Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 620. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1495  —  620. mál.
Nefndarálitum till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 149/2009 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneyti og Sigurbjörgu Sæmundsdóttur frá umhverfisráðuneyti. Utanríkismálanefnd óskaði álits umhverfisnefndar á tillögunni og er álit nefndarinnar birt sem fylgiskjal með nefndaráliti þessu.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 149/2009, frá 4. desember 2009, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/81/EB frá 23. október 2001 um landsbundin efri mörk losunar fyrir tiltekin loftmengunarefni. Sex mánaða frestur, skv. EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 4. júní 2010. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.
    Markmið tilskipunarinnar er að loftmengun haldist innan marka. Í því skyni er losun loftmengandi efna sem falla undir gildissvið tilskipunarinnar takmörkuð.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og mun fyrirhugað frumvarp umhverfisráðherra um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum fjalla um það efni. Eftir framlagningu kemur frumvarpið að líkindum til umfjöllunar í umhverfisnefnd.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Björgvin G. Sigurðsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 18. maí 2011.Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Valgerður Bjarnadóttir.


Birgitta Jónsdóttir.Bjarni Benediktsson.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


Helgi Hjörvar.Ólöf Nordal.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Fylgiskjal.Álit


um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 149/2009 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

Frá umhverfisnefnd.    Nefndin hefur að beiðni utanríkismálanefndar, dags. 6. maí 2011, tekið til umfjöllunar tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 149/2009 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn (620. mál).
    Samkvæmt 21. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings eða breyting á honum kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Í þingsályktunartillögunni er fjallað um svokalla „þaktilskipun ESB“. Markmið tilskipunarinnar er að vernda umhverfið og heilsu manna gegn skaðlegum áhrifum súrrar ákomu, ofauðgunar jarðvegs og áhrifum ósons við yfirborð jarðar. Vegna tilskipunarinnar þurfa Íslendingar að takmarka losun á þeim efnum sem undir hana falla (brennisteinsdíoxíði, köfnunarefnisoxíði, rokgjörnum lífrænum efnasamböndum og ammoníaki). Þá er nauðsynlegt að breyta reglum um upplýsingaskyldu fyrirtækja sem þurfa að upplýsa um losun, losunarbókhald o.fl.
    Umhverfisráðherra hefur boðað frumvarp á næsta þingi vegna framangreindra breytinga og kemur það væntanlega til efnislegrar meðferðar í umhverfisnefnd. Ekki er gert ráð fyrir að lagabreytingar vegna málsins hafi í för með sér umtalsverðan kostnað né hafi stjórnsýslulegar afleiðingar hér á landi. Leggur nefndin því til að tillagan verði samþykkt, og hyggst fjalla ítarlega um efnisákvæði málsins þegar þau koma til hennar kasta.
    Kristján Þór Júlíusson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 17. maí 2011.

Mörður Árnason,
Ólína Þorvarðardóttir,
Birgir Ármannsson,
Björn Valur Gíslason,
Vigdís Hauksdóttir, með fyrirvara,
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,
Skúli Helgason,
Birgitta Jónsdóttir.