Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 449. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 736  —  449. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um menntun og atvinnusköpun ungs fólks.

Flm.: Skúli Helgason, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Lilja Mósesdóttir,


Eygló Harðardóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir,
Margrét Tryggvadóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Árni Þór Sigurðsson,
Oddný G. Harðardóttir, Guðmundur Steingrímsson, Þráinn Bertelsson,
Ólína Þorvarðardóttir, Magnús Orri Schram, Ragnheiður Ríkharðsdóttir,
Sigmundur Ernir Rúnarsson.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að stýra mótun aðgerðaáætlunar sem hafi þann þríþætta tilgang að vinna bug á langtímaatvinnuleysi meðal ungs fólks, efla iðn- og tæknimenntun í samfélaginu og svara eftirspurn helstu vaxtargreina atvinnulífsins eftir vinnuafli með slíka menntun. Lögð verði áhersla á að bjóða ungum atvinnuleitendum fjölbreytt úrræði til menntunar, starfsmennta og starfsþjálfunar í iðn-, raun- og tæknigreinum. Þá verði leitað eftir samningum við atvinnurekendur um að bjóða ungum atvinnuleitendum störf að námi loknu. Aðgerðaáætlunin feli í sér töluleg markmið um fækkun langtímaatvinnulausra á árunum 2011 og 2012.
    Aðgerðaáætlunin verði mótuð í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneyti, velferðarráðuneyti, efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Samtök iðnaðarins, Alþýðusamband Íslands, háskóla, framhaldsskóla, símenntunarmiðstöðvar, Landssamband æskulýðsfélaga og Vinnumálastofnun. Stefnt verði að því að skila niðurstöðum fyrir 1. júlí 2011.

Greinargerð.


    Atvinnuleysi meðal ungs fólks á aldrinum 16–24 ára mældist 15,2% á síðasta ársfjórðungi 2010 samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands. Tölur Vinnumálastofnunar frá október 2010 sýna að 76% ungra atvinnuleitenda á aldrinum 16–25 ára eru einungis með grunnskólapróf. Haustið 2009 var 608 einstaklingum neitað um inngöngu í framhaldsskóla. Þetta er fólk á aldrinum 18–45 ára. Þegar kennitölur þeirra voru keyrðar saman við skrá Vinnumálastofnunar um atvinnuleysi í september kom í ljós að 22% þeirra eru á atvinnuleysisskrá. Haustið 2010 var á fimmta hundrað nemendum neitað um inngöngu í framhaldsskóla samkvæmt upplýsingum frá mennta- og menningarmálaráðuneyti.
    Stjórnvöld hafa gripið til ýmiss konar úrræða til að auka virkni ungra atvinnuleitenda og hefur átakið Ungt fólk til athafna skilað þar ágætum árangri. Meginmarkmið þess er að virkja unga atvinnuleitendur innan þriggja mánaða frá atvinnumissi, til að koma í veg fyrir þær alvarlegu afleiðingar sem atvinnuleysi getur haft á líf og heilsu ungs fólks. Lögð er áhersla á snemmbært inngrip með fjölbreyttum virkniúrræðum og er það gert í samstarfi við fjölmarga aðila, svo sem menntamálayfirvöld, aðila vinnumarkaðarins, fullorðinsfræðsluaðila, sjálfboðaliðasamtök, íþróttahreyfinguna og sveitarfélögin. Langtímamarkmið samfélagsins hlýtur þó að vera að tryggja ungum atvinnuleitendum úrræði til framtíðar og er það megintilgangur þessarar tillögu.
    Tölur Vinnumálastofnunar frá desember 2010 sýna að 1.112 einstaklingar, eða tæp 40% atvinnuleitenda á aldrinum 16–25 ára, hafa verið án atvinnu í hálft ár sem er sú viðmiðun sem notuð er til að skilgreina langtímaatvinnuleysi. Þar af hafa 599 eða 54% verið án atvinnu lengur en heilt ár. Þetta er mikið áhyggjuefni því erlendar rannsóknir sýna að ungt fólk er sérstaklega viðkvæmt fyrir afleiðingum langtímaatvinnuleysis.
    Í skýrslunni Ungt fólk án atvinnuvirkni þess og menntun (félags- og tryggingamálaráðuneyti, nóvember 2009) segir:
    „Reynsla annarra norrænna ríkja hefur sýnt að afleiðingar atvinnuleysis eru alvarlegastar hjá þeim sem hafa hvað minnsta menntun. Að sama skapi eru afleiðingar langtímaatvinnuleysis hvað alvarlegastar fyrir ungt fólk sérstaklega þann hóp sem er að koma út á vinnumarkaðinn í fyrsta skiptið.“
    Hátt hlutfall ungra atvinnulausra með litla formlega menntun er því áhyggjuefni til lengri tíma litið og mikilvægt að finna leiðir til að tryggja þeim sem í hlut eiga atvinnumöguleika til framtíðar. Enginn vafi er á því að árangursríkasta leiðin er sú að bæta menntun þessara einstaklinga sem í hlut eiga, sú leið er líklegust til að styrkja stöðu þeirra á vinnumarkaði til lengri tíma litið.
    Tillagan felur í sér að stjórnvöld, fræðsluaðilar og aðilar vinnumarkaðarins bindist samtökum um að fjölga menntaúrræðum fyrir unga atvinnuleitendur með sérstakri áherslu á iðn- og tæknimenntun. Samhliða því verði leitað samstarfs við fyrirtæki í hugverkaiðnaði og öðrum vaxtargreinum atvinnulífsins með það fyrir augum að bjóða ungum atvinnuleitendum sem hefja nám í iðn- og tæknigreinum störf að námi loknu.
    Jafnframt miðar tillagan að því að auka vægi iðn- og tæknimenntunar í samfélaginu með víðtækri fræðslu til ungs fólks, m.a. um fjölbreytta kosti iðn- og tæknimenntunar og framtíðarmöguleika fólks með slíka menntun á vinnumarkaði.
    Hugverkaiðnaðurinn er dæmi um eina af vaxtargreinum atvinnulífsins, þar sem mikil þörf er fyrir sérhæft starfsfólk með iðn- og tæknimenntun. Áætlað hefur verið að hugverkaiðnaðurinn á Íslandi þurfi þúsund nýja starfsmenn á ári, einkum með fyrrnefnda menntun. Vöxtur hugverkaiðnaðarins nemur yfir 10% á ári hverju og starfa nú tæplega 10 þúsund manns í þessum geira.
    Mikill skortur er hins vegar á fagmenntuðu starfsfólki hér innan lands með iðn- og tæknimenntun eins og fram kemur í nýrri viðhorfskönnun Samtaka iðnaðarins meðal forsvarsmanna iðnfyrirtækja á Íslandi sem gerð var í janúar 2011. Þar kom fram veruleg þörf fyrir fjölgun starfsfólks með slíka menntun en meðal þeirra 200 iðnfyrirtækja sem þátt tóku í könnuninni kom fram þörf fyrir 11,05% fjölgun tæknimenntaðs háskólafólks og 10,65% fjölgun starfsfólks með iðn- og starfsmenntun á næstu 12 mánuðum.
    Mikilvægt er að stjórnvöld bregðist hratt við þessari mannaflaþörf með markvissum aðgerðum, ella er hætt við því að stærstu fyrirtækin í hugverkaiðnaði þurfi að taka út sinn vöxt erlendis ef ekki verður breyting á framboði sérmenntaðs vinnuafls hérlendis. Sú þróun er þegar hafin og því mikilvægt að stjórnvöld grípi nú þegar til mótvægisaðgerða til að efla vöxt atvinnugreinarinnar innan lands og skapa verðmæt störf fyrir landsmenn.
    Tillagan gerir ráð fyrir víðtæku samráði ráðuneyta undir forustu forsætisráðuneytis, aðila vinnumarkaðarins, fræðslustofnana, Landssambands æskulýðsfélaga, þar sem eiga sæti m.a. námsmannahreyfingar, æskulýðsfélög og ungliðahreyfingar stjórnmálaflokka, og Vinnumálastofnunar. Gert er ráð fyrir að þetta samráð skili tillögum að aðgerðaáætlun eigi síðar en 1. júlí 2011.