Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 477. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 772  —  477. mál.
Tillaga til þingsályktunarum vestnorrænt samstarf til að bæta aðstæður einstæðra foreldra á Vestur-Norðurlöndum.

Flm.: Ólína Þorvarðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Atli Gíslason,


Árni Johnsen, Sigurður Ingi Jóhannsson, Þráinn Bertelsson.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að hafa frumkvæði að samstarfi við Færeyjar og Grænland um að stuðla að umbótum á aðstæðum einstæðra foreldra á Vestur-Norðurlöndum. Samstarf við Færeyjar og Grænland verði aukið, m.a. með því að ríkin skiptist á hugmyndum, þekkingu og reynslu með það að markmiði að leggja fram sameiginlegar tillögur um það hvernig best væri að bæta aðstæður fjölskyldna einstæðra foreldra. Sem fyrsta skref er skorað á velferðarráðherra að skipuleggja ráðstefnu, í samvinnu við velferðarráðherra Færeyja og Grænlands, þar sem skipst verði á hugmyndum og árangursríkar aðgerðir kynntar.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 1/2010 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 24. ágúst 2010 í Tasiilaq á Grænlandi.
    Fjöldi einstæðra foreldra fer vaxandi í vestnorrænu ríkjunum. Þetta er að mörgu leyti ný þróun. Nýleg könnun í Færeyjum meðal einstæðra foreldra sýnir að hluti barna þeirra elst upp við hlutfallslega fátækt.
    Meðal afleiðinga af þessari þróun má nefna að börn alast upp við fátækt og samfélagið er þannig upp byggt að fjölskyldur hafa í flestum tilfellum þörf fyrir tvær fyrirvinnur til að endar nái saman. Þá er oft erfitt og í mörgum tilfellum ómögulegt fyrir einstæða foreldra að afla sér menntunar.
    Í flestum tilfellum eru það mæðurnar sem eru einar með börnin. Í Færeyjum eru nú um 2000 færri konur en karlar. Þar búa ýmsar ástæður að baki, en þó er talið að hluti mismunarins liggi í því að í mörgum tilfellum hafi einstæðar mæður neyðst til að yfirgefa Færeyjar til að láta enda ná saman. Þetta hefur ýmsar óæskilegar afleiðingar í för með sér. Börnin verða oft af möguleikanum á að hitta föður sinn, afa og ömmur og aðra ástvini. Þá er vitað að því lengur sem konurnar eru í burtu frá heimalandinu þeim mun ólíklegra er að þær komi aftur til baka. Og ef mæðurnar koma ekki til baka er líklegt að börnin geri það ekki heldur.
    Það er þess vegna bæði mikilvægt og þýðingarmikið að vestnorrænu ríkin skiptist á hugmyndum og upplýsingum um árangursríkar aðgerðir og komi fram með tillögur um hvernig bæta megi aðstæður einstæðra foreldra.