Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 132. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 975  —  132. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 16/2009, um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneyti og Sigríði Rafnar Pétursdóttur frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Utanríkismálanefnd óskaði álits allsherjarnefndar á tillögunni og er álit nefndarinnar birt sem fylgiskjal með nefndaráliti þessu.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 16/2009, frá 5. febrúar 2009, um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB um lánasamninga fyrir neytendur og um niðurfellingu tilskipunar ráðsins 87/102/EBE. Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 5. ágúst 2009. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.
    Meginmarkmið tilskipunarinnar er frekari sameining markaða og aukin neytendavernd á sviði neytendalána. Réttarstaða neytenda við gerð lánasamnings mun batna til muna frá því sem nú er auk þess sem gerðar verða auknar kröfur til vandaðra vinnubragða lánastofnana. Má þar nefna kröfu um aukna upplýsingagjöf lánastofnana og skyldu til að meta gjaldþol lántaka fyrir samningsgerð, að þak verður sett á uppgreiðslukostnað lána og að neytendur munu hafa 14 daga frest til að falla frá samningi.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og er fyrirhugað að efnahags- og viðskiptaráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á lögum um neytendalán, nr. 121/1994, með síðari breytingum, á haustþingi og mun það að líkindum koma til meðferðar í allsherjarnefnd.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Birgitta Jónsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. mars 2011.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Álfheiður Ingadóttir.


Bjarni Benediktsson.



Helgi Hjörvar.


Ólöf Nordal.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Þórunn Sveinbjarnardóttir.



Fylgiskjal.


Álit frá allsherjarnefnd.


    Nefndin hefur fjallað um beiðni utanríkismálanefndar, dags. 17. nóvember 2010, um álit allsherjarnefndar á tillögu til þingsályktunar um ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 16/2009, um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn (þskj. 145 – 132. mál).
    Samkvæmt 21. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings eða breyting á honum kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Með þingsályktunartillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á framangreindri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 16/2009, frá 5. febrúar 2009, um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/48/EB um lánasamninga fyrir neytendur. Meginmarkmið tillögunnar er frekari sameining markaða og aukin neytendavernd á sviði neytendalána og er nauðsynlegt að leggja til breytingar á lögum um neytendalán. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar var því tekin með stjórnskipulegum fyrirvara.
    Nefndin telur eðlilegt að á þessu stigi fari umfjöllun um afléttingu þess stjórnskipulega fyrirvara sem tillagan felur í sér eingöngu fram í utanríkismálanefnd þar sem efnisleg meðferð á tillögum um lagabreytingar kemur til meðferðar hjá viðkomandi fastanefnd þingsins.
    Nefndin gerir ekki athugasemdir við að tillagan verði samþykkt.
    Róbert Marshall, Valgerður Bjarnadóttir, Vigdís Hauksdóttir og Þráinn Bertelsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Þór Saari, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er sammála áliti þessu.

Alþingi, 28. febr. 2011.

Atli Gíslason, varaform.,
Mörður Árnason,
Birgir Ármannsson,
Álfheiður Ingadóttir,
Sigurður Kári Kristjánsson.