Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 678. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1674  —  678. mál.
Nefndarálitum till. til þál. um fullgildingu Árósasamnings um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.

Frá 1. minni hluta utanríkismálanefndar.    Fyrsti minni hluti utanríkismálanefndar fagnar því að gengið er til þess að fullgilda Árósasamninginn um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Samt sem áður gerir 1. minni hluti alvarlegar athugasemdir við þá leið sem valin hefur verið til innleiðingar á efnislegum atriðum samningsins hérlendis með fyrirhuguðum lagabreytingum, sbr. frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins og frumvarp til laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
    Fram kom á fundi utanríkismálanefndar að íslensk stjórnvöld hafa kosið að ganga mun lengra en samningurinn sjálfur kveður á um í að opna aðgang að málsmeðferð í umhverfismálum samkvæmt svokallaðri þriðju stoð samningsins. 1. minni hluti leggur áherslu á að ákvæði samningsins um þátttökuréttindi almennings í umhverfismálum eru almenns eðlis og veita aðildarríkjunum talsvert svigrúm við innleiðingu. Í frumvörpunum sem vísað er til hér að framan er gert ráð fyrir mjög rýmkuðum heimildum til þess að kæra matskenndar framkvæmdir án þess að kærandi hafi lögvarða hagsmuni í málunum. Á fundi nefndarinnar kom fram að auk Íslands hefur einungis eitt ríki, Portúgal, valið þessa útfærslu á samningnum og opnað aðild allra að stjórnsýslukærum án beinna hagsmuna þeirra af viðkomandi máli. Það er umhugsunarefni að á öðrum Norðurlöndum, þeim ríkjum sem við berum okkur alla jafna saman við, hefur þessi leið ekki verið valin. 1. minni hluti telur að auðveldlega megi misbeita þeim aukna aðgangi að stjórnsýslukærum sem fyrirhugaður er og gerir alvarlegan fyrirvara við þann hluta innleiðingar Árósasamningsins. 1. minni hluti hvetur til þess að þessi atriði verði endurskoðuð í meðferð á fyrrnefndum frumvörpum og lýsir andstöðu við frumvörpin eins og þau voru afgreidd úr umhverfisnefnd en ítrekar að öðru leyti stuðning sinn við að Árósasamningurinn verði fullgiltur.
    Fyrsti minni hluti leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.


Alþingi, 7. júní 2011.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.