Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 549. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Nr. 19/139.

Þskj. 1120  —  549. mál.


Þingsályktun

um skipun stjórnlagaráðs.


    Alþingi ályktar að skipa 25 manna stjórnlagaráð sem fái það verkefni að taka við og fjalla um skýrslu stjórnlaganefndar og gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Bjóða skal þeim sæti í ráðinu sem landskjörstjórn úthlutaði sæti í kosningu til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010, sbr. auglýsingu nr. 929/2010, en að öðrum kosti þeim sem næstir voru í röðinni, sbr. upplýsingar um niðurstöður talningar sem landskjörstjórn hefur birt, en þó þannig að hvort kyn um sig hljóti a.m.k. 10 sæti í ráðinu.
    Stjórnlagaráð taki sérstaklega til umfjöllunar eftirfarandi þætti:
     1.      Undirstöður íslenskrar stjórnskipunar og helstu grunnhugtök hennar.
     2.      Skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og valdmörk þeirra.
     3.      Hlutverk og stöðu forseta lýðveldisins.
     4.      Sjálfstæði dómstóla og eftirlit þeirra með öðrum handhöfum ríkisvalds.
     5.      Ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan.
     6.      Lýðræðislega þátttöku almennings, m.a. um tímasetningu og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, þar á meðal um frumvarp til stjórnarskipunarlaga.
     7.      Framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála.
     8.      Umhverfismál, þar á meðal um eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda.
    Stjórnlagaráð getur ákveðið að taka til umfjöllunar fleiri þætti en getið er að framan.
    Stjórnlagaráð skili tillögum sínum til Alþingis í formi frumvarps til stjórnarskipunarlaga fyrir lok júní 2011. Stjórnlagaráði er heimilt að óska eftir því við forseta Alþingis og forsætisnefnd að starfstími ráðsins verði framlengdur um allt að einn mánuð.
    Stjórnlagaráð kjósi formann úr sínum hópi. Fundir ráðsins verði opnir. Um skipulag og starfshætti stjórnlagaráðs fer að öðru leyti eftir starfsreglum sem stjórnlagaráð setur sér.
    Undirbúningsnefnd sem hefur starfað samkvæmt lögum um stjórnlagaþing, nr. 90/2010, gangi frá skipan ráðsins í samræmi við 1. mgr. og undirbúi fyrsta fund stjórnlagaráðs. Enn fremur sjái undirbúningsnefndin ráðinu fyrir starfsaðstöðu, starfsliði og nauðsynlegri sérfræðiaðstoð.
    Fulltrúar í stjórnlagaráði njóti á starfstíma ráðsins launa sem samsvara þingfararkaupi alþingismanna. Formaður ráðsins njóti samsvarandi launa og forseti Alþingis og beri fjármálalega ábyrgð á störfum ráðsins gagnvart undirbúningsnefnd, sbr. 6. mgr. Kostnaður við störf stjórnlagaráðs greiðist úr ríkissjóði samkvæmt nánari ákvörðun Alþingis.

Samþykkt á Alþingi 24. mars 2011.