Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 449. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1572  —  449. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um menntun og atvinnusköpun ungs fólks.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Arnór Guðmundsson og Þóri Ólafsson frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Önnu Maríu Gunnarsdóttur og Aðalheiði Steingrímsdóttur frá Félagi framhaldsskólakennara, Guðrúnu Eyjólfsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins, Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands, Ársæl Guðmundsson frá Iðnskólanum og Jón B. Stefánsson frá Tækniskólanum – skóla atvinnulífsins.
    Þá bárust umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Félagi framhaldsskólakennara, Félagi stjórnenda í framhaldsskólum, Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellssýslu, Iðnskólanum í Hafnarfirði, Sambandi íslenskra framhaldsskólanema, Samtökum atvinnulífsins og Tækniskólanum. Að auki óskaði nefndin eftir áliti félags- og tryggingamálanefndar um tillöguna.
    Með tillögunni er ætlunin að móta heildstæða aðgerðaáætlun sem hafi þann þríþætta tilgang að vinna bug á langtímaatvinnuleysi meðal ungs fólks, efla iðn- og tæknimenntun í samfélaginu og svara eftirspurn helstu vaxtargreina atvinnulífsins eftir vinnuafli með slíka menntun. Atvinnuleysi meðal ungs fólks á aldrinum 16–24 ára hefur mælst hátt á síðustu missirum og hefur stór hluti atvinnuleitenda á þessum aldri verið atvinnulaus í langan til tíma.
    Umsagnaraðilar eru að mestu jákvæðir í garð tillögunnar, styðja framgang hennar og benda á mikla þörf fyrir aukin námstækifæri fyrir ungt fólk. Í áliti félags- og tryggingamálanefndar er áréttað mikilvægi þess að auka virkni ungra atvinnuleitenda og koma í veg fyrir mikið brottfall nemenda úr framhaldsskólum. Í áliti nefndarinnar kemur einnig fram að mikilvægt er að efla iðn- og tæknimenntun í samfélaginu og svara með því eftirspurn helstu vaxtargreina atvinnulífsins eftir vinnuafli með slíka menntun. Nefndin tekur undir þessar ábendingar og leggur áherslu á mikilvægi þess að strax verði hafist handa við að móta aðgerðaáætlun og unnið áfram að því að fjölga atvinnutækifærum ungs fólks í helstu vaxtargreinum atvinnulífsins.
    Í umsögnum var að mestu tekið undir það sem fram kemur í greinargerð með tillögunni. Bent var á að á næstu árum verði að bregðast við þeirri mannaflaþörf sem atvinnulífið telur að verði innan iðn- og tæknigreina. Jafnframt kom fram að nauðsynlegt væri að nemendur öðluðust frekari færni m.a. með starfsþjálfun á vinnustöðum. Með þeim hætti væri unnt að virkja atvinnulífið, hugsanlega vekja áhuga nemenda á því að vinna í viðkomandi grein og ýta undir aukið sjálfstraust til frekara náms á sviðinu. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið og telur að slíkt fyrirkomulag mundi virka hvetjandi fyrir atvinnulaus ungmenni að hefja að nýju nám og auka á sama tíma líkur á betri stöðu á vinnumarkaði en það er þekkt staðreynd að ein árangursríkasta leiðin til að tryggja atvinnumöguleika til framtíðar er að bæta menntun þeirra einstaklinga sem í hlut eiga.
    Nefndin fjallaði nokkuð um átakið Nám er vinnandi vegur sem ríkisstjórnin hefur, í samráði við aðila vinnumarkaðarins, samþykkt að verja til 7 milljörðum kr. á næstu þremur árum. Átakið felur m.a. í sér að atvinnuleitendur verða hvattir til að sækja sér menntun í framhaldsskólum og munu framhaldsskólar haustið 2011 taka inn alla umsækjendur undir 25 ára aldri sem uppfylla skilyrði, ásamt eldri umsækjendum sem lokið hafa raunfærnimati vorið 2011. Einnig opnast nýir möguleikar fyrir atvinnuleitendur. Þeim sem uppfylla skilyrði gefst nú kostur á að stunda nám á haustönn án þess að greiða skólagjöld. Markmiðið er að veita 1.000 umsækjendum aðgang að framhaldsskólum, frumgreinadeildum, háskólum og framhaldsfræðslu með óskertum atvinnuleysisbótum í eina önn. Það verður einnig gert skólaárin 2012 og 2013. Með átakinu verður mun auðveldara en áður að komast í framhaldsskóla eftir námshlé. Stofnaður verður sérstakur þróunarsjóður til að efla starfstengt nám og samstarf skóla og fyrirtækja um starfstengt nám verður aukið. Vinnustaðanámssjóður verður settur á fót til að auðvelda nemendum í starfsnámi að ljúka hagnýtu námi með starfsþjálfun á vinnustað. Nefndin leggur áherslu á að samhliða þessari aðgerðaáætlun verði tryggt aðgengi framhaldsskólanemenda frá 16 ára aldri að vinnustaðanámi, sbr. 28. gr. laga nr. 92/ 2008.
    Nefndin telur að með átakinu Nám er vinnandi vegur sé að verulegu leyti komið til móts við það efni tillögunnar sem lýtur að því að fjölga námsúrræðum fyrir unga atvinnuleitendur. Eftir stendur að full þörf er á nánari samþættingu menntastefnu og atvinnustefnu stjórnvalda með sérstakri áherslu á eflingu starfsnáms í því skyni að fjölga atvinnutækifærum ungs fólks í helstu vaxtargreinum atvinnulífsins, svo sem hugverkaiðnaði og öðrum greinum þar sem mikil eftirspurn er eftir starfsfólki með iðn- og tæknimenntun. Leggur nefndin því til breytingar á texta tillögunnar þar að lútandi.
    Nefndin leggur einnig til þær breytingar að aðgerðaáætlunin verði einnig mótuð í samráði við iðnaðarráðuneytið og Samtök atvinnulífsins og stefnt verði að því að skila niðurstöðum fyrir 1. desember 2011.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Tillögugreinin orðist svo:
    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að hafa yfirumsjón með mótun aðgerðaáætlunar sem hafi þann tilgang að samþætta áherslur í menntastefnu og atvinnustefnu stjórnvalda með áherslu á að greina menntunarþörf atvinnulífsins, auka vægi starfsnáms í íslensku menntakerfi og þróa nýjar fjölbreyttar starfsnámsleiðir.
    Aðgerðaáætlunin verði mótuð í samráði við mennta- og menningarmálaráðuneyti, velferðarráðuneyti, iðnaðarráðuneyti, efnahags- og viðskiptaráðuneyti, samtök launafólks og
atvinnurekenda, háskóla, framhaldsskóla, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Landssamband æskulýðsfélaga og Vinnumálastofnun. Stefnt verði að því að skila niðurstöðum fyrir 1. desember 2011.

Alþingi, 26. maí 2011.



Skúli Helgason,


form., frsm.


Þuríður Backman.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.



Eygló Harðardóttir.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.


Oddný G. Harðardóttir.



Margrét Tryggvadóttir.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Íris Róbertsdóttir.

Fylgiskjal.


Álit


um till. til þál. um menntun og atvinnusköpun ungs fólks.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.



    Nefndin hefur að beiðni menntamálanefndar tekið til umfjöllunar tillögu til þingsályktunar um menntun og atvinnusköpun ungs fólks (449. mál). Nefndin beindi sjónum sínum einkum að þeim þáttum málsins sem heyra undir málefnasvið hennar og snúa að því að vinna bug á langtímaatvinnuleysi, svo og að atvinnusköpun og starfsþjálfun. Nefndin fékk á sinn fund Gissur Pétursson frá Vinnumálastofnun og kynnti sér að auki þær umsagnir sem borist hafa um málið. Umsagnaraðilar eru almennt jákvæðir í garð tillögunnar og styðja framgang hennar.
    Nefndin fagnar fram kominni tillögu. Það er mjög alvarlegt mál fyrir samfélagið allt hversu margir yfirgefa skólakerfið án framhaldsskólaprófs eða starfsréttinda. Mikilvægt er að kanna hvað veldur því að svo margir nemendur í íslenska skólakerfinu flosna upp úr námi og grípa verður til róttækra aðgerða til að koma í veg fyrir gríðarlegt brottfall nemenda sem hefur alvarleg áhrif á félagslega stöðu ungmenna og framtíð. Nefndin telur samhliða því mikilvægt að móta aðgerðaáætlun til að vinna bug á langtímaatvinnuleysi meðal ungs fólks, efla iðn- og tæknimenntun í samfélaginu og svara eftirspurn helstu vaxtargreina atvinnulífsins eftir vinnuafli með slíka menntun. Það er mikilvægt að veita öllum einstaklingum tækifæri til að þroska hæfileika sína og virkja starfskrafta sína sem jafnframt leiðir til aukinnar verðmætasköpunar í samfélaginu. Líkt og fram kemur í greinargerð með tillögunni hefur atvinnuleysi meðal ungs fólks á aldrinum 16–24 ára mælst hátt á síðustu missirum og stór hluti atvinnuleitenda á þessum aldri verið atvinnulausir til langs tíma. Nefndin áréttar mikilvægi þess að auka virkni ungra atvinnuleitenda enda brýnt að koma í veg fyrir þær alvarlegu afleiðingar sem atvinnuleysi getur haft á líf og heilsu ungs fólks. Stjórnvöld hafa þegar gripið til átaksverkefna í þessu skyni sem skilað hafa ágætum árangri og hefur nefndin kynnt sér þessi verkefni þegar til þeirra var stofnað sem og í tengslum við breytingar sem gerðar hafa verið á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, á yfirstandandi og síðustu löggjafarþingum.
    Nefndinni voru kynntar upplýsingar þess efnis að þegar væri unnið að verkefnum sem falla að efni tillögunnar og telur nefndin brýnt að sú vinna sem þegar er hafin og samræmist tillögunni verði nýtt og felld inn í aðgerðaáætlunina. Þó sé jafnframt mikilvægt að fyrirliggjandi þingsályktunartillaga sé samþykkt þrátt fyrir einstök verkefni sem þegar eru hafin enda kveður tillagan ekki á um einstakar aðgerðir heldur mótun heildstæðrar aðgerðaáætlunar sem feli í sér töluleg markmið um fækkun langtímaatvinnulausra á árunum 2011 og 2012.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 5. maí 2011.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, form.,
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
Pétur H. Blöndal,
Jónína Rós Guðmundsdóttir,
Guðmundur Steingrímsson,
Íris Róbertsdóttir.