Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 678. máls.

Þskj. 1195  —  678. mál.Tillaga til þingsályktunar

um fullgildingu Árósasamnings um aðgang að upplýsingum,
þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang
að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.

(Lögð fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum sem gerður var í Árósum 25. júní 1998.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á samningi um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum sem gerður var í Árósum 25. júní 1998. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal með tillögu þessari.
    Samningur sá sem hér um ræðir var samþykktur á fjórða ráðherrafundinum um umhverfi Evrópu í Árósum 25. júní 1998 og hefur verið nefndur Árósasamningur. Sama dag undirrituðu samninginn 35 ríki, þar á meðal Ísland. Aðild að samningnum er opin aðildarríkjum Efnahagsnefndarinnar fyrir Evrópu, þeim ríkjum sem hafa stöðu samráðsaðila í Efnahagsnefndinni fyrir Evrópu, svæðisstofnunum um efnahagssamvinnu sem fullvalda aðildarríki að Efnahagsnefndinni fyrir Evrópu hafa sett á stofn og falið vald í málum er falla undir þennan samning, sem og öðrum ríkjum Sameinuðu þjóðanna ef fundur aðildarríkjanna samþykkir það. Samningurinn öðlaðist gildi 30. október 2001 og hinn 22. mars 2011 voru aðilar að samningnum 44 talsins.
    Árósasamningurinn er ný tegund samnings um umhverfismál. Hann tengir saman umhverfisrétt og mannréttindi. Þar er viðurkennt að menn hafi skyldum að gegna gagnvart komandi kynslóðum. Samningurinn staðfestir að sjálfbærri þróun verður ekki náð án aðildar allra hagsmunaaðila og tengir saman ábyrgð stjórnvalda og umhverfisvernd. Hann beinir athyglinni að gagnverkandi áhrifum almennings og stjórnvalda í lýðræðislegu samhengi og kveður á um ný ferli varðandi þátttöku almennings í viðræðum um alþjóðlega samninga og framkvæmd þeirra.
    Markmið samningsins er sett fram í 1. gr. Samkvæmt því ákvæði skulu samningsaðilar ábyrgjast rétt til aðgangs að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgangs að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum í samræmi við ákvæði samningsins í því skyni að stuðla að verndun réttinda hvers einstaklings af núlifandi og komandi kynslóðum til að lifa í umhverfi sem er fullnægjandi fyrir heilsu og velferð hans.
    Árósasamningurinn veitir almenningi því réttindi sem eru þríþætt og mynda þrjár stoðir samningsins. Fyrsta stoðin leggur samningsaðilum og stjórnvöldum skyldur á herðar varðandi aðgang almennings að upplýsingum um umhverfismál. Önnur stoðin skyldar aðildarríki til að tryggja almenningi þátttöku í ákvarðanatöku sem snertir umhverfið. Með þriðju stoðinni styður samningurinn framangreind réttindi með ákvæðum um aðgang að réttlátri málsmeðferð sem stuðla að auknu vægi samningsins. Í formála samningsins eru umhverfisvernd og mannréttindi tengd saman og réttindum í umhverfismálum veitt sama staða og öðrum mannréttindum.
    Helstu efnisatriði samningsins eru eftirfarandi:
    Í formála samningsins er gerð grein fyrir þeim væntingum og markmiðum sem voru hvatinn að samningnum og sem verða höfð að leiðarljósi í framtíðinni. Sérstök áhersla er lögð á tvö grundvallaratriði: umhverfisrétt sem mannréttindi annars vegar og mikilvægi aðgangs að upplýsingum, þátttöku almennings og aðgangs að réttlátri málsmeðferð hins vegar.
    Í formálanum er sú hugmynd að fullnægjandi umhverfisvernd sé undirstaða þess að menn geti notið grundvallarmannréttinda tengd þeirri hugmynd að hver einstaklingur eigi rétt á að lifa í heilbrigðu umhverfi og honum beri skylda til að vernda umhverfið. Í formálanum er síðan dregin sú ályktun að til þess að geta krafist þessa réttar og sinnt þessari skyldu verði borgarar að hafa aðgang að upplýsingum, hafa rétt til þátttöku í ákvarðanatöku og njóta réttlátrar málsmeðferðar í umhverfismálum.
    Í fyrstu þremur greinum Árósasamningsins er lagður grunnur að samningnum í heild, en þar eru sett fram markmið, skilgreiningar og meginkröfur sem höfð eru að leiðarljósi við túlkun og framkvæmd samningsins. Í 3. gr., sem hefur að geyma almenn ákvæði samningsins, er gerð grein fyrir almennum meginreglum sem hafðar eru að leiðarljósi að því er varðar önnur nákvæmari og sérhæfðari ákvæði. Þær varða viðhorf sem eru mikilvæg fyrir framkvæmd samningsins, m.a. hvernig hinir ólíku þættir hans tengjast, leiðbeiningar um það hvernig samningurinn getur orðið almenningi að gagni, umhverfisfræðslu og aukna umhverfisvitund, sem og stuðning við hópa sem vinna að umhverfisvernd. Jafnframt er kveðið á um að réttindi samkvæmt samningnum skuli veitt án mismununar á grundvelli ríkisfangs, þjóðernis eða búsetu, og, hvað viðkemur lögaðilum, án mismununar á grundvelli aðseturs þeirra eða hvar þeir hafa aðalstarfsstöð sína.
    Ákvæði fyrstu stoðar Árósasamningsins er að finna í 4. og 5. gr. hans. Í 4. gr. samningsins er fjallað um aðgang almennings að upplýsingum og í hvaða tilvikum megi hafna beiðni um aðgang að þeim. Í 5. gr. er fjallað um söfnun og dreifingu umhverfisupplýsinga, m.a. í þeim tilgangi að þær séu fyrir hendi og að þær séu sem aðgengilegastar. Í 6.–8. gr. eru ákvæði annarrar stoðar samningsins um rétt almennings til þátttöku í málsmeðferð þegar undirbúnar eru ákvarðanir af hálfu stjórnvalda í umhverfismálum. Í 6. gr. samningsins er fjallað um þátttöku almennings í ákvarðanatöku um tiltekna starfsemi. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 6. gr. ná ákvæði greinarinnar til ákvarðana um hvort leyfa eigi starfsemi sem tilgreind er í I. viðauka við samninginn. Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. ná ákvæði hennar auk þess til annarrar starfsemi sem kann að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Skulu samningsaðilar ákveða hvort slík fyrirhuguð starfsemi sé háð ákvæðum 6. gr. Ákvæði 6. gr. samningsins felur í sér að gefa skuli almenningi kost á að taka þátt í ákvörðunum um útgáfu leyfa fyrir þeim framkvæmdum sem falla undir efnissvið greinarinnar. Nánar tiltekið felur ákvæðið í sér, sbr. 2.–10. mgr. 6. gr., að upplýsa skuli almenning sem málið varðar um umsókn um leyfi og fyrirhugað ferli ákvarðanatöku, að sanngjarnir frestir séu veittir til að gefa almenningi kost á að gera athugasemdir og koma að sínum sjónarmiðum áður en endanleg ákvörðun er tekin, að almenningi skuli gert kleift að taka snemma þátt í ferlinu þegar allir kostir eru fyrir hendi og um virka þátttöku getur verið að ræða, að þar til bær stjórnvöld skuli veita þeim sem málið varðar aðgang að öllum upplýsingum sem máli skipta varðandi ákvarðanatökuna, að tryggja skuli að við ákvarðantöku sé tekið eðlilegt tillit til þeirrar niðurstöðu sem liggur fyrir eftir aðkomu almennings og að almenningur skuli upplýstur um ákvörðun þegar hún liggur fyrir og rökin sem liggja að baki henni. Auk framangreindra ákvæða kemur fram í 11. mgr. 6. gr. að sérhver samningsaðili skuli, innan ramma landslaga og eftir því sem unnt er og viðeigandi, beita ákvæðum greinarinnar um ákvarðanir um hvort leyfa beri að sleppa erfðabreyttum lífverum út í umhverfið af ásettu ráði.
    Í 7. gr. samningsins er fjallað um þátttöku almennings í ákvarðanatöku varðandi skipulag, áætlanir og stefnumótun um umhverfismál. Eftir að hafa látið almenningi í té nauðsynlegar upplýsingar skal sérhver samningsaðili gera viðeigandi hagnýtar og/eða aðrar ráðstafanir vegna aðkomu almennings meðan á undirbúningi áætlana og verkefna er varða umhverfið stendur, með gagnsæi og sanngirni að leiðarljósi. Jafnframt skulu samningsaðilar leitast við, að því marki sem eðlilegt má teljast, að veita almenningi tækifæri til að taka þátt í undirbúningi að stefnumótun er varðar umhverfið.
    Í 8. gr. samningsins er fjallað um undirbúning bindandi reglna sem kunna að hafa umtalsverð áhrif á umhverfið. Samningsaðilar skulu leggja sig fram um að stuðla að virkri þátttöku almennings meðan á slíkum undirbúningi stendur og eru samningsaðilar hvattir til að kynna almenningi drög að reglugerðum og lagafrumvörpum sem snerta umhverfið.
    Efni þriðju stoðar Árósasamningsins um aðgang að réttlátri málsmeðferð kemur fram í 9. gr. hans. Ákvæðum greinarinnar má í höfuðatriðum skipta í fjóra hluta. Í fyrsta lagi er samningsaðilum í 1. mgr. gert að tryggja að öllum sé opin endurskoðunarleið fyrir dómstólum eða öðrum hlutlausum og óháðum aðila vegna ákvarðana stjórnvalda sem varða aðgang að upplýsingum samkvæmt samningnum. Í öðru lagi er samningsaðilum í 2. mgr. gert að tryggja aðgang almennings sem málið varðar og sem á nægjanlegra hagsmuna að gæta að endurskoðunarleið fyrir dómstólum og/eða öðrum óháðum og hlutlausum aðila um lagagildi ákvarðana, aðgerða og aðgerðarleysis sem 6. gr. samningsins nær til, bæði að því er varðar efni og form. Hvað teljast nægjanlegir hagsmunir skal ákvarðast eftir landslögum og ávallt með það að markmiði að veita almenningi sem málið varðar víðtækan aðgang að réttlátri málsmeðferð. Hagsmunir frjálsra félagasamtaka, sem stuðla að umhverfisvernd og uppfylla kröfur samkvæmt landslögum, skulu þó alltaf teljast nægjanlegir. Í þriðja lagi er í 3. mgr. að finna almennt ákvæði þess efnis að samningsaðilar skuli tryggja almenningi sem uppfyllir skilyrði landslaga aðgang að stjórnsýslu- eða dómstólameðferð til að geta krafist þess að aðgerðir eða aðgerðaleysi af hálfu einstaklinga og stjórnvalda, sem ganga gegn ákvæðum landslaga um umhverfið, verði tekið fyrir. Að lokum er í 4. og 5. mgr. fjallað um að aðilar að samningnum skuli tryggja virk úrræði almennings til að beita rétti sínum samkvæmt framangreindum málsgreinum.
    Í 10.–22. gr. samningsins er að finna ákvæði er lúta að framkvæmd samningsins, formsatriðum o.fl. Í 10. gr. er mælt fyrir um hlutverk funda aðila og í 11. gr. um atkvæðarétt samningsaðila. Hver samningsaðili hefur yfir einu atkvæði að ráða og svæðisbundin samtök neyta atkvæðaréttar síns með atkvæðafjölda sem er jafn fjölda aðildarríkja þeirra sem jafnframt eru aðilar að samningnum. Í 12. gr. kemur fram að skrifstofa samningsins sé hjá framkvæmdastjóra Efnahagsnefndarinnar fyrir Evrópu. Samkvæmt 13. gr. skulu viðaukar samningsins teljast óaðskiljanlegur hluti hans. Í 14. gr. er fjallað um hvernig skuli staðið að breytingum á samningnum. Í 15. gr. kemur fram hvernig eftirfylgni með ákvæðum samningsins skuli háttað. Í 16. gr. kemur fram hvernig leyst skuli úr deilumálum. Í samræmi við hefðbundnar reglur þjóðaréttar skulu aðilar leita sátta með samningum eða koma sér saman um að leggja deilumál fyrir Alþjóðadómstólinn í Haag eða fyrir gerðardóm sem lýst er í II. viðauka. Í 17. gr. samningsins er fjallað um undirritun hans og í 18. gr. er mælt fyrir um að aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skuli vera vörsluaðili hans. Í 19. gr. er fjallað um fullgildingu, staðfestingu, samþykkt og aðild og í 20. og 21. gr. er mælt fyrir um gildistöku samningsins og uppsögn. Loks er í 22. gr. kveðið á um að textar samningsins á ensku, frönsku og rússnesku séu allir jafngildir.
    Samningnum fylgja tveir viðaukar sem eru óaðskiljanlegur hluti hans. I. viðauki hefur að geyma lista yfir starfsemi þar sem þátttaka almennings í ákvarðanatöku um hvort hún skuli leyfð er heimiluð, sbr. a-lið 1. mgr. 6. gr. samningsins. Í II. viðauka er fjallað um meðferð gerðardóms á deilum um túlkun eða beitingu samningsins.
    Samhliða þingsályktunartillögu þessari er af hálfu umhverfisráðherra flutt frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins og frumvarp til laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála til þess að Ísland geti staðið við þær skuldbindingar sem samningurinn leggur aðildarríkjum á herðar.Fylgiskjal.


SAMNINGUR
UM AÐGANG AÐ UPPLÝSINGUM,
ÞÁTTTÖKU ALMENNINGS
Í ÁKVARÐANATÖKU OG AÐGANG
AÐ RÉTTLÁTRI MÁLSMEÐFERÐ
Í UMHVERFISMÁLUM


     Aðilar að samningi þessum,
     sem minna á 1. grunnreglu Stokkhólmsyfirlýsingarinnar um umhverfi mannsins,
     sem minna einnig á 10. grunnreglu Ríóyfirlýsingarinnar um umhverfi og þróun,
     sem minna enn fremur á ályktun allsherjarþingsins nr. 37/7 frá 28. október 1982 um heimssáttmálann um náttúruna og nr. 45/94 frá 14. desember 1990 um þörf þess að tryggja heilnæmt umhverfi fyrir velferð einstaklingsins,
     sem minna á Evrópusáttmálann um umhverfi og heilsu sem samþykktur var á fyrstu Evrópuráðstefnunni um umhverfi og heilsu á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í Frankfurt am Main, Þýskalandi, 8. desember 1989,
     sem staðfesta þörfina á að vernda, varðveita og bæta ástand umhverfisins og að tryggja sjálfbæra þróun sem er jafnframt umhverfisvæn,
     sem viðurkenna að fullnægjandi verndun umhverfisins er nauðsynleg fyrir velferð mannsins og til að hann geti notið grundvallarmannréttinda, þar með talinn rétturinn til sjálfs lífsins,
     sem viðurkenna enn fremur rétt sérhvers einstaklings til að lifa í umhverfi sem er fullnægjandi fyrir heilsu og velferð hans og að honum beri skylda til, bæði sem einstaklingi og í samvinnu við aðra, að vernda og bæta umhverfið til hagsbóta fyrir núverandi og komandi kynslóðir,
     sem telja að til þess að geta staðið á þessum rétti sínum og uppfyllt þessar skyldur sínar verði borgararnir að hafa aðgang að upplýsingum, rétt til að koma að ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum og viðurkenna í þessu tilliti að borgararnir kunna að þurfa aðstoð til að beita rétti sínum,
     sem viðurkenna að á sviði umhverfismála auki bættur aðgangur að upplýsingum og aukin þátttaka almennings í ákvarðanatöku gæði og framkvæmd ákvarðana, efli vitund almennings um umhverfismál, gefi almenningi tækifæri til að lýsa sjónarmiðum sínum og geri stjórnvöldum kleift að taka viðeigandi tillit til slíkra sjónarmiða,

     sem stefna þannig að því að auka ábyrgð og gagnsæi í ákvarðanatöku og efla stuðning almennings við ákvarðanir varðandi umhverfið,
     sem viðurkenna hve æskilegt gagnsæi er á öllum sviðum stjórnsýslu og hvetja löggjafarsamkundur til að hrinda í framkvæmd meginreglum samnings þessa,
     sem viðurkenna einnig að almenningur þarf að vera upplýstur um hvernig þátttaka í ákvarðanatöku um umhverfismál fer fram, hafa frjálsan aðgang að henni og kunna að nota hana,
     sem viðurkenna enn fremur mikilvægi þess hlutverks sem einstakir borgarar, frjáls félagasamtök og einkageirinn geta gegnt á sviði umhverfisverndar,

     sem æskja þess að efla menntun í umhverfismálum til að auka skilning á umhverfinu og sjálfbærri þróun og til að vekja almenning til vitundar vítt og breitt um ákvarðanir, og hvetja til þátttöku hans í þeim, þ.e. ákvarðanir sem hafa áhrif á umhverfið og sjálfbæra þróun,
     sem veita athygli, í þessu sambandi, mikilvægi þess að nýta fjölmiðla og rafrænar eða annars konar samskiptaleiðir í framtíðinni,
     sem viðurkenna mikilvægi þess að fella umhverfissjónarmið að fullu inn í ákvarðanatöku stjórnvalda og þá þörf sem þar af leiðir fyrir stjórnvöld að hafa undir höndum réttar og alhliða upplýsingar um umhverfismál sem eru í takt við tímann,
     sem samsinna því að stjórnvöld hafa undir höndum umhverfisupplýsingar í þágu almennings,
     sem láta sig varða að almenningur, þ.m.t. samtök, hafi aðgang að virkum réttarfarslegum úrræðum, til þess að réttmætir hagsmunir hans séu varðir og lögum framfylgt,
     sem veita athygli mikilvægi þess að neytendum séu látnar í té fullnægjandi upplýsingar um framleiðsluvörur til að gera þeim kleift að velja og hafna með upplýstum hætti með tilliti til umhverfissjónarmiða,
     sem viðurkenna áhyggjur almennings af því að erfðabreyttum lífverum sé af ásetningi hleypt út í umhverfið og þörfina á auknu gagnsæi og aukinni þátttöku almennings í ákvarðanatöku á þessu sviði,

     sem eru sannfærðir um að framkvæmd þessa samnings muni stuðla að eflingu lýðræðis á svæði Efnahagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu (ECE),
     sem gera sér grein fyrir því hlutverki sem Efnahagsnefndin fyrir Evrópu gegnir í þessu sambandi og minnast meðal annars viðmiðunarreglna hennar um aðgang að upplýsingum um umhverfismál og þátttöku almennings í ákvarðanatöku um umhverfismál, sem hlutu stuðning í yfirlýsingu ráðherra á þriðja ráðherrafundinum „umhverfi fyrir Evrópu“, sem haldinn var í Sófíu, Búlgaríu, 25. október 1995,
     sem hafa í huga viðeigandi ákvæði samningsins um mat á umhverfisáhrifum yfir landamæri sem gerður var í Espoo í Finnlandi 25. febrúar 1991 og samningsins um áhrif iðnaðarslysa yfir landamæri og samningsins um verndun og nýtingu árfarvega og vatna sem ná yfir fleiri en eitt land sem báðir voru gerðir í Helsinki 17. mars 1992, og annarra svæðisbundinna samninga,

     sem gera sér grein fyrir því að samþykkt samnings þessa muni stuðla enn frekar að því að efla ferlið „umhverfi fyrir Evrópu“ og að því að niðurstöður fjórða ráðherrafundarins í Árósum, Danmörku, í júní 1998 verði að veruleika,
     hafa orðið ásáttir um eftirfarandi:

1. gr.
Markmið.

    Sérhver samningsaðili skal, í því skyni að stuðla að verndun réttinda hvers einstaklings af núverandi og komandi kynslóðum til að lifa í umhverfi, sem er fullnægjandi fyrir heilsu hans og velferð, ábyrgjast rétt til aðgangs að upplýsingum, til þátttöku almennings í ákvarðanatöku og til aðgangs að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum í samræmi við ákvæði þessa samnings.

2. gr.
Skilgreiningar.

    Í samningi þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1.     „samningsaðili“ merkir aðila að þessum samningi, nema textinn gefi annað til kynna.
2.     „stjórnvald“ merkir:
a)    stjórnvöld ríkis, landsvæðis eða stjórnvöld á öðru stigi,
b)    einstakling eða lögaðila, sem sinnir opinberri stjórnsýslu samkvæmt landslögum, þar með taldar sérstakar skyldur, starfsemi eða þjónusta á sviði umhverfismála,
c)    sérhvern annan einstakling eða lögaðila sem ber opinbera ábyrgð eða gegnir opinberu hlutverki eða veitir opinbera þjónustu á sviði umhverfismála og lýtur stjórn stofnunar eða aðila sem fellur undir a- eða b-lið hér að framan,
d)    undirstofnanir hverrar svæðisstofnunar um efnahagssamvinnu sem um getur í 17. gr. og er aðili að þessum samningi.
Þessi skilgreining tekur ekki til aðila eða stofnana sem hafa dóms- eða löggjafarvald,
3.     „upplýsingar um umhverfismál“ merkir hvers kyns upplýsingar sem settar eru fram á ritaðan, sjónrænan, hljóðrænan, rafrænan eða einhvern annan efnislegan hátt og fjalla um:
a)    ástand grunnþátta umhverfisins, eins og lofts og lofthjúps, vatns, jarðvegs, lands, landslags og náttúrusvæða, líffræðilegrar fjölbreytni og efnisþátta hennar, þar með taldar erfðabreyttar lífverur, og samspil þessara grunnþátta,

b)    þætti á borð við efni, orku, hávaða og geislun og starfsemi eða ráðstafanir, þar með taldar stjórnvaldsráðstafanir, umhverfissamningar, stefnumál, löggjöf, skipulag og áætlanir, sem hafa áhrif eða líkur eru á að hafi áhrif á þá grunnþætti umhverfisins sem falla undir gildissvið a-liðar hér að framan, og kostnaðar- og ábatagreiningu og aðrar efnahagslegar greiningar og forsendur sem eru notaðar við ákvarðanatöku í umhverfismálum,
c)    heilsufar, öryggi og lífsskilyrði manna og menningarstaði og mannvirki, að því marki sem þau eru eða kunna að verða undir áhrifum þess ástands sem grunnþættir umhverfisins eru í eða, fyrir tilverknað þessara grunnþátta, áhrifum þeirra þátta, starfsemi eða ráðstafana er um getur í b-lið hér að framan,
4.     „almenningur“ merkir einn eða fleiri einstaklinga eða lögaðila og, í samræmi við innlend lög og venjur, samtök þeirra, skipulagsheildir eða hópa,

5.     „almenningur er málið varðar“ merkir almenning sem verður fyrir eða er líklegt að verði fyrir áhrifum af, eða á hagsmuna að gæta í tengslum við, ákvarðanatöku í umhverfismálum. Frjáls félagasamtök, sem vinna að umhverfisvernd og uppfylla kröfur samkvæmt landslögum af hvaða tagi sem er, teljast eiga hagsmuna að gæta að því er þessa skilgreiningu varðar.

3. gr.
Almenn ákvæði.

1.     Sérhver samningsaðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir með lagasetningu, reglugerðum eða öðrum aðgerðum, þar með taldar ráðstafanir til að ná fram samræmi milli ákvæða um framkvæmd þeirra ákvæða samningsins er varða upplýsingar, þátttöku almennings og aðgang að réttlátri málsmeðferð, svo og viðeigandi ráðstafanir um framfylgd, til að koma á fót og viðhalda skýrri, gagnsærri og samræmdri rammaáætlun til að framkvæma ákvæði þessa samnings.
2.     Sérhver samningsaðili skal leitast við að tryggja að embættismenn og stjórnvöld veiti almenningi aðstoð og leiðbeiningar við leit að upplýsingum, vegna aðkomu að ákvarðanatöku og við að leita eftir aðgangi að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.
3.     Sérhver samningsaðili skal efla kennslu um umhverfismál og stuðla að vitundarvakningu almennings um þau, einkum um hvernig unnt er að fá aðgang að upplýsingum, koma að ákvarðanatöku og hafa aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.
4.     Sérhver samningsaðili skal viðurkenna og styðja með tilhlýðilegum hætti félög, samtök og hópa sem vinna að umhverfisvernd og tryggja að réttarkerfi landsins sé í samræmi við þessa skuldbindingu.

5.     Ákvæði þessa samnings hafa ekki áhrif á rétt samningsaðila til að viðhalda ráðstöfunum eða innleiða ráðstafanir sem veita víðtækari aðgang að upplýsingum, gera ráð fyrir aðkomu almennings að ákvarðanatöku í ríkari mæli og tryggja opnari aðgangi að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum en kveðið er á um í þessum samningi.
6.     Þessi samningur skal ekki skerða gildandi rétt til aðgangs að upplýsingum, til aðkomu almennings í ákvarðanatöku og til aðgangs að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.
7.     Sérhver samningsaðili skal stuðla að því að meginreglur þessa samnings verði hafðar að leiðarljósi þegar ákvarðanir eru teknar um umhverfismál þjóða í milli og á vettvangi alþjóðastofnana í málum er varða umhverfið.
8.     Sérhver samningsaðili skal tryggja að einstaklingum, sem halda fram rétti sínum samkvæmt ákvæðum þessa samnings, skuli ekki refsað, þeir sóttir til saka eða áreittir á neinn hátt vegna afskipta sinna. Þetta ákvæði hefur ekki áhrif á vald innlendra dómstóla til að dæma sanngjarnan málskostnað í málaferlum.
9.     Almenningur skal, innan marka viðeigandi ákvæða þessa samnings, hafa aðgang að upplýsingum, eiga kost á að koma að ákvarðanatöku og hafa aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum, án mismununar hvað varðar ríkisfang, þjóðerni eða lögheimili, og, að því er lögaðila varðar, án mismununar hvað varðar skráð aðsetur hans eða raunverulega miðstöð starfsemi hans.


4. gr.
Aðgangur að
umhverfisupplýsingum.

1.     Sérhver samningsaðili skal tryggja, með fyrirvara um eftirfarandi málsgreinar þessarar greinar, að stjórnvöld bregðist við beiðni um umhverfisupplýsingar með því að láta slíkar upplýsingar almenningi í té, innan þeirra marka sem landslög leyfa, þar með talin, ef leitað er eftir og með fyrirvara um ákvæði b- liðar hér að aftan, eintök af eiginlegum skjölum sem innihalda eða mynda slíkar upplýsingar:
a)    án þess að geta þurfi um hagsmuni,
b)    í þeirri mynd sem óskað er eftir, nema:
         i.     réttmætt sé að viðkomandi stjórnvald geri þær aðgengilegar í annarri mynd, en þá skal tilgreina ástæður þess að upplýsingarnar eru gerðar aðgengilegar í þeirri mynd eða
         ii.     upplýsingarnar séu þegar aðgengilegar almenningi í annarri mynd.
2.     Þær umhverfisupplýsingar sem vísað er til í 1. mgr. hér að framan skulu gerðar aðgengilegar svo skjótt sem auðið er og eigi síðar en innan mánaðar frá því að beiðni var lögð fram, nema magn og flókin gerð upplýsinganna réttlæti að fresturinn verði framlengdur í allt að tvo mánuði eftir að beiðni er lögð fram. Upplýsa ber umsækjanda um sérhverja framlengingu og ástæður sem réttlæta hana.
3.     Hafna má beiðni um umhverfisupplýsingar ef:

a)    viðkomandi stjórnvald, sem beiðninni er beint til, hefur ekki hinar umbeðnu upplýsingar undir höndum,
b)    beiðnin er augljóslega ósanngjörn eða sett fram á of almennan hátt eða
c)    beiðnin varðar efni sem er í vinnslu eða innri samskipti stjórnvalda, þar sem slík undanþága er samkvæmt landslögum eða viðteknum starfsvenjum, að teknu tilliti til þeirra almannahagsmuna sem þjónað yrði með birtingu upplýsinganna.

4.     Hafna má beiðni um umhverfisupplýsingar ef birting þeirra myndi skaða:
a)    trúnað í störfum stjórnvalda, sé kveðið á um slíkan trúnað í landslögum,

b)    milliríkjasamskipti, landvarnir eða almannaöryggi,
c)    framgang réttvísinnar, ráðrúm einstaklings til að fá réttláta málsmeðferð fyrir dómstólum eða getu stjórnvalds til að framkvæma rannsókn sem varðar glæp eða refsingu,
d)    trúnað um viðskipta- og iðnaðarupplýsingar, þegar slíkur trúnaður er lögvarinn í því skyni að vernda lögmæta hagsmuni efnahagslegs eðlis. Upplýsingar um útstreymi, sem varða umhverfisvernd, skal láta í té með hliðsjón af þessum takmörkunum,
e)    hugverkaréttindi,
f)    leynd persónuupplýsinga og/eða skrár sem varða einstakling, hafi sá einstaklingur ekki samþykkt að veita almenningi aðgang að upplýsingunum, sé kveðið á um slíka leynd í landslögum,

g)    hagsmuni þriðja aðila sem hefur útvegað umbeðnar upplýsingar án þess að honum beri lagaleg skylda, eða geti borið lagaleg skylda, til þess og þar sem sá aðili samþykkir ekki að efnið sé látið af hendi eða
h)    það umhverfi sem upplýsingarnar varða, til að mynda uppeldisstöðvar sjaldgæfra tegunda.
Framangreindar synjunarástæður skal túlka þröngt, að teknu tilliti til þeirra almannahagsmuna sem birting upplýsinganna þjónar og þess hvort umbeðnar upplýsingar varða streymi út í umhverfið.

5.     Í þeim tilvikum þegar stjórnvald býr ekki yfir þeim upplýsingum um umhverfismál sem beðið er um skal það stjórnvald, svo skjótt sem unnt er, greina umsækjandanum frá því til hvaða stjórnvalds það telur að unnt sé að sækja umbeðnar upplýsingar eða beina beiðninni til þess stjórnvalds og tilkynna umsækjandanum um það.
6.     Sérhver samningsaðili skal tryggja, sé unnt að aðgreina upplýsingar sem eru undanþegnar birtingu skv. c-lið 3. mgr. og 4. mgr. hér að framan án þess að setja trúnað upplýsinganna sem undanþegnar eru í hættu, að stjórnvöld geri það sem eftir er af hinum umbeðnu umhverfisupplýsingum aðgengilegt.

7.     Höfnun beiðni skal vera skrifleg ef beiðnin var skrifleg eða ef umsækjandinn æskir þess. Í höfnun beiðni skal tilgreina ástæður fyrir höfnuninni og veita upplýsingar um aðgang að endurskoðunarleiðinni sem gert er ráð fyrir skv. 9. gr. Beiðni skal hafnað svo skjótt sem unnt er og í síðasta lagi innan eins mánaðar, nema flókin gerð upplýsinganna réttlæti að sá frestur sé framlengdur um allt að tvo mánuði eftir að beiðni er lögð fram. Umsækjandanum skal tilkynnt um hvers konar framlengingu og ástæður sem réttlæta hana.
8.     Sérhver samningsaðili getur heimilað stjórnvöldum að taka gjald fyrir að láta upplýsingar í té, en slíkt gjald skal vera innan eðlilegra marka. Stjórnvöld, sem hyggjast taka slíkt gjald fyrir að láta upplýsingar té, skulu hafa gjaldskrá tiltæka umsækjendum, þar sem kemur fram hvenær gjalds kunni að vera krafist eða undanþága veitt frá því og hvenær afhending upplýsinga er háð fyrirframgreiðslu slíks gjalds.


5. gr.
Söfnun og dreifing
umhverfisupplýsinga.

1.     Sérhver samningsaðili skal sjá til þess:
a)    að stjórnvöld búi yfir og uppfæri umhverfisupplýsingar sem varða hlutverk þeirra,
b)    að komið verði á lögboðnu fyrirkomulagi þannig að fullnægjandi upplýsingar berist stjórnvöldum um fyrirhugaða og yfirstandandi starfsemi sem kann að hafa umtalsverð áhrif á umhverfið,

c)    sé um að ræða yfirvofandi ógnun við heilsu manna eða umhverfið, af manna völdum eða náttúrunnar, að öllum upplýsingum, sem eru í fórum stjórnvalds og gætu gert almenningi kleift að gera ráðstafanir til að girða fyrir eða minnka þann skaða sem er yfirvofandi, sé dreift strax og án tafar til þess hluta almennings sem kann að verða fyrir áhrifum fyrrnefndrar ógnunar.
2.     Sérhver samningsaðili skal sjá til þess, innan þeirra marka sem landslög leyfa, að stjórnvöld veiti almenningi aðgang að upplýsingum um umhverfismál með gagnsæjum hætti og að slíkar upplýsingar séu aðgengilegar í reynd, meðal annars með því að:

a)    láta almenningi í té fullnægjandi upplýsingar um gerð og umfang umhverfisupplýsinga, sem viðkomandi stjórnvöld varðveita, um grundvallarskilmála og -skilyrði fyrir því að slíkar upplýsingar eru til afnota og aðgengilegar og um hvernig unnt er að nálgast þær,
b)    koma á fót og viðhalda hagnýtu fyrirkomulagi, eins og:
         i.     listum, skrám eða skjölum aðgengilegum almenningi,
         ii.     þeirri skyldu að embættismenn aðstoði almenning við að leita upplýsinga samkvæmt þessum samningi og
         iii.     upplýsingum um tengiliði og
c)    veita aðgang að umhverfisupplýsingum, sem er að finna í listum, skrám eða skjölum sem vísað er til í i. lið b-liðar hér að framan, endurgjaldslaust.

3.     Sérhver samningsaðili skal sjá til þess að umhverfisupplýsingar verði smám saman aðgengilegar í rafrænum gagnagrunnum sem eru auðveldlega aðgengilegir almenningi gegnum almenn fjarskiptanet. Upplýsingar, sem unnt er að nálgast í þessari mynd, ættu að innihalda eftirfarandi:
a)    skýrslur um ástand umhverfisins, svo sem tilgreint er í 4. mgr. að aftan,
b)    lagatexta um umhverfið eða varðandi það,

c)    eftir því sem við á, stefnumið, skipulag og áætlanir um eða varðandi umhverfið og umhverfissamninga og
d)    aðrar upplýsingar, svo fremi að aðgengi að þeim upplýsingum í þessari mynd myndi auðvelda beitingu landslaga, sem framkvæmd þessa samnings byggir á,
að því tilskildu að slíkar upplýsingar séu þegar aðgengilegar í rafrænni mynd.
4.     Sérhver samningsaðili skal með reglulegu millibili, á þriggja til fjögurra ára fresti í það lengsta, gefa út og dreifa landsskýrslu um ástand umhverfisins, meðal annars upplýsingar um umhverfisgæði og upplýsingar um ágang við umhverfið.
5.     Sérhver samningsaðili skal gera ráðstafanir, innan ramma landslaga sinna, í því augnamiði að dreifa, meðal annars:
a)    lögum og skjölum með stefnumörkun, svo sem skjölum um heildaráætlanir, stefnumið, skipulag og aðgerðaáætlanir sem varða umhverfið og skýrslum um árangur af framkvæmd þeirra sem gerðar eru á hinum ýmsu stigum stjórnsýslunnar,
b)    alþjóðasamningum um umhverfismál og

c)    öðrum mikilvægum alþjóðlegum skjölum um umhverfismál, eftir því sem við á.
6.    Sérhver samningsaðili skal hvetja þá atvinnurekendur sem stunda starfsemi, sem hefur umtalsverð áhrif á umhverfið, til að upplýsa almenning reglulega um umhverfisáhrif af völdum starfsemi þeirra og framleiðsluvara, þar sem við á, með umhverfismerkingum eða -eftirliti, sem þeir hafa sjálfir frumkvæði að, eða með öðrum hætti.
7.    Sérhver samningsaðili skal:
    a)    birta staðreyndir og greiningu á staðreyndum sem hann telur að skipti máli og séu mikilvægar við mótun tillagna um stefnu í umhverfismálum,
    b)    birta, eða gera aðgengilegt með öðrum hætti, efni sem fyrir hendi er til útskýringar á samskiptum sínum við almenning í málefnum sem falla undir gildissvið þessa samnings og
    c)    láta í té, í viðeigandi mynd, upplýsingar um hvernig stjórnvöld á öllum stigum sinna opinberu hlutverki sínu eða veita opinbera þjónustu á sviði umhverfismála.
8.     Sérhver samningsaðili skal þróa leiðir í því augnamiði að tryggja að nægilegar upplýsingar um framleiðsluvörur séu gerðar almenningi aðgengilegar á þann hátt að neytendum sé gert kleift að taka upplýstar ákvarðanir um umhverfismál.
9.     Sérhver samningsaðili skal gera ráðstafanir til að setja upp í áföngum, með hliðsjón af alþjóðlegum starfsháttum þar sem við á, heildstætt landskerfi sem skráir upplýsingar um mengun í skipulagðan og tölvuvæddan gagnagrunn sem er unninn eftir stöðluðum tilkynningum og almenningur hefur aðgang að. Slíkt kerfi getur innihaldið upplýsingar um aðflutning, losun og tilflutning tiltekinna flokka efna og framleiðsluvara, þar með talin notkun vatns, orku og auðlinda, frá starfsemi á tilteknu sviði út í umhverfið og til meðhöndlunar- og förgunarstöðva á staðnum eða annars staðar.
10.     Ekkert í þessari grein má skerða rétt samningsaðila til að synja um afhendingu ákveðinna umhverfisupplýsinga skv. 3. og 4. mgr. 4. gr.


6. gr.
Þátttaka almennings í ákvörðunum
um tiltekna starfsemi.

1.     Sérhver samningsaðili:
a)    skal beita ákvæðum þessarar greinar þegar teknar eru ákvarðanir um hvort leyfa eigi fyrirhugaða starfsemi sem tilgreind er í I. viðauka,
b)    skal, í samræmi við landslög, einnig beita ákvæðum þessarar greinar við ákvarðanatöku um fyrirhugaða starfsemi sem ekki er tilgreind í I. viðauka og kann að hafa umtalsverð áhrif á umhverfið. Samningsaðilar skulu, í þessu augnamiði, ákveða hvort slík fyrirhuguð starfsemi sé háð þessum ákvæðum og
c)    getur ákveðið, í hverju tilviki fyrir sig ef landslög mæla svo fyrir um, að beita ekki ákvæðum þessarar greinar, þegar um ræðir fyrirhugaða starfsemi í þágu landvarna, telji sá samningsaðili að beiting þeirra ákvæða myndi hafa skaðleg áhrif þar á.
2.     Upplýsa ber almenning er málið varðar, með almennri tilkynningu eða á einstaklingsgrundvelli, eftir því sem við á, snemma í umhverfisákvörðunarferlinu og á fullnægjandi hátt, tímanlega og með árangursríkum hætti, meðal annars um:
a)    fyrirhugaða starfsemi og þá umsókn sem ákvörðun verður tekin um,
b)    eðli hugsanlegra ákvarðana eða um drög að ákvörðun,
c)    hvaða stjórnvald annast ákvörðunartökuna,

d)    fyrirhugaðan framgangsmáta, meðal annars eftirfarandi upplýsingar, ef og þegar unnt er að láta þær í té:
         i.     upphaf ferlisins,
         ii.     tækifæri almennings til þátttöku,

         iii.     staður og stund opinbers fundar sem kann að vera fyrirhugaður,
         iv.     ábending um hvaða stjórnvald getur veitt viðeigandi upplýsingar og hvar viðeigandi upplýsingum hefur verið komið fyrir svo almenningur geti kynnt sér þær,
         v.     ábending um viðkomandi stjórnvald eða aðra opinbera stofnun sem tekur við athugasemdum eða spurningum og um hvenær hægt er að leggja fram athugasemdir og spurningar og
         vi.     ábending um hvaða umhverfisupplýsingar viðvíkjandi fyrirhugaðri starfsemi eru fyrirliggjandi og
e)    þá staðreynd að umrædd starfsemi sé háð mati á umhverfisáhrifum innanlands eða yfir landamæri.

3.     Í þeim framgangsmáta er lýtur að þátttöku almennings skal gera ráð fyrir eðlilegum tímamörkum fyrir mismunandi áfanga þannig að nægilegur tími gefist til að upplýsa almenning skv. 2. mgr. hér að framan og til að almenningur geti undirbúið sig og verið virkur þátttakandi í umhverfisákvarðanatöku.
4.     Sérhver samningsaðili skal gera ráð fyrir þátttöku almennings snemma í ferlinu þegar allir kostir eru fyrir hendi og um virka þátttöku almennings getur verið að ræða.
5.     Sérhver samningsaðili ætti, þar sem við á, að hvetja væntanlega umsækjendur til að benda á þann hóp almennings er málið varðar, hefja umræður og veita upplýsingar um markmiðið með umsókn sinni áður en sótt er um leyfi.
6.     Sérhver samningsaðili skal gera þá kröfu til þar til bærra stjórnvalda að þau veiti almenningi er málið varðar, að fram kominni beiðni sé þess krafist eftir landslögum, tækifæri til að kanna allar upplýsingar, sem máli skipta varðandi þá ákvarðanatöku er um getur í þessari grein og fyrir liggja þegar þeim framgangsmáta er lýtur að þátttöku almennings er hrundið af stað, endurgjaldslaust og strax og þær liggja fyrir, að óskertum þeim rétti samningsaðila að synja um að láta í té ákveðnar upplýsingar í samræmi við ákvæði 3. og 4. mgr. 4. gr. Þær upplýsingar sem máli skipta skulu innihalda eftirfarandi að minnsta kosti, að óskertum ákvæðum 4. gr.:
a)    lýsingu á staðháttum og ytri efnislegum og tæknilegum einkennum fyrirhugaðrar starfsemi, þar með talið mat á væntanlegum úrgangi og útstreymi,
b)    lýsingu á umtalsverðum áhrifum fyrirhugaðrar starfsemi á umhverfið,
c)    lýsingu á aðgerðum sem fyrirsjáanlegar eru til að hindra og/eða draga úr áhrifunum, þar með talið útstreymi,
d)    samantekt af framangreindu án tæknilegrar útfærslu,
e)    yfirlit yfir helstu valkosti sem umsækjandinn hefur kannað og
f)    í samræmi við landslög, helstu skýrslur og ráðgjöf sem viðkomandi stjórnvaldi hafa borist þegar upplýsa skal þann hluta almennings er málið varðar í samræmi við ákvæði 2. mgr. hér að framan.
7.     Í þeim framgangsmáta er lýtur að þátttöku almennings skal almenningi gert kleift að leggja fram, skriflega eða eftir atvikum á opinberum fundi eða í opinberum fyrirspurnum til umsækjanda, hvers konar athugasemdir, upplýsingar, greiningar eða álit sem hann telur að skipti máli vegna fyrirhugaðrar starfsemi.
8.     Sérhver samningsaðili skal tryggja að við ákvarðanatöku sé tekið eðlilegt tillit til þeirrar niðurstöðu sem liggur fyrir eftir aðkomu almennings.
9.     Sérhver samningsaðili skal tryggja að þegar ákvörðun viðkomandi stjórnvalds liggur fyrir sé almenningur upplýstur um hana án tafar eftir viðeigandi verklagsreglum. Sérhver samningsaðili skal láta almenningi í té texta ákvörðunarinnar ásamt þeim forsendum og sjónarmiðum sem ákvörðunin er byggð á.
10.     Sérhver samningsaðili skal tryggja að þegar stjórnvald endurskoðar eða uppfærir þau skilyrði fyrir rekstri starfsemi er um getur í 1. mgr. verði ákvæðum 2. til 9. mgr. þessarar greinar beitt að breyttu breytanda og eftir því sem við á.
11.     Sérhver samningsaðili skal, innan þeirra marka sem landslög leyfa og eftir því sem unnt er og viðeigandi, beita ákvæðum þessarar greinar um ákvarðanir um hvort leyfa beri að sleppa erfðabreyttum lífverum út í umhverfið af ásettu ráði.

7. gr.
Þátttaka almennings viðvíkjandi
skipulagi, áætlunum og stefnumiðum
er varða umhverfið.

    Eftir að hafa látið almenningi í té nauðsynlegar upplýsingar skal sérhver samningsaðili gera viðeigandi hagnýtar og/eða aðrar ráðstafanir vegna aðkomu almennings meðan á undirbúningi áætlana og verkefna, er varða umhverfið, stendur, með gagnsæi og sanngirni að leiðarljósi. Ákvæðum 3., 4. og 8. mgr. 6. gr. skal beitt í þessu samhengi. Viðkomandi stjórnvald skal tilgreina þann hluta almennings sem hefur aðkomu að ferlinu, að teknu tilliti til markmiða þessa samnings. Sérhver samningsaðili skal leitast við, að því marki sem eðlilegt má teljast, að veita almenningi tækifæri til að taka þátt í undirbúningi að stefnumótun er varðar umhverfið.

8. gr.
Þátttaka almennings meðan
á undirbúningi framkvæmdareglna
og/eða almennra lagalega
bindandi samninga stendur.


    Sérhver samningsaðili skal leggja sig fram um að stuðla að virkri þátttöku almennings á viðeigandi stigi og meðan valkostir eru enn fyrir hendi, meðan á undirbúningi stjórnvalda á framkvæmdareglum og öðrum almennum lagalega bindandi reglum stendur sem kunna að hafa veruleg áhrif á umhverfið. Gera ætti eftirfarandi ráðstafanir í þessu skyni:
a)    setja tímamörk sem eru fullnægjandi til að ná fram virkri þátttöku,
b)    birta drög að reglum eða gera þau almenningi aðgengileg á annan hátt og
c)    gefa almenningi kost á að gera athugasemdir, beint eða fyrir atbeina ráðgefandi aðila sem kemur fram fyrir hönd almennings.
Taka skal tillit til þeirrar niðurstöðu sem þátttaka almennings færir eins og frekast er unnt.

9. gr.
Aðgangur að réttlátri málsmeðferð.

1.     Sérhver samningsaðili skal, innan þeirra marka sem landslög leyfa, tryggja að hver maður, sem telur að beiðni hans um upplýsingar skv. 4. gr. hafi verið sniðgengin, ranglega hafnað, hvort heldur að hluta til eða í heild, svarað á ófullnægjandi hátt eða að hún hafi að öðru leyti ekki fengið meðferð í samræmi við ákvæði þeirrar greinar, hafi aðgang að endurskoðunarleið fyrir dómstólum eða öðrum óháðum og hlutlausum aðila sem er settur á fót með lögum.
    Í þeim tilvikum þegar samningsaðili gerir ráðstafanir til að fyrir hendi sé slík endurskoðunarleið fyrir dómstólum skal hann tryggja að viðkomandi einstaklingur hafi einnig aðgang að fljótvirkri, lögformlegri málsmeðferð, sem er honum að kostnaðarlausu eða ódýr, þar sem stjórnvald tekur mál hans upp að nýju eða óháður og hlutlaus aðili annar en dómstóll.
    Endanlegar ákvarðanir skv. 1. mgr. skulu vera bindandi fyrir það stjórnvald sem býr yfir upplýsingunum. Ástæður skulu tilgreindar skriflega, að minnsta kosti ef aðgangi að upplýsingum er hafnað samkvæmt þessari málsgrein.
2.      Sérhver samningsaðili skal tryggja, innan ramma landslaga sinna, að almenningur er málið varðar, sem:
a)    á nægjanlegra hagsmuna að gæta
eða, að öðrum kosti,
b)    heldur því fram að gengið hafi verið á rétt hans, þar sem gerð er krafa um slíkt sem skilyrði samkvæmt lögum samningsaðila um opinbera stjórnsýslu,
hafi aðgang að endurskoðunarleið fyrir dómstólum og/eða öðrum óháðum og hlutlausum aðila, sem er settur á fót með lögum, til að véfengja lögmæti sérhverrar ákvörðunar, aðgerðar eða aðgerðaleysis, hvað varðar efni og form, sem fellur undir ákvæði 6. gr. og, þar sem kveðið á um það í landslögum og með fyrirvara um ákvæði 3. mgr. hér að aftan, undir önnur viðeigandi ákvæði þessa samnings.
    Hvað telst nægjanlegir hagsmunir og hvenær talið er að gengið hafi verið á rétt manna skal ákvarðast í samræmi við skilyrði landslaga og ávallt með það að markmiði að veita almenningi er málið varðar, víðtækan aðgang að réttlátri málsmeðferð innan ramma þessa samnings. Hagsmunir sérhverra frjálsra félagasamtaka, sem uppfylla þau skilyrði sem vísað er til í 5. mgr. 2. gr., skulu, hvað þetta varðar, taldir vera nægjanlegir með tilliti til a-liðar hér að framan. Slík samtök skulu einnig teljast eiga rétt sem hægt er að ganga á í skilningi b-liðar hér að framan.
    Ákvæði 2. mgr. skulu ekki útiloka hugsanlega endurskoðunarleið til bráðabirgða fyrir stjórnsýslustofnun og hafa ekki áhrif á þá kröfu að endurskoðunarferli fyrir stjórnsýslustofnunum sé lokið að fullu áður en endurskoðunferli fyrir dómstólum er hafið, þar sem slík krafa er gerð í landslögum.

3.     Til viðbótar og með fyrirvara um þær endurskoðunarleiðir sem vísað er til í 1. og 2. mgr. hér að framan skal sérhver samningsaðili tryggja að uppfylli almenningur þau viðmiðunarskilyrði, ef einhver eru, sem mælt er fyrir um í landslögum skuli hann hafa aðgang að stjórnsýslu- og dómstólameðferð til að geta krafist þess að aðgerðir og aðgerðaleysi af hálfu einstaklinga og stjórnvalda, sem ganga gegn ákvæðum eigin landslaga um umhverfið, verði tekin fyrir.
4.     Til viðbótar og með fyrirvara um ákvæði 1. mgr. hér að framan skal sú málsmeðferð sem vísað er til í 1., 2. og 3. mgr. hér að framan veita fullnægjandi og virk úrræði, þar með talin lögbannsleið, eftir því sem við á, og vera sanngjörn, réttlát, tímanleg og ekki kostnaðarsöm úr hófi fram. Ákvarðanir samkvæmt þessari grein skulu tilkynntar eða skráðar með skriflegum hætti. Niðurstöður dómstóla og, þegar aðstæður leyfa, annarra aðila skulu vera aðgengilegar almenningi.
5.     Sérhver samningsaðili skal tryggja, í því skyni að bæta skilvirkni ákvæða þessarar greinar, að almenningur fái upplýsingar um aðgang að endurskoðunarleið fyrir stjórnsýslustofnunum og dómstólum og skal huga að því að koma á viðeigandi stuðningsfyrirkomulagi til að fjarlægja eða draga úr fjárhagslegum og öðrum hindrunum sem hefta aðgang að réttlátri málsmeðferð.

10. gr.
Fundir samningsaðila.

1.     Fyrsti fundur samningsaðila skal kallaður saman eigi síðar en einu ári eftir að samningur þessi öðlast gildi. Síðan skal halda reglulegan fund samningsaðila að minnsta kosti á tveggja ára fresti, nema samningsaðilarnir ákveði annað eða að fenginni skriflegri beiðni einhvers samningsaðila, að því tilskildu að beiðnin hljóti stuðnings minnst þriðjungs samningsaðila innan sex mánaða frá því að framkvæmdastjóri Efnahagsnefndarinnar fyrir Evrópu sendir beiðnina til allra samningsaðila.

2.     Samningsaðilarnir skulu hafa framkvæmd þessa samnings til stöðugrar endurskoðunar á fundum sínum á grundvelli reglulegrar skýrslugerðar samningsaðilanna og skulu, í þessu augnamiði:
a)    endurskoða stefnumið og lagalega og aðferðafræðilega nálgun viðvíkjandi aðgangi að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum, í því augnamiði að bæta þau enn frekar,
b)    skiptast á upplýsingum um reynslu sem aflað hefur verið við gerð og framkvæmd tvíhliða og marghliða samninga eða annars konar samkomulags sem varðar tilgang þessa samnings og sem einn eða fleiri aðilar að þessum samningi eru aðilar að,
c)    leita, þar sem við á, eftir þjónustu stofnana Efnahagsnefndarinnar fyrir Evrópu og annarra þar til bærra alþjóðlegra stofnana og sérstakra nefnda varðandi alla þætti er lúta að því að ná fram markmiðum þessa samnings,
d)    setja á fót hvers konar undirnefndir eftir því sem þeir telja nauðsynlegt,
e)    undirbúa, þar sem við á, bókanir við þennan samning,
f)    fjalla um og samþykkja tillögur um breytingar á þessum samningi í samræmi við ákvæði 14. gr.,

g)    fjalla um og hrinda í framkvæmd sérhverjum viðbótaraðgerðum sem kunna að vera nauðsynlegar til að ná fram markmiðum þessa samnings,
h)    fjalla um, á fyrsta fundi sínum, og samþykkja samhljóða fundarsköp fyrir fundi sína og fundi undirnefnda,
i)    yfirfara, á fyrsta fundi sínum, reynslu sína af framkvæmd ákvæða 9. mgr. 5. gr. og fjalla um þau skref sem eru nauðsynleg til að þróa frekar það fyrirkomulag sem þar er vísað til, að teknu tilliti til alþjóðlegra starfshátta og þróunar, þar með talin útfærsla viðeigandi gernings um skýrslur eða skrár um losun og flutning mengunarefna sem mætti gera að viðauka við þennan samning.

3.     Fundur samningsaðila getur, eftir því sem þörf krefur, fjallað um þann kost að samþykkja fjárhagslegar ráðstafanir með samhljóða samþykki.
4.     Rétt til að sitja fundi samningsaðila sem áheyrnarfulltrúar hafa Sameinuðu þjóðirnar, sérstofnanir þeirra og Alþjóðakjarnorkumálastofnunin, ásamt öllum ríkjum eða svæðisstofnunum um efnahagssamvinnu sem er heimilt skv. 17. gr. að undirrita þennan samning en eru ekki aðilar að honum, ennfremur allar milliríkjastofnanir sem hafa sérþekkingu á þeim sviðum sem þessi samningur snertir.

5.     Öllum frjálsum félagasamtökum, sem hafa sérþekkingu á þeim sviðum sem þessi samningur snertir og hafa tilkynnt framkvæmdastjóra Efnahagsnefndarinnar fyrir Evrópu að þau vilji eiga fulltrúa á fundum samningsaðila, skal heimilt að senda áheyrnarfulltrúa, nema minnst þriðjungur þeirra samningsaðila sem eiga fulltrúa á fundinum hreyfi andmælum.
6.     Að því er varðar 4. og 5. mgr. hér að framan skal í þeim fundarsköpum sem vísað er til í h-lið 2. mgr. hér að framan fjallað um hagnýtar ráðstafanir varðandi aðgang og aðra viðeigandi skilmála.

11. gr.
Atkvæðisréttur.

1.     Sérhver samningsaðili skal ráða yfir einu atkvæði, með fyrirvara um ákvæði 2. mgr. þessarar greinar.
2.     Svæðisstofnanir um efnahagssamvinnu skulu, í þeim málum sem falla undir valdsvið þeirra, neyta atkvæðisréttar síns með atkvæðafjölda sem er jafn fjölda aðildarríkja þeirra sem jafnframt eru aðilar að þessum samningi. Stofnanir þessar skulu ekki neyta atkvæðisréttar síns geri aðildarríki þeirra hið sama og öfugt.

12. gr.
Skrifstofan.

    Framkvæmdastjóri Efnahagsnefndarinnar fyrir Evrópu skal inna af hendi eftirtalin störf skrifstofunnar:
a)    kalla saman og undirbúa fundi samningsaðilanna,

b)    dreifa til samningsaðilanna skýrslum og öðrum upplýsingum sem berast í samræmi við ákvæði þessa samnings og
c)    hver þau önnur störf sem samningsaðilarnir kunna að ákveða.

13. gr.
Viðaukar.

    Viðaukarnir við þennan samning eru óaðskiljanlegur hluti hans.

14. gr.
Breytingar á samningnum.

1.     Sérhver samningsaðili getur borið fram tillögu um breytingu á þessum samningi.
2.     Texti sérhverrar tillögu um breytingu á þessum samningi skal lagður fram skriflega hjá framkvæmdastjóra Efnahagsnefndarinnar fyrir Evrópu sem skal senda hann til allra samningsaðila eigi síðar en níutíu dögum fyrir fund samningsaðilanna þar sem tillagan er lögð fram til samþykktar.
3.     Samningsaðilar skulu gera sitt ítrasta til að ná samkomulagi um tillögu um breytingu á þessum samningi með samhljóða samþykki. Hafi allar tilraunir til að ná samhljóða samþykki reynst árangurslausar og ekkert samkomulag liggur fyrir skal sem síðasta úrræðið samþykkja breytinguna með atkvæðum þriggja fjórðu þeirra samningsaðila sem viðstaddir eru og atkvæði greiða á fundinum.
4.     Vörsluaðili skal senda öllum samningsaðilum breytingar á þessum samningi, sem samþykktar eru í samræmi við ákvæði 3. mgr. hér að framan, til fullgildingar, samþykktar eða staðfestingar. Breytingar á þessum samningi, aðrar en á viðauka við hann, öðlast gildi að því er varðar samningsaðila sem hafa fullgilt þær, samþykkt eða staðfest á nítugasta degi eftir að vörsluaðili hefur veitt tilkynningu um fullgildingu, samþykki eða staðfestingu þeirra viðtöku frá þremur fjórðu samningsaðila hið minnsta. Eftir þann tíma öðlast þær gildi, að því er sérhvern annan samningsaðila varðar, á nítugasta degi eftir að sá samningsaðili afhendir skjal sitt um fullgildingu, samþykkt eða staðfestingu á breytingunum til vörslu.
5.     Sérhver samningsaðili, sem getur ekki samþykkt breytingu á viðauka við þennan samning, skal tilkynna það vörsluaðilanum skriflega eigi síðar en tólf mánuðum frá dagsetningu tilkynningar um samþykkt á fundi samningsaðila. Vörsluaðilinn skal án tafar greina öllum samningsaðilum frá sérhverri slíkri tilkynningu sem hann veitir viðtöku. Samningsaðili getur hvenær sem er látið staðfestingu sína koma í stað fyrri tilkynningar sinnar og skulu breytingar á viðkomandi viðauka öðlast gildi að því er þann samningsaðila varðar þegar hann afhendir vörsluaðila skjal sitt um staðfestingu til vörslu.
6.     Að liðnum tólf mánuðum frá dagsetningu tilkynningar vörsluaðila, sem kveðið er á um í 4. mgr. að framan, tekur breyting á viðauka gildi fyrir þá samningsaðila sem hafa ekki sent vörsluaðila tilkynningu í samræmi við ákvæði 5. mgr. hér að framan, að því tilskildu að eigi fleiri en þriðjungur samningsaðila hafi sent slíka tilkynningu.

7.     Í þessari grein merkir „samningsaðilar sem viðstaddir eru og atkvæði greiða“ þá samningsaðila sem eru viðstaddir og greiða atkvæði með eða á móti.

15. gr.
Athugun á því hvernig ákvæðum
samningsins er fylgt.

    Fundur samningsaðila skal, með samhljóða samþykki, koma á valfrjálsu fyrirkomulagi sem ekki leiðir til árekstrar, er ótengt dómstólum og í formi ráðgjafar, til að fara yfir það hvernig ákvæðum samnings þessa er fylgt. Fyrirkomulagið skal gera ráð fyrir viðeigandi þátttöku almennings og kann að fela í sér þann kost að taka til athugunar ábendingar frá almenningi um málefni er varða þennan samning.


16. gr.
Lausn deilumála.

1.     Komi upp deila milli tveggja eða fleiri samningsaðila um túlkun eða beitingu ákvæða þessa samnings skulu þeir þá leita lausnar með samningum eða með einhverjum öðrum hætti sem deiluaðilar eru ásáttir um.
2.     Samningsaðili getur, við undirritun, fullgildingu, staðfestingu eða samþykki þessa samnings eða samhliða aðild að honum eða hvenær sem er síðar, lýst því skriflega yfir við vörsluaðila, viðvíkjandi deilu sem ekki er leyst í samræmi við ákvæði 1. mgr. hér að framan, að hann skuldbindi sig til að fara aðra eða báðar eftirfarandi leiða til að leysa deilu við samningsaðila sem samþykkir sömu skuldbindingu:
a)    að leggja deiluna fyrir Alþjóðadómstólinn í Haag,
b)    að leggja deiluna í gerð samkvæmt þeirri málsmeðferð sem er lýst í II. viðauka.
3.     Hafi deiluaðilar samþykkt báðar leiðir til lausnar deilu skv. 2. mgr. má aðeins leggja deiluna fyrir Alþjóðadómstólinn í Haag, nema þeir komi sér saman um annað.


17. gr.
Undirritun.

    Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar í Árósum (Danmörku) hinn 25. júní 1998 og eftir það í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York fram til 21. desember 1998 af hálfu aðildarríkja Efnahagsnefndarinnar fyrir Evrópu, auk þeirra ríkja sem hafa stöðu samráðsaðila hjá Efnahagsnefndinni fyrir Evrópu skv. 8. og 11. mgr. ályktunar Efnahags- og félagsmálaráðsins nr. 36 (IV) frá 28. mars 1947, og af hálfu svæðisstofnana um efnahagssamvinnu sem fullvalda aðildarríki að Efnahagsnefndinni fyrir Evrópu hafa sett á stofn og falið vald í málum er falla undir þennan samning, m.a. vald til að gera samninga varðandi þessi mál.18. gr.
Vörsluaðili.

    Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal vera vörsluaðili þessa samnings.

19. gr.
Fullgilding, staðfesting,
samþykki og aðild.

1.     Samningur þessi er háður fullgildingu, staðfestingu eða samþykki ríkja og svæðisstofnana um efnahagssamvinnu sem hafa undirritað hann.
2.     Ríki og svæðisstofnanir um efnahagssamvinnu, sem vísað er til í 17. gr., geta gerst aðilar að þessum samningi frá og með 22. desember 1998.

3.     Sérhvert annað ríki, sem ekki er vísað til í 2. mgr. hér að framan og er aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, getur gerst aðili að þessum samningi með samþykki fundar samningsaðilanna.
4.     Samtök, sem vísað er til í 17. gr. og gerast aðili að þessum samningi án þess að nokkurt aðildarríkja þeirra sé samningsaðili, takast á herðar allar skyldur samkvæmt þessum samningi. Ef eitt eða fleiri aðildarríki að slíkum samtökum er aðili að þessum samningi skulu samtökin og aðildarríki þeirra skera úr um hvar ábyrgð hvers þeirra um sig liggur að því er varðar að efna skuldbindingar sínar samkvæmt þessum samningi. Í slíkum tilvikum skal samtökunum og aðildarríkjum þeirra óheimilt að halda fram réttindum sínum samkvæmt þessum samningi samtímis.
5.     Í skjölum sínum um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild skulu þær svæðisstofnanir um efnahagssamvinnu sem um getur í 17. gr. tilgreina hvert valdsvið þeirra nær í málefnum sem þessi samningur tekur til. Þessi samtök skulu ennfremur skýra vörsluaðila frá öllum umtalsverðum breytingum á valdsviði sínu.


20. gr.
Gildistaka.

1.     Samningur þessi öðlast gildi á nítugasta degi eftir þann dag þegar sextánda skjalið um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild hefur verið afhent til vörslu.
2.     Að því er varðar 1. mgr. hér að framan skal sérhvert skjal, sem svæðisstofnanir um efnahagssamvinnu afhenda til vörslu, ekki talið viðbót við skjöl sem aðildarríki hennar afhenda.

3.     Að því er varðar hvert ríki eða stofnanir, sem vísað er til í 17. gr. og fullgilda, staðfesta eða samþykkja þennan samning eða gerast aðili að honum eftir þann dag þegar sextánda skjalið um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild hefur verið afhent til vörslu, skal samningurinn öðlast gildi á nítugasta degi eftir að viðkomandi ríki eða stofnun afhendir skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild til vörslu.

21. gr.
Uppsögn.

    Samningsaðili getur, hvenær sem er að liðnum þremur árum frá því að samningur þessi öðlast gildi gagnvart honum, sagt samningnum upp með skriflegri tilkynningu til vörsluaðila. Sérhver uppsögn skal taka gildi á nítugasta degi eftir að vörsluaðili veitir henni viðtöku.


22. gr.
Gildir textar.

    Frumrit samnings þessa, en textar hans á ensku, frönsku og rússnesku eru allir jafngildir, skal afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.

    ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirrituð, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

    GJÖRT í Árósum (Danmörku) hinn 25. júní 1998.I. VIÐAUKI
Skrá um starfsemi sem vísað er til í
a-lið 1. mgr. 6. gr.

1.     Orkugeirinn:
–    hreinsunarstöðvar fyrir jarðolíu og gas,
–    verksmiðjur til gösunar og þéttingar,
–    varmaorkuver og önnur brennslusver með orkuaðveitu 50 megavött (MW) eða meira,

–    koksofnar,
–    kjarnorkuver og aðrir kjarnakljúfar, þar með talið að taka í sundur eða taka úr notkun slík orkuver eða kljúfa 1 (nema rannsóknarver fyrir framleiðslu og ummyndun kjarnakleyfra og frjórra efna með orku sem er ekki meiri en 1 kW stöðugt varmaálag),

–    stöðvar þar sem geisluð kjarnakleyf efni eru endurunnin,
–    stöðvar sem hannaðar eru:
    –    til að framleiða eða auðga kjarnakleyf efni,

    –    til vinnslu geislaðra kjarnakleyfra efna eða mjög geislavirks úrgangs,
    –    til endanlegrar förgunar geislaðra, kjarnakleyfra efna,
    –    eingöngu til endanlegrar förgunar geislavirks úrgangs,
    –    eingöngu til geymslu (til meira en 10 ára) á geisluðum kjarnakleyfum efnum eða geislavirkum úrgangi annars staðar en á framleiðslustað.
2.     Framleiðsla og vinnsla málma:
–    verksmiðjur til að baka eða sindra málmgrýti (þar með talið brennisteinssúlfíð),
–    stöðvar til framleiðslu á steypujárni eða stáli (fyrsta eða önnur bræðsla) ásamt samfelldri steypingu með afköstum yfir 2,5 tonnum á klst.,

–    stöðvar til framleiðslu á járnkenndum málmum:

         i.     heitvölsunarstöðvar með afköstum yfir 20 tonn af hrástáli á klst.,
         ii.     smiðjur með hömrum sem eru yfir 50 kílójoule hver og þar sem kaloríuorkan, sem notuð er, er yfir 20 MW,

         iii.     varnarhúðun með bræddum málmum þar sem notkun er yfir 2 tonnum af hrástáli á klst.,

–    málmsteypusmiðjur fyrir járnkennda málma með afköst yfir 20 tonnum á dag,
–    stöðvar:
         i.     til að framleiða málma sem hafa ekki eiginleika járns úr málmgrýti, uppsafni eða brotamálmum með aðferðum málmvinnslu, efnafræði eða rafgreiningar,
         ii.     til bræðslu, einnig málmblendis, á járnlausum málmum, þar á meðal endurheimtum vörum (hreinsun, steypa í steypusmiðjum o.s.frv.), með bræðsluafköst yfir 4 tonn á dag fyrir blý og kadmíum og 20 tonn á dag fyrir alla aðra málma,
–    stöðvar til vinnslu málma og plastefna ofan jarðar með rafgreiningar- eða efnameðferð ef rúmmál meðferðarkeranna er meira en 30 m 3.

3.     Steinefnaiðnaður:
–    verksmiðjur til að framleiða sementsgjall í snúningsbrennsluofnum með afköst yfir 500 tonn á dag eða kalk í snúningsbrennsluofnum með afköst yfir 50 tonn á dag eða í annars konar brennsluofnum með afköst yfir 50 tonn á dag,

–    stöðvar til framleiðslu á asbesti og asbestvörum,

–    stöðvar til framleiðslu á gleri og trefjaefni með bræðsluafköst yfir 20 tonn á dag,

–    stöðvar til að bræða steinefni og framleiða steinefnatrefjar með bræðsluafköst yfir 20 tonn á dag,
–    stöðvar til framleiðslu á leirvöru með brennslu, einkum þakflísum, múrsteinum, eldföstum múrsteinum, flísum, leirmunum og postulíni, með afköst yfir 75 tonn á dag og/eða ofnarými yfir 4 m 3 og með hleðsluþéttleika yfir 300 kg/m 3 á hvern brennsluofn.

4. Efnaiðnaður: Framleiðsla innan þeirra flokka starfsemi sem greinir í þessum tölulið merkir framleiðslu á stærðargráðu iðnaðar með kemískri vinnslu efna eða flokka efna sem getið er í a- til g-liðum:

a)    efnaverksmiðjur til að framleiða lífræn hráefni, svo sem:
         i.     einföld kolefnissambönd (línu- eða hring tengd, mettuð eða ómettuð, alifatísk eða arómatísk),
         ii.     súrefnisinnihaldandi kolvetni, svo sem alkóhól, aldehýð, ketón, karboxýlsýrur, esterar, asetöt, eterar, peroxíð, epoxý- efni,

         iii.     kolvetnissúlfíð,
         iv.     níturkolvetni svo sem amín, amíð, nítur sambönd, nítró- eða nítratsambönd, nítríl, síanöt, ísósíanöt,

         v.     kolvetni sem innihalda fosfór,
         vi.     halótgenísk kolvetni,
         vii.     lífræn málmefnasambönd,
         viii.     hráefni í plastiðnaði, (pólýmer, gervi þræðir og sellulósaþræðir),
         ix.     gervigúmmí,
         x.     litunarefni og litarefni,
         xi.     yfirborðsvirk efni,
b)    efnaverksmiðjur til að framleiða ólífræn hráefni, svo sem:
         i.     gastegundir, svo sem ammóníak, klór eða klórvetni, flór eða flórvetni, kolefnisoxíð, brennisteinssambönd, níturoxíð, vetni, brennisteinsdíoxíð, karbónílklóríð,

         ii.     sýrur, svo sem krómsýru, flórvetnissýru, fosfórsýru, saltpéturssýru, saltsýru, brennisteinssýru, olíusýru, brennisteins tvísýrlinga,

         iii.     basa, svo sem ammóníumhýdroxíð, kalí umhýdroxíð, natríumhýdroxíð,
         iv.     sölt, svo sem ammóníumklóríð, kalíumklóríð, kalíumkarbónat, natríumkarbónat, perbórat, silfurnítrat,
         v.     málmleysingja, málmoxíð og önnur ólíf ræn efnasambönd svo sem kalsíumkarbíð, silíkon, silíkonkarbíð,
c)    efnaverksmiðjur til að framleiða áburð sem inniheldur fosfór, köfnunarefni eða kalíum (einnig áburðarblöndur),
d)    efnaverksmiðjur til að framleiða grunnvörur fyrir plöntuvarnarefni og lífeyða,
e)    verksmiðjur til að framleiða grunnlyfjavörur með efnafræðilegum eða líffræðilegum aðferðum,
f)    kemískar verksmiðjur til framleiðslu á sprengiefni,
g)    kemískar verksmiðjur þar sem kemískar eða lífrænar aðferðir eru notaðar til að framleiða viðbótarefni í prótínfóðurbæta, hvata og önnur prótínefni.
5.    Meðferð úrgangs:
–    stöðvar fyrir brennslu, endurvinnslu, efnameðferð eða urðun hættulegra úrgangsefna,

–    verksmiðjur fyrir brennslu heimilisúrgangs með afköst yfir 3 tonn á klst.,

–    verksmiðjur fyrir förgun úrgangs, sem ekki er hættulegur, með afköst yfir 50 tonn á dag,

–    urðunarstaðir sem taka við meira en 10 tonnum á dag eða með heildarrými fyrir meira en 25.000 tonn, að frátöldum urðunarstöðum fyrir óbreytanlegan úrgang.
6.     Skólphreinsistöðvar með meiri afkastagetu en sem svarar til 150.000 íbúa byggðar.
7.     Verksmiðjur fyrir:
a)    framleiðslu á pappírsdeigi úr timbri eða svipuðum trefjaefnum,
b)    framleiðslu á pappír og pappa sem geta framleitt yfir 20 tonn á dag.
8.    a) Lagning járnbrauta yfir miklar vegalengdir, svo og flugvalla, 2 með 2100 metra langa meginflugbraut eða lengri,
b)    lagning vega og hraðbrauta, 3
c)    lagning nýs vegar með fjórum akreinum eða fleiri, eða lagfæring á veglínu og/eða breikkun vegar með tveimur akreinum eða færri til þess að fjölga akreinum í minnst fjórar, ef nýi vegurinn, lagfærð veglína og/eða breikkaður vegarhluti væri 10 km eða meira að lengd samfellt.

9.    a) Skipgengar vatnaleiðir og innhafnir sem skip yfir 1350 tonn að stærð komast um,

b)    viðskiptahafnir, bryggjur til útskipunar og uppskipunar tengdar landi og ytri hafnir (að frátöldum ferjubryggjum) sem skip yfir 1350 tonn að stærð geta lagst að.
10.     Kerfi til að vinna grunnvatn eða veita því á svæði, ef árlegt magn vatns, sem unnið er eða veitt á, er 10 milljónir rúmmetrar eða meira.

11.    a) Mannvirki til að flytja vatnslindir milli vatnasviða ef flutningurinn miðar að því að koma í veg fyrir vatnsskort og magn vatnsins, sem flutt er, er yfir 100 milljónir rúmmetrar á ári.

b)    Í öllum öðrum tilvikum, mannvirki til að flytja vatnslindir milli vatnasviða ef meðalstreymi um svæðið, sem safnað er af, er yfir 2000 milljónir rúmmetrar á ári og magnið, sem flutt er, er yfir 5% af því streymi.

Í báðum tilvikum er flutningur drykkjarvatns í leiðslum undanskilinn.
12.     Vinnsla í viðskiptaskyni á meira en 500 tonnum á dag af jarðolíu og meira en 500.000 rúmmetrum á dag af jarðgasi.

13.     Gerð stíflna og annarra mannvirkja til að hemja vatn eða geyma það til langs tíma, ef vatnsmagnið, sem hamið er eða geymt, er yfir 10 milljónir rúmmetrar.
14.     Leiðslur, sem eru yfir 800 mm í þvermál og meira en 40 km langar, til flutnings á gasi, olíu eða efnum.
15.     Stöðvar þar sem fram fer þauleldi alifugla eða svína með yfir:
a)    40.000 stæði fyrir alifugla,
b)    2.000 stæði fyrir alisvín (yfir 30 kg), eða

c)    750 stæði fyrir gyltur.
16.     Grjótnámur og opnar námur sem ná yfir meira en 25 hektara ofanjarðar eða mótekja þar sem yfirborðið nær yfir meira en 150 hektara.
17.     Lagning loftlína sem eru gerðar til raforkuflutnings með að minnsta kosti 220 kV spennu og eru lengri en 15 km.
18.     Geymslustöðvar fyrir jarðolíu, efni unnin úr jarðolíu eða efnavörur með 200.000 tonna geymslugetu eða meira.
19.     Önnur starfsemi:
–    verksmiðjur þar sem fram fer formeðferð (svo sem þvottur, bleiking og mersivinnsla) eða litun trefja eða textílefna þar sem afkastageta við meðferðina er yfir 10 tonn á dag,
–    verksmiðjur fyrir sútun skinna og húða þar sem afkastageta er yfir 12 tonn af unninni vöru á dag,
    a)    sláturhús sem afkasta yfir 50 tonnum af sláturafurðum á dag,
    b)    meðferð og vinnsla sem er ætluð til framleiðslu matvöru til manneldis úr:
         i.     hráefnum úr dýraríkinu (öðrum en mjólk) með afkastagetu á unnum afurðum yfir 75 tonn á dag,
         ii.     hráefnum úr jurtaríkinu með afkastagetu á unnum afurðum yfir 300 tonn á dag (meðalgildi, mælt á ársfjórðungsgrundvelli),
    c)    meðferð og vinnsla mjólkur, sé magn móttekinnar mjólkur yfir 200 tonn á dag (meðalgildi, mælt á ársgrundvelli),
–    mannvirki til förgunar eða endurvinnslu á dýraskrokkum og dýraúrgangi með afkastagetu yfir 10 tonn á dag,
–    verksmiðjur fyrir yfirborðsmeðferð efna, hluta eða framleiðsluvara, þar sem notast er við lífræn leysiefni, einkum til að klæða, prenta, húða, hreinsa fitu, vatnsverja, gljábera, mála, þrífa og gegnvæta, með notkun yfir 150 kg á klst eða meira en 200 tonn á ári,

–    verksmiðjur til framleiðslu á kolefni (harðbrenndum kolum) eða rafgrafíti með brennslu eða grafítmyndun.
20.     Starfsemi sem fellur ekki undir 1. til 19. tölul. að framan, þar sem gert er ráð fyrir þátttöku almennings í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar samkvæmt landslögum.
21.     Ákvæði a-liðar 1. mgr. 6. gr. þessa samnings gildir ekki um neina framangreinda starfsemi sé hún eingöngu eða aðallega í þágu rannsókna, þróunar eða prófana á nýjum aðferðum eða framleiðsluvörum og standi yfir skemur en tvö ár, nema líklegt sé að hún valdi umtalsverðum skaðlegum áhrifum á umhverfi eða heilsu.
22.     Allar breytingar á eða viðbætur við starfsemi, sem falla í sjálfu sér undir viðmiðanir/takmarkanir þessa viðauka, skulu háðar ákvæðum a-liðar 1. mgr. 6. gr. þessa samnings. Allar aðrar breytingar á eða viðbætur við starfsemi skulu háðar ákvæðum b-liðar 1. mgr. 6. gr. samningsins.


Athugasemdir.

1    Kjarnorkuver og aðrir kjarnaofnar teljast ekki lengur slík ver eða búnaður þegar búið er að fjarlægja varanlega allt kjarnaeldsneyti og önnur geislavirk efni úr verinu.

2    Að því er varðar þennan samning merkir „flugvöllur“ flugvöll sem fellur að skilgreiningunni í Chicago-samningnum frá 1944 um stofnsetningu Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (14. viðauki).

3    Hvað varðar þennan samning merkir „hraðbraut“ veg sem fellur að skilgreiningunni í Evrópusamningi um aðalumferðaræðar milli landa frá 15. nóvember 1975.II. VIÐAUKI
Gerð.

1.     Nú er deila lögð í gerð skv. 2. mgr. 16. gr. þessa samnings og skal aðili eða aðilar þá tilkynna skrifstofunni um efnisinnihald gerðarinnar og tilgreina sérstaklega þær greinar samningsins sem deilt er um túlkun eða beitingu á. Skal skrifstofan senda öllum aðilum að þessum samningi þær upplýsingar sem borist hafa.

2.     Í gerðardómi skulu eiga sæti þrír gerðarmenn. Bæði umkvörtunaraðilinn eða -aðilarnir og hinn aðilinn eða aðilarnir skulu skipa einn gerðarmann og þeir tveir gerðarmenn sem þannig eru skipaðir skulu síðan koma sér saman um tilnefningu hins þriðja er skal vera forseti gerðardómsins. Hann skal hvorki vera ríkisborgari deiluaðila, eiga aðsetur að jafnaði í landi deiluaðila, vera í starfi hjá deiluaðilum né áður hafa haft afskipti af sama máli í nokkru öðru starfi.

3.     Nú hefur forseti gerðardóms eigi verið tilnefndur innan tveggja mánaða frá því að hinn síðari gerðarmaður var skipaður og skal þá framkvæmdastjóri Efnahagsnefndarinnar fyrir Evrópu tilnefna hann, að ósk annars hvors deiluaðila, innan annarra tveggja mánaða.
4.     Nú skipar annar deiluaðili ekki gerðarmann innan tveggja mánaða frá því er ósk kemur fram um það og getur þá hinn deiluaðilinn tilkynnt það framkvæmdastjóra Efnahagsnefndarinnar fyrir Evrópu sem tilnefnir forseta gerðardómsins innan annarra tveggja mánaða. Er hann hefur verið tilnefndur skal forseti gerðardómsins beina því til þess deiluaðila sem ekki hefur skipað gerðarmann að gera það innan tveggja mánaða. Ef hann gerir það ekki innan þess tíma skal forsetinn skýra framkvæmdastjóra Efnahagsnefndarinnar fyrir Evrópu frá því og skal hann þá skipa gerðarmanninn innan annarra tveggja mánaða.
5.     Gerðardómur skal byggja úrlausn sína á reglum þjóðaréttar og ákvæðum þessa samnings.

6.     Gerðardómur, sem komið er á samkvæmt ákvæðum þessa viðauka, skal setja sér starfsreglur.

7.     Ákvarðanir gerðardóms, bæði um málsmeðferð og efni máls, skulu teknar með atkvæðum meirihluta gerðarmanna.
8.     Gerðardómur getur gert allar viðeigandi ráðstafanir til að leiða málsatvik í ljós.
9.     Deiluaðilar skulu leitast við að auðvelda störf gerðardómsins og einkum neyta allra ráða sem þeir búa yfir til að:
a)    útvega gerðardóminum öll viðeigandi skjöl, aðstöðu og upplýsingar,
b)    gera honum kleift, ef nauðsyn krefur, að kalla til vitni og sérfræðinga og heyra vitnisburð þeirra.
10.     Aðilarnir og gerðarmennirnir skulu viðhafa trúnað varðandi allar upplýsingar sem þeir taka við í trúnaði við málsmeðferð gerðardómsins.

11.     Gerðardómurinn getur, að ósk annars deiluaðila, mælst til þess að gerðar séu nauðsynlegar verndarráðstafanir til bráðabirgða.
12.     Komi deiluaðili ekki fyrir gerðardóminn eða haldi ekki fram máli sínu getur hinn deiluaðilinn farið þess á leit við gerðardóminn að hann haldi málarekstrinum áfram og leggi fram úrskurð sinn. Útivist aðila eða skortur á vörnum fyrir máli hindrar ekki framgang máls.
13.     Gerðardómur getur fjallað um og skorið úr um gagnkröfur sem beinlínis eiga rætur að rekja til deiluefnisins.
14.     Ákveði gerðardómur ekki annað vegna sérstakra atvika í máli skulu deiluaðilar bera kostnað af störfum gerðardóms að jöfnu, þ.m.t. þóknun gerðarmanna. Dómurinn skal færa allan kostnað sinn til bókar og láta deiluaðilum í té endanlegt yfirlit um hann.

15.     Sérhverjum aðila að þessum samningi, sem á lagalegra hagsmuna að gæta varðandi deiluefnið og úrlausn í málinu getur haft áhrif á, er heimil meðalganga með samþykki gerðardómsins.

16.     Gerðardómur skal leggja fram úrskurð sinn innan fimm mánaða frá því er hann var skipaður, nema hann telji nauðsynlegt að lengja þann frest um tíma sem ekki skyldi vera lengri en fimm mánuðir.
17.     Rökstuðningur skal fylgja úrskurði gerðardóms. Úrskurðurinn er endanlegur og bindandi fyrir deiluaðila. Gerðardómurinn skal tilkynna deiluaðilum og skrifstofunni um dóminn. Skrifstofan sendir fengnar upplýsingar til allra aðila að þessum samningi.


18.     Nú kemur upp deila milli aðila um túlkun eða fullnustu á úrskurði gerðardóms og getur þá deiluaðili vísað henni til þess gerðardóms sem kvað upp úrskurð eða, ef hann er ekki tiltækur, til annars gerðardóms sem komið er á fót í því skyni með sama hætti og þeim fyrri.CONVENTION
ON ACCESS TO INFORMATION,
PUBLIC PARTICIPATION
IN DECISION MAKING
AND ACCESS TO JUSTICE
IN ENVIRONMENTAL MATTERS


     The Parties to this Convention,
     Recalling principle l of the Stockholm Declaration on the Human Environment,
     Recalling also principle 10 of the Rio Declaration on Environment and Development,
     Recalling further General Assembly resolutions 37/7 of 28 October 1982 on the World Charter for Nature and 45/94 of 14 December 1990 on the need to ensure a healthy environment for the well being of individuals,
     Recalling the European Charter on Environment and Health adopted at the First European Conference on Environment and Health of the World Health Organization in Frankfurt am Main, Germany, on 8 December 1989,
     Affirming the need to protect, preserve and improve the state of the environment and to ensure sustainable and environmentally sound development,
     Recognizing that adequate protection of the environment is essential to human well being and the enjoyment of basic human rights, including the right to life itself,
     Recognizing also that every person has the right to live in an environment adequate to his or her health and well being, and the duty, both individually and in association with others, to protect and improve the environment for the benefit of present and future generations,
     Considering that, to be able to assert this right and observe this duty, citizens must have access to information, be entitled to participate in decision making and have access to justice in environmental matters, and acknowledging in this regard that citizens may need assistance in order to exercise their rights,
     Recognizing that, in the field of the environment, improved access to information and public participation in decision making enhance the quality and the implementation of decisions, contribute to public awareness of environmental issues, give the public the opportunity to express its concerns and enable public authorities to take due account of such concerns,
     Aiming thereby to further the accountability of and transparency in decision making and to strengthen public support for decisions on the environment,
     Recognizing the desirability of transparency in all branches of government and inviting legislative bodies to implement the principles of this Convention in their proceedings,
     Recognizing also that the public needs to be aware of the procedures for participation in environmental decision making, have free access to them and know how to use them,
     Recognizing further the importance of the respective roles that individual citizens, non governmental organizations and the private sector can play in environmental protection,
     Desiring to promote environmental education to further the understanding of the environment and sustainable development and to encourage widespread public awareness of, and participation in, decisions affecting the environment and sustainable development,
     Noting, in this context, the importance of making use of the media and of electronic or other, future forms of communication,
     Recognizing the importance of fully integrating environmental considerations in governmental decision making and the consequent need for public authorities to be in possession of accurate, comprehensive and up to date environmental information,
     Acknowledging that public authorities hold environmental information in the public interest,
     Concerned that effective judicial mechanisms should be accessible to the public, including organizations, so that its legitimate interests are protected and the law is enforced,
     Noting the importance of adequate product information being provided to consumers to enable them to make informed environmental choices,


     Recognizing the concern of the public about the deliberate release of genetically modified organisms into the environment and the need for increased transparency and greater public participation in decision making in this field,
     Convinced that the implementation of this Convention will contribute to strengthening democracy in the region of the United Nations Economic Commission for Europe (ECE),
     Conscious of the role played in this respect by ECE and recalling, inter alia, the ECE Guidelines on Access to Environmental Information and Public Participation in Environmental Decision making endorsed in the Ministerial Declaration adopted at the Third Ministerial Conference “Environment for Europe” in Sofia, Bulgaria, on 25 October 1995,

     Bearing in mind the relevant provisions in the Convention on Environmental Impact Assessment in a Transboundary Context, done at Espoo, Finland, on 25 February 1991, and the Convention on the Transboundary Effects of Industrial Accidents and the Convention on the Protection and Use of Transboundary Watercourses and International Lakes, both done at Helsinki on 17 March 1992, and other regional conventions,
     Conscious that the adoption of this Convention will have contributed to the further strengthening of the “Environment for Europe” process and to the results of the Fourth Ministerial Conference in Aarhus, Denmark, in June 1998,
     Have agreed as follows:

Article 1
OBJECTIVE

    In order to contribute to the protection of the right of every person of present and future generations to live in an environment adequate to his or her health and well being, each Party shall guarantee the rights of access to information, public participation in decision making, and access to justice in environmental matters in accordance with the provisions of this Convention.

Article 2
DEFINITIONS

    For the purposes of this Convention,

1.     “Party” means, unless the text otherwise indicates, a Contracting Party to this Convention;
2.     “Public authority” means:
(a)    Government at national, regional and other level;

(b)    Natural or legal persons performing public administrative functions under national law, including specific duties, activities or services in relation to the environment;
(c)    Any other natural or legal persons having public responsibilities or functions, or providing public services, in relation to the environment, under the control of a body or person falling within subparagraphs (a) or (b) above;
(d)    The institutions of any regional economic integration organization referred to in article 17 which is a Party to this Convention.
This definition does not include bodies or institutions acting in a judicial or legislative capacity;
3.     “Environmental information” means any information in written, visual, aural, electronic or any other material form on:

(a)    The state of elements of the environment, such as air and atmosphere, water, soil, land, landscape and natural sites, biological diversity and its components, including genetically modified organisms, and the interaction among these elements;
(b)    Factors, such as substances, energy, noise and radiation, and activities or measures, including administrative measures, environmental agreements, policies, legislation, plans and programmes, affecting or likely to affect the elements of the environment within the scope of subparagraph (a) above, and cost benefit and other economic analyses and assumptions used in environmental decision making;

(c)    The state of human health and safety, conditions of human life, cultural sites and built structures, inasmuch as they are or may be affected by the state of the elements of the environment or, through these elements, by the factors, activities or measures referred to in subparagraph (b) above;
4.     “The public” means one or more natural or legal persons, and, in accordance with national legislation or practice, their associations, organizations or groups;
5.     “The public concerned” means the public affected or likely to be affected by, or having an interest in, the environmental decision making; for the purposes of this definition, non governmental organizations promoting environmental protection and meeting any requirements under national law shall be deemed to have an interest.


Article 3
GENERAL PROVISIONS

1.     Each Party shall take the necessary legislative, regulatory and other measures, including measures to achieve compatibility between the provisions implementing the information, public participation and access to justice provisions in this Convention, as well as proper enforcement measures, to establish and maintain a clear, transparent and consistent framework to implement the provisions of this Convention.

2.     Each Party shall endeavour to ensure that officials and authorities assist and provide guidance to the public in seeking access to information, in facilitating participation in decision making and in seeking access to justice in environmental matters.
3.     Each Party shall promote environmental education and environmental awareness among the public, especially on how to obtain access to information, to participate in decision making and to obtain access to justice in environmental matters.

4.     Each Party shall provide for appropriate recognition of and support to associations, organizations or groups promoting environmental protection and ensure that its national legal system is consistent with this obligation.
5.     The provisions of this Convention shall not affect the right of a Party to maintain or introduce mea sures providing for broader access to information, more extensive public participation in decision making and wider access to justice in environmental matters than required by this Convention.

6.     This Convention shall not require any derogation from existing rights of access to information, public participation in decision making and access to justice in environmental matters.
7.     Each Party shall promote the application of the principles of this Convention in international environmental decision making processes and within the framework of international organizations in matters relating to the environment.
8.     Each Party shall ensure that persons exercising their rights in conformity with the provisions of this Convention shall not be penalized, persecuted or harassed in any way for their involvement. This provision shall not affect the powers of national courts to award reasonable costs in judicial proceedings.

9.     Within the scope of the relevant provisions of this Convention, the public shall have access to information, have the possibility to participate in decision making and have access to justice in environmental matters without discrimination as to citizenship, nationality or domicile and, in the case of a legal person, without discrimination as to where it has its registered seat or an effective centre of its activities.

Article 4
ACCESS TO ENVIRONMENTAL
INFORMATION

1.     Each Party shall ensure that, subject to the following paragraphs of this article, public authorities, in response to a request for environmental information, make such information available to the public, within the framework of national legislation, including, where requested and subject to subparagraph (b) below, copies of the actual documentation containing or comprising such information:
(a)    Without an interest having to be stated;
(b)    In the form requested unless:
         (i)     It is reasonable for the public authority to make it available in another form, in which case reasons shall be given for making it available in that form; or
         (ii)     The information is already publicly available in another form.
2.     The environmental information referred to in paragraph 1 above shall be made available as soon as possible and at the latest within one month after the request has been submitted, unless the volume and the complexity of the information justify an extension of this period up to two months after the request. The applicant shall be informed of any extension and of the reasons justifying it.
3.     A request for environmental information may be refused if:
(a)    The public authority to which the request is addressed does not hold the environmental information requested;
(b)    The request is manifestly unreasonable or formulated in too general a manner; or
(c)    The request concerns material in the course of completion or concerns internal communications of public authorities where such an exemption is provided for in national law or customary practice, taking into account the public interest ser ved by disclosure.
4.     A request for environmental information may be refused if the disclosure would adversely affect:
(a)    The confidentiality of the proceedings of public authorities, where such confidentiality is provided for under national law;
(b)    International relations, national defence or public security;
(c)    The course of justice, the ability of a person to receive a fair trial or the ability of a public aut hority to conduct an enquiry of a criminal or disciplinary nature;
(d)    The confidentiality of commercial and industrial information, where such confidentiality is protected by law in order to protect a legitimate economic interest. Within this framework, information on emissions which is relevant for the protection of the environment shall be disclosed;
(e)    Intellectual property rights;
(f)    The confidentiality of personal data and/or files relating to a natural person where that person has not consented to the disclosure of the information to the public, where such confidentiality is provided for in national law;
(g)    The interests of a third party which has supplied the information requested without that party being under or capable of being put under a legal obligation to do so, and where that party does not consent to the release of the material; or
(h)    The environment to which the information relates, such as the breeding sites of rare species.
The aforementioned grounds for refusal shall be interpreted in a restrictive way, taking into account the public interest served by disclosure and taking into account whether the information requested relates to emissions into the environment.
5.     Where a public authority does not hold the environmental information requested, this public authority shall, as promptly as possible, inform the applicant of the public authority to which it believes it is possible to apply for the information requested or transfer the request to that authority and inform the applicant accordingly.
6.     Each Party shall ensure that, if information exempted from disclosure under paragraphs 3 (c) and 4 above can be separated out without prejudice to the confidentiality of the information exempted, public authorities make available the remainder of the environmental information that has been requested.
7.     A refusal of a request shall be in writing if the request was in writing or the applicant so requests. A refusal shall state the reasons for the refusal and give information on access to the review procedure provided for in accordance with article 9. The refusal shall be made as soon as possible and at the latest within one month, unless the complexity of the information justifies an extension of this period up to two months after the request. The applicant shall be informed of any extension and of the reasons justifying it.
8.     Each Party may allow its public authorities to make a charge for supplying information, but such charge shall not exceed a reasonable amount. Public authorities intending to make such a charge for supplying information shall make available to applicants a schedule of charges which may be levied, indicating the circumstances in which they may be levied or waived and when the supply of information is conditional on the advance payment of such a charge.

Article 5
COLLECTION AND DISSEMINATION
OF ENVIRONMENTAL INFORMATION

1.     Each Party shall ensure that:
(a)    Public authorities possess and update environmental information which is relevant to their functions;
(b)    Mandatory systems are established so that there is an adequate flow of information to public authorities about proposed and existing activities which may significantly affect the environment;
(c)    In the event of any imminent threat to human health or the environment, whether caused by human activities or due to natural causes, all information which could enable the public to take measures to prevent or mitigate harm arising from the threat and is held by a public authority is disseminated immediately and without delay to members of the public who may be affected.
2.     Each Party shall ensure that, within the framework of national legislation, the way in which public authorities make environmental information available to the public is transparent and that environmental information is effectively accessible, inter alia, by:
(a)    Providing sufficient information to the public about the type and scope of environmental information held by the relevant public authorities, the basic terms and conditions under which such information is made available and accessible, and the process by which it can be obtained;
(b)    Establishing and maintaining practical arrangements, such as:

         (i)     Publicly accessible lists, registers or files;

         (ii)     Requiring officials to support the public in seeking access to information under this Convention; and
         (iii)     The identification of points of contact; and
(c)    Providing access to the environmental information contained in lists, registers or files as referred to in subparagraph (b) (i) above free of charge.
3.     Each Party shall ensure that environmental information progressively becomes available in electronic databases which are easily accessible to the public through public telecommunications networks. Information accessible in this form should include:

(a)    Reports on the state of the environment, as referred to in paragraph 4 below;
(b)    Texts of legislation on or relating to the environment;
(c)    As appropriate, policies, plans and programmes on or relating to the environment, and environmental agreements; and
(d)    Other information, to the extent that the availability of such information in this form would facilitate the application of national law implementing this Convention,
provided that such information is already available in electronic form.
4.     Each Party shall, at regular intervals not exceeding three or four years, publish and disseminate a national report on the state of the environment, inclu ding information on the quality of the environment and information on pressures on the environment.
5.     Each Party shall take measures within the framework of its legislation for the purpose of disseminating, inter alia:
(a)    Legislation and policy documents such as documents on strategies, policies, programmes and action plans relating to the environment, and progress reports on their implementation, prepared at various levels of government;
(b)    International treaties, conventions and agreements on environmental issues; and
(c)    Other significant international documents on environmental issues, as appropriate.
6.     Each Party shall encourage operators whose activities have a significant impact on the environment to inform the public regularly of the environmental impact of their activities and products, where appropriate within the framework of voluntary eco labelling or eco auditing schemes or by other means.

7.     Each Party shall:
(a)    Publish the facts and analyses of facts which it considers relevant and important in framing major environmental policy proposals;

(b)    Publish, or otherwise make accessible, available explanatory material on its dealings with the public in matters falling within the scope of this Convention; and
(c)    Provide in an appropriate form information on the performance of public functions or the provision of public services relating to the environment by government at all levels.
8.     Each Party shall develop mechanisms with a view to ensuring that sufficient product information is made available to the public in a manner which enables consumers to make informed environmental choices.
9.     Each Party shall take steps to establish progressively, taking into account international processes where appropriate, a coherent, nationwide system of pollution inventories or registers on a structured, computerized and publicly accessible database compiled through standardized reporting. Such a system may include inputs, releases and transfers of a specified range of substances and products, including water, energy and resource use, from a specified range of activities to environmental media and to on site and off site treatment and disposal sites.

10.     Nothing in this article may prejudice the right of Parties to refuse to disclose certain environmental information in accordance with article 4, paragraphs 3 and 4.

Article 6
PUBLIC PARTICIPATION IN DECISIONS
ON SPECIFIC ACTIVITIES

1.     Each Party:
(a)    Shall apply the provisions of this article with respect to decisions on whether to permit proposed activities listed in annex I;
(b)    Shall, in accordance with its national law, also apply the provisions of this article to decisions on proposed activities not listed in annex I which may have a significant effect on the environment. To this end, Parties shall determine whether such a proposed activity is subject to these provisions; and
(c)    May decide, on a case by case basis if so provided under national law, not to apply the provisions of this article to proposed activities serving national defence purposes, if that Party deems that such application would have an adverse effect on these purposes.
2.     The public concerned shall be informed, either by public notice or individually as appropriate, early in an environmental decision making procedure, and in an adequate, timely and effective manner, inter alia, of:
(a)    The proposed activity and the application on which a decision will be taken;
(b)    The nature of possible decisions or the draft decision;
(c)    The public authority responsible for making the decision;
(d)    The envisaged procedure, including, as and when this information can be provided:

         (i)     The commencement of the procedure;
         (ii)     The opportunities for the public to participate;
         (iii)     The time and venue of any envisaged public hearing;
         (iv)     An indication of the public authority from which relevant information can be obtained and where the relevant information has been deposited for examination by the public;
         (v)     An indication of the relevant public authority or any other official body to which comments or questions can be submitted and of the time schedule for transmittal of comments or questions; and
         (vi)     An indication of what environmental information relevant to the proposed activity is available; and
(e)    The fact that the activity is subject to a national or transboundary environmental impact assessment procedure.
3.     The public participation procedures shall include reasonable time frames for the different phases, allowing sufficient time for informing the public in accordance with paragraph 2 above and for the public to prepare and participate effectively during the environmental decision making.
4.     Each Party shall provide for early public participation, when all options are open and effective public participation can take place.

5.     Each Party should, where appropriate, encourage prospective applicants to identify the public concerned, to enter into discussions, and to provide information regarding the objectives of their application before applying for a permit.
6.     Each Party shall require the competent public authorities to give the public concerned access for examination, upon request where so required under national law, free of charge and as soon as it becomes available, to all information relevant to the decision making referred to in this article that is available at the time of the public participation procedure, without prejudice to the right of Parties to refuse to disclose certain information in accordance with article 4, paragraphs 3 and 4. The relevant information shall include at least, and without prejudice to the provisions of article 4:

(a)    A description of the site and the physical and technical characteristics of the proposed activity, including an estimate of the expected residues and emissions;
(b)    A description of the significant effects of the proposed activity on the environment;
(c)    A description of the measures envisaged to prevent and/or reduce the effects, including emissions;
(d)    A non technical summary of the above;

(e)    An outline of the main alternatives studied by the applicant; and
(f)    In accordance with national legislation, the main reports and advice issued to the public authority at the time when the public concerned shall be informed in accordance with paragraph 2 above.

7.     Procedures for public participation shall allow the public to submit, in writing or, as appropriate, at a public hearing or enquiry with the applicant, any comments, information, analyses or opinions that it considers relevant to the proposed activity.


8.     Each Party shall ensure that in the decision due account is taken of the outcome of the public participation.
9.     Each Party shall ensure that, when the decision has been taken by the public authority, the public is promptly informed of the decision in accordance with the appropriate procedures. Each Party shall make accessible to the public the text of the decision along with the reasons and considerations on which the decision is based.
10.     Each Party shall ensure that, when a public authority reconsiders or updates the operating conditions for an activity referred to in paragraph 1, the provisions of paragraphs 2 to 9 of this article are applied mutatis mutandis, and where appropriate.
11.     Each Party shall, within the framework of its national law, apply, to the extent feasible and appropriate, provisions of this article to decisions on whether to permit the deliberate release of genetically modified organisms into the environment.

Article 7
PUBLIC PARTICIPATION CONCERNING
PLANS, PROGRAMMES AND POLICIES
RELATING TO THE ENVIRONMENT

    Each Party shall make appropriate practical and/or other provisions for the public to participate during the preparation of plans and programmes relating to the environment, within a transparent and fair framework, having provided the necessary information to the public. Within this framework, article 6, paragraphs 3, 4 and 8, shall be applied. The public which may participate shall be identified by the relevant public authority, taking into account the objectives of this Convention. To the extent appropriate, each Party shall endeavour to provide opportunities for public participation in the preparation of policies relating to the environment.

Article 8
PUBLIC PARTICIPATION DURING
THE PREPARATION OF EXECUTIVE
REGULATIONS AND/OR GENERALLY
APPLICABLE LEGALLY BINDING
NORMATIVE INSTRUMENTS

    Each Party shall strive to promote effective public participation at an appropriate stage, and while options are still open, during the preparation by public authorities of executive regulations and other generally applicable legally binding rules that may have a significant effect on the environment. To this end, the following steps should be taken:
(a)    Time frames sufficient for effective participation should be fixed;
(b)    Draft rules should be published or otherwise made publicly available; and
(c)    The public should be given the opportunity to comment, directly or through representative consultative bodies.
The result of the public participation shall be taken into account as far as possible.

Article 9
ACCESS TO JUSTICE

1.     Each Party shall, within the framework of its national legislation, ensure that any person who considers that his or her request for information under article 4 has been ignored, wrongfully refused, whether in part or in full, inadequately answered, or otherwise not dealt with in accordance with the provisions of that article, has access to a review procedure before a court of law or another independent and impartial body established by law.
    In the circumstances where a Party provides for such a review by a court of law, it shall ensure that such a person also has access to an expeditious procedure established by law that is free of charge or inexpensive for reconsideration by a public authority or review by an independent and impartial body other than a court of law.

    Final decisions under this paragraph 1 shall be binding on the public authority holding the information. Reasons shall be stated in writing, at least where access to information is refused under this paragraph.
2.     Each Party shall, within the framework of its national legislation, ensure that members of the public concerned
(a)    Having a sufficient interest
or, alternatively,
(b)    Maintaining impairment of a right, where the administrative procedural law of a Party requires this as a precondition,

have access to a review procedure before a court of law and/or another independent and impartial body established by law, to challenge the substantive and procedural legality of any decision, act or omission subject to the provisions of article 6 and, where so provided for under national law and without prejudice to paragraph 3 below, of other relevant provisions of this Convention.
    What constitutes a sufficient interest and impairment of a right shall be determined in accordance with the requirements of national law and consistently with the objective of giving the public concerned wide access to justice within the scope of this Convention. To this end, the interest of any non governmental organization meeting the requirements referred to in article 2, paragraph 5, shall be deemed sufficient for the purpose of subparagraph (a) above. Such organizations shall also be deemed to have rights capable of being impaired for the purpose of subparagraph (b) above.
    The provisions of this paragraph 2 shall not exclude the possibility of a preliminary review procedure before an administrative authority and shall not affect the requirement of exhaustion of administrative review procedures prior to recourse to judicial review procedures, where such a requirement exists under national law.
3.     In addition and without prejudice to the review procedures referred to in paragraphs 1 and 2 above, each Party shall ensure that, where they meet the criteria, if any, laid down in its national law, members of the public have access to administrative or judicial procedures to challenge acts and omissions by private persons and public authorities which contravene provisions of its national law relating to the environment.

4.     In addition and without prejudice to paragraph 1 above, the procedures referred to in paragraphs 1, 2 and 3 above shall provide adequate and effective remedies, including injunctive relief as appropriate, and be fair, equitable, timely and not prohibitively expensive. Decisions under this article shall be given or recorded in writing. Decisions of courts, and whenever possible of other bodies, shall be publicly accessible.

5.     In order to further the effectiveness of the provisions of this article, each Party shall ensure that information is provided to the public on access to administrative and judicial review procedures and shall consider the establishment of appropriate assistance mechanisms to remove or reduce financial and other barriers to access to justice.


Article 10
MEETING OF THE PARTIES

1.     The first meeting of the Parties shall be convened no later than one year after the date of the entry into force of this Convention. Thereafter, an ordinary meeting of the Parties shall be held at least once every two years, unless otherwise decided by the Parties, or at the written request of any Party, provided that, within six months of the request being communicated to all Parties by the Executive Secretary of the Economic Commission for Europe, the said request is supported by at least one third of the Parties.
2.     At their meetings, the Parties shall keep under continuous review the implementation of this Convention on the basis of regular reporting by the Parties, and, with this purpose in mind, shall:
(a)    Review the policies for and legal and methodological approaches to access to information, public participation in decision making and access to justice in environmental matters, with a view to further improving them;
(b)    Exchange information regarding experience gained in concluding and implementing bilateral and multilateral agreements or other arrangements having relevance to the purposes of this Convention and to which one or more of the Parties are a party;
(c)    Seek, where appropriate, the services of relevant ECE bodies and other competent international bodies and specific committees in all aspects pertinent to the achievement of the purposes of this Convention;
(d)    Establish any subsidiary bodies as they deem necessary;
(e)    Prepare, where appropriate, protocols to this Convention;
(f)    Consider and adopt proposals for amendments to this Convention in accordance with the provisions of article 14;
(g)    Consider and undertake any additional action that may be required for the achievement of the purposes of this Convention;
(h)    At their first meeting, consider and by consensus adopt rules of procedure for their meetings and the meetings of subsidiary bodies;
(i)    At their first meeting, review their experience in implementing the provisions of article 5, paragraph 9, and consider what steps are necessary to develop further the system referred to in that paragraph, taking into account international processes and developments, including the elaboration of an appropriate instrument concerning pollution release and transfer registers or inventories which could be annexed to this Convention.
3.     The Meeting of the Parties may, as necessary, consider establishing financial arrangements on a consensus basis.
4.     The United Nations, its specialized agencies and the International Atomic Energy Agency, as well as any State or regional economic integration organization entitled under article 17 to sign this Convention but which is not a Party to this Convention, and any intergovernmental organization qualified in the fields to which this Convention relates, shall be entitled to participate as observers in the meetings of the Parties.
5.     Any non governmental organization, qualified in the fields to which this Convention relates, which has informed the Executive Secretary of the Economic Commission for Europe of its wish to be represented at a meeting of the Parties shall be entitled to participate as an observer unless at least one third of the Parties present in the meeting raise objections.

6.     For the purposes of paragraphs 4 and 5 above, the rules of procedure referred to in paragraph 2 (h) above shall provide for practical arrangements for the admittance procedure and other relevant terms.


Article 11
RIGHT TO VOTE

1.     Except as provided for in paragraph 2 below, each Party to this Convention shall have one vote.

2.     Regional economic integration organizations, in matters within their competence, shall exercise their right to vote with a number of votes equal to the number of their member States which are Parties to this Convention. Such organizations shall not exercise their right to vote if their member States exercise theirs, and vice versa.

Article 12
SECRETARIAT

    The Executive Secretary of the Economic Commission for Europe shall carry out the following secretariat functions:
(a)    The convening and preparing of meetings of the Parties;
(b)    The transmission to the Parties of reports and other information received in accordance with the provisions of this Convention; and
(c)    Such other functions as may be determined by the Parties.

Article 13
ANNEXES

    The annexes to this Convention shall constitute an integral part thereof.

Article 14
AMENDMENTS TO THE CONVENTION

1.     Any Party may propose amendments to this Convention.
2.     The text of any proposed amendment to this Convention shall be submitted in writing to the Executive Secretary of the Economic Commission for Europe, who shall communicate it to all Parties at least ninety days before the meeting of the Parties at which it is proposed for adoption.
3.     The Parties shall make every effort to reach agreement on any proposed amendment to this Convention by consensus. If all efforts at consensus have been exhausted, and no agreement reached, the amendment shall as a last resort be adopted by a three fourths majority vote of the Parties present and voting at the meeting.

4.     Amendments to this Convention adopted in accordance with paragraph 3 above shall be communicated by the Depositary to all Parties for ratification, approval or acceptance. Amendments to this Convention other than those to an annex shall enter into force for Parties having ratified, approved or accepted them on the ninetieth day after the receipt by the Depositary of notification of their ratification, approval or acceptance by at least three fourths of these Parties. Thereafter they shall enter into force for any other Party on the ninetieth day after that Party deposits its instrument of ratification, approval or acceptance of the amendments.

5.     Any Party that is unable to approve an amendment to an annex to this Convention shall so notify the Depositary in writing within twelve months from the date of the communication of the adoption. The Depositary shall without delay notify all Parties of any such notification received. A Party may at any time substitute an acceptance for its previous notification and, upon deposit of an instrument of acceptance with the Depositary, the amendments to such an annex shall become effective for that Party.


6.     On the expiry of twelve months from the date of its communication by the Depositary as provided for in paragraph 4 above an amendment to an annex shall become effective for those Parties which have not submitted a notification to the Depositary in accordance with the provisions of paragraph 5 above, provided that not more than one third of the Parties have submitted such a notification.
7.     For the purposes of this article, “Parties present and voting” means Parties present and casting an affirmative or negative vote.

Article 15
REVIEW OF
COMPLIANCE

    The Meeting of the Parties shall establish, on a consensus basis, optional arrangements of a non confrontational, non judicial and consultative nature for reviewing compliance with the provisions of this Convention. These arrangements shall allow for appropriate public involvement and may include the option of considering communications from members of the public on matters related to this Convention.

Article 16
SETTLEMENT OF DISPUTES

1.     If a dispute arises between two or more Parties about the interpretation or application of this Convention, they shall seek a solution by negotiation or by any other means of dispute settlement acceptable to the parties to the dispute.
2.     When signing, ratifying, accepting, approving or acceding to this Convention, or at any time thereafter, a Party may declare in writing to the Depositary that, for a dispute not resolved in accordance with paragraph 1 above, it accepts one or both of the following means of dispute settlement as compulsory in relation to any Party accepting the same obligation:
(a)    Submission of the dispute to the International Court of Justice;
(b)    Arbitration in accordance with the procedure set out in annex II.
3.     If the parties to the dispute have accepted both means of dispute settlement referred to in paragraph 2 above, the dispute may be submitted only to the International Court of Justice, unless the parties agree otherwise.

Article 17
SIGNATURE

    This Convention shall be open for signature at Aarhus (Denmark) on 25 June 1998, and thereafter at United Nations Headquarters in New York until 21 December 1998, by States members of the Economic Commission for Europe as well as States having consultative status with the Economic Commission for Europe pursuant to paragraphs 8 and 11 of Economic and Social Council resolution 36 (IV) of 28 March 1947, and by regional economic integration organizations constituted by sovereign States members of the Economic Commission for Europe to which their member States have transferred competence over matters governed by this Convention, including the competence to enter into treaties in respect of these matters.

Article 18
DEPOSITARY

    The Secretary General of the United Nations shall act as the Depositary of this Convention.

Article 19
RATIFICATION, ACCEPTANCE,
APPROVAL AND ACCESSION

1.     This Convention shall be subject to ratification, acceptance or approval by signatory States and regional economic integration organizations.
2.     This Convention shall be open for accession as from 22 December 1998 by the States and regional economic integration organizations referred to in article 17.
3.     Any other State, not referred to in paragraph 2 above, that is a Member of the United Nations may accede to the Convention upon approval by the Meeting of the Parties.
4.     Any organization referred to in article 17 which becomes a Party to this Convention without any of its member States being a Party shall be bound by all the obligations under this Convention. If one or more of such an organization's member States is a Party to this Convention, the organization and its member States shall decide on their respective responsibilities for the performance of their obligations under this Convention. In such cases, the organization and the member States shall not be entitled to exercise rights under this Convention concurrently.

5.     In their instruments of ratification, acceptance, approval or accession, the regional economic integration organizations referred to in article 17 shall declare the extent of their competence with respect to the matters governed by this Convention. These organizations shall also inform the Depositary of any substantial modification to the extent of their competence.

Article 20
ENTRY INTO FORCE

1.     This Convention shall enter into force on the ninetieth day after the date of deposit of the sixteenth instrument of ratification, acceptance, approval or accession.
2.     For the purposes of paragraph 1 above, any instrument deposited by a regional economic integration organization shall not be counted as additional to those deposited by States members of such an organization.
3.     For each State or organization referred to in article 17 which ratifies, accepts or approves this Convention or accedes thereto after the deposit of the sixteenth instrument of ratification, acceptance, approval or accession, the Convention shall enter into force on the ninetieth day after the date of deposit by such State or organization of its instrument of ratification, acceptance, approval or accession.


Article 21
WITHDRAWAL

    At any time after three years from the date on which this Convention has come into force with respect to a Party, that Party may withdraw from the Convention by giving written notification to the Depositary. Any such withdrawal shall take effect on the ninetieth day after the date of its receipt by the Depositary.

Article 22
AUTHENTIC TEXTS

    The original of this Convention, of which the English, French and Russian texts are equally authentic, shall be deposited with the Secretary- General of the United Nations.

    IN WITNESS WHEREOF the undersigned, being duly authorized thereto, have signed this Convention.
    DONE at Aarhus (Denmark), this twenty fifth day of June, one thousand nine hundred and ninety eight.


Annex I
LIST OF ACTIVITIES REFERRED TO IN ARTICLE 6, PARAGRAPH 1 (a)

1.     Energy sector:
–    Mineral oil and gas refineries;
–    Installations for gasification and liquefaction;
–    Thermal power stations and other combustion installations with a heat input of 50 megawatts (MW) or more;
–    Coke ovens;
–    Nuclear power stations and other nuclear reactors including the dismantling or decommissioning of such power stations or reactors 1 (except research installations for the production and conversion of fissionable and fertile materials whose maximum power does not exceed 1 kW continuous thermal load);
–    Installations for the reprocessing of irradiated nuclear fuel;
–    Installations designed:
    –    For the production or enrichment of nuclear fuel;
    –    For the processing of irradiated nuclear fuel or high level radioactive waste;
    –    For the final disposal of irradiated nuclear fuel;
    –    Solely for the final disposal of radioactive waste;
    –    Solely for the storage (planned for more than 10 years) of irradiated nuclear fuels or radioactive waste in a different site than the production site.
2.     Production and processing of metals:
–    Metal ore (including sulphide ore) roasting or sintering installations;
–    Installations for the production of pig iron or steel (primary or secondary fusion) including continuous casting, with a capacity exceeding 2.5 tons per hour;
–    Installations for the processing of ferrous metals:
         (i)     Hot rolling mills with a capacity exceeding 20 tons of crude steel per hour;
         (ii)     Smitheries with hammers the energy of which exceeds 50 kilojoules per hammer, where the calorific power used exceeds 20 MW;
         (iii)     Application of protective fused metal coats with an input exceeding 2 tons of crude steel per hour;
–    Ferrous metal foundries with a production capacity exceeding 20 tons per day;
–    Installations:
         (i)     For the production of non ferrous crude metals from ore, concentrates or secondary raw materials by metallurgical, chemical or electrolytic processes;
         (ii)     For the smelting, including the alloying, of non ferrous metals, including recovered products (refining, foundry casting, etc.), with a melting capacity exceeding 4 tons per day for lead and cadmium or 20 tons per day for all other metals;
–    Installations for surface treatment of metals and plastic materials using an electrolytic or chemical process where the volume of the treatment vats exceeds 30 m 3.
3.     Mineral industry:
–    Installations for the production of cement clinker in rotary kilns with a production capacity exceeding 500 tons per day or lime in rotary kilns with a production capacity exceeding 50 tons per day or in other furnaces with a production capacity exceeding 50 tons per day;
–    Installations for the production of asbestos and the manufacture of asbestos based products;
–    Installations for the manufacture of glass including glass fibre with a melting capacity exceeding 20 tons per day;
–    Installations for melting mineral substances including the production of mineral fibres with a melting capacity exceeding 20 tons per day;
–    Installations for the manufacture of ceramic products by firing, in particular roofing tiles, bricks, refractory bricks, tiles, stoneware or porcelain, with a production capacity exceeding 75 tons per day, and/or with a kiln capacity exceeding 4 m 3 and with a setting density per kiln exceeding 300 kg/m 3.
4.     Chemical industry: Production within the meaning of the categories of activities contained in this paragraph means the production on an industrial scale by chemical processing of substances or groups of substances listed in subparagraphs (a) to (g):
(a)    Chemical installations for the production of basic organic chemicals, such as:
         (i)     Simple hydrocarbons (linear or cyclic, saturated or unsaturated, aliphatic or aromatic);
         (ii)     Oxygen containing hydrocarbons such as alcohols, aldehydes, ketones, carboxylic acids, esters, acetates, ethers, peroxides, epoxy resins;
         (iii)     Sulphurous hydrocarbons;
         (iv)     Nitrogenous hydrocarbons such as amines, amides, nitrous compounds, nitro compounds or nitrate compounds, nitriles, cyanates, isocyanates;
         (v)     Phosphorus containing hydrocarbons;
         (vi)     Halogenic hydrocarbons;
         (vii)     Organometallic compounds;
         (viii)     Basic plastic materials (polymers, synthetic fibres and cellulose based fibres);
         (ix)     Synthetic rubbers;
         (x)     Dyes and pigments;
         (xi)     Surface active agents and surfactants;
(b)    Chemical installations for the production of basic inorganic chemicals, such as:
         (i)     Gases, such as ammonia, chlorine or hydrogen chloride, fluorine or hydrogen fluoride, carbon oxides, sulphur compounds, nitrogen oxides, hydrogen, sulphur dioxide, carbonyl chloride;
         (ii)     Acids, such as chromic acid, hydrofluoric acid, phosphoric acid, nitric acid, hydrochloric acid, sulphuric acid, oleum, sulphurous acids;
         (iii)     Bases, such as ammonium hydroxide, potassium hydroxide, sodium hydroxide;
         (iv)     Salts, such as ammonium chloride, potassium chlorate, potassium carbonate, sodium carbonate, perborate, silver nitrate;
         (v)     Non metals, metal oxides or other inorganic compounds such as calcium carbide, silicon, silicon carbide;
(c)    Chemical installations for the production of phosphorous , nitrogen or potassium based fertilizers (simple or compound fertilizers);
(d)    Chemical installations for the production of basic plant health products and of biocides;
(e)    Installations using a chemical or biological process for the production of basic pharmaceutical products;
(f)    Chemical installations for the production of explosives;
(g)    Chemical installations in which chemical or biological processing is used for the production of protein feed additives, ferments and other protein substances.
5.     Waste management:
–    Installations for the incineration, recovery, chemical treatment or landfill of hazardous waste;
–    Installations for the incineration of municipal waste with a capacity exceeding 3 tons per hour;
–    Installations for the disposal of non hazardous waste with a capacity exceeding 50 tons per day;
–    Landfills receiving more than 10 tons per day or with a total capacity exceeding 25,000 tons, excluding landfills of inert waste.

6.     Waste water treatment plants with a capacity exceeding 150,000 population equivalent.
7.     Industrial plants for the:
(a)    Production of pulp from timber or similar fibrous materials;
(b)    Production of paper and board with a production capacity exceeding 20 tons per day.
8.    (a) Construction of lines for long distance railway traffic and of airports 2 with a basic runway length of 2,100 m or more;
(b)    Construction of motorways and express roads; 3
(c)    Construction of a new road of four or more lanes, or realignment and/or widening of an existing road of two lanes or less so as to provide four or more lanes, where such new road, or realigned and/or widened section of road, would be 10 km or more in a continuous length.
9.    (a) Inland waterways and ports for inland waterway traffic which permit the passage of vessels of over 1,350 tons;
(b)    Trading ports, piers for loading and unloading connected to land and outside ports (excluding ferry piers) which can take vessels of over 1,350 tons.
10.     Groundwater abstraction or artificial groundwater recharge schemes where the annual volume of water abstracted or recharged is equivalent to or exceeds 10 million cubic metres.
11.    (a) Works for the transfer of water resources between river basins where this transfer aims at preventing possible shortages of water and where the amount of water transferred exceeds 100 million cubic metres/year;
(b)    In all other cases, works for the transfer of water resources between river basins where the multiannual average flow of the basin of abstraction exceeds 2,000 million cubic metres/year and where the amount of water transferred exceeds 5 per cent of this flow.
In both cases transfers of piped drinking water are excluded.
12.     Extraction of petroleum and natural gas for commercial purposes where the amount extracted exceeds 500 tons/day in the case of petroleum and 500,000 cubic metres/day in the case of gas.
13.     Dams and other installations designed for the holding back or permanent storage of water, where a new or additional amount of water held back or stored exceeds 10 million cubic metres.
14.     Pipelines for the transport of gas, oil or chemicals with a diameter of more than 800 mm and a length of more than 40 km.
15.     Installations for the intensive rearing of poultry or pigs with more than:
(a)    40,000 places for poultry;
(b)    2,000 places for production pigs (over 30 kg); or
(c)    750 places for sows.
16.     Quarries and opencast mining where the surface of the site exceeds 25 hectares, or peat extraction, where the surface of the site exceeds 150 hectares.
17.     Construction of overhead electrical power lines with a voltage of 220 kV or more and a length of more than 15 km.
18.     Installations for the storage of petroleum, petrochemical, or chemical products with a capacity of 200,000 tons or more.
19.     Other activities:
–    Plants for the pretreatment (operations such as washing, bleaching, mercerization) or dyeing of fibres or textiles where the treatment capacity exceeds 10 tons per day;
–    Plants for the tanning of hides and skins where the treatment capacity exceeds 12 tons of finished products per day;
–    (a)    Slaughterhouses with a carcass production capacity greater than 50 tons per day;
    (b)    Treatment and processing intended for the production of food products from:
         (i)     Animal raw materials (other than milk) with a finished product production capacity greater than 75 tons per day;
         (ii)     Vegetable raw materials with a finished product production capacity greater than 300 tons per day (average value on a quarterly basis);
(c)    Treatment and processing of milk, the quantity of milk received being greater than 200 tons per day (average value on an annual basis);
–    Installations for the disposal or recycling of animal carcasses and animal waste with a treatment capacity exceeding 10 tons per day;
–    Installations for the surface treatment of substances, objects or products using organic solvents, in particular for dressing, printing, coating, degreasing, waterproofing, sizing, painting, cleaning or impregnating, with a consumption capacity of more than 150 kg per hour or more than 200 tons per year;
–    Installations for the production of carbon (hard burnt coal) or electrographite by means of incineration or graphitization.
20.     Any activity not covered by paragraphs 1 19 above where public participation is provided for under an environmental impact assessment procedure in accordance with national legislation.
21.     The provision of article 6, paragraph 1 (a) of this Convention, does not apply to any of the above projects undertaken exclusively or mainly for research, development and testing of new methods or products for less than two years unless they would be likely to cause a significant adverse effect on environment or health.
22.     Any change to or extension of activities, where such a change or extension in itself meets the criteria/thresholds set out in this annex, shall be subject to article 6, paragraph 1 (a) of this Convention. Any other change or extension of activities shall be subject to article 6, paragraph 1 (b) of this Convention.

Notes
1    Nuclear power stations and other nuclear reactors cease to be such an installation when all nuclear fuel and other radioactively contaminated elements have been removed permanently from the installation site.
2    For the purposes of this Convention, “airport” means an airport which complies with the definition in the 1944 Chicago Convention setting up the International Civil Aviation Organization (Annex 14).
3    For the purposes of this Convention, “express road” means a road which complies with the definition in the European Agreement on Main International Traffic Arteries of 15 November 1975.


Annex II
ARBITRATION

1.     In the event of a dispute being submitted for arbitration pursuant to article 16, paragraph 2, of this Convention, a party or parties shall notify the secretariat of the subject matter of arbitration and indicate, in particular, the articles of this Convention whose interpretation or application is at issue. The secretariat shall forward the information received to all Parties to this Convention.
2.     The arbitral tribunal shall consist of three members. Both the claimant party or parties and the other party or parties to the dispute shall appoint an arbitrator, and the two arbitrators so appointed shall designate by common agreement the third arbitrator, who shall be the president of the arbitral tribunal. The latter shall not be a national of one of the parties to the dispute, nor have his or her usual place of residence in the territory of one of these parties, nor be employed by any of them, nor have dealt with the case in any other capacity.
3.     If the president of the arbitral tribunal has not been designated within two months of the appointment of the second arbitrator, the Executive Secretary of the Economic Commission for Europe shall, at the request of either party to the dispute, designate the president within a further two month period.
4.     If one of the parties to the dispute does not appoint an arbitrator within two months of the receipt of the request, the other party may so inform the Executive Secretary of the Economic Commission for Europe, who shall designate the president of the arbitral tribunal within a further two month period. Upon designation, the president of the arbitral tribunal shall request the party which has not appointed an arbitrator to do so within two months. If it fails to do so within that period, the president shall so inform the Executive Secretary of the Economic Commission for Europe, who shall make this appointment within a further two month period.
5.     The arbitral tribunal shall render its decision in accordance with international law and the provisions of this Convention.
6.     Any arbitral tribunal constituted under the provisions set out in this annex shall draw up its own rules of procedure.
7.     The decisions of the arbitral tribunal, both on procedure and on substance, shall be taken by majority vote of its members.
8.     The tribunal may take all appropriate measures to establish the facts.
9.     The parties to the dispute shall facilitate the work of the arbitral tribunal and, in particular, using all means at their disposal, shall:
(a)    Provide it with all relevant documents, facilities and information;
(b)    Enable it, where necessary, to call witnesses or experts and receive their evidence.

10.     The parties and the arbitrators shall protect the confidentiality of any information that they receive in confidence during the proceedings of the arbitral tribunal.
11.     The arbitral tribunal may, at the request of one of the parties, recommend interim measures of protection.
12.     If one of the parties to the dispute does not appear before the arbitral tribunal or fails to defend its case, the other party may request the tribunal to continue the proceedings and to render its final decision. Absence of a party or failure of a party to defend its case shall not constitute a bar to the proceedings.
13.     The arbitral tribunal may hear and determine counter claims arising directly out of the subject matter of the dispute.
14.     Unless the arbitral tribunal determines otherwise because of the particular circumstances of the case, the expenses of the tribunal, including the remuneration of its members, shall be borne by the parties to the dispute in equal shares. The tribunal shall keep a record of all its expenses, and shall furnish a final statement thereof to the parties.
15.     Any Party to this Convention which has an interest of a legal nature in the subject matter of the dispute, and which may be affected by a decision in the case, may intervene in the proceedings with the consent of the tribunal.
16.     The arbitral tribunal shall render its award within five months of the date on which it is established, unless it finds it necessary to extend the time limit for a period which should not exceed five months.
17.     The award of the arbitral tribunal shall be accompanied by a statement of reasons. It shall be final and binding upon all parties to the dispute. The award will be transmitted by the arbitral tribunal to the parties to the dispute and to the secretariat. The secretariat will forward the information received to all Parties to this Convention.
18.     Any dispute which may arise between the parties concerning the interpretation or execution of the award may be submitted by either party to the arbitral tribunal which made the award or, if the latter cannot be seized thereof, to another tribunal constituted for this purpose in the same manner as the first.