Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 647. máls.

Þskj. 1149  —  647. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2010 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2010, frá 2. júlí 2010, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/111/EB frá 16. september 2009 um breytingar á tilskipunum 2006/48/EB, 2006/49/EB og 2007/64/EB að því er varðar banka sem tengjast miðlægum stofnunum, tiltekna þætti eigin fjár, stórar áhættuskuldbindingar, fyrirkomulag eftirlits og krísustjórnun.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2010, frá 2. júlí 2010, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/111/EB frá 16. september 2009 um breytingar á tilskipunum 2006/48/EB, 2006/49/EB og 2007/64/EB að því er varðar banka sem tengjast miðlægum stofnunum, tiltekna þætti eigin fjár, stórar áhættuskuldbindingar, fyrirkomulag eftirlits og krísustjórnun.
    Meginmarkmiðin með þeim breytingum sem gerðar eru með tilskipun 2009/111/EB á þeim tilskipunum sem hún breytir er að takmarka það hversu mikla áhættu fyrirtæki geta tekið að því er varðar einn aðila (e. large exposures) og bæta áhættu- og krísustjórnun, sem og að efla eftirlit og samvinnu eftirlitsaðila yfir landamæri.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt drögum að þýðingu á gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/111/EB frá 16. september 2009 um breytingar á tilskipunum 2006/48/EB, 2006/49/EB og 2007/64/EB að því er varðar banka sem tengjast miðlægum stofnunum, tiltekna þætti eigin fjár, stórar áhættuskuldbindingar, fyrirkomulag eftirlits og krísustjórnun.
    Meginmarkmiðin með þeim breytingum sem gerðar eru með tilskipun 2009/111/EB á þeim tilskipunum sem hún breytir er sem áður segir að takmarka það hversu mikla áhættu fyrirtæki geta tekið að því er varðar einn aðila (e. large exposures) og bæta áhættu- og krísustjórnun, sem og að efla eftirlit og samvinnu eftirlitsaðila yfir landamæri.
    Tilskipunin setur m.a. ramma um blendingsfjármálagerninga (e. hybrid capital instruments) og stöðu þeirra við útreikning á eigin fé fjármálafyrirtækja. Jafnframt setur hún ramma um hvað telja megi til eigin fjár fjármálafyrirtækja að teknu tilliti til mismunandi félagaforms þeirra.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Tilskipunin krefst breytinga á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, en frumvarp til breytinga á lögunum verður lagt fram nú á vorþingi. Frumvarp til nýrra laga um greiðsluþjónustu, sem verður lagt fram nú á vorþingi, inniheldur einnig ákvæði sem er ætlað að innleiða ákvæði tilskipunarinnar um breytingar á tilskipun 2007/64/EB. Að auki krefst tilskipunin að líkindum breytinga á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998, en ekki liggur enn þá fyrir hvenær frumvarp til breytinga á þeim lögum verður lagt fram.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 85/2010

frá 2. júlí 2010

um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)          IX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2010 frá 30. apríl 2010 ( 1 ).

2)          Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/111/EB frá 16. september 2009 um breytingar á tilskipunum 2006/48/EB, 2006/49/EB og 2007/64/EB að því er varðar banka sem tengjast miðlægum stofnunum, tiltekna þætti eigin fjár, stórar áhættur, fyrirkomulag eftirlits og áhættustjórnun ( 2 ).

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.

Ákvæði IX. viðauka við samninginn breytist sem hér segir:

     1.      Eftirfarandi undirliður bætist við í 14. lið (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB) og 31. lið (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/49/EB):

         „–     32009 L 0111: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/111/EB frá 16. september 2009 (Stjtíð. ESB L 302, 17.11.2009, bls. 97).“

     2.      Eftirfarandi bætist við í lið 16e (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/64/EB):

        „eins og henni var breytt með:

         –          32009 L 0111: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/111/EB frá 16. september 2009 (Stjtíð. ESB L 302, 17.11.2009, bls. 97).“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2009/111/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi 3. júlí 2010, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ) eða gildistökudag ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 65/2008 frá 6. júní 2008 ( 3 ) eða gildistökudag ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 114/2008 frá 7. nóvember 2008 ( 4 ), hvað sem síðast varð.

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 2. júlí 2010.
Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
Stefán Haukur Jóhannesson
formaður.





Fylgiskjal II.

DRÖG AÐ ÞÝÐINGU

TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2009/111/EB
frá 16. september 2009
um breytingar á tilskipunum 2006/48/EB, 2006/49/EB og 2007/64/EB að því er varðar banka sem tengjast miðlægum stofnunum, tiltekna þætti eigin fjár, stórar áhættuskuldbindingar, fyrirkomulag eftirlits og krísustjórnun
(Texti sem varðar EES)


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 2. mgr. 47. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ),
með hliðsjón af áliti Seðlabanka Evrópu ( 2 ),
að höfðu samráði við svæðanefndina,
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Í samræmi við ályktanir leiðtogaráðsins og Efnahags- og fjármálaráðsins og alþjóðleg framtaksverkefni, s.s. fund samtaka tuttugu fjármálaráðherra og seðlabankastjóra (G20) hinn 2. apríl 2009, felur tilskipun þessi í sér fyrsta mikilvæga skrefið til að vinna bug á þeim ágöllum, sem fjármálakreppan leiddi í ljós, á undan frekari framtaksverkefnum sem framkvæmdastjórnin tilkynnti um og fram koma í orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar frá 4. mars 2009 undir yfirskriftinni „Drifkraftur efnahagsbata Evrópu“.
2)          Skv. 3. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/48/EB frá 14. júní 2006 um stofnun og rekstur lánastofnana ( 4 ) er aðildarríkjum heimilað að innleiða sérstaka varfærniskipan fyrir lánastofnanir, sem eru varanlega tengdar aðalstofnun, frá 15. desember 1977, að því tilskildu að sú skipan hafi verið innleidd í landslög fyrir 15. desember 1979. Þessi tímamörk koma í veg fyrir að aðildarríki, einkum þau sem gerðust aðilar að Evrópusambandinu eftir 1980, innleiði eða viðhaldi sérstakri skipan af þessu tagi að því er varðar sambærilega tengdar lánastofnanir sem var komið á fót á þeirra yfirráðasvæðum. Því er rétt að afnema tímamörkin, sem sett eru fram í 3. gr. þeirrar tilskipunar, til að tryggja jöfn samkeppnisskilyrði lánastofnana innan aðildarríkjanna. Evrópska bankaeftirlitsnefndin skal leggja fram leiðbeiningar til þess að bæta samleitni eftirlitsaðferða hvað þetta varðar.
3)          Blandaðir fjármálagerningar eru mikilvægur þáttur í stýringu á bindingu fjármagns vegna starfsemi lánastofnana. Með þessum gerningum getur fjármagnsuppbygging lánastofnana orðið fjölbreytilegri og þær ná til breiðs hóps fjárfesta. Hinn 28. október 1998 samþykkti Basel-nefndin um bankaeftirlit samning um hæfisviðmiðanir og takmörkun á hlut tiltekinna blandaðra fjármálagerninga í upphaflegu eigin fé lánastofnana.
4)          Þess vegna er mikilvægt að mæla fyrir um viðmiðanir varðandi þá fjármálagerninga sem eru fullnægjandi fyrir upphaflegt eigið fé lánastofnana og aðlaga ákvæði tilskipunar 2006/48/ EB að þessum samningi. Breytingarnar á XII. viðauka við tilskipun 2006/48/EB eru bein afleiðing þess að þessar viðmiðanir voru settar. Upphaflegt eigið fé, sem um getur í a-lið 57. gr. tilskipunar 2006/48/EB, skal fela í sér alla gerninga sem samkvæmt landslögum teljast eigið fé, eru jafngildir almennum hlutum við félagsslit og bera tap að öllu leyti í sama mæli og almennir hlutir á grundvelli áframhaldandi rekstrarhæfis. Það skal vera mögulegt að þessir gerningar feli í sér gerninga sem veita forgangsarðgreiðslu á óuppsöfnuðum grunni, að því tilskildu að þeir falli undir 22. gr. tilskipunar ráðsins 86/635/ESB frá 8. desember 1986 um ársreikninga og samstæðureikninga banka og annarra fjármálastofnana ( 1 ), þeir séu jafngildir almennum hlutum við félagsslit og beri tap að fullu á grundvelli áframhaldandi rekstrarhæfis í sama mæli og almennir hlutir. Upphaflegt eigið fé, sem um getur í a-lið 57. gr. tilskipunar 2006/48/EB, skal einnig fela í sér alla aðra gerninga, sem samkvæmt lögboðnum skilmálum lánastofnunar með tilliti til sérstaks stjórnskipulags gagnkvæmra félaga, samvinnufélaga og svipaðra stofnana, eru álitin jafngild almennum hlutum með tilliti til eiginleika eigin fjár þeirra, sérstaklega að því er varðar að bera tap. Gerningar, sem ekki eru jafngildir almennum hlutum við félagsslit eða bera ekki tap í sama mæli og almennir hlutir á grundvelli áframhaldandi rekstrarhæfis, skulu falla undir flokk blandaðra gerninga sem um getur í ca-lið 57. gr. tilskipunar 2006/48/EB.
5)          Í því skyni að komast hjá röskun á mörkuðum og tryggja samfelldni á öllum stigum eigin fjár er rétt að kveða á um sérstakt bráðabirgðafyrirkomulag um nýja skipan fjármálagerninga. Þegar efnahagsbati hefur verið tryggður skal auka gæði upphaflegs eigin fjár enn frekar. Framkvæmdastjórnin skal eigi síðar en 31. desember 2011 leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið ásamt viðeigandi tillögum að því er þetta varðar.
6)          Nauðsynlegt er, til að styrkja ramma krísustjórnunar Bandalagsins, að lögbær yfirvöld samræmi aðgerðir sínar við önnur lögbær yfirvöld, og, eftir því sem við á, seðlabanka, á skilvirkan hátt, þ.m.t. það markmið að draga úr kerfisáhættu. Til þess að efla skilvirkni varfærnieftirlits bankasamstæðu á samstæðugrundvelli skal eftirlitsstarfsemi samræmd með skilvirkari hætti. Þess vegna skulu stofnuð samtök eftirlitsaðila. Stofnun samtaka eftirlitsaðila skal ekki hafa áhrif á réttindi og skyldur lögbærra yfirvalda samkvæmt tilskipun 2006/ 48/EB. Stofnun þeirra skal stuðla að enn frekari samvinnu og þar með því að lögbær yfirvöld nái samkomulagi um mikilvæg eftirlitsverkefni. Samtök eftirlitsaðila skulu auðvelda framkvæmd viðvarandi eftirlits og neyðartilvika. Eftirlitsaðili á samstæðugrundvelli skal í samvinnu við aðra eftirlitsaðila samtakanna vera í stakk búinn til að skipuleggja fundi eða starfsemi er ekki varða almenna hagsmuni og skal því geta hagað þátttöku eftir því sem við á.
7)          Umboð lögbærra yfirvalda skal miðast við tilhlýðilegt tillit til hagsmuna Bandalagsins. Lögbær yfirvöld skulu því kanna með viðeigandi hætti áhrif ákvarðana sinna á stöðugleika fjármálakerfis allra annarra aðildarríkja sem hlut eiga að máli. Með fyrirvara um landslög skal sá skilningur lagður í þessa meginreglu að markmiðið með henni sé, í víðum skilningi, að stuðla að fjárhagslegum stöðugleika innan Evrópusambandsins og að hún bindi ekki lögbær yfirvöld lagalega við tiltekna niðurstöðu.
8)          Lögbær yfirvöld skulu geta tekið þátt í nefndum, sem stofnaðar eru til eftirlits með lánastofnunum, þegar móðurfélag þeirra er í þriðja landi. Evrópska bankaeftirlitsnefndin (CEBS) skal, ef nauðsyn krefur, leggja fram leiðbeiningar og tilmæli til þess að auka samleitni eftirlitsaðferða samkvæmt tilskipun 2006/48/EB. Til að koma í veg fyrir ósamræmi milli reglna og að komist sé hjá reglum, sem gæti átt sér stað vegna ólíkra aðferða og reglna, sem hin ýmsu samtök beita, og mismunandi ákvörðunum aðildarríkja, skal evrópska bankaeftirlitsnefndin útbúa leiðbeiningar um aðferðir og reglur sem samtökin þurfa að fara eftir.
9)          Ákvæði 3. mgr. 129. gr. tilskipunar 2006/48/ EB skulu ekki breyta dreifingu ábyrgðar milli lögbærra eftirlitsyfirvalda á grundvelli samstæðu, samstæðuhluta eða einstakra eininga.
10)          Skortur á miðlun upplýsinga milli lögbærra heima- og gistiyfirvalda getur skaðað fjárhagslegan stöðugleika í gistiaðildarríki. Réttur eftirlitsaðila í gistiríki á upplýsingum, sérstaklega að því er varðar hættuástand þar sem mikilvæg útibú koma við sögu, skal því efldur. Í þeim tilgangi skal skilgreina hugtakið mikilvæg útibú. Lögbær yfirvöld skulu senda upplýsingar sem eru nauðsynlegar til þess að vinna verkefni seðlabanka og fjármálaráðuneyta að því er varðar fjármálakreppur og til að draga úr kerfisáhættu.
11)          Þróa skal núverandi fyrirkomulag eftirlits enn frekar. Stofnun samtaka eftirlitsaðila er mikilvægt skref fram á við til hagræðingar í samvinnu og samleitni eftirlits innan Evrópusambandsins.
12)          Samstarf yfirvalda, sem hafa með höndum eftirlit með samstæðum og eignarhaldsfélögum og dótturfélögum þeirra og útibúum, með tilstyrk samtaka eftirlitsaðila, er eitt stig í þróun í átt til frekari samleitni reglusetningar og samþættingar eftirlits. Grundvallaratriði er að traust ríki milli eftirlitsaðila og að þeir virði ábyrgðarsvið hver annars. Komi upp ágreiningur milli aðila innan samtaka í tengslum við þessi ólíku ábyrgðarsvið er nauðsynlegt að til sé kerfi þar sem fram fer hlutlaus og óháð ráðgjöf ásamt sáttaumleitunum og úrlausn ágreiningsefna á vettvangi Bandalagsins.
13)          Kreppan á alþjóðlegum fjármálamörkuðum hefur sýnt fram á að rétt sé að rannsaka frekar þörf á umbótum á reglusetningar- og eftirlitslíkani fyrir fjármálageira Evrópusambandsins.
14)          Framkvæmdastjórnin tilkynnti í orðsendingu sinni frá 29. október 2008, sem ber yfirskriftina „Frá fjármálakreppu til efnahagsbata: Evrópskur aðgerðarammi“, að hún hefði komið á fót sérfræðingahópi undir formennsku Jacques de Larosière (de Larosière-hópurinn) til þess að taka til athugunar skipulag evrópskra fjármálastofnana og tryggja þar með traust varfærnieftirlit, skilvirkni markaða og betra Evrópusamstarf um yfirlit yfir fjárhagslegan stöðugleika, viðvörunarkerfi og krísustjórnun, þ.m.t. áhættustýring yfir landamæri eða þvert á atvinnugreinar, og til að skoða samstarf milli Evrópusambandsins og annarra stórra lögsagnarumdæma ef það mætti verða til að tryggja fjárhagslegan stöðugleika á heimsvísu.
15)          Til að ná fram nauðsynlegri samleitni og samstarfi í eftirliti á vettvangi Evrópusambandsins og til að auka stöðugleika fjármálakerfisins er enn þörf á gagngerum umbótum á reglusetningar- og eftirlitslíkani fyrir fjármálageira Evrópusambandsins og skal framkvæmdastjórnin leggja þær fram eins fljótt og kostur er, að teknu tilhlýðilegu tilliti til niðurstaðna sem de Larosière-hópurinn kynnti 25. febrúar 2009.
16)          Framkvæmdastjórnin skal eigi síðar en 31. desember 2009 leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið og leggja fram frumvarp að þeim lögum sem nauðsynleg eru til að ráða bót á annmörkum sem komið hafa í ljós á ákvæðum sem varða frekari samþættingu eftirlits, að teknu tilliti til þess að eftirlitskerfi á vettvangi Evrópusambandsins skal hafa fengið stærra hlutverk eigi síðar en 31. desember 2011.
17)          Sé fyrirgreiðsla veitt í miklum mæli til eins viðskiptavinar eða hóps innbyrðis tengdra viðskiptavina getur það leitt til óviðunandi hættu á tapi. Það má telja að þess háttar staða dragi úr gjaldhæfi lánastofnunarinnar. Eftirlit með og stýring á stórum áhættuskuldbindingum lánastofnunar skal því vera óaðskiljanlegur hluti eftirlits.
18)          Núverandi regluverk fyrir stórar áhættuskuldbindingar nær aftur til 1992. Því skal endurskoða gildandi kröfur að því er varðar stórar áhættuskuldbindingar sem settar eru fram í 2006/48/EB og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/49/EB frá 14. júní 2006 um eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana ( 1 ).
19)          Þar eð lánastofnanir á innri markaðnum eru í beinni samkeppni skal samræma nauðsynlegar reglur um eftirlit með og stjórnun á stórum áhættuskuldbindingum lánastofnana enn frekar. Til að draga úr stjórnsýsluálagi á lánastofnanir skal fækka möguleikum aðildarríkja að því er varðar stórar áhættuskuldbindingar.
20)          Þegar ákvarðað er hvort um er að ræða samstæðu tengdra viðskiptavina og áhættuskuldbindingar þeirra, sem eru taldar mynda sameiginlega áhættu, er einnig mikilvægt að taka tillit til áhættu sem stafar af sama uppruna umtalsverðrar fjármögnunar frá lánastofnuninni eða fjárfestingarfyrirtækinu sjálfu, fjármálasamstæðu þess eða aðilum tengdum henni.
21)          Þótt æskilegt sé að miða útreikninga á virði áhættu við það virði sem er tilgreint sem lágmarkseiginfjárkröfur er rétt að innleiða reglur um eftirlit með stórum áhættuskuldbindingum sem eru án áhættuvogar eða áhættustigs. Enn fremur voru aðferðirnar, sem beitt var við að draga úr útlánaáhættu í fyrirkomulagi gjaldþols, byggðar á þeim forsendum að útlánaáhættu væri vel dreift. Ef um er að ræða stórar áhættuskuldbindingar með samþjöppun áhættu gagnvart einum aðila, er útlánaáhættu ekki vel dreift. Áhrif þess konar aðferða skulu því háðar varfærnismati. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að greiða fyrir skilvirkri endurupptöku útlánavarnar að því er varðar stórar áhættuskuldbindingar.
22)          Þar eð tap af áhættukröfu gagnvart lánastofnun eða fjárfestingarfyrirtæki getur verið jafn mikið og tap á hverri annarri áhættukröfu skal fara með þess háttar skuldbindingarog greina frá þeim eins og öllum öðrum áhættukröfum. Önnur magntakmörkun hefur þó verið tekin upp til þess að draga úr óhóflegum áhrifum þessarar aðferðar á litlar stofnanir. Auk þess eru áhættuskuldbindingar til mjög skamms tíma í tengslum við peningasendingar, þ.m.t. framkvæmd greiðsluþjónustu, greiðslujöfnunar og uppgjörs og vörsluþjónustu við viðskiptavini, undanþegnar því að stuðla að snurðulausri starfsemi fjármálamarkaða og tengds grunnvirkis. Þessi þjónustustarfsemi tekur t.d. til framkvæmdar greiðslujöfnunar og uppgjörs í handbæru fé og sambærilegrar starfsemi sem er ætlað að greiða fyrir uppgjöri. Tengdar áhættuskuldbindingar geta t.d. verið skuldbindingar sem eru ekki fyrirsjáanlegar og lánastofnun hefur því ekki fulla stjórn á þeim, m.a. stöður á millibankareikningum vegna greiðslna viðskiptavina, þ.m.t. tekjueða gjaldfærðar þóknanir, vextir og aðrar greiðslur fyrir þjónustu við viðskiptavini, sem og settar eða teknar tryggingar.
23)          Þau ákvæði sem tengjast utanaðkomandi lánshæfismatsstofnunum (ECAI) samkvæmt tilskipun 2006/48/EB skulu vera í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1060/2009 frá 16. september 2009 um lánshæfismatsstofnanir ( 1 ). Evrópska bankaeftirlitsnefndin skal einkum endurskoða leiðbeiningar sínar um viðurkenningu á utanaðkomandi lánshæfismatsstofnunum til að koma í veg fyrir tvíverknað og draga úr álagi í viðurkenningarferlinu þegar utanaðkomandi lánshæfismatsstofnun er skráð sem lánshæfismatsstofnun (CRA) á vettvangi Bandalagsins.
24)          Mikilvægt er að lagfært verði ósamræmi milli hagsmuna fyrirtækja, sem „endurpakka“ útlánum í framseljanleg verðbréf og aðra fjármálagerninga (útgefendur (originators) eða umsýsluaðilar (sponsors)), og fyrirtækja, sem fjárfesta í þessum verðbréfum eða gerningum (fjárfestar). Einnig er mikilvægt að samræma hagsmuni útgefanda eða umsýsluaðila og hagsmuni fjárfesta. Til að ná þessu fram skal útgefandi eða umsýsluaðili halda eftir umtalsverðri hlutdeild í þeim eignum sem liggja til grundvallar. Því er mikilvægt fyrir útgefanda eða umsýsluaðila að halda eftir hluta af áhættu vegna viðkomandi útlána. Almennt skal því ekki byggja verðbréfunarviðskipti upp þannig að farið sé á svig við kröfuna um að útgefandi eða umsýsluaðili haldi eftir hluta af áhættunni, einkum með einhvers konar þóknunar- og/eða yfirverðsskipulagi. Það, að fá þannig hald á eign, skal gilda um öll tilvik þar sem efnahagslegt inntak verðbréfunar í samræmi við skilgreiningu tilskipunar 2006/48/EB á við, án tillits til rekstrarforms að lögum eða þeirra gerninga sem eru notaðir til að öðlast þetta efnahagslega inntak. Þegar útlánaáhætta flyst með verðbréfun skulu fjárfestar því aðeins taka ákvarðanir að þeir hafi gert ítarlega áreiðanleikakönnun, en til þess þurfa þeir fullnægjandi upplýsingar um verðbréfanirnar.
25)          Ráðstafanir vegna hugsanlegs mismunar á þessum samsettu gerningum skulu vera samræmdar og samfelldar í allri viðeigandi reglusetningu fyrir fjármálageirann. Framkvæmdastjórnin skal leggja fram viðeigandi frumvörp að nýrri löggjöf til að tryggja þess háttar samræmi og samfelldni. Ekki skal vera unnt að beita kröfunni um hald í eignum með mismunandi hætti. Fyrir hverja verðbréfun nægir að krafan taki aðeins til útgáfulánastofnunar, umsýslulánastofnunar eða upphaflegs lánveitanda. Eins skal aðeins beita kröfunum um hald á eignum við verðbréfun, sem fellur undir fjárfestinguna, ef önnur verðbréfun liggur til grundvallar í verðbréfunarviðskiptunum. Keyptar viðskiptakröfur skulu ekki falla undir haldkröfur ef þær eru vegna starfsemi fyrirtækis þar sem þær eru yfirfærðar eða seldar með afslætti til þess að fjármagna þess háttar starfsemi. Lögbær yfirvöld skulu beita áhættuvæginu þegar ekki er farið að kröfum áreiðanleikakönnunar og áhættustjórnunar í tengslum við verðbréfun og vikið umtalsvert frá stefnum og málsmeðferð þegar það skiptir máli við greiningu á þeim áhættuþáttum sem liggja til grundvallar.
26)          Í yfirlýsingu sinni um eflingu fjármálakerfisins frá 2. apríl 2009 fóru forystumenn G20-hópsins þess á leit við Basel-nefndina um bankaeftirlit og yfirvöld að þau íhuguðu hvort innleiða ætti kröfur um áreiðanleikakönnun og hversu stórum hluta áhættu útgefandi skal halda eftir við verðbréfun eigi síðar en 2010. Með tilliti til þessarar alþjóðlegu þróunar og til að draga sem mest úr kerfisáhættu vegna verðbréfunarmarkaða skal framkvæmdastjórnin, eigi síðar en fyrir lok 2009 og að höfðu samráði við evrópsku bankaeftirlitsnefndina, ákvarða hvort leggja eigi til að kröfur um eignarhlut skuli auknar og hvort aðferðir við útreikninga á eignarhlutakröfum nái því markmiði að samræma betur hagsmuni útgáfulánastofnunar eða umsýslulánastofnunar og fjárfesta.
27)          Áreiðanleikakönnun skal notuð til þess að meta áhættuþætti vegna verðbréfaðra skuldbindinga með viðeigandi hætti, bæði að því er varðar viðskipti í veltubók og utan hennar. Þar að auki þurfa kröfurnar um áreiðanleikakönnun að vera hlutfallslegar. Aðferðir við áreiðanleikakönnun skulu stuðla að auknu trausti milli útgáfulánastofnunar, umsýslulánastofnunar og fjárfesta. Því er æskilegt að birta upplýsingar í tengslum við aðferðir áreiðanleikakönnunar á tilhlýðilegan hátt.
28)          Aðildarríki skulu sjá til þess að lögbær yfirvöld hafi nægilegan mannafla og úrræði til að uppfylla eftirlitsskyldur sínar samkvæmt tilskipun 2006/48/EB og að það starfsfólk sem tekur þátt í eftirliti með lánastofnunum hafi viðeigandi þekkingu og reynslu til að gegna þeim störfum sem því er falið í samræmi við þá tilskipun.
29)          Aðlaga skal III. viðauka við tilskipun 2006/ 48/EB til þess að skýra tiltekin ákvæði með það í huga að bæta samleitni eftirlitsaðferða.
30)          Nýleg markaðsþróun hefur sýnt fram á að stýring lausafjáráhættu er lykilþáttur í styrkleika lánastofnana og útibúa þeirra. Viðmiðanirnar, sem settar eru fram í V. og XI. viðauka við tilskipun 2006/48/EB, skulu efldar í því skyni að samræma þau ákvæði starfinu sem evrópska bankaeftirlitsnefndin og Basel-nefndin um bankaeftirlit inna af hendi.
31)          Samþykkja ber nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar á tilskipun 2006/48/EB í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 1 ).
32)          Framkvæmdastjórninni skal sérstaklega veitt heimild til að breyta III. viðauka tilskipunar 2006/48/EB svo að tekið sé tillit til þróunar fjármálamarkaða eða reikningsskilastaðla eða til krafna í lögum Bandalagsins eða til samleitni eftirlitsaðferða. Þar eð þessar ráðstafanir eru almenns eðlis og þeim er ætlað að breyta veigalitlum þáttum í tilskipun 2006/48/EB skulu þær samþykktar í samræmi við reglunefndarmeðferð með grannskoðun [áður stjórnsýslumálsmeðferð með eftirliti] sem kveðið er á um í a-lið 5. gr. ákvörðunar 1999/468/EB.
33)          Í fjármálakreppunni kom í ljós þörf fyrir betri greiningu og viðbrögð við vandamálum sem varða þjóðhagslegan stöðugleika og liggja á mörkum þjóðhagslegrar stefnu og reglusetningar um fjármálakerfið. Í þessu felst þörf á rannsókn á: ráðstöfunum til að draga úr hagsveiflum, þ.m.t. þörf lánastofnana á að mynda sveiflujöfnunarsjóði (counter-cyclical buffers) þegar vel árar, sem hægt væri að nýta í niðursveiflu og gæti falið í sér færi á að byggja upp viðbótarvarasjóði, „kvika afskriftareikninga“ (dynamic provisioning) og til að draga úr varasjóðum á erfiðleikatímum og tryggja þannig viðeigandi aðgengi að fjármagni í hagsveiflunni, grunnforsendum útreikninga á eiginfjárkröfum í tilskipun 2006/48/EB, viðbótarráðstöfunum við áhættutengdar kröfur um að lánastofnanir aðstoði við að halda vogun (leverage) innan bankakerfisins í skefjum.
34)          Framkvæmdastjórnin skal því, eigi síðar en 31. desember 2009, endurskoða tilskipun 2006/48/ EB í heild til að kanna þessi mál og leggja skýrslu og viðeigandi tillögur fyrir Evrópuþingið og ráðið.
35)          Til þess að tryggja fjárhagslegan stöðugleika skal framkvæmdastjórnin endurskoða og leggja fram skýrslu um ráðstafanir til að auka gagnsæi viðskipta utan skipulagðra verðbréfamarkaða og draga úr mótaðilaáhættu og almennt draga úr heildaráhættu, s.s. með greiðslujöfnun skuldatrygginga með aðstoð milligönguaðila. Hvatt skal til stofnsetningar og þróunar milligönguaðila innan Bandalagsins, sem falla undir strangar rekstrar- og varfærnikröfur og virkt eftirlit. Framkvæmdastjórnin skal leggja fyrir Evrópuþingið og ráðið skýrslu auk viðeigandi tillagna, með tilliti til hliðstæðra framtaksverkefna á heimsvísu.
36)          Framkvæmdastjórnin skal endurskoða og leggja fram skýrslu um beitingu 4. mgr. 113. gr. tilskipunar 2006/48/EB, þ.m.t. hvort undanþágur skulu vera samkvæmt landsbundnu ákvörðunarvaldi. Framkvæmdastjórnin skal leggja þá skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið, ásamt tillögum, eftir því sem við á. Undanþágur og valkostir skulu afnumin þegar ekki er sýnt fram á að þörf sé á að viðhalda þeim í því skyni að ná koma á einum, samræmdum reglum í öllu Bandalaginu.
37)          Taka skal sérstaka eiginleika smálánastarfsemi til greina við áhættumatið og hvatt skal til þróunar smálánastarfsemi. Enn fremur skal, vegna vanþróunar smálánastarfseminnar, hvetja til þróunar fullnægjandi matskerfa, þ.m.t. þróun hefðbundinna matskerfa sem aðlöguð eru að áhættu í smálánastarfsemi. Aðildarríki skulu leitast við að tryggja að varfærnisreglur og eftirlit með smálánastarfsemi á landsvísu sé í réttu hlutfalli við viðfangsefnið.
38)          Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiðum þessarar tilskipunar, þ.e. innleiðingu reglna um stofnun og rekstur lánastofnana og varfærnieftirlit með þeim, vegna þess að það krefst samræmingar á fjölda ólíkra reglna í réttarkerfum mismunandi aðildarríkja, og þeim verður því betur náð á vettvangi Bandalagsins, er Bandalaginu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins ogkveðið er á um í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná megi þessum markmiðum.
39)          Í samræmi við 34. lið samstarfssamningsins milli stofnana um betri lagasetningu ( 1 ) eru aðildarríkin hvött til að taka saman, fyrir sig og í þágu Bandalagsins, eigin töflur, sem sýna, eftir því sem við verður komið, samsvörun milli þessarar tilskipunar og ráðstafananna til að lögleiða hana, og að birta þær.
40)          Því ber að breyta tilskipunum 2006/48/EB, 2006/49/EB og 2007/64/EB ( 2 ) til samræmis við það.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.
Breytingar á tilskipun 2006/48/EB

Eftirfarandi breytingar eru hér með gerðar á tilskipun 2006/48/EB:
1.    Ákvæðum 1. mgr. 3. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    í stað inngangshlutans í fyrstu undirgrein komi eftirfarandi:
        „1. Heimilt er að undanþiggja eina eða fleiri lánastofnanir, sem eru innan eins aðildarríkis og eru varanlega tengdar aðalstofnun sem hefur eftirlit með þeim og er stofnsett í þessu sama aðildarríki, skilyrðum þeim er sett eru fram í 7. gr., og 1. mgr. 11. gr. ef innlend lög kveða á um það að:“
    b)    annar og þriðji undirliður eru felldir brott,
2.    Ákvæðum 4. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    eftirfarandi komi í stað 6. liðar:
        „6)    „stofnanir“: að því er varðar 2., 3. og 5. þátt í V. bálki 2. kafla eru stofnanir eins og þær eru skilgreindar í c-lið 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 2006/49/EB,“
    b)    eftirfarandi komi í stað b-liðar 45. liðar:
        „b)    tveir eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar þar sem enginn einn hefur yfirráð yfir hinum, eins og lýst er í a-lið, en eru taldir mynda eina áhættu vegna þess að þeir eru svo fjárhagslega tengdir að líkur eru á að ef einn þeirra lendir í fjárhagserfiðleikum, einkum vegna erfiðleika við fjármögnun eða endurgreiðslu, eigi hinn aðilinn eða allir hinir aðilarnir eftir að lenda í fjármögnunar- eða greiðsluerfiðleikum.“
    c)    eftirfarandi liður bætist við:
        „48)    „eftirlitsaðili á samstæðugrundvelli“: lögbært yfirvald sem ber ábyrgð á framkvæmd eftirlits á samstæðugrundvelli með móðurlánastofnunum innan Evrópusambandsins og lánastofnunum sem eru undir yfirráðum móðureignarhaldsfélags á fjármálasviði innan Evrópusambandsins.“
3.    eftirfarandi málsgrein bætist við í 40 .gr.:
    „3. Lögbær yfirvöld í einu aðildarríki skulu því, við almenn skyldustörf sín, taka áhrif ákvarðana sinna á stöðugleika fjármálakerfis allra annarra hlutaðeigandi aðildarríkja til athugunar með viðeigandi hætti, einkum í neyðarástandi, að teknu tilliti til aðgengilegra upplýsinga á tilteknum tíma.“
4.    Eftirfarandi greinar bætist við:
     „42. gr. a
    1. Lögbær yfirvöld í heimaaðildarríki geta lagt fram beiðni hjá eftirlitsaðila á samstæðugrundvelli, þegar ákvæði 1. mgr. 129. gr. gilda, eða hjá lögbærum yfirvöldum heimaaðildarríkis um að útibú fjármálastofnunar skuli teljast mikilvægt.
    Í þeirri beiðni skulu koma fram ástæður þess að telja skuli útibúið mikilvægt með sérstöku tilliti til eftirfarandi:
    a)    hvort markaðshlutdeild útibús lánastofnunar að því er varðar innlán er meiri en 2% í gistiaðildarríki,
    b)    líkleg áhrif tímabundinnar stöðvunar eða lokunar á starfsemi lánastofnunar á lausafjárstöðu og greiðslu- og uppgjörskerfi í gistiaðildarríkinu og
    c)    stærð og mikilvægi útibúsins með tilliti til fjölda viðskiptavina innan bankaeða fjármálakerfis gistiaðildarríkis.
    Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis og gistiaðildarríkis og eftirlitsaðili á samstæðugrundvelli, þegar ákvæði 1. mgr. 129. gr. eiga við, skulu gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að ná sameiginlegri niðurstöðu um það hvort útibú teljist mikilvægt.
    Ef ekki næst sameiginleg niðurstaða innan tveggja mánaða frá móttöku beiðni samkvæmt fyrsta undirlið skulu lögbær yfirvöld gistiaðildarríkisins taka eigin ákvörðun innan næstu tveggja mánaða um það hvort útibú skuli teljast mikilvægt. Við ákvörðunartökuna skulu lögbær yfirvöld gistiaðildarríkisins taka tillit til allra skoðana og fyrirvara eftirlitsaðila á samstæðugrundvelli eða lögbærra yfirvalda heimaaðildarríkis.
    Þær ákvarðanir sem um getur í þriðja og fjórða undirlið skulu settar fram í skjali ásamt fullnægjandi rökstuðningi, sendar viðkomandi lögbærum yfirvöldum, viðurkenndar sem ákvarðandi og lögbær yfirvöld hlutaðeigandi aðildarríkja skulu beita þeim.
    Það, að útibú sé tilgreint sem mikilvægt, skal ekki hafa áhrif á réttindi og skyldur lögbærra yfirvalda samkvæmt þessari tilskipun.
    2. Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis skulu láta lögbærum yfirvöldum gistiaðildarríkis, þar sem mikilvægt útibú er stofnsett, í té þær upplýsingar sem um getur í c- og d-lið 1. mgr. 132. gr. og leysa af hendi þau verkefni sem um getur í c-lið 1. mgr. 129. gr. í samvinnu við lögbær yfirvöld gistiaðildarríkisins.
    Ef lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis verða vör við neyðarástand innan lánastofnunar, s.s. um getur í 1. mgr. 130. gr., skulu þau, eins fljótt og við verður komið, vara þau yfirvöld við sem um getur í 4. mgr. 49. gr. og í 50. gr.
    3. Þegar 131. gr. a gildir ekki skulu lögbær yfirvöld, er hafa eftirlit með lánastofnun, sem er með mikilvæg útibú í öðrum aðildarríkjum, koma á fót og veita formennsku nefnd eftirlitsaðila til þess að stuðla að samvinnu skv. 2. mgr. þessarar greinar og 42. gr. Stofnun og starfsemi nefndarinnar skal byggjast á skriflegum samþykktum sem, að viðhöfðu samráði við hlutaðeigandi lögbær yfirvöld, eru ákvarðaðar af lögbæru yfirvaldi heimaaðildarríkis. Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis skulu ákveða hvaða lögbæru yfirvöld taka þátt í fundi eða starfsemi samtaka.
    Í ákvörðun lögbærs yfirvalds heimaaðildarríkis skal tekið tillit til mikilvægis þeirrar eftirlitsstarfsemi sem fyrirhuguð er eða samræma skal að því er varðar þau yfirvöld, einkum hugsanleg áhrif á stöðugleika fjármálakerfis í hlutaðeigandi aðildarríki, sem um getur í 3. mgr. 40. gr., og þær skuldbindingar sem um getur í 2. mgr. þessarar greinar.
    Lögbært yfirvald heimaaðildarríkis skal tilkynna öllum aðilum samtakanna fyrirfram um skipulag þess háttar funda, meginumræðuefni þeirra og þá starfsemi sem taka skal til athugunar. Lögbært yfirvald heimaaðildarríkis skal einnig tilkynna öllum aðilum samtakanna, tímanlega, um aðgerðir, sem framkvæmdar eru á þessum fundum, eða ráðstafanir sem gerðar eru.
     42. gr. b
    1. Lögbær yfirvöld skulu við almenn skyldustörf sín taka tillit til samleitni að því er varðar eftirlitstæki og framkvæmd eftirlits við beitingu laga og stjórnsýslufyrirmæla sem samþykkt eru samkvæmt þessari tilskipun. Í þeim tilgangi skulu aðildarríkin tryggja:
    a)    að lögbær yfirvöld taki þátt í starfsemi evrópsku bankaeftirlitsnefndarinnar,
    b)    að lögbær yfirvöld fylgi leiðbeiningum, tilmælum, stöðlum og öðrum ráðstöfunum sem evrópska bankaeftirlitsnefndin hefur samþykkt og skulu tilgreindar ástæður ef þau gera það ekki,
    c)    að landsbundnar heimildir, sem veittar eru lögbærum yfirvöldum, hamli þeim ekki þeim við skyldustörf þeirra sem aðilum að evrópsku bankaeftirlitsnefndinni eða samkvæmt tilskipun þessari.
    2. Evrópska bankaeftirlitsnefndin skal gefa Evrópuþinginu, ráðinu og framkvæmdastjórninni skýrslu um framþróun í samleitni eftirlits árlega frá og með 1. janúar 2011.“
5.    Ákvæðum 49. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    í stað a-liðar 1. liðar komi eftirfarandi:
        „a)    seðlabönkum innan seðlabankakerfis Evrópu og öðrum stofnunum sem gegna svipuðu hlutverki á sviði peningamála þegar þessar upplýsingar eiga við um framkvæmd lögboðinna verkefna þeirra, þ.m.t. framkvæmd peningamálastefnu og tengdra lausafjárráðstafana, eftirlit með greiðslum, greiðslujöfnun og uppgjörskerfum, og að standa vörð um fjármálakerfið“,
    b)    eftirfarandi málsgrein bætist við:
        „Ef um neyðarástand er að ræða, eins og um getur í 1. mgr. 130. gr., skulu aðildarríki heimila lögbærum yfirvöldum að veita seðlabönkum innan seðlabankakerfis Evrópu upplýsingar ef þær eru viðeigandi að því er varðar framkvæmd lögboðinna verkefna þeirra, þ.m.t. framkvæmd peningamálastefnu og tengdra lausafjárráðstafana, eftirlit með greiðslum, greiðslujöfnun og uppgjörskerfum, og að standa vörð um stöðugleika fjármálakerfisins.“
6.    Eftirfarandi málsgrein bætist við í 50. gr.:
    „Ef um neyðarástand er að ræða, eins og um getur í 1. mgr. 130. gr., skulu aðildarríki heimila lögbærum yfirvöldum að gefa þeim stofnunum málsgrein þessarar greinar viðeigandi upplýsingar í aðildarríkjum.“
7.    Ákvæðum 57. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    í stað a-liðar komi eftirfarandi:
        „a)    hlutafé í skilningi 22. gr. tilskipunar 86/635/EBE að því marki sem það hefur verið greitt að fullu, að viðbættum tengdum yfirverðsreikningi hlutafjár, ber tap að fullu við áframhaldandi rekstrarhæfi og er á eftir öllum öðrum kröfum í kröfuröð ef kemur til gjaldþrots eða félagsslita,“
    b)    eftirfarandi liður bætist við:
        „ca)    aðrir gerningar en þeir sem um getur í a- lið og sem uppfylla skilyrðin sem sett eru fram í a-, c-, d- og e-lið 2. mgr. 63. gr. og 63. gr. a,“
    c)    í stað 3. mgr. komi eftirfarandi:
        „Að því er varðar b-lið, skulu aðildarríki heimila að bráðabirgðahagnaður eða hagnaður við lok árs sé talinn með áður en formleg ákvörðun hefur verið tekin, svo fremi endurskoðendur reikningsskilanna hafi sannreynt þann hagnað og lögbær yfirvöld telji fullsannað að fjárhæð hans hafi verið metin í samræmi við þær meginreglur sem fram koma í tilskipun 86/635/EBE og að hún feli ekki í sér fyrirsjáanleg útgjöld eða arðgreiðslur.“
8.    eftirfarandi komi í stað fyrstu málsgreinar 61. gr.:
    „Hugtakið eigið fé, eins og það er skilgreint í a- til h-lið 57. gr., felur í sér hámarksfjölda liða og hámarksfjárhæðir. Aðildarríkjum er heimilt að ákvarða um beitingu þessara liða og um frádrátt annarra liða en þeirra sem taldir eru upp í i- til r- lið 57. gr.“
9.    eftirfarandi undirgrein bætist við 2. mgr. 63. gr.:
    „Gerningar, sem um getur í ca-lið 57. gr., skulu vera í samræmi við skilyrðin sem sett eru fram í a-, c-, d-, og e-lið þessarar greinar.“
10.    eftirfarandi grein bætist við:
     „63. gr. a
    1. Gerningar sem um getur í ca-lið 57. gr., skulu vera í samræmi við skilyrðin sem sett eru fram í 2. til 5. mgr. þessarar greinar.
    2. Gerningarnir skulu vera ódagsettir eða hafa upphaflegan lánstíma sem er að lágmarki 30 ár. Gerningarnir geta falið í sér einn eða fleiri kaupréttsamninga samkvæmt einhliða ákvörðun útgefanda, en þeir skulu ekki innleystir fyrr en fimm árum eftir útgáfudag. Ef í ákvæðum, sem gilda um ódagsetta gerninga, er kveðið á um hóflegan hvata lánastofnunar til innlausnar eftir því sem lögbær yfirvöld ákvarða, skal þess háttar hvati ekki koma til framkvæmdar innan 10 ára frá útgáfudegi. Í ákvæðum, sem gilda um dagsetta gerninga, skal ekki heimilað að hvetja til innlausnar á öðrum degi en gjalddaga.
    Dagsetta og ódagsetta gerninga má aðeins innkalla eða innleysa ef um fyrirframsamþykki lögbærra yfirvalda er að ræða. Lögbær yfirvöld geta veitt samþykki sitt, að því tilskildu að beiðnin sé gerð að frumkvæði lánastofnunarinnar og að áhrifin á fjárhagslega stöðu eða gjaldþol lánastofnunarinnar verði of mikil. Lögbær yfirvöld geta krafist þess að lánastofnanir skipti gerningnum út fyrir liði sem eru af sömu eða meiri gæðum en þeim sem um getur í a- eða ca- lið 57. gr.
    Lögbær yfirvöld skulu krefjast frestunar innlausnar á dagsettum gerningum ef lánastofnunin uppfyllir ekki þær eiginfjárkröfur sem settar eru fram í 75. gr. og geta þannig krafist frestunar á öðrum tímum á grundvelli fjárhagslegrar stöðu og gjaldþols lánastofnana.
    Lögbært yfirvald getur á hverjum tíma veitt heimild fyrir innlausn dagsettra gerninga fyrir gjalddaga ef um er að ræða breytingar á gildandi skattareglum eða flokkun þess háttar gerninga samkvæmt reglugerðarákvæðum sem voru ekki fyrirsjáanleg á útgáfudegi.
    3. Þau ákvæði sem gilda um gerninginn skulu gera lánastofnun kleift, þegar nauðsyn krefur, að hætta greiðslu vaxta eða arðs í ótiltekinn tíma á óuppsöfnuðum grunni.
    Lánastofnunin skal þó hætta þess háttar greiðslum ef þær uppfylla ekki þær eiginfjárkröfur sem settar eru fram í 75. gr.
    Lögbær yfirvöld geta krafist þess að hætt sé við þess konar greiðslur á grundvelli fjárhagslegrar stöðu eða gjaldþols lánastofnunarinnar. Hvers konar frestun greiðslu skal ekki hafa áhrif á rétt lánastofnunar til að skipta vaxta- eða arðgreiðslu út fyrir greiðslu í formi gernings sem um getur í a-lið 57. gr., að því tilskildu að þess háttar aðferð geri lánastofnun kleift að halda fjármagni sínu. Þess konar skipting getur fallið undir sérstök skilyrði sem lögbær yfirvöld setja.
    4. Í ákvæðum, sem gilda um gerning, skal koma fram að höfuðstóll, ógreiddir vextir eða arður skuli geta staðið undir tapi og hindri ekki endurfjármögnun lánastofnunar með viðeigandi aðferðum sem evrópska bankaeftirlitsnefndin hefur útfært skv. 6. mgr.
    5. Ef um er að ræða gjaldþrot eða félagsslit lánastofnunar skal raða gerningum í samræmi við þá liði sem um getur í 2. mgr. 63. gr.
    6. Evrópska bankaeftirlitsnefndin skal taka saman ítarlegar leiðbeiningar um samleitni eftirlitsaðferða, að því er varðar þá gerninga sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar og a-lið 57. gr., og hafa eftirlit með beitingu þeirra. Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 31. desember 2011, endurskoða beitingu þessarar greinar og leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið, ásamt viðeigandi tillögum sem miða að því að tryggja gæði eigin fjár.“
11.    í stað a-liðar 1. mgr. 65. gr. komi eftirfarandi:
    „a)    sérhverja hlutdeild minnihluta í skilningi 21. gr. tilskipunar 83/349/EBE þar sem heildarsamrunaaðferð er beitt. Þeir gerningar sem um getur í ca-lið 57. gr. sem leiða til hlutdeildar minnihluta skulu uppfylla kröfur sem settar eru fram í a-, c-, d- og e-lið 2. mgr. 63. gr. og a-lið 63. gr. og 66. gr.,“
12.    Ákvæðum 66. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    í stað 1. og 2. mgr. komi eftirfarandi:
        „1. Liðir þeir sem um getur í d- til h-lið 57. gr. skulu háðir eftirfarandi takmörkunum:
        a)    heildarfjárhæð í liðum, sem um getur í d- til h-lið 57. gr., má ekki vera hærri en sem nemur 100% af samanlögðum liðum a- til ca-lið, að frádregnum liðum í i-, j- og k-lið þeirrar greinar og
        b)    heildarfjárhæð í liðum, sem um getur í g- til h-lið 57. gr., má ekki vera hærri en sem nemur 50% af samanlögðum liðum í a- til ca-lið að frádregnum liðum í i-, j- og k-lið þeirrar greinar.
        1a. Þrátt fyrir 1. mgr. þessarar greinar skal heildarfjárhæð í ca-lið 57. gr. háð eftirfarandi takmörkunum:
        a)    gerningar, sem skal breyta ef um neyðarástand er að ræða og hægt er að breyta að frumkvæði lögbærs yfirvalds á hverjum tíma á grundvelli fjárhagslegrar stöðu og gjaldþols útgefanda í þá liði sem um getur í a-lið 57. gr. innan fyrirframákveðins tímaramma, skulu samtals ekki vera hærri en sem nemur 50% af samanlögðum liðunum í a- til ca-lið að frádregnum liðunum í i-, j- og k-lið þeirrar greinar,
        b)    heildarfjárhæð allra annarra gerninga, innan þeirra marka sem um getur í a-lið þessarar greinar, má ekki vera hærri en sem nemur 35% af samanlögðum liðunum í a- til ca-lið að frádregnum liðunum í i-, j- og klið 57. gr.
        c)    heildarfjárhæð dagsettra og ódagsettra gerninga, sem fela í sér hvata til innlausnar fyrir lánastofnun og eru innan þeirra marka sem um getur í a og b-lið þessarar greinar, má ekki vera hærri en sem nemur 15% af samanlögðum liðunum í a- til ca-lið að frádregnum liðunum í i-, j- og klið 57. gr.
        d)    fjárhæð liða, sem er umfram þau mörk sem sett eru fram í a-, b-, og c-lið, skal falla undir hámarkið sem fram kemur í 1. mgr. þessarar greinar.
    2. Heildarfjárhæð liða sem um getur í l- til r-lið 57. gr. skal dregin að hálfu frá heildarfjárhæð liða, sem um getur í a- til ca-lið, að frádregnum liðunum í i-, jog k-lið og að hálfu frá heildarfjárhæð liða sem um getur í d- til h-lið í þeirri grein, eftir beitingu takmarkana sem mælt er fyrir um í 1. mgr. þessarar greinar. Ef helmingur heildarfjárhæðar liðanna í l- til r-lið 57. gr. er hærri en heildarfjárhæð liðanna í d- til h-lið þeirrar greinar skal umframfjárhæð dregin frá heildarfjárhæð liðanna í a- til ca-lið að frádregnum liðunum í i-, j- og k-lið í þeirri grein. Liðir, sem um getur í r-lið 57. gr., skulu ekki dregnir frá ef þeir hafa verið taldir með í útreikningi á áhættuvegnum fjárhæðum að því er varðar 75. gr., eins og um getur í 4. hluta IX. viðauka.“
    b)    í stað 4. mgr. komi eftirfarandi:
        „4. Lögbær yfirvöld geta veitt lánastofnunum heimild til að fara tímabundið út fyrir þau mörk sem sett eru í 1. mgr. og a-lið 1. mgr., sé um neyðarástand að ræða.“
13.    Undirfyrirsögn 2. undirþáttar, 2. hluta, 2. kafla, V. bálks „Útreikningur á kröfum“ er skipt út fyrir „Útreikningur og upplýsingaskylda“
14.    Eftirfarandi undirliður bætist við á eftir fyrsta undirlið 2. mgr. 74. gr.:
    „Að því er varðar tilkynningu lánastofnana á þessum útreikningum skulu lögbær yfirvöld frá 31. desember 2012 nota samræmda framsetningu, tíðni og tilkynningardaga. Til að greiða fyrir þessu skal evrópska bankaeftirlitsnefndin taka saman leiðbeiningar um innleiðingu á samræmdu skýrslusniði í Bandalaginu fyrir 1. janúar 2012. Framsetningaraðferðin skal vera í réttu hlutfalli við eðli og umfang þeirrar starfsemi sem lánastofnun annast og það hversu flókin hún er.“
15.    Í stað 2. mgr. 81. gr. komi eftirfarandi:
    „2. Lögbær yfirvöld skulu eingöngu viðurkenna utanaðkomandi lánshæfismatsstofnun að því er varðar 80. gr. ef þau eru fullviss um að matsaðferð hennar fari að kröfunum um hlutlægni, sjálfstæði, stöðuga endurskoðun og gagnsæi og að lánsmat, sem leiðir þar af, uppfylli kröfurnar um trúverðugleika og gagnsæi. Lögbær yfirvöld skulu, að því er þetta varðar, taka tillit til tæknilegra skilyrða sem sett eru fram í 2. hluta VI. viðauka. Ef utanaðkomandi lánshæfismatsstofnun er skráð sem lánshæfismatsstofnun í samræmi við reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1060/2009 frá 16. september 2009 um lánshæfismatsstofnanir ( *) skulu lögbær yfirvöld taka til athugunar hvort kröfur um hlutlægni, óhæði, stöðuga endurskoðun og gagnsæi eru uppfylltar að því er varðar aðferðafræði við mat.“
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


( *) Stjtíð. ESB L 302, 17. 1.2009, bls. 1.
16.    Ákvæðum 87. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    Í stað 11. mgr. komi eftirfarandi:
        „11. Ef áhættuskuldbindingar í formi fyrirtækis um sameiginlega fjárfestingu (CIU) standast viðmiðanir, sem settar eru fram í 77. og 78. lið 1. hluta VI. viðauka, og lánastofnunin gerir sér grein fyrir öllum eða hluta áhættuskuldbindinga, sem liggja til grundvallar fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu, skal lánastofnunin telja þessar undirliggjandi skuldbindingar með í útreikningi á fjárhæðum áhættuveginna áhættuskuldbindinga og fjárhæðum vænts taps í samræmi við þær aðferðirnar sem settar eru fram í þessum undirþætti. Ákvæði 12. mgr. skulu gilda um þann hluta áhættuskuldbindinga sem liggja til grundvallar fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu sem lánastofnun er ekki kunnugt um eða ekki er sanngjarnt að ætla að henni sé kunnugt um. Ákvæði 12. mgr. gilda einkum þegar óþarflega íþyngjandi væri fyrir lánastofnun að athuga áhættuskuldbindingar, sem liggja til grundvallar, til að reikna fjárhæðir áhættuveginna áhættuskuldbindinga og vænts taps í samræmi við þær aðferðir sem settar eru fram í þessum undirþætti.
        Ef lánastofnun uppfyllir ekki skilyrðin fyrir notkun aðferðanna, sem settar eru fram í þessum undirþætti, að því er varðar allar eða hluta áhættuskuldbindinganna, sem liggja til grundvallar fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu, skulu fjárhæðir áhættuveginna áhættuskuldbindinga og fjárhæðir vænts taps reiknaðar í samræmi við eftirfarandi aðferðir:
        a)    aðferðina sem sett er fram í 19. til 21. lið 1. hluta VII. viðauka, vegna áhættuskuldbindinga í áhættuflokknum sem um getur í e-lið 1. mgr. 86. gr.
        b)    aðferðina sem sett er fram í 78. til 83. gr. vegna allra annarra undirliggjandi áhættuskuldbindinga, með fyrirvara um eftirfarandi breytingar:
            i)    að því er varðar áhættuskuldbindingar sem falla undir sérstakt áhættuvægi áhættuskuldbindinga, sem ekki hafa verið metnar eða eru í því lánshæfisgæðaþrepi sem hefur hæsta áhættuvægið í tilteknum áhættuflokki, skal margfalda áhættuvægið með stuðlinum tveimur en það skal ekki vera hærra en 1 250%.
            ii)    að því er varðar allar aðrar áhættuskuldbindingar skal margfalda áhættuvægið með stuðlinum 1,1 og skal það að minnsta kosti vera 5%.
        Ef lánastofnunin, að því er varðar a-lið, getur ekki gert greinarmun á áhættuskuldbindingum vegna óskráðra hlutabréfa, áhættuskuldbindingum, sem viðskipti eru með á skipulegum verðbréfamarkaði, og öðrum áhættuskuldbindingum vegna hlutabréfa, skal hún fara með áhættuskuldbindingarnar, sem um ræðir, eins og aðrar áhættuskuldbindingar vegna hlutabréfa. Ef þessar áhættuskuldbindingar, með fyrirvara um 6. mgr. 154. gr., ásamt beinum áhættuskuldbindingum lánastofnunar í viðkomandi áhættuflokki, eru óverulegar í skilningi 2. mgr. 89. gr. má beita 1. mgr. 89. gr. að fengnu samþykki lögbærra yfirvalda.“
    b)    eftirfarandi komi í stað annarrar undirgreinar 12. gr.:
        „Ef lánastofnanir kjósa að beita fremur annarri aðferð en lýst er í fyrstu undirgrein geta þær reiknað sjálfar eða treyst á þriðja aðila að reikna og tilkynna um meðalfjárhæðir áhættuveginna áhættuskuldbindinga, sem byggðar eru á áhættuskuldbindingum sem liggja til grundvallar fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu, í samræmi við aðferðir sem um getur í a- og b-lið 11. mgr., að því tilskildu að tryggt sé á fullnægjandi hátt að útreikningarnir og tilkynningarnar séu réttar.“
17.    Í d-lið 1. mgr. 89. gr. komi eftirfarandi í stað inngangshlutans:
    „d)    áhættuskuldbindingum gagnvart ríkisstjórnum aðildarríkja og héraðsstjórnum þeirra, staðaryfirvöldum og stjórnsýsluaðilum ef:“
18.    Í stað 2. mgr. 97. gr. komi eftirfarandi:
    „2. Lögbær yfirvöld skulu eingöngu viðurkenna utanaðkomandi lánshæfismatsstofnun sem hæfa, að því er varðar 1. mgr. þessarar greinar, ef þau eru sannfærð um að hún fari að kröfunum sem mælt er fyrir um í 81. gr., með tilliti til tæknilegu viðmiðanna sem sett eru fram í 2. hluta VI. viðauka og að hún hafi sýnt fram á getu á sviði verðbréfunar, sem hægt er að færa sönnur á með sterkri viðurkenningu markaðar. Ef utanaðkomandi lánshæfismatsstofnun er skráð sem lánshæfismatsstofnun í samræmi við reglugerð (EB) nr. 1060/2009, skulu lögbær yfirvöld taka til athugunar hvort kröfur um hlutlægni, óhæði, stöðuga endurskoðun og gagnsæi eru uppfylltar að því er varðar aðferðafræði við mat.“
19.    Ákvæðum 106. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    í stað 2. mgr. komi eftirfarandi:
        „2. Eftirfarandi skal ekki teljast til áhættuskuldbindinga:
        a)    ef um er að ræða gjaldeyrisviðskipti, áhættuskuldbindingar í tengslum við eðlilegt uppgjör næstu tvo viðskiptadaga eftir greiðslu,
        b)    ef um er að ræða viðskipti vegna kaupa eða sölu á verðbréfum, áhættuskuldbindingar í tengslum við eðlilegt uppgjör næstu fimm viðskiptadaga eftir greiðslu eða afhendingu verðbréfanna, eftir því hvort er fyrr,
        c)    ef um er að ræða millifærslu peninga, þ.m.t. framkvæmd greiðsluþjónustu, greiðslujöfnun og uppgjör í hvaða gjaldmiðli sem er og millibankaviðskipti eða uppgjör fjármálagerninga, uppgjör og vörsluþjónusta, seinkuð móttaka fjármögnunar og aðrar áhættuskuldbindingar vegna starfsemi viðskiptavinar sem varir ekki lengur en næstkomandi viðskiptadag eða
        d)    ef um er að ræða millifærslu peninga, þ.m.t. framkvæmd greiðsluþjónustu, greiðslujöfnun og uppgjör í hvaða gjaldmiðli sem er og millibankaviðskipti, áhættuskuldbindingar innan dags gagnvart stofnunum sem veita þá þjónustu.
    Evrópska bankaeftirlitsnefndin skal leggja fram leiðbeiningar til þess að bæta samleitni eftirlitsaðferða með því að beita undanþágunum í c- og d-lið.“
b)    eftirfarandi málsgrein bætist við:
    „3. Til þess að ákvarða hvort um er að ræða samstæðu tengdra viðskiptavina, að því er varðar þær áhættuskuldbindingar sem um getur í m-, o- og p-lið 1. mgr. 79. gr., þegar um er að ræða áhættuskuldbindingar gagnvart eign sem liggur til grundvallar, skal lánastofnun meta áætlunina, undirliggjandiáhættuskuldbindingar eða hvort tveggja. Í því augnamiði skal lánastofnun meta efnahagslegt inntak og kerfisáhættu í skipulagi viðskiptanna.“
20.    Í stað 107. gr. komi eftirfarandi:
     „107. gr.
    Að því er varðar útreikning á virði áhættuskuldbindinga í samræmi við þennan þátt, merkir hugtakið „lánastofnun“ einnig hvers konar einkafyrirtæki eða opinbert fyrirtæki, þ.m.t. útibú, sem fellur að skilgreiningu á „lánastofnun“ og hefur tilskilin starfsleyfi í þriðja landi.“
21.    Í stað 110. gr. komi eftirfarandi:
     „110. gr.
    1. Lánastofnun skal senda lögbærum yfirvöldum eftirfarandi upplýsingar um allar stórar áhættuskuldbindingar, þ.m.t. stórar áhættuskuldbindingar sem eru undanþegnar beitingu 1. mgr. 111. gr.:
    a)    auðkenningu á viðskiptavini eða hópi tengdra viðskiptavina sem lánastofnun ber stóra áhættu gagnvart,
    b)    virði áhættu áður en tekið er tillit til áhrifa af því að draga úr útlánaáhættu, þegar við á,
    c)    tegund fjármagnaðrar eða ófjármagnaðrar útlánavarnar, ef þess háttar vörn er notuð,
    d)    virði áhættu eftir að tekið hefur verið tillit til áhrifa af því að draga úr útlánaáhættu, sem reiknuð er með tilliti til 1. mgr. 111. gr.
    Ef lánastofnun heyrir undir 84.–89. gr. skulu 20 mestu áhættuskuldbindingar hennar á samstæðugrundvelli, að undanskildum þeim sem undanþegnar eru beitingu 1. mgr. 111. gr., gerðar aðgengilegar lögbærum yfirvöldum.
    2. Aðildarríki skulu sjá til þess að skýrslugjöf fari fram að minnsta kosti tvisvar á ári. Lögbær yfirvöld skulu frá 31. desember 2012 notast við samræmdra framsetningu, tíðni og dagsetningar við skýrslugjöf. Til að greiða fyrir því skal evrópska bankaeftirlitsnefndin útfæra leiðbeiningar um að innleiða samræmda skýrslugjöf í Bandalaginu eigi síðar en 1. janúar 2012. Framsetningaraðferðin skal vera í réttu hlutfalli við eðli og umfang starfsemi lánastofnunarinnar og það hversu flókin hún er.
    3. Aðildarríkin skulu gera kröfu um að lánastofnanir greini, að því marki sem unnt er, áhættuskuldbindingar gagnvart útgefendum trygginga, veitendur ófjármagnaðrar útlánavarnar og eignir, sem liggja til grundvallar skv. 3. mgr. 106. gr. að því er varðar hugsanlega samþjöppun, og grípa til aðgerða, eftir því sem við á, og gefa skýrslu um mikilvægar niðurstöður til lögbærs yfirvalds þeirra.“
22.    Ákvæðum 111. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    í stað 1. mgr. komi eftirfarandi:
        „1. Lánastofnun skal ekki stofna til áhættu eftir að hún hefur tekið tillit til áhrifa að því að draga úr útlánaáhættu í samræmi við 112.–117. gr. gagnvart viðskiptavini eða hópi tengdra viðskiptavina ef virði hennar er yfir 25% af eigin fé lánastofnunar.
        Ef viðskiptavinur er stofnun eða ef ein eða fleiri stofnanir eru innan hóps tengdra viðskiptavina, skal það virði ekki vera umfram 25% eigin fjár lánastofnunar eða 150 milljónir evra, eftir því hvort er hærra, að því tilskildu að heildarfjárhæð áhættuskuldbindinga, eftir að tekið hefur verið tillit til áhrifa af því að draga úr útlánaáhættu í samræmi við 112. til 117. gr., gagnvart öllum tengdum viðskiptavinum, sem ekki eru stofnanir, fari ekki yfir 25% af eigin fé lánastofnunar.
        Ef fjárhæðin 150 milljónir evra er hærri en sem nemur 25% af eigin fé lánastofnunar skal fjárhæð áhættu, að teknu tilliti til áhrifa af því að draga úr útlánaáhættu í samræmi við 112. til 117. gr., ekki fara yfir hæfileg mörk með tilliti til eigin fjár lánastofnunar. Lánastofnanir skulu ákveða þau mörk í samræmi við þær stefnur og verklagsreglur sem um getur í 7. lið V. viðauka til að fjalla um og stýra samþjöppunaráhættu, og skulu þau ekki vera hærri en sem nemur 100% af eigin fé lánastofnunar.
        Aðildarríkjum er heimilt að setja lægri mörk en 150 milljónir evra og skulu þau upplýsa framkvæmdastjórnina um það.“
    b)    ákvæði 2. og 3. mgr. falli brott,
    c)    í stað 4. mgr. komi eftirfarandi:
        „4. Lánastofnun skal ávallt virða viðeigandi mörk sem mælt er fyrir um í 1. mgr. Ef í undantekningartilvikum er farið yfir þessi mörk skal skýra lögbærum yfirvöldum tafarlaust frá virði áhættuskuldbindinganna og geta þau, ef aðstæður leyfa, veitt lánastofnuninni tiltekinn tíma til að laga sig að þessum mörkum.
        Ef fjárhæðin 150 milljónir evra, sem um getur í 1. mgr., á við geta lögbær yfirvöld í hverju tilviki fyrir sig heimilað að lánastofnunin fari yfir 100% mörkin með tilliti til eigin fjár hennar.“
23.    Ákvæðum 112. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    í stað 2. mgr. komi eftirfarandi:
        „2. Með fyrirvara um 3. mgr. þessarar greinar, þar sem viðurkenning á fjármagnaðri eða ófjármagnaðri útlánavörn er heimil skv. 113.– 117. gr. skal hún veitt með fyrirvara um að farið sé að kröfum um viðurkenningu og öðrum lágmarkskröfum sem settar eru fram í 90.–93. gr.“
    b)    eftirfarandi málsgrein bætist við:
        „4. Að því er varðar þennan þátt skal lánastofnun ekki taka tillit til þeirra trygginga sem um getur í 20. til 22. lið fyrsta hluta VIII. viðauka, nema það sé heimilt skv. 115. gr.“
24.    Ákvæðum 113. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    ákvæði 1. og 2. mgr. falli brott,
    b)    ákvæðum 3. mgr. er breytt sem hér segir:
        i)    eftirfarandi komi í stað inngangshlutans:
            „3. Eftirfarandi tegundir áhættuskuldbindinga skulu undanþegnar beitingu 1. mgr. 111. gr:“
        ii)    í stað e- og f-liða komi eftirfarandi:
            „e)    eignaliðir, sem fela í sér kröfur á héraðsstjórnir eða staðaryfirvöld í aðildarríkjum, þar sem þessum kröfum yrði úthlutað 0% áhættuvægi skv. 78.–83. gr., og aðrar áhættuskuldbindingar gagnvart þessum héraðsstjórnum eða staðaryfirvöldum, eða ábyrgðir, sem þau veita, þar sem kröfur fengju 0% áhættuvægi skv. 78.–83. gr.
            f)    áhætta vegna mótaðila, sem um getur í 7. eða 8. mgr. 80. gr., ef hún fengi áhættuvægið 0% skv. 78.–83. gr. Með áhættu, sem ekki fellur að þeim viðmiðunum, hvort sem hún er undanþegin 1. mgr, 111. gr. eða ekki, skal farið sem áhættu vegna þriðja aðila.“
        iii)    í stað i-liðar komi eftirfarandi:
            „i)    áhætta vegna ónotaðra lánsheimilda sem flokkuð er sem áhættulítill liður utan efnahagsreiknings í II. viðauka, svo fremi samningur hafi verið gerður við viðkomandi viðskiptavin eða hóp innbyrðis tengdra viðskiptavina, þar sem kveðið er á um að einungis megi draga á heimildina ef fullvíst er að ekki verði farið yfir mörkin skv. 1. mgr. 111.gr.“
        iv)    ákvæði j- til t-liðar eru felld brott
        v)    þriðji, fjórði og fimmti undirliður eru felldir brott
    c)    eftirfarandi málsgrein bætist við:
        „4. Lögbærum yfirvöldum er heimilt, að einhverju eða öllu leyti, að undanskilja eftirfarandi tegundir áhættuskuldbindinga frá ákvæðum 1. mgr. 111. gr.:
         a)    sértryggð skuldabréf samkvæmt skilgreiningu 68., 69. og 70. lið 1. hluta VI. viðauka,
        b)    eignaliði, sem fela í sér kröfur á héraðsstjórnir eða staðaryfirvöld í aðildarríkjum, þar sem þessum kröfum yrði úthlutað 0% áhættuvægi skv. 78.–83. gr., og aðrar áhættuskuldbindingar gagnvart þessum héraðsstjórnum eða staðaryfirvöldum, eða ábyrgðir, sem þau veita, þar sem kröfur fengju 0% áhættuvægi skv. 78.–83. gr.
        c)    þrátt fyrir f-lið 3. mgr. þessarar greinar, áhættuskuldbindingar lánastofnunar, þ.m.t. hlutdeild eða annars konar eignarhald, við móðurfélag hennar, við önnur dótturfélög þess móðurfélags eða eigin dótturfélög, að því tilskildu að þau fyrirtæki séu undir samstæðueftirliti því sem haft er með lánastofnuninni sjálfri í samræmi við þessa tilskipun eða sambærilegar, gildandi reglur í þriðja landi; með þær tegundir áhættuskuldbindinga, sem ekki uppfylla þessi skilyrði, hvort sem þær eru undanþegnar 1. mgr. 111. gr. eða ekki, skal farið sem áhættu gagnvart þriðja aðila
        d)    eignaliði, sem fela í sér kröfur og aðrar áhættuskuldbindingar, þ.m.t. hlutdeild eða annars konar eignarhald, gagnvart héraðs- eða svæðislánastofnunum sem lánastofnunin er tengd innan tengslanets í samræmi við ákvæði laga eða reglna og sem hafa samkvæmt þessum ákvæðum greiðslujöfnunarhlutverki að gegna innan kerfisins,
        e)    eignaliði, sem fela í sér kröfur og aðrar áhættuskuldbindingar gagnvart lánastofnunum, sem stofnað er til af hálfu lánastofnana, sem starfa ekki á samkeppnisgrundvelli, og lánveitingar í samkvæmt lögleiddum áætlunum eða samþykktum, til að styðja við tiltekna geira atvinnulífsins samkvæmt einhvers konar eftirliti stjórnvalda og takmörkunum á notkun lánanna, að því tilskildu að viðkomandi áhætta stafi af þess háttar útlánum sem eru framlánuð lánþegunum fyrir milligöngu annarra lánastofnana,
        f)    eignaliði, sem fela í sér kröfur og áhættuskuldbindingar gagnvart stofnunum, að því tilskildu að þessar áhættuskuldbindingar feli ekki í sér eigin fé slíkra stofnana, endist ekki lengur en næstkomandi viðskiptadag og séu ekki tilgreindar í einhverjum af helstu viðskiptagjaldmiðlum,
        g)    eignaliði, sem fela í sér kröfur um lágmarksvarasjóði á seðlabanka sem eru í vörslum viðkomandi seðlabanka og tilgreindir í gjaldmiðli viðkomandi þjóðar,
        h)    eignaliði, sem fela í sér lögbundnar kröfur á ríkisstjórnir um lausafjárstöðu í ríkisskuldabréfum, sem tilgreind eru og fjármögnuð í gjaldmiðli viðkomandi þjóðar, að því tilskildu að lánshæfismat þessara ríkisstjórna, sem utanaðkomandi lánshæfismatsstofnun úthlutar samkvæmt ákvörðun lögbærs yfirvalds, sé fjárfestingarflokkur (investment grade),
        i)    50% af bankaábyrgðum, með litla eða miðlungsáhættu, utan efnahagsreiknings og af þeim ónotuðu lánsheimildum, með litla eða miðlungsáhættu, sem um getur í II. viðauka og háðar eru samkomulagi lögbærra yfirvalda, 80% af tryggingum öðrum en útlánatryggingum á lagalegum eða stjórnsýslulegum grundvelli og eru veittar aðilum sem hafa stöðu lánastofnunar í gagnkvæmu ábyrgðakerfi,
        j)    tryggingar sem krafist er samkvæmt lögum og notaðar eru þegar veðlán, sem fjármagnað er með útgáfu veðskuldabréfs, er greitt til veðlánstaka fyrir fyrstu skráningu veðs í þinglýsingarbók, að því tilskildu að tryggingin sé ekki notuð til að draga úr áhættu við útreikning á áhættuvegnum eignum.“
25.    Ákvæðum 114. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    í stað 1. mgr. komi eftirfarandi:
        „1. Með fyrirvara um 3. mgr. þessarar greinar, að því er varðar útreikning á virði áhættu með tilliti til 1. mgr. 111. gr., getur lánastofnun notað „að fullu leiðrétt virði áhættu“, eins og hún er reiknuð skv. 90. til 93. gr., að teknu tilliti til minni útlánaáhættu, leiðréttinga vegna flökts og mismunandi binditíma (E*).“
    b)    ákvæðum 2. mgr. er breytt sem hér segir:
        i)    í stað fyrstu undirgreinar komi eftirfarandi:
            Með fyrirvara um 3. mgr. þessarar greinar skal lánastofnun, sem heimilt er að nota eigið mat á tapi, að teknu tilliti til vanefnda, og breytistuðla vegna áhættuflokks skv. 84.–89. gr., heimilt — ef hún getur með fullnægjandi hætti, að mati lögbærra yfirvalda, áætlað áhrif fjárhagslegrar tryggingar vegna áhættukrafna hennar og aðgreint þau frá öðrum þáttum taps sem máli skipta, að teknu tilliti til vanefnda — að taka slík áhrif með við útreikning á virði áhættukrafna að því er varðar 1. mgr. 111. gr.“
        ii)    í stað fjórða undirliðar komi eftirfarandi:
            „Lánastofnunum, sem heimilt er að nota eigið mat á tapi, að teknu tilliti til vanefnda, og breytistuðla vegna áhættuflokka skv. 84.–89. gr., sem reikna ekki virði áhættukrafna sinna með aðferðinni sem um getur í fyrstu undirgrein þessarar greinar, er heimilt að nota heildaraðferðina, sem byggist á fjárhagslegri tryggingu, eða aðferðina sem sett er fram í b-lið 1. mgr. 117. gr. við útreikninga á virði áhættu.“
    c)    ákvæðum 3. mgr. er breytt sem hér segir:
        i)    í stað fyrstu undirgreinar komi eftirfarandi:
            „Lánastofnun, sem notar heildaraðferðina, sem byggist á fjárhagslegri tryggingu, eða er heimilt að nota aðferðirnar, sem lýst er í 2. mgr. þessarar greinar við útreikninga á virði áhættu að því er varðar 1. mgr. 111. gr., skal gera reglubundnar álagsprófanir á uppsafnaðri útlánaáhættu sinni, þ.m.t. í tengslum við söluvirði hvers konar tryggingar sem tekin hefur verið.“
        ii)    í stað fjórða undirliðar komi eftirfarandi:
            „Þegar þess konar álagsprófun bendir til lægra söluvirðis tryggingar, sem tekið hefur verið við, en heimilt væri að taka tillit til samkvæmt heildaraðferðinni, sem byggist á fjárhagslegri tryggingu eða þeirri aðferð sem lýst er í 2. mgr. þessarar greinar, eins og við á, skal virði tryggingar, sem heimilt er að taka með í útreikninga á virði áhættuskuldbindinganna, að því er varðar 1. mgr. 111. gr., lækkað í samræmi við það.“
        iii)    eftirfarandi komi í stað b-liðar fimmtu undirgreinar:
            „b)    stefnur og verklagsreglur þegar álagsprófun bendir til lægra söluvirðis trygginga en gert var ráð fyrir við notkun heildaraðferðar sem byggist á fjárhagslegri tryggingu eða þeirri aðferð sem lýst er í 2. mgr. og“
    d)    ákvæði 4. mgr. falli brott,
26.    Í stað 115. gr. komi eftirfarandi:
     „115. gr.
    „1. Að því er varðar þennan þátt er lánastofnun heimilt að lækka virði áhættu um allt að 50% af virði viðkomandi íbúðarhúsnæðis ef annaðhvort eftirfarandi skilyrða er uppfyllt:
    a)    áhættan er tryggð með veði í íbúðarhúsnæði eða hlutabréfum í finnskum húsnæðisfélögum, sem starfa í samræmi við finnsku húsnæðismálalögin frá 1991 eða síðari jafngild lög,
    b)    áhættan tengist kaupleigusamningi og leigusalinn hefur fullt eignarhald á íbúðarhúsnæðinu, sem er í leigu, svo fremi leigutaki nýti ekki forkaupsrétt sinn.
    Verð eignarinnar skal reiknað, þannig að lögbær yfirvöld telji fullnægjandi, á grundvelli varfærinna matsreglna sem mælt er fyrir um í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum. Matið skal framkvæmt að minnsta kosti einu sinni á þriggja ára fresti að því er varðar íbúðarhúsnæði.
    Kröfunum, sem settar eru fram í 8. lið 2. hluta VIII. viðauka og 62.–65. lið 3. hlutaVIII. viðauka, skal beitt að því er varðar þessa málsgrein.
    „Íbúðarhúsnæði“ merkir húsnæði sem er nýtt til búsetu eða eigandi leigir út.
    2. Að því er varðar þennan þátt er lánastofnun aðeins heimilt að lækka virði áhættu um allt að 50% af virði þess viðskiptahúsnæðis sem um er að ræða ef viðkomandi lögbær yfirvöld aðildarríkisins, sem viðskiptahúsnæðið er í, heimila að eftirfarandi áhættukröfur fái 50% áhættuvægi í samræmi við 78.–83. gr.:
    a)    áhættuskuldbindingar, sem eru tryggðar með veði í skrifstofuhúsnæði eða öðru viðskiptahúsnæði eða með hlutabréfum í finnskum húsnæðisfélögum, sem starfa í samræmi við finnsku húsnæðismálalögin frá 1991 eða nýrri jafngild lög, að því er varðar skrifstofur eða annað viðskiptahúsnæði, eða
    b)    áhættuskuldbindingar sem tengjast kaupleigusamningum er varða skrifstofur eða annað viðskiptahúsnæði.
    Verð eignarinnar skal reiknað, þannig að lögbær yfirvöld telji fullnægjandi, á grundvelli varfærinna matsreglna sem mælt er fyrir um í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum.
    Viðskiptahúsnæði skal vera fullbyggt, í leigu og gefa af sér viðeigandi leigutekjur.“
27.    Ákvæði 116. gr. falli brott
28.    Ákvæðum 117. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    í stað 1. mgr. komi eftirfarandi:
        „1. Ef þriðji aðili tryggir áhættu gagnvart viðskiptavini eða hún er tryggð með veði sem þriðji aðili gefur út er lánastofnun heimilt að:
        a)    líta á þann hluta áhættunnar, sem er tryggð, sem áhættu gagnvart ábyrgðaraðila fremur en gagnvart viðskiptavini, að því tilskildu að ótryggð áhætta gagnvart útgefanda tryggingarinnar fengi sama eða lægra áhættuvægi en áhættuvægi hins ótryggða hluta áhættunnar gagnvart viðskiptavininum skv. 78.–83. gr.,
        b)    líta á þann hluta áhættu, sem er tryggð með veði í markaðsvirði viðurkenndrar tryggingar, sem áhættu gagnvart þriðja aðila fremur en gagnvart viðskiptavini, að því tilskildu að áhættan er tryggð með veði og tryggður hluti áhættunnar fengi sama eða lægra áhættuvægi en áhættuvægi ótryggða hluta áhættunnar gagnvart viðskiptavininum skv. 78.–83. gr.
        Lánastofnun skal ekki nota þá aðferð sem um getur í b-lið fyrstu undirgreinar ef um er að ræða misræmi milli binditíma áhættu og binditíma áhættuvarnar.
        Að því er varðar þennan þátt er lánastofnun aðeins heimilt að nota bæði heildaraðferðina, sem byggir á fjárhagslegri tryggingu, og þá meðferð sem um getur í b-lið fyrstu undirgreinar, ef það er leyfilegt að nota bæði heildaraðferðina sem byggist á fjárhagslegri tryggingu og einföldu aðferðina um fjárhagslegar tryggingar að því er varðar a-lið 75. gr.“
    b)    í stað inngangshlutans í 2. mgr. komi eftirfarandi:
        „2. Ef lánastofnun beitir a-lið 1. mgr.:“
29.    Ákvæði 119. gr. falli brott
30.    Eftirfarandi þætti er bætt við 2. kafla:
    „7. ÞÁTTUR
    ÁHÆTTA VEGNA YFIRFÆRÐRAR ÚTLÁNAÁHÆTTU
     122 gr. a
    1. Lánastofnun skal, þó ekki þegar hún er í hlutverki útgefanda, umsýsluaðila eða upphaflegs lánveitanda, því aðeins bera útlánaáhættu verðbréfaðrar stöðu í veltubók sinni eða utan veltubókar að útgefandi, umsýsluaðili eða upphaflegur lánveitandi hafi greint lánastofnun sérstaklega frá því að hann (eða hún) muni ávallt halda eftir umtalsverðum hluta fjárhagslegrar áhættu, sem skal í hverju tilviki fyrir sig ekki vera minni en 5%.
    Að því er varðar þessa grein merkir „að halda umtalsverðum hluta fjárhagslegrar áhættu“:
    a)    að halda eftir ekki minna en 5% af nafnvirði hvers lags (tranche) sem er selt eða yfirfært til fjárfestanna,
    b)    þegar um er að ræða verðbréfun hlaupandi áhættuskuldbindinga (securitisation of revolving exposures), að halda eftir hlutdeild útgefanda í áhættu sem er ekki minni en 5% af nafnvirði verðbréfaðra áhættuskuldbindinga,
    c)    að halda eftir áhættuskuldbindingum, sem valdar eru með slembiúrtaki, að jafngildi ekki minna en 5% af nafnvirði verðbréfaðra áhættuskuldbindinga, ef þess konar áhættuskuldbindingar hefðu annars verið verðbréfaðar í verðbréfuninni, að því tilskildu að fjöldi hugsanlegra verðbréfaðra áhættuskuldbindinga sé ekki undir 100 í upphafi, eða
    d)    að halda eftir því lagi sem er í fyrstu tapsstöðu og, ef nauðsyn krefur, öðrum lögum sem hafa sömu eða strangari áhættustefnu en það sem yfirfært er eða selt til fjárfesta og gjalddagi þess er ekki á undan gjalddaga þess sem yfirfært er eða selt til fjárfesta, þannig að það sem er haldið eftir er samtals ekki minna en 5% af nafnvirði verðbréfuðu áhættuskuldbindinganna.
    Hluti af fjárhagslegri áhættu er metinn í upphafi og skal stöðugt viðhalda honum. Hann skal ekki falla undir nokkurs konar lækkun á útlánaáhættu eða skortstöðum eða annars konar áhættuvörn. Hluti af fjárhagslegri áhættu skal ákvarðaður með grundvallarfjárhæð liða utan efnahagsreiknings.
    Að því er varðar þessa grein merkir „stöðugt“ að stöður, vextir eða áhættuskuldbindingar, sem er haldið eftir, eru ekki áhættuvarðar eða seldar.
    Ekki skal vera mögulegt að margbeita kröfum um að halda eftir í hverju tilviki verðbréfunar.
    2. Ef móðurlánastofnun eða eignarhaldsfélag á fjármálasviði innan Evrópusambandsins, eða dótturfélag þess sem útgáfulánastofnun eða umsýslulánastofnun, verðbréfar áhættuskuldbindingar frá mörgum lánastofnunum, fjárfestingarfyrirtækjum eða öðrum fjármálastofnunum, sem falla undir eftirlit með samstæðum, má uppfylla kröfurnar, sem um getur í 1. mgr., á grundvelli samstæðu viðkomandi móðurfélags eða eignarhaldsfélags á fjármálasviði innan Evrópusambandsins. Aðeins skal beita þessari málsgrein ef lánastofnanir, fjárfestingarfyrirtæki eða fjármálastofnanir, sem stofnuðu til verðbréfuðu áhættuskuldbindinganna, hafa skuldbundið sig til að fara að kröfum sem settar eru fram í 6. mgr. og afhenda, tímanlega, útgáfulánastofnun eða umsýslulánastofnun og móðurfélagi eða eignarhaldsfélagi á fjármálasviði innan Evrópusambandsins þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að uppfylla þær kröfur sem um getur í 7. mgr.
    3. Ákvæði 1. mgr. eiga ekki við ef verðbréfuðu áhættuskuldbindingarnar eru kröfur eða óvissar kröfur á eða eru tryggðar að öllu leyti, skilyrðislaust og óafturkræft með ábyrgð:
    a)    ríkisstjórna eða seðlabanka,
    b)    héraðsstjórna, staðaryfirvalda og opinberra aðila innan aðildarríkja,
    c)    stofnana, sem fá úthlutað 50% áhættuvægi, skv. 78. til 83. gr.,
    d)    fjölþjóðlegra þróunarbanka.
    Ákvæði 1. mgr. gilda ekki um:
    a)    viðskipti sem byggð eru á skýrri, gagnsærri og aðgengilegri vísitölu, þar sem viðmiðunareiningar, sem liggja til grundvallar, eru eins og þær sem mynda vísitölu eininga, sem mikil viðskipti eru með, eða eru framseljanleg verðbréf af öðrum toga en verðbréfaðar stöður eða
    b)    sambankalán, keyptar viðskiptakröfur eða skuldatryggingaskiptasamningar þegar þess háttar gerningar eru ekki notaðir til að pakka inn og/eða áhættuverja verðbréfun sem fellur undir 1. mgr.
    4. Áður en fjárfest er, og eins og við á eftir fjárfestingu, skulu lánastofnanir, að því er varðar hverja einstaka verðbréfaða stöðu þeirra, geta sýnt lögbærum yfirvöldum fram á að þær hafi yfirgripsmikla og ítarlega þekkingu á og hafi innleitt formlega málsmeðferð og verklagsreglur, sem eru viðeigandi hvað varðar veltubók og viðskipti utan veltubókar og eru í réttu hlutfalli við áhættustefnu fjárfestinga í verðbréfuðum stöðum, við greiningu og skjalfestingu á:
    a)    birtum upplýsingum, skv. 1. mgr., frá útgáfulánastofnun og umsýslulánastofnunum til að tilgreina hreina hlutdeild í eigin fé sem þeir halda stöðugt eftir í verðbréfuninni,
    b)    áhættulýsingu á einstökum, verðbréfuðum stöðum,
    c)    áhættulýsingu áhættuskuldbindinganna sem liggja til grundvallar verðbréfuðu stöðunni,
    d)    orðspori og tapreynslu við fyrri verðbréfanir útgefandi lánastofnana eða umsýslulánastofnana í viðkomandi áhættuflokkum, sem eru grundvöllur verðbréfaðrar stöðu,
    e)    yfirlýsingum og birtum upplýsingum útgefandi lánastofnana eða umsýslulánastofnana, eða umboðsaðila eða ráðgjafa þeirra, varðandi áreiðanleikakönnun á verðbréfuðu áhættuskuldbindingunum og, eftir atvikum, á gæðum trygginga vegna verðbréfaðra áhættuskuldbindinga,
    f)    eftir atvikum, aðferðafræði og hugtökum, sem virðismat á tryggingum vegna verðbréfaðra áhættuskuldbindinga byggist á, og stefnum, sem innleiddar eru af útgáfulánastofnun eða umsýslulánastofnun til þess að tryggja óhæði matsaðila, og
    g)    öllum skipulagsþáttum verðbréfunar sem geta haft veruleg áhrif á árangur af verðbréfaðri stöðu lánastofnunar.
    Lánastofnanir skulu framkvæma reglulega eigin álagsprófanir sem henta verðbréfuðum stöðum þeirra. Í þessu skyni geta lánastofnanir stuðst við fjárhagsleg líkön sem þróuð eru af utanaðkomandi lánshæfismatsstofnunum, að því tilskildu að lánastofnanir geti sýnt fram á, sé þess krafist, að þær hafi sýnt tilhlýðilega varfærni fyrir rannsókn til þess að fullgilda viðeigandi forsendur í og við uppbyggingu líkana og til að skilja aðferðafræði, forsendur og niðurstöður.
    5. Lánastofnanir, nema þegar þær eru í hlutverki útgefanda eða umsýsluaðila, skulu koma á viðeigandi formlegu ferli að því er varðar veltubók og viðskipti utan veltubókar og er í réttu hlutfalli við áhættustefnu í fjárfestingum í verðbréfuðum stöðum, til þess að fylgjast stöðugt og tímanlega með upplýsingum um árangur afþeim áhættuskuldbindingum sem liggja til grundvallar verðbréfuðum stöðum. Í þessu felst, eftir því sem við á, tegund áhættu, hlutfall lána, sem eru komin meira en 30, 60 og 90 daga fram yfir gjalddaga, vanskilahlutfall, hlutfall fyrirframgreiðslu, útlán, þar sem gengið er að veði, tegund veðs og notkun, og tíðnidreifing lánshæfiseinkunna eða annarra mælikvarða á lánstrausti þvert á þær áhættuskuldbindingar sem liggja til grundvallar, atvinnugrein og landfræðilega fjölbreytni, tíðnidreifingu hlutfalls útlánaá móti virði með vikmörkum sem auðvelda fullnægjandi næmisgreiningu. Ákvarðist þær áhættuskuldbindingar, sem liggja til grundvallar, einnig af verðbréfuðum stöðum skulu lánastofnanir ekki aðeins hafa upplýsingar, sem settar eru fram í þessari undirgrein, um þau lög verðbréfunar, sem liggja til grundvallar, svo sem nafn útgefanda og lánshæfisgæði, heldur einnig um einkenni og árangur af því safni sem er til grundvallar þessum lögum verðbréfunar.
    Lánastofnanir skulu hafa ítarlegan skilning á öllum kerfislægum þáttum verðbréfunarviðskipta sem geta haft veruleg áhrif á árangur af þeim áhættuskuldbindingum þeirra sem eru í verðbréfunarviðskiptunum, s.s. samningsbundin forgangsröðun til greiðslu (contractual waterfalls) og kveikjur (triggers) í tengslum við slíkar greiðslur, bætt lánskjör, styrking lausafjárstöðu, markaðsvirðiskveikjur og sérstakar, samningsbundnar skilgreiningar á vanefndum.
    Ef kröfurnar í 4., 7. og þessari málsgrein eru ekki uppfylltar í meginatriðum vegna vanrækslu eða aðgerðaleysis lánastofnunar skulu aðildarríki sjá til þess að lögbær yfirvöld komi á auknu hlutfallslegu áhættuvægi sem er ekki minna en 250% af áhættuvægi (mest 1 250%) sem myndi, ef ekki væri fyrir þessa málsgrein, gilda um viðeigandi verðbréfaðar stöður sem falla undir 4. hluta, IX. viðauka, og skal það fara stighækkandi með hverju broti á ákvæðum áreiðanleikakönnunar. Lögbær yfirvöld skulu taka tillit til undanþága tiltekinna verðbréfana sem kveðið er á um í 3. mgr. með því að lækka það áhættuvægi sem annars væri úthlutað samkvæmt þessari grein að því er varðar verðbréfun sem fellur undir 3. mgr.
    6. Útgefandi lánastofnanir og umsýslulánastofnanir skulu beita sömu traustu og vel skilgreindu viðmiðununum vegna lánveitinga í samræmi við kröfur 3. liðar V. viðauka á áhættuskuldbindingar er skulu verðbréfaðar eins og þær sem beitt er vegnaáhættuskuldbindinga sem skal haldið í bókum þeirra. Í þessu skyni skulu útgefandi lánastofnanir og umsýslulánastofnanir nota sama ferli við samþykki og, ef við á, breytingar, endurnýjun og endurfjármögnun útlána. Lánastofnanir skulu einnig beita sömu greiningarstöðlum við þátttöku í verðbréfunum eða sölutryggingu þeirra, sem keyptar eru af þriðja aðila, hvort sem eignarhald þannig hlutdeildar eða sölutryggingar er í veltubók lánastofnana eða utan veltubókar.
    Ef þær kröfur sem um getur í fyrstu undirgrein þessarar greinar eru ekki uppfylltar skal útgáfulánastofnun ekki beita 1. mgr. 95. gr. og þeirri lánastofnun skal ekki heimilt að undanskilja verðbréfaðar áhættuskuldbindingar við útreikning á eiginfjárkröfum samkvæmt þessari tilskipun.
    7. Útgefandi lánastofnanir og umsýslulánastofnanir skulu greina fjárfestum frá umfangi skuldbindinga sinna samkvæmt 1. mgr. um að viðhalda hluta af fjárhagslegri áhættu í verðbréfun. Útgefandi lánastofnanir og umsýslulánastofnanir skulu tryggja að væntanlegir fjárfestar hafi greiðan aðgang að öllum gögnum sem máli skipta að því er varðar lánshæfisgæði og árangur af einstökum áhættuskuldbindingum, sem liggja til grundvallar, sjóðstreymi, og tryggingar að baki verðbréfuðum stöðum, sem og þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að gera ítarlegt og vel ígrundaða álagsprófun á sjóðstreymi og virði trygginga að bakiáhættuskuldbindingum. Í þeim tilgangi skulu mikilvæg og viðeigandi gögn skilgreind við upphaf verðbréfunar og síðan, eftir því sem við á, í samræmi við eðli verðbréfunar.
    8. Beita skal ákvæðum 1.–7. mgr. á nýjar verðbréfanir sem gefnar eru út hinn 1. janúar 2011 eða síðar. Ákvæðum 1.–7. mgr. skal beita á gildandi verðbréfanir eftir 31. desember 2014 ef nýjum áhættuskuldbindingum, sem liggja til grundvallar, er bætt við eða skipt út eftir þann dag. Lögbær yfirvöld geta ákveðið að fella tímabundið úr gildi þær kröfur sem um getur í 1. og 2. mgr. á tímabilum þegar lausafjárstaða er almennt erfið á markaðnum.
    9. Lögbær yfirvöld skulu birta eftirfarandi upplýsingar:
    a)    eigi síðar en 31. desember 2010, almennar viðmiðanir og aðferðafræði sem þau hafa innleitt til að fylgjast með því að farið sé að ákvæðum 1.–7. mgr.
    b)    með fyrirvara um ákvæði, sem mælt er fyrir um í öðrum þætti 1. kafla, samandregna lýsingu á niðurstöðu eftirlits yfirvalda og lýsingu á ráðstöfunum sem gerðar eru í tilvikum þegar ákvæðum 1.–7. mgr. er ekki fylgt, árlega frá 31. desember 2011.
        Þær kröfur sem settar eru fram í þessari grein falla undir aðra undirgrein 144. gr.
    10. Evrópska bankaeftirlitsnefndin skal gefa framkvæmdastjórninni skýrslu árlega um það hvort lögbær yfirvöld fari að ákvæðum þessarar greinar. Evrópska bankaeftirlitsnefndin skal útfæra leiðbeiningar um samleitni eftirlitsaðferða að því er varðar þessa grein, þ.m.t. þær ráðstafanir sem gerðar eru ef ekki er staðið við skuldbindingar um áreiðanleikakönnun og áhættustjórnun.“
31.    Ákvæðum 129. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    í stað b-liðar í 1. mgr. komi eftirfarandi:
        „b)    skipulagning og samræming eftirlitsstarfsemi við áframhaldandi rekstur, þ.m.t. í tengslum við þá starfsemi sem um getur í 123., 124., 136. gr., 5. kafla og V. viðauka, í samstarfi við hlutaðeigandi lögbær yfirvöld,
        c)    skipulagning og samræming eftirlitsstarfsemi í samstarfi við hlutaðeigandi lögbær yfirvöld og, ef nauðsyn krefur, við seðlabanka, við undirbúning fyrir og við neyðarástand, þ.m.t. við neikvæða þróun lánastofnana eða á fjármálamörkuðum, ef mögulegt er með notkun skilgreindra boðskiptaleiða sem auðvelda krísustjórnun.
        Áætlanagerð og samræming eftirlitsstarfa, sem um getur í c-lið, fela í sér sérstakar neyðarráðstafanir, sem um getur í b-lið 3. mgr. 132. gr., undirbúning sameiginlegs mats, framkvæmd viðbragðsáætlana og samskipti við almenning.“
    b)    eftirfarandi málsgrein bætist við:
        „3. Eftirlitsaðili á samstæðugrundvelli og þau lögbæru yfirvöld sem bera ábyrgð á eftirliti í aðildarríki með dótturfyrirtækjum móðurlánastofnana eða eignarhaldsfélögum á fjármálasviði innan Evrópusambandsins skulu gera allt sem í valdi þeirra stendur til að sameiginleg ákvörðun náist um beitingu 123. og 124. gr. til að ákvarða fullnægjandi hlutfall eigin fjár á samstæðugrundvelli með tilliti til fjárhagsstöðu og áhættustefnu og þess hlutfalls sem krafist er skv. 2. mgr. 136. gr. fyrir hverja einingu innan bankasamstæðu og á samstæðugrundvelli.
        Sameiginleg ákvörðun skal tekin innan fjögurra mánaða frá því eftirlitsaðili á samstæðugrundvelli hefur lagt skýrslu með áhættumati á samstæðu í samræmi við 123. og 124. gr. fyrir önnur lögbær yfirvöld sem hlut eiga að máli. Við sameiginlega ákvörðun skal einnig taka með viðeigandi hætti til athugunar áhættumat viðkomandi lögbærra yfirvalda í samræmi við 123. og 124. gr.
        Sameiginleg ákvörðun skal sett fram í skjali þar sem ákvörðunin er vel rökstudd og eftirlitsaðili á samstæðugrundvelli lætur móðurlánastofnuninni innan Evrópusambandsins í té. Ef um ágreining er að ræða skal eftirlitsaðili á samstæðugrundvelli að beiðni einhvers hinna lögbæru yfirvaldanna, sem hlut eiga að máli, hafa samráð við Evrópsku bankaeftirlitsnefndina. Eftirlitsaðila á samstæðugrundvelli er heimilt að hafa samráð við Evrópsku bankaeftirlitsnefndina að eigin frumkvæði.
        Ef lögbær yfirvöld geta ekki tekið sameiginlega ákvörðun innan fjögurra mánaða skal eftirlitsaðili á samstæðugrundvelli taka ákvörðun um beitingu 123. og 124. gr. og 2. mgr. 136. gr. á samstæðugrundvelli, að teknu tilhlýðilegu tilliti til áhættumats á dótturfélögum sem viðkomandi lögbær yfirvöld hafa unnið.
        Viðkomandi lögbær yfirvöld, sem ábyrgð bera á eftirliti með dótturfélögum móðurlánastofnana eða eignarhaldsfélögum á fjármálasviði innan Evrópusambandsins, skulu taka ákvörðun um beitingu 123. og 124. gr. og 2. mgr. 136. gr. á grundvelli einstakra eininga eða samstæðuhluta, að teknu tilhlýðilegu tilliti til álits og fyrirvara eftirlitsaðila á samstæðugrundvelli.
        Ákvarðanir skulu settar fram í skjali ásamt ítarlegum rökstuðningi við þær og skal tekið tillit til áhættumats, álits og fyrirvara hinna lögbæru yfirvaldanna sem þau láta í ljós á fjögurra mánaða tímabilinu. Eftirlitsaðili á samstæðugrundvelli lætur skjalið í té öllum lögbærum yfirvöldum, sem hlut eiga að máli, og móðurlánastofnuninni innan Evrópusambandsins.
        Ef samráð hefur verið haft við evrópsku bankaeftirlitsnefndina skulu öll lögbær yfirvöld taka tillit til þess samráðs og gera grein fyrir hvers konar frávikum frá því.
        Sú sameiginlega ákvörðun sem um getur í fyrstu undirgrein og ákvarðanir, sem lögbær yfirvöld taka, ef sameiginleg ákvörðun hefur ekki náðst, skulu viðurkenndar sem ákvarðandi og skulu lögbær yfirvöld í viðkomandi aðildarríki beita þeim.
        Þá sameiginlegu ákvörðun sem um getur í fyrstu undirgrein og ákvarðanir, sem lögbær yfirvöld taka, ef sameiginleg ákvörðun hefur ekki náðst í samræmi við fjórðu og fimmtu undirgrein, skal uppfæra árlega eða, í undantekningartilvikum, ef lögbært yfirvald, sem ber ábyrgð á eftirliti með dótturfélögum móðurlánastofnunar eða eignarhaldsfélags á fjármálasviði innan Evrópusambandsins, leggur fram skriflega og vel rökstudda beiðni til eftirlitsaðila á samstæðugrundvelli um að uppfæra ákvörðun um beitingu 2. mgr. 136. gr. Í síðara tilvikinu getur uppfærslan verið á tvíhliða grundvelli milli eftirlitsaðila á samstæðugrundvelli og þess lögbæra yfirvalds sem leggur fram beiðnina.
        Evrópska bankaeftirlitsnefndin skal útfæra leiðbeiningar um samleitni eftirlitsaðferða að því er varðar ferli við sameiginlega ákvarðanatöku sem um getur í þessari grein og með tilliti til beitingar 123. og 124. gr. og 2. mgr. 136. gr. með það fyrir augum að greiða fyrir sameiginlegum ákvörðunum.“
32.    Í stað 1. mgr. 130. gr. komi eftirfarandi:
    „1. Ef upp kemur neyðarástand, þ.m.t. neikvæð þróun á fjármálamörkuðum, sem hugsanlega teflir í tvísýnu lausafjárstöðu og stöðugleika fjármálakerfisins í hverju því aðildarríki þar sem einingar samstæðu hafa verið viðurkenndar eða þar sem mikilvæg útibú, sem um getur í a-lið 42. gr., hafa verið stofnuð, skal eftirlitsaðili á samstæðugrundvelli, með fyrirvara um 2. þátt 1. kafla, gera yfirvöldunum, sem um getur fjórðu undirgrein 49. gr. og 50 gr., viðvart eins fljótt og við verður komið og veita allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að þau geti leyst sín verk af hendi. Þessar skuldbindingar skulu eiga við um öll lögbær yfirvöld skv. 125. og 126. gr. og um lögbær yfirvöld sem tilgreind eru í 1. mgr. 129. gr.
    Ef það yfirvald sem um getur í fjórðu málsgrein 49. gr. verður vart við ástand sem lýst er í fyrstu undirgrein þessarar greinar skal það gera lögbærum yfirvöldum, sem hlut eiga að máli og um getur í 125. og 126. gr., viðvart eins fljótt og við verður komið.
    Ef unnt er skulu lögbært yfirvald og það yfirvald sem um getur í fjórðu málsgrein 49. gr. nota þær skilgreindu samskiptaleiðir sem fyrir hendi eru.“
33.    Eftirfarandi grein bætist við:
     „131 gr. a
    1. Eftirlitsaðili á samstæðugrundvelli skal koma á fót samtökum eftirlitsaðila til þess að greiða fyrir framkvæmd þeirra verkefna sem um getur í 129. gr. og 1. mgr. 130 gr., með fyrirvara um trúnaðarkvaðir 2. mgr. þessarar greinar og samræmi við lög Bandalagsins, og tryggja viðeigandi samræmingu og samstarf við viðkomandi lögbær yfirvöld þriðja lands, eftir því sem við á.
    Samtök eftirlitsaðila skulu setja ramma fyrir framkvæmd eftirlitsaðila á samstæðugrundvelli og hinna lögbæru yfirvaldanna, sem hlut eiga að máli, á eftirfarandi verkefnum:
    a)    að skiptast á upplýsingum,
    b)    að ná samkomulagi um frjálsa skiptingu verkefna og frjálsa dreifingu ábyrgðar, eftir því sem við á,
    c)    að ákvarða áætlanir um eftirlitsaðgerðir á grundvelli áhættumats samstæðunnar í samræmi við 124. gr.,
    d)    að auka skilvirkni eftirlits með því að koma í veg fyrir óþarfa tvítekningu eftirlitskrafna, þ.m.t. í tengslum við kröfur um upplýsingar sem um getur í 2. mgr. 130. gr. og 2. mgr. 132. gr.
    e)    að beita varfærniskröfum með samræmdum hætti samkvæmt þessari tilskipun þvert á allar einingar innan bankasamstæðu, með fyrirvara um aðra möguleika og ákvörðunarfrelsi sem löggjöf Bandalagsins býður upp á,
    f)    að beita c-lið 1. mgr. 129. gr. með tilliti til vinnu á öðrum vettvangi sem kann að verða komið á fót á þessu sviði.
    Lögbær yfirvöld, sem eru þátttakendur í samtökum eftirlitsaðila, skulu vinna náið saman. Trúnaðarkvaðir, sem um getur í 2. þætti 1. kafla, skulu ekki koma í veg fyrir að lögbær yfirvöld geti skipst á trúnaðarupplýsingum innan samtaka eftirlitsaðila. Stofnsetning og rekstur samtaka eftirlitsaðila skal ekki hafa áhrif á réttindi og skyldur lögbærra yfirvalda samkvæmt þessari tilskipun.
    2. Stofnsetning og rekstur samtakanna skulu byggjast á skriflegum samþykktum sem um getur í 131. gr. og ákvarðaðar eru að höfðu samráði eftirlitsaðila á samstæðugrundvelli við hlutaðeigandi lögbær yfirvöld.
    Evrópska bankaeftirlitsnefndin skal útfæra leiðbeiningar um rekstrarþætti samtaka, þ.m.t. í tengslum við 3. mgr. 42. gr. a.
    Lögbær yfirvöld, sem bera ábyrgð á eftirliti með dótturfélögum móðurlánastofnana innan Evrópusambandsins eða móðureignarhaldsfélagi á fjármálasviði innan Evrópusambandsins, og lögbær yfirvöld í gistilandi, þar sem stofnað er mikilvægt útibú, sem um getur í 42. gr. a, seðlabankar, þar sem við á, og lögbær yfirvöld þriðja lands, ef við á, með fyrirvara um trúnaðarkvaðir sem eru jafngildar, að áliti allra lögbærra yfirvalda, kröfunum, sem settar eru fram í 2. þætti 1. kafla, er heimilt að taka þátt í starfi samtaka eftirlitsaðila.
    Eftirlitsaðili á samstæðugrundvelli skal veita samtökunum formennsku og ákveða hvaða lögbæru yfirvöld taka þátt í fundum eða starfsemi samtakanna. Eftirlitsaðili á samstæðugrundvelli skal upplýsa alla aðila samtakanna ítarlega fyrirfram um skipulag þess háttar funda, meginumræðuefni og starfsemi sem taka skal til athugunar. Eftirlitsaðili á samstæðugrundvelli skal einnig halda öllum aðilum nefndar að vel og tímanlega upplýstum um aðgerðir, sem koma til framkvæmda á þessum fundum, eða ráðstafanir sem gerðar eru.
    Við ákvörðun eftirlitsaðila á samstæðugrundvelli skal tekið tillit til mikilvægis þeirrar eftirlitsstarfsemi sem er fyrirhuguð eða samræmd að því er varðar þau yfirvöld, einkum hugsanleg áhrif á stöðugleika fjármálakerfisins innan viðkomandi aðildarríkja, sem um getur í 3. lið 40. gr., og skuldbindinga sem um getur í 2. mgr. 42. gr. a.
    Eftirlitsaðili á samstæðugrundvelli skal, með fyrirvara um trúnaðarkvaðir sem um getur í 2. þætti 1. kafla, upplýsa evrópsku bankaeftirlitsnefndina um starfsemi samtaka eftirlitsaðila, m.a. þegar um er að ræða neyðarástand, og veita samtökunum allar upplýsingar sem skipta máli að því er varðar samleitni eftirlits.“
34.    Ákvæðum 132. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    í d-lið 1. mgr. komi tilvísun í 1. mgr. 136. gr. í stað tilvísunar í 136. gr.,
    b)    í b-lið 3. mgr. komi tilvísun í 1. mgr. 136. gr. í stað tilvísunar í 136. gr.,
35.    Ákvæðum 150. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    eftirfarandi komi í stað k- og l-liðar 1. mgr.:
        k)    skrár og flokkanir á liðum utan efnahagsreiknings í II. og IV. viðauka,
        l)    breytingar á ákvæðunum í III. og V.–XII. viðauka í því skyni að taka tillit til framvindu á fjármálamörkuðum (einkum nýrra fjármálaafurða) eða í reikningsskilastöðlum eða til krafna, sem taka mið af löggjöf Bandalagsins, eða með tilliti til samleitni eftirlitsaðferða.“
    b)    í stað c-liðar 2. mgr. komi eftirfarandi:
        „c)    nánari útlistun á undanþágum sem kveðið er á um í 113. gr.:“
36.    Í 153. gr. komi eftirfarandi í stað þriðju málsgreinar:
    „Við útreikning á fjárhæðum áhættuveginna áhættuskuldbindinga, að því er varðar 4. lið 1. hluta VI. viðauka, skal, fram til 31. desember 2015, nota sömu áhættuvog á áhættuskuldbindingar gagnvart ríkisstjórnum eða seðlabönkum aðildarríkja, sem tilgreindar eru og fjármagnaðar í innanlandsgjaldmiðli hvaða aðildarríkis sem er, og notuð yrði á slíkar áhættuskuldbindingar sem tilgreindar eru og fjármagnaðar í landsgjaldmiðli þeirra.“
37.    eftirfarandi liðir bætast við 154. gr.:
    „8. Lánastofnanir, sem fylgja ekki þeim takmörkunum sem settar eru fram í lið 1a í 66. gr. fyrir 31. desember 2010, skulu vinna áætlanir og ferla til þess að leysa úr þeim aðstæðum fyrir þá daga sem tilgreindir eru í 9. mgr. þessarar greinar.
    Endurskoða skal þessar ráðstafanir skv. 124. gr.
    9. Gerningar sem fyrir 31. desember 2010 töldust samkvæmt landslögum jafngildir þeim liðum sem um getur í a-, b- og c-lið 57. gr. en falla ekki undir a-lið 57. gr. eða eru ekki í samræmi við þær viðmiðanir sem settar eru fram í a-lið 63. gr., teljast falla undir ca-lið 57. gr. fram til 31. desember 2040, með fyrirvara um eftirfarandi takmarkanir:
    a)    allt að 20% af samtölu a- til ca-liðar 57. gr., að frádreginni samtölu i-, j- og k-liðar 57. gr., 10 til 20 árum eftir 31. desember 2010.
    b)    allt að 10% af samtölu a- til ca-liðar 57. gr., að frádreginni samtölu i-, j- og k-liðar 57. gr. 20 til 30 árum eftir 31. desember 2010.
    Evrópska bankaeftirlitsnefndin skal hafa eftirlit með útgáfu þessara gerninga fram til 31. desember 2010.
    10. Að því er varðar 5. þátt skulu eignaliðir, sem fela í sér kröfur á og aðrar áhættuskuldbindingar gagnvart stofnunum, sem stofnað var til fyrir 31. desember 2009, áfram falla undir sömu meðferð og beitt er í samræmi við 2. mgr. 115. gr. og 116. gr. eins og þær voru fyrir 7. desember 2009, en þó ekki kengur en til 31. desember 2012.
    11. Fram til 31. desember 2012 skal það tímabil sem um getur í 3. mgr. vera sex mánuðir.“
38.    Í stað 156. gr. komi eftirfarandi:
     „156. gr.
    Framkvæmdastjórnin skal, í samstarfi við aðildarríkin og að teknu tilliti til framlags Seðlabanka Evrópu, fylgjast reglulega með því hvort þessi tilskipun í heild, ásamt tilskipun 2006/ 49/EB, hafi veruleg áhrif á hagsveifluna og skal, í ljósi þeirrar skoðunar, íhuga hvort þörf sé á ráðstöfunum til úrbóta.
    Á grundvelli þessarar greiningar og að teknu tilliti til framlags Seðlabanka Evrópu skal framkvæmdastjórnin taka saman tveggja ára skýrslu og senda Evrópuþinginu og ráðinu ásamt viðeigandi tillögum. Við vinnslu skýrslunnar skal tekið fullt tillit til framlaga frá lántökum og lánveitendum.
    Framkvæmdastjórnin skal eigi síðar en 31. desember 2009 endurskoða þessa tilskipun í heild og fjalla um þörf fyrir betri greiningu á vandamálum sem lúta að þjóðhagslegum stöðugleika og á viðbrögðum við þeim, þ.m.t. rannsókn á:
    a)    ráðstöfunum, sem draga úr upp- og niðursveiflu hagsveiflunnar, þ.m.t. þörfin á að lánastofnanir byggi upp sveiflujöfnunarsjóði þegar vel árar sem séu mótvægi gegn sveiflum og megi nýta í niðursveiflu.
    b)    grunnforsendum útreikninga á eiginfjárkröfum í þessari tilskipun og
    c)    viðbótarráðstafanir við áhættutengdar kröfur um að lánastofnanir stuðli að því að vogun innan bankakerfisins sé haldið í skefjum.
    Framkvæmdastjórnin skal leggja skýrslu um ofangreind atriði fyrir Evrópuþingið og ráðið, ásamt tillögum, eftir því sem við á.
    Framkvæmdastjórnin skal, eins fljótt og unnt er og eigi síðar en 31. desember 2009, gefa Evrópuþinginu og ráðinu skýrslu um þörf fyrir frekari umbætur á eftirlitskerfinu, m.a. á viðeigandi greinum þessarar tilskipunar, og hvers konar viðeigandi tillögur að nýrri lagasetningu í samræmi við viðeigandi málsmeðferð samkvæmt sáttmálanum.
    Eigi síðar en 1. janúar 2011 skal framkvæmdastjórnin endurskoða þá framþróun sem orðið hefur hjá evrópsku bankaeftirlitsnefndinni í átt að samræmdri framsetningu, tíðni og dagsetningum skýrslugjafar sem um getur í 2. mgr. 74. gr. Framkvæmdastjórnin skal leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið á grundvelli þessarar endurskoðunar.
    Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 31. desember 2011, endurskoða og gefa skýrslu um beitingu þessarar tilskipunar með sérstöku tilliti til allra hliða á 68.–73. gr., 7. mgr. 80. gr. og 8. mgr. 80. gr. og beitingu hennar á smálánastarfsemi, og skal hún senda þessa skýrslu til þingsins og ráðsins ásamt viðeigandi tillögum.
    Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 31. desember 2011, endurskoða og gefa skýrslu um beitingu 4. mgr. 113. gr., þ.m.t. hvort undanþágur skuli vera háðar landsbundnu ákvörðunarvaldi, og hún skal senda þessa skýrslu til Evrópuþingsins og ráðsins ásamt viðeigandi tillögum. Að því er varðar hugsanlegt afnám landsbundins ákvörðunarvalds skv. c-lið 4. mgr. 113. gr. og mögulegrar beitingar á vettvangi Evrópusambandsins skal endurskoðunin einkum taka tillit til skilvirkni áhættustjórnunar samstæðu þegar tryggja skal að fullnægjandi verndarráðstafanir séu fyrir hendi til að tryggja fjárhagslegan stöðugleika innan allra aðildarríkja þar sem eining innan samstæðu er stofnsett.
    Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 31. desember 2009, endurskoða og gefa skýrslu um ráðstafanir til að auka gagnsæi viðskipta utan skipulagðra verðbréfamarkaða, þ.m.t. á skuldatryggingamarkaði, s.s. með því að uppgjör eigi sér stað hjá milligönguaðilum, og hún skal senda þessa skýrslu til Evrópuþingsins og ráðsins ásamt viðeigandi tillögum.
    Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 31. desember 2009, gefa skýrslu um væntanleg áhrif a-liðar 122. gr. og senda skýrslu þar að lútandi til Evrópuþingsins og ráðsins, ásamt viðeigandi tillögu að breytingum. Framkvæmdastjórnin skal taka saman skýrsluna að höfðu samráði við Evrópsku bakaeftirlitsnefndina. Í skýrslunni skal einkum tekið til athugunar hvort lágmarkskröfur um eignarhald skv. 1. mgr. aliðar 122. gr. stuðli að því markmiði að ná fram aukinni samræmingu milli hagsmuna útgefanda eða umsýsluaðila og fjárfesta og auki fjárhagslegan stöðugleika, og hvort rétt væri að hækka lágmarkskröfur um eignarhald með hliðsjón af alþjóðlegri þróun.
    Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 1. janúar 2012, gefa skýrslu til Evrópuþingsins og ráðsins um beitingu og skilvirkni a-liðar 122 gr. í ljósi þróunar á alþjóðlegum mörkuðum.“
39.    Ákvæðum III. viðauka er breytt sem hér segir:
    a)    í 5. lið 1. hluta bætist eftirfarandi málsliður við:
        „Samkvæmt þeirri aðferð sem sett er fram í 6. hluta þessa viðauka (IMM) má fara með öll skuldajöfnunarsöfn með einum mótaðila sem eina skuldajöfnun ef neikvætt hermt markaðsvirði einstakra skuldajöfnunaraðgerða er haft jafnt og 0 við mat á væntri áhættu (EE).“
    b)    í stað 3. liðar 2. hluta komi eftirfarandi:
        „3.    Ef lánastofnun kaupir útlánaafleiðuvörn gegn áhættu utan veltubókar eða gegn mótaðila- og útlánaáhættu, er henni heimilt að reikna eiginfjárkröfur fyrir áhættuvörðu eignina í samræmi við 83. til 92. lið 3. hluta VII. viðauka, eða með fyrirvara um samþykki lögbærra yfirvalda, í samræmi við 4. lið 1. hluta VII. viðauka eða 96.–104. lið 4. hluta VII. viðauka.
            Í þeim tilvikum, og þegar kosturinn í öðrum málslið 11. liðar II. viðauka tilskipunar 2006/49/EB er ekki tekinn, er virði áhættu mótaðila- og útlánaáhættu þessara útlánaafleiða haft núll.
            Stofnun getur þó við útreikning á eiginfjárkröfum vegna mótaðilaáhættu kosið, með samræmdum hætti, að telja með allar útlánaafleiður sem ekki eru í veltubók og keyptar eru sem vörn gegn áhættu utan veltubókar eða gegn mótaðila- og útlánaáhættu, ef útlánavörnin er viðurkennd samkvæmt þessari tilskipun.“
    c)    í stað 15. liðar 5. hluta komi eftirfarandi:
        „15.    Eitt áhættuvarnarsafn er fyrir hvern útgefanda viðmiðunarskuldagernings sem liggur til grundvallar skuldatryggingu. Með eignakörfur skuldatrygginga, sem byggjast á því hver eignanna er sú „n- ta“ til að lenda í vanskilum, skal farið sem hér segir:
            a)    fjárhæð áhættustöðu í viðmiðunarskuldagerningi í eignakörfu, sem liggur til grundvallar „n-ta til að lenda í vanskilum“ skuldatryggingar, er raunveruleg grundvallarfjárhæð viðmiðunarskuldagernings, margfölduð með leiðréttum gildistíma „n- ta til að lenda í vanskilum“-afleiðu með hliðsjón af breytingu á áhættuálagi viðmiðunarskuldagernings,
            b)    eitt áhættuvarnarsafn er fyrir hvern viðmiðunarskuldagerning í eignakörfu sem liggur til grundvallar skuldatryggingu sem er „n-ta til að lenda í vanskilum“; áhættustöður vegna mismunandi „n-ta til að lenda í vanskilum“-skuldatryggingum skulu ekki teljast til sama áhættuvarnarsafns,
            c)    margfaldari mótaðila- og útlánaáhættu, sem á við hvert áhættuvarnarsafn, sem stofnað er til vegna einhvers viðmiðunarskuldagernings afleiðu, sem er „n-ta til að lenda í vanskilum“, er 0,3 % fyrir viðmiðunarskuldagerninga sem hafa lánshæfismat frá viðurkenndri utanaðkomandi lánshæfismatsstofnun, sem er jafngilt lánshæfisgæðaþrepi 1–3, og 0,6% fyrir aðra skuldagerninga.“
40.    Ákvæðum V. viðauka er breytt sem hér segir:
    a)    í stað 8. liðar komi eftirfarandi:
        „8.    Áhætta, sem verður til vegna verðbréfunarviðskipta, þar sem lánastofnanir eru fjárfestir, útgáfulánastofnun eða umsýslulánastofnun, þ.m.t. orðsporsáhætta (sem er t.d. í tengslum við flókna gerninga eða afurðir), skal metin og minnkuð fyrir tilstilli viðeigandi stefna og verklagsreglna til að tryggja að efnahagslegt inntak viðskiptanna endurspeglist að fullu í áhættumatinu og stjórnarákvörðunum.“
    b)    í stað 14. liðar komi eftirfarandi:
        „14.    Traustar áætlanir, stefnur, ferlar og kerfi skulu vera fyrir hendi til að unnt sé að greina, meta, stjórna og hafa eftirlit með lausafjáráhættu innan viðeigandi tímaramma, þ.m.t. innan dags, til að tryggja að lánastofnanir viðhaldi fullnægjandi varaforða lausafjár. Þessar áætlanir, stefnur, ferlar og kerfi skulu sniðin að atvinnugreinum, gjaldmiðlum og einingum og skulu fela í sér fullnægjandi aðferðir til skiptingar kostnaðar, ávinnings og áhættu vegna lausafjár.“
    c)    eftirfarandi liður bætist við:
        „14a.    Þær áætlanir, stefnur, ferlar og kerfi, sem um getur í 14. lið, skulu vera í réttu hlutfalli við áhættustefnu, það hversu flókin starfsemi lánastofnunar er, umfang hennar og áhættuþol, sem framkvæmdastjórn ákveður og endurspeglar mikilvægi lánastofnunar innan hvers aðildarríkis sem hún stundar viðskipti í. Lánastofnanir skulu upplýsa allar viðeigandi viðskiptasviða um áhættuþol sitt.“
    d)    í stað 15. liðar komi eftirfarandi:
        „15.    Lánastofnanir skulu þróa aðferðafræði fyrir skilgreiningu, mat, stjórnun og eftirlit með fjármögnunarstöðum. Sú aðferðafræði skal fela í sér núverandi og áætlað sjóðstreymi, sem máli skiptir, í eignum og af eignum, skuldir, liði utan efnahagsreiknings, þ.m.t. óvissar skuldbindingar og hugsanleg áhrif orðsporsáhættu.
        16.    Lánastofnanir skulu greina á milli veðsettra og veðbandalausra eigna sem eru fyrirliggjandi á hverjum tíma, einkum þegar um er að ræða neyðarástand. Þær skulu einnig taka tillit til lögaðila þar sem eignirnar eru staðsettar, þess lands þar sem eignirnar eru löglega skráðar í embættisbók eða í reikning sem og hæfi þeirra og skulu hafa eftirlit með því hvernig hægt er að koma hreyfingu á eignir með tímanlegum hætti.
        17.    Lánastofnanir skulu einnig taka tillit til gildandi takmarkana í lögum, reglum og rekstri á yfirfærslu lausafjár og veðbandalausra eigna milli eininga, bæði innan og utan Evrópska efnahagssvæðisins.
        18.    Lánastofnun skal nota ýmis tæki til að draga úr lausafjáráhættu, þ.m.t. kerfi með takmörkunum og varaforða lausafjár, svo að hún geti staðið af sér margvíslegt álag, og fjármagnsskipan, sem er með viðunandi dreifingu, og aðgang að fjármögnun. Þetta fyrirkomulag skal endurskoðað reglulega.
        19.    Aðrar aðstæður er varða lausafjárstöður og minnkun áhættu skulu hafðar í huga og forsendur, sem liggja til grundvallar fjármagnsstöðu, skulu endurskoðaðar reglulega. Af þeim sökum skal við aðrar aðstæður einkum tekið tillit til liða utan efnahagsreiknings og annarra óvissra skuldbindinga, m.a. ef lánastofnun í tengslum við einingu um sérverkefni á sviði verðbréfunar eða öðru sviði er útgefandi eða veitir umtalsverðan lausafjárstuðning.
        20.    Lánastofnanir skulu taka tillit til hugsanlegra áhrifa af aðstæðum sem varða tilteknar stofnanir, markaði og aðrar blandaðar aðstæður. Taka skal til athugunar mismunandi tímaramma og mismunandi álagsstig við tiltekin skilyrði.
        21.    Lánastofnanir skulu aðlaga áætlanir sínar, innri stefnumörkun og takmarkanir á lausafjáráhættu og þróa skilvirkar viðbragðsáætlanir, með tilliti til niðurstöðu þeirra aðstæðna sem um getur í 19. lið.
        22.    Til þess að fást við lausafjárvanda skulu lánastofnanir hafa tiltækar viðbragðsáætlanir þar sem settar eru fram fullnægjandi áætlanir og viðeigandi framkvæmdarráðstafanir til þess að takast á við hugsanlegan lausafjárskort. Þessar áætlanir skulu prófaðar reglulega, uppfærðar á grundvelli niðurstaðna annarra aðstæðna, sem settar eru fram í 19. lið, gefnar skýrslur um þær til yfirstjórnar sem hún samþykkir þannig að unnt sé að leiðrétta innri stefnumörkun og ferli með viðeigandi hætti.“
41.    Eftirfarandi liður bætist við 2. þátt, III. hluta, IX. viðauka:
    „7a.    Auk þess skulu lögbær yfirvöld gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja, með tilliti til lánshæfismats í tengslum við samsetta fjármálagerninga, að utanaðkomandi lánshæfismatsstofnun sé skuldbundin til að birta opinberlega útskýringar á því hvernig afrakstur af eignum í safni hefur áhrif á mat hennar á lánshæfi.“
42.    Eftirfarandi breytingar eru gerðar á XI. viðauka:
    a)    í stað e-liðar 1. liðar komi eftirfarandi:
        „e)    áhættuskuldbindingar og ráðstafanir lánastofnunar vegna lausafjáráhættu og stýringu á henni, þ.m.t. þróun atburðarásargreiningar, stjórnun þátta, sem eiga að draga úr áhættu (einkum stigi, samsetningu og gæði lausafjárvarasjóða), og skilvirkar viðbragðsáætlanir,“
    b)    eftirfarandi liður bætist við:
        „1a.    Að því er varðar e-lið 1. liðar skulu lögbær yfirvöld reglulega gera ítarlegt mat á stýringu lausafjáráhættu lánastofnana í heild sinni og stuðla að þróun traustrar innri aðferðafræði. Við framkvæmd mats skulu lögbær yfirvöld taka tillit til hlutverks lánastofnunar á fjármálamarkaði. Lögbær yfirvöld í einu aðildarríki skulu því með viðeigandi hætti taka til athugunar áhrif ákvarðana þeirra á stöðugleika fjármálakerfis allra annarra aðildarríkja sem hlut eiga að máli.“
43.    í stað a- og b-liðar, 3. liðar, 2. hluta, XII. viðauka komi eftirfarandi:
    „a)    yfirlit yfir skilmála og skilyrði helstu þátta allra liða eigin fjár og þeirra þátta sem liggja til grundvallar, þ.m.t. gerningar, sem um getur í ca-lið 57. gr., gerningar þar sem skilmálar kveða á um hvata fyrir lánastofnunina til að innleysa þá, og gerninga sem falla undir 8. og 9. lið 154. gr.,
    b)    fjárhæð upphaflegs eigin fjár með aðgreindum upplýsingum um alla jákvæða liði og frádráttarliði, heildarfjárhæð gerninga, sem um getur í ca-lið 57. gr., og gerninga, þar sem skilmálar kveða á um hvata fyrir lánastofnun til að innleysa þá, skal einnig geta sérstaklega; í þeim upplýsingum skulu þeir gerningar sem falla undir 8. og 9. lið 154. gr. tilgreindir sérstaklega,“

2. gr.
Breytingar á tilskipun 2006/49/EB

Eftirfarandi breytingar eru hér með gerðar á tilskipun 2006/49/EB:
1.    í stað 1. mgr. 12. gr. kemur eftirfarandi:
    „„Upphaflegt eigið fé“: samtala a- til ca-liðar, að frádreginni samtölu i-, j- og k-liðar 57. gr. tilskipunar 2006/48/EB.“
2.    Ákvæðum 28. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    í stað 1. mgr. komi eftirfarandi:
        „1. Stofnanir, að undanskildum fjárfestingarfyrirtækjum sem uppfylla skilyrðin, sem sett eru fram í 2. eða 3. mgr. 20. gr. þessa tilskipunar, skulu hafa eftirlit með og stjórna stórum áhættuskuldbindingum sínum í samræmi við 106.–118. gr. tilskipunar 2006/48/EB.“
    b)    ákvæði 3. mgr. falli brott,
3.    í stað 4. mgr. 30. gr. komi eftirfarandi:
    „4. Þrátt fyrir 3. mgr. geta lögbær yfirvöld leyft að farið sé með eignir, í formi krafna og annarra áhættuskuldbindinga gagnvart viðurkenndum fjárfestingarfyrirtækjum í þriðju löndum og viðurkenndum greiðslujöfnunarstöðvum og verðbréfamörkuðum, á sama hátt og mælt er fyrir um í 1. mgr. 111. gr. tilskipunar 2006/48/EB og 2. mgr. 106. gr. þeirrar tilskipunar.“
4.    Ákvæðum 31. gr. er breytt sem hér segir:
    a)    í stað a- og b-liðar 1. mgr. komi eftirfarandi:
        „a)    áhætta í viðskiptum utan veltubókar gagnvart viðskiptavini eða hópi viðskiptavina er um ræðir fari ekki yfir mörkin sem eru sett í 1. lið, 111. gr. tilskipunar 2006/48/EB, en þessi mörk eru reiknuð með hliðsjón af eigin fé eins og tilgreint er í þeirri tilskipun þannig að það sem er umfram sé eingöngu innan veltubókarinnar,
        b)    stofnunin uppfylli viðbótareiginfjárkröfur með hliðsjón af því að farið er yfir mörkin sem sett eru í 1. mgr. 111. gr. tilskipunar 2006/48/EB, en þessar viðbótareiginfjárkröfur eru reiknaðar út í samræmi við VI. viðauka við þessa tilskipun,“
    b)    í stað e-liðar fyrstu málsgreinar komi eftirfarandi:
        „e)    stofnanir skulu þriðja hvern mánuð tilkynna lögbærum yfirvöldum um öll tilvik þar sem farið hefur verið yfir mörkin sem sett eru í 1. mgr. 111. gr. tilskipunar 2006/48/EB á næstliðnum þremur mánuðum.“
    c)    eftirfarandi texti komi í stað annarrar málsgreinar:
        „Í tengslum við e-lið, skal, í hverju tilviki þar sem farið hefur verið yfir mörkin, tilkynna fjárhæð umframáhættunnar og tilgreina nafn viðkomandi viðskiptavinar.“
5.    í stað fyrstu undirgreinar 1. mgr. 32. gr. komi eftirfarandi:
    „1. Lögbær yfirvöld skulu koma á málsmeðferð til að koma í veg fyrir að stofnanir forðist vísvitandi viðbótareiginfjárkröfur sem þær uppfylltu annars vegna áhættuskuldbindinga sem eru yfir mörkunum í 1. mgr. 111. gr. tilskipunar 2006/ 48/EB, þegar þessar áhættuskuldbindingar hafa varað lengur en í tíu daga, með því að flytja umræddar áhættuskuldbindingar tímabundið í annað félag, hvort sem það er innan sömu samstæðu eða ekki, og/eða með því að takast á hendur sýndarviðskipti til að upphefja áhættuna meðan á tíu daga tímabilinu stendur og mynda nýja áhættu.“
6.    Eftirfarandi málsgrein bætist við í 35. gr.:
    „6. Fjárfestingarfyrirtæki skulu falla undir samræmda framsetningu, tíðni og dagsetningar skýrslugjafar sem um getur í 2. mgr. 74. gr. tilskipunar 2006/48/EC.“
7.    Eftirfarandi málsgrein bætist við í 38. gr.:
    „3. Ákvæði 42. gr. a í tilskipun 2006/48/EB, að undanskildum a-lið 1. mgr., skal beita, að breyttu breytanda, að því er varðar eftirlit með fjárfestingarfyrirtækjum nema fjárfestingarfyrirtæki uppfylli skilyrðið sem sett eru fram í 2. mgr. 20. gr., 3. mgr. 20. gr. eða 1. mgr. 46. gr. þessarar tilskipunar.“
8.    Í 1. mgr. 45. gr. komi dagsetningin ,,31. desember 2014“ í stað „31. desember 2010“.
9.     Í 47. gr. komi dagsetningin „31. desember 2010“ í stað „31. desember 2009“ og vísun í 4. og 8. lið VIII. viðauka tilskipunar 93/6/EBE komi í stað vísunar í 4. og 8. lið V. viðauka.
10.    Í 1. mgr. 48. gr. komi dagsetningin „31. desember 2014“ í stað „31. desember 2010“.

3. gr.
Breyting á tilskipun 2007/64/EB

Eftirfarandi komi í stað a-liðar 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 2007/64/EB:
„a)    lánastofnana í skilningi a-liðar 1. mgr. 4. gr. í tilskipun 2006/48/EB, þ.m.t. útibú í skilningi 3. mgr. 4. gr. sömu tilskipunar, staðsett í Bandalaginu, frá lánastofnunum sem eru með aðalstöðvar sínar innan eða, í samræmi við 38. gr. þeirrar tilskipunar, utan Bandalagsins,“

4. gr.
Lögleiðing

1. Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 31. október 2010.
Þau skulu beita þessum ákvæðum frá 31. desember 2010.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2. Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi tekur til.

5. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

6. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Strassborg 16. september 2009.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
J. BUZEK C. MALMSTRÖM
forseti. forseti.

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 181, 15.7.2010, bls. 18, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 35, 15.7.2010, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 302, 17.11.2009, bls. 97.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(3)    Stjtíð. ESB L 257, 25.9.2008, bls. 27, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 58, 25.9.2008, bls. 9.
Neðanmálsgrein: 5
(4)    Stjtíð. ESB L 339, 18.12.2008, bls. 103, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 79, 18.12.2008, bls. 11.
Neðanmálsgrein: 6
(1)    Álit frá 24. mars 2009 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB).
Neðanmálsgrein: 7
(2)    Stjtíð. ESB C 93, 22.4 2009, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 8
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 6. maí 2009 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB) og ákvörðun ráðsins frá 27. júlí 2009.
Neðanmálsgrein: 9
(4)    Stjtíð. ESB L 177, 30.6.2006, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 10
(1)    Stjtíð. EB L 372, 31. 12.1986, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 11
(1)    Stjtíð. ESB L 177, 30.6.2006, bls. 201.
Neðanmálsgrein: 12
(1)    Sjá þessi Stjórnartíðindi, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 13
(1)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 14
(1)    Stjtíð. ESB C 321, 31.12 2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 15
(2)    Stjtíð. ESB L 319, 5.12.2007, bls. 1.