Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 337. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Nr. 20/139.

Þskj. 1148  —  337. mál.


Þingsályktun

um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni, að höfðu samráði við Alþingi, að fylgja eftirfarandi meginstefnu í málefnum norðurslóða sem miðar að því að tryggja hagsmuni Íslands með tilliti til áhrifa loftslagsbreytinga, umhverfis- og auðlindamála, siglinga og samfélagsþróunar auk þess að efla tengsl og samstarf við önnur ríki og hagsmunaaðila um málefni svæðisins.
    Stefnan um norðurslóðir feli í sér eftirfarandi tólf meginþætti:
     1.      Að efla og styrkja Norðurskautsráðið sem mikilvægasta samráðsvettvanginn um málefni norðurslóða og vinna að því að alþjóðlegar ákvarðanir um málefni norðurslóða séu teknar þar.
     2.      Að tryggja stöðu Íslands sem strandríkis innan norðurskautssvæðisins hvað varðar áhrif á þróun og alþjóðlegar ákvarðanir um málefni svæðisins á grundvelli lagalegra, efnahagslegra, vistfræðilegra og landfræðilegra raka. Í því efni verði m.a. byggt á þeirri staðreynd að þar sem norðurhluti efnahagslögsögu Íslands er innan norðurskautssvæðisins og nær til Grænlandshafs við Norður-Íshafið á Ísland bæði land og rétt til hafsvæða norðan heimskautsbaugs. Samhliða skal ríkisstjórnin hafa forgöngu um að þróa í samvinnu við viðeigandi stofnanir þau rök sem styðja þetta markmið.
     3.      Að efla skilning á því að norðurslóðir ná bæði yfir norðurskautið og þann hluta af Norður-Atlantshafssvæðinu sem er nátengdur því. Ekki ber að einblína á þrönga landfræðilega skilgreiningu heldur líta á norðurslóðir sem víðtækt svæði í vistfræðilegum, efnahagslegum, pólitískum og öryggistengdum skilningi.
     4.      Að byggja á hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna við úrlausn álitaefna sem upp kunna að koma í tengslum við norðurslóðir. Hafréttarsamningurinn myndar lagalegan ramma um málefni hafsins og hefur m.a. að geyma ákvæði um siglingar, fiskveiðar, nýtingu olíu, gass og annarra auðlinda landgrunnsins, afmörkun hafsvæða, varnir gegn mengun hafsins, hafrannsóknir og lausn deilumála sem gilda um öll hafsvæði, m.a. á norðurslóðum.
     5.      Að styrkja og auka samstarf við Færeyjar og Grænland með það fyrir augum að efla hag og pólitískt vægi landanna þriggja.
     6.      Að styðja réttindi frumbyggja á norðurslóðum í nánu samstarfi við samtök þeirra og styðja beina aðild þeirra að ákvörðunum um málefni svæðisins.
     7.      Að byggja á samningum og stuðla að samstarfi við önnur ríki og hagsmunaaðila um málefni er varða hagsmuni Íslands á norðurslóðum.
     8.      Að vinna með öllum ráðum gegn loftslagsbreytingum af manna völdum og áhrifum þeirra og tryggja þannig bætta velferð íbúa og samfélaga á norðurslóðum. Ísland beiti sér í hvívetna fyrir því að við aukin efnahagsleg umsvif á norðurslóðum verði stuðlað að sjálfbærri nýtingu auðlinda og gætt að ábyrgri umgengni um hin viðkvæmu vistkerfi og verndun lífríkis. Einnig skal stuðlað að varðveislu hinnar sérstöku menningar og lífshátta frumbyggja sem þróast hafa á norðurslóðum.
     9.      Að gæta öryggishagsmuna í víðu samhengi á norðurslóðum á borgaralegum forsendum og vinna gegn hvers konar hervæðingu norðurslóða. Efla ber samstarf Íslands við önnur ríki um viðbúnað til eftirlits, leitar, björgunar og mengunarvarna á norðurslóðum.
     10.      Að byggja upp viðskiptasamstarf ríkja á norðurslóðum og búa þannig í haginn að Íslendingar geti keppt um þau atvinnutækifæri sem verða til í kjölfar aukinna efnahagsumsvifa á norðurslóðum.
     11.      Að auka þekkingu Íslendinga á málefnum norðurslóða og að kynna Ísland erlendis sem vettvang fyrir fundi, ráðstefnur og umræður um norðurslóðir. Vinna ber að því að efla og styrkja miðstöðvar, rannsóknarsetur og menntastofnanir um norðurslóðir á Íslandi í samstarfi við önnur ríki og alþjóðastofnanir.
     12.      Að auka innlent samráð og samstarf um málefni norðurslóða til að tryggja aukna þekkingu á vægi norðurslóða, lýðræðislega umræðu og samstöðu um framkvæmd norðurslóðastefnu stjórnvalda.
    Alþingi felur utanríkisráðherra framkvæmd og þróun stefnunnar í samstarfi við önnur hlutaðeigandi ráðuneyti, sem og sérfræðistofnanir og samtök um málefni Norðurslóða, og jafnframt að hafa samráð við utanríkismálanefnd og umhverfisnefnd Alþingis um útfærslu stefnunnar eftir því sem aðstæður krefjast.

Samþykkt á Alþingi 28. mars 2011.