Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 685. máls.
Þskj. 1202  —  685. mál.




Tillaga til þingsályktunar

um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka
Evrópu og Úkraínu og landbúnaðarsamnings
milli Íslands og Úkraínu.

(Lögð fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd annars vegar fríverslunarsamning milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Úkraínu sem undirritaður var 24. júní 2010 í Reykjavík og hins vegar landbúnaðarsamning milli Íslands og Úkraínu sem undirritaður var sama dag.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á fríverslunarsamningi milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og Úkraínu sem undirritaður var 24. júní 2010 í Reykjavík. Jafnframt er leitað heimildar til fullgildingar á landbúnaðarsamningi milli Íslands og Úkraínu sem undirritaður var sama dag. Meginmál fríverslunarsamningsins er prentað sem fylgiskjal I með tillögu þessari og meginmál landbúnaðarsamningsins sem fylgiskjal II. Viðaukar og bókanir sem fylgja fríverslunarsamningnum og viðaukar við landbúnaðarsamninginn munu liggja frammi í lestrarsal Alþingis.
    EFTA-ríkin, Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss, hafa gert 22 fríverslunarsamninga við ríki eða ríkjahópa, að samningnum við Úkraínu meðtöldum. Í tengslum við þessa samninga hafa verið gerðir sérstakir tvíhliða samningar á milli einstakra EFTA-ríkja og hvers ríkis eða ríkjahóps fyrir sig um viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur.
    Fríverslunarsamningurinn er af svokallaðri annarri kynslóð fríverslunarsamninga og inniheldur, auk ákvæða um vöruviðskipti, ákvæði um þjónustuviðskipti, fjárfestingar, hugverkaréttindi, samkeppnismál, opinber innkaup, stofnanaákvæði og ákvæði um lausn ágreiningsmála. Samningaviðræður hófust í apríl 2009 og þeim lauk í júní 2010.
    Fríverslunarsamningurinn við Úkraínu kveður á um lækkun eða niðurfellingu tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar landbúnaðarvörur. Þannig munu tollar á sjávarafurðir og allar helstu iðnaðarvörur frá Íslandi falla niður frá gildistöku samningsins eða að loknu 5–10 ára aðlögunartímabili. Sjávarafurðir eru um þessar mundir langmikilvægasta útflutningsvara Íslands til Úkraínu.
    Landbúnaðarsamningurinn milli Íslands og Úkraínu er viðbótarsamningur og gerður með vísan til fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna og Úkraínu. Landbúnaðarsamningurinn myndar hluta fríverslunarsvæðisins, ásamt slíkum samningum annars vegar milli Noregs og Úkraínu og hins vegar milli Sviss og Úkraínu, auk fríverslunarsamningsins. Viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur falla undir landbúnaðarsamninginn og kveður hann á um að tollar á tilteknar landbúnaðarvörur verði lækkaðir eða felldir niður. Úkraína mun m.a. fella niður tolla á lifandi hross en tollar á íslenskt lambakjöt munu falla niður að loknum fimm ára aðlögunartíma. Ísland mun m.a. fella niður tolla á ýmsar matjurtir, kakó og ávaxtasafa. Landbúnaðarsamningurinn öðlast gildi á sama degi og fríverslunarsamningurinn.

Fylgiskjal I.


FRÍVERSLUNARSAMNINGUR
MILLI
EFTA-RÍKJANNA
OG
ÚKRAÍNU


FORMÁLSORÐ


Ísland, Furstadæmið Liechtenstein, Konungsríkið Noregur og Ríkjasambandið Sviss (hér á eftir nefnd EFTA-ríkin) annars vegar


og Úkraína hins vegar,

hér á eftir verður hvert einstakt ríki nefnt „samningsaðili“ og öll ríkin í heild „samningsaðilar“:

SEM VIÐURKENNA gagnkvæman vilja til þess að efla tengsl milli EFTA-ríkjanna annars vegar og Úkraínu hins vegar, með því að stofna til náinna og varanlegra samskipta,

SEM VÍSA TIL þess ásetnings síns að stuðla á virkan hátt að efnahagslegum samruna og lýsa sig tilbúin til að leita sameiginlegra leiða og aðferða til að styrkja þá þróun,

SEM ÁRÉTTA skuldbindingu sína um að virða lýðræði, mannréttindi og mannfrelsi, einnig stjórnmálafrelsi og efnahagsfrelsi í samræmi við skyldur sínar samkvæmt þjóðarétti, þ.m.t. meginreglur sem settar eru fram í sáttmála Sameinuðu þjóðanna og almennu mannréttindayfirlýsingunni,

SEM ÁRÉTTA skuldbindingar sínar um hagþróun og félagslega þróun, um að standa vörð um heilbrigðis- og öryggismál og virðingu fyrir grundvallarréttindum launafólks og þeim meginreglum sem eru settar fram í samningum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar,

SEM HAFA AÐ MARKMIÐI að skapa ný atvinnutækifæri og bæta heilbrigðisskilyrði og lífskjör á yfirráðasvæðum sínum,

SEM VILJA skapa hagstæð skilyrði fyrir þróun og fjölbreytni í viðskiptum sín á milli og fyrir aukna samvinnu, bæði viðskiptalega og efnahagslega, á sviðum þar sem samningsaðilar eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta, á grundvelli jafnréttis, gagnkvæms ávinnings, jafnræðis og þjóðaréttar,

SEM VIÐURKENNA mikilvægi þess að greiða fyrir viðskiptum, með því að stuðla að virkum og gagnsæjum aðferðum við að draga úr kostnaði og tryggja áreiðanleika að því er varðar viðskiptasvæði samningsaðilanna,

SEM ERU STAÐRÁÐIN í að stuðla að og efla enn frekar marghliða viðskiptakerfi, á grundvelli réttinda og skuldbindinga hvers og eins, í samræmi við Marakess-samninginn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og aðra samninga sem gerðir hafa verið á vettvangi hennar, og stuðla þar með að samstilltri þróun og eflingu alþjóðaviðskipta,


SEM ERU STAÐRÁÐIN Í að beita ákvæðum þessa samnings með það að markmiði að varðveita og vernda umhverfið og tryggja hagkvæmustu nýtingu náttúruauðlinda í samræmi við meginregluna um sjálfbæra þróun,

SEM STAÐFESTA skuldbindingu sína að standa vörð um réttarríkið, að koma í veg fyrir og berjast gegn spillingu í alþjóðaviðskiptum og fjárfestingum og að efla meginreglur um gagnsæi og góða stjórnunarhætti,

SEM HAFA Í HUGA vægi ábyrgrar háttsemi í fyrirtækjum og gildi hennar fyrir sjálfbæra hagþróun og staðfesta stuðning sinn við að vinna að framgangi viðeigandi alþjóðlegra staðla,


SEM ERU SANNFÆRÐ UM að þessi samningur muni auka samkeppnishæfni fyrirtækja þeirra á heimsmarkaði og skapa skilyrði sem örva efnahagsleg samskipti, viðskiptatengsl og fjárfestingar milli þeirra,

HAFA ÁKVEÐIÐ, í samræmi við markmið þessi, að gera með sér svohljóðandi samning (sem nefnist hér á eftir „þessi samningur“):

1. KAFLI
ALMENN ÁKVÆÐI

Grein 1.1.
Markmið.

1.     Samningsaðilar stofna hér með fríverslunarsvæði með þessum samningi og viðbótarsamningum um viðskipti með landbúnaðarafurðir sem gerðir eru jafnhliða milli Úkraínu og hvers EFTA-ríkis um sig.
2.     Markmiðin með þessum samningi, sem er byggður á viðskiptatengslum milli markaðshagkerfa, eru:
a)    að ná fram frelsi í vöruviðskiptum í samræmi við XXIV. gr. hins almenna samnings um tolla og viðskipti frá 1994 (hér á eftir nefndur „GATT- samningurinn frá 1994“),
b)    að ná fram frelsi í þjónustuviðskiptum í samræmi við V. gr. hins almenna samnings um þjónustuviðskipti (hér á eftir nefndur „GATS-samningurinn“),
c)    að fjölga verulega tækifærum til fjárfestinga á fríverslunarsvæðinu,
d)    að ná fram frekara frelsi með gagnkvæmum hætti á mörkuðum samningsaðilanna fyrir opinber innkaup,
e)    að stuðla að aukinni samkeppni í atvinnulífi samningsaðilanna, einkum að því er varðar efnahagstengsl milli þeirra,
f)    að tryggja fullnægjandi og áhrifaríka vernd hugverkaréttinda og
g)    að stuðla þannig, með afnámi viðskiptahindrana, að samstilltri þróun og auknum alþjóðaviðskiptum.

Grein 1.2.
Viðskiptatengsl sem falla undir þennan samning.

1.     Samningur þessi gildir um viðskiptatengsl milli einstakra EFTA-ríkja annars vegar og Úkraínu hins vegar, en ekki um viðskiptatengsl milli einstakra EFTA-ríkja nema kveðið sé á um annað í þessum samningi.
2.     Af tollabandalaginu, sem stofnað var með samningi frá 29. mars 1923 milli Sviss og Furstadæmisins Liechtensteins, leiðir að Sviss er fulltrúi Furstadæmisins Liechtensteins í málefnum sem falla undir gildissvið þess samnings.

Grein 1.3.
Tengsl við aðra alþjóðasamninga.

1.     Samningsaðilar staðfesta réttindi sín og skyldur samkvæmt Marakess-samningnum um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og öðrum samningum á grundvelli hans og samkvæmt öðrum alþjóðasamningum sem þeir eiga aðild að.
2.     Samningur þessi skal ekki koma í veg fyrir að tollabandalögum, fríverslunarsvæðum, samningum um landamæraviðskipti og öðrum fríðindasamningum verði haldið við eða til þeirra stofnað, enda hafi þeir ekki áhrif til breytinga á því viðskiptafyrirkomulagi sem kveðið er á um í samningi þessum.
3.     Þegar samningsaðili gerist aðili að tollabandalagi eða fríverslunarsamningi við þriðja aðila skal hann, að fram kominni beiðni hvaða annars samningsaðila sem er, reiðubúinn að efna til samráðs við þann samningsaðila sem fer fram á það.

Grein 1.4.
Svæðisbundið gildissvið.

1.     Samningur þessi gildir um eftirfarandi, með fyrirvara um bókunina um upprunareglur:
a)    landsvæði, innhöf og landhelgi samningsaðila og loftrými yfir landsvæði samningsaðila, í samræmi við reglur þjóðaréttar, svo og

b)    svæði utan landhelgi með tilliti til ráðstafana sem samningsaðili gerir í krafti fullveldisréttinda eða lögsögu sinnar í samræmi við reglur þjóðaréttar.

2.     Samningur þessi gildir ekki um Svalbarðasvæðið, nema að því er varðar vöruviðskipti.


Grein 1.5.
Ríkisstjórn, svæðisbundin og staðbundin stjórnvöld.

    Hver samningsaðili skal sjá til þess að ríkisstjórn hans, svæðisbundin og staðbundin stjórnvöld og yfirvöld, svo og óopinberar stofnanir, sem fara með opinbert vald sem ríkisstjórn, svæðisbundin og staðbundin stjórnvöld eða yfirvöld fela þeim, uppfylli, á yfirráðasvæði hans, allar skyldur og skuldbindingar samkvæmt samningi þessum.

Grein 1.6.
Gagnsæi.

1.     Aðilar skulu birta lög sín og reglugerðir, dómsniðurstöður og stjórnsýsluákvarðanir sem hafa almennt gildi, eða veita almenningi aðgang að þeim með öðrum hætti, svo og alþjóðasamninga sem hver og einn þeirra á aðild að og geta haft áhrif á framkvæmd þessa samnings.
2.     Samningsaðilarnir skulu svara sértækum spurningum án tafar og veita hver öðrum upplýsingar um málefni, er um getur í 1. mgr., að fram kominni beiðni þar um. Þeim ber ekki að láta trúnaðarupplýsingar í té.

2. KAFLI
VÖRUVIÐSKIPTI

Grein 2.1.
Gildissvið.

1.     Þessi kafli gildir um eftirfarandi vörur sem samningsaðilar versla með sín á milli:
a)    allar framleiðsluvörur, sem heyra undir 25. til 97. kafla í samræmdu vörulýsingar- og vöruheitaskránni (samræmdu tollskránni, ST), að undanskildum þeim vörum sem skráðar eru í I. viðauka,
b)    unnar landbúnaðarafurðir, sem tilgreindar eru í II. viðauka, að teknu tilhlýðilegu tilliti til þess fyrirkomulags er um getur í þeim viðauka og
c)    fisk og aðrar sjávarafurðir eins og kveðið er á um í III. viðauka.
2.     Úkraína og sérhvert EFTA-ríki hafa gert tvíhliða samninga um viðskipti með landbúnaðarafurðir. Þeir samningar eru hluti af gerningunum um stofnun fríverslunarsvæðis EFTA-ríkjanna og Úkraínu.


Grein 2.2.
Upprunareglur og fyrirkomulag samvinnu stjórnvalda.

    Í bókuninni um upprunareglur er mælt fyrir um upprunareglur og fyrirkomulag samvinnu stjórnvalda.

Grein 2.3.
Innflutningstollar.

1.     Við gildistöku þessa samnings skulu samningsaðilar fella niður alla tolla á vörum sem eru upprunnar í EFTA-ríki eða Úkraínu og sem 1. mgr. greinar 2.1 á við um, nema kveðið sé á um annað í IV. viðauka. Óheimilt er að leggja nýja tolla á innfluttar vörur.
2.     Til tolla teljast hvers konar tollar eða gjöld, sem eru lögð á í tengslum við inn- eða útflutning vöru, einnig hvers konar aukaskattar eða aukagjöld í tengslum við slíkan inn- eða útflutning, að frátöldum gjöldum sem eru lögð á skv. III. og VIII. gr. GATT- samningsins frá 1994.


Grein 2.4.
Útflutningstollar.

1.     Samningsaðilar skulu, jafnhliða gildistöku þessa samnings, fella niður tolla á útfluttar vörur, sem falla undir gildissvið 1. mgr. greinar 2.1, til annarra samningsaðila, að undanskildu því sem kveðið er á um í 2. mgr. þessarar greinar. Óheimilt er að leggja nýja tolla á vörur sem eru fluttar út frá tollsvæði eins samningsaðila inn á tollsvæði annars.

2.     Tolla á útfluttar vörur til EFTA-ríkjanna, sem eru upprunnar í Úkraínu, skal lækka í áföngum í samræmi við skuldbindingar Úkraínu á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
3.     Ef Úkraína lækkar eða fellir niður, eftir að þessi samningur öðlast gildi, tolla á útflutning til Evrópusambandsins skal Úkraína veita EFTA-ríkjunum eigi lakari kjör.
4.     Til útflutningstolla teljast hvers konar tollar eða gjöld, sem eru lögð á í tengslum við útflutning vöru, einnig hvers konar aukaskattar eða aukagjöld í tengslum við slíkan útflutning, að frátöldum gjöldum sem eru lögð á skv. VIII. gr. GATT-samningsins frá 1994.

Grein 2.5.
Grunntollar.

1.     Sá grunntollur sem á að fara stiglækkandi samkvæmt þessum samningi skal lagður á innfluttar vörur milli samningsaðilanna og skal samsvara þeim bestukjaratolli (hér á eftir nefndur „bestukjaratollurinn“) sem var lagður á 1. janúar 2009.
2.     Komi almennar tollalækkanir til framkvæmda fyrir, við eða eftir gildistöku þessa samnings, skulu lækkuðu tollarnir koma í stað grunntolla, sem um getur í 1. mgr., frá og með þeim degi þegar lækkanirnar koma til framkvæmda eða frá og með gildistöku þessa samnings, verði hún síðar.

3.     Lækkaðir tollar, sem eru reiknaðir út skv. 1. mgr. þessarar greinar, skulu álagðir með einum aukastaf eða, þegar um ræðir sérstaka tolla, tveimur aukastöfum.

Grein 2.6.
Takmarkanir á inn- og útflutningi.

    XI. gr. GATT-samningsins frá 1994 gildir um réttindi og skyldur samningsaðilanna að því er varðar takmarkanir á inn- og útflutningi og er hún hér með felld inn í þennan samning og er hluti af honum.


Grein 2.7.
Innlendir skattar og reglur.

1.     Samningsaðilar skulu leggja á innlenda skatta og önnur gjöld og beita innlendum fjármálareglum í samræmi við III. gr. GATT-samningsins frá 1994 og aðra viðeigandi samninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
2.     Útflytjendur skulu ekki njóta hærri endurgreiðslu á innlendum sköttum en nemur óbeinum sköttum á framleiðsluvörur sem eru fluttar út til yfirráðasvæðis eins af samningsaðilunum.

Grein 2.8.
Ráðstafanir á sviði hollustuhátta og heilbrigðis dýra og plantna.

1.     Farið skal með réttindi og skyldur samningsaðilanna að því er varðar ráðstafanir á sviði hollustuhátta og heilbrigðis dýra og plantna í samræmi við samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna.
2.     Samningsaðilarnir skulu skiptast á nöfnum og heimilisföngum tengiliða með sérþekkingu á hollustuháttum og heilbrigði dýra og plantna í því skyni að auðvelda samskipti og upplýsingaskipti.

Grein 2.9.
Tæknilegar reglur.

1.     Farið skal með réttindi og skyldur samningsaðilanna, að því er varðar tæknilegar reglur, staðla og samræmismat, í samræmi við samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um tæknilegar viðskiptahindranir (sem nefnist hér á eftir „samningurinn um tæknilegar viðskiptahindranir“ (TBT)).
2.     Samningsaðilar eru því samþykkir, samanber þó ákvæði 1. mgr., að eiga samráð sín á milli, telji samningsaðili annan samningsaðila hafa gert ráðstafanir sem samræmast ekki samningnum um tæknilegar viðskiptahindranir og líklegt má telja að hindri eða hafi hindrað viðskipti, til þess að finna rétta lausn í samræmi við ákvæði samningsins um tæknilegar viðskiptahindranir.

Grein 2.10.
Greitt fyrir viðskiptum.

    Til að greiða fyrir viðskiptum milli EFTA-ríkjanna og Úkraínu skulu samningsaðilar:
a)    einfalda reglur um vöruviðskipti og tengda þjónustustarfsemi eftir því sem frekast er unnt,
b)    stuðla að samstarfi sín á milli á marghliða vettvangi í því skyni að auka þátttöku sína í gerð og framkvæmd alþjóðasamninga og alþjóðlegra tilmæla um að greiða fyrir viðskiptum og

c)    vinna saman að því að greiða fyrir viðskiptum á vettvangi sameiginlegu nefndarinnar,
í samræmi við ákvæði V. viðauka.


Grein 2.11.
Undirnefnd um upprunareglur, tollmeðferð og greiðari viðskipti.

1.     Með vísun til greina 2.2 og 2.10 er hér með stofnuð undirnefnd sameiginlegu nefndarinnar um upprunareglur, tollmeðferð og greiðari viðskipti (hér á eftir nefnd „undirnefndin“).

2.     Í VI. viðauka er gerð grein fyrir umboði undirnefndarinnar.

Grein 2.12.
Ríkisrekin viðskiptafyrirtæki.

    Farið skal með réttindi og skyldur samningsaðilanna, að því er varðar ríkisrekin viðskiptafyrirtæki, í samræmi við ákvæði XVII. gr. GATT-samningsins frá 1994 og samkomulag um túlkun XVII. gr. GATT-samningsins frá 1994, sem eru hér með felld inn í þennan samning og eru hluti af honum.

Grein 2.13.
Styrkir og jöfnunarráðstafanir.

1.     Farið skal með réttindi og skyldur samningsaðilanna varðandi styrki og jöfnunarráðstafanir í samræmi við VI. og XVI. gr. GATT-samningsins frá 1994 og samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um styrki og jöfnunarráðstafanir, nema kveðið sé á um annað í 2. mgr.
2.     Áður en EFTA-ríki eða Úkraína, eftir atvikum, hefur rannsókn í því skyni að ákvarða hvort og að hve miklu leyti styrkir séu veittir í Úkraínu eða EFTA-ríki og áhrif þess, eins og kveðið er á um í 11. gr. samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um styrki og jöfnunarráðstafanir, skal samningsaðili, sem hyggst hefja rannsókn, senda þeim samningsaðila sem vörurnar, sem rannsókn mun beinast að, tilheyra skriflega tilkynningu þar um og veita 60 daga frest til að leita lausnar sem hlutaðeigandi samningsaðilar geta báðir sætt sig við. Efna skal til samráðs í sameiginlegu nefndinni, ef einhver samningsaðila fer fram á það, innan 30 daga frá því að tilkynningunni var veitt viðtaka.

Grein 2.14.
Undirboð.

1.     Samningsaðili skal ekki beita undirboðum, eins og kveðið er á um VI. gr. GATT-samningsins frá 1994 og í samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um framkvæmd VI. gr. GATT-samningsins frá 1994, í tengslum við framleiðsluvörur sem eru upprunnar hjá öðrum samningsaðila.
2.     Að fimm árum liðnum frá því að samningur þessi öðlast gildi geta samningsaðilarnir tekið til endurskoðunar, innan sameiginlegu nefndarinnar, hvernig tekist hefur að beita ákvæðum 1. mgr. Eftir það geta samningsaðilarnir endurskoðað þau mál, innan sameiginlegu nefndarinnar, á tveggja ára fresti.

Grein 2.15.
Víðtækar verndarráðstafanir.

    Samningur þessi færir hvorki samningsaðilum nein viðbótarréttindi né skuldbindur þá aukreitis að því er varðar aðgerðir sem er gripið til samkvæmt XIX. gr. GATT-samningsins frá 1994 og ákvæðum samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um verndarráðstafanir, að öðru leyti en því að samningsaðili, sem gerir verndarráðstöfun skv. XIX. gr. GATT- samningsins frá 1994 og ákvæðum samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um verndarráðstafanir, skal, eftir því sem fer saman við skuldbindingar samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um verndarráðstafanir, undanskilja innflutning upprunavara frá öðrum samningsaðila, ef slíkur innflutningur er ekki grunnorsök mikils skaða eða hættu á slíkum skaða.

Grein 2.16.
Tvíhliða verndarráðstafanir.

1.     Ef framleiðsluvara, sem er upprunnin hjá samningsaðila, er flutt inn á yfirráðasvæði annars samningsaðila, í framhaldi af því að tollar hafa verið lækkaðir eða afnumdir samkvæmt þessum samningi, í svo auknum mæli, annaðhvort sem hrein aukning eða sem hlutfall af innlendri framleiðslu, og við slík skilyrði að valdi eða gæti valdið alvarlegum skaða fyrir innlenda framleiðendur sambærilegra vara eða samkeppnisvara á yfirráðasvæði samningsaðilans, sem er innflytjandi, er honum heimilt að grípa til neyðarráðstafana, í eins litlum mæli og unnt er að komast af með, til að ráða bót á skaðanum eða koma í veg fyrir hann með fyrirvara um ákvæði 2. til 10. mgr.
2.     Því aðeins má gera tvíhliða verndarráðstafanir að óyggjandi sönnun sé fyrir því að aukinn innflutningur hafi valdið alvarlegum skaða eða að hætta sé á því samkvæmt rannsókn sem er gerð í samræmi við þá málsmeðferð sem mælt er fyrir um í 3. og 4. gr. samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um verndarráðstafanir.
3.     Samningsaðili, sem hyggst grípa til tvíhliða verndarráðstafana samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, skal, þegar í stað og ætíð áður en gripið er til ráðstöfunar, tilkynna hinum samningsaðilunum þar um. Í tilkynningunni skulu koma fram allar viðeigandi upplýsingar, þar á meðal sönnunargögn um alvarlegan skaða eða hættu á slíku af völdum aukins innflutnings, nákvæm lýsing á þeirri vöru sem um ræðir, upplýsingar um fyrirhugaða ráðstöfun og frá hvaða degi og hversu lengi ráðstöfunin gildir og á hve löngum tíma hún verður afnumin í áföngum. Bjóða skal samningsaðila, sem tvíhliða verndarráðstafanir gætu haft áhrif á, bætur í formi jafngilds viðskiptafrelsis í reynd með tilliti til innflutnings frá honum.
4.     Sé skilyrðum þeim sem sett eru fram í 1. mgr. fullnægt getur samningsaðilinn, sem er innflytjandi, gert ráðstafanir sem felast í:
a)    að fresta frekari lækkun allra tolla, sem kveðið er á um í samningi þessum, á þeirri vöru sem um ræðir eða
b)    að hækka toll á vörunni að marki sem er ekki hærra en sá tollur sem lægri er af tvennu eftirfarandi:
    i.    bestukjaratollinum sem í gildi var þegar gripið var til aðgerðarinnar eða
    ii.    bestukjaratollinum sem í gildi var daginn fyrir gildistökudag þessa samnings.

5.     Tvíhliða verndarráðstafanir skulu ekki vara lengur en tvö ár. Við mjög óvenjulegar aðstæður og að lokinni athugun sameiginlegu nefndarinnar er heimilt að gera ráðstafanir til þriggja ára að hámarki. Ekki skal gera tvíhliða verndarráðstöfun vegna innflutnings vöru, hafi slík ráðstöfun áður verið gerð vegna hennar.
6.     Sameiginlega nefndin skal, innan 30 daga frá dagsetningu tilkynningarinnar, rannsaka þær upplýsingar sem eru veittar samkvæmt 3. mgr. í þeim tilgangi að greiða fyrir lausn málsins þannig að báðir aðilar geti vel við unað. Ef engin lausn finnst er samningsaðilanum, sem er innflytjandi, heimilt að samþykkja viðeigandi ráðstafanir skv. 4. mgr. til að ráða bót á vandanum og samningsaðilanum, þaðan sem varan, sem ráðstöfunin beinist gegn, kemur, er heimilt að grípa til jöfnunaraðgerða ef ekki næst gagnkvæmt samkomulag um jöfnunargreiðslur. Tilkynna skal hinum samningsaðilunum þegar í stað um þá tvíhliða verndarráðstöfun og jöfnunaraðgerð sem gripið er til. Við val á verndarráðstöfun og jöfnunaraðgerð skal líta fyrst til ráðstöfunar eða aðgerðar sem raskar sem minnst framkvæmd þessa samnings. Jöfnunaraðgerðin skal að öllu jöfnu felast í frestun ívilnana, sem hafa í reynd jafngild áhrif á viðskipti, eða ívilnana sem í reynd jafngilda þeim viðbótartollum sem búast má við að leiði af hinni tvíhliða verndarráðstöfun. Jöfnunaraðgerð samningsaðila skal aðeins standa yfir eins lengi og nauðsynlegt er til að ná fram í reynd jafngildum áhrifum á viðskipti og aldrei lengur en tvíhliða verndarráðstöfun skv. 4. mgr varir.

7.     Þegar tvíhliða verndarráðstöfun lýkur skal leggja þann toll á sem hefði verið gert hefði ekki verið gripið til ráðstöfunarinnar.

8.     Ef aðstæður eru tvísýnar og töf á því að innleiða tvíhliða verndarráðstöfun í samræmi við ákvæði þessarar greinar myndi valda skaða sem erfitt yrði að bæta, er samningsaðila heimilt að grípa til tvíhliða verndarráðstafana til bráðabirgða ef ljóst er, samkvæmt bráðabirgðamati, að óyggjandi sönnun sé fyrir því að aukinn innflutningur hafi skaðað innlendan iðnað verulega eða að hætta sé á því. Samningsaðili, sem hyggst grípa til fyrrnefndra ráðstafana, skal þegar í stað tilkynna hinum samningsaðilunum þar um. Hefja skal viðeigandi málsmeðferð, sem getið er í 2. til 6. mgr., einnig vegna jöfnunaraðgerða, innan 30 daga frá dagsetningu tilkynningar. Jöfnunaraðgerðir miðast við allan gildistíma tvíhliða verndarráðstöfunar til bráðabirgða og gildistíma tvíhliða verndarráðstöfunar.
9.     Öllum tvíhliða verndarráðstöfunum til bráðabirgða skal lokið eigi síðar en eftir 200 daga. Gildistími slíkrar tvíhliða verndarráðstöfunar til bráðabirgða skal teljast hluti af þeim tíma sem hin tvíhliða verndarráðstöfun, sem getið er í 5. mgr., varir og framlenging hennar ef við á. Endurgreiða skal tollahækkanir þegar í stað ef rannsóknin, sem er lýst í 2. mgr., leiðir ekki í ljós að skilyrðum 1. mgr. hafi verið fullnægt.

10.     Að fimm árum liðnum frá því að samningur þessi öðlast gildi skulu samningsaðilarnir taka til endurskoðunar, innan sameiginlegu nefndarinnar, hvort þörf sé á því að viðhalda þeim kosti að grípa til tvíhliða verndarráðstafana þeirra á milli. Ef samningsaðilarnir ákveða, að lokinni fyrstu endurskoðun, að viðhalda slíkum kosti skal endurskoðun fara fram í sameiginlegu nefndinni annað hvert ár eftir það.

Grein 2.17.
Almennar undantekningar.

    Ákvæði XX. gr. GATT-samningsins frá 1994 gilda um réttindi og skyldur samningsaðilanna að því er varðar almennar undantekningar og eru þau hér með felld inn í samning þennan sem hluti af honum.

Grein 2.18.
Undantekningar af öryggisástæðum.

    Ákvæði XXI. gr. GATT-samningsins frá 1994 gilda um réttindi og skyldur samningsaðilanna að því er varðar undantekningar öryggis vegna og er hún hér með felld inn í samning þennan sem hluti af honum.

Grein 2.19.
Greiðslujöfnuður.

1.     Samningsaðilar skulu reyna að komast hjá því að setja á takmarkanir vegna greiðslujafnaðar.

2.     Eigi samningsaðili í alvarlegum erfiðleikum með greiðslujöfnuð, eða yfirvofandi hætta er á því, er honum heimilt að gera takmarkandi ráðstafanir í viðskiptum, samkvæmt þeim skilyrðum sem eru sett í GATT-samningnum frá 1994 og samkomulagi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um greiðslujöfnuðarákvæði GATT-samningsins frá 1994, sem skulu vara í takmarkaðan tíma og vera án mismununar og ekki hafa víðtækari áhrif en þörf er á til að ráða bót á erfiðleikum vegna greiðslujafnaðar.
3.     Samningsaðili, sem innleiðir ráðstafanir samkvæmt þessari grein, skal þegar í stað tilkynna hinum samningsaðilunum um það.

3. KAFLI
ÞJÓNUSTUVIÐSKIPTI

Grein 3.1.
Gildissvið.

1.     Þessi kafli gildir um ráðstafanir samningsaðila sem hafa áhrif á þjónustuviðskipti. Hann gildir um allar þjónustugreinar.
2.     Að því er varðar flutningaþjónustu í lofti gildir þessi kafli ekki um ráðstafanir sem hafa áhrif á flugumferðarréttindi eða ráðstafanir sem hafa áhrif á þjónustu sem tengist beint nýtingu flugumferðarréttinda, að undanskildu því sem kveðið er á um í 3. mgr. GATS-viðaukans um flutningaþjónustu í lofti. Skilgreiningar í 6. mgr. viðaukans við GATS-samninginn um flutningaþjónustu í lofti eru hér með felldar inn í þennan kafla og eru hluti af honum.
3.     Ákvæði greina 3.4, 3.5 og 3.6 eiga ekki við um lög, reglur eða kröfur sem gilda um innkaup opinberra stofnana á þjónustu til handa hinu opinbera og ekki með endursölu eða veitingu þjónustu í hagnaðarskyni í huga.


GREIN 3.2.
Upptaka ákvæða úr GATS-samningnum.

    Þegar kveðið er á um það í þessum kafla að ákvæði úr GATS-samningnum skuli fellt inn í þennan kafla og vera hluti af honum skal merking hugtaka í ákvæði GATS-samningsins vera sem hér segir:

a)    „Aðili“ merkir samningsaðila,
b)    „skrá“ merkir skrá sem um getur í grein 3.17 og er að finna í VII. viðauka og
c)    „sérstök skuldbinding“ merkir sérstaka skuldbindingu í skrá sem um getur í grein 3.17.


Grein 3.3.
Skilgreiningar.

    Í þessum kafla:
a)    eru eftirfarandi skilgreiningar í I. gr. GATS- samningsins felldar inn í þennan samning og eru hluti af honum:
    i.    „þjónustuviðskipti“,
    ii.    „þjónusta“ og
    iii.    „þjónusta sem opinber yfirvöld veita“,

b)    merkir hugtakið „ráðstafanir samningsaðila“ þær ráðstafanir sem samningsaðilar gera og eru skilgreindar í i. og ii. undirlið a-liðar 3. mgr. I. gr. GATS-samningsins,
c)    merkir hugtakið „þjónustuveitandi“ hvern þann aðila sem veitir eða leitar eftir því að veita þjónustu, 1
d)    merkir hugtakið „einstaklingur frá öðrum samningsaðila“ einstakling sem, samkvæmt lögum þess samningsaðila,:
    i.    hefur ríkisfang hjá fyrrnefndum öðrum samningsaðila og býr á yfirráðasvæði einhvers aðila að Alþjóðaviðskiptastofnuninni eða
    ii.    hefur fasta búsetu hjá fyrrnefndum öðrum samningsaðila og býr á yfirráðasvæði einhvers samningsaðila, ef fyrrnefndur annar samningsaðili veitir þeim sem hafa fasta búsetu hjá honum í meginatriðum sömu meðferð og sínum eigin ríkisborgurum, að því er varðar ráðstafanir sem snerta þjónustuviðskipti. Að því er varðar þjónustuveitingu gegnum nærveru einstaklings (Aðferð 4), nær þessi skilgreining til þeirra sem hafa fasta búsetu hjá fyrrnefndum öðrum samningsaðila og búa á yfirráðasvæði einhvers samningsaðila eða yfirráðasvæði einhvers aðila að Alþjóðaviðskiptastofnuninni,
e)    merkir hugtakið „lögaðili hjá öðrum samningsaðila“ lögaðila sem er annaðhvort:
    i.    stofnaður eða skipulagður með öðrum hætti samkvæmt lögum fyrrnefnds annars samningsaðila og stundar umtalsverða viðskiptaþjónustu á yfirráðasvæði:
         aa)    hvaða samningsaðila sem er eða
         bb)    einhvers aðila að Alþjóðaviðskiptastofnuninni og er í eigu eða lýtur stjórn einstaklinga hjá fyrrnefndum öðrum samningsaðila eða lögaðila sem uppfylla öll skilyrði undirliðar aa í i. lið,
         eða
    ii.    ef um ræðir þjónustu sem er veitt um viðskiptanærveru þar sem eigandi eða stjórnandi eru:
         aa)    einstaklingar hjá fyrrnefndum öðrum samningsaðila eða
         bb)    lögaðilar hjá fyrrnefndum öðrum samningsaðila sem um getur í i-undirlið e- liðar,

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


1      Ef lögaðili veitir ekki þjónustuna beinlínis eða leitar ekki beinlínis eftir því að veita hana, heldur sé hún veitt á grundvelli annars konar viðskiptanærveru, t.d. gegnum útibú eða umboðsskrifstofu, skal þjónustuveitandinn (þ.e. lögaðilinn), eftir sem áður og á grundvelli slíkrar viðskiptanærveru, hljóta þá meðferð sem þjónustuveitendur hljóta samkvæmt ákvæðum þessa kafla. Meðferð af því tagi skal ná til þeirrar viðskiptanærveru sem þjónustan er veitt um eða leitað er eftir að hún sé veitt um og ekki er nauðsynlegt að fyrrnefnd meðferð nái til annarra deilda þjónustuveitandans sem staðsettar eru utan þess yfirráðasvæðis þar sem þjónustan er veitt eða leitað er eftir því að hún sé veitt.

f)    eru eftirfarandi skilgreiningar í XXVIII. gr. GATS-samningsins hér með felldar inn í þennan kafla og eru hluti af honum:
    i.    „ráðstöfun“,
    ii.    „veiting þjónustu“,
    iii.    „ráðstafanir aðila sem hafa áhrif á þjónustuviðskipti“,
    iv.    „viðskiptanærvera“,
    v.    „svið“ þjónustu,
    vi.    „þjónusta annars aðila“,
    vii.    „einstaklingur eða lögpersóna sem hefur fengið einokunaraðstöðu til að veita þjónustu“,
    viii.    „þjónustuneytandi“,
    ix.    „einstaklingur eða lögaðili“,
    x.    „lögaðili“,
    xi.    „í eigu“, „undir stjórn“ og „tengd“ og

    xii.    „beinir skattar“.

Grein 3.4.
Bestukjarameðferð.

1.     Samningsaðili skal, með fyrirvara um ráðstafanir sem eru gerðar skv. VII. gr. GATS-samningsins og að öðru leyti en því sem kveðið er á um í skrá hans yfir undanþágur vegna bestukjarameðferðar sem er að finna í VIII. viðauka, veita þjónustu og þjónustuveitendum annars samningsaðila, þegar í stað og án skilyrða og að því er varðar allar ráðstafanir sem hafa áhrif á veitingu þjónustu, eigi lakari meðferð en hann veitir vegna sambærilegrar þjónustu eða veitir þjónustuveitendum aðila sem ekki er samningsaðili.
2.     Meðferð, sem er veitt samkvæmt öðrum gildandi eða komandi samningum sem samningsaðili hefur gert og tilkynnt hefur verið um skv. V. gr. eða V. gr. a í GATS-samningnum, fellur ekki undir 1. mgr.
3.     Gangi samningsaðili frá eða geri breytingu á samningi af því tagi er um getur 2. mgr. skal hann tilkynna hinum samningsaðilunum um það án tafar og leitast við að veita þeim meðferð sem er ekki lakari en sú sem er veitt samkvæmt þeim samningi. Fyrrnefndur samningsaðili skal, að fram kominni beiðni hvaða annars samningsaðila sem er þar um, semja um innleiðingu meðferðar, sem er eigi lakari en sú sem er veitt samkvæmt fyrrnefndum samningi, í ákvæði þessa samnings.
4.     Ákvæði 3. mgr. II. gr. GATS-samningsins eiga við um réttindi og skyldur samningsaðilanna að því er varðar þá skilmála sem veittir eru aðliggjandi löndum og eru þau hér með felld inn í þennan kafla og eru hluti af honum.

Grein 3.5.
Markaðsaðgangur.

    Skuldbindingar um markaðsaðgang falla undir XVI. gr. GATS-samningsins og eru þær hér með felldar inn í þennan kafla og eru hluti af honum.

Grein 3.6.
Innlend meðferð.

    Um skuldbindingar varðandi meðferð innanlands fer eftir XVII. gr. GATS-samningsins og eru ákvæði hennar hér með felld inn í þennan kafla og eru hluti af honum.

Grein 3.7.
Viðbótarskuldbindingar.

    Ákvæði XVIII. gr. GATS-samningsins gilda um viðbótarskuldbindingar og eru þau hér með felld inn í þennan kafla og eru hluti af honum.

Grein 3.8.
Innlendar reglur.

1.     Hver samningsaðili skal sjá til þess að öllum ráðstöfunum, sem hafa almennt gildi og áhrif á þjónustuviðskipti, sé beitt á sanngjarnan, hlutlægan og óhlutdrægan hátt.
2.     Hver samningsaðili skal hafa eða koma á fót, eins fljótt og unnt er, dómstólum, gerðardómi, stjórnsýsludómstólum eða málsmeðferð þar sem stjórnsýsluákvarðanir, sem hafa áhrif á þjónustuviðskipti, verða tafarlaust endurskoðaðar, að beiðni þjónustuveitanda hjá öðrum samningsaðila sem málið varðar, og gripið verður til viðeigandi úrræða ef það telst réttmætt. Ef slík málsmeðferð er ekki óháð þeirri stofnun sem tekur viðkomandi stjórnsýsluákvörðun skal samningsaðilinn sjá til þess að málsmeðferðin feli í reynd í sér hlutlæga og óhlutdræga endurskoðun.
3.     Geri samningsaðili kröfu um að sérstaka heimild þurfi til að veita þjónustu skulu lögbær yfirvöld þess samningsaðila tilkynna viðkomandi umsækjanda um afgreiðslu umsóknarinnar, innan hæfilegs tíma eftir að framlögð umsókn er talin uppfylla ákvæði landslaga og -reglna umrædds samningsaðila. Lögbær yfirvöld fyrrnefnds samningsaðila skulu veita allar upplýsingar um stöðu umsóknarinnar, án ástæðulausrar tafar, fari umsækjandi fram á það.

4.     Sérhver samningsaðili skal koma á fullnægjandi málsmeðferð til að sannprófa menntun og hæfi fagfólks annarra samningsaðila.

Grein 3.9.
Viðurkenning.

1.     Sérhver samningsaðili skal, í því skyni að uppfylla viðeigandi staðla eða viðmiðanir sem gilda hjá honum um heimildir, leyfi eða skírteini til handa þjónustuveitendum, taka tilhlýðilegt tillit til sérhverrar beiðni annars samningsaðila um að viðurkenna menntun eða reynslu, sem hefur verið aflað hjá síðarnefnda samningsaðilanum, uppfylltar kröfur þar eða leyfi eða skírteini sem hann hefur veitt. Slíka viðurkenningu má byggja á samningi eða samkomulagi við fyrrnefndan annan samningsaðila eða veita einhliða að öðrum kosti.
2.     Viðurkenni samningsaðili, samkvæmt samningi eða samkomulagi, menntun eða reynslu sem hefur verið aflað, kröfur sem hafa verið uppfylltar, veitt leyfi eða útgefin skírteini á yfirráðasvæði aðila sem ekki er samningsaðili, skal sá samningsaðili veita öðrum samningsaðila næg tækifæri til að semja um aðild að slíkum samningi eða samkomulagi, hvort sem samningur eða samkomulag liggur fyrir eða mun liggja fyrir síðar, eða ganga frá sambærilegum samningi eða samkomulagi við hann. Ef viðurkenning samningsaðila er einhliða skal hann veita öðrum samningsaðila næg tækifæri til að sýna fram á að viðurkenna beri einnig menntun eða fengna reynslu, uppfylltar kröfur eða leyfi eða skírteini sem eru veitt á yfirráðasvæði fyrrnefnds annars samningsaðila.
3.     Allir slíkir samningar eða samkomulag eða einhliða viðurkenning skal vera í samræmi við viðeigandi ákvæði samningsins um Alþjóðaviðskiptastofnunina, einkum 3. mgr. VII. gr. GATS-samningsins.

Grein 3.10.
För einstaklinga.

1.     Þessi grein gildir um ráðstafanir sem hafa áhrif á einstaklinga, sem eru þjónustuveitendur hjá samningsaðila, og einstaklinga hjá samningsaðila, sem þjónustuveitandi hjá samningsaðila ræður til starfa, með tilliti til þess að veita þjónustu.
2.     Þessi kafli gildir hvorki um ráðstafanir sem hafa áhrif á einstaklinga, sem leita eftir aðgangi að vinnumarkaði hjá samningsaðila, né ráðstafanir varðandi ríkisfang, búsetu eða fasta atvinnu.

3.     Einstaklingum, sem sérstakar skuldbindingar gilda um, skal heimilt að veita þá þjónustu er um ræðir samkvæmt skilmálum þeirra skuldbindinga.
4.     Ákvæði þessa kafla koma ekki í veg fyrir að samningsaðili geri ráðstafanir til að hafa stjórn á för einstaklinga annars samningsaðila inn á yfirráðasvæði sitt eða tímabundinni dvöl þeirra þar, þ.m.t. nauðsynlegar ráðstafanir til að vernda landamæri hans og tryggja skipulega för einstaklinga yfir þau, að því tilskildu að slíkar ráðstafanir séu ekki gerðar með þeim hætti að geri að engu eða skerði ávinning sem aðila fellur í skaut eftir skilmálum sérstakrar skuldbindingar. 2

Grein 3.11.
Gagnsæi.

    Ákvæði 1. og 2. mgr. III. gr. og III. gr. a í GATS- samningnum eiga við um réttindi og skyldur samningsaðilanna að því er gagnsæi varðar og eru þau hér með felld inn í þennan kafla og eru hluti af honum.


Grein 3.12.
Einokun og þjónustuveitendur með einkarétt.

    Ákvæði 1., 2. og 5. mgr. VIII. gr. GATS-samningsins gilda um réttindi og skyldur samningsaðilanna að því er varðar einokun og þjónustuveitendur með einkarétt og eru þau hér með felld inn í þennan kafla og eru hluti af honum.

Grein 3.13.
Viðskiptahættir.

    Ákvæði IX. gr. GATS-samningsins gilda um réttindi og skyldur samningsaðilanna að því er varðar viðskiptahætti og eru þau hér með felld inn í þennan kafla og eru hluti af honum.

GREIN 3.14.
Greiðslur og yfirfærslur.

1.     Samningsaðili skal ekki, nema við þær aðstæður sem tilgreindar eru í grein 3.15, takmarka yfirfærslur og greiðslur ríkja í milli í yfirstandandi viðskiptum við annan samningsaðila.
2.     Ekkert í þessum kafla hefur áhrif á réttindi og skyldur samningsaðilanna samkvæmt greinum samningsins um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, (hér á eftir nefndur „Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn“), þ.m.t. ráðstafanir í gjaldeyrismálum sem eru í samræmi við greinar þess samnings, að því gefnu að samningsaðili setji ekki takmarkanir á fjármagnsviðskipti, sem eru í ósamræmi við sérstakar skuldbindingar hans um slík viðskipti, nema samkvæmt grein 3.15 eða að beiðni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Grein 3.15.
Takmarkanir til að tryggja greiðslujöfnuð.

1.     Samningsaðilar skulu reyna að komast hjá því að setja á takmarkanir til að tryggja greiðslujöfnuð.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


2      Þótt vegabréfsáritunar sé krafist fyrir einstaklinga skal ekki litið svo á að verið sé að gera að engu eða skerða ávinning sem fæst samkvæmt sérstakri skuldbindingu.

2.     Takmarkanir í því skyni að tryggja greiðslujöfnuð, sem samningsaðili samþykkir eða viðheldur skv. XII. gr. GATS-samningsins, gilda í kafla þessum.


Grein 3.16.
Undantekningar.

    Ákvæði XIV. gr. og 1. mgr. XIV. gr. a í GATS- samningnum gilda um réttindi og skyldur samningsaðilanna að því er varðar almennar undantekningar og undantekningar af öryggisástæðum og eru þau hér með felld inn í þennan samning og eru hluti af honum.

Grein 3.17.
Skrár um sérstakar skuldbindingar.

1.     Sérhver samningsaðili skal færa í skrá þær sérstöku skuldbindingar sem hann tekur á sig samkvæmt greinum 3.5, 3.6 og 3.7. Að því er varðar þau svið sem skuldbindingarnar taka til skal eftirfarandi tilgreint í hverri skrá:
a)    skilmálar, takmarkanir og skilyrði fyrir markaðsaðgangi,
b)    skilyrði og forsendur fyrir innlendri meðferð,

c)    verkefni viðvíkjandi viðbótarskuldbindingum, sem um getur í grein 3.7, og
d)    þar sem það á við, tímamörk til að efna fyrrnefndar skuldbindingar og gildistökudagur þeirra.
2.     Farið skal með ráðstafanir sem hvorki samrýmast grein 3.5 né 3.6 eins og ákvæði 2. mgr. XX. gr. GATS-samningsins segja til um.
3.     Skrár um sérstakar skuldbindingar samningsaðilanna eru settar fram í VII. viðauka.

Grein 3.18.
Breytingar á skrám.

    Samningsaðilarnir skulu, að fenginni skriflegri beiðni frá samningsaðila, efna til samráðs til að fjalla um breytingar eða afturköllun á sérstökum skuldbindingum í skrá samningsaðilans, sem leggur fram beiðni, um sérstakar skuldbindingar. Samráðið skal eiga sér stað innan þriggja mánaða frá því að samningsaðili leggur fram beiðni sína. Með samráðinu skulu samningsaðilarnir leitast við að tryggja að viðhaldið sé almennu stigi skuldbindinga sem gagnkvæmt hagræði er að og ekki er óhagstæðara fyrir viðskipti en kemur fram í skránni um sérstakar skuldbindingar áður en samráðið fer fram. Breytingar á skrám eru með fyrirvara um þá málsmeðferð sem fjallað er um í 8. grein og grein 10.5.

Grein 3.19.
Endurskoðun.

    Samningsaðilarnir skulu, í því skyni að gera þjónustuviðskipti sín á milli enn frjálsari, einkum með því að uppræta svo um munar mismunun, sem enn fyrirfinnst, á innan við tíu árum, endurskoða, á tveggja ára fresti hið minnsta eða oftar sé samkomulag þar um, skrár sínar um sérstakar skuldbindingar og skrá um undanþágur vegna bestukjarameðferðar, að teknu sérstöku tilliti til einhliða aukningar viðskiptafrelsis og yfirstandandi vinnu á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Fyrsta endurskoðun af því tagi skal fara fram eigi síðar en þremur árum eftir að þessi samningur öðlast gildi.

Grein 3.20.
Viðaukar.

    Eftirfarandi viðaukar eru óaðskiljanlegur hluti af þessum kafla:
    VII. viðauki (Skrár um sérstakar skuldbindingar),

–    VIII. viðauki (Skrár um undanþágur vegna bestukjarameðferðar),
    IX. viðauki (Fjármálaþjónusta) og
    X. viðauki (Fjarskiptaþjónusta).

4. KAFLI
FJÁRFESTINGAR

Grein 4.1.
Gildissvið.

1.     Ákvæði þessa kafla gilda um fjárfestingar fjárfestis eins samningsaðila á yfirráðasvæði annars samningsaðila, þ.e. fjárfestingar sem eru bein fjárfesting eða tengjast beinni fjárfestingu. Ákvæði kaflans eiga ekki við um fjárfestingar í þeim þjónustugeirum sem 3. kafli tekur til. 3
2.     Þessi kafli á við um fjárfestingar, hvort sem stofnað hefur verið til þeirra fyrir eða eftir gildistöku þessa samnings. Hann á ekki við um deilur sem rísa vegna atburða sem verða áður en samningurinn öðlast gildi.

3.     Ákvæði þessa kafla eru með fyrirvara um hvernig réttindi og skyldur, samkvæmt öðrum milliríkjasamningum um fjárfestingar eða skattlagningu sem Úkraína og eitt eða fleiri EFTA-ríki eru aðilar að, eru túlkuð eða þeim beitt.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


3      Til að taka af öll tvímæli er hér með staðfest að litið er svo á að þjónusta, sem er sérstaklega undanskilin gildissviði 3. kafla (flugumferðarréttindi), sé þjónusta sem fylgi með og falli því ekki undir gildissvið kaflans um fjárfestingar.

Grein 4.2.
Skilgreiningar.

    Í þessum kafla er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „bein fjárfesting“ merkir þátttöku fjárfestis í fyrirtæki sem jafngildir eignarhaldi sem nemur, beint eða óbeint, a.m.k. 10% af öllum hlutum í fyrirtækinu með atkvæðisrétti. „Óbein fjárfesting“ vísar til allra þeirra hluta með atkvæðisrétti sem eru rekjanlegir til fjárfestis samkvæmt þeim ítarlegu efnisatriðum skilgreiningar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á „bein fjárfesting“ sem við eiga,
b)    „fyrirtæki samningsaðila“ merkir alla lögaðila eða aðra aðila sem eru stofnsettir eða skipulagðir með öðrum hætti samkvæmt lögum samningsaðila og halda úti viðskiptaþjónustu á yfirráðasvæði þess samningsaðila eða einhvers annars samningsaðila,
c)    „fjárfesting“ merkir eign, hverju nafni sem nefnist, þ.m.t. en ekki einvörðungu: hvers kyns eigið fé eða þátttaka í fyrirtæki, fjárkröfur og kröfur um efndir, hugverkaréttindi, réttindi sem eru veitt samkvæmt lögum eða með samningi, t.d. sérleyfi, leyfi og heimildir og réttindi í lausafé og fasteignum,

d)    „fjárfestingarstarfsemi“ merkir að stofna til, yfirtaka, færa út, stjórna, stýra, reka, viðhalda, nota, njóta og selja eða ráðstafa fjárfestingu,

e)    „fjárfesting fjárfestis hjá samningsaðila“ merkir fjárfestingu sem fjárfestir samningsaðilans á eða ræður yfir, annaðhvort beint eða óbeint,

f)    „fjárfestir hjá samningsaðila“ merkir:
    i.    einstakling með ríkisfang hjá samningsaðila eða sem hefur fasta búsetu hjá samningsaðila í samræmi við gildandi lög hans eða
    ii.    lögaðila eða aðra aðila sem eru stofnsettir eða skipulagðir samkvæmt gildandi lögum samningsaðila og halda úti umtalsverðri fyrirtækjaþjónustu hjá samningsaðilum, í hagnaðarskyni eður ei og hvort sem um ræðir fyrirtækjaþjónustu í eigu, eða sem lýtur stjórn, einkaaðila eða hins opinbera,
    sem fjárfestir eða hefur fjárfest á yfirráðasvæði annars samningsaðila.
g)    „ráðstöfun“ merkir sérhverja ráðstöfun samningsaðila, hvort sem um er að ræða lög, reglugerð, reglu, málsmeðferð, ákvörðun, stjórnsýsluaðgerð eða annað.

Grein 4.3.
Almenn meðferð.

    Sérhver samningsaðili skal veita fjárfestum hins samningsaðilans, og fjárfestingum þeirra, meðferð í samræmi við reglur þjóðaréttar, þ.m.t. sanngjarna og réttláta meðferð og fulla vernd og öryggi.

Grein 4.4.
Innlend meðferð.

    Sérhver samningsaðili skal, með fyrirvara um ákvæði greinar 4.11 og fyrirvarana í XI. viðauka, veita fjárfestum hins samningsaðilans, og fjárfestingum þeirra, eigi lakari meðferð en hann veitir, við svipaðar aðstæður, eigin fjárfestum, og fjárfestingum þeirra, með tilliti til fjárfestingastarfsemi á yfirráðasvæði sínu.

Grein 4.5.
Bestukjarameðferð.

1.     Sérhver samningsaðili skal, með fyrirvara um ákvæði XII. viðauka, veita fjárfestum hins samningsaðilans, og fjárfestingum þeirra, eigi lakari meðferð en hann veitir, við svipaðar aðstæður, fjárfestum hjá aðilum sem ekki eru samningsaðilar og fjárfestingum þeirra fjárfesta, með tilliti til fjárfestingastarfsemi á yfirráðasvæði sínu.
2.     Ef samningsaðili veitir fjárfestingum fjárfesta þriðja ríkis fríðindameðferð með skírskotun til fríverslunarsamnings, tollabandalags, sameiginlegs markaðar eða annarra samninga um efnahagssamvinnu, ber honum ekki skylda til að veita fjárfestingum fjárfesta hins samningsaðilans sömu kjör. Hið sama á við um meðferð sem samningsaðili veitir með skírskotun til samninga um vernd fjárfestinga eða samninga um að komast hjá tvísköttun.

3.     Ef samningsaðili veitir aðila, sem ekki er samningsaðili, meðferð, eftir gildistöku þessa samnings, með skírskotun til samnings, eins og fram kemur í 2. mgr., það er meðferð sem er hagstæðari þeirri sem kveðið er á um í þessum samningi, skal hann taka til athugunar beiðni annars samningsaðila um að fella inn í þennan samning fyrrnefnda hagstæðari meðferð sem er veitt fyrrnefndum aðila sem ekki er samningsaðili.

Grein 4.6.
Aðgengi að dómstólum.

    Sérhver samningsaðili skal, á sínu yfirráðasvæði, veita fjárfestum hjá öðrum samningsaðila meðferð, sem ekki er lakari en sú meðferð sem hann veitir eigin fjárfestum eða fjárfestum aðila, sem ekki eru samningsaðilar, að því er varðar lögsögu dómstóla sinna og stjórnsýsludómstóla og stofnana, bæði hvað varðar að fjárfestar geti leitað réttar síns og varið rétt sinn.

Grein 4.7.
Lykilstarfsmenn.

1.     Samningsaðilarnir skulu, með fyrirvara um eigin lög og reglur um komu, dvöl og atvinnu einstaklinga, fjalla í einlægni um beiðnir fjárfesta annars samningsaðila og starfsmanna í lykilstöðum, sem starfa hjá þessum fjárfestum eða í tengslum við fjárfestingar, um heimild til að koma og dvelja tímabundið á yfirráðasvæðum þeirra í því skyni að stunda starfsemi sem tengist því að stjórna, viðhalda, nota, njóta, auka eða ráðstafa fjárfestingum sem um ræðir, þ.m.t. að veita ráðgjöf eða mikilvæga tækniþjónustu.
2.     Samningsaðilarnir skulu, með fyrirvara um eigin lög og reglur, heimila fjárfestum hins samningsaðilans og fjárfestingum þeirra að ráða lykilstarfsmenn að eigin vali, án tillits til þjóðernis þeirra og ríkisfangs, að því tilskildu að þessir starfsmenn hafi heimild til að koma, dvelja og vinna á yfirráðasvæði hins samningsaðilans og að það starf sem um ræðir sé með þeim skilmálum, skilyrðum og tímamörkum sem felast í þeirri heimild sem fyrrnefndir lykilstarfsmenn fá.
3.     Samningsaðilarnir skulu, með fyrirvara um lög sín og reglur, veita heimild til að koma og dvelja tímabundið á yfirráðasvæði sínu og láta maka og ólögráða börnum einstaklings, sem hefur verið veitt tímabundin heimild til að koma og dvelja þar ásamt atvinnuleyfi skv. 1. og 2. mgr., í té nauðsynleg staðfestingarskjöl. Maka og ólögráða börnum fyrrnefnds einstaklings skal veitt dvalarleyfi til jafns við hann.

Grein 4.8.
Réttur til reglusetningar.

1.     Ekkert í þessum kafla ber að túlka svo að meini samningsaðila að samþykkja, viðhalda eða framfylgja ráðstöfunum, sem samræmast ákvæðum þessa kafla og eru í almannaþágu, t.d. ráðstöfunum til þess að mæta heilbrigðis-, öryggis- eða umhverfissjónarmiðum eða ráðstöfunum sem horfa til hagsýni.
2.     Samningsaðili skal ekki fella slíkar ráðstafanir niður eða víkja með öðrum hætti frá þeim, eða bjóðast til slíks, til að hvetja til að stofnað verði til fjárfestingar fjárfestis samningsaðila eða fjárfestis aðila, sem ekki er samningsaðili, að hennar verði aflað, við hana aukið eða henni haldið á yfirráðasvæði hans.

Grein 4.9.
Gagnsæi.

    Lög, reglugerðir, dómsniðurstöður og stjórnsýsluúrskurði, sem hafa almennt gildi og samningsaðilar hrinda í framkvæmd, ásamt samningum sem í gildi eru milli samningsaðila, og áhrif hafa á mál sem falla undir gildissvið þessa kafla, skal birta tafarlaust eða gera almenningi aðgengileg með öðrum hætti til þess að gera samningsaðilum og fjárfestum kleift að kynna sér þau. Ákvæði þessa samnings skylda ekki samningsaðila til að láta af hendi upplýsingar sem myndi hindra að lögum yrði framfylgt eða ganga gegn almannahagsmunum eða skaða lögmæta viðskiptahagsmuni fjárfesta.

Grein 4.10.
Fjárfestingarráðstafanir í viðskiptum.

    Samningsaðilarnir árétta skuldbindingar sínar gagnvart samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina viðvíkjandi fjárfestingarráðstöfunum í viðskiptum og fella hér með ákvæði þar að lútandi inn í þennan samning.

Grein 4.11.
Fyrirvarar.

1.     Innlend meðferð, sem kveðið er á um í grein 4.4, gildir ekki um:
a)    þá fyrirvara sem samningsaðili telur upp í XI. viðauka,
b)    breytingu á fyrirvara, sem fellur undir a-lið, að því marki að breytingin minnki ekki samræmi fyrirvarans við grein 4.4,

c)    nýja fyrirvara, sem samningsaðili samþykkir og eru felldir inn í XI. viðauka og hafa ekki áhrif á heildarumfang skuldbindinga þess samningsaðila samkvæmt þessum samningi,
að því marki sem slíkir fyrirvarar samrýmast ekki grein 4.4.
2.     Samningsaðilarnir skuldbinda sig, sem lið í þeirri endurskoðun sem kveðið er á um í grein 4.15, til að endurskoða stöðu þeirra fyrirvara sem settir eru fram í XI. viðauka með það fyrir augum að fækka þeim eða fella þá niður.
3.     Samningsaðila er hvenær sem er heimilt og með skriflegri tilkynningu til hinna samningsaðilanna, annaðhvort að beiðni annars samningsaðila eða einhliða, að fella þá fyrirvara sína niður sem settir eru fram í XI. viðauka, í heild eða að hluta.
4.     Samningsaðila er hvenær sem er heimilt að fella nýjan fyrirvara inn í XI. viðauka í samræmi við ákvæði c-liðar 1. mgr. þessarar greinar og með skriflegri tilkynningu til annarra samningsaðila. Þegar hinum samningsaðilunum berst skrifleg tilkynning af því tagi geta þeir óskað eftir að efnt verði til samráðs um fyrirvarann. Þegar samningsaðilanum, sem fellir hinn nýja fyrirvara inn í viðaukann, berst beiðni um samráð skal hann efna til samráðs við hina samningsaðilana.

Grein 4.12.
Greiðslur og yfirfærslur.

1.     Samningsaðili skal ekki, nema við þær aðstæður sem tilgreindar eru í grein 4.13, takmarka hlaupandi greiðslur og fjármagnsflutninga sem tengjast beinum fjárfestingum sem falla undir gildissvið þessa kafla.
2.     Ekkert í þessum kafla hefur áhrif á réttindi og skyldur samningsaðila samkvæmt efnisgreinum samningsins um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, þ.m.t. ráðstafanir í gjaldeyrismálum sem eru í samræmi við efnisgreinar hans, að því tilskildu að samningsaðili setji engar takmarkanir á fjármagnsviðskipti sem ekki samrýmast skuldbindingum hans samkvæmt þessum kafla.

Grein 4.13.
Takmarkanir til að standa vörð um greiðslujöfnuð.

1.     Samningsaðilar skulu reyna að komast hjá því að setja á takmarkanir til að standa vörð um greiðslujöfnuð.
2.     Ákvæði 1. til 3. mgr. XII. gr. GATS-samningsins gilda um réttindi og skyldur samningsaðilanna að því er varðar fyrrnefndar takmarkanir og eru þau hér með felld inn í þennan kafla og eru hluti af honum, að breyttu breytanda.
3.     Samningsaðili, sem grípur til eða viðheldur áðurnefndum takmörkunum, skal þegar í stað tilkynna sameiginlegu nefndinni um það.

Grein 4.14.
Undantekningar.

    Ákvæði XIV. gr. GATS-samningsins gilda um réttindi og skyldur samningsaðilanna að því er varðar almennar undantekningar og eru þau hér með felld inn í þennan kafla og eru hluti af honum, að breyttu breytanda.

Grein 4.15.
Endurskoðunarákvæði.

    EFTA-ríkin og Úkraína staðfesta að þau skuldbinda sig til þess að endurskoða rammaákvæðin um fjárfestingar og streymi fjárfestinga milli yfirráðasvæða þeirra í samræmi við skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðlegum samningum um fjárfestingar, eigi síðar en þremur árum eftir gildistöku þessa samnings og reglubundið eftir það.

5. KAFLI
HUGVERKAVERND


Grein 5.
Hugverkavernd.

1.     Samningsaðilunum ber að gera ráðstafanir til að veita og tryggja nægilega og árangursríka vernd hugverkaréttinda án mismununar, þar með taldar ráðstafanir til að vernda þessi réttindi gegn brotum, einkum eftirlíkingu og ólöglegri nýtingu, í samræmi við ákvæði þessarar greinar, XIII. viðauka og þá alþjóðasamninga sem um getur í honum.
2.     Samningsaðilar skulu ekki veita ríkisborgurum hvers annars óhagstæðari meðferð en þeir veita eigin ríkisborgurum. Undanþágur frá þessari skyldu skulu vera í samræmi við efnisákvæði 3. og 5. gr. samningsins um Alþjóðaviðskiptastofnunina frá 15. apríl 1994 um hugverkarétt í viðskiptum (hér á eftir nefndur „samningurinn um hugverkarétt í viðskiptum“).
3.     Samningsaðilarnir skulu ekki veita ríkisborgurum hvers annars lakari meðferð en þá sem er veitt ríkisborgurum annarra ríkja. Undanþágur frá þessari skuldbindingu skulu vera í samræmi við efnisákvæði samningsins um hugverkarétt í viðskiptum, einkum 4. og 5. gr.
4.     Samningsaðilarnir samþykkja, að fram kominni beiðni samningsaðila til sameiginlegu nefndarinnar, að endurskoða ákvæðin um vernd hugverkaréttinda í þessari grein og í XIII. viðauka með það í huga að auka þessa vernd enn frekar og að forðast eða ráða bót á röskun í viðskiptum sem stafar af núverandi verndun hugverkaréttinda.


6. KAFLI
OPINBER INNKAUP

Grein 6.1.
Markmið.

    Samningsaðilarnir skulu opna markaði sína fyrir opinber innkaup fyrir hver öðrum og með virkum hætti, í samræmi við ákvæði þessa kafla og viðauka við hann, í því skyni að hámarka tækifæri birgja til að keppa innbyrðis og að opinber útgjöld nýtist sem best.

Grein 6.2.
Gildissvið.

    Þessi kafli gildir um ráðstafanir samningsaðila viðvíkjandi „innkaupum sem ákvæði hans taka til“. Í þessum kafla er merking „innkaupa sem þessi kafli tekur til“ sem hér segir: Innkaup á vöru og þjónustu í þágu hins opinbera, eins og þær eru skilgreindar í 1. gr. XIV. viðauka, eða hvaða samsetningu þeirra sem er, eins og tilgreint er í 2. gr. XIV. viðauka og í XV. viðauka.

Grein 6.3.
Fyrirkomulag innkaupa.

    Samningsaðilarnir skulu sjá til þess að fyrirkomulag innkaupa þeirra samræmist, og að innkaupastofnanir fylgi, þeim ákvæðum sem tilgreind eru í XIV. og XV. viðauka.

Grein 6.4.
Innlend meðferð og bann við mismunun.

1.     Sérhver samningsaðili skal sjá til þess, að því er varðar ráðstafanir viðvíkjandi innkaupum sem þessi kafli tekur til, að innkaupastofnanir hans veiti vöru og þjónustu annarra samningsaðila og birgjum annarra samningsaðila sem bjóða slíka vöru og þjónustu, tafarlaust og skilyrðislaust, eigi óhagstæðari meðferð en þá meðferð sem hann veitir innlendri vöru og þjónustu og innlendum birgjum.
2.     Samningsaðili skal sjá til þess, að því er varðar ráðstafanir viðvíkjandi innkaupum sem þessi kafli tekur til, að innkaupastofnanir hans:
a)    veiti birgi með staðfestu á yfirráðasvæði hans ekki óhagstæðari meðferð en öðrum birgi með staðfestu þar vegna umfangs erlendra tengsla eða eignarhalds né
b)    mismuni birgi með staðfestu á yfirráðasvæði hans vegna þess að sú vara eða þjónusta sem viðkomandi birgir býður fram vegna tiltekinna innkaupa sé vara eða þjónusta frá öðrum samningsaðilum.

Grein 6.5.
Framkvæmd innkaupa.

    Samningsaðili skal sjá til þess að innkaupastofnanir hans standi að innkaupum, sem þessi kafli tekur til, á gagnsæjan og óhlutdrægan hátt sem:
a)    samræmist ákvæðum þessa kafla og beiti aðferðum á borð við almenn útboð, útboð með forvali og lokuð útboð, eins og tilgreint er í 11. til 13. gr. í XIV. viðauka,
b)    þannig að komast megi hjá hagsmunaárekstrum og
c)    þannig að koma megi í veg fyrir óheiðarlega viðskiptahætti.

Grein 6.6.
Upprunareglur.

    Samningsaðila er, vegna innkaupa sem þessi kafli tekur til, óheimilt að beita upprunareglum ólíkum þeim sem hann beitir almennt í viðskiptum á sama tíma.

Grein 6.7.
Jöfnunaraðgerðir.

    Samningsaðili skal, vegna innkaupa sem þessi kafli tekur til, sjá til þess að innkaupastofnanir hans sækist ekki í jöfnunaraðgerðir eða hafi hliðsjón af þeim, innleiði þær eða framkvæmi.

Grein 6.8.
Birting upplýsinga um innkaup.

1.     Sérhver samningsaðili skal upplýsa án tafar um allar ráðstafanir, sem hafa almennt gildi og varða innkaup sem þessi kafli tekur til, og um allar breytingar, sem verða á upplýsingum um þær ráðstafanir, í opinberlega tilgreindum miðli, rafrænum og/eða prentmiðli, sem hefur mikla útbreiðslu og er og verður almenningi vel aðgengilegur.
2.     Sérhver samningsaðili skal skýra fyrrnefndar upplýsingar fyrir öðrum samningsaðilum, komi fram beiðni þar um.

Grein 6.9.
Upplýsingatækni.

1.     Samningsaðilar skulu, eftir því sem unnt er, leitast við að nota rafræna samskiptamiðla til þess að koma upplýsingum um opinber innkaup á framfæri með skilvirkum hætti, einkum um tækifæri, sem stofnanir veita til að gera tilboð, en virða jafnframt meginreglurnar um gagnsæi og bann við mismunun.

2.     Þegar innkaupastofnun annast innkaup, sem þessi kafli tekur til og fara fram með rafrænum hætti, skal hún:
a)    tryggja að við innkaupin sé stuðst við upplýsingatækni og hugbúnað, þ.m.t. tækni sem tengist því að sanna uppruna upplýsinga og dulkóða þær, sem eru almenningi aðgengileg og nothæf með öðrum kerfum á sviði upplýsingatækni og hugbúnaðar sem almenningi eru aðgengileg og

b)    beita að staðaldri aðferðum til að ganga úr skugga um að þátttökubeiðnir og tilboð séu lýtalaus, m.a. aðferðum til að staðfesta hvenær þeim var veitt viðtaka og til að koma í veg fyrir óæskilegan aðgang.

Grein 6.10.
Samstarf.

1.     Samningsaðilarnir viðurkenna mikilvægi þess að vinna saman að því að öðlast betri skilning á fyrirkomulagi opinberra innkaupa hvers um sig og tryggja birgjum, sem eru lítil fyrirtæki, betri aðgang að mörkuðum hvers og eins.
2.     Samningsaðilarnir skulu vinna saman á sviði opinberra innkaupa með því að miðla með gagnkvæmum hætti reynslu og upplýsingum um bestu starfsvenjur og regluramma.
3.     Unnt væri að láta í té tækniaðstoð að fram kominni rökstuddri beiðni þar um.

Grein 6.11.
Almennar undantekningar.

1.     Ekkert í þessum kafla skal túlka þannig að hindri samningsaðila í að grípa til aðgerða eða láta hjá líða að birta upplýsingar sem hann telur nauðsynlegt að gera til verndar grundvallaröryggishagsmunum sínum sem aftur tengjast innkaupum á vopnum, skotfærum eða hergögnum eða innkaupum sem eru nauðsynleg vegna þjóðaröryggis eða landvarna.
2.     Ekkert í þessum kafla skal túlka þannig að hindri samningsaðila í að samþykkja eða viðhalda nauðsynlegum ráðstöfunum til að vernda almennt siðgæði, reglu eða öryggi, líf eða heilbrigði manna, dýra eða plantna eða hugverk, eða nauðsynlegum ráðstöfunum sem tengjast vöru eða þjónustu fatlaðs fólks, mannúðarsamtaka eða fanga, samanber þó þá kröfu að ráðstafanir af því tagi leiði ekki til handahófskenndrar eða óréttlætanlegrar mismununar eða til þess að duldar hömlur séu lagðar á viðskipti samningsaðilanna.

Grein 6.12.
Breytingar og leiðréttingar á gildissviði.

1.     Samningsaðila er heimilt að breyta eða leiðrétta gildissvið hjá sér skv. XIV. eða XV. viðauka, að því tilskildu að:
a)    hann tilkynni hinum samningsaðilunum um það,
b)    hann bjóði jafnhliða fram leiðréttingu til jöfnunar til þess að viðhalda megi gildissviði sem er sambærilegt því sem var fyrir breytinguna, að undanskildu ákvæði 2. mgr., og
c)    enginn samningsaðili andmæli skriflega innan 45 daga frá dagsetningu tilkynningar. Samningsaðilar geta lengt fyrrnefndan frest uns innlendri málsmeðferð er lokið.
2.     Samningsaðili þarf ekki að gera leiðréttingu til jöfnunar séu samningsaðilarnir því sammála að fyrirhuguð breyting nái til innkaupastofnunarinnar sem samningsaðili stjórnar ekki lengur í reynd eða hefur áhrif á. Ef samningsaðili andmælir þeirri fullyrðingu að fyrrnefnd stjórn eða áhrif hafi verið afnumin í reynd, getur hann farið fram á frekari upplýsingar eða samráð í því skyni að varpað verði ljósi á hvers eðlis stjórn hins opinbera eða áhrif þess eru og samkomulagi náð um að ákvæði þessa kafla taki áfram til viðkomandi innkaupastofnunar.
3.     Breytingar samkvæmt þessari grein öðlast gildi 45 dögum eftir þann dag er tilkynningu var dreift eða þegar andmælafrestur er út runninn. Samningsaðilinn, sem hefur farið fram á að gera breytingu eða leiðréttingu, skal tilkynna vörsluaðila um breytinguna eða leiðréttinguna.


Grein 6.13.
Frekari samningaviðræður.

    Ef samningsaðili býður þriðja aðila síðar meir aukið hagræði að því er varðar gildissvið með tilliti til aðgangs að markaði fyrir opinber innkaup sem hjá honum ríkir og samþykkt er með ákvæðum þessa kafla og XIV. og XV. viðauka, skal hann, að beiðni annars samningsaðila, samþykkja að hefja samningaviðræður um gagnkvæma útvíkkun þess gildissviðs.

7. KAFLI
SAMKEPPNI

Grein 7.
Reglur um samkeppni sem varða fyrirtæki.

1.     Eftirfarandi samrýmist ekki réttri framkvæmd þessa samnings að því leyti sem það kann að hafa áhrif á viðskipti milli EFTA-ríkis og Úkraínu:

a)    samningar milli fyrirtækja, ákvarðanir samtaka fyrirtækja og samstilltar aðgerðir fyrirtækja sem miða að því að koma í veg fyrir, takmarka eða raska samkeppni eða leiða til slíks á yfirráðasvæði hvers samningsaðila,

b)    misnotkun eins fyrirtækis eða fleiri á yfirburðastöðu á yfirráðasvæði hvers samningsaðila.
2.     Ákvæði 1. mgr. gilda einnig um starfsemi opinberra fyrirtækja og fyrirtækja, sem njóta sér- eða einkaréttinda sem samningsaðilarnir hafa veitt þeim, svo fremi að beiting ákvæðanna hindri ekki, að lögum eða í reynd, framkvæmd opinberra verkefna sem þeim hafa verið falin.
3.     Ekkert í 2. mgr. skal túlka þannig að hindri samningsaðila í að stofna eða viðhalda opinberu fyrirtæki, að fela fyrirtækjum sér- eða einkaréttindi eða að viðhalda slíkum réttindum.
4.     Ákvæði 1. og 2. mgr. skal eigi túlka þannig að af þeim leiði beinar skuldbindingar fyrir fyrirtæki.

5.     Samningsaðilarnir viðurkenna mikilvægi þess að vinna saman og eiga samráð sín á milli til þess að binda enda á samkeppnishamlandi starfshætti, eins og útskýrt er í 1. og 2. mgr., eða skaðleg áhrif þeirra á viðskipti. Samningsaðilarnir geta falið lögbærum yfirvöldum sínum að annast þessa samvinnu og samráð. Samvinna felst meðal annars í því að skiptast á viðeigandi upplýsingum sem samningsaðilarnir hafa aðgang að. Enginn samningsaðili er skuldbundinn til að veita upplýsingar sem eru bundnar trúnaði samkvæmt landslögum hans.
6.     Í því skyni að efla skilning milli samningsaðilanna eða fjalla um málefni, sem kemur upp samkvæmt ákvæðum þessa kafla, getur samningsaðili, með fyrirvara um frelsi sérhvers samningsaðila til að þróa, viðhalda og framfylgja stefnu sinni og lögum um samkeppni, óskað eftir samráði innan sameiginlegu nefndarinnar. Í beiðninni skal greina frá ástæðum þess að efnt verði til samráðs. Hefja ber samráð skv. grein 9.3 án tafar til að komast að niðurstöðu sem samrýmist markmiðum þessa kafla. Hlutaðeigandi samningsaðilar skulu veita sameiginlegu nefndinni allan nauðsynlegan stuðning og upplýsingar.
7.     Enginn samningsaðili getur leitað eftir lausn deilumála samkvæmt þessum samningi vegna mála sem upp koma og tengjast ákvæðum þessarar greinar, með þeirri undantekningu þó að rétturinn til samráðs skv. 6. mgr. gildir.

8. KAFLI
STOFNANAÁKVÆÐI

Grein 8.
Sameiginlega nefndin.

1.     Samningsaðilarnir koma hér með á fót sameiginlegri nefnd EFTA og Úkraínu. Í henni eiga sæti fulltrúar samningsaðilanna og skulu ráðherrar eða háttsettir embættismenn, sem þeir tilnefna í þessum tilgangi, gegna formennsku í henni.
2.     Sameiginlega nefndin skal:
a)    hafa umsjón með og endurskoða framkvæmd þessa samnings, m.a. með því að fara ítarlega yfir það hvernig ákvæðum hans er beitt, að teknu tilhlýðilegu tilliti til sérstakrar endurskoðunar sem samningur þessi kveður á um,
b)    hafa til endurskoðunar hvort unnt sé að afnema frekar viðskiptahindranir og aðrar takmarkandi ráðstafanir í viðskiptum milli Úkraínu og EFTA- ríkjanna,
c)    hafa umsjón með frekari þróun þessa samnings,

d)    hafa yfirumsjón með starfi allra undirnefnda og vinnuhópa sem komið er á fót samkvæmt þessum samningi,
e)    leitast við að leysa deilumál, sem upp kunna að koma þegar ákvæði þessa samnings eru túlkuð eða þeim beitt, og
f)    taka til umfjöllunar hvert það mál annað sem kann að hafa áhrif á framkvæmd þessa samnings.
3.     Sameiginlega nefndin getur ákveðið að skipa undirnefndir og vinnuhópa sem hún telur þörf á sér til aðstoðar við störfin. Undirnefndirnar og vinnuhóparnir skulu starfa í umboði sameiginlegu nefndarinnar, nema kveðið sé á um annað í þessum samningi.

4.     Sameiginlega nefndin skal taka ákvarðanir eins og mælt er fyrir um í þessum samningi, og getur lagt fram tilmæli, með samhljóða samþykki.
5.     Sameiginlega nefndin skal koma saman innan tveggja ára frá gildistöku þessa samnings. Hún skal koma saman eftir það þegar nauðsyn krefur og eftir gagnkvæmu samkomulagi, en að öllu jöfnu annað hvert ár. Úkraína og eitt EFTA-ríkjanna skulu fara sameiginlega með fundarstjórn á fundum sameiginlegu nefndarinnar. Sameiginlega nefndin setur sér starfsreglur.
6.     Sérhver samningsaðili getur, hvenær sem er, farið fram á sérstakan fund í sameiginlegu nefndinni með skriflegri tilkynningu til hinna samningsaðilanna. Slíkur fundur skal haldinn innan 30 daga frá því að beiðni er veitt viðtaka, nema samningsaðilar komi sér saman um annað.
7.     Sameiginlega nefndin getur ákveðið að breyta viðaukum og bókunum við þennan samning. Þær breytingar öðlast gildi eftir því sem tilgreint er í ákvörðuninni um breytinguna sem sameiginlega nefndin tekur.

9. KAFLI
LAUSN DEILUMÁLA

Grein 9.1.
Gildissvið.

1.     Ákvæði þessa kafla gilda um lausn deilumála, sem rísa um túlkun eða beitingu ákvæða þessa samnings, nema kveðið sé á um annað í þessum samningi.

2.     Heimilt er að leysa deilur vegna sama máls, þ.e. deilur sem varða bæði þennan samning og samninginn um Alþjóðaviðskiptastofnunina, á vettvangi hvors samnings sem er að vali kæranda. 4 Sá vettvangur sem þannig er valinn skal notaður eingöngu.
3.     Að því er varðar 2. mgr. er málsmeðferð við lausn deilumála samkvæmt samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina talin hefjast með því að samningsaðili fer fram á að gerðardómur verði stofnaður skv. 6. gr. samkomulags Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um málsmeðferð við lausn deilumála, en málsmeðferð við lausn deilumála samkvæmt þessum samningi er talin hefjast að fram kominni beiðni um gerðardómsmeðferð skv. 1. mgr. greinar 9.4.
4.     Áður en samningsaðili hefur málsmeðferð við lausn deilumála gagnvart öðrum samningsaðila samkvæmt samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina, skal sá fyrrnefndi tilkynna öllum hinum samningsaðilunum um fyrirætlan sína.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


4      Í þessum kafla geta hugtökin „samningsaðili“, „deiluaðili“, „kærandi“ og „samningsaðili sem kvörtun beinist gegn“ haft að merkingu einn samningsaðila eða fleiri.

Grein 9.2.
Sáttaumleitanir.

1.     Samningsaðilum er frjálst að nýta sér málsmeðferð sem felst í sáttaumleitunum ef þeir verða ásáttir um það. Hefja má sáttaumleitanir eða hætta þeim hvenær sem er. Þeim má halda áfram meðan málsmeðferð gerðardóms, sem stofnsettur er samkvæmt ákvæðum þessa kafla, stendur yfir.
2.     Málsmeðferð, sem felst í sáttaumleitunum, skal vera trúnaðarmál og hefur ekki áhrif á rétt samningsaðila við aðra málsmeðferð.


Grein 9.3.
Samráð.

1.     Samningsaðilar skulu ætíð leitast við að ná samkomulagi um túlkun og beitingu ákvæða þessa samnings og gera sitt ítrasta, með samvinnu og samráði, til að finna lausn sem aðilar geta sætt sig við í hverju því máli sem kann að rísa vegna ákvæða þessarar greinar.
2.     Samningsaðili getur óskað skriflega eftir samráði við annan samningsaðila telji sá fyrrnefndi að ráðstöfun eða annað málefni samræmist ekki ákvæðum þessa samnings. Samningsaðili, sem fer fram á samráð, skal jafnframt tilkynna hinum samningsaðilunum skriflega um það. Samningsaðilinn, sem beiðni er beint til, skal svara beiðninni innan 10 daga frá þeim degi er henni er veitt viðtaka. Samráð skal fara fram á vettvangi sameiginlegu nefndarinnar, nema sá samningsaðili sem leggur fram beiðni um samráð og sá sem beiðninni er beint til samþykki annað.
3.     Samráð skal hefjast innan 30 daga frá því að beiðni um samráð er veitt viðtaka. Samráð um brýn málefni, þ.m.t. um vörur sem eru viðkvæmar fyrir skemmdum, skal hefjast innan 15 daga frá því að beiðni um samráð er veitt viðtaka. Svari samningsaðilinn, sem beiðni er beint til, ekki innan 10 daga eða hefji hann ekki samráð innan 30 daga frá þeim degi er beiðni um samráð er veitt viðtaka, eða innan 15 daga, er um ræðir brýn málefni, getur samningsaðilinn, sem lagði fram beiðnina, farið fram á að gerðardómi verði komið á fót samkvæmt grein 9.4.

4.     Deiluaðilar skulu veita nægilegar upplýsingar til að unnt sé að rannsaka til fulls hvernig viðkomandi ráðstöfun eða annað málefni samræmist ekki ákvæðum þessa samnings og fara með trúnaðarupplýsingar eða einkamál stofnunar á sama hátt og samningsaðilinn sem veitir upplýsingarnar.

5.     Samráð skal bundið trúnaði og vera með fyrirvara um rétt samningsaðilanna til frekari málsmeðferðar.
6.     Deiluaðilarnir skulu tilkynna hinum samningsaðilunum um gagnkvæmt samkomulag um lausn málsins.

Grein 9.4.
Stofnun gerðardóms.

1.     Verði ekki unnt að leysa deilumál með samráði, er um getur í grein 9.3, innan 60 daga, eða 30 daga ef um ræðir brýn málefni, þ.m.t. deilumál viðvíkjandi vörum sem eru viðkvæmar fyrir skemmdum, frá þeim degi er samningsaðilinn, sem kvörtun beinist gegn, veitir beiðni um gerðardómsmeðferð viðtöku, getur kærandi lagt málið í gerð með skriflegri beiðni þar um til samningsaðilans sem kvörtun beinist gegn. Afrit af beiðninni skal senda hinum samningsaðilunum þannig að þeir geti ákveðið hvort þeir vilji eiga hlut að deilumálinu.
2.     Í beiðni um gerðardómsmeðferð skal tilgreina þá ráðstöfun er málið varðar eða önnur mál sem uppi eru og leggja fram stutt yfirlit um lagalegan grundvöll umkvörtunar.
3.     Í gerðardómi skulu sitja þrír gerðarmenn tilnefndir samkvæmt valkvæðum reglum Alþjóðagerðardómsins í Haag um gerðardómsmeðferð deilna milli tveggja ríkja, sem öðluðust gildi 20. október 1992, (hér á eftir nefndar „valkvæðu reglurnar“). Stofndagur gerðardómsins telst vera dagurinn þegar formaðurinn hans er skipaður.

4.     Erindisbréf gerðardóms er sem hér segir, nema deiluaðilar komi sér saman um annað innan 20 daga frá þeim degi þegar beiðni um stofnun gerðardóms er veitt viðtaka:

    „Að rannsaka, í ljósi viðeigandi ákvæða þessa samnings, það mál sem um getur í beiðninni um stofnun gerðardóms samkvæmt grein 9.4 og komast að rökstuddri niðurstöðu á grundvelli laga eða staðreynda og gefa út tilmæli, ef við á, um lausn deilunnar og fullnustu úrskurðar.“


5.     Ef fleiri en einn samningsaðili fer fram á stofnun gerðardóms vegna sama máls eða ef beiðnin varðar fleiri en einn varnaraðila skal, ávallt þegar því verður komið við, stofna einn gerðardóm til að fjalla um umkvörtunarefni sem varða sama málið.

6.     Samningsaðili, sem er ekki deiluaðili, skal, samhliða því að afhenda deiluaðilum skriflega tilkynningu, eiga rétt á að leggja skrifleg gögn fyrir gerðardóminn, fá afhent skrifleg gögn, þ.m.t. viðauka, sem deiluaðilar leggja fram, vera viðstaddur málsmeðferð og gefa munnlegar yfirlýsingar.

Grein 9.5.
Störf gerðardómsins.

1.     Málsmeðferð gerðardóms skal vera samkvæmt valkvæðu reglunum, nema mælt sé fyrir um annað í þessum samningi eða deiluaðilar semji um annað sín á milli.
2.     Gerðardómur skal fjalla um málið, sem um getur í beiðni um stofnun gerðardóms, í samræmi við viðeigandi ákvæði þessa samnings sem túlka ber samkvæmt reglum um túlkun ákvæða þjóðaréttar.


3.     Málflutningur fyrir gerðardómi skal fara fram í Genf, nema deiluaðilar komi sér saman um annað. Málið skal rekið á ensku. Málflutningur fyrir gerðardómi skal fara fram fyrir opnum tjöldum, nema deiluaðilarnir komi sér saman um annað.

4.     Enginn skal hafa einhliða samskipti við gerðardóminn um þau mál sem hann hefur til umfjöllunar.

5.     Samningsaðili skal senda skrifleg gögn, útskriftir af munnlegum yfirlýsingum og svör við spurningum gerðardóms til hins deiluaðilans og þeirra samningsaðila sem hafa sent frá sér tilkynningu skv. 6. mgr. greinar 9.4, samtíða því að fyrrnefnd málsskjöl eru send gerðardómnum.

6.     Samningsaðilarnir skulu fara með upplýsingar, sem aðrir samningsaðilar senda gerðardómi og merkja trúnaðarupplýsingar, sem trúnaðarmál.

7.     Meirihluti gerðarmanna ræður þegar ákvarðanir gerðardóms eru teknar. Gerðarmönnum er heimilt að skila séráliti um mál reynist eigi unnt að ná fram samhljóða samþykki þar um. Gerðardómi er óheimilt að gefa upp hverjir gerðarmanna standa að meirihluta- eða minnihlutaáliti gerðardómsins.

Grein 9.6.
Skýrslur gerðardóms.

1.     Almenna reglan er sú að gerðardómurinn skuli, eigi síðar en 90 dögum eftir stofnun hans, leggja fyrir deiluaðila frumskýrslu með niðurstöðum sínum og úrskurði. Þó skal það aldrei dragast lengur en í fimm mánuði frá stofndegi. Deiluaðila er heimilt að leggja skriflegar athugasemdir fyrir gerðardóminn um frumskýrslu hans innan 14 daga frá því að skýrslunni er veitt viðtaka. Gerðardómurinn skal afhenda deiluaðilum lokaskýrslu innan 30 daga frá því að þeir veittu fumskýrslunni viðtöku.

2.     Senda skal samningsaðilunum lokaskýrsluna, ásamt sérhverjum úrskurði samkvæmt greinum 9.8 og 9.9. Birta skal skýrslurnar opinberlega, nema deiluaðilar ákveði annað.
3.     Úrskurður gerðardóms, samkvæmt ákvæðum þessa kafla, er endanlegur og bindandi fyrir deiluaðila.

Grein 9.7.
Málsmeðferð fyrir gerðardómi frestað eða hætt.

1.     Gerðardómi er heimilt, séu deiluaðilar því samþykkir, að gera, hvenær sem er, tímabundið hlé á störfum sínum í allt að 12 mánuði. Hafi störfum gerðardóms verið frestað lengur en 12 mánuði skal heimild hans til að fjalla um deilumálið falla niður nema deiluaðilar verði ásáttir um annað.

2.     Samningsaðila, sem leggur fram kvörtun, er heimilt að draga umkvörtun sína til baka hvenær sem er áður en lokaskýrsla er gefin út. Slíkt hefur þó ekki áhrif á rétt hans til að leggja fram nýja kvörtun síðar vegna sama máls.
3.     Deiluaðilar geta, hvenær sem er, komið sér saman um að hætta málsmeðferð fyrir gerðardómi, sem er komið á fót samkvæmt þessum samningi, með því að tilkynna formanni gerðardóms sameiginlega um það.
4.     Gerðardómur getur, á hvaða stigi málsmeðferðar sem er og áður en lokaskýrslan er gefin út, lagt til að deiluaðilar geri tilraun til að leysa deilumálið í vinsemd.

Grein 9.8.
Framkvæmd efnisatriða lokaskýrslu gerðardóms.

1.     Viðkomandi samningsaðili skal hlíta úrskurði gerðardóms án tafar. Ef ekki reynist unnt að hlíta úrskurði gerðardóms þegar í stað skulu deiluaðilar leitast við að semja um hæfilegan frest til þess. Verði slíkt samkomulag ekki gert innan 30 daga frá þeim degi er lokaskýrslan var gefin út er hvorum deiluaðila sem er heimilt að óska eftir því við upphaflega gerðardóminn að hann ákvarði hæfilegan frest í ljósi sérstakra málsatvika. Úrskurður gerðardóms ætti að liggja fyrir innan 30 daga frá því að fyrrnefnd beiðni er lögð fram.

2.     Viðkomandi deiluaðili skal tilkynna gagnaðila um þá ráðstöfun sem gerð hefur verið til þess að fullnægja skilyrðum úrskurðar gerðardómsins, jafnframt því að gefa nákvæma lýsingu á því hvernig sú ráðstöfun fullnægir fyrrnefndum skilyrðum þannig að nægi til þess að gagnaðilinn geti lagt mat á ráðstöfunina.
3.     Komi upp ágreiningur um hvort ráðstöfun hafi verið gerð til þess að fullnægja skilyrðum úrskurðar gerðardómsins eða hvort fyrrnefnd ráðstöfun sé í samræmi við úrskurðinn skal sami gerðardómur útkljá deilu af þeim toga áður en bætur verða sóttar eða unnt er að fresta ávinningi skv. grein 9.9. Úrskurður gerðardóms skal, að öllu jöfnu, liggja fyrir innan 90 daga.


Grein 9.9.
Bætur og ávinningi frestað.

1.     Fullnægi viðkomandi deiluaðili ekki þeim úrskurði er fram kemur í lokaskýrslunni innan eðlilegra tímamarka, eins og mælt er fyrir um í 1. mgr. greinar 9.8, skal sá aðili að deilunni, að fram kominni beiðni kæranda, ganga til samráðs í því skyni að gera samkomulag um bætur sem báðir deiluaðilar geta sætt sig við. Náist ekki samkomulag innan 20 daga frá því að beiðnin var lögð fram er kæranda heimilt að fresta þeim ávinningi sem hlýst af þessum samningi, en aðeins ávinningi til jafns við þann sem leiðir af þeirri ráðstöfun eða máli sem gerðardómur hefur úrskurðað að samræmist ekki ákvæðum þessa samnings.
2.     Kærandi ætti fyrst, er hann íhugar hvaða ávinningi beri að fresta, að gera sér far um að fresta ávinningi í sama geira eða geirum og sú ráðstöfun eða mál sem gerðardómur hefur úrskurðað að samræmist ekki ákvæðum þessa samnings hafði áhrif innan. Kærandi, sem telur það hvorki gerlegt né vænlegt til árangurs að fresta ávinningi í sama geira, getur frestað ávinningi innan annars geira.
3.     Kærandi skal tilkynna gagnaðila að deilunni um þann ávinning sem hann hyggst fresta, um ástæður frestunar og hvenær frestun tekur gildi, eigi síðar en 30 dögum fyrir þann dag er frestunin á að koma til framkvæmda. Samningsaðili, sem kvörtun beinist gegn, getur farið þess á leit við upphaflega gerðardóminn, innan 15 daga frá tilkynningunni, að hann felli úrskurð um það hvort ávinningur, sem kærandi hyggst fresta, sé jafngildur þeim ávinningi sem hlýst af þeirri ráðstöfun sem komið hefur í ljós að samræmist ekki ákvæðum þessa samnings og hvort fyrirhuguð frestun sé í samræmi við ákvæði 1. og 2. mgr. Úrskurður gerðardóms skal liggja fyrir innan 45 daga frá því að slík beiðni er lögð fram. Eigi skal fresta ávinningi fyrr en gerðardómur hefur fellt úrskurð sinn.
4.     Bætur og frestun ávinnings skulu vera tímabundnar ráðstafanir sem kærandi beitir einungis uns ráðstöfunin, sem komið hefur í ljós að samræmist ekki ákvæðum þessa samnings, hefur verið dregin til baka eða henni breytt þannig að hún sé í samræmi við þennan samning eða uns deiluaðilar hafa leyst deiluna með öðrum hætti.
5.     Upphaflegi gerðardómurinn skal, að beiðni deiluaðila, fella úrskurð um það hvort ráðstafanir til efnda, sem eru samþykktar eftir að ávinningi er frestað, séu í samræmi við lokaskýrsluna og hvort rétt sé að aflétta eða breyta frestun ávinnings á grundvelli úrskurðarins. Gerðardómur skal fella úrskurð innan 30 daga frá dagsetningu beiðninnar.


Grein 9.10.
Önnur ákvæði.

1.     Sömu gerðarmenn og gáfu út lokaskýrsluna skulu sitja í gerðardómnum, er um getur í grein 9,8 og 9.9, verði því komið við. Ef gerðarmaður úr upphaflega gerðardómnum er ekki til taks skal skipa gerðarmann í hans stað eftir þeirri aðferð sem var beitt við val upphaflega gerðarmannsins.

2.     Fresti, sem getið er í þessum kafla, er heimilt að breyta með gagnkvæmu samkomulagi hlutaðeigandi samningsaðila.

10. KAFLI
LOKAÁKVÆÐI

Grein 10.1.
Uppfylling skuldbindinga.

    Samningsaðilarnir skulu gera allar almennar eða sértækar ráðstafanir til að efna skuldbindingar sínar samkvæmt þessum samningi.

Grein 10.2.
Viðaukar, bókanir og viðbætar.

    Viðaukar og bókanir við samning þennan, að meðtöldum viðbætum, eru óaðskiljanlegur hluti hans.

Grein 10.3.
Þróunarákvæði.

    Samningsaðilarnir skulu endurskoða þennan samning á vettvangi sameiginlegu nefndarinnar, innan þriggja ára frá gildistöku hans, í ljósi frekari þróunar efnahagstengsla á alþjóðavettvangi, meðal annars innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og á vettvangi fríverslunarviðskipta við þriðju lönd, og kanna þann kost að þróa og auka samstarf sín á milli samkvæmt samningi þessum. Að fyrstu endurskoðun lokinni skal taka mál þessi til skoðunar annað hvert ár innan sameiginlegu nefndarinnar, að teknu tilhlýðilegu tilliti til sérákvæða í þessum samningi um frekara frjálsræði eða endurskoðun.

Grein 10.4.
Sjálfbær þróun.

    Samningsaðilarnir skulu endurskoða þennan samning á vettvangi sameiginlegu nefndarinnar, innan þriggja ára frá gildistöku hans, í ljósi þróunar verslunarviðskipta og sjálfbærrar þróunar.


Grein 10.5.
Breytingar.

1.     Samningsaðilum er heimilt að koma sér saman um breytingar á samningi þessum. Breytingar á samningi þessum, aðrar en þær er um getur í 7. mgr. 8. gr., skal senda samningsaðilunum til fullgildingar, staðfestingar eða samþykkis, að undangenginni umfjöllun sameiginlegu nefndarinnar.
2.     Breytingarnar öðlast gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir að síðasta skjalið um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki hefur verið afhent til vörslu, nema samningsaðilarnir ákveði annað.
3.     Texta breytinga og skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki skal afhenda vörsluaðila til vörslu.

Grein 10.6.
Aðild.

1.     Sérhvert ríki, sem gerist aðili að Fríverslunarsamtökum Evrópu, getur gerst aðili að samningi þessum, svo fremi að sameiginlega nefndin samþykki aðild þess með þeim kjörum og skilyrðum sem þessi ríki og samningsaðilarnir verða ásátt um. Skjal um aðild skal afhenda vörsluaðila til vörslu.
2.     Að því er varðar inngönguríki skal samningurinn öðlast gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir að aðildarskjal þess hefur verið afhent til vörslu eða þeir samningsaðilar sem fyrir eru hafa samþykkt aðildarskilmála, hvort sem síðar verður.

Grein 10.7.
Uppsögn og samningslok.

1.     Hver samningsaðili getur sagt sig frá samningi þessum með því að tilkynna vörsluaðila það skriflega. Úrsögn tekur gildi sex mánuðum eftir að vörsluaðili veitir tilkynningunni viðtöku.

2.     Ef Úkraína segir sig frá samningnum telst hann útrunninn þegar úrsögn tekur gildi.
3.     Ef EFTA-ríki segir sig frá samningnum um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu fellur aðild þess að samningi þessum niður af þeim sökum sama dag og úrsögnin tekur gildi.


Grein 10.8.
Gildistaka.

1.     Samningur þessi er með fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki í samræmi við stjórnskipuleg skilyrði hvers samningsaðila um sig. Skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki skulu afhent vörsluaðila til vörslu.
2.     Samningur þessi öðlast gildi fyrsta dag þriðja mánaðar eftir að Úkraína og a.m.k. eitt EFTA-ríki hafa afhent vörsluaðila skjöl sín um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki til vörslu.

3.     Þegar um ræðir EFTA-ríki, sem afhendir skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki til vörslu eftir að samningur þessi hefur öðlast gildi, skal samningur þessi öðlast gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir að skjal þess um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki hefur verið afhent til vörslu.
4.     Samningur þessi öðlast ekki gildi milli EFTA- ríkis og Úkraínu nema viðbótarsamningur um landbúnaðarmál milli þess og Úkraínu öðlist jafnframt gildi. Samningurinn heldur gildi sínu eins lengi og viðbótarsamningurinn heldur gildi sínu milli fyrrnefndra samningsaðila.


Grein 10.9.
Vörsluaðili.

    Ríkisstjórn Noregs skal vera vörsluaðili.


ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirrituð, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

Gjört í Reykjavík 24. júní 2010 í einu frumriti. Vörsluaðili skal senda öllum samningsaðilunum staðfest endurrit.

Fyrir hönd Íslands          Fyrir hönd Úkraínu

__________________     __________________

Fyrir hönd Furstadæmisins Liechtensteins

__________________

Fyrir hönd Konungsríkisins Noregs

__________________

Fyrir hönd Ríkjasambandsins Sviss

__________________


FREE TRADE AGREEMENT
BETWEEN
THE EFTA STATES
AND
UKRAINE


PREAMBLE


Iceland, the Principality of Liechtenstein, the Kingdom of Norway, the Swiss Confederation (hereinafter referred to as the “EFTA States”), on the one part,

and Ukraine, on the other,

hereinafter each individual State referred to as “a Party” or collectively referred to as “the Parties”:

RECOGNISING the common wish to strengthen the links between the EFTA States on the one part and Ukraine on the other by establishing close and lasting relations;

RECALLING their intention to participate actively in the process of economic integration and expressing their preparedness to cooperate in seeking ways and means to strengthen this process;

REAFFIRMING their commitment to democracy, human rights and fundamental political and economic freedoms in accordance with their obligations under international law, including principles and objectives set out in the United Nations Charter and the Universal Declaration of Human Rights;

REAFFIRMING their commitment to economic and social development, the protection of health and safety, and the respect for the fundamental rights of workers, including the principles set out in the relevant International Labour Organisation (ILO) Conventions;

AIMING to create new employment opportunities, and improve health and living standards in their respective territories;

DESIRING to create favourable conditions for the development and diversification of trade between them and for the promotion of commercial and economic cooperation in areas of common interest on the basis of equality, mutual benefit, non-discrimination and international law;

RECOGNISING the importance of trade facilitation in promoting efficient and transparent procedures to reduce costs and to ensure predictability for the trading communities of the Parties;


DETERMINED to promote and further strengthen the multilateral trading system, building on their respective rights and obligations under the Marrakesh Agreement establishing the World Trade Organisation (hereinafter referred to as “the WTO”) and the other agreements negotiated thereunder, thereby contributing to the harmonious development and expansion of world trade;

DETERMINED to implement this Agreement with the objectives to preserve and protect the environment and to ensure the use of natural resources in accordance with the objective of sustainable development;

AFFIRMING their commitment to the rule of law, to prevent and combat corruption in international trade and investment and to promote the principles of transparency and good governance;


ACKNOWLEDGING the significance of responsible corporate conduct and its contribution to sustainable economic development and affirming their support to efforts for the promotion of relevant international standards;

CONVINCED that this Agreement will enhance the competitiveness of their firms in global markets and create conditions encouraging economic, trade and investment relations between them;


HAVE DECIDED, in pursuit of the above, to conclude the following Agreement (hereinafter referred to as “this Agreement”):

CHAPTER 1
GENERAL PROVISIONS

Article 1.1
Objectives

1.     The Parties hereby establish a free trade area by means of this Agreement and the complementary agreements on agriculture, concurrently concluded between Ukraine and each individual EFTA State.
2.     The objectives of this Agreement, which is based on trade relations between market economies, are:
(a)    to achieve the liberalisation of trade in goods, in conformity with Article XXIV of the General Agreement on Tariffs and Trade 1994 (hereinafter referred to as the “GATT 1994”);
(b)    to achieve the liberalisation of trade in services, in conformity with Article V of the General Agreement on Trade in Services (hereinafter referred to as the “GATS”);
(c)    to substantially increase investment opportunities in the free trade area;
(d)    to achieve further liberalisation on a mutual basis of the government procurement markets of the Parties;
(e)    to promote competition in their economies, particularly as it relates to economic relations between the Parties;
(f)    to ensure adequate and effective protection of intellectual property rights; and
(g)    to contribute, by the removal of barriers to trade and investment, to the harmonious development and expansion of world trade.

Article 1.2
Trade Relations Governed by this Agreement

1.     This Agreement shall apply to trade relations between, on the one side, the individual EFTA States and, on the other side, Ukraine, but not to the trade relations between individual EFTA States, unless otherwise provided for in this Agreement.
2.     As a result of the customs union established by the Treaty of 29 March 1923 between Switzerland and the Principality of Liechtenstein, Switzerland shall represent the Principality of Liechtenstein in matters covered thereby.

Article 1.3
Relation to Other International Agreements

1.     The Parties confirm their rights and obligations under the Marrakesh Agreement establishing the WTO, the other agreements negotiated under the WTO to which they are a party, and any other international agreement to which they are a party.
2.     This Agreement shall not preclude the maintenance or establishment of customs unions, free trade areas, arrangements for frontier trade and other preferential agreements insofar as they do not have the effect of altering the trade arrangements provided for in this Agreement.
3.     When a Party enters into a customs union or free trade agreement with a third party it shall, upon request by any other Party, be prepared to enter into consultations with the requesting Party.

Article 1.4
Territorial Application

1.     Without prejudice to the Protocol on Rules of Origin, this Agreement shall apply:
(a)    to the land territory, internal waters, and the territorial sea of a Party, and the air-space above the territory of a Party, in accordance with international law; as well as
(b)    beyond the territorial sea, with respect to measures taken by a Party in the exercise of its sovereign right or jurisdiction in accordance with international law.
2.     This Agreement shall not apply to the Norwegian territory of Svalbard, with the exception of trade in goods.

Article 1.5
Central, Regional and Local Government

    Each Party shall ensure within its territory the observance of all obligations and commitments under this Agreement by its respective central, regional and local governments and authorities, and by non-governmental bodies in the exercise of governmental powers delegated to them by central, regional and local governments or authorities.

Article 1.6
Transparency

1.     The Parties shall publish or otherwise make publicly available their laws, regulations, judicial decisions, administrative rulings of general application and their respective international agreements that may affect the operation of this Agreement.

2.     The Parties shall promptly respond to specific questions and provide, upon request, information to each other on matters referred to in paragraph 1. They are not required to disclose confidential information.

CHAPTER 2
TRADE IN GOODS

Article 2.1
Scope

1.     This Chapter applies to the following products traded between the Parties:
(a)    all products classified under Chapters 25 to 97 of the Harmonized Commodity Description and Coding System (HS), excluding the products listed in Annex I;

(b)    processed agricultural products specified in Annex II, with due regard to the arrangements provided for in that Annex; and
(c)    fish and other marine products as provided for in Annex III.
2.     Ukraine and each EFTA State have concluded agreements on trade in agricultural products on a bilateral basis. These agreements form part of the instruments establishing a free trade area between the EFTA States and Ukraine.

Article 2.2
Rules of Origin and Methods of Administrative Cooperation

    The Protocol on Rules of Origin lays down the rules of origin and methods of administrative cooperation.

Article 2.3
Customs Duties on Imports

1.     Upon entry into force of this Agreement, the Parties shall abolish all customs duties on imports of products originating in an EFTA State or in Ukraine covered by paragraph 1 of Article 2.1, except as otherwise provided for in Annex IV. No new customs duties on imports shall be introduced.
2.     A customs duty includes any duty or charge of any kind imposed in connection with the importation or exportation of a product, including any form of surtax or surcharge in connection with such importation or exportation, but does not include any charge imposed in conformity with Articles III and VIII of the GATT 1994.

Article 2.4
Customs Duties on Exports

1.     Upon entry into force of this Agreement, the Parties shall eliminate customs duties on exports of products covered by paragraph 1 of Article 2.1 to the other Parties; except as provided for in paragraph 2 of this Article. No new customs duties on exports shall be introduced on products exported from the customs territory of one Party into the customs territory of another Party.
2.     Customs duties on exports to the EFTA States of products originating in Ukraine shall be gradually reduced in accordance with the commitments of Ukraine within the WTO.
3.     If, after the entry into force of this Agreement, Ukraine lowers or eliminates its duties on exports to the European Union, it shall accord to the EFTA States no less favourable treatment.
4.     A customs duty on exports includes any duty or charge of any kind imposed in connection with the exportation of a product, including any form of surtax or surcharge in connection with such exportation, but does not include any charge imposed in conformity with Articles VIII of the GATT 1994.

Article 2.5
Basic Duties

1.     The basic duty, to which the successive reductions set out in this Agreement are to be applied for imports between the Parties, shall be the most- favoured-nation (hereinafter referred to as the “MFN”) rate of duty applied on 1 January 2009.
2.     If before, by or after entry into force of this Agreement, any tariff reduction is applied on an erga omnes basis, such reduced duties shall replace the basic duties referred to in paragraph 1 as from the date when such reductions are applied, or from the entry into force of this Agreement, if this is later.
3.     Reduced duties calculated in accordance with paragraph 1 of this Article shall be applied rounded to the first decimal place or, in the case of specific duties, to the second decimal place.

Article 2.6
Import and Export Restrictions

    The rights and obligations of the Parties in respect of export and import restrictions shall be governed by Article XI of the GATT 1994, which is hereby incorporated into and made part of this Agreement.

Article 2.7
Internal Taxation and Regulations

1.     The Parties commit themselves to apply any internal taxes and other charges and regulations in accordance with Article III of the GATT 1994 and other relevant WTO Agreements.

2.     Exporters may not benefit from repayment of internal taxes in excess of the amount of indirect taxation imposed on products exported to the territory of one of the Parties.

Article 2.8
Sanitary and Phytosanitary Measures

1.     The rights and obligations of the Parties in respect of sanitary and phytosanitary measures shall be governed by the WTO Agreement on the Application of Sanitary and Phytosanitary Measures.

2.     The Parties shall exchange names and addresses of contact points with sanitary and phytosanitary expertise in order to facilitate communication and the exchange of information.

Article 2.9
Technical Regulations

1.     The rights and obligations of the Parties in respect of technical regulations, standards and conformity assessment shall be governed by the WTO Agreement on Technical Barriers to Trade (hereinafter referred to as “the TBT Agreement”).

2.     Without prejudice to paragraph 1, the Parties agree to hold consultations where a Party considers that another Party has taken measures not in conformity with the TBT Agreement which are likely to create, or have created, an obstacle to trade, in order to find an appropriate solution in conformity with the TBT Agreement.


Article 2.10
Trade Facilitation

    To facilitate trade between the EFTA States and Ukraine, the Parties shall:
(a)    simplify, to the greatest extent possible, procedures for trade in goods and related services;
(b)    promote the cooperation of the Parties in multilateral fora in order to enhance their participation in the development and implementation of international conventions and recommendations on trade facilitation; and
(c)    cooperate on trade facilitation within the framework of the Joint Committee,
in accordance with the provisions set out in Annex V.

Article 2.11
Sub-Committee on Rules of Origin, Customs Pro-cedures and Trade Facilitation

1.     With reference to Articles 2.2 and 2.10, a Sub- Committee of the Joint Committee on Rules of Origin, Customs Procedures and Trade Facilitation (hereinafter referred to as “the Sub-Committee”) is hereby established.
2.     The mandate of the Sub-Committee is set out in Annex VI.

Article 2.12
State Trading Enterprises

    The rights and obligations of the Parties in respect of state trading enterprises shall be governed by Article XVII of the GATT 1994 and the Understanding on the Interpretation of Article XVII of the GATT 1994, which are hereby incorporated into and made part of this Agreement.

Article 2.13
Subsidies and Countervailing Measures

1.     The rights and obligations of the Parties relating to subsidies and countervailing measures shall be governed by Articles VI and XVI of the GATT 1994 and the WTO Agreement on Subsidies and Countervailing Measures, except as provided for in paragraph 2.
2.     Before an EFTA State or Ukraine, as the case may be, initiates an investigation to determine the existence, degree and effect of any alleged subsidy in Ukraine or in an EFTA State, as provided for in Article 11 of the WTO Agreement on Subsidies and Countervailing Measures, the Party considering initiating an investigation shall notify in writing the Party whose goods are subject to investigation and allow for a 60 day period with a view to finding a mutually acceptable solution. The consultations shall take place in the Joint Committee if any Party so requests within 30 days from the receipt of the notification.


Article 2.14
Anti-Dumping

1.     A Party shall not apply anti-dumping measures, as provided for under Article VI of the GATT 1994 and the WTO Agreement on Implementation of Article VI of the GATT 1994 in relation to products originating in another Party.

2.     Five years after the date of entry into force of this Agreement, the Parties may in the Joint Committee review the operation of paragraph 1. Thereafter the Parties may conduct biennial reviews of this matter in the Joint Committee.


Article 2.15
Global Safeguard Measures

    This Agreement does not confer any additional rights or impose any additional obligations on the Parties with regard to actions taken pursuant to Article XIX of GATT 1994 and the WTO Agreement on Safeguards, except that a Party taking a safeguard measure under Article XIX of GATT 1994 and the WTO Agreement on Safeguards shall, to the extent consistent with the obligations under the WTO Agreements, exclude imports of an originating good from another Party if such imports are not a substantial cause of serious injury or threat thereof.

Article 2.16
Bilateral Safeguard Measures

1.     Where, as a result of the reduction or elimination of a customs duty under this Agreement, any product originating in a Party is being imported into the territory of another Party in such increased quantities, in absolute terms or relative to domestic production, and under such conditions as to constitute a substantial cause of serious injury or threat thereof to the domestic industry of like or directly competitive products in the territory of the importing Party, the importing Party may take bilateral safeguard measures to the minimum extent necessary to remedy or prevent the injury, subject to the provisions of paragraphs 2 to 10.

2.     Bilateral safeguard measures shall only be taken upon clear evidence that increased imports have caused or are threatening to cause serious injury pursuant to an investigation in accordance with the procedures laid down in Articles 3 and 4 of the WTO Agreement on Safeguards.

3.     The Party intending to take a bilateral safeguard measure under this Article shall immediately, and in any case before taking a measure, make notification to the other Parties. The notification shall contain all pertinent information, which shall include evidence of serious injury or threat thereof caused by increased imports, a precise description of the product involved and the proposed measure, as well as the proposed date of introduction, expected duration and timetable for the progressive removal of the measure. A Party that may be affected by the bilateral safeguard measure shall be offered compensation in the form of substantially equivalent trade liberalisation in relation to the imports from any such Party.

4.     If the conditions set out in paragraph 1 are met, the importing Party may take measures consisting in:
(a)    suspending the further reduction of any rate of customs duty provided for under this Agreement for the product; or
(b)    increasing the rate of customs duty for the product to a level not to exceed the lesser of:

    (i)    the MFN rate of duty applied at the time the action is taken; or
    (ii)    the MFN rate of duty applied on the day immediately preceding the date of the entry into force of this Agreement.
5.     Bilateral safeguard measures shall be taken for a period not exceeding one year. In very exceptional circumstances, after review by the Joint Committee, measures may be taken up to a total maximum period of three years. No bilateral safeguard measures shall be applied to the import of a product which has previously been subject to such a measure.
6.     The Joint Committee shall, within 30 days from the date of notification, examine the information provided under paragraph 3 in order to facilitate a mutually acceptable resolution of the matter. In the absence of such resolution, the importing Party may adopt a measure pursuant to paragraph 4 to remedy the problem, and, in the absence of mutually agreed compensation, the Party against whose product the measure is taken may take compensatory action. The bilateral safeguard measure and the compensatory action shall be immediately notified to the other Parties. In the selection of the bilateral safeguard measure and the compensatory action, priority must be given to the measure which least disturbs the functioning of this Agreement. The compensatory action shall normally consist of suspension of concessions having substantially equivalent trade effects or concessions substantially equivalent to the value of the additional duties expected to result from the bilateral safeguard measure. The Party taking compensatory action shall apply the action only for the minimum period necessary to achieve the substantially equivalent trade effects and in any event, only while the bilateral safeguard measure under paragraph 4 is being applied.
7.     Upon the termination of the bilateral safeguard measure, the rate of customs duty shall be the rate which would have been in effect but for the measure.
8.     In critical circumstances, where delay in the introduction of a bilateral safeguard measure in accordance with this Article would cause damage which would be difficult to repair, a Party may take a provisional bilateral safeguard measure pursuant to a preliminary determination that there is clear evidence that increased imports constitute a substantial cause of serious injury, or threat thereof, to the domestic industry. The Party intending to take such a measure shall immediately notify the other Parties thereof. Within 30 days of the date of the notification, the procedures set out in paragraphs 2 to 6, including for compensatory action, shall be initiated. Any compensation shall be based on the total period of application of the provisional bilateral safeguard measure and of the bilateral safeguard measure.
9.     Any provisional bilateral safeguard measure shall be terminated within 200 days at the latest. The period of application of any such provisional bilateral safeguard measure shall be counted as part of the duration of the bilateral safeguard measure set out in paragraph 5 and any extension thereof. Any tariff increases shall be promptly refunded if the investigation described in paragraph 2 does not result in a finding that the conditions of paragraph 1 are met.
10.     Five years after the date of entry into force of this Agreement, the Parties shall review in the Joint Committee whether there is need to maintain the possibility to take bilateral safeguard measures between them. If the Parties decide, after the first review, to maintain such possibility, they shall thereafter conduct biennial reviews of this matter in the Joint Committee.

Article 2.17
General Exceptions

    The rights and obligations of the Parties in respect of general exceptions shall be governed by Article XX of the GATT 1994, which is hereby incorporated into and made part of this Agreement.

Article 2.18
Security Exceptions

    The rights and obligations of the Parties in respect of security exceptions shall be governed by Article XXI of the GATT 1994, which is hereby incorporated into and made part of this Agreement.


Article 2.19
Balance-of-Payments

1.     The Parties shall endeavour to avoid the imposition of restrictive measures for balance of payments purposes.
2.     A Party in serious balance of payments difficulties, or under imminent threat thereof, may, in accordance with the conditions established under the GATT 1994 and the WTO Understanding on the Balance of Payments Provisions of the GATT 1994, adopt trade restrictive measures, which shall be of limited duration and non-discriminatory, and may not go beyond what is necessary to remedy the balance of payments situation.

3.     The Party introducing a measure under this Article shall promptly notify the other Parties thereof.


CHAPTER 3
TRADE IN SERVICES

Article 3.1
Scope and Coverage

1.     This Chapter applies to measures by Parties affecting trade in services. It applies to all services sectors.
2.     In respect of air transport services, this Chapter shall not apply to measures affecting air traffic rights or measures affecting services directly related to the exercise of air traffic rights, except as provided for in paragraph 3 of the GATS Annex on Air Transport Services. The definitions of paragraph 6 of the GATS Annex on Air Transport Services are hereby incorporated and made part of this Chapter.

3.     Articles 3.4, 3.5 and 3.6 shall not apply to laws, regulations or requirements governing the procurement by governmental agencies of services purchased for governmental purposes and not with a view to commercial resale or with a view to use in the supply of services for commercial sale.

Article 3.2
Incorporation of Provisions from the GATS

    Wherever a provision of this Chapter provides that a provision of the GATS is incorporated into and made part of this Chapter, the meaning of the terms used in the GATS provision shall be understood as follows:
(a)    “Member” means Party;
(b)    “Schedule” means a Schedule referred to in Article 3.17 and contained in Annex VII; and
(c)    “specific commitment” means a specific commitment in a Schedule referred to in Article 3.17.

Article 3.3
Definitions

    For the purpose of this Chapter:
(a)    the following definitions of Article I of the GATS are incorporated into and made part of this Agreement:
    (i)    “trade in services”;
    (ii)    “services”; and
    (iii)    “a service supplied in the exercise of governmental authority”;
(b)    “measures by Parties” means measures taken by the Parties as defined in Article I paragraph 3 (a) (i) and (ii) of the GATS;

(c)    “service supplier” means any person that supplies, or seeks to supply, a service; 1

(d)    “natural person of another Party” means a natural person who, under the legislation of that other Party, is:
    (i)    a national of that other Party who resides in the territory of any WTO Member; or

    (ii)    a permanent resident of that other Party who resides in the territory of any Party, if that other Party accords substantially the same treatment to its permanent residents as to its nationals in respect of measures affecting trade in services. For the purpose of the supply of a service through presence of natural persons (Mode 4), this definition covers a permanent resident of that other Party who resides in the territory of any Party or in the territory of any WTO Member;



(e)    “juridical person of another Party” means a juridical person which is either:
    (i)    constituted or otherwise organised under the law of that other Party, and is engaged in substantive business operations in the territory of:
         (aa)    any Party; or
         (bb)    any Member of the WTO and is owned or controlled by natural persons of that other Party or by juridical persons that meet all the conditions of subparagraph (i) (aa);
         or
    (ii)    in the case of the supply of a service through commercial presence, owned or controlled by:
         (aa)    natural persons of that other Party; or

         (bb)    juridical persons of that other Party identified under subparagraph (e) (i);


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


1      Where the service is not supplied or sought to be supplied directly by a juridical person but through other forms of commercial presence such as a branch or a representative office, the service supplier (i.e. the juridical person) shall, nonetheless, through such commercial presence be accorded the treatment provided for service suppliers under this Chapter. Such treatment shall be extended to the commercial presence through which the service is supplied or sought to be supplied and need not be extended to any other parts of the service supplier located outside the territory where the service is supplied or sought to be supplied.

(f)    the following definitions of Article XXVIII of the GATS are hereby incorporated into and made part of this Chapter:
    (i)    “measure”;
    (ii)    “supply of a service”;
    (iii)    “measures by Members affecting trade in services”;
    (iv)    “commercial presence”;
    (v)    “sector” of a service;
    (vi)    “service of another Member”;
    (vii)    “monopoly supplier of a service”;


    (viii)    “service consumer”;
    (ix)    “person”;
    (x)    “juridical person”;
    (xi)    “owned”, “controlled” and “affiliated”; and
    (xii)    “direct taxes”.

Article 3.4
Most-Favoured-Nation Treatment

1.     Without prejudice to measures taken in accordance with Article VII of the GATS, and except as provided for in its List of MFN Exemptions contained in Annex VIII, a Party shall accord immediately and unconditionally, in respect of all measures affecting the supply of services, to services and service suppliers of another Party treatment no less favourable than the treatment it accords to like services and service suppliers of any non-party.

2.     Treatment granted under other existing or future agreements concluded by one of the Parties and notified under Article V or Article V bis of the GATS shall not be subject to paragraph 1.
3.     If a Party concludes or amends an agreement of the type referred to in paragraph 2, it shall notify the other Parties without delay and endeavour to accord to the other Parties treatment no less favourable than that provided under that agreement. The former Party shall, upon request by any other Party, negotiate the incorporation into this Agreement of a treatment no less favourable than that provided under the former agreement.

4.     The rights and obligations of the Parties in respect of advantages accorded to adjacent countries shall be governed by paragraph 3 of Article II of the GATS, which is hereby incorporated into and made part of this Chapter.

Article 3.5
Market Access

    Commitments on market access shall be governed by Article XVI of the GATS, which is hereby incorporated into and made part of this Chapter.

Article 3.6
National Treatment

    Commitments on national treatment shall be governed by Article XVII of the GATS, which is hereby incorporated into and made part of this Chapter.

Article 3.7
Additional Commitments

    Additional commitments shall be governed by Article XVIII of the GATS, which is hereby incorporated into and made part of this Chapter.

Article 3.8
Domestic Regulation

1.     Each Party shall ensure that all measures of general application affecting trade in services are administered in a reasonable, objective and impartial manner.
2.     Each Party shall maintain or institute as soon as practicable judicial, arbitral or administrative tribunals or procedures which provide, at the request of an affected service supplier of another Party, for the prompt review of, and where justified, appropriate remedies for, administrative decisions affecting trade in services. Where such procedures are not independent of the agency entrusted with the administrative decision concerned, the Party shall ensure that the procedures in fact provide for an objective and impartial review.

3.     Where authorisation is required by a Party for the supply of a service, the competent authorities of that Party shall, within a reasonable period of time after the submission of an application is considered complete under that Party's domestic laws and regulations, inform the applicant of the decision concerning the application. At the request of the applicant, the competent authorities of that Party shall provide, without undue delay, information concerning the status of the application.
4.     Each Party shall provide for adequate procedures to verify the competence of professionals of any other Party.

Article 3.9
Recognition

1.     For the purpose of the fulfilment of its relevant standards or criteria for the authorisation, licensing or certification of service suppliers, each Party shall give due consideration to any requests by another Party to recognise the education or experience obtained, requirements met, or licences or certifications granted in that other Party. Such recognition may be based upon an agreement or arrangement with that other Party, or otherwise be accorded autonomously.

2.     Where a Party recognises, by agreement or arrangement, the education or experience obtained, requirements met, or licences or certifications granted, in the territory of a non-party, that Party shall afford another Party adequate opportunity to negotiate its accession to such an agreement or arrangement, whether existing or future, or to negotiate a comparable agreement or arrangement with it. Where a Party accords recognition autonomously, it shall afford adequate opportunity for another Party to demonstrate that the education or experience obtained, requirements met, or licences or certifications granted in the territory of that other Party should also be recognised.

3.     Any such agreement or arrangement or autonomous recognition shall be in conformity with the relevant provisions of the WTO Agreement, in particular paragraph 3 of Article VII of the GATS.

Article 3.10
Movement of Natural Persons

1.     This Article applies to measures affecting natural persons who are service suppliers of a Party, and natural persons of a Party who are employed by a service supplier of a Party, in respect of the supply of a service.
2.     This Chapter shall not apply to measures affecting natural persons seeking access to the employment market of a Party, nor shall it apply to measures regarding nationality, residence or employment on a permanent basis.
3.     Natural persons covered by a specific commitment shall be allowed to supply the service in accordance with the terms of that commitment.
4.     This Chapter shall not prevent a Party from applying measures to regulate the entry of natural persons of another Party into, or their temporary stay in, its territory, including those measures necessary to protect the integrity of, and to ensure the orderly movement of natural persons across, its borders, provided that such measures are not applied in such a manner as to nullify or impair the benefits accru ing to any Party under the terms of a specific commitment. 2

Article 3.11
Transparency

    The rights and obligations of the Parties in respect of transparency shall be governed by paragraphs 1 and 2 of Article III and by Article III bis of the GATS, which are hereby incorporated into and made part of this Chapter.

Article 3.12
Monopolies and Exclusive Service Suppliers

    The rights and obligations of the Parties in respect of monopolies and exclusive service suppliers shall be governed by paragraphs 1, 2 and 5 of Article VIII of the GATS, which are hereby incorporated into and made part of this Chapter.

Article 3.13
Business Practices

    The rights and obligations of the Parties in respect of business practices shall be governed by Article IX of the GATS, which is hereby incorporated into and made part of this Chapter.

Article 3.14
Payments and Transfers

1.     Except under the circumstances envisaged in Article 3.15, a Party shall not apply restrictions on international transfers and payments for current transactions with another Party.
2.     Nothing in this Chapter shall affect the rights and obligations of the Parties under the Articles of the Agreement of the International Monetary Fund (hereinafter referred to as the “IMF”), including the use of exchange actions which are in conformity with the Articles of the Agreement of the IMF, provided that a Party shall not impose restrictions on capital transactions inconsistently with its specific commitments regarding such transactions, except under Article 3.15 or at the request of the IMF.

Article 3.15
Restrictions to Safeguard the Balance of Payments

1.     The Parties shall endeavour to avoid the imposition of restrictions to safeguard the balance of payments.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


2      The sole fact of requiring a visa for natural persons shall not be regarded as nullifying or impairing benefits under a specific commitment.
2.     Any restriction to safeguard the balance of payments adopted or maintained by a Party under and in conformity with Article XII of the GATS shall apply under this Chapter.

Article 3.16
Exceptions

    The rights and obligations of the Parties in respect of general exceptions and security exceptions shall be governed by Article XIV and paragraph 1 of Article XIV bis of the GATS, which are hereby incorporated into and made part of this Chapter.


Article 3.17
Schedules of Specific Commitments

1.     Each Party shall set out in a schedule the specific commitments it undertakes under Articles 3.5, 3.6 and 3.7. With respect to sectors where such commitments are undertaken, each Schedule shall specify:

(a)    terms, limitations and conditions on market access;
(b)    conditions and qualifications on national treatment;
(c)    undertakings relating to additional commitments referred to in Article 3.7; and
(d)    where appropriate, the time-frame for implementation of such commitments and the date of entry into force of such commitments.
2.     Measures inconsistent with both Articles 3.5 and 3.6 shall be dealt with as provided for in paragraph 2 of Article XX of the GATS.
3.     The Parties' Schedules of specific commitments are set out in Annex VII.

Article 3.18
Modification of Schedules

    The Parties shall, upon written request by a Party, hold consultations to consider any modification or withdrawal of a specific commitment in the requesting Party's Schedule of specific commitments. The consultations shall be held within three months after the requesting Party made its request. In the consultations, the Parties shall aim to ensure that a general level of mutually advantageous commitments no less favourable to trade than that provided for in the Schedule of specific commitments prior to such consultations is maintained. Modifications of Schedules are subject to the procedures set out in Articles 8 and 10.5.


Article 3.19
Review

    With the objective of further liberalising trade in services between them, in particular eliminating substantially all remaining discrimination within a period of ten years, the Parties shall review at least every other year, or more frequently if so agreed, their Schedules of specific commitments and their Lists of MFN Exemptions, taking into account in particular any autonomous liberalisation and on-going work under the auspices of the WTO. The first such review shall take place no later than three years after the entry into force of this Agreement.


Article 3.20
Annexes

    The following Annexes form an integral part of this Chapter:
–    Annex VII (Schedules of Specific Commitments);
–    Annex VIII (Lists of MFN Exemptions);

–    Annex IX (Financial Services); and
–    Annex X (Telecommunications Services).

CHAPTER 4
INVESTMENT

Article 4.1
Scope and Coverage

1.     This Chapter shall apply to investments in the territory of one Party by an investor of another Party, which constitute, or are related to, a direct investment. It shall not apply to investments in the services sectors covered by Chapter 3 3.

2.     This Chapter shall apply to investments irrespective of whether they have been made prior to or after the entry into force of this Agreement. It shall however not apply to disputes arising out of events which occurred prior to the entry into force of the Agreement.
3.     The provisions of this Chapter shall be without prejudice to the interpretation or application of the rights and obligations under any other international agreement relating to investment or taxation to which Ukraine and one or several EFTA States are parties.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


3      For the avoidance of doubt, it is confirmed that services specifically exempted from the scope of Chapter 3 (air traffic rights) are considered to be covered services sectors, and therefore do not fall under the scope of the Investment Chapter.

Article 4.2
Definitions

    For the purposes of this Chapter,

(a)    “direct investment” means participation of an investor in an enterprise, consisting of at least 10 per cent ownership, whether direct or indirect, of the total vote-entitled shares in that enterprise. “Indirect ownership” refers to the total of vote- entitled shares that is attributable to an investor in accordance with the relevant precisions to the definition of “direct investment” by the IMF;

(b)    “enterprise of a Party” means any legal person or any other entity, constituted or otherwise organised under the law of a Party, that is engaged in business operations in the territory of the same or any other Party;

(c)    “investment” means every kind of asset, including but not limited to: any form of equity or other participation in an enterprise; claims to money and claims to performance; intellectual property rights; rights conferred pursuant to law or under contract, such as concessions, licenses and permits; and any rights on movable and immovable property;
(d)    “investment activities” means the establishment, acquisition, expansion, management, conduct, operation, maintenance, use, enjoyment and sale or other disposition of an investment;
(e)    “investment of an investor of a Party” means an investment that is owned or controlled, either directly or indirectly, by an investor of that Party;
(f)    “investor of a Party” means:
    (i)    a natural person having the nationality of, or permanent residence in, a Party in accordance with its applicable law; or
    (ii)    a legal person or any other entity constituted or organised under the applicable law of a Party, and engaged in substantive business operations in any Party, whether or not for profit, and whether private or government owned or controlled;

    that is making or has made an investment in the territory of another Party.
(g)    “measure” means any measure by a Party, whether in the form of a law, regulation, rule, procedure, decision, administrative action, or any other form.

Article 4.3
General Treatment

    Each Party shall accord to investors of the other Party, and their investments, treatment in accordance with international law, including fair and equitable treatment and full protection and security.

Article 4.4
National Treatment

    Each Party shall, subject to Article 4.11 and the reservations set out in Annex XI, accord to investors of the other Party and their investments treatment no less favourable than it accords, in like situations, to its own investors and their investments with respect to investment activities in its territory.


Article 4.5
Most Favoured Nation Treatment

1.     Except as provided for in Annex XII, each Party shall accord to investors of the other Party and their investments treatment no less favourable than that it accords, in like situations, to investors of any non- party and to their investments with respect to investment activities in its territory.

2.     If a Party accords preferential treatment to investments of investors of any third State by virtue of a free trade agreement, customs union, common market or any other economic integration agreement, it shall not be obliged to accord such treatment to investments of investors of the other Party. The same applies with respect to treatment accorded by a Party by virtue of any investment protection agreement or agreement on avoidance of double taxation.
3.     If a Party, after the entry into force of this Agreement, has granted to a non-party by virtue of an agreement as referred to in paragraph 2, treatment more favourable than that provided for by this Agreement, it shall consider a request by another Party to incorporate into this Agreement the more beneficial treatment granted to the non-party.



Article 4.6
Access to Courts

    Each Party shall in its territory accord to investors of another Party treatment no less favourable than the treatment which it accords to its own investors or investors of a non-party with respect to the jurisdiction of its courts as well as its administrative tribunals and agencies, both in pursuit and in defence of investors' rights.


Article 4.7
Key Personnel

1.     The Parties shall, subject to their laws and regulations relating to the entry, stay and work of natural persons, examine in good faith requests by investors of another Party, and key personnel who are employed by such investors or by investments, to enter and remain temporarily in their territories in order to engage in activities connected with the management, maintenance, use, enjoyment, expansion or disposal of relevant investments, including the provision of advice or key technical services.

2.     The Parties shall, subject to their laws and regulations, permit investors of the other Party and their investments, to employ any key person of the investor's or the investment's choice regardless of nationality and citizenship provided that such key person has been permitted to enter, stay and work in the territory of the other Party and that the employment concerned conforms to the terms, conditions and time limits of the permission granted to such key person.
3.     The Parties shall, subject to their laws and regulations, grant temporary entry and stay and provide any necessary confirming documentation to the spouse and minor children of a natural person who has been granted temporary entry, stay and authorisation to work in accordance with paragraphs 1 and 2. The spouse and minor children shall be admitted for the period of the stay of that person.

Article 4.8
Right to Regulate

1.     Nothing in this Chapter shall be construed to prevent a Party from adopting, maintaining or enforcing any measure consistent with this Chapter that is in the public interest, such as measures to meet health, safety or environmental concerns or reasonable measures for prudential purposes.
2.     A Party shall not waive or otherwise derogate from, or offer to waive or otherwise derogate from, such measures as an encouragement for the establishment, acquisition, expansion or retention in its territory of an investment of an investor of a Party or a non-party.

Article 4.9
Transparency

    Laws, regulations, judicial decisions and administrative rulings of general application made effective by any Party, and agreements in force between Parties, which affect matters covered by this Chapter shall be published promptly, or otherwise made publicly available, in such a manner as to enable Parties and investors to become acquainted with them. The provisions of this Article shall not require any Party to disclose information which would impede law enforcement or otherwise be contrary to the public interest or would prejudice the legitimate commercial interests of any investor.

Article 4.10
Trade Related Investment Measures

    The Parties reaffirm their commitments to the WTO Agreement on Trade-Related Investment Measures (hereinafter referred to as the “TRIMs”) and hereby incorporate the provisions of TRIMs, as part of this Agreement.

Article 4.11
Reservations

1.     National treatment as provided for under Article 4.4 shall not apply to:
(a)    any reservation that is listed by a Party in Annex XI;
(b)    an amendment to a reservation covered by paragraph (a) to the extent that the amendment does not decrease the conformity of the reservation with Article 4.4;
(c)    any new reservation adopted by a Party, and incorporated into Annex XI which does not affect the overall level of commitments of that Party under this Agreement;
to the extent that such reservations are inconsistent with Article 4.4.
2.     As part of the reviews provided for in Article 4.15 the Parties undertake to review the status of the reservations set out in Annex XI with a view to reducing the reservations or removing them.

3.     A Party may, at any time, either upon the request of another Party or unilaterally, remove, in whole or in part, its reservations set out in Annex XI by written notification to the other Parties.

4.     A Party may, at any time, incorporate a new reservation into Annex XI in accordance with paragraph 1 (c) of this Article by written notification to the other Parties. On receiving such written notification, the other Parties may request consultations re garding the reservation. On receiving the request for consultations, the Party incorporating the new reservation shall enter into consultations with the other Parties.


Article 4.12
Payments and Transfers

1.     Except under the circumstances envisaged in Article 4.13, a Party shall not apply restrictions on current payments and capital movements relating to direct investments covered by this Chapter.
2.     Nothing in this Chapter shall affect the rights and obligations of the Parties under the Articles of the Agreement of the IMF, including the use of exchange actions which are in conformity with the said Articles, provided that a Party does not impose restrictions on capital transactions inconsistent with its obligations under this Chapter.


Article 4.13
Restrictions to Safeguard the Balance-of-Payments

1.     The Parties shall endeavor to avoid the imposition of restrictions to safeguard the balance of payments.
2.     The rights and obligations of the Parties in respect of such restrictions shall be governed by paragraphs 1 to 3 of Article XII of the GATS, which are hereby incorporated into and made part of this Chapter, mutatis mutandis.
3.     A Party adopting or maintaining such restrictions shall promptly notify the Joint Committee.


Article 4.14
Exceptions

    The rights and obligations of the Parties in respect of general exceptions shall be governed by Article XIV of the GATS, which is hereby incorporated into and made part of this Chapter, mutatis mutandis.

Article 4.15
Review Clause

    The EFTA States and Ukraine affirm their commitment to review the investment framework and the flow of investment between their territories consistent with their commitments in international investment agreements not later than three years after the entry into force of this Agreement and in regular intervals thereafter.

CHAPTER 5
PROTECTION OF INTELLECTUAL PROPERTY

Article 5
Protection of Intellectual Property

1.     The Parties shall grant and ensure adequate, effective and non-discriminatory protection of intellectual property rights, and provide for measures for the enforcement of such rights against infringement thereof, counterfeiting and piracy, in accordance with the provisions of this Article, Annex XIII and the international agreements referred to therein.
2.     The Parties shall accord to each other's nationals treatment no less favourable than that they accord to their own nationals. Exemptions from this obligation must be in accordance with the substantive provisions of Articles 3 and 5 of the WTO Agreement of 15 April 1994 on Trade-Related Aspects of Intellectual Property Rights (hereinafter referred to as “the TRIPS Agreement”).
3.     The Parties shall grant to each other's nationals treatment no less favourable than that accorded to nationals of any other State. Exemptions from this obligation must be in accordance with the substantive provisions of the TRIPS Agreement, in particular Articles 4 and 5 thereof.
4.     The Parties agree, upon request of any Party to the Joint Committee, to review the provisions on the protection of intellectual property rights contained in the present Article and in Annex XIII, with a view to further improving the levels of protection and to avoiding or remedying trade distortions caused by actual levels of protection of intellectual property rights.

CHAPTER 6
GOVERNMENT PROCUREMENT

Article 6.1
Objective

    The Parties shall ensure the reciprocal and effective opening of their government procurement markets, in accordance with the provisions of this Chapter and its Annexes, in order to maximize competitive opportunities for suppliers and make government spending more efficient.

Article 6.2
Scope

    This Chapter applies to measures of a Party regarding “covered procurement”. For the purposes of this Chapter, “covered procurement” means procurement for governmental purposes of goods and services, as defined in Article 1 of Annex XIV, or any combination thereof, as specified in Article 2 of Annex XIV and in Annex XV.

Article 6.3
Procurement Systems

    The Parties shall ensure that their procurement systems are in conformity with, and that their procuring entities adhere to, the provisions set out in Annex XIV and Annex XV.

Article 6.4
National Treatment and Non-Discrimination

1.     With respect to any measure regarding covered procurement, each Party shall ensure that its procuring entities, shall accord immediately and unconditionally to the goods and services of any other Party and to the suppliers of any other Party offering such goods or services, treatment no less favourable than the treatment accorded to domestic goods, services and suppliers.
2.     With respect to any measure regarding covered procurement, a Party shall ensure that its procuring entities shall not:
(a)    treat a locally established supplier less favourably than another locally established supplier on the basis of degree of foreign affiliation or ownership; nor
(b)    discriminate against a locally established supplier on the basis that the goods or services offered by that supplier for a particular procurement are goods or services of any other Party.


Article 6.5
Conduct of Procurement

    A Party shall ensure that its procuring entities shall conduct covered procurement in a transparent and impartial manner that:
(a)    is consistent with this Chapter, using methods such as open tendering, selective tendering and limited tendering, as specified in Articles 11 to 13 of Annex XIV;
(b)    avoids conflicts of interest; and

(c)    prevents corrupt practices.


Article 6.6
Rules of Origin

    For purposes of covered procurement, no Party may apply rules of origin that are different from the rules of origin the Party applies at the same time in the normal course of trade.

Article 6.7
Offsets

    With regard to covered procurement, a Party shall ensure that its procuring entities, shall not seek, take account of, impose, or enforce any offset.


Article 6.8
Publication of Procurement Information

1.     Each Party shall promptly publish any measure of general application regarding covered procurement and any modification to this information, in an officially designated electronic and/or paper medium that is widely disseminated and remains readily accessible to the public.

2.     Each Party shall, on request, provide to any other Party an explanation relating to such information.


Article 6.9
Information Technology

1.     The Parties shall, to the extent possible, endeavour to use electronic means of communication to permit efficient dissemination of information on government procurement, particularly as regards tender opportunities offered by entities, while respecting the principles of transparency and non-discrimination.
2.     When conducting covered procurement by electronic means, a procuring entity shall:

(a)    ensure that the procurement is conducted using information technology systems and software, including those related to authentication and encryption of information, that are generally available and interoperable with other generally available information technology systems and software; and
(b)    maintain mechanisms that ensure the integrity of requests for participation and tenders, including establishment of the time of receipt and the prevention of inappropriate access.


Article 6.10
Cooperation

1.     The Parties recognise the importance of cooperation with a view to achieving a better understanding of their respective government procurement systems, as well as a better access to their respective markets, in particular for small business suppliers.
2.     The Parties shall endeavour to cooperate in the area of government procurement by exchanging ex perience and information about best practices and regulatory frameworks.
3.     Technical assistance could be provided upon a duly motivated request.

Article 6.11
General Exceptions

1.     Nothing in this Chapter shall be construed to prevent a Party from taking any action or not disclosing any information that it considers necessary for the protection of its essential security interests relating to the procurement of arms, ammunition, or war materials, or to procurement indispensable for national security or for national defence purposes.
2.     Subject to the requirement that such measures are not applied in a manner that would constitute a means of arbitrary or unjustifiable discrimination between the Parties or a disguised restriction to trade between the Parties, nothing in this Chapter shall be construed to prevent a Party from adopting or maintaining measures necessary to protect public morals, order or safety, human, animal or plant life or health or intellectual property; or relating to goods or services of persons with disabilities, of philanthropic institutions or of prison labour.

Article 6.12
Modifications and Rectifications to Coverage

1.     A Party may modify or rectify its coverage under Annex XIV or Annex XV provided that:

(a)    it notifies the other Parties in writing;
(b)    it offers at the same time adequate compensatory adjustments to maintain a level of coverage comparable to that existing prior to the modification, except as provided in paragraph 2; and
(c)    no Party objects in writing within 45 days following the date of notification. The Parties may agree to extend the deadline pending completion of their internal procedures.
2.     A Party need not provide compensatory adjustments when the Parties agree that the proposed modification covers a procuring entity over which a Party has effectively eliminated its control or influence. When a Party objects to the assertion that such government control or influence has been effectively eliminated, the objecting Party may request further information or consultations with a view to clarifying the nature of any government control or influence and reaching agreement on the procuring entity's continued coverage.
3.     Amendments pursuant to this Article shall enter into force 45 days following the date of the circulation of the notification or upon expiration of the agreed time for objections to the notification. The Party having requested the modification or rectification shall notify the Depositary of the modification or rectification.

Article 6.13
Further Negotiations

    In case a Party offers, in the future, a third party additional advantages with regard to its respective government procurement market access coverage agreed under this Chapter and Annexes XIV and XV it shall agree, upon request of any other Party, to enter into negotiations with a view to extending the coverage on a reciprocal basis.

CHAPTER 7
COMPETITION

Article 7
Rules of Competition concerning Undertakings

1.     The following practices are incompatible with the proper functioning of this Agreement in so far as they may affect trade between an EFTA State and Ukraine:
(a)    agreements between undertakings, decisions by associations of undertakings and concerted practices between undertakings which have as their object or effect the prevention, restriction or distortion of competition in the territory of each Party;
(b)    abuse by one or more undertakings of a dominant position in the territory of each Party.
2.     The provisions of paragraph 1 shall also apply to the activities of public undertakings, and undertakings to which the Parties grant special or exclusive rights, in so far as the application of these provisions does not obstruct the performance, in law or in fact, of the particular public tasks assigned to them.
3.     Nothing in paragraph 2 shall be construed as preventing a Party from establishing or maintaining a public enterprise, entrusting enterprises with special or exclusive rights or maintaining such rights.
4.     The provisions of paragraphs 1 and 2 shall not be construed so as to create any direct obligations for undertakings.
5.     The Parties recognize the importance of cooperation and consultations with the aim of putting an end to anti-competitive practices as outlined in paragraphs 1 and 2 or their adverse effects on trade. The Parties may conduct such cooperation and consultations through their competent authorities. Cooperation shall include the exchange of pertinent information that is available to the Parties. No Party shall be required to disclose information that is confidential according to its law.
6.     To foster understanding between the Parties, or to address any matter arising under this Chapter, and without prejudice to the autonomy of each Party to develop, maintain and enforce its competition policy and legislation, a Party may request consultations within the Joint Committee. This request shall indicate the reasons for the consultations. Consultations in accordance with Article 9.3 shall be held promptly with a view to reaching a conclusion consistent with the objectives set forth in this Chapter. The Parties concerned shall give to the Joint Committee all the support and information needed.
7.     With the exception of the right for consultations in accordance with paragraph 6, no Party may have recourse to dispute settlement under this Agreement for any matter arising under this Article.


CHAPTER 8
INSTITUTIONAL PROVISIONS

Article 8
The Joint Committee

1.     The Parties hereby establish the Ukraine-EFTA Joint Committee. It shall be composed of representatives of the Parties, which shall be headed by Ministers or by senior officials delegated by them for this purpose.
2.     The Joint Committee shall:
(a)    supervise and review the implementation of this Agreement, inter alia by means of a comprehensive review of the application of the provisions of this Agreement, with due regard to any specific reviews provided for in this Agreement;
(b)    keep under review the possibility of further removal of barriers to trade and other restrictive measures concerning trade between Ukraine and the EFTA States;
(c)    oversee the further development of this Agreement;
(d)    supervise the work of all sub-committees and working groups established under this Agreement;
(e)    endeavour to resolve disputes that may arise regarding the interpretation or application of this Agreement; and
(f)    consider any other matter that may affect the operation of this Agreement.
3.     The Joint Committee may decide to set up such sub-committees and working groups as it considers necessary to assist it in accomplishing its tasks. Except where otherwise provided for in this Agreement, the sub-committees and working groups shall work under a mandate established by the Joint Committee.
4.     The Joint Committee shall take decisions as provided for in this Agreement, and may make recommendations, by consensus.
5.     The Joint Committee shall meet within two years of the entry into force of this Agreement. Thereafter, it shall meet whenever necessary upon mutual agreement but normally every two years. Its meetings shall be chaired jointly by Ukraine and one of the EFTA States. The Joint Committee shall establish its rules of procedure.

6.     Each Party may request at any time, through a notice in writing to the other Parties, that a special meeting of the Joint Committee be held. Such a meeting shall take place within 30 days of receipt of the request, unless the Parties agree otherwise.

7.     The Joint Committee may decide to amend the Annexes and Protocols to this Agreement. Such amendment enters into force as set forth in the amending decision taken by the Joint Committee.


CHAPTER 9
DISPUTE SETTLEMENT

Article 9.1
Scope and Coverage

1.     The provisions of this Chapter shall apply with respect to the settlement of any disputes concerning the interpretation or application of this Agreement, except as otherwise provided in this Agreement.
2.     Disputes regarding the same matter arising under both this Agreement and the WTO Agreement may be settled in either forum at the discretion of the complaining Party 4. The forum thus selected shall be used to the exclusion of the other.
3.     For purposes of paragraph 2, dispute settlement proceedings under the WTO Agreement are deemed to be initiated by a Party's request for the establishment of a panel under Article 6 of the WTO Dispute Settlement Understanding, whereas dispute settlement proceedings under this Agreement are deemed to be initiated upon a request for arbitration pursuant to paragraph 1 of Article 9.4.

4.     Before a Party initiates dispute settlement proceedings under the WTO Agreement against another Party, that Party shall notify all other Parties of its intention.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


4      In this Chapter, the terms “Party”, “ Party to the dispute” , “ complaining Party” and “ Party complained against” can denote one or more Parties.

Article 9.2
Good Offices, Conciliation or Mediation

1.     Good offices, conciliation and mediation are procedures that are undertaken voluntarily if the Parties so agree. They may begin and be terminated at any time. They may continue while procedures of an arbitration panel established in accordance with this Chapter are in progress.
2.     Proceedings involving good offices, conciliation and mediation shall be confidential and without prejudice to the Parties' rights in any other proceedings.

Article 9.3
Consultations

1.     The Parties shall at all times endeavour to agree on the interpretation and application of this Agreement, and shall make every attempt through cooperation and consultations to reach a mutually satisfactory resolution of any matter raised in accordance with this Article.
2.     A Party may request in writing consultations with another Party if it considers that a measure or other matter is inconsistent with this Agreement. The Party requesting consultations shall at the same time notify the other Parties in writing thereof. The Party to which the request is made shall reply to the request within 10 days after the date of its receipt. Consultations shall take place in the Joint Committee unless the Parties making and receiving the request for consultations agree otherwise.

3.     Consultations shall commence within 30 days from the date of receipt of the request for consultations. Consultations on urgent matters, including those on perishable goods, shall commence within 15 days from the receipt of the request for consultations. If the Party to which the request is made does not reply within 10 days or does not enter into consultations within 30 days from the date of receipt of the request for consultations, or within 15 days for urgent matters, the Party making the request is entitled to request the establishment of an arbitration panel in accordance with Article 9.4.
4.     The parties to the dispute shall provide sufficient information to enable a full examination of how the measure or other matter is inconsistent with this Agreement and treat any confidential or proprietary information exchanged in the course of consultations in the same manner as the Party providing the information.
5.     The consultations shall be confidential and without prejudice to the rights of the Parties in any further proceedings.
6.     The parties to the dispute shall inform the other Parties of any mutually agreed resolution of the matter.

Article 9.4
Establishment of Arbitration Panel

1.     If the consultations referred to in Article 9.3 fail to settle a dispute within 60 days, or 30 days in relation to urgent matters, including those on perishable goods, after the date of the receipt of the request for consultations by the Party complained against, it may be referred to an arbitration panel by means of a written request from the complaining Party to the Party complained against. A copy of this request shall be communicated to the other Parties so that they may determine whether to participate in the dispute.
2.     The request for arbitration shall identify the specific measure or other matter at issue and provide a brief summary of the legal basis of the complaint.

3.     The arbitration panel shall comprise three members who shall be nominated in accordance with the “Optional Rules for Arbitrating Disputes between Two States of the Permanent Court of Arbitration”, effective 20 October 1992 (hereinafter referred to as “the Optional Rules”). The date of establishment of the arbitration panel shall be the date on which the Chairperson is appointed.
4.     Unless the parties to the dispute otherwise agree within 20 days from the date of receipt of the request for the establishment of the arbitration panel, the terms of reference for the arbitration panel shall be:
    “To examine, in the light of the relevant provisions of this Agreement, the matter referred to in the request for the establishment of an arbitration panel pursuant to Article 9.4 and to make findings of law and fact together with the reasons therefor, as well as recommendations, if any, for the resolution of the dispute and the implementation of the ruling.”
5.     Where more than one Party requests the establishment of an arbitration panel relating to the same matter or where the request involves more than one defending Party, and whenever feasible, a single arbitration panel should be established to examine complaints relating to the same matter.
6.     A Party which is not a party to the dispute shall be entitled, on delivery of a written notice to the parties to the dispute, to make written submissions to the arbitration panel, receive written submissions, including annexes, from the parties to the dispute, attend hearings and make oral statements.

Article 9.5
Procedures of the Arbitration Panel

1.     Unless otherwise specified in this Agreement or agreed between the parties to the dispute, the procedures of the arbitration panel shall be governed by the Optional Rules.
2.     The arbitration panel shall examine the matter referred to it in the request for the establishment of an arbitration panel in the light of the relevant provisions of this Agreement interpreted in accordance with rules of interpretation of public international law.
3.     Unless the parties to the dispute agree otherwise, the hearings of the arbitration panel shall take place in Geneva. The language of any proceeding shall be English. The hearings of the arbitration panel shall be open to the public unless the parties to the dispute agree otherwise.
4.     There shall be no ex parte communications with the arbitration panel concerning matters under its consideration.
5.     A Party's written submissions, written versions of oral statements and responses to questions put by an arbitration panel, shall, at the same time as it is submitted to the arbitration panel, be transmitted by that Party to the other party to the dispute and any other Party that has delivered a notice pursuant to paragraph 6 of Article 9.4.
6.     The Parties shall treat as confidential the information submitted by any other Party to the arbitration panel which that Party has designated as confidential.
7.     Decisions of the arbitration panel shall be taken by a majority of its members. Any member may furnish separate opinions on matters not unanimously agreed. The arbitration panel may not disclose which members are associated with majority or minority opinions.

Article 9.6
Arbitration Panel Reports

1.     The arbitration panel should, as a general rule, submit an initial report containing its findings and ruling to the parties to the dispute not later than 90 days from the date of establishment of the arbitration panel. In no case should it do so later than five months from this date. A party to the dispute may submit written comments to the arbitration panel on its initial report within 14 days of receipt of the report. The arbitration panel shall present to the parties to the dispute a final report within 30 days of their receipt of the initial report.
2.     The final report, as well as any ruling under Articles 9.8 and 9.9, shall be communicated to the Par ties. The reports shall be made public, unless the parties to the dispute decide otherwise.
3.     Any ruling of the arbitration panel under any provision of this Chapter shall be final and binding upon the parties to the dispute.

Article 9.7
Suspension or Termination of Arbitration Panel Proceedings

1.     Where the parties to the dispute agree, an arbitration panel may suspend its work at any time for a period not exceeding 12 months. If the work of an arbitration panel has been suspended for more than 12 months, the arbitration panel's authority for considering the dispute shall lapse unless the parties to the dispute agree otherwise.
2.     A complaining Party may withdraw its complaint at any time before the final report has been issued. Such withdrawal is without prejudice to its right to introduce a new complaint regarding the same issue at a later point in time.
3.     The parties to the dispute may agree at any time to terminate the proceedings of an arbitration panel established under this Agreement by jointly notifying the Chairperson of that arbitration panel.

4.     An arbitration panel may, at any stage of the proceedings prior to release of the final report, propose that the parties to the dispute seek to settle the dispute amicably.

Article 9.8
Implementation of Final Report

1.     The Party concerned shall promptly comply with the ruling of the arbitration panel. If it is impracticable to comply immediately, the parties to the dispute shall endeavour to agree on a reasonable period of time to do so. In the absence of such agreement within 30 days from the date of the issuance of the final report, either party to the dispute may request the original arbitration panel to determine the length of the reasonable period of time, in light of the particular circumstances of the case. The ruling of the arbitration panel should be given within 30 days from that request.
2.     The party to the dispute concerned shall notify the other party to the dispute of the measure adopted in order to comply with the ruling of the arbitration panel, as well as provide a detailed description of how the measure ensures compliance sufficient to allow the other party to the dispute to assess the measure.
3.     In case of disagreement as to the existence of a measure complying with the the ruling of the arbi tration panel or to the consistency of that measure with the ruling of the arbitration panel, such dispute shall be decided by the same arbitration panel before compensation can be sought or suspension of benefits can be applied in accordance with Article 9.9. The ruling of the arbitration panel shall normally be rendered within 90 days.

Article 9.9
Compensation and Suspension of Benefits

1.     If the Party concerned fails to properly comply with the ruling in the final report within a reasonable period of time as provided for in paragraph 1 of Article 9.8, that Party shall, if so requested by the complaining Party, enter into consultations with a view to agreeing on a mutually acceptable compensation. If no such agreement has been reached within 20 days from the request, the complaining Party shall be entitled to suspend the application of benefits granted under this Agreement but only equivalent to those affected by the measure or matter that the arbitration panel has found to be inconsistent with this Agreement.
2.     In considering what benefits to suspend, the complaining Party should first seek to suspend benefits in the same sector or sectors as that affected by the measure or matter that the arbitration panel has found to be inconsistent with this Agreement. The complaining Party that considers it is not practicable or effective to suspend benefits in the same sector or sectors may suspend benefits in other sectors.
3.     The complaining Party shall notify the other party to the dispute of the benefits which it intends to suspend, the grounds for such suspension and when suspension will commence, no later than 30 days before the date on which the suspension is due to take effect. Within 15 days from that notification, the Party complained against may request the original arbitration panel to rule on whether the benefits which the complaining Party intends to suspend are equivalent to those affected by the measure found to be inconsistent with this Agreement, and whether the proposed suspension is in accordance with paragraphs 1 and 2. The ruling of the arbitration panel shall be given within 45 days from that request. Benefits shall not be suspended until the arbitration panel has issued its ruling.
4.     Compensation and suspension of benefits shall be temporary measures and shall only be applied by the complaining Party until the measure or matter found to be inconsistent with this Agreement has been withdrawn or amended so as to bring it into conformity with this Agreement, or until the parties to the dispute have resolved the dispute otherwise.
5.     At the request of a party to the dispute, the original arbitration panel shall rule on the conformity with the final report of any implementing measures adopted after the suspension of benefits and, in light of such ruling, whether the suspension of benefits should be terminated or modified. The ruling of the arbitration panel shall be given within 30 days from the date of that request.

Article 9.10
Other Provisions

1.     Whenever possible, the arbitration panel referred to in Articles 9.8 and 9.9 shall comprise the same panellists who issued the final report. If a member of the original arbitration panel is unavailable, the appointment of a replacement panellist shall be conducted in accordance with the selection procedure for the original panellist.
2.     Any time period mentioned in this Chapter may be modified by mutual agreement of the Parties involved.

CHAPTER 10
FINAL PROVISIONS

Article 10.1
Fulfilment of Obligations

    The Parties shall take any general or specific measures required to fulfil their obligations under this Agreement.

Article 10.2
Annexes, Protocols and Appendices

    The Annexes and Protocols to this Agreement, including their Appendices, are an integral part thereof.

Article 10.3
Evolutionary Clause

    The Parties shall review this Agreement in the Joint Committee within three years after the entry into force of this Agreement in light of further developments in international economic relations, inter alia in the framework of the WTO and free trade relations with third countries, and examine the possibility of developing and deepening their cooperation under this Agreement. After the first review they shall conduct biennial reviews of this matter in the Joint Committee, with due regard to any specific provisions relating to further liberalisation or review contained in this Agreement.

Article 10.4
Sustainable Development

    The Parties shall review this Agreement in the Joint Committee within three years after the entry into force of this Agreement in light of developments in the field of trade and sustainable development.

Article 10.5
Amendments

1.     The Parties may agree on any amendment to this Agreement. Amendments to this Agreement other than those referred to in paragraph 7 of Article 8 shall, after consideration by the Joint Committee, be submitted to the Parties for ratification, acceptance or approval.
2.     Unless otherwise agreed by the Parties, amendments shall enter into force on the first day of the third month following the deposit of the last instrument of ratification, acceptance or approval.
3.     The text of the amendments as well as the instruments of ratification, acceptance or approval shall be deposited with the Depositary.

Article 10.6
Accession

1.     Any State, becoming a Member of the EFTA, may accede to this Agreement, provided that the Joint Committee approves its accession, on terms and conditions to be agreed upon by the Parties. The instrument of accession shall be deposited with the Depositary.
2.     In relation to an acceding State, this Agreement shall enter into force on the first day of the third month following the deposit of its instrument of accession, or the approval of the terms of accession by the existing Parties, whichever is later.

Article 10.7
Withdrawal and Expiration

1.     Each Party may withdraw from this Agreement by means of a written notification to the Depositary. The withdrawal shall take effect six months after the date on which the notification is received by the Depositary.
2.     If Ukraine withdraws, this Agreement shall expire when its withdrawal becomes effective.
3.     Any EFTA State which withdraws from the Convention establishing the European Free Trade Association shall, ipso facto on the same day as the withdrawal takes effect, cease to be a Party to this Agreement.

Article 10.8
Entry into Force

1.     This Agreement is subject to ratification, acceptance or approval in accordance with the respective domestic legal requirements of the Parties. The instruments of ratification, acceptance or approval shall be deposited with the Depositary.
2.     This Agreement shall enter into force on the first day of the third month following the date on which Ukraine and at least one EFTA State have deposited their instruments of ratification, acceptance or approval with the Depositary.
3.     In relation to an EFTA State depositing its instrument of ratification, acceptance or approval after this Agreement has entered into force, the Agreement shall enter into force on the first day of the third month following the deposit of its instrument of ratification, acceptance or approval.
4.     This Agreement shall not enter into force between an EFTA State and Ukraine, unless the complementary Agreement on Agriculture between that EFTA State and Ukraine enters into force simultaneously. It shall remain in force as long as the complimentary agreement remains in force between those Parties.

Article 10.9
Depositary

    The Government of Norway shall act as Depositary.

IN WITNESS WHEREOF the undersigned, being duly authorised thereto, have signed this Agreement.

Done at Reykjavik, this 24 th day of June 2010, in one original. The Depositary shall transmit certified copies to all the Parties.

For Iceland                    For Ukraine

__________________     __________________

For the Principality of Liechtenstein

__________________

For the Kingdom of Norway

__________________

For the Swiss Confederation

__________________ Fylgiskjal II.


Landbúnaðarsamningur
milli Íslands og Úkraínu.


1. gr.
Umfang.

    Samningur þessi um viðskipti með landbúnaðarafurðir milli Íslands og Úkraínu (hér á eftir nefnd „samningsaðilar“) er gerður með vísan til fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna og Úkraínu (hér á eftir nefndur „fríverslunarsamningurinn“), sem var undirritaður 24. júní 2010, einkum í samræmi við ákvæði 1. mgr. 2. gr. þess samnings. Samningur þessi er hluti af gerningunum um að koma á fót fríverslunarsvæði EFTA-ríkjanna og Úkraínu.


2. gr.
Gildissvið.

    Samningur þessi tekur til ráðstafana sem samningsaðilarnir samþykkja eða viðhalda og varða landbúnaðarafurðir:
a)    sem heyra undir 1. til 24. kafla í samræmdu vörulýsingar- og vörunúmeraskránni (hér á eftir nefnd „samræmda tollskráin“ (ST)) og ekki er getið í II. eða III. viðauka við fríverslunarsamninginn og
b)    sem I. viðauki við fríverslunarsamninginn tekur til.

3. gr.
Tollaívilnanir.

    Úkraína skal veita tollaívilnanir fyrir landbúnaðarafurðir, sem eru upprunnar á Íslandi, eins og tilgreint er í I. viðauka. Ísland skal veita tollaívilnanir fyrir landbúnaðarafurðir sem eru upprunnar í Úkraínu, eins og tilgreint er í II. viðauka.

4. gr.
Upprunareglur og reglur um tollmeðferð.

1.     Upprunareglurnar og ákvæðin um samvinnu á sviði tollamála, sem sett eru fram í bókun um upprunareglur sem fylgir fríverslunarsamningnum, gilda um þennan samning, með þeirri undantekningu sem kveðið er á um í 2. mgr. Litið skal svo á að allar tilvísanir til „EFTA-ríkja“ í þeirri bókun eigi við Ísland.
2.     Í samningi þessum gilda ákvæði 3. og 4. gr. bókunar um upprunareglur við fríverslunarsamninginn að breyttu breytanda, þar sem einungis er gert ráð fyrir tvíhliða uppsöfnun milli samningsaðilanna.

5. gr.
Viðræður.

    Samningsaðilar skulu skoða þá erfiðleika sem kunna að koma upp í viðskiptum þeirra með landbúnaðarafurðir og freista þess að leita viðunandi lausna.

6. gr.
Aukið viðskiptafrelsi.

    Samningsaðilarnir skuldbinda sig til þess að vinna áfram að því að auka frelsi í viðskiptum sínum með landbúnaðarafurðir, að teknu tilliti til fyrirkomulags slíkra viðskipta sín á milli, þess hve slíkar afurðir eru viðkvæmar og til þróunar í landbúnaðarstefnu hvors aðila um sig. Samningsaðilarnir skulu, að beiðni hvors þeirra sem er, efna til samráðs í því skyni að ná þessu markmiði, m.a. með því að auka markaðsaðgang með því að lækka eða afnema tolla á landbúnaðarafurðum og með því að útvíkka vörusvið landbúnaðarafurða sem samningur þessi tekur til.

7. gr.
Ákvæði fríverslunarsamningsins.

    Eftirfarandi ákvæði fríverslunarsamningsins gilda milli aðila að þessum samningi: Ákvæði greina 1.4 (Svæðisbundið gildissvið), 1.5 (Ríkisstjórnir, svæðisbundin og staðbundin stjórnvöld), 1.6 (Gagnsæi), 2.6 (Takmarkanir á inn- og útflutningi), 2.8 (Ráðstafanir á sviði hollustuhátta og heilbrigðis dýra og plantna), 2.9 (Tæknilegar reglur), 2.12 (Ríkisrekin viðskiptafyrirtæki), 2.16 (Tvíhliða verndarráðstafanir), 2.17 (Almennar undantekningar), 2.18 (Undantekningar af öryggisástæðum) og ákvæði 9. kafla (Lausn deilumála). Þau eru hér með felld inn í þennan samning og gerð hluti af honum að breyttu breytanda.

8. gr.
Verndarráðstafanir á sviði landbúnaðar.

1.     Grípa ber til verndarráðstafana á sviði landbúnaðarvara, samkvæmt skilyrðunum sem mælt er fyrir um í 1. mgr. greinar 2.16 í fríverslunarsamningnum.

2.     Verndarráðstöfun skal ekki vara lengur en eitt ár og getur hún falist í öðru hvoru af eftirfarandi:

a)    hækkun innflutningsgjalda á þeirri vöru sem um ræðir en ekki umfram þá tolla á vöruna sem bestukjarameðferð veitir og eru í gildi þann dag þegar ráðstöfunin er gerð eða
b)    upptöku innflutningskvóta fyrir fríðindaviðskipti, sem grundvallast á viðskiptamagni næstu fimm ár á undan, að undanskildu því innflutningsflæði sem leiddi til þess að nauðsynlegt var að grípa til verndarráðstafana.
3.     Áður en samningsaðili grípur til verndarráðstöfunar skal hann senda hinum samningsaðilanum skriflega tilkynningu um þá ráðstöfun sem til stendur að gera. Samningsaðilinn, sem sendir frá sér tilkynningu, skal, innan 60 daga frá því að tilkynning er send út, leggja fram allar upplýsingar um verndarráðstöfunina sem máli skipta. Að fenginni beiðni skal sá samningsaðili hafa samráð við þann samningsaðila sem verður fyrir neikvæðum áhrifum um þau skilyrði sem ráðstöfuninni verður beitt við.

9. gr.
Gildistaka og tengsl milli þessa samnings og fríverslunarsamningsins.

1.     Samningur þessi öðlast gildi þann dag þegar fríverslunarsamningur milli Íslands og Úkraínu öðlast gildi. Hann gildir svo lengi sem samningsaðilarnir eru aðilar að fríverslunarsamningnum.

2.     Vörsluaðili fríverslunarsamningsins skal, í upplýsingaskyni, fá eintak af samningi þessum í hendur, ásamt skjölum um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki samnings þessa.

ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirrituð, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

Gjört í Reykjavík 24. júní 2010 í tveimur frumritum á ensku.

Fyrir hönd Íslands     Fyrir hönd Úkraínu

__________________     __________________


Agreement on Agriculture
Between Iceland and Ukraine


Article 1
Coverage

    This Agreement concerning trade in agricultural products between Iceland and Ukraine (hereinafter referred to as “the Parties”) is concluded further to the Free Trade Agreement between the EFTA States and Ukraine (hereinafter referred to as “the Free Trade Agreement”), which was signed on 24 June 2010, and in particular pursuant to Article 2.1 of the Free Trade Agreement. This Agreement forms part of the instruments establishing a free trade area between the EFTA States and Ukraine.

Article 2
Scope

    This Agreement applies to the measures adopted or maintained by the Parties related to agricultural products:
(a)    classified under Chapters 1 to 24 of the Harmonized Commodity Description and Coding System (hereinafter referred to as “the HS”) and not included in Annex II or III to the Free Trade Agreement; and
(b)    covered by Annex I to the Free Trade Agreement.

Article 3
Tariff Concessions

    Ukraine shall grant tariff concessions to agricultural products originating in Iceland as specified in Annex I. Iceland shall grant tariff concessions to agricultural products originating in Ukraine as specified in Annex II.

Article 4
Rules of Origin and Customs Procedures

1.     The rules of origin and the provisions on cooperation in customs matters set out in the Protocol on Rules of Origin to the Free Trade Agreement shall apply to this Agreement, except as provided for in paragraph 2. Any references to “EFTA States” in that Protocol shall be taken to refer to Iceland.

2.     For the purposes of this Agreement, Articles 3 and 4 of the Protocol on Rules of Origin to the Free Trade Agreement shall apply mutatis mutandis allowing only bilateral cumulation between the Parties.

Article 5
Dialogue

    The Parties shall examine any difficulties that might arise in their trade in agricultural products and shall endeavour to seek appropriate solutions.


Article 6
Further Liberalisation

    The Parties undertake to continue their efforts with a view to achieving further liberalisation of their trade in agricultural products, taking account of the pattern of such trade between them, the particular sensitivities of such products, and the development of agricultural policy on either side. At the request of either Party, the Parties shall hold consultations to achieve this objective, including through improvements in market access by reduction or elimination of customs duties on agricultural products and through extension of the scope of agricultural products covered by this Agreement.

Article 7
Provisions of the Free Trade Agreement

    The following provisions of the Free Trade Agreement shall apply between the Parties to this Agreement: Articles 1.4 (Territorial application), 1.5 (Central, Regional and Local Government), 1.6 (Transparency), 2.6 (Import and Export Restrictions), 2.8 (Sanitary and Phytosanitary Measures), 2.9 (Technical Regulations), 2.12 (State Trading Enterprises), 2.16 (Bilateral Safeguard Measures), 2.17 (General Exceptions), 2.18 (Security Exceptions), and Chapter 9 (Dispute Settlement). They are hereby incorporated and made part of this Agreement, mutatis mutandis.


Article 8
Agricultural Safeguard Measures

1.     Safeguard measures on agricultural products shall be taken pursuant to the conditions laid down in paragraph 1 of Article 2.16 of the Free Trade Agreement.
2.     A safeguard measure shall not be taken for a period exceeding one year and may consist in either of the following:
(a)    an increase of the import duty on the product in question to a level not higher than the MFN applied rate of duty on the product in effect at the time the measure is taken; or
(b)    the introduction of a tariff quota for preferential trade, based on historical trade volumes for the five preceding years, excluding the import surge volumes that necessitated the introduction of the safeguard measure.
3.     Before taking a safeguard measure, a Party shall notify the other Party in writing of the measure to be taken. Within 60 days after notification, the notifying Party shall provide all relevant information concerning the safeguard measure. On request, that Party shall consult with the affected Party with respect to the conditions of application of the measure.




Article 9
Entry into Force and Relationship between this Agreement and the Free Trade Agreement

1.     This Agreement shall enter into force on the same date as the Free Trade Agreement enters into force between Iceland and Ukraine. It shall remain in force as long as the Parties remain parties to the Free Trade Agreement.
2.     The Depositary of the Free Trade Agreement shall receive a copy of this Agreement and the instruments of ratification, acceptance or approval of this Agreement for information.

IN WITNESS WHEREOF the undersigned, being duly authorised thereto, have signed this Agreement.

Done at Reykjavik, this 24 th day of June 2010, in two originals in the English language.

For Iceland                    For Ukraine

__________________     __________________