Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 134. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 983  —  134. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 114/2008, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES- samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneyti og Sigríði Rafnar Pétursdóttur frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 114/2008 frá 7. nóvember 2008, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/64/EB um greiðsluþjónustu á innri markaðnum, um breytingu á tilskipunum 97/7/EB, 2002/65/EB, 2005/60/EB og 2006/48/EB og niðurfellingu tilskipunar 97/5/EB. Sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 7. maí 2009. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES- mála frá 1. október 2010.
    Markmið tilskipunar 2007/64/EB eru að skapa heildstætt, samræmt og nútímalegt ESB- regluverk um rafræna greiðslumiðlun og að efla réttarstöðu neytenda er varðar greiðsluþjónustu. Helstu breytingarnar verða tilkoma svokallaðra greiðslustofnana og hins vegar að einungis bönkum og sparisjóðum verður heimilt að veita fyrrnefnda greiðsluþjónustu. Gilda ákvæði tilskipunarinnar m.a. um veitingu greiðsluþjónustu, þ.m.t. um réttindi og skyldur í tengslum við skilyrði og notkun ólíkra greiðslukerfa. Ætla má að samkeppni aukist um greiðsluþjónustu hér á landi með auknu aðgengi að greiðslukerfum og fjölgun þátttakenda á markaði, þegar greiðslustofnanir verða bæði nýir þátttakendur í greiðslukerfum og samkeppnisaðilar við banka er kemur að veitingu greiðsluþjónustu.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og mun fyrirhugað frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra til nýrra heildarlaga um greiðsluþjónustu fjalla um það efni. Fyrirhugað er að leggja frumvarpið fram á vorþingi. Eftir framlagningu mun það að líkindum koma til meðferðar í viðskiptanefnd.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Birgitta Jónsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. mars 2011.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Álfheiður Ingadóttir.


Bjarni Benediktsson.



Helgi Hjörvar.


Ólöf Nordal.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Þórunn Sveinbjarnardóttir.