Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 681. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1394  —  681. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Albaníu og landbúnaðarsamnings milli Íslands og Lýðveldisins Albaníu.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hauk Ólafsson, Maríu Erlu Marelsdóttur og Ragnar G. Kristjánsson frá utanríkisráðuneytinu.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar tveggja samninga. Annars vegar er um að ræða fríverslunarsamning milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Albaníu sem undirritaður var 17. desember 2009 í Genf og hins vegar landbúnaðarsamning milli Íslands og Lýðveldisins Albaníu sem undirritaður var sama dag.
    Fríverslunarsamningurinn við Albaníu er af svokallaðri fyrstu kynslóð fríverslunarsamninga og nær yfir vöruviðskipti. Í samningnum eru jafnframt almenn ákvæði um vernd hugverka, fjárfestingar, þjónustuviðskipti og opinber innkaup.
    Landbúnaðarsamningurinn milli Íslands og Albaníu er viðbótarsamningur og gerður með vísan til fríverslunarsamninganna. Viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur falla undir landbúnaðarsamninginn, en í tilviki Albaníu veitast Íslandi sömu tollfríðindi og í samningi Albana við Evrópusambandið sem felur m.a. í sér að tollar á lifandi hrossum og ostum falla niður.
    Vöruútflutningur til Albaníu hefur verið mjög lítill undanfarin ár og telst aðeins í nokkrum milljónum króna. Með fríverslunarsamningnum fella EFTA-ríkin niður tolla af iðnaðarvörum og sjávarafurðum frá og með gildistöku samningsins. Af hálfu Albaníu falla tollar á nokkrum vöruflokkum niður í skrefum en Albanía fellir niður tolla á sjávarafurðum frá gildistöku samningsins.
    Fríverslunar- og landbúnaðarsamningarnir eru mikilvægir til að bæta aðgang fyrirtækja í EFTA-ríkjunum, þar á meðal íslenskra fyrirtækja, að mörkuðum Albaníu. Með samningunum verður dregið úr viðskiptahindrunum eða þær afnumdar og því mun samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja batna í Albaníu.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Björgvin G. Sigurðsson og Ólöf Nordal voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. maí 2011.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Birgitta Jónsdóttir.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.



Helgi Hjörvar.


Jón Gunnarsson.


Valgerður Bjarnadóttir.



Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.