Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 403. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1544  —  403. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um orkuskipti í samgöngum.

Frá iðnaðarnefnd.



Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson og Erlu

Gestsdóttur frá iðnaðarráðuneytinu. Þá bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga hf., Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Byggðastofnun, Landsvirkjun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Neytendasamtökunum, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Orkustofnun, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Valorku ehf. og Vegagerðinni.
    Samkvæmt tillögunni felur Alþingi iðnaðarráðherra að vinna að því að minnka hlut jarðefnaeldsneytis í samgöngum með notkun endurnýjanlegra orkugjafa og orkusparnaði. Tillagan byggist m.a. á stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir að móta eigi heildstæða orkustefnu sem miði að því að endurnýjanlegir orkugjafar leysi innflutta orku af hólmi.
    Í tillögunni kemur einnig fram að stefnt skuli að orkuskiptum í samgöngum þar sem jarðefnaeldsneyti verði leyst að hólmi með innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum. Unnið verði að stefnumótun, markmiðasetningu og aðgerðaáætlun fyrir orkuskipti í samgöngum fram til 2020. Nefndin vill í þessu sambandi benda á að núverandi verkefnishópur skal skila tillögum fyrir 1. nóvember næstkomandi. Nefndin leggur því til þær breytingar að stefnumótun fyrir orkuskipti í samgöngum fram til 2020 skuli liggja fyrir 1. janúar 2012.
    Í athugasemdum umsagnaraðila kemur fram að flestir eru jákvæðir gagnvart tillögunni og styðja hana í megindráttum. Hins vegar er bent á nokkur atriði sem nefndin telur vert að skoða betur. Í tillögunni er lagt til að Ísland verði í forustu við notkun á endurnýjanlegri orku í samgöngum í heiminum. Nefndin telur nauðsynlegt að markmiðssetning sé skýr en að auki þurfi markmiðin að vera raunhæf og í samræmi við raunverulega getu stjórnvalda og almennings til að ná þeim. Leggur nefndin til breytingar á tillögunni þessu að lútandi. Nefndin bendir jafnframt á að þrátt fyrir að mikil þekking sé hér á landi á endurnýjanlegri orku þá sé sú þekking meiri erlendis. Því sé mikilvægt að auka alþjóðlegt samstarf til að nýta alla þá þekkingu sem er til staðar, hvort sem hún er hérlendis eða erlendis.
    Nefndin fjallaði um jafnræði landsmanna þegar kemur að umhverfisvænum ökutækjum. Bendir nefndin á að í tillögunni komi fram að m.a. þurfi að auðvelda aðgengi að almenningssamgöngum og fjölga hjólastígum til að stuðla að breyttri hegðun fólks. Auk þess er í tillögunni fjallað um skattalegar ívilnanir fyrir kaupendur ökutækja með enga skráða losun koltvísýrings og kaupendur ökutækja sem eingöngu geta notað endurnýjanlega orku. Ljóst er að við orkuskiptin verður nauðsynlegt að leggja áherslu á breytta hegðun fólks og hvetja almenning til nýta sér almenningssamgöngur. Að mati nefndarinnar er hins vegar mikilvægt að tekið sé tillit til mismunandi möguleika fólks til að nýta sér almenningssamgöngur eða kaupa sér bíla sem nýta endurnýjanlega orkugjafa. Á landsbyggðinni er staðan oft sú að þörf fólks fyrir notkun einkabílsins er meiri en þörf þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu þar sem almenningssamgöngur eru betri. Þar að auki eru ferðir á landsbyggðinni oft lengri og um verri vegi að fara en á höfuðborgarsvæðinu, og því þörf á öflugum stórum bílum. Leggur nefndin áherslu á að skattalegar ívilnanir skekki ekki búsetuskilyrði í landinu og jafnræði allra landsmanna verði ávallt haft í huga.
    Við umfjöllun nefndarinnar var rætt um framtíð Íslands í orkugjafamálum. Nefndin fagnar því að Ísland hafi verið leiðandi á sviði vetnisverkefna og rannsókna á vetni en bendir jafnframt á möguleika á sviði annarra endurnýjanlegra orkugjafa, t.d. notkun rafbíla, metaneldsneytis og lífdísilolíu Að mati nefndarinnar er nauðsynlegt að skoða notkun endurnýjanlegra orkugjafa með heildstæðum hætti og að orkustefna Íslands taki mið af þeim möguleikum sem til staðar eru hér á landi þar sem ljóst er að framleiðsla endurnýjanlegs eldsneytis hér á landi muni hafa í för með sér bætt lífsgæði, tækifæri til atvinnu- og nýsköpunar og gjaldeyrissparnað. Nefndin bendir hins vegar á að bílaframleiðendur og innflutningsaðilar hafi mikið að segja um það hvað sé í boði á markaðnum hverju sinni. Náið samstarf við þá er grundvöllur þess að vel takist til með orkuskipti í samgöngum. Með því að minnka notkun jarðefnaeldsneytis verður efnahagskerfið minna háð verðsveiflum á eldsneytismörkuðum erlendis.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.


Alþingi, 25. maí 2011.


Kristján L. Möller,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.



Margrét Tryggvadóttir,


með fyrirvara.


Gunnar Bragi Sveinsson.


Tryggvi Þór Herbertsson,


með fyrirvara.



Þráinn Bertelsson.


Magnús Orri Schram,


Jón Gunnarsson,


með fyrirvara.