Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 467. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1608  —  467. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um ferðamálaáætlun 2011–2020.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Helgu Haraldsdóttur og Sigríði Ólöfu Kristjánsdóttur frá iðnaðarráðuneytinu. Þá bárust umsagnir frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða, Bláskógabyggð, Byggðastofnun, Eyþingi, Ferðamálaráði Íslands, Ferðamálastofu, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Hagstofu Íslands, Hrunamannahreppi, Íslandsstofu, Landsvirkjun, Markaðsstofu Austurlands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Rannsóknamiðstöð ferðamála, Höfuðborgarstofu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar og Vegagerðinni.
    Tillögunni er ætlað að leysa af hólmi þingsályktun um ferðamál fyrir tímabilið 2006–2015. Í tillögunni er lögð áhersla á að auka arðsemi atvinnugreinarinnar, að standa að markvissri uppbyggingu áfangastaða, öflugri vöruþróun og kynningarstarfi til að skapa tækifæri til að lengja ferðamannatímabilið, minnka árstíðasveiflu og stuðla að betri dreifingu ferðamanna um landið, að auka gæði, fagmennsku, öryggi og umhverfisvitund ferðaþjónustunnar og að skilgreina og viðhalda sérstöðu Íslands sem áfangastaðar ferðamanna, m.a. með öflugu greiningar- og rannsóknarstarfi.

Innviðir og grunngerð.
    Nefndin fjallaði nokkuð um innviði og grunngerð íslenskrar ferðaþjónustu. Íslensk náttúra er mikilvægasta auðlind ferðaþjónustunnar og því nauðsynlegt að byggja upp áfangastaði með aðgengi í huga til að hægt sé að nýta viðkomandi auðlind á sjálfbæran hátt. Við umfjöllun nefndarinnar var bent á að í tillögunni er ekki fjallað um samgöngur sem þó eru nauðsynlegur hlekkur í að geta byggt upp innviði ferðaþjónustunnar og stuðlað að náttúruvernd og sjálfbærni í ferðamálum. Nefndin fékk þær upplýsingar að við gerð ferðamálaáætlunarinnar var einblínt á þau atriði sem eru innan valdsviðs iðnaðarráðuneytisins og ferðamálin því umfjöllunarefni áætlunarinnar. Nefndin bendir hins vegar á að samvinna við þá aðila sem hafa með samgöngumál að gera er grundvallaratriði þess að hægt sé að byggja upp framúrskarandi ferðaþjónustu og m.a. stuðla að því að ferðamenn heimsæki Ísland í auknum mæli að vetri til. Nefndin leggur því til breytingar á tillögunni þessu að lútandi.
    Nefndin ræddi um öryggismál og þá sérstaklega í tengslum við þær náttúruhamfarir sem hafa orðið undanfarin tvö ár. Er það skoðun nefndarinnar að í ferðamálaáætlun skuli kveðið á um öryggi ferðamanna og hvernig það sé best tryggt. Tengist það jafnframt aukinni áherslu á öruggar samgöngur og viðbragðsáætlanir vegna náttúruhamfara. Eftir eldgos í Eyjafjallajökli á síðasta ári var sett á fót viðbragðsteymi hjá forsætisráðuneytinu sem var kallað saman um leið og eldgos í Grímsvötnum hófst fyrr í þessum mánuði. Nefndin telur nauðsynlegt að ferðamálaáætlun sé jafnframt tengd ákveðinni viðbragðsáætlun vegna náttúruhamfara og leggur því til breytingar á tillögunni þannig að tengsl áætlunarinnar við samgöngur og öryggismál verði tryggð sem og að unnin verði viðbragðsáætlun vegna náttúruhamfara fyrir ferðaþjónustuna sem byggist á reynslu af þeim tveimur eldgosum sem valdið hafa talsverðum truflunum á flugi og öðrum samgöngum. Nefndin vill einnig leggja á það áherslu að við vinnu viðbragðsáætlunar verði hugað að því að ef flugsamgöngur stöðvast, þá skuli vera til varaáætlun sem kveði á um aðgerðir til að koma einstaklingum og nauðsynjavörum til og frá landinu. Nefndin bendir á að hægt væri að gera það með áætlun um auknar ferjusiglingar til og frá Seyðisfirði, í samvinnu við rekstraraðila Norrænu.

Kannanir, rannsóknir, spár.
    Í athugasemdum við tillöguna er áhersla lögð á samkeppnishæfi ferðamálaiðnaðarins hér á landi í alþjóðlegu samhengi. Til að tryggja að þróun ferðaþjónustunnar sé sambærileg við það sem best gerist annars staðar er nauðsynlegt að tryggja aðgengi að fjármagni og styrkja grunnþætti eins og tölulegar upplýsingar, kannanir, rannsóknir og spár.
    Nefndin áréttar að ferðamannaiðnaðurinn er ein mest gjaldeyrisskapandi atvinnugreinin á landinu auk þess sem gjaldeyristekjur vegna erlendra ferðamanna hafa stóraukist undanfarin ár. Sjálfstæðar kannanir og rannsóknir eru grundvöllur áframhaldandi þróunar ferðamannaiðnaðarins, m.a. á sviði vöruþróunar, nýsköpunar og markaðssetningar. Góð markaðssetning er jafnframt grundvöllur þess að vara seljist vel. Nefndin bendir á nauðsyn þess að árangur kynningarstarfs sé ávallt mælanlegur og greint verði hvaða tækifæri séu í boði og hvaða straumar og stefnur í ferðaþjónustu verði á komandi tímabilum.
    Í umsögn Hagstofu Íslands er tilkomu nýrrar ferðamálaáætlunar fagnað. Hagstofan bendir hins vegar á að samkvæmt lögum nr. 163/2007, um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð, sé það hlutverk stofnunarinnar að safna og birta ítarlegar upplýsingar um ferðaþjónustu hér á landi, framboð gistirýma og fjölda gestakoma og gistinátta eftir þjóðerni gesta. Í ferðamálaáætluninni er hins vegar gert ráð fyrir að Ferðamálastofa hafi frumkvæði að og beri ábyrgð á mótun stefnu varðandi framkvæmd og vinnslu kannana á sviði ferðamála. Nefndin lýsir yfir ánægju með þá afstöðu Hagstofu Íslands að opinber hagskýrslugerð í ferðaþjónustu skuli vera á þeirra ábyrgð. Bendir nefndin hins vegar á að ekki er gert ráð fyrir breytingum á því fyrirkomulagi sem nú er í gildi heldur er eingöngu verið að hnykkja á ábyrgð Ferðamálastofu á að tryggt sé að skýrslur séu gerðar. Til að leggja áherslu á hlutverk Ferðamálastofu og annarra opinberra aðila leggur nefndin til breytingar þannig að Ferðamálastofa hafi yfirsýn yfir skýrslugerð en Hagstofa Íslands beri ábyrgð á opinberri hagskýrslugerð í ferðaþjónustu samkvæmt þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem Íslendingar hafa á sviði hagskýrslugerðar í ferðaþjónustu. Nefndin áréttar að núverandi fyrirkomulag TSA-reikninga sé tryggt til framtíðar án sérstakra samninga og fjárframlaga þar um.

Vöruþróun og nýsköpun.
    Í ferðamálaáætluninni er lögð áhersla á þróun ferðaþjónustunnar á fjölbreyttum sviðum allt árið um kring. Niðurstöður þjóðfunda sem haldnir voru í öllum landshlutum á árinu 2010 sýna að utan höfuðborgarsvæðisins vilja landsmenn setja ferðaþjónustuna í efsta sæti varðandi þau tækifæri sem þjóðfundargestir um allt land sjá sem meginstyrk sinna svæða. Áframhaldandi þróun ferðaþjónustunnar er því augljóslega grundvallaratriði í Sóknaráætlun 20/20. Til að slík þróun sé möguleg er nauðsynlegt að greina sérstöðu hvers svæðis fyrir sig og kortleggja þá möguleika sem fyrir hendi eru. Nefndin fagnar þeirri uppbyggingu sem orðið hefur um allt land en bendir jafnframt á nauðsyn þess að betur verði unnið að nýtingu hennar. Til að stuðla að lengingu ferðamannatímabilsins er mikilvægt að íslensk ferðaþjónusta verði samkeppnishæf við erlenda. Til þess að hún geti keppt um hylli ferðamanna er þörf á mikilli nýsköpun og stuðningi við hana af hálfu hins opinbera. Nefndin beinir því til ráðuneytisins að tryggja að nauðsynlegur fjárhagslegur stuðningur verði tryggður við þau verkefni sem stuðla eiga að fjölgun vara og áfangastaða í ferðaþjónustu og að opinber ráðgjöf sé ávallt til staðar um allt land. Þessu tengt leggur nefndin einnig til breytingu á tillögunni um nauðsyn þess að lengja ferðamannatímabilið um land allt.

Markaðsmál.
    Nefndin fjallaði um markaðsmál og hvernig best er hægt að tryggja að fjármagn sem lagt er í vöruþróun og nýsköpun nýtist á sem skilvirkastan hátt. Til þess að markaðssetning nái tilætluðum árangri, þ.e. aukningu í ferðaútgjöldum innan lands samkvæmt ferðaþjónustureikningum, aukningu í gjaldeyristekjum af erlendum ferðamönnum, betri dreifingu gistinátta yfir árstíðir og landsvæði og fjölgun ársverka í ferðaþjónustu, þarf í ferðamálaáætluninni að setja mælanleg markmið og mælikvarða á árangur. Nefndin vill því leggja á það áherslu að næstu 3–5 ár verði árlega hvatt til sérstakra átaksverkefna í samvinnu við markaðsstofur, fyrirtæki og sveitarfélög til að vekja athygli á ferðamöguleikum innan lands utan háannatímanna. Einnig vill nefndin að hvatt verði til ferðalaga innan lands með almennri kynningu á því sem íslensk ferðaþjónusta hefur upp á að bjóða.
    Íslandsstofa mun gegna lykilhlutverki í samstarfi ferðamálayfirvalda en nefndin áréttar að til þess að hægt sé að ná tilætluðum árangri sé lykilatriði að fyrir liggi almenn stefna og áherslur hins opinbera í markaðssetningu ferðaþjónustunnar. Nefndin hvetur til þess að stofnað verði til samstarfs við markaðsstofur í hverjum landshluta fyrir sig vegna sérstakra kynningarverkefna í hverjum landshluta og bendir á þann möguleika að flétta þessar aðgerðir inn í samningsgerð Ferðamálastofu við markaðsstofurnar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 1. júní 2011.



Kristján L. Möller,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Þuríður Backman.



Magnús Orri Schram.


Tryggvi Þór Herbertsson.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.



Margrét Tryggvadóttir.


Jón Gunnarsson.


Gunnar Bragi Sveinsson.