Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 620. máls.

Þskj. 1078  —  620. mál.Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 149/2009 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)
    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 149/2009, frá 4. desember 2009, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/81/EB frá 23. október 2001 um landsbundin efri mörk losunar fyrir tiltekin loftmengunarefni.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 149/2009, frá 4. desember 2009, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/81/EB frá 23. október 2001 um landsbundin efri mörk losunar fyrir tiltekin loftmengunarefni.
    Markmið tilskipunar 2001/81/EB er að vernda umhverfið og heilsu manna gegn skaðlegum áhrifum súrrar ákomu, ofauðgunar jarðvegs og áhrifum ósons við yfirborð jarðar. Auk þess er gerðinni ætlað að vinna að því langtímamarkmiði að halda loftmengun innan marka sem nauðsynleg eru til að koma í veg fyrir skaðleg áhrif á lífríkið og heilsu manna og að vernda fólk gegn heilsufarsvandamálum sem stafa af loftmengun.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/81/EB frá 23. október 2001 um landsbundin efri mörk losunar fyrir tiltekin loftmengunarefni.
    Markmið tilskipunar 2001/81/EB er eins og áður segir að vernda umhverfíð og heilsu manna gegn skaðlegum áhrifum súrrar ákomu, ofauðgunar jarðvegs og áhrifum ósons við yfirborð jarðar. Auk þess er gerðinni ætlað að vinna að því langtímamarkmiði að halda loftmengun innan marka sem nauðsynleg eru til að koma í veg fyrir skaðleg áhrif á lífríkið og heilsu manna og að vernda fólk gegn heilsufarsvandamálum sem stafa af loftmengun.
    Þau efni sem falla undir gildissvið tilskipunarinnar eru brennisteinsdíoxíð (SO2), köfnunarefnisoxíð (NOx), rokgjörn lífræn efnasambönd (VOC) og ammoníak (NH3). Gildissvið tilskipunarinnar nær til losunar þessara efna af manna völdum frá uppsprettum á landi viðkomandi ríkja og innan efnahagslögsögu þeirra. Þó er undanþegin gildissviði tilskipunarinnar losun frá alþjóðlegum siglingum og losun frá loftförum að frátalinni losun sem tilheyrir lendingu og flugtaki.
    Stefnt var að því að ná tilteknum skammtímamarkmiðum fyrir árið 2010. Skammtímamarkmiðin fela m.a. í sér að þeim svæðum þar sem mengun er yfir skaðlegum mörkum fækki um tiltekið hlutfall miðað við árið 1990. Til að þessum markmiðum yrði náð var hverju aðildarríki bandalagsins gert skylt að takmarka losun ákveðinna mengandi efna fyrir árið 2010 við tiltekin losunarmörk, eða svokallað þak, sem ákveðið er fyrir hvert ríki um sig í viðauka l við tilskipunina. Aðildarríkjum ber einnig að tryggja að losun haldist undir mörkunum í viðauka I á hverju ári eftir 2010.
    Aðildarríkjum ber að útbúa aðgerðaáætlun þar sem fram kemur hvernig þau hyggjast draga úr losun þannig að samræmist losunarmörkunum í viðauka I. Afhenda skal framkvæmdastjórninni aðgerðaáætlunina auk þess sem hún skal send viðeigandi stofnunum og gerð aðgengileg almenningi.
    Aðildarríki skulu koma á fót og uppfæra árlega losunarbókhald fyrir efnin sem tilskipunin gildir um, auk þess að gefa út losunarspá. Losunarbókhaldið og losunarspáin skulu afhent framkvæmdastjórninni árlega.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Vegna langtímamarkmiðs tilskipunarinnar og væntanlegrar endurskoðunar hennar mun Ísland á næstu árum þurfa að takmarka losun þeirra efna sem falla undir tilskipunina. Á það einkum við um brennisteinsdíoxíð, en losun þess hefur aukist verulega á síðustu árum, einkum vegna jarðhitavirkjana. Einnig þarf að gera breytingar á reglum sem varða upplýsingaskyldu fyrirtækja til að unnt sé að halda fullnægjandi losunarbókhald í samræmi við kröfur tilskipunarinnar. Umhverfisráðherra hyggst leggja fram lagafrumvarp á löggjafarþinginu 2011–2012 til innleiðingar á ákvæðum tilskipunarinnar. Hvorki er gert ráð fyrir að lagabreytingar muni hafa í för með sér umtalsverðan kostnað né hafa stjórnsýslulegar afleiðingar hér á landi. Þann kostnað sem til mun falla leiðir einkum af því að vinna þarf aðgerðaáætlun, losunarbókhald og losunarspá en auk vinnu við gerð þeirra mun einhver stofnkostnaður vera því samfara. Að auki er hugsanlegt að einhver kostnaður falli á atvinnulífið ef þörf verður á að gera auknar kröfur vegna losunar þeirra efna sem falla undir tilskipunina, til að mynda ef fyrirtæki þurfa að koma sér upp mengunarvarnarbúnaði.Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 149/2009

frá 4. desember 2009

um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)          XX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndar-innar nr. 101/2009 frá 25. september 2009 ( 1 ).

2)          Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/81/EB frá 23. október 2001 um landsbundin efri mörk losunar fyrir tiltekin loftmengunarefni ( 2 ).

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.

Eftirfarandi liður bætist við í lið 21aqc (reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1516/ 2007) í XX. viðauka við samninginn:

„21ar.          32001 L 0081: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/81/EB frá 23. október 2001 um landsbundin efri mörk losunar fyrir tiltekin loftmengunarefni (Stjtíð. EB L 309, 27.11.2001, bls. 22) eins og henni var breytt með:
                   –      1 03 T: Lög um aðildarskilmála Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eist-lands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýð-veldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu og aðlögun sáttmálanna sem mynda grundvöll Evrópusambandsins, samþykkt 16. apríl 2003 (Stjtíð. ESB L 236, 23.9.2003, bls. 33),
                   –     32006 L 0105: Tilskipun ráðsins 2006/105/EB frá 20. nóvember 2006 (Stjtíð. ESB L 363, 20.12.2006, bls. 368).

                  Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er samning þennan varðar, aðlöguð sem hér segir:

                      a)      Eftirfarandi undirgrein bætist við í 2. gr.:

                             „f)     losun á Svalbarða, að því er varðar Noreg.“

                      b)      Með tilliti til skuldbindinganna, sem mælt er fyrir um í 4. gr., bætist við I. viðauka eftirtalin landsbundin efri mörk losunar sem skylt er að virða frá árinu 2010.


Land
SO2
kílótonn
NOx
kílótonn
Rokefni
kílótonn
NH3
kílótonn
Ísland 90 27 31 8
Liechtenstein 0,11 0,37 0,86 0,15
Noregur 22 156 195 23

                      c)      1. mgr. 6. gr. hljóði svo:

                            „EFTA-ríkin skulu eigi síðar en 1. mars 2010 koma sér upp áætlunum um hvernig draga megi úr losun mengunarefnanna, sem um getur í 4. gr., með það að markmiði að koma henni niður fyrir landsbundin efri mörk losunar, sem mælt er fyrir um í I. viðauka, eða strangari mörk eigi síðar en árið 2010.“

                      d)      Ákvæði 3. mgr. 6. gr. gilda ekki.

                      e)      Eftirfarandi málsliður bætist við í fyrstu undirgrein 2. mgr. 8. gr.:

                            „Að því er varðar EFTA-ríkin skulu þau veita Eftirlitsstofnun EFTA upplýsingar, í samræmi við ákvæði stafliðar a) í 4. mgr. bókunar 1 við EES-samninginn, um áætlanir sem þau koma sér upp í samræmi við ákvæði 1. og 2. mgr. 6. gr., eigi síðar en 31. mars 2010.“

                      f)      Eftirfarandi undirgrein bætist við í 3. mgr. 8. gr.:

                            „Þegar framkvæmdastjórnin og Eftirlitsstofnun EFTA skiptast á upplýsingum um áætlanir einstakra landa, sem berast frá aðildarríkjum Evrópusambandsins annars vegar og EFTA-ríkjunum hins vegar, í samræmi við ákvæði stafliðar d) í 4. mgr. bókunar 1 við EES-samninginn, skal framkvæmdastjórnin framsenda aðildarríkjum Evrópusambandsins upplýsingar, sem berast frá Eftirlitsstofnun EFTA, og Eftirlitsstofnun EFTA skal framsenda EFTA-ríkjunum upplýsingar, sem berast frá framkvæmdastjórninni, eigi síðar en einum mánuði eftir að þær berast.““

2. gr.Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2001/81/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.Ákvörðun þessi öðlast gildi 5. desember 2009, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 4. desember 2009.

Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
O.H. Sletnes
formaður.


Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2001/81/EB
frá 23. október 2001
um landsbundin efri mörk losunar fyrir tiltekin loftmengunarefni


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 175. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),
með hliðsjón af áliti svæðanefndarinnar ( 3 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 4 ), á grundvelli sameiginlegs texta sem sáttanefndin samþykkti 2. ágúst 2001,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Almenn stefna og almennar aðferðir í fimmtu aðgerðaáætlun á sviði umhverfismála voru samþykktar með ályktun ráðsins og fulltrúa ríkisstjórna aðildarríkjanna 1. febrúar 1993, sem tekin var saman á fundi þeirra á vegum ráðsins, um stefnu- og aðgerðaáætlun Bandalagsins á sviði umhverfismála og sjálfbærrar þróunar ( 5 ) og er markmið hennar að ekki sé farið yfir markálag og markstyrk fyrir súrnun í Bandalaginu. Samkvæmt áætluninni skal öllu fólki veitt haldgóð vernd gegn heilbrigðisáhættu af völdum loftmengunar og skulu leyfð mengunarmörk ákvörðuð með hliðsjón af umhverfisvernd. Samkvæmt áætluninni skulu leiðbeinandi gildi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar verða lögboðin innan Bandalagsins.
2)          Aðildarríkin hafa undirritað Gautaborgarbókunina frá 1. desember 1999 við samning efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu um mengun sem berst langar leiðir yfir landamæri í því skyni að draga úr súrnun og ofauðgun og ósoni við yfirborð jarðar.
3)          Í ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2179/98/EB frá 24. september 1998 um endurskoðun á stefnu- og framkvæmdaáætlun Bandalagsins í tengslum við umhverfi og sjálfbæra þróun „Fram til sjálfbæris“ ( 6 ) er tiltekið að leggja skuli áherslu á að útfæra og hrinda í framkvæmd áætlun þar sem markmiðið er að tryggja að ekki sé farið yfir markálag að því er varðar váhrif af völdum sýrandi efna, ofauðgandi efna og ljósefnafræðilegra loftmengunarefna.
4)          Í tilskipun ráðsins 92/72/EBE frá 21. september 1992 um loftmengun af ósoni ( 7 ) er þess krafist að framkvæmdastjórnin leggi fyrir ráðið skýrslu um mat á ljósefnafræðilegri loftmengun í Bandalaginu, ásamt þeim tillögum sem framkvæmdastjórnin telur skipta máli um eftirlit með loftmengun vegna ósons við yfirborð jarðar og, ef nauðsyn þykir, um að draga úr losun forefna ósons.
5)          Á stórum svæðum í Bandalaginu gætir ákomu sýrandi og ofauðgandi efna í styrk sem hefur skaðleg áhrif á umhverfið. Í öllum aðildarríkjunum er farið verulega yfir leiðbeinandi gildi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar fyrir ljósefnafræðilega mengun að því er varðar heilsu- og gróðurvernd.
6)          Því skal smám saman komið í veg fyrir að farið sé yfir markálag og virða leiðbeinandi gildi.
7)          Eins og sakir standa er ekki tæknilega mögulegt að uppfylla langtímamarkmið um að koma í veg fyrir skaðleg áhrif af völdum súrnunar og draga úr váhrifum á menn og umhverfi vegna ósons við yfirborð jarðar þannig að leiðbeinandi gildi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar séu virt. Því er nauðsynlegt að setja bráðabirgðaumhverfismarkmið fyrir súrnun og mengun af völdum ósons við yfirborð jarðar sem nauðsynlegar ráðstafanir til að draga úr slíkri mengun skulu byggjast á.
8)          Bráðabirgðaumhverfismarkmið og ráðstafanir til að uppfylla þau skulu taka mið af því hvort þau séu framkvæmanleg í tæknilegu tilliti og af tengdum kostnaði og ávinningi. Slíkar ráðstafanir skulu tryggja að allar aðgerðir, sem gripið er til, séu kostnaðarhagkvæmar fyrir allt Bandalagið og skulu þær taka mið af nauðsyn þess að koma í veg fyrir óhóflegan kostnað fyrir einstök aðildarríki.
9)          Mengun yfir landamæri veldur súrnun, ofauðgun jarðvegs og myndun ósons við yfirborð jarðar og úrbætur krefjast samræmdra aðgerða Bandalagsins.
10)          Með því að draga úr losun mengunarefna sem valda súrnun og váhrifum af völdum ósons við yfirborð jarðar verður einnig dregið úr ofauðgun jarðvegs.
11)          Það er kostnaðarhagkvæm leið til að uppfylla bráðabirgðaumhverfismarkmið að setja efri mörk í hverju aðildarríki um sig fyrir losun brennisteinsdíoxíðs, köfnunarefnisoxíðs, rokgjarnra, lífrænna efnasambanda og ammoníaks. Slík efri mörk losunar veita Bandalaginu og aðildarríkjunum sveigjanleika til að ákvarða hvernig megi virða þau.
12)          Aðildarríkin skulu bera ábyrgð á framkvæmdarráðstöfunum til að fara að landsbundnum, efri mörkum losunar. Nauðsynlegt verður að meta hversu miðar í því að virða efri mörk losunar. Því skal semja landsáætlanir varðandi það að draga úr losun og leggja þær fyrir framkvæmdastjórnina með upplýsingum um þær ráðstafanir sem hafa verið samþykktar eða eru fyrirhugaðar í því skyni að fara að efri mörkum losunar.
13)          Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í 5. gr. sáttmálans, og einkum með tilliti til varúðarreglunnar geta aðildarríkin ekki fyllilega náð markmiðum þessarar tilskipunar, þ.e. að takmarka losun sýrandi og ofauðgandi mengunarefna og forefna ósons, vegna þess að mengunin berst yfir landamæri, og þar eð þeim verður betur náð á vettvangi Bandalagsins verður ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná þessum markmiðum.
14)          Það hversu vel aðildarríkjunum miðar að virða efri mörk losunar skal metið innan ákveðinna tímamarka og endurmeta skal hversu líklegt sé að bráðabirgðaumhverfismarkmið náist fyrir allt Bandalagið ef efri mörkin eru virt. Við slíka endurskoðun skal einnig taka mið af framförum í vísindum og tækni, þróun löggjafar Bandalagsins og skerðingu á losun utan Bandalagsins, einkum með hliðsjón af framförum í umsóknarlöndunum. Í endurskoðuninni skal framkvæmdastjórnin skoða frekar kostnað vegna efri marka losunar og ávinning af þeim, þ.m.t. kostnaðarhagkvæmni, jaðarkostnaður og ávinningur, félagsleg og hagræn áhrif og hugsanleg áhrif á samkeppnishæfni. Í endurskoðuninni skal einnig taka tillit til takmarkaðs gildissviðs þessarar tilskipunar.
15)          Í þessu skyni skal framkvæmdastjórnin taka saman skýrslu og senda hana Evrópuþinginu og ráðinu og leggja til, ef hún telur það nauðsynlegt, viðeigandi breytingar á þessari tilskipun með tilliti til áhrifa af viðkomandi löggjöf Bandalagsins, m.a. að því er varðar ákvörðun viðmiðunarmarka fyrir losun og vörustaðla fyrir þau upptök losunar sem skipta máli og alþjóðlegar reglugerðir um losun frá skipum og loftförum.
16)          Sjóflutningar eiga stóran þátt í losun brennisteinsdíoxíðs og köfnunarefnisoxíðs sem og styrk og ákomu loftmengunarefna í Bandalaginu. Því ber að draga úr slíkri losun. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. tilskipunar ráðsins 1999/ 32/EB frá 26. apríl 1999 um að draga úr magni brennisteins í tilteknum tegundum fljótandi eldsneytis og breytingu á tilskipun 93/12/EBE ( 1 ) er framkvæmdastjórninni skylt að vega og meta hvaða ráðstafanir væri unnt að gera til að draga úr þætti brennslu skipaeldsneytis í súrnun, aðrar en þær sem tilgreindar eru í 3. mgr. 2. gr. þeirrar tilskipunar.
17)          Aðildarríkin skulu því leitast við að fullgilda VI. viðauka við alþjóðasamninginn um varnir gegn mengun frá skipum (MARPOL) eins fljótt og auðið er.
18)          Þar eð mengun af völdum súrnunar og ósons er þess eðlis að hún berst yfir landamæri skal framkvæmdastjórnin halda áfram að kanna nánar nauðsyn þess að þróa samræmdar ráðstafanir Bandalagsins, með fyrirvara um 18 gr. tilskipunar ráðsins 96/61/EB frá 24. september 1996 um samþættar mengunarvarnir og eftirlit með mengun ( 1 ) , með það að markmiði að koma í veg fyrir röskun á samkeppni og taka tillit til jafnvægisins milli ávinnings og kostnaðar af aðgerðum.
19)          Ákvæði þessarar tilskipunar skulu gilda með fyrirvara um löggjöf Bandalagsins um losun þessara mengunarefna frá tilteknum upptökum og með fyrirvara um ákvæði tilskipunar ráðsins 96/61/EB að því er varðar viðmiðunarmörk fyrir losun og notkun bestu, fáanlegu tækni.
20)          Skrár um losun eru nauðsynlegar til að vakta það hversu miðar að virða efri mörk losunar og skulu þær reiknaðar í samræmi við aðferðir, sem eru samþykktar á alþjóðavettvangi, og lagðar reglulega fyrir framkvæmdastjórnina og Umhverfisstofnun Evrópu.
21)          Aðildarríkin skulu mæla fyrir um reglur um viðurlög við brotum á ákvæðum þessarar tilskipunar og tryggja að þeim sé framfylgt. Þessi viðurlög skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og letjandi.
22)          Nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar þessari tilskipun skulu samþykktar í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 2 ) .
23)          Framkvæmdastjórnin og aðildarríkin skulu vinna saman á alþjóðavettvangi til að ná markmiðum þessarar tilskipunar.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.
Markmið

Markmiðið með þessari tilskipun er að takmarka losun sýrandi og ofauðgandi mengunarefna og forefna ósons í því skyni að efla umhverfis- og heilsuvernd í Bandalaginu að því er varðar áhættu í tengslum við skaðleg áhrif vegna súrnunar, ofauðgunar jarðvegs og ósons við yfirborð jarðar ásamt því að nálgast þau langtímamarkmið að fara ekki yfir markstyrk og -álag og stuðla að haldgóðri vernd alls fólks gegn viðurkenndum heilbrigðisáhættum vegna loftmengunar með því að koma á landsbundnum, efri mörkum losunar, þar sem 2010 og 2020 eru viðmiðunarár, og með reglulegri endurskoðun eins og sett er fram í 4. og 10. gr.

2. gr.
Gildissvið

Þessi tilskipun tekur til losunar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna og sérefnahagslögsögu þeirra frá öllum upptökum mengunarefnanna, sem um getur í 4. gr., sem stafa af starfsemi manna.
Hún tekur ekki til:
     a)      losunar frá alþjóðlegri hafskipaumferð,
     b)      losunar frá loftförum nema í lendingar- og flugtakslotu,
     c)      að því er varðar Spán: losunar á Kanaríeyjum,
     d)      að því er varðar Frakkland: losunar í umdæmunum handan hafsins,
     e)      að því er varðar Portúgal: losunar á Madeira og Asóreyjum.

3. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
     a)      „AOT 40“: summa mismunarins milli klukkustundarstyrks ósons við yfirborð jarðar sem er yfir 80 .g/m³ (= 40 milljarðshlutar) og 80 .g/m³ að degi til, uppsafnað á tímabilinu maí til júlí á ári hverju,
     b)      „AOT 60“: summa mismunarins milli klukkustundarstyrks ósons við yfirborð jarðar sem er yfir 120 .g/m³ (= 60 milljarðshlutar) og 120 .g/m³, uppsafnað á einu ári,
     c)      „markálag (e. critical load)“: megindlegt mat á váhrifum eins eða fleiri mengunarefna en samkvæmt núverandi þekkingu gætir ekki verulega skaðlegra áhrifa á viðkvæma umhverfisþætti undir matsgildunum,
     d)      „markstyrkur (e. critical level)“: styrkur mengunarefna í andrúmsloftinu en samkvæmt núverandi þekkingu gæti það valdið beinum, skaðlegum áhrifum á viðtaka, s.s. menn, plöntur, vistkerfi eða efni, ef farið er yfir þann styrk,
     e)      „losun“: slepping efnis frá stökum eða dreifðum upptökum út í andrúmsloftið,
     f)      „möskvi“: ferningur, 150 km . 150 km, sem er upplausnin sem er notuð við kortlagningu markálags í Evrópu og einnig við vöktun losunar og ákomu loftmengunarefna samkvæmt samstarfsáætlun um vöktun og mat á loftmengunarefnum sem berast langar leiðir í Evrópu (EMEP),
     g)      „lendingar- og flugtakslota“: lota sem felur í sér eftirfarandi tímalengd í hverjum starfræksluham: aðflug 4,0 mínútur, akstur/lausagangur á jörðu niðri 26,0 mínútur, flugtak 0,7 mínútur, klifur 2,2 mínútur,
     h)      „landsbundin efri mörk losunar“: hámarksmagn efnis í kílótonnum sem aðildarríki má losa á einu almanaksári,
     i)      „köfnunarefnisoxíð“ og „NOx“: köfnunarefnismónoxíð og köfnunarefnisdíoxíð, gefið upp sem köfnunarefnisdíoxíð,
     j)      „óson við yfirborð jarðar“: óson í neðsta hluta veðrahvolfsins,
     k)      „rokgjörn, lífræn efnasambönd“: öll lífræn efnasambönd sem eru af völdum starfsemi manna, önnur en metan, og geta getið af sér ljósoxandi efni við efnahvörf með köfnunarefnisoxíðum fyrir tilstilli sólarljóss.

4. gr.
Landsbundin efri mörk losunar

1.     Eigi síðar en 2010 skulu aðildarríkin takmarka árlega, landsbundna losun mengunarefnanna brennisteinsdíoxíðs (SO2), köfnunarefnisoxíða (NOx), rokgjarnra, lífrænna efnasambanda og ammoníaks (NH3) við magn sem fer ekki yfir efri mörkin, sem mælt er fyrir um í I. viðauka, með tilliti til hugsanlegra breytinga sem ráðstafanir Bandalagsins fela í sér og eru samþykktar í kjölfar skýrslnanna sem um getur í 9. gr.
2.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að ekki sé farið yfir þau efri mörk losunar, sem mælt er fyrir um í I. viðauka, á neinu ári eftir 2010.

5. gr.
Bráðabirgðaumhverfismarkmið

Markmiðin með landsbundnu, efri mörkunum í I. viðauka skulu í aðalatriðum vera þau að uppfylla eftirfarandi bráðabirgðaumhverfismarkmið fyrir allt Bandalagið fyrir 2010:
     a)      Súrnun
        Svæðin, þar sem farið er yfir markálag, skulu minnkuð um a.m.k. 50% (í hverjum möskva) miðað við stöðuna 1990.
     b)      Váhrif á heilbrigði af völdum ósons við yfirborð jarðar
        Minnka skal álag af völdum ósons við yfirborð jarðar, sem er yfir markstyrk fyrir heilbrigði manna (AOT60 = 0), um tvo þriðju hluta í öllum möskvum miðað við stöðuna 1990. Álag af völdum ósons við yfirborð jarðar skal heldur ekki fara yfir altæku mörkin 2,9 milljónarhlutastundir (ppm.h) í neinum möskva.
     c)      Váhrif á gróður af völdum ósons við yfirborð jarðar
        Minnka skal álag af völdum ósons við yfirborð jarðar, sem er yfir markstyrk fyrir nytjaplöntur og hálfnáttúrulegan gróður (AOT40 = 3 milljónarhlutastundir), um þriðjung í öllum möskvum miðað við stöðuna 1990. Að auki skal álag af völdum ósons við yfirborð jarðar ekki fara yfir altæku mörkin 10 milljónarhlutastundir, gefið upp sem það sem er umfram markstyrkinn 3 milljónarhlutastundir, í neinum möskva.

6. gr.
Landsáætlanir

1.     Eigi síðar en 1. október 2002 skulu aðildarríkin gera áætlanir um að draga smám saman úr eigin losun þeirra mengunarefna, sem um getur í 4. gr., með það að markmiði að fara a.m.k. að landsbundnum, efri mörkum losunar, sem mælt er fyrir um í I. viðauka, eigi síðar en 2010.
2.     Í landsáætlunum skulu vera upplýsingar um samþykkt og fyrirhuguð stefnumál og ráðstafanir ásamt magnbundnu mati á áhrifum þessara stefnumála og ráðstafana á losun mengunarefna 2010. Tilgreina skal væntanlegar, umtalsverðar breytingar á landfræðilegri dreifingu losunar í hverju landi.
3.     Aðildarríkin skulu uppfæra og endurskoða landsáætlanir, eftir því sem nauðsyn krefur, eigi síðar en 1. október 2006.
4.     Aðildarríkin skulu gera áætlanirnar, sem gerðar eru í samræmi við 1., 2. og 3. mgr., aðgengilegar almenningi og viðeigandi samtökum, s.s. umhverfissamtökum. Upplýsingar til almennings og samtaka samkvæmt þessari málsgrein skulu vera skýrar, auðskiljanlegar og aðgengilegar.

7. gr.
Skrár um losun og losunarspár

1.     Aðildarríkin skulu taka saman landsskrár um losun og setja fram losunarspár fyrir 2010 að því er varðar mengunarefnin, sem um getur í 4. gr., og uppfæra þær árlega.
2.     Aðildarríkin skulu taka saman skrár um losun og setja fram losunarspár samkvæmt þeim aðferðum sem eru tilgreindar í III. viðauka.
3.     Framkvæmdastjórnin skal, með aðstoð Umhverfisstofnunar Evrópu, í samráði við aðildarríkin og á grundvelli upplýsinganna frá þeim, taka saman skrár og setja fram spár að því er varðar mengunarefnin sem um getur í 4. gr. Gera skal skrárnar og spárnar aðgengilegar öllum.
4.     Uppfærslur á aðferðunum, sem skal nota í samræmi við III. viðauka, skulu gerðar í samræmi við málsmeðferðina sem er sett fram í 2. mgr. 13. gr.

8. gr.
Skýrslugjöf aðildarríkjanna

1.     Eigi síðar en 31. desember ár hvert skulu aðildarríkin senda framkvæmdastjórninni og Umhverfisstofnun Evrópu landsskrár um losun og losunarspár sínar fyrir 2010 sem eru teknar saman og settar fram í samræmi við 7. gr. Þau skulu senda endanlegar skrár um losun fyrir árið á undan næstliðnu ári og bráðabirgðaskrár um losun fyrir næstliðið ár. Í losunarspám skulu koma fram upplýsingar sem gera það kleift að skilja á megindlegan hátt helstu félagslegu og hagrænu forsendurnar sem notaðar voru við gerð spánna.
2.     Aðildarríkin skulu eigi síðar en 31. desember 2002 upplýsa framkvæmdastjórnina um áætlanirnar sem gerðar hafa verið í samræmi við 1. og 2. mgr. 6. gr.
Aðildarríkin skulu eigi síðar en 31. desember 2006 upplýsa framkvæmdastjórnina um uppfærðu áætlanirnar sem gerðar hafa verið í samræmi við 3. mgr. 6. gr.
3.     Framkvæmdastjórnin skal senda landsáætlanirnar sem henni berast til hinna aðildarríkjanna innan mánaðar frá viðtöku þeirra.
4.     Framkvæmdastjórnin skal, í samræmi við málsmeðferðina sem sett er fram í 2. mgr. 13. gr., setja ákvæði til að tryggja samræmda og gagnsæja skýrslugjöf um landsáætlanir.

9. gr.
Skýrslugjöf framkvæmdastjórnarinnar

1.     Framkvæmdastjórnin skal senda Evrópuþinginu og ráðinu skýrslu 2004 og 2008 um árangur af framkvæmd landsbundinna efri marka losunar, sem mælt er fyrir um í I. viðauka, og um hversu líklegt sé að bráðabirgðaumhverfismarkmiðin, sem sett eru fram í 5. gr., verði uppfyllt árið 2010 og að hvaða marki verði unnt að uppfylla langtímamarkmiðin, sem sett eru fram í 1. gr., fyrir árið 2020. Í skýrslunum skal vera efnahagslegt mat, þ.m.t. kostnaðarhagkvæmni, ávinningur, mat á jaðarkostnaði og ávinningi og félagslegum og hagrænum áhrifum af framkvæmd ákvæða um landsbundin efri mörk á tiltekin aðildarríki og geira. Í þeim skal einnig vera mat á takmörkuðu gildissviði þessarar tilskipunar sem er skilgreint í 2. gr. og mat á því hversu mikil frekari minnkun losunar gæti verið nauðsynleg til að uppfylla bráðabirgðaumhverfismarkmiðin sem sett eru fram í 5. gr. Í skýrslunum skal tekið tillit til þeirra skýrslna sem aðildarríkin taka saman skv. 1. og 2. mgr. 8. gr., og auk þess m.a. til:
     a)      allrar nýrrar löggjafar Bandalagsins sem hefur verið samþykkt þar sem sett eru viðmiðunarmörk fyrir losun og vörustaðlar fyrir viðkomandi upptök losunar,
     b)      þróunar bestu, fáanlegu tækni í tengslum við upplýsingaskipti skv. 16. gr. tilskipunar 96/61/ EB,
     c)      markmiða um minnkun losunar fyrir 2008 að því er varðar losun brennisteinsdíoxíðs og köfnunarefnisoxíða frá starfandi, stórum brennsluverum sem aðildarríkin gefa skýrslu um samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/80/EB frá 23. október 2001 um takmörkun á losun tiltekinna mengunarefna frá stórum brennsluverum út í andrúmsloftið ( 1 ) ,
     d)      minnkunar á losun þriðju landa og skuldbindinga þeirra til minnkunar á losun þar sem sérstök áhersla er lögð á ráðstafanir sem grípa skal til í umsóknarlöndunum og möguleikanum á frekari minnkun losunar á svæðum í grennd við Bandalagið,
     e)      allrar nýrrar löggjafar Bandalagsins og alþjóðareglna um losun frá skipum og loftförum,
     f)      þróunar flutninga og frekari aðgerða til að hafa eftirlit með losun við flutninga,
     g)      þróunar í landbúnaði, nýrra spáa varðandi búfé og umbóta á aðferðum við að minnka losun í landbúnaði,
     h)      mikilvægra breytinga á orkumarkaði innan aðildarríkis og nýrra spáa sem endurspegla þær aðgerðir sem aðildarríkin hafa framkvæmt til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar sínar í tengslum við loftslagsbreytingar,
     i)      mats á því hversu mikið er farið yfir markálag og leiðbeinandi gildi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar fyrir óson við yfirborð jarðar og spánna um hversu mikið er gert ráð fyrir að farið verði yfir þessi mörk,
     j)      möguleikans á að setja tillagt bráðabirgðamarkmið um að draga úr ofauðgun jarðvegs,
     k)      nýrra tækni- og vísindagagna, þ.m.t. mat á óvissu að því er varðar:
                  i.      landsskrár um losun,
                  ii.      ílagstilvísunargögn,
                  iii.      þekkingu á því hvernig mengunarefni berast yfir landamæri og ákomu mengunarefna,
                  iv.      markálag og markstyrk,
                  v.      líkanið sem er notað,
        og mat á óvissu er varðar landsbundin efri mörk, sem stafar af fyrrgreindum óvissuþáttum, sem eru nauðsynleg til að uppfylla bráðabirgðaumhverfismarkmiðin í 5. gr.
     l)      þess hvort nauðsynlegt sé að koma í veg fyrir óhóflegan kostnað fyrir einstök aðildarríki,
     m)      samanburðar milli líkanreikninga þar sem súrnun og ofauðgun og óson við yfirborð jarðar er athugað í því skyni að bæta líkönin,
     n)      mögulegrar beitingar, eftir því sem við á, viðeigandi, efnahagslegra stjórntækja.
2.     Framkvæmdastjórnin skal senda Evrópuþinginu og ráðinu skýrslu árið 2012 um hvort efri mörkin í I. viðauka séu virt og um árangur í tengslum við bráðabirgðaumhverfismarkmiðin í 5. gr. og langtímamarkmiðin sem sett eru fram í 1. gr. Skýrslan skal taka mið af þeim skýrslum sem aðildarríkin leggja fram skv. 1. og 2. mgr. 8. gr. ásamt þeim atriðum sem tilgreind eru í a- til n-lið í 1. mgr.

10. gr.
Endurskoðun

1.     Í skýrslunum, sem um getur í 9. gr., skal taka tillit til þeirra atriða sem tilgreind eru í 1. mgr. 9. gr. Í ljósi þessara atriða, þess hversu miðar að virða efri mörk losunar fyrir 2010, framfara á sviði vísinda og tækni og stöðunnar að því er varðar hversu miðar að ná bráðabirgðamarkmiðum þessarar tilskipunar og langtímamarkmiðum um að fara hvorki yfir markálag né markstyrk og leiðbeininga Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um loftgæði að því er varðar óson skal framkvæmdastjórnin endurskoða þessa tilskipun við samantekt hverrar skýrslu.
2.     Í endurskoðuninni, sem skal ljúka 2004, verður unnið mat á leiðbeinandi, efri mörkum fyrir allt Bandalagið sem sett eru fram í II. viðauka. Taka skal tillit til matsins á þessum leiðbeinandi, efri mörkum við greiningu á frekari kostnaðarhagkvæmum aðgerðum sem grípa má til í því skyni að draga úr losun allra viðkomandi mengunarefna með það að markmiði að ná þeim bráðabirgðamarkmiðum, sem sett eru fram í 5. gr., í öllu Bandalaginu fyrir 2010.
3.     Við alla endurskoðun skal rannsaka frekar áætlaðan kostnað og ávinning af landsbundnum efri mörkum losunar sem reiknast með hjálp fullkomnustu líkana og bestu, fáanlegu gagna til að halda óvissu í lágmarki og taka jafnframt tillit til þróunar í stækkun Evrópusambandsins og kostanna við staðgönguaðferðir í ljósi atriðanna sem tilgreind eru í 9. gr.
4.     Með fyrirvara um 18. gr. tilskipunar 96/61/EB skal framkvæmdastjórnin, í því skyni að koma í veg fyrir röskun á samkeppni og með tilliti til jafnvægisins milli ávinnings og kostnaðar af aðgerðum, kanna frekar nauðsyn þess að koma á samræmdum ráðstöfunum Bandalagsins fyrir þá atvinnuvegi og vörur sem eiga mestan þátt í súrnun og ofauðgun og myndun ósons við yfirborð jarðar.
5.     Skýrslunum, sem um getur í 9. gr., munu, eftir því sem við á, fylgja tillögur um:
     a)      breytingar á landsbundnum efri mörkum í I. viðauka í því skyni að uppfylla bráðabirgðaumhverfismarkmiðin í 5. gr. og/eða breytingar á þessum bráðabirgðaumhverfismarkmiðum,
     b)      hugsanlega, frekari minnkun á losun í því skyni að uppfylla langtímamarkmið þessarar tilskipunar, helst fyrir 2020,
     c)      ráðstafanir til að tryggja að efri mörkin séu virt.

11. gr.
Samvinna við þriðju lönd

Til að stuðla að því að markmiðinu, sem sett er fram í 1. gr., verði náð skulu framkvæmdastjórnin og aðildarríkin, eftir því sem við á, með fyrirvara um 300. g. sáttmálans, leitast eftir tvíhliða og marghliða samvinnu við þriðju lönd og viðeigandi alþjóðastofnanir, s.s. efnahagsnefnd Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu (UNECE), Alþjóðasiglingamálastofnunina (IMO) og Alþjóðaflugmálastofnunina (ICAO), m.a. með upplýsingaskiptum, varðandi rannsóknir og þróun á sviði tækni og vísinda og í því skyni að bæta grundvöllinn fyrir því að minnka losun enn frekar.

12. gr.
Skýrslur um losun frá skipum og loftförum

1.     Fyrir árslok 2002 skal framkvæmdastjórnin senda Evrópuþinginu og ráðinu skýrslu um hversu mikinn þátt alþjóðleg hafskipaumferð á í súrnun og ofauðgun og myndun ósons við yfirborð jarðar í Bandalaginu.
2.     Fyrir árslok 2004 skal framkvæmdastjórnin senda Evrópuþinginu og ráðinu skýrslu um hversu mikinn þátt losun frá loftförum, að undanskilinni lendingar- og flugtakslotu, á í súrnun og ofauðgun og myndun ósons við yfirborð jarðar í Bandalaginu.
3.     Í hverri skýrslu skal tilgreina aðgerðaáætlun sem unnt væri að framkvæma á alþjóðlegum vettvangi og á vettvangi Bandalagsins, eftir því sem við á, til að draga úr losun frá viðkomandi geira og skal áætlunin vera grundvöllur að frekari athugun hjá Evrópuþinginu og ráðinu.

13. gr.
Nefnd

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar nefndarinnar sem skipuð var skv. 12. gr. tilskipunar 96/62/EB, hér á eftir kölluð „nefndin“.
2.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 4. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.
Fresturinn, sem um getur í 3. mgr. 4. gr. í ákvörðun 1999/468/EB, skal vera þrír mánuðir.
3.     Nefndin setur sér starfsreglur.

14. gr.
Viðurlög

Aðildarríkin skulu ákveða viðurlög við brotum á innlendum ákvæðum sem eru samþykkt á grundvelli þessarar tilskipunar. Þessi viðurlög skulu vera árangursrík, í réttu hlutfalli við brotið og letjandi.

15. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 27. nóvember 2002. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessi ákvæði skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim skal fylgja slík tilvísun þegar þau eru birt opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi tekur til.

16. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

17. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Lúxemborg 23. október 2001.

Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
N. FONTAINE A. NEYTS- UYTTEBROECK
forseti. forseti.
I. VIÐAUKI
Landsbundin efri mörk losunar fyrir SO2, NOx, rokgjörn, lífræn efnasambönd
og NH3, sem skal ná fyrir 2010 (1 )Land

SO2
Kílótonn

NOx
Kílótonn
Rokgjörn, lífræn
efnasambönd
Kílótonn

NH3
Kílótonn
Austurríki 39 103 159 66
Belgía 99 176 139 74
Danmörk 55 127 85 69
Finnland 110 170 130 31
Frakkland 375 810 1 050 780
Þýskaland 520 1 051 995 550
Grikkland 523 344 261 73
Írland 42 65 55 116
Ítalía 475 990 1 159 419
Lúxemborg 4 11 9 7
Holland 50 260 185 128
Portúgal 160 250 180 90
Spánn 746 847 662 353
Svíþjóð 67 148 241 57
Bretland 585 1 167 1 200 297
EB 15 3 850 6 519 6 510 3 110

( 1)     Þessi landsbundnu, efri mörk losunar eru ákveðin með það að markmiði að uppfylla í aðalatriðum þau bráðabirgðaumhverfismarkmið sem sett eru fram í 5. gr. Með uppfyllingu þessara markmiða er búist við að svo mikið dragi úr ofauðgun jarðvegs að það svæði Bandalagsins, þar sem ákoma köfnunarefnis, sem hefur næringargildi, er yfir hættuálagi muni minnka sem nemur um 30% miðað við stöðuna árið 1990.

II. VIÐAUKI
Efri mörk losunar fyrir SO2, NOx og rokgjörn, lífræn efnasambönd (þúsundir tonna)


SO2
Kílótonn

NOx
Kílótonn
Rokgjörn, lífræn
efnasambönd
Kílótonn
EB 15 3 634 5 923 5 581

Þessi efri mörk losunar eru ákveðin með það að markmiði að uppfylla þau bráðabirgðaumhverfismarkmið sem sett eru fram í 5. gr. fyrir allt Bandalagið fyrir 2010.

III. VIÐAUKI
Aðferðir er varða skrár um losun og losunarspár

Við samantekt skráa um losun og framsetningu losunarspáa skulu aðildarríkin nota aðferðir, sem samþykktar hafa verið með samningnum um loftmengun sem berst langar leiðir milli landa, og skulu þau nota sameiginlegu EMEP/CORINAIR ( * )-leiðbeiningarnar við vinnslu fyrrgreindra skráa og spáa.
( * )     Skrá Umhverfisstofnunar Evrópu um losun í andrúmsloftið.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 304, 19.11.2009, bls. 18, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 61, 19.11.2009, bls. 13.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. EB L 309, 27.11.2001, bls. 22.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. EB C 56 E, 29.2.2000, bls. 34.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. EB C 51, 23.2.2000, bls. 11.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Stjtíð. EB C 317, 6.11.2000, bls. 35.
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Álit Evrópuþingsins frá 15. mars 2000 (Stjtíð. EB C 377, 29.12.2000, bls. 159), sameiginleg afstaða ráðsins frá 7. nóvember 2000 (Stjtíð. EB C 375, 28.12.2000, bls. 1) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 14. mars 2001 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB). Ákvörðun Evrópuþingsins frá 20. september 2001 og ákvörðun ráðsins frá 27. september 2001.
Neðanmálsgrein: 8
(5)    Stjtíð. EB C 138, 17.5.1993, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 9
(6)    Stjtíð. EB L 275, 10.10.1998, bls. 1
Neðanmálsgrein: 10
(7)    Stjtíð. EB L 297, 13.10.1992, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 11
(1)    Stjtíð. EB L 121, 11.5.1999, bls. 13.
Neðanmálsgrein: 12
(1)    Stjtíð. EB L 257, 10.10.1996, bls. 26.
Neðanmálsgrein: 13
(2)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 14
(1)    Stjtíð. EB L 309, 27.11.2001, bls. 1.