Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 432. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1385  —  432. mál.
Nefndarálitum till. til þál. um göngubrú yfir Markarfljót.

Frá samgöngunefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið. Umsagnir bárust frá ríkislögreglustjóra, Landgræðslu ríkisins, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, félagasamtökunum Farfuglum, Umferðarstofu og Vegagerðinni.
    Með þingsályktunartillögunni er lagt til að Alþingi feli ríkisstjórninni að láta smíða göngubrú yfir Markarfljót við Húsadal í þeim tilgangi að auðvelda og bæta aðgengi að Þórsmerkursvæðinu. Í greinargerð tillögunnar kemur m.a. fram að á Þórsmerkursvæðið sé aðeins hægt að komast á sérútbúnum bílum eftir torfærum slóðum. Engu síður sé talið að um 75– 100 þúsund ferðamenn komi þangað árlega. Þá er á það bent að þegar eldgos varð í Eyjafjallajökli hinn 14. apríl 2010 hafi leiðin inn í Þórsmörk lokast og það hafi skapað hættu fyrir ferðafólk auk þess sem ferðaþjónustuaðilar hafi tapað viðskiptum. Einnig kemur fram að leiðin í Þórsmörk sé almennt hættuleg og lokist oft á hverju sumri og mjög alvarleg slys hafi orðið í ám á leiðinni.
    Umsagnaraðilar fagna tillögunni almennt á þeim forsendum að gerð göngubrúar yfir Markarfljót við Húsadal muni auka öryggi ferðamanna, m.a. þar sem hún kann að leiða til þess að um mun færri óbrúuð vatnsföll verði að fara á leiðinni norðan við Markarfljót. Þá hvetja nokkrir umsagnaraðilar til þess að tillagan verði samþykkt þar sem hún feli í sér auðveldara aðgengi að Þórsmerkursvæðinu sem aftur muni gagnast ferðaþjónustuaðilum og náttúruunnendum sem hingað til hafa átt erfitt með að ferðast þangað öðru vísi en með skipulögðum hætti.
    Í umsögn Landgræðslunnar bendir stofnunin m.a. á að Þórsmörk og aðrar aðliggjandi afréttir austan Markarfljóts séu friðaðar fyrir búfjárbeit og mikilvægt sé að slíku banni verði ekki raskað. Leggur stofnunin verulega áherslu á að hönnun og smíði göngubrúar yfir Markarfljót og umhverfi hennar megi ekki með nokkru móti leiða til þess að sauðfé komist í Þórsmörk frá Fljótshlíðarafrétti en koma verði í veg fyrir slíkt með gerð ristarhliða eða öðrum öruggum hætti. Þá vekur stofnunin einnig athygli á því að aukning umferðar ferðafólks um Þórsmerkursvæðið, með tilkomu göngubrúar yfir Markarfljót, kunni að leiða til þess að umferð breytist frá því sem nú er og álag á einstaka staði eða leiðir muni því aukast. Er á það bent að gróður í Þórsmörk og aðliggjandi svæðum og Fljótshlíðarafrétti sé viðkvæmur og ökuleiðir liggi að miklu leyti um uppgrætt land. Af þeim sökum telur stofnunin nauðsynlegt að í tengslum við brúargerðina verði gerðar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir gróðurspillingu vegna umferðar og ráðist í mótvægisaðgerðir til að koma í veg fyrir frekari gróðurskemmdir, t.d. af völdum utanvegaaksturs.
    Í umsögn Vegagerðarinnar er bent á að eigi að gera leiðina að væntanlegri göngubrú færa fólksbifreiðum þurfi að brúa Gilsá og e.t.v. nokkur minni vatnsföll. Reifar stofnunin nokkra þá kosti sem hún telur helst koma til greina við framkvæmdina en bendir jafnframt á að aðstæður hafi ekki verið skoðaðar og ekki lagt mat á fjölda vatnsfalla og umfang framkvæmdarinnar út frá þeim kostum. Þá kemur fram að lausleg skoðun hafi verið gerð á brúarkosti á móts við Húsadal og áætlaður kostnaður við akfæra brú fyrir léttari bíla sé um 95–100 millj. kr. og kostnaður við einbreiða timburbrú á Gilsá án varnargarða geti verið um 50–70 millj. kr.
    Nefndin ræddi málið á fundum sínum. Nefndarmenn eru einhuga um að brú sú sem tillagan gerir ráð fyrir að verði smíðuð sé líkleg til að hafa verulega jákvæð áhrif á öryggi ferðamanna sem ferðast um Þórsmerkursvæðið. Þá muni slík brú auðvelda aðgengi að svæðinu og að sama skapi jafna aðstöðu og tækifæri manna til að ferðast um svæðið. Að auki muni slík brú hafa í för með sér aukin tækifæri fyrir ferðaþjónustuaðila til þess að skipuleggja ferðir og það kunni mögulega að hafa í för með sér fjölgun starfa við ferðaþjónustu á Suðurlandi, bæði beint vegna aukinnar þjónustu við ferðamenn í Þórsmörk og óbeint vegna fjölgunar ferðamanna sem ferðast um Suðurland. Í ljósi athugasemda umsagnaraðila telur nefndin þó ekki verða hjá því komist að undirbúa brúargerðina vandlega enda er til fleiri atriða að líta en þeirra sem hér hafa verið talin upp. Er það því tillaga nefndarinnar að breyta orðalagi tillögugreinarinnar og árétta nauðsyn þess að undirbúningur smíði brúar yfir Markarfljót verði vandaður. Telur nefndin þannig að ekki verði hjá því komist að framkvæmt verði formlegt kostnaðarmat á framkvæmdinni og útbúin önnur undirbúningsgögn þannig að fyrir liggi atriði er varða m.a. aðkomu að brúnni og fyrirsjáanlegt viðhald hennar til framtíðar. Auk þess telur nefndin nauðsynlegt að við gerð fjárlaga næsta fjárlagaárs verði gert ráð fyrir fjárframlögum til brúarsmíðinnar og annarra þeirra verkefni sem smíði hennar kann að hafa í för með sér.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja undirbúning að smíði göngubrúar yfir Markarfljót við Húsadal.

    Árni Johnsen og Ólína Þorvarðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 10. maí 2011.Björn Valur Gíslason,


form., frsm.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.


Mörður Árnason.Róbert Marshall.


Árni Þór Sigurðsson.


Guðmundur Steingrímsson.Ásbjörn Óttarsson.