Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 677. máls.

Þskj. 1194  —  677. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um fullgildingu Singapúr-samnings um vörumerkjarétt.

(Lögð fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd Singapúr-samning um vörumerkjarétt sem var gerður 27. mars 2006.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á Singapúr- samningi um vörumerkjarétt sem var gerður á ríkjaráðstefnu á vegum Alþjóðahugverkastofnunarinnar (World Intellectual Property Organization, WIPO) um samþykkt endurskoðaðs samnings um vörumerkjarétt sem haldin var í Singapúr 13.–28. mars 2006. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal með tillögu þessari.
    Singapúr-samningurinn er byggður á samningi WIPO um vörumerkjarétt frá árinu 1994, sem Ísland er ekki aðili að, en hefur mun víðara gildissvið en hann. Hann öðlaðist gildi 16. mars 2009 eða þremur mánuðum eftir að tíu ríki höfðu fullgilt hann. Samningurinn var undirritaður af Íslands hálfu 31. janúar 2007. WIPO hefur yfirumsjón með samningnum.
    Markmið samningsins er að koma á samræmdu alþjóðlegu skipulagi fyrir skráningu vörumerkja. Hann tekur tillit til breytinga sem orðið hafa í samskiptum og gerir t.d. ráð fyrir að umsóknir um vörumerki geti verið með rafrænum hætti.
    Samningurinn tekur til allra merkja sem heimilt er að skrásetja í aðildarríkjum hans. Þetta er í fyrsta sinn sem óhefðbundin merki eru viðurkennd í alþjóðasamningi um vörumerki. Samningurinn tekur m.a. til heilmynda, mynda í þrívídd, litar, staðsetningar og hreyfingar merkja og einnig ósýnilegra merkja, svo sem hljóð-, lyktar-, bragð- og snertimerkja. Gert er m.a. kleift að tilgreina merkin með ljósmyndum.
    Með samningnum er komið á þingi aðildarríkja sem getur breytt reglugerðum sem settar eru á grundvelli samningsins. Þar með er komið á sveigjanleika í vernd vörumerkja þannig að auðveldara verður að bregðast við breyttum aðstæðum og nýrri þróun.
    Hinn 1. mars 2011 voru aðildarríki að Singapúr-samningnum 24 talsins: Ástralía, Bandaríkin, Búlgaría, Danmörk, Eistland, Frakkland, Holland, Ítalía, Kyrgystan, Króatía, Lettland, Liechtenstein, Makedónía, Moldóva, Mongólía, Pólland, Rúmenía, Rússland, Serbía, Singapúr, Slóvakía, Spánn, Sviss og Úkraína.
    Samhliða þingsályktunartillögu þessari er af hálfu efnahags- og viðskiptaráðherra flutt frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 45/1997, um vörumerki, með síðari breytingum.
Fylgiskjal.


SINGAPÚR-SAMNINGUR UM VÖRUMERKJARÉTT

Skrá yfir greinar


  1. gr.    Skilgreiningar
  2. gr.    Merki sem samningurinn gildir um
  3. gr.    Umsókn
  4. gr.    Umboð; heimilisfang vegna móttöku erinda
  5. gr.    Umsóknardagur
  6. gr.    Skráning vöru eða þjónustu nokkurra flokka

  7. gr.    Hlutun umsóknar og skráningar

  8. gr.    Erindi
  9. gr.    Flokkun vöru eða þjónustu
10. gr.    Breytingar á nafni eða heimilisfangi
11. gr.    Breyting á eignarhaldi
12. gr.    Leiðrétting á villu
13. gr.    Gildistími og endurnýjun skráningar
14. gr.    Ívilnandi úrræði þegar tímamörk eru ekki virt

15. gr.    Skylda til að fylgja Parísarsamningnum

16. gr.    Þjónustumerki
17. gr.    Beiðni um skráningu á nytjaleyfi
18. gr.    Beiðni um breytingu á eða afnám skráningar á nytjaleyfi
19. gr.    Áhrif þess að nytjaleyfi er ekki skráð

20. gr.    Upplýsingar um nytjaleyfi
21. gr.    Athugasemdir vegna fyrirhugaðrar synjunar

22. gr.    Reglugerð
23. gr.    Þing
24. gr.    Alþjóðaskrifstofa
25. gr.    Endurskoðun eða breyting
26. gr.    Aðild að samningnum
27. gr.    Framkvæmd samningsins um vörumerkjarétt frá 1994 og samnings þessa
28. gr.    Gildistaka; gildistökudagur fullgildingar og aðildar
29. gr.    Fyrirvarar
30. gr.    Uppsögn aðildar að samningnum
31. gr.    Tungumál samningsins; undirritun
32. gr.    Vörsluaðili

1. gr.
Skilgreiningar.

    Sé annars ekki sérstaklega getið í samningi þessum:
    i)    merkir „skrifstofa“ stofnun sem samningsaðili hefur falið skráningu merkja;

    ii)    merkir „skráning“ skráningu merkis hjá skrifstofu;
    iii)    merkir „umsókn“ umsókn um skráningu;

    iv)    merkir „erindi“ umsókn, beiðni, yfirlýsingu, bréfasamskipti eða aðrar upplýsingar viðvíkjandi umsókn eða skráningu sem lagðar eru inn hjá skrifstofu;

    v)    er með hugtakinu „aðili“ jöfnum höndum átt við einstakling og lögaðila;

    vi)    merkir „eigandi“ þann aðila sem vörumerkjaskrá sýnir að sé eigandi skráningar;

    vii)    merkir „vörumerkjaskrá“ safn gagna, sem skrifstofa heldur, þar á meðal efnisatriði allra skráninga og öll gögn sem skráð hafa verið varðandi einstakar skráningar án tillits til þess í hvaða formi slík gögn eru geymd;
    viii)    merkir „meðferð hjá skrifstofu“ málsmeðferð hjá skrifstofu varðandi umsókn eða skráningu;

    ix)    merkir „Parísarsamningurinn“ Parísarsamninginn um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar sem undirritaður var í París 20. mars 1883, endurskoðaðan með breytingum;
    x)    merkir „Niceflokkunin“ þá flokkun sem komið var á með Nicesamningnum um alþjóðlega flokkun vöru og þjónustu vegna skráningar merkja er undirritaður var í Nice 15. júní 1957, endurskoðaðan með breytingum;

    xi)    merkir „nytjaleyfi“ leyfi til að nota merki samkvæmt lögum samningsaðila;

    xii)    merkir „nytjaleyfishafi“ aðila sem veitt hefur verið nytjaleyfi;
    xiii)    merkir „samningsaðili“ ríki eða milliríkjastofnun sem er aðili að samningi þessum;

    xiv)    merkir „ráðstefna fulltrúa ríkja“ fund samningsaðila sem haldinn er í þeim tilgangi að endurskoða eða breyta samningnum;
    xv)    merkir „þing“ þingið sem vitnað er til í 23. gr.;
    xvi)    er með hugtakinu „fullgildingarskjal“ einnig átt við skjöl um staðfestingu og samþykki;

    xvii)    merkir „stofnunin“ Alþjóðahugverkastofnunina;
    xviii)    merkir „alþjóðaskrifstofa“ alþjóðaskrifstofu stofnunarinnar;
    xix)    merkir „aðalframkvæmdastjóri“ aðalframkvæmdastjóra stofnunarinnar;
    xx)    merkir „reglugerð“ þá reglugerð sem sett er samkvæmt samningi þessum og vísað er til í 22. gr.;
    xxi)    er með hugtökunum „grein“ eða tilvísun einstakra greina í „málsgrein,“ „málslið“ eða „lið“ einnig átt við samsvarandi ákvæði í reglugerð;

    xxii)    merkir „samningurinn um vörumerkjarétt 1994“ samninginn um vörumerkjarétt sem gerður var í Genf 27. október 1994.

2. gr.
Merki sem samningurinn gildir um.

1)     [ Gerð merkja] Samningsaðili skal beita samningi þessum um merki sem samanstanda af táknum sem heimilt er að skrá sem merki samkvæmt löggjöf samningsaðilans.
2)     [ Tegundir merkja]
a)    Samningur þessi gildir um merki sem varða vörur (vörumerki) eða þjónustu (þjónustumerki) eða bæði vörur og þjónustu.
b)    Samningur þessi gildir ekki um safnmerki, vottunarmerki og ábyrgðarmerki.

3. gr.
Umsókn.

1)     [ Upplýsingar eða efnisatriði sem koma fram í umsókn eða fylgja henni; gjald]
a)    Samningsaðila er heimilt að setja skilyrði um að í umsókn skulu koma fram að hluta eða að öllu leyti eftirfarandi upplýsingar eða efnisatriði:
    i)    beiðni um skráningu;
    ii)    nafn og heimilisfang umsækjanda;
    iii)    nafn þess ríkis þar sem umsækjandi hefur ríkisfang, sé hann ríkisborgari einhvers ríkis, nafn þess ríkis þar sem lögheimili umsækjanda er, sé um slíkt að ræða, og nafn þess ríkis þar sem umsækjandi er með raunverulegan og virkan atvinnurekstur eða viðskipti sé um slíkt að ræða;
    iv)    lagalegt eðli lögaðila ef umsækjandi er lögaðili, svo og ríki, og eftir atvikum það landsvæði þess ríkis, þar sem lögaðili var stofnaður lögum samkvæmt;


    v)    nafn og heimilisfang umboðsmanns þegar umsækjandi hefur umboðsmann;

    vi)    heimilisfang vegna móttöku erinda ef gerð er krafa til þess að heimilisfang sé fyrir hendi skv. b-lið 2. mgr. 4. gr.;
    vii)    yfirlýsing þar sem gerð er krafa um forgangsrétt á grundvelli fyrri umsóknar ásamt umfjöllun og gögnum til stuðnings þeirri yfirlýsingu um forgangsrétt sem gera má kröfu um skv. 4. gr. Parísarsamningsins ef umsækjandi óskar eftir því að notfæra sér forgangsrétt á grundvelli fyrri umsóknar;

    viii)    ef umsækjandi óskar eftir því að notfæra sér vernd sem leiðir af því að vörur eða þjónusta er kynnt á sýningu þarf að setja fram yfirlýsingu þess efnis ásamt gögnum til stuðnings slíkri yfirlýsingu eftir því sem lög samningsaðila kveða á um;

    ix)    a.m.k. ein mynd af merki eins og mælt er fyrir um í reglugerð;
    x)    tilgreining, þar sem við á, eftir því sem mælt er fyrir um í reglugerð, á tegund merkis og sérkröfum um þá tegund merkis;

    xi)    tilgreining, þar sem við á, samkvæmt því sem mælt er fyrir um í reglugerð, þess efnis að umsækjandi óski eftir því að merki verði skráð og birt með þeirri stöðluðu leturgerð sem skrifstofan notar;
    xii)    tilgreining, þar sem við á, samkvæmt því sem mælt er fyrir um í reglugerð, þess efnis að umsækjandi óski eftir því að litur sé séreinkenni merkis;
    xiii)    umritun merkis eða ákveðinna hluta merkis;

    xiv)    þýðing á merki eða ákveðnum hlutum merkis;
    xv)    nöfn vöru eða þjónustu, sem óskað er skráningar á, flokkuð niður samkvæmt Niceflokkunarkerfinu þar sem á undan hverjum flokki kemur fram númer þess flokks kerfisins sem vörurnar eða þjónustan tilheyrir og sett er fram samkvæmt flokkunarröð téðs kerfis;
    xvi)    yfirlýsing um ásetning þess efnis að merki verði notað samkvæmt því sem kveðið er á um í lögum samningsaðila.
b)    Umsækjanda er heimilt að leggja fram yfirlýsingu um raunverulega notkun merkis og gögn því til sönnunar, í stað eða auk yfirlýsingar um ásetning um notkun merkis skv. xvi. lið a-liðar, samkvæmt því sem löggjöf samningsaðila kveður á um.
c)    Hver samningsaðili má setja skilyrði um að greidd séu gjöld til skrifstofunnar vegna umsóknarinnar.
2)     [ Ein umsókn fyrir vöru eða þjónustu í fleiri en einum flokki] Heimilt er í einni og sömu umsókn að sækja um fleiri en einn flokk vöru eða þjónustu án tillits til hvort varan eða þjónustan fellur undir einn eða fleiri flokka samkvæmt Niceflokkunarkerfinu.
3)     [ Raunveruleg not] Ef yfirlýsing um ásetning um að nota merki hefur verið skráð skv. 1. mgr. xvi. lið a-liðar er samningsaðila heimilt að setja skilyrði um að umsækjandi afhendi skrifstofunni, innan lögbundinna tímamarka, gögn til sönnunar um raunverulega notkun merkis samkvæmt lögum samningsaðila og með fyrirvara um lágmarkstímamörk sem tilgreind eru í reglugerð.
4)     [ Bann við öðrum skilyrðum] Engum samningsaðila er heimilt að setja skilyrði um að fullnægja þurfi öðrum skilyrðum en þeim sem vísað er til í 1. og 3. mgr. og 8. gr. vegna umsóknarinnar. Sér í lagi má ekki setja eftirfarandi skilyrði varðandi umsóknina meðan hún er til meðferðar:

    i)    að afhent sé vottorð eða útdráttur úr viðskiptaskrá;
    ii)    að greint sé frá því að umsækjandi hafi með höndum atvinnustarfsemi, svo og að lögð séu fram gögn því til sönnunar;

    iii)    að greint sé frá því að umsækjandi hafi með höndum starfsemi, sem samræmist vörum þeim eða þjónustu þeirri sem talin er upp í umsókn, svo og að lögð séu fram gögn því til sönnunar;
    iv)    að lögð séu fram gögn því til sönnunar að merki hafi verið skráð í vörumerkjaskrá annars samningsaðila eða aðildarríkis Parísarsamningsins, sem er ekki samningsaðili, nema þegar umsækjandi ber fyrir sig heimild 6. gr. d í Parísarsamningnum.

5)     [ Gögn til sönnunar] Samningsaðila er heimilt að setja það skilyrði að gögn til sönnunar séu afhent skrifstofunni meðan á meðferð umsóknar stendur hafi skrifstofan ástæðu til að vefengja áreiðanleika einhvers þess sem greint er frá í umsókn eða þeirra efnisatriða sem fram koma í umsókn.

4. gr.
Umboð; heimilisfang vegna móttöku erinda.

1)     [ Umboðsmenn með starfsleyfi]
a)    Samningsaðila er heimilt að setja skilyrði þess efnis að umboðsmaður, sem hefur verið tilnefndur í því skyni að fara með mál hjá skrifstofunni:
    i)    hafi rétt samkvæmt gildandi lögum til að reka mál hjá skrifstofunni vegna umsókna og skráninga og hafi, þar sem við á, réttindi til reksturs mála hjá skrifstofunni;

    ii)    gefi upp sem heimilisfang sitt heimilisfang innan landsvæðis sem samningsaðili mælir fyrir um.
b)    Athöfn, sem tengist málarekstri hjá skrifstofunni, af hálfu eða í tengslum við umboðsmann, sem fullnægir þeim skilyrðum sem sett eru af hálfu samningsaðila skv. a-lið, hefur sömu áhrif sem athöfn af hálfu eða í tengslum við umsækjanda, eiganda eða annan hagsmunaaðila, sem tilnefndi viðkomandi umboðsmann, hefur.
2)     [ Lögmælt umboð; heimilisfang vegna móttöku erinda]
a)    Samningsaðila er heimilt að setja það skilyrði varðandi rekstur máls hjá skrifstofunni að umsækjandi, eigandi eða annar hagsmunaaðili, sem hvorki er með lögheimili né raunverulega eða virka atvinnustarfsemi á landsvæði sínu, hafi umboðsmann.
b)    Samningsaðila er heimilt, að svo miklu leyti sem ekki er þörf á umboðsmanni samkvæmt a-lið, að setja það skilyrði varðandi rekstur máls hjá skrifstofunni, að umsækjandi, eigandi eða annar hagsmunaðili, sem hvorki er með lögheimili né raunverulega eða virka atvinnustarfsemi á landsvæði sínu, sé með heimilisfang vegna móttöku erinda á því landsvæði.

3)     [ Umboð]
a)    Þegar samningsaðili heimilar eða setur það skilyrði að umsækjandi, eigandi eða annar hagsmunaaðili hafi umboðsmann gagnvart skrifstofunni getur samningsaðilinn sett það skilyrði að umboðsmaður sé tilnefndur með sérstakri orðsendingu (hér eftir nefnt „umboð") þar sem greint er frá nafni umsækjanda, eiganda eða annars hagsmunaaðila eftir því sem við á.
b)    Umboðið kann að eiga við eina eða fleiri umsóknir eða skráningar sem tilgreindar eru í umboðinu, eða, með fyrirvara um undantekningar sem aðili sá sem tilnefnir kann að greina frá, við allar umsóknir eða skráningar þess aðila nú og í framtíðinni.
c)    Umboðið kann að takmarka heimild umboðsmanns til að hafa í frammi ákveðnar athafnir. Samningsaðila er heimilt að setja það skilyrði að umboð, sem heimilar umboðsmanni að afturkalla umsókn eða framselja skráningu, feli í sér ákvæði þess efnis.

d)    Þegar erindi er afhent skrifstofunni af aðila sem tilgreinir sig í erindinu sem umboðsmann en skrifstofan hefur ekki, á þeim tíma þegar tekið er við erindinu, undir höndum tilskilið umboð er samningsaðila heimilt að setja skilyrði um að umboð sé afhent skrifstofunni innan þeirra tímamarka sem samningsaðili hefur ákveðið, með fyrirvara um þau lágmarkstímamörk sem reglugerð segir til um. Samningsaðila er heimilt að kveða á um, hafi umboð ekki verið afhent skrifstofunni innan þeirra tímamarka sem samningsaðili hefur ákveðið, að erindi frá viðkomandi aðila hafi engin áhrif.


4)     [ Tilvísun í umboð] Samningsaðila er heimilt að setja það skilyrði að erindi, sem umboðsmaður sendir skrifstofunni vegna meðferðar máls hjá skrifstofunni, hafi að geyma tilvísun í umboð það sem umboðsmaður starfar eftir.

5)     [ Bann við öðrum skilyrðum] Engum samningsaðila er heimilt að krefjast þess að öðrum skilyrðum en þeim sem tilgreind eru í 3. og 4. mgr. og í 8. gr. beri að fullnægja að því er tekur til þeirra atriða sem þar greinir.
6)     [ Gögn til sönnunar] Samningsaðila er heimilt að setja það skilyrði að gögn til sönnunar séu afhent skrifstofunni hafi skrifstofan ástæðu til þess að draga í efa áreiðanleika upplýsinga í erindi skv. 3. og 4. mgr.

5. gr.
Umsóknardagur.

1)     [ Heimiluð skilyrði]
a)    Með fyrirvara um b-lið og 2. mgr. ber samningsaðila að samþykkja sem umsóknardag þann dag þegar skrifstofan tók við eftirtöldum upplýsingum og efnisatriðum á tungumáli sem kveðið er á um í 2. mgr. 8. gr.:
    i)    upplýsingum þar sem greint er frá því beint eða óbeint að óskað sé skráningar á merki;
    ii)    upplýsingum sem gera kleift að sannreyna hver umsækjandi sé;
    iii)    upplýsingum sem gera skrifstofunni kleift að komast í samband við umsækjanda eða umboðsmann hans sé um slíkan að ræða;
    iv)    nægilega skýrri mynd af því merki sem óskað er skráningar á;
    v)    lista yfir vörur eða þjónustu sem óskað er skráningar á;
    vi)    annars vegar þeirri yfirlýsingu, sem vísað er til í xvi. lið a-liðar 1. mgr. 3. gr., eða hins vegar yfirlýsingu og gögnum til sönnunar sem vísað er til í b-lið 1. mgr. 3. gr. ef xvi. liður a-liðar eða b-liður 1. mgr. 3. gr. á við eins og kveðið er á um í löggjöf samningsaðila.
b)    Samningsaðila er heimilt að samþykkja sem umsóknardag þann dag þegar skrifstofan tók við hluta af en ekki öllum upplýsingum og efnisatriðum skv. a-lið eða tók við þeim á öðru tungumáli en því sem krafist er í 2. mgr. 8. gr.

2)     [ Heimilað viðbótarskilyrði]
a)    Samningsaðila er heimilt að kveða á um að umsóknardag skuli ekki samþykkja fyrr en tilskilin gjöld hafa verið greidd.
b)    Samningsaðila er einungis heimilt að beita því skilyrði sem vísað er til í a-lið hafi hann beitt slíku skilyrði þegar hann gerðist aðili að samningi þessum.
3)     [ Leiðréttingar og tímamörk] Form leiðréttinga og tímamörk fyrir þær skv. 1. og 2. mgr. skulu ákveðin með reglugerð.
4)     [ Bann við öðrum skilyrðum] Engum samningsaðila er heimilt að krefjast þess að öðrum skilyrðum en þeim sem vísað er til í 1. og 2. mgr. sé fullnægt að því er varðar umsóknardag.

6. gr.
Skráning vöru eða þjónustu í mörgum flokkum.

    Ef vörur eða þjónusta, sem tilheyrir fleiri en einum flokki samkvæmt Niceflokkunarkerfinu, eru til meðferðar í einni og sömu umsókninni skal slík umsókn verða ein skráning.


7. gr.
Hlutun umsóknar og skráningar.

1)     [ Hlutun umsóknar]
a)    Umsókn þar sem talinn er upp fleiri en einn flokkur vöru eða þjónustu (hér eftir nefnd „grunnumsókn“) er umsækjanda heimilt, eða heimilt er að beiðni hans:
    i)    að minnsta kosti fram að ákvörðun skrifstofunnar um skráningu merkis,
    ii)    meðan á meðferð stendur vegna andmæla gegn ákvörðun skrifstofunnar um að skrá merkið,
    iii)    meðan á meðferð stendur vegna áfrýjunar á ákvörðun um skráningu merkis,
að hluta í tvær eða fleiri umsóknir (hér eftir nefnt „hlutaðar umsóknir“) með því að skipta niður á slíkar umsóknir þeim vörum eða þjónustu sem talin er upp í grunnumsókn. Í hlutuðum umsóknum skal halda til haga umsóknardegi grunnumsóknar og forgangsréttindum sé um slíkt að ræða.

b)    Með fyrirvara um ákvæði a-liðar skal samningsaðila vera frjálst að segja til um skilyrði fyrir hlutun umsóknar, þ.m.t. um greiðslu gjalda.

2)     [ Hlutun skráningar] Ákvæði 1. mgr. skulu að breyttu breytanda gilda um hlutun skráningar. Slík hlutun skal vera heimiluð:
    i)    við rekstur máls þar sem þriðji aðili vefengir gildi skráningar hjá skrifstofunni,

    ii)    við áfrýjun vegna ákvörðunar skrifstofunnar sem tekin var á fyrri stigum málsmeðferðar, að því tilskildu að samningsaðila sé heimilt að útiloka möguleikann á hlutun skráninga heimili ef löggjöf samningsaðila heimilar þriðja aðila að skráningu merkis sé andmælt áður en það er skráð.

8. gr.
Erindi.

1)     [ Aðferð við sendingu og form erinda] Samningsaðila er heimilt að velja þá aðferð sem notuð er við sendingu erinda, svo og hvort hann taki við erindum í pappírsformi, rafrænu formi eða annars konar formi.

2)     [ Tungumál erinda]
a)    Samningsaðila er heimilt að setja það skilyrði að erindi sé á því tungumáli sem skrifstofan leyfir. Ef skrifstofan leyfir fleiri en eitt tungumál er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi, eigandi eða annar hagsmunaaðili fullnægi öðrum skilyrðum er gilda um tungumál gagnvart skrifstofunni að því tilskildu að ekki má krefjast þess að upplýsingar eða efnisatriði erindisins séu á fleiri en einu tungumáli.
b)    Engum samningsaðila er heimilt að setja skilyrði um vottfestingu, vottorð lögbókanda, staðfestingu, löggildingu eða annars konar vottun á þýðingu erindis umfram það sem kveðið er á um í samningi þessum.
c)    Ef samningsaðili setur ekki skilyrði um að erindi sé á tungumáli sem skrifstofan leyfir er skrifstofunni heimilt að setja skilyrði um að lögð sé fram, innan eðlilegra tímamarka, þýðing skjalaþýðanda eða umboðsmanns á viðkomandi erindi á tungumáli sem skrifstofan leyfir.

3)     [ Undirritun erinda á pappírsformi]
a)    Samningsaðila er heimilt að setja það skilyrði að erindi á pappírsformi sé undirritað af umsækjanda, eiganda eða öðrum hagsmunaaðila. Ef samningsaðili setur skilyrði um að erindi á pappírsformi sé undirritað skal viðkomandi samningsaðili taka til greina hverja þá undirritun sem fullnægir þeim skilyrðum sem sett eru í reglugerð.
b)    Engum samningsaðila er heimilt að setja skilyrði um vottfestingu, vottorð lögbókanda, staðfestingu, löggildingu eða annars konar vottun á undirritun nema þegar lög samningsaðila kveða á um slíkt og undirritun varðar framsal skráningar.
c)    Þrátt fyrir ákvæði b-liðar er samningsaðila heimilt að setja skilyrði um að gögn til sönnunar séu lögð inn hjá skrifstofunni ef skrifstofan hefur rökstudda ástæðu til að vefengja áreiðanleika undirritunar erinda á pappírsformi.
4)     [ Erindi skráð á rafrænu formi eða send með rafrænum hætti] Ef samningsaðili heimilar innlagningu erinda á rafrænu formi eða sendingu með rafrænum hætti getur hann gert kröfu um að öll slík erindi fullnægi þeim skilyrðum sem kveðið er á um í reglugerð.

5)     [ Framsetning erindis] Samningsaðili skal taka til greina framsetningu einstakra erinda ef efni þeirra samræmist viðkomandi fyrirmynd að alþjóðlegu eyðublaði, sé um slíkt að ræða, og kveðið sé á um það í reglugerð.
6)     [ Bann við öðrum skilyrðum] Engum samningsaðila er heimilt að krefjast þess að öðrum skilyrðum en þeim, sem vísað er til í þessari grein, sé fullnægt að því er varðar 1.–5. mgr.
7)     [ Aðferð við sendingu erinda til umboðsmanns] Ekkert í þessari grein mælir fyrir um aðferð við sendingu erinda milli umsækjanda, eiganda eða annars hagsmunaaðila og umboðsmanns hans.

9. gr.
Flokkun vöru eða þjónustu.

1)     [ Upplýsingar um vörur eða þjónustu] Hver einstök skráning og útgáfa, sem skrifstofan stendur að og varðar umsókn eða skráningu þar sem greint er frá vörum eða þjónustu, verður að greina frá vörum eða þjónustu með nafni, allt flokkað samkvæmt Niceflokkunarkerfinu en framan við hvern flokk skal skrá það númer sem flokkur vöru eða þjónustu heyrir undir samkvæmt flokkunarkerfinu og skal þetta sett fram í flokkaröð viðkomandi flokkunarkerfis.

2)     [ Vörur eða þjónusta í sama flokki eða mismunandi flokkum]
a)    Vörur eða þjónustu skal ekki skoða sem líka innbyrðis á þeirri forsendu að í skráningu eða tilkynningu, sem skrifstofan birtir, komi vörur eða þjónusta fram í sama flokki samkvæmt Niceflokkunarkerfinu.
b)    Vörur eða þjónustu skal ekki skoða sem ólíka innbyrðis á þeirri forsendu að í skráningum eða tilkynningum, sem skrifstofan birtir, komi vörur eða þjónusta fram í mismunandi flokkum samkvæmt Niceflokkunarkerfinu.

10. gr.
Breytingar á nafni eða heimilisfangi.

1)     [ Breytingar á nafni eða heimilisfangi eiganda]
a)    Ef ekki verður breyting á eiganda en nafn eða heimilisfang hans breytist ber hverjum samningsaðila að taka til greina beiðni um skráningu skrifstofunnar á breytingunni í vörumerkjaskrá sem eigandi setur fram í erindi þar sem greint er frá viðkomandi skráningarnúmeri og þeirri breytingu sem skrá á.

b)    Samningsaðila er heimilt að setja það skilyrði að í beiðni sé greint frá;
    i)    nafni og heimilisfangi eiganda;
    ii)    nafni og heimilisfangi umboðsmanns ef eigandi hefur umboðsmann;
    iii)    heimilisfangi vegna móttöku erinda ef eigandi er með slíkt heimilisfang.
c)    Samningsaðila er heimilt að setja það skilyrði að gjald sé greitt til skrifstofunnar vegna beiðni.
d)    Ein beiðni telst nægja þótt breyting varði fleiri en eina skráningu að því tilskildu að greint sé frá númerum allra viðkomandi skráninga í beiðninni.

2)     [ Breyting á nafni eða heimilisfangi umsækjanda] Að breyttu breytanda skal 1. mgr. gilda ef breyting varðar umsókn eða umsóknir, eða bæði umsókn eða umsóknir og skráningu eða skráningar, þó þannig að númer fyrir þá umsókn, sem um ræðir, hafi enn ekki verið gefið út eða umsækjanda eða umboðsmanni hans er enn ekki kunnugt um slíkt númer að því tilskildu að umsókn sé að öðru leyti auðkennd í beiðni eins og mælt er fyrir um í reglugerð.
3)     [ Breyting á nafni eða heimilisfangi umboðsmanns eða heimilisfangi vegna móttöku erinda] Að breyttu breytanda skal 1. mgr. gilda um allar breytingar á nafni eða heimilisfangi umboðsmanns, sé um slíkt að ræða, og allar breytingar er snerta heimilisfang vegna móttöku erinda sé um slíkt að ræða.
4)     [ Bann við öðrum skilyrðum] Engum samningsaðila er heimilt að krefjast þess að fullnægja þurfi öðrum skilyrðum en þeim sem vísað til í 1.–3. mgr. og 8. gr. varðandi þá beiðni sem um er rætt í þessari grein. Sér í lagi á ekki að setja skilyrði um framlagningu vottorðs varðandi breytinguna.

5)     [ Gögn til sönnunar] Samningsaðila er heimilt að setja það skilyrði að skrifstofunni séu afhent gögn til sönnunar ef skrifstofan hefur rökstudda ástæðu til að vefengja áreiðanleika upplýsinga.

11. gr.
Breyting á eignarhaldi.

1)     [ Breyting á eignarhaldi skráningar]
a)    Ef breyting verður á eiganda ber hverjum samningsaðila að taka til greina beiðni frá honum eða þeim aðila, sem öðlaðist eignarhald (hér á eftir vísað til hans sem „nýs eiganda“), um innfærslu breytinga í vörumerkjaskrá hjá skrifstofunni enda sé beiðni sett fram í erindi þar sem greint er frá númeri viðkomandi skráningar og þeirri breytingu sem skrá á.

b)    Ef samningur leiðir til breytinga á eignarhaldi er samningsaðila heimilt að setja það skilyrði að í beiðni sé greint frá þeirri staðreynd og að beiðni fylgi, að ósk þess aðila sem leggur fram beiðnina, eitthvert eitt eftirtalinna gagna:
    i)    afrit samningsins sem heimilt er að setja skilyrði um að sé staðfest af lögbókanda eða öðrum réttbærum yfirvöldum þess efnis að afritið samræmist frumriti samnings;

    ii)    útdráttur úr samningnum þar sem fram kemur breyting á eignarhaldi og má gera kröfu um að útdrátturinn sé staðfestur af lögbókanda eða öðrum réttbærum yfirvöldum þess efnis að um sé að ræða réttan útdrátt úr samningnum;
    iii)    óstaðfest framsalsskírteini sem hefur verið ritað á því formi og með því efni, sem reglugerð segir til um, og undirritað er bæði af eiganda og nýjum eiganda;
    iv)    óstaðfest framsalsskjal sem hefur verið ritað á því formi og með því efni, sem reglugerð segir til um, og undirritað er bæði af eiganda og nýjum eiganda.
c)    Ef breytingu á eignarhaldi leiðir af samruna er samningsaðila heimilt að setja skilyrði um að í beiðni sé greint frá þeirri staðreynd og að henni fylgi afrit skjals sem komið er frá réttbæru yfirvaldi og ber vitni um samrunann, eins og t.d. afrit útdráttar úr viðskiptaskrá, og að það afrit sé staðfest af því yfirvaldi, sem gaf skjalið út, ellegar lögbókanda eða öðru réttbæru yfirvaldi þess efnis að afritið samræmist frumskjalinu.


d)    Ef breyting verður á einum eða fleiri sameigendum en ekki öllum sameigendum og slíka breytingu á eignarhaldi leiðir af samningi eða samruna er hverjum samningsaðila heimilt að setja skilyrði um að sameigandi, sem lýtur ekki breytingum á eignaraðild, láti berum orðum í ljós samþykki sitt á breyttu eignarhaldi í skjali sem sé undirritað af honum.
e)    Ef breytingu á eignarhaldi leiðir ekki af samningi eða samruna heldur öðrum orsökum, t.d. ef hana leiðir af lögum eða úrskurði dómstóls er samningsaðila heimilt að setja skilyrði um að í beiðni sé greint frá slíkri staðreynd og henni fylgi afrit skjals, sem ber breytingunni vitni, og að skjalið sé staðfest af því yfirvaldi, sem gaf skjalið út, ellegar lögbókanda eða öðru réttbæru yfirvaldi þess efnis að afritið samræmist frumskjalinu.


f)    Samningsaðila er heimilt að setja það skilyrði að í beiðni sé greint frá:
    i)    nafni og heimilisfangi eiganda;
    ii)    nafni og heimilisfangi nýs eiganda;
    iii)    nafni þess ríkis þar sem nýr eigandi er ríkisborgari sé hann ríkisborgari einhvers ríkis, nafni þess ríkis þar sem nýr eigandi er með lögheimili, sé um slíkt að ræða, og nafni þess ríkis þar sem nýr eigandi er með raunverulegan og virkan atvinnurekstur sé um slíkt að ræða;
    iv)    lagalegu eðli lögaðila, sé hinn nýi eigandi lögaðili, svo og ríki og eftir atvikum því landsvæði innan þess ríkis þar sem lögaðili var stofnaður lögum samkvæmt.


    v)    nafni og heimilisfangi umboðsmanns þegar eigandi hefur umboðsmann;
    vi)    heimilisfangi vegna móttöku erinda ef eigandi hefur slíkt heimilisfang;
    vii)    nafni og heimilisfangi umboðsmanns þegar nýr eigandi hefur umboðsmann;

    viii)    heimilisfangi vegna móttöku erinda ef gert er að skilyrði að nýr eigandi sé með slíkt heimilisfang skv. b-lið 2. mgr. 4. gr.
g)    Samningsaðila er heimilt að setja það skilyrði að greitt sé gjald til skrifstofunnar vegna beiðni.
h)    Ein beiðni telst nægja jafnvel þótt breyting varði fleiri en eina skráningu að því tilskildu að eigandi og nýr eigandi sé sá sami varðandi hverja skráningu, svo og að greint sé frá númerum allra viðkomandi skráninga í beiðni.

i)    Ef breyting á eignarhaldi varðar ekki allar þær vörur eða alla þá þjónustu, sem talin er upp í skráningu eiganda, og lög, sem um það gilda, heimila skráningu slíkra breytinga skal skrifstofan gera nýja skráningu þar sem vísað er til þeirra vara eða þeirrar þjónustu sem lýtur breyttu eignarhaldi.
2)     [ Breyting á eignarhaldi umsóknar] Að breyttu breytanda skal 1. mgr. gilda ef breyting á eignarhaldi varðar umsókn eða umsóknir, eða bæði umsókn eða umsóknir og skráningu eða skráningar, þó þannig, ef ekki hefur verið gefið út númer viðkomandi umsóknar eða umsækjanda eða umboðsmanni hans er ekki kunnugt um slíkt númer, að beiðnin skal að öðru leyti auðkenna umsóknina eins og mælt er fyrir um í reglugerð.

3)     [ Bann við öðrum skilyrðum] Engum samningsaðila er heimilt að krefjast þess að fullnægja þurfi öðrum skilyrðum en þeim sem vísað er til í 1. og 2. mgr. og 8. gr. að því er varðar þá beiðni sem fjallað er um í þessari grein. Sér í lagi er ekki heimilt að setja skilyrði um eftirtalið:
    i)    með fyrirvara um c-lið 1. mgr., að lagt skuli fram vottorð eða útdráttur úr viðskiptaskrá;

    ii)    að greint sé frá því að nýr eigandi hafi með höndum atvinnurekstur, svo og að lögð séu fram gögn því til sönnunar;

    iii)    að greint sé frá því að nýr eigandi hafi með höndum rekstur sem samsvari þeim vörum eða þeirri þjónustu sem lýtur breyttu eignarhaldi, svo og að lögð séu fram gögn því til sönnunar;
    iv)    að greint sé frá því að eigandi hafi framselt nýjum eiganda að öllu leyti eða að hluta atvinnurekstur sinn eða viðkomandi viðskiptavild, svo og að lögð séu fram gögn því til sönnunar;
4)     [ Gögn til sönnunar] Samningsaðila er heimilt að setja það skilyrði, að skrifstofunni séu afhent gögn til sönnunar, eða frekari gögn eigi c- eða e-liður 1. mgr. við, ef skrifstofan hefur rökstudda ástæðu til að vefengja áreiðanleika upplýsinga í beiðni eða skjölum sem vísað er til í þessari grein.

12. gr.
Leiðrétting á villu.

1)     [ Leiðrétting á villu varðandi skráningu]

a)    Hverjum samningsaðila ber að fallast á að eigandi megi senda beiðni um leiðréttingu á villu sem fram kom í umsókn eða annars konar beiðni, sem send hefur verið skrifstofunni, þar sem villan kemur fram í vörumerkjaskrá eða hvers konar efni sem skrifstofan hefur birt, og að í slíkri beiðni um leiðréttingu á villu sé greint frá númeri þeirrar skráningar sem um ræðir, villu sem leiðrétta á og leiðréttingu sem skrá á.
b)    Samningsaðili er heimilt að setja skilyrði um að beiðni greini frá:
    i)    nafni og heimilisfangi eiganda;
    ii)    nafni og heimilisfangi umboðsmanns þegar eigandi hefur umboðsmann;
    iii)    heimilisfangi vegna móttöku erinda ef eigandi hefur slíkt heimilisfang.
c)    Samningsaðila er heimilt að setja það skilyrði að gjald sé greitt til skrifstofunnar vegna beiðni.
d)    Ein beiðni skal nægja þótt leiðrétting varði fleiri en eina skráningu sama aðila að því tilskildu að villa og umbeðin leiðrétting séu þær sömu varðandi hverja skráningu, svo og að greint sé frá númeri allra viðkomandi skráninga í beiðni.


2)     [ Leiðrétting á villu varðandi umsókn] Að breyttu breytanda skal 1. mgr. gilda ef villa varðar umsókn eða umsóknir, eða bæði umsókn eða umsóknir og skráningu eða skráningar, þó þannig, þegar ekki hefur verið gefið út númer viðkomandi umsóknar eða umsækjanda eða umboðsmanni hans er ekki kunnugt um slíkt númer, að umsókn skal að öðru leyti auðkennd í beiðni eins og mælt er fyrir um í reglugerð.

3)     [ Bann við öðrum skilyrðum] Engum samningsaðila er heimilt að krefjast þess að fullnægja þurfi öðrum skilyrðum en þeim sem vísað er til í 1. og 2. mgr. og 8. gr. varðandi þá beiðni sem um er rætt í þessari grein.
4)     [ Gögn til sönnunar] Samningsaðila er heimilt að setja það skilyrði að skrifstofu séu afhent gögn til sönnunar hafi skrifstofan rökstudda ástæðu til að vefengja að ætluð villa sé í raun villa.
5)     [ Villur sem skrifstofan gerir] Skrifstofa samningsaðila skal leiðrétta eigin villur af sjálfsdáðum eða samkvæmt beiðni án gjaldtöku.
6)     [ Villur sem ekki er unnt að leiðrétta] Engum samningsaðila skal skylt að beita 1., 2. og 5. mgr. varðandi villur sem að lögum samningsaðila verða ekki leiðréttar.

13. gr.
Gildistími og endurnýjun skráningar.

1)     [ Upplýsingar eða efnisatriði í endurnýjunarbeiðni eða fylgiskjali með henni; gjald]
a)    Samningsaðila er heimilt að setja skilyrði um að endurnýjun skráningar sé háð því að beiðni sé lögð inn og að í beiðninni séu eftirtaldar upplýsingar:
    i)    upplýsingar um að óskað sé endurnýjunar;
    ii)    nafn og heimilisfang eiganda;
    iii)    númer viðkomandi skráningar;

    iv)    að ósk samningsaðila, umsóknardag, sem leiddi til viðkomandi skráningar, eða skráningardag viðkomandi skráningar;

    v)    nafn og heimilisfang umboðsmanns þegar eigandi hefur umboðsmann;
    vi)    heimilisfang vegna móttöku erinda ef eigandi hefur slíkt heimilisfang;
    vii)    ef samningsaðili heimilar að endurnýjun skráningar fari aðeins fram vegna hluta þeirrar vöru eða þjónustu, sem skráð hefur verið í vörumerkjaskrá, og óskað er eftir endurnýjun skráningar þarf að greina frá nöfnum á skráðum vörum eða þjónustu, sem beðið er um endurnýjaða skráningu á, eða nöfnum á skráðum vörum eða þjónustu sem ekki er beðið um endurnýjaða skráningu á, allt flokkað niður samkvæmt Niceflokkunarkerfinu og framan við hvern flokk skal skrá það númer sem flokkur vöru eða þjónustu heyrir undir samkvæmt flokkunarkerfinu og skal þetta sett fram í flokkaröð viðkomandi flokkunarkerfis;
    viii)    ef samningsaðili heimilar öðrum aðila en eiganda eða umboðsmanni hans að láta leggja inn beiðni um endurnýjun og beiðni er lögð inn af slíkum aðila þarf að greina frá nafni og heimilisfangi þess aðila.
b)    Samningsaðila er heimilt, vegna beiðni um endurnýjun, að setja skilyrði um greiðslu gjalds til skrifstofunnar. Þegar gjaldið hefur verið innt af hendi vegna upphafstímabils skráningar eða endurnýjunartímabils verður ekki farið fram á frekari greiðslur til að viðhalda skráningu vegna þess tímabils. Gjöld, sem tengjast framlagningu yfirlýsingar eða gagna til sönnunar um notkun, skal ekki skv. þessum lið telja greiðslur sem krafist er til viðhalds skráningar og hefur þessi liður engin áhrif að því er slík gjöld varðar.

c)    Samningsaðila er heimilt að gera að skilyrði að beiðni um endurnýjun sé lögð fram og samsvarandi gjald skv. b-lið verði greitt til skrifstofunnar innan þeirra tímamarka sem ákveðin hafa verið í lögum samningsaðila, með fyrirvara um lágmarkstímabil þau sem mælt er fyrir um í reglugerð.
2)     [ Bann við öðrum skilyrðum] Engum samningsaðila er heimilt að krefjast þess að fullnægja þurfi öðrum skilyrðum en þeim, sem vísað er til í 1. mgr. og 8. gr., varðandi beiðni um endurnýjun. Sér í lagi er ekki heimilt að setja skilyrði um eftirfarandi:

    i)    mynd af merki eða önnur auðkenni varðandi merki;
    ii)    framlagningu gagna til sönnunar þess að merki hafi verið skráð, eða að skráning þess hafi verið endurnýjuð, hjá öðrum skráningaraðilum merkja;
    iii)    framlagningu yfirlýsingar eða gagna til sönnunar um notkun viðkomandi merkis.
3)     [ Gögn til sönnunar] Samningsaðila er heimilt að setja það skilyrði að skrifstofunni séu afhent gögn til sönnunar ef beiðni um endurnýjun er til skoðunar þegar skrifstofan hefur rökstudda ástæðu til að vefengja áreiðanleika upplýsinga eða efnisatriða í beiðni um endurnýjun.
4)     [ Bann við efnislegri skoðun] Engri skrifstofu samningsaðila er heimilt að taka efnisatriði skráningar til skoðunar vegna endurnýjunar.

5)     [ Gildistími] Gildistími upphafstíma skráningar og hvers endurnýjunartímabils fyrir sig skal vera tíu ár.


14. gr.
Ívilnandi úrræði þegar tímamörk eru ekki virt.

1)      [Ívilnandi úrræði fyrir lok tímamarka] Samningsaðila er heimilt að setja ákvæði um framlengingu tímamarka við meðferð hjá skrifstofunni vegna umsóknar eða skráningar hafi beiðni þess efnis verið lögð inn hjá skrifstofunni fyrir lok tímamarka.

2)     [ Ívilnandi úrræði eftir lok að tímamarka] Ef umsækjandi, eigandi eða annar hagsmunaðili hefur ekki farið að ákvæðum um tímamörk („viðkomandi tímamörk“) við meðferð hjá skrifstofu samningsaðila vegna umsóknar eða skráningar skal samningsaðili setja ákvæði um eitt eða fleiri eftirtalinna ívilnandi úrræða í samræmi við þau skilyrði, sem reglugerð mælir fyrir um, hafi beiðni þess efnis verið lögð inn hjá skrifstofunni:

    i)    framlengingu viðkomandi tímamarka sem reglugerð mælir fyrir um;
    ii)    áframhaldandi meðferð máls vegna umsóknar eða skráningar;
    iii)    endurveitingu réttinda umsækjanda, eiganda eða annars hagsmunaaðila varðandi umsókn eða skráningu komist skrifstofan að þeirri niðurstöðu að misbrestur, sem olli því að ákvæðum um viðkomandi tímamörk var ekki fylgt, hafi átt sér stað þrátt fyrir að nægileg gát hafi verið viðhöfð með hliðsjón af kringumstæðum, eða eftir atvikum, kjósi samningsaðili svo, að misbrestur hafi ekki stafað af ásetningi.
3)     [ Undantekningar] Ekki ber að skylda nokkurn samningsaðila til að setja ákvæði um ívilnandi úrræði, skv. 2. mgr. að því er varðar undantekningar sem reglugerð mælir fyrir um.
4)     [ Gjald] Samningsaðili getur sett skilyrði um gjaldtöku vegna framangreindra ívilnandi úrræða skv. 1. og 2. mgr.
5)     [ Bann við öðrum skilyrðum] Engum samningsaðila er heimilt að krefjast þess að öðrum skilyrðum en þeim sem vísað er til í þessari grein og 8. gr. sé fullnægt vegna ívilnandi úrræða skv. 2. mgr.


15. gr.
Skylda til að fylgja Parísarsamningnum.

    Samningsaðili skal fara eftir þeim ákvæðum Parísarsamningsins er varða merki.


16. gr.
Þjónustumerki.

    Samningsaðili skal skrá þjónustumerki og beita um þau þeim ákvæðum Parísarsamningsins sem varða vörumerki.

17. gr.
Beiðni um skráningu á nytjaleyfi.

1)     [ Skilyrði er varða beiðni um skráningu] Ef lög samningsaðila kveða á um skráningu nytjaleyfis hjá skrifstofu sinni er þeim samningsaðila heimilt að setja skilyrði um að beiðni um skráningu:

    i)    sé skráð í samræmi við þau skilyrði, sem reglugerð mælir fyrir um, og
    ii)    að með beiðninni séu lögð fram þau fylgiskjöl sem reglugerð mælir fyrir um.
2)     [ Gjald] Samningsaðili getur sett það skilyrði að gjald sé greitt til skrifstofunnar vegna skráningar nytjaleyfis.
3)     [ Ein beiðni er varðar fleiri en eina skráningu] Ein beiðni skal nægja þótt nytjaleyfi varði fleiri en eina skráningu að því tilskildu að í beiðni sé greint frá númerum allra viðkomandi skráninga, að eigandi og nytjaleyfishafi sé sami aðili að því er varðar allar skráningar og að í beiðni sé greint frá gildissviði nytjaleyfis í samræmi við reglugerð að því er varðar allar skráningar.

4)     [ Bann við öðrum skilyrðum]
a)    Engum samningsaðila er heimilt að krefjast þess að fullnægja þurfi öðrum skilyrðum en þeim sem vísað er til í 1. og 3. mgr. og 8. gr. varðandi skráningu nytjaleyfis hjá skrifstofu sinni. Sér í lagi á ekki að setja eftirfarandi skilyrði:

    i)    að leggja skuli fram skráningarskírteini um merki það sem nytjaleyfi tekur til;

    ii)    að leggja beri fram nytjaleyfissamning eða þýðingu á honum;
    iii)    að greint sé frá fjárhagslegum skilyrðum í nytjaleyfissamningi.
b)    Ákvæði a-liðar eru með fyrirvara um gildandi skuldbindingar sem stofnað hefur verið til á grundvelli laga samningsaðila og varða birtingu á upplýsingum í öðru skyni en því er varðar skráningu nytjaleyfis í vörumerkjaskrá.
5)     [ Gögn til sönnunar] Samningsaðila er heimilt að setja það skilyrði að skrifstofunni séu afhent gögn til sönnunar ef skrifstofan hefur rökstudda ástæðu til að vefengja áreiðanleika upplýsinga í beiðni eða skjali sem tilgreint er í reglugerð.
6)     [ Beiðnir sem varðar umsóknir] Að breyttu breytanda skulu 1.–5. mgr. gilda um beiðnir um skráningu nytjaleyfis fyrir umsókn þegar lög samningsaðila kveða á um slíka skráningu.


18. gr.
Beiðni um breytingu á eða niðurfellingu skráningar á nytjaleyfi.

1)     [ Skilyrði er varða beiðni] Ef lög samningsaðila kveða á um skráningu nytjaleyfis hjá skrifstofu hans er samningsaðila heimilt að setja skilyrði um að beiðni um breytingu á eða niðurfellingu skráningar á nytjaleyfi:
    i)    sé skráð í samræmi við þau skilyrði, sem sett eru í reglugerð, og
    ii)    að henni fylgi þau skjöl sem reglugerð mælir fyrir um.
2)     [ Önnur skilyrði] Að breyttu breytanda skulu 2. og 6. mgr. 17 gr. gilda um beiðnir um breytingu á eða niðurfellingu skráningar á nytjaleyfi.

19. gr.
Áhrif þess að nytjaleyfi er ekki skráð.

1)     [ Gildi skráningar og verndun merkis] Það að nytjaleyfi sé ekki skráð hjá skrifstofu eða öðru yfirvaldi samningsaðila hefur ekki áhrif á gildi skráningar þess merkis, sem nytjaleyfi tekur til, eða vernd þess merkis.

2)     [ Sérstök réttindi nytjaleyfishafa] Samningsaðila er ekki heimilt að setja skilyrði um að skráning nytjaleyfis sé forsenda réttar sem nytjaleyfishafi kann að hafa samkvæmt lögum þess samningsaðila til að gerast aðili að málarekstri á vegum eiganda vegna brota á réttindum eða fá með þeim hætti skaðabætur vegna þess að brotið hafi verið gegn réttindum er tengjast því merki er nytjaleyfi tekur til.
3)     [ Notkun merkis ef nytjaleyfi er ekki skráð] Samningsaðila er ekki heimilt að setja skilyrði um að skráning leyfis sé forsenda notkunar nytjaleyfishafa á merki til að telja megi slíkt fela í sér notkun af hálfu eiganda við málarekstur er varða kaup, eftirfylgni og fullnustu merkja.

20. gr.
Upplýsingar um nytjaleyfi.

    Ef lög samningsaðila setja skilyrði um upplýsingar um að merki sé notað samkvæmt nytjaleyfi skal misbrestur á að sé farið eftir slíku skilyrði að öllu leyti eða að hluta ekki hafa áhrif á gildi skráningar þess merkis, sem nytjaleyfi tekur til, eða vernd merkis og hefur slíkt ekki áhrif á beitingu ákvæða 3. mgr. 19. gr.

21. gr.
Athugasemdir vegna væntanlegrar synjunar.

    Skrifstofu er ekki heimilt að synja umsókn skv. 3. gr. eða beiðni skv. 7., 10.–14., 17. og 18. gr. að öllu leyti eða að hluta án þess að gefa umsækjanda eða þeim aðila sem leggur fram beiðni, eftir því sem við á, tækifæri til að leggja fram athugasemdir vegna væntanlegrar synjunar innan eðlilegra tímamarka. Að því er varðar 14. gr. skal engri skrifstofu gert skylt að gefa kost á framlagningu athugasemda ef sá aðili, sem leggur fram beiðni um ívilnandi úrræði, hefur þegar haft tækifæri til að leggja fram athugasemdir varðandi þau atriði sem ákvörðun mun byggja á.

22. gr.
Reglugerð.

1)     [ Efni]
a)    Reglugerð sú, sem er viðauki við samning þennan, geymir reglur varðandi:
    i)    málefni sem samningur þessi kveður skýrt á um að skuli „mæla fyrir um í reglugerð“;
    ii)    atriði sem nýtast við framkvæmd ákvæða samnings þessa;
    iii)    skilyrði, málefni eða málsmeðferð varðandi stjórnsýslu.
b)    Í reglugerð er einnig fyrirmynd að alþjóðlegum eyðublöðum.
2)     [ Breytingar á reglugerð] Með fyrirvara um 3. mgr. þurfa allar breytingar á reglugerð að öðlast samþykki þriggja fjórðu hluta þeirra atkvæða sem greidd eru.
3)     [ Skilyrði um einróma samþykki]
a)    Í reglugerðinni kunna að vera tilgreind ákvæði í henni sem einungis má breyta með einróma samþykki.
b)    Breytingar á reglugerð, sem leiðir af viðbótarákvæðum við eða niðurfellingu þeirra ákvæða sem tilgreind eru í reglugerðinni skv. a-lið, þurfa að hljóta einróma samþykki.

c)     Þegar meta skal hvort einróma samþykki sé fengið ber aðeins að líta til þeirra atkvæða sem greidd eru. Hjáseta telst ekki greitt atkvæði.

4)     [ Samningur og reglugerð stangast á] Ef ákvæði samnings þessa stangast á við ákvæði reglugerðar ráða ákvæði samningsins.


23. gr.
Þing.

1)     [ Skipan]
a)    Samningsaðilar skulu hafa með sér þing.
b)    Hver samningsaðili skal hafa einn fulltrúa sem kemur fram fyrir hans hönd á þinginu og má hann njóta stuðnings varafulltrúa, ráðgjafa og sérfræðinga. Hver fulltrúi má einungis koma fram fyrir hönd eins samningsaðila.
2)     [ Verkefni] Þingið skal:
    i)    fjalla um málefni er varða þróun samnings þessa;
    ii)    breyta reglugerð, m.a. fyrirmynd að alþjóðlegum eyðublöðum;
    iii)    ákvarða skilyrði fyrir dagsetningu gildistöku einstakra breytinga skv. ii. lið;

    iv)    framkvæma önnur þau störf sem nauðsynleg þykja til framkvæmdar ákvæða samnings þessa.
3)     [ Tilskilinn meirihluti]
a)    Helmingur þeirra þingfulltrúa, sem eru ríki, skal skoðast sem tilskilinn meirihluti.
b)    Þrátt fyrir ákvæði a-liðar gildir að þingið getur, ef fundur er haldinn á þinginu og fjöldi þeirra aðila á þinginu sem eru ríki og hafa þar fulltrúa er minni en helmingur en samt fullur þriðjungur eða meira en þriðjungur þeirra þingfulltrúa, sem eru ríki, tekið ákvarðanir, þó ekki ákvarðanir varðandi eigin þingsköp en allar slíkar ákvarðanir skulu aðeins öðlast gildi sé neðangreindum skilyrðum fullnægt. Alþjóðaskrifstofan skal koma ofangreindum ákvörðunum á framfæri með orðsendingu við þá þingfulltrúa sem eru ríki og voru ekki með fulltrúa á þinginu og jafnframt bjóða þeim að lýsa skriflega atkvæði sínu eða hjásetu innan þriggja mánaða frá dagsetningu orðsendingarinnar. Ef fjöldi þeirra fulltrúa sem þannig hafa lýst atkvæði sínu eða hjásetu, við lok þessa þriggja mánaða tímabils, nær þeim fjölda fulltrúa sem skorti fyrir tilskilinn meirihluta á sjálfum þingfundinum skulu slíkar ákvarðanir taka gildi, að því tilskildu að um tilskilinn meirihluta sé að ræða.

4)     [ Ákvarðanataka á þinginu]
a)    Þingið skal leitast við að ná samkomulagi um töku ákvarðana með einróma samþykki.
b)    Ef samkomulag næst ekki um töku ákvörðunar með einróma samþykki ber að ákveða um málefnið með atkvæðagreiðslu. Í slíkum tilvikum:
    i)    fer samningsaðili, sem er ríki, með eitt atkvæði og skal aðeins greiða atkvæði í eigin nafni; og
    ii)    samningsaðili, sem er milliríkjastofnun, getur tekið þátt í atkvæðagreiðslu, fyrir hönd aðildarríkja að þeirri stofnun, þar sem fjöldi atkvæða er jafn fjölda aðildarríkja sem eru aðilar að samningi þessum. Engin slík milliríkjastofnun skal taka þátt í atkvæðagreiðslunni notfæri eitthvert aðildarríkja hennar sér rétt sinn til að greiða atkvæði og öfugt. Auk þess skal engin slík milliríkjastofnun taka þátt í atkvæðagreiðslu ef eitthvert aðildarríkja hennar, sem er aðili að samningi þessum, er aðildarríki annarrar slíkrar milliríkjastofnunar og sú milliríkjastofnun tekur þátt í atkvæðagreiðslunni.
5)     [ Meirihluti]
a)    Með fyrirvara um ákvæði 2. og 3. mgr. 22. gr. þarf tvo þriðju hluta greiddra atkvæða til að ákvarðanir þingsins séu gildar.
b)    Þegar meta skal hvort tilskilinn meirihluti sé fenginn ber aðeins að líta til þeirra atkvæða sem greidd eru. Hjáseta telst ekki greitt atkvæði.

6)     [ Fundir] Þingið skal koma saman eftir að aðalframkvæmdastjóri hefur boðað fund og, að frátöldum undantekningartilvikum, á sama tíma og stað og aðalþing stofnunarinnar fer fram.

7)     [ Þingsköp] Þingið setur sér eigin reglur um þingsköp, þ.m.t. reglur um aukafundi.


24. gr.
Alþjóðaskrifstofa.

1)     [ Stjórnsýsluverkefni]
a)    Alþjóðaskrifstofan skal sjá um stjórnsýsluverkefni samkvæmt samningi þessum.
b)    Einkanlega skal alþjóðaskrifstofan sjá um undirbúning funda og ritarastörf þingsins og þeirra nefnda sérfræðinga og starfshópa sem þingið kann að koma á fót.

2)     [ Aðrir fundir en þingfundir] Aðalframkvæmdastjóri sér um fundarboð til nefnda og starfshópa sem þingið hefur komið á fót.
3)     [ Hlutverk alþjóðaskrifstofunnar á þinginu og öðrum fundum]
a)    Aðalframkvæmdastjóri og einstaklingar, sem aðalframkvæmdastjóri tilnefnir, skulu án atkvæðisréttar taka þátt í öllum fundum þingsins og nefnda og starfshópa sem þingið hefur komið á fót.
b)    Aðalframkvæmdastjóri eða starfsmaður, sem hann hefur tilnefnt, verður sjálfkrafa ritari þingsins og nefnda og starfshópa skv. a-lið.


4)     [ Ráðstefnur]
a)    Alþjóðaskrifstofan skal í samræmi við leiðbeiningar þingsins sjá um undirbúning allra ráðstefna sem haldnar eru til að endurskoða samninginn.
b)    Alþjóðaskrifstofan má ráðfæra sig við aðildarríki stofnunarinnar, milliríkjastofnanir og alþjóðlegar og innlendar óopinberar stofnanir varðandi umræddan undirbúning.

c)    Aðalframkvæmdastjórinn og einstaklingar, sem hann hefur tilnefnt, skulu taka án atkvæðisréttar þátt í þeim umræðum sem fram fara á ráðstefnum sem haldnar eru til að endurskoða samninginn.
5)     [ Önnur verkefni] Alþjóðaskrifstofan skal framkvæma öll önnur verkefni sem henni eru falin vegna þessa samnings.

25. gr.
Endurskoðun eða breyting.

    Samning þennan er einungis heimilt að endurskoða eða breyta á ráðstefnu sendifulltrúa ríkja. Þingið ákveður boðun til ráðstefna sendifulltrúa ríkja.

26. gr.
Aðild að samningnum.

1)     [ Kjörgengi] Eftirtaldir aðilar mega undirrita og, með fyrirvara um 2. og 3. mgr. og 1. og 3. mgr. 28. gr., gerast aðilar að samningi þessum:
    i)    ríki sem er aðili að stofnuninni enda sé vegna þess ríkis heimilt að skrá merki hjá eigin skrifstofu;
    ii)    milliríkjastofnun sem starfrækir skrifstofu þar sem skrá má merki svo að gilt sé á því landsvæði sem stofnsáttmáli milliríkjastofnunarinnar nær til, í öllum aðildarríkjum sínum eða þeim aðildarríkjum sem tilnefnd hafa verið í því skyni í viðkomandi umsókn, að því tilskildu að öll aðildarríki milliríkjastofnunarinnar séu aðilar að stofnuninni;



    iii)    ríki sem er aðili að stofnuninni enda sé vegna þess ríkis einvörðungu heimilt að skrá merki fyrir milligöngu skrifstofu annars tilgreinds ríkis sem er aðili að stofnuninni;
    iv)    ríki sem er aðili að stofnuninni enda sé vegna þess ríkis einvörðungu heimilt að skrá merki fyrir milligöngu skrifstofu milliríkjastofnunar sem ríkið er aðili að;

    v)    ríki sem er aðili að stofnuninni enda sé vegna þess ríkis einvörðungu heimilt að skrá merki fyrir milligöngu skrifstofu sem er sameiginleg hópi ríkja sem eru aðilar að stofnuninni;
2)     [ Fullgilding eða aðild] Aðili skv. 1. mgr. getur lagt inn:
    i)    fullgildingarskjal hafi hann undirritað samninginn;
    ii)    aðildarskjal hafi hann ekki undirritað samninginn.
3)     [ Gildistökudagur þegar skjal er afhent til vörslu] Gildistökudagur afhendingar skjals um fullgildingu eða aðild til vörslu skal teljast:
    i)    þegar um er að ræða ríki skv. i. lið 1. mgr. sá dagur þegar skjal þess ríkis er afhent til vörslu;
    ii)    þegar um milliríkjastofnun er að ræða, sá dagur þegar skjal þeirrar milliríkjastofnunar er afhent til vörslu;

    iii)    þegar um er að ræða ríki skv. iii. lið 1. mgr., sá dagur þegar eftirfarandi skilyrði er fullnægt: þegar skjal þess ríkis hefur verið afhent til vörslu og skjal hins ríkisins, sem er tilgreint, hefur verið afhent til vörslu;

    iv)    þegar um er að ræða ríki skv. iv. lið 1. mgr., sá dagur sem gildir samkvæmt ii. lið hér að framan;
    v)    þegar um er að ræða ríki sem er aðili að hópi ríkja skv. v. lið 1. mgr., sá dagur þegar skjöl allra ríkja, sem eru aðilar að ríkjahópnum, hafa verið afhent til vörslu.


27. gr.
Framkvæmd samningsins um vörumerkjarétt frá 1994 og samnings þessa.

1)     [ Samskipti samningsaðila sem eru bæði aðilar að samningi þessum og samningnum um vörumerkjarétt frá 1994] Einungis þessi samningur gildir um gagnkvæm samskipti samningsaðila sem eru bæði aðilar að samningi þessum og samningnum um vörumerkjarétt frá 1994.
2)     [ Samskipti samningsaðila að samningi þessum og samningsaðila að samningnum um vörumerkjarétt frá 1994 sem eru ekki aðilar að þessum samningi] Samningsaðili bæði að samningi þessum og samningnum um vörumerkjarétt frá 1994 skal halda áfram að beita samningnum um vörumerkjarétt frá 1994 varðandi samskipti sín við samningsaðila að samningnum um vörumerkjarétt frá 1994 sem eru ekki aðilar að samningi þessum.

28. gr.
Gildistaka; gildistökudagur fullgildingar og aðildar.

1)     [ Skjöl sem tekin eru gild] Samkvæmt þessari grein skal eingöngu taka þau fullgildingarskjöl eða aðildarskjöl gild sem hafa verið afhent til vörslu af hálfu aðila sem vísað er til í 1. mgr. 26. gr. og eru með gildistökudag skv. 3. mgr. 26. gr.
2)     [ Gildistaka samningsins] Samningur þessi tekur gildi þrem mánuðum eftir að tíu ríki eða milliríkjastofnanir skv. ii. lið 1. mgr. 26. gr. hafa afhent fullgildingarskjöl eða aðildarskjöl sín til vörslu.

3)     [ Gildistaka fullgildingar og aðildar eftir gildistöku samningsins] Aðili, sem fellur ekki undir 2. mgr., verður bundinn samkvæmt samningi þessum þremur mánuðum eftir þann dag sem hann afhenti fullgildingarskjal eða aðildarskjal sitt til vörslu.


29. gr.
Fyrirvarar.

1)     [ Sérstakar tegundir merkja] Ríki eða milliríkjastofnun er heimilt að setja fyrirvara þar sem því er lýst yfir, að þrátt fyrir 1. mgr. og a-lið 2. mgr. 2. gr. skuli ákvæði 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 5. gr., 7. gr., 5. mgr. 8. gr., 11. gr. og 13. gr. ekki gilda um tengd merki, varnarmerki eða afleidd merki. Í slíkum fyrirvara skal tilgreina þau fyrrnefndra ákvæða sem fyrirvarinn varðar.
2)     [ Skráning í marga flokka] Ríki eða milliríkjastofnun þar sem lög, á þeim tíma þegar gengist var undir ákvæði samnings þessa, kveða á um fjölflokkaskráningu vöru og fjölflokkaskráningu þjónustu er heimilt, þegar ríkið eða stofnunin gerist aðili að samningi þessum, að setja fyrirvara þar sem lýst er yfir að ákvæði 6. gr. skulu ekki gilda.
3)     [ Efnisleg skoðun þegar endurnýjun fer fram] Ríki eða milliríkjastofnun er heimilt að setja fyrirvara þar sem því er lýst yfir að þrátt fyrir 4. mgr. 13. gr. megi skrifstofan, þegar skráning á þjónustu kemur til endurnýjunar í fyrsta sinn, taka slíka skráningu til efnislegrar skoðunar að því tilskildu að slík skoðun takmarkist við afnám fjölskráninga sem byggjast á umsóknum sem skráðar hafa verið á sex mánaða tímabili eftir gildistöku laga þessa ríkis eða stofnunar þar sem innleidd var hugsanleg skráning þjónustumerkja fyrir gildistöku samnings þessa.


4)     [ Ákveðin réttindi nytjaleyfishafa] Ríki eða milliríkjastofnun er heimilt að setja fyrirvara þar sem því er lýst yfir að þrátt fyrir 2. mgr. 19. gr. sé það gert að skilyrði að skráning nytjaleyfis sé forsenda réttinda sem nytjaleyfishafi kann að hafa samkvæmt lögum þessa ríkis eða stofnunar til að gerast aðili að málarekstri sem eigandi höfðar vegna brota á vörumerkjarétti eða til að fá skaðabætur vegna brota á rétti til þess merkis sem nytjaleyfið tekur til.

5)     [ Form] Fyrirvari skv. 1., 2., 3. eða 4. mgr. skal settur fram með yfirlýsingu þess ríkis eða þeirrar milliríkjastofnunar sem setur fyrirvarann og skal fyrirvarinn fylgja fullgildingarskjali eða aðildarskjali að samningi þessum.
6)     [ Afturköllun] Fyrirvara samkvæmt 1., 2., 3. eða 4. mgr. er heimilt að afturkalla hvenær sem er.
7)     [ Bann við öðrum fyrirvörum] Enga aðra fyrirvara má setja við samning þennan en þá fyrirvara sem heimilaðir eru samkvæmt 1., 2., 3. og 4. mgr.


30. gr.
Uppsögn aðildar að samningnum.

1)     [ Tilkynningar] Samningsaðili má segja samningi þessum upp með tilkynningu sem beint er til aðalframkvæmdastjóra.
2)     [ Gildistökudagur] Uppsögn tekur gildi einu ári frá þeim degi þegar aðalframkvæmdastjóri tók við tilkynningu. Hún hefur ekki áhrif á gildi samnings þessa varðandi óafgreidda umsókn eða merki sem hefur verið skráð vegna þess samningsaðila sem segir upp á þeim tíma þegar téð eins árs tímabil rennur út að því tilskildu að samningsaðili sá, sem segir upp, geti, eftir lok téðs eins árs tímabils, hætt beitingu samnings þessa við hverja skráningu frá þeim tíma þegar komið er að endurnýjun þeirrar skráningar.

31. gr.
Tungumál samningsins; undirritun.

1)     [ Frumtextar; opinberir textar]
a)    Samningur þessi skal undirritaður í einu frumriti á ensku, arabísku, kínversku, frönsku, rússnesku og spænsku og eru allir textar jafngildir.

b)    Opinber texti á tungumáli, sem ekki er vísað til í a-lið en er opinbert tungumál samningsaðila, skal staðfest af aðalframkvæmdastjóra að höfðu samráði við téðan samningsaðila og annan eða aðra samningsaðila sem hagsmuna hafa að gæta.

2)     [ Tímamörk fyrir undirritun] Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar í höfuðstöðvum stofnunarinnar í eitt ár eftir að hann hefur verið samþykktur.

32. gr.
Vörsluaðili.

    Aðalframkvæmdastjóri skal vera vörsluaðili samnings þessa.

SINGAPORE TREATY ON THE LAW OF TRADEMARKS

List of Articles


Article 1:    Abbreviated Expressions
Article 2:    Marks to Which the Treaty Applies
Article 3:    Application
Article 4:    Representation; Address for Service
Article 5:    Filing Date
Article 6:    Single Registration for Goods and/or Services in Several Classes
Article 7:    Division of Application and Registration
Article 8:    Communications
Article 9:    Classification of Goods and/or Services
Article 10:    Changes in Names or Addresses
Article 11:    Change in Ownership
Article 12:    Correction of a Mistake
Article 13:    Duration and Renewal of Registration
Article 14:    Relief Measures in Case of Failure to Comply with Time Limits
Article 15:    Obligation to Comply with the Paris Convention
Article 16:    Service Marks
Article 17:    Request for Recordal of a License
Article 18:    Request for Amendment or Cancellation of the Recordal of a License
Article 19:    Effects of the Non-Recordal of a License
Article 20:    Indication of the License
Article 21:    Observations in Case of Intended Refusal
Article 22:     Regulations
Article 23:    Assembly
Article 24:    International Bureau
Article 25:    Revision or Amendment
Article 26:    Becoming Party to the Treaty
Article 27:    Application of the TLT 1994 and This Treaty
Article 28:    Entry into Force; Effective Date of Ratifications and Accessions
Article 29:    Reservations
Article 30:    Denunciation of the Treaty
Article 31:    Languages of the Treaty; Signature
Article 32:    Depositary

Article 1
Abbreviated Expressions

    For the purposes of this Treaty, unless expressly stated otherwise:
    (i)    “Office” means the agency entrusted by a Contracting Party with the registration of marks;
    (ii)    “registration” means the registration of a mark by an Office;
    (iii)    “application” means an application for registration;
    (iv)    “communication” means any application, or any request, declaration, correspondence or other information relating to an application or a registration, which is filed with the Office;
    (v)    references to a “person” shall be construed as references to both a natural person and a legal entity;
    (vi)    “holder” means the person whom the register of marks shows as the holder of the registration;
    (vii)    “register of marks” means the collection of data maintained by an Office, which includes the contents of all registrations and all data recorded in respect of all registrations, irrespective of the medium in which such data are stored;
    (viii)    “procedure before the Office” means any procedure in proceedings before the Office with respect to an application or a registration;
    (ix)    “Paris Convention” means the Paris Convention for the Protection of Industrial Property, signed at Paris on March 20, 1883, as revised and amended;

    (x)    “Nice Classification” means the classification established by the Nice Agreement Concerning the International Classification of Goods and Services for the Purposes of the Registration of Marks, signed at Nice on June 15, 1957, as revised and amended;
    (xi)    “license” means a license for the use of a mark under the law of a Contracting Party;
    (xii)    “licensee” means the person to whom a license has been granted;
    (xiii)    “Contracting Party” means any State or intergovernmental organization party to this Treaty;
    (xiv)    “Diplomatic Conference” means the convocation of Contracting Parties for the purpose of revising or amending the Treaty;
    (xv)    “Assembly” means the Assembly referred to in Article 23;
    (xvi)    references to an “instrument of ratification” shall be construed as including references to instruments of acceptance and approval;
    (xvii)    “Organization” means the World Intellectual Property Organization;
    (xviii)    “International Bureau” means the International Bureau of the Organization;
    (xix)    “Director General” means the Director General of the Organization;
    (xx)    “Regulations” means the Regulations under this Treaty that are referred to in Article 22;
    (xxi)    references to an “Article” or to a “paragraph”, “subparagraph” or “item” of an Article shall be construed as including references to the corresponding rule(s) under the Regulations;
    (xxii)    “TLT 1994” means the Trademark Law Treaty done at Geneva on October 27, 1994.

Article 2
Marks to Which the Treaty Applies

(1)     [ Nature of Marks] Any Contracting Party shall apply this Treaty to marks consisting of signs that can be registered as marks under its law.

(2)     [ Kinds of Marks]
(a)    This Treaty shall apply to marks relating to goods (trademarks) or services (service marks) or both goods and services.
(b)    This Treaty shall not apply to collective marks, certification marks and guarantee marks.

Article 3
Application

(1)     [ Indications or Elements Contained in or Accompanying an Application; Fee]
(a)    Any Contracting Party may require that an application contain some or all of the following indications or elements:
    (i)    a request for registration;
    (ii)    the name and address of the applicant;
    (iii)    the name of a State of which the applicant is a national if he/she is the national of any State, the name of a State in which the applicant has his/her domicile, if any, and the name of a State in which the applicant has a real and effective industrial or commercial establishment, if any;
    (iv)    where the applicant is a legal entity, the legal nature of that legal entity and the State, and, where applicable, the territorial unit within that State, under the law of which the said legal entity has been organized;
    (v)    where the applicant has a representative, the name and address of that representative;
    (vi)    where an address for service is required under Article 4(2)(b), such address;

    (vii)    where the applicant wishes to take advantage of the priority of an earlier application, a declaration claiming the priority of that earlier application, together with indications and evidence in support of the declaration of priority that may be required pursuant to Article 4 of the Paris Convention;
    (viii)    where the applicant wishes to take advantage of any protection resulting from the display of goods and/or services in an exhibition, a declaration to that effect, together with indications in support of that declaration, as required by the law of the Contracting Party;
    (ix)    at least one representation of the mark, as prescribed in the Regulations;
    (x)    where applicable, a statement, as prescribed in the Regulations, indicating the type of mark as well as any specific requirements applicable to that type of mark;
    (xi)    where applicable, a statement, as prescribed in the Regulations, indicating that the applicant wishes that the mark be registered and published in the standard characters used by the Office;
    (xii)    where applicable, a statement, as prescribed in the Regulations, indicating that the applicant wishes to claim color as a distinctive feature of the mark;
    (xiii)    a transliteration of the mark or of certain parts of the mark;
    (xiv)    a translation of the mark or of certain parts of the mark;
    (xv)    the names of the goods and/or services for which the registration is sought, grouped according to the classes of the Nice Classification, each group preceded by the number of the class of that Classification to which that group of goods or services be longs and presented in the order of the classes of the said Classification;
    (xvi)    a declaration of intention to use the mark, as required by the law of the Contracting Party.
(b)    The applicant may file, instead of or in addition to the declaration of intention to use the mark referred to in subparagraph (a)(xvi), a declaration of actual use of the mark and evidence to that effect, as required by the law of the Contracting Party.
(c)    Any Contracting Party may require that, in respect of the application, fees be paid to the Office.
(2)     [ Single Application for Goods and/or Services in Several Classes] One and the same application may relate to several goods and/or services, irrespective of whether they belong to one class or to several classes of the Nice Classification.
(3)     [ Actual Use] Any Contracting Party may require that, where a declaration of intention to use has been filed under paragraph (1)(a)(xvi), the applicant furnish to the Office within a time limit fixed in its law, subject to the minimum time limit prescribed in the Regulations, evidence of the actual use of the mark, as required by the said law.

(4)     [ Prohibition of Other Requirements] No Contracting Party may demand that requirements other than those referred to in paragraphs (1) and (3) and in Article 8 be complied with in respect of the application. In particular, the following may not be required in respect of the application throughout its pendency:
    (i)    the furnishing of any certificate of, or extract from, a register of commerce;
    (ii)    an indication of the applicant's carrying on of an industrial or commercial activity, as well as the furnishing of evidence to that effect;
    (iii)    an indication of the applicant's carrying on of an activity corresponding to the goods and/or services listed in the application, as well as the furnishing of evidence to that effect;
    (iv)    the furnishing of evidence to the effect that the mark has been registered in the register of marks of another Contracting Party or of a State party to the Paris Convention which is not a Contracting Party, except where the applicant claims the application of Article 6 quinquies of the Paris Convention.
(5)     [ Evidence] Any Contracting Party may require that evidence be furnished to the Office in the course of the examination of the application where the Office may reasonably doubt the veracity of any indication or element contained in the application.


Article 4
Representation; Address for Service

(1)     [ Representatives Admitted to Practice]
(a)    Any Contracting Party may require that a representative appointed for the purposes of any procedure before the Office
    (i)    have the right, under the applicable law, to practice before the Office in respect of applications and registrations and, where applicable, be admitted to practice before the Office;
    (ii)    provide, as its address, an address on a territory prescribed by the Contracting Party.

(b)    An act, with respect to any procedure before the Office, by or in relation to a representative who complies with the requirements applied by the Contracting Party under subparagraph (a), shall have the effect of an act by or in relation to the applicant, holder or other interested person who appointed that representative.
(2)     [ Mandatory Representation; Address for Service]
(a)    Any Contracting Party may require that, for the purposes of any procedure before the Office, an applicant, holder or other interested person who has neither a domicile nor a real and effective industrial or commercial establishment on its territory be represented by a representative.
(b)    Any Contracting Party may, to the extent that it does not require representation in accordance with subparagraph (a), require that, for the purposes of any procedure before the Office, an applicant, holder or other interested person who has neither a domicile nor a real and effective industrial or commercial establishment on its territory have an address for service on that territory.
(3)     [ Power of Attorney]
(a)    Whenever a Contracting Party allows or requires an applicant, a holder or any other interested person to be represented by a representative before the Office, it may require that the representative be appointed in a separate communication (hereinafter referred to as “power of attorney”) indicating the name of the applicant, the holder or the other person, as the case may be.
(b)    The power of attorney may relate to one or more applications and/or registrations identified in the power of attorney or, subject to any exception indicated by the appointing person, to all existing and future applications and/or registrations of that person.
(c)    The power of attorney may limit the powers of the representative to certain acts. Any Contracting Party may require that any power of attorney under which the representative has the right to withdraw an application or to surrender a registration contain an express indication to that effect.
(d)    Where a communication is submitted to the Office by a person who refers to itself in the communication as a representative but where the Office is, at the time of the receipt of the communication, not in possession of the required power of attorney, the Contracting Party may require that the power of attorney be submitted to the Office within the time limit fixed by the Contracting Party, subject to the minimum time limit prescribed in the Regulations. Any Contracting Party may provide that, where the power of attorney has not been submitted to the Office within the time limit fixed by the Contracting Party, the communication by the said person shall have no effect.
(4)     [ Reference to Power of Attorney] Any Contracting Party may require that any communication made to the Office by a representative for the purposes of a procedure before the Office contain a reference to the power of attorney on the basis of which the representative acts.
(5)     [ Prohibition of Other Requirements] No Contracting Party may demand that requirements other than those referred to in paragraphs (3) and (4) and in Article 8 be complied with in respect of the matters dealt with in those paragraphs.
(6)     [ Evidence] Any Contracting Party may require that evidence be furnished to the Office where the Office may reasonably doubt the veracity of any indication contained in any communication referred to in paragraphs (3) and (4).

Article 5
Filing Date

(1)     [ Permitted Requirements]
(a)    Subject to subparagraph (b) and paragraph (2), a Contracting Party shall accord as the filing date of an application the date on which the Office received the following indications and elements in the language required under Article 8(2):
    (i)    an express or implicit indication that the registration of a mark is sought;
    (ii)    indications allowing the identity of the applicant to be established;
    (iii)    indications allowing the applicant or its representative, if any, to be contacted by the Office;
    (iv)    a sufficiently clear representation of the mark whose registration is sought;
    (v)    the list of the goods and/or services for which the registration is sought;
    (vi)    where Article 3(1)(a)(xvi) or (b) applies, the declaration referred to in Article 3(1)(a)(xvi) or the declaration and evidence referred to in Article 3(1)(b), respectively, as required by the law of the Contracting Party.

(b)    Any Contracting Party may accord as the filing date of the application the date on which the Office received only some, rather than all, of the indications and elements referred to in subparagraph (a) or received them in a language other than the language required under Article 8(2).
(2)     [ Permitted Additional Requirement]
(a)    A Contracting Party may provide that no filing date shall be accorded until the required fees are paid.
(b)    A Contracting Party may apply the requirement referred to in subparagraph (a) only if it applied such requirement at the time of becoming party to this Treaty.
(3)     [ Corrections and Time Limits] The modalities of, and time limits for, corrections under paragraphs (1) and (2) shall be fixed in the Regulations.
(4)     [ Prohibition of Other Requirements] No Contracting Party may demand that requirements other than those referred to in paragraphs (1) and (2) be complied with in respect of the filing date.

Article 6
Single Registration for Goods and/or Services in Several Classes

    Where goods and/or services belonging to several classes of the Nice Classification have been included in one and the same application, such an application shall result in one and the same registration.

Article 7
Division of Application and Registration

(1)     [ Division of Application]
(a)    Any application listing several goods and/or services (hereinafter referred to as “initial application”) may,

    (i)    at least until the decision by the Office on the registration of the mark,
    (ii)    during any opposition proceedings against the decision of the Office to register the mark,
    (iii)    during any appeal proceedings against the decision on the registration of the mark,
be divided by the applicant or at its request into two or more applications (hereinafter referred to as “divisional applications”) by distributing among the latter the goods and/or services listed in the initial application. The divisional applications shall preserve the filing date of the initial application and the benefit of the right of priority, if any.
(b)    Any Contracting Party shall, subject to subparagraph (a), be free to establish requirements for the division of an application, including the payment of fees.
(2)     [ Division of Registration] Paragraph (1) shall apply, mutatis mutandis, with respect to a division of a registration. Such a division shall be permitted
    (i)    during any proceedings in which the validity of the registration is challenged before the Office by a third party,
    (ii)    during any appeal proceedings against a decision taken by the Office during the former proceedings, provided that a Contracting Party may exclude the possibility of the division of registrations if its law allows third parties to oppose the registration of a mark before the mark is registered.

Article 8
Communications

(1)     [ Means of Transmittal and Form of Communications] Any Contracting Party may choose the means of transmittal of communications and whether it accepts communications on paper, communications in electronic form or any other form of communication.
(2)     [ Language of Communications]
(a)    Any Contracting Party may require that any communication be in a language admitted by the Office. Where the Office admits more than one language, the applicant, holder or other interested person may be required to comply with any other language requirement applicable with respect to the Office, provided that no indication or element of the communication may be required to be in more than one language.
(b)    No Contracting Party may require the attestation, notarization, authentication, legalization or any other certification of any translation of a communication other than as provided under this Treaty.
(c)    Where a Contracting Party does not require a communication to be in a language admitted by its Office, the Office may require that a translation of that communication by an official translator or a representative, into a language admitted by the Office, be supplied within a reasonable time limit.
(3)     [ Signature of Communications on Paper]
(a)    Any Contracting Party may require that a communication on paper be signed by the applicant, holder or other interested person. Where a Contracting Party requires a communication on paper to be signed, that Contracting Party shall accept any signature that complies with the requirements prescribed in the Regulations.

(b)    No Contracting Party may require the attestation, notarization, authentication, legalization or other certification of any signature except, where the law of the Contracting Party so provides, if the signature concerns the surrender of a registration.
(c)    Notwithstanding subparagraph (b), a Contracting Party may require that evidence be filed with the Office where the Office may reasonably doubt the authenticity of any signature of a communication on paper.
(4)     [ Communications Filed in Electronic Form or by Electronic Means of Transmittal] Where a Contracting Party permits the filing of communications in electronic form or by electronic means of transmittal, it may require that any such communications comply with the requirements prescribed in the Regulations.
(5)     [ Presentation of a Communication] Any Contracting Party shall accept the presentation of a communication the content of which corresponds to the relevant Model International Form, if any, provided for in the Regulations.
(6)     [ Prohibition of Other Requirements] No Contracting Party may demand that, in respect of paragraphs (1) to (5), requirements other than those referred to in this Article be complied with.
(7)     [ Means of Communication with Representative] Nothing in this Article regulates the means of communication between an applicant, holder or other interested person and its representative.

Article 9
Classification of Goods and/or Services

(1)     [ Indications of Goods and/or Services] Each registration and any publication effected by an Office which concerns an application or registration and which indicates goods and/or services shall indicate the goods and/or services by their names, grouped according to the classes of the Nice Classification, and each group shall be preceded by the number of the class of that Classification to which that group of goods or services belongs and shall be presented in the order of the classes of the said Classification.
(2)     [ Goods or Services in the Same Class or in Different Classes]
(a)    Goods or services may not be considered as being similar to each other on the ground that, in any registration or publication by the Office, they appear in the same class of the Nice Classification.
(b)    Goods or services may not be considered as being dissimilar from each other on the ground that, in any registration or publication by the Office, they appear in different classes of the Nice Classification.

Article 10
Changes in Names or Addresses

(1)     [ Changes in the Name or Address of the Holder]
(a)    Where there is no change in the person of the holder but there is a change in its name and/or address, each Contracting Party shall accept that a request for the recordal of the change by the Office in its register of marks be made by the holder in a communication indicating the registration number of the registration concerned and the change to be recorded.
(b)    Any Contracting Party may require that the request indicate
    (i)    the name and address of the holder;
    (ii)    where the holder has a representative, the name and address of that representative;
    (iii)    where the holder has an address for service, such address.
(c)    Any Contracting Party may require that, in respect of the request, a fee be paid to the Office.
(d)    A single request shall be sufficient even where the change relates to more than one registration, provided that the registration numbers of all registrations concerned are indicated in the request.
(2)     [ Change in the Name or Address of the Applicant] Paragraph (1) shall apply, mutatis mutandis, where the change concerns an application or applications, or both an application or applications and a registration or registrations, provided that, where the application number of any application concerned has not yet been issued or is not known to the applicant or its representative, the request otherwise iden tifies that application as prescribed in the Regulations.
(3)     [ Change in the Name or Address of the Representative or in the Address for Service] Paragraph (1) shall apply, mutatis mutandis, to any change in the name or address of the representative, if any, and to any change relating to the address for service, if any.
(4)     [ Prohibition of Other Requirements] No Contracting Party may demand that requirements other than those referred to in paragraphs (1) to (3) and in Article 8 be complied with in respect of the request referred to in this Article. In particular, the furnishing of any certificate concerning the change may not be required.
(5)     [ Evidence] Any Contracting Party may require that evidence be furnished to the Office where the Office may reasonably doubt the veracity of any indication contained in the request.

Article 11
Change in Ownership

(1)     [ Change in the Ownership of a Registration]
(a)    Where there is a change in the person of the holder, each Contracting Party shall accept that a request for the recordal of the change by the Office in its register of marks be made by the holder or by the person who acquired the ownership (hereinafter referred to as “new owner”) in a communication indicating the registration number of the registration concerned and the change to be recorded.
(b)    Where the change in ownership results from a contract, any Contracting Party may require that the request indicate that fact and be accompanied, at the option of the requesting party, by one of the following:
    (i)    a copy of the contract, which copy may be required to be certified, by a notary public or any other competent public authority, as being in conformity with the original contract;
    (ii)    an extract of the contract showing the change in ownership, which extract may be required to be certified, by a notary public or any other competent public authority, as being a true extract of the contract;

    (iii)    an uncertified certificate of transfer drawn up in the form and with the content as prescribed in the Regulations and signed by both the holder and the new owner;
    (iv)    an uncertified transfer document drawn up in the form and with the content as prescribed in the Regulations and signed by both the holder and the new owner.
(c)    Where the change in ownership results from a merger, any Contracting Party may require that the request indicate that fact and be accompanied by a copy of a document, which document originates from the competent authority and evidences the merger, such as a copy of an extract from a register of commerce, and that that copy be certified by the authority which issued the document or by a notary public or any other competent public authority, as being in conformity with the original document.
(d)    Where there is a change in the person of one or more but not all of several co-holders and such change in ownership results from a contract or a merger, any Contracting Party may require that any co-holder in respect of which there is no change in ownership give its express consent to the change in ownership in a document signed by it.
(e)    Where the change in ownership does not result from a contract or a merger but from another ground, for example, from operation of law or a court decision, any Contracting Party may require that the request indicate that fact and be accompanied by a copy of a document evidencing the change and that that copy be certified as being in conformity with the original document by the authority which issued the document or by a notary public or any other competent public authority.
(f)    Any Contracting Party may require that the request indicate
    (i)    the name and address of the holder;
    (ii)    the name and address of the new owner;
    (iii)    the name of a State of which the new owner is a national if he/she is the national of any State, the name of a State in which the new owner has his/her domicile, if any, and the name of a State in which the new owner has a real and effective industrial or commercial establishment, if any;
    (iv)    where the new owner is a legal entity, the legal nature of that legal entity and the State, and, where applicable, the territorial unit within that State, under the law of which the said legal entity has been organized;
    (v)    where the holder has a representative, the name and address of that representative;
    (vi)    where the holder has an address for service, such address;
    (vii)    where the new owner has a representative, the name and address of that representative;
    (viii)    where the new owner is required to have an address for service under Article 4(2)(b), such address.
(g)    Any Contracting Party may require that, in respect of the request, a fee be paid to the Office.
(h)    A single request shall be sufficient even where the change relates to more than one registration, provided that the holder and the new owner are the same for each registration and that the registration numbers of all registrations concerned are indicated in the request.
(i)    Where the change of ownership does not affect all the goods and/or services listed in the holder's registration, and the applicable law allows the recording of such change, the Office shall create a separate registration referring to the goods and/or services in respect of which the ownership has changed.
(2)     [ Change in the Ownership of an Application] Paragraph (1) shall apply, mutatis mutandis, where the change in ownership concerns an application or applications, or both an application or applications and a registration or registrations, provided that, where the application number of any application concerned has not yet been issued or is not known to the applicant or its representative, the request otherwise identifies that application as prescribed in the Regulations.
(3)     [ Prohibition of Other Requirements] No Contracting Party may demand that requirements other than those referred to in paragraphs (1) and (2) and in Article 8 be complied with in respect of the request referred to in this Article. In particular, the following may not be required:
    (i)    subject to paragraph (1)(c), the furnishing of any certificate of, or extract from, a register of commerce;
    (ii)    an indication of the new owner's carrying on of an industrial or commercial activity, as well as the furnishing of evidence to that effect;
    (iii)    an indication of the new owner's carrying on of an activity corresponding to the goods and/or services affected by the change in ownership, as well as the furnishing of evidence to either effect;
    (iv)    an indication that the holder transferred, entirely or in part, its business or the relevant goodwill to the new owner, as well as the furnishing of evidence to either effect.

(4)     [ Evidence] Any Contracting Party may require that evidence, or further evidence where paragraph (1)(c) or (e) applies, be furnished to the Office where that Office may reasonably doubt the veracity of any indication contained in the request or in any document referred to in the present Article.

Article 12
Correction of a Mistake

(1)     [ Correction of a Mistake in Respect of a Registration]
(a)    Each Contracting Party shall accept that the request for the correction of a mistake which was made in the application or other request communicated to the Office and which mistake is reflected in its register of marks and/or any publication by the Office be made by the holder in a communication indicating the registration number of the registration concerned, the mistake to be corrected and the correction to be entered.
(b)    Any Contracting Party may require that the request indicate
    (i)    the name and address of the holder;
    (ii)    where the holder has a representative, the name and address of that representative;
    (iii)    where the holder has an address for service, such address.
(c)    Any Contracting Party may require that, in respect of the request, a fee be paid to the Office.
(d)    A single request shall be sufficient even where the correction relates to more than one registration of the same person, provided that the mistake and the requested correction are the same for each registration and that the registration numbers of all registrations concerned are indicated in the request.
(2)     [ Correction of a Mistake in Respect of an Application] Paragraph (1) shall apply, mutatis mutandis, where the mistake concerns an application or applications, or both an application or applications and a registration or registrations, provided that, where the application number of any application concerned has not yet been issued or is not known to the applicant or its representative, the request otherwise identifies that application as prescribed in the Regulations.
(3)     [ Prohibition of Other Requirements] No Contracting Party may demand that requirements other than those referred to in paragraphs (1) and (2) and in Article 8 be complied with in respect of the request referred to in this Article.
(4)     [ Evidence] Any Contracting Party may require that evidence be furnished to the Office where the Office may reasonably doubt that the alleged mistake is in fact a mistake.
(5)     [ Mistakes Made by the Office] The Office of a Contracting Party shall correct its own mistakes, ex officio or upon request, for no fee.
(6)     [ Uncorrectable Mistakes] No Contracting Party shall be obliged to apply paragraphs (1), (2) and (5) to any mistake which cannot be corrected under its law.

Article 13
Duration and Renewal of Registration

(1)     [ Indications or Elements Contained in or Accompanying a Request for Renewal; Fee]
(a)    Any Contracting Party may require that the renewal of a registration be subject to the filing of a request and that such request contain some or all of the following indications:
    (i)    an indication that renewal is sought;
    (ii)    the name and address of the holder;
    (iii)    the registration number of the registration concerned;
    (iv)    at the option of the Contracting Party, the filing date of the application which resulted in the registration concerned or the registration date of the registration concerned;
    (v)    where the holder has a representative, the name and address of that representative;
    (vi)    where the holder has an address for service, such address;
    (vii)    where the Contracting Party allows the renewal of a registration to be made for some only of the goods and/or services which are recorded in the register of marks and such a renewal is requested, the names of the recorded goods and/or services for which the renewal is requested or the names of the recorded goods and/or services for which the renewal is not requested, grouped according to the classes of the Nice Classification, each group preceded by the number of the class of that Classification to which that group of goods or services belongs and presented in the order of the classes of the said Classification;
    (viii)    where a Contracting Party allows a request for renewal to be filed by a person other than the holder or its representative and the request is filed by such a person, the name and address of that person.
(b)    Any Contracting Party may require that, in respect of the request for renewal, a fee be paid to the Office. Once the fee has been paid in respect of the initial period of the registration or of any renewal period, no further payment may be required for the maintenance of the registration in respect of that period. Fees associated with the furnishing of a declaration and/or evidence of use shall not be regarded, for the purposes of this subparagraph, as payments required for the maintenance of the registration and shall not be affected by this subparagraph.
(c)    Any Contracting Party may require that the request for renewal be presented, and the corresponding fee referred to in subparagraph (b) be paid, to the Office within the period fixed by the law of the Contracting Party, subject to the minimum periods prescribed in the Regulations.

(2)     [ Prohibition of Other Requirements] No Contracting Party may demand that requirements other than those referred to in paragraph (1) and in Article 8 be complied with in respect of the request for renewal. In particular, the following may not be required:
    (i)    any representation or other identification of the mark;
    (ii)    the furnishing of evidence to the effect that the mark has been registered, or that its registration has been renewed, in any other register of marks;
    (iii)    the furnishing of a declaration and/or evidence concerning use of the mark.
(3)     [ Evidence] Any Contracting Party may require that evidence be furnished to the Office in the course of the examination of the request for renewal where the Office may reasonably doubt the veracity of any indication or element contained in the request for renewal.
(4)     [ Prohibition of Substantive Examination ] No Office of a Contracting Party may, for the purposes of effecting the renewal, examine the registration as to substance.
(5)     [ Duration] The duration of the initial period of the registration, and the duration of each renewal period, shall be 10 years.

Article 14
Relief Measures in Case of Failure to Comply with Time Limits

(1)     [ Relief Measure Before the Expiry of a Time Limit] A Contracting Party may provide for the extension of a time limit for an action in a procedure before the Office in respect of an application or a registration, if a request to that effect is filed with the Office prior to the expiry of the time limit.
(2)     [ Relief Measures After the Expiry of a Time Limit] Where an applicant, holder or other interested person has failed to comply with a time limit (“the time limit concerned”) for an action in a procedure before the Office of a Contracting Party in respect of an application or a registration, the Contracting Party shall provide for one or more of the following relief measures, in accordance with the requirements prescribed in the Regulations, if a request to that effect is filed with the Office:
    (i)    extension of the time limit concerned for the period prescribed in the Regulations;
    (ii)    continued processing with respect to the application or registration;
    (iii)    reinstatement of the rights of the applicant, holder or other interested person with respect to the application or registration if the Office finds that the failure to comply with the time limit concerned occurred in spite of due care required by the circumstances having been taken or, at the option of the Contracting Party, that the failure was unintentional.

(3)     [ Exceptions] No Contracting Party shall be required to provide for any of the relief measures referred to in paragraph (2) with respect to the exceptions prescribed in the Regulations.
(4)     [ Fee] Any Contracting Party may require that a fee be paid in respect of any of the relief measures referred to in paragraphs (1) and (2).
(5)     [ Prohibition of Other Requirements] No Contracting Party may demand that requirements other than those referred to in this Article and in Article 8 be complied with in respect of any of the relief measures referred to in paragraph (2).

Article 15
Obligation to Comply with the Paris Convention

    Any Contracting Party shall comply with the provisions of the Paris Convention which concern marks.

Article 16
Service Marks

    Any Contracting Party shall register service marks and apply to such marks the provisions of the Paris Convention which concern trademarks.

Article 17
Request for Recordal of a License

(1)     [ Requirements Concerning the Request for Recordal] Where the law of a Contracting Party provides for the recordal of a license with its Office, that Contracting Party may require that the request for recordal
    (i)    be filed in accordance with the requirements prescribed in the Regulations, and
    (ii)    be accompanied by the supporting documents prescribed in the Regulations.
(2)     [ Fee] Any Contracting Party may require that, in respect of the recordal of a license, a fee be paid to the Office.
(3)     [ Single Request Relating to Several Registrations] A single request shall be sufficient even where the license relates to more than one registration, provided that the registration numbers of all registrations concerned are indicated in the request, the holder and the licensee are the same for all registrations, and the request indicates the scope of the license in accordance with the Regulations with respect to all registrations.
(4)     [ Prohibition of Other Requirements]
(a)    No Contracting Party may demand that requirements other than those referred to in paragraphs (1) to (3) and in Article 8 be complied with in respect of the recordal of a license with its Office. In particular, the following may not be required:
    (i)    the furnishing of the registration certificate of the mark which is the subject of the license;
    (ii)    the furnishing of the license contract or a translation of it;
    (iii)    an indication of the financial terms of the license contract.
(b)    Subparagraph (a) is without prejudice to any obligations existing under the law of a Contracting Party concerning the disclosure of information for purposes other than the recording of the license in the register of marks.
(5)     [ Evidence] Any Contracting Party may require that evidence be furnished to the Office where the Office may reasonably doubt the veracity of any indication contained in the request or in any document referred to in the Regulations.
(6)     [ Requests Relating to Applications] Paragraphs (1) to (5) shall apply, mutatis mutandis, to requests for recordal of a license for an application, where the law of a Contracting Party provides for such recordal.

Article 18
Request for Amendment or Cancellation of the Recordal of a License

(1)     [ Requirements Concerning the Request] Where the law of a Contracting Party provides for the recordal of a license with its Office, that Contracting Party may require that the request for amendment or cancellation of the recordal of a license
    (i)    be filed in accordance with the requirements prescribed in the Regulations, and
    (ii)    be accompanied by the supporting documents prescribed in the Regulations.
(2)     [ Other Requirements] Article 17(2) to (6) shall apply, mutatis mutandis, to requests for amendment or cancellation of the recordal of a license.

Article 19
Effects of the Non-Recordal of a License

(1)     [ Validity of the Registration and Protection of the Mark] The non-recordal of a license with the Office or with any other authority of the Contracting Party shall not affect the validity of the registration of the mark which is the subject of the license or the protection of that mark.
(2)     [ Certain Rights of the Licensee] A Contracting Party may not require the recordal of a license as a condition for any right that the licensee may have under the law of that Contracting Party to join infringement proceedings initiated by the holder or to obtain, by way of such proceedings, damages resulting from an infringement of the mark which is the subject of the license.
(3)     [ Use of a Mark Where License Is Not Recorded] A Contracting Party may not require the recordal of a license as a condition for the use of a mark by a licensee to be deemed to constitute use by the holder in proceedings relating to the acquisition, maintenance and enforcement of marks.

Article 20
Indication of the License

    Where the law of a Contracting Party requires an indication that the mark is used under a license, full or partial non-compliance with that requirement shall not affect the validity of the registration of the mark which is the subject of the license or the protection of that mark, and shall not affect the application of Article 19(3).

Article 21
Observations in Case of Intended Refusal

    An application under Article 3 or a request under Articles 7, 10 to 14, 17 and 18 may not be refused totally or in part by an Office without giving the applicant or the requesting party, as the case may be, an opportunity to make observations on the intended refusal within a reasonable time limit. In respect of Article 14, no Office shall be required to give an opportunity to make observations where the person requesting the relief measure has already had an opportunity to present an observation on the facts on which the decision is to be based.

Article 22
Regulations

(1)     [ Content]
(a)    The Regulations annexed to this Treaty provide rules concerning
    (i)    matters which this Treaty expressly provides to be “prescribed in the Regulations”;
    (ii)    any details useful in the implementation of the provisions of this Treaty;
    (iii)    any administrative requirements, matters or procedures.
(b)    The Regulations also contain Model International Forms.
(2)     [ Amending the Regulations] Subject to paragraph (3), any amendment of the Regulations shall require three-fourths of the votes cast.

(3)     [ Requirement of Unanimity]
(a)    The Regulations may specify provisions of the Regulations which may be amended only by unanimity.
(b)    Any amendment of the Regulations resulting in the addition of provisions to, or the deletion of provisions from, the provisions specified in the Regulations pursuant to subparagraph (a) shall require unanimity.
(c)    In determining whether unanimity is attained, only votes actually cast shall be taken into consideration. Abstentions shall not be considered as votes.
(4)     [ Conflict Between the Treaty and the Regulations] In the case of conflict between the provisions of this Treaty and those of the Regulations, the former shall prevail.

Article 23
Assembly

(1)     [ Composition]
(a)    The Contracting Parties shall have an Assembly.
(b)    Each Contracting Party shall be represented in the Assembly by one delegate, who may be assisted by alternate delegates, advisors and experts. Each delegate may represent only one Contracting Party.
(2)     [ Tasks] The Assembly shall
    (i)    deal with matters concerning the development of this Treaty;
    (ii)    amend the Regulations, including the Model International Forms;
    (iii)    determine the conditions for the date of application of each amendment referred to in item (ii);
    (iv)    perform such other functions as are appropriate to implementing the provisions of this Treaty.
(3)     [ Quorum]
(a)    One-half of the members of the Assembly which are States shall constitute a quorum.
(b)    Notwithstanding subparagraph (a), if, in any session, the number of the members of the Assembly which are States and are represented is less than one-half but equal to or more than one-third of the members of the Assembly which are States, the Assembly may make decisions but, with the exception of decisions concerning its own procedure, all such decisions shall take effect only if the conditions set forth hereinafter are fulfilled. The International Bureau shall communicate the said decisions to the members of the Assembly which are States and were not represented and shall invite them to express in writing their vote or abstention within a period of three months from the date of the communication. If, at the expiration of this period, the number of such members having thus expressed their vote or abstention attains the number of the members which was lacking for attaining the quorum in the session itself, such decisions shall take effect, provided that at the same time the required majority still obtains.
(4)     [ Taking Decisions in the Assembly]
(a)    The Assembly shall endeavor to take its decisions by consensus.
(b)    Where a decision cannot be arrived at by consensus, the matter at issue shall be decided by voting. In such a case,
    (i)    each Contracting Party that is a State shall have one vote and shall vote only in its own name; and
    (ii)    any Contracting Party that is an intergovernmental organization may participate in the vote, in place of its Member States, with a number of votes equal to the number of its Member States which are party to this Treaty. No such intergovernmental organization shall participate in the vote if any one of its Member States exercises its right to vote and vice versa. In addition, no such intergovernmental organization shall participate in the vote if any one of its Member States party to this Treaty is a Member State of another such intergovernmental organization and that other intergovern mental organization participates in that vote.
(5)     [ Majorities]
(a)    Subject to Articles 22(2) and (3), the decisions of the Assembly shall require two-thirds of the votes cast.
(b)    In determining whether the required majority is attained, only votes actually cast shall be taken into consideration. Abstentions shall not be considered as votes.
(6)     [ Sessions] The Assembly shall meet upon convocation by the Director General and, in the absence of exceptional circumstances, during the same period and at the same place as the General Assembly of the Organization.
(7)     [ Rules of Procedure] The Assembly shall establish its own rules of procedure, including rules for the convocation of extraordinary sessions.

Article 24
International Bureau

(1)     [ Administrative Tasks]
(a)    The International Bureau shall perform the administrative tasks concerning this Treaty.
(b)    In particular, the International Bureau shall prepare the meetings and provide the secretariat of the Assembly and of such committees of experts and working groups as may be established by the Assembly.
(2)     [ Meetings Other than Sessions of the Assembly] The Director General shall convene any committee and working group established by the Assembly.
(3)     [ Role of the International Bureau in the Assembly and Other Meetings]
(a)    The Director General and persons designated by the Director General shall participate, without the right to vote, in all meetings of the Assembly, the committees and working groups established by the Assembly.
(b)    The Director General or a staff member designated by the Director General shall be ex officio secretary of the Assembly, and of the committees and working groups referred to in subparagraph (a).
(4)     [ Conferences]
(a)    The International Bureau shall, in accordance with the directions of the Assembly, make the preparations for any revision conferences.
(b)    The International Bureau may consult with Member States of the Organization, intergovernmental organizations and international and national non-governmental organizations concerning the said preparations.
(c)    The Director General and persons designated by the Director General shall take part, without the right to vote, in the discussions at revision conferences.
(5)     [ Other Tasks] The International Bureau shall carry out any other tasks assigned to it in relation to this Treaty.

Article 25
Revision or Amendment

    This Treaty may only be revised or amended by a diplomatic conference. The convocation of any diplomatic conference shall be decided by the Assembly.

Article 26
Becoming Party to the Treaty

(1)     [ Eligibility] The following entities may sign and, subject to paragraphs (2) and (3) and Article 28(1) and (3), become party to this Treaty:
    (i)    any State member of the Organization in respect of which marks may be registered with its own Office;
    (ii)    any intergovernmental organization which maintains an Office in which marks may be registered with effect in the territory in which the constituting treaty of the intergovernmental organization applies, in all its Member States or in those of its Member States which are designated for such purpose in the relevant application, provided that all the Member States of the intergovernmental organization are members of the Organization;
    (iii)    any State member of the Organization in respect of which marks may be registered only through the Office of another specified State that is a member of the Organization;
    (iv)    any State member of the Organization in respect of which marks may be registered only through the Office maintained by an intergovernmental organization of which that State is a member;
    (v)    any State member of the Organization in respect of which marks may be registered only through an Office common to a group of States members of the Organization.

(2)     [ Ratification or Accession] Any entity referred to in paragraph (1) may deposit
    (i)    an instrument of ratification, if it has signed this Treaty,
    (ii)    an instrument of accession, if it has not signed this Treaty.
(3)     [ Effective Date of Deposit] The effective date of the deposit of an instrument of ratification or accession shall be,
    (i)    in the case of a State referred to in paragraph (1)(i), the date on which the instrument of that State is deposited;
    (ii)    in the case of an intergovernmental organization, the date on which the instrument of that intergovernmental organization is deposited;
    (iii)    in the case of a State referred to in paragraph (1)(iii), the date on which the following condition is fulfilled: the instrument of that State has been deposited and the instrument of the other, specified State has been deposited;
    (iv)    in the case of a State referred to in paragraph (1)(iv), the date applicable under item (ii), above;
    (v)    in the case of a State member of a group of States referred to in paragraph (1)(v), the date on which the instruments of all the States members of the group have been deposited.

Article 27
Application of the TLT 1994 and This Treaty

(1)     [ Relations Between Contracting Parties to Both This Treaty and the TLT 1994] This Treaty alone shall be applicable as regards the mutual relations of Contracting Parties to both this Treaty and the TLT 1994.

(2)     [ Relations Between Contracting Parties to This Treaty and Contracting Parties to the TLT 1994 That Are Not Party to This Treaty] Any Contracting Party to both this Treaty and the TLT 1994 shall continue to apply the TLT 1994 in its relations with Contracting Parties to the TLT 1994 that are not party to this Treaty.



Article 28
Entry into Force;
Effective Date of Ratifications and Accessions

(1)     [ Instruments to Be Taken into Consideration] For the purposes of this Article, only instruments of ratification or accession that are deposited by entities referred to in Article 26(1) and that have an ef fective date according to Article 26(3) shall be taken into consideration.
(2)     [ Entry into Force of the Treaty] This Treaty shall enter into force three months after ten States or intergovernmental organizations referred to in Article 26(1)(ii) have deposited their instruments of ratification or accession.
(3)     [ Entry into Force of Ratifications and Accessions Subsequent to the Entry into Force of the Treaty] Any entity not covered by paragraph (2) shall become bound by this Treaty three months after the date on which it has deposited its instrument of ratification or accession.

Article 29
Reservations

(1)     [ Special Kinds of Marks] Any State or intergovernmental organization may declare through a reservation that, notwithstanding Article 2(1) and (2)(a), any of the provisions of Articles 3(1), 5, 7, 8(5), 11 and 13 shall not apply to associated marks, defensive marks or derivative marks. Such reservation shall specify those of the aforementioned provisions to which the reservation relates.
(2)     [ Multiple-class Registration] Any State or intergovernmental organization, whose legislation at the date of adoption of this Treaty provides for a multiple-class registration for goods and for a multiple-class registration for services may, when acceding to this Treaty, declare through a reservation that the provisions of Article 6 shall not apply.
(3)     [ Substantive Examination on the Occasion of Renewal] Any State or intergovernmental organization may declare through a reservation that, notwithstanding Article 13(4), the Office may, on the occasion of the first renewal of a registration covering services, examine such registration as to substance, provided that such examination shall be limited to the elimination of multiple registrations based on applications filed during a period of six months following the entry into force of the law of such State or organization that introduced, before the entry into force of this Treaty, the possibility of registering service marks.
(4)     [ Certain Rights of the Licensee] Any State or intergovernmental organization may declare through a reservation that, notwithstanding Article 19(2), it requires the recordal of a license as a condition for any right that the licensee may have under the law of that State or intergovernmental organization to join infringement proceedings initiated by the holder or to obtain, by way of such proceedings, damages resulting from an infringement of the mark which is the subject of the license.
(5)     [ Modalities] Any reservation under paragraphs (1), (2), (3) or (4) shall be made in a declaration accompanying the instrument of ratification of, or accession to, this Treaty of the State or intergovernmental organization making the reservation.
(6)     [ Withdrawal] Any reservation under paragraphs (1), (2), (3) or (4) may be withdrawn at any time.
(7)     [ Prohibition of Other Reservations ] No reservation to this Treaty other than the reservations allowed under paragraphs (1), (2), (3) and (4) shall be permitted.

Article 30
Denunciation of the Treaty

(1)     [ Notification] Any Contracting Party may denounce this Treaty by notification addressed to the Director General.
(2)     [ Effective Date] Denunciation shall take effect one year from the date on which the Director General has received the notification. It shall not affect the application of this Treaty to any application pending or any mark registered in respect of the denouncing Contracting Party at the time of the expiration of the said one-year period, provided that the denouncing Contracting Party may, after the expiration of the said one-year period, discontinue applying this Treaty to any registration as from the date on which that registration is due for renewal.

Article 31
Languages of the Treaty; Signature

(1)     [ Original Texts; Official Texts]
(a)    This Treaty shall be signed in a single original in the English, Arabic, Chinese, French, Russian and Spanish languages, all texts being equally authentic.
(b)    An official text in a language not referred to in subparagraph (a) that is an official language of a Contracting Party shall be established by the Director General after consultation with the said Contracting Party and any other interested Contracting Party.
(2)     [ Time Limit for Signature] This Treaty shall remain open for signature at the headquarters of the Organization for one year after its adoption.


Article 32
Depositary

    The Director General shall be the depositary of this Treaty.