Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 486. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Prentað upp.

Þskj. 1671  —  486. mál.
Leiðrétting.




Nefndarálit



um till. til þál. um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011–2014.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hermann Ingólfsson, Guðna Bragason og Önnu Katrínu Vilhjálmsdóttur frá utanríkisráðuneyti, Engilbert Guðmundsson og Hannes Hauksson frá Þróunarsamvinnustofnun Íslands, Ingu Dóru Pétursdóttur frá Landsnefnd UN Women á Íslandi, Kristján Sturluson frá Rauða krossinum, Petrínu Ásgeirsdóttur frá Barnaheillum, Bjarna Gíslason frá Hjálparstarfi kirkjunnar, Stefán Inga Stefánsson frá Landsnefnd UNICEF á Íslandi, Andrés Arnalds frá Landgræðslu ríkisins, Hafdísi Hönnu Ægisdóttur og Berglindi Orradóttur frá Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna og Ingvar Birgi Friðleifsson frá Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna.
    Umsagnir bárust nefndinni frá Bandalagi háskólamanna, Barnaheillum, Félagi Sameinuðu þjóðanna, Hjálparstarfi kirkjunnar, Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna, Landgræðslu ríkisins, Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna, Rauða krossi Íslands, Sambandi íslenskra kristniboðsfélaga, Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna, UN Women á Íslandi, UNICEF á Íslandi, Viðskiptaráði Íslands og Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Auk þess barst minnisblað frá utanríkisráðuneyti.
    Tillagan felur í sér áætlun stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands og er hér um að ræða fyrstu þingsályktunartillöguna á þessu sviði en ákvæði laga nr. 121/2008, um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands, kveða á um slíka áætlun. Áætlunin er kaflaskipt, og fjallar um skyldur Íslands í þróunarstarfi, þau gildi og áherslur sem liggja til grundvallar þróunarstarfi Íslands, framlög og framkvæmd eftir áherslusviðum, málaflokkum, samstarfsríkjum og stofnunum. Þá fjallar áætlunin um alþjóðlegt samstarf og viðmið í þróunarstarfi Íslands og stefnumörkun í innra sem ytra starfi á þessu málefnasviði. Í áætluninni er greint frá áformuðum framlögum til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu sem hlutfalli af vergum þjóðartekjum og hvernig þau skiptast á grundvelli stefnumiða Íslands í þróunarsamvinnu til lengri og skemmri tíma litið. Í áætluninni er að mati nefndarinnar sett fram heildstætt yfirlit yfir það hvernig stjórnvöld hyggjast ná settum markmiðum hennar.
    Nefndin fagnar fyrirliggjandi tillögu og þeim tímamótum sem hún markar. Þróunarsamvinnuáætlunin er sett fram á greinargóðan hátt og var hún unnin í nánu samstarfi við frjáls félagasamtök, stofnanir og fagaðila. Nefndin telur mikilvægt hve jákvæð ummæli um vinnubrögð og samstarf við gerð áætlunarinnar hafa komið fram í umsögnum sem borist hafa nefndinni um málið og í máli gesta sem komu fyrir nefndina.
    Nefndin tekur heils hugar undir markmið með alþjóðlegri þróunarsamvinnu eins og það er tilgreint í tillögunni um að Ísland leggi sitt lóð á vogarskálarnar fyrir bættum lífskjörum í fátækustu hlutum heimsins. Barátta gegn fátækt, félagslegu ranglæti, misskiptingu lífsgæða og hungri í heiminum eru forgangsmál í öllu þróunarstarfi.
    Nefndin leggur jafnframt þunga áherslu á mannréttindasjónarmið og jafnréttismál í þróunarsamvinnu Íslands. Leggja ber áherslu á að íslensk stjórnvöld beiti sér á virkan hátt fyrir þessum málum í öllu þróunarsamstarfi, hvort sem um er að ræða tvíhliða eða marghliða þróunarverkefni eða samstarf á vettvangi alþjóðlegra stofnana um þróunarmál. Kynjasjónarmið eru þverlæg í þróunarsamvinnuáætluninni og leggur nefndin áherslu á að við stefnumótun um þróunarmál á alþjóðlegum vettvangi tali íslensk stjórnvöld fyrir því að svo verði um alla þróunarsamvinnu sem þau eiga aðkomu að.
    Ísland hefur lengi stefnt að því markmiði Sameinuðu þjóðanna að iðnríki skuli veita 0,7% af vergum þjóðartekjum (VÞT) til þróunarsamvinnu. Nægir að vísa til ályktunar Alþingis frá 28. maí 1985 um að opinber framlög Íslands til uppbyggingar í þróunarríkjum yrði 0,7% af þjóðarframleiðslu innan sjö ára (þingmál 507, 107. löggjafarþingi). Þar sem stefnuyfirlýsingar stjórnvalda og Alþingis um að ná þessu markmiði hafa ekki gengið eftir telur nefndin mikilvægt að varða leiðina að markmiðinu sérstaklega. Hækkun framlaga um 0,01% af VÞT á ári frá 2011–2014 er tiltölulega lítil hækkun að mati nefndarinnar og kallar á nokkuð bratta hækkun næstu árin þar á eftir eigi Ísland að ná 0,7% markmiðinu árið 2021 eins og tillagan kveður á um.
    Umsagnaraðilar og gestir á fundum nefndarinnar lýstu áhyggjum af því hvort markmiðið um 0,7% af VÞT væri raunhæft í ljósi lítilla hækkana til ársins 2014. Nefndin leggur því til að leiðin að markinu verði betur vörðuð og því gerð raunhæfari, með því að kveðið verði á um jafnari hækkun framlaga til ársins 2014, þ.e. úr 0,21% árið 2012 og upp í 0,28% af VÞT árið 2014. Árið 2017 verði svo sett nýtt viðmið en þá skuli 0,5% af VÞT renna til þróunarmála. Þá verði kveðið á um að tryggt sé að framlög til þróunarmála verði aldrei lægri að raungildi en árið 2011. Að lokum leggur nefndin til að markmiðið um 0,7% af VÞT verði fært fram um tvö ár, eða fram til ársins 2019 í stað ársins 2021.
    Nefndin bendir á að á tímum mikils niðurskurðar í ríkisfjármálum hafa þjóðirnar sem Ísland ber sig saman við ekki skorið niður þróunaraðstoð. Má nefna að Norðurlöndin og Írar halda framlögum sínum jöfnum á meðan Bretar hafa ákveðið að auka sín framlög til þróunarmála sem hlutfall af VÞT. Þau grundvallarsjónarmið liggja þar að baki að það séu ríkir hagsmunir þróaðra ríkja að draga úr fátækt og misskiptingu auðs í heiminum, berjast gegn sjúkdómum og faröldrum sem víða eru landlægir í þróunarríkjum og auka menntunarstig með sérstakri áherslu á konur og börn. Framlög til þróunaraðstoðar og samvinnu er því um leið framlag til friðar og jöfnuðar um allan heim. Þessi viðhorf eiga Íslendingar hiklaust að styðja í verki.
    Nefndin lýsir ánægju sinni með þá nýbreytni að lagt sé til að sérstakur fjárlagaliður verði eftirleiðis helgaður samstarfi við frjáls félagasamtök. Má nefna að umsagnaraðilar og gestir hafa fagnað þessari breytingu sérstaklega.
    Þá fagnar nefndin áframhaldandi áherslu í áætluninni á þau svið þróunarmála þar sem Íslendingar hafa yfir sérþekkingu að búa, svo sem á sviði sjávarútvegs, fiskveiða, orkumála og byggðaþróunar. Á þeim sviðum hefur Ísland margt fram að færa og hefur raunar þegar náð miklum árangi í þróunarsamvinnulöndum okkar. Þær áherslur koma skýrt fram í verkefnum í samstarfsríkjum svo og í starfi deilda Háskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi.
    Háskóli Sameinuðu þjóðanna fær veglegan sess í Þróunarsamvinnuáætluninni. Þrjár deildir Háskóla Sameinuðu þjóðanna starfa á Íslandi: Jarðhitaskólinn frá og með árinu 1978, Sjávarútvegsskólinn frá og með árinu 1998 og Landgræðsluskólinn formlega frá og með árinu 2010. Við umfjöllun nefndarinnar var athygli vakin á því að huga þyrfti að jarðvegsverndarmálum, t.d. sem hluta af auðlindasviði, við framkvæmd Þróunarsamvinnuáætlunarinnar. Tekur nefndin undir þau sjónarmið, enda megi líta á jarðveg sem afar mikilvæga en takmarkaða auðlind. Þá leggur nefndin áherslu á að starfsemi deilda þessa skóla er meðal mikilvægustu framlaga Íslendinga til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu en frá árinu 1978 hafa hundruð erlendra sérfræðinga komið hingað til lands og hlotið menntun á viðkomandi sérsviðum. Utanríkismálanefnd telur brýnt að treysta starfsemi Háskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi. Jafnréttisskóli Háskóla Íslands hóf starfsemi sína í október 2009. Þar er einnig um að ræða afar mikilvægt starf en stefnt er að því að jafnréttisskólinn öðlist á næsta ári stöðu sem hluti af Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Nefndin telur brýnt að hvergi verði hvikað frá stuðningi við deildir Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal gera fyrirvara við álitið.

Alþingi, 7. júní 2011.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Valgerður Bjarnadóttir.


Bjarni Benediktsson,


með fyrirvara.



Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


Helgi Hjörvar.


Ólöf Nordal,


með fyrirvara.



Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Björgvin G. Sigurðsson.


Birgitta Jónsdóttir.