Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 42. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Nr. 23/139.

Þskj. 1328  —  42. mál.


Þingsályktun

um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2010–2013.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2010–2013. Áætlunin byggist á aðgerðum í nýsköpun og atvinnuþróun í samræmi við aðra stefnumótun við gerð Sóknaráætlunar 2020.
    Meginmarkmið byggðaáætlunarinnar verði að bæta skilyrði til búsetu, nýsköpunar og sjálfbærrar þróunar í öllum landshlutum og efla menntun, menningu, samfélög og samkeppnishæfni byggða og bæja landsins með margvíslegum aðgerðum.
    Forsætisráðherra, f.h. ríkisstjórnar sinnar, flytji Alþingi munnlega skýrslu um framgang byggðaáætlunar, sem jafnframt verði rædd á Alþingi, í upphafi ársins 2012.
    Til þess að ná markmiðum áætlunarinnar verði gripið til eftirfarandi aðgerða sem falla undir níu skilgreind lykilsvið:
     1.      Atvinnustefna. Kjarni atvinnustefnunnar er bætt samkeppnishæfni, nýsköpun og sjálfbær þróun atvinnulífsins þar sem byggt er á sérstöðu og styrkleikum hvers svæðis eða atvinnugreinar fyrir sig, menntun, rannsóknum og margvíslegum menningar- og samfélagslegum þáttum.
     2.      Samþætting áætlana og aukið samstarf. Samþætting opinberra áætlana, m.a. á sviði byggðamála, menntamála, orkumála, samgangna, fjarskipta og menningarmála, er hugsuð í þeim tilgangi að bæta árangur í þágu atvinnulífs og búsetuskilyrða auk betri nýtingar fjármuna.
     3.      Efling stoðkerfis atvinnulífsins. Tilgangurinn með þessu er m.a. að auka skilvirkni atvinnulífsins og gera það einfaldara. Það er meðal annars gert með því að leggja áherslu á vaxtarsamninga sem byggjast á klasahugsun og á svæðisbundin þekkingarsetur sem samþætta þverfagleg fræðasvið og staðbundnar áherslur, sérkenni og styrkleika og eru líkleg til að skila auknum árangri í nýsköpun og atvinnuþróun.
     4.      Nýsköpun og sprotafyrirtæki. Stuðningur við nýsköpun og sprotafyrirtæki verði þrenns konar. Í fyrsta lagi í gegnum menntakerfið og stoðkerfi atvinnulífsins, svo sem Byggðastofnun og atvinnuþróunarfélögin, starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og sjóði til stuðnings nýsköpun, atvinnusköpun og sprotafyrirtækjum. Í öðru lagi í gegnum skattalegar ívilnanir vegna fjárfestinga í nýsköpunarfyrirtækjum og endurgreiðslur kostnaðar vegna rannsókna og þróunar. Í þriðja lagi í gegnum skilgreind verkefni, klasa eða áherslur opinberra aðila, svo sem að auka hlutfall innlendra visthæfra orkugjafa í samgöngum eða að þróa leiðir til að nýta eða binda koltvísýring úr útblæstri orku- og iðjuvera.
     5.      Erlend nýfjárfesting í atvinnulífinu. Til viðbótar við innlenda nýsköpun og vöxt atvinnulífsins, sem kalla má „innri vöxt“, er mikilvægt að stuðla markvisst að erlendri nýfjárfestingu í atvinnulífinu. Rammalöggjöf um ívilnanir vegna fjárfestingar mun taka til svæða sem skilgreind eru á byggðakorti Eftirlitsstofnunar EFTA og mikilvægt að atvinnuþróunarfélög eigi samstarf við Fjárfestingarstofu um kynningu á helstu kostum og styrkleikum svæða.
     6.      Efling ferðaþjónustu. Eftir mikinn vöxt, vöruþróun og nýsköpun á síðustu árum er ferðaþjónustan orðin ein af meginstoðum íslensks efnahagslífs og skapar um fimmtung gjaldeyristekna þjóðarbúsins. Mikilvægt er að byggja nú á þeim styrkleikum sem til staðar eru og markaðssetja þá sérstaklega gagnvart erlendum ferðamönnum um leið og gætt er að gæðum og frekari vöruþróun. Horfa þarf sérstaklega til sviða þar sem sérstaða íslenskrar náttúru, afurða og náttúruauðlinda nýtist, svo sem heilsu- og lífsstílstengdrar ferðaþjónustu.
     7.      Félagsauður. Félagsauður hvers svæðis er grundvöllur atvinnulífs, þjónustu og almennrar þátttöku í uppbyggingu samfélagsins. Félagsauðurinn ræður því miklu um almenn búsetuskilyrði og samkeppnishæfni. Menntun, menning, félagsstarf, lýðræðisleg þátttaka í stefnumótun og framtíðarsýn eru allt atriði sem skipta máli. Jafnrétti og þátttaka beggja kynja í atvinnulífi og samfélagsmótun er sérstakt viðfangsefni sem líta þarf til.
     8.      Efling menningarstarfs og skapandi greina. Menning og listir skipa æ ríkari sess í nýsköpun og eflingu atvinnulífs um land allt og hafa þar með jákvæð áhrif á byggðaþróun. Svæðisbundnir menningarsamningar hafa reynst vel og styðja við fjölbreytt menningar- og listalíf á landsbyggðinni og efla tengsl lista og menningartengdrar ferðaþjónustu. Mikilvægt er að styrkja grundvöll skapandi greina með því að auka áherslu á menntun á þessu sviði. Nýta má menningarsamninga og vaxtarsamninga í þessu skyni og koma á víðtæku samstarfi við þekkingarsetur og menningarsetur í heimabyggð, framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðvar um eflingu menntunar á sviði skapandi greina.
     9.      Jöfnun lífsskilyrða: Lögð verði sérstök áhersla á að lífskjör séu þau sömu um allt land, sem og áhersla á valfrelsi til búsetuskilyrða. Sem fyrstu aðgerðir til að stuðla að þessu verði lögð sérstök áhersla á jöfnun húshitunarkostnaðar og flutningsjöfnun á vörum bæði fyrir almenning og fyrirtæki á landsbyggðinni.

Samþykkt á Alþingi 15. apríl 2011.