Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 581. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1493  —  581. mál.
Nefndarálitum till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2010 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneyti og Auði Ýri Steinarsdóttur frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Nefndin óskaði álits viðskiptanefndar á tillögunni og er það birt sem fylgiskjal með nefndaráliti þessu.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2010, frá 30. apríl 2010, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/44/EB frá 6. maí 2009 um breytingu á tilskipun 98/26/EB um endanlegt uppgjör í greiðsluuppgjörskerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf og tilskipun 2002/47/EB um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir að því er varðar tengd kerfi og skuldaviðurkenningar. Sex mánaða frestur, samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 30. október 2010. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.
    Markmiðið með tilskipuninni er að breyta ákvæðum tveggja tilskipana vegna aukinna tenginga milli greiðslukerfa yfir landamæri. Breytingar hafa orðið því að áður voru kerfin meira og minna landsbundin og sjálfstæð.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og munu fyrirhuguð frumvörp efnahags- og viðskiptaráðherra um breytingu á lögum um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum, nr. 90/1999, og innanríkisráðherra um breytingu á lögum um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir, nr. 46/2005, fjalla um það efni. Að líkindum kemur fyrrnefnda frumvarpið til umfjöllunar í viðskiptanefnd en hið síðarnefnda í allsherjarnefnd.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Björgvin G. Sigurðsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 18. maí 2011.Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Valgerður Bjarnadóttir.


Birgitta Jónsdóttir.Bjarni Benediktsson.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


Helgi Hjörvar.Ólöf Nordal.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.


Fylgiskjal.Álit

um tillögur til þingsályktunar.

Frá viðskiptanefnd.    Utanríkismálanefnd óskaði eftir því með bréfi dags. 6. maí 2011 að viðskiptanefnd léti í té álit sitt á:
     a.      tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2010 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn (581. mál). Tilskipunin varðar endanlegt uppgjör í greiðslukerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf, og samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir að því er varðar tengd kerfi og skuldaviðurkenningar.
     b.      tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 35/2010 um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn (629. mál). Tilskipunin varðar setningu lögbanns til verndar hagsmunum neytenda.
     c.      tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2010 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (647. mál). Tilskipunin varðar takmörkun á áhættu fyrirtækja að því er varðar einn aðila og bætta áhættu- og krísustjórnun, sem og eflingu eftirlits og samvinnu eftirlitsaðila yfir landamæri.
    Nefndin gerir ekki athugasemd við það að stjórnskipulegum fyrirvara verði aflétt af umræddum ESB-gerðum.
    Margrét Tryggvadóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 12. maí 2011.

Álfheiður Ingadóttir,
form., frsm.
Magnús Orri Schram,
Ásbjörn Óttarsson,
Valgerður Bjarnadóttir,
Eygló Harðardóttir,
Björn Valur Gíslason,
Sigurður Kári Kristjánsson,
Skúli Helgason.