fyrirtækjum og stofnunum. Enn fremur var Jafnréttisstofu gert heimilt að fylgja eftir úrskurðum kærunefndar jafnréttismála að ósk kæranda en ákvarðanir nefndarinnar eru í fyrsta skipti í formi bindandi úrskurða. Þá var Jafnréttisstofu falið sérstakt eftirlitshlutverk með gerð jafnréttisáætlana hjá fyrirtækjum með fleiri en 25 starfsmenn og er jafnframt ætlað að meta hvort efni þeirra sé viðunandi. Jafnframt hefur nú í kjölfar gildistöku nýrra jafnréttislaga í fyrsta sinn verið ákveðið að jafnréttisfulltrúar starfi í fullu starfi í fleiri en einu ráðuneyti innan Stjórnarráðs Íslands og fái þannig tækifæri til þess að vinna að og fylgja áformum stjórnvalda á sviði jafnréttismála eftir með markvissari hætti en áður.

Hlustum á raddir beggja kynja.
    Atvinnuþátttaka kvenna og karla hefur eins og fyrr segir verið mikil á íslenskum vinnumarkaði og hlutfallslegt atvinnuleysi í lágmarki hjá báðum kynjum hin síðustu ár. Atvinnuleysi jókst hins vegar hratt á síðustu mánuðum ársins 2008 í kjölfar þrenginga á fjármálamarkaði í október síðastliðnum. Sú þróun kemur til með að hafa töluverð áhrif á innviði íslensks samfélags og þá ekki síst á fólkið sjálft í náinni framtíð. Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að missa ekki sjónar á mikilvægi þess að viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum karla og kvenna þannig að allir fái notið eigin atorku og eigi jafna möguleika á að þroska hæfileika sína óháð kyni. Við uppbyggingu samfélagsins er því þýðingarmikið að bæði konur og karlar fái þar hlutverk og hlustað verði á raddir beggja kynja svo þær endurspeglist í lífi okkar frá degi til dags.

Aðgerðir gegn kynbundnum launamun.
    
Kynbundinn launamunur hefur verið viðvarandi vandamál á íslenskum vinnumarkaði og hafa kannanir sýnt að lítið þokist í þeim efnum þrátt fyrir ákvæði jafnréttislaga og margvíslegar aðgerðir stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins og félagasamtaka. Sú staðreynd verður að teljast óásættanleg í þróuðu nútímasamfélagi þar sem bæði kynin afla sér hliðstæðrar menntunar og almennt er viðurkennt að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði leiði til hagsældar og sé lykillinn að samkeppnishæfni íslensks vinnumarkaðar. Því hefur verið haldið fram að kynbundinn launamunur dafni vel í skjóli svonefndrar samningsbundinnar launaleyndar. Með nýjum jafnréttislögum er launafólki hins vegar tryggður sá réttur að vera ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum kjósi það svo. Þá hafa verið starfandi þrír starfshópar á vegum stjórnvalda, í samvinnu við samtök aðila á vinnumarkaði, í því skyni að fylgja eftir þeim hluta stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá maí 2007 er varðar launajafnrétti kynjanna og koma með tillögur að leiðum sem vænlegar eru til árangurs við að koma í veg fyrir kynbundinn launamun. Hóparnir hafa þegar aflað ítarlegra gagna og ráðgjafarhópur félags- og tryggingamálaráðherra hefur látið vinna nýja ítarlega rannsókn um stöðu mála sem gerð er grein fyrir í skýrslu þessari og verður hún kynnt á jafnréttisþinginu. Starfshópur um framkvæmd jafnlaunastefnu á almennum vinnumarkaði hefur lagt megináherslu á að kanna hvernig laun eru ákveðin og telur áhrifaríkast að breyta vinnuaðferðum við launamyndun og launaþróun innan fyrirtækja. Bent er á þrjár leiðir í þessu skyni sem eru starfsmat, launavottun og vegvísir um launasetningu sem kynntur er í skýrslu hópsins til ráðherra í október 2008. Skýrslan hefur þegar verið birt og verður kynnt nánar á jafnréttisþingi. Vegvísi um launasetningu var unninn í samvinnu við Starfsmannastjóraklúbbinn hér á landi. Þegar er hafin vinna við gerð fyrsta launajafnréttisstaðals hér á land, en félags- og tryggingamálaráðherra, Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa farið þess á leit við Staðlaráð Íslands að það hafi umsjón með gerð staðals sem notaður verði til að sannreyna hvort launa- og starfsmannastefna stofnana og fyrirtækja samræmist stefnu um launajafnrétti kynjanna og jafnrétti við ráðningar og uppsagnir. Atvinnurekendur sem uppfylla skilyrði staðalsins geta síðan fengið formlega vottun fyrir því að launa- og starfsmannastefna þeirra samræmist lögum um jafnrétti kynjanna. Miðað er við að vinna við gerð hins nýja launajafnréttisstaðals ljúki á árinu 2009. Starfsmati hefur verið beitt við launasetningu hjá nokkrum sveitarfélögum hér á landi í allmörg ár. Helsti kostur þess er að það er viðurkennd leið til að ákvarða sömu grunnlaun fyrir ólík störf sem metin eru sambærileg eða jafnverðmæt. Ofan á starfsmat er unnt að byggja mat á einstaklingsbundinni hæfni, frammistöðu eða árangri sem ræður þá einstaklingsbundnum viðbótarlaunum. Niðurstaða jafnlaunahópsins er sú að starfsmat, vottunarleiðin og notkun vegvísis séu náskyldar aðferðir sem útiloki ekki hver aðra. Eðlilegast sé að fyrirtæki velji þá leið sem þau telja best henta aðstæðum sínum til að stuðla að launajafnrétti kynja. Þá leggur hópurinn ríka áherslu á að launamyndunin sé skoðuð reglulega innan hvers fyrirtækis og því þurfi regluleg jafnlaunaúttekt innan hvers fyrirtækis að vera jafnsjálfsögð og vöktun annarra lykiltalna í rekstri þess. Þá efndi starfshópur um sambærileg málefni tengd opinberum vinnumarkaði í desember síðastliðnum til könnunar meðal forstöðumanna ríkisstofnana um ýmislegt sem lýtur að stjórnun starfsmannamála, jafnrétti og launamun enda ljóst að forstöðumenn munu gegna lykilhlutverki í öllum beinum aðgerðum til að draga úr launamun kynjanna hjá hinu opinbera. Þátttaka í könnuninni var góð, eða 65%, og verða niðurstöðurnar hafðar til hliðsjónar við mótun tillagna til úrræða en næsta verkefni starfshópsins er einmitt að leggja fram tillögur um leiðir til að minnka launamun kynjanna hjá hinu opinbera. Nánar verður gerð grein fyrir vinnu hópsins á jafnréttisþinginu.

Kynbundið ofbeldi og mansal.
    Kynbundið ofbeldi þykir smánarblettur á vestrænum samfélögum og í nýjum jafnréttislögum er nú í fyrsta sinn kveðið á um að Jafnréttisstofa vinni að forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi og er það mikilvægur liður í því að efla jafnrétti meðal kvenna og karla. Félags- og tryggingamálaráðuneytið fól Rannsóknasetri í barna- og fjölskylduvernd við Háskóla Íslands að gera rannsókn í tengslum við ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum á grundvelli aðgerðaáætlunar stjórnvalda vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis. Rannsóknin stendur enn yfir en fyrstu hlutar hennar hófust haustið 2008. Markmið hennar er að kanna hversu útbreitt kynbundið ofbeldi er hér á landi og til hvaða aðgerða sé rétt að grípa. Rannsóknin skiptist í sex rannsóknarverkefni en við gerð hennar er höfð hliðsjón af alþjóðlegri rannsókn sem Sameinuðu þjóðirnar áttu frumkvæði að. Ráðgert er að niðurstöður úr tveimur rannsóknarverkefnum liggi þegar fyrir vorið 2009 en áætlað er að rannsókninni verði að fullu lokið árið 2011. Í árslok 2008 komu út fræðslurit um ofbeldi í nánum samböndum sem Ingólfur V. Gíslason, lektor við Háskóla Íslands, tók saman en ritin eru einkum ætluð ljósmæðrum, lögreglumönnum, starfsfólki innan félagsþjónustunnar sem og í heilbrigðisþjónustu. Markmiðið er að efla fræðslu og þekkingu þessara fagstétta sem sinna og vinna með konum sem hafa verið beittar ofbeldi af hálfu nákominna aðila. Verkefni þetta er jafnframt liður í aðgerðaáætlun stjórnvalda vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis. Þá hefur Alþingi samþykkt frekari lagabreytingar sem ætlað er að gera úrræði virkari að því er varðar kynbundið ofbeldi.
    Ríkisstjórn Íslands samþykkti tillögu félagsmálaráðherra og dómsmálaráðherra í desember 2007 um að stjórnvöld setji sér sérstaka aðgerðaáætlun gegn mansali svo koma megi betra skipulagi á þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til þess að koma í veg fyrir mansal hér á landi. Félags- og tryggingamálaráðherra skipaði starfshóp í janúar 2008 til að vinna að gerð slíkrar aðgerðaáætlunar sem yrði þá fyrst sinnar tegundar hér á landi. Samráðshópurinn er enn að störfum en áætlað er að ráðherra kynni nýja aðgerðaáætlun í febrúar 2009.

Áfram verk að vinna.
    Tölulegar upplýsingar gefa til kynna að enn sé langt í land svo jöfnum áhrifum kvenna og karla verði náð á öllum sviðum í íslensku samfélagi. Verður þó að líta til þess að víðast hvar hafa verið stigin skref í framfaraátt þótt finna megi dæmi um hið gagnstæða eða stöðnun sem leita verður skýringa á og bregðast við. Mikilvægt er að móta og virkja aðgerðir sem hraða þeirri jákvæðu þróun sem hefur átt sér stað undanfarna áratugi þar sem hverju stigi í átt til jafnréttis kynjanna hefur verið fagnað. Þannig er mikilvægt að nýjum jafnréttislögum verði markvisst fylgt eftir og að ný framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum verði einfaldari og endurspegli forgangsröð sem byggist á stöðu mála hverju sinni. Jafnréttisstofa hefur verið efld með nýjum jafnréttislögum og starf jafnréttisfulltrúa innan Stjórnarráðsins einnig. Stjórnvöldum hefur þannig verið gert betur kleift að fylgja eftir markmiðum sem sett hafa verið. Persónur og leikendur í samfélagi okkar gegna hér afar mikilvægu hlutverki sem þeim ber að sinna af árvekni og alúð. Á það við á öllum sviðum samfélagsins og meðal beggja kynja; í uppeldi og fjölskyldulífi, á vinnumarkaði og síðast en ekki síst á vettvangi stjórnmálanna og hjá ríki og sveitarfélögum þar sem grunnur er lagður að samfélagslegri þátttöku og leiðum kvenna og karla til þess að hafa áhrif á eigið líf. Við megum ekki sofna á verðinum. Samfélagið í heild hefur hér verk að vinna frá degi til dags, ár frá ári.

II. Staða og þróun jafnréttismála.A. Ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
i. Almennt.
    Þann 26. febrúar 2008 voru samþykkt á Alþingi ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, sem leysa af hólmi eldri lög um sama efni. Í nýju lögunum er kveðið á um ýmis nýmæli auk þess sem einstaka ákvæði eldri laga eru skýrð nánar.

ii. Jafnréttisstofa.
    Með ákvæðum nýju laganna voru gerðar ákveðnar breytingar á verkefnum Jafnréttisstofu. Ein þeirra lýtur að eftirlitshlutverki Jafnréttisstofu en hafi Jafnréttisstofa rökstuddan grun um brot gegn ákvæðum laganna hefur hún heimild til að óska eftir upplýsingum frá viðkomandi fyrirtæki eða stofnun í því skyni að upplýsa um málsatvik og er þeim aðilum skylt að láta Jafnréttisstofu í té upplýsingar og gögn sem Jafnréttisstofa telur nauðsynleg í því skyni að upplýsa um málsatvik. Verði viðkomandi aðilar ekki við beiðni Jafnréttisstofu innan hæfilegs frests hefur stofan heimild til að leggja á viðkomandi aðila dagsektir þar til upplýsingarnar og gögnin hafa verið látin í té. Fái Jafnréttisstofa staðfestan grun sinn um brot skal hún óska eftir því að kærunefnd jafnréttismála taki málið til meðferðar.
    Samkvæmt lögunum er það jafnframt eitt af verkefnum Jafnréttisstofu að hafa eftirlit með að fyrirtæki og stofnanir með fleiri en 25 starfsmenn geri jafnréttisáætlanir eða samþætti jafnréttissjónarmið inn í starfsmannastefnu sína. Enn fremur er Jafnréttisstofu ætlað að meta hvort efni þeirra sé viðunandi en Jafnréttisstofa hefur heimild til að kalla eftir skýrslum um framgang mála frá umræddum fyrirtækjum og stofnunum. Láti fyrirtæki eða stofnun hjá líða að afhenda afrit af áætlunum sínum eða gefa skýrslu um framgang mála þegar Jafnréttisstofa óskar eftir því hefur Jafnréttisstofa heimild til að leggja dagsektir á viðkomandi aðila þar til úr hefur verið bætt.
    Þá kveða lögin á um heimild Jafnréttisstofu til að fylgja úrskurðum kærunefndar jafnréttismála eftir að ósk kæranda. Fari kærði hvorki að úrskurði kærunefndar jafnréttismála né fyrirmælum Jafnréttisstofu er stofunni heimilt að leggja dagsektir á kærða þar til hann hefur gripið til viðunandi úrbóta.
    Enn fremur er það verkefni Jafnréttisstofu að leita sátta í ágreiningsmálum sem stofunni berast og varða ákvæði laganna. Er kærunefnd jafnréttismála meðal annars heimilt að höfðu samráði við málshefjanda að senda mál til sáttameðferðar hjá Jafnréttisstofu. Í frumvarpi því er varð að lögunum kemur fram að rétt þyki að leggja til slíka málsmeðferð enda megi gera ráð fyrir að í einhverjum tilvikum geti það leitt til skjótari niðurstöðu án þess að rýra rétt kæranda.
     Rétt er að vekja athygli á tveimur nýjum verkefnum sem bættust við verkefni Jafnréttisstofu við gildistöku nýju laganna. Í lögunum er sérstaklega kveðið á um að Jafnréttisstofa skuli vinna að forvörnum gegn kynbundnu ofbeldi í samstarfi við önnur stjórnvöld og samtök sem sinna slíkum forvörnum. Enn fremur er það eitt af verkefnum Jafnréttisstofu samkvæmt lögunum að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla.

iii. Kærunefnd jafnréttismála.
    Kærunefnd jafnréttismála starfar á grundvelli laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Samkvæmt nýju lögunum skal félags- og tryggingamálaráðherra skipa þrjá fulltrúa í nefndina til þriggja ára í senn að undangenginni tilnefningu Hæstaréttar. Skulu fulltrúarnir allir vera lögfræðingar og að minnsta kosti einn þeirra hafa sérþekkingu á jafnréttismálum. Að auki skulu formaður og varaformaður uppfylla skilyrði um embættisgengi héraðsdómara.
    Verkefni kærunefndar jafnréttismála er áfram að taka erindi sem henni berast til meðferðar en einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök, í eigin nafni eða fyrir hönd félagsmanna sinna sem telja að ákvæði laganna hafi verði brotin á sér, geta leitað atbeina kærunefndarinnar. Með nýju lögunum var gerð sú breyting að kærunefnd jafnréttismála skal kveða upp skriflega úrskurði, í stað álita áður, um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin í viðkomandi tilvikum. Úrskurðir nefndarinnar eru bindandi fyrir málsaðila. Fram kemur í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögunum að með þeirri tilhögun sé verið að leitast við að veita niðurstöðum nefndarinnar meira vægi en áður auk þess sem framkvæmd þessara mála sé með þessu færð nær því sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Þá eru niðurstöður nefndarinnar ekki kæranlegar til æðra stjórnvalds.
    Við gildistöku nýju laganna tóku enn fremur gildi ýmis nýmæli að því er varðar málsmeðferð fyrir kærunefnd jafnréttismála. Þannig var almennur kærufrestur styttur úr tólf mánuðum niður í sex mánuði auk þess sem kveðið er skýrt á um að nefndin skuli kveða upp úrskurð svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en þremur mánuðum eftir að henni berst mál í hendur. Einnig eru ákvæði í lögunum um að nefndin geti ákveðið að fresta réttaráhrifum úrskurðar með nánar tilgreindum skilyrðum og geti einnig ákveðið að sá sem kæra beinist gegn greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi enda sé niðurstaða nefndarinnar kæranda í hag. Enn fremur er kveðið á um það nýmæli að nefndin geti úrskurðað að kærandi skuli greiða gagnaðila málskostnað sé kæra bersýnilega tilefnislaus að mati nefndarinnar. Þá er kveðið á um að sé úrskurður kærunefndar kæranda í hag en gagnaðili vill ekki una úrskurðinum og höfðar mál til ógildingar honum fyrir dómstólum skuli kærandi fá greiddan málskostnað úr ríkissjóði bæði í héraði og fyrir Hæstarétti.

iv. Jafnréttisráð.
    Í nýju lögunum er jafnframt kveðið á um nýtt fyrirkomulag við skipan fulltrúa í Jafnréttisráð en mikilvægt þykir að fulltrúar ráðsins endurspegli þekkingu á mörgum sviðum jafnréttismála. Þannig skipar félags- og tryggingamálaráðherra formann án tilnefningar auk þess að skipa tvo fulltrúa sem tilnefndir eru sameiginlega af samtökum launafólks, tvo fulltrúa sem tilnefndir eru sameiginlega af samtökum atvinnurekenda, tvo fulltrúa sem tilnefndir eru sameiginlega af Femínistafélagi Íslands, Kvenfélagasambandi Íslands og Kvenréttindafélagi Íslands, einn fulltrúa sem tilnefndur er sameiginlega af Samtökum um kvennaathvarf og Stígamótum, einn fulltrúa sem tilnefndur er af Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum, einn fulltrúa sem tilnefndur er af Félagi um foreldrajafnrétti og einn fulltrúa sem tilnefndur er af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Skulu varamenn skipaðir á sama hátt.
    Enn fremur kveða lögin á um að Jafnréttisráð skuli starfa í nánari tengslum við Jafnréttisstofu en verið hafði fyrir gildistöku laganna. Er ráðinu meðal annars falið að vera félags- og tryggingamálaráðherra og framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu til ráðgjafar við faglega stefnumótun í málum er tengjast jafnrétti kynjanna en sérstök áhersla skuli lögð á að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og samþættingu fjölskyldu- og atvinnulífs. Þá fellur það í hlut Jafnréttisráðs að undirbúa jafnréttisþing.

v. Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna og jafnréttisráðgjafi menntamálaráðuneytis.
    Í lögunum er kveðið á um að innan sérhvers ráðuneytis skuli starfa sérstakur jafnréttisfulltrúi sem hafi sérþekkingu á jafnréttismálum en ljóst þótti að styrkja þurfti stöðu þessara fulltrúa. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að nýju lögunum kemur meðal annars fram að með sérþekkingu sé átt við að jafnréttisfulltrúar hafi aflað sér þekkingar á sviði jafnréttismála, til dæmis með endurmenntun eða þátttöku í námskeiðum sem haldin eru á vegum Jafnréttisstofu eða annarra fagaðila.
    Samkvæmt lögunum er hlutverk jafnréttisfulltrúanna að hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á málefnasviði viðkomandi ráðuneytis og stofnana þess, þar á meðal skulu þeir vinna að kynjasamþættingu á málefnasviði ráðuneytanna.
    Þá kveða lögin á um að sérstakur jafnréttisráðgjafi skuli starfa innan menntamálaráðuneytisins og skal hann fylgja eftir ákvæðum 23. gr. laganna sem lúta að menntun og skólastarfi.

vi. Jafnréttisþing.
    Nýju lögin kveða á um að félags- og tryggingamálaráðherra skuli boða til sérstaks jafnréttisþings innan árs frá alþingiskosningum og aftur að tveimur árum liðnum. Þinginu er ætlað að vera vettvangur þeirra sem fjalla um jafnréttismál en markmiðið með slíku þinghaldi er að hvetja til virkari umræðu um jafnréttismál meðal almennings á sem flestum sviðum samfélagsins. Kveðið er á um að félags- og tryggingamálaráðherra skuli leggja fram skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála við upphaf jafnréttisþings. Jafnréttisþingið skal vera öllum opið en Jafnréttisráð skal boða sérstaklega til þingsins alþingismenn, fulltrúa stofnana og sveitarfélaga, þar á meðal jafnréttisfulltrúa, sem og fulltrúa aðila vinnumarkaðarins og frjálsra félagasamtaka sem hafa jafnréttismál á stefnuskrá sinni.

vii. Kynjasamþætting tryggð.
    Samþætting jafnréttis- og kynjasjónarmiða hefur verið talið eitt af lykilatriðum þess að tryggja megi jafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi auk þess sem fram hefur komið í þingsályktunum um áætlanir í jafnréttismálum að það sé markmið stjórnvalda að samþætta jafnréttis- og kynjasjónarmið inn í daglegt starf allra ráðuneyta. Með hliðsjón af þessu markmiði stjórnvalda er í nýju lögunum kveðið á um að gæta skuli kynjasamþættingar við alla stefnumótun og áætlanagerð sem gerð er á vegum ráðuneyta og opinberra stofnana er starfa á málefnasviði þeirra. Hið sama skuli gilda um alla ákvarðanatöku innan ráðuneyta og stofnana eftir því sem við getur átt.

viii. Launafólki tryggður réttur til að skýra frá launakjörum sínum.
    Síðast en ekki síst taka lögin af öll tvímæli um að hverjum manni er heimilt að skýra frá launum sínum kjósi hann svo og er þetta ákvæði nýju laganna í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí 2007.

B. Atvinnumál kvenna og karla.
i. Atvinnuþátttaka á íslenskum vinnumarkaði.
    Atvinnuþátttaka kvenna og karla var áfram mikil á íslenskum vinnumarkaði árin 2006 og 2007 þar sem 78,5% kvenna voru virkir þátttakendur á vinnumarkaði að meðaltali og 87,5% karla samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands. Karlar héldu áfram að vera fleiri en konur á íslenskum vinnumarkaði árin 2006 og 2007 eða rúm 54% samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar. Samtals voru 169.500 starfandi á íslenskum vinnumarkaði árið 2006, þar af 92.000 karlar og 77.500 konur, en á milli ára fjölgaði störfum um 7.800 þannig að samtals voru 177.300 starfandi árið 2007, þar af 96.600 karlar og 80.700 konur. Körlum fjölgaði því aðeins meira en konum á vinnumarkaði milli ára eða 5% á móti 4,1%.
    Eins og sjá má á töflu 3 er atvinnuþátttaka misjöfn milli einstakra aldurshópa á vinnumarkaði. Hlutfallsleg atvinnuþátttaka er mest meðal fólks á aldrinum 25–54 ára en hún jókst aðallega í hópi ungs fólks á aldrinum 16–24 ára á árunum 2006 og 2007 og þá meira meðal ungra karla en kvenna. Hlutfallsleg atvinnuþátttaka ungra kvenna og karla á aldrinum 16–24 ára er því orðin nokkuð jöfn eða um 80%. Einnig jókst hlutfallsleg atvinnuþátttaka kvenna sem eru 55 ára og eldri um 2,5% en svo virðist sem dregið hafi úr atvinnuþátttöku karla á sama aldri.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Atvinnuleysi bæði meðal kvenna og karla hélt áfram að dragast saman á innlendum vinnumarkaði á árunum 2006 og 2007 en á milli áranna minnkaði atvinnuleysi um 19% að meðaltali á landinu samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar. Árið 2007 minnkaði hlutfallslegt atvinnuleysi um 17% meðal karla og um 21% meðal kvenna. Meðalatvinnuleysi kvenna mældist að meðaltali 1,8% á mánuði árið 2006 og 1,4% að meðaltali árið 2007. Á sama tíma mældist meðalatvinnuleysi karla 0,9% árið 2006 og 0,8% árið 2007. Atvinnuleysi tók lítillega að aukast þegar leið á árið 2008 en í september 2008 mældist skráð atvinnuleysi 1,3% að meðaltali; 1,6% meðal kvenna og 1,1% meðal karla. Samhliða þrengingum á fjármálamarkaði í október 2008 jókst atvinnuleysi mjög hratt og mældist 3,3% í nóvember 2008. Meðalatvinnuleysi jókst hraðar hjá körlum en konum og reyndist vera 3,4% meðal karla í nóvember 2008 en 3,2% hjá konum. Dregið hefur því verulega saman með atvinnuleysi karla og kvenna og mældist atvinnuleysi hærra hjá körlum en konum í nóvember 2008 í fyrsta skipti síðan í febrúar og mars 1986 þegar atvinnuleysi var lítið eitt hærra meðal karla. Atvinnuleysi hefur annars alltaf verið hærra meðal kvenna en karla frá árinu 1980. Áætlað er að atvinnuleysi árið 2008 mælist 1,7% að meðaltali, 1,9% meðal kvenna og 1,5% meðal karla.
    Mjög lítill munur var á atvinnuleysi meðal karla á höfuðborgarsvæðinu og þeirra sem störfuðu á landsbyggðinni árið 2007 eða 0,1% en munurinn var mun meiri meðal kvenna. Atvinnuleysi kvenna á landsbyggðinni mældist 2,0% að meðaltali árið 2007 en 1,0% meðal kvenna á höfuðborgarsvæðinu á sama tíma. Í nóvember 2008 hafði hlutfallslegt atvinnuleysi aukist mest meðal karla á höfuðborgarsvæðinu og mældist 3,6% að meðaltali en 3,0% karla á landsbyggðinni voru án atvinnu á sama tíma. Konur á landsbyggðinni voru hlutfallslega fleiri án atvinnu en konur á höfuðborgarsvæðinu eða 3,7% á móti 2,9% í nóvember 2008.
    Fólki án atvinnu fækkaði í öllum landshlutum árið 2007 nema á Suðurnesjum þar sem atvinnuleysi jókst um 22% og á Vesturlandi um 7,5%. Atvinnuleysi mældist hæst á Suðurnesjum eða 2,5% árið 2007 en meðalatvinnuleysi mældist mun hærra meðal kvenna á Suðurnesjum en karla eða 3,8% á móti 1,5%. Hlutfallsleg fækkun fólks án atvinnu varð mest á Norðurlandi vestra eða um 48% en þar mældist meðalatvinnuleysi lægst á landinu árið 2007 eða 0,5%; 0,3% meðal karla og 0,8% meðal kvenna. Atvinnuleysið hélt áfram að vera mest á Suðurnesjum árið 2008 og mældist 7,2% í nóvember 2008. Þar voru jafnframt hlutfallslega flestar konur án atvinnu eða 8,6% en 6,2% karla voru atvinnulausir á svæðinu. Á sama tíma mældist atvinnuleysið minnst á Vestfjörðum eða 0,6%; 0,8% meðal kvenna og 0,4% meðal karla.
    Lítilsháttar dró úr fjölda vinnustunda bæði karla og kvenna árin 2006 og 2007 samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands. Meðalvinnuvika þátttakenda á innlendum vinnumarkaði á aldrinum 16–74 ára var 42,2 klukkustundir á viku árið 2005 en var 41,9 stundir árið 2007. Karlar störfuðu að meðaltali 46,9 klukkustundir á viku árið 2007 en höfðu starfað 47,5 stundir á viku árinu áður. Til samanburðar störfuðu konur 35,6 stundir að meðaltali á viku árið 2007 en 36 klukkustundir á viku árinu áður. Þegar eingöngu er litið til meðalfjölda vinnustunda þeirra sem starfa í fullu starfi er munur á fjölda vinnustunda karla og kvenna minni. Meðalfjöldi vinnustunda árið 2007 var 46,8 klukkustundir á viku en var til samanburðar 47,3 stundir árið 2005. Meðalvinnutími karla í fullu starfi árið 2007 var 46,9 stundir á viku og 42,1 stund meðal kvenna.
    Enn eru konur í miklum meiri hluta þeirra sem eru í hlutastörfum en þeir sem teljast gegna hlutastörfum starfa að jafnaði minna en 35 klukkustundir á viku. Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands voru 39.900 starfandi í hlutastarfi árið 2007 en þar af voru 30.500 konur á móti 9.500 körlum. Þeim sem störfuðu í hlutastörfum fjölgaði milli ára og þá aðallega konum en samtals voru 38.300 starfandi í hlutastörfum árið 2006, þar af 29.100 konur og 9.200 karlar. Þegar aldursdreifing þeirra sem gegna hlutastörfum er skoðuð kemur fram að meiri hluti kvenna sem er í hlutastörfum er á aldrinum 25–54 ára eða 16.700 árið 2007 og er þar ekki mikil breyting milli ára. Konum sem eru í hlutastarfi fjölgaði mest í aldurshópnum 16–24 ára milli áranna 2006 og 2007 eða um 800 konur (12%). Samtals voru 7.600 konur í hlutastörfum í aldurshópnum 16–24 ára árið 2007 og 6.200 á aldrinum 55–74 ára. Flestir karlar í hlutastörfum eru á aldrinum 16–24 ára eða 4.500. Til samanburðar voru 3.100 karlar á aldrinum 25–54 ára og 1.900 karlar á aldrinum 55–74 ára í hlutastörfum árið 2007. Svo virðist sem að þessar tölulegu upplýsingar bendi til að fjölskylduábyrgð kvenna hafi töluverð áhrif á stöðu þeirra á vinnumarkaði enda þótt varlega beri að draga slíkar ályktanir út frá tölfræðinni einni saman.

ii. Samhæfing fjölskyldu- og atvinnulífs.

    Samhliða mikilli atvinnuþátttöku kvenna á íslenskum vinnumarkaði hefur skapast vettvangur umræðu um jafna verkaskiptingu kynjanna á heimilum og hafa margir jafnvel talið slíka verkaskiptingu forsendu þess að konur geti tekið þátt á vinnumarkaði til jafns við karla. Þrátt fyrir að meiri hluti kvenna á Íslandi taki virkan þátt á vinnumarkaði sýna rannsóknir að svo virðist sem konur beri í flestum tilvikum meiri fjölskylduábyrgð en karlar.
    Í niðurstöðum nýrrar könnunar sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði og birtar voru í október 2008 kemur meðal annars fram að 46% þeirra kvenna sem svöruðu könnuninni töldu sig bera meiri ábyrgð en maki þeirra á heimilisstörfum á móti 5% þeirra karla sem svöruðu könnuninni, sbr. töflu 4 sem fengin er úr fyrrnefndri skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Niðurstöður sömu könnunar sýndu enn fremur að 70% þeirra kvenna sem svöruðu könnuninni töldu sig oftast hafa verið ábyrgar fyrir umönnun og eftirliti með barni/börnum síðustu sex mánuðina áður en könnunin var gerð á móti 7% þeirra karla sem svöruðu könnuninni, sbr. töflu 5 sem einnig er fengin úr fyrrnefndri skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Athygli vekur hversu sammála bæði kynin eru hvað varðar fjölskylduábyrgð þeirra sem
það sem gefur til kynna að lítið hafi þokast í þá átt að jafna stöðu kynjanna innan veggja heimilisins. Mikilvægt er að fólk sé meðvitað um þessi viðhorf sem koma fram í niðurstöðunum. Verður það að teljast mikilvæg forsenda þess að breytingar verði á verkaskiptingu inni á heimilum enda ljóst að þátttaka beggja kynja á vinnumarkaði hefur verulega efnahagslega þýðingu fyrir fjölskyldurnar í landinu sem og samfélagið allt.
    Enn fremur kemur fram í ritinu Fæðingar- og foreldraorlof á Íslandi, þróun eftir lagasetninguna árið 2000 eftir Ingólf V. Gíslason, lektor við Háskóla Íslands, að rannsóknir sýna að mæður breyti vinnutíma sínum í kjölfar barneigna sem hefur þau áhrif að þær vinna færri vinnustundir en feðurnir auka við sig launavinnu. Vitnar hann sérstaklega í rannsókn Gyðu Margrétar Pétursdóttur frá árinu 2004 sem nefnist „Ég er tilbúin að gefa svo mikið.“ Sjálfræði, karllæg viðmið og mótsagnir í lífi útivinnandi mæðra og orðræðum um ólíkt eðli, getu og hlutverk og rannsókn Helgu Gottfreðsdóttur frá árinu 2005 sem fjallað var um í greininni Prospective first-time fathers and their views on fatherhood in the context of the new policy on parental leave in Iceland og birtist í Birth Issues. Rannsóknir á töku fæðingarorlofs meðal foreldra benda til að hin hefðbundna verkaskipting kynjanna sé mjög sterk. Meðal þess sem fram kom í niðurstöðum Evrópuverkefnisins Culture, Custom and Caring var að þeir foreldrar sem tóku þátt í rannsókninni voru á margan hátt mjög hefðbundnir í hlutverkaskiptingu sinni. Móðurhlutverkið var það hlutverk sem gekk fyrir stöðu kvennanna á vinnumarkaði en karlarnir voru í hlutverki fyrirvinnunnar enda þótt þeir sinntu allir föðurhlutverkinu. Ingólfur V. Gíslason hefur bent á það í skrifum sínum um feðraorlof að þrátt fyrir hefðbundin hlutverk kynjanna sé ljóst að breytingar standi yfir. Hins vegar megi gera ráð fyrir að slíkt taki tíma. Það feli til dæmis í sér þá breytingu að feður fari tímabundið af vinnumarkaði og taki fæðingarorlof til að annast börn sín. Fleiri karlar fái tímabundið reynslu í því að vera í aðalhlutverki við að annast barn sitt en á sama tíma átti fleiri konur sig á að þær geti gefið eftir í hlutverkum sínum sem verkstjórar heimilanna. Allt hefur þetta að einhverju leyti áhrif á viðhorf og hegðun bæði hjá konum og körlum. Þá hafa niðurstöður rannsókna um fæðingarorlof gefið til kynna að karlar upplifi töku fæðingarorlofs ekki sem ógn við karlmennsku sína og þegar á heildina er litið hafi þeir fengið jákvæð viðbrögð frá umhverfinu. Hins vegar hafi konur sem hafa ekki fullnýtt sameiginlega rétt foreldra til fæðingarorlofs fengið gagnrýni þess efnis að slíkt geri ekki góð móðir en karlarnir fengið hrós fyrir að taka meira fæðingarorlof en þá þrjá mánuði sem þeim væru ætlaðir.
    Í nýlegri skýrslu starfshóps sem félags- og tryggingamálaráðherra skipaði og hafði meðal annars það hlutverk að eyða óútskýrðum launamun kynjanna á almennum vinnumarkaði kemur fram að fátt skipti jafn miklu máli til að jafna möguleika foreldra til þátttöku á vinnumarkaði en traust dagvistun. Í skýrslunni er tekið fram að sagan sýni að þegar úrræði skorti í dagvistarmálum séu meiri líkur á að mæður en feður dragi úr þátttöku á vinnumarkaði. Það sé því afar mikilvægt jafnréttismál að tryggja foreldrum möguleika á öruggri dagvistun fyrir börn sín á aldrinum 9–18 mánaða eða að loknu fæðingarorlofi sem og örugga og góða vistun fyrir börn á grunnskólaaldri að loknum hefðbundnum skóladegi.
    Íslenska löggjöfin um fæðingar- og foreldraorlof hefur oft og víða hlotið lof og hafa ráðamenn annarra ríkja sýnt henni mikinn áhuga. Til marks um þann áhuga var haldinn hér á landi í október 2008 sérfræðingafundur á vegum Evrópusambandsins um fyrirkomulag og framkvæmd fæðingarorlofsins á Íslandi. Rúmlega 40 sérfræðingar frá fjórtán Evrópuríkjum sóttu fundinn sem var liður í undirbúningi Evrópusambandsins að nýrri stefnumótun í fjölskyldumálum. Íslenskir fræðimenn sem og fulltrúar aðila vinnumarkaðarins fjölluðu á fundinum um ýmsar hliðar fæðingarorlofsins, þar á meðal helstu rannsóknir sem hafa verið gerðar á framkvæmd og fyrirkomulagi þess. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út bókina Equal Rights to Earn and Care fyrir fundinn í samvinnu við félags- og tryggingamálaráðuneytið en þar er fjallað um helstu rannsóknir sem hafa verið gerðar á íslenska fæðingarorlofskerfinu. Ritstjórar bókarinnar voru Guðný Björk Eydal og Ingólfur V. Gíslason. Í pallborðsumræðum var enn fremur leitað eftir viðhorfi feðra sem tekið hafa fæðingarorlof og afstöðu atvinnurekenda. Þar fjölluðu feður um þau áhrif sem fæðingarorlofið hafði haft á þá, samband þeirra við börn sín og viðhorf bæði vinnustaðarins og samfélagsins til feðra sem taka feðraorlof. Þar var samdóma niðurstaða feðranna að reynsla þeirra af fæðingarorlofinu væri mjög jákvæð.
    Löggjöfinni um fæðingar- og foreldraorlof var síðast breytt vorið 2008, sbr. lög nr. 74/2008, um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum. Ein helsta breytingin laut að breytingum á viðmiðunartímabilinu sem útreikningar á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði miðast við. Við útreikninga á greiðslum til foreldra sem teljast launamenn skal samkvæmt lögunum miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur í stað síðustu tveggja tekjuára líkt og miðað hafði verið við fyrir breytinguna. Þegar foreldri telst sjálfstætt starfandi einstaklingur samkvæmt sömu lögum skal miða við tekjuárið á undan fæðingarári barns eða því ári er barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Viðmiðunartímabilið var þar með stytt úr 24 mánuðum í tólf mánaða tímabil. Þegar foreldri hefur ekki verið á vinnumarkaði á öllu viðmiðunartímabilinu var áfram gert ráð fyrir að eingöngu væri miðað við meðalheildarlaun foreldris fyrir það tímabil sem það telst hafa verið á innlendum vinnumarkaði í skilningi laganna. Þar með teljast tilteknar tímabundnar aðstæður sem hafa þótt jafnast á við þátttöku á vinnumarkaði, svo sem þegar foreldri er í orlofi eða námsleyfi, fæðingarorlofi, tímabundið án atvinnu eða hefur fengið tekjutengdar greiðslur samkvæmt III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Er þá jafnframt tekið tillit til þeirra greiðslna er koma til vegna slíkra aðstæðna auk hvers konar launa eða annarra þóknana samkvæmt lögum um tryggingagjald. Enn fremur fól lagabreytingin í sér að báðum foreldrum var gert heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Jafnframt voru heimildir til yfirfærslu réttinda til fæðingarorlofs eða fæðingarstyrks rýmkaðar þegar annað foreldrið er ófært, vegna sjúkdóms eða afleiðinga slyss eða afplánunar refsivistar, um að nýta sér rétt sinn til töku fæðingarorlofs. Þá var forsjárlausum foreldrum veittur réttur til fæðingarstyrks í fyrsta skipti liggi fyrir samþykki þess foreldris sem fer með forsjána um að forsjárlausa foreldrið hafi umgengni við barnið þann tíma sem greiðsla fæðingarstyrks stendur yfir.
    Tölfræðilegar upplýsingar frá Fæðingarorlofssjóði benda til að meiri hluti feðra taki fæðingarorlof en 88,6% feðra nýttu sér rétt sinn til fæðingarorlofs í að meðaltali 99 daga árið 2006. Árið 2007 nýttu 88% feðra sér rétt sinn til fæðingarorlofs í að meðaltali 98 daga. Hefur hlutfall feðra og dagafjöldi haldist nokkuð jafn frá árinu 2003 þegar fæðingarorlof feðra kom að fullu til framkvæmda. Árið 2006 nýttu 19,7% feðra einnig hluta sameiginlegs réttar foreldra til fæðingarorlofs en um 90,3% mæðranna.
    Í framangreindri skýrslu starfshóps sem félags- og tryggingamálaráðherra skipaði og hafði meðal annars það hlutverk að eyða óútskýrðum launamun kynjanna á almennum vinnumarkaði er meðal annars fjallað lítillega um félagslega umgjörð vinnumarkaðarins. Þar kemur meðal annars fram að sveigjanlegur vinnutími hefur verið talinn þýðingarmikill í því skyni að stuðla að betra jafnvægi milli atvinnu- og einkalífs fólks. Fjölskylduvæn vinnumenning skiptir flesta starfsmenn máli einhvern tímann á starfsævinni sama hvaða störfum þeir gegna. Ljóst er að þegar vel tekst til hvað varðar jafnvægi milli atvinnu- og einkalífs skilar það sér margfalt til baka í auknum lífsgæðum fólks sem aftur á móti auka líkur á ánægju og meiri afköstum í starfi.

iii. Kynbundinn launamunur.
    Eitt helsta baráttumálið þegar kemur að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði er að eyða kynbundnum launamun sem lengi hefur viðgengist hér á landi. Niðurstöður rannsókna benda til að lítið hafi þokast í að uppræta þennan launamun síðustu árin og virðist því vera um ákveðna stöðnun að ræða að þessu leyti.
    Árið 2007 tók Jafnréttisstofa í samstarfi við félagsmálaráðuneyti þátt í sérstöku verkefni sem Evrópuár jafnra tækifæra 2007 styrkti. Markmið verkefnisins var tvíþætt. Annars vegar var því ætlað að bæta þá þekkingu sem til er um kynbundinn launamun og hins vegar að auka umræðuna um kynbundinn launamun með áherslu á umfjöllun um aðferðir til að takast á við hann. Á haustmánuðum 2007 stóð Jafnréttisstofa í samstarfi við félagsmálaráðuneyti því fyrir tveimur málstofum, í Reykjavík og á Akureyri, um kynbundinn launamun sem meðal annars var ætlað að veita tækifæri til að vekja umræður um ólíkar aðferðir sem notaðar hafa verið í því skyni að vinna bug á þeim vanda sem kynbundinn launamunur er. Málstofurnar voru haldnar undir yfirskriftinni Kynbundinn launamunur – Aðferðir til úrbóta en þar kynnti Ingólfur V. Gíslason, þáverandi sviðsstjóri rannsóknasviðs Jafnréttisstofu, bráðabirgðaniðurstöður rannsóknar Jafnréttisstofu á kynbundnum launamun sem jafnframt var hluti áðurnefnds verkefnis. Í rannsókninni var unnið úr gögnum frá Hagstofu Íslands um atvinnutekjur þjóðarinnar þar sem meðal annars voru skoðaðar atvinnutekjur og heildartekjur kynjanna, eftir hjúskaparstöðu, aldri og búsetu.
    Niðurstöður úr rannsókninni sem Jafnréttisstofa vann sýndu meðal annars að konur hefðu á landsvísu nærri 81% af atvinnutekjum karla þegar tekið hefur verið tillit til vinnutíma og hafði hlutfallið hækkað úr tæpum 74% frá árinu 1991. Ef miðað er við þróunina síðan 2001 þá ættu atvinnutekjur kynjanna að verða jafnar árið 2071. Mestur var munurinn á atvinnutekjum kynjanna í Vestmannaeyjum, en minnstur á þeim svæðum í Reykjavík sem hafa póstnúmerin 101 og 105.
    Ríkisstjórn Íslands sem tók við eftir alþingiskosningar í maí 2007 fjallaði sérstaklega um launajafnrétti í stefnuyfirlýsingu sinni frá 23. maí sama ár. Þar var mælt fyrir um að gerð yrði áætlun um að minnka óútskýrðan kynbundinn launamun hjá ríkinu um helming fyrir lok kjörtímabilsins. Enn fremur kom fram vilji ríkisstjórnarinnar til að koma á samvinnu aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera um að leita leiða til að eyða þessum launamun á almennum vinnumarkaði. Þá var tekið fram að tryggja ætti rétt launafólks til að skýra frá launakjörum sínum ef það svo kýs. Hið síðastnefnda var tryggt með nýjum lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, sem samþykkt voru frá Alþingi 26. febrúar 2008.
    Í samræmi við fyrrnefnda stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar ákváðu félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra í september 2007 að skipa þrjá starfshópa til að fylgja eftir markmiðum er fram koma í stefnuyfirlýsingunni á sviði jafnréttismála og vikið var að hér að framan. Félagsmálaráðherra skipaði tvo hópanna. Öðrum þeirra var ætlað að leita leiða til að eyða óútskýrðum launamun kynjanna á almennum vinnumarkaði sem og að jafna stöðu kvenna og karla í nefndum og við stjórnun stofnana og fyrirtækja. Hinum hópnum var falið að vera ráðherra til ráðgjafar um framvindu mála á þessu sviði og vinna eða láta vinna mat á raunverulegum árangri aðgerða. Fjármálaráðherra skipaði síðan þriðja starfshópinn til að fjalla um sambærileg málefni tengd opinberum vinnumarkaði. Meginverkefni þess starfshóps var að setja fram áætlun um hvernig mætti minnka óútskýrðan launamun kynjanna á opinberum vinnumarkaði með það að markmiði að hann minnki um helming á kjörtímabilinu sem og að endurmeta kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meiri hluta. Formenn þessara þriggja hópa mynda jafnframt samráðsvettvang sem samhæfir starf hópanna og fer yfir tillögur þeirra.
    Á fyrri hluta árs 2008 fól félags- og tryggingamálaráðuneytið Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands að gera launakönnun sem skyldi ná til vinnumarkaðarins í heild. Frumkvæðið að gerð slíkrar könnunar kom frá ráðgjafahópi félags- og tryggingamálaráðherra um launamun kynjanna sem er einn þriggja framangreindra starfshópa. Taldi ráðgjafahópurinn nauðsynlegt að gera launakönnun sem endurspeglaði vinnumarkaðinn í heild, en flestar kannanir sem gerðar hafa verið á kynbundnum launamun hafa eingöngu náð til félagsmanna einstakra stéttarfélaga eða starfsmanna tiltekinna atvinnurekenda. Tilgangur könnunarinnar skyldi jafnframt vera að mynda viðmiðunargrundvöll fyrir síðari launakannanir svo unnt yrði að meta árangur aðgerða ríkisstjórnarinnar og þróun hins kynbundna launamunar.
    Niðurstöður fyrrnefndrar könnunar voru gerðar opinberar í október 2008 en könnunin er sú fyrsta hér á landi sem endurspeglar vinnumarkaðinn í heild sinni. Könnunin var þannig gerð að bréf var sent til 2.000 manna úrtaks úr Þjóðskrá meðal fólks á aldrinum 18–67 ára. Gögnum var síðan safnað í gegnum síma á tímabilinu mars til maí vorið 2008 þar sem svarendur greindu frá launum sínum í febrúarmánuði 2008. Svörun var 63% og endurspegluðu svarendur vel vinnumarkaðinn í heild sinni.
    Niðurstöður könnunarinnar sýna að sé miðað við heildarlaun mældist kynbundinn launamunur 16,3% á vinnumarkaðnum í heild. Munurinn er meiri meðal fólks sem starfar á almennum vinnumarkaði og enn meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Hjá hinu opinbera, þ.e. ríki og sveitarfélögum, mældist ekki marktækur kynbundinn launamunur meðal starfsmanna með grunnskólamenntun og með háskólamenntun, en hjá þeim sem falla í flokkinn framhaldsskólamenntaðir mældist hann umtalsverður.
    Samkvæmt könnuninni eru konur almennt með 16,3% lægri heildarlaun en karlar að teknu tilliti til vinnutíma, starfs, menntunar, aldurs, atvinnugreinar, ábyrgðar í starfi o.fl. og 16,4% lægri grunnlaun. Þessi kynbundni launamunur lítur misjafnlega út eftir því hvort opinberi markaðurinn eða einkamarkaðurinn er skoðaður annars vegar og höfuðborgarsvæðið eða landsbyggðin hins vegar. Á opinbera markaðnum mælist hann einungis meðal þeirra sem flokkast sem framhaldsskólamenntaðir, en þar eru konur með 22,1% lægri laun en karlar. Sé litið til einkamarkaðarins eru konur með 18,3% lægri heildarlaun en karlar og 18,9% lægri grunnlaun.
    Hinn kynbundni launamunur dreifist ekki jafnt yfir landið og er munurinn meiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Á höfuðborgarsvæðinu eru konur með 9,3% lægri heildarlaun en karlar og 12,8% lægri grunnlaun. Á landsbyggðinni eru konur með 27,5% lægri heildarlaun en karlar og 22,8% lægri grunnlaun. Vegna smæðar úrtaksins var ekki unnt að greina í sundur launamun kynjanna innan opinbera markaðarins eftir því hvort litið var til höfuðborgarsvæðisins eða landsbyggðarinnar. Tölurnar segja til um hversu hlutfallslega lægri laun kvenna eru en karla þegar þættir eins og vinnutími, menntun, starf, aldur, atvinnugrein og ábyrgð í starfi eru jafnir. Þá var einnig tekið tillit til þess hvort einstaklingurinn er sjálfstætt starfandi eða launamaður.
    Niðurstöður þessarar könnunar benda til að baráttan fyrir launajafnrétti kynjanna hafi skilað árangri sé litið til starfsmanna ríkis og sveitarfélaga sem eru grunnskólamenntaðir eða háskólamenntaðir. Sambærilegur árangur hefur ekki náðst meðal framhaldsskólamenntaðra. Þá virðist launamunur kynjanna vera meiri á einkamarkaðnum og vandinn sýnu mestur á landsbyggðinni.
    Starfshópur sá er félagsmálaráðherra skipaði í því skyni að leita leiða til að eyða óútskýrðum launamun kynjanna á almennum vinnumarkaði sem og að jafna stöðu kvenna og karla í nefndum og við stjórnun stofnana og fyrirtækja og áður hefur verið vikið að skilaði ráðherra skýrslu í október 2008. Einn þeirra viðauka sem fylgdu með skýrslunni er Vegvísir um jafnlaunaúttektir í fyrirtækjum og stofnunum en í skýrslunni kemur meðal annars fram að vegvísirinn sé nokkurs konar handbók sem byggist á hugmyndum mannauðsstjóra nokkurra stærstu fyrirtækja landsins sem vinna saman í svokölluðum Starfsmannastjóraklúbbi. Fram kemur að fyrrnefndir mannauðsstjórar telja að fara megi einfaldar en árangursríkar leiðir til að auka jafnrétti í launamálum og sneiða hjá þeim umfangsmikla formbúningi sem fylgir öðrum leiðum. Enn fremur kemur fram að mannauðsstjórarnir telja að unnt sé að ná góðum árangri með því að tryggja þátttöku æðstu stjórnenda hvers fyrirtækis í viðleitni við að koma á launajafnrétti án þess að eyða miklu fé eða fyrirhöfn í starfsmatskerfi eða staðlagerð. Þá kemur fram í skýrslu starfshópsins að hópurinn telur að vegvísirinn muni nýtast vel við þá vinnu við gerð staðals sem hafin er á vegum félags- og tryggingamálaráðherra, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins og síðar verður vikið að.
    Vert er að geta þess sérstaklega að með fyrrnefndum viðauka við skýrslu áðurnefnds starfshóps fylgdi listi yfir tæplega fimmtíu fyrirtæki sem höfðu kynnt sér vegvísinn og lýst sig reiðubúin til þess að fara þegar í stað að vinna samkvæmt honum. Fram kemur í skýrslu starfshópsins að þegar skýrslan var afhent ráðherra í október 2008 störfuðu hjá þessum fyrirtækjum um fimmtán þúsund manns.
    Starfshópurinn taldi einkum þrjár leiðir færar til að koma í veg fyrir kynbundinn launamun, þ.e. starfsmatsleið, vottunarleið og vegvísisleið, en að mati hópsins eru þessar leiðir náskyldar og hver þeirra útilokar alls ekki aðra. Telur hópurinn eðlilegast að hvert fyrirtæki velji þá leið sem talin er henta best til að stuðla að launajafnrétti kynjanna innan sinna vébanda. Þá leggur starfshópurinn mikla áherslu á að launamyndun sé reglulega til skoðunar innan fyrirtækja og að æðstu stjórnendur þeirra geri sér grein fyrir að þeir hafi veigamiklu hlutverki að gegna í því skyni að eyða kynbundnum launamun. Að mati hópsins á regluleg athugun á upplýsingum um launamyndun að vera sjálfsögð og stöðug líkt og vöktun annarra lykiltalna í rekstri fyrirtækja. Til þess að koma á jafnrétti þurfi að koma til hugarfarsbreytingar enda ljóst að kynbundinn launamunur styðst við gamalgrónar venjur og hegðunarmynstur sem eigi sér djúpar rætur í samfélagsgerðinni. Sökum þessa þurfi að ástunda jafnrétti kynjanna í öllu uppeldis- og skólastarfi frá upphafi skólagöngu í leikskóla til háskóla.
    Starfshópur sá er fjármálaráðherra skipaði í því skyni að fjalla um kynbundinn launamun hjá hinu opinbera hefur lagt áherslu á að afla gagna en einnig hefur hópurinn fengið til sín fjölda gesta með sérþekkingu á jafnréttismálum auk sérfræðinga um framkvæmd og úrvinnslu launakannana. Í desember 2008 efndi starfshópurinn til könnunar meðal forstöðumanna ríkisstofnana um ýmislegt sem lýtur að stjórnun starfsmannamála, jafnrétti og launamun kynjanna enda ljóst að forstöðumenn ríkisstofnana munu gegna lykilhlutverki í öllum beinum aðgerðum til að draga úr launamun kynjanna hjá hinu opinbera. Þátttaka í könnuninni var góð eða 65%. Niðurstöður könnunarinnar liggja enn ekki fyrir en þær verða hafðar til hliðsjónar við mótun tillagna starfshópsins um leiðir til að draga úr launamun kynjanna hjá hinu opinbera.
    Þegar frumvarp til nýrra laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla var til umræðu á Alþingi á 135. löggjafarþingi fjallaði félags- og tryggingamálanefnd þingsins ítarlega um þann möguleika að koma á vottunarkerfi vegna framkvæmdar ákvæða jafnréttislaga og jafnlaunastefnu hjá þeim aðilum er lögin um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er ætlað að ná til. Í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar lagði nefndin til að sett yrði við lögin ákvæði til bráðabirgða sem legði þá skyldu á félagsog tryggingamálaráðherra að sjá til þess í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins að þróað yrði sérstakt vottunarkerfi á framkvæmd stefnu um launajafnrétti og framkvæmd stefnu um jafnrétti við ráðningar og uppsagnir. Var miðað við að þeirri vinnu yrði lokið fyrir 1. janúar 2010. Var fyrrnefnd tillaga nefndarinnar samþykkt í meðförum þingsins. Í áliti nefndarinnar um frumvarpið var tekið fram að nefndin ætlaði að fylgja því eftir að nauðsynlegar lagabreytingar yrðu gerðar til að innleiða vottunarkerfið en ljóst væri að þróun slíks kerfis kostaði tíma og fjármuni.
    Þá var gerð sérstök bókun við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í febrúar 2008 þar sem áhersla var lögð á samvinnu samtaka aðila vinnumarkaðarins í jafnréttismálum á samningstímanum. Í þeirri bókun var meðal annars miðað við að vinna „við að þróa ferli vegna vottunar á framkvæmd jafnréttisstefnu fyrirtækja hefjist nú þegar og skal stefnt að því að það verði tilbúið fyrir árslok 2009“.
    Haustið 2008 hófust viðræður milli fulltrúa félags- og tryggingamálaráðuneytis, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um framkvæmd bráðabirgðaákvæðis laganna og bókunarinnar við kjarasamninganna sem getið er hér að framan. Niðurstaða þeirra viðræðna var að fela Staðlaráði Íslands umsjón með gerð staðals og undirrituðu félags- og tryggingamálaráðherra, forseti Alþýðusambands Íslands og aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins viljayfirlýsingu þess efnis 24. október 2008. Í viljayfirlýsingunni kom meðal annars fram að Staðlaráði Íslands yrði falin umsjón með gerð staðals sem notaður yrði til að sannreyna hvort launa- og starfsmannastefna stofnana og fyrirtækja samræmist stefnu um launajafnrétti kynja og jafnrétti við ráðningar og uppsagnir.
    Stjórn Staðlaráðs hefur skipað sérstaka tækninefnd sem stýrir verkefninu og hefur hagsmunaaðilum verið boðið sæti í nefndinni. Tækninefndin hefur þegar hafið störf og er Hildur Jónsdóttir, jafnréttisfulltrúi félags- og tryggingamálaráðuneytis, formaður nefndarinnar. Stefnt er að því að vinnu við gerð staðalsins ljúki á árinu 2009.
    Á grundvelli samstarfssamnings Hagstofu Íslands, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um rannsókn á launamun kvenna og karla, sem gerður var í framhaldi af bókuninni við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði frá febrúar 2008 og getið er hér að framan, hefur Hagstofa Íslands unnið að framkvæmd þríþætts rannsóknarverkefnis þar sem dregnar eru saman helstu aðferðir og skýringabreytur sem fræðikenningar um launamun hafa sett fram til þessa, fjallað er um kosti og galla þeirra gagna sem Hagstofa Íslands hefur tiltæk til að reikna launamun karla og kvenna, auk þess sem ætlunin er að setja fram tillögur að grundvelli útreiknings á launamun karla og kvenna. Áætlað er að vinnunni ljúki með gerð skýrslu í febrúar 2009. Í framhaldinu verða teknar ákvarðanir um frekari útgáfu hagtalna á grundvelli niðurstaðna rannsóknarinnar.

iv. Kynbundið starfsval.
    Íslenskur vinnumarkaður er enn mjög kynskiptur, bæði hvað varðar hlutfall kynjanna innan ólíkra starfsgreina og að því er varðar hlutfall kynjanna í stjórnunarstöðum. Hlutfall háskólamenntaðra starfsmanna á innlendum vinnumarkaði hefur aukist frá árinu 2002. Hlutur háskólamenntaðra var 17,5% alls vinnuafls árið 2002 en var 26,3% árið 2007. Hlutur háskólamenntaðra kvenna hefur haldið áfram að aukast en árið 2002 voru þær 47,1% af starfandi háskólamenntuðu vinnuafli en árið 2006 voru þær 52,1%. Heldur dró saman með kynjunum árið 2007 en þá var hlutur háskólamenntaðra kvenna 50,7%. Þá hefur hlutur kvenna meðal starfsfólks með grunnmenntun minnkað en árið 2005 var hlutur kvenna með grunnmenntun 51% vinnuafls með grunnmenntun en var 47,4% árið 2007. Til samanburðar var hlutur kvenna með grunnmenntun 54,4% vinnuafls með grunnmenntun á íslenskum vinnumarkaði árið 2002.
    Eins og sjá má á töflu 6 urðu ekki miklar breytingar á hlutfalli kynjanna innan einstakra starfsgreina árin 2005–2007. Bæði konum og körlum fjölgaði í hópi stjórnenda og embættismanna á þessu tímabili en þó voru karlar enn í miklum meiri hluta eða rúm 70% árið 2007. Konum fjölgaði einnig meðal sérmenntaðs starfsfólks úr 14.600 árið 2005 í 17.100 árið 2007 eða úr 56,8% í 60,9% þeirra sem teljast til sérmenntaðs starfsfólks. Þá fjölgaði körlum er starfa við þjónustu og verslun úr 11.000 í 14.000 á sama tímabili. Meiri hluti þeirra sem starfa við þjónustu og verslun er þó konur eða 61,9% á móti 38,9% karla.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Þá voru konur enn fámennar í hópi bænda og sjómanna í lok árs 2007 og hafði þeim þá fækkað milli áranna 2005 og 2007 úr 22% í 18%. Samgönguráðuneytið lét gera úttekt á störfum kvenna á skipum í íslenskri útgerð. Markmiðið var að kanna fjölda þeirra kvenna sem sækja sjóinn á Íslandi, starfsaðstæður þeirra og upplifun þeirra af starfinu. Niðurstöður úttektarinnar sýndu að konur eru í miklum minni hluta sjómanna en þær dreifast nokkuð jafnt á allar gerðir skipa enda þótt þær séu fjölmennastar á fiskiskipum. Ástæðu þessa var talið að mætti rekja til menningarbundinna þátta sem tengjast kynskiptum vinnumarkaði og takmörkuðum vilja fólks til að haga sér í ósamræmi við ímynd karlmennsku og kvenleika. Með þessari kynbundnu hugmyndafræði er ýtt undir þá trú að sjómennska teljist ekki hentugur starfsvettvangur fyrir konur. Aðrir þættir, svo sem fjölskylduábyrgð kvenna, eru einnig taldir hafa áhrif sem og minnkandi framboð á störfum á sjó. Reynsla kvenna af störfum á sjó er afar misjöfn en algengara virðist þó að hún sé jákvæð en neikvæð. Aukin þátttaka kvenna í fiskveiðum hefur venjulega átt sér stað þegar þörf er á vinnuafli og tengist uppgangi í atvinnugreininni. Endurnýjun vinnuafls innan sjómannastéttarinnar hefur verið lítil á undanförnum árum og er stéttin því að eldast. Ungar konur og ungir menn sækja því ekki í miklum mæli inn í greinina auk þess sem konur virðast síður hvattar til þess að leggja fyrir sig sjómennsku en karlar.
    Einnig hefur orðið nokkur breyting í hópi ósérhæfðs starfsfólks samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands. Árið 2005 voru 48,8% ósérhæfðs starfsfólk konur en hlutfall þeirra minnkaði á tímabilinu og var orðið 40% árið 2007. Í því skyni að gefa ungu fólki aukin tækifæri til að taka eigin ákvarðanir varðandi framtíð sína, þar á meðal val á námi og starfi í samræmi við áhugasvið sitt, hafa félags- og tryggingamálaráðuneytið, Jafnréttisstofa og fimm sveitarfélög gert með sér samstarfssamning um þróunarverkefnið Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum. Sveitarfélögin fimm eru Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Mosfellsbær og Akureyrarkaupstaður en hvert þeirra hefur tilnefnt einn leikskóla og einn grunnskóla til þátttöku í verkefninu. Meginmarkmið verkefnisins eru meðal annars að efla jafnréttisfræðslu og gera hana markvissari þegar við upphaf skólagöngu og að samþætta kynjasjónarmið í kennslu. Enn fremur er verkefninu ætlað að stuðla að aukinni samvinnu milli einstakra sveitarfélaga sem og innan þeirra um jafnréttismál almennt og á sviði skólamála. Verkefnið á sérstaka heimasíðu (http://www.jafnrettiiskolum. is) þar sem er að finna upplýsingar um jafnréttisfræðslu auk upplýsinga um verkefni sem unnt er að nota í skólastarfi. Þá er gert ráð fyrir að unnt verði að fylgjast með framgangi tilraunaverkefnanna sem fram fara í skólunum, læra af þeim og koma með ábendingar. Áætlað er að skólarnir vinni og útfæri tilraunaverkefnin á yfirstandandi skólaári 2008–2009 en ráðgert er að þróunarverkefninu ljúki vorið 2009. Þegar hefur komið í ljós við framkvæmd verkefnisins að efla þarf kynjafræðilegan þekkingargrunn kennara og auka þekkingu þeirra á jafnréttismálum. Jafnréttisstofa hefur vakið athygli háskólanna í landinu á mikilvægi kynjafræði í menntun kennara en forsenda markvissrar jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum er vel menntaðir kennarar. Í því sambandi er vert að taka fram að Menntasvið Reykjavíkurborgar býður grunnskólakennurum í Reykjavík upp á jafnréttisnám í vetur (2008–2009) í samstarfi við menntavísindasvið Háskóla Íslands.

v. Staða kvenna og karla innan opinberrar stjórnsýslu.
    Árið 2007 störfuðu 9.000 einstaklingar við opinbera stjórnsýslu samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands og nam það 5,1% af heildarfjölda starfandi á innlendum vinnumarkaði. Meðal þeirra sem störfuðu við opinbera stjórnsýslu árið 2007 var skiptingin jöfn meðal kynjanna eða 4.500 karlar og jafn margar konur. Þeim sem starfa við opinbera stjórnsýslu hefur því fjölgað um 1.600 frá árinu 2005 eða um 23%. Körlum hefur þar fjölgað lítils háttar meira en konum eða 27% á móti 20%. Er það viðsnúningur frá því sem áður var þar sem konum sem starfa við opinbera stjórnsýslu hafði fjölgað meira en körlum frá árinu 2002 til ársins 2005.
    Lítil breyting hefur orðið á skipan kvenna og karla í einstök embætti hjá hinu opinbera en fleiri karlar en konur gegna embættum innan opinberrar stjórnsýslu. Tvær konur bættust í hóp ráðuneytisstjóra frá því að síðasta skýrsla félagsmálaráðherra um stöðu og þróun í jafnréttismálum var gerð í ársbyrjun 2007 þannig að fjórar konur gegndu því embætti í lok árs 2008 eða 33%. Samtals eru starfandi tólf ráðuneytisstjórar. Árið 2007 voru 27% skrifstofustjóra hjá ráðuneytum konur og 73% karlar samkvæmt upplýsingum Jafnréttisstofu en til skrifstofustjóra teljast sendiherrar, skrifstofustjórar og sendifulltrúar sem stjórna skrifstofum. Er það lítil breyting frá árinu 2006 þegar 26,3% skrifstofustjóra voru konur. Samkvæmt sömu upplýsingum eru 56% sérfræðinga innan Stjórnarráðsins konur og 44% karlar en 32% deildarstjóra eru konur á móti 68% karla. Meðal deildarstjóra eru jafnframt sendifulltrúar og sendiráðunautar innan utanríkisþjónustunnar.
    Utanríkisráðuneytið hefur sérstaklega hugað að ráðningu kvenna frá árinu 1998 eins og fram kom í síðustu skýrslu félagsmálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu hefur konum sem gegna embættum sendiherra fjölgað um tvær frá árinu 2006 þegar sex konur voru starfandi sem sendiherrar en í árslok 2008 voru átta konur sendiherrar eða 20% sendiherra. Í árslok 2007 voru fimm konur starfandi sem sendiherrar eða 13,5%. Sendiherrar voru 39 talsins árið 2006, 37 árið 2007 og 40 árið 2008. Milli áranna 2007 og 2008 bættist enginn karl í hóp sendiherra en þeir voru 32 talsins í árslok 2008 eða 80% sendiherra. Þegar litið er til annarra starfa innan utanríkisþjónustunnar fækkaði bæði konum og körlum í hópi sendifulltrúa en 24 sendifulltrúar voru starfandi í árslok 2007, þar af þrjár konur eða 12,5%, og 21 sendifulltrúi í árslok 2008, þar af tvær konur eða 9,5%. Kynjahlutfallið er mun jafnara meðal þeirra sem gegna störfum sendiráðunauta og sendiráðsritara. Fleiri konur en karlar gegna stöðu sendiráðsritara eða 52% í árslok 2008 enda þótt körlum hafi fjölgað um fjóra á móti þremur konum árið 2008. Konur voru 47% sendiráðunauta í árslok 2008.
    Samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands sem byggjast á lista yfir ríkisstofnanir og forstöðumenn þeirra sem birtur er á vef fjármálaráðuneytis voru 162 karlar forstöðumenn ríkisstofnana í janúar 2007 eða 77%. Konum hefur ekki fjölgað í hópi forstöðumanna ríkisstofnana enda þótt hlutfall þeirra hafi aukist um 2% á árunum 2004–2007 úr 21% í 23%. Bæði í apríl 2004 og janúar 2007 gegndu 48 konur embættum forstöðumanna ríkisstofnana.
    Samtals voru 24 sýslumenn starfandi samkvæmt vef sýslumanna í byrjun janúar 2009 en þar af voru sex konur eða 25% sýslumanna. Hefur konum fjölgað um eina frá árinu 2006 er fimm konur gegndu embætti sýslumanna. Í febrúar 2007 voru 839 lögreglumenn að störfum, þar af 737 karlar eða 88% og 102 konur eða 12%. Lögreglukonum hefur því haldið áfram að fjölga frá árinu 2005 þegar þær voru 10% lögreglumanna en árið 1996 voru konur 4% lögreglumanna. Engin kona gegndi embætti yfirlögregluþjóns í febrúar 2007 en 24 karlar voru yfirlögregluþjónar. Ein kona var aðstoðaryfirlögregluþjónn en 26 karlar. Enn fremur var ein konar aðalvarðstjóri af samtals 46 aðalvarðstjórum eða 2% og sex konur gegndu stöðu varðstjóra eða 4,2%. Í árslok 2008 voru fimmtán lögreglustjórar við störf en þar af voru þrjár konur eða 20%.

vi. Staða kvenna og karla hjá dómstólum.
    Samkvæmt upplýsingum frá dómstólaráði störfuðu samtals 38 héraðsdómarar við átta héraðsdómstóla árið 2008. Er þá átt við héraðsdómara sem hafa verið skipaðir í embætti. Árið 2008 voru tólf konur héraðsdómarar eða 32% dómara. Einn dómstjóri starfar við hvern héraðsdómstól og voru þeir allir karlar í árslok 2008. Til samanburðar voru 38% dómstjóra konur árið 2004. Þegar litið er til skiptingar kynja dómaranna eftir landshlutum þá er ein kona starfandi við dómstól á landsbyggðinni en samtals ellefu konur starfa við Héraðsdóm Reykjavíkur og Héraðsdóm Reykjaness. Ellefu aðstoðarmenn héraðsdómara voru starfandi við árslok 2008, þ.e. sjö konur og fjórir karlar. Engar breytingar urðu á kynjahlutföllum meðal hæstaréttardómara við Hæstarétt Íslands frá gerð síðustu skýrslu félagsmálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála. Þar starfa níu dómarar, þ.e. tvær konur og sjö karlar. Skipað var í eina stöðu hæstaréttardómara árið 2007 og var karl skipaður. Fjórir aðstoðarmenn hæstaréttardómara eru starfandi og eru þeir allir konur. Skrifstofustjóri Hæstaréttar er karl.

vii. Konur í atvinnurekstri.
1. Konur í forystu fyrirtækja.
    Hlutur kvenna á íslenskum vinnumarkaði var tæplega 46% árið 2007 samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands. Þegar skipan í áhrifastöður er skoðuð kemur fram að 19% framkvæmdastjóra fyrirtækja á innlendum vinnumarkaði voru konur árið 2007. Eins og sjá má á töflu 7 hafði hlutfall kvenna meðal framkvæmdastjóra því lítið breyst frá árinu 2005 þegar 18% framkvæmdastjóra voru konur. Konum fjölgaði um 222 í hópi framkvæmdastjóra á þessu tímabili en á sama tíma fjölgaði körlum um 657 í sama hópi. Þegar eingöngu er litið til nýskráðra fyrirtækja þá voru konur um 23% framkvæmdastjóra árið 2007 en þær voru 22% árið 2005.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Hagstofa Íslands hefur tekið saman kyngreindar upplýsingar um framkvæmdastjóra eftir atvinnugreinum. Hlutfallslega flestar konur störfuðu sem framkvæmdastjórar fyrirtækja er
starfa við samfélagsþjónustu, félagastarfsemi, menningarstarfsemi og fleira eða 44% árið
2007. Enn fremur var 40% framkvæmdastjóra fyrirtækja sem sinna fræðslustarfsemi konur og 34% framkvæmdastjóra fyrirtækja innan heilbrigðis- og félagsþjónustu. Þegar litið er til
fjöldatalna fyrir árið 2007 voru flestar konur framkvæmdastjórar í fyrirtækjum tengdum
verslun og ýmiss konar viðgerðarþjónustu eða 485 konur sem svara til 24% framkvæmdastjóra í þeirri atvinnugrein. Í fyrirtækjum er starfa við fasteignaviðskipti, leigustarfsemi eða veita ýmsa sérhæfða þjónustu störfuðu 478 konur sem framkvæmdastjórar eða 19% framkvæmdastjóra í þeirri atvinnugrein árið 2007. Konur eru fámennar meðal framkvæmdastjóra fjölmennu fyrirtækjanna. Samtals störfuðu fimmtán konur sem framkvæmdastjórar í fyrirtækjum með 100 eða fleiri starfsmenn árið 2007 á móti 150 körlum. Konur voru því 9% framkvæmdastjóra í þessum fyrirtækjum árið 2007. Til samanburðar voru fimm konur framkvæmdastjórar fyrirtækja með 100 eða fleiri starfsmenn árið 1999 eða 3,4%,
átta konur árið 2002 eða 5,4% og fjórtán konur árið 2005 eða 8,9%.
    Konur gegndu störfum 22% stjórnarformanna í fyrirtækjum á innlendum vinnumarkaði árið 2007 sem og 22% stjórnarmanna samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands. Konur voru hlutfallslegar flestar sem stjórnarformenn í sömu atvinnugreinum og þær voru hlutfallslega flestar sem framkvæmdastjórar. Stjórnarformenn fyrirtækja er störfuðu við samfélagsþjónustu, félagastarfsemi, menningarstarfsemi og fleira voru 38% konur og 62% karlar árið 2007. Einnig voru 37% stjórnarformenn fyrirtækja í fræðslustarfsemi konur sem og 32% stjórnarformanna í fyrirtækjum er sinna heilbrigðis- og félagsþjónustu. Sama á við þegar litið er til fjöldatalna. Flestar konur voru stjórnarformenn í fyrirtækjum á sviði verslunar og ýmiss konar viðgerðarþjónustu eða 680 konur sem svara til 29% stjórnarformanna fyrirtækja í þessari atvinnugrein. Þá voru 553 konur stjórnarformenn í fyrirtækjum er starfa við fasteignaviðskipti, leigustarfsemi og veita ýmsa sérhæfða þjónustu eða 19% stjórnarformanna. Þá voru konurnar fæstar í hópi stjórnarformanna fyrirtækja með 100 eða fleiri starfsmenn eða fimmtán konur árið 2007 sem svara til 9,6% stjórnarformanna. Til samanburðar voru sex konur stjórnarformenn í fyrirtækjum með 100 eða fleiri starfsmenn árið 1999 eða 5%, þrjár konur árið 2002 eða 2,6% og níu konur árið 2005 eða 6,8%. Konum hefur því fjölgað í hópi framkvæmdastjóra og stjórnarformanna í fyrirtækjum á innlendum vinnumarkaði frá árinu 1999 enda þótt konur séu enn í miklum minni hluta samanborið við fjölda karla í þessum störfum.
    Konum fjölgaði ekki hlutfallslega í stjórnum fyrirtækja á árunum 2005–2007 og voru þær 22% stjórnarmanna bæði árið 2005 og 2007. Þeim hefur þó fjölgað á tímabilinu um tæplega 400; árið 2007 áttu 4.898 konur sæti í stjórnum fyrirtækja en árið 2005 sátu 4.517 konur í stjórnum fyrirtækja. Körlum fjölgaði einnig á tímabilinu um tæplega 1.100; 16.874 stjórnarmenn voru karlar árið 2007 en höfðu verið 15.777 árið 2005. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja með 100 starfsmenn eða fleiri hækkaði lítillega á tímabilinu úr 10% árið 2005 í 11,5% árið 2007. Árið 2005 áttu 52 konur sæti í stjórnum þessara fyrirtækja en 65 konur árið 2007.
    Þegar litið er til stjórna félaga í úrvalsvísitölu Kauphallar Íslands í janúar 2007 sátu 80 karlar og þrjár konur í stjórnum þeirra þannig að 96% stjórnarmanna voru karlar og 4% konur. Samtals var um að ræða fimmtán félög samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands en engar konur sátu í stjórnum tólf þeirra.
    Rannsóknasetur vinnuréttar og jafnréttismála við Háskólann á Bifröst hefur tekið saman upplýsingar um jafnrétti í 100 stærstu fyrirtækjum landsins miðað við ársveltu þeirra í samvinnu við iðnaðarráðuneytið, viðskiptaráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Félag kvenna í atvinnurekstri, Jafnréttisstofu og Jafnréttisráð. Upplýsingarnar hafa verið birtar undir verkefninu jafnréttiskennitalan fyrir árin 2005, 2007 og 2008. Tilgangur verkefnisins er einkum að kanna hlutfall karla og kvenna í stjórnum og meðal æðstu stjórnenda þessara fyrirtækja. Könnunin frá árinu 2007 var framkvæmd vorið 2007 og var farið eftir stöðu fyrirtækjanna á þeim tímapunkti. Upplýsinganna var aflað hjá Lánstrausti og miðað við nýjustu tölur um ársveltu fyrirtækjanna. Sökum þess að miðað er við ársveltu fyrirtækjanna var hluti fyrirtækjanna í úrtakinu eignarhaldsfélög með mjög fáa starfsmenn. Fyrirtæki sem voru að öllu leyti í eigu erlendra aðila voru tekin út úr úrtakinu sem og þau sem höfðu enga starfsemi hér á landi ásamt opinberum fyrirtækjum. Niðurstöðurnar sýndu að konur skipuðu 8% stjórnarsæta hjá þessum fyrirtækjum eða 32 af 408 sætum. Árið 2005 var hlutfall þeirra 12%. Engin kona sat í stjórn í 71% fyrirtækjanna. Tólf fyrirtækjanna voru með konur í þriðjungi eða hærra hlutfalli stjórnarsæta. Í þremur fyrirtækjanna voru konur stjórnarformenn en árið 2005 voru fimm af 100 stærstu fyrirtækjunum með konu sem stjórnarformann. Þá voru konur 14% meðal æðstu stjórnenda fyrirtækjanna eða 46 konur af 328 forstjórum og framkvæmdastjórum. Hlutfall kvenna meðal æðstu stjórnenda fyrirtækja var 10% árið 2005.
    Framkvæmd könnunarinnar fyrir jafnréttiskennitöluna árið 2008 var mjög svipuð og sú könnun sem gerð var fyrir árið 2007. Miðað var við stöðu fyrirtækjanna vorið 2008 þegar könnunin var gerð. Auk þeirra fyrirtækja sem tekin voru út úr úrtakinu 2007 voru í könnuninni árið 2008 einnig tekin út fyrirtæki með færri en tíu starfsmenn auk þess sem könnunin náði til 120 stærstu fyrirtækjanna miðað við ársveltu í stað 100 áður. Árið 2008 skipuðu konur 13% stjórnarsæta í 120 stærstu fyrirtækjum landsins eða 61 af 467 stjórnarsætum. Þegar þessar tölur eru bornar saman við jafnréttiskennitöluna fyrir árið 2007 þarf að hafa í huga að 20 fleiri fyrirtæki voru með í könnunni árið 2008. Þrettán fyrirtækjanna voru með konur í sæti stjórnarformanns sem er töluverð fjölgun frá árinu áður. Í 29 fyrirtækjum var þriðjungur eða hærra hlutfall stjórnarmanna konur en 58% fyrirtækjanna höfðu engar konu í stjórn. Enn fremur var kona æðsti stjórnandi fyrirtækjanna í 8% fyrirtækjanna en konur voru 19% meðal æðstu yfirmanna fyrirtækjanna eða 72 konur af 378 yfirmönnum.
    Hagstofa Íslands hefur jafnframt tekið saman upplýsingar um stjórnir stærstu lífeyrissjóðanna árin 2004–2006. Á tímabilinu fjölgaði konum í stjórnum lífeyrissjóðanna um þrettán og var samtals 31 kona árið 2006. Þessi fjölgun hafði þau áhrif að hlutfall þeirra fór úr 14% stjórnarmanna í 27%. Körlum fækkaði á sama tímabili um 29 og voru samtals 85 karlar í stjórnum stærstu lífeyrissjóðanna árið 2006 eða sem nemur 73% stjórnarmanna.
    Stjórnvöld hafa lagt áherslu á að efla hlut kvenna í atvinnurekstri. Viðskiptaráðuneytið hefur meðal annars staðið fyrir námsstefnum, annars vegar í janúar 2007 undir yfirskriftinni Virkjum kraft kvenna og hins vegar Virkum fjármagn kvenna í mars 2008. Síðari námsstefnunni var ætlað að höfða til kvenna sem fjárfesta en báðar námsstefnurnar voru vel sóttar. Í janúar 2008 birtist auglýsing í helstu dagblöðum landsins þar sem yfir hundrað konur lýstu sig reiðubúnar til stjórnarsetu í stærstu fyrirtækjum landsins. Félag kvenna í atvinnurekstri og LeiðtogaAuður, félag kvenna í stjórnendastöðum stærstu fyrirtækja landsins, stóðu á bak við auglýsinguna í þeim tilgangi að hvetja fyrirtæki til að tilnefna konur jafnt sem karla í stjórnir. Listi yfir félagskonur í LeiðtogaAuði er að finna á heimasíðu félagsins þar sem einnig er að finna ferilskrá þeirra (http:// www.leidtogaaudur.is). LeiðtogaAuður varð til í tengslum við verkefnið Auður í krafti kvenna sem stóð yfir á tímabilinu 2000–2003 og var ætlað að auka þátttöku kvenna í atvinnusköpun. Þá hefur Impra sem starfar innan Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands staðið áfram fyrir námskeiðinu Brautargengi sem sérstaklega er ætlað konum með nýjar viðskiptahugmyndir og konum í atvinnurekstri. Námskeiðið hefur verið haldið frá árinu 1996 við góðar undirtektir kvenna.
    Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur veitt styrki til kvenna sem hafa góðar viðskiptahugmyndir frá árinu 1991. Markmið verkefnisins er að styrkja stöðu kvenna á vinnumarkaði með því að auka aðgengi þeirra að fjármagni og efla atvinnusköpun þeirra. Árlega hefur 15–25 milljónum króna verið úthlutað í fjölbreytt verkefni en árin 2007 og 2008 var ráðstöfunarfé sjóðsins aukið. Voru því um 50 milljónir króna til ráðstöfunar árið 2008. Vinnumálastofnun hefur annast framkvæmd verkefnisins og er starfsstöð starfsmannsins sem sinnir verkefninu á Sauðárkróki. Hlutverk hans er meðal annars að annast ráðgjöf og sinna eftirfylgni við styrkþega. Árið 2006 fengu 43 konur styrki, 60 konur árið 2007 og 56 konur árið 2008. Frekari upplýsingar um verkefnið er að finna á vefsíðu þess (http://www.atvinnumal kvenna.is).

2. Úttekt á opinberum stuðningi við konur í atvinnurekstri.
    Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands var falið að vinna úttekt fyrir iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið á því hvort samþættingarsjónarmið hafi verið lögð til grundvallar við töku ákvarðana um styrki, lán og fjárfestingar og hvaða árangur hefur orðið af verkefnum undanfarinna ára sem hafa haft það að markmiði að örva frumkvæði kvenna í atvinnurekstri á vegum Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Impru sem starfar innan Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Rannsóknastofan skilaði skýrslu um verkefnið á haustmánuðum 2007 en úttektin tók til áranna 1999–2005.
    Í skýrslunni kom meðal annars fram að á fyrstu tveimur starfsárum Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins höfðu um 15% umsókna sem bárust sjóðnum komið frá konum en sjóðurinn tók til starfa 1. janúar 1998. Haustið 1999 samþykkti stjórn sjóðsins að taka þátt í verkefninu Auður í krafti kvenna sem ætlað var sérstaklega að efla atvinnusköpun kvenna. Þegar verkefninu lauk árið 2003 höfðu 1.480 konur tekið þátt í þeim sex þáttum sem Auður í krafti kvenna bauð upp á. Þátttaka sjóðsins í verkefninu Auður í krafti kvenna þykir sýna ákveðinn skilning á mikilvægi þess að virkja konur í atvinnusköpun en þrátt fyrir það fengu mun fleiri karlar en konur styrki frá sjóðnum á tímabilinu 1999– 2005. Í skýrslunni kemur fram að karlar voru stjórnendur í meiri hluta þeirra fyrirtækja sem Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fjárfesti í á tímabilinu 1999–2005. Færri konur en karlar hafa sótt um styrki úr sjóðnum en þeim konum sem hafa sótt um hefur í nánast öllum tilvikum verið synjað þar sem verkefni þeirra hafa ekki þótt standast kröfur sjóðsins. Synjanir sjóðsins voru allar rökstuddar með sama hætti þar sem fram kom að sjóðurinn tæki eingöngu þátt í verkefnum sem ekki væru í samkeppni við önnur verkefni eða fyrirtæki. Enn fremur er tekið fram í skýrslunni að upplýsingar um styrki eru ekki kyngreindar í ársskýrslum Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og reyndist erfitt að afla upplýsinga um kynjaskiptingu styrkþega. Þyrfti því að bæta gagnabanka sjóðsins varðandi kyngreindar upplýsingar um umsækjendur og verða þau mál tekin til endurskoðunar.
    Þá var það niðurstaða úttektarinnar að mikilvægt væri að auka aðgerðir til stuðnings konum í atvinnurekstri en þar á meðal væri brýnt að efla námskeiðið Brautargengi hjá Impru þannig að það yrði aðgengilegt konum óháð búsetu. Kemur fram að reynsla kvennanna af námskeiðinu hefði verið mjög góð en í símakönnun sem gerð var árið 2005 meðal kvenna sem sótt höfðu námskeiðið á tímabilinu 1996–2005 töldu 90% þeirra að námskeiðið hefði verið þeim sá drifkraftur sem þær höfðu vænst fyrirfram af því. Enn fremur kemur fram að uppbygging tengslanets kvenna og áframhaldandi vinna með þeim sem hefðu sótt námskeiðið væri mikilvæg.

C. Stjórnmálaþátttaka kvenna og karla.
i. Alþingi.
    Alþingiskosningar voru haldnar vorið 2007 en þá náðu 20 konur kjöri sem nam 31,7% þingmanna og 43 karlar eða 68,3%. Þarna var tekið lítið framfaraskref frá kosningunum árið 2003 þegar hlutur kvenna fór niður í 30% eftir að hlutur kvenna á Alþingi varð 35% eftir alþingiskosningarnar 1999. Hins vegar verður einnig að líta til þess að þegar þing kom saman haustið fyrir þingkosningarnar 2007 áttu 23 konur sæti á Alþingi, sem nam 37% þingsæta. Athyglisvert er jafnframt að í lok desember 2008 var staðan aftur orðin sú sama og hún var haustið 2006 er konur sátu í 37% þingsæta.
    Þegar litið er til kjörinna þingmanna eftir kjördæmum eftir alþingiskosningarnar 2007 sést að flestar konurnar komu úr Suðvesturkjördæmi eða samtals sex konur samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands. Úr því kjördæmi komu reyndar jafnmargar konur og karlar. Engin kona náði kjöri í Norðvesturkjördæmi en þaðan náðu níu þingmenn kjöri. Þá náði ein kona kjöri í Suðurkjördæmi eða 10% þingmanna úr því kjördæmi. Í öðrum kjördæmum var kynjaskipting þingmanna jafnari en af þeim var hlutur kvenna lægstur 36,4% í Reykjavíkurkjördæmi norður. Þegar kyn þingmanna sem sátu á Alþingi í lok árs 2008 er skoðað eftir kjördæmum kemur í ljós að konum fjölgaði í Suðurkjördæmi og Norðvesturkjördæmi en kynjahlutfallið í öðrum kjördæmum hélst óbreytt. Þannig hafði konum í Suðurkjördæmi fjölgað um tvær og voru því 30% þingmanna úr því kjördæmi. Ein kona bættist við hóp þingmanna Norðvesturkjördæmis en engin kona hafði náð þar kjöri eins og áður sagði.
    Kona gegndi fyrst ráðherraembætti hér á landi árið 1983 en árið 1999 gegndu í fyrsta skipti fleiri en ein kona ráðherraembætti á sama tíma er þrjár konur gegndu ráðherraembætti. Við myndun nýrrar ríkisstjórnar eftir kosningarnar árið 2007 gegndu fjórar konur ráðherraembætti af tólf ráðherrum eða um þriðjungur ráðherra og var það sami fjöldi kvenna og gegnt hafði ráðherraembætti í fráfarandi ríkisstjórn. Þriðjungur formanna fastanefnda Alþingis er konur þar sem konur gegna formennsku í fjórum fastanefndum af tólf auk þess sem tvær konur gegna varaformennsku. Hlutfall þingkvenna er hæst í iðnaðarnefnd en þar sitja sex konur á móti þremur körlum eða 66,7% nefndarmanna. Einnig sitja fleiri konur en karlar í heilbrigðisnefnd og umhverfisnefnd en þar eru 55,6% nefndarmanna konur. Bæði í menntamálanefnd og samgöngunefnd eru konur 44,4% nefndarmanna og 38,9% í utanríkismálanefnd. Í fimm nefndum þingsins sitja einungis tvær konur á móti sjö körlum þannig að konur eru 22% nefndarmanna í hverri nefnd. Þetta eru allsherjarnefnd, efnahags- og skattanefnd, félags- og tryggingamálanefnd, sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og viðskiptanefnd.
    Enn er langt í land með að jöfnu hlutfalli kynjanna verði náð meðal kjörinna þingmanna Alþingis. Ljóst er að þeir stjórnmálaflokkar sem bjóða fulltrúa sína fram til að gegna þingmennsku bera hér mikla ábyrgð. Þegar framboðslistar fyrir alþingiskosningar eru settir saman verður að tryggja eins og kostur er að konur jafnt sem karlar eigi jafna möguleika á að ná kjöri. Enn fremur er ljóst að þegar kemur að skiptingu verkefna innan Alþingis, svo sem setu í fastanefndum þingsins, bera þeir flokkar sem sæti eiga á Alþingi ábyrgð á því að til þessara starfa veljist hæfir einstaklingar af báðum kynjum meðal kjörinna fulltrúa. Þá bera þeir stjórnmálaflokkar sem mynda ríkisstjórn hverju sinni sjálfir ábyrgð á því hverjir veljast í embætti ráðherra og er það því í höndum þeirra að auka hlut kvenna frá því sem nú er þegar kemur að vali á hæfum einstaklingum til að gegna ráðherraembætti.

ii. Sveitarstjórnir.
    Eftir sveitarstjórnarkosningarnar vorið 2006 var hlutur kvenna í sveitarstjórnum 35,9% sem var 4,8% aukning frá kosningunum 2002. Samtals náðu 189 konur kjöri til setu í sveitarstjórnum árið 2006 á móti 340 körlum. Hlutfall kvenna var hæst á höfuðborgarsvæðinu þar sem konur voru 40% fulltrúa en ef miðað er við 40:60 markmiðið telst jafnrétti hafa verið náð þar. Kynjaskipting sveitarstjórnarmanna var jafnari yfir landið eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2006 en var áður, þótt það hafi ekki átt við alla landshluta. Í fimm sveitarfélögum var hins vegar engin kona kjörin fulltrúi í sveitarstjórn. Eftir kosningarnar voru konur í meiri hluta í ellefu sveitarfélögum í stað tíu áður.
    Í september 2008 voru konur 28% starfandi bæjarstjóra, sveitarstjóra og oddvita hér á landi á móti 72% karla.
    Jafnréttisvogin er verkefni sem Jafnréttisstofa hefur unnið og snýr að mati jafnréttis kynjanna innan sveitarfélaga. Jafnréttisvogin var unnin í tengslum við Evrópuverkefni sem bar heitið Tea for Two. Verkefnisstjórnun var í höndum Jafnréttisstofu en ráðgjöf, vinna við rannsóknir og gagnavinnsla í höndum sérfræðinga Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri. Stýrihópur þátttökulanda þessa verkefnis kom saman á fjórum fundum til þess að ákveða hvaða þættir væru best til þess fallnir að meta jafnrétti kynjanna innan sveitarfélaga. Afrakstur þeirrar vinnu er safn 21 mælikvarða sem löndin söfnuðu gögnum um. Úrvinnsla miðaði að því að veita sveitarfélögum einkunn fyrir stöðu þeirra í jafnréttismálum.
    Eitt markmiða Jafnréttisvogarinnar fólst í að gera niðurstöður mælinga kunnar á heimasíðu verkefnisins (http://www.tft.gender.is) en niðurstöðurnar byggjast á gögnum um stöðu í sveitarfélögum eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2006 og var þeim safnað saman haustið 2007. Þar geta sveitarfélög, með hjálp myndrænnar framsetningar á niðurstöðum, metið árangur sinn í jafnréttismálum. Niðurstöður úr Jafnréttisvoginni vöktu nokkra athygli. Bestur árangur í jafnréttismálum náðist hjá sveitarfélögunum Akureyrarkaupstað, Húnaþingi vestra og Stykkishólmsbæ.
    Á mynd 1 má sjá kynjaskiptingu í sveitarstjórnum eins og hún var haustið 2007 en þá voru konur um 36% sveitarstjórnarmanna. Í nokkrum tilvikum voru engar konur í sveitarstjórn og í sumum eru konur allt að 60%. Á grundvelli þess mælitækis sem hannað var í tengslum við Evrópuverkefnið Tea for Two fengu sveitarfélög hærri einkunn eftir því sem þau voru nær jafnri kynjaskiptingu í sveitarstjórnum. Meðaleinkunn sveitarfélaga var 6,7 stig og staðalfrávik 2,6 stig.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 1: Hlutur kvenna í sveitarstjórnum samkvæmt niðurstöðum úr Jafnréttisvoginni, Evrópuverkefninu Tea for Two.

    Jafnréttisvoginni er ætlað að vera verkfæri til árangursmælinga sem nú hefur verið prófað einu sinni og verður þróað áfram í samstarfi við sveitarfélögin. Áætlað er að nota valda mælivísa verkefnisins til að birta árlega niðurstöður um stöðu jafnréttismála hjá sveitarfélögum.
    Evrópusáttmáli um jafna stöðu kvenna og karla í sveitarfélögum og héruðum var kynntur á landsfundi jafnréttisnefnda sveitarfélaga sem fram fór í september 2008 í Mosfellsbæ. Þegar hafa Akureyrarkaupstaður, Hafnarfjarðarkaupstaður og Mosfellsbær undirritað samninginn og með því skuldbundið sig til þess að virða grundvallarregluna um jafnrétti kvenna og karla og innleiða þær skuldbindingar sem felast í því. Þessi samningur getur reynst gagnlegt verkfæri til að vinna að jafnréttismálum innan sveitarfélaga en hann felur í sér ýmis nýmæli fyrir íslensk sveitarfélög. Með því að undirrita hann eru sveitarfélög orðin hluti af evrópsku tengslaneti og geta notið góðs af reynslu annarra evrópskra sveitarfélaga í jafnréttismálum. Samningurinn hefur náð mikilli útbreiðslu meðal sveitarfélaga í Evrópu og yfir 820 sveitarfélög og héruð hafa undirritað hann.

D. Aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi.
i. Samráðsnefnd um aðgerðir gegn ofbeldi gegn konum.
    Félagsmálaráðherra endurskipaði samráðsnefnd um aðgerðir gegn ofbeldi gegn konum árið 2007 og er skipunartími nefndarinnar frá 26. nóvember 2007 til 31. desember 2010. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, menntamálaráðuneyti, félags- og tryggingamálaráðuneyti, Jafnréttisstofu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Helsta verkefni nefndarinnar er að fylgja aðgerðaáætlun vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis eftir í framkvæmd.
    
ii. Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis. 1. Almennt.
    Aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis var samþykkt í ríkisstjórn Íslands í september 2006 og náði upphaflega bæði til kvenna og barna. Meginmarkmið aðgerðaáætlunarinnar er að vinna gegn ofbeldi á heimilum og kynferðislegu ofbeldi sem beinist að konum og börnum sem og að bæta aðbúnað þeirra er orðið hafa fyrir ofbeldi eða eru í áhættuhópi hvað það varðar. Haustið 2007 voru málefni barna hins vegar færð til nefndar um aðgerðaáætlun í málefnum barna.
    Þegar er hafin vinna við mörg verkefnanna í þeim hluta sem snýr að ofbeldi á heimilum og kynferðislegu ofbeldi sem beinist gegn konum og fer hér á eftir yfirlit yfir stöðu einstakra verkefna. Ekki hefur verið hafin vinna við öll verkefnin enda gildistími áætlunarinnar til ársloka 2011.

2. Útgáfa fræðslurita fyrir fagstéttir um ofbeldi í nánum samböndum.
    Útgáfa fræðslurita fyrir fagstéttir, þ.e. ljósmæður, löggæslumenn og starfsfólk í félagsþjónustu sem og heilbrigðisþjónustu, auk almenns hluta um ofbeldi í nánum samböndum er ein af þeim aðgerðum sem tilgreindar eru í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis. Markmiðið með útgáfu þessara rita er að efla fræðslu og þekkingu ýmissa fagstétta sem sinna og vinna með konum sem hafa verið beittar ofbeldi af hálfu nákominna aðila. Ingólfur V. Gíslason, lektor við Háskóla Íslands, vann efni ritanna sem komu út í desember 2008 en sérstakur útgáfufundur var haldinn í Iðnó 6. janúar 2009. Jafnréttisstofa hélt jafnframt annan kynningarfund í tilefni af útgáfu ritanna daginn eftir á Akureyri. Í ritunum er fjallað um einkenni ofbeldis í nánum samböndum, þróun þess og vísbendingar um að kona búi við ofbeldi. Þá er fjallað um stöðuna á Íslandi, einkenni karla sem beita ofbeldi, einkenni barna sem búa á heimilum þar sem ofbeldi er beitt og loks hvaða aðilar geti aðstoðað konur sem búa við eða hafa búið við ofbeldi.

3. Rannsókn á ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum.
    Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur falið Rannsóknasetri í barna- og fjölskylduvernd við Háskóla Íslands að annast gerð rannsóknar á ofbeldi karla gegn konum í nánum samböndum, en undirbúningur rannsóknarinnar fer fram í ráðuneytinu með sérfræðiráðgjöf Hildigunnar Ólafsdóttur afbrotafræðings. Markmið rannsóknarinnar er að rannsaka umfang og eðli kynbundins ofbeldis hér á landi í þeim tilgangi að kanna hversu útbreitt það er og til hvaða aðgerða sé rétt að grípa. Við gerð rannsóknarinnar er höfð hliðsjón af alþjóðlegri rannsókn sem Sameinuðu þjóðirnar áttu frumkvæði að. Rannsóknir hafa bent til að ákveðnir hópar kvenna eigi frekar á hættu að vera þolendur kynbundins ofbeldis. Er því gert ráð fyrir að ákveðnir hópar kvenna verði sérstaklega til athugunar í þessari nýju rannsókn, þ.e. erlendar konur, konur með fötlun, konur með alvarlegar geðraskanir og eldri konur.
    Rannsóknin skiptist í sex rannsóknarverkefni. Fyrsta verkefnið felur í sér símakönnun sem byggist á 3.000 kvenna slembiúrtaki úr Þjóðskrá. Aldur kvenna í úrtakinu er 18– 80 ára en efri aldursmörkin voru ákveðin með hliðsjón af mikilvægi þess að ná til eldri kvenna. Annar hluti rannsóknarinnar felur í sér könnun innan félagsþjónustu sveitarfélaga, þar á meðal þáttum er lúta að barnavernd. Þessi hluti byggist á viðtölum við starfsmenn í níu sveitarfélögum sem voru valin með tilliti til þess að ná sem fjölbreyttastri gerð sveitarfélaga eftir stærð, staðsetningu á landinu, atvinnuástandi og fleira. Þá er gert ráð fyrir að gögn hjá Barnavernd Reykjavíkur og Barnaverndarstofu verði skoðuð. Þriðja rannsóknarverkefnið lýtur að leik- og grunnskólum en gert er ráð fyrir að tíu skólar verði valdir til þátttöku, bæði á höfuðborgarsvæðinu og af landsbyggðinni. Undirbúningur er þegar hafinn. Aðrir hlutar rannsóknarinnar lúta að þáttum er snúa að heilbrigðisþjónustu, lögreglu og frjálsum félagasamtökum sem koma að ofbeldismálum í nánum samböndum, svo sem Stígamótum og Samtökum um kvennaathvarf. Stefnt er að því að niðurstöður í fyrstu tveimur rannsóknarverkefnunum liggi fyrir vorið 2009 en bæði verkefnin hófust haustið 2008. Þá er áætlað að öll rannsóknarverkefnin verði komin af stað árið 2009 en aðgerðaáætlunin gerir ráð fyrir að verkefninu ljúki í heild árið 2011.

4. Verklagsreglur um rannsókn kynferðisbrota.
    Í aðgerðaáætlun vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis er mælt fyrir um gerð verklagsreglna fyrir lögreglu sem ætlað er að auka enn frekar á skilvirkni og vönduð vinnubrögð við rannsókn mála vegna kynferðisbrota. Ríkissaksóknari hafði áður sett ítarlegar verklagsreglur um rannsókn kynferðisbrotamála í apríl 2002. Reglur þessar voru endurskoðaðar og gefnar út að nýju í maí 2007.

5. Réttargæslumenn.
    Eitt af verkefnunum í fyrrnefndri aðgerðaáætlun var að lögum yrði breytt á þann veg að þolendur heimilisofbeldis ættu rétt á réttargæslumönnum á sama hátt og þolendur kynferðisbrota. Ný lög nr. 88/2008, um meðferð sakamála, hafa verið samþykkt frá Alþingi og er þeim ætlað að leysa eldri lög nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, af hólmi. Við endurskoðun laganna var ákvæðinu um tilnefningu réttargæslumanna breytt á þann veg að við bættist að lögreglu er endranær skylt, að ósk brotaþola, að tilnefna honum réttargæslumann þegar rannsókn beinist að broti á ákvæðum almennra hegningarlaga er varða manndráp og líkamsmeiðingar, sbr. XXIII. kafla laganna, eða brot gegn frjálsræði manna, sbr. XXIV. kafla laganna, í tilvikum er sá sem braut gegn brotaþola er honum nákominn, sbr. 2. mgr. 41. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Hin nýju lög um meðferð sakamála tóku gildi 1. janúar 2009.

6. Nálgunarbann.

    Reglur um nálgunarbann hafa verið endurskoðaðar og frumvarp samþykkt á Alþingi sem lög nr. 122/2008, um nálgunarbann. Áður var að finna reglur um nálgunarbann í lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, en í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum um nálgunarbann kemur fram að nálgunarbann þykir ekki eiga það sameiginlega einkenni þvingunarúrræða að tengjast rannsókn eða meðferð sakamáls í tilefni af tilteknu broti og þykir því eðlilegra að reglum um þetta efni verði komið fyrir í sérstökum lögum.
    Eitt af verkefnunum í aðgerðaáætluninni gerði ráð fyrir að ákvæði um nálgunarbann yrði skoðað með það í huga, hvort heimila ætti lögreglu að ákvarða um nálgunarbann þegar í stað þegar um heimilisofbeldi væri að ræða. Ákvörðun lögreglu yrði síðan kæranleg til héraðsdóms. Við endurskoðun á reglum um nálgunarbann þótti sú leið ekki fær en ákveðið var að það yrði áfram í höndum dómara að ákvarða um nálgunarbann að kröfu lögreglu. Í umfjöllun allsherjarnefndar Alþingis um frumvarp það sem varð að lögunum var fjallað um hvort rétt sé að heimild til að úrskurða mann í nálgunarbann sé á hendi lögreglu eða handhafa ákæruvalds frekar en dómara. Í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar segir meðal annars að allsherjarnefnd hafi talið að vandlega athuguðu máli „ekki rétt að fara þá leið að svo búnu og álítur að fyrst þurfi að fara fram ítarleg skoðun á kostum þess og göllum að ráðast í flutning á forræði í nálgunarbannsmálum frá dómstólum til lögreglu“. Var jafnframt lagt til að reglur um nálgunarbann á Norðurlöndunum yrðu skoðaðar og farið yfir framkvæmd nálgunarbannsúrræðisins hér á landi til þessa, bæði framkvæmd lögreglu og dómaframkvæmdir. Þá lagði meiri hluti allsherjarnefndar áherslu á að úrræðið yrði virkara en verið hefði og lagði til mælikvarða um þau atriði sem dómara ber að líta til við mat á því hvort skilyrði séu uppfyllt til nálgunarbanns. Hin nýju lög tóku gildi 1. janúar 2009 og er því engin reynsla komin á framkvæmd þeirra.

iii. Verkefnið Karlar til ábyrgðar.
    Verkefnið Karlar til ábyrgðar var endurvakið í maí 2006. Um er að ræða sérhæft meðferðartilboð fyrir karla sem beita ofbeldi á heimilum hér á landi. Reynslan af slíku meðferðarstarfi er góð bæði hérlendis og erlendis.
    Sálfræðingar annast meðferðarstarfið en markmið verkefnisins er að veita körlum sem beitt hafa heimilisofbeldi meðferð og aðstoð séu þeir reiðubúnir að leita sér hjálpar. Áhersla er lögð á að gerendur komi sjálfviljugir í meðferð og axli sjálfir ábyrgð á ofbeldinu. Meðferðin byggist á einstaklingsviðtölum og getur staðið frá sex mánuðum til tveggja ára.
    Samhliða meðferðarstarfinu er starfandi sérstök verkefnisstjórn um verkefnið með þátttöku Jafnréttisstofu, heilbrigðisráðuneytis og Samtaka um kvennaathvarf en fulltrúi Jafnréttisstofu er verkefnisstjóri. Hlutverk verkefnisstjórnarinnar er meðal annars að skilgreina þróun verkefnisins til framtíðar í samráði við meðferðaraðila, fylgjast með daglegri starfsemi og standa fyrir mati á árangri verkefnisins.
    Verkefnið Karlar til ábyrgðar og Samtök um kvennaathvarf hafa tekið upp samtarf sem felst í því að mökum þeirra kvenna er leita til athvarfsins er boðin aðstoð á vegum verkefnisins. Enn fremur hefur verið komið á samstarfi við Barnaverndarstofu um að bjóða börnum þeirra karla sem leita sér ráðgjafar á vegum verkefnisins sérstaka aðstoð.

iv. Mansal.
    Dómsmálaráðherra skipaði í nóvember 2004 starfshóp sem átti að kynna sér reynslu af mismunandi löggjöf um vændi, klámiðnað og mansal í Evrópu. Sérstaklega var þess farið á leit að hópurinn kynnti sér reynsluna af þeirri löggjöf Svíþjóðar sem gerir kaup á vændi refsiverða og legði mat á kosti þeirrar löggjafar og galla. Starfshópurinn skilaði niðurstöðum sínum til ráðherra og kom skýrsla hópsins út í febrúar 2006.
    Í kjölfarið lagði dómsmálaráðherra fram frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum í apríl 2006 en frumvarpið hafði nokkru áður verið birt á heimasíðu dómsmálaráðuneytis. Frumvarpið dagaði uppi en dómsmálaráðherra lagði það fram að nýju á Alþingi veturinn 2006–2007. Frumvarpið varð að lögum 27. mars 2007, sbr. lög nr. 61/2007 um breyting á almennum hegningarlögum nr. 19/1940 (kynferðisbrot).
    Með lögunum var ákvæði um refsinæmi þess að stunda vændi sér til framfærslu afnumið. Afnámið byggist á því sjónarmiði að vændi tengist alltaf neyð og því sé nær að veita seljanda félagslega, læknisfræðilega og fjárhagslega aðstoð í stað þess að refsa honum. Markmiðið er að hjálpa einstaklingum sem hafa mátt þola erfiðar aðstæður í stað þess að refsa þeim. Þeir þurfi þá ekki lengur að óttast málshöfðun ef þeir ákveða að kæra ofbeldisverk sem að þeim hafa beinst, þeir verði líklegri til að bera vitni í málum gegn vændismiðlurum og viljugri til að leita sér aðstoðar bæði hjá félagsþjónustu og í heilbrigðiskerfinu.    Enn fremur var með lögum nr. 61/2007 lögfest nýtt ákvæði um refsinæmi þess að bjóða fram, miðla fram, miðla eða óska eftir kynmökum við annan mann gegn greiðslu sé það gert með opinberri auglýsingu. Tilgangurinn með þessu ákvæði er að sporna gegn því að vændi verði sýnilegra í kjölfar afnáms ákvæðis um refsinæmi þess að stunda vændi sér til framfærslu. Ákvæði almennra hegningarlaga um brot gegn blygðunarsemi gæti þjónað sama tilgangi þegar um er að ræða götuvændi.
    Í hegningarlögunum er fjallað um refsiábyrgð þeirra sem hagnýta sér vændi annarra með ýmsum hætti. Í fyrsta lagi er refsivert samkvæmt lögunum að hafa atvinnu eða viðurværi sitt af vændi annarra. Í öðru lagi er refsivert að ginna, hvetja eða aðstoða barn yngra en 18 ára til vændis. Í þriðja lagi er refsivert að stuðla að því að nokkur maður flytji úr landi eða til landsins í því skyni að hann stundi vændi sér til viðurværis. Þá er í fjórða lagi refsivert að stuðla að því með ginningum, hvatningum eða milligöngu að aðrir hafi samræði eða önnur kynferðismök gegn greiðslu eða hafi tekjur af vændi annarra, svo sem með útleigu húsnæðis eða öðru.
    Í frumvarpi því er varð að lögum nr. 61/2007 eru rakin ýmis rök sem færð hafa verið með og á móti því að lögfesta refsiákvæði um vændiskaup. Í frumvarpinu segir að lagabreytingar verði að taka mið af þjóðfélagsviðhorfum og aðstæðum hverju sinni. Nauðsynlegt sé að frekari rannsóknir fari fram á vændi á Íslandi, umfangi þess og eðli og hvernig best sé að taka á því, áður en lagðar eru til lagabreytingar í ætt við þá sem gerð var í Svíþjóð þar sem lögfest var ákvæði um refsinæmi þess að kaupa kynlífsþjónustu. Þá sé það einnig verðugt rannsóknarefni hvað ræður því að vændi er svo lítt til meðferðar í réttarvörslukerfinu, ekki síst í ljósi þess að vitað er að það er stundað hér á landi að einhverju leyti. Það séu líka til önnur úrræði og væntanlega mun áhrifaríkari til að draga úr vændi en að refsa kaupendum þess. Refsing hafi í sjálfu sér aldrei verið heppileg leið til að leysa félagslegan vanda og séu aðrar leiðir færar eigi frekar að velja þær. Finna þurfi orsök vandans og reyna að koma í veg fyrir að fólk leiðist út í vændi. Börn og unglingar sem sæta kynferðislegu ofbeldi, vanrækslu eða annarri misbeitingu séu áhættuhópur sem reynslan sýni að geti orðið þolendur vændis, bæði sem seljendur og kaupendur. Markaðsvæðing kynlífs auki líkur á að slíkir áhættuhópar byrji að stunda vændi. Því þurfi að leggja áherslu á forvarnir, reyna að vernda þessi börn og unglinga, taka á starfsemi nektardansstaða og næturklúbba og vinna gegn þeim viðhorfum til kynlífs sem þeir standi fyrir. Ekki sé ólíklegt að með jákvæðri og heilbrigðri fræðslu og upplýsingum um kynlíf megi breyta viðhorfum í þjóðfélaginu og draga úr eftirspurn eftir vændi. Með vísan til framangreinds var því ekki lagt til í frumvarpinu að lögð yrði refsing við kaupum á vændi.
    Þá samþykkti Alþingi tillögu dómsmálaráðherra um breytingar á lögreglulögum, sbr. lög nr. 46/2006, um breyting á lögreglulögum, nr. 90/1996, og lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92/1989, þar sem sett var á laggirnar sérstök greiningardeild innan embættis ríkislögreglustjóra. Markmiðið var að greiningardeildin geti meðal annars greint skipulagða glæpastarfsemi, safnað á einn stað upplýsingum og lagt mat á hættu sem tengist til dæmis mansali, skipulögðu vændi og annarri skipulagðri og alþjóðlegri glæpastarfsemi.
    Í desember 2007 ákváðu félagsmálaráðherra og dómsmálaráðherra að félagsmálaráðherra tæki að sér að halda utan um mansalsmálefni í samráði við dómsmálaráðherra í ljósi þess að mörg þeirra verkefna sem vinna þarf að í tengslum við málaflokkinn lúta aðallega að málefnasviði félags- og tryggingamálaráðuneytis eftir að unnið hefur verið að refsilagabreytingum undir forystu dómsmálaráðherra. Ríkisstjórn Íslands samþykkti jafnframt á sama tíma tillögu félagsmálaráðherra og dómsmálaráðherra þess efnis að stjórnvöld setji sér sérstaka aðgerðaáætlun gegn mansali svo koma megi betra skipulagi á þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til þess að koma í veg fyrir mansal hér á landi. Félags- og tryggingamálaráðherra skipaði í janúar 2008 samráðshóp til að vinna að gerð slíkrar áætlunar en þar eiga sæti fulltrúar félags- og tryggingamálaráðherra, dóms- og kirkjumálaráðherra, heilbrigðisráðherra, Jafnréttisstofu, Rauða kross Íslands, Reykjavíkurborgar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka um kvennaathvarf og Stígamóta. Slík aðgerðaáætlun yrði fyrsta sinnar tegundar hér á landi en meðal annars er talið þýðingarmikið að umfang mansals verði nánar rannsakað og lagðar til aðgerðir sem miða að forvörnum og fræðslu um þetta efni meðal almennings. Enn fremur er þýðingarmikið að þar sé að finna aðgerðir sem ætlað er að tryggja aðstoð við þolendur og vernd þeirra sem og aðgerðir sem miða að því að gerendur verði sóttir til saka. Samráðshópurinn er enn að störfum en hann hefur lagt í umfangsmikla vinnu sem talin var óhjákvæmileg til að ná heildarsýn yfir verkefnið svo unnt væri að leggja fram tillögur um alla þræði þess. Tillögur að aðgerðaáætlun eru væntanlegar í febrúar 2009.
    Fulltrúar dómsmálaráðuneytisins hafa tekið þátt í starfi norræns starfshóps sem fjallar um mansal ( Nordic-Baltic Task Force Against Trafficking in Human Beings) en fulltrúi félags- og tryggingamálaráðuneytis tók við því starfi þegar málaflokkurinn fluttist yfir til þess ráðuneytis í árslok 2007. Starfshópurinn hittist nokkrum sinnum yfir árið og er ætlað að stuðla að nánu samstarfi Norðurlandanna á þessu sviði. Upphaf þeirrar samvinnu má rekja til þess að árið 2002 ákváðu utanríkisráðherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna að skipa starfshóp sem vinna skyldi gegn mansali. Var megintilgangurinn að upplýsa almenning um mansal og vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum gegn því. Skipunartími hópsins rann út 2006 en þá var skipaður nýr hópur, CBSS ( Council of the Baltic Sea States Task Force against Trafficking in Human Beings), sem vinna skal áfram að framangreindum markmiðum en auk Íslands og fyrrnefndra ríkja skipa hópinn fulltrúar frá Þýskalandi, Rússlandi og Póllandi auk fulltrúa frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Fulltrúar ráðuneytanna hafa einnig sótt fundi í norrænum samráðshópi sem nefnist Nordisk samrådsgruppe på höyt nivå for flyktningspörsmål (NSHF) en þar er jafnframt fjallað um þær leiðir sem mögulegar eru til að vinna gegn mansali.

v. Breytingar á almennum hegningarlögum í tengslum við kynbundið ofbeldi.
1. Heimilisofbeldi.
    Frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, var lagt fram á Alþingi á 132. löggjafarþingi veturinn 2005–2006 og laut efni þess að breytingum á ákvæðum sem varða heimilisofbeldi. Frumvarpið var liður í aðgerðum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins gegn heimilisofbeldi og var það samþykkt á Alþingi 11. apríl 2006, sbr. lög nr. 27/2006, um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum (heimilisofbeldi). Dómsmálaráðherra ákvað að leggja meiri þunga á aðgerðir gegn heimilisofbeldi í því skyni að bregðast við ábendingum sem honum höfðu borist um þessi mál sem og vegna þeirrar umræðu sem skapast hafði um þessi málefni. Þá höfðu borist tilmæli frá frjálsum félagasamtökum til stjórnvalda um gerð heildstæðrar aðgerðaáætlunar gegn kynbundnu ofbeldi.
    Markmiðið með þeim breytingum sem lögin fela í sér var að gera lagaleg úrræði virkari að því er varðar heimilisofbeldi. Nauðsynlegt þótti að íslensk refsilöggjöf endurspeglaði með skýrari hætti það mat löggjafans að brot framin í samskiptum nákominna hafa sérstöðu. Í frumvarpinu sem varð að lögunum var lagt til að heimilt yrði að þyngja refsingu þegar náin tengsl geranda og brotaþola þykja hafa aukið á grófleika verknaðar. Enn fremur var lagt til að sett yrði nýtt ákvæði í almenn hegningarlög, 233. gr. b, sem kæmi í stað 1. mgr. 191. gr. laganna, þar sem gert var ráð fyrir allt að tveggja ára fangelsi ef einstaklingur móðgar eða smánar maka sinn eða fyrrverandi maka, barn sitt eða annan aðila sem er nákominn geranda og verknaðurinn talinn fela í sér stórfelldar ærumeiðingar. Með þessu var ætlunin að útfæra með skýrari hætti þá refsivernd sem þegar leiddi af 1. mgr. 191. gr. laganna. Það var einnig markmið hins nýja ákvæðis að vernda einstaklinga betur gegn afbrotum nákominna í skjóli hjónabands og fjölskyldu og gera refsivernd gegn stórfelldum ærumeiðingum þannig úr garði að raunhæfara væri að ná þeim réttarfarslegu og réttarpólitísku markmiðum sem eðlilegt væri að leggja til grundvallar í þessu sambandi. Loks var lagt til að brot gegn ákvæði 233. gr. b sæti opinberri ákæru.
    Með lögum nr. 61/2007, um breyting á almennum hegningarlögum, með síðari breytingum, (kynferðisbrot), var fellt brott ákvæði 205. gr. laganna um niðurfellingu refsingar fyrir tiltekin kynferðisbrot ef aðilar sem mökin hafa gerst á milli halda áfram sambúð, taka upp óvígða sambúð eða ganga í hjónaband. Ekki er að sjá að þessu ákvæði hafi nokkurn tíma verið beitt hér í framkvæmd enda þykir ákvæðið endurspegla úrelt viðhorf til kvenna. Enn fremur var ekki talin ástæða til að löggjafinn stuðli að því að viðhalda hjónaböndum þar sem annar aðilinn beitir hinn ofbeldi. Þykir brottfall ákvæðisins jafnframt í betra samræmi við framangreindar breytingar sem þegar höfðu verið gerðar á ákvæðum almennra hegningarlaga með lögum nr. 27/2006 þar sem glögglega kemur fram það mat að litið sé eftir atvikum alvarlegar á brot sem framin eru gegn nákomnum í skjóli hjónabands eða fjölskyldu. Í verklagsreglum ríkislögreglustjóra um skráningu og meðferð heimilisofbeldismála hjá lögreglu, sem tóku gildi 20. október 2005, eru skilgreindir brotaflokkar sem falla undir reglurnar og er einn þeirra kynferðisbrot. Það er því ljóst að refsibrottfall fyrir kynferðisbrot sem beinist að maka gengur þvert á þau sjónarmið sem nú eru óðum að hljóta meiri hljómgrunn í löggjöf og réttarframkvæmd.

2. Kynferðislegt ofbeldi.
    Lög nr. 61/2007 kveða eins og áður segir á um breytingar á ákvæðum kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum. Breytingar voru meðal annars gerðar á ákvæðum 194.–199. gr. laganna um nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi fólks, sbr. einnig 205. gr., og ákvæðum 200.–202. gr. laganna um kynferðisbrot gegn börnum, sbr. einnig 204. gr.
    Ástæða fyrir endurskoðun á þessum ákvæðum var meðal annars sú umræða sem orðið hafði um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum og kynbundið ofbeldi. Vaxandi gagnrýni hafði komið fram á sum þessara ákvæða en þau þóttu ekki veita þolendum brotanna næga réttarvernd, auk þess sem sumir töldu að hugsanlega leyndust þar enn gömul og úrelt viðhorf í afstöðu til kvenna. Þá þóttu refsiákvarðanir dómstóla vegna brota gegn ákvæðunum of vægar.
    Við samningu frumvarpsins er varð að lögunum var í fyrsta lagi byggt á rannsóknum, bæði á löggjöfinni sjálfri og framkvæmd hennar. Í öðru lagi var byggt á könnun sem gerð var á löggjöf um kynferðisbrot í öðrum löndum. Þá var í þriðja lagi byggt á upplýsingum sem fram koma í ýmsum félagsfræðilegum og afbrotafræðilegum rannsóknum og gögnum auk þess sem reynsla ýmissa aðila sem starfað hafa með þolendum brotanna var höfð til hliðsjónar.
    Enn fremur var leitast við að þær breytingar sem lagðar voru til á ákvæðunum féllu vel að því reglukerfi sem fyrir var í hegningarlögunum. Lögð var áhersla á það að breytingartillögurnar væru byggðar á traustum réttarfarslegum grunni og tekið yrði mið af alþjóðlegri þróun á þessu sviði auk íslenskrar lagahefðar. Einnig var haft að leiðarljósi að auka réttarvernd kvenna og barna, gera ákvæðin nútímalegri og á það lögð áhersla að tryggja svo sem framast væri unnt með löggjöf að friðhelgi, sjálfsákvörðunarréttur, kynfrelsi og athafnafrelsi hvers einstaklings yrði virt.
    Meðal nýmæla laganna er að hugtakið nauðgun var rýmkað þannig að samkvæmt 194. gr. almennra hegningarlaga telst nú til nauðgunar önnur kynferðisnauðung og misnotkun á bágu andlegu ástandi og því að þolandi getur ekki spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans. Breytingin veldur því að umrædd brot varða nú mun þyngri refsingu en áður eða fangelsi frá einu ári og allt að sextán árum, í stað fangelsis allt að sex árum. Enn fremur eru tilgreindar refsiþyngingarástæður í nauðgunarmálum. Í fyrsta lagi skal virða það til refsiþyngingar þegar þolandi er barn yngra en átján ára, í öðru lagi ef ofbeldi geranda er stórfellt og í þriðja lagi ef brot er framið á sérstaklega sársaukafullan eða meiðandi hátt.
    Enn fremur var lögfest ítrekunarheimild vegna kynferðisbrota sem hefur þau áhrif að ítrekunartengsl verða milli allra kynferðisbrota sama geranda. Þannig getur sakfellingardómur fyrir slíkt brot haft áhrif við ákvörðun refsingar fyrir síðar framið kynferðisbrot sama einstaklings. Í ítrekunarheimildinni felst að hafi sá sem sæta skal refsingu fyrir eitthvert kynferðisbrot samkvæmt lögunum verið dæmdur sekur um slíkt brot áður má hækka refsingu hans um allt að helming.
    Kynferðislegur lágmarksaldur var hækkaður í fimmtán ár úr fjórtán árum jafnframt því sem refsing fyrir samræði og önnur kynferðismök við barn yngra en fimmtán ára var þyngd þannig að refsimörkin eru hin sömu og fyrir nauðgun, þ.e. fangelsi frá einu ári og allt að sextán árum. Með því er lögð áhersla á hve alvarleg þessi brot eru þegar þau beinast gegn börnum og teljast þá nauðgun og kynmök við börn yngri en fimmtán ára alvarlegustu kynferðisbrotin í stað nauðgunar einnar áður. Þó er heimild til refsilækkunar eða refsibrottfalls þegar sá sem gerist sekur um samræði eða önnur kynferðismök gagnvart barni yngra en fimmtán ára er sjálfur á svipuðum aldri eða þroskastigi og barnið. Þá var samþykkt að sök vegna brota gegn 194. gr. (nauðgun), 1. mgr. 200. gr. (samræði eða önnur kynmök við barn sitt eða annan niðja) og 1. mgr. 201. gr. (samræði eða önnur kynmök við barn yngra en átján sem hinn brotlegi hefur tiltekin tengsl við) fyrnist ekki þegar brot er framið gegn barni undir átján ára aldri. Varðandi önnur kynferðisbrot var sú breyting samþykkt að upphaf fyrningarfrests brotanna miðast við átján ára aldur brotaþola en ekki fjórtán ár eins og var áður.

vi. Kvennaathvarfið.
    Samtök um kvennaathvarf hafa rekið kvennaathvarf frá árinu 1982 í Reykjavík en markmið þess er að veita konum og börnum þeirra athvarf þegar dvöl í heimahúsum er þeim óbærileg vegna andlegs eða líkamlegs ofbeldis eiginmanns, sambýlismanns eða annarra heimilismanna. Athvarfið er einnig fyrir konur sem hafa orðið fyrir nauðgun. Kvennaathvarfið veitir einnig ráðgjöf og upplýsingar auk þess að stuðla að opinberri umræðu um þann vanda sem heimilisofbeldi er. Tafla 8 sýnir fjölda heimsókna í athvarfið á tímabilinu 2000–2007.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Komum til Kvennaathvarfsins fjölgaði árið 2006 en þá voru skráðar 712 komur sem var mikil aukning frá árinu áður en þá voru skráðar komur 557. Fækkun varð í skráðum komum til athvarfsins 2007 en þá voru skráðar 469 komur í Kvennaathvarfið og 368 í viðtöl. Margar konur koma oftar en einu sinni, einkum þær sem koma í viðtöl en í heildina leituðu 288 konur til athvarfsins árið 2007. Þó tölur um skráðar heimsóknir hafi lækkað milli áranna 2006 og 2007 hefur konum sem dvelja í athvarfinu fjölgað með ári hverju. Enn fremur er meðaldvalartími hverrar konu einnig að lengjast eða frá 14 dögum árið 2006 í 16 daga á árinu 2007. Börnum sem dvöldust í athvarfinu fjölgaði milli ára en árið 2007 dvöldu 68 börn með mæðrum sínum í athvarfinu en árið áður voru þau 57. Hins vegar styttist meðaldvalartími hvers barn um sex daga milli ára og var meðaldvalartími 14 dagar árið 2007 en árið 2006 var hann 20 dagar. Að meðaltali voru fjórar konur og þrjú börn í athvarfinu á dag árið 2007 sem eru sambærilegt og árið 2005.
    Kvennaathvarfið býður jafnframt upp á viðtalsþjónustu og árið 2007 voru tekin 368 viðtöl við 187 konur en að meðaltali kom hver kona í viðtal tvisvar sinnum. Viðtalsþjónusta Kvennaathvarfsins hefur fest sig í sessi, en í stuðningsviðtöl leita konur sem búa við ofbeldi sem og konur sem eru að vinna úr afleiðingum þess að hafa áður verið beittar ofbeldi.
    Sá fjöldi kvenna sem leitar til Kvennaathvarfsins segir ekki til um umfang kynbundins ofbeldis hér á landi heldur frekar hvort konur viti af því úrræði sem athvarfið er og hvort þær séu reiðubúnar til að nýta sér það. Rannsóknir benda til þess að umfang ofbeldisins sé mun meira en fram kemur í tölfræði Kvennaathvarfsins og því er það talið jákvætt að fleiri leiti aðstoðar en færri. Sú fjölgun stuðningsviðtala sem orðið hefur síðustu ár bendir líka til þess að konur leiti fyrr stuðnings Kvennaathvarfsins en áður, þ.e. að konur leiti sér aðstoðar áður en aðstæður þeirra eru orðnar með þeim hætti að þær neyðist til að yfirgefa heimili sitt. Vonandi er aukning komufjölda líka vísbending um að konur hiki síður við að leita sér aðstoðar hjá Kvennaathvarfinu ef þær þurfa á slíkri aðstoð að halda. Auk þess að bjóða upp á stuðningsviðtöl, símaþjónustu og dvöl hefur Kvennaathvarfið boðið upp á sjálfshjálparhópa frá árinu 2004. Fyrsti hópurinn fór af stað á haustdögum 2004 og skipuðu hann átta konur ásamt leiðbeinanda og aðstoðarleiðbeinanda úr hópi starfskvenna Kvennaathvarfsins. Árið 2005 voru starfræktir tveir hópar, í báða hópana voru skráðar sjö konur auk leiðbeinanda.
    Þegar konur koma í Kvennaathvarfið ýmist til dvalar eða í viðtöl eru þær spurðar um ástæður þess að þær leita til athvarfsins. Flestar nefna fleiri en eina ástæðu en þegar líkamlegt ofbeldi er nefnt sem ástæða er andlegt ofbeldi yfirleitt einnig nefnt. Í flestum tilvikum eru konurnar sem snúa sér til athvarfsins einnig að leita eftir stuðningi til að komast í gegnum erfitt tímabil í lífinu. Mjög algengt er að konur leiti til Kvennaathvarfsins vegna andlegs ofbeldis sem verður að telja ekki síður alvarlegt ofbeldi en hið líkamlega. Andlegt ofbeldi getur birst í ógnandi framkomu, fjárhagslegri stjórnun, einangrun og niðurlægingu. Fleiri konur gefa upp andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi sem ástæðu fyrir komu en áður og sömuleiðis koma fleiri út af ofsóknum og hótunum en áður. Þetta vekur nokkrar áhyggjur af því að ofbeldi sé að verða grófara, en gæti líka átt rætur að rekja til aukinnar þekkingar á kynbundnu ofbeldi og hvernig það birtist.

vii. Stígamót.
    Stígamót voru stofnuð 1990 og er sagt á heimasíðu samtakanna að þau séu óformleg grasrótarsamtök og starfshættir allir markist af því. Jafnt konur sem karlar sem beitt hafa verið kynferðislegu ofbeldi eða þekkja til einstaklinga sem hafa verið beittir gam álaráðun eytið kynferðislegu ofbeldi geta leitað til Stígamóta. Veitt eru einstaklingsviðtöl og einnig eru starfandi sjálfshjálparhópar. Samtals hafa 4.776 einstaklingar leitað til Stígamóta frá upphafi; 496 árið 2003, en þar af voru 251 sem leitaði til samtakanna í fyrsta skipti. Árið 2004 leituðu 429 einstaklingar til Stígamóta, þar af voru 228 einstaklingar að leita sér hjálpar í fyrsta skipti. Árið 2005 leituðu 249 einstaklingar af þeim 543 sem komu til Stígamóta það ár sér hjálpar í fyrsta skipti. Árið 2007 leituðu 527 einstaklingar aðstoðar hjá Stígamótum en þar af voru 277 að leitar sér hjálpar í fyrsta skipti. Það kemur fram í tölum frá Stígamótum að sífelld aukning er á fjölda þeirra einstaklinga sem leita til samtakanna. Tafla 9 sýnir skiptingu einstaklinga eftir kyni en miðað er við fjölda fyrstu heimsókna hvert ár.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Margar ástæður liggja að baki því að einstaklingar leita til Stígamóta, svo sem afleiðingar nauðgunar, vændis, sifjaspells sem og kynferðislegrar áreitni. Samtals höfðu 150 einstaklingar samband við Stígamót árið 2005 vegna sifjaspella. Níu einstaklingar höfðu samband við Stígamót vegna vændis og sextán vegna kynferðislegrar áreitni. Árið 2007 höfðu 157 einstaklingar samband við Stígamót vegna sifjaspells, 115 einstaklingar höfðu samband vegna nauðgunar, 59 einstaklingar vegna kynferðislegrar áreitni, ellefu vegna kláms og tólf einstaklingar höfðu samband vegna vændis. Vegna gruns um nauðgun og sifjaspell höfðu samanlagt tólf einstaklingar samband. Ef litið er til aldursdreifingar einstaklinga sem leituðu til Stígamóta árið 2007 kemur fram að í 45,8% tilfella er um einstaklinga á aldrinum 19–29 ára að ræða. Þá kemur fram í ársskýrslu Stígamóta frá árinu 2007 að samkvæmt Þjóðskrá hafa konur á Íslandi verið 153.888 það ár og af þeim leituðu 4.517 konur til Stígamóta eða 2,94% allra kvenna á Íslandi það ár.

viii. Starfsemi Neyðarmóttöku á Landspítala.
    Neyðarmóttaka fyrir þá sem hafa verið beittir kynferðislegu ofbeldi er starfrækt á slysa- og bráðadeild Landspítalans í Fossvogi. Þar er veitt þjónusta hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga og lækna. Enn fremur er starfandi teymi lögfræðinga sem veitir þolendum kynferðislegs ofbeldis lögfræðiaðstoð og aðstoðar þá í samskiptum við lögreglu og dómara. Samtals leituðu 145 einstaklingar til Neyðarmóttökunnar árið 2006, 136 einstaklingar árið 2007 og 118 einstaklingar árið 2008. Mynd 2 sýnir frekari greiningu á þeim málum er Neyðarmóttakan hefur sinnt. Þar kemur meðal annars fram að innan við helmingur mála er kærður til lögreglu. Einnig virðist hafa færst í vöxt að gerendur í einu og sama nauðgunarmálinu séu fleiri en einn.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Samtals hafa 1.563 einstaklingar leitað til Neyðarmóttökunnar frá opnun hennar árið 1993 fram til ársins 2007. Eins og sjá má á mynd 3 er fjölmennasti hópurinn á aldrinum 19–25 ára eða 482 einstaklingar.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.    Eins og sjá má á mynd 4 eru konur í miklum meiri hluta þeirra sem leita til Neyðarmóttökunnar.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


ix. Fjöldi mála vegna brota á ákvæðum 194.–199. gr. almennra hegningarlaga.
    Árið 2007 voru 148 mál skráð í málaskrá lögreglu vegna brota gegn ákvæðum 194.– 199. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Flestar þessara tilkynninga voru vegna brota gegn ákvæðum 194. gr. almennra hegningarlaga um nauðgun. Hafa ber í huga að einungis lítill hluti kynferðisbrota er tilkynntur til lögreglu. Rétt er að taka fram að í málaskrá lögreglu eru færðar upplýsingar um tilkynnt brot og mál þar sem grunur leikur á að brot hafi verið framið. Mál þar sem lögð er fram kæra eru ekki skráð sérstaklega. Málaskráin geymir einnig tölur um mál sem eru óupplýst, til dæmis vegna þess að gerandi hefur ekki fundist.
    Samtals barst 71 mál til embættis ríkissaksóknara árið 2007 en af þeim leiddu 19 til ákæru. Tvö mál voru endursend til meðferðar hjá lögreglu en 50 voru felld niður. Af þeim 19 málum sem leiddu til ákæru var sakfellt í 17 þeirra. Tólf málum var áfrýjað til Hæstaréttar og hefur verið sakfellt í fimm þeirra. Sjö mál bíða enn dóms.

E. Heilbrigðismál.
i. Barneignir á Íslandi.

    Tíðni barneigna eða frjósemi er mæld út frá meðalfjölda barna á hverja konu. Samkvæmt heimildum Hagstofu Íslands var fæðingartíðni íslenskra kvenna árið 1960 rúmlega fjögur börn en um miðjan níunda áratug síðustu aldar var fæðingartíðni komin niður í tæplega tvö börn á ævi hverrar konu. Þrátt fyrir þessa þróun hefur barneignum fjölgað hér á landi síðustu ár. Árið 2003 áttu konur tvö börn og hélst sú fæðingartíðni stöðug fram til ársins 2005 en árið 2006 var fæðingartíðni 2,08 börn á hverja konu og árið 2007 var fæðingartíðnin 2,1 barn á hverja konu. Árið 2006 var sambærilegt hlutfall annars staðar á Norðurlöndunum 1,83–1,9 börn á ævi hverrar konu. Ef borin er saman fæðingartíðni innan Evrópusambandslandanna og EFTA-ríkjanna þá er fæðingartíðnin ein sú hæsta hérlendis samkvæmt upplýsingum frá Eurostat. Talið er að ein af ástæðum þess að frjósemi hérlendis er eins há og raun ber vitni megi að hluta til rekja til laganna um fæðingar- og foreldraorlof sem samþykkt voru á Alþingi árið 2000 en ætla má að lögin hafi bætt fjárhagslega stöðu margra foreldra í fæðingarorlofi.
    Fæðingartíðni hefur lækkað hér á landi í öllum aldurshópum kvenna á barnsburðaraldri en hlutfallslega mest hjá þeim yngstu og elstu samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands. Meðalaldur mæðra hefur hækkað úr 27 árum á tímabilinu 1961–1965 í 29,4 ár á árunum 2001–2007. Enn fremur hefur meðalaldur kvenna sem fæða sitt fyrsta barn hækkað úr 21,7 árum í 26,6 ár árið 2007. Fyrstu tölur um meðalaldur feðra eru frá tímabilinu 1981–1985 en þá var meðalaldurinn 28,8 ár en hefur nú hækkað í 32,2 ár. Einnig hefur meðalaldur feðra við fæðingu fyrsta barns hækkað á tímabilinu úr 25,1 ári í 29,4 ár.

ii. Fóstureyðingar.
    Fóstureyðingar voru almennt leyfðar á Íslandi árið 1975 en fyrir þann tíma höfðu fóstureyðingar einungis verið framkvæmdar í ákveðnum tilvikum, til dæmis ef lífi móður var ógnað. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands voru framkvæmdar 613 fóstureyðingar árið 1982, 987 árið 2000, 900 árið 2002 og 889 árið 2004. Í aldurshópnum 15–34 ára voru 725 konur sem gengust undir fóstureyðingu árið 2004 eða 82% þeirra sem gengust undir fóstureyðingu á árinu. Ef litið er til ársins 2006 kemur í ljós að alls voru framkvæmdar 904 fóstureyðingar á árinu en líkt og árið 2004 voru fóstureyðingar algengastar meðal kvenna í aldurshópnum 15–34 ára, eða 758 konur sem nemur tæpum 84% þeirra sem gengust undir fóstureyðingu á árinu. Í aldurshópnum 15 ára og yngri hafa tíu eða færri fóstureyðingar verið framkvæmdar á ári síðan árið 1999. Árið 2005 voru tvær fóstureyðingar framkvæmdar í aldurshópnum 15 ára og yngri en árið 2006 voru framkvæmdar tíu fóstureyðingar í þessum aldurshópi kvenna.

iii. Lífsvenjur og heilsa.
    Lífsvenjur fólks, svo sem matarræði, hreyfing, reykingar og neysla áfengis, hafa áhrif á heilsufar fólks. Matarvenjur kynjanna er ólíkar og endurspeglast meðal annars í tölum um fólk yfir kjörþyngd. Í manneldiskönnun frá árunum 1990 og 2002 kemur fram að hlutfall kvenna yfir kjörþyngd hækkaði úr 34% í 39% en karla úr 39% í 57%. Samkvæmt tölum Hagstofu hafa reykingar minnkað undanfarin ár og hefur munur milli reykinga karla og kvenna einnig minnkað. Árið 1987 reykti 31% kvenna á móti 36% karla en árið 2007 reyktu 18,2% kvenna og 20,7% karla. Reykingar virðast því vera á undanhaldi hjá þjóðinni.
    Þegar skoðaðar eru tölur frá Hagstofu Íslands yfir skráð tilfelli kynsjúkdóma árið 2007 kemur fram að konur eru í meiri hluta þegar kemur að skráðum tilfellum með klamydíu árið 2007 eða 59,5%, karlar eru skráðir í 37% tilfella en 3,5 % tilfella eru ókyngreind. Hins vegar eru karlar í meiri hluta þeirra sem greindust með kynsjúkdóminn lekanda árið 2007 eða 71% á móti fimm konum eða 24% en eitt tilfelli var ókyngreint sem svarar til 5%.
    Í febrúar 2006 var könnunin Heilsa og lífskjör skólanema lögð fyrir hér á landi á vegum Lýðheilsustöðvar en könnunin var alþjóðleg og tóku 40 lönd þátt í henni. Könnunin er gerð á fjögurra ára fresti og hefur hún verið framkvæmd síðan 1983, en Ísland tók þátt í fyrsta sinn árið 2006. Niðurstöður könnunarinnar sýna að rétt yfir 30% nemenda af báðum kynjum í sjötta bekk grunnskóla töldu sig þurfa að léttast þegar spurt var hvort þeir teldu þyngd sína í lagi eða hvort þeir þyrftu að léttast eða þyngjast. Þá töldu 9% drengja sig þurfa að þyngjast og 7% stúlkna áleit hið sama. Hlutföllin breytast hins vegar þegar sama spurning er borin upp fyrir nemendur í áttunda bekk grunnskóla þar sem 32% drengja töldu sig þurfa að léttast en 14% þeirra töldu sig þurfa að þyngjast. Þegar litið er á stúlkur kemur fram að 51% þeirra taldi sig þurfa að léttast og 8% töldu sig þurfa að þyngjast. Þegar sama spurning var borin upp í tíunda bekk grunnskóla kemur fram að 26% drengja töldu sig þurfa að léttast og 19% töldu sig þurfa að þyngjast. Hjá stúlkum kemur fram að 57% þeirra töldu sig þurfa að léttast en 6% töldu sig þurfa að þyngjast. Um 61% nemenda í sjötta bekk var hins vegar ánægt með þyngd sína og um 53% nemenda í áttunda bekk og 46% í tíunda bekk. Líkamsmynd stúlkna virðist því versna með aldrinum og voru hlutfallslega fleiri stúlkur sem töldu sig þurfa að léttast eftir því sem þær urðu eldri.
    Í könnuninni var jafnframt spurt um daglega hreyfingu utan skólatíma. Niðurstöðurnar benda til að stúlkur hreyfi sig minna en drengir í efri bekkjum grunnskóla. Í sjötta bekk svöruðu 30% drengja á þá leið að þeir hreyfðu sig daglega utan skólatíma en 22% stúlkna. Í áttunda bekk hreyfðu 24% drengja sig daglega en 13% stúlkna og í tíunda bekk hreyfðu 19% drengja sig daglega en 10% stúlkna.
    Enn fremur voru nemendur spurðir um líðan sína í skólanum. Kom þá fram að 74% drengja í sjötta bekk leið vel í skólanum og 81% stúlkna. Í áttunda bekk leið 74% drengja vel í skólanum en 80% stúlkna og í tíunda bekk leið 77% drengja vel í skólanum en 78% stúlkna. Niðurstöðurnar sýna að ekki er mikil breyting milli ára á líðan nemenda í skólum enda þótt hlutfallslega fleiri drengjum sem og stúlkum líður vel í skólanum í tíunda bekk.
    Nokkur munur er milli drengja og stúlkna þegar kemur að tölvuleikjanotkun en minni munur er milli kynjanna í tengslum við áhorf á sjónvarp og notkun tölva til annarra nota en tölvuleikja. Þannig sögðust 16% drengja horfa á sjónvarpið í fjórar klukkustundir eða meira á dag en 11% stúlkna. Þá sögðust 16% drengja spila tölvuleiki í meira en fjórar klukkustundir á dag en einungis 2% stúlkna. Þegar kemur að annarri notkun á tölvu en til tölvuleikja, svo sem notkun Netsins, spjallrása og tölvupósta, kemur fram að 15% drengja sögðust eyða meira en fjórum klukkustundum á dag fyrir framan tölvuna í fyrrgreindum tilgangi en 11% stúlkna. Þegar litið er yfir heildina þá eyða 58% drengja og 43% stúlkna fjórum tímum eða meira á dag fyrir framan sjónvarps- eða tölvuskjá.
    Þegar unglingarnir voru spurðir hvenær þeir hefðu fyrst haft samfarir kemur í ljós að hlutfall þeirra sem sögðust hafa haft samfarir eykst úr 6–7% við 13 ára aldur í 16–20% við 14 ára aldur og 28–36% við 15 ára aldur. Hlutfall þeirra sem hafa haft samfarir fimmfaldast því á tveimur árum. Þá höfðu 36% stúlkna haft samfarir þegar þær voru 15 ára og eldri en 28% drengja.
    Lýðheilsustöð hefur einnig unnið könnun á mati á eigin heilsu þar sem kynin eru borin saman. Samkvæmt óbirtum niðurstöðum úr könnuninni Heilsa og líðan Íslendinga 2007 kemur meðal annars fram að konur eru líklegri en karlar til að segja að þungar áhyggjur, kvíði og depurð hafi truflað daglegt líf þeirra síðustu tólf mánuði.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Samkvæmt könnuninni er að meðaltali lítill munur á holdafari karla og kvenna. Meðaltal líkamsþyngdarstuðuls, ( BMI) var 26,4 hjá konum og 26,9 hjá körlum, en konur voru almennt ósáttari við eigin líkamsþyngd en karlar. Um helmingur kvennanna var frekar eða mjög ósáttur við eigin líkamsþyngd og rúmlega þriðjungur karla eða 35%. Tæplega helmingur kvenna eða 46% og 37,8% karla töldu sig þurfa að léttast um sex kíló eða meira. Í könnuninni kom í ljós að um 30% kvenna og 20% karla töldu eigið heilsufar eða skerta athafnagetu há sér nokkuð eða mjög við að ganga upp nokkrar hæðir í húsi. Karlar eru líklegri en konur til að meta eigið líkamlegt þol (úthald) meira en hjá jafnöldrum af sama kyni. Þannig töldu 36% karla úthald sitt meira en jafnaldra sinna á móti 25% kvenna.

F. Forsjá barna við skilnað foreldra.
    Árið 2006 samþykkti Alþingi breytingar á barnalögum, nr. 76/2003, með lögum nr. 69/2006, um breyting á nokkrum lögum á sviði sifjaréttar, þess efnis að við skilnað og slit sambúðar sem skráð hefði verið í Þjóðskrá skyldi forsjá foreldra verða sameiginleg nema foreldrar semji svo um að forsjáin skuli vera í höndum annars hvors þeirra. Fyrir breytinguna var meginreglan sú að forsjá barna skyldi skipuð við fyrrnefndar aðstæður. Foreldrar gátu þó samið svo um að forsjá barns þeirra yrði sameiginleg eða í höndum annars hvors þeirra.
    Í nefndaráliti allsherjarnefndar Alþingis sem fjallaði um frumvarpið til laganna kom meðal annars fram að foreldrar fari sameiginlega með forsjá barna sinna í hjúskap og sambúð og beri því ríkar skyldur gagnvart þeim. Í frumvarpinu væri lögð áhersla á það sjónarmið að við skilnað eða slit skráðrar sambúðar beri foreldrar enn sameiginlega ábyrgð á börnum sínum og að börnin eigi rétt á umönnun foreldranna eftir sem áður. Þá gildi það meginsjónarmið í barnarétti að við úrlausn allra mála sem varða börn skuli hagsmunir þeirra vera í fyrirrúmi. Enn fremur kemur fram í fyrrnefndu nefndaráliti að möguleikinn á sameiginlegri forsjá hafi verið tekinn upp í barnalög árið 1992 með þeim rökum að sameiginleg forsjá gæti stuðlað að friðsamlegri skilnaði en ella og verið til þess fallin að stuðla að betri samskiptum barns við báða foreldra þrátt fyrir sambandsslit þeirra. Grundvöllur sameiginlegrar forsjár hafi þó verið sátt milli foreldra um slíka skipan mála.
    Þá kemur fram að allsherjarnefnd telji að sameiginleg forsjá sé eðlilegt framhald þeirrar stefnu sem komi meðal annars fram í lögum um fæðingar- og foreldraorlof þess efnis að umönnun barna sé samvinnuverkefni foreldra og að þeir beri saman þær ríku skyldur og þá ábyrgð sem þeirri umönnun fylgir. Jafnframt kemur fram í áliti allsherjarnefndar að sams konar meginregla um sameiginlega forsjá við sambandsslit foreldra gildi annars staðar á Norðurlöndunum þar sem foreldrar í hjúskap fari sameiginlega með forsjá barns síns meðan hjúskapur varir og einnig eftir skilnað nema annað sé ákveðið. Þannig sé forsjá sameiginleg eftir skilnað nema foreldrar aðhafist sérstaklega í því skyni að fá henni breytt.
    Þegar tölulegar upplýsingar um sameiginlega forsjá við lögskilnað foreldra frá Hagstofu Íslands eru skoðaðar virðist sem ekki hafi orðið miklar breytingar á fjölda tilvika þar sem um sameiginlega forsjá var að ræða eftir skilnað foreldra í kjölfar lagabreytinganna frá árinu 2006. Þannig var um sameiginlega forsjá að ræða í 60,7% tilvika árið 2004 og 72,8% tilvika árið 2005. Fyrrnefnd lög tóku gildi 13. júní 2006 en sameiginleg forsjá var í 72,8% tilvika árið 2006. Þá var um sameiginlega forsjá að ræða í 75,8% tilvika árið 2007.
    Með fyrrnefndum lögum nr. 69/2006 var barnalögum enn fremur breytt hvað varðar þvingunarúrræði þegar umgengni er tálmuð. Lutu breytingarnar að því að gera stjórnvöldum kleift að ákveða að umgengni sem er tálmuð af forsjárforeldri skuli þvinguð fram þrátt fyrir að umgengnismáli hafi verið skotið til dómsmálaráðuneytis til endurskoðunar eða dómi héraðsdóms áfrýjað til Hæstaréttar en slíkt hafði ekki verið unnt fram að því. Í fyrrnefndu áliti allsherjarnefndar kemur fram að nefndin fagni sérstaklega þessum breytingum og telji að þegar litið sé til hagsmuna barns og réttar þess til umgengni við báða foreldra sína sé mikilvægt að unnt sé að úrskurða um umgengni fljótt og örugglega þar sem málsmeðferðartími umgengnismála geti verið langur. Þá er þess getið að breytingin sé í samræmi við það meginsjónarmið að það séu hagsmunir barnsins sem eigi að vera í fyrirrúmi við úrlausn mála þrátt fyrir sambandsslit foreldra.
    Ætla má að þessar breytingar sem þarna voru gerðar á barnalögum hvað varðar þvingunarúrræði þegar umgengni er tálmuð hafi bætt réttarstöðu forsjárlausra feðra þar sem tölur sýna að í þeim tilvikum þar sem foreldrar hafa ekki sameiginlega forsjá hefur forsjáin í miklum meiri hluta komið í hlut mæðra. Þannig fengu 648 mæður forsjá barns/barna við lögskilnað á árunum 2004–2007 á móti 60 feðrum.

G. Menntamál, fjölmiðlar og rannsóknir í kynjafræðum.
i. Menntamál.
    Tölur um fjölda barna í leikskólum eftir aldri hafa verið teknar saman frá árinu 1981 og á þeim tíma hefur mikil breyting átt sér stað. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands voru 9% barna á aldrinum 0–2 ára á leikskólum árið 1981 en 39% árið 2004. Í aldurshópnum 3–5 ára hefur hlutfallið aukist úr 52% í 94% árið 2006. Miklar breytingar hafa því orðið í dagvistarmálum á Íslandi á þessu tímabili. Gott framboð dagvistarúrræða fyrir foreldra er eitt af lykilatriðum þegar kemur að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og fjárhagslegu sjálfstæði.
    Kynjaskipting nemenda í framhaldsskólum hefur verið svo til jöfn frá árinu 1975. Samkvæmt heimildum Hagstofu fyrir árið 1975 var 51% nemenda karlar en 49% konur, árið 2004 var hlutfallið hins vegar öfugt. Skólaárið 2003–2004 voru 63% nýstúdenta konur. Ef litið er á brottfall framhaldsskólanema þá kemur fram að 20% karla falla frá framhaldskólanámi en 18,5% kvenna.
    Á háskólastigi hafa einnig átt sér stað verulegar breytingar á síðustu áratugum samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands. Hlutfall kvenna sem fara í háskólanám hefur aukist töluvert eða úr 48% nemenda árið 1975 í 63% árið 2004. Hlutur kvenna í hópi brautskráðra á háskólastigi var 24% árið 1975 en var komið í 50% árið 1985. Skólaárið 1995–1996 voru konur komnar í meiri hluta brautskráðra, eða 59%, og skólaárið 2003– 2004 voru þær 64%. Á skólaárinu 2006–2007 kemur fram að af útskrifuðum nemendum með fyrstu prófgráðu voru konur í töluverðum meiri hluta eða 67% og karlar 33%. Ef litið er til framhaldsnáms í háskólum á árinu 2006–2007 kemur fram að alls luku 377 konur meistaraprófi eða sem svarar 61% af heildarfjölda útskrifaðra. Þegar litið er til einstaklinga sem útskrifuðust með doktorspróf skólaárið 2006–2007 kemur fram að alls útskrifuðust tíu einstaklingar með doktorsgráðu samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands, sex konur og fjórir karlar.

ii Konur í vísindum.
    Menntamálaráðuneytið skipaði landsnefnd um konur og vísindi á haustmánuðum 2004 til fjögurra ára. Landsnefndin hefur það hlutverk að fylgja eftir störfum nefndar á vegum Evrópusambandsins um konur í vísindum ( Helsinki Group on Women and Science) sem hefur það markmið að vinna að aukinni þátttöku kvenna í vísindum í Evrópusambandslöndunum og vera til ráðgjafar um stöðu kvenna í rannsókna- og vísindastarfi. Nefndarstarfið hefur meðal annars falið í sér söfnun nýrra tölfræðilegra upplýsinga um þátttöku kvenna í vísindastörfum á Íslandi, sambærilegra við þær sem fyrri landsnefnd safnaði og birt var í skýrslunni Konur í vísindum á Íslandi sem menntamálaráðuneytið gaf út árið 2002, ásamt því að leggja mat á þróun mála á tímabilinu. Landsnefndin hefur unnið drög að skýrslu til ráðuneytisins þar sem greindar eru niðurstöður þeirra tölfræðilegra gagna sem safnað hefur verið ásamt tillögum um aðgerðir til aukinnar þátttöku kvenna í vísindum, hvað varðar námsval og framgang í starfi. Skipunartími landsnefndarinnar er útrunnin en ráðuneytið stefnir að því að endurskipað verði í nefndina.

iii. Kynin í fjölmiðlum.
    Fleiri karlar en konur eru félagar annars vegar í Blaðamannafélagi Íslands og hins vegar í Félagi fréttamanna. Konum hefur þó fjölgað í báðum þessum félögum frá árinu 2001. Í Blaðamannafélagi Íslands voru 157 konur árið 2001 eða 34,6% félagsmanna en árið 2007 voru þær 215 eða 35,9%. Körlum fjölgaði einnig sem félagsmönnum í Blaðamannafélagi Íslands á þessu tímabili úr 297 í 384. Árið 2001 voru 15 konur félagar í Félagi fréttamanna eða 25,4% félagsmanna en árið 2007 voru þær orðnar 27 eða 36%. Körlum fjölgaði einungis um fjóra á móti tólf konum á þessu tímabili í Félagi fréttamanna.
    Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands kemur fram að nokkuð hallar á
hlut kvenna í stöðum ritstjóra, ritstjórnarfulltrúa og fréttastjóra dagablaða á árunum
2003–2006. Eins og sjá má á töflu 11 voru á tímabilinu engar konur starfandi sem
ritstjórar dagblaðanna. Á árunum 2003 og 2004 gegndi engin kona stöðu fréttastjóra hjá
dagblöðunum en á árinu 2006 voru jafn margar konur og karlar fréttastjórar.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Ef litið er til upplýsinga Hagstofu Íslands varðandi stjórnendur Ríkisútvarpsins kemur fram að árið 2006 gegndu fjórar konur stjórnendastöðu hjá Ríkisútvarpinu en fimm karlar. Þá ber þess að geta að í 3. gr. samnings um útvarpsþjónustu milli menntamálaráðuneytis og Ríkisútvarpsins ohf. frá því 23. mars 2007 er kveðið á um að Ríkisútvarpið skuli gæta jafnræðis milli kynja í fréttaumfjöllun, almennu dagskrárefni og í umfjöllun um íþróttir og íþróttaviðburði eftir því sem kostur er.

iv. Rannsóknir.
1. Hagskýrslugerð hjá Hagstofu Íslands.

    Samkvæmt 16. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, skal í opinberri hagskýrslugerð um einstaklinga og í viðtals- og skoðanakönnunum greint milli kynja við söfnun gagna, úrvinnslu þeirra og birtingu upplýsinga nema sérstakar ástæður, svo sem persónuverndarhagsmunir, mæli gegn því. Í starfi Hagstofu Íslands er þess ávallt gætt að farið sé eftir ákvæði þessu þannig að greint sé milli kynja við söfnun gagna, úrvinnslu og birtingu niðurstaðna, þegar því verður við komið, nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Einnig hefur Hagstofan gefið út Hagtíðindi sérstaklega með tölum um karla og konur.
    Félags- og tryggingamálaráðuneytið gaf út á árunum 2007 og 2008 í samvinnu við Jafnréttisstofu og Hagstofu Íslands upplýsingabækling undir heitinu Konur og karlar á Íslandi. Í bæklingnum er samantekt á helstu tölum um hlutfall kynjanna í ýmsum málaflokkum, svo sem upplýsingar um mannfjölda, fjölskyldugerð, töku fæðingarorlofs og stöðu kynjanna á vinnumarkaði sem og í menntakerfinu. Bæklingurinn var einnig gefinn út á ensku.

2. Jafnréttissjóður.
    Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum 21. október 2005 tillögu forsætisráðherra um að komið yrði á fót sérstökum rannsóknasjóði, jafnréttissjóði, í tilefni af kvennafrídeginum 24. október 2005. Tilgangur sjóðsins er að efla kynjarannsóknir og tryggja að hér á landi verði unnar vandaðar rannsóknir á þessu sviði. Slíkar rannsóknir eru til þess fallnar að stuðla að bættri stöðu kvenna og karla og framgangi jafnréttis. Styrkir jafnréttissjóðs eru að meginstefnu veittir til rannsókna á stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði en einnig á öðrum sviðum samfélagsins samkvæmt nánari fyrirmælum í reglum um úthlutun styrkja jafnréttissjóðs og starfsreglum stjórnar sjóðsins. Ríkissjóður leggur sjóðnum til 10 milljónir króna fyrir hvert starfsár samkvæmt sérstökum lið á fjárlögum. Þann 30. júní 2006 skipaði forsætisráðherra stjórn jafnréttissjóðs til fjögurra ára samkvæmt tilnefningum félagsmálaráðherra og menntamálaráðherra. Úthlutað er úr sjóðnum ár hvert þann 24. október, og við það tilefni eru haldnar ráðstefnur þar sem rannsakendur sem hlutu styrki árið áður halda erindi um verkefni sín.
    Árið 2006 var úthlutað í fyrsta sinn úr sjóðnum en þá bárust nítján umsóknir og var fimm verkefnum veittur styrkur. Þau sem fengu styrk voru eftirfarandi:
          Haukur Freyr Gylfason fyrir verkefnið Félagsleg áhrif launavæntingar kynjanna. Í verkefninu var leitast við að svara spurningum eins og hvort karlar og konur geri mismunandi kröfur um laun fyrir sömu störf. Lagt var upp með að annars vegar kynjabundinn munur á væntingum til launa fyrir ákveðið starf yrði skoðaður og hins vegar áhrif félagslegs samanburðar á launakröfum kynjanna.
          Agnes Sigtryggsdóttir fyrir verkefni Kynbundið starfsval og gildi – samband launa, viðurkenningar og verðleiki. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvað orsakar kynjamisræmið á vinnumarkaðnum. Samantekt var gerð á stöðu kynjanna sem og laun og kjör skoðuð út frá kenningum um sambærileg gildi. Leitast var við að greina hvernig kynbundið gildismat og viðurkenningarmynstur mótar afstöðu til starfa út frá hugmyndum um kynbundna hlutverkaskiptingu og hvernig framlag kynjanna sé metið að verðleikum.
          Auður Arna Arnardóttir fyrir verkefnið Reynsla af fæðingarorlofi og samspili vinnu og einkalífs frá sjónarhóli feðra og maka þeirra. Í verkefninu átti að kanna hvort lögin um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, væru að ná markmiði sínu þannig að körlum og konum sé gert kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Könnuð voru ýmis atriði tengd feðraorlofi íslenskra karlmanna með það fyrir augum að bæta þekkingu, upplifun og reynslu fjölskyldna af feðraorlofinu.
          Þorlákur Karlsson fyrir verkefnið Óútskýrður launamunur kynjanna. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna viðhorf fólks til „sanngjarnra“ launa. Kannað var viðhorf stjórnenda og starfsmanna til þess sem teljast megi sanngjörn laun og athuga hversu kynbundið viðhorfið sé. Enn fremur voru lagðar starfslýsingar fyrir fólk þar sem það var beðið að meta hversu há laun væri sanngjarnt að greiða fyrir eða biðja um fyrir viðkomandi störf. Þátttakendum var skipt í tvo hópa og eini munurinn á starfslýsingunni var kynferði.
          Guðný Björk Eydal fyrir verkefnið Umönnun og atvinnuþátttaka foreldra barna þriggja ára og yngri – hvaða áhrif hafa lög um fæðingar- og foreldraorlof haft? Í verkefninu var ætlunin að meta áhrif hinna nýju laga um fæðingar- og foreldraorlof með því að bera saman hvernig foreldrar ungra barna hafi hagað atvinnuþátttöku og umönnun barna annars vegar áður en lögin tóku gildi og hins vegar eftir að þau tóku að fullu gildi árið 2003. Með þessu var verið að afla þekkingar á því hvernig íslenskir foreldrar höguðu atvinnuþátttöku og deildu með sér ábyrgð á umönnun barna sinna eftir gildistöku laganna.
    Árið 2007 var úthlutað í annað sinn úr sjóðnum en þá bárust þrettán umsóknir og var fimm verkefnum veittur styrkur. Eftirfarandi verkefni fengu styrk:
          Indriði H. Indriðason fyrir verkefnið Fjöldi kvenna á þingi – framboð eða eftirspurn. Rannsóknin fól í sér að skýra árangur kvenna í prófkjörum stjórnmálaflokkanna að teknu tilliti til reynslu, flokkastarfs, aldurs, menntunar, fjölda kvenna og karla í framboði auk annarra hugsanlegra breyta. Markmið rannsóknarinnar var að leggja mat á þær skýringar sem liggja til grundvallar ástæðum þess hvað valdi litlum hlut kvenna á Alþingi.
          Þorgerður H. Þorvaldsdóttir og Þorgerður Einarsdóttir fyrir verkefnið Jafnréttisumræða á tímamótum – kyn og margbreytileiki. Markmið rannsóknarinnar var að fá heildstæða þekkingu á íslenskri jafnréttisumræðu. Skoðað var hvernig femínískar kenningar um samspil mismununarbreyta geti nýst til þess að sætta ólíkar áherslur í jafnréttisstarfi. Markmiðið var að þróa jafnréttishugtak þar sem margbreytileikinn skyldi hafður að leiðarljósi án þess að áherslan á kynjajafnrétti væri gefin upp á bátinn.
          Stefán Ólafsson fyrir verkefnið Vinna foreldra á heimili og vinnumarkaði – alþjóðlegur samanburður. Meta átti í rannsókninni heildarvinnuframlag foreldra, samanlagt á vinnumarkaði og við heimilisstörf, hvernig vinnuframlagið skiptist milli kynjanna og hvernig það væri háð fjölda barna á heimilinu. Með þessu fengist heilstæð mynd af vinnumagni fjölskyldna, karla og kvenna aðskilið og sameiginlega.
          Helgi Tómasson fyrir verkefnið Mat á tölfræðilíkönum með vinnumarkaðskönnunum – þýðing ómældra breyta. Markmið rannsóknarinnar var að safna með rafrænum hætti gögnum um laun, vinnutíma, starf, kyn, aldur og ýmsar fleiri breytur. Þetta var gert til að unnt væri að álykta um þýðingu þessara breyta fyrir launamyndun þar sem nauðsynlegt væri að raunhæft tölfræðilegt líkan sé metið. Svo unnt sé að meta þýðingu ómældra breyta er nauðsynlegt að fyrir hendi séu endurteknar mælingar á sama einstaklingi á mörgum tímabilum.
          Vífill Karlsson og Gylfi Magnússon fyrir verkefnið Staðbundið samfélagslegt mikilvægi jafnrar kynjaskiptingar. Markmið verkefnisins var að skoða samband milli kynjahalla og húsnæðisverðs og hvort þetta samband endurspegli félagslegt mikilvægi kvenna. Þar sem eftirspurn neytenda mótast af forgangsröðun þeirra í heimi takmarkaðra gæða, endurspeglar landfræðilegur breytileiki fasteignaverðs virði staðsetningar til búsetu.
    Árið 2008 var í þriðja sinn úthlutað úr jafnréttissjóðnum en alls bárust tíu umsóknir og var fimm verkefnum veittur styrkur. Eftirfarandi verkefni fengu styrk:
          Kári Kristinsson fyrir verkefnið Ýgi og launamunur: Áhrif persónuleikaþáttarins ýgi á launamun karla og kvenna. Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvort ýgi hafi áhrif á launamun og þær kröfur sem einstaklingar gera meðal annars í launasamtölum. Ýgi er einn þeirra fáu persónuleikaþátta sem greinir kynin að. Kannað verður hvort ýgi hafi áhrif á launakröfur og væntingar þátttakenda. Tilgangur með rannsókninni er að varpa frekara ljósi á óútskýrðan launamun kynjanna.
          Erla Dóris Halldórsdóttir fyrir verkefnið Ljósfeður, læknar og kyngervi í íslensku heilbrigðiskerfi á árunum 1760–1933. Markmið verkefnisins er að útskýra samfélagslegt hlutverk þeirra karla á Íslandi sem tóku á móti börnum hér á landi. Skoðuð verður aðkoma karla að barnsfæðingum á tímabilinu 1760–1933 en samkvæmt fornri hefð, hér á landi og erlendis, þá var stétt ljósmæðra eingöngu skipuð konum en læknar eingöngu karlar. Hins vegar sker Ísland sig úr að því leyti að karlmaður tók ljósmæðrapróf árið 1776.
          Gyða Margrét Pétursdóttir fyrir verkefnið Vinnumenning, kynjatengsl og fjölskylduábyrgð. Rannsóknin beinir sjónum að þeim öflum sem hafa áhrif á þau úrræði sem eru á vinnumarkaði til að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Verkefnið felst í umfangsmikilli rannsókn á vinnumenningu, kynjatengslum og fjölskylduábyrgð. Sjónum er beint að fjölskyldu- og jafnréttisstefnu fyrirtækja í ljósi breytinga á vinnumarkaði.
          Anna Guðrún Edvardsdóttir fyrir verkefnið Háskólamenntun og byggðaþróun. Tilgangur rannsóknarinnar er að auka þekkingu á þróun háskólanáms og skoða tengsl háskólamenntunar og byggðaþróunar. Reynt verður að kortleggja þá þætti sem hafa haft áhrif á orðræðuna, þ.e. á menntunarlega, samfélagslega og pólitíska orðræðu, og hvaða þættir hafa haft áhrif á byggðaþróun. Þáttur kvenna og staða þeirra er sérstaklega skoðuð í þessu samhengi.
          Ásta Dís Óladóttir fyrir verkefnið Kynjahlutfall í stjórnum og æðstu stjórnendastöðum. Markmið rannsóknarinnar er að fá skýra mynd af þeirri fylgni sem kann að vera milli afkomu fyrirtækja og kynjahlutfalla meðal stjórnarmanna og æðstu stjórnenda. Könnuð verður fylgni milli kynjahlutfalla og arðsemi eigin fjár annars vegar og kynjahlutfalla og aukningar rekstrarhagnaðar hins vegar.

H. Erlent samstarf á sviði jafnréttismála.
i. Sameinuðu þjóðirnar.
1. Kvennanefndin.
    Kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna ( Commission on the Status of Women) var sett á fót árið 1946 sem ein af undirnefndum efnahags- og félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC). Nefndinni var fengið það verkefni að útbúa tilmæli og skýrslur til efnahagsog félagsmálaráðs Sameinuðu þjóðanna um eflingu borgaralegra, stjórnmálalegra, efnahagslegra og félagslegra réttinda kvenna. Meginmarkmið nefndarinnar hefur verið að jafna rétt kynjanna. Eftir fjórðu kvennaráðstefnuna sem haldin var í Peking árið 1995 veitti allsherjarþingið nefndinni umboð til að takast á hendur eftirfylgni við yfirlýsingu og framkvæmdaáætlun Peking-ráðstefnunnar. Viðamikil endurskoðun fór fram í tengslum við fimm ára afmæli Peking-ráðstefnunnar á 23. aukaallsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 2000 þar sem samþykkt voru frekari markmið hvað varðar jafnrétti kynjanna.
    Ísland var kosið í fyrsta skipti í kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna vorið 2004 og tók formlega sæti í nefndinni árið 2005. Með 52. fundi kvennanefndarinnar árið 2008 lauk því fjögurra ára setu Íslands í nefndinni. Fulltrúar 45 ríkja sitja í nefndinni sem kosnir eru eftir ákveðnu skipulagi þar sem landfræðilegrar dreifingar er gætt en hvert kjörtímabil stendur yfir fjögur ár. Norðurlöndin hafa gert með sér óformlegt samkomulag um að eitt þeirra eigi ávallt sæti í nefndinni og var það Svíþjóð sem tók við keflinu af Íslandi. Seta Íslands í nefndinni var samstarfsverkefni félags- og tryggingamálaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins. Áhersla er lögð á samstarf við frjáls félagasamtök, þ.e. UNIFEM, Kvenréttindafélag Íslands og Stígamót, en fulltrúar þeirra hafa átt sæti í sendinefnd Íslands á fundum kvennanefndarinnar og innt af hendi mikilvægt framlag til starfsins. Staða jafnréttismála á Íslandi og á öðrum Norðurlöndum hefur vakið athygli og hlotið jákvæða umfjöllun innan nefndarinnar. Finna má upplýsingar um störf nefndarinnar og niðurstöður á heimasíðu hennar ( www. un.org/womenwatch/daw/csw).
    Meginumfjöllunarefni 50. fundar kvennanefndarinnar árið 2006 var tvíþætt. Annars vegar konur og þróunarsamvinna ( Enhanced participation of women in development: an enabling environment for achieving gender equality and the advancement of women, taking into account, inter alia, the fields of education, health and work) og hins vegar leiðir til að jafna þátttöku kvenna og karla í ákvarðanatöku (Equal participation of women and men in decision-making processes at all levels). Einnig var sérstaklega fjallað um hvernig bæta mætti starfshætti og framtíðarskipulag funda nefndarinnar (Future Organization and Working Methods of the Commission on the Status of Women) í því skyni að gera störf hennar skilvirkari. Fjölmargar áhugaverðar málstofur voru haldnar samhliða fundi kvennanefndarinnar. Má þar sérstaklega nefna norrænu málstofuna Nordic Women in Politics, en allir norrænu ráðherrarnir sem fara með jafnréttismál tóku þátt í málstofunni.
    Á 51. fundi kvennanefndarinnar árið 2007 var mismunun og ofbeldi gegn stúlkubarninu sérstaklega til umræðu en einnig átti sér stað almenn umræða um stöðu jafnréttismála. Til grundvallar umræðunni var ný skýrsla aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna ( E/CN.6/2007/2) auk sérstakrar skýrslu sérfræðingahóps Sameinuðu þjóðanna um stúlkubarnið ( EGM/Girl Child 2006/report). Mikið vantar upp á að mörg aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna hafi í reynd innleitt ákvæði samninga sem ætlað er að vernda réttindi barna og margs háttar ofbeldi gagnvart stúlkubörnum er víða landlægt. Í framangreindum skýrslum er meðal annars vísað til þess hve „ósýnilegt“ stúlkubarnið er þegar fjallað er um ofbeldi gegn börnum og skýrslugjöf ríkja þar að lútandi. Skaðlegar hefðir eins og umskurður stúlkubarna séu ennþá alvarlegt vandamál sem ekki hefur tekist að vinna bug á. Konur og stúlkubörn eru í miklum meiri hluta fórnarlamba mansals og kynlífsþrælkunar sem fer mjög vaxandi að mati Sameinuðu þjóðanna og er hluti alþjóðlegrar glæpastarfsemi.
    Íslensk stjórnvöld og frjáls félagasamtök stóðu fyrir íslenskum hliðarviðburði í aðalbyggingu Sameinuðu þjóðanna í tengslum við fund kvennanefndarinnar þar sem fjallað var um þær leiðir sem farnar hafa verið á Íslandi í því skyni að ná fram jafnrétti kynjanna. Einnig var haldinn sérstakur norrænn hliðarviðburður þar sem fjallað var um feðraorlof á Íslandi, í Noregi og Danmörku, undir titlinum The Nordic Father: Role Model for a Caring Male?
    Meginþema 52. fundar kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna var fjármögnun jafnréttisbaráttunnar og valdefling kvenna. Í ályktun fundarins var lögð áhersla á að ríki og stofnanir Sameinuðu þjóðanna tryggi að fjármunum verði veitt til jafnréttisbaráttunnar. Hvatt var til þess að áætlanir verði gerðar um að útrýma fátækt með fullri þátttöku kvenna og að kynjasjónarmið verði tekin með í mótun stefnu í efnahagsmálum sem og öðrum áætlunum stjórnvalda, meðal annars á vettvangi umhverfismála í tengslum við loftslagsbreytingar. Var einnig hvatt til þess að upplýsingum um jafnrétti kynjanna verði safnað og þær greindar. Enn fremur var áhersla lögð á að þróunarsamvinna beinist að því að efla stöðu kvenna og stúlkna sem og að alþjóðlegar fjármálastofnanir taki tillit til kynjasjónarmiða í lánveitingum og þátttöku í verkefnum. Þá voru ríki hvött til að meta landslög út frá jafnrétti kynjanna, tryggja að mismunun kvenna í atvinnulífinu verði upprætt, marka sér stefnu um eflingu kvenna í frumkvöðlastarfi og gera nauðsynlegar breytingar til að konur hafi jafnan aðgang og karlar að efnahagslegum verðmætum, til dæmis landareignum. Síðast en ekki síst voru ríki hvött til að efla menntun, heilbrigði og félagslega þjónustu við konur og mikilvægi þess að konur taki fullan þátt í friðarferlum undirstrikað.
    Í tengslum við fundinn stóðu Norðurlöndin og Norræna ráðherranefndin sameiginlega fyrir málstofu þar sem fjallað var um aðgerðir til að berjast gegn ofbeldi gegn konum, sérstaklega heiðursmorðum, og ráðstafanir til að berjast gegn mansali. Þá efndu Stígamót, Kvenréttindafélag Íslands og Alþjóðahús einnig til málstofu undir heitinu Growth, Power and Fun. Þar var fjallað um möguleika kvenna til að eflast sem persónur þrátt fyrir áföll og mótlæti, eins og kynferðislegt ofbeldi, og þann kraft sem býr í konum sem eru innflytjendur á Íslandi. Einnig var fjallað um gjörning sem fram fór á Ísafirði sem sýnir fegurðarsamkeppni í nýju ljósi og hvetur fólk til umhugsunar um staðlaðar fegurðarímyndir. Jafnframt var sýndur hluti úr heimildamyndinni Óbeisluð fegurð þar sem fjallað er um fegurðarsamkeppnina. Vakti myndin verðskuldaða athygli. Báðar málstofurnar voru mjög vel sóttar.

2. Samningurinn um afnám allrar mismununar gegn konum.
    Íslensk stjórnvöld skiluðu sjöttu skýrslu um framkvæmd samningsins um afnám allrar mismununar gegn konum árið 2007 og höfðu áður skilað fimmtu skýrslu árið 2003. Sérfræðinganefndin sem starfar á grundvelli samningsins tók síðan fyrir efni fimmtu og sjöttu skýrslu íslenskra stjórnvalda á fundi sínum sem haldinn var í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í júlí 2008. Fulltrúar félags- og tryggingamálaráðuneytis og Jafnréttisstofu sóttu fund nefndarinnar í því skyni að eiga viðræður við hana og svara spurningum um framkvæmd samningsins hér á landi. Niðurstöður nefndarinnar um framkvæmd íslenskra stjórnvalda er að finna á heimasíðu nefndarinnar (http://www2.ohchr.org/english/bodies/cedaw/cedaws 41.htm). Nefndin fagnaði meðal annars nýjum lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og aðgerðaáætlun vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis. Í niðurstöðum sínum gagnrýndi nefndin sem fyrr vægar refsingar fyrir kynbundið ofbeldi, sér í lagi nauðganir, og lagði til að stjórnvöld bæti rannsóknir, gagnasöfnun og greiningu á tíðni, orsökum og afleiðingum kynbundins ofbeldis. Jafnframt gagnrýndi nefndin skipulag mála í tengslum við mansalsmálefni og vændi, þar á meðal að engar þolenda- eða vitnaáætlanir væru til staðar hér á landi fyrir fórnarlömb mansals. Í niðurstöðum sínum óskar nefndin sérstaklega eftir að fylgjast með hvernig stjórnvöld bregðast við tilmælum hennar að því er varðar mansal og vændi. Þá gagnrýndi nefndin lágt hlutfall kvenna í stöðum prófessora og stjórnenda hjá fyrirtækjum auk kynbundins launamunar á íslenskum vinnumarkaði. Nefndin hefur boðið íslenskum stjórnvöldum að skila sjöundu og áttundu skýrslu um framkvæmd samningsins hér á landi í sameiginlegri skýrslu árið 2014.

ii. Samstarf á vettvangi samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og Evrópuráðsins.

1. Almennt.
    Á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið starfar nefnd sem fylgist með stöðu jafnréttismála innan Evrópusambandsins. Ísland fer nú með formennsku í nefndinni sem hittist að jafnaði tvisvar á ári. Nefndin fer yfir nýjar gerðir Evrópusambandsins sem og þær sem eru í undirbúningi auk þess að kynna sér viðburði og umræður á sviði jafnréttismála á vettvangi Evrópusambandsins. Nýlega var samþykkt að víkka út starfssvið nefndarinnar þannig að hún mun hér eftir fylgjast með gerðum og starfi sem snýr að öðrum tegundum mismununar en kynjamisrétti, til dæmis vegna uppruna, kynhneigðar, fötlunar og fleira.
    Ísland á áheyrnarfulltrúa í ráðgjafanefnd Evrópusambandsins um jafnréttismál ( Advisory Committee on Gender Equality). Sú nefnd fær tillögur að gerðum til umsagnar auk þess að taka þátt í mótun jafnréttisstefnu Evrópusambandsins og veita því aðhald. Endurskoðun á jafnréttisstefnunni ( A Roadmap for Equality between Women and Men) er fyrirhuguð en gildandi stefna nær til ársins 2010. Megináherslur í gildandi áætlun eru sex: Efnahagslegt jafnrétti, samræming atvinnu- og fjölskyldulífs, aðgerðir til að tryggja jafna þátttöku kynjanna við ákvarðanatöku, kveða niður kynbundið ofbeldi og mansal, breyta staðalímyndum kynjanna og að ýta undir kynjajafnrétti utan Evrópusambandsins. Í byrjun árs 2009 tekur ný stofnun til starfa, Jafnréttisstofnun Evrópusambandsins, sem staðsett verður í Vilníus í Litháen.
     Ísland á fulltrúa í jafnréttisnefnd Evrópuráðsins. Á vettvangi hennar hefur sjónum einkum verið beint að baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Árið 2008 lauk mikilli herferð gegn ofbeldi í nánum samböndum og var gerð viðamikil könnun í aðildarríkjum ráðsins. Í ljós kom að Íslendingar eiga langt í land á ýmsum sviðum, sérstaklega hvað varðar aðstoð og vernd fyrir þolendur kynbundins ofbeldis.
    
2. Progress.
Progress er jafnréttis- og vinnumálaáætlun Evrópusambandsins sem tók gildi árið 2007 og stendur til ársins 2013. Fjórar af fyrrum áætlunum sambandsins voru sameinaðar í eina en í þessari áætlun er sjónum einkum beint að vinnumálum, jafnrétti kynjanna, félagsvernd, samfélagi án aðgreiningar og vinnuvernd. Í öllum verkefnum sem njóta styrkja á vegum Progress skal taka mið af samþættingu kynjasjónarmiða. Árið 2008 voru styrkir veittir í verkefni á vegum Progress fyrir 91,5 milljónir evra; þar af var 10,9 milljónum evra veitt sérstaklega í verkefni á sviði jafnréttismála. Þátttakendur frá Íslandi hafa sótt um þrjú verkefni til Progress frá árinu 2007 og var veittur styrkur í öllum tilvikum. Tvö þessara verkefna eru á sviði jafnréttismála og annast Jafnréttisstofa framkvæmd þeirra. Þriðja verkefnið fjallar almennt um mismunun og er það verkefni í umsjón Mannréttindaskrifstofu Íslands í samstarfi við félags- og tryggingamálaráðuneytið, Alþjóðahús, Samráðsvettvang trúarbragða, Kvenréttindafélagið, Fjölmenningarsetrið, Þroskahjálp Íslands, Öryrkjabandalag Íslands og Samtökin '78. Sem dæmi um verkefni sem styrkt var af Progress má nefna að haldinn var tveggja daga fundur með sérfræðingum frá fjórtán Evrópulöndum hérlendis um framkvæmd og fyrirkomulag fæðingarorlofsins á Íslandi en nánar er fjallað um þann fund í kaflanum Samhæfing fjölskyldu- og atvinnulífs í þessum hluta skýrslunnar.

3. Daphne III.
Daphne-áætlunin er meðal þeirra Evrópusambandsáætlana sem Ísland tekur þátt í. Hlutverk áætlunarinnar er að styðja við verkefni sem vinna gegn ofbeldi gegn konum, börnum og ungmennum. Meginmarkmiðið er að hvetja til og koma á fót skammtímaog langtímaverkefnum sem ætlað er að vernda þessa hópa fyrir hvers kyns ofbeldi, efla stuðning við þolendur ofbeldis og stuðla að bættu líkamlegu og andlegu heilbrigði. Árið 2008 var meðal annars lögð áhersla á verkefni gegn mansali og kynferðislegri misnotkun, ofbeldi sem tengist ákveðnum hefðum og má þar nefna umskurð kvenna og heiðursmorð, sem og verkefni gegn ofbeldi á konum og börnum innan heimilis og í skólum. Árin 1997–2006 hefur Daphne-áætlunin styrkt yfir 470 verkefni víðs vegar um Evrópu. Á tímabilinu 1997–2004 tók Ísland þátt í átta verkefnum. Má þar nefna samstarfsverkefnið Child Pornography – Internet Hotline Providers in Europe sem Barnaheill tók þátt í ásamt þátttakendum frá ellefu öðrum löndum og samstarfsverkefnið Minority Women Victimised by Repeat Perpetrators sem Stígamót tók þátt í ásamt þátttakendum frá fimm öðrum löndum.

iii. Norðurlandasamstarf á sviði jafnréttismála.
    Jafnréttisráðherrar Norðurlandanna hafa starfað saman frá árinu 1974 um sameiginleg hagsmunamál á sínu sviði. Þeirri meginreglu er fylgt í norrænu samstarfi að miða við norrænt notagildi. Norrænu jafnréttisstarfi er stjórnað í samvinnu ráðherranefndarinnar fyrir jafnrétti ( MR-JÄM) og embættismannanefndarinnar fyrir jafnrétti ( ÄK-JÄM). Samstarfið í jafnréttismálum fylgir sérstakri samstarfsáætlun fyrir tímabilið 2006–2010 sem ber yfirskriftina Með áherslu á kyn er stefnt að jafnréttissamfélagi. Samkvæmt samstarfsáætluninni eru tvö meginsvið í fyrirrúmi, þ.e. kyn og völd og kyn og æska. Auk þess verður lögð áhersla á að fjalla um menningu og miðlun út frá sjónarhorni kynferðis. Norræna stofnunin fyrir kvenna- og kynjarannsóknir ( NIKK) sem fjármögnuð er af ráðstöfunarfé embættismannanefndarinnar hrindir í framkvæmd, styður og samhæfir kvenna-, karla- og kynjarannsóknir á Norðurlöndum og utan þeirra auk þess sem hún tekur þátt í að mynda norrænan grundvöll fyrir kynjarannsóknir.
    Samstarf Norrænu ráðherranefndarinnar við nágrannalöndin innan Evrópusambandsins,
Eistland, Lettland og Litháen, byggist á samstarfsáætlun Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna um jafnréttismál sem var samþykkt af jafnréttisráðherrum landanna árið 1998 og var tíu ára afmæli samkomulagsins fagnað á sameiginlegum ráðherrafundi ríkjanna átta í Eistlandi í maí 2008. Ákveðið var að halda samstarfinu áfram og er mansal eitt af meginþemum þess. Markmið jafnréttissamstarfsins við baltnesku löndin er að vinna áfram að samþættingu jafnréttis innan pólitískrar ákvarðanatöku á staðbundnum, svæðisbundnum og þjóðlegum vettvangi og miðla upplýsingum um árangursríkar aðferðir.
    Á vegum norræna samstarfsins hefur verið unnið að fjölmörgum viðfangsefnum með rannsóknum, ráðstefnum og útgáfu skýrslna. Árið 2006 var meginviðfangsefnið rannsóknarverkefni um klámvæðinguna. Einnig lauk sama ár rannsóknarverkefni um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við fjárlagagerð á Norðurlöndum ( Integrering av ett könsperspektiv i nordiska statsbudgetar) með lokaráðstefnu og skýrslu. Markmiðið með verkefninu var að gera áætlanir og kynna aðferðir sem nota má til að tryggja að jafnréttissjónarmið verði höfð að leiðarljósi við fjárlagagerð á Norðurlöndum, en slík sjónarmið eru talin mikilvæg tæki sem stuðla að þróun í átt til aukins jafnréttis. Lokaráðstefnan var haldin í Helsinki í október 2006 og var lögð þar fram skýrslan Integrering av ett köns- och jämställdhetsperspektive i de nordiska statsbudgeterna (TemaNord 2006:531).
    Vændi á Norðurlöndunum var meginrannsóknarverkefni ársins 2007. Markmiðið var að fá upplýsingar um umfang vændis og mansals til kynlífsþjónustu út frá jafnréttissjónarmiðinu. Einnig að kortleggja viðhorf karla og kvenna til kaupa á kynlífsþjónustu. Rannsóknarverkefninu var ætlað að afla upplýsinga og þekkingar til að efla möguleika á að grípa til norrænna aðgerða til að sporna við vændi og mansali. Verkefninu lauk með viðamikilli ráðstefnu þar sem niðurstöður voru kynntar. Það sama ár lauk verkefninu Karlar og jafnrétti með ráðstefnu. Þá hófst samanburðarrannsókn á stöðu kynjanna varðandi þátttöku í stjórnmálum og stjórnum fyrirtækja og stofnana.

I. Kærunefnd jafnréttismála.
    Fjöldi erinda sem kærunefnd jafnréttismála berst á ári hverju hefur verið á bilinu tíu til tuttugu á undanförnum sjö árum að undanskildu árinu 2008 en þá bárust nefndinni átta erindi. Í fæstum tilvikum hefur nefndin komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þannig bárust nefndinni ellefu erindi árið 2002 en í þremur þeirra var talið að brotið hefði verði gegn ákvæðum laganna. Einu erindi var þó vísað frá nefndinni en í sjö tilvikum komst nefndin að því að ekki hefði verið um brot gegn ákvæðum laganna að ræða.
    Sömuleiðis var talið í þremur tilvikum af þeim sextán erindum sem bárust nefndinni árið 2003 að brotið hefði verið gegn ákvæðum laganna. Það ár var tveimur erindum vísað frá nefndinni auk þess sem tvö erindi voru dregin til baka en í níu tilvikum taldi nefndin að ekki væri um brot að ræða.
    Árið 2004 bárust nefndinni fimmtán erindi og var talið að um brot gegn ákvæðum laganna væri að ræða í fjórum tilvikum. Tveimur málum var hins vegar vísað frá nefndinni sama ár auk þess sem eitt erindi var framsent til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála. Í átta tilvikum komst nefndin hins vegar að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið um brot að ræða.
    Tíu erindi bárust nefndinni árið 2005 og taldi nefndin að í einu þeirra hefði verði brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga. Tveimur erindum var vísað frá nefndinni og í sjö tilvikum var ekki talið að um brot væri að ræða. Einn nefndarmanna skilaði þó séráliti og taldi að um brot hefði verið að ræða í einu tilviki þar sem nefndin hafði komist að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verði brotið gegn ákvæðum laganna.
    Árið 2006 bárust ellefu erindi til nefndarinnar og í þremur tilvikum komst nefndin að þeirri niðurstöðu að um brot hefði verið að ræða en í átta tilvikum var ekki talið að um slíkt hefði verið að ræða.
    Sömuleiðis bárust nefndinni ellefu erindi árið 2007. Í einu tilviki taldi nefndin að um brot hefði verið að ræða, eitt erindið var afturkallað, eitt erindið var framsent til annars stjórnvalds og einu erindi var vísað frá nefndinni. Í sjö tilvikum taldi nefndin því að ekki hefði verið um brot að ræða.
    Árið 2008 bárust alls átta erindi til nefndarinnar. Í einu tilviki taldi nefndin að um brot hefði verið að ræða, tveimur erindum var vísað frá nefndinni, eitt erindið var framsent til annars stjórnvalds en í þremur tilvikum var ekki talið að um brot hefði verið að ræða. Þá hefur nefndin ekki lokið meðferð sinni á einu erindi sem barst nefndinni í lok árs 2008.

J. Dómar Hæstaréttar í jafnréttismálum.
    Á tímabilinu 1. febrúar 2005 til 1. september 2008 féll einungis einn dómur í Hæstarétti í máli er varðaði ætlað brot á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Málið var númer 195/2006 og var höfðað til greiðslu skaðabóta vegna skipunar í embætti sendiráðsprests í London. Embættið var samstarfsverkefni X, Y og Z og var auglýst laust til umsóknar í júní árið 2003. X, sem hafði það hlutverk að skipa í embættið, ákvað að koma á fót sérstakri hæfisnefnd í tengslum við val á umsækjendum um embættið þar sem fulltrúar fyrrnefndra aðila áttu sæti. Fram kemur í dómi Hæstaréttar að ákveðið hafi verið að kröfu Z að álit nefndarinnar yrði bindandi. Að mati Hæstaréttar var ekkert því til fyrirstöðu að X hefði í samráði við þá sem áttu fulltrúa í hæfisnefndinni ákveðið að niðurstaða nefndarinnar yrði bindandi enda hélt hann formlegu skipunarvaldi sínu og bar áfram ábyrgð á því að skipun í embættið væri lögmæt.
    Tveir umsækjendur voru um embættið, karlmaður (M), sem var tengdasonur X, og kona (K). M var skipaður í embættið og í framhaldi höfðaði K mál.
    Skipunin í umrætt embætti var í samræmi við niðurstöðu fyrrnefndrar hæfisnefndar sem mælt hafði með því að M yrði skipaður til að gegna embættinu. Í dómi Hæstaréttar kemur meðal annars fram að við mat sitt á umsækjendum hafi nefndinni borið að byggja á öllum málefnalegum sjónarmiðum og væru þau skýrlega rakin í 17. gr. starfsreglna um presta. Fram kemur að af gögnum málsins verði hins vegar ráðið að nefndin hafi lagt starfsreynslu umsækjenda að jöfnu þrátt fyrir fimm ára lengri reynslu K af prestsstarfi. Telur Hæstiréttur að nefndinni hafi borið að líta til þessa munar á umsækjendum við mat á starfsreynslu þeirra og að mat nefndarinnar sé því að þessu leyti ekki málefnalegt. Hæstiréttur telur jafnframt að þau rök nefndarinnar að óvenju mikið og stöðugt starfsálag M geri það að verkum að meta skuli starfsreynslu umsækjenda sambærilega, þrátt fyrir að K hafi lengri starfsferil að baki, engu breyta í þessum efnum enda verði ekki séð að sambærilegt mat hafi farið fram á starfsálagi K. Þá kemur fram í dómi Hæstaréttar að K hafi haft meiri framhaldsmenntun en M þótt sú menntun hafi ekki verið á því sviði sem sérstaklega hafi verið tilgreint í auglýsingu um embættið. Fram kemur að Hæstarétti virðist sem framhaldsmenntun M á umræddu sviði hafi raunar ráðið úrslitum um niðurstöðu nefndarinnar. Telur Hæstiréttur það hins vegar ekki réttmætt að gefa því sjónarmiði jafnríkt vægi og gert hafi verið enda hafi einungis komið fram í auglýsingu um umrætt embætti að framhaldsmenntun væri æskileg og þá helst á umræddu sviði. Að mati Hæstaréttar verði því ekki talið að nefndin hafi gætt málefnalegra sjónarmiða við mat á umsækjendum að þessu leyti.
    Að þessu virtu kemst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að K hafi sýnt fram á að starfsreynsla hennar og menntun nýtist henni þannig að hún hafi verið jafnhæf eða hæfari en M til að gegna umræddu embætti. Þá kemur fram í dómi Hæstaréttar að samkvæmt 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, sé það markmið laganna að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Markmið III. kafla laganna væri að stemma stigu við mismunun á grundvelli kyns á vinnumarkaði en erfitt geti verið að sanna að um slíka mismunun sé að ræða. Lögin yrðu að þessu leyti þýðingarlítil nema meginreglur kaflans yrðu skýrðar á þann veg að konu skuli veita starf ef hún er að minnsta kosti jafnt að því komin og karlmaður sem við hana keppir um ráðningu í starf hvað varðar menntun og annað sem máli skiptir, þegar á starfssviðinu eru fáar konur en fram kemur að engin kona gegndi prestsstarfi erlendis. Það hafi því verið X að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar þeirri ákvörðun að skipa M í umrætt embætti. Það hafi X hins vegar ekki gert að mati Hæstaréttar og því verði talið að við skipun í embættið hafi verið brotið gegn 1. mgr. 24. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

III. Áætlun ríkisstjórnarinnarí jafnréttismálum 2004–2008.


A. Verkefni ríkisstjórnarinnar.

1. Jöfnun á kynjahlutfalli í nefndum, ráðum og stjórnum.
    Meginhugmynd verkefnisins er að ná fram sem jöfnustu hlutfalli karla og kvenna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera. Því jafnari sem hlutföll karla og kvenna eru því meiri líkur eru á því að ákvarðanir endurspegli bæði hagsmuni kvenna og karla við stefnumótun. Þess vegna er mikilvægt að ganga úr skugga um hvort hæfileikar og menntun beggja kynjanna nýtist þegar stefna er mótuð og ákvarðanir teknar. Þetta á einnig við þegar stjórnvöld setja fram stefnumótandi pólitísk markmið. Þar sem kynjahlutföll eru mjög mismunandi í ráðuneytunum skal bæði fylgst með heildartölum og skipan í nefndir, ráð og stjórnir. Með því má sjá hvort raunverulegar breytingar verði í framkvæmd. Til þess að ná fram jöfnuði er gert ráð fyrir að hvert ráðuneyti taki upp eftirfarandi verklag:
          Þegar óskað er eftir tilnefningu frá aðilum utan ráðuneytanna verði farið fram á að fyrir hvern fulltrúa verði tveir einstaklingar tilnefndir, karl og kona.
          Þegar skipað er í nefndir, ráð og stjórnir án tilnefninga verði þegar í stað tekin upp sú regla að kynjahlutfall sé sem jafnast innan hvers hóps.
          Til að ná fram jöfnuði innan hvers ráðuneytis verði haft í huga við skipun í einstakar nefndir, ráð og stjórnir að þar sé annað kynið í meiri hluta til að rétta af ójafnvægi innan annarra nefnda.
    Markmið verkefnisins er að jafna hlut kynjanna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera þannig að kynjahlutföll séu aldrei meira en 60:40 öðru kyninu í hag. Frá gildistöku þingsályktunarinnar skipi öll ráðuneyti jafnan hlut kvenna og karla. Hlutföll við lok gildistíma eiga að vera innan marka 60:40. Þau ráðuneyti sem þegar hafa náð þessu hlutfalli skulu gæta þess að halda því áfram.
    Árangur ráðuneytanna hefur verið mjög breytilegur þegar kemur að jöfnun kynjahlutfalla í nefndum, ráðum og stjórnum. Eins og fram kom í síðustu skýrslu félagsmálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála höfðu forsætisráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, menntamálaráðuneyti, samgönguráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti og umhverfisráðuneyti samið stöðluð bréf eða mótað sér starfsreglur sem beitt er þegar ráðuneytin óska eftir tilnefningum í nefndir, ráð og stjórnir. Við endurskoðun laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla var ákvæði laganna um að tryggja skuli sem jafnast hlutfall kynjanna í opinberum nefndum, ráðum og stjórnum styrkt þar sem tekið er fram að hlutfall hvors kyns skuli ekki vera minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Á þetta bæði við um aðal- og varamenn. Svo þessu markmiði yrði náð var jafnframt talið mikilvægt að taka sérstaklega fram í lögunum að tilnefningaraðilar tilnefni ávallt bæði karl og konu þegar tilnefnt er í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga.
    Jafnréttisstofa hefur tekið saman upplýsingar um skipan í nefndir, ráð og stjórnir
innan Stjórnarráðsins á síðastliðnum árum. Vakin er athygli á að breytingar voru gerðar
á skipan ráðuneyta innan Stjórnarráðsins á árinu 2007 sem komu til framkvæmda þegar
á því ári og í upphafi árs 2008.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Hlutur kvenna í nefndum, ráðum og stjórnum innan Stjórnarráðsins jókst um 4% milli áranna 2005 og 2007 eða úr 32% í 36% sem verður að teljast skref í rétta átt enda þótt markmiðum laganna um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla um að hlutfall hvors kyns sé ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða hafi ekki enn verið náð. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið náði 40:60 markmiðinu árið 2004 en félagsmálaráðuneytið náði þessu takmarki árið 2005 þegar hlutfall kvenna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum þess varð 43%. Ári síðar sigldi menntamálaráðuneytið í kjölfarið og náði settu markmiði. Þessi þrjú ráðuneytið hafa síðan haldið hlutfalli kvenna yfir 40% en hlutur kvenna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum félagsmálaráðuneytis var 45% árið 2007. Öll ráðuneytin nema tvö, utanríkisráðuneyti og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, bættu hlut kvenna í nefndum, ráðum og stjórnum milli áranna 2006 og 2007. Eftirtektarverð er breytingin hjá iðnaðarráðuneyti og viðskiptaráðuneyti milli ára. Þegar ráðuneytin voru eitt ráðuneyti á árinu 2006 áttu konur einungis 21% sæta í nefndum, ráðum og stjórnum á þess vegum. Hlutur kvenna jókst verulega eftir að ráðuneytin voru aðskilin árið 2007 en þá varð hlutur kvenna 33% í nefndum, ráðum og stjórnum viðskiptaráðuneytis og 30% hjá iðnaðarráðuneyti. Breytingin er einkum markverð í ljósi þeirrar reynslu að breyting á hlutfalli kynjanna milli ára hjá ráðuneytunum hefur verið um 1%. Þá ber að hafa í huga að ýmis nefndastörf fylgja ákveðnum stöðum opinberrar stjórnsýslu eða embættum og taka þeir einstaklingar sem þeim gegna sæti í tilteknum nefndum. Þetta hefur áhrif á kynjaskiptingu í nefndum, ráðum og stjórnum þar sem fleiri karlar en konur gegna þessum embættum. Einnig verður að líta til þess hversu margar skipanir liggja að baki tölunum en það er breytilegt eftir ráðuneytum. Á það einkum við um Hagstofu Íslands og utanríkisráðuneytið sem hafa óneitanlega sérstöðu að þessu leyti í samanburði við hin ráðuneytin.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Fimm ráðuneytanna náðu því markmiði að meira en 40% fulltrúa sem voru skipaðir í nefndir, ráð og stjórnir árið 2006 voru konur en það eru dóms- og kirkjumálaráðuneytið, félagsmálaráðuneytið, fjármálaráðuneytið, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og menntamálaráðuneytið. Þess ber að geta að á árinu 2006 gerðist það í fyrsta skipti að félagsmálaráðuneyti og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti skipuðu fleiri konur en karla í nefndir, ráð og stjórnir á vegum þeirra. Þegar litið er á heildarskipun í nefndir, ráð og stjórnir innan Stjórnarráðsins kemur í ljós að 39% fulltrúa sem voru skipaðir árið 2006 voru konur og því mjög nálægt því að ná markmiðinu um 40:60 skiptingu. Heldur dró úr hlut kvenna við skipanir í nefndir, ráð og stjórnir á árinu 2007 er 36% nýskipaðra fulltrúa voru konur. Einungis heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið skipaði konur í meira en 40% tilfella á árinu 2007. Þessi breyting gefur til kynna að ávallt er mikilvægt að hafa kynjasjónarmiðin að leiðarljósi við nýskipanir enda þótt að árangur hafi áður náðst við að jafna kynjahlutfall í nefndum, ráðum og stjórnum.
    Þegar litið er til árangurs einstakra ráðuneyta verður að telja þýðingarmikið að ráðuneyti undirstriki mikilvægi jafnréttis kynjanna þegar óskað er eftir tilnefningum í nefndir, stjórnir og ráð innan opinberrar stjórnsýslu og að tilnefningaraðilar tilnefni bæði karl og konu til setu í hlutaðeigandi nefnd, stjórn eða ráði. Er þá ekki síður mikilvægt að tilnefningaraðilar fari að lögum að þessu leyti sem aftur veitir skipunaraðila svigrúm til að gæta að jöfnu kynjahlutfalli við skipunina. Þá skiptir jafnframt máli að skipunaraðili sé meðvitaður um kynjaskiptingu meðal þeirra sem sitja í forsvari fyrir einstakar nefndir, ráð og stjórnir er starfa á vegum hans.
    Upplýsingaöflun um hlut kynjanna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ráðuneytanna er hluti af árlegri greinargerð jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna til Jafnréttisstofu samkvæmt starfsreglum þeirra. Upplýsingarnar eru greindar í lögbundnar nefndir og ráðherraskipaðar nefndir auk þess sem heildartölur eru skoðaðar ásamt skipunum á hverju ári fyrir sig.

2. Skilgreining á hlutverki jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna.
    Meginhugmynd verkefnisins er að skilgreina nánar hlutverk jafnréttisfulltrúa innan Stjórnarráðsins. Í hverju ráðuneyti er nú starfandi jafnréttisfulltrúi sem gegnir skyldum sem eru ákvarðaðar af ráðuneytisstjóra eða jafnréttisáætlun viðkomandi ráðuneytis. Þessir fulltrúar mynda einnig með sér starfshóp sem hittist einu sinni í mánuði og eru tengiliðir Jafnréttisstofu við hvert ráðuneyti. Starfssvið þeirra er því víðtækt og er nauðsynlegt að skýrari reglur verði settar um störf jafnréttisfulltrúanna. Markmið verkefnisins er að hlutverk jafnréttisfulltrúa verði skilgreint eins í öllum ráðuneytum, en verði ekki háð huglægu mati yfirstjórnar. Markmið verkefnisins er að setja reglur sem kveða á um réttindi og skyldur jafnréttisfulltrúa og kjör þeirra.
    Starfsreglur jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna voru samþykktar á fundi ráðuneytisstjóra 3. nóvember 2005 og er jafnréttisfulltrúum í öllum ráðuneytum ætlað að starfa eftir þeim. Starfsreglurnar eru birtar í starfsmannahandbók Stjórnarráðsins og eru því aðgengilegar öllum starfsmönnum Stjórnarráðsins. Starfsmannahandbókin hefur verið tekin til endurskoðunar og verða starfsreglur jafnréttisfulltrúa skoðaðar í tengslum við þá vinnu og þá nýju ábyrgð sem ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla felur þeim.

3. Fræðsla um jafnréttismál fyrir stjórnendur og starfsmenn ráðuneytanna.
    Meginhugmynd verkefnisins er í fyrsta lagi að haldnir verði fræðslu- og umræðufundir um jafnréttismál fyrir starfsmenn ráðuneyta og stofnana þeirra og pólitískt kjörna fulltrúa framkvæmdarvaldsins. Í öðru lagi að reglulega verði haldin námskeið um jafnréttismál fyrir starfsmenn í ráðuneytum, stjórnendur og tengiliði stofnana. Í þriðja lagi að hvetja jafnréttisfulltrúa, jafnréttisnefndir og stjórnendur til að sækja námskeið og ráðstefnur um jafnréttismál.
    Markmið verkefnisins er að gera fræðslu um jafnréttismál hluta af starfi ráðuneytanna og stofnana þeirra þannig að starfsmenn verði meðvitaðir um mikilvægi málaflokksins. Námskeið skulu haldin út gildistíma áætlunarinnar, en æskilegt er að flestir hafi lokið námskeiði fyrir endurskoðun áætlunarinnar.
    Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur yfirumsjón með þessu verkefni samkvæmt framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar. Það er jafnframt hluti af verkefninu Yfirumsjón með samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða og er því vísað til umfjöllunar undir því verkefni.

4. Jafnréttisáætlanir og nefndir ráðuneytanna.
    Jafnréttisáætlanir eru nauðsynleg tæki fyrir ráðuneytin til að tryggja framgang jafnréttismála. Með setningu áætlunarinnar er skjalfest að ráðuneytið ætli sér að sinna þessum málaflokki. Starfsmönnum og stjórnendum er þá gert kleift að kynna sér innihald hennar. Það setur einnig fordæmi fyrir atvinnulífið að í öllum ráðuneytum sé slík áætlun til staðar því samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, er öllum fyrirtækjum og stofnunum með fleiri en 25 starfsmenn skylt að setja sér jafnréttisáætlun.
    Þá er nauðsynlegt að jafnréttisnefnd sé skipuð innan hvers ráðuneytis en hlutverk hennar er að tryggja að órofið samhengi sé á milli jafnréttismála innan ráðuneytisins. Jafnréttisnefnd er bakhjarl fyrir jafnréttisfulltrúann og er hlutverk hennar m.a. að veita honum aðhald og aðstoð við þróun og endurskoðun áætlunar. Hvert ráðuneyti ber ábyrgð á því að stofnanir með fleiri en 25 starfsmenn setji sér jafnréttisáætlanir. Til að tryggja áhrif nefndarinnar er mikilvægt að í henni sitji fulltrúar yfirstjórnar, t.d. starfsmanna- eða rekstrarstjóri eða aðstoðarmaður ráðherra, auk jafnréttisfulltrúa og fulltrúa almennra starfsmanna.
    Hlutverk jafnréttisnefndar er m.a. að fylgjast með stöðu jafnréttismála á hverjum tíma og gera viðvart ef eitthvað má betur fara á því sviði. Nefndin skal funda reglulega, hið minnsta árlega, með yfirstjórn ráðuneytisins og gera tillögur um úrbætur og framfarir eftir því sem tilefni gefast. Þá skal nefndin einnig endurskoða árlega jafnréttisáætlun ráðuneytisins.
    Markmið verkefnisins er að gera jafnréttisstarf sýnilegra og markvissara í ráðuneytunum og að öll ráðuneyti setji sér jafnréttisáætlanir fyrir endurskoðun áætlunarinnar og skipi jafnréttisnefnd sem sé jafnréttisfulltrúa til halds og trausts. Þau ráðuneyti sem þegar hafa sett sér jafnréttisáætlun tryggja að markmiðum hennar sé framfylgt.
    Í sérhverju ráðuneyti starfar jafnréttisfulltrúi eftir starfsreglum jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna sem samþykktar voru 3. nóvember 2005. Skipuð hefur verið jafnréttisnefnd
í flestum ráðuneytum. Jafnréttisstofa hefur eftirlit með þessu verkefni og eru upplýsingar um stöðu mála hluti af árlegri greinargerð jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna til Jafnréttisstofu.
    Öll ráðuneytin hafa sett sér jafnréttisáætlun nema forsætisráðuneytið sem starfar eftir jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins. Endurskoðun stendur yfir á jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins sem og áætlunum einstakra ráðuneyta, meðal annars með hliðsjón af nýju lögunum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Félags- og tryggingamálaráðuneytið og menntamálaráðuneytið hafa lokið þeirri endurskoðun og samþykkt nýja jafnréttisáætlun.

5. Skipun tengiliða jafnréttismála í öllum stofnunum ráðuneyta.
    Jafnréttismál skipta ekki einungis máli í ráðuneytunum heldur einnig í stofnunum þeirra. Það er því nauðsynlegt að jafnréttisfulltrúar myndi tengsl við stofnanir og að tengiliður starfi í hverri stofnun sem er ábyrgur fyrir því að miðla upplýsingum um jafnréttismál til starfsmanna og stjórnenda stofnunarinnar. Í þeim stofnunum þar sem tengiliðir hafa verið tilnefndir er mikilvægt að fylgjast með því að sá starfsmaður sinni skyldum sínum varðandi þennan málaflokk. Af þeim sökum er nauðsynlegt að bjóða upp á fræðslu og gera upplýsingar aðgengilegar fyrir þessa aðila.
    Fyrir minni stofnanir er nóg að tilnefna tengiliði, en stærri stofnanir þurfa að tilnefna sérstakan jafnréttisfulltrúa og setja sér eigin jafnréttisáætlun sem jafnréttisfulltrúar hafa eftirlit með að sé framfylgt.
    Markmið verkefnisins er að tilnefna tengiliði sem sinna jafnréttismálum í öllum stofnunum ráðuneyta fyrir lok tímabilsins.
    Jafnréttisfulltrúar eru starfandi í öllum ráðuneytum en samkvæmt 13. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er þeim ætlað að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á málefnasviði viðkomandi ráðuneytis og stofnana þess. Í athugasemdum í frumvarpi því er varð að lögunum kemur fram að jafnréttisfulltrúarnir geti einnig verið stofnunum er starfa á málefnasviði viðkomandi ráðuneytis til ráðgjafar í jafnréttismálum. Það fellur því í hlut hvers jafnréttisfulltrúa að skipuleggja jafnréttisstarf á málefnasviði viðkomandi ráðuneytis og hafa samráð við hlutaðeigandi stofnanir um þau mál. Jafnréttisfulltrúi sendir síðan árlega Jafnréttisstofu greinargerð um stöðu og þróun jafnréttismála á málefnasviði viðkomandi ráðuneytis og stofnana þess.

6. Jafnréttissjónarmið tryggð við stöðuveitingar.
    Nauðsynlegt er að litið sé til jafnréttissjónarmiða við stöðuveitingar á vegum hins opinbera og verður það að vera sýnilegt þeim sem sækja um viðkomandi störf. Í atvinnuauglýsingum þarf því að koma fram að jafnréttissjónarmið séu höfð í huga við ráðningar. Þegar um er að ræða starfsstétt eða vettvang þar sem annað kynið er í miklum meiri hluta er sjálfsagt að taka fram að „karlar jafnt sem konur“ séu hvattir til að sækja um og tilgreina það kyn framar sem er í minni hluta. Annars er mælt með orðalaginu „að við stöðuveitingar séu jafnréttissjónarmið höfð í huga“.
    Markmið verkefnisins er að jafna hlut kynjanna í starfsstéttum og á vinnustöðum og gera jafnréttissjónarmið ráðuneytanna opinber og gegnsæ einstaklingum sem eru í starfsleit.
    Áfram hefur verið leitast við að hvetja jafnt konur og karla til að sækja um lausar stöður sem auglýstar eru innan Stjórnarráðsins. Nánar er fjallað um stöðu kvenna og karla hjá hinu opinbera í sérstökum kafla í II. hluta skýrslu þessarar.

7. Staða kvenna í ráðuneytunum og stofnunum þeirra.
    Leitast skal við að hlutfall karla og kvenna í stjórnunarstöðum sé sem jafnast innan hvers ráðuneytis og innan þeirra stofnana er starfa á verksviði þeirra. Til að markmiðinu sé náð skal fara fram könnun á því hvert hlutfall kvenna og karla í stjórnunarstöðum er í hverju ráðuneyti og í stofnunum þess. Í kjölfar þeirrar könnunar munu verða sett raunhæf markmið í samræmi við niðurstöðu hennar.
    Markmið verkefnisins er eins og áður segir að hlutfall karla og kvenna sé sem jafnast í yfirmannastöðum innan hvers ráðuneytis og stofnunum þeirra.
    Sérstakur kafli í II. hluta skýrslu þessarar fjallar um stöðu kvenna og karla innan opinberrar stjórnsýslu.

B. Verkefni einstakra ráðuneyta.
i. Forsætisráðuneyti.
8. Útgáfa gátlista til jafnréttismats á lagafrumvörpum og við opinbera stefnumótun.
    Gátlisti er nytsamlegt tæki fyrir Alþingi, ráðuneyti, sveitarstjórnir, stofnanir, fyrirtæki og nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkis og sveitarfélaga til að tryggja að jafnréttissjónarmiða verði gætt við stefnumótunarvinnu en tæki til að auka jafnrétti eiga að vera aðgengileg stjórnendum á öllum sviðum samfélagsins. Gátlisti af þessu tagi var eitt af þeim tækjum sem nefnd um hlut kvenna í opinberri stefnumótun lagði til.
    Markmið verkefnisins er að finna leið til að spurningum er varða jafnrétti kynjanna verði svarað áður en lagt er út í stefnumótunarvinnu, til að mynda með notkun gátlista.
    Í samræmi við framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna fyrir árin 1998–2001 skipaði forsætisráðherra í nóvember 2000 nefnd til þess að fjalla um jafnrétti kynjanna við opinbera stefnumótun. Í skýrslu nefndarinnar er meðal annars að finna tillögu að jafnréttisgátlista sem lagður var til grundvallar í samvinnu forsætisráðuneytis og Jafnréttisstofu við nánari útfærslu verkefnisins. Ákveðið var að stytta listann og færa efnið í samfelldara mál. Gátlistinn hefur að geyma fjóra meginþætti sem fela í sér spurningar ásamt skýringum. Þegar sá er vinnur að stefnumótun í hvaða formi sem er hefur farið yfir listann er gert ráð fyrir að fengist hafi nokkuð skýr mynd af stöðu jafnréttismála í þeim málaflokki sem væntanleg stefnumótun tekur til. Auk gátlistans hefur verið sett upp sjálfsmat á rafrænu formi til frekari stuðnings fyrir þá sem koma að vinnu við stefnumótun í samræmi við kynja- og jafnréttissjónarmið.
    Jafnréttisgátlistinn hefur jafnframt verið gefinn út í formi bæklings. Á bakhlið hans er enn fremur vísað til frekari upplýsinga um jafnréttismál á rafrænu formi og má jafnframt nálgast bæklinginn á vefsíðu ráðuneytisins. Gátlistanum var sérstaklega dreift til ráðuneytanna, Alþingis, stofnana og sveitarfélaga.

ii. Dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
9. Mansal.
    Dóms- og kirkjumálaráðuneytið mun áfram leggja áherslu á aðgerðir til að koma í veg fyrir verslun með fólk, einkum konur og börn. Ráðuneytið mun í þessu skyni framkvæma, stuðla að og taka þátt í eftirfarandi:
          Ráðstefnu um mansal og aðgerðum gegn því.
          Alþjóðlegu samstarfi um aðgerðir gegn mansali.
          Fullgildingu Palermó-samningsins, samnings Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir gegn verslun með fólk, einkum konur og börn.
          Aðgerðaáætlun til að koma í veg fyrir mansal.
    Markmið verkefnisins er að koma í veg fyrir verslun með fólk, einkum konur og börn.
    Í nóvember 2004 var skipaður starfshópur sem átti að kynna sér reynslu af mismunandi löggjöf um vændi, klámiðnað og mansal í Evrópu. Sérstaklega var þess farið á leit að hópurinn kynnti sér reynsluna af þeirri löggjöf Svíþjóðar sem gerir kaup á vændi refsiverða og meti kosti og galla þeirrar löggjafar. Í hópnum áttu sæti Ragna Árnadóttir, formaður hópsins og skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, Kolbrún Halldórsdóttir, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, Ágúst Ólafur Ágústsson, Samfylkingunni, Gunnar Örn Örlygsson, Frjálslynda flokknum, Jónína Bjartmarz, Framsóknarflokknum, og Ásta Möller, Sjálfstæðisflokknum. Starfshópurinn hefur skilað niðurstöðum en skýrsla hans kom út í febrúar 2006 og er unnt að nálgast hana rafrænt á heimasíðu ráðuneytisins (http://domsmalaradu neyti.is/media/Skyrslur/DKM_vaendi_feb2006.pdf).
    Fulltrúar dómsmálaráðuneytisins hafa tekið þátt í starfi norræns starfshóps sem fjallar um mansal ( Nordic-Baltic Task Force Against Trafficking in Human Beings). Starfshópurinn hittist nokkrum sinnum yfir árið og er ætlað að stuðla að nánu samstarfi Norðurlandanna á þessu sviði. Upphaf þeirrar samvinnu má rekja til þess að árið 2002 ákváðu utanríkisráðherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna að skipa starfshóp sem vinna skyldi gegn mansali. Var megintilgangurinn að upplýsa almenning um mansal og vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum gegn því. Skipunartími hópsins rann út 2006 en þá var skipaður nýr hópur, CBSS (Council of the Baltic Sea States Task Force against Trafficking in Human Beings), sem vann áfram að framangreindum markmiðum en auk Íslands og fyrrnefndra ríkja skipa hópinn fulltrúar frá Þýskalandi, Rússlandi og Póllandi auk fulltrúa frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Félags- og tryggingamálaráðuneytið sinnir nú þessu verkefni af Íslands hálfu en málaflokkurinn var færður frá dómsmálaráðuneytinu til félags- og tryggingamálaráðuneytis í lok árs 2007.
    Fulltrúar ráðuneytisins sóttu einnig fundi í norrænum samráðshópi sem nefnist Nordisk samrådsgruppe på höyt nivå for flyktningspörsmål (NSHF) en þar er jafnframt fjallað um þær leiðir sem mögulegar eru til að vinna gegn mansali.
    Í október 2006 lagði dóms- og kirkjumálaráðherra fram frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum. Í drögum að frumvarpi, sem samið var af Ragnheiði Bragadóttur, prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands, var lagt til að gerðar yrðu breytingar á tilteknum ákvæðum í svonefndum kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga. Endurskoðunin tók nánar tiltekið til nauðgunar og annarra brota gegn kynfrelsi fólks og kynferðisbrota gegn börnum sem og vændis. Þá var lagt til að breytingar yrðu gerðar á upphafi fyrningarfrests, að lögfest yrði almennt ákvæði um refsiábyrgð vegna kynferðislegrar áreitni og að lögfest yrði ákvæði um refsinæmi þess að bjóða fram, miðla eða óska eftir kynmökum við annan mann í opinberum auglýsingum. Frumvarpið var samþykkt á Alþingi 17. mars 2007. Nánar er fjallað um efni laganna og mansalsmálefni í II. hluta þessarar skýrslu.

10. Vernd vitna og þolenda afbrota.
    Dómsmálaráðuneytið mun áfram vinna að vitnavernd og bættri réttarstöðu þolenda afbrota. Hluti af því starfi snýr að vernd kvenna sem verða fyrir ofbeldi eða hótunum frá maka eða fyrrverandi maka. Ráðuneytið mun í þessu skyni framkvæma, stuðla að og taka þátt í eftirfarandi:
          Norrænu samstarfi um vitnavernd.
          Nefnd um aðgerðir gegn ofbeldi gegn konum.
    Markmið verkefnisins er að styrkja vitnavernd og bæta réttarstöðu þolenda afbrota, einkum kvenna og barna.
    Fulltrúi dómsmálaráðuneytisins hefur tekið þátt í starfi nefndar um aðgerðir gegn ofbeldi gegn konum. Nefndin vann að gerð aðgerðaáætlunar gegn ofbeldi á heimilum og kynferðislegu ofbeldi sem ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum 26. september 2006. Meðal verkefna sem falla undir verksvið dómsmálaráðuneytisins í aðgerðaáætluninni er að fara sérstaklega yfir ákvæði um nálgunarbann í lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, með það í huga hvort heimila eigi lögreglu að ákvarða um nálgunarbann þegar í stað þegar um heimilisofbeldi er að ræða enda ljóst að um bráðatilvik er jafnan að ræða. Ákvörðun lögreglu yrði síðan kæranleg til héraðsdóms. Jafnframt er gert ráð fyrir að reynsla sem þegar hefur fengist af þeim réttarúrræðum sem lögfest hafa verið á síðastliðnum árum, svo sem nálgunarbann og vitnavernd, verði metin kerfisbundið. Nánar er fjallað um framkvæmd aðgerðaáætlunar vegna ofbeldis á heimilum og kynferðislegs ofbeldis undir sérkafla í II. hluta þessarar skýrslu.
    Enn fremur er vert að geta þess að fulltrúi dómsmálaráðuneytisins sótti norræna ráðstefnu í Svíþjóð um stöðu vitna og hélt þar erindi. Fulltrúi ráðuneytisins sótti einnig PC-PW fund sérfræðinganefndar Evrópuráðsins The Committee of Experts on the Protection of Witness and Collaborations of Justice.

11. Aðbúnaður kvenna innan lögreglunnar.
    Frá árinu 1996 hefur markvisst verið unnið að því að fjölga konum innan lögreglunnar.
Þá hefur einnig verið unnið að því að hvetja konur jafnt sem karla til að sækja um lausar yfirmannastöður innan lögreglunnar. Huga þarf betur að stöðu kvenna innan lögreglunnar, þ.e. hvort nægilega vel sé að þeim búið, svo sem varðandi aðstöðu og ytri umbúnað. Til að ná þessu markmiði verður efnt til fundar með fulltrúum lögreglukvenna og yfirstjórn lögreglunnar. Markmiðið er að huga sérstaklega að aðbúnaði kvenna innan lögreglunnar og gera úrbætur ef þurfa þykir.
    Vinna að þessu verkefni hófst árið 2005 þó áður hafi verið fylgst með stöðu mála í Lögregluskólanum og hjá stjórnendum skólans. Unnið hefur verið að því að auka hlutfall kvenna innan lögreglunnar með markvissum hætti í Lögregluskólanum. Hefur hlutfall kvenna af fjölda brautskráðra nemenda verið um 20% undanfarin ár en árið 2007 voru konur 23% nema í grunnnámi skólans. Enn fremur hafa konur innan lögreglunnar sótt í sig veðrið í stjórnunarnámi Lögregluskólans. Á árinu 2007 var samþykkt jafnréttisáætlun skólans en hana á að endurskoða árlega. Þá stofnuðu lögreglukonur Kríurnar, hagsmunafélag íslenskra lögreglukvenna, árið 1994.
    Þessu til viðbótar má benda á að í maí 2007 skipaði ríkislögreglustjóri starfshóp innan embættisins til að gera tillögur að jafnréttisáætlun. Undir lok sama árs skilaði starfshópurinn skýrslu þar sem lagt er til að embætti ríkislögreglustjóra fari með ábyrgð á framgangi jafnréttismála innan lögreglunnar á landinu öllu og að hann skipi einnig jafnréttisfulltrúa sem fari með framkvæmd starfans.

iii. Félags- og tryggingamálaráðuneyti.
12. Yfirstjórn samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða.
    Markmið verkefnisins er að eitt ráðuneyti fari með yfirstjórn samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða innan Stjórnarráðsins eftir því sem kostur er. Félagsmálaráðuneytinu
var falið þetta hlutverk með gildandi áætlun í jafnréttismálum. Ráðuneytinu er m.a. ætlað að stuðla að fræðslu innan Stjórnarráðsins um jafnréttismál sem og að hvetja yfirstjórnir ráðuneytanna til að gæta að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við alla opinbera stefnumótun. Jafnréttisfulltrúar eru tengiliðir milli ráðuneytanna í þessu verkefni.
    Félags- og tryggingamálaráðuneytið í samstarfi við Jafnréttisstofu hefur haldið kynningarfund um jafnréttismál fyrir starfsmenn ráðuneytisins. Einnig hefur ráðuneytið haldið sérstakan fund með forstöðumönnum stofnana er starfa á málefnasviði þess. Á fundunum var fjallað um íslensku jafnréttislöggjöfina og hugmyndafræði að baki henni ásamt aðferðum við samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða. Jafnframt hafa verið haldnir fræðslufundir með forstöðumönnum stofnana er starfa á verksviði annarra ráðuneyta þar sem jafnréttismál hafa verið á dagskrá. Hafa starfsmenn Jafnréttisstofu annast jafnréttisfræðsluna á fyrrnefndum fundum.
    Tveggja daga námskeið um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða var haldið fyrir jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna árið 2004 í samstarfi við Reykjavíkurborg. Aðalfyrirlesari þess var dr. Heidemarie Wünsche-Piétzka sem er doktor í alþjóðalögfræði og starfar sem ráðgjafi um framkvæmd og innleiðingu samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða innan Evrópusambandsins.
    Enn fremur var haldinn sérstakur fræðslufundur um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í félagsmálaráðuneytinu vorið 2005. Ráðuneytisstjórar ráðuneytanna sem og aðrir úr yfirstjórn þeirra voru boðaðir en dr. Heidemarie Wünsche-Piétzka hélt þar einnig erindi.
    Í upphafi áranna 2006, 2007 og 2008 héldu Jafnréttisstofa og jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna vinnu- og fræðslufundi á Akureyri. Á þeim fundum var lagður grunnur að samstarfi ársins ásamt því að jafnréttisfulltrúar fengu fræðslu um starfsemi Jafnréttisstofu og kynningu á verkefnum og rannsóknum sem unnið var að á hverjum tíma. Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna hafa jafnframt sótt ýmis námskeið og fyrirlestra um jafnréttismál, bæði hér á landi og erlendis.
    Haustið 2007 hélt Jafnréttisstofa námskeiðið Jafnrétti í framkvæmd fyrir jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna ásamt öðru starfsfólki sem vinnur að jafnréttismálum. Á námskeiðinu var fjallað um stöðu kynjanna í íslensku samfélagi, jafnréttislöggjöfina og fjölskylduvæna vinnumenningu. Markmið námskeiðsins var að auka þekkingu um jafnréttismál og aðferðir við að koma á jafnrétti, ásamt því að auðvelda vinnu við endurskoðun jafnréttisáætlana ráðuneytanna og framkvæmd þeirra. Námskeiðið var vel sótt.
    Jafnréttisstofa stýrir verkefninu Side by side – samstíga, en það er verkefni sem ætlað er að efla kynjajafnrétti með samþættingu kynjasjónarmiða við stefnumótun og ákvarðanatöku hjá ríkinu. Jafnréttisstofa hlaut styrk úr Progress-áætlun Evrópusambandsins til að vinna þetta verkefni. Í maí 2008 var haldið þriggja daga námskeið fyrir starfsfólk Jafnréttisstofu, jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna og fleiri um samþættingaraðferðina. Fyrirlesari var sænski sérfræðingurinn Ann Boman. Í framhaldi af námskeiðinu hafa nokkur ráðuneyti unnið sérstök samþættingarverkefni sem ætlað er að verða grunnur að handbók um samþættingu. Framhald verður á verkefninu árið 2009.

13. Jafnréttisumsagnir stjórnarfrumvarpa.
    Samstarfshópur þriggja ráðuneyta mun kynna sér starf sambærilegra nefnda annars staðar á Norðurlöndunum. Í framhaldi af því verður unnið að tilraunaverkefni þar sem gefnar verða jafnréttisumsagnir um nokkur stjórnarfrumvörp úr þremur ráðuneytum. Markmiðið er að koma á reglubundnu mati á stjórnarfrumvörpum með tilliti til jafnréttis kynjanna. Til þess verði notaður gátlisti sem hópurinn mun búa til.
    Samstarfshópur þriggja ráðuneyta var skipaður en verkefnið þótti skarast nokkuð við verkefni forsætisráðuneytis um útgáfu gátlista til jafnréttismats á lagafrumvörpum og opinberri stefnumótun. Það var því ákveðið að bíða eftir útgáfu gátlistans. Við endurmat á verkefninu þótti ekki ástæða til að halda því áfram heldur hvetja ráðuneytin til að nýta sér jafnréttisgátlistann við gerð frumvarpa og aðra opinbera stefnumótun.
    Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að það geti „falist í starfi jafnréttisfulltrúa að meta efni frumvarpa með tilliti til jafnréttissjónarmiða. Samkvæmt reglum ríkisstjórnarinnar um undirbúning og meðferð stjórnarfrumvarpa skal fylgja frumvörpum almennt mat á áhrifum þar sem meðal annars séu metin, eftir því sem tilefni er til, áhrif þeirra á tiltekna mikilvæga almannahagsmuni. Ljóst er að þar undir falla áhrif á jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Við þetta mat getur jafnréttisfulltrúinn jafnframt haft jafnréttisgátlista forsætisráðuneytis sér til leiðbeiningar“. Er því litið svo á það sem verkefni jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna að meta efni frumvarpa með tilliti til jafnréttissjónarmiða eða að minnsta kosti sjá til þess að það sé gert.

14. Nefndir og ráð í sveitarfélögum.
    Skoðað verður hlutfall kynjanna í sveitarstjórnum og byggðaráðum sem og öðrum nefndum og ráðum sveitarfélaga. Þá verði einnig kannað hvernig hlutfall kynjanna skiptist í nefndum miðað við eðli nefndanna. Markmið verkefnisins er að komast að því hvernig skipting kynjanna er í nefndum sveitarfélaga. Ef skiptingin er meiri en 60:40 verði leitað leiða til að jafna hlut kynjanna í nefndum sveitarfélaganna.
    Félagsmálaráðuneytið og Jafnréttisstofa óskuðu eftir upplýsingum frá sveitarfélögum um hlutfall kynjanna í sveitarstjórnum, nefndum, ráðum og öðrum stjórnum á þeirra vegum vorið 2006. Niðurstaðan úr þeirri könnun var að við lok kjörtímabilsins 2002–2006 voru 62% þeirra er sitja í nefndum, ráðum og stjórnum sveitarfélaganna karlar og 38% konur. Gefinn var út bæklingur til nýkjörinna sveitarstjórnarmanna vorið 2006 þar sem vakin var athygli á jafnréttismálum, þar á meðal að lykilatriði til að ná jöfnum hlut kvenna og karla í nefndum, ráðum og stjórnum sveitarfélagsins væri að tilnefna bæði karla og konur til starfans. Þá var haldinn kynningarfundur og námskeið með fulltrúum í jafnréttisnefndum sveitarfélaganna í september 2006. Þar var sérstaklega fjallað um jafnréttislögin og mikilvægi þess að skipa bæði karla og konur í nefndir, ráð og stjórnir á vegum sveitarfélaganna.
    Jafnréttisstofa hlaut styrk frá Evrópusambandinu til þess að leiða verkefni um jafnrétti í sveitarfélögum sem meðal annars felur í sér gerð svokallaðrar Jafnréttisvogar. Verkefnið hlaut nafnið Tea for Two, illustrating equality og var það unnið með samstarfsaðilum í Noregi, Finnlandi, Grikklandi og Búlgaríu. Þar eru sérstaklega skoðaðar skipanir í nefndir, ráð og stjórnir á vegum sveitarfélaganna. Slík úttekt er ein af þeim leiðum sem unnt er að nota þegar meta á jafnrétti hjá sveitarfélögunum. Niðurstöður Jafnréttisvogarinnar liggja fyrir og eru þær aðgengilegar á heimasíðu verkefnisins (http://www.tft.gender.is/). Hluti af verkefninu var hönnun mælitækis á jafnrétti og myndræn framsetning niðurstaðna en áætlað er að nýta það tæki áfram þó Evrópusamstarfinu sé formlega lokið. Nánar er fjallað um niðurstöður könnunarinnar í kaflanum um stjórnmálaþátttöku kvenna og karla í II. hluta þessarar skýrslu.

15. Áhrif laga um fæðingar- og foreldraorlof á jafnrétti kynjanna.
    Meginhugmynd verkefnisins er að rannsaka hvaða áhrif lög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, hafa haft á jafnrétti kynjanna. Er gert ráð fyrir að niðurstöður rannsóknarinnar liggi fyrir eigi síðar en árið 2007. Fyrir liggur að 90% feðra taka nú að meðaltali 97 daga fæðingarorlof sem er einstakt í alþjóðlegum samanburði. Í ljósi þess er afar mikilvægt að rannsaka ítarlega áhrif þessara breyttu aðstæðna.
    Ákveðið var að vinna þetta verkefni samhliða verkefninu Fæðingarorlof og atvinnulíf eins og tekið er fram í nefndaráliti félagsmálanefndar Alþingis um tillögu til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára frá 130. löggjafarþingi.
    Undirbúningur verkefnisins hófst árið 2005 en um var að ræða margþætta rannsókn sem nokkrir aðilar komu að. Meðal þess sem var kannað var reynsla foreldra af hinu nýja fæðingarorlofskerfi sem og stöðu foreldra þegar þeir snúa aftur til vinnu að loknu fæðingar- og foreldraorlofi. Jafnréttisstofa hélt utan um verkefnið og voru niðurstöður þess birtar í skýrslunni Fæðingar- og fjölskylduorlof. Reynslan af lagasetningunni árið 2000 sem kom út árið 2007. Skýrslan hefur einnig verið gefin út á ensku og nefnist Parental Leave in Iceland. Bringing the Fathers in. Báðar útgáfurnar eru aðgengilegar á heimasíðu Jafnréttisstofu (http://www.jafnretti.is).
    Enn fremur hefur verið borin saman ólík löggjöf Norðurlandanna um fæðingarorlof og nýting þess en niðurstöður þeirrar úttektar voru gefnar út í skýrslu sem ber heitið Þróun löggjafar um fæðingarorlof á Norðurlöndum og reynsla þjóðanna. Skýrslan er aðgengileg á íslensku, sænsku og ensku á heimasíðu Jafnréttisstofu (http://www.jafnretti.is).
    Á gildistíma þessarar áætlunar hefur Jafnréttisstofa tekið þátt í nokkrum Evrópuverkefnum sem tengjast á einhvern hátt fæðingar- og foreldraorlofi eða samhæfingu fjölskyldu- og einkalífs. Þessi verkefni eru Modern Men in Enlarged Europe I og II ásamt FOCUS, Fostering Caring Masculinities. Markmið Modern Men verkefnisins var að breyta kynjaímyndum með því að hvetja karla til þess að taka upp ný og nútímaleg hlutverk. Markmið FOCUS verkefnisins var að rannsaka og fjölga tækifærum karla til að samhæfa einka- og atvinnulíf í þeim tilgangi að styrkja og ýta undir vilja þeirra til að taka að sér umönnunarhlutverk. Nánari upplýsingar um þessi verkefni eru einnig aðgengilegar á heimasíðu Jafnréttisstofu (http://www.jafnretti.is).

16. Fæðingarorlof og atvinnulíf.
    Meginmarkmið verkefnisins er að kanna hvert viðhorf foreldra er til töku fæðingarorlofs sem og hvaða forsendur liggi til grundvallar töku fæðingarorlofs hjá konum og körlum. Enn fremur er markmiðið að skoða hvernig vinnumarkaðurinn bregst við þegar foreldrar hyggjast taka fæðingarorlof. Gert er ráð fyrir að skipuð verði nefnd fjögurra fulltrúa sem ljúki störfum með skilum á skýrslu til félagsmálaráðherra ásamt áliti sínu.
    Markmiðið er að fá raunhæfa niðurstöðu um það hvort og þá hvernig lögin um fæðingar- og foreldraorlof hafi haft áhrif á samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs.
    Félagsmálaráðuneytið átti aðild að könnun Bryndísar Jónsdóttur og Capacent Gallup frá árinu 2006 sem birtist í skýrslunni Upplifun foreldra á fæðingarorlofi.
    Ákveðið var að vinna þetta verkefni samhliða verkefninu Áhrif laga um fæðingar- og foreldraorlof á jafnrétti kynjanna til að fá heildarmynd af stöðu mála og er því vísað til umfjöllunar um það verkefni.

17. Jafnrétti í vinnumiðlun.
    Kannað verði hvort úrræði svæðisvinnumiðlana nýtist körlum og konum jafn vel. Jafnframt verði kannað hvort um kynbundna vinnumiðlun og ráðgjöf sé að ræða og ef svo er verði leitað leiða til að brjóta niður það kynbundna val.
    Markmið verkefnisins er að koma í veg fyrir kynbundnar hindranir í vinnumiðlun og stuðla að því að konum og körlum bjóðist í jöfnum mæli störf á svæðisvinnumiðlunum.
    Verkefnið er hluti af tilraunaverkefni félags- og tryggingamálaráðuneytisins á sviði samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða. Verkefnið felur í sér að kannað verði hvort vinnumarkaðsúrræði Vinnumálastofnunar nýtist körlum og konum jafn vel og hvort um sé að ræða kynbundna vinnumiðlun og ráðgjöf. Verkefnið felur því meðal annars í sér að þjónusta við atvinnuleitendur hjá Vinnumálastofnun verður kyngreind. Ef niðurstaðan verður sú að þjónustan sé kynbundin verður leitað leiða til að koma í veg fyrir það. Þar með verður stuðlað að því að konum og körlum bjóðist í jöfnum mæli störf fyrir milligöngu stofnunarinnar og að jafnréttissjónarmiða verði betur gætt við skipulag vinnumarkaðsaðgerða. Verkefnið er enn í vinnslu hjá Vinnumálastofnun.

18. Framkvæmdaáætlun um launajafnrétti.
    Félagsmálaráðuneytið standi að gerð framkvæmdaáætlunar til að ná fram fullu launajafnrétti kynjanna í samstarfi við heildarsamtök starfsmanna ríkis og sveitarfélaga. Við gerð áætlunarinnar verði tekið tillit til 14. og 22. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, og niðurstaðna rannsókna sem unnið hefur verið að á þessu sviði. Enn fremur er gert ráð fyrir að félagsmálaráðherra hefji viðræður við aðila vinnumarkaðarins um að sambærilegar áætlanir verði gerðar sem taki til almenna vinnumarkaðarins. Markmið verkefnisins er að takast á við launamun kynjanna á markvissan hátt.
    Ríkisstjórn Íslands sem tók við eftir alþingiskosningar í maí 2007 fjallaði sérstaklega um launajafnrétti í stefnuyfirlýsingu sinni frá 23. maí sama ár. Í samræmi við stefnuyfirlýsinguna ákváðu félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra í september 2007 að skipa þrjá starfshópa til að fylgja eftir markmiðum er fram koma í stefnuyfirlýsingunni á sviði jafnréttismála og vikið var að hér að framan. Félagsmálaráðherra skipaði tvo hópanna. Öðrum þeirra var ætlað að leita leiða til að eyða óútskýrðum launamun kynjanna á almennum vinnumarkaði sem og að jafna stöðu kvenna og karla í nefndum og við stjórnun stofnana og fyrirtækja. Hinum hópnum var falið að vera ráðherra til ráðgjafar um framvindu mála á þessu sviði og vinna eða láta vinna mat á raunverulegum árangri aðgerða. Fjármálaráðherra skipaði þriðja starfshópinn til að fjalla um sambærileg málefni tengdum opinberum vinnumarkaði. Meginverkefni þess starfshóps var að setja fram áætlun um hvernig mætti minnka óútskýrðan launamun kynjanna á opinberum vinnumarkaði með það að markmiði að hann minnki um helming á kjörtímabilinu sem og að endurmeta kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meiri hluta. Nánar er fjallað um verkefni þessara nefnda undir kaflanum um kynbundinn launamun í II. hluta þessarar skýrslu.

19. Karlar til ábyrgðar.

    Verkefni þetta er framhald verkefnis í fyrri framkvæmdaáætlun. Mikilvægt er að þróaðar verði aðferðir til að aðstoða karla sem vilja hætta að beita konur ofbeldi. Markmið verkefnisins er að boðið verði upp á meðferð fyrir karla sem beita konur ofbeldi.
    Félagsmálaráðherra setti verkefnið Karlar til ábyrgðar aftur á laggirnar á fyrri hluta árs 2006. Markmið verkefnisins er að veita körlum, sem beitt hafa heimilisofbeldi, meðferð og aðstoð séu þeir reiðubúnir að leita sér hjálpar vegna beitingu ofbeldis. Verkefnið felur í sér einstaklings- og hópmeðferð fyrir karla sem beita maka sína ofbeldi sem og stuðning við maka þeirra karla sem leita sér aðstoðar. Fagleg ábyrgð verkefnisins er í höndum Andrésar Ragnarssonar og Einars Gylfa Jónssonar, sálfræðinga. Gert er ráð fyrir sérstakri verkefnisstjórn með þátttöku Jafnréttisstofu, heilbrigðisráðuneytisins og Samtaka um kvennaathvarf en fulltrúi Jafnréttisstofu er verkefnisstjóri. Hlutverk verkefnisstjórnarinnar er meðal annars að skilgreina þróun verkefnisins til framtíðar í samráði við meðferðaraðila, fylgjast með daglegri starfsemi og standa fyrir mati á árangri verkefnisins. Um 50 karlmenn hafa nýtt sér þjónustu sálfræðinganna frá 2006.

20. Starfs-, sí- og endurmenntun.
    Meginhugmynd verkefnisins er að efla starfs-, sí- og endurmenntun á vinnumarkaði ekki síst ófaglærðra kvenna svo þær verði hæfari til að takast á við verkefni í ört vaxandi tækniþróun á vinnumarkaði. Hér er átt við námskeið á vegum stéttarfélaganna og háskólanna. Athuga þarf hverjir nýta sér þessi tækifæri og jafnframt hverjir gera það ekki og hvers vegna. Markmið verkefnisins er að tryggja að kynin geti bæði nýtt sér möguleika starfs-, sí- og endurmenntunar.
    Verkefni þetta var fært til menntamálaráðuneytis þar sem starfs- og endurmenntun heyrir aðallega undir málefnasvið þess ráðuneytis. Mikil þróun hefur átt sér stað á undanförnum árum á sviði starfs-, sí- og endurmenntunar á vinnumarkaði. Mikið framboð er á starfstengdu námi sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur viðurkennt og öðrum námskeiðum á vegum fræðslustofnana atvinnulífsins og Símenntunarmiðstöðva sem eru staðsettar víðs vegar um landið. Þá lagði menntamálaráðherra fram frumvarp um framhaldsfræðslu á Alþingi í desember 2008. Frumvarpinu er ætlað að styrkja lagalegan grundvöll þeirrar margháttuðu og umfangsmiklu framhaldsfræðslu sem fram fer í landinu, jafnframt því sem lagður er grunnur að frekari eflingu þeirrar starfsemi.

21. Kynbundinn launamunur.
    Meginhugmynd verkefnisins er að meta hugsanlegar aðferðir og leiðir til að koma í veg fyrir kynbundinn launamun. Nefnd verður skipuð sem metur aðferðir til að mæla kynbundinn launamun og lýkur störfum hennar með skýrslu til félagsmálaráðherra. Markmið verkefnisins er að finna þá aðferð sem er líklegust til að koma í veg fyrir kynbundinn launamun.
    Árið 2006 stóðu félagsmálaráðuneytið og Jafnréttisstofa fyrir verkefninu Mælistikur á launajafnrétti í samvinnu við stjórnvöld á hinum Norðurlöndunum. Meginmarkmið verkefnisins var að auka þekkingu og skilning á launamuni kynjanna á Norðurlöndunum. Verkefnið var unnið hér á landi undir forystu Lilju Mósesdóttur. Aðrir höfundar skýrslu verkefnisins voru Andrea G. Dofradóttir, Þorgerður Einarsdóttir, Kristjana Stella Blöndal, Einar Mar Þórðarson og Sigurbjörg Ásgeirsdóttir. Lokaskýrsla verkefnisins er aðgengileg á heimasíðu Jafnréttisstofu (http://www.jafnretti.is).

22. Launamyndun og kynbundinn launamunur.
    Gert var ráð fyrir að könnun sem gerð var árið 1994 um þætti sem hafa áhrif á laun og starfsframa kvenna og karla yrði endurtekin í þeim tilgangi að kanna hvort sömu þættir hefðu áhrif á laun og starfsframa hjá konum og körlum rúmum áratug síðar.
    Var m.a. gert ráð fyrir að skoða hugsanleg áhrif laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000.
    Félagsmálaráðuneytið lét gera rannsókn sem fól í sér endurtekningu á rannsókninni sem gerð var árið 1995 um þætti sem hafa áhrif á laun og starfsframa kvenna og karla. Áhersla var lögð á að rannsóknin yrði framkvæmd á sem líkastan hátt og rannsóknin frá árinu 1995 til að tryggja sem bestan samanburð. Niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar haustið 2006 og eru þær aðgengilegar á heimasíðu ráðuneytisins www.felagsmalaraduneyti.is). Niðurstaðan varð sú að þegar tekið hefur verið tillit til starfsstéttar, aldurs, starfsaldurs og vinnutíma var óútskýrður munur á launum karla og kvenna árið 2006 15,7%, þ.e. konur voru með 15,7% lægri laun en karlar, en var 16% árið 1994. Þessi munur telst ekki marktækur sem bendir til þess að nauðsynlegt sé að grípa til sértækra aðgerða eigi árangur að nást.

iv. Fjármálaráðuneyti.
23. Úttekt á áhrifum launakerfis ríkisins á launamun kvenna og karla.
    Af hálfu fjármálaráðuneytisins hefur að undanförnu verið unnið markvisst að því að launagögn í nýjum fjárhags- og mannauðskerfum sem ríkið er að innleiða standist þær kröfur sem gera verður til þess að unnt sé að meta kynbundinn launamun. Hefur sú vinna legið niðri um nokkurt skeið þar sem undirbúningur og innleiðing kerfanna hefur tekið lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir. Áætlað var að ljúka frágangi launagagna á ofangreindum forsendum árið 2004 svo hægt yrði að framkvæma úttekt á árinu 2005. Í kjölfarið er lagt til að fylgst verði reglulega með þróun kynbundins launamunar.
    Markmið verkefnisins er að hægt sé að meta kynbundinn launamun með launagögnum úr upplýsingakerfum ríkisins og að gerð verði úttekt á áhrifum launakerfis ríkisins á launamun karla og kvenna. Þar á einnig að skoða frekari þóknanir í samræmi við 2. mgr. 14. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.
    Af hálfu fjármálaráðuneytisins hefur verið unnið að því að nýta tæknilega möguleika í mannauðskerfi ríkisins og skráningar í því, svo sem með starfaflokkunarkerfinu ÍSTARF, til að fylgjast með þróun á kynbundnum launamun með reglubundnum hætti. Ráðuneytið hefur þess utan komið að tveimur rannsóknum á óútskýrðum kynbundnum launamun hjá ríkisstarfsmönnum í samstarfi við stéttarfélög og bandalög þeirra. Annarri rannsókninni, sem var unnin með SFR – stéttarfélagi í almannaþjónustu, lauk árið 2008. Hún tók til allra stofnana þar sem félagsmenn SFR starfa og fólst í innri könnun samstarfsnefnda SFR og stofnana á launasetningu karla og kvenna. Nálægt 80% ríkisstofnana tóku þátt í þeirri könnun sem náði til um 5.000 félagsmanna SFR hjá ríkinu. Önnur rannsókn í samstarfi við Bandalag háskólamanna sem hefur það að markmiði að meta áhrif dreifstýrðs launakerfis, sem tekið var upp árið 1997, á óútskýrðan launamun kvenna og karla er enn í gangi.
    Ríkisstjórn Íslands sem tók við eftir alþingiskosningar í maí 2007 fjallaði sérstaklega um launajafnrétti í stefnuyfirlýsingu sinni frá 23. maí sama ár. Í samræmi við stefnuyfirlýsinguna ákváðu félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra í september 2007 að skipa þrjá starfshópa til að fylgja eftir markmiðum er fram koma í stefnuyfirlýsingunni á sviði jafnréttismála og vikið var að hér að framan. Félagsmálaráðherra skipaði tvo hópanna. Öðrum þeirra var ætlað að leita leiða til að eyða óútskýrðum launamun kynjanna á almennum vinnumarkaði sem og að jafna stöðu kvenna og karla í nefndum og við stjórnun stofnana og fyrirtækja. Hinum hópnum var falið að vera ráðherra til ráðgjafar um framvindu mála á þessu sviði og vinna eða láta vinna mat á raunverulegum árangri aðgerða. Fjármálaráðherra skipaði þriðja starfshópinn til að fjalla um sambærileg málefni tengdum opinberum vinnumarkaði. Meginverkefni þess starfshóps var að setja fram áætlun um hvernig mætti minnka óútskýrðan launamun kynjanna á opinberum vinnumarkaði með það að markmiði að hann minnki um helming á kjörtímabilinu sem og að endurmeta kjör kvenna hjá hinu opinbera, einkum þeirra stétta þar sem konur eru í miklum meiri hluta. Nánar er fjallað um verkefni þessara nefnda undir kaflanum um kynbundinn launamun í II. hluta þessarar skýrslu.

24. Úttekt á almannatryggingakerfinu.
    Sem liður í norrænu verkefni um samþættingu jafnréttis- og fjárlagagerðar sem fjármálaráðuneytið er aðili að er áætlað að gera úttekt á því hvernig fjármunum og öðrum úrræðum á sviði almannatryggingakerfisins er skipt með tilliti til kynjanna. Hugmyndin er að skoða hvernig fjárveitingar einstakra bótaflokka skiptast milli kynjanna, en einnig hvort þættir í bótakerfinu sjálfu eða rétturinn til greiðslu bóta sé hliðhollur öðru kyninu fremur en hinu.
    Markmið verkefnisins er að kanna hvort kynin hafi sama aðgang að úrræðum í almannatryggingakerfinu.
    Vinnu við þetta verkefni í norræna samstarfshópnum lauk á árinu 2006. Í hópnum var einn fulltrúi frá fjármálaráðuneyti hvers lands og einn fulltrúi sem starfar að jafnréttismálum í hverju Norðurlandanna. Starfshópurinn setti fram þá tillögu að unnið yrði að samþættingu fjárlagagerðar og jafnréttis í hverju landi fyrir sig með tilraunaverkefni, en auk þess yrði ráðinn verkefnastjóri sem hefði yfirumsjón með fræðslu ásamt því að halda utan um verkefnið. Með íslenska verkefninu var gerð athugun á sviði almannatryggingakerfisins. Stýrihópur var skipaður sem stjórnaði verkefninu en í honum áttu sæti fulltrúar frá fjármálaráðuneytinu, Jafnréttisstofu og Tryggingastofnun ríkisins, en fulltrúi Jafnréttisstofu stjórnaði verkefninu. Verkefninu lauk með ráðstefnu í Helsinki í nóvember árið 2006. Fyrir liggur skýrsla verkefnastjóra norræna hópsins og einnig samantekt á verkefnum einstakra landa. Samantekt á íslenska verkefninu má finna á vef Norrænu ráðherranefndarinnar (http://www.norden.org/ pub/sk/index.asp?subject=Ligestil).

v. Hagstofa Íslands.
25. Konur og karlar í atvinnurekstri.
    Unnið verður að þróun aðferða við að meta þátttöku kvenna og karla í atvinnurekstri á grundvelli fyrirtækjaskrár til hagskýrslugerðar sem er í undirbúningi hjá Hagstofu Íslands, auk annarra gagnasafna sem Hagstofan hefur aðgang að. Markmið verkefnisins er að í framtíðinni verði hægt að gera reglubundnar mælingar sem veita margþættar upplýsingar um hlut kvenna og karla í atvinnurekstri.
    Árið 2005 gaf Hagstofa Íslands út Konur í forystu fyrirtækja 1999–2004 í ritröð Hagtíðinda (90. árg. 49. tbl.). Í heftinu koma meðal annars fram tölulegar upplýsingar um framkvæmdastjóra, stjórnarmenn og stjórnarformenn fyrirtækja eftir kyni, stærð fyrirtækja og atvinnugreinum. Þá er aldursskipting framkvæmdastjóra greind eftir kyni auk þess sem þar er sýndur samanburður á skiptingu framkvæmdastjóra og stjórnarformanna eftir því hvort fyrirtæki voru stofnuð 1998 og fyrr eða 1999–2004. Með vinnslu og birtingu þessa efnis hefur verið lagður grunnur að mótun upplýsinga um konur og karla í atvinnurekstri, í anda samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða. Ætlunin er að uppfæra framangreint talnaefni reglulega og skoða möguleika á greiningu fleiri þátta um þessi mál en samfelldar upplýsingar liggja fyrir varðandi árin 1999–2007.
    Hagstofan hefur kannað laun kvenna og karla eftir atvinnugreinum, starfsstéttum og starfsgreinum á almennum vinnumarkaði. Endurskoðun hagtalna lauk formlega um áramótin 2007/2008 með útgáfu Hagtíðinda og eru tölur uppfærðar reglulega.
    Á grundvelli samstarfssamnings Hagstofu Íslands, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um rannsókn á launamun kvenna og karla, sem gerður var í framhaldi af bókun með kjarasamningi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá 17. febrúar 2008, hefur Hagstofan unnið að framkvæmd þríþætts rannsóknarverkefnis, þar sem dregnar eru saman helstu aðferðir og skýringabreytur sem fræðikenningar um launamun hafa sett fram til þessa, fjallað er um kosti og galla þeirra gagna sem Hagstofan hefur tiltæk til að reikna launamun karla og kvenna, auk þess sem ætlunin er að setja fram tillögur að grundvelli útreiknings á launamun karla og kvenna. Áætlað er að vinnunni ljúki með gerð skýrslu í febrúar 2009. Í framhaldinu verða teknar ákvarðanir um frekari útgáfu hagtalna á grundvelli niðurstaðna rannsóknarinnar.

vi. Heilbrigðisráðuneyti.
26. Verkefnisstjórn um heilsufar kvenna.
    Verkefnisstjórn um heilsufar kvenna starfi áfram á vegum ráðuneytisins. Verkefnisstjórnin forgangsraðar verkefnum og gerir tillögur um aðgerðir til að ná markmiðum hennar.
    Markmið verkefnisins er að þjónusta heilbrigðiskerfisins taki í auknum mæli mið af ólíkum og mismunandi aðstæðum kynjanna.
    Í júní 2004 stóð verkefnisstjórn um heilsufar kvenna fyrir málþingi undir yfirskriftinni: Reykingar – Konur og karlar: Þarf kynbundna nálgun á forvörnum og reykleysismeðferð? Á málþinginu var meðal annars fjallað um umfang sjúkdómabyrði vegna reykinga, samfélagslegan kostnað, umfang tóbaksnotkunar, þátt ímyndar í reykingum kvenna, reykingar kvenna um og eftir barnsburð, aðferðir til að sporna við reykingum, tóbaksvarnastarf á Íslandi síðustu ár og reykleysismeðferð. Efni frá málþinginu er aðgengilegt á heimasíðu ráðuneytisins (http://www.heilbrigdisraduneyti.is/frettir/undirflokkur/nr/1646).
    Verkefnisstjórn um heilsufar kvenna hefur sérstaklega kannað heimilisofbeldi gegn konum og kynbundið ofbeldi með viðræðum við fagfólk sem kemur að þessum málum á einhvern hátt. Ofbeldi gegn konum er eitt af stærstu heilbrigðisvandamálum heims að mati Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem hefur um margra ára skeið vakið athygli á þessu og hvatt til aðgerða. Talið er að um þriðjungur kvenna sæti einhvers konar ofbeldi á lífsleiðinni. Rannsóknir hafa sýnt að algengasta mynd ofbeldis er heimilisofbeldi þar sem gerandinn er yfirleitt eiginmaður, sambýlismaður eða ættingi konunnar sem fyrir ofbeldinu verður. Vegna skorts á fullnægjandi greiningu og skráningu ofbeldis gagnvart konum hérlendis er lítið vitað um umfang vandans. Verkefnisstjórn um heilsufar kvenna hefur í störfum sínum hvatt til þess að ráðin verði bót á því. Skipunartími verkefnisstjórnarinnar er runninn út og er málið til skoðunar í heilbrigðisráðuneytinu.

27. Áhrif klámvæðingar á ungt fólk.
    Markmið verkefnisins er að sporna gegn áhrifum klámvæðingar á ungt fólk með rannsókn á þeim áhrifum og endurskilgreiningu á kynfræðslu í skólum. Með þessu verði stuðlað að kynheilbrigði ungs fólks.
    Starfshópur var settur á laggirnar í tengslum við verkefnið hjá landlæknisembættinu. Í framhaldi af því var ráðinn starfsmaður í hlutastöðu hjá Lýðheilsustöð til að kynna sér rannsóknir á þessu sviði. Verkefnið stendur enn yfir. Lýðheilsustöð hefur meðal annars annast útgáfu bæklinga um kynlíf unglinga sem ætlaður er fyrir unglingana sjálfa og foreldra þeirra.
28. Heilsufarskönnun.
    Ráðist verði í gerð heilsufarskannana til að afla á staðlaðan og reglubundinn hátt upplýsinga um lífshætti, líðan og heilsufar og greina ólíkar þarfir kynjanna fyrir heilbrigðisþjónustu. Kannanirnar verði hluti af evrópsku heilsufarskönnuninni sem þekkist undir heitinu Eurohis-könnun en það gerir mögulegan samanburð við aðrar Evrópuþjóðir. Jafnframt að stefnt sé að því að ná fram þeim langtímamarkmiðum í heilbrigðismálum sem fram koma í heilbrigðisáætlun til ársins 2010. Auk þess er markmiðið að framfylgja stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um heilbrigði fyrir alla.
    Hjá Lýðheilsustöð hefur verið unnin könnun á mati á eigin heilsu þar sem kynin eru borin saman. Vinnsla gagna stendur yfir hjá Lýðheilsustofnun en fjallað er lítillega um niðurstöður hennar undir kaflanum Lífsvenjur og heilsa í II. hluta skýrslunnar.

29. Notkun kvenna og karla á heilsugæslunni.
    Safnað verði upplýsingum um notkun kvenna og karla á heilsugæslunni og hvaða úrlausnir þau fá þar. Kannað verði hvort konur og karlar sækist eftir og fái ólíka þjónustu og hvort úrlausnir séu háðar því hvort kynið á í hlut.
    Í gagnagrunni um samskipti almennings við heilsugæslu eru til upplýsingar um kynja- og aldursskiptingu þeirra sem leita til heilsugæslu. Engin úrvinnsla hefur farið fram á þessum gögnum.

30. Mat á árangri og gæðum heilbrigðisþjónustunnar.
    Lagt verði mat á gæði og árangur heilbrigðisþjónustunnar á reglubundinn hátt. Tilgangurinn er að meta þörf fyrir hugsanlegar breytingar á áherslum í heilbrigðisþjónustu. Þrjú svið eru einkum nefnd vegna heilsu kvenna, forvarnir og meðferðarúrræði vegna reykinga, áfengis- og vímuefnameðferð kvenna og skimun vegna brjóstakrabbameins.
    Reglulega eru gerðar þjónustu- og gæðakannanir fyrir heilbrigðisþjónustuna. Meðal annars hefur Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gert slíka könnun í samvinnu við landlæknisembættið og Lýðheilsustöð.

31. Feðrafræðsla fyrir verðandi feður.
    Áfram verði unnið að því að koma á sérstakri feðrafræðslu sem hluta af þeim undirbúningi sem verðandi foreldrum er boðið upp á. Jafnframt verði áframhaldandi átak til að tryggja að starfsfólk heilbrigðistofnana sé meðvitað um mikilvægi þess að feður séu virkir þátttakendur við meðgöngu, fæðingu og umönnun barna.
    Meginmarkmið verkefnisins er aukinn þáttur feðra í meðgöngu, fæðingu og umönnun
barna.
    Feðrafræðsla hefur fylgt fæðingafræðslunámskeiðum Miðstöðvar mæðraverndar í mörg ár. Við endurskipulagningu á fyrirkomulagi mæðraverndar árið 2006 var fyrirkomulag feðrafræðslunnar einnig endurskoðað. Frá hausti 2007 hefur feðrafræðsla staðið öllum verðandi feðrum til boða og að auki eru feður þeirra, verðandi afar, einnig velkomnir með sonum sínum. Fræðslan er haldin einu sinni í mánuði og er fjallað um föðurhlutverkið, fjölskylduna og uppeldi barna. Þessi fræðsla er eingöngu fyrir karla.
    Til að byrja með mættu örfáir karlar, en þegar leið á jókst aðsóknin og eru nú að jafnaði 25–35 karlar sem mæta í hvert skipti. Þetta hefur mælst vel fyrir og það er almenn ánægja með þessa fræðslu. Tveir karlmenn sinna fræðslunni, annar er sálfræðingur og hinn er sjúkrahúsprestur.

32. Áhættuhegðun karla.
    Mun fleiri karlar slasast, svipta sig lífi og misnota fíkniefni en konur. Hér er um að ræða mikið heilbrigðisvandamál og mikilvægt að leita orsaka þess. Ráðuneytið mun í samstarfi við landlæknisembættið halda áfram að kanna þátt karlmennskuímyndar í þeirri hegðun karla sem veldur slysum, sjálfsvígum og fíkniefnamisnotkun.
    Meginmarkmið verkefnisins er að draga úr sjálfsvígum, slysum og misnotkun fíkniefna og jafnframt að koma í veg fyrir vangreind þunglyndis- og sjálfsvígsatferli.
    Slysaskrá Íslands sem komið var á fót árið 2002 er mikilvægt tæki sem nýtist við að greina áhættuhegðun karla, en skráning er kynbundin og sýnir margvíslegar breytur sem eru gagnlegar við skoðun þessara mála. Karlar og drengir eru mun fleiri en konur og stúlkur meðal þeirra sem slasast, svipta sig lífi og misnota vímuefni. Landlæknisembættið og Lýðheilsustöð hafa unnið töluvert starf á þessu sviði og má nefna eftirfarandi verkefni:
     *      Geðrækt er samvinnuverkefni Geðhjálpar, Lýðheilsustöðvar og geðdeildar Landspítala. Geðrækt er víðtækt verkefni sem var áður hjá landlæknisembættinu en var flutt til Lýðheilsustöðvar. Verkefnið snýr meðal annars að uppbyggingu á geðheilsu og forvörnum.
     *      Á vegum landlæknisembættisins er unnið að verkefni um forvarnir gegn sjálfsvígum og nefnist það Þjóð gegn þunglyndi og beinist það gegn þunglyndi og sjálfsvígum.
     *      Samstarf hefur verið við bandaríska vísindamenn um rannsókn vegna viðtala við aðstandendur þeirra sem framið hafa sjálfsvíg og áhættuþættir sjálfsvíga verið kannaðir. Unnið hefur verið að þessu verkefni en ekki hefur tekist að afla nauðsynlegra styrkja og hefur því framgangur þess ekki verið eins og stefnt var að í upphafi.
    Auk framangreinds hefur landlæknisembættið verið með samvinnuverkefni um þróun geðheilbrigðisþjónustu í samfélaginu almennt.

33. Sérstök herferð í forvörnum gegn fíkniefna- og tóbaksneyslu.
    Í herferðum er varða varnir gegn fíkniefna- og tóbaksneyslu verði unnið eftir þeim sjónarmiðum að forsendur neyslu kvenna og stúlkna annars vegar og karla og pilta hins vegar kunni að vera ólíkar. Gerðar verði tilraunir í þá veru að beina áróðri og fræðslu sérstaklega til ungra stúlkna með það að markmiði að koma í veg fyrir aukna áfengis- og tóbaksneyslu þeirra.
    Nokkur verkefni ber að nefna hér:
          Verkefnið Ábyrgð öllum í hag – þar er tekið fram að dyraverðir skulu vera af báðum kynjum.
          Gefinn var út sérstakur bæklingur fyrir ungt fólk: Hvað veist þú um áfengi. Þar er talað um ólík áhrif áfengis á karla og konur.
          Áfengi, vímuefni og meðganga – bæklingur gefinn út 2005 (þýddur á nokkur tungumál).
          Á fengisauglýsingar – um áfengisdrykkju á meðgöngu.
          Staðreyndir um vímuefni – meðal annars er fjallað um áhættu á meðgöngu.
          Hollráð heilsunnar – pistill um tengsl brjóstakrabbameins og áfengis.
          Reykingar og meðganga – bæklingur.
          Konur og reykingar – bæklingur.
          Hjartavernd – gefinn út bæklingur um konur og hjartavernd.
          Spjöld sem sýna staðreyndir um afleiðingar tóbaksneyslu á stúlkur og stráka.
          Pistlar á heimasíðu um konur og reykingar, reykingar á meðgöngu og fleira.
          Unnið er að auglýsingu þar sem fólk er hvatt til að hætta að reykja saman (bæði kyn) vegna áforma um að eignast barn.
          6H-heilsunnar skólafræðsla – tekin fyrir áhrif á bæði kyn.

34. Jafnrétti og lýðheilsa.
    Stefnt verði að því að Lýðheilsustöð verði efld á sviði jafnréttismála sem snerta lýðheilsu. Lýðheilsustöð geti þannig sinnt forvörnum á sviði jafnréttismála með það að markmiði að koma í veg fyrir kynbundinn heilsufarsvanda meðal þjóðarinnar, t.d. með kynjamiðuðu áróðurs- og fræðslustarfi. Þá gæti Lýðheilsustöð framkvæmt rannsóknir á sviði jafnréttis og heilsufars til að ná fram skýrari mynd af því í hverju kynbundinn heilsufarsmunur liggur.
    Meginmarkmið verkefnisins er að vinna gegn kynbundinni mismunun sem aftur veldur kynbundnum heilsufarsvanda meðal þjóðarinnar.
    Hjá Lýðheilsustöð er í undirbúningi viðamikil landskönnun á heilsu og líðan Íslendinga. Niðurstöður þessarar könnunar verða kyngreindar. Stefnt er að því að þessi könnun verði gerð reglulega en að undirbúningi hennar kemur fjöldi fræðimanna og sérfræðinga. Þá liggja fyrir niðurstöður í könnun sem Lýðheilsustöð vann um heilsu og lífskjör skólanema og eru niðurstöðurnar kyngreindar. Nánar er fjallað um niðurstöðurnar í kaflanum Lífsvenjur og heilsa í II. hluta þessarar skýrslu. Lýðheilsustöð stendur nú einnig fyrir rannsókn á munnheilsu Íslendinga. Fyrsta áfanga af fimm er lokið og er niðurstaðna að vænta fljótlega. Gögnin verða meðal annars skoðuð út frá kynjunum.
Lýðheilsustöð aflar einnig gagna um neyslu Íslendinga á áfengi og tóbaki. Gögnin eru kyngreinanleg í flestum tilfellum. ESPAD er reglubundin rannsókn sem gerð er á neyslu áfengis- og vímuefna meðal nemenda í tíunda bekk og eru gögnin kyngreind. Verið er að skoða möguleika þess að gera könnun á viðhorfum ungs fólks til áhættuhegðunar og heilsusamlegra lífshátta. Þá er reglulega gerð framhaldsskólarannsókn á vegum Lýðheilsustöðvar í samstarfi við fyrirtækið Rannsóknir og greiningu og eru þau gögn kyngreind.
    Lýðheilsustöð hefur unnið fræðslu- og átaksverkefni fyrir konur. Meðal verkefna sem má nefna eru bæklingarnir Mataræði á meðgöngu, Tóbaksnotkun á meðgöngu, Næring og lífshættir kvenna á barneignaaldri og Heilbrigt kynlíf. Í undirbúningi er einnig átaksverkefni sem varðar munntóbaksneyslu og beinist það að ungum körlum. Einnig má nefna hér bæklinga fyrir barnshafandi konur: Fólat, fyrir konur sem geta orðið barnshafandi (2007), Matur og meðganga, Áfengi, vímuefni og meðganga og Reykingar og meðganga upplýsingabæklingar en sá síðastnefndi hefur verði þýddur á sjö tungumál og notaður í mæðravernd við fræðslu.
    Kyn er bakgrunnsbreyta í öllum rannsóknum Lýðheilsustöðvar, hvort sem um er að ræða rannsóknir á ungu fólki eða fullorðnu. Sú breyta er ávallt notuð til að skoða hvort um kynjamun sé að ræða þáttum rannsóknarinnar og sjá þannig hvort sérstakra aðgerða sé þörf fyrir annað hvort kynið.

vii. Iðnaðarráðuneyti og viðskiptaráðuneyti.
35. Konur og stjórnun fyrirtækja.
    Konur hasla sér völl í atvinnulífinu í síauknum mæli. Meiri hluti nýrra háskólamenntaðra sérfræðinga eru konur. Konur hafa hins vegar, enn sem komið er, verið í miklum minni hluta í yfirstjórnum íslenskra fyrirtækja. Þrátt fyrir að margt bendi til að það muni breytast með aukinni þátttöku vel menntaðra kvenna í atvinnulífinu eru samt sem áður hindranir í vegi fyrir því að konur veljist til forystu í stórum fyrirtækjum.
    Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti hyggst stuðla að umræðu um þessi mál og hvetja til breytinga. Haustið 2004 skipaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra nefnd sem ætlað var að gera tillögur um aukin tækifæri kvenna í stjórnum fyrirtækja. Í nefndinni sátu fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna, Félags kvenna í atvinnurekstri og Samtaka atvinnulífsins. Formaður var framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Verkefni nefndarinnar var að móta tillögur um það hvernig fjölga mætti konum í forystu íslenskra fyrirtækja og hvort ástæða væri til að beita stjórnvaldsaðgerðum í því skyni. Nefndin skyldi m.a. kanna hvort önnur lönd hefðu gripið til ráðstafana í þessu skyni og bera saman stöðu kvenna í atvinnulífinu hér á landi og í nágrannaríkjunum.
    Markmið verkefnisins var að stuðla að fjölgun kvenna í forystu íslenskra fyrirtækja.
    Nefnd um aukin tækifæri kvenna í stjórnun fyrirtækja lauk störfum haustið 2005 og
skilaði skýrslu þar sem settar eru fram hugmyndir í sex liðum um hvernig auka megi hlut kvenna í stjórnunarstöðum. Þessar hugmyndir eru eftirfarandi:
    a)    Efla umræðu og þekkingu.
    b)    Birta reglulega upplýsingar um fjölda kvenna í stjórnum fyrirtækja.
    c)    Konur efli tengsl sín.
    d)    Leitarskilyrði í stjórnir verði víkkuð og leitað víðar.
    e)    Fyrirtæki setji konur á dagskrá.
    f)    Karlar í áhrifastöðum geri málið að sínu.
    Kostnaður ráðuneytisins við nefndarstarfið og skýrslugerðina var um 2,5 milljónir króna.
    Í samstarfi við Háskólann á Bifröst, ásamt Samtökum atvinnulífsins, Jafnréttisstofu, Jafnréttisráði og Félagi kvenna í atvinnurekstri, var þróað verkefni um mat á stöðu jafnréttis í 100 stærstu fyrirtækjum landsins og árlega birtingu svokallaðrar jafnréttiskennitölu. Þessar kennitölur voru birtar í fyrsta skiptið 2006 en hafa nú komið út fyrir árið 2007 og 2008. Lokaráðstefna um verkefnið var haldin hinn 19. september 2008. Skýrslur um kennitölur allra áranna má finna á rafrænu formi á heimasíðu Háskólans á Bifröst og nánar er fjallað um verkefnið undir kaflanum Konur í atvinnurekstri í II. hluta þessarar skýrslu.
    Þá stóð ráðuneytið að námsstefnunni Virkjum kraft kvenna ásamt Samtökum atvinnulífsins og Félagi kvenna í atvinnurekstri. Námsstefnan var haldin 11. janúar 2007 og sóttu hana um 400 konur. Fluttir voru fyrirlestrar meðal annars um konur sem stjórnendur og skyldur og ábyrgð stjórnarmanna í hlutafélögum. Þá voru nokkrir aðilar fengnir til að ræða um konur sem stjórnendur og val í stjórnir.
    Í framhaldi af þessu verkefni var ákveðið að halda aðra námsstefnu, svipaðs eðlis, en höfða nú til kvenna sem fjárfesta. Námsstefnan var haldin 28. mars 2008 og hét Virkjum fjármagn kvenna. Karin Forseke var fengin til að flytja aðalfyrirlesturinn en hún er fyrsta kona heims til að stýra fjárfestingabanka. Sömu aðilar stóðu að námsstefnunni og var hún haldin fyrir fullu húsi á Hilton Reykjavik Nordica.

36. Stuðningur við konur í atvinnurekstri.
    Meginhugmynd verkefnisins er að vinna úttekt á því hvaða árangur hefur orðið af verkefnum undanfarinna ára sem hafa haft það að markmiði að örva frumkvæði kvenna í atvinnurekstri. Sérstaklega skal skoða stöðu kvenna gagnvart stuðningskerfi atvinnulífsins hvað varðar styrki, lánsfé og hlutabréf.
    Markmið verkefnisins er að afla upplýsinga sem geta orðið grundvöllur að frekari aðferðum til að efla þátt kvenna í atvinnurekstri.
    Í framhaldi af Evrópuverkefninu Konur og eignarhald í viðskiptum og landbúnaði fól ráðuneytið Byggðastofnun að vinna úttekt á því hvaða árangur hefur orðið undanfarin ár af verkefnum sem hafa haft það að markmiði að örva frumkvæði kvenna í atvinnurekstri. Afrakstur þeirrar vinnu var skýrslan Konur og stoðkerfi atvinnulífsins sem kom út í nóvember 2005.
    Í júní 2005 fór þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, fyrir viðskiptasendinefnd kvenna til Mexíkós. Þar ávarpaði hún ráðstefnuna Global Summit of Women, sem fjallaði um hvernig auka mætti efnahagsleg áhrif kvenna. Ráðstefnuna sóttu um 1.000 konur hvaðanæva að úr heiminum, þar á meðal 42 ráðherrar. Ráðherrann fjallaði í ávarpi sínu um hvernig stuðla mætti að því að þátttaka kvenna í atvinnurekstri ykist.
    Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hafði um nokkurn tíma styrkt ellefu vikna viðskiptanámskeið, Máttur kvenna, á vegum Háskólans á Bifröst og héldu ráðuneytin því áfram eftir að skipan þeirra var breytt árið 2007. Námskeiðið er ætlað konum víðs vegar af landinu en unnt er að sækja það í fjarnámi og hefur það nýst konum í dreifbýli vel. Auk þessa hafa ráðuneytin, saman og hvort í sínu lagi, komið að ýmsum tilfallandi verkefnum sem lúta að því að styrkja konur í íslensku atvinnulífi með fjárframlögum.

37. Konur í atvinnurekstri.
    Verkefnið lýtur að hvatningu til kvenna til að hrinda viðskiptahugmyndum sínum í framkvæmd og stuðningi við konur í rekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Verkefnin eru nokkur, sum þeirra eru viðvarandi og byggð á góðri reynslu.
          Þjónusta við konur í atvinnurekstri hjá Impru. Lögð er sérstök áhersla á að veita konum ráðgjöf sem eru að vinna að ákveðinni viðskiptahugmynd og hyggjast fara út í eigin rekstur.
          Brautargengi. Brautargengi eru námskeið á vegum Iðntæknistofnunar og eru þau ætluð konum sem vilja hrinda viðskiptahugmynd í framkvæmd. Þar eru kennd grundvallaratriði við stofnun og rekstur fyrirtækja.
          Félag kvenna í atvinnurekstri. Félagið var stofnað árið 1999 og er meginmarkmið félagsins að gera konur í atvinnurekstri sýnilegri og um leið að mynda tengslanet fyrir þær.
          Lánatryggingasjóður kvenna. Sjóðurinn er samstarfsverkefni félagsmálaráðuneytis, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og Reykjavíkurborgar. Sjóðurinn er í samstarfi við Landsbanka Íslands og saman veita þeir tryggingar fyrir lánum.
          Atvinnurekstur kvenna á landsbyggðinni. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti mun fela Byggðastofnun að skoða stöðu kvenna í atvinnurekstri á landsbyggðinni.
    Markmið verkefnisins er að hvetja konur til að hrinda viðskiptahugmyndum sínum í framkvæmd og styðja konur í rekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
    Öll þessi verkefni sem unnin eru hjá Impru eða Nýsköpunarmiðstöð Íslands (áður Iðntæknistofnun) eru enn við lýði en endurskoðun á starfsemi Lánatryggingasjóðs kvenna stendur yfir.
    Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands var falið að vinna úttekt á því hvort samþættingarsjónarmið hafi verið lögð til grundvallar við töku ákvarðana um styrki, lán og fjárfestingar og hvaða árangur hefði orðið af verkefnum undanfarinna ára sem hafa haft það að markmiði að örva frumkvæði kvenna í atvinnurekstri á vegum Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Impru sem starfar nú innan Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Skýrslunni var skilað á haustmánuðum 2007 en úttektin tók til áranna 1999–2005. Þar kemur meðal annars fram að færri konur en karlar sóttu um styrki úr Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins en þær konur sem hafa sótt um hafa í nánast öllum tilvikum fengið synjun þar sem verkefni þeirra þykja ekki standast kröfur sjóðsins. Synjanir sjóðsins voru allar rökstuddar með sama hætti þar sem fram kom að sjóðurinn tæki eingöngu þátt í verkefnum sem ekki voru í samkeppni við önnur verkefni eða fyrirtæki. Enn fremur er tekið fram í skýrslunni að upplýsingar um styrki eru ekki kyngreindar í ársskýrslum Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og reyndist erfitt að afla upplýsinga um kynjaskiptingu styrkþega. Þyrfti því að bæta gagnabanka sjóðsins varðandi kyngreindar upplýsingar um umsækjendur og verða þau mál tekin til endurskoðunar. Þá var það niðurstaða verkefnisins að mikilvægt væri að auka aðgerðir fyrir konur í atvinnurekstri en þar á meðal væri brýnt að efla námskeiðið Brautargengi hjá Impru þannig að það yrði aðgengilegt konum óháð búsetu.
    Að því er varðar atvinnurekstur kvenna á landsbyggðinni áttu iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti fulltrúa í tengslanetsstarfshópi á vegum Evrópusambandsins um atvinnurekstur kvenna ( WES) sem sótti fundi í Brussel vegna þessa. Fyrir tilstilli tengslanetsins gerðist ráðuneytið aðili að verkefni fimm landa sem varðaði eignarhald og stöðu kvenna í atvinnurekstri og landbúnaði. Sérstök skýrsla var unnin og var hún framlag Íslands til Evrópuverkefnisins Konur og eignarhald í viðskiptum og landbúnaði sem unnið var innan rammaáætlunar Evrópusambandsins um jafnrétti kynjanna. Verkefninu var ýtt úr vör að frumkvæði Noregs með þátttöku Grikklands, Lettlands og Svíþjóðar, auk Íslands. Skýrslan kom út snemma árs 2005.

viii. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.
38. Lifandi landbúnaður – gullið heima.
    Meginhugmynd verkefnisins er að byggja upp grasrótarhreyfingu sem hafi það að markmiði að fræða og styðja konur í bændastétt og hvetja þær til að koma á framfæri hugmyndum sínum til eflingar atvinnu í sveitum. Markmið verkefnisins er að styrkja konur í dreifbýli til sjálfstæðrar atvinnuþátttöku.
    Konur í bændastétt hafa stofnað með sér eins konar grasrótarhreyfingu sem nefnist Lifandi landbúnaður. Þær hafa komið sér upp öflugu tengslaneti í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og landbúnaðarráðuneytið sem gerir þeim betur fært að hafa samskipti sín á milli ásamt því að stunda fjarnám sem Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri hefur skipulagt og sniðið eftir þörfum og ábendingum.

39. Eignaréttarleg staða kvenna í landbúnaði.
    Meginhugmynd verkefnisins er að athuga eignaréttarlega stöðu kvenna í landbúnaði. Tilgangurinn er einkum sá að kanna hvort þörf sé á aðgerðum til að jafna hlut karla og kvenna í þessu tilliti.
    Ákveðið var að koma fyrst upp öflugu tengslaneti milli kvenna í bændastétt til að auðvelda framkvæmd verkefnisins. Jafnréttisnefnd Bændasamtaka Íslands mun annast gerð skoðanakönnunar meðal kvenna í bændastétt. Við gerð skoðanakönnunar verður unnt að nýta tengslakerfið sem skapast hefur með verkefninu Lifandi landbúnaði – gullið heima. Vinna að undirbúningi rannsóknarinnar er hafin. Litið verður til niðurstaðna könnunarinnar við mat á því hvort sérstakra aðgerða er þörf í þessu tilliti.

ix. Menntamálaráðuneyti.
40. Konur í vísindum.
    Menntamálaráðuneyti leitaði eftir samstarfi við aðra aðila um skipan starfshóps (tölfræði- og greiningarhóps) til að afla tölfræðilegra upplýsinga um þátt kvenna í rannsóknum. Ráðuneytið gaf út skýrsluna Konur í vísindum á Íslandi í mars 2002 þar sem teknar voru saman tölfræðilegar upplýsingar um stöðu kvenna í vísindum á Íslandi með áherslu á konur starfandi hjá hinu opinbera. Áformað er að fylgja þeirri skýrslu eftir en bæta við og bera saman upplýsingar um stöðu kvenna í rannsóknum hjá fyrirtækjum. Í kjölfarið er gert ráð fyrir að rætt verði um með hvaða hætti æskilegt er að auka umræðu og tryggja virka þátttöku kvenna í vísindastarfi í samræmi við vísinda- og tæknistefnu Vísinda- og tækniráðs frá desember 2003.
    Markmið verkefnisins er að tryggja virka þátttöku kvenna í vísindum.
    Menntamálaráðuneyti skipaði landsnefnd um konur og vísindi á haustmánuðum 2004 til fjögurra ára. Landsnefndin hefur það hlutverk að fylgja eftir störfum nefndar á vegum Evrópusambandsins um konur í vísindum ( Helsinki Group on Women and Science) sem hefur það markmið að vinna að aukinni þátttöku kvenna í vísindum í Evrópusambandslöndunum og vera til ráðgjafar um stöðu kvenna í rannsókna- og vísindastarfi. Nefndarstarfið hefur meðal annars falið í sér söfnun nýrra tölfræðilegra upplýsinga um þátttöku kvenna í vísindastörfum á Íslandi, sambærilegra við þær sem fyrri landsnefnd safnaði og birtar voru í skýrslunni Konur í vísindum á Íslandi sem menntamálaráðuneytið gaf út árið 2002, ásamt því að leggja mat á þróun mála á tímabilinu. Landsnefndin hefur unnið drög að skýrslu til ráðuneytisins þar sem greindar eru niðurstöður þeirra tölfræðilegra gagna sem safnað hefur verið ásamt tillögum um aðgerðir til aukinnar þátttöku kvenna í vísindum, hvað varðar námsval og framgang í starfi. Skipunartími landsnefndarinnar er útrunnin en ráðuneytið stefnir að því að endurskipað verði í nefndina.

41. Jafnrétti og listir.
    Meginhugmynd verkefnisins er að gera úttekt á stöðu kynjajafnréttis á lista- og menningarsviði. Sérstaklega skal skoða stöðu kvenna gagnvart stuðningskerfi lista- og menningarlífs hvað varðar m.a. styrki og listamannalaun.
    Markmið verkefnisins er að athuga hvort þörf sé einhverra aðgerða til að jafna hlut karla og kvenna á þessu sviði.
    Ráðuneytið hefur styrkt nokkra atburði sem tengjast þessu efni. Bókmenntahátíð sem hópur kvenna innan Rithöfundasambands Íslands efndi til var styrkt. Hátíðin var nefnd Góugleði en þar var vakin athygli á ritverkum íslenskra kvenna og veitt sérstök bókmenntaverðlaun. Meðal annars var efnt til málþings um stöðu íslenskra kvenna á ritvellinum. Alþjóðleg ráðstefna undir yfirskriftinni A Place for Prostitution? Gender Equality and Respect in Modern Societies var styrkt en Kvenréttindafélag Íslands hélt hana. Umfjöllunarefni var hvernig vændi, virðing kvenna og jafnrétti geti átt samleið í nútímaþjóðfélagi.

42. Fræðsla um jafnréttismál í kennaranámi.
    Menntamálaráðuneytið mun kalla eftir upplýsingum frá háskólum sem mennta kennara um hvernig stuðlað er að kennslu í jafnrétti. Markmið verkefnisins er að kanna hvort þeir einstaklingar sem búa sig undir kennslu og uppeldisstarf fái fræðslu í jafnréttismálum eins og kveðið er á um í 19. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.
    Menntamálaráðuneytið leitaði formlega eftir upplýsingum árið 2004 hjá Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri um hvernig fræðslu einstaklinga, sem búa sig undir kennslu og uppeldisstarf sé háttað í jafnréttismálum. Svör háskólanna hafa ekki verið dregin saman í eina niðurstöðu en það er mat ráðuneytisins á grundvelli þessara svara að fræðslu um jafnrétti í kennaranámi sé fyrir komið á fullnægjandi hátt hjá háskólunum.

43. Jafnréttiskennsla í skólum.
    Menntamálaráðuneyti mun áfram leggja áherslu á að skólar vinni ötullega að því að fræða nemendur um jafnrétti kynjanna. Í aðalnámskrá framhaldsskóla frá janúar 2004 er lögð rík áhersla á jafnréttismál. Þar segir á bls. 5: „Skólum ber að gæta jafnréttis nemenda til náms og bjóða þeim nám og kennslu við hæfi. Mikilvægt er að bæði piltum og stúlkum séu kynnt störf sem hingað til hefur verið litið á sem hefðbundin karlaeða kvennastörf. Skólum ber einnig að gefa nemendum tækifæri til að spreyta sig á viðfangsefnum að eigin vali. Þau þurfa að höfða jafnt til pilta og stúlkna án tillits til uppruna, í dreifbýli eða þéttbýli, fatlaðra sem ófatlaðra.“
    Markmið með verkefninu er að tryggja jafnan rétt drengja og stúlkna við námsval og vinna gegn því að nemendur festist í farvegi hefðbundinna verkaskiptingar kynjanna, sbr. 19. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.
    Ákvæði um jafnrétti er að finna í aðalnámskrám fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla, bæði í almennum hlutum og í hverri námskrá fyrir sig. Auk almennra ákvæða um jafnrétti til náms og viðeigandi námstækifæra fyrir alla er að finna ákvæði um að kennsluaðferðir megi ekki mismuna nemendum eftir kynferði, búsetu, uppruna litarhætti, fötlun, trúarbrögðum og félagslegri stöðu. Einnig er í aðalnámskrá grunnskóla að finna í fyrsta sinn sérstakan kafla um velferð nemenda.
    Almenn markmið eru að:
               jafnrétti sé haft að leiðarljósi í námi og kennslu í leik- grunn- og framhaldsskólum,
               að tryggja jafnan rétt drengja og stúlkna við námsval,
               vinna gegn því að nemendur festist í farvegi hefðbundinna verkaskiptingar kynjanna.
    Menntamálaráðuneytið leggur áherslu á að skólar vinni ötullega að því að fræða nemendur um jafnrétti kynjanna. Í jafnréttisstefnu ráðuneytisins sem lögð var til grundvallar við endurskoðun aðalnámskráa fyrir grunn- og framhaldsskóla 1999 kemur fram að jafnrétti til náms er fólgið í því að bjóða nemendum nám og kennslu við hæfi og gefa þeim tækifæri til að spreyta sig á viðfangsefnum að eigin vali. Í þessu felast ekki endilega sömu úrræði fyrir alla heldur sambærileg og jafngild tækifæri. Verkefnin skulu höfða jafnt til drengja og stúlkna, nemenda í dreifbýli sem þéttbýli og fatlaðra sem ófatlaðra. Mikilvægt er að bæði piltum og stúlkum séu kynnt störf sem hingað til hefur verið litið á sem hefðbundin karla- eða kvennastörf. Menntamálaráðuneytið leggur áherslu á að skólar búi bæði kynin undir þátttöku í atvinnulífi, fjölskyldulífi og í samfélaginu. Eitt mikilvægasta úrlausnarefni skóla og skólayfirvalda í þessu sambandi er að finna leiðir til að koma til móts við ólíka getu og ólík áhugamál nemenda, þ.e. að veita nemendum menntun við hæfi hvers og eins.
    Fræðsla um jafnrétti er samofin markmiðum í aðalnámskrá leik- grunn- og framhaldsskóla frá 1999 bæði í almennum hluta þeirra og í hverri námskrá fyrir sig þó sérstök áhersla sé á jafnréttismiðuð markmið í námskrá í lífsleikni á öllum skólastigum. Í námskrá í lífsleikni er meðal annars að finna markmið sem beint og óbeint stuðla að því að styrkja einstaklinginn, að hann öðlist samfélagslega yfirsýn, að hann geti gert raunhæfar áætlanir um náms- og starfsleiðir sem standa honum til boða að loknu grunnskólanámi, að hann öðlist áræði til þess að móta eigin lífsstíl og lífsskoðun á sjálfstæðan og ábyrgan hátt og setji sér markmið sem lúta að framtíðinni.
    Auk almennra ákvæða um jafnrétti til náms og skóla án aðgreiningar er að finna ákvæði um að kennsluaðferðir megi ekki mismuna nemendum eftir kynferði, búsetu, uppruna, litarhætti, fötlun, trúarbrögðum og félagslegri stöðu. Markmiðið er ekki að kenna öllum hið sama heldur að nemendur öðlist trausta undirstöðu á þeim námssviðum sem þeir velja. Í þessu skyni verður nemendum til dæmis gefinn kostur á ólíkum námsáherslum í efstu bekkjum grunnskólans.
    Dæmi um verkefni sem varða lýðræði og jafnrétti í skólum sem menntamálaráðuneytið hefur beitt sér fyrir og tekið þátt í er Olweusarverkefnið gegn einelti og andfélagslegu atferli í grunnskólum. Þar er að finna dæmi um markviss vinnubrögð sem byggja á fagmennsku og áratugalöngum rannsóknum og miðast við að skólar taki á heildrænan hátt upp skipulagt kerfi til að takast á við og fyrirbyggja einelti. Annað dæmi er um þátttöku í verkefni Evrópuráðsins um borgaravitund og mannréttindi í skólum. Markmiðið er að benda á mikilvægi þess að fjalla um borgaravitund og virka þátttöku í lýðræðissamfélagi í skólastarfi og öðru starfi með börnum og ungmennum. Markmið verkefnisins er meðal annars að stuðla að gagnkvæmum skilningi á milli menningarheima, samstöðu, jafnrétti og jákvæðum samskiptum þjóða á meðal.

44. Styrkir til jafnréttisfræðslu úr þróunarsjóðum leik-, grunn- og framhaldsskóla.
    Við úthlutun styrkja úr þróunarsjóðum leik-, grunn- og framhaldsskóla mun ráðuneytið auglýsa einu sinni á tímabilinu sérstaklega eftir verkefnum á sviði jafnréttisfræðslu og aðgerðum til að jafna stöðu drengja og stúlkna í skólum.
    Markmið með verkefninu er að leik-, grunn- og framhaldsskólum verði gert kleift að efla tilraunir og nýbreytni í skipulagi náms, kennsluháttum, kennslu, námsgögnum, námsmati og mati á skólastarfi. Markmiðið er að hvetja stofnanir til að nýta sér styrkina til að sinna jafnréttismálum.
    Í auglýsingu sem birtist 30. janúar 2005 þar sem auglýst var eftir umsóknum um styrki vegna þróunarverkefna í framhaldsskólum og til fullorðinsfræðslu var sérstaklega auglýst eftir verkefnum sem miða að því að framfylgja áætlunum um jafna stöðu kynjanna í námi. Í auglýsingum fyrir þróunarsjóð leikskóla 2006 og þróunarsjóð grunnskóla 2006 var sérstök áhersla lögð á umsóknir er snerta jafnréttisfræðslu í skólastarfi og lýðræði með sérstaka áherslu á jafnrétti. Í auglýsingu fyrir þróunarsjóð framhaldsskóla fyrir 2004–2005 var sérstök áhersla lögð á umsóknir er snerta jafna stöðu kynjanna í námi. Viðtökur umsækjenda voru mjög dræmar þar sem aðeins ein umsókn af 70 sem bárust var með áherslu á jafnréttisfræðslu.
    Auglýst var eftir umsóknum sem snúast um jafnréttisfræðslu í grunnskólum í samræmi við aðalnámskrá grunnskóla í þróunarsjóð grunnskóla með auglýsingu dagsettri 19. janúar 2007. Einkum var leitað eftir þróun á aðferðum við kennslu sem geta nýst öðrum skólum. Árið 2008 var auglýst í þróunarsjóði grunnskóla eftir verkefnum sem tengjast jafnréttismálum og hlutu alls sex verkefni styrk í flokknum Skapandi hugsun, samstarf, jafnrétti og lýðræði í skólum.

45. Jafnrétti kynjanna innan íþróttahreyfingarinnar.
    Menntamálaráðuneyti mun kalla eftir upplýsingum frá heildarsamtökum íþróttahreyfingarinnar og félagsmiðstöðva um hvort kynjajafnréttis sé gætt í íþrótta- og tómstundastarfi. Einnig verði skoðað hvernig fjölmiðlar fjalla um íþróttir karla annars vegar og íþróttir kvenna hins vegar.
    Meginmarkmið verkefnisins er að 19. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, sé framfylgt og leitað leiða til úrbóta ef þurfa þykir. Koma með ábendingar um leiðir til úrbóta hvað varðar íþróttaumfjöllun kynjanna í fjölmiðlum þar sem könnun frá árinu 2001 sýnir að hlutur kvenna í íþróttaþáttum var einungis 7,7%.
    Árið 2005 styrkti menntamálaráðuneytið Jafnréttisstofu vegna rannsóknar á staðalmyndum kynjanna í íþróttum og íþróttafréttum. Rannsóknin var hluti af Evrópuverkefni undir stjórn Jafnréttisstofu en það hlaut nafnið Íþróttir, fjölmiðlar og staðalmyndir – konur og karlar í íþróttum og fjölmiðlum (Sports, Media and Stereotypes – women and men in sports and media). Þátttökulönd í rannsókninni auk Íslands voru Austurríki, Ítalía, Litháen og Noregur. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvernig fjallað er um íþróttir kvenna og karla í íþróttafréttum í Evrópu og kalla fram breytingar í staðalmyndum kynjanna á þessu sviði. Niðurstöður voru kynntar á ráðstefnu 20. janúar 2006 þar sem fulltrúar frá öllum þátttökulöndum voru með fyrirlestra tengda viðfangsefninu.
    Niðurstöður sýna að umfjöllun um konur og íþróttir er stórlega ábótavant. Í rannsókn á umfjöllun tveggja dagblaða árið 2006 kemur fram að 87,14% íþróttaumfjöllun var um karla og 9,7% um konur. Jafnframt er umfjöllun um kvennaíþróttir á þann veg að það virðist sem íþróttaiðkun kvenna sé ekki tekin jafn alvarlega og karla. Afar fáar konur vinna við íþróttafréttamennsku. Ísland kemur ögn betur út en samanburðarlöndin en þó er engan veginn svo að ásættanlegt sé. Frekari upplýsingar er að finna í lokaskýrslu rannsóknarinnar á vef Jafnréttisstofu (http://www.jafnretti.is).
    Á sama tíma var stuðlað að jafnrétti kynja innan íþróttahreyfingarinnar, meðal annars með áherslu á styrki til umsókna sem varða jafnan hlut kynja í íþróttum og veittur var styrkur úr Íþróttasjóði til að efla kvennakörfuknattleik ungra stúlkna. Mörg félög og sambönd innan íþróttahreyfingarinnar hafa samþykkt eða eru að vinna að gerð jafnréttisáætlunar. Stofnaður hefur verið sérstakur sjóður hjá Íþróttasambandi Íslands sem styður afrekskonur í íþróttum. Fyrirmyndarfélag ÍSÍ er nafnbót sem íþróttafélög eða deildir geta sótt um og þurfa þá að uppfylla ákveðna gæðastaðla sem byggjast meðal annars á að móta sér stefnu í jafnréttismálum. Alls hlutu 18 íþróttafélög og deildir nafnbótina fyrirmyndarfélag ÍSÍ árið 2008.

46. Konur og fjölmiðlar.
    Þátttaka kvenna í fjölmiðlum verði könnuð og borin saman við niðurstöður nefndar um konur og fjölmiðla sem út kom í skýrslu í febrúar árið 2001. Í framhaldi verði unnið með tillögur nefndarinnar um úrbætur til að fjölga konum í fjölmiðlum ef þurfa þykir. Markmið verkefnisins er að auka hlut kvenna í fjölmiðlun.
    Rannsókn um þátttöku kvenna í fjölmiðlum var gerð árið 2005 í samvinnu við nema í félags- og fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands en hún fjallar um konur og karla í fréttum, auglýsingum og sjónvarpsþáttum. Menntamálaráðuneytið stóð alfarið að gerð og kostnaði við rannsóknina sem gerð var með sama hætti og hliðstæðar kannanir á hlut kynjanna í sjónvarpi frá árunum 1999 og 2000 og gerðar voru á vegum nefndar um konur og fjölmiðla. Á málþingi sem menntamálaráðuneytið og Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræði við Háskóla Íslands héldu um miðjan desember 2005 voru niðurstöðurnar kynntar og voru þar flutt nokkur ávörp auk þess sem forsvarsmenn fjölmiðla sátu fyrir svörum í pallborði. Í ávarpi Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra kom fram að samanburður á niðurstöðum rannsóknanna bendir til þess að lítið sem ekkert hafi breyst á árunum 1999–2005. Hlutfall karla í fréttum, fréttatengdum þáttum og sjónvarpsþáttum er mun hærra en hlutfall kvenna í öllum þessum flokkum. Að meðaltali eru konur um og undir 30% í öllu útsendu efni á kjörtíma í sjónvarpi, þ.e. fréttum, auglýsingum og sjónvarpsþáttum. Málþingið og niðurstöður rannsóknanna fengu mikla athygli og umfjöllun í fjölmiðlum og mæting á málþingið var mjög góð.

x. Samgönguráðuneyti.
47. Störf kvenna á skipum.

    Meginhugmynd verkefnisins er að gerð verði úttekt á störfum kvenna á skipum íslenskra útgerða. Þar verði m.a. kannað hlutfall kvenna á skipum og lagt mat á vinnuaðstæður þeirra um borð. Í framhaldinu leggur ráðuneytið fram tillögur um úrbætur. Markmið verkefnisins er að auka hlut kvenna á skipum íslenskra útgerða ásamt því að tryggja vinnuaðstæður þeirra.
    Verkefnið var unnið í samstarfi við Háskóla Íslands. Helstu niðurstöðurnar voru þær að konur eru í miklum minni hluta sjómanna en þær eru sjaldnast yfir 10% þeirra. Ástæðu þess að konur sækja ekki sjóinn í meira mæli en þær gera er einna helst að finna í menningarbundnum þáttum, þ.e. í skiptingu vinnunnar í karla- og kvennastörf og takmörkuðum vilja fólks til að haga sér í ósamræmi við ríkjandi ímyndir karlmennsku og kvenleika. Með þessari kynbundnu hugmyndafræði er ýtt undir þá trú að sjómennska sé ekki hentugur starfsvettvangur fyrir konur. Aðrir þættir, svo sem ábyrgð kvenna á heimili og börnum, koma þó einnig í veg fyrir þátttöku þeirra í sjómennsku, sem og minnkandi framboð á störfum á sjó.
    Afar erfitt er að ætla sér að bæta stöðu kvenna sem stunda sjómennsku með öðrum hætti en þeim að bæta stöðu sjómanna sem heildar og taka konur inn í myndina. Til þess að konur jafnt og karlmenn hafi áhuga á að stunda sjóinn þarf að vera eftirspurn eftir vinnuafli á sjó, atvinnutækifærin þurfa að vera eftirsóknarverð og launin þurfa að vera nógu góð til að fólk sé reiðubúið til þess að eyða löngum stundum úti á rúmsjó. Störf sjómanna hafa ekki þótt eins eftirsóknarverð á síðustu árum og þau voru í eina tíð. Þau þarf að gera eftirsóknarverðari. Eins mætti vekja athygli á þeirri staðreynd að konur stunda sjóinn og hafa ávallt gert. Hafi konur einhverjar fyrirmyndir eykst ef til vill áhugi þeirra á þessum starfsvettvangi. Skýrslu um þetta verkefni má nálgast á vefsíðu ráðuneytisins (http://www.samgonguraduneyti.is/malaflokkar/sigloghafn/ efni/nr/1435).

xi. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.
48. Úttekt á störfum kvenna í stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi.

    Skipuð verði nefnd í byrjun ársins 2005 til að gera úttekt á störfum kvenna í stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi. Tilgangur verkefnisins er að kanna við hvers konar störf konur í stórum sjávarútvegsfyrirtækjum eru, en ekki hefur borið mikið á þeim í forystu í greininni.
    Markmið verkefnisins er að komast að því hvað veldur lítilli þátttöku kvenna í forystu í sjávarútvegi og skoða hvernig hægt er að laða þær til þátttöku.
    Á fyrri hluta ársins 2005 skipaði ráðherra nefnd til að gera úttekt á störfum kvenna í stærstu sjávarútvegsfyrirtækjunum á landinu. Nefndin lauk störfum haustið 2006 og hefur skilað skýrslu til ráðherra.

49. Úttekt á störfum kvenna í minni sjávarútvegsfyrirtækjum (fjölskyldufyrirtækjum) á
Íslandi.

    Meginhugmynd verkefnisins er að kanna við hvers konar störf konur í minni sjávarútvegsfyrirtækjum og fjölskyldufyrirtækjum í sjávarútvegi á Íslandi eru og hvort munur sé á eðli starfa þeirra þar og í hinum stærri fyrirtækjum. Niðurstöður könnunarinnar munu gagnast greininni vel og vonandi leiða til frekari þátttöku kvenna.
    Meginmarkmið verkefnisins er að afla gagna til að bera saman eðli starfa kvenna í minni fyrirtækjum og hinum stærri á sviði sjávarútvegs á Íslandi.
    Nefndin hefur ekki verið skipuð en beðið átekta vegna nefndarinnar um störf kvenna í stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi. Framkvæmd verkefnisins verður ákveðin með tilliti til niðurstöðu nefndarinnar.

xii. Umhverfisráðuneytið.
50. Konur og Staðardagskrá 21.

    Meginhugmynd verkefnisins er að auka hlut og áhrif kvenna í ákvarðanatöku við eflingu sjálfbærrar þróunar í héraði á Íslandi, á grundvelli Staðardagskrár 21, þar sem ríki og sveitarfélög vinna saman. Markmið verkefnisins er að samþætta jafnréttissjónarmið inn í vinnu Staðardagskrár 21 á Íslandi.
    Í samstarfi við Staðardagskrá 21 og Jafnréttisstofu var ákveðið að gefa út fræðslubækling um jafnrétti og sjálfbæra þróun. Hann hlaut nafnið Sterkari saman. Í bæklingnum er bent á mikilvægi þess að konur jafnt sem karlar séu virkir þátttakendur í mótun samfélagsins og leggi sitt af mörkum við að leysa úr þeim fjölmörgu viðfangsefnum sem blasa við bæði hér á landi og á heimsvísu, ef takast á að beina efnahagsþróun á sjálfbærari brautir en verið hefur undanfarna áratugi.
    Markmiðið með útgáfu bæklingsins var að vekja athygli á mikilvægi þess að bæði kynin beiti sér þegar kemur að ákvarðanatöku um sameiginlegar auðlindir. Tilefnið var meðal annars sveitarstjórnarkosningarnar þótt efni bæklingsins sé í raun óbundið tíma. Umhverfisráðuneytið fjármagnaði útgáfu bæklingsins en umsjón með útgáfunni var í höndum Landsskrifstofu Staðardagskrár 21 á Íslandi. Bæklingurinn er aðgengilegur á rafrænu formi á vefsíðu umhverfisráðuneytisins (http://www.umhverfisraduneyti.is/utgefid-efni/nr/792) og Sambands íslenskra sveitarfélaga (http://www.samband.is/dagskra21/news.asp?id=370&news_ID=925 &type=on).

xiii. Utanríkisráðuneyti.
51. Gerð tillagna til ráðherra um sérstaka vinnu- og aðgerðaáætlun um samþættingu
kynjasjónarmiða í alþjóðastarfi.
    Meginhugmynd verkefnisins er að leggja fram tillögur um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í alþjóðlegu samstarfi. Markmið þess er að fram komi hvernig utanríkisráðherra fyrir hönd íslenskra stjórnvalda geti, betur en nú, unnið að framgangi réttindamála kvenna og barna samkvæmt þeim alþjóðasamþykktum sem Ísland er aðili að.

Jafnrétti og samvinna í alþjóðastjórnmálum.
    Utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur tekið virkan þátt í alþjóðasamstarfi kvenleiðtoga frá því að hún tók við embætti. Að frumkvæði ráðherra mun Ísland taka að sér að halda úti heimasíðu kvenleiðtoganna. Tilgangurinn er að styrkja tengslanet þeirra og gera samstarfið markvissara, meðal annars með því að tryggja betri eftirfylgni.
    Utanríkisráðherra hefur beitt sér fyrir aukinni áherslu á framkvæmd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325/2000 á alþjóðavettvangi. Hún er heiðursfélagi í alþjóðlegu friðarráði ísraelskra og palestínskra kvenna og hefur talað þeirra máli á alþjóðavettvangi, sérstaklega við þá sem koma að friðarviðræðunum fyrir botni Miðjarðarhafs, og lagt áherslu á mikilvægi þátttöku kvenna í friðarferlinu.
    Utanríkisráðuneytið og Háskóli Íslands skrifuðu undir viljayfirlýsingu 19. júní 2008 um samstarf á sviði jafnréttismála. Samstarfið felur í sér stofnun jafnréttisseturs og jafnréttisskóla við Háskóla Íslands með stuðningi ráðuneytisins. Jafnréttissetrið og jafnréttisskólinn voru formlega sett á fót í desember 2008 og var haldin alþjóðleg ráðstefna um ályktun öryggisráðsins nr. 1325 með sérstakri áherslu á aðgang kvenna að friðarferlum. Ráðstefnan er samvinnuverkefni utanríkisráðuneytisins og Háskóla Íslands.

Samþætting jafnréttis- og kynjasjónarmiða í starfi Íslensku friðargæslunnar.
    Undanfarin tvö ár hefur verið unnið að stefnubreytingu í tengslum við starfsemi Íslensku friðargæslunnar. Hefur það falið í sér aukna áherslu á þátttöku kvenna í störfum friðargæslunnar og aukin áhrif kvenna og aðkomu að ákvarðanatöku á alþjóðavettvangi. Eftir endurskoðun sem átti sér stað og áherslubreytingar var haldið áfram að þróa og efla þá hugmyndafræði sem felst meðal annars í innleiðingu og eftirfylgni ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 frá árinu 2000. Það felur meðal annars í sér þjálfun og fræðslu friðargæsluliða sem fara á vettvang.
    Áætlun íslenskra stjórnvalda um framkvæmd ályktunarinnar var unnin í samráði við félagasamtök og með innra samráði í utanríkisráðuneytinu veturinn 2007–2008. Var hún gefin út 8. mars 2008 og hefur sérstakt teymi verið sett á fót til að fylgja eftir áhersluatriðum hennar.
    Meðal þess sem aðgerðaáætlunin felur í sér er sérstök áhersla á verkefni sem nýtast konum, aðkoma kvenna að friðarferlum og ákvarðanatöku, þjálfun og fræðsla friðargæsluliða og starfsmanna ráðuneytisins um ályktunina og innleiðingu hennar. Ráðstefna var haldin í desember 2008 um aðkomu kvenna að friðarviðræðum og stutt við stofnun jafnréttisseturs í tengslum við Háskóla Íslands sem meðal annars mun hafa það að markmiði að fræða og þjálfa konur á sviði jafnréttismála. Þessari þjálfun og verkefni er ætlað að verða í framtíðinni hluti af þjálfunarverkefni Háskóla Sameinuðu þjóðanna.
    Á árinu 2007 störfuðu yfir 60 manns hjá Íslensku friðargæslunni í skemmri og lengri verkefnum. Sé horft til tímalengdar að störfum og kynjaskiptingar má sjá að þátttaka kvenna í friðargæsluverkefnum var um 45% á síðari helmingi ársins og hafði aukist jafnt og þétt það ár.
    Í ársbyrjun 2008 tók íslensk kona við stjórn skrifstofu Evrópuráðsins í Kosovo. Sú staða er hluti af framlagi Íslensku friðargæslunnar og er ein hæsta staða sem kona hefur gegnt í friðargæsluverkefni.
    Verkefni sem Íslenska friðargæslan kostaði í tengslum við starf þróunarfulltrúa í Ghor-héraði í Afganistan sneru að uppbyggingu vatnsaflsvirkjana, réttaraðstoð við sakborninga og lögfræðiaðstoð til kvennamálaráðuneytisins. Í undirbúningi var einnig þjálfunarverkefni fyrir starfsmenn stjórnvalda sem fara með málefni munaðarlausra barna og aðstoðarfólks sem starfar á slíkum heimilum.
    Aukin var þátttaka í langtímakosningaeftirliti Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE), sem styður við uppbyggingu lýðræðis og mannréttinda í löndum sem eru ný lýðræðisríki innan Evrópu. Gætt er vel að jöfnum hlutföllum kynjanna þegar valið er fólk í störf við kosningaeftirlit, bæði til skamms og langs tíma.
    Frekari upplýsingar um starf friðargæslunnar árið 2007 er að finna í ársskýrslu Íslensku friðargæslunnar (http://www.utanrikisraduneyti.is/utanrikismal/fridargaesla/ utgefid-efni/).

Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands
(ÞSSÍ).

    Þróunarsamvinnustofnun Íslands setti sér árið 2004 afar metnaðarfulla stefnu í jafnréttismálum. Markmið stefnunnar er meðal annars að stuðla að kynjajafnrétti í samstarfslöndum Þróunarsamvinnustofnunar með því að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið í verkefnum stofnunarinnar og stuðla að sjálfseflingu kvenna. Fjölmörg verkefni sem stuðla beint að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða hafa verið unnin og eru í gangi á vegum Þróunarsamvinnustofnunar. Þau verkefni þar sem sérstaklega hefur verið unnið með málefni kvenna hafa einkum verið á sviði fullorðinsfræðslu og heilbrigðismála ásamt stuðningi við félags- og kvennamálaráðuneyti. Þá er stuðningur veittur til eflingar baráttu gegn kynbundnu ofbeldi, heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi, auk þess sem stutt hefur verið við frumkvöðlastarfsemi og rekstur smáfyrirtækja. Verkefni á öðrum sviðum, eins og menntamál og vatns- og fráveituverkefni, hafa einnig beina tilvísun í eflingu kvenna og stúlkna því á þær hallar oft í samstarfslöndum Þróunarsamvinnustofnunar og bæta verkefnin því mest lífsgæði þeirra. Þá hafa frjáls félagasamtök í samstarfslöndunum, sem vinna meðal annars að því að berjast fyrir réttindum kvenna, verið studd fjárhagslega.

52. Jafnréttisstarf fulltrúa á vegum UNIFEM í löndum þar sem alþjóðlegt uppbyggingarstarf
á sér stað.

    Utanríkisráðuneytið greiðir kostnað við starf eins fulltrúa. Um skeið hefur ráðuneytið kostað einn fulltrúa frá UNIFEM til að sinna jafnréttisstarfi í Kosovo. Starfið hefur falist í því að veita lagalega aðstoð í kynjavæðingu löggjafar. Einnig að veita aðstoð við myndun félagasamtaka sem hafa það markmið að vinna að faglegum álitsgerðum á löggjöf og framkvæmd löggjafar. Þá hefur og verið lögð rík áhersla á þjálfun og fræðslu í jafnréttismálum í Kosovo, t.d. fyrir sveitarstjórnir. Markmið verkefnisins er að koma jafnréttissjónarmiðum inn í stjórnkerfi viðkomandi ríkja.
    Þessu verkefni lauk í byrjun ársins 2006 og hafði þá íslenskur friðargæsluliði starfað á vegum UNIFEM í Kosovo frá árinu 2000. Þar sem mikil ánægja hefur verið með verkefnið, bæði í Kosovo, hjá UNIFEM og þeim sem hafa starfað á vegum Íslands undir merkjum UNIFEM í Kosovo, var ákveðið að halda áfram að styrkja starf UNIFEM á Balkanskaganum. Utanríkisráðuneytið styrkti starf þriggja fulltrúa hjá UNIFEM til ársins 2008.
    Árið 2007 voru tveir friðargæsluliðar starfandi á Balkanskaga og verður svo áfram í Serbíu og Bosníu-Hersegóvínu. UNIFEM-verkefnið á Balkanskaga snýst um konur, lýðræði og mannréttindi. Verkefnið felur í sér uppbyggingu og aðstoð varðandi mótun löggjafar með tilliti til jafnréttis kynjanna, auk þess að fræða og þjálfa aðila á sviði jafnréttismála, til dæmis hjá sveitarstjórnum. Markmið verkefnisins er, eins og í verkefninu í Kosovo, að koma jafnréttissjónarmiðum inn í stjórnkerfi viðkomandi ríkja.
    Í mars 2007 gerði utanríkisráðuneytið samstarfssamning við landsnefnd UNIFEM sem gilda mun í þrjú ár, 2007–2009. Landsnefndin styður og styrkir starfsemi UNIFEM í baráttunni fyrir jafnrétti og bættri stöðu kvenna víða um heim, sérstaklega á sviði þróunarsamvinnu. Markmiðið með samningnum er meðal annars að efla kynningu á hlutverki og starfsemi UNIFEM, stuðla að samþættingu jafnréttissjónarmiða í verkefnum á vegum íslenskra stjórnvalda og auka almennt samráð og samvinnu íslenskra stjórnvalda við UNIFEM. Rammasamningurinn gerir ráð fyrir fimm milljón króna fjárframlagi á ári frá utanríkisráðuneytinu til landsnefndar UNIFEM.
    Í maí 2007 veitti utanríkisráðuneytið verkefni á vegum UNIFEM á Balkanskaga, sem kallast Advancing Women's Rights for Democratic Governance and Peace in South East Europe, 200.000 bandaríkjadala styrk. Er þetta þriðja árið í röð sem íslensk stjórnvöld leggja fé til stuðnings jafnréttisbaráttu og til að auka réttindi kvenna á Balkanskaga, en íslenskir sérfræðingar hafa starfað að verkefninu undanfarin fimm ár með því að leggja jafnréttisráðgjafa til áætlunarinnar eins og áður hefur komið fram.
    Framlög til UNIFEM hafa aukist jafnt og þétt undanfarin ár og námu árið 2008 87,5 milljónum króna. Um er að ræða bæði föst framlög og stuðning við einstök verkefni. Íslensk stjórnvöld hafa um árabil lagt fé í styrktarsjóð gegn kynbundnu ofbeldi sem er vistaður hjá UNIFEM. Sjóðurinn var settur á stofn í kjölfar kvennaráðstefnunnar í Peking árið 1995 og er markmið hans að vekja athygli á og útrýma ofbeldi gegn konum. Íslenskur sérfræðingur kostaður af utanríkisráðuneytinu mun starfa hjá sjóðnum frá hausti 2008 en hann starfaði áður á svæðisskrifstofu UNIFEM á Barbados.
    Stjórnvöld styðja einnig við verkefni UNIFEM í Afganistan, en markmið starfsemi stofnunarinnar er að auka tækifæri og val afganskra kvenna með því að byggja upp samfélag þar sem konur hafa jafnan rétt til þróunar og mannréttinda. Starfsemin er aðallega innan kvennamálaráðuneytis Afganistan og felst í þjálfun, rannsóknum og stefnumótun og stofnun kvennamiðstöðva á landsbyggðinni.
    Eins og fram hefur komið hafa íslenskir sérfræðingar starfað á vegum UNIFEM í löndum á Balkanskaga og hafa stjórnvöld jafnframt stutt verkefni UNIFEM á svæðinu. Markmið verkefnisins er að efla vitund og skuldbindingar hins opinbera á sviðið kvenréttinda, sem og að aðstoða borgaralegt samfélag við að vinna að baráttumálum kvenna á grundvelli samþykkta Sameinuðu þjóðanna.
    Loks hafa stjórnvöld frá og með þessu ári stutt verkefni UNIFEM í Palestínu sem hluta af aðgerðaáætlun í málefnum Miðausturlanda. Verkefnin felast aðallega í stuðningi við efnahagslegt sjálfstæði kvenna og valdeflingu, að auka þátttöku kvenna í ákvarðanatöku á sem flestum stigum samfélagsins og að tryggja sem víðtækust réttindi kvenna, meðal annars frelsi frá hvers kyns ofbeldi.
    Ráðuneytið setti haustið 2006 af stað verkefni sem miðar að því að veita ungum íslenskum sérfræðingum tækifæri á að starfa tímabundið hjá stofnunum Sameinuðu þjóðanna á vettvangi. Frá því að verkefnið hófst hafa alls níu sérfræðingar starfað hjá þremur stofnunum Sameinuðu þjóðanna, þ.e. UNDP, UNICEF og UNIFEM. Þar af eru nú þrír starfandi hjá UNIFEM, tveir í New York og einn í Líberíu.
    Stuðningur við starfsemi mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) hefur einnig aukist á undanförnum árum. Sjóðurinn hefur það að markmiði að auka þekkingu og hæfni þróunarríkja til að fást við vandamál fólksfjölgunar og móta og framfylgja stefnu á sviði mannfjöldamála. Á þessu ári nema framlög til sjóðsins 25,2 milljónum króna sem skiptist jafnt á milli fastra framlaga og til sjóðs sem vinnur að baráttunni gegn fistli, sem er alvarlegt vandamál í mörgum þróunarríkjum. Fistill er op sem myndast til dæmis milli þvagrásar og legganga eða á milli legganga og endaþarms, oft í kjölfar langra og erfiðra fæðinga hjá ungum stúlkum sem eru ekki líkamlega tilbúnar til að eignast börn. Vegna óþefs sem þessu fylgir eru þær yfirleitt útskúfaðar í samfélaginu.
    Loks hafa stjórnvöld styrkt jafnréttisáætlun Alþjóðabankans ( Gender Action Plan), sem sett var af stað haustið 2006. Markmið áætlunarinnar er meðal annars að auka efnahagslegan styrk kvenna og þar með almennan efnahagsvöxt í þróunarríkum. Auk þess er unnið að framgangi þriðja þúsaldarmarkmiðsins um kynjajafnrétti og aukin áhrif kvenna. Stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að setja sem nemur 900.000 bandaríkjadölum í sjóðinn á þremur árum. Ráðuneytið mun auk þess standa straum af kostnaði við þátttöku íslensks sérfræðings í jafnréttismálum í vinnuhópi áætlunarinnar.

Jafnrétti kynjanna í tölum


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.