Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 678. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Prentað upp.

Þskj. 1485  —  678. mál.
Undirskriftir.
Nefndarálitum till. til þál. um fullgildingu Árósasamnings um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.

Frá meiri hluta utanríkismálanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Tómas Heiðar frá utanríkisráðuneyti, Kristínu Rannveigu Snorradóttur og Sigríði Auði Arnardóttur frá umhverfisráðuneyti og Kristínu Haraldsdóttur frá lagadeild Háskólans í Reykjavík. Þá hafa borist umsagnir frá Orkustofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífsins.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á samningi um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum sem gerður var í Árósum 25. júní 1998 og hefur verið nefndur Árósasamningur. Í athugasemdum við tillöguna segir að Árósasamningurinn sé ný tegund samnings um umhverfismál sem tengi saman umhverfisrétt og mannréttindi. Samningurinn staðfestir að sjálfbærri þróun verður ekki náð án aðildar allra hagsmunaaðila og tengir saman ábyrgð stjórnvalda og umhverfisvernd.
    Markmið samningsins er sett fram í 1. gr. Samkvæmt því ákvæði skulu samningsaðilar ábyrgjast rétt til aðgangs að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgangs að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum í samræmi við ákvæði samningsins í því skyni að stuðla að verndun réttinda hvers einstaklings af núlifandi og komandi kynslóðum til að lifa í umhverfi sem er fullnægjandi fyrir heilsu og velferð hans. Árósasamningurinn veitir almenningi réttindi sem eru þríþætt og mynda þrjár stoðir samningsins. Fyrsta stoðin leggur samningsaðilum og stjórnvöldum skyldur á herðar varðandi aðgang almennings að upplýsingum um umhverfismál. Önnur stoðin skyldar aðildarríki til að tryggja almenningi þátttöku í ákvarðanatöku sem snertir umhverfið. Með þriðju stoðinni styður samningurinn framangreind réttindi með ákvæðum um aðgang að réttlátri málsmeðferð sem stuðla að auknu vægi samningsins.
    Nefndinni er kunnugt um að umhverfisnefnd hefur til meðferðar frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins og frumvarp til laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála til þess að Ísland geti staðið við þær skuldbindingar sem samningurinn leggur aðildarríkjum á herðar.
    Meiri hlutinn leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Björgvin G. Sigurðsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 18. maí 2011.Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Birgitta Jónsdóttir.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.Helgi Hjörvar.


Valgerður Bjarnadóttir.