Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 549. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Prentað upp.

Þskj. 1029  —  549. mál.




Breytingartillögur



við till. til þál. um skipun stjórnlagaráðs.

Frá meiri hluta allsherjarnefndar (RM, AtlG, VBj, ÁI, ÁÞS, MÁ).



     1.      Eftirfarandi breytingar verði á 1. mgr. tillögugreinarinnar:
                  a.      Fyrri málsliður orðist svo: Alþingi ályktar að skipa 25 manna stjórnlagaráð sem fái það verkefni að taka við og fjalla um skýrslu stjórnlaganefndar og gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.
                  b.      Í stað orðanna „að kynjahlutföll raskist ekki“ í síðari málslið komi: að hvort kyn um sig hljóti a.m.k. 10 sæti í ráðinu.
     2.      Í stað 5.–6. mgr. tillögugreinarinnar komi þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Stjórnlagaráð kjósi formann úr sínum hópi. Fundir ráðsins verði opnir. Um skipulag og starfshætti stjórnlagaráðs fer að öðru leyti eftir starfsreglum sem stjórnlagaráð setur sér.
                  Undirbúningsnefnd sem hefur starfað samkvæmt lögum um stjórnlagaþing, nr. 90/ 2010, gangi frá skipan ráðsins í samræmi við 1. mgr. og undirbúi fyrsta fund stjórnlagaráðs. Enn fremur sjái undirbúningsnefndin ráðinu fyrir starfsaðstöðu, starfsliði og nauðsynlegri sérfræðiaðstoð.
                  Fulltrúar í stjórnlagaráði njóti á starfstíma ráðsins launa sem samsvara þingfararkaupi alþingismanna. Formaður ráðsins njóti samsvarandi launa og forseti Alþingis og beri fjármálalega ábyrgð á störfum ráðsins gagnvart undirbúningsnefnd, sbr. 6. mgr. Kostnaður við störf stjórnlagaráðs greiðist úr ríkissjóði samkvæmt nánari ákvörðun Alþingis.