Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 578. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1494  —  578. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 56/2008 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfisvernd) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneyti og Sigurbjörgu Sæmundsdóttur frá umhverfisráðuneyti. Utanríkismálanefnd óskaði álits umhverfisnefndar á tillögunni og er það birt sem fylgiskjal með nefndaráliti þessu.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 56/2008, frá 25. apríl 2008, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 916/2007 frá 31. júlí 2007 um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2216/2004 um staðlað og varið skráakerfi samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB og ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 280/2004/EB. Sex mánaða frestur, samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 25. október 2008. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.
    Markmiðið með reglugerðinni er að gera tæknilega breytingu á kerfi fyrir skrá yfir losun gróðurhúsalofttegunda sem er hluti af svonefndu ETS-viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir.
    Innleiðing reglugerðarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og fjallar frumvarp umhverfisráðherra til laga um breytingu á lögum nr. 65/2007, um losun gróðurhúsalofttegunda, um efnið (710. mál, þskj. 1229). Frumvarpið er nú til umfjöllunar í umhverfisnefnd.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Björgvin G. Sigurðsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 18. maí 2011.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Valgerður Bjarnadóttir.


Birgitta Jónsdóttir.



Bjarni Benediktsson.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


Helgi Hjörvar.



Ólöf Nordal.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.


Fylgiskjal.



Álit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 56/2008 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur að beiðni utanríkismálanefndar, dags. 6. maí 2011, tekið til umfjöllunar tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 56/2008 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn (578. mál).
    Samkvæmt 21. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings eða breyting á honum kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Í þingsályktunartillögunni er fjallað um afléttingu stjórnskipulegs fyrirvara á reglugerð nr. 916/2007 um breytingar á viðskiptaskráningarkerfi fyrir losun gróðurhúsalofttegunda, ETS-kerfið. Er 587. mál beintengt 710. máli, sem nefndin hefur nú til efnislegrar meðferðar, en samkvæmt því verður fyrirkomulag ETS-kerfisins fært í fjórum skrefum nær því kerfi sem loftslagssamningur Sameinuðu þjóðanna kveður á um.
    Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar er ekki gert ráð fyrir að sérstakur kostnaður falli á ríkissjóð vegna þeirra breytingar á ETS-kerfinu sem eru til meðferðar í þessu máli. Ekki er heldur gert ráð fyrir stjórnsýslulegum afleiðingum þar sem Umhverfisstofnun fer áfram með framkvæmd kerfisins af hálfu Íslands samkvæmt lögum nr. 65/2007, um losun gróðurhúsalofttegunda. Nefndin leggur því til að þingsályktunartillagan verði samþykkt. Efnisleg umfjöllun um málið fer fram í tengslum við 710. mál um losun gróðurhúsalofttegunda, sem nú er til umfjöllunar í nefndinni.
    Kristján Þór Júlíusson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 17. maí 2011.

Mörður Árnason,
Ólína Þorvarðardóttir,
Birgir Ármannsson,
Björn Valur Gíslason,
Vigdís Hauksdóttir, með fyrirvara,
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,
Skúli Helgason,
Birgitta Jónsdóttir.