Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 535. máls.

Þskj. 888  —  535. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um heimild til staðfestingar tveggja ákvarðana
sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES- samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn annars vegar tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/101/EB frá 19. nóvember 2008, um breytingu á tilskipun 2003/87/EB þannig að kerfið fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Banda lagsins taki til flugstarfsemi, og hins vegar ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/450/EB frá 8. júní 2009, um ítarlega túlkun á flugstarfseminni sem tilgreind er í I. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á tveimur ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar er varða breytingar á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn annars vegar tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/101/EB frá 19. nóvember 2008, um breytingu á tilskipun 2003/87/EB þannig að kerfið fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins taki til flugstarfsemi, og hins vegar ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/450/EB frá 8. júní 2009, um ítarlega túlkun á flugstarfseminni sem tilgreind er í I. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB.
    Með tilskipun 2008/101/EB er flugstarfsemi felld undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda, sem er meginstjórntæki ESB á sviði loftslagsmála. Tilskipun 2008/101/EB, sem og ákvörðun 2009/450/EB sem tengist framkvæmd þeirrar tilskipunar, falla innan gildissviðs EES-samningsins og verða því teknar upp í samninginn. Enda þótt samningaviðræðum EFTA-ríkjanna við framkvæmdastjórn ESB um upptöku tilskipunarinnar í samninginn hafi lokið í september 2010 hefur tafist á vettvangi ESB að ljúka málinu og er enn beðið staðfestingar ráðherraráðsins áður en hægt verður að taka hana formlega upp í samninginn.
    Innleiðing umræddra gerða hér á landi kallar á lagabreytingar. Vegna tafa sem orðið hafa á upptöku umræddrar tilskipunar í EES-samninginn og afar skammra tímafresta sem kveðið er á um í henni er nauðsynlegt að ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku gerðanna í samninginn geti tekið gildi þegar í stað, m.ö.o. að ekki verði settur stjórnskipulegur fyrirvari af hálfu einstakra EES/EFTA-ríkja. Því er lagt til að Alþingi heimili ríkisstjórninni fyrir fram að staðfesta þær tvær ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem kveðið verður á um upptöku gerðanna í samninginn.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðanna sem hér um ræðir, en þær fela ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Drög að ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir eru prentuð sem fylgiskjöl með tillögu þessari ásamt gerðunum sjálfum.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara og samþykki Alþingis.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Innleiðing tilskipunar 2008/101/EB hér á landi kallar á lagabreytingar, og ákvörðun 2009/450/EB tengist framkvæmd tilskipunarinnar og hefur því ekki heldur lagastoð sem stendur. Sem áður segir eru ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar sem kalla á lagabreytingar almennt teknar með stjórnskipulegum fyrirvara og í kjölfarið leitað heimildar Alþingis fyrir staðfestingu ákvörðunarinnar. Setning stjórnskipulegs fyrirvara af hálfu eins samningsaðila EES-samningsins hefur í för með sér að viðkomandi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar öðlast ekki gildi fyrr en að liðnum tilteknum tíma frá því er viðkomandi ríki lýsir því yfir að það aflétti fyrirvaranum.
    Tilskipun 2008/101/EB kveður á um að tímafrestir flugrekenda til að sækja um losunarheimildir án endurgjalds og til skila á staðfestum gögnum um losun séu til 31. mars nk. Innlendir flugrekendur, sem og erlendir aðilar sem annast hafa flug til og frá Íslandi, hafa því einungis frest til þess tíma til að skila inn slíkum umsóknum og gögnum. Sömu tímamörk eiga við um aðra flugrekendur á svæðinu og þá sem fljúga til annarra ríkja á svæðinu. Þá stendur til að framkvæmdastjórn ESB gefi út uppfærðan lista yfir flugrekendur sem falla undir kerfið og hvaða ábyrgðarríki þeir tilheyra eins fljótt og unnt er eftir að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar hefur tekið gildi. Þessi listi mun taka til allra EES-ríkjanna, þ.m.t. Íslands, og er forsenda þess að flugrekendur og ríkin viti hvaða flugrekendur falli undir hvaða ríki.
    Af þessum sökum er mikilvægt að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku tilskipunarinnar öðlist gildi um leið og hún verður tekin, þ.e. að ekkert EES/EFTA-ríkjanna þriggja setji stjórnskipulegan fyrirvara við ákvörðunina, en slíkt frestar gildistöku ákvörðunarinnar þar til eftir að fyrirvaranum hefur verið aflétt. Sama á við um ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku ákvörðunar 2009/450/EB enda tengist hún framkvæmd tilskipunar 2008/101/EB. Því er leitað fyrirframheimildar Alþingis fyrir því að ríkisstjórnin staðfesti þær ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar er kveða á um upptöku umræddra gerða í EES-samninginn án stjórnskipulegs fyrirvara. Drög að endanlegum textum ákvarðananna eins og þau liggja fyrir nú (á ensku) eru meðfylgjandi.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/101/EB frá 19. nóvember 2008, um breytingu á tilskipun 2003/87/EB þannig að kerfið fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins taki til flugstarfsemi.
    
Viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda (ETS) hefur verið virkt innan ESB frá árinu 2005. Viðskiptakerfið er meginstjórntæki ESB á sviði loftslagsmála og er ætlað að mynda hagrænan hvata til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í sambandinu. Viðskiptakerfið (tilskipun 2003/87/EB) var tekið inn í EES-samninginn árið 2007 og EFTA ríkin hafa verið þátttakendur í því frá árinu 2008. Þar sem sú starfsemi á Íslandi sem hefði átt að falla innan kerfisins var sérstaklega undanþegin því með ákvörðum sameiginlegu EES- nefndarinnar nr. 146/2007 hefur kerfið (skráningarkerfi, gagna- og skýrsluskil, eftirlit, vottun o.fl.) ekki enn verið sett á fót hér á landi. Þátttaka Íslands í kerfinu hefur takmarkast við upplýsinga- og skýrsluskil til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).
    Nú liggur fyrir að viðskiptakerfið mun taka miklum breytingum á næstu árum. Frá og með 1. janúar 2012 fellur allt flug innan ESB og til og frá ríkjum ESB (EES) undir kerfið, samkvæmt tilskipun 2008/101/EB, og frá og með 1. janúar 2013 mun kerfið bæði ná yfir fleiri tegundir staðbundins iðnaðar og fleiri tegundir gróðurhúsalofttegunda en það gerir nú. Auk þess að fella fleiri tegundir starfsemi undir kerfið fela þessar breytingar í sér að öll ákvarðanataka innan kerfisins verður miðlægari. Þannig verður einn sameiginlegur pottur losunarheimilda fyrir allt svæðið og ákvarðanir um úthlutun munu byggja á árangursviðmiðum sem verða þau sömu fyrir allt svæðið. Vegna hinnar auknu samræmingar (e. harmonisation) í kerfinu er mikilvægt að Ísland nái að fylgja sömu tímafrestum og önnur ríki á svæðinu þannig að tryggt verði að íslensk fyrirtæki sitji við sama borð og fyrirtæki annars staðar á EES-svæðinu þegar kemur að úthlutun losunarheimilda án endurgjalds.
    Tilskipuninni er ætlað að draga úr losun koldíoxíðs frá flugstarfsemi innan Evrópusambandsins. Í því skyni er flug innan sambandsins, sem og flug inn og út úr sambandinu, fellt undir viðskiptakerfið. Tilskipunin felur í sér það takmark að draga úr losun frá flugstarfsemi um 3% á tímabilinu 1. janúar 2012 til 31. desember 2012 og um 5% á tímabilinu 1. janúar 2013 til 31. desember 2020 miðað við árlega meðaltalslosun í sambandinu viðmiðunarárin 2004–2006.
    Undir gildissvið tilskipunarinnar fellur allt flug innan sambandsins og flug til og frá sambandinu. Nokkrar tegundir flugstarfsemi eru undanskildar, þ.á m. flutningur þjóðhöfðingja og ríkisstjórna frá ríkjum utan bandalagsins, hernaðar-, tollgæslu- og löggæsluflug, leitar- og björgunarflug, flug með minna en 5.700 kg flugtaksþunga og flugstarfsemi aðila sem stunda flugrekstur í atvinnuskyni ef þeir fara annaðhvort færri en 243 flugferðir á hverju tímabili af þremur samliggjandi fjögurra mánaða tímabilum eða ef flugferðir þeirra leiða til losunar sem nemur minna en 10.000 tonnum á ári.
    Sérhver flugrekandi sem fellur undir gildissvið tilskipunarinnar heyrir undir tiltekið ábyrgðarríki, þ.e. það ríki sem ber ábyrgð á að framkvæma kröfur tilskipunarinnar gagnvart viðkomandi flugrekanda. Þegar um er að ræða flugrekanda með gilt flugrekstrarleyfi útgefið af aðildarríki er ábyrgðarríkið það ríki sem gaf viðkomandi flugrekstrarleyfi út. Í öllum öðrum tilvikum, þ.e. þegar um er að ræða flugrekanda utan ESB, er ábyrgðarríki það ríki sem rekja má stærstan hluta áætlaðrar losunar viðkomandi flugrekanda til á viðmiðunarári. Viðmiðunarárið er 2006, nema þegar um er að ræða flugrekendur sem hófu starfsemi eftir 1. janúar 2006, en þá er viðmiðunarárið fyrsta almanaksárið eftir að starfsemin hefst. Þegar rætt er um að losun megi „rekja til“ ríkis er átt við að viðkomandi loftfar hafi lent eða tekið á loft á yfirráðasvæði ríkisins. Flugrekendur geta flust milli ábyrgðarríkja að tilteknum skilyrðum uppfylltum.
    Vakin skal athygli á því að ákvæði tilskipunarinnar um ábyrgðarríki kunna að valda því að auk flugrekenda sem hafa flugrekstrarleyfi útgefið á Íslandi muni Ísland bera ábyrgð á framkvæmd tilskipunarinnar gagnvart flugrekendum utan ESB sem millilenda á Íslandi. Samkvæmt óbirtum lista framkvæmdastjórnar ESB munu yfir 160 flugrekendur falla undir ábyrgð Íslands þegar tilskipunin verður hluti af EES-samningnum.
    Heildarfjöldi losunarheimilda vegna flugstarfsemi á hverju tímabili tilskipunarinnar er ákveðinn af framkvæmdastjórn sambandsins á grundvelli bestu fáanlegra upplýsinga um losun aðildarríkja á viðmiðunarárunum 2004–2006. Ákvæðið hefur í för með sér að ákvarða þarf á vettvangi stofnana EES-samningsins hversu margar losunarheimildir bætast við heildarpottinn við útvíkkun kerfisins til EES/EFTA-ríkjanna. Nauðsynlegt er því að taka ákvörðun um aðlögun þessa ákvæðis að EES-samningnum og er gert ráð fyrir því í þeim drögum að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem nú liggja fyrir. Bent skal á að hér er um athyglisvert nýmæli að ræða, en upprunalega tilskipunin um viðskiptakerfið gerir ráð fyrir að hvert aðildarríki ákveði heildarlosun á yfirráðasvæði sínu frá starfsemi sem getið er í viðauka I á tímabilinu 2008–2012 með landsbundinni úthlutunaráætlun (NAP). Markmið breytingarinnar er að auka miðstýringu sambandsins og einsleitni við framkvæmd viðskiptakerfisins. Í þessari nálgun felst einnig að reglur um úthlutun losunarheimilda eru að miklu leyti samræmdar, eins og hér verður nánar lýst.
    Stærstum hluta losunarheimildanna, eða 85%, skal úthluta endurgjaldslaust til flugrekenda. Skal úthlutunin byggjast á svonefndu árangursviðmiði (e. benchmark) sem skilgreint er sem losunarheimildir á tonn-kílómetraeiningu. Árangursviðmiðið fyrir fyrstu tvö tímabil tilskipunarinnar er fundið út með því að deila fjölda losunarheimilda sem úthluta skal endurgjaldslaust í Evrópusambandinu með samtölu tonn-kílómetraeininga árið 2010 hjá þeim flugrekendum sem sóttu um losunarheimildir. Með þessum hætti er flugrekendum sem notast við sparneytnustu tæknina umbunað þar sem þeir fá úthlutað fleiri losunarheimildum en aðrir og geta selt hugsanlegar umframheimildir á sameiginlega markaðnum.
    Á fyrstu tveimur tímabilum tilskipunarinnar, 1. janúar 2012 til 31. desember 2012 annars vegar og 2013–2020 hins vegar, skal bjóða upp 15% af heildarfjölda losunarheimilda í Evrópusambandinu. Hlutfall þetta kann að aukast á tímabilum þar á eftir við almenna endurskoðun tilskipunarinnar. Hlutdeild aðildarríkjanna í þeim losunarheimildum sem ber að bjóða upp skal vera í réttu hlutfalli við hlutdeild viðkomandi ríkis í heildarmagni losunar frá flugrekstri í öllum aðildarríkjum á tilteknu viðmiðunarári, sem er árið 2010 fyrir fyrstu tvö tímabilin, sbr. 3. mgr. 3. gr. d. Þetta ákvæði er byggt á þeirri forsendu að losun í bandalagsríkjunum sé reiknuð sem ein heild. Gert er ráð fyrir að hlutdeild aðildarríkjanna hvers um sig verði tilgreind í sérstakri ákvörðun (e. decision). Ákvæðið hefur í för með sér að taka þarf ákvörðun um aðlögun þessa ákvæðis að EES-samningnum hvað varðar hlutfall EES/EFTA-ríkjanna.
    Nánari reglur um tilhögun uppboðs hafa verið settar í reglugerð framkvæmdastjórnarinnar. Mælst er til þess í tilskipuninni að tekjum af uppboði verði varið til aðgerða sem tengjast baráttunni gegn hlýnun jarðar. Sem dæmi um slíka ráðstöfun teknanna má nefna að þeim mætti verja til reksturs kerfisins.
    Á tímabilinu 1. janúar 2013 til 31. desember 2020 og á þeim tímabilum sem eftir fara skulu 3% af heildarfjölda losunarheimilda í sambandinu tekin frá og sett í sérstakan varasjóð fyrir flugrekendur sem hefja starfsemi eða auka losun sína um tiltekið magn eftir að fjöldi losunarheimilda fyrir viðkomandi tímabil er ákveðinn. Úthlutun losunarheimilda úr sjóðnum skal vera endurgjaldslaus og byggjast á tilteknum árangursviðmiðum sem skilgreind eru í tilskipuninni. Losunarheimildir sem ekki er úthlutað úr sjóðnum skulu boðnar upp af aðildarríkjum.
    Að öðru leyti en að ofan greinir gilda að meginstefnu til sömu eða sambærilegar reglur um þátttöku flugrekstrar í viðskiptakerfinu og eiga við um staðbundinn iðnað sem fellur undir gildissvið tilskipunar 2003/87/EB. Á það m.a. við um eftirlit, skráningu losunarheimilda, skýrslugjöf, vottun upplýsinga og viðurlög við vanefndum.
    Vakin skal athygli á því að ýmis atriði varðandi framkvæmd tilskipunar 2008/101/EB hafa enn ekki verið til lykta leidd innan sambandsins. Framkvæmdastjórninni er í mörgum ákvæðum falið vald til að setja nánari reglur, ýmist í formi reglugerða eða ákvarðana. Slíkar reglur, sem varða m.a. framkvæmd uppboðs, vottun upplýsinga og rekstur skráningarkerfis, verða teknar upp í EES-samninginn þegar þar að kemur.

4. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/450/EB frá 8. júní 2009, um ítarlega túlkun á flugstarfseminni sem tilgreind er í I. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB.
    
Ákvörðun framvkæmdastjórnarinnar 2009/450/EB kveður á um nánari túlkun á því hvaða flugstarfsemi fellur innan gildissviðs viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir (ETS), sbr. I viðauka við tilskipun 2003/87/EB eins og henni var breytt með tilskipun 2008/101/EB. Ákvörðunin útfærir nánar ákvæði viðaukans um hvaða flugstarfsemi fellur innan gildissviðs tilskipunarinnar og hvaða flugstarfsemi er undanþegin.

5. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    
Umhverfisráðherra fyrirhugar að leggja fram á yfirstandandi löggjafarþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 65/2007, um losun gróðurhúsalofttegunda, til innleiðingar á gerðum Evrópusambandsins sem varða viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda, þ.m.t. tilskipun 2008/101/EB og ákvörðun 2009/450/EB. Í frumvarpinu verður þannig að finna grundvallarákvæði um viðskiptakerfið, ákvæði er varða útvíkkun kerfisins til flugstarfsemi og ákvæði um losunarleyfi til iðnaðarins.
    Yfirvöld á sviði umhverfismála hafa kynnt innlendum flugrekstraraðilum efni tilskipunar 2008/101/EB og þær skyldur sem henni fylgja. Flestir íslenskir flugrekendur hafa svo tekið þátt í undirbúningi vegna útvíkkunar kerfisins til flugstarfsemi þó að reglur þar um séu ekki enn komnar í íslensk lög. Fjöldi annarra flugrekenda, aðallega frá löndum utan EES, mun síðan falla undir ábyrgð Íslands samkvæmt tilskipuninni. Þessir aðilar munu því þurfa að skila inn svokölluðum eftirlitsáætlunum til Umhverfisstofnunar auk skýrslna um losun gróðurhúsalofttegunda og umsóknum um úthlutun losunarheimilda. Þegar tilskipun 2008/101/EB verður komin inn í EES samninginn verður gefinn út listi yfir flugrekendur sem fljúga innan EES og undir hvaða umsjónarríki þeir skulu heyra.

Fylgiskjal I.

DRÖG AÐ ÞÝÐINGU

ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR

nr. [.../...]

frá [...]

um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        XX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. [.../...] frá [...] ( 1 ).

2)         Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/101/EB frá 19 nóvember 2008 um breytingu á tilskipun 2003/87/EB þannig að kerfið fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins taki til flugstarfsemi ( 2 ).

3)         Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-ríkin munu starfa náið saman að ákvarðanatökuferlinu.

4)         Samningsaðilar hafa gefið út sameiginlega yfirlýsingu þar sem m.a. er lögð áhersla á að þeir muni gera sitt ítrasta til að tryggja að ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem fella sérhverja ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins inn í samninginn, verði samþykktar og öðlist gildi með skjótum hætti.

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.

Liður 21al (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB) í XX. viðauka við samninginn breytist sem hér segir:

1.         Eftirfarandi undirliður bætist við:

        „–      32008 L 0101: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/101/EB frá 19. nóvember 2008 (Stjtíð. ESB L 8, 13.1.2009, bls. 3).“

2.         Eftirfarandi stafliðir bætist við á eftir staflið b) í aðlögunarákvæðunum:

                „ba)    Þegar tilskipunin verður felld inn í samninginn er engin flugstarfsemi, eins og hún er skilgreind í tilskipuninni, stunduð á yfirráðasvæði Liechtensteins. Liechtenstein mun fara að ákvæðum tilskipunarinnar þegar hlutaðeigandi flugstarfsemi verður stunduð á yfirráðasvæði þess.

                bb)    Eftirfarandi undirgrein bætist við í 4. mgr. 3. gr. c:

                        „Sameiginlega EES-nefndin skal, í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í samningnum og samkvæmt tölugögnum frá Eftirlitsstofnun EFTA í samvinnu við Evrópustofnun um öryggi flugleiðsögu, taka ákvörðun um sögulega losun gróðurhúsalofttegunda frá flugsamgöngum innan EES með því að bæta viðeigandi tölum, sem varða flug innan yfirráðasvæða EFTA-ríkjanna og milli þeirra og flug milli EFTA-ríkjanna og þriðju landa, við ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar þegar sú síðarnefnda verður felld inn í EES-samninginn.“

                bc)         Önnur undirgrein í 4. mgr. 3. gr. d falli brott.

                bd)    Eftirfarandi undirgrein bætist við í 2. mgr. 3. gr. e og 4. mgr. 3. gr. f:

                        „Eigi síðar en þann sama dag skulu EFTA-ríkin senda umsóknir, sem þeim hafa borist, til Eftirlitsstofnunar EFTA, sem skal koma þeim án tafar til framkvæmdastjórnarinnar.“

                be)         Eftirfarandi undirgreinar bætist við í 3. mgr. 3. gr. e.:

                        „Sameiginlega EES-nefndin skal, í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í samningnum og samkvæmt tölugögnum frá Eftirlitsstofnun EFTA í samvinnu við Evrópustofnun um öryggi flugleiðsögu, taka ákvörðun um heildarfjölda losunarheimilda innan EES, fjölda losunarheimilda sem verður boðinn upp, fjölda losunarheimilda í sérstökum varasjóði og fjölda losunarheimilda án endurgjalds með því að bæta viðeigandi tölum, sem varða flug innan yfirráðasvæða EFTA-ríkjanna og milli þeirra og flug milli EFTA-ríkjanna og þriðju landa, við ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar þegar sú síðarnefnda verður felld inn í EES-samninginn.

                        Framkvæmdastjórnin skal ákveða viðmiðunina fyrir EES. Framkvæmdastjórnin skal vinna máið með Eftirlitsstofnun EFTA í ákvarðanatökuferlinu. Útreikningur og birting af hálfu EFTA-ríkjanna samkvæmt 4. mgr. 3. gr. e skal fara fram eftir að sameiginlega EES-nefndin hefur tekið ákvörðun um að fella ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar inn í EES-samninginn.“

                bf)         Eftirfarandi undirgrein bætist við í 5. mgr. 3. gr. f:

                        „Framkvæmdastjórnin skal ákveða viðmiðunina fyrir EES. Framkvæmdastjórnin skal vinna máið með Eftirlitsstofnun EFTA í ákvarðanatökuferlinu. Útreikningur og birting af hálfu EFTA-ríkjanna samkvæmt 7. mgr. 3. gr. f skal fara fram eftir að sameiginlega EES-nefndin hefur tekið ákvörðun um að fella ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar inn í EES-samninginn.““

3.         Eftirfarandi stafliðir bætist við á eftir staflið i) í aðlögunarákvæðunum:

                „ia)     Eftirfarandi málsgrein bætist við á eftir 12. mgr. 16. gr.:

                        „13.    EFTA-ríkin skulu senda allar beiðnir skv. 5. og 10. mgr. 16. gr. til Eftirlitsstofnunar EFTA, sem skal koma þeim án tafar til framkvæmdastjórnarinnar.“

                ib)         Eftirfarandi undirgrein bætist við í 1. mgr. 18. gr. a:

                        „Umráðendum loftfara skal endurúthluta til EFTA-ríkjanna á árinu 2011, eftir að flugrekandinn hefur uppfyllt skuldbindingar sínar fyrir árið 2010. Upphaflega ábyrgðarríkið getur samþykkt nýjan tímafrest fyrir endurúthlutun umráðenda loftfara sem upphaflega var úthlutað til aðildarríkis á grundvelli viðmiða sem getið er í stafl. b), eftir að flugrekandinn hefur lagt fram skýra beiðni þar um innan sex mánaða frá því að framkvæmdastjórnin samþykkir skrá yfir umráðendur loftfara innan EES, sem mælt er fyrir um í stafl. b) í 3. mgr. 18. gr. a. Í því tilviki skal endurúthlutun fara fram eigi síðar en árið 2020 að því er varðar viðskiptatímabilið fyrir losunarheimildir sem hefst 2021.“

                ic)         Í stafl. b) í 3. mgr. 18. gr. a bætist orðin „á öllu EES“ við á eftir orðunum „umráðenda loftfara“.

                id)        Eftirfarandi undirgrein bætist við í 18. gr. b:

                        „Til að sinna verkefnum sínum geta EFTA-ríkin og Eftirlitsstofnun EFTA óskað eftir aðstoð Evrópustofnunar um öryggi flugleiðsögu eða annarrar hlutaðeigandi stofnunar og gert viðeigandi samninga við slíkar stofnanir.““

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2008/101/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi daginn eftir að síðasta tilkynning samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins berst sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel ... .

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
NN
formaður.


Sameiginleg yfirlýsing samningsaðila

vegna ákvörðunar nr. [.../...] um að fella tilskipun 2008/101/EB inn í samninginn


„Í tilskipun 2008/101/EB kemur fram að nota skuli tekjur af uppboði á losunarheimildum til flugsamgangna til að glíma við loftslagsbreytingar. Beiting EFTA-ríkjanna á þessu ákvæði er með fyrirvara um gildissvið EES-samningsins.

Að því er varðar ákvarðanir um viðmiðanir skv. 3. mgr. 3. gr. e og 5. mgr. 3. gr. f í tilskipun 2003/87/EB, með áorðnum breytingum samkvæmt tilskipun 2008/101/EB, munu samningsaðilar gera sitt ítrasta til að tryggja að ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem fella sérhverja ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins inn í samninginn, verði samþykktar og öðlist gildi með skjótum hætti. Til þess að tryggja einsleitni EES og sameiginlegs kerfis þess fyrir viðskipti með losunarheimildir skal sameiginlegt og hliðstætt ferli samningsaðila vera undanfari þeirra ákvarðana framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem skulu felldar inn í EES-samninginn, með skriflegri málsmeðferð ef nauðsyn krefur.

Til þess að kerfið fyrir viðskipti með losunarheimildir á EES-svæðinu fyrir alla umráðendur loftfara, sem málið varðar, verði gagnsætt mun framkvæmdastjórnin kveða á um sérstök ákvæði í ákvörðunum sínum um framkvæmd tilskipunar 2008/101/EB, þar sem vísað verður til þess að ákvarðanirnar nái til EFTA-ríkjanna, sem eiga aðild að EES, í gegnum ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar.“

DRÖG AÐ ÞÝÐINGU

SKÝRING

Upptaka tilskipunar 2008/101, um breytingu á tilskipun 2003/87/EB þannig að kerfið fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins taki til flugstarfsemi, í EES-samninginn


Viðeigandi gerð:
Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/101/EB frá 19. nóvember 2008 um breytingu á tilskipun 2003/87/EB þannig að kerfið fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins taki til flugstarfsemi 1 .

Viðeigandi ákvæði:
3. gr. c (4. mgr.), 3. gr. d (4. mgr.), 3. gr. e (2. mgr.), 3. gr. f (4. mgr.), 3. gr. e (3. mgr.), 3. gr. f (5. mgr.), 16. gr., 18. gr. (1. mgr. og 3. mgr. b) og 18. gr. b.

Almennar athugasemdir:
Í drögum að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar er lagt til að tilskipun 2008/101/EB verði felld inn í EES-samninginn í því skyni að útvíkka kerfi fyrir viðskipti með losunarheimildir frá flugsamgöngum þannig að það nái til alls EES-svæðisins en jafnframt að virða, eftir því sem unnt er, meginreglur tveggja stoða kerfis samningsins. Fylgja skal venjulegri málsmeðferð samkvæmt EES-samningnum við að fastsetja sögulega losun frá flugi á öllu EES-svæðinu, heildarfjölda losunarheimilda á EES-svæðinu, svo og heildarfjölda losunarheimilda sem bjóða skal upp á öllu EES-svæðinu, sem setja skal í sérstakan varasjóð og sem úthluta skal án endurgjalds.

Að því er varðar viðmiðanirnar skulu ákvarðanir framkvæmdastjórnarinnar taka til viðmiðana á öllu EES-svæðinu, sem ákvarða skal í nánu samstarfi við Eftirlitsstofnun EFTA. Útreikningur og birting á úthlutun losunarheimilda til umráðenda loftfara, sem falla undir ábyrgð EFTA ríkjanna, á grundvelli þessara viðmiðana skulu fara fram í kjölfar þess að ákvarðanir framkvæmdastjórnarinnar eru teknar upp í EES-samninginn.

Í þessari lausn felst að eftirfarandi ákvörðunarferli þarf að fara fram í nánu samstarfi á milli framkvæmdastjórnarinnar, Eftirlitsstofnunar EFTA og EES-EFTA-ríkjanna. Í samstarfinu felst að samningsaðilar gera ráð fyrir sérstökum ákvæðum í ákvörðunum sínum. eftir því sem við á, við beitingu tilskipunar 2008/101/EB, þar sem vísað verður til samsvarandi ákvarðana hinna samningsaðilanna í því skyni að mynda gagnsætt viðskiptakerfi með losunarheimildir á EES-svæðinu fyrir alla flugrekendur sem eiga í hlut.

i) 4. mgr. 3. gr. c
Framkvæmdastjórnin ákvarðar sögulega losun frá flugi fyrir ESB-27 (A) eins og gert er ráð fyrir í tilskipuninni,og nær þannig yfir flug innan ESB, milli aðildarríkja ESB og þriðju landa og milli aðildarríkja ESB og EES-EFTA-ríkja.

Eftirlitsstofnun EFTA, í samræmi við upplýsingar frá Evrópustofnun um öryggi flugleiðsögu, kveður á um umfang sögulegrar losunar frá flugi á öllu EES-svæðinu á grundvelli flugs innan yfirráðasvæða EES-EFTA-ríkjanna og flugs milli EES-EFTA-ríkjanna og þriðju landa (B).

Sameiginlega EES-nefndin fastsetur sögulega losun frá flugi á öllu EES-svæðinu með því að samþykkja ákvörðun þar sem gert er ráð fyrir upptöku ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar, að viðbættri sögulegri losun frá flugi sem kveðið er á um fyrir EES-EFTA-ríkin, og leggur með því móti saman tölur (A) og (B).

Aðlögunartexti skýrir að venjuleg málsmeðferð samkvæmt EES-samningnum á við og að viðbótartölum frá EES-EFTA-ríkjunum verður bætt við með ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar, á grundvelli tölugagna sem Eftirlitsstofnun EFTA leggur fram í nánu samstarfi við Evrópustofnun um öryggi flugleiðsögu.

ii) 3. mgr. 3. gr. e
Á grundvelli (A) mun framkvæmdastjórnin ákvarða fjölda losunarheimilda sem úthlutað verður til rekstraraðila vegna flugs innan upphaflegs ESB-gildissviðs kerfisins:
–    heildarfjölda losunarheimilda,
–    fjölda losunarheimilda sem boðnar verða upp,
–    fjölda losunarheimilda í sérstökum varasjóði (þetta á við um tímabilið sem hefst 1. janúar 2013 og tímabil þar á eftir),
–    fjölda losunarheimilda án endurgjalds.

Á grundvelli (B) mun Eftirlitsstofnun EFTA, í nánu samstarfi við Evrópustofnun um öryggi flugleiðsögu, ákvarða fjölgun losunarheimilda í tengslum við flug sem bætast við kerfið vegna útvíkkunar kerfisins svo það nái til til EES-EFTA-ríkjanna fyrir sérhvern eftirtalinna flokka losunarheimilda:
–    heildarfjölda losunarheimilda,
–    fjölda losunarheimilda sem boðnar verða upp,
–    fjölda losunarheimilda í sérstökum varasjóði (þetta á við um tímabilið sem hefst 1. janúar 2013 og tímabil þar á eftir),
–    fjölda losunarheimilda án endurgjalds

Sameiginlega EES-nefndin ákvarðar fjölda losunarheimilda, sem eru í umsjá EES-30, sem úthlutað verður til umráðenda með því að bæta EES-EFTA-tölunum við ESB-tölurnar þegar viðkomandi ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar er felld inn í EES-samninginn:
–    heildarfjölda losunarheimilda á öllu EES-svæðinu,
–    fjölda losunarheimilda sem boðnar verða upp á öllu EES-svæðinu,
–    fjölda losunarheimilda á öllu EES-svæðinu í sérstökum varasjóði (þetta á við um tímabilið sem hefst 1. janúar 2013 og tímabil þar á eftir),
–    fjölda losunarheimilda án endurgjalds á öllu EES-svæðinu (C).

Framkvæmdastjórnin skal ákveða viðmiðanirnar fyrir EES-30 (einnig þegar um er að ræða 5. mgr. 3. gr. f), og skal þannig starfa í nánu samráði við Eftirlitsstofnun EFTA í ákvarðanatökuferlinu. Útreikningur og birting á úthlutun losunarheimilda til umráðenda loftfara, sem falla undir ábyrgð EFTA-ríkjanna, á grundvelli þessara viðmiðana skulu fara fram í kjölfar þess að ákvarðanir framkvæmdastjórnarinnar eru teknar upp í EES-samninginn.

Í drögum að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar er gert ráð fyrir sameiginlegri yfirlýsingu þar sem samningsaðilarnir ítreka skuldbindingar sínar um að tryggja skjótt samþykki og gildistöku ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem ákvarðanir framkvæmdastjórnarinnar um viðmiðanir eru felldar inn.

iii) 3. mgr. 3. gr. d
Fjöldi losunarheimilda sem hvert EES-30 fyrir sig býður upp er í réttu hlutfalli við hlutfall þess af heildarlosuninni sem rakin er til flugsamgangna fyrir allt EES-30 á árinu 2010.

Rök og tillögur um lausnir vegna aðlögunar:

Engin flugstarfsemi sem við á í Liechtenstein
Engin flugstarfsemi, eins og hún er skilgreind í tilskipuninni, er nú stunduð í Liechtenstein. Því er gerð tillaga um aðlögunartexta þar sem þetta er skýrt og jafnframt tilgreint að Liechtenstein muni fara að ákvæðum tilskipunarinnar þegar hlutaðeigandi flugstarfsemi verður stunduð á yfirráðasvæði þess.

4. mgr. 3. gr. d – Eyrnamerking á tekjum:
Mál er varða ráðstöfun fjármuna falla utan gildissviðs EES-samningsins. Eyrnamerking á tekjum fellur þar af leiðandi utan gildissviðs samningsins. EES-EFTA-ríkin eru þó reiðubúin, að svo miklu leyti sem það takmarkast við beitingu tilskipunar 2008/101/EB, að hlíta ákvæðum 4. mgr. 3. gr. d, til að tryggja einsleita beitingu EES-kerfsins á sviði flugsamgangna, sem varðar einnig umráðendur frá þriðju löndum. Í samræmi við þá grein skal það vera á valdi ríkjanna að ákvarða notkun tekna sem koma til vegna uppboða á losunarheimildum. Tekjur skulu nýttar til að berjast gegn loftslagsbreytingum eins og tilgreint er í greininni og teljast fullnægjandi ef fjárveitingar í þessu skyni eru hærri en sem nemur tekjunum sem aflað er. Í drögum að ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar er gert ráð fyrir aðlögunartexta sem skýri að þetta feli ekki í sér neinar kvaðir um skýrslugjöf svo og sameiginlegri yfirlýsingu þar sem ítrekað er að upptaka þessa ákvæðis í EES-samninginn sé óháð gildissviði samningsins.

2. mgr. 3. gr. e og 4. mgr. 3. gr. f
Til að ferlið verði eins mikið í samræmi við tveggja stoða kerfið og unnt er munu EES- EFTA-ríkin afhenda framkvæmdastjórninni umsóknir, sem þeim hafa borist, fyrir milligöngu Eftirlitsstofnunar EFTA. Gert er ráð fyrir aðlögunartexta hvað þetta varðar.

16. gr. – Flugrekstrarbann:
EES-EFTA-ríkin leggja til að sama nálgun verði viðhöfð og gert er ráð fyrir að því er varðar „svarta listann“ á sviði öryggis í almenningsflugi. Í slíkum tilvikum samþykkir framkvæmdastjórnin bann á yfirráðasvæði ESB-27, sem víkkað er út til EES-svæðisins með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem viðkomandi gerð framkvæmdastjórnarinnar er felld inn í EES-samninginn. Meðan slíkrar upptöku er beðið og í ljósi þess hve brýnt er að beita banni á sviði öryggis í almenningsflugi hafa EES-EFTA-ríkin þó skuldbundið sig til að beita banninu samtímis í aðildarríkjum ESB.

Að því er varðar 16. gr. eru aðstæður hins vegar ekki jafnbrýnar og bráðabirgðabeiting ekki nauðsynleg. Því gildir venjulega málsmeðferðin við upptöku gerða. Þetta felur í sér að framkvæmdastjórnin mun samþykkja bann fyrir yfirráðasvæði ESB-27, sem mun einungis ná til EES-30 með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar er felld inn í EES-samninginn. Ekki er þörf á að gera ráð fyrir aðlögunartexta þar sem kveðið er á um að ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar gildi ekki um EES-EFTA- ríkin áður, þar eð þetta er meginregla sem leiðir af tveggja stoða kerfinu.

Að því er varðar beiðnir EES-EFTA-ríkjanna skv. 5. og 10. mgr. 16. gr. er lagður til aðlögunartexti þar sem gert er ráð fyrir að slíkar beiðnir verði sendar framkvæmdastjórninni fyrir milligöngu Eftirlitsstofnunar EFTA.

1. mgr. 18. gr. a:
Framkvæmdastjórnin lagði til aðlögunina þar sem settar eru fram reglur varðandi endurúthlutun til EFTA-ríkjanna á umráðendum loftfara.

b-liður 3. mgr. 18. gr. a:
Gert er ráð fyrir aðlögunartexta sem ætlað er að tryggja að framkvæmdastjórnin birti lista varðandi alla rekstraraðila sem falla undir gildissvið kerfisins, þ.e. lista sem nær til alls EES- svæðisins.

18. gr. b – Aðstoð frá Evrópustofnun um öryggi flugleiðsögu eða annarri hlutaðeigandi stofnun:
EES-EFTA-ríkin og Eftirlitsstofnun EFTA skulu, á sama hátt og framkvæmdastjórnin, geta treyst á sérþekkingu tiltekinnar stofnunar við beitingu tilskipunar 2008/101/EB. Því er gert ráð fyrir aðlögunartexta þess efnis að Eftirlitsstofnun EFTA geti óskað eftir aðstoð Evrópustofnunar um öryggi flugleiðsögu eða annarrar hlutaðeigandi stofnunar.

Tilskipun 2008/101/EB – ákvörðunarferli

ESB EFTA Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar
1. Tilskipun 2008/101/EB felld inn í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar
2. Framkvæmdastjórnin ákvarðar sögulega losun frá flugi fyrir ESB 27 ágúst 2010 ESA leggur fram tölu um sögulega losun til viðbótar frá flugi fyrir EES-EFTA 3 Ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar um sögulega losun frá flugi
3. Umráðendur loftfara afhenda umsóknir um losunarheimildir án endurgjalds til ábyrgðarríkja sinna fyrir 31. mars 2011
4. ESB-ríki senda umsóknir til framkvæmdastjórnarinnar fyrir 30. júní 2011 EES-EFTA-ríkin senda umsóknir til ESA fyrir 30. júní 2011
ESA sendir þær áfram til framkvæmdastjórnarinnar
5. Framkvæmdastjórnin samþykkir ákvörðun um fjölda losunarheimilda fyrir ESB 27 (heildarmagn, losunarheimildir sem boðnar verða upp, sérstakur varasjóður, losunarheimildir án endurgjalds) fyrir 30. september 2011 ESA leggur fram tölur um aukningu losunarheimilda til EES-EFTA 3 (heildarmagn, losunarheimildir sem boðnar verða upp, sérstakur varasjóður, losunarheimildir án endurgjalds) Ákvörðun sameiginlegu EES- nefndarinnar um fjölda losunarheimilda á EES-svæðinu felld inn í EES-samninginn
6. Framkvæmdastjórnin samþykkir ákvörðun um viðmiðun á EES- svæðinu fyrir 30. september 2011 2 Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar um viðmiðun á EES-svæðinu felld inn í EES- samninginn
7. Aðildarríki ESB og EES-EFTA-ríkin reikna og birta úthlutun losunarheimilda til umráðenda loftfara innan þriggja mánaða frá þeim degi er framkvæmdastjórnin samþykkir ákvörðunina um fjölda losunarheimilda og viðmiðanir á EES-svæðinu
8. Aðildarríki ESB og EES-EFTA-ríkin gefa út losunarheimildir til umráðenda loftfara fyrir 28. febrúar 2012 og 28. febrúar á hverju ári eftir það
Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2008/101/EB
frá 19. nóvember 2008
um breytingu á tilskipun 2003/87/EB þannig að kerfið fyrir viðskipti með heimildir til losunar      gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins taki til flugstarfsemi
(Texti sem varðar EES)


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 175. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ),
með hliðsjón af áliti svæðanefndarinnar ( 2 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/ 87/EB frá 13. október 2003 um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins ( 4 ) er komið á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins til að stuðla að því að dregið verði úr losun þeirra á kostnaðarhagkvæman og efnahagslega skilvirkan hátt.
2)          Lokamarkmið rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC), sem var samþykkt af hálfu Evrópubandalagsins með ákvörðun ráðsins 94/69/EB ( 5 ), er að halda styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu stöðugum undir tilteknum gildum þannig að komið verði í veg fyrir hættulegar veðurfarsbreytingar af mannavöldum.
3)          Á fundi leiðtogaráðsins í Brussel 8. og 9. mars 2007 var lögð áhersla á mikilvægi þess að ná því stefnumótandi markmiði að hitastig á heimsvísu hækki ekki um meira en 2°C miðað við það sem var fyrir iðnbyltinguna. Nýjustu niðurstöður vísindarannsókna, sem birtar voru í fjórðu matsskýrslu milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar (IPCC), sýna jafnvel enn skýrar fram á að neikvæð áhrif loftlagsbreytinga hafa sífellt alvarlegri áhættu í för með sér fyrir vistkerfi, matvælaframleiðslu og heilbrigði manna og öryggi og þau minnka líkur á að ná fram sjálfbærri þróun og þúsaldarmarkmiðum í þróunarmálum. Til að halda markmiðinu um 2°C innan seilingar þarf að koma á stöðugleika í styrkleika gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu við um 450 milljónarhluta jafngildiseininga koltvísýrings, sem hefur í för með sér að losun gróðurhúsalofttegunda verður að ná hámarki á næstu 10 til 15 árum og veruleg losun lofttegunda á heimsvísu verður að minnka fyrir árið 2050 um a.m.k. 50% miðað við losunina árið 1990.
4)          Leiðtogaráðið lagði áherslu á að Evrópusambandið skuli einsetja sér að breyta Evrópu í afar orkunýtið hagkerfi með lítilli losun gróðurhúsalofttegunda og, þar til hnattrænt og ítarlegt samkomulag hefur verið gert eftir árið 2012, skuldbundið sig á tiltekinn og óháðan hátt til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda innan Sambandsins eigi síðar en árið 2020 niður í a.m.k. 20% niður fyrir losunina sem var árið 1990. Takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda vegna flugsamgangna er mikilvægt framlag í tengslum við þessa skuldbindingu.
5)          Leiðtogaráðið lagði áherslu á að Evrópusambandið hafi einsett sér að ná hnattrænu heildarsamkomulagi um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eftir árið 2012 sem væru áhrifarík, skilvirk og eðlileg viðbrögð af þeirri stærðargráðu sem nauðsynleg er til að takast á við loftslagsbreytingar. Sambandið studdi 30% minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda í Evrópusambandinu fyrir árið 2020 miðað við losunina árið 1990 sem framlag sitt til hnattræns heildarsamkomulags fyrir tímabilið eftir árið 2012, að því tilskildu að önnur iðnríki skuldbindi sig til sambærilegrar minnkunar á losun og efnahagslega þróaðri þróunarlönd leggi nægilega mikið af mörkum í samræmi við ábyrgð sína og getu hverju sinni. Sá góði árangur, sem náðist á 13. ráðstefnu aðildarríkja að UNFCCC á Balí í desember 2007, er Evrópusambandinu hvatning til að halda áfram að leiða samningaviðræður um metnaðarfullan alþjóðasamning sem hefur það markmið að hitastig á heimsvísu hækki ekki um meira en 2°C. Evrópusambandið mun leitast við að tryggja að í slíkum alþjóðasamningi felist ráðstafanir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna flugsamgangna, og í þessu tilfelli ætti framkvæmdastjórnin að taka til athugunar hvaða breytingar þurfi að gera á þessari tilskipun þar sem hún gildir um umráðendur loftfara.
6)          Evrópuþingið samþykkti 14. febrúar 2007 ályktun um loftslagsbreytingar ( 1 ) þar sem vísað er til þess markmiðs að meðalhækkun hitastigs á heimsvísu verði ekki meiri en 2°C miðað við það sem var fyrir iðnvæðingu, og þar sem Evrópusambandið er hvatt til að sinna áfram forystuhlutverki sínu í samningaviðræðunum í því markmiði að koma á fót alþjóðlegum ramma um loftslagsbreytingar eftir árið 2012 og viðhalda miklum metnaði í viðræðum við alþjóðlega samstarfsaðila Sambandsins í framtíðinni, og lögð var áhersla á nauðsyn þess að ná fram fyrir árið 2020 heildarminnkun á losun í öllum iðnríkjum sem nemur 30% miðað við losunina árið 1990 í því markmiði að ná fram 60 til 80% minnkun fyrir árið 2050.
7)          Samkvæmt UNFCCC er öllum aðilum skylt að setja fram og framkvæma landsbundnar og, eftir því sem við á, svæðisbundnar áætlanir sem fela í sér ráðstafanir til að draga úr loftslagsbreytingum.
8)          Samkvæmt Kýótóbókuninni við UNFCCC, sem samþykkt var fyrir hönd Evrópubandalagsins með ákvörðun ráðsins 2002/358/EB ( 2 ), er þess krafist að iðnríki leitist við að takmarka eða draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, sem ekki falla undir Montreal-bókunina og stafa af flugsamgöngum, á vettvangi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar.
9)          Bandalagið er ekki aðili að Chicago-samningnum um alþjóðlegt almenningsflug (Chicago- samningurinn) frá 1944 en hins vegar eru öll aðildarríki aðilar að samningnum og Alþjóðaflugmálastofnuninni. Í samvinnu við önnur ríki innan Alþjóðaflugmálastofnunarinnar halda aðildarríki áfram að styðja starf sem miðar að því að þróa ráðstafanir, m.a. markaðstengd stjórntæki, til að draga úr loftslagsbreytingum vegna flugsamgangna. Á sjötta fundi nefndar Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um umhverfisvernd á sviði flugmála (ICAO Committee on Aviation Environmental Protection) árið 2004 var samþykkt að kerfi fyrir viðskipti með losunarheimildir, sem tengdist flugmálum sérstaklega og væri byggt á nýjum lagagerningi á vegum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, væri ekki nægilega álitlegur kostur og því ekki vert huga frekar að því. Af þessum sökum samþykkti 35. þing Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, sem haldið var í september 2004, ályktun A35-5 þar sem ekki var lagður til nýr lagagerningur heldur hvatt til opinna viðskipta með losunarheimildir og að ríki geti tekið losun sem stafar af alþjóðlegum flugsamgöngum upp í kerfi sín fyrir viðskipti með losunarheimildir. Í viðbæti L við ályktun A36-22, sem samþykkt var á 36. þingi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar í september 2007, eru samningsríki hvött til að hrinda ekki í framkvæmd kerfi fyrir viðskipti með losunarheimildir að því er varðar umráðendur loftfara í öðrum samningsríkjum nema á grundvelli gagnkvæms samkomulags milli ríkjanna. Með hliðsjón af því að í Chicago-samningnum er á skýran hátt viðurkenndur réttur hvers samningsaðila til að beita, án mismununar, eigin loftferðalögum og -reglum að því er varðar loftför allra ríkjanna gerðu aðildarríki Evrópubandalagsins og fimmtán önnur Evrópuríki fyrirvara við þessa ályktun og áskildu sér rétt til þess, samkvæmt Chicago-samningnum, að samþykkja og beita markaðstengdum ráðstöfunum, án mismununar, gagnvart öllum umráðendum loftfara í öllum ríkjum sem bjóða flugþjónustu til yfirráðasvæðis þeirra, frá því eða innan þess.
10)          Í sjöttu aðgerðaáætlun Bandalagsins á sviði umhverfismála, sem komið var á fót með ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1600/2002/EB ( 1 ), er kveðið á um að Bandalagið skuli tilgreina og grípa til sértækra aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna flugsamgangna ef Alþjóðaflugmálastofnunin hefur ekki samþykkt slíkar aðgerðir eigi síðar en árið 2002. Í ályktunum sínum frá október 2002, desember 2003 og október 2004 hefur ráðið ítrekað hvatt framkvæmdastjórnina til að leggja til aðgerðir sem miða að því að draga úr loftslagsbreytingum sem stafa af millilandaflutningum í lofti.
11)          Stefnu og ráðstöfunum skal hrundið í framkvæmd innan einstakra aðildarríkja og á vettvangi Bandalagsins í öllum geirum hagkerfis Bandalagsins til að draga megi eins mikið úr losun og þörf krefur. Ef áhrif loftslagsbreytinga vegna fluggeirans halda áfram að aukast með núverandi hraða munu þær vega verulega upp á móti skerðingu í öðrum geirum í tengslum við baráttuna gegn loftslagsbreytingum.
12)          Í orðsendingu sinni til ráðsins, Evrópuþingsins, efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna og svæðanefndarinnar frá 27. september 2005, „Að draga úr loftslagsbreytingum vegna flugsamgangna“ („Reducing the Climate Change of Aviation“), setti framkvæmdastjórnin fram áætlun um að draga úr loftslagsáhrifum vegna þessara samgangna. Þar eð áætlunin var hluti af heildstæðum ráðstöfunum var í henni lagt til að flugsamgöngur féllu undir kerfi Bandalagsins fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda og kveðið á um stofnun vinnuhóps um flugsamgöngur með þátttöku allra hagsmunaaðila, sem væri þáttur í öðrum áfanga Evrópuáætlunarinnar um loftslagsbreytingar og verkefni hans væri að kanna leiðir til að fella flugsamgöngur inn í kerfi Bandalagsins. Í ályktunum sínum frá 2. desember 2005 féllst ráðið á það að frá efnahags- og umhverfissjónarmiðum virtist besta lausnin vera sú að fella fluggeirann undir kerfi Bandalagsins og það fór þess á leit við framkvæmdastjórnina að hún legði fram lagafrumvarp þess efnis eigi síðar en í lok ársins 2006. Í ályktun sinni frá 4. júlí 2006 um að draga úr loftslagsbreytingum vegna flugsamgangna ( 2 ) viðurkenndi Evrópuþingið að viðskipti með losunarheimildir geti hugsanlega verið hluti af heildstæðum ráðstöfunum gegn áhrifum flugsamgangna á loftslag, séu þau útfærð á viðeigandi hátt.
13)          Heildstæðar ráðstafanir skulu einnig fela í sér rekstrar- og tæknilegar ráðstafanir. Framfarir á sviði rekstrarstjórnunar flugumferðar samkvæmt áætluninni um samevrópska loftrýmið og SESAR-áætluninni gætu stuðlað að aukningu á heildarnýtni eldsneytis um allt að 12%. Rannsóknir á nýrri tækni, m.a. aðferðum til að bæta eldsneytisnýtni loftfara, geta dregið enn frekar úr losun vegna flugsamgangna.
14)          Markmiðið með breytingunum, sem gerðar eru á tilskipun 2003/87/EB með þessari tilskipun, er að draga úr loftslagsbreytingum, sem rekja má til flugsamgangna, með því að fella losun frá flugstarfsemi inn í kerfi Bandalagsins.
15)          Umráðendur loftfara hafa öðrum fremur beina stjórn á því hvaða tegundir loftfara eru í rekstri og hvernig þeim er flogið og skulu því bera ábyrgð á því að staðið sé við skuldbindingarnar sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun, m.a. þá skuldbindingu að vöktunaráætlun sé gerð, að losun sé vöktuð í samræmi við áætlunina og að gefin sé skýrsla um losunina. Auðkenni umráðanda loftfars getur verið ICAO-kennimerki eða annað viðurkennt kennimerki sem notað er til að auðkenna flugið. Ef auðkenni umráðanda loftfars er óþekkt skal líta á eiganda loftfarsins sem umráðanda þess nema hann færi sönnur á það á hver sé umráðandi loftfarsins.
16)          Til að komast hjá röskun á samkeppni og bæta skilvirkni í umhverfismálum skal losun frá allri flugumferð að og frá flugvöllum í Bandalaginu talin með frá og með árinu 2012.
17)          Bandalagið og aðildarríki þess skulu halda áfram að leita eftir samkomulagi um hnattrænar ráðstafanir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá flugsamgöngum. Kerfi Bandalagsins getur verið fyrirmynd að viðskiptum með losunarheimildir um allan heim. Bandalagið og aðildarríki þess skulu áfram halda sambandi við þriðju aðila við framkvæmd þessarar tilskipunar og hvetja þriðju lönd til að grípa til samsvarandi ráðstafana. Ef þriðja land samþykkir ráðstafanir sem hafa a.m.k. jafnmikil áhrif og þau sem þessi tilskipun hefur í för með sér í þá átt að draga úr loftslagsbreytingum vegna flugumferðar til Bandalagsins skal framkvæmdastjórnin, eftir að hafa ráðfært sig við þriðja landið, vega og meta þá kosti sem tiltækir eru til að samspil kerfis Bandalagsins og ráðstafana þriðja landsins verði sem ákjósanlegast. Með kerfum um viðskipti með losunarheimildir, sem verið er að þróa í þriðju löndum, er að skapast ákjósanlegt samspil við kerfi Bandalagsins m.t.t. umfangs flugsamgangna í þessum löndum. Tvíhliða samningar um tengingu kerfis Bandalagsins við önnur viðskiptakerfi í því skyni að búa til sameiginlegt kerfi eða um að höfð verði hliðsjón af samsvarandi ráðstöfunum til að komast hjá tvöfaldri lagasetningu gætu orðið skref í átt að hnattrænum samningi. Ef slíkir tvíhliða samningar eru gerðir getur framkvæmdastjórnin breytt því hvers konar flugstarfsemi fellur undir kerfi Bandalagsins og m.a. breytt heildarfjölda losunarheimildanna sem gefinn verður út til handa umráðendum loftfara.
18)          Í samræmi við meginregluna um betri lagasetningu skulu tilteknar flugferðir vera undanskildar kerfi Bandalagsins. Til að komast enn frekar hjá óhóflegri stjórnsýslulegri byrði skulu umráðendur loftfars í flutningaflugi, sem fara færri en 243 flugferðir á þremur fjögurra mánaða tímabilum í röð, vera undanþegnir kerfi Bandalagsins. Þetta kæmi flugrekendum, sem sinna takmarkaðri þjónustu innan gildissviðs kerfis Bandalagsins, til góða, m.a. flugrekendum frá þróunarlöndum.
19)          Í flugi fer fram losun á koltvísýringi, köfnunarefnisoxíðum, vatnsgufu og súlfat- og sótögnum og þannig hafa flugsamgöngur áhrif á loftslagið í heiminum. Milliríkjanefndin um loftslagsbreytingar (IPCC) hefur áætlað að heildaráhrif flugsamgangna á loftslag séu nú tvisvar til fjórum sinnum meiri en áhrifin frá koltvísýringslosuninni einni. Nýleg rannsókn á vegum Bandalagsins gefur til kynna að heildaráhrif flugsamgangna á loftslag gætu verið u.þ.b. tvöfalt meiri en áhrif koltvísýrings eingöngu. Í hvorugri þessara áætlana er þó tekið tillit til áhrifa klósiga, en um þau ríkir mikil óvissa. Í samræmi við 2. mgr. 174. gr. sáttmálans byggist umhverfisstefna Bandalagsins á varúðarreglunni. Þar til frekari framfarir hafa orðið á sviði vísinda skal taka eins mikið tillit til allra áhrifa vegna flugsamgangna og unnt er. Um losun köfnunarefnisoxíðs verður fjallað í annarri löggjöf sem framkvæmdastjórnin mun gera tillögu um árið 2008. Stuðla skal að rannsóknum á myndun flugslóða og klósiga og takmarkandi ráðstöfunum, sem eru árangursríkar, m.a. ráðstöfunum á sviði rekstrar og tækni.
20)          Til að komast hjá röskun á samkeppni skal mæla fyrir um samræmdar aðferðir við úthlutun í því skyni að ákvarða heildarfjölda þeirra losunarheimilda, sem gefa skal út, og úthluta heimildum til umráðenda loftfara. Tilteknu hlutfalli losunarheimilda verður úthlutað með uppboði í samræmi við reglur sem framkvæmdastjórnin setur. Koma skal á fót sérstökum varasjóði losunarheimilda til að tryggja nýjum umráðendum loftfara aðgang að markaðinum og aðstoða umráðendur loftfara ef fjöldi tonnkílómetra í starfsemi þeirra eykst hratt. Áfram skulu gefnar út losunarheimildir til þeirra umráðenda loftfara sem hætta rekstri þar til tímabilinu, sem losunarheimildir án endurgjalds hefur verið úthlutað fyrir, lýkur.
21)          Rétt er að hlutfall losunarheimilda, sem eru gefnar út án endurgjalds til allra umráðenda loftfara sem taka þátt í kerfi Bandalagsins, verði að fullu samræmt til að tryggja jöfn samkeppnisskilyrði fyrir umráðendur loftfara, enda munu reglur eins aðildarríkis gilda um hvern umráðanda loftfars að því er varðar allt flug hans til ESB, innan þess og frá því, auk þess sem um hann gilda ákvæði um bann við mismunun í tvíhliða samningum um flugþjónustu við þriðju lönd.
22)          Flugsamgöngur eiga sinn þátt í heildaráhrifum á loftslagsbreytingar af völdum starfsemi manna og takmarka má umhverfisáhrif af losun gróðurhúsalofttegunda frá loftförum með ráðstöfunum til að sporna við loftslagsbreytingum í ESB og þriðju löndum, einkum þróunarlöndum, og til að fjármagna rannsóknir og þróun m.t.t. takmörkunar og aðlögunar, einkum að því er varðar flugtækni og flutninga í lofti. Ákvarðanir um opinber útgjöld hvers lands um sig eru mál aðildarríkjanna, í samræmi við dreifræðisregluna. Án þess að það hafi áhrif á þá stöðu skal nota tekjur af uppboði á losunarheimildum, eða samsvarandi fjárhæð, svo fremi ráðandi meginreglur fjárlaga aðildarríkjanna, t.d. um einingu (unity) og algildi (universality), krefjist þess, til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, aðlagast áhrifum af loftslagsbreytingum í ESB og þriðju löndum og til að fjármagna rannsóknir og þróun til takmörkunar og aðlögunar, ásamt því að standa straum af stjórnsýslukostnaði við kerfi Bandalagsins. Tekjum af uppboðum skal einnig varið til flutninga sem valda lítilli losun. Ágóðanum af uppboðunum skal einkum varið til að fjármagna framlög til alþjóðlega sjóðsins fyrir orkunýtni og endurnýjanlega orku og til ráðstafana til að koma í veg fyrir skógeyðingu og greiða fyrir aðlögun í þróunarlöndum. Þau ákvæði þessarar tilskipunar, sem varða ráðstöfun tekna, skulu ekki hafa áhrif á neinar ákvarðanir um ráðstöfun tekna af uppboðum á losunarheimildum í tengslum við almenna allsherjarendurskoðun á tilskipun 2003/87/EB.
23)          Ákvæði um ráðstöfun fjár frá uppboðunum skulu tilkynnt framkvæmdastjórninni. Slíkar tilkynningar losa aðildarríki þó ekki undan þeirri skyldu, sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans, að tilkynna um tilteknar, landsbundnar ráðstafanir. Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á niðurstöður úr hvers kyns síðari tíma málsmeðferðum í tengslum við ríkisaðstoð sem kann að verða veitt í samræmi við 87. gr. og 88. gr. sáttmálans.
24)          Til að auka kostnaðarhagkvæmni kerfis Bandalagsins skulu umráðendur loftfara geta notað einingar vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareiningar frá starfsemi sem er rekin á grundvelli verkefnistengdra aðgerða, upp að samræmdu hámarki, til að uppfylla skyldu sína um að skila inn losunarheimildum. Notkun eininga vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareininga skal vera í samræmi við viðmiðanirnar fyrir viðurkenningu á notkun í kerfinu fyrir viðskipti sem settar eru fram í þessari tilskipun. Meðaltal hundraðshlutanna, sem aðildarríkin hafa tilgreint vegna notkunar eininga vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareininga á fyrsta skuldbindingartímabili Kýótóbókunarinnar, er u.þ.b. 15%.
25)          Í ályktunum fundar leiðtogaráðsins í Brussel 13. og 14. mars 2008 féllst ráðið á, með skírskotun til hnattræns samhengis samkeppnismarkaða, að áhættan á kolefnisleka sé áhyggjuefni sem þurfi að greina og bregðast við sem fyrst í nýju tilskipuninni um kerfi fyrir viðskipti með losunarheimildir þannig að unnt verði að grípa til viðeigandi ráðstafana ef alþjóðlegar samningaviðræður reynast árangurslausar. Alþjóðasamningur sé enn besta leiðin til að fjalla um þetta efni.
26)          Til að létta stjórnsýslubyrði af umráðendum loftfara skal eitt aðildarríki bera ábyrgð á hverjum umráðanda loftfars. Aðildarríkjum er gert að tryggja að umráðendur loftfara, sem fengu útgefið rekstrarleyfi í því aðildarríki, eða umráðendur loftfara, sem eru án rekstrarleyfis eða eru frá þriðju löndum og losun á þeirra vegum á viðmiðunarári má að mestu rekja til viðkomandi aðildarríkis, uppfylli kröfurnar í þessari tilskipun. Ef umráðandi loftfars uppfyllir ekki kröfurnar í þessari tilskipun og aðrar ráðstafanir ábyrgðarríkisins til framfylgdar duga ekki til að tryggja að kröfurnar séu uppfylltar skulu aðildarríkin standa saman um aðgerðir. Ábyrgðarríkið skal því geta farið fram á það við framkvæmdastjórnina að hún ákveði að setja flugrekstrarbann innan Bandalagsins á viðkomandi umráðanda loftfara, eigi það ekki annars úrkosti.
27)          Til að viðhalda heilleika bókhaldskerfisins fyrir kerfi Bandalagsins í ljósi þess að losun frá alþjóðlegu flugi fellur ekki undir skuldbindingar aðildarríkja samkvæmt Kýótóbókuninni skal einungis nota losunarheimildir, sem úthlutað hefur verið til fluggeirans, til að uppfylla þær skyldur sem lagðar eru á umráðendur loftfara um að skila inn losunarheimildum samkvæmt þessari tilskipun.
28)          Til að tryggja að allir umráðendur loftfara fái sömu meðhöndlun skulu aðildarríki fylgja samræmdum reglum við stjórn á þeim umráðendum loftfara, sem þau bera ábyrgð á, í samræmi við tilteknar viðmiðunarreglur sem framkvæmdastjórnin tekur saman.
29)          Til að vernda heilleika kerfis Bandalagsins í umhverfislegu tilliti skulu einingar, sem umráðendur loftfara skila inn, einungis reiknaðar með í tengslum við það hvort markmiðum um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda er náð þar sem tillit er tekið til þessarar losunar.
30)          Evrópustofnunin um öryggi flugleiðsögu (Eurocontrol) býr e.t.v. yfir upplýsingum sem gætu gagnast aðildarríkjum eða framkvæmdastjórninni við að leysa af hendi þær skyldur sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun.
31)          Ákvæðin í kerfi Bandalagsins sem varða vöktun, skýrslugjöf og sannprófun á losun og viðurlög við brotum rekstraraðila gilda einnig um umráðendur loftfara.
32)          Framkvæmdastjórnin skal endurskoða framkvæmd tilskipunar 2003/87/EB í tengslum við flugstarfsemi í ljósi reynslunnar af beitingu hennar og gefa síðan Evrópuþinginu og ráðinu skýrslu.
33)          Við endurskoðun á því hvernig framkvæmd tilskipunar 2003/87/EB reynist í tengslum við flugstarfsemi skal taka tillit til þess að lönd, þar sem aðrar greinar flutninga eru hvorki fullnægjandi né sambærilegar, eru mjög háð flugsamgöngum í skipulagslegu tilliti og reiða sig því mjög á flutninga í lofti og að í þessum löndum vegur framlag ferðaþjónustugeirans til vergrar landsframleiðslu þungt. Sérstaka áherslu skal leggja á að draga úr eða jafnvel leysa öll vandamál sem koma upp í tengslum við aðgengi og samkeppnishæfni ystu svæða Bandalagsins, eins og tilgreint er í 2. mgr. 299. gr. sáttmálans, og vandamál sem varða skyldur um opinbera þjónustu í tengslum við framkvæmd þessarar tilskipunar.
34)          Yfirlýsing ráðherra um flugvöllinn á Gíbraltar, sem samþykkt var í Córdoba 18. september 2006 á fyrsta ráðherrafundi samráðsvettvangs um Gíbraltar, mun koma í stað sameiginlegrar yfirlýsingar um flugvöllinn á Gíbraltar, sem gefin var í London 2. desember 1987, og ef henni er fylgt í einu og öllu er litið svo á að yfirlýsingunni frá 1987 sé einnig fylgt.
35)          Gerðar skulu nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar þessari tilskipun í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 1 ).
36)          Einkum skal framkvæmdastjórninni veitt umboð til að samþykkja ráðstafanir vegna uppboðs á losunarheimildum sem ekki er skylt að gefa út án endurgjalds, til að samþykkja nákvæmar reglur um rekstur sérstaka varasjóðsins fyrir tiltekna umráðendur loftfara og verklagsreglur í tengslum við óskir til framkvæmdastjórnarinnar um að hún ákveði að setja flugrekstrarbann á tiltekinn umráðanda loftfara og til að breyta flugstarfseminni, sem tilgreind er í I. viðauka, ef þriðja land innleiðir ráðstafanir til að draga úr áhrifum á loftslagsbreytingar vegna flugsamgangna. Þar eð þessar ráðstafanir eru almenns eðlis og þeim er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar, m.a. með því að bæta við þessa tilskipun nýjum, veigalitlum þáttum, skulu þær samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem kveðið er á um í 5. gr. a í ákvörðun 1999/468/EB.
37)          Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiði þessarar tilskipunar og því verður betur náð á vettvangi Bandalagsins vegna þess hve aðgerðirnar eru umfangsmiklar og hafa víðtæk áhrif er Bandalaginu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná þessu markmiði.
38)          Í samræmi við 34. lið samstarfssamningsins milli stofnana um betri lagasetningu ( 2 ) eru aðildarríkin hvött til að taka saman, fyrir sig og í þágu Bandalagsins, eigin töflur sem sýna, eftir því sem við verður komið, samsvörun milli þessarar tilskipunar og ráðstafananna til að lögleiða hana og að birta þær.
39)          Því ber að breyta tilskipun 2003/87/EB til samræmis við það.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.


Breytingar á tilskipun 2003/87/EB


Eftirfarandi breytingar eru hér með gerðar á tilskipun 2003/87/EB:
1.     Eftirfarandi fyrirsögn komi á undan 1. gr.:
    „I. KAFLI
     ALMENN ÁKVÆÐI
2.     Eftirfarandi mgr. er bætt við 2. gr.:
    „3.     Beiting þessarar tilskipunar gagnvart flugvellinum á Gíbraltar telst hvorki hafa áhrif á lagalega stöðu Konungsríkisins Spánar né Breska konungsríkisins að því er varðar ágreining um yfirráðarétt yfir landsvæðinu þar sem flugvöllurinn er.“
3.     Ákvæðum 3. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    Í stað b-liðar komi eftirfarandi:
        „b)    „losun“: losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið frá upptökum í stöð eða losun frá loftfari í flugstarfsemi, sem tilgreind er í I. viðauka, á lofttegundunum sem eru tilgreindar í tengslum við viðkomandi starfsemi,“
    b)    eftirfarandi liðir bætist við:
        „o)    „umráðandi loftfars“: aðili sem rekur loftfar og stundar um leið flugstarfsemi, sem tilgreind er í I. viðauka, eða eigandi loftfarsins ef aðilinn er óþekktur eða ekki tilgreindur af eiganda þess,
        p)    „umráðandi loftfars í flutningaflugi“: umráðandi sem býður almenningi, gegn greiðslu, áætlunarflug eða óreglubundið flug vegna flutninga á farþegum, vörum eða pósti,
        q)    „ábyrgðarríki“: aðildarríkið sem ber ábyrgð á stjórnun kerfis Bandalagsins að því er varðar umráðanda loftfars í samræmi við a-lið 18. gr.,
        r)    „losun sem rakin er til flugsamgangna“: losun frá öllum flugferðum sem falla undir flugstarfsemina, sem tilgreind er í I. viðauka, og hefjast á flugvelli innan yfirráðasvæðis aðildarríkis eða hefjast í þriðja landi og lýkur á slíkum flugvelli,
        s)    „söguleg losun frá flugi“: meðaltal árlegrar losunar á almanaksárunum 2004, 2005 og 2006 frá loftförum sem annast flugstarfsemi sem tilgreind er í I. viðauka.“
4.     Eftirfarandi kafli bætist við á eftir 3. gr.:
    „II. KAFLI
     FLUGSAMGÖNGUR
     3. gr. a
     Gildissvið
    Ákvæði þessa kafla gilda um úthlutun og útgáfu losunarheimilda í tengslum við flugstarfsemi sem tilgreind er í I. viðauka.
     3. gr. b
    Flugstarfsemi
    Eigi síðar en 2. ágúst 2009 skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferð í stjórnsýslunni sem um getur í 2. mgr. 23. gr., taka saman viðmiðunarreglur um ítarlega túlkun á flugstarfsemi sem tilgreind er í I. viðauka.
     3. gr. c
    Heildarfjöldi losunarheimilda til flugsamgangna
    1.     Að því er varðar tímabilið frá 1. janúar 2012 til 31. desember 2012 skal heildarfjöldi þeirra losunarheimilda, sem skal úthluta til umráðenda loftfara, jafngilda 97% af sögulegri losun frá flugsamgöngum.
    2.     Að því er varðar tímabilið sem um getur í 2. mgr. 11. gr. og hefst 1. janúar 2013 og, ef ekki eru gerðar neinar breytingar í kjölfar endurskoðunar 4. mgr. 30. gr., fyrir hvert tímabil þar á eftir skal heildarfjöldi þeirra losunarheimilda, sem skal úthluta til umráðenda loftfara, jafngilda 95% af sögulegri losun frá flugsamgöngum, margfölduðum með fjölda ára á tímabilinu.
    Heimilt er að endurskoða hlutfallið við almenna endurskoðun þessarar tilskipunar.
    3.     Framkvæmdastjórnin skal endurskoða heildarfjölda losunarheimilda sem skal úthluta til umráðenda loftfara í samræmi við 4. mgr. 30. gr.
    4.     Eigi síðar en 2. ágúst 2009 skal framkvæmdastjórnin ákvarða sögulega losun frá flugsamgöngum á grundvelli bestu, fáanlegu gagna, m.a. mats sem byggist á raunverulegum upplýsingum um flugumferð. Nefndin, sem um getur í 1. mgr. 23. gr., skal taka ákvörðunina til athugunar.
     3. gr. d
    Aðferð við að úthluta losunarheimildum vegna flugsamgangna með uppboði
    1.     Á því tímabili, sem um getur í 1. mgr. 3. gr. c, skal bjóða upp 15% af losunarheimildum.
    2.     Frá 1. janúar 2013 skal bjóða upp 15% af losunarheimildum. Heimilt er að auka hlutfallið við almenna endurskoðun þessarar tilskipunar.
    3.     Samþykkja skal reglugerð sem í eru ítarleg ákvæði um uppboð aðildarríkja á losunarheimildum, sem ekki skal gefa út án endurgjalds, í samræmi við 1. og 2. mgr. þessarar greinar eða 8. mgr. 3. gr. f. Fjöldi losunarheimilda, sem hvert aðildarríki býður upp á hverju tímabili, skal vera í réttu hlutfalli við hlutdeild aðildarríkisins í heildarlosun sem rakin er til flugsamgangna fyrir öll aðildarríkin fyrir viðmiðunarárið sem kemur fram í skýrslu skv. 3. mgr. 14. gr. og er sannprófuð skv. 15. gr. Fyrir tímabilið, sem um getur í 1. mgr. 3. gr. c, skal viðmiðunarárið vera 2010 og fyrir hvert síðara tímabil, sem um getur í 3. gr. c, skal viðmiðunarárið vera almanaksárið sem lýkur 24 mánuðum áður en tímabilið hefst sem tengist uppboðinu.
    Sú reglugerð, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar, með því að auka við hana, skal samþykkt í samræmi við stjórnsýslumeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 23. gr.
    4.     Aðildarríkin skulu ákveða hvernig tekjum af uppboði á losunarheimildum er ráðstafað. Nota ætti þessar tekjur til að bregðast við loftslagsbreytingum í ESB og þriðju löndum, m.a. til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, aðlagast áhrifum af loftslagsbreytingum í ESB og þriðju löndum, einkum þróunarlöndum, fjármagna rannsóknir og þróun með tilliti til takmörkunar og aðlögunar, einkum að því er varðar flugtækni og flutninga í lofti, draga úr losun með flutningum sem valda lítilli losun og til að standa undir kostnaði við stjórnun á kerfi Bandalagsins. Ágóðanum af uppboðunum skal einnig varið til að fjármagna framlög í alþjóðlega sjóðinn fyrir orkunýtni og endurnýjanlega orku og ráðstafanir til að koma í veg fyrir skógeyðingu.
    Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um ráðstafanir sem þau grípa til samkvæmt þessari málsgrein.
    5.     Upplýsingar sem eru veittar framkvæmdastjórninni samkvæmt þessari tilskipun leysa aðildarríkin ekki undan tilkynningarskyldunni sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 88. gr. sáttmálans.
     3. gr. e
    Úthlutun og útgáfa losunarheimilda til handa umráðendum loftfara
    1.     Hverjum umráðanda loftfars er heimilt að sækja um að fá úthlutað losunarheimildum, sem úthluta skal án endurgjalds, fyrir hvert þeirra tímabila sem um getur í 3. gr. c. Unnt er að sækja um með því að leggja fyrir lögbært yfirvald í ábyrgðarríkinu sannprófaðar upplýsingar um tonnkílómetra fyrir flugstarfsemina sem tilgreind er í I. viðauka og hefur verið rekin á vegum viðkomandi umráðanda loftfars á vöktunarárinu. Að því er varðar þessa grein skal vöktunarárið vera almanaksárið sem lýkur 24 mánuðum áður en tímabilið, sem það tengist, hefst í samræmi við IV. og V. viðauka eða, í tengslum við tímabilið sem um getur í 1. mgr. 3. gr. c, árið 2010. Leggja skal fram umsókn a.m.k. 21 mánuði áður en tímabilið, sem hún tengist, hefst eða, í tengslum við tímabilið sem um getur í 1. mgr. 3. gr. c, eigi síðar en 31. mars 2011.
    2.     Aðildarríkin skulu senda umsóknir, sem þeim hafa borist skv. 1. mgr., til framkvæmdastjórnarinnar a.m.k. 18 mánuðum áður en tímabilið, sem umsóknin tengist, hefst eða, í tengslum við tímabilið sem um getur í 1. mgr. 3. gr. c, eigi síðar en 30. júní 2011.
    3.     Að minnsta kosti 15 mánuðum áður en tímabilið, sem um getur í 2. mgr. 3. gr. c, hefst eða, í tengslum við tímabilið, sem um getur í 1. mgr. 3. gr. c, eigi síðar en 30. september 2011, skal framkvæmdastjórnin reikna út og samþykkja ákvörðun sem varðar:
    a)    heildarfjölda losunarheimilda sem skal úthluta fyrir viðkomandi tímabil í samræmi við 3. gr. c,
    b)    fjölda losunarheimilda sem skal bjóða upp fyrir viðkomandi tímabil í samræmi við 3. gr. d,
    c)    fjölda losunarheimilda í sérstökum varasjóði fyrir umráðendur loftfara á viðkomandi tímabili í samræmi við 1. mgr. 3. gr. f,
    d)    fjölda losunarheimilda sem skal úthluta án endurgjalds á viðkomandi tímabili með því að draga fjölda losunarheimilda, sem um getur í b- og c-lið, frá heildarfjölda losunarheimilda sem er ákveðinn skv. a-lið og
    e)    þá viðmiðun sem skal nota til að úthluta losunarheimildum án endurgjalds til handa umráðendum loftfara ef umsóknir hafa verið lagðar fyrir framkvæmdastjórnina í samræmi við 2. mgr.
    Viðmiðunin, sem um getur í e-lið og tilgreind er sem losunarheimildir á tonnkílómetra, skal reiknuð með því að deila í fjölda losunarheimildanna, sem um getur í d-lið, með summu tonnkílómetranna, sem tilgreindir voru í umsóknunum sem lagðar voru fyrir framkvæmdastjórnina í samræmi við 2. mgr.
    4.     Innan þriggja mánaða frá því að framkvæmdastjórnin tekur ákvörðun skv. 3. mgr. skal hvert ábyrgðarríki reikna og birta:
    a)    heildarfjölda úthlutaðra losunarheimilda á tímabilinu til hvers umráðanda loftfars, sem lögð hefur verið inn umsókn fyrir til framkvæmdastjórnarinnar í samræmi við 2. mgr., en hann er reiknaður með því að margfalda tonnkílómetrana í umsókninni með viðmiðuninni sem um getur í e-lið 3. mgr., og
    b)    úthlutun losunarheimilda til hvers umráðanda loftfars fyrir hvert ár, sem er ákvarðað með því að deila í heildarúthlutun losunarheimilda til hans fyrir tímabilið, sem er reiknað samkvæmt a-lið, með fjölda þeirra ára á tímabilinu sem umráðandinn annast flugstarfsemi sem tilgreind er í I. viðauka.
    5.     Eigi síðar en 28. febrúar 2012 og 28. febrúar á hverju ári eftir það skal lögbært yfirvald í ábyrgðarríkinu gefa út þann fjölda losunarheimilda til hvers umráðanda loftfars sem honum er úthlutað á því ári samkvæmt þessari grein eða 3. gr. f.
     3. gr. f
    Sérstakur varasjóður fyrir tiltekna umráðendur loftfara
    1.     Á hverju tímabili, sem um getur í 2. mgr. 3. gr. c, skulu 3% af heildarfjölda losunarheimilda, sem úthluta skal, lögð í sérstakan varasjóð fyrir umráðendur loftfara:
    a)    sem hefja flugstarfsemi, sem fellur undir I. viðauka, að loknu vöktunarárinu sem gögn um tonnkílómetra voru lögð fram fyrir skv. 1. mgr. 3. gr. e að því er varðar tímabil sem um getur í 2. mgr. 3. gr. c eða
    b)    ef tonnkílómetrum þeirra fjölgar að meðaltali um meira en 18% á ári frá vöktunarárinu, sem gögn um tonnkílómetra voru lögð fram fyrir skv. 1. mgr. 3. gr. e að því er varðar tímabil sem um getur í 2. mgr. 3. gr. c, til annars almanaksárs þess tímabils
    og ef starfsemi þeirra samkvæmt a-lið eða önnur starfsemi samkvæmt b-lið er ekki að öllu eða einhverju leyti framhald á flugstarfsemi sem áður hefur verið á vegum annars umráðanda loftfars.
    2.     Umráðandi loftfars, sem uppfyllir skilyrði skv. 1. mgr., getur sótt um úthlutun losunarheimilda án endurgjalds úr sérstaka varasjóðnum með því að senda umsókn til lögbærs yfirvalds í ábyrgðarríkinu. Leggja skal fram umsókn fyrir 30. júní á þriðja ári tímabilsins, sem um getur í 2. mgr. 3. gr. c, sem hún á við um.
    Ekki skal úthluta umráðanda loftfars skv. 1. mgr. b meira en 1 000 000 losunarheimildum.
    3.     Í umsókn skv. 2. mgr. skulu koma fram
    a)     sannprófaðar upplýsingar um tonnkílómetra í samræmi við IV. og V. viðauka að því er varðar flugstarfsemina sem er tilgreind í I. viðauka og sem umráðandi loftfars annast á öðru almanaksári tímabilsins sem um getur í 2. mgr. 3 gr. c og sem umsóknin á við um,
    b)     gögn sem staðfesta að viðmiðanirnar um hæfi skv. 1. mgr. séu uppfylltar og
    c)     upplýsingar, ef um er að ræða umráðendur loftfara sem falla undir 1. mgr. b, um:
        i.    aukningu í tonnkílómetrum, sem gefin er upp í hundraðshlutum, á vegum viðkomandi umráðanda loftfars frá vöktunarárinu, sem gögn um tonnkílómetra voru lögð fram fyrir skv. 1. mgr. 3. gr. e að því er varðar tímabil sem um getur í 2. mgr. 3. gr. c, til annars almanaksárs þess tímabils,
        ii.    raunverulega aukningu, í tonnkílómetrum, frá viðkomandi umráðanda loftfars frá vöktunarárinu, sem gögn um tonnkílómetra voru lögð fram fyrir skv. 1. mgr. 3. gr. e að því er varðar tímabil sem um getur í 2. mgr. 3. gr. c, til annars almanaksárs þess tímabils,
         iii.    raunverulega aukningu í tonnkílómetrum, sem er umfram hundraðshlutann, sem tilgreindur er í 1. mgr. b, frá viðkomandi umráðanda loftfars frá vöktunarárinu, sem gögn um tonnkílómetra voru lögð fram fyrir skv. 1. mgr. 3. gr. e að því er varðar tímabil sem um getur í 2. mgr. 3. gr. c, til annars almanaksárs þess tímabils.
    4.     Eigi síðar en sex mánuðum eftir að fresturinn til að sækja um skv. 2. mgr. rennur út skulu aðildarríki leggja umsóknir, sem þau hafa móttekið samkvæmt þeirri málsgrein, fyrir framkvæmdastjórnina.
    5.     Eigi síðar en 12 mánuðum eftir að fresturinn til að sækja um skv. 2. mgr. rennur út skal framkvæmdastjórnin taka ákvörðun um viðmiðun sem notuð verður til að úthluta losunarheimildum án endurgjalds til þeirra umráðenda loftfara sem lagðar voru inn umsóknir fyrir til framkvæmdastjórnarinnar í samræmi við 4. mgr.
    Með fyrirvara um 6. mgr. skal reikna viðmiðunina út með því að deila í fjölda losunarheimildanna í varasjóðnum með summu:
    a)    uppgefinna tonnkílómetra fyrir umráðendur loftfara sem falla undir 1. mgr. a og er að finna í umsóknum sem lagðar voru fyrir framkvæmdastjórnina í samræmi við a-lið 3. mgr. og 4. mgr. og
    b)    raunverulegrar aukningar í tonnkílómetrum sem er umfram hundraðshlutann sem tilgreindur er í 1. mgr. b fyrir umráðendur loftfara sem falla undir 1. mgr. b og er að finna í umsóknum sem lagðar voru fyrir framkvæmdastjórnin í samræmi við iii-lið c-liðar 3. mgr. og 4. mgr.
    6.     Viðmiðunin, sem um getur í 5. mgr., skal ekki hafa þau áhrif að árleg úthlutun á tonnkílómetra verði meiri en árleg úthlutun á tonnkílómetra til umráðenda loftfara skv. 4. mgr. 3. gr. e.
    7.     Innan þriggja mánaða frá því að framkvæmdastjórnin tekur ákvörðun skv. 5. mgr. skal hvert ábyrgðarríki reikna og birta:
    a)    úthlutun losunarheimilda úr sérstaka varasjóðnum til hvers umráðanda loftfars sem aðildarríkið lagði inn umsókn fyrir í samræmi við 4. mgr. Þessa úthlutun skal reikna með því að margfalda viðmiðunina, sem um getur í 5. mgr., með:
         i.    uppgefnum tonnkílómetrum, sem er að finna í umsókninni sem lögð var fyrir framkvæmdastjórnina í samræmi við a-lið 3. mgr. og 4. mgr., ef um er að ræða umráðanda loftfars sem fellur undir a-lið 1. mgr.,
         ii.    raunverulegri aukningu í tonnkílómetrum, ef um er að ræða umráðanda loftfars sem fellur undir b-lið 1. mgr., sem er umfram hundraðshlutann sem tilgreindur er í b-lið 1. mgr. og er að finna í umsókninni sem lögð var fyrir framkvæmdastjórnina í samræmi við iii.-lið c-liðar 3. mgr. og 4. mgr. og
    b)    úthlutun losunarheimilda til hvers umráðanda loftfars á hverju ári, en hún skal ákvörðuð með því að deila í úthlutun á losunarheimildum samkvæmt a-lið með fjölda heilla almanaksára sem eftir eru af tímabilinu sem um getur í 2. mgr. 3. gr. c og sem úthlutunin á við um.
    8.     Aðildarríkin skulu bjóða upp þær losunarheimildir í sérstaka varasjóðnum sem ekki hefur verið úthlutað.
    9.     Framkvæmdastjórnin getur sett nákvæmar reglur um starfsemi sérstaka varasjóðsins samkvæmt þessari grein, m.a. um mat á því hvort hæfisviðmiðanir séu uppfylltar skv. 1. mgr. Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar, með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 23. gr.
     3. gr. g
     Áætlanir um vöktun og skýrslugjöf
    Ábyrgðarríkið skal sjá til þess að sérhver umráðandi loftfars leggi vöktunaráætlun fyrir lögbært yfirvald í ábyrgðarríkinu þar sem gerð er grein fyrir ráðstöfunum til að vakta og gefa skýrslu um losun og uppgefna tonnkílómetra vegna umsóknar skv. 3. gr. e og að lögbært yfirvald hafi samþykkt áætlanirnar í samræmi við viðmiðunarreglurnar sem voru samþykktar skv.14. gr.“
5.     Eftirfarandi fyrirsögn og grein bætist við:
    „III. KAFLI
     STAÐBUNDNAR STÖÐVAR
     3. gr. h
     Gildissvið
    Ákvæði þessa kafla gilda um leyfi til losunar gróðurhúsalofttegunda og úthlutun og útgáfu losunarheimilda í tengslum við starfsemi, sem tilgreind er í I. viðauka, að undanskilinni flugstarfsemi.“
6.     Í stað e-liðar 2. mgr. 6. gr. komi eftirfarandi:
    „e)    skylda til að skila inn losunarheimildum, öðrum en þeim sem gefnar eru út skv. II. kafla, sem jafngilda heildarlosun stöðvarinnar á hverju almanaksári, staðfest í samræmi við 15. gr., innan fjögurra mánaða frá lokum þess árs.“
7.     Eftirfarandi fyrirsögn bætist við á eftir 11. gr.:
    „IV. KAFLI
     ÁKVÆÐI UM FLUGSAMGÖNGUR OG STAÐBUNDNAR STÖÐVAR
8.     Eftirfarandi málsgrein bætist við í 11. gr. a:
    „1 a.     Á tímabilinu, sem um getur í 1. mgr. 3. gr. c, er umráðendum loftfara heimilt að nýta einingar vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareiningar sem svara til allt að 15% af þeim fjölda losunarheimilda sem þeir skulu skila inn skv. 2. mgr. a í 12. gr.
    Á síðari tímabilum skal endurskoða hundraðshluta eininga vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareininga, sem heimilt er að nýta í tengslum við flugstarfsemi, í tengslum við almenna endurskoðun þessarar tilskipunar og taka tillit til þróunar alþjóðlegs fyrirkomulags í tengslum við loftslagsbreytingar.
    Framkvæmdastjórnin skal birta þennan hundraðshluta a.m.k. sex mánuðum áður en hvert tímabil, sem um getur í 3. gr. c, hefst.“
9.     Í 2. mgr. 11. gr. b komi orðið „starfsemi“ í stað orðsins „stöðvar“.
10. Ákvæðum 12. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    Í 2. mgr. bætast við orðin „umráðendur loftfara geti uppfyllt skuldbindingar sínar skv. 2. mgr. a eða“ á eftir orðunum „þannig að“,
    b)     Eftirfarandi málsgrein bætist við:
        „2a.     Ábyrgðarríki skulu sjá til þess að eigi síðar en 30. apríl ár hvert skili sérhver umráðandi loftfars inn fjölda losunarheimilda sem jafngildir heildarlosun fyrra almanaksárs frá flugstarfsemi á vegum umráðandans sem er tilgreind í I. viðauka, eins og sannprófað hefur verið í samræmi við 15. gr. Aðildarríki skulu sjá til þess að losunarheimildir, sem skilað er inn í samræmi við þessa málsgrein, séu síðan afturkallaðar.“
    c)     Í stað 3. mgr. komi eftirfarandi:
        „3.     Aðildarríki skulu sjá til þess að rekstraraðili hverrar stöðvar skili inn, eigi síðar en 30. apríl ár hvert, fjölda losunarheimilda, öðrum en heimildum sem gefnar eru út skv. II. kafla, sem samsvarar losun stöðvarinnar á fyrra almanaksári, eins og sannprófað er í samræmi við 15. gr., og að losunarheimildirnar séu síðan afturkallaðar.“
11.    Í 3. mgr. 13. gr. komi orðin „2. mgr. a eða 3. mgr. 12. gr.“ í stað orðanna „3. mgr. 12. gr.“.
12.     Ákvæðum 14. gr. er breytt sem hér segir:
    a)     Í fyrsta málslið 1. mgr.:
         i.    bætast við orðin „og uppgefnum tonnkílómetrum í tengslum við umsókn skv. 3. gr. e eða 3. gr. f“ á eftir orðunum „skýrslugjöf um hana“,
         ii.    orðin „eigi síðar en 30. september 2003“ falli brott.
    b)    Í stað 3. mgr. komi eftirfarandi:
        „3.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að hver rekstraraðili eða umráðandi loftfars gefi lögbæru yfirvaldi skýrslu um losun stöðvarinnar eða, frá 1. janúar 2010, loftfarsins, sem hann starfrækir, á almanaksárinu eftir lok þess, í samræmi við viðmiðunarreglurnar.“
13.     Í stað 15. gr. komi eftirfarandi:
     „15. gr.
     Sannprófun
    Aðildarríkin skulu sjá til þess að skýrslur, sem rekstraraðilar og umráðendur loftfara leggja fram skv. 3. mgr. 14. gr., séu sannprófaðar í samræmi við viðmiðanirnar í V. viðauka og hugsanleg ítarleg ákvæði sem framkvæmdastjórnin samþykkir í samræmi við þessa grein og að lögbæru yfirvaldi sé gerð grein fyrir því.
    Hafi skýrsla rekstraraðila eða umráðanda loftfars ekki verið sannprófuð og talin fullnægjandi í samræmi við viðmiðanirnar í V. viðauka og hugsanleg, ítarleg ákvæði, sem framkvæmdastjórnin samþykkir í samræmi við þessa grein, fyrir 31. mars ár hvert skulu aðildarríkin sjá til þess að rekstraraðilanum eða umráðanda loftfarsins verði ekki heimilt frekara framsal losunarheimilda fyrr en skýrsla frá rekstraraðilanum eða umráðanda loftfars hefur verið sannprófuð og talin fullnægjandi.
    Framkvæmdastjórnin getur samþykkt ítarleg ákvæði um sannprófun skýrslna sem umráðendur loftfara leggja fram skv. 3. mgr. 14. gr. og umsókna skv. 3. gr. e og 3. gr. f, þ.m.t. sannprófunaraðferðir sem sannprófendum ber að nota, í samræmi við stjórnsýslumeðferðina sem um getur í 2. mgr. 23. gr.“
14.     Ákvæðum 16. gr. er breytt sem hér segir:
    a)     Í 1. mgr. falli orðin „eigi síðar en 31. desember 2003“ brott.
    b)     Í stað 2. og 3. mgr. komi eftirfarandi:
        „2.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að birt séu nöfn þeirra rekstraraðila og umráðenda loftfara sem gera sig seka um brot á kröfum um innskil á nægilega mörgum losunarheimildum samkvæmt þessari tilskipun.
        3.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að hver sá rekstraraðili eða umráðandi loftfars sem ekki skilar, í síðasta lagi 30. apríl ár hvert, inn nægum losunarheimildum sem svara til losunar á hans vegum á fyrra ári, greiði sekt fyrir umframlosun. Sekt fyrir umframlosun skal vera 100 evrur fyrir hvert tonn af koltvísýringsígildi sem losað er og rekstraraðilinn eða umráðandi loftfars hefur ekki skilað inn losunarheimildum fyrir. Greiðsla sektar fyrir umframlosun skal ekki leysa rekstraraðila eða umráðanda loftfars undan þeirri skyldu sinni að skila inn losunarheimildum sem jafngilda umframlosuninni þegar hann skilar inn losunarheimildum í tengslum við næsta almanaksár.“
    c)     eftirfarandi liðir bætist við:
        „5.     Ef umráðandi loftfars uppfyllir ekki kröfur þessarar tilskipunar og ef aðrar ráðstafanir til framfylgdar hafa ekki tryggt að farið sé að þeim getur ábyrgðarríkið farið fram á það við framkvæmdastjórnina að hún setji flugrekstrarbann á viðkomandi umráðanda loftfars.
        6.     Í beiðni frá ábyrgðarríki skv. 5. mgr. skulu koma fram:
        a)     gögn sem færa sönnur á að umráðandi loftfars hafi ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt þessari tilskipun,
        b)     upplýsingar um aðgerðir til framfylgdar sem aðildarríkið hefur gripið til,
        c)     rök fyrir setningu flugrekstrarbanns á vettvangi Bandalagsins og
        d)     tillaga að gildissviði flugrekstrarbanns á vettvangi Bandalagsins og hvers kyns skilyrðum sem setja skal.
        7.     Þegar beiðni eins og þeirri sem um getur í 5. mgr. er beint til framkvæmdastjórnarinnar skal framkvæmdastjórnin tilkynna það hinum aðildarríkjunum fyrir milligöngu fulltrúa þeirra í nefndinni sem um getur í 1. mgr. 23. gr., í samræmi við starfsreglur nefndarinnar.
        8.     Áður en ákvörðun er samþykkt í kjölfar beiðni í samræmi við 5. mgr. skal, þegar það er viðeigandi og raunhæft, hafa samráð við yfirvöld sem hafa með höndum lögboðið eftirlit með viðkomandi umráðanda loftfars. Framkvæmdastjórnin og aðildarríkin skulu ætíð, ef því verður við komið, hafa slíkt samráð í sameiningu.
        9.     Þegar framkvæmdastjórnin vegur og metur hvort samþykkja eigi aðgerðir í kjölfar beiðni skv. 5. gr. skal hún greina viðkomandi umráðanda loftfars frá mikilvægum staðreyndum og forsendum sem slík ákvörðun byggist á. Viðkomandi umráðandi loftfars skal fá frest í 10 virka daga frá afhendingu upplýsinganna til að leggja skriflegar athugasemdir fyrir framkvæmdastjórnina.
        10.     Að beiðni aðildarríkis getur framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferð í stjórnsýslunni sem um getur í 2. mgr. 23. gr., samþykkt ákvörðun um að setja flugrekstrarbann á viðkomandi umráðanda loftfars.
        11.     Hvert aðildarríki skal framfylgja, á yfirráðasvæði sínu, öllum ákvörðunum sem samþykktar eru skv. 10. mgr. Það skal tilkynna framkvæmdastjórninni um allar ráðstafanir sem gerðar eru til að hrinda slíkum ákvörðunum í framkvæmd.
        12.     Eftir því sem við á skal setja nákvæmar reglur um málsmeðferðina sem um getur í þessari grein. Þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar með því að auka við hana, skulu samþykktar í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun sem um getur í 3. mgr. 23. gr.“
15.     Eftirfarandi málsgrein bætist við:
     „18. gr. a
     Ábyrgðarríki
    1.     Að því er varðar umráðanda loftfars skal ábyrgðarríkið vera:
    a)    aðildarríkið sem gaf út flugrekstrarleyfi til viðkomandi umráðanda loftfars, þegar um er að ræða umráðanda loftfars með gilt flugrekstrarleyfi sem aðildarríki hefur gefið út í samræmi við ákvæði reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 2407/92 frá 23. júlí 1992 um veitingu flugrekstrarleyfa til handa flugfélögum (*) og
    b)    í öllum öðrum tilvikum aðildarríkið með mestu losunina, sem rakin er til flugsamgangna, frá flugferðum á vegum viðkomandi umráðanda loftfars á viðmiðunarárinu.
    2.     Ef ekkert af losuninni, sem rakin er til flugsamgangna og er frá flugi á vegum umráðanda loftfars sem fellur undir 1. mgr. b þessarar greinar, verður rakið til ábyrgðarríkisins fyrstu tvö ár einhvers tímabils sem um getur í 3. gr. c skal færa umráðanda loftfars yfir á annað ábyrgðarríki að því er varðar næsta tímabil. Nýja ábyrgðarríkið skal vera aðildarríkið með mestu losunina sem rakin er til flugsamgangna og er frá flugferðum á vegum viðkomandi umráðanda loftfars á fyrstu tveimur árum fyrra tímabils.
    3.     Á grundvelli bestu, fáanlegu upplýsinga skal framkvæmdastjórnin:
    a)    birta, fyrir 1. febrúar 2009, skrá yfir umráðendur loftfara sem stunduðu flugstarfsemi sem tilgreind er í I. viðauka þann 1. janúar 2006 eða eftir þann dag og tilgreina ábyrgðarríki hvers umráðanda loftfara í samræmi við 1. mgr. og
    b)     uppfæra skrána, fyrir 1. febrúar á hverju ári eftir það, þannig að hún taki til umráðenda loftfara sem hafa síðan stundað flugstarfsemi sem tilgreind er í I. viðauka.
    4.     Í samræmi við málsmeðferðina í stjórnsýslunni sem um getur í 2. mgr. 23. gr. getur framkvæmdastjórnin þróað viðmiðunarreglur um stjórnun ábyrgðarríkja að því er varðar umráðendur loftfara samkvæmt þessari tilskipun.
    5.     Að því er varðar 1. mgr. merkir „viðmiðunarár“ fyrsta almanaksár starfsemi að því er varðar umráðanda loftfars sem hóf starfsemi í Bandalaginu eftir 1. janúar 2006 og í öllum öðrum tilvikum almanaksárið sem hefst 1. janúar 2006.
     18. gr. b
    Aðstoð frá Evrópustofnun um öryggi flugleiðsögu
    Til að uppfylla skyldur sínar skv. 4. mgr. 3. gr. c og 18. gr. a getur framkvæmdastjórnin óskað eftir aðstoð Evrópustofnunar um öryggi flugleiðsögu eða annarrar hlutaðeigandi stofnunar og gert viðeigandi samninga við slíkar stofnanir.
    _________
    (*)     Stjtíð. EB L 240, 24.8.1992, bls. 1.“
16.     Ákvæðum 3. mgr. 19. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    Í stað síðasta málsliðar komi eftirfarandi:
        „Í reglugerðinni skulu einnig vera ákvæði um notkun og greiningu eininga vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareininga í kerfi Bandalagsins og um vöktun á notkuninni, ásamt ákvæðum þar sem tillit er tekið til upptöku flugstarfsemi í kerfi Bandalagsins.“
    b)     Eftirfarandi undirgrein bætist við:
        „Reglugerðin um staðlað og varið skráningarkerfi skal tryggja að losunarheimildir, einingar vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareiningar, sem umráðendur loftfara skila inn, færist yfir á afskriftareikning aðildarríkjanna fyrir fyrsta skuldbindingartímabil Kýótóbókunarinnar, en aðeins að því marki að losunarheimildirnar, einingar vottaðrar losunarskerðingar og losunarskerðingareiningarnar samsvari losun sem kemur fram í heildartölum hvers lands um sig í landsskrám aðildarríkjanna fyrir það tímabil.“
17.     Í stað 3. mgr. 23. gr. komi eftirfarandi:
    „3.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 1.–4. mgr. 5. gr. a og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.“
18.    Eftirfarandi málsgrein bætist við:
    „ 25. gr. a
    Ráðstafanir þriðja lands til að draga úr loftslagsbreytingum vegna flugsamgangna
    1.     Ef þriðja land samþykkir ráðstafanir til að draga úr loftslagsbreytingum vegna flugferða sem hefjast í því landi og lýkur í Bandalaginu skal framkvæmdastjórnin, að höfðu samráði við þriðja landið og aðildarríkin í nefndinni, sem um getur í 1. mgr. 23. gr., vega og meta þá valkosti sem eru tiltækir til að stuðla að sem bestu samspili milli kerfis Bandalagsins og ráðstafana þriðja landsins.
    Ef nauðsyn krefur getur framkvæmdastjórnin samþykkt breytingar í því skyni að undanskilja flugferðir frá þriðja landinu, sem um ræðir, frá flugstarfseminni sem er tilgreind í I. viðauka eða stuðla að öðrum breytingum á flugstarfseminni sem er tilgreind í I. viðauka og sem krafist er samkvæmt fjórðu undirgrein. Samþykkja skal þessar ráðstafanir, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum þessarar tilskipunar, í samræmi við stjórnsýslumálsmeðferðina með athugun, sem um getur í 3. mgr. 23. gr.
    Framkvæmdastjórnin getur lagt tillögur um aðrar breytingar á þessari tilskipun fyrir Evrópuþingið og ráðið.
    Framkvæmdastjórnin getur einnig, eftir því sem við á, beint tilmælum til ráðsins í samræmi við 1. mgr. 300. gr. sáttmálans um að hefja samningaviðræður í því skyni að gera samning við hlutaðeigandi þriðja land.
    2.     Bandalagið og aðildarríki þess skulu halda áfram að leita eftir samkomulagi um hnattrænar ráðstafanir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá flugsamgöngum. Í ljósi slíks samkomulags skal framkvæmdastjórnin vega og meta hvort nauðsynlegt sé að gera breytingar á þessari tilskipun að því er varðar umráðendur loftfara.“
19.     Ákvæðum 28. gr. er breytt sem hér segir:
    a)     Í stað b-liðar 3. mgr. komi eftirfarandi:
        „b)    ber ábyrgð á innskilum losunarheimilda, öðrum en þeim sem gefnar eru út skv. II. kafla, sem jafngilda heildarlosun stöðvanna í hópnum, þrátt fyrir ákvæði e- liðar 2. mgr. 6. gr. og 3. mgr. 12. gr. og“
    b)    Í stað 4. mgr. komi eftirfarandi:
        „4.     Fulltrúi hópsins skal sæta viðeigandi viðurlögum brjóti hann í bága við kröfur um innskil nægilegra margra losunarheimilda, annarra en þeirra sem gefnar eru út skv. II. kafla, sem svara til heildarlosunar stöðvanna í hópnum, þrátt fyrir ákvæði 2., 3. og 4. mgr. 16. gr.“
20.     Eftirfarandi mgr. er bætt við 30. gr.:
    „4.     Eigi síðar en 1. desember 2014 skal framkvæmdastjórnin, á grundvelli vöktunar og fenginnar reynslu af beitingu þessarar tilskipunar, endurskoða framkvæmd þessarar tilskipunar í tengslum við flugstarfsemi í I. viðauka og getur hún lagt tillögur fyrir Evrópuþingið og ráðið skv. 251. gr. sáttmálans, eftir því sem við á. Framkvæmdastjórnin skal einkum taka eftirfarandi til athugunar:
    a)    áhrif og afleiðingar þessarar tilskipunar að því er varðar heildarframkvæmd á kerfi Bandalagsins,
    b)    starfsemi markaðarins með losunarheimildir er varða flugsamgöngur, einkum að því er varðar hugsanlega markaðsröskun,
    c)    ávinning af kerfi Bandalagsins í umhverfismálum og hversu mikið þurfi að draga úr heildarfjölda losunarheimilda, sem skal úthlutað til umráðenda loftfara skv. 3. gr. c, í samræmi við heildarmarkmið ESB að því er varðar minnkun losunar,
    d)    af kerfi Bandalagsins á fluggeirann, þ.m.t. samkeppnismál, einkum með tilliti til áhrifa af þeirri stefnu sem í loftslagsmálum sem er rekin utan ESB að því er varðar flugsamgöngur,
    e)    hvort halda skuli áfram með sérstakan varasjóð fyrir umráðendur loftfara, að teknu tilliti til líklegrar samleitni vaxtarhraða í greininni í heild,
    f)    áhrif kerfis Bandalagsins á það hversu háð eyjar, landlukt svæði, jaðarsvæði og ystu svæði Bandalagsins eru flugsamgöngum í skipulagslegu tilliti,
    g)    hvort finna ætti farveg (gateway system) til að greiða fyrir viðskiptum með losunarheimildir milli umráðenda loftfara og rekstraraðila stöðva en sjá jafnframt til þess að engar millifærslur yrðu til þess að fleiri losunarheimildir yrðu framseldar frá umráðendum loftfara til rekstraraðila stöðva en öfugt,
    h)    áhrif undanþáguviðmiðana, sem tilgreindar eru í I. viðauka, að því er varðar staðfestan hámarksflugtaksmassa og fjölda flugferða á ári á vegum umráðanda loftfars,
    i)    áhrif þess að tilteknar flugferðir, sem farnar eru innan ramma um skyldur um opinbera þjónustu, sem settar eru fram í samræmi við reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2408/92 frá 23. júlí 1992 um aðgang Bandalagsflugfélaga að flugleiðum innan Bandalagsins (*), eru undanþegnar kerfi Bandalagsins,
    j)    þróun sem stuðlar að skilvirkni flugsamgangna, m.a. hugsanlega þróun í framtíðinni, og einkum framþróun í þá átt að uppfylla markmið Ráðgefandi ráðs fyrir rannsóknir á flugmálum í Evrópu (ACARE) um að þróa og kynna tækni sem draga mun úr eldsneytisnotkun um 50% eigi síðar en 2020 og hvort nauðsynlegt sé að grípa til fleiri ráðstafana til að auka skilvirkni,
    k)    þróun í tengslum við vísindalegan skilning á áhrifum á loftslagsbreytingar vegna flugslóða og klósiga af völdum flugsamgangna í því skyni að leggja til skilvirkar ráðstafanir til að draga úr áhrifunum.
    Framkvæmdastjórnin skal síðan leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið.
    _______
    (*)     Stjtíð. EB L 240, 24.8.1992, bls. 8.“
21.     Eftirfarandi fyrirsögn bætist við á eftir 30. gr.:
    „V. KAFLI
     LOKAÁKVÆÐI
22.    Ákvæðum I., IV. og V. viðauka skal breytt í samræmi við viðaukann við þessa tilskipun.

2. gr.


Lögleiðing


1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari fyrir 2. febrúar 2010. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til. Framkvæmdastjórnin skal tilkynna það aðildarríkjunum.

3. gr.


Gildistaka


Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

4. gr.


Viðtakendur


Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassborg 19. nóvember 2008.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
H.-G. PÖTTERING J.-P. JOUYET
forseti. forseti.

VIÐAUKI

Ákvæðum I., IV. og V. viðauka við tilskipun 2003/87/EB er breytt sem hér segir:
1.     Ákvæðum I. viðauka er breytt sem hér segir:
    a)     Eftirfarandi komi í stað fyrirsagnarinnar:
         „FLOKKAR STARFSEMI SEM ÞESSI TILSKIPUN GILDIR UM“
    b)     Eftirfarandi bætist við 2. lið á undan töflunni :
        „Frá 1. janúar 2012 skal taka með allar flugferðir sem lýkur eða hefjast á flugvelli á yfirráðasvæði aðildarríkis sem sáttmálinn gildir um.“
    c)     Eftirfarandi flokkur starfsemi bætist við:
„Flugsamgöngur
Flugferðir sem hefjast eða lýkur á flugvelli á yfirráðasvæði aðildarríkis sem sáttmálinn gildir um. Koltvísýringur
Þessi starfsemi felur ekki í sér:
a)    flugferðir sem eingöngu eru til flutninga, í opinberri sendiför ríkjandi þjóðhöfðingja konungsríkis og nánustu vandamanna hans, þjóðhöfðingja, ríkisstjórnarleiðtoga og ráðherra landa, annarra en aðildarríkja, ef þær eru rökstuddar með viðeigandi stöðuvísi á flugáætluninni,
b)    herflug herloftfara og toll- og lögregluflug,
c)    flug í tengslum við leit og björgun, flug í tengslum við slökkvistarf, flug í mannúðarskyni og sjúkraflug, sem viðurkennt er af viðeigandi, lögbæru yfirvaldi,
d)    flug sem er eingöngu samkvæmt sjónflugsreglum eins og þær eru skilgreindar í 2. viðauka við Chicago-samninginn,
e)    flug sem endar á flugvellinum þar sem loftfarið tók flugið og þar sem engin lending á sér stað í millitíðinni,
f)    æfingaflug, eingöngu að því er varðar öflun vottorðs eða áritunar ef um flugáhafnir er að ræða, þar sem þetta er rökstutt með viðeigandi athugasemd í flugáætluninni, ef flugið er hvorki til farþega- eða farmflutninga né vegna staðsetningar eða flutnings á loftfarinu,
g)    flug sem er eingöngu vegna vísindarannsókna eða til að skoða, prófa eða votta loftför eða búnað, hvort sem er í lofti eða á jörðu niðri,
h)    flug loftfara með staðfestan hámarksflugtaksmassa sem er minni en 5700 kg,
i)    flugferðir sem farnar eru innan ramma um skyldur um opinbera þjónustu, sem settar eru fram í samræmi við reglugerð (EBE) nr. 2408/92, eins og tilgreint er í 2. mgr. 299. gr. sáttmálans, eða á flugleiðum þar sem flutningsgetan, sem í boði er, er ekki meiri en 30 000 sæti á ári og
j)    flug sem félli undir þessa starfsemi ef ekki væri fyrir tilstilli þessa liðar og er á vegum umráðanda loftfars í flutningaflugi sem annast annaðhvort
    –    færri en 243 flugferðir á hverju tímabili í þrjú samfelld, fjögurra mánaða tímabil eða
    –    flugferðir þar sem heildarlosun á ári er minni en 10 000 tonn.
Flugferðir, sem eingöngu eru til flutninga, í opinberri sendiför ríkjandi þjóðhöfðingja konungsríkis og nánustu vandamanna hans, þjóðhöfðingja, ríkisstjórnarleiðtoga og ráðherra aðildarríkis, má ekki undanskilja að því er varðar þennan lið.“
2.     Texta IV. viðauka er breytt sem hér segir:
    a)     Eftirfarandi fyrirsögn bætist við á eftir fyrirsögn viðaukans:
         „A-HLUTI – Vöktun og skýrslugjöf í tengslum við losun frá staðbundnum stöðvum“
    b)     eftirfarandi liðir bætist við:
         „B-HLUTI – Vöktun og skýrslugjöf í tengslum við losun frá flugstarfsemi
         Vöktun á losun koltvísýrings
        Vakta skal losun með útreikningum. Reikna skal losun með eftirfarandi formúlu:
         Eldsneytisnotkun . losunarstuðull
        Eldsneyti, sem aukaaflstöð notar, skal falla undir eldsneytisnotkun. Miða skal við raunverulega eldsneytisnotkun í hverri flugferð þegar unnt er og skal hún reiknuð með eftirfarandi formúlu:
        Magn eldsneytis í geymum loftfars eftir að áfyllingu eldsneytis fyrir flugið er lokið – magn eldsneytis í geymum loftfars eftir að áfyllingu eldsneytis fyrir næsta flug er lokið + magn eldsneytis sem dælt er í geyminn fyrir síðarnefnda flugið.
        Ef upplýsingar um raunverulega eldsneytisnotkun liggja ekki fyrir skal nota staðlaða, stigskipta aðferð til að áætla eldsneytisnotkunina á grundvelli bestu, fáanlegu upplýsinga.
        Nota skal sjálfgefna losunarstuðla milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar (IPCC) úr leiðbeiningum nefndarinnar um skrár eða síðari uppfærslum á leiðbeiningunum nema losunarstuðlar, sem eru sértækir fyrir tiltekna starfsemi og tilgreindir eru af viðurkenndum, óháðum rannsóknarstofum sem nota viðurkenndar greiningaraðferðir, séu nákvæmari. Losunarstuðull fyrir lífmassa skal vera núll.
        Sérstakir útreikningar skulu gerðir fyrir hvert flug og hverja tegund eldsneytis.
         Skýrslugjöf um losun
        Hver umráðandi loftfars skal láta eftirfarandi upplýsingar koma fram í skýrslu sinni skv. 3. mgr. 14. gr.:
        A.     Upplýsingar um umráðanda loftfars, þ.m.t.:
            –         heiti umráðanda loftfars,
            –         ábyrgðarríki,
            –         heimilisfang, m.a. póstnúmer og land, auk heimilisfangs tengiliðar í ábyrgðarríkinu, sé það annað,
            –         skráningarnúmer loftfaranna og tegundir þeirra loftfara sem notuð eru á tímabilinu, sem fellur undir skýrsluna, til flugstarfseminnar sem tilgreind er í I. viðauka og er á vegum umráðandans,
            –         númer flugrekandaskírteinis og flugrekstrarleyfis sem flugstarfsemin, sem tilgreind er í I. viðauka og er á vegum umráðandans, var stunduð samkvæmt og heiti yfirvalds sem gefur þau út,
            –         heimilisfang, símanúmer, bréfasímanúmer og netfang tengiliðar og
            –         heiti eiganda loftfarsins.
        B.     Fyrir hverja tegund eldsneytis sem losun er reiknuð fyrir:
            –         eldsneytisnotkun,
            –         losunarstuðull,
            –         samantekin heildarlosun frá öllu flugi á tímabilinu, sem fellur undir skýrsluna, sem flugstarfsemin, sem tilgreind er í I. viðauka og er á vegum umráðandans, tekur til,
            –         samantekin losun frá:
                    –    öllu flugi á tímabilinu, sem fellur undir skýrsluna, og sem flugstarfsemin, sem tilgreind er í I. viðauka og er á vegum umráðandans, tekur til, ef það hefur hafist á flugvelli á yfirráðasvæði aðildarríkis og ef því hefur lokið á flugvelli á yfirráðasvæði sama aðildarríkis,
                    –    öllu öðru flugi á tímabilinu, sem fellur undir skýrsluna, sem flugstarfsemin, sem tilgreind er í I. viðauka og er á vegum umráðandans, tekur til,
            –         samantekin losun frá öllu flugi á tímabilinu, sem fellur undir skýrsluna, sem flugstarfsemin, sem tilgreind er í I. viðauka og er á vegum umráðandans, tekur til, og sem
                    –    hefur hafist í tilteknu aðildarríki og
                    –     hefur lokið í tilteknu aðildarríki en hófst í þriðja landi,
            –         óvissuþættir.
         Vöktun á upplýsingum um tonnkílómetra að því er varðar 3. gr. e og 3. gr. f
        Þegar sótt er um úthlutun losunarheimilda í samræmi við 1. mgr. 3. gr. e eða 2. mgr. 3. gr. f skal reikna umfang flugstarfsemi í tonnkílómetrum með eftirfarandi formúlu:
        tonnkílómetrar = vegalengd . farmþungi
        þar sem:
        „vegalengd“ er stórbaugsbogi milli brottfararflugvallar og komuflugvallar auk 95 km fasts viðbótarstuðuls og
        „farmþungi“ er heildarmassi vöru, pósts og farþega.
        Um útreikning á farmþunga gildir eftirfarandi:
        –    fjöldi farþega er sá fjöldi fólks, sem er um borð, að frátöldum flugverjum,
        –    umráðandi loftfars getur valið um að nota annaðhvort raunverulega massann eða staðalmassa fyrir farþega og skráðan farangur í massa- og jafnvægisskrá sinni fyrir viðkomandi flug eða staðalgildið 100 kg fyrir hvern farþega og skráðan farangur hans.
         Skýrslugjöf vegna upplýsinga um tonnkílómetra að því er varðar 3. gr. e og 3. gr. f
        Hver umráðandi loftfars skal láta eftirfarandi upplýsingar koma fram í umsókn sinni skv. 1. mgr. 3. gr. e eða 2. mgr. 3. gr. f:
        A.     Upplýsingar um umráðanda loftfars, þ.m.t.:
            –         heiti umráðanda loftfars,
            –         ábyrgðarríki,
            –        heimilisfang, m.a. póstnúmer og land, auk heimilisfangs tengiliðar í ábyrgðarríkinu, sé það annað,
            –        skráningarnúmer loftfaranna og tegundir þeirra loftfara sem notuð eru á árinu, sem fellur undir umsóknina, til flugstarfseminnar sem tilgreind er í I. viðauka og er á vegum umráðandans,
            –        númer flugrekandaskírteinis og flugrekstrarleyfis sem flugstarfsemin, sem tilgreind er í I. viðauka og er á vegum umráðandans, var stunduð samkvæmt og heiti yfirvalds sem gefur þau út,
            –         heimilisfang, símanúmer, bréfasímanúmer og netfang tengiliðar og
            –         heiti eiganda loftfarsins.
        B.     Upplýsingar um tonnkílómetra:
            –         fjöldi flugferða um hvert flugvallarpar,
            –         fjöldi farþegakílómetra á hvert flugvallarpar,
            –         fjöldi tonnkílómetra á hvert flugvallarpar,
            –         aðferð sem er valin til útreiknings á massa farþega og skráðs farangurs,
            –        heildarfjöldi tonnkílómetra fyrir allt flug á árinu, sem skýrslan á við um, sem flugstarfsemin, sem tilgreind er í I. viðauka og er á vegum umráðandans, tekur til.“
3.     Ákvæðum V. viðauka er breytt sem hér segir:
    a)     Eftirfarandi fyrirsögn bætist við á eftir fyrirsögn viðaukans:
         „A-HLUTI – Sannprófun á losun frá staðbundnum stöðvum“
    b)     eftirfarandi liðir bætist við:
         „B-HLUTI – Sannprófun Á LOSUN FRÁ FLUGSTARFSEMI
        13.    Almennu meginreglurnar og aðferðirnar, sem settar eru fram í þessum viðauka, gilda um sannprófun á skýrslum frá flugi sem fellur undir flugstarfsemi sem tilgreind er í I. viðauka.
                Í því sambandi gildir eftirfarandi:
                a)    í 3. mgr. lesist tilvísunin í rekstraraðila sem um væri að ræða tilvísun í umráðanda loftfars og í c-lið þeirrar málsgreinar lesist tilvísunin í stöð sem um væri að ræða tilvísun í loftfarið sem notað er til flugstarfseminnar sem skýrslan tekur til,
                b)    í 5. mgr. lesist tilvísunin í stöð sem um væri að ræða tilvísun í umráðanda loftfars,
                c)    í 6. mgr. lesist tilvísunin í starfsemi, sem fram fer í stöðinni, sem um væri að ræða tilvísun í flugstarfsemi sem skýrslan tekur til og sem er á vegum umráðanda loftfars,
                d)    í 7. mgr. lesist tilvísunin í staðinn, þar sem stöðin er, sem um væri að ræða tilvísun í staðina sem umráðandi loftfars notar til að stunda flugstarfsemina sem skýrslan tekur til,
                e)    í 8. og 9. mgr. lesist tilvísunin í upptök losunar í stöðinni sem um væri að ræða tilvísun í loftfarið, sem umráðandi loftfars ber ábyrgð á, og
                f)    í 10. og 12. mgr. lesist tilvísunin í rekstraraðila sem um væri að ræða tilvísun í umráðanda loftfars.
         Viðbótarákvæði um sannprófun skýrslna um losun frá flugi
        14.     Sannprófandinn skal sérstaklega ganga úr skugga um að:
                a)    tekið hafi verið tillit til alls flugs sem fellur undir flugstarfsemi sem tilgreind er í I. viðauka. Við þetta verkefni skal sannprófandinn nota tímaáætlanir og önnur gögn um flugumferð á vegum umráðanda loftfars, m.a. gögn frá Evrópustofnun um öryggi flugleiðsögu sem umráðandinn hefur óskað eftir,
                b)    heildarsamræmi sé milli gagna um samantekna eldsneytisnotkun og gagna um eldsneyti sem er keypt eða útvegað á annan hátt fyrir loftfarið sem notað er við flugstarfsemina.
         Viðbótarákvæði um sannprófun upplýsinga um tonnkílómetra sem lagðar eru fram skv. 3. gr. e og 3. gr. f
        15.    Almennu meginreglurnar og aðferðirnar við sannprófun losunarskýrslna skv. 3. mgr. 13. gr., eins og þær eru settar fram í þessum viðauka, gilda, eftir atvikum, einnig á hliðstæðan hátt um sannprófun upplýsinga um tonnkílómetra í flugi.
        16.    Sannprófandinn skal einkum ganga úr skugga um að einungis hafi verið tekið tillit til flugferða, sem raunverulega hafa verið farnar og falla undir flugstarfsemina sem tilgreind er í I. viðauka og sem umráðandi loftfars ber ábyrgð á, í umsókn umráðandans skv. 1. mgr. 3. gr. e og 2. mgr. 3. gr. f. Við þetta verkefni skal sannprófandinn nota gögn um flugumferð á vegum umráðanda loftfars, m.a. gögn frá Evrópustofnun um öryggi flugleiðsögu sem umráðandinn hefur óskað eftir, Auk þess skal sannprófandinn staðfesta að farmþunginn, sem umráðandi loftfars gaf upp, samsvari skrám um farmþunga sem umráðandinn heldur af öryggisástæðum.“
Fylgiskjal III.

DRÖG AÐ ÞÝÐINGU

ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. [.../...]

frá [...]

um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)         XX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. [.../...] frá [...] ( 1 ).

2)         Fella ber inn í samninginn ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/450/EB frá 8. júní 2009 um ítarlega túlkun á flugstarfsemi sem tilgreind er í I. viðauka við tilskipun Evrópu þingsins og ráðsins 2003/87/EB [ÓOPINBER ÞÝÐING Á TITLI.] (Com mis sion Decision 2009/450/EC of 8 June 2009 on the detailed interpretation of the aviation activities listed in Annex I to Directive 2003/87/EC of the European Parliament and of the Council) ( 2 ).

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 21ap (ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2005/381/ EB) í XIII. viðauka við samninginn:

„21apa.         32009 D 0450: Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/450/EB frá 8. júní 2009 um ítarlega túlkun á flugstarfsemi sem tilgreind er í I. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB [ÓOPINBER ÞÝÐING Á TITLI.] (Com mis sion Decision 2009/450/EC of 8 June 2009 on the detailed interpretation of the aviation activities listed in Annex I to Directive 2003/87/EC of the European Parliament and of the Council) (Stjtíð. ESB L 149, 12.6.2009, bls. 69).“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti ákvörðunar 2009/450/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi ... , að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ) , eða gildistökudag ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. …/… frá …[um að fella tilskipun 2008/101/EB inn í samninginn], hvort sem ber upp síðar. Hafi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. …/… frá … [um að fella tilskipun 2008/101/EB inn í samninginn] þegar öðlast gildi og hafi tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins ekki borist, öðlast ákvörðun þessi gildi daginn eftir að síðasta tilkynning samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins berst sameiginlegu EES-nefndinni.

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel ... .

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
NN
formaður.
Fylgiskjal IV.


ÁKVÖRÐUN FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR
frá 8. júní 2009
um ítarlega túlkun á flugstarfseminni sem tilgreind er í I. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins     og ráðsins 2003/87/EB
(tilkynnt með númeri C(2009) 4293)
(Texti sem varðar EES)
(2009/450/EB)

FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUBANDALAGANNA HEFUR,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins,
með hliðsjón af tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB frá 13. október 2003 um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins og um breytingu á tilskipun ráðsins 96/61/EB ( 1 ), einkum 3. gr. b.,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)    Í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/101/ EB frá 19. nóvember 2008 um breytingu á tilskipun 2003/87/EB þannig að kerfið fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins taki til flugstarfsemi ( 2 ) fellur flugstarfsemi innan kerfis fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins.
2)    Skilgreiningin á flugstarfsemi og einkum undanþágurnar sem eru tilgreindar í I. viðauka við tilskipun 2003/87/EB byggjast fyrst og fremst á undanþágunum í reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1794/2006 frá 6. desember 2006 um sameiginlegt gjaldtökukerfi fyrir flugleiðsöguþjónustu ( 3 ), en þessar undanþágur eru í samræmi við undanþágur Evrópustofnunar um öryggi flugleiðsögu.
3)    Í 2. viðbæti við verklagsreglur fyrir flugleiðsöguþjónustu – rekstrarstjórnun flugumferðar, sem Alþjóðaflugmálastofnunin ( 4 ), samþykkti, er lýsing á fyrirmynd Alþjóðaflugmálastofnunarinnar að eyðublaði fyrir flugáætlun og veittar leiðbeiningar um útfyllingu eyðublaðsins. Flugáætlunina er unnt að nota til að greina þau flug sem falla undir gildissvið Bandalagskerfisins.
4)    Þeirri túlkun á flugstarfsemi sem kemur fram í þessari ákvörðun skal beitt í samræmi við ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2007/589/ EB frá 18. júlí 2007 um að setja viðmiðunarreglur um vöktun á losun gróðurhúsalofttegunda og skýrslugjöf um losunina samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB ( 5 ).
5)    Túlkun á skyldum um opinbera þjónustu skal beitt í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1008/2008 frá 24. september 2008 um sameiginlegar reglur um rekstur flugþjónustu í Bandalaginu (endurútgefin) ( 6 ).
6)    Ráðstafanirnar, sem kveðið er á um í þessari ákvörðun, eru í samræmi við álit nefndar um loftslagsbreytingar sem um getur í 23. gr. tilskipunar 2003/87/EB.
SAMÞYKKT ÁKVÖRÐUN ÞESSA:

1. gr.

Ítarleg túlkun á þeirri flugstarfsemi sem tilgreind er í I. viðauka við tilskipun 2003/87/EB er sett fram í viðaukanum við þessa ákvörðun.

2. gr.

Ákvörðun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Brussel 8. júní 2009.
Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,
Stavros DIMAS
framkvæmdastjóri.

VIÐAUKI
Leiðbeiningar um ítarlega túlkun á þeirri flugstarfsemi sem tilgreind er í I. viðauka við tilskipun 2003/87/EB

1.    SKILGREINING Á FLUGSTARFSEMI
    1.    „Flug“: einn flugleggur sem er flug eða röð fluga sem hefjast á flugvélastæði loftfarsins og lýkur á flugvélastæði loftfarsins.
    2.    „Flugvöllur“: tiltekið svæði á láði eða legi, að meðtöldum byggingum og búnaði, sem ætlað er að nokkru eða öllu leyti til afnota við komu og brottför loftfara og hreyfingar þeirra á jörðu niðri.
    3.    Ef umráðandi loftfars stundar flugstarfsemi, sem er tilgreind í I. viðauka við tilskipun 2003/87/EB, fellur hún undir kerfi Bandalagsins, óháð því hvort starfsemin er á skrá yfir umráðendur loftfara sem framkvæmdastjórnin birti skv. 3. mgr. 18. gr. a í tilskipun 2003/87/EB.
2.    TÚLKUN Á UNDANÞÁGUNUM
    4.    Í flokknum „Flug“ undir flokkum starfsemi í I. viðauka við tilskipun 2003/87/EB er tilgreint hvaða tegundir flugs eru undanþegnar kerfi Bandalagsins.
2.1.     Undanþága samkvæmt undirlið a
    5.    Þessa undanþágu skal eingöngu túlka í tengslum við flugið.
    6.    Nánustu vandamenn eru eingöngu maki, sambýlismaður/-kona sem jafngildir maka, börn og foreldrar.
    7.    Ráðherrar eru þeir sem sitja í ríkisstjórn eins og tilgreint er í stjórnartíðindum viðkomandi lands. Þeir sem sitja í héraðsstjórn eða staðbundinni stjórn lands uppfylla ekki skilyrði fyrir undanþágu samkvæmt þessum undirlið.
    8.    Opinber sendiför er sendiför þar sem viðkomandi aðili er í opinberum erindagjörðum.
    9.    Flug til staðsetningar eða flutninga á loftfarinu fellur ekki undir þessa undanþágu.
    10.    Gert er ráð fyrir að flug, sem aðalskrifstofa Evrópustofnunar um öryggi flugleiðsögu, sem sér um að innheimta leiðargjöld (e. Eurocontrol's Central Route Charges Office), hefur tilgreint að séu undanþegin leiðargjöldum (hér á eftir nefnt CRCO-undanþágukóðinn) með kóðanum „S“, séu flug sem eru eingöngu til flutninga, í opinberri sendiför ríkjandi þjóðhöfðingja konungsríkis og nánustu vandamanna hans, þjóðhöfðingja, ríkisstjórnarleiðtoga og ráðherra ríkisstjórnar og eru rökstudd með viðeigandi stöðuvísi á flugáætluninni.
2.2.     Undanþágur samkvæmt undirlið b
2.2.    1.    Herflug
    11.    Herflug er flug í beinum tengslum við hernaðarstarfsemi.
    12.    Herflug skráðra almenningsloftfara fellur ekki undir þessa undanþágu. Á sama hátt er almenningsflug herloftfara ekki undanþegið samkvæmt undirlið b.
    13.    Gert er ráð fyrir að flug með CRCO-undanþágukóðann „M“ eða „X“ sé herflug sem nýtur undanþágu.
2.2.2.    Toll- og lögregluflug
    14.    Toll- og lögregluflug skráðra almenningsloftfara og herloftfara nýtur undanþágu.
    15.    Gert er ráð fyrir að flug með CRCO-undanþágukóðann „P“ sé toll- og lögregluflug sem nýtur undanþágu.
2.3.     Undanþágur samkvæmt undirlið c
    16.    Með tilliti til eftirfarandi flokka flugs falla flug til staðsetningar eða flutninga á loftfarinu og flug sem eru eingöngu að flytja búnað og starfsfólk, sem tekur beinan þátt í að veita tengda þjónustu, undir undanþáguna. Enn fremur er í þessum undanþágum ekki gerður greinarmunur á flugi þar sem notuð eru tilföng frá opinberum aðilum eða einkaaðilum.
2.3.1.    Leitar- og björgunarflug
    17.    Flug í tengslum við leit og björgun er flug þar sem leitar- og björgunarþjónusta stendur til boða. Leitar- og björgunarþjónusta felst í framkvæmd neyðarvöktunar (e. distress monitoring), samskiptum, samræmingu og leitar- og björgunarstörfum, fyrstu læknishjálp (e. initial medical assistance) eða brottflutningi af læknisfræðilegum ástæðum með notkun tilfanga frá opinberum aðilum eða einkaaðilum, þ.m.t. samstarfsloftför, skip og önnur för og búnaður.
    18.    Gert er ráð fyrir að flug með CRCO-undanþágukóðann „R“ og flug sem er auðkennt með STS/SAR í reit 18 í flugáætluninni sé leitar- og björgunarflug sem nýtur undanþágu.
2.3.2.    Flug til slökkvistarfa
    19.    Flug til slökkvistarfa er flug sem er eingöngu til slökkvistarfa úr lofti, sem felur í sér notkun loftfara og annarra tilfanga í lofti til að berjast gegn eldi sem breiðist út.
    20.    Gert er ráð fyrir að flug sem er auðkennt með STS/FFR í reit 18 í flugáætluninni sé flug til slökkvistarfa sem nýtur undanþágu.
2.3.3.    Flug í mannúðarskyni
    21.    Flug í mannúðarskyni er flug sem er eingöngu starfrækt í mannúðarskyni og er til að flytja starfsfólk til neyðaraðstoðar og flytja neyðarbirgðir, s.s. mat. fatnað, skýli, læknisfræðileg áhöld og önnur áhöld, meðan neyðarástand og/eða hamfarir standa yfir eða eftir það og/eða er notað til að flytja fólk á brott frá stað þar sem lífi þess eða heilbrigði er ógnað vegna slíks neyðarástands og/eða hamfara á öruggan stað í sama ríki eða í öðru ríki sem er tilbúið til að taka á móti slíkum einstaklingum.
    22.    Gert er ráð fyrir að flug með CRCO-undanþágukóðann „H“ og flug sem er auðkennt með STS/HUM í reit 18 í flugáætluninni sé flug í hjálpar- og mannúðarskyni sem nýtur undanþágu.
2.3.4.    Sjúkraflug
    23.    Sjúkraflug er flug sem þjónar eingöngu þeim tilgangi að stuðla að neyðarlæknishjálp, þar sem tafarlaus og skjótur flutningur er nauðsynlegur, og með því er flutt heilbrigðisstarfsfólk, sjúkragögn, þ.m.t. búnaður, blóð, líffæri og lyf, eða veikir eða særðir einstaklingar og aðrir einstaklingar sem tengjast málinu beint.
    24.    Gert er ráð fyrir að flug sem er auðkennt með STS/MEDEVAC eða STS/HOSP í reit 18 í flugáætluninni sé sjúkraflug sem nýtur undanþágu.
2.4.     Undanþága samkvæmt undirlið f
    25.    Gert er ráð fyrir að flug með CRCO-undanþágukóðann „T“ og flug sem er auðkennt með RKM/„þjálfunarflug“ (e. training flight) í reit 18 í flugáætluninni njóti undanþágu samkvæmt undirlið f.
2.5.     Undanþágur samkvæmt undirlið g
    26.    Með tilliti til eftirfarandi flokka flugs falla flug til staðsetningar eða flutninga á loftfarinu ekki undir undanþáguna.
2.5.1.    Flug sem er eingöngu vegna vísindarannsókna
    27.    Í þessum flokki er undanskilið flug sem er einungis í þeim tilgangi að framkvæma vísindarannsóknir. Vísindarannsóknirnar skulu framkvæmdar að hluta til eða að öllu leyti meðan á flugi stendur til þess að undanþágan gildi. Flutningur á vísindamönnum eða rannsóknarbúnaði nægir í sjálfu sér ekki til þess að flugið njóti undanþágu.
2.5.2.    Flug sem er eingöngu til að skoða, prófa eða votta loftför eða búnað, hvort sem er í lofti eða á jörðu niðri
    28.    Gert er ráð fyrir að flug með CRCO-undanþágukóðann „N“ og flug sem er auðkennt með STS/FLTCK í reit 18 í flugáætluninni njóti undanþágu samkvæmt undirlið g.
2.6.     Undanþága samkvæmt undirlið i (flug vegna skyldu um opinbera þjónustu)
    29.    Undanþágu fyrir flug vegna skyldna um opinbera þjónustu innan ystu svæða skal túlka þannig að hún gildi um þau svæði sem eru tilgreind í 2. mgr. 299. gr. EB-sáttmálans og að eingöngu sé um að ræða flug vegna skyldu um opinbera þjónustu innan eins ysta svæðis og flug milli tveggja ystu svæða.
2.7.     Undanþága samkvæmt undirlið j (minniháttarreglan)
    30.    Allir flugrekendur sem stunda flutningaflug skulu hafa gilt flugrekandaskírteini skv. I. hluta 6. viðauka við Chicago-samninginn. Flugrekendur sem eru án flugrekandaskírteinis eru ekki „flugrekendur sem stunda flutningaflug“.
    31.    Við beitingu minniháttarreglunnar er mat á því hvort flugið er viðskiptatengt eða ekki tengt flugrekanda en ekki því flugi sem um er að ræða. Þetta felur einkum í sér að flug, sem flugrekandi í atvinnuflugi annast, skal tekið til greina þegar tekin er ákvörðun um hvort umræddur flugrekandi fellur innan viðmiðunarmarka um undanþágu eða ekki, jafnvel þótt þessi flug séu ekki farin gegn greiðslu.
    32.    Einungis skal taka til greina flug sem hefst eða lýkur á flugvelli á yfirráðasvæði aðildarríkis sem fellur undir sáttmálann þegar tekin er ákvörðun um hvort umráðandi loftfarsins fellur innan viðmiðunarmarka um undanþágu að því er varðar minniháttarregluna eða ekki. Flug sem nýtur undanþágu samkvæmt undirliðum a–j skal ekki taka til greina í sama tilgangi.
    33.    Flug flugrekanda sem stundar flutningaflug og starfrækir færri en 243 flug á hverju tímabili í þrjú samfelld, fjögurra mánaða tímabil njóta undanþágu. Fjögurra mánaða tímabilin eru: Janúar til apríl, maí til ágúst, september til desember. Staðbundinn brottfarartími flugsins ákvarðar á hvaða fjögurra mánaða tímabili skal taka flugið til greina þegar tekin er ákvörðun um hvort umráðandi loftfarsins fellur innan viðmiðunarmarka um undanþágu að því er varðar minniháttarregluna eða ekki.
    34.    Flugrekandi í atvinnuflugi sem starfrækir 243 flug eða fleiri á hverju tímabili fellur undir kerfi Bandalagsins fyrir allt almanaksárið þar sem viðmiðunarmörkin um 243 flug nást eða farið er yfir þau.
    35.    Flugrekandi í atvinnuflugi sem starfrækir flug þar sem heildarlosun á ári er 10 000 tonn eða meiri á ári fellur undir kerfi Bandalagsins fyrir allt almanaksárið þar sem viðmiðunarmörkin um 10 000 tonn nást eða farið er yfir þau.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L …, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. ..., d. m. ártal, bls. xx.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 8, 13.1.2009, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    [Engin stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.] [Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.]
Neðanmálsgrein: 4
1 Stjtíð. EB L 8, 13.1.2009, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 5
2 Þrátt fyrir að ákvörðunin um fjölda losunarheimilda og ákvörðunin um viðmiðun séu formlega ein og sama ákvörðunin í tilskipuninni, aðgreinum við þær hér til skýringar.
Neðanmálsgrein: 6
(1)    Stjtíð. ESB C 175, 27.7 2007, bls. 47.
Neðanmálsgrein: 7
(2)    Stjtíð. ESB C 305, 15.12 2007, bls. 15.
Neðanmálsgrein: 8
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 13. nóvember 2007 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum), sameiginleg afstaða ráðsins frá 18. apríl 2008 (Stjtíð.ESB C 122 E, 20.5.2008, bls. 19) og afstaða Evrópuþingsins frá 8. júlí 2008 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum). Ákvörðun ráðsins frá 24. október 2008.
Neðanmálsgrein: 9
(4)    Stjtíð. ESB L 275, 25.10. 2003, bls. 32.
Neðanmálsgrein: 10
(5)    Stjtíð. ESB L 33, 7.2. 1994, bls. 11.
Neðanmálsgrein: 11
(1)    Stjtíð. ESB C 287 E, 29.11.2007, bls. 344.
Neðanmálsgrein: 12
(2)    Stjtíð. ESB L 130, 15.5. 2002, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 13
(1)    Stjtíð. ESB L 242, 10.9. 2002, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 14
(2)    Stjtíð. ESB C 303 E, 13.12.2006, bls. 119.
Neðanmálsgrein: 15
(1)    Stjtíð. ESB L 184, 17.7. 1999, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 16
(2)    Stjtíð. ESB C 321, 31.12 2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 17
(1)    Stjtíð. ESB …, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. ..., d. m. ártal, bls. xx.
Neðanmálsgrein: 18
(2)    Stjtíð. ESB L 149, 12.6.2009, bls. 69.
Neðanmálsgrein: 19
(*)    [Engin stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.] [Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.]
Neðanmálsgrein: 20
(1)    Stjtíð. ESB L 275, 25.10.2003, bls. 32.
Neðanmálsgrein: 21
(2)    Stjtíð. ESB L 8, 13.1.2009, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 22
(3)    Stjtíð. ESB L 341, 7.12.2006, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 23
(4)    PANS-ATM, skjal 4444.
Neðanmálsgrein: 24
(5)    Stjtíð. ESB L 229, 31.8.2007, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 25
(6)    Stjtíð. ESB L 293, 31.10.2008, bls. 3.