Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 617. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1068  —  617. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um kynningarefni um Icesave-samningana fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Flm.: Þórunn Sveinbjarnardóttir, Ragnheiður E. Árnadóttir, Árni Þór Sigurðsson,
Gunnar Bragi Sveinsson, Margrét Tryggvadóttir.


    Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra að láta Lagastofnun Háskóla Íslands gera hlutlaust og aðgengilegt kynningarefni um Icesave-samningana fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu sem verður haldin 9. apríl 2011 og senda það öllum heimilum í landinu samhliða sérprentun laganna, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Kostnaður við kynningu þessa greiðist úr ríkissjóði.

Greinargerð.


    Samkvæmt ákvörðun innanríkisráðuneytisins verður þjóðaratkvæðagreiðsla um lög nr. 13/ 2011, um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til breska og hollenska ríkisins, haldin laugardaginn 9. apríl nk. Að lögum ber ráðuneytinu aðeins að senda sérprentun laganna inn á hvert heimili í landinu eigi síðar en viku fyrir atkvæðagreiðsluna. Alþingi ber jafnframt að hafa aðgengileg á vefsíðu sinni öll skjöl varðandi meðferð málsins á þinginu. Það hefur þegar verið gert.
    Fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu sem fór fram 6. mars 2010 var ákveðið að fela Lagastofnun Háskóla Íslands að taka saman hlutlaust kynningarefni um það mál sem þá var borið undir atkvæði landsmanna. Rétt þykir að sami háttur verði hafður á að þessu sinni. Lagastofnun leiti samstarfs við fagaðila í kynningarmálum.
    Skammur tími er til stefnu en það er von flutningsmanna að á þeim tíma sem til ráðstöfunar er megi taka saman meginatriði laganna og skýra efni þeirra og eftir atvikum mismunandi sjónarmið til þeirra.