Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 476. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 771  —  476. mál.
Tillaga til þingsályktunarum athugun á fyrirkomulagi fraktflutninga við austurströnd Grænlands.

Flm.: Ólína Þorvarðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Atli Gíslason,


Árni Johnsen, Sigurður Ingi Jóhannsson, Þráinn Bertelsson.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna vilja grænlensku landsstjórnarinnar til að láta meta hagkvæmni þess að breyta fyrirkomulagi vöruflutninga við austurströnd Grænlands í ljósi þeirra takmarkana sem núverandi sérleyfisfyrirkomulag hefur í för með sér fyrir byggðir þar.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 6/2010 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 24. ágúst 2010 í Tasiilaq á Grænlandi.
    Siglingaáætlun útgerðarinnar Royal Arctic Line A/S er ákveðin fyrir eitt ár í senn. Núverandi fyrirkomulag fraktflutninga við austurströnd Grænlands býður upp á takmarkaðan sveigjanleika.
    Fyrir byggðirnar tvær á Austur-Grænlandi, Tasiilaq og Ittoqqortoormiit, þýðir þetta annars vegar að vöruflutningaskip geta aðeins siglt fimm mánuði ársins til Tasiilaq og tvo mánuði ársins til Ittoqqortoormiit. Þessa mánuði verður að anna þörf byggðanna fyrir heilt ár. Íbúarnir verða því að notast við neysluvörur sem oft eru komnar fram yfir síðasta söludag, sem samræmist illa heilbrigðiskröfum.
    Grænmeti og ávexti, sem mikil eftirspurn er eftir, þarf að flytja inn flugleiðis mestan hluta ársins, sem skilar sér í himinháu verðlagi á þeim vörum.
    Einnig eru byggingarvörur fyrir þessa 7–10 mánuði keyptar inn á tilgreindu siglingatímabili. Af þessum sökum þarf að hafa vörur að andvirði nokkur hundruð milljónir króna á lager mestan hluta ársins, sem leiðir af sér allt of háan byggingarkostnað.
    Samkvæmt upplýsingum frá íslenskum aðilum á sviði fraktflutninga væri hægt að sigla til beggja byggðanna á mun sveigjanlegri hátt, e.t.v. í tengslum við fraktflutninga á norðan- og norðaustanverðu Íslandi. Siglingatími frá Íslandi til beggja staðanna er í hæsta lagi einn eða tveir dagar.
    Sveigjanlegra fyrirkomulag vöruflutninga gæti gefið færi á aukinni þjónustu Íslands við Grænland á þessu sviði.